Þjóðminjar

IMG_6752

Greint var frá því hér á síðunni, fyrir nokkrum árum, að Bakkabræður hefðu sett rörahlið á þjóðminjasafnið. Líklega til að halda sauðfé, sem nú er í tísku að kalla ágangsfé, í skefjum. Nokkrum mánuðum síðar baðst síðuhafi afsökunar á orðaleppum þar að lútandi og lofaði að hafa ekki fleiri orð um þær þjóðminjar sem vöktu athygli hans á atferli Bakkabræðra. Nú er samt svo komið að ég get ekki lengur orða bundist og verð að brjóta heit mitt um að hafa ekki fleiri orð um pípuhlið Bakkabræðra.

Það er ekki þannig að ég hafi ekki farið í mínar árlegu ferðir til að njósna um þá bræður, snúast í kringum einu fjósbaðstofu þjóðminjasafnsins, þó svo að ég hafi heitið að halda kjafti. þeim hef ég haldið til streitu á hverju ári enda er gamli torfbærinn á Galtastöðum fremri sá eini sem eftir stendur af dæmigerðu torbæjum á Héraði og sérstakur í safni þjóðminjasafnsins sem kotbær með baðstofu yfir fjósi.

Í gær fór ég mína árlegu ferð og vonaðist eftir að hitta á vinnumenn við bæinn, allt eins þá bræður sjálfa. Þegar ég kom að pípuhliðinu, sem er langan veg frá bænum, var strengdur í það spotti með hangandi skilti sem á stóð Vinnusvæði öll óviðkomandi umferð bönnuð. Mér kom til hugar þarna við skiltið að snúa við, en varð þá hugsað til bernsku minnar sem ekki hefði látið svona lítilræði standa í vegi.

Það oft var maður búin að vera staðinn að því að háma í sig rifsber eða annað góðgæti úr runnum í gamladaga að galandi húsmóðir, jafnvel vatnsglas, var engin fyrirstaða við að halda áfram að háma í sig góðgætið á meðan fært var, eða þar til sást til húsfreyjunnar með vatnsfötu. En þá var maður líka fljótur að láta sig hverfa eins og þrautreynd túnrolla. Þannig að láta rörhlið stoppa sig á gamalsaldri hefði verið heldur klént.

Ég losaði því bandið og keyrði á gamla sorry Cherokee frá því á síðustu öld heim að þessum 19. aldar bæ til að verða fyrir vonbrigðu. Því miður eru framkvæmdir Bakkabræðra aftarlega á merinni við Galtastaði fremri og lítil von til þess að ég komi til með að fá að skoða fjósbaðstofuna á minni ævi, þessa einstöku gersemi Þjóðminjasafns Íslands. En bílastæðin eru vegleg innan girðingar, enda ekki annað við hæfi í allri innviðauppbyggingunni á heimaslóðum skurðgröfunnar.

Síðuhafi hvetur alla, sem áhuga hafa á, að gera sér ferð út í Galtastaði fremri og láta ekki girt pípuhliðið standa í vegi. Svo þröngur er vegurinn að hliðinu að engin leið er að snúa þar við. Þannig að eina leiðin er að taka niður vinnusvæðisskiltið og keyra heim á bílastæðin til að snúa, nema þá bakka hálfann kílómetri yfir holt og blindhæðir, með tilheyrandi hálsríg.

Heima við Galtastaði má bregða sér út á bílastæðinu og kanna vegsummerki Bakkabræðra um leið skoða bæinn. Og ef einhver skildi koma og fjargviðrast yfir því að þjóðminjasafnið sé lokað, og öll óviðkomandi umferð bönnuð, má alltaf segja; ekkert mál og vertu svo ekki með neitt djöfulsins helvítis píp, snarst upp í bíl og spóla út fyrir pípuhlið.

 

IMG_6753

Dyrfjöllin njóta sín frá Galtastöðum fremri

 

IMG_6732

Bæjarhlaðið með stafna í austur

 

IMG_6728

Bakhliðin grasi vaxin með gömlu handverki

 

Austur-glugginn

Austurglugginn, heimsókninni til sönnunar

 

IMG_6730


Hamfaratrúboð kolefniskirkjunnar

Nú básúna fjölmiðlarnir sömu hamafarhlýnunar fréttirnar frá trúboði kolefniskirkjunnar og um mitt sumar í fyrra, -og árin þar áður. Enda ekki ólíklegt að hitinn verði ekki mikið hærri á árinu en um þetta leiti.

Ef gullfiskaminnið ræður við að rifja upp ár aftur í tímann þá voru nákvæmlega sömu fréttir í fyrra um þetta leiti, nema að þá var það ekki Ítalía, hamfarirnar voru í Bretlandi. Ég tók mig til þá og fylgdist með í beinni á Windy.com, enda í sumarfríi þá eins og núna.

Metin voru slegin víða um Bretland þó þau kæmust hvergi nærri þeim hitamælarnir á Windy. Skýringuna mátti svo finna hjá hjá Met Office þegar fréttirnar voru fluttar af medíunni, og þá hvers vegna hitinn hefði hvergi sést á Windy.

Á Vísi var vitnað í Penelope Endersby forstýru Met office „Þetta veðurfar er algjörlega fordæmalaust. Við höfum aldrei áður séð slíkar hitatölur í reiknilíkönum okkar“. Þar átti hún við að hitinn hefði í fyrsta skipti í sögunni farið yfir 40°C á Bretlandseyjum.

Til sönnunar voru staðirnir taldir upp þar sem hitametin voru sleginn. Mátti þar finna Heatrow flugvöll, herflugvellina Coningsby og Nrtholt; St James´s Park auk Kew Gardens sem er gamalt gróðurhús í London.

Sumarhitar við Miðjaraðarhaf 40-45°C er reyndar engin nýlunda. Sjálfur hef ég verið í 43°C við strönd Miðjarðarhafsins á Spáni um mitt sumar á síðustu öld án þess að það hafi þótt merkilegt. Sennilega hefði einhvertíma þótt merkilegt ef hitinn næði ekki einhverstaðar eitthvert sumarið í S. Evrópu slíkum hæðum.

Reyndar hef ég verið í Íslenskri sólstofu þar sem hitinn fór yfir 50°C. Ég hvet áhangendur hamfarahlýnunar til að fylgjast með Windy.com í beinni og hitamælinum heima hjá sér, tala nú ekki um ef hann er í gróðurhúsi eða sólstofu, því það er ekki alltaf bara Langtíburtukistan sem hitametin falla, þó svo að medíunni þyki það merkilegra.


mbl.is Heljarinnar hiti í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfur álfur

Það má alltaf gantast með álfa og áfatrú landans, en fólk skyldi fara hóflega í þannig spaug. Síðuhafi hefur stundum reynt að vera meiri maður, jafnvel fyndinn, með því að líkja sér við álf út úr hól, þegar hann hefur haft af litlu að státa.

Vinur minn vísindamaðurinn sagði mér eitt sinn að áfatrú landans hefði komið landsmönnum á þann stað lífsgæða sem þeir búa við í dag. Íslenskar mæður í myrkum torfbæjunum hefðu sagt börnum sínu álfasögur, -af höllum þeirra í hólum og upplýstum hýbýlum í klettaborgum.

Þetta hefði orðið til þess þegar börnin uxu úr grasi hefðu þau reynt að líkja eftir upplýstum hýbýlum álfanna. Undir þetta tekur Margrét á Öxnafelli í bók sinni Skyggna konan, en hún segir þar að álfar hafi orðið á undan mannfólkinu á landinu bláa til að virkja vatnsorkuna og raflýsa hýbýli sín.

Þó svo að álfatrúin sé talin barnaskapur, því feimnismál hjá fullorðnu fólki, þá er ég ekki frá því að hún komi aftur með aldrinum. Í vetur sá ég myndina Hálfur álfur um mann sem íhugaði að bæta nafninu Álfur við nafn sitt. Þetta er einhver besta mynd sem ég hef séð um ellina, -sannsöguleg og fjallar um síðustu daga fyrrum vitavarðahjóna á Sauðanesi við Siglufjörð.

Kvikmyndin hlaut dómnefndarverðlaun Skjalborgarhátíðar sem haldin var í Bíó Paradís haustið 2020. Að mati dómnefndar er “ … myndin sterk og heilsteypt saga, einlæg og tilgerðarlaus frásögn. Mynd sem hrífur mann með sér frá fyrstu mínútu og fær mann til að hlæja og gráta á víxl.”

Vitavörðurinn Trausti tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför. Á sama tíma hörfar Hulda inn í heim horfinna ljóða með aðstoð stækkunarglersins síns. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum. Í Hálfum Álfi er lífinu fagnað, þrátt fyrir þann veruleika sem bíður okkar allra.

Fólk skyldi ekki gera grín að þeim vísindum hugans, sem leiða til álfasagna. Fyrr en spurt hefur verið; -trúir þú á álfasögur - og þau vísindi sem eru afleiðingar þeirra.

Hér má sjá stiku úr Hálfum álf.


mbl.is Segir álfatrú hluta af þjóðarhjartanu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland úr NATO og herinn burt !

Hlýtur að teljast til hatursorðræðu eftir að dragdottningin í Davosdúkkulýsu dragtinni smurði kyssitauið í Vilníus til að gleðjast með stríðsglæpamönnum yfir inngöngu Svía í NATO.

Þar var leikarinn ástsæli ennig kjassaður vegna engrar ákvörðunar um framtíð Úkraínu, -annarrar en áframhaldandi stríðsrekstri m.a. í boði íslensku þjóðarinnar.

Fölsku tennurnar eru nú þegar farnar að glamra af spenningi í kaldastríðs kumlinu, eftir að 90% Íslendinga lýstu yfir einlægri ánægju með NATO.

Keflavíkur göngur heyra því sennilegast sögunni til og framvegis verði gleðigangan ein leifð á landinu bláa og hatursorðræðu haldið niðri með klasasprengjum.


mbl.is Framtíð Úkraínu liggur í NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta steypan fyrir sumarfrí

IMG_5740 (1)

Hann var tekinn snemma gærdagurinn. Her manns tíndi sér í steypu við nýja brú yfir Gilsá. Brúin er fyrir neðan Hjálpleysu, milli Sandfells og Hátúna-Hattar, -á fyrr um þjóðvegi eitt, nú þjóðvegi 96, eftir að númer eitt fór um Fagradal í neðra um firði.

Brúin er 55 m löng. Í brúargólfið fóru ekki nema 120 m3 af steypu, sem telst lítið í svona mannvirki, en þá verður að geta þess að annað eins hafði farið í forsteyptar einingar sem liggja ofan á stálbitum. Brúin er sem sagt blanda af stáli og steypu þar sem neðsti hluti burðarvirkisins er úr stáli.

Þar sem steypti hluti brúargólfsins er þunn steypuhula yfir steypustyrktarstál, þá var gríðarlegur sprettur að steypa brúna á milli kl 8:30 – 15:00. Í steypugenginu voru 22 úrvals starfsmenn MVA á Egilsstöðum, en MVA sá um brúargerðina fyrir Vegagerðina.

Það var einstök ánægja fyrir gamlan steypukall að vinna með ungu fólki, en á sumrin er margir starfsmenn ungir að árum, og reyndar er alltaf að verða auðveldara að fá ungt fólk til að starfa í steypu. Unga fólkið stendur sig með prýði þegar steypa er annars vegar.

Nú tekur annar taktur við en undanfarið hjá mér, því ég er kominn í sumarfrí fram yfir verslunarmannahelgi.

 

IMG_5741 (1)

Nýja brúin stendur talsvert hærra en sú gamla

 

IMG_5743 (1)

Steypan streymir

 

IMG_5750 (1)

Það er að ýmsu að huga í steypu

 

IMG_5742 (1)

Brúargólfið glattað og kústað

 

Steypa

Ungir kappar

 

IMG_5767 (1)

Lipurtá létt á fæti, ver steypuna með vaxi fyrir sól og þurrki

 

IMG_5765 (1)

Brúin er í Gilsárgiljum, á mörkum hinna gömlu hreppa, Valla og Skriðdals. Þar mun væntanlega verða hægt að sjá sögu steinasteyptra brúa á Íslandi, þrjár eru nú komnar yfir gilið

 

Ps. Fyrir nokkrum árum sá MVA um brúargerð á Berufjarðarleirunni, sú brú var annarrar gerðar og í hana fór mun meiri steypa. Hér á videoni fyrir neðan hægt að sjá hvernig brúarsteypuvinna er í reyndinni.


Lukkupotturinn

Í denn var oft rætt af ráðamönnum um sanngjarna skiptingu á þjóðarkökunnar. Nú er meira talað um kaupauka og hæfa fjárfesta, af hjörðinni við jötuna.

Why Iceland viðundrið, sem nú svífur nú um í svörtuloftum, var aðalhagfræðingur gamma þegar þeir skiptu með sér íbúðum þeirra óverðugu eftir hið svo kallaða hrun.

Það lotterí endaði svo í kviku og vænkaðist þá hagur aðalhagfræðingsins við þá jötu sem nú fer fyrir leifum helferðarhyskisins.

Þar var víst um engan kaupauka að ræða, allavega ekki í upphafi, -heldur lukkupott. Einhverra hluta vegna endaði skattalega afgjaldið að lokum – hljóðalaust – til þess opinbera sem leiðréttur launaskattur en ekki fjármagnstekjuskattur.

Nú er helst á fréttum að skilja að dregið hafi verið í lukkupottslotteríinu á Lindarhvoli og verður því fróðlegt að vita hvort aftur eigi eftir að hlaupa á snærið hjá skattayfirvöldum, -svo bæta megi í sjálftökuna á opinberu jötunni.

Annars er alls ekki ómögulegt að eitthvað vænkist hagur löglærðra, ef náhirðin, sem fékk að kaupauka í Íslandsbanka, fer í mál vegna sölunnar.

Þó svo hún hafi sjálf selt Íslandsbanka hlutinn, sem nú er verðlaus, -rétt á eftir með myljandi söluhagnað.

Það má jú alltaf reyna, miði er möguleiki, því lengi gefur lukkupotturinn af þjóðarkökunni.


Fasista fabrikkan

Eftir að fávisku fabrikkur ríkisins tók að sér barnauppeldi frá ómálga hefur fasista fabrikkunni fleytt fram. Vinnufélagi minn í steypunni segir stundum að þetta megi rekja til þess þegar leikvöllur varð að skóla og börn hættu að róla án leiðbeininga og fengu þess í stað tilsögn í takt.

Í mínu tilfelli tók fávisku fabrikkan við um 7 ára aldurinn, en þessi vinnufélagi minn slapp fyrir horn þar til hann varð 8 ára. Þetta kostaði mig lengri tíma í að átta mig á tilsögninni, og sat uppi með falsað fagbréf og meistarabréf úr Cocoa Puffs pakka til forsjár fyrir fasistana.

Vinnufélaginn hafði vit á því að hætta í skóla um leið og það var löglegt. Hann á flest sem hugurinn girnist, svo sem tvo góða bíla, einkaflugvél, einbýlishús og hjólhýsi til sumarferðalaga. Á meðan ég berst um í bökkum í blokk á eld gömlum Duster og Cherokee frá því á síðustu öld, of hjartveikur og illa fyrirkallaður til að geta tjaldað í sumarfríinu, -og telst gott ef ég næ að greiða síðustu afborgun af ævilöngu húsnæðisláninu áður en ég geispa golunni.

En það var nú ekki þetta sem ég ætlaði að barma mér yfir, heldur lýsa því hvernig fasista fabrikkunni hefur allstaðar fleytt fram á minni ævi. Byggingabransinn hefur t.d. verið fullkomlega fábjánavæddur og er allur kominn í gult. Lengi móaðist ég við í gráu  lopapeysunni minni, sem Matthildur mín prjónaði um árið, en mátti þá líka eiga á hættu að fá orðaleppa á við “ég vísa þér út af svæðinu”, eða “hér eru allir í gulum vestum með hjálm nema Magnús, hann er í steypu gráu lopapeysunni sinni”.

Það er orðið nokkur ár síðan að ég nennti ekki að hlusta á svona heilræði og svara blíðlega til baka, “veistu; -ég yrði bara feginn, það var ekki ég sem óskaði eftir því að vera hérna og það er aldrei að vita nema þetta sé í síðast skiptið sem ég vinn fyrir verklega vanvita”, nú orðið er ég kominn í appelsínugult eins og álfur út úr hól með sjálflýsandi sportröndum.

Við fengum mannauðsverkfræðing í fabrikkuna í fyrra sem hélt öllum mannskapnum, -sem telur tugi, -á tánum í tvo daga við að mála gular línur á gólfið, -til að ganga síðan eftir rétt eins og hauslausr hænur. Ég benti mannauðsverkfræðinginum vingjarnlega á, eftir fyrri daginn, að hann skildi reyna að fá aftur sölumannsstarfið hjá tryggingafélaginu, -þetta sem hann kulnaði í eins og kelling um árið, frekar en reyna að kenna iðnaðarmönnum að ganga um gólf sem hann þekkti ekki minnsta hót.

Þrjár vikur í byrjun sumars var ég sendur í fasistafabrikku fabrikkanna þar sem hjálmar, fallavarnir, eyrnatappar, öryggisgleraugu, aðgangspassar, rauðar og gular línur eru staðalbúnaður, -ásamt tveimur ungum vinnufélögum til að endurnýja gólf í eldhúsi sem eldar fyrir 7-800 manns. Þetta var þegar blíðan var hvað mest hérna austanlands og nýtt hlýindamet var sett á landinu bláa í júní.

Ég benti vanvitunum í fasista fabrikkunni á að þarna ætti framkvæma það sama og Albert Einstein hefði sagt að væri bilun, þ.e.a. gera sömu afglöpin aftur og búast við öðrum árangri en í þeim þrem skiptum sem þetta hefði áður verið reynt. Og vonaðist þannig til að verða vísað hjálmlausum út í sólina. En allt kom fyrir ekki við skyldum halda áfram með mistökin og horfa á einstaka sumardaga líða hjá fyrir utan gluggann.

Þarna þurfti logaleyfi til að skera nagla úr gólfi með slípirokk, merkjasprey leifi og nefndu það, allar áttu leyfisveitingarnar að taka sinn tíma eftir að lögð hefði verið inn gögn með umsókn. Fljótlega þurfti mann til að kjarnabora gat í snatri svo ég fór í lobbý fabrikkunnar og bað Securitas um gestapassa. Mér var bent á að senda tölvupóst með beiðninni, en ég sagðist ekki vera í þeirri deild ætti ekki einu sinni snjallsíma.

Þarna var aldeilis komið tækifæri til að siða til vitleysing. Securitas sagði mér að það tæki verktaka tvo sólahringa að fá starfsmann samþykktan inn í fasista fabirkkuna og þó svo að menn væru að reyna að fara fram hjá þeim reglum með gestapössum þá væri það ekki í boði.

Ég sagði að það væri allt í lagi þá fengi hann að éta samlokur þeim tveimur dögum lengur sem eldhúsið væri lokað umsóknarinnar vegna. – “Þa ba bara verið með hótanir hérna” – nei ég sagði að þetta væri ekki hótun heldur staðreynd. Starfsmaðurinn fékk gestapassa til að bora gatið nokkrum mínútum seinna.

Nú þegar gul vesti, appelsínugulir plasthjálmar, öryggisgleraugu og heyrnahlífar eru orðinn alþjóðlegur þjóðbúningur - tölvupóstar og fjarfundir í snjallsímum eru stöðluð mannleg samskipti, er varla nema von að stutt sé í að hungurvofan gægist út um hverja gátt.

Þegar blíðu dagar sumarsins eru notað til að steypa inni í eldhúsi sem bakar endalaus vandræði fyrir starfsfólkið sem þar vinnur, vegna afglapa þeirra sem aldrei vinna þar, þá koma heilræði Alberts Einsteins ítrekað upp í hugann.

Og varla er nema von að innfluttir krosslímdir gifshjallar séu orðnir myglaðri en moldarkofarnir voru sem þjóðin skreið út úr í árdaga síðustu aldar til að steypa hús hver fyrir sig.

Fasista fabrikkan er fyrir löngu komin á rautt þó svo hún flaggi röndóttum glóbalnum.


Skipulögð glæpastarfsemi

Það hefur verið hjákátlegt að fylgjast með fjörbrotum lýðveldisins. Hver ráðherrann og ríkisstofnana-stjórnandinn eftir annan flæmast undan ábyrgð. Í mesta lagi er viðurkennt að lögbrotin séu til þess að læra af þeim.

Það örlar samt á að neytendasamtökin viti hvað skipulögð glæpastarfsemi gengur út á, þegar hætt er viðskiptum við Íslandsbanka. Fara samt væntanlega í viðskipti til stofnunnar sem hefur upp á nákvæmlega sama siðferði að bjóða.

Þegar fjármálaeftirlit seðlabankans lætur fjármálastofnun greiða svimandi stjórnvaldssekt, þar að auki í eigu ríkisins, þá liggur í augum uppi hverjir blæða að endingu.

Það gera þegnar bananalýðveldisins í gegnum hærri vexti og gjöld, -svo lengi sem "ábyrgðin" getur á sig launum bætt.


mbl.is Hætta viðskiptum við Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónsmessudrafli

Sum íslensk orð vekja meiri forvitni en önnur, eru þá oft þess eðlis að ekki er auðvelt að átta sig á upprunalegri merking þeirra eða yfir hvað þau voru nákvæmlega notuð. Þrísamsetta orðið Jónsmessudrafli varð til þannig hugrenninga en á það rakst ég í þjóðsagnasafni Sigmundar Long, -sögn um Þorgrím póst frá 19. öld.

Hafði sagan að geima skýra frásögn um merkingu orðsins ásamt vísbendingu um hvers lags var en þó ekki hvernig. Læt ég hér fylgja eina sögu, þá sem hafði með Jónsmessudrafla að gera, og hvers ég varð áskynja við frekar eftirgrennslan. En í sögunum af Þorgrími póst kom fram að hann hefði verið mikill mathákur frá bernsku.

Það var gömul venja, að minnsta kosti sumstaðar á Íslandi, að á Jónsmessu, 24. júní, var suðamjólkin tekin, látin yfir eld og hleypt, síðan soðin með hægð, uns osturinn var orðinn rauðleitur og sætur. Ekki sá ég þetta gjört, þar sem ég var, nema einu sinni. Það var á Heykollsstöðum í Hróarstungu hjá Eiríki bónda Pálssyni og Helgu Arngrímsdóttur. Þá var ég á áttunda árinu (1849).

Þorgrímur hét maður, hann mun hafa verið Vopnfirðingur. Hann sagði frá því, að þegar hann var unglingur heima hjá móður sinni, var eldaður Jónsmessudrafli. Var það á sunnudegi og potturinn tekinn ofan og látin standa á eldhúsgólfinu, á meðan lesinn var húslesturinn.

“Mér leiddist lesturinn,” sagði Þorgrímur, “svo að ég laumaðist fram í eldhús og fékk mér sleikjukorn úr pottinum, þegar skammtað var, lauk ég því sem mér var gefið (af mat), og Manga systir gaf mér leifarnar sínar. En er frá leið þembdist ég upp með óþolandi kvölum og fannst ég ætla að springa.

Mamma vissi ekki hvað til bragðs skyldi taka, en svo hugkvæmdist henni ráð. Hún tók tvær rúmfjalir, lagði mig á aðra upp í rúm, en hina ofan á mig, brá utan um mig flatbandi, svo fjalirnar gengu ekki til, svo settist hún ofan á. Þá gekk bæði upp og niður hjá Þorgrími.” (þetta má lesa í Að Vestan II þjóoðsögur og sagnir, Sigmundar Matthíassonar Long, sem hann skrásetti í Vesturheimi, -úrdráttur úr” Þorgrímur Póstur” bls 161)

Drafli kk. -nn; drafla drafla·ábrystir; drafla·ostur; drafla·skyr; -samkvæmt Málið.is. – Jónsmessudrafli hefur tæplega verið ábrystir því þær hefði Sigmundur Long átt að vera vel kunnur enda algengur matur langt fram á 20. öldina, en hann segist aðeins einu sinni hafa séð Jónsmessudrafla gerðan.

Líklegra verður að teljast, samkvæmt sögunni af Þorgrími, að um sérstakan ost hafi verið að ræða, gerðan úr suðamjólk á Jónsmessu. Hversu uppþembdur Þorgrímur varð af Jónsmessudraflanum bendir heldur ekki til þess að hann hafi étið yfir sig af ábrystum, það er varla hægt.

Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er drafli, -a k, yst mjólk; rauðseyddur d. drafli soðinn, þar til hann fær rauðleitan blæ. Drafli er því talin hafa verið viss aðferð við ostagerð.

Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal: drafli k. yst mjólk, kornótt mjólkurhlaup; sbr. fær dralve (to. í finn. raupuli vont smjör). Sbr. gr. trophalís nýr ostur hlaupin mjólk, gála thrépsai hleypa mjólk, tyrón thrépasi búa til ost. Orðið er efalítið skylt draf, drafna, og drefjar og upphafleg merking orðstofnsins tekur bæði til þess að leysast upp í smámola og renna saman í kekki.

Á Síðunni Ferlir.is má lesa þetta um forna ostagerð:

„Ostar voru hversdags fæða í fornöld, og voru þeir gerðir í sérstökum mótum (ostakista), misjöfnum að stærð. Engum blandast hugur um, að forfeður vorir höfðu mikla ostagerð, en hitt vita menn eigi, hvernig osturinn var gerður. Hinn norski gerlafræðingur dr. 0. J. Olsen Sop hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Norðmenn og Íslendingar hafi einungis gert einskonar súrost í fornöld.

Hann telur líklegt, að mjólkinni hafi verið safnað í stór keröld; þar hafi hún súrnað, og við súrinn eða gerðina hafi mjólkin skilist þannig, að draflinn settist á botn kersins, smjörið eða rjóminn flaut ofan á, og drykkurinn var á millum laga. Nú vitum vér, að ostarnir voru gerðir í mótum, og er því líklegt, að rjóminn hafi verið veiddur ofan af drykknum, draflinn því næst verið veiddur upp úr honum og látinn í mót.

Af fornsögum vorum verður því miður ekki séð, hvernig ostar voru gerðir til forna, en allar líkur eru til þess, að vér höfum tekið ostagerðina í arf af Norðmönnum, og þess vegna hafi ostar hér á landi verið gerðir líkt og í Noregi. - Ferðasaga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ber það með sér, að ostagerð hér á landi hafi að mestu leyti verið fallin í gleymsku og þá um miðja átjándu öld. Þó er þess getið í ferðasögunni, að einstöku búkonur á Austurlandi geri allgóða osta, sem ekki eru seigir og harðir, eins og íslenzkir ostar séu venjulega.”

Það má vera nokkuð ljóst að Jónsmessudraflinn, sem Sigmundur M Long segir frá hefur verið gerður samkvæmt aðferð íslendinga við ostagerð sem að mestu hefur verið fallinn í gleymsku um miðja 18. öld, samkvæmt Ferðasögu Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.

Þegar ég fór að leita eftir hvort einhversstaðar væri nú á dögum gerður sauðaostur á Íslandi, þá uppgötvaði ég fljótlega að ekki þyrfti að leita langt því svoleiðis ostur væri gerður í Fljótsdal af þýskri konu, Ann-Marie Schlutz, sem rekur matarhandverksfjölskyldufyrirtæki er nefnist Sauðagull og er með lítinn sölugám við Hengifoss.

Síðastliðinn sunnudag brunuðum við Matthildur mín í Fljótsdalinn með það markmið að hitta á Ann-Marie við Hengifoss og kaupa sauðaost og ég að forvitnast um hvort hann væri gerður eins og Jónsmessudrafli með því að sjóða við hægan eld, eða með því að láta mjólkina súrna og skilja sig.

Við hittum á Ann-Marie, en hún hafði engan suðaost á boðstólnum þá stundina. Eftir nokkrar samræður kom fram hjá henni að vinnsluaðferðin á sauðaostinum hennar var ekki sú sama og á Jónsmessudrafla sem soðin var við hægan hita. Hún undraðist ekki hvernig Þorgrímur Vopnfirðingur blés út þegar hann stalst í draflann. Maginn blési út við heita suðamjólk svo varasamt gæti verið.

Eftir að hafa rætt við Ann-Maríe og orðið nokkuð vísari um Jónsmessudrafla fengum við okkur ís sem hún gerir úr sauðamjólk, hreint út sagt lostæti, minn var með frískandi rabbabarabragði og fór svona líka ljómandi vel í maga. Engin sem er á ferð við Hengifossi í Íslenska sumrinu ætti að sleppa tækifærinu á að bragða ís úr sauðamjólk.


Kjaftæði

Munurinn á orðræðu Kristjáns Loftssonar fostjóra Hvals og fræðinga Matvælastofnunnar, sem komust að því að veiðar hvala væru óásættanlegar út frá dýrvelferðarsjónarmiðum, er sá að á meðan Kristján talar kjarnyrta íslensku þá fer stofnunin með orðskrúð umvafið fáfræði fræðimennskunnar, -svo kallað kjaftæði.

Þarna fer sama stofnun fram og lét slátra 1400 kindum í Miðfirði rétt fyrir sauðburð í vor, og bar fyrir sig dýravelferð í öllum æðibunuganginum. Seinna kom í ljós að engin kind var sýkt á öðrum bænum, sem slátrað var á, og ein á hinum.

það er einsdæmi á Íslandi, og sennilega um víða veröld, að annað eins níðingsverk hafi verið framið með velferð dýra að yfirskini. Starfsfólk þessarar stofnunnar  hefur komist upp með að skíta upp á bak aftur og aftur í gegnum árin án þess að hafa verið látið axla nokkra ábyrgð.


mbl.is Hvetur Kristján til að birta nýjar upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband