Stríðið gegn fíflunum

Nú stendur baráttan hvað hæðst gegn því sem fólki hefur verið innrætt að sé illgresi jarðar. Allt til hausts munu heilu vélaherdeildirnar verða sendar út á vígvöllinn. Árangurinn lætur ekki á sér standa, eða þannig, því fíflunum mun einungis fjölga eftir því sem harðar er að þeim sótt, spretta galvaskir upp á ný strax næsta dag, þó svo þeir hreyki sér kannski ekki jafn hátt og í upphafi.

Leitun er að eitri sem er eins auðvelt að nálgast og fíflaeyði, en eins og margir vita sem hafa reynt þann metal er hann því sem næst gagnslaus. Einn sólríkan góðviðris morgunn þegar ég heimsótti kunningja kom ég að honum bálsteyttum út á lóð með heljarinnar stungu vopn sem hann hafði keypt í byggingavöruverslun, og kallaði fíflabana. Þetta vopn hafði hann fengið eftir að hafa keypt eitur af þeim í gallonavís án árangurs.

Þessi kunningi minn hóf vopnið á loft hvað eftir annað þarna í morgunnsárið með miklum formælingum, og keyrði það ofan í svörðinn ásamt brosandi fíflum á sólbrunninni grasflötinni í kringum húsið og sagði að eina ráðið til að drepa þessi kvikindi væri að komast fyrir ræturnar. Ég stillti mig um að minnast á að þær gætu verið allt að metir á dýpt og væru sennilega það eina sem væri fært um að draga raka og næringu svo djúpt að yfirborði jarðar.

Fyrir stuttu setti ég status á fésbókina um að það væri orðið fíflalegt á Egilsstöðum með myndum af fjölda fífla í brakandi blíðunni. Það stóð ekki á viðbrögðum og einhverjum varð hvorki um sel né til setunnar boðið með að líta í eigin barm þegar fíflunum fjölgaði svona í kringum þá, og mátti jafnvel skilja sem svo að nú yrði að taka á þeim, en flestum fannst þeir samt svolítið fallegir.

Undanfarin ár hef ég ekki nennt að gera nokkurn skapaðan hlut í fíflunum eða öðru illgresi, nema þá að éta þá eins og ég hef oft getið um hér á síðunni. Niður við Sólhólinn úti við ysta haf er garður sem er allur í órækt. Illgresið fær að hafa það eins og því sýnist, í mesta lagi að ég kippi upp einum og einum fífli og éti hann, eða njólavendi til að setja í súpupottinn.

Á síðasta ári bað kunningjafólk mig um að leifa sér að gista í Sólhólnum, en hann hafði verið í eigu þeirra fjölskyldu í áratugi áður en hann lenti í okkar Matthildar minnar umsjá. Ég sagði þessum kunningja að því þyrði ég varla, m.a. vegna þess að garðurinn, sem svilkona hans hafði lagt mikla alúð við, væri allur kominn í órækt. Þar hefði ekki verið gert ærlegt handtak síðan þau fóru.

Hann sagði það gerði ekkert til því að svilkona hans hefði skipulagt garðinn þannig að hann mætti vera í órækt. Þá rann upp fyrir mér hvers vegna ég hafði ekki haft brjóst í mér til að farga fíflum og öðru illgresi. Þessi í stað hafði verið byggður sólpallur yfir herlegheitin með svífandi göngustíg út á, og í mesta lagi verið ruddur þröngur stígur niður að hleinunum fyrir neðan kot.

Það er því orðið nokkuð síðan að ég uppgötvaði hve tilgangslaust stríð gegn fíflum er, eina vitið fyrir þá tapsáru er að hugga sig við enska spakmælið “if you can´t beat them, join them”, eða þá eins og er svo inn að segja á íslensku í dag, -bara að njóta.

IMG_5668 (1)

 Svona var miðbærinn á Egilsstöðum snemma í júní þegar mér þótti ástæða til að birta fíflalega fésbókar statusinn

 

IMG_6284

Hér er búið að slá og allt annað að sjá, engin órækt lengur og umhverfislistaverkið visitegilsstadir.is fær athyglina óskipta

 

IMG_6296

Hér hefur verið lögð ómæld sumarvinna unglinga árum saman í að hafa innkeyrsluna í Fellabæinn ræktarlega, hannað og útpælt undir eftirliti umhverfis sviðsstjóra og alles

 

IMG_6295

Í hinum vegkantinum við innkomuna í Fellabæ er óræktin villt án þess að nokkuð sé að gert og við blasir lúpínan, -óvinur þjóðarinnar no 1

 

IMG_6310

Vegagerðin lagði af að eitra vegkantana með Roundup fyrir nokkrum árum, en hefur fengið  kantsláttuvél á skurðgröfu sem silast um þjóðveginn við að slá óræktina svo langt sem hún nær, svo óskapnaðurinn blasi ekki við vegfarendum

 

IMG_5660 (1)

Bölti, eða hljóðmön, sem ekki hefur gefist tími til að slá, og ekki leynir sér að fíflarnir hafa náð laumað sér í grasið. Vanalega er þessi bölti eins og vera ber,-snöggrúin rolla sem skjögrar til fjalls að vori, eða vel reyttur kjúklingur

 

IMG_4763 (1)

Sama hljóðmön seint í fyrra sumar, og sama hirðuleysið með sláttinn. Vallhumall búin að gera hann kríthvítan eins og fuglabjarg. Gott ef það vottaði ekki fyrir blágresi þegar ekki tókst að slá nógu staðfastlega í júlí á eftir fíflatímabilinu í júní 

 

IMG_4094

Húsmóðirin á það til að bregða sér út í óræktina við Sólhól og tína fífla, sóleyjar og aðra órækt saman í vönd, -á meðan ég er meira fyrir að tína illgresið upp í mig

 

IMG_9016

Leynilegur getur hann verið krákustígurinn í gegnum óræktina að hleinunum neðan við kot


Nýtt tungl

Núna þann 18. júní kl 04:37, kviknaði nýtt tungl í norð-austri, s.l 30 daga var suð-vestur tungl. Var einmuna blíða á norðaustur -og austurlandi mest allt það tungl og er enn. Veðurspáin gerir næstu daga ráð fyrir veðrabrigðum. Það dragi úr sól og blíðu fyrir norðan og austan, -fari fljótlega að rigna.

Rigningin er kærkomin því að allt er að skrælna hér á Héraði eftir heita daga og oft vindasama. Varla hefur komið dropi úr lofti svo heitið getur í heilan mánuð sem oft hefur verið mistrað af mold öræfanna. Hitinn síðustu tvo daga hefur farið yfir 26-27 gráður.

Án þess að ég hafi haldið yfir það bókhald þá gætu verið komnir 10-15 dagar, það sem af er sumri, sem hitinn hefur náð yfir 20 gráður á Héraði. Ef bjartir og hlýir dagar eru 20-30 á sumri má segja sem svo að íslenska sumarið hafi verið ásættanlegt, svona eitthvað á við þriggja vikna sólarlandaferð.

Í hvaða átt nýtt tungl kviknar ræður miklu um veður samkvæmt þjóðtrúnni. Hvort nóg er nú komið af góðum sumardögum er ekki gott í að spá, jafnvel fyrir karlinn í tunglinu, því vísindi tunglsins eru dularfull, bæði við fullt tungl og kvartilaskipti. Eins ræður tímasetning stærstu strauma flóðs og fjöru við tungl nokkru.

Á morgunn 19. júní hefst hinn forni Sólmánuður og sumarsólstöður eru þann 21. júní. Þann 13. júlí hefjast hundadagar sem má segja að þjóðtrúin segi að næstir ráði afdráttarlaust veðri. Eiga næstu 40 dagar eftir fyrsta hundadag að verða þeim fyrsta líkir samkvæmt þeirri speki.

Einhverjir kynnu að álykta sem svo að orðið hundadagar sé komið af Jörundi hundadagakonungi. Hundadagar eru mun eldri, ættaðir úr Rómarveldi eða jafnvel alla leið úr stjörnuspeki Grikkja, og orðið var haft yfir þá daga sumarsins sem voru einsleitir molludagar á norðurhveli jarðar, þegar átök hita og kulda voru í lágmarki.

Spáið í tunglið lesendur góðir því veðurfræðingar eiga enn í dag til að ljúga, þó svo að spálíkön gervigreindra langtímaspánna taki nú orðið sífellt meira mark á gamalli speki karlsins í tunglinu.

Eitthvað dylst þar austur frá

undir háum tindum,

er skúrumþrungin skyggja á

ský í norðanvindum,

-sértu þar og sértu þar

að senda geisla nýja,

-tunglið mitt og tunglið mitt,

taktu mig upp til skýja.   (Jón Þorleifsson 1825–1860)


Heillin mín

Mér finnst að ég hafi talað tæpitungulaust hér á síðunni undanfarið, þó svo að ég hafi hvorki flokkað það hægri né vinstri.

Mér leiðist heldur að flokka fólk, og forðast að nefna nöfn þegar ég fer með skæting, þó svo kannski megi skilja við hvað og hverja er átt.

Flokkspólitíkin er ónýt á landinu bláa. Skoðanir fólks koma nú úr þeirri tunnu sem hæðst glymur rétttrúnaðar síbyljunni.

Heilindi og þjóðerniskennd hefur alltaf verið eitthvað jákvætt í mínum huga, en á samt ekkert skylt við þá þjóðernisverkfræði sem fór hamförum í Evrópu á síðustu öld.

Þar var andhverfu þjóðerniskenndar beitt með blekkingum, enda vita það allir sem sjá nefi sínu lengra að það voru ekki nasistar sem töpuðu stríðinu, heldur þjóðverjar.

ESB og þar með EES fjórfrelsis þjóðhelsis samningurinn er afsprengi hugmyndafræði nasismans, -Þjóðernisverkfræði sem kemur óorði á þjóðerniskennd og gömul gildi.

Nasistar komu einnig óorði á heilindi, -meir að segja á orðið heill með kveðju sinni.

Ár var alda

Frá órofa alda

Að ferðast um tímann

er líkt bylgju sem brotnar

við brimsorfna strönd

Við aldanna nið

verður hugurinn heill

og samsamar sig briminu

í samfellu tímans

Vertu því heill,

- heillin mín - eins og amma sagði.


Landráðaliðið

Landsmenn fljóta nú að feigðarósi með augun, vatnsblá glær og galtóm límd við snjall skjáinn. Sjónlausir á það hvað missir fullveldis kostaði í 7-800 ár með öllum sínum hörmungum. Gullaldir þessarar þjóðar hafa verið tvær í þessu landi og báðar með fullveldi.

Og nú er svo komið að fjárplógsfólk ræður allri umræðu og er langt komið með að skipta um þjóð í landinu. Mikið af nýju þjóðinni þekkir ekkert annað en júníonið og svo að búa við velmegnum á Íslandi, en það tvennt á enga samleið eins og sagan sannar.

Þetta vita þeir sem aldir eru upp á Íslandssögunni og eru færir um að halda henni til haga, en ekki bara því sem við blasir hverju sinni á skjánum. Erlend öfl hafa aldrei náð völdum á Íslandi öðruvísi en með landráðum innanlands.

Stjórnvöld sem byggja allt sitt á fölskum forsendum, lygum og blekkingum, eru verri en engin. En alltaf virðist vera hægt að sannfæra almenning um að á því sé eitthvað að græða.


Öfugmæli - eða hvað?

Það á skilyrðislaust að setja þak á verðtryggingu lána þegar verðbólgan fer langt yfir verðbólgumarkmið stjórnvalda.

Ef verðtrygging á einhvertíma rétt á sér, þá er það til að verðtryggja launatekjur almennings á meðan verðbólguskot gengur yfir, ef það væri gert hyrfi verðbólgan á stuttum tíma.

Bankar og auðrónar yrðu að minka hagnað og arðgreiðslur þar til verðbólgan gengi niður og það opinbera halda aftur af sjálfvirkri sjálftöku.

Ekkert af þessu hefur verið upp á borðum. Kjarasamningar launfólks setja engar skorður við sjálfvirkar hækkanir, sem taka mið af óðaverðbólgu keyrðri áfram m.a. af vísistölu ofurvaxtaðs húsnæðisliðs.

Auðrónar, bankar, ríki og sveitafélög hafa engan hvata til að koma móts við það fólk í landinu sem dregur vagninn, -eins og staðan er í dag. Stunda því sjálftöku og græða eftir sem áður þrátt fyrir verðbólguna - og kalla það þá hagvöxt.


Nýja þjóðin, unga fólkið og græðgin

Þegar við, sem fengum þetta land í arf, virðumst ætla að láta glóbalska auðróna hafa það af okkur átölulaust, og höldum að það sé sjálfsagt – gæskunnar vegna að þegja.

Er rétt að minnast á það hvað íslenskir auðrónar ganga langt í að skipta um þjóð í landinu við að afla sér ódýrara vinnuafls bæði til að hirða mismun, -og síðar ef vinnuaflið sest að, -snuða það í gegnum þakið yfir höfuðið.

þar sem skipulega er verið að gera út á Ísland sem eitt dýrasta land í heimi með því að flytja inn fólk og hirða mismun af okri og lágum tilkostnaði í launum.

Rétt eins og unga fólkið okkar þá hafa nýbúar ekki hugmyndaflug til að átta sig á hverskonar græðgi býr að baki t.d. í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Hvað þá að viðbættri fádæma  illskunni þegar kemur að þakinu yfir höfuðið, -sú er slík að vandfundin er í hinum siðmenntaða heimi.

Við þetta bætist svo flóttamannaiðnaður góða fólksins og stjórnvalda, sem hefur orðið til þess að ný met eru slegin hvert af öðru í aðflutningi erlends umkomulauss fólks til landsins, ár eftir ár, -auk allra túristanna. 

Snjalla fólkið hefur síðan sankað að sér -nokkurskonar ávöxtunar sparibaukum í verðbólgunni- mun fleiri íbúðum en það kemst nokkurn tíma yfir að búa í yfir alla ævina, -til að leigja út á okurverði.

Í vetur bárust svo fádæma fréttir af því þegar ríkisstofnun yfirbauð leigu fyrir hönd ríkisins þar sem landar okkar með lítið á milli handanna hafa undanfarin ár fengið húsaskjól á viðráðanlegu verði.

Hvað langt munu íslensk stjórnvöld vera tilbúin til að ganga með auðrónum, stríðsherrum og glóbalistum í svokallaðri góðmennsku sinni? -og hvað ætlum við að láta þetta lið teyma okkur langt? 


Gervigreind - flokkað sorp

Það er búið að að fábjánavæða glóbalinn með trú á ritrýnda tölfræði – fengna úr spálíkönum – smart dýrkun og að flokka sorp ofan í sömu sömu holu.

Þegar sýndarveruleikinn og gervigreindin bætist svo ofaná allt saman – frá þeim sem hæðst gala, -er ekki von á góðu.

Þar sem lífsreynsla – skilningur og raunveruleg kunnátta í lífsins gildum eru látin sigla sinn sjó, -nálgumst við veruleika þar sem hver verður sjálfum sér næstur.

Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar fólk kaupir óskapnaðinn með þögninni, -kyngjandi honum með kolefnisjafningi og carbfix, -sættandi sig við snuðið.


Klakinn

það er ekkert nýtt undir sólinni hvað vextina varðar og það þarf ekki að efast um að aðferðafræði Seðlabankans gefur sömu niðurstöðu og síðast, -og þar áður. Niðurstaðan er hvorki heimska né mistök í efnahagstjórn, heldur hrein græðgi og illska.

Hvorki er hægt að ætla ungu fólki né erlendu, að gera sér grein fyrir þeirri illsku sem liggur að baki þeirra klækjabragða sem síendurtekin eru við að gera heimili fólks að féþúfu, -og fara síversnandi. Eini möguleiki margra er að hrekjast í verðtygginguna, -eða þá á götuna.

Og ekki má gleyma því að Seðlabankinn var skilvirkasta peningaþvottastöð veraldar á síðasta áratug, og núverandi seðlabankastjóri var efnahagsráðgjafi gamma, þeirra sem hefur verið farið með eins og mannsmorð á hvað fengu íbúðasafn opinberra sjóða, -eignir hirtar af fólki í hinu svokallaða hruni.

Aflands ránsfengurinn, eftir að bankar voru tæmdir innanfrá, var síðan fluttur til landsins bláa á yfirgengi í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og notaður til að kaupa upp eignir m.a. þær sem fjölskyldur höfðu misst, -engin fær að vita á hvað.

Svo var blásið til fasteignaverðbólu, -og nú eiga þeir, sem keyptu sitt fyrsta þak yfir höfuðið á háa verðinu, að blæða í eitt skiptið enn. Þetta er ekki efnahagstjórn fyrir fimm aura, þetta kallast á mannamáli græðgi og illska.

Guð blessi Ísland.


Hleinarnar neðan við kot

Nú væru dagarnir ljúfir hérna fyrir austan mána í sunnan sól ef ekki væri fyrir steypuna og stautið, -ekki einu sinni Tene gæti freistað.

Ég hef stundum sagt frá því hérna á síðunni hvernig ég legg á flótta undan veruleikanum með henni Matthildi minni þegar við förum í gamla gula bárujárnshjallinn úti við ysta haf.

Útidyrnar þar eru þrem skrefum frá þjóðvegi eitt, þar sem tímatrektir túristarnir strauja niður farfuglana á hraðferð sinni um landið, -sex skref í viðbót - í gegnum húsið, út um garðdyrnar, -og komið er í paradís.

Þar syngur þrösturinn, -og máríerlan ber flugurnar í tuga tali heim í hreiðrið sitt úr grýttu fjörunni sem úthafsaldan gjálfrar við undir klappar bakkanum.

Æðakollurnar dugga svo úandi við hleinarnar neðan við kot og stöku sinnum má sjá hnísur fara með þýðum sporðaköstum og blæstri fyrir tangann þar sem krían skellir sér í sjóinn úti fyrir með hvellu kneggi sínu í leit að æti.

Á þessum hleinum á skarfurinn sinn sess á öðrum árstímum við að þerra vængina í hafgolunni, en um varptímann hef ég heyrt að hann haldi sig við Breiðafjörðinn. Veiðibjallan á því það til að tylla sér þar þessa dagana við litlar vinsældir.

En núna um helgina var nýr gestur mættur, -himbrimi, sem ég hef ekki séð svamla við hleinarnar fyrr. Hann kafaði í gríð og erg, kom svo upp með hvert sílið af öðru og á endanum þyrskling sem hann átti í mesta basli með sporðrenna eftir að hafa kokgleypt.

Að verða vitni að andardrætti náttúrunnar milli flóðs og fjöru við þennan stóra spegil hafsins er sennilega sömu andagiftar virði og upplifa almættið.

Almættið og náttúran sér um sína og gefur öllu sem lifir nóg að bíta og brenna, en græðgi mannanna mun hún samt ekki metta því hún fær aldrei nóg. Nú eru áform uppi að setja niður laxeldi í endilangan Stöðvarfjörðinn eins og hvern annan Austfjörð. 

Ég hafði á orði við Búdda bróðir um daginn að réttast væri að friða allt Ísland fyrir ferðamönnum og fiskeldi sem Galápagos norðursins. Hann sagði; ræddu þetta við Attenborough það er aldrei að vita nema að hann myndi stróka norður á einkaþotunni sinni til að taka einn hring yfir herlegheitin.

Þarna í paradísinni sitjum við Matthildur mín tímunum saman úti á palli, sambandslaus við umheiminn, blíðum í blænum við öldunnar vaggandi nið á meðan þrösturinn syngur fyrir okkur hástöfum og fylgjumst með því sem fyrir augu ber við hleinarnar neðan við kot, á meðan túristavaðallinn flæðir fram og til baka ofan við hús um þjóðveg eitt, -hún prjónandi, á meðan ég spái í steypu.


Ódáinsakur á hvítasunnu

Núna í vikunni birti Guðjón Hreinberg pistil sem hann kallaði Af norninni Gullveigu, og lét þess getið innan sviga að hann væri eingöngu ætlað Fjölæringum og Aldingjum. Gullveig er ein af nornum Völuspár og sagði Guðjón hana líka grámunni , , ,sem virkar að sumu leiti þannig að þegar þú ert framliðinn en þorir ekki yfir eða villist, þá getur þú eigrað um hérnamegin en þú sérð allt í gráma og þú sérð ekki venjulegt fólk, utan suma þeirra sem eru ófreskir, að þú ýmist sérð þá berum augum eða eins og þokukenndar verur er bregður fyrir.

Þar sem pistill Guðjóns var langur, margslunginn og torræður þá setti ég inn athugasemd það fyrsta sem mér datt í hug við lesturinn til að fiska eftir því hvað hann meinti, eins til að sýnast gáfaður Fjölæringur eða Aldingi, -og skrifaði; þokukenndur ertu Guðjón, -í grámósku dagsins, en mér sýnist þú samt vera staddur á ódáinsakri. Síðan sendi ég honum tengil og nokkrar ljóðlínur úr Skíðarímu og þakkaði honum fyrir uppljómun dagsins.

Ódáinsakur er torræður og ekki gott að átta sig á hvað orðið merkir annað en eilífðarakur, hvað þá að nokkur viti nákvæmlega hvar sá akur er staðsettur. Ég fór því að grúska í hvar helst væri að finna ódáinsakur en ekki eru til magar skilgreiningar á fyrirbærinu nema þá í ævintýri eða ljóði. Í Eiríkssögu víðförla er talað um ódáinsakur og fann ég hana á netinu á gamalli norsku og þar kemur þetta fram um ódáinsakur þegar Eiríkur leitaði upplýsinga norræns konungs um það hvernig heimurinn væri byggður og þar koma þetta m.a. fram.

Eiríkur mælti; -hvar er sá akur er Ódáinsakur heitir. –Konungur svarar; -Paradís köllum vér hann eða jörð lifenda. – Eiríkur spyr; -en hvar er sá staður. – Konungur segir; -í austur frá Indíalandi hinu ysta. – Eiríkur mælti; -er hægt að komast þangað. – Víst er það; -segir konungur, -allavega fyrir þá er sem öruggir eru með að komast til himna.

Þegar þetta og margt fleira hafði konungur sagt honum, lét Eiríkur sig falla til fóta konungi og mælti; -ég bið þig þess innilega að með fulltingi yðar greiðist ferð mín. Því mér er sú skylda á höndum að efna heitstrengingu mína, þá sem ég strengdi um að fara suður í heim að leita Ódáinsakurs. Konungur sagði Eiríki að til þess þyrfti hann og menn hans að fara að hans ráðum í einu og öllu og láta skírast.

Einn staður á Íslandi er þó sagður hafa heitið Ódáinsakur. Það er í Hvanndölum, en þar segja munnmælin að flytja hafi þurft bæinn vestur fyrir Hvanndalaána vegna þess að á meðan hann var fyrir austan hana hafi engin þar getað dáið, og hafi þurft að flytja fólk vestur fyrir á til að þess að sálast. Eftir það hafi gamla bæjarstæðið fyrir austan á verið kallað Ódáinsakur og síðar bara Akur.

Hvanndalir eru á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar þykja nú óbyggilegir, enda er einungis fært þangað af sjó. Samt var búið í Hvanndölum fram eftir öldum, en byggð lagðist þar af eftir að Hvanneyrarhreppur í Siglufirði keypti jörðina í þeim eina tilgangi að afleggja búsetu þar endanlega.

Hvanndalabræður eru einir af merkilegustu vísindamönnum Íslandssögunnar. Ef ekki væri fyrir þeirra svaðilför þá væru upplýsingar um Kolbeinsey, ysta grunnpunkt landhelginnar í norðri, harla fátæklegar. Hetjudáð Hvanndalabræðra var gerð skil hér á síðunni í pistli fyrir rúmu ári síðan.

Það hefur vakið furðu, að í Landnámu er sagt að deilur um Hvanndali hafi kostað 16 menn lífið. Þar deildu landnámsmennirnir Ólafur bekkur úr Bjarkey í Hálogalandi landnámsmaður í Ólafsfirði og Þormóður rammi landnámsmaður Siglufjarðar er bjó á Siglunesi um Hvanndali, og varð sextán manna bani, áður þeir sættust, en þá skyldi sitt sumar hvor hafa. Þessi verðmæti Hvanndala þurfa ekki að koma á óvart á víkingaöld þegar gulls í gildi var að komast viðstöðulaust í góðan byr.

Til að gera langa sögu stutta þá svaraði Guðjón mér eftir að ég hafði plægt Ódáinsakur í netheimum með þessum orðum: Ef þú gengur upp hálsinn ofan við Seltún í Krísuvík, kemurðu í lítinn dal með tjörn. Þar eru tveir vættir dáinn og ódáinn. Þess virði að ganga þar um og þannig vita af þeim af eigin reynslu. Það sést greinilega á dalverpinu hver er hvorumegin. Eins og margir vita er Krísuvík (eða Krýsuvík) (stórsvæðið) eins og málverk reginna, eins og allar dulsögur "vors siðar" lifna þar við. Guðjón E. Hreinberg, 24.5.2023 kl. 21:12

 

Ég heyrði frá Ódáinsakri

óma í þögulli nótt.

Ég hafði setið og sungið fátt,

í sál mér var orðið hljótt.

Að augum mér viku þær vordagasýnir,

er vetur að síðustu máir og týnir.

Öll sumarsins óræktu áform

og ósungnu fagnaðarljóð

að hug mínum hljóðlát sóttu

og hurfu – sem andvana jóð.

 

Mig dreymdi yfir dánum vonum

og djúpri þögulli sorg,

er streymdi til mín úr allri átt

frá órótt sofandi borg.

Þrá mína ég svæft hafði á sorgararmi,

minn sársauka leyst upp í tár á hvarmi.

Ég hafði setið og sungið fátt,

í sál mér var orðið hljótt.

Þá heyrði ég frá Ódáinsakri

óma í þögulli nótt. ---(Sigurjón Friðjónsson)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband