20.2.2023 | 06:36
Skoffín og skuggabaldrar
Þegar fólk með miklu meira en milljón á mánuði, og upp í hið óendanlega, sest á rassgatið til að semja um laun þeirra sem halda samfélaginu gangandi í sveita síns andlits hvern einasta dag, ætlar þeim ekki að hafa í sig og á ásamt þaki yfir höfuðið er ekki hægt að tala um annað en skoffín og skuggabaldra. Enda þetta lið fyrir löngu hætt að geta sett sig í annarra spor.
Það er helvíti hart ef nú á í annað sinn á þessari öld á að fórna fólkinu á altari Mammons, sem dregur vagninn, auðrónum til arðs. Unga fólkið okkar og fólkið sem vinnur vinnuna sem þarf að vinna öðruvísi en á rassgatinu, hefur ekki hugmyndaflug til sjá hvernig flissandi fábjánar, skoffín og skuggabaldrar vinna þegar kemur að því að hafa í sig og á ásamt þakinu yfir höfuðið.
Ég ætla að setja hér inn nokkrar línur af hinni frómu facebook sem landsbyggðarmóðir ritaði þar í síðustu viku vegna dóttur sinnar. Færslan var mun lengri og studd með myndum af skriflegum gögnum, en ég leifi mér bara að birta niðurlagið hér.
Hér má sjá lánin sem barnið mitt samþykkti að taka og greiða fyrir skitna íbúðarkompu á stórhöfuðborgarsvæðinu. Ég er brjáluð.
Lán 1 kr. 27.860.000, 480 gjalddagar samtals 471.520.999
Lán 2 kr. 7.980.000, 480 gjalddagar samtals 160.961.003
Hún semsagt fær lánaðar 35.840.000 og skrifar undir það að lánið greiðist næstum 18 falt til baka eða krónur 632.482.000, semsagt 17,6 sinnum hærra en lánað var Ég þarf ekki kennslustund í verðbólgu, vöxtum, verðbótum, verðtryggingu, föstum vöxtum, að safna eigin fé og svo framvegis. Þetta er veruleikinn sem blasir við fólki í dag, ungum sem öldnum.
-Og verkalýðsforustan stein heldur kjafti, rétt eins og síðast.
![]() |
Leggja til verkbann á Eflingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
17.2.2023 | 13:01
Með tárin í augunum á Tene
það er skipulega verið að gera út á Ísland sem eitt dýrasta land í heimi með því að flytja inn láglaunafólk og hirða mismun af okri og lágum tilkostnaði í launum.
Þar að auki er verið að nýta sér eigur og innviði þjóðarinnar til að moka í eigin vasa, -heimta snjómokstur á jóladag, að björgunarsveitir séu stand bæ 24/7 í sjálfboðavinnu, svo ekki sé nú minnst á skinhelgina í kringum aflátsbréfin af hreinni orku þjóðarinnar.
Þessi fégræðgi er orðin aumari en allt sem aumt er, og það sem verra er, að fyrirtæki landsmanna eru meir og minna að flytjast á hendur erlendra auðróna, a la Landsíma Míla og Icelandair Hotels, innlendum auðrónum til arðs og yndisauka aflands.
Þjóðkjörnir stjórnmálmenn innleiða hver um annan þverann með hraði regluverk andskotans, meðan unga fólkið er skuldsett upp í rjáfur í eigin landi. Flotið er sofandi að feigðarósi og tærnar taldar á Tene, eins og viðundrið í Seðlabankanum orðar það, um leið og kynnt er undir óðaverðbólgu með okurvöxtum.
Því er stundum fleygt hér á þessari síðu að flissandi fábjánar fari með völdin. Það er reyndar of vel meint að kalla þetta fólk fábjána, er í raun þess eina afsökun, því ef ekki þá er varla um annað en hreina illsku að ræða þegar sama kynslóð stjórnmálamanna fer í annað sinn gegn fólkinu sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. -Og mestöll verkalýðsforustan stein heldur kjafti rétt eins og síðast.
Við félagarnir í steypunni vorum að steypa í rokinu um daginn, 50/50 íslendingar og austantjaldar. Eftir steypuna fórum við á Grill-66, sem eitt sinn var einfaldlega OLÍS. Þar voru á næsta borði tveir ca 9 ára pattaralegir pollar, með 66°N húfurnar sínar og snjallsímana, babblandi sín á milli á hroðalegri ensku. Þó ég sé íslendingur, rétt eins og þeir, þá skildi ég varla orð.
Félagi minn í steypunni neitar að tala við austantjaldana annað en íslensku. Mér finnst rétt að Íslendingar taki 50% mark á honum og tala skilyrðislaust íslensku sín milli, og reyni að innprenta börnum mikilvægi tungunnar. Við verðum nógu fljót að tapa okkur í glóbalinn samt með fátæklegri hroða ensku.
það verður of seint að ætla að endurheimta landið sitt, tala tungumálið og verja unga fólkið eftir að íslenska þjóðin verður orðin örlítill minnihluta hópur á Íslandi á harðmæltri ensku. Þá gætu Jónar og Gunnur þessa lands átt eftir að syngja Ég er kominn heim með tárin í augunum úti á Tene.
Dægurmál | Breytt 25.2.2023 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.2.2023 | 15:34
Moldarkofar, mykjuhaugar og hagvaxtarins skemmdarverk
Það hefur sjálfsagt farið fram hjá fáum sem eiga það til að líta inn á þessa síðu að henni ritstýrir steypukall sem er sannfærður um að hollur sé heimafenginn baggi. Á það ekki síst við þegar þegar þaki er komið yfir höfuðið, mestu fjárfestingu fjölskyldunnar. Samkvæmt nýjustu útreikningum er staðan nú sú að verðtryggðar 50 milljónir að láni til húsnæðiskaupa verða að 700 milljónum á 40 árum, lánshupphæðin greiðist 14 sinnum til baka. Og eftir því sem húsið er CE vottaðra eru meiri líkur á myglu.
Eftir hið svokallaða hrun gerðist ég flóttamaður íslensks byggingaiðnaðar í Noregi og vann þar með flóttamönnum frá Asíu og Afríku. Minn besti vinnufélagi var Juma, jötun frá Darfur í Súdan. Hann hafði farið að heiman 16 ára, þegar var komið að herskyldu hjá honum. Afi hans hafði sagt; -nú skalt þú forða þér Juma, þú verður látin drepa eigið fólk.
Juma fór til Líbýu og var þar í tvö ár áður en hann sigldi á feigðar fleygi yfir hafið til Lamperdusa við strendur Ítalíu. Í Líbýu sagði hann að gott hefði verið að vera og aldrei hefði hann haft eins mikinn pening á milli handanna. -Hvers vegna fórstu þá frá Líbýu? -spurði ég? -Ég veit það ekki alveg, en félagar mínir voru að fara og ég fylgdi straumnum; -svaraði Juma.
Til að gera langa sögu stutta þá endaði Juma upp í N-Noregi þar sem hann var settur á móttak til að læra norsku og komast inn í norskt samfélag. Þar hittumst við í steypunni sem flóttamenn. Hann sagði mér oft sögur og voru sumar þeirra um húsbyggingar í hans heima högum sem mér þóttu aldeilis ótrúlegar.
Ég hef hér í bók dagana haldið utan um steypu og heimafengna bagga undir færsluflokk sem heitir Hús og híbýli þar gat ég um byggingar aðferðir í heimahögum Juma og hafði meir að segja fundið heimildamynd á youtube því til staðfestu. Hér fyrir neðan endurbirti ég tæplega 10 ára gamlan pistil, sem ég skrifaði þegar var farið að glitta í nýja CE vottuðu byggingareglugerðina sem tók gildi á Íslandi árið 2015.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Það þætti sjálfsagt óðs manns æði að halda því fram að hagvöxturinn sé að fara með allt til helvítis. En gæti verið að það megi framkalla hagvöxt með verðhækkunum? Allavega virðist eitt mesta hagvaxtarskeið þessarar aldar hafa átt sér stað með því að blása út fasteignabólu sem ekki reyndist innistæða fyrir án þess að lánastofnanir fjármögnuðu hana. Eftir að bólan sprakk hafa skuldsettir íbúðaeigendur haldið uppi hagvexti bankanna þar sem þeir eru tregir til að færa niður verðmæti lána og þar með að lækka fasteignaverð.
Eins hefur ekki farið framhjá þeim sem standa í húsbyggingum, að á síðustu árum hafa verið settar íþyngjandi reglur bundnar í byggingareglugerðum sem hækka hjúsnæðisverð stórlega. Það hefur í raun verið sett margþætt lög um það að skjól fjölskyldunnar skuli halda uppi hagvextinum. Samræmdum reglum frá ESB er útbýtt og skulu þjóðir ESS einnig fara eftir regluverkinu. Þetta regluverk sýnir færni sína þegar kemur t.d. að orkusparandi aðgerðum s.s. einangrun húsa. Jafnvel þar sem varminn er ódýr eins og á Íslandi eru settar reglur svo ekki tapist varmaorka, þeim skal framfylgja jafnvel þó heita vatnið velli upp úr jörðinni utan við húsvegginn sem veita má inn í húsið með slöngubút. Einangrun sem halda á hitanum inni skal vera allt að 25 cm þykk.
Svona reglur sem eru íþyngjandi fyrir almenning efla aftur á móti hagvöxt. Á Íslandi mun nýja byggingareglugerðin hreinlega stórhækka hitunarkostnað þetta kunna gömlu verkfræðingarnir betur að skýra, sjá hér. Ef einhver heldur að þetta sé eitthvað rugl þá er þessum reglum nú þegar framfylgt hér í Noregi sem á samt gnægð orkugjafa s.s. afgangs gas til að hita upp hús almennings, því sem næst frítt. Nú er unnið að því að innleiða samræmdu ESB reglugerðina einnig á Íslandi.
Svona hefur hagvöxturinn verið trekktur áfram m.a. í gegnum byggingariðnað þannig að nú er svo komið að fólki endist ekki ævin til að greiða fyrir sómasamlegt þak yfir höfuðið og er þá ein lausnin að bjóða ungu fólki upp á Kínverska iðnaðargáma til búsetu fyrir 60 þús á mánuði. Það er af sem áður var að ungu fólki gagnist aðferðir Bjarts í Sumarhúsum, það að fara til óbyggða með skófluna að vopni og koma sér þar upp þaki án þess að uppfylla skyldur sínar við hagvöxtinn. Það má kannski segja að einhver millivegur megi vera á torfkofa og ströngustu reglugerðum, en það ætti aldrei að vera millivegur á því að þakið á að þjóna heimilinu en ekki regluverki hagvaxtarins.

Undanfarið ár hefur annað slagið komið til þess að við Afríku höfðinginn Juma höfum haft þann starfa að lagfæra gamla Samíska kofa, eins og mátt hefur lesa um á þessari síðu. Juma sagði mér frá húsi, sem hann byggði sem barn í Sudan ásamt sínu fólki, en þar var byrjað á að búa til múrsteina með því að hræra saman í vatni, kúamykju, sandi og mold sem sett var í nokkhverskonar kökuform sem svo þornaði í sólinni eins og drullukökur. Síðan var hlaðið hús úr skorpnum drullukökunum og veggir pússaðir. Þegar hann heimsótti heimahagana 11 árum eftir að hann fór að heimann þá svaf hann vært í þessu húsi sem hann sagði að hefði verið eins og nýtt.
Þarna var notuð sama aðferð í pússningu og steina, þ.e. er blanda af vatni, leir, sandi og kúaskít. Hann sagði að þeir sem hefðu peninga ættu það til að nota sement og sand í pússninguna. En skítur úr grasbítum hefur þann eiginleika að innihalda trefjar sem binda saman sandinn og leirinn. Eins sagði hann mér að ef svona hús væru hvítmáluð þá væri það gert með því að brenna vissa trjátegund og blanda öskunni, sem er skjannahvít, út í vatn og bera í þurra taðpússninguna.
Það er erfitt að sjá það fyrir sér að ungu fólki liðist að byggja þaki yfir höfuðið nú til dags með því að notast við skóflu, steina og torf án þess að eiga það á hættu að lenda á Hrauninu fyrir það að hundsa reglugerðir hagvaxtarins. Hvað þá ef því dytti í huga að notast við drullukökur úr mykju þá væri sennilega orðið stutt í hvítu sloppana.
Eftir athuganir á netinu fann ég heimildamynd á youtube um það hvernig mykjuhaugur verður að draumahöll án þess að það kosti krónu. Ef einhver endist til að kynna sér myndina til enda þá má sjá að mykjuhaugur getur þar að auki orðið að samfélagslegu listaverki.
Dægurmál | Breytt 18.2.2023 kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2023 | 16:11
Hvers vegna Noregur
Það má ætla að nafnið á landi nágranna okkar skýri sig sjálft, og ekki síður á ensku Norway. En er það alveg svo einfalt? Michael Schulte, prófessor við háskólann í Agder, segir að sú túlkun sé alþýðuskýring. Bók Þorvaldar Friðrikssonar, -Keltar, sem kom út fyrir jól, heldur á lofti að nafnið hafi ekki með norður að gera heldur austur. En sennilega er réttu skýringuna að finna í þeim fornbókmenntun sem varðveittust á Íslandi, eins og svo margt annað um gamla landið Noreg.
"Landsheitið Noregur hefur yfirleitt verið talið merkja vegurinn í norður, norð-vegur, og talið vísa til þeirrar leiðar sem menn fóru til að komast norður á bóginn. Þessi hugmynd hefur verið næsta óumdeild lengi vel en nú hefur norskur fræðimaður bent á að þetta sé ekki óyggjandi. Michael Schulte, prófessor við háskólann í Ögðum (Agder), færir rök að því að sennilega sé nafnið alþýðuskýring (folkeetymologi). Uppruni heitisins sé annar en nú lítur út fyrir. Sögulega sé nafnið ekki Norð-vegur heldur Nor-vegur. Sjá grein um þetta á norsku á síðunni forskning.no. Schulte bendir á að í elstu skriflegu heimildum á Norðurlöndum, rúnaristunum, sé nafnið ekki skrifað Norð- heldur aðeins Nor-, og sömu sögu sé að segja í dróttkvæðum.
Nafnið hafi ekkert með áttina norður að gera heldur sé það dregið af orði sem enn er til í íslensku og norsku, nór og nor, og merkir þrönga siglingaleið eða mjóa vík, skylt enska orðinu narrow. Nafnið vísi til siglingaleiðarinnar meðfram ströndum Noregs rétt eins og Norð-vegur var talið gera. Nafnið Noregur dregur því eftir sem áður nafn af leiðinni meðfram ströndinni en viðmiðið er dálítið annað. Þessi hugmynd Schultes er að vísu ekki glæný heldur hafa fræðimenn kastað henni fram öðru hverju og menn deilt um sanngildi hennar. Inn í þessa sögu er líka stundum dreginn forn norrænn sækonungur að nafni Nórr eða Nóri. Á það má líka benda að í íslensku er til samhljóma orðið nór í merkingunni skip eða bátur. Það orð er svo skylt latneska orðinu navis sem einnig merkir skip. Íslenska orðið naust bátsskýli er einnig af sömu rót. Þetta má sjá á vef Árnastofnunar"
Í bókinni Keltar er fyrrihluti nafnsins sagt noir; -austur. Og skýringin er; orðið austmaður var í íslenskum fornsögum haft um menn frá Noregi. Í orðabók Johans Fritzners (Ordbog over det gamle norke sprog, I. bindi, bls 100) er sú skýring við orðið austmaður að það sé notað um menn sem bjuggu í austri og tekur Fritzner fram að Íslendingar hafi með þessu orði átt við Norðmenn.
Alloft eru menn nefndir í Íslendingasögunum sem virðast bera viðurnefnið austmaður, Geir austmaður, Hrafn austmaður, Hávarður austmaður og Þórir austmaður. Fleiri dæmi eru um að menn séu sagðir austmenn án þess að um viðurnefni sé að ræða. Vestur er ír á gelísku og þaðan er Íri, sem þýðir Vestmaður, samanber Vestmannaeyjar. (Þorvaldur Friðriksson - Keltar bls 15)
En eins og ég sagði í upphafi er skýringuna á nafni lands nágranna okkar að finna í fornbókmenntum sem varðveittust á Íslandi. Fornaldarsögur Norðurlanda eru af fræðimönnum taldar þjóðsögur, sem gangi skáldskap næst, en í raun eru þær hin hliðin á mankynssögunni. Þar er sagt frá afkomendum Fornjóts og kemur skýrt fram hvernig Noregur er til kominn, og hefur það hvorki með norður, austur né siglingaleið að gera.
Í Orkneyinga-sögu er einnig útlistun á tilkomu nafns Noregs. Frá Fornjóti ok hans ættmennum, er ættartala Noregskonunga frá Óðni, jafnvel allt aftur til adams, -og þá líka ættartala Íslendinga. Þátturinn hefst á þessum orðum:
-Nú skal segja dæmi til, hversu Noregur byggðist í fyrstu eða hversu konunga ættir hófust þar eða í öðrum löndum eða hví þeir heita Skjöldungar, Buðlungar, Bragningar, Öðlingar, Völsungar eða Niflungar, sem konunga ættirnar eru af komnar.
Fornjótr hét maður. Hann átti þrjá sonu; var einn Hlér, annar Logi, þriðji Kári. Hann réð fyrir vindum, en Logi fyrir eldi, Hlér fyrir sjó. Kári var faðir Jökuls, föður Snæs konungs, en börn Snæs konungs voru þau Þorri, Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri var konungur ágætur. Hann réð fyrir Gotlandi, Kænlandi ok Finnlandi. Hann blótuðu Kænir til þess, at snjóva gerði og væri skíðfæri gott. Það er ár þeirra. Það blót skyldi vera at miðjum vetri, og var þaðan af kallaður Þorra mánuður.
Þorri konungur átti þrjú börn. Synir hans hétu Nórr ok Górr, en Gói dóttir. Gói hvarf á brott, og gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanur at blóta, og kölluðu þeir síðan þann mánuð, er þá hófst, Gói.
Þeir Nórr og Górr leituðu systur sinnar. Nórr átti bardaga stóra fyrir vestan Kjölu, og féllu fyrir honum þeir konungar, er svo heita: Véi ok Vei, Hundingur og Hemingur, og lagði Nórr það land undir sig allt til sjóvar. Þeir bræður fundust í þeim firði, er nú er kallaður Nórafjörðr.
Nórr fór þaðan upp á Kjölu og kom þar, sem heita Úlfamóar, þaðan fór hann um Eystri-Dali og síðan í Vermaland og með vatni því, er Vænir heitir, og svo til sjóvar. Þetta land allt lagði Nórr undir sig, allt fyrir vestan þessi takmörk. Þetta land er nú kallað Noregur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.2.2023 | 16:31
Nú á tímum dreymir flesta um að skapa minningar, -og njóta
Tíminn mælir fjarlægð í rúmi, og er byggður á minni. Veruleikinn í draumi og veröldin í vöku eru upplifun innra og ytra sjálfs. Munurinn er tími. Draumar eru lausir úr viðjum tímans, á meðan minningar eru tímasett framhaldssaga. Án minnis er enginn tími. Án tíma er ekkert minni. Án drauma verður ekkert rými.
Þess vegna er heimurinn í draumi og vöku jafn sannur. Eini munurinn er að heimurinn í draumi á sér ekki tíma, lýkur því um leið og draumnum, -á meðan heimurinn í vöku á sér endurteknar minningar og framhaldsögu í tíma, sem maður á lítinn þátt í að skrifa.
Þetta er ágætt að hafa á bak við eyrað í síbylju heimsins. Af því draumurinn veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sína sérstöku reynslu í þessum heimi, burt sé frá framhaldssögu heimsins.
Jafnvel þó röddin, sem er til staðar í höfði barnsins, hvísli með tímanum "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur heimurinn ekki til með bjarga neinum frá eigin lífi.
Ef þú ert meðvitaður um visku barnsins getur þú skapað ómældar minningar við að ferðast fram og aftur um tímann, á því einu sem skrifað er í skýin, því allt býr í sama rými.
Það er heimur í viðjum minninga tímans sem gerir okkur tímabundin. Lífið er draumur.
Dægurmál | Breytt 12.2.2023 kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.2.2023 | 13:11
Guð blessi Ísland
það orðið helvíti hart þegar þarf að flytja inn erlent láglaunafólk til að kljást við hyskið sem mergsýgur Jón og Gunnu fyrir náhirðina. Þeim hjónakornunum er því miður varla við bjargandi, afvelta með tærnar upp í loft á Tene. Enda eru auðrónarnir á meðan, ásamt öllum frábæru hugmyndunum sínum, langt komnir með að skipta um þjóð í landinu.
Nú tekur helferðarhyskið einn snúninginn til á landanum, enda þarf talsvert til að næra náhirðina, sem er víst öll kominn í annan veruleika, samkvæmt Svörtu loftum, -eftir að hún slapp úr money haven. Því er hart þegar erlent láglaunafólk er orðið bjartasta vonin fyrir íslenska þjóð, sem virðist vera gersamlega ófær um að hrista af sér óværuna, rétt eins lúsina og vistarbandið fram eftir öldum.
Nú hefur Why Iceland viðundrið keyrt upp vextina einn ganginn enn og flissandi fábjánar upp gjöldin til að halda í við hækkanirnar, landanum til höfuðs, -allt eftir að slektið vertryggði kjararáðs sjálftökuna sína um árið. Landinn situr svo uppi með verðtrygginguna á húsnæðislánunum, eða missir þakið bara hviss bang ofan af höfðinu, þegar verðbólgnir vextirnir bíta í hælana á óverðtryggðu lánunum.
Allt er þetta sagt vera Jóni og Gunnu til hagsbóta við að slá á verðbólguna með gengdarlausum hækkunum til að geta staðið undir kjararáðspakkinu og náhirðinni. Samkvæmt nýjustu útreikningum er staðan nú sú að verðtryggðar 50 milljónir að láni til húsnæðiskaupa verða að 700 milljónum á 40 árum, upphaflega lánshupphæðin greiðist 14 sinnum til baka. Fyrir hið svokallaða hruni þótti nóg að borga verðtryggða húsnæðislánið sitt 5 sinnu til baka, -sælla minninga. Já og megi, -Guð blessa Ísland.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.2.2023 | 18:51
Það hlýtur að verða leitun að öðrum eins afglapa
Efling krefst þess að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari víki sem sáttasemjari í deilu félagsins við Samtök atvinnulífsins og tilgreinir átta ástæður fyrir þessari kröfu. Félagið heldur því meðal annars fram að Aðalsteinn hafi samið miðlunartillöguna í samráði við forsvarsmenn Samtaka atvinnuvinnulífsins.
Daníel Isebarn Ágústdson lögmaður Eflingar sendi kröfu félagsins til ríkissáttasemjar og segir í erindi sínu að meðferð ríkissáttasemjara á máli hans fyrir héraðsdómi og efni þeirrar miðlunartillögu sem embættið lagði fram veiti skýrt tilefni til að draga í óhlutdrægni skipaðs ríkissáttasemjara í efa.
Og svo telur hann upp átta ástæður:
Í fyrsta lagi bárust Eflingu stéttarfélagi engar upplýsingar um málið fyrr en með frásögn utanaðkomandi aðila síðdegis 25. Janúar 2023 þar sem fram kom að skipaður ríkissáttasemjari hefði látið þau orð falla á kaffistofu embættisins í Borgartúni 21 að hann ásamt Samtökum atvinnulífsins væru langt komin með að semja miðlunartillögu í vinnudeilu samtakanna við Eflingu stéttarfélag sem kynnt yrði fljótlega. Þegar formaður samninganefndar Eflingar stéttarfélags hafði samband við skipaðan ríkissáttasemjara í beinu framhaldi færðist hann undan því að svara spurningum afdráttarlaust og boðaði þess í stað til fundar morguninn eftir án þess að upplýsa nánar um fundarefnið.
Í öðru lagi kynnti skipaður ríkissáttasemjari Eflingu stéttarfélagi fullbúna, frágengna og undirritaða miðlunartillögu ásamt ákvörðun um fyrirkomulag kosningar um hana strax í upphafi fundarins að morgni 26. Janúar 2023 án þess að hafa á því tímamarki haft nokkuð samráð við félagið. Þvert á móti hafði skipaður ríkissáttasemjari svo seint sem síðdegis daginn áður neitað að svara spurningum formanns samninganefndar Eflingar um málið og þannig gagngert haldið leyndum upplýsingum um fyrirhugaða miðlunartillögu sem ljóst er að undirbúningur við var þá langt kominn. Þetta var í brýnni andstöðu við lögskipaða samráðsskyldu embættisins og áratugalanga stjórnsýsluframkvæmd.
Í þriðja lagi tók skipaður ríkissáttasemjari bæði með forsendum og efni miðlunartillögunnar eindregna afstöðu með Samtökum atvinnulífsins, gagnaðila Eflingar stéttarfélags, en tillagan var bæði sama efnis og tilboð samtakanna og studd sömu rökum. Til að undirstrika hlutdrægni tillögunnar má benda á að ein meginforsenda hennar var sú hótun Samtaka atvinnulífsins að ekki yrði samið um afturvirkar launahækkanir kæmi til verkfalls. Virðist tillagan einkum hafa haft það markmið að koma í veg fyrir verkfall og þar með að þessi hótun kæmi ekki til framkvæmda. Ekki virðist hafa hvarflað að skipuðum ríkissáttasemjara að unnt væri með miðlunartillögu að víkja frá samningsafstöðu annars deiluaðilans, t.d. með því að kveða á um afturvirkni í tillögu sem lögð yrði fram eftir að verkfall væri skollið á.
Í fjórða lagi, og tengt síðastereindu atriði, tímasetti skipaður ríkissáttasemjari framlagningu miðlunartillögunnar og kosninga um hana þannig að tillagan var kynnt meðan kosningar um verkfallsboðun hjá Eflingu stéttarfélagi voru yfirstandandi og kosningar ákveðnar þannig að niðurstaða þeirra lægi fyrir áður en verkfallið, ef það yrði samþykkt, hæfist. Allt var þetta gert með fordæmalausum flýti og án nokkurs samráðs við Eflingu stéttarfélag.
Í fimmta lagi veitti skipaður ríkissáttasemjari Eflingu stéttarfélagi vægast sagt misvísandi fyrirrmæli/tilmæli um afhendingu kjörskrár í tengslum við fyrirhugaða kosningu um miðlunartillöguna. Þannig fyrirskipaði ríkissáttasemjari afhendingu kjörskrárinnar í tvígang hinn 26. janúar 2023 án þess að geta þess að í þeim fyrirskipunum hefðu einungis falist óbindandi tilmæli um afhendingu gagna til eigin vinnsluaðila Eflingar stéttarfélags. Samhliða þeirri skýringu, sem barst næsta dag, höfðaði skipaður ríkissáttasemjari síðan dómsmál gegn Eflingu stéttarfélagi þar sem hann bar félagið þungum sökum um lögbrot og krafðist afhendingar á gögnum sem hann að eigin sögn hafði þá aldrei gert kröfu um að fá afhent. Málshöfðun ríkissáttasemjara er eftir því sem næst verður komist fordæmalaus með öllu.
Í sjötta lagi hefur skipaður ríkissáttasemjari haft frumkvæði að því, án nokkurs samráðs við Eflingu stéttarfélag, að kynna efni miðlunartillögu sinnar opinberlega. Við framsetningu þessarar kynningar hefur, líkt og við á um efni miðlunartillögunnar, ekkert tillit verið tekið til þess sem félagsmenn Eflingar stéttarfélags færi á mis við með samþykki tillögunnar ef miðað væri við samningsmarkmið félagsins. Þvert á móti hefur kynningin miðast alfarið við samningsmarkmið Samtaka atvinnulífsins og raunar erfitt að sjá nokkurn mun á kynningu skipaðs ríkissáttasemjara og áróðri Samtaka atvinnulífsins.
Í sjöunda lagi hefur skipaður ríkissáttasemjari sjálfur haft frumkvæði að fjölmiðlaumfjöllun um málið. Meðal annars sent fjölmiðlum tilkynningu um blaðamannafund sem hefjast myndi kl. 11, fimmtudaginn 26. Janúar 2023, áður en fundur með Eflingu hófst kl. 9:30 um miðlunartillögu sem hann átti þá eftir að kynna fyrir aðilum, í það minnsta fyrir Eflingu stéttarfélagi. Þrátt fyrir þetta verður ekki séð að skipaður ríkissáttasemjari hafi haft frumkvæði að því að kynna almenningi framanraktar staðreyndir málsins. Þvert á móti hefur skipaður ríkissáttasemjari tekið eindregna afstöðu gegn Eflingu stéttarfélagi í fjölmiðlum og ítrekað lýst því yfir að framganga félagsins sé ólögmæt.
Í áttunda lagi lýsti skipaður ríkissáttasemjari því yfir í gær, eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms, að hann ætli sér ekki að bíða eftir endanlegum dómi um meintan rétt sinn til gagna. Þess í stað krefst skipaður ríkissáttasemjari afhendingar viðkvæmra persónuupplýsinga um rúmlega tuttugu þúsund félagsmenn Eflingar á grundvelli úrskurðar undirréttar þrátt fyrir að málið sé í kæruferli. Slík harkaleg framganga skipaðs ríkissáttasemjara lýsir ásetningi til þess að koma í veg fyrir réttláta málsmeðferð Eflingar.
Í lokin skrifar Daníel að fleiri atriði mætti nefna varðandi stjórnsýslu og framgöngu skipaðs ríkissáttasemjara sem veitt getur Eflingu stéttarfélag tilefni til að efast um óhlutdrægni hans í málinu, s.s. þá staðreynd að ríkissáttasemjari hefur neitað að verða við ítrekuðum beiðnum félagsins um afhendingu gagna málsins og ekki upplýst félagið um nöfn þeirra sjálfstætt starfandi sérfræðinga sem að sögn embættisins hafa veitt því ráðgjöf vegna málsins.
Heimild sjá hér
![]() |
Sleppir aðför og bíður eftir úrskurði Landsréttar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 9.2.2023 kl. 03:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2023 | 07:24
Draumar, leki, mygla og fúsk
Það hefur borið við hér í bók daganna að ég hafi getið drauma minna, misgáfulegra og óræðra. Aðfaranótt 1. febrúar svaf ég illa, var með mínar þrjár sortir að suði fyrir eyrum og fuglasöng. Staulaðist á klósettið upp úr miðnætti, en svaf eftir sem áður lítið fram eftir nóttu vegna þráláts brjóstverks og gyllinæðar í ofanálag. Þegar ég loksins sofnaði dreymdi mig, sem betur fer, tóma steypu eins og vanalega.
Ég var staddur á borgarafundi í vesturhlið heimavistar Menntaskólans Egilsstöðum. Þar var fundur með sveitastjórnarfólki í stórsameinuðu sveitarfélagi. Sveitarsjónarfólkið var að skýra erfiða stöðu sveitarfélagsins fyrir íbúum og hversu hart það sjálft hefði lagt að sér þess vegna. Þetta myndi birtast íbúunum í hækkuðum gjöldum og skertri þjónustu, því eitthvað yrði að gera til að rétta fjárhaginn við, sem ekki væri einfalt mál í flóknum nútíma samfélagi, og krefðist síaukins mannauðs við stjórnun.
Ég stóð upp og benti fundarfólkinu á að á meðan hrepparnir hefðu verið 13, sem nú mynda eitt sameinað Múlaþing, þá hefði uppbyggingin í þeim allt í senn; -verið hraðari, mun meiri og fjárhagurinn blómlegri í rassvasabókhaldi oddvitanna, sem nota bene, hefðu lengst af ekki verið á launum. Íslendingar hefðu hvorki meira né minna en komist út úr moldakofunum inn í steinsteyptan nútímann með þannig rassvasa bókhaldi hreppsnefndarmanna í sjálfboðavinnu.
Þeir sem fóru með fundarstjórn fannst þetta frekar fornfáleg samlíking og vildu að fundarmenn drifu í að rísa úr sætum og sýna samstöðu með því að haldast í hendur á þessum erfiðu tímum. Ég neitað að taka þátt í svoleiðis skollaleik handabanda, ásamt nokkrum fleirum, og þar með var samtaðan rofin, og keðjan slitin sem átti að mynda með því að fólk héldist í hendur undir blaktandi regnboga fánum.
Ég talaði um það við þá örfáu, sem voru á sama máli og ég, að þetta yrði allt að fá að hrynja til grunna, eins og í Sovétríkjunum forðum, svo hægt væri að byggja aftur upp af einhverju viti. Þá tók frændi minn mig með sér út fyrir Útgarð og sýndi mér mikla uppbyggingu þar sem steyptar höfðu verið undirstöður og stoðveggir, vel faldir á milli Miðgarðs og Vonarlands, og til stóð að hefja miklar byggingaframkvæmdir upp á gamla mátann með tommu sex og steypu.
Í sólskini gengum við svo inn Tjarnarbrautina. Til móts við fimleika- og íþróttahúsið, inn að menntaskóla afleggjaranum, voru feikna fallegar tveggja til þriggja hæða byggingar í anda Menntaskólans, steinsteyptar með mótatimburáferð og hraunuðum flötum á milli, einnig voru sumir veggirnir sementsútflúraðir með risafjallgrösum.
Allar voru þessar byggingar hvítmálaðar með bláum þökum og rauðum opnalegum gluggafögum. Upp með veggjunum uxu grannar reyniviðarhríslur sem skyggðu passlega á morgunnsólina sem merlaði í gleri gluggana. Þegar við beygðum á menntaskólabílastæðin blasti austurhlið Menntaskólans við á sínum stað, við enda húsaraðar sem stóð þar sem steinsteypt Búbót stóð forðum daga.
Þessi göngutúr fyllti mig bjartsýni og gleði svo ég sagði við frænda; já svona á að byggja. Þá vaknaði ég upp frá draumnum við torkennilegt óhljóð og komst smá saman til sjálfs mín, við það að snjóruðningstæki höfðu hafið störf við hið eilífa og flókana vetrar verkefni að skrapa snjó af bílastæðum íþróttahússins og Menntaskólans.
Mér dettur helst í hug að þessi draumur tengist því sem ofarlega hefur verið á baugi undanfarið, eða endalausu tjóni og vandræðagang við byggingu húsa, -leka, myglu og fúski. En nothæf hús verða ekki byggð undir alræðisstjórn fólks sem einungis hefur stundað harðsnúið latínunám. Það þarf fólk með reynslu, -þekkingu þeirra sem byggt og rifið hafa hús með höndunum við ramm íslenskar aðstæður.
Já ég hef sofið illa undanfarið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.1.2023 | 06:19
Glitský
Útsynningurinn hefur verið þrálátur síðustu vikuna með tilheyrandi ófærð í lofti, oft er hann samt fallegur. Suðvestan hraglandi er samt hjá flestum óvelkominn á þorra með sínum storméljum, spilliblotum og svellum, -þar að auki rignir ekki eins þétt niður öllum velkomnu flóttamönnum á klakann, og landinn kemst ekki viðstöðulaust í loftið til að telja tærnar á Tene.
Þorrinn byrjaði með nýju tungli og má því allt eins vænta umhleypinga út tunglið, -samkvæmt gömlum fræðunum, -eða allt til góu tungls. Reyndar virðist vísindaleg veðurfræðin í síauknum mæli vera farin að færa sér í nyt visku karlsins í tunglinu í langtíma spálíkönum sínum, nema þegar til hamfara hlýnunar horfir.
Sjálfur spái ég mest í skýin og hef jafnvel fengið skýjafar með hröfnunum héðan úr loftkastalanum mínum við þannig spádóma. Ég bý við skýjaborg og get ferðast um á heilu skýjaflotunum með því einu að líta út um stofugluggann, og það án alls loftslagskvíða svo lengi sem ég hef vit á að líta á hitamælinn heima hjá mér en ekki Langtíburtukistan.
Alla vikuna var skýjarekið magnað áhorf fyrir einlægan skýjaglóp. Þó svo dögum saman kæmust engar á loft carbfixaðar flugvélarnar með kolefnisstrókandi túristavaðalinn, þá svifu hrafnarnir um að venju í suðvestan þræsingnum og þegar himininn dró gluggatjöld sín frá, allt frá vestri til austurs, blöstu við himnesk undur og stórmerki.
Á sama augnabliki og himininn
gluggatjöldum sínum svipti í sundur,
ákvað sólin að draga saman sinn sjóð.
Líkt og gullið draumfagurt undur,
lýsti síðasti geisli hennar upp marglit ský,
-og í glugganum á rökkvaðan karlskrjóð.
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.1.2023 | 22:35
Amma
Kalman, Keltar, Hvítaskáld og Heimurinn eins og hann er, hvað á þetta sameiginlegt? Kannski er ekki skrýtið að ungir drengir eigi í vök að verjast i heimi tölvuleiksins og glími við ólæsi í skólanum. Nú er jólabókalestrinum hjá mér lokið og má segja að þær hafi verið skrifaðar án hrútaskýringa af síðmiðaldra karlmönnum í tilvistarkreppu í þetta sinnið, -ekki beinlínis nein Tarzan ævintýr.
Heimurinn eins og hann er, eftir Stefán Jón Hafstein er að mestu rétttrúnaður um hungur og hamfarir, en í því að þvaðra um allt og ekkert er Stefán Jón reyndar bestur með sínu stórskemmtilega orðfæri, mér datt samt af og til Gandih í hug við lesturinn, "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum". En af því að ég hef bæði kynnst Stefáni af góðu og lesið New York - New York þá las ég um hörmungar heimsins eins og hann er mér til ánægju.
Morð í Naphorni eftir Ásgeir Hvítaskáld er skáldsaga um síðustu aftökuna á Austurlandi, ágætis stílfærð frásögn af hryllilegum atburðum, en Hvítaskáldið hefði mátt prófarkar lesa hana áður en hún fór í prentun, auk þess geta betur heimilda, úr því að hann getur þeirra á annað borð, því þar má finna kafla sem eru annarra en skáldsins því sem næst orðrétta, rétt eins og reyndar í margri lærðri lokaritgerðinni.
Keltar, bók Þorvaldar Friðrikssonar er keimlík stórskemmtilegri bók Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, auk þess sem hún bendir á það, sem hefur verið bent á áður, að móðurmálið er ekki einhlítt, enda landnámsmenn yfir 60 % Keltar í kvenlegg, samkvæmt genafræðinni og karlleggurinn stundum af keltneskum kóngum kominn samkvæmt ættfræði Landnámu, alls ekki ólíklegt að feður, mæður og ömmur í þá tíð hafi kennt börnum að tala. Galli er hvað bókin verður löng með keltnesku orðskýringum, og er ég sammála Ingólfi Sigurðssyni bloggara að orðsifjarnar séu oft full langsóttar.
Guli kafbáturinn hans Jóns Kalmans Stefánssonar er skáldsaga um sannleikann, -hans æsku, og einhver sú al best hrærða steypa sem ég hef augum litið. Ég hafði áður lesið Himnaríki og helvíti eftir Kalman og þótti sú bók aldeilis ágæt, en Guli kafbáturinn tekur henni langt um fram. Það eina sem mér fannst aðfinnsluvert var að sagan toppaði ekki í lokin, -ef svo hefði verið væri þetta grjót hörð steypa. Kalman eyðir síðunum eftir toppinn í að skrapa og fínpússa steypuna þar til Guli kafbáturinn rennur út í sandinn og strandar í algildum sannindum, -þeim að það stýrir lífinu sem býr innra með okkur.
En hvernig kemst amma inn í jólabókaflóðið? Ég setti bloggið mitt fyrir skemmstu á pásu í einhvern tíma. Þannig er að safnast hafa upp hjá mér minnis- og dagbækur í gegnum tíðina, þeirra sem mig ólu, -rétt eins og þjóðsögur hafa gert allt frá bernsku. Til þess að fara yfir þessar minnis- og dagbækur þarf að gefa sér tíma, rétt eins og lesa þjóðsögur og hef ég gert það nú um stund á milli þess sem ég les langlokur enda hefur ekki beint viðrað til steypu.
Ég fékk þá hugmynd að gera úr þessu bók fyrir hana Ævi, en hún er orðin fimm ára. Ævi á, auk okkar Matthildar minnar, ömmu (abuela) í Barcelona og afa (abuelo) í Hondúras. Engin skildi ætla að sá ættleggur Ævi, sem nam land nýlega, eigi ekki sína forsögu. En með því að koma dagbókum afa og ömmu í tölvutæk orð varðveitast ævidagar, sem lítið er til um og annars hefðu glatast. Þá á hún upplýsingar um sinn íslenska uppruna með orðum formæðra og -feðra þegar fram líða stundir.
Ævi er einstaklega áhugasöm um bókina og spyr reglulega; afi ertu ekki að verða búinn með bókina mína, -því hún ætlar að myndskreyta síðurnar sem ekki hefur verið skrifað á í dagbókunum. Við að stauta í gegnum dagbækur afa og ömmu rifjast margt upp og þar á meðal hvaða aðferðum amma beitti, fyrir meira en 60 árum síðan, þegar þurfti að koma dreng til manns sem arftaka feðraveldisins.
Í Biblíu ömmu fannst miði eftir hennar dag, þar sem hún hafði skrifað: Til minna nánustu - ég fyllist óumræðanlegu þakklæti er ég hugsa til ykkar allra og samverustundanna og kærleika ykkar til mín og umburðalyndisins, og einnig til Guðs sem gaf mér ykkur öll, og hið dásamlega líf, einnig fyrir sorgina, sem er besti uppalandi sem ég veit, mýkir hug og hjarta, forðar frá ofdrambi. Ey vitkast sá sem aldrei verður hryggur.
Ein af fyrstu minningum mínum er þegar amma fór með bæn með mér fyrir svefninn. Þá var hún kannski búin að spyrja mig hvort ég hefði munað eftir að þvo mér um hendur og andlit, auðvitað játti ég því, -það hefur þá verið kattarþvottur; sagði amma stundum, og brosti sínu einstaklega bjarta brosi. En bænin var svona:
Ó, Jesús bróðir besti
og barnavinur mesti,
æ, breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.
Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái að spilla.
Það ætíð sé mín iðja
að elska þig og biðja,
þín lífsins orð að læra
og lofgjörð þér að færa.
Þín umsjón æ mér hlífi
í öllu mínu lífi,
þín líknarhönd mig leiði
og lífsins veginn greiði.
Mig styrk í stríði nauða,
æ, styrk þú mig í dauða.
Þitt lífsins ljósið bjarta
þá ljómi í mínu hjarta.
Með blíðum barnarómi
mitt bænakvak svo hljómi:
Þitt gott barn gef ég veri
og góðan ávöxt beri.
Það virtist að bænin sem amma reyndi að innprenta mér í bernsku bæri ekki tilætlaða árangur. Á yngri árum voru mínir óknyttir margir og þegar kom fram á unglingsárin tengdust þeir yfirleitt óstjórnlegri brennivínsdrykkju. Oft vaknaði ég upp í tukthúsinu á Egilsstöðum eftir næturdvöl án þess að hafa hugmynd um hvers vegna. Tvisvar fékk ég skilyrðisbundna dóma, og dómsáttum sem lauk með sekt hef ég ekki tölu á.
Eitt skiptið eftir óknytti mína, sennilega 1978, komu amma og afi í heimsókn til foreldra minna. Ég var ekki nógu fljótur að láta mig hverfa. Amma náði mér á eintal, að venju skein gæskan úr andlitinu. Um stund hélt ég að hún hefði ekki frétt það sem væri á allra vitorði, en svo var ekki, hún vildi bara að ég vissi af því beint frá henni sjálfri að hún bæði fyrir mér, og sagði það með svip alvörunnar.
Skömmu eftir 17. júní 1983 var ég að vinna við múrverk í íþróttahúsinu á Egilsstöðum og datt aftur fyrir mig af ástandi þannig að hnakkinn skall fyrstur á steinsteypt gólfið. Þegar ég stóð upp, sem gerðist snarlega, var ekkert í höfðinu, ekki ein minning. Var þar að auki hvorki áttaður á stað né stund, þekkti ekki vinnufélagana, en var altalandi á íslensku sem ég notaði til að Guð sverja að allt væri í þessu fína.
Ég man eins og gerst hafi í gær hvað það var mikið hjartans mál að engin kæmist að því allt hefði þurrkast út af harða diskinum. Benni heitinn Jónasar, múrarameistarinn minn, sem ég þekkti ekki baun þá stundina, spurði hvort ég vildi ekki taka því rólega sem eftir væri dags sem mér fannst ekki ólíklegt að eðlilegt væri að svara játandi.
Benni keyrði mig svo heim að garðhliði í götu sem ég þekkti ekki, en vissi að ætlast var til að ég færi inn um húsdyrnar innan við hliðið. Þegar ég kom inn settist ég í fyrsta sætið sem ég sá, pabbi vildi vita hvers vegna ég kæmi svona snemma heim en fékk svar út í hött. Enda kannaðist ég hvorki við manninn né tvö yngstu systkini mín sem enn voru í föðurhúsum. Annað slagið þegar lítið bar á fór ég út í glugga til að horfa út ef það kynni að verða til þess að sjá eitthvað kunnuglegt.
Eftir að pabbi hafði farið út í íþróttahús, og spurt Benna hvers vegna ég hefði komið heim, ákvað hann að fá mig með sér út á sjúkrahús. Læknirinn sem skoðaði mig var þáverandi Borgarlæknir sem leysti af á Egilsstöðum tímabundið. Hann spurði pabba hvernig hann hefði komist að því að ekkert væri í kollinum á mér, því þegar svona gerðist væru þeir sem fyrir því yrðu líklegastir til að fela það með öllum tiltækum ráðum.
Pabbi sagðist hafa séð að persónuleikinn var horfinn, það hefði lítið minnt á elsta son hans í manninum sem kom inn úr dyrunum allt of snemma heim úr vinnunni. Læknirinn sagði að högg á hnakka gæti hitt á minnisstöð með þeim afleiðingum að hún þurrkaðist út tímabundið en minnið ætti allt eftir að koma til baka á innan við sólarhring, sem stóðst nákvæmlega eftir því sem ég best veit. En ég var svo á sjúkrahúsinu í tæpan sólahring til öryggis.
Amma hafði komið þennan sama dag á sjúkrahúsið vegna lasleika í höfði. Þarna hittumst við og horfðum út um suðurglugga og virtum fyrir okkur útsýnið inn Héraðið horfandi yfir nýhafnar byggingarframkvæmdir öldrunardeildar við sjúkrahúsið. Ekki datt mér í hug þá að amma hefði farið að heiman í síðasta sinn og ætti ekki afturkvæmt vegna minnisleysis, svo skýrar voru samræður okkar um það sem fyrir augu bar út um gluggann. Amma var fimm síðustu ár ævinnar á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum. Um þá dvöl hafði séra Ágúst Sigurðsson þessi orð í minningagrein um ömmu.
"Frú Björg var að öllu á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum og óvíst að ætla til hvers hún náði umhverfis. Var hún milli heims og helju, sem kallað er, farin að líkamsheilsu og næstum á burt úr þessum heimi. Hin afar fíngerða kona hafði verið sterk í miklum og endurteknum sjúkdómsáföllum fyrr á árum. Nú um megn fram, er kjarkurinn og þolgæðið, lífsviljinn og þakkarhugurinn á hinu langa hausti aftraði henni að skiljast við. Frú Björgu voru báðir heimar jafn kærir. Og hún átti himinvonina góðu. Langt fram yfir hin lengstu lög lífgaðist hljóður hugur orðlausrar líkamsveru við jarðlífsminnin ljúfu. Og Magnús kom til hennar upp á hvern dag. Það var nóg."
Séra Ágúst minnist á daglegar heimsóknir afa þau ár sem hún dvaldi á sjúkrahúsinu, en hjá henni sat hann ávalt góða stund. Dóttir mín hefur unnið á öldrunardeildinni og síðar hjúkrunarheimilinu á Egilsstöðum. Hún segir að enn sé talað um tryggð afa og ömmu 35 árum eftir brottför hennar. Ég heimsótti ömmu aðeins einu sinni á sjúkrahúsið og fannst amma ekki vera þar, en daginn sem amma dó þá kom hún í óvænta heimsókn til mín.
Haustið 1988 þann 20. október var ég að vinna við múrverk í nýja íbúðarhúsinu fyrir Kristján á Teigarhorni. Í kringum kl. 11 um morguninn var mér allt í einu hugsað til ömmu og sá ljómandi brosið hennar birtist mér fyrir hugskotssjónum. Ég hugsaði ekki frekar út í það þá um morguninn en amma hafði verið á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum frá því 1983 svo að segja út úr þessum heimi.
Eins og ég sagði hér að ofan hafði ég aðeins einu sinni, vorið 1984 áður en ég fór til Færeyja til að vinna hjá Jörgen heitnum Kyster múrarameistara í Þórshöfn, heimsótti ömmu á sjúkrahúsið. Ég hafði verið á sjó og síðan í Reykjavík frá því ég hitti ömmu óvænt á sjúkrahúsinu sumarið áður, ástand hennar snerti mig þá það djúpt að ég treysti mér ekki til að heimsækja hana aftur. En þarna á góðviðris haustmorgni inn á Teigarhorni, öllum þessum árum seinna fékk hún mig til að minnast brossins síns.
Eftir að hafa farið í hádegismat í Sólhól til Matthildar minnar og barnanna okkar, sem þá voru innan við eins árs, fór ég aftur inn í Teigarhorn til vinnu. Upp úr klukkan eitt kom Matthildur keyrandi inn eftir og sagði að afi hefði hringt rétt eftir að ég fór úr mat og sagt að amma væri dáin. Hún hafði skilið við um morguninn, -á sömu stundu og ég sá brosið hennar ljóma.
Dægurmál | Breytt 22.1.2023 kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)