Beta frænka borin til grafar

Það hefur varla verið um annað rætt síðustu dagana en að Elísabet drottning sé öll, -og keppast fjölmiðlar við að gera arfleið hennar skil. Það verður seint sagt um Elísabetu að hún hafi verið femínisti, eins og merkingin er lögð í það orð. Hún var merkisberi þess kveneðlis sem ekki villir á sér heimildir, -og fór með hið raunverulega vald feðraveldisins.

Íslendingasögurnar eru einstakur menningararfur sem geima vel ættartengsl Íslendinga við bresku konungsfjölskylduna. Sennilega má segja sem svo að flestir Íslendingar, allavega samkvæmt gömlu goðgánni, geti rakið ættir sínar saman við kóngafólkið.

"Bróðir Hrólfs, sem fór til Íslands, þegar Hrólfur fór í Normandí, ...stofnaði í því vindbarða landi þjóðfélag fræðimanna og afburðargarpa": -sagði Breski rithöfundurinn og fornleifafræðingurinn Adam Rutherford, í bókinni Hin mikla arfleið Íslands, sem út kom í Englandi árið 1937.

"Þessir menn urðu, þegar stundir liðu, höfundar eins hins merkilegasta þjóðveldis, sem nokkurn tíma til hefur verið, með einstæðri höfðingjastjórn, og þar þróuðust á eðlilegan hátt bókmenntir slíkar, að aðrar hafa aldrei ágætari verið. Í því landi, þar sem engar voru erlendar venjur eða áhrif til að hindra það, blómgaðist norrænt eðli og andi til fullkomnunar": -hélt Rutherford áfram.

Þarna er m.a. verið að skírskota til sona Rögnvaldar Mærajarls. Þeirra Göngu-Hrólfs forföður Normandí Normanna, sem unnu orrustuna um England við Hastings árið 1066 og breska konungsættin er rakin til, -og landnámsmannsins Hrollaugs sem nam Hornafjörð og Suðursveit.

Vilhjálmur bastarður sá sem fór fyrri Normönnum í orrustunni við Heistings 1066 varð fyrsti konungur núverandi konungsættar.

Átti hann að forfeðratali ætt að rekja til Göngu-Hrólfs Rögnvaldssonar bróður Hrollaugs í Hornafirði.

Tengslin eru reyndar mun nánari því í landnáms föruneyti Auðar Djúpúðgu var Kaðlín dóttir Hrólfs Rögnvaldssonar.

Það eru þau Kaðlín og Hrollaugur sem flestir Íslendingar geta rakið ætt til og fræðst um  með því í að glugga í Íslendingasögurnar, sem eru þær bókmenntir að aðrar hafa aldrei ágætari verið, að mati Adams Ruterfords.

Það er vegna hins einstaka íslenska bókmenntarfs, sem við getum farið inn á Íslendingabók erfðagreiningar, og séð að í dag er Beta frænka borin til grafar.


Borg óttans

Reykjavík er stundum kölluð borg óttans og kannski ekki að ástæðulausu. Jafnframt hefur því heyrst fleygt að suðvestur hornið allt sé kallað landráðaskagi af landsbyggðarlýðnum. Það breytir samt ekki því að Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga og fæðingabær síðuhafa.

Ég fór til Reykjavíkur s.l. sunnudag. Flaug suður til að fara í þræðingu á Hjartagátt Landspítalans eldsnemma á mánudagsmorgunn. Fékk gistingu í Barmahliðinni hjá Dagbjörtu systir sem hringdi í Áskel bróðir og boðaða að hann yrði heimsóttur á sunnudagskvöldið af sér og okkur Sindra bróðir.

Guðjón mágur keyrði upp í Grafarvoginn og á þeirri leið varð mér hugsað hvað ég hefði oft keyrt þessa leið þau fjögur ár sem við Matthildur bjuggum í Grafarvoginum. Breytingarnar á Grafarvogi eru ekki miklar á 20 árum, helst að trén hefðu stækkað og gróðurinn virtist suðrænni.

Morguninn eftir keyrði Guðjón mér á Landspítalann við Eiríksgötu þar sem ég var þræddur. Þessi þræðing var ákveðin í byrjun júní og ég búin að vera með undanbrögð í allt sumar, sem ég tímdi ekki að eyða degi af í leiðindi.

Meðan ég lá á gáttinni bíðandi eftir að slagæðin lokaðist, sem voru um 4-5 klukkutímar, varð mér hugsað til þess, gónandi upp í loftið á rafmagnsljósin, að á horninu hinu megin við götuna hefði verið klippt á naflastrenginn fyrri öllum þessum árum síðan, enda hafði ég um ekkert að hugsa snjall tæknilaus maðurinn og búin að drepa á mínum gsm læstum inn í skáp.

Dagbjört systir kom svo og sótti mig og þegar við komum í Barmahlíðina ákváðum við að ganga út á Klambratún í Kjarvalstaði og skoða portrettin hans Kjarvals. Mér þóttu Borgfirðingarnir, nágrannar mínir að austan bestir og fannst þekkja hvern andlitsdrátt.

Ein af stóru myndunum var af fjórum mönnum stöddum í Hjaltastaðaþinghá í svífandi umhverfi með Selfljótinu og Dyrfjöllunum séðum frá Kjarvalshvamminum. Þeirri mynd snaraði Kjarval á striga í geðshræringu þegar honum var færður Gullmávurinn að gjöf, norskan Norlending, seglbát sem Kjarval sigldi einn niður Selfljótið út á Héraðsflóann og þokuna áður en hann kom inn á Borgarfjörð.

Þá var Kjarval 71 árs siglinga tækjalaus og óreyndur siglingamaður en ekki brást honum ratvísin heim í þokunni. Spurning hvernig menn hefðu sig í gegnum þetta snjalltækjalausir í dag þegar gps og kort eru komin í hvert snjallúr og síma.

Á þriðjudagsmorgunninn fór Dagbjört með mér á rölt um Reykjavík. Við keyrðum upp á Skólavörðuholt og löbbuðum niður Skólavörðustíginn niður í gömlu Reykjavík sem var orðin gjörbreytt neðan við Lækjargötu frá því ég kom þar síðast.

Ég get nú ekki sagt sem svo að ég hafi beint veri imponeraður af nýju Reykjavík þó svo að steinsteypan hafi fengið að njóta sín á stöku stað í því H&M Kalverstraat, þá minnti það meira á Sovéskan supermarkað. Túrista vaðallinn hafði velst um allar götur, en þarna brá svo við að ekki var hræðu að sjá innan um heimsklassa herlegheitin.

Á Austurstræti streymdi túristavaðalinn og hægt var að fylgja straumnum upp á Skólavörðuholtið aftur þar sem markmið ferðarinnar var fullkomnað með því að skoða Listasafn Einars Jónssonar. Það safn hafði ég aldrei skoðað og varð dolfallinn.

Dagbjört keyrði mér svo út á Reykjavíkurflugvöll. Það má því segja að ferðin í borg óttans sem ég hafði forðast í allt sumar hafi endað sem menningartengd borgarferð.

IMG_5203

Kjarval engum líkur í sinni fjölbreytilegu litadýrð

 

IMG_5210

Íslenskt handverk á boðstólum í gamalli steypu

 

IMG_5215

Gimli í Lækjarbrekku, húsið sem ég vann síðast við múrviðgerðir í Reykjavík, en ég var svo heppin að vinna mikið í gömlu Reykjavík þegar við bjuggum í Grafarvogi 

 

IMG_5218

Nýja Reykjavík

 

IMG_5226

Sovéskur súpermarkaður?

 

IMG_5237

Meir að segja skatturinn er farinn, en myndin hennar Gerðar Helgadóttur stendur fyrir sínu

 

IMG_5241

Eftirsóttasta hornið heitir ekki lengur Kaffi París, nú heitir það Dukc & Rose

 

IMG_5246

Hressó stendur vaktina

 

IMG_5249

Lækjarbrekka án lambasteikur

 

IMG_5250

Skólavörðustígur og glóballinn

 

IMG_5251

Ferðamenn í haustlitum

 

IMG_5254

Ísland í dag

 

IMG_5256

Skólavörðuholt 

 

IMG_5270

Slakað á garðinum á bak við Listasafn Einars Jónssonar

 

IMG_5282

Sjá má grilla í hrjóstrugt Skólavörðuholtið í allri hnattrænu hlýnuninni

 

IMG_5289 - Copy

Útlaginn hans Einars Jónssonar, mitt upp á hald

 

IMG_5333

En má sjá gömlu litfríðu Reykjavík líkt og rigningarskúri á stöku stað


Á gólfinu

Sláturhúsið

Það er sjaldnast svo að allri viti hvað hefur gengið á áður en gengið er um gólf. Þess lags gjörningi má líkja við orrustu, því gólf sem gott er að ganga á eru ekki gerð meðan óviðkomandi eru að þvælast um á svæðinu. Fyrir það fyrsta þarf að ná óvefengjanlegum yfirráðum áður en hafist er handa ef ekki á allt að fara í handaskolum.

Gólf eru venjulegast þannig að þeim er ekki veitt eftirtekt nema eitthvað hafi farið aflaga og þannig á það oftast að vera. Þess vegna eru aðeins mest áríðandi upplýsingar settar á gólf s.s. biðraðagirðingar, tveggja metra regla og gular línur, -merkingar fyrir hauslausar hænur.

Síðuhöfundur hefur fengist við gólf stóran hluta starfsævinnar og þá ekki bara að steypa þau, sem er náttúrulega skemmtilegast, -þannig gjörningur er nokkurskonar algleymi. Steypan flæðir og allir á tánum við strauja hana niður svo ekki verið úr gjörningnum óskapnaður sem myndi seinna vekja athygli.

Það þarf yfirleitt engar aðgangstakmarkanir þegar gólf eru steypt. Oftast nægir bara hávaðinn, hangandi gálgar með svífandi steypu auk röndóttra steypubíla, svo fólk haldi sig frá svæðinu. Enda hætt við að óviðkomandi stigju í gegnum járnagrindina og sykkju niður í steypudýið ef þau hætta sér út á þesskonar hamfarasvæði.

En þegar maður hefur steypt gólf, sem vekur enga athygli, er maður stundum fengin til að gera fleira eftir að steypan harðnar, og þar hefst stríðið. Um leið og komið er gólf á fjöldi manns tilveru sína á því komna, og ver sinn tilverurétt með kjafti og klóm.

Á um 15 ára tímabili fékkst ég aðallega við epoxy iðnaðargólf og þá m.a. fyrir fiskiðnað og matvælavinnslu. Þá vorum við vinnufélagarnir fengnir til viðhalds á gólfum vítt og breitt, og þá á fyrir fram ákveðnum tíma, oft sumarfríum og stórhátíðum eða nóttinni, svo röskun daglegrar starsemi yrði sem minnst.

Það var helst þegar verkefnin urðu þannig að aðrir voru á svæðinu að stríðsástand skapaðist og þá ekki síst þar sem aðrir iðnaðarmenn þurftu einnig að vinna sitt verk áður en gólfið færi í hefðbundna notkun. Þá var betra að vera með fullskipað lið ef ekki átti að fara illa.

Eitt sinn vorum við félagarnir fáliðaðir í Ísrael við nýbyggingu í svo kölluðu dairy og áttum í megnustu vandræðum með að verja okkar svæði, þurftum að marg semja okkur í gegnum gólfið. Samt sem áður þurfti hvað eftir annað að kasta stríðshanskanum enda hefur það gengið þannig til um aldir í landinu helga.

Umboðsmaðurinn okkar hét Israel, reyndi hann lengi að loka öllum aðkomuleiðum með járnbentum grindum í dyragötum, en rafvirkjar og annar óþjóðalýður klipptu sig í gegn með víraklippum. Þá mætti Israel til að ná nýjum samning eða gera við varnargrindurnar tuðandi fokcing cockroaches, sem var það eina sem við skildum í hebresku, meðan illskan skein út úr krókódílsaugunum.

Á sama tíma voru rússneskar krafta konur að þrífa hliðarsali við gang sem við vorum að lakka og komu fram með skolpið til losna við það í niðurföllin. Einn af okkur félögunum hljóp organdi fram og aftur ganginn til að stöðva eyðilegginguna, en þá birtist bara haus á annarri bullworker kellingu út um eitthvað dyragatið og svo skólpfata sem skvett var úr inn á ný lakkað gólfið.

Umboðsmaðurinn gafst upp og fór heim, en þá tók ekki betra við í pökkunar salnum. Færibönd sem komu í gegnum vegginn fóru að snúast og framleiðslulína verksmiðjunnar var prufukeyrð. Hundruð af opnum humus dósum streymdu á böndunum í gegnum vegginn og duttu fram af þeim í gólfið þar sem slettist úr þeim og humus haugar byrjuð að myndast eins og eldfjalla dyngjur.

Eftir að tókst að stoppa prufukeyrsluna fékk ég þær rússnesku til að hreinsa upp humusið, félagar mínir sem voru á bak við blindhorn urðu óðir þegar þeir komu fyrir hornið og sáu að þær rússnesku voru aftur komnar á okkar yfirráðasvæði. Ég þurfti að róa þá og segja þeim að dömurnar væru nú á mínum vegum og ef við fengjum þær ekki í lið með okkur væri orrustan  endanlega töpuð.

Já það getur verið betra að vera vel liðaður í stríði þó þar sé bara um gólfsnepil að ræða. Oftar en ekki var það svo í íslensku frystihúsunum að vélamennirnir sögðu við okkur vinnufélagana; “mikið verðum við fegnir þegar þið verðið farnir”.

En það var nú reyndar ekki svona gólf sem ég ætlaði að skrifa um núna, heldur gólf sem eru gerð án fyrirheits, hafa enga ákveðna fyrirmynd eða tilgang eru svona nokkurskonar happening. Þannig gólf veita oft mikla ánægju, af því þar er maður svo til sjálfráður. Hlaupi yfir þannig gólf hundur eða köttur og skilji eftir spor, þá er þau bara hluti af gjörningnum.

Við félagarnir vorum að vinna við svoleiðis gólf af og til frá áramótum allt til ágústloka. Þetta gólf er í Sláturhúsinu - Menningarmiðstöðinni á Egilsstöðum. Í ár voru akkúrat 30 ár liðin frá því að við félagarnir frá Djúpavogi lögðum epoxy gólf á sláturhús Kaupfélags Héraðsbúa sáluga, -þegar það gekk í endurnýjun lífdaga sem stórgripasláturhús og kjötvinnsla. 

Núna 30 árum seinna dunduðum við vinnufélagarnir okkur við að steypa upp í niðurföll og afmá vatnshalla og misfellur, flotuðum síðan gólfið og lökkuðum í sátt við guð og menn. Þetta gólf átti að vera það lit- og látlaust að það tæki enga athygli frá því sem sýnt yrði á veggjum sýningarsala Menningarmiðstöðvarinnar. En viti menn, -á opnunarsýningunni um síðustu helgi voru myndlistin höfð á gólfinu.

 

Ps. í sláturhúsinu rifjuðust upp mörg dund gólf í gegnum tíðina og set ég hér inn myndir af nokkrum þeirra.

 

IMG_2994

Gólf eru alltaf að verða flóknari og þar af leiðandi fleiri fagmenn sem koma að gerð þeirra, helgast það af því að lagnir fyrir hitakerfi og rafmagn eru í síauknum mæli komið fyrir í gólfum. Því getur þurft að steypa sama gólfið allt að þrisvar sinnum

 

IMG_0972

Gólfið á þessari mynd er í veitingasal baðstaðarins Vök og er steinsteypa í sinni tærustu mynd

 

IMG_2629

Stigahús í blokkinni, flotað og lakkað, flísalagðir blettir á stigapöllum til að brjóta upp flotið

 

IMG_0025

Tilraunagólf frá því á síðustu öld flotað með lituðu sementsfloti og lakkað. Veitingastaðir voru oftast reiðubúnastir í tilraunir

 

Scan_20220714 (14)

Flotuð, lituð og lökkuð stofugólf. Félagi minn í steypunni fékk mig einu sinni til að hjálpa sér við að flota og lakka stofugólf heima hjá honum. þannig ætlaði hann að hafa gólfið þangað til hann fyndi tíma til flísaleggja það, gólfið mistókst að mestu að okkar mati, enda töldum við okkur það færa að geta unnið tveir 3-4 manna verk. Tveimur árum seinna sagði hann mér að hann væri kominn í veruleg vandræði vegna gólfsins, konan fengist ekki með nokkru móti til að samþykka flísar, það kæmi ekki til greina annað en hafa flotið áfram

 

IMG_0015

Þetta gólf er stimpluð steypa, gert til bráðabyrgða fyrir hana Matthildi mína. Þegar við seldum húsið var ekki enn búið að gera neitt fyrir gólfið og ég frétti að svo hefði ekki verið 20 árum eftir að við fluttum úr því

 

IMG_1509

Kaffistofu gólf sem var flotað og lakkað fyrir hátt í 20 árum. Svo vildi til að fyrirtækið sem ég vinn hjá keypti húsnæðið 12 árum eftir að við félagarnir gerðum þetta gólf. Stundum heyrði maður undrast yfir því hvernig svona stórum flísum hefði verið komið á gólfið. En þetta gólf er flotað og lakkað, fúgur skornar í það með steinskífu. Gólfið var tilraun og varð allt öðruvísi útlits en til stóð

 

IMG_3721

Vök-Bath við Urriðavatn er eins lókal og vera má, veggir, gólf og borðplötur steypt úr möl úr hinni fornu, , , horfnu Jöklu. Tréverk úr Héraðs lerki. Þak og veggir þaktir torfi að utan úr móunum í kring

 

IMG_5766

Það er nánast hægt að gera hvað sem er með floti, en það er nánast útilokað að lofa einhverri ákveðnu útliti. Endirinn verður alltaf óvæntur gjörningur, t.d. átti þetta gólf að vera grátóna - hvítt og svart taflborð, en varð nánast flösku grænt og hlandgult þegar það var glær lakkað

 

IMG_5131

Þegar Sláturhúsið-Menningarmiðstöð var opnað um síðustu helgi voru listakonurnar Ingunn Þóra Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir með sýninguna Hnikun, -sláturhús-þema. Þar mátti sjá blóðið renna um fornan vígvöll ofan í horfin niðurföll sláturhússins

 

Ps. nr 2 -til að enda þessa gólfa þvælu einhvern veginn þá set ég hérna inn video sem sýnir hvernig grundvöllur er lagður að íslensku gólfi. 


Fari það í rauðglóandi helvíti

Það hrynja öll þjóðleg gildi þegar auðræði og hórdómur ríða röftum, ekkert fær þann Darraðardans staðist ekki Alþingi frekar en Sódóma gamla testamentisins. Sú upplýsingaóreiða sem kemur frá fjölmiðlum þessi misserin er ætlað að ganga endanlega frá þjóðríkinu.

Óhamingja þjóðarinnar er og hefur verið innanlend græðgi og undirlægjuháttur við erlend áhrif. Í ríkasta landi heims virðumst við vera að komast á svipaðar slóðir með fullveldi lýðveldisins og þjóðveldið fyrir 750 árum síðan.

Fullveldið er haft af sofandi þjóð með landráðum. Flotið er að feigðarósi í allsnægtum. Augunum lokað fyrir þeirri staðreynd að gullaldir okkar voru á tímum þjóðveldis og lýðveldis í fullveldi. Þar á milli volæði.

Lítil von virðist til að landsmenn vakni til vitundar í allri hjarðhegðuninni, með gulrótina fyrir augunum og kolefnissporið strókandi aftan úr rassgatinu. Helst að landinn hafi áhyggjur af sóðaskapnum þegar hann fréttir af fyrirhuguðum þungaflutningum fósturjarðarinnar til skips fram hjá stofuglugganum.

Einn ganginn enn er búið að upphefja erlenda fjárfestingu til skýjanna, þó að engin von sé til þess að glópagullið gagnist landsmönnum frekar en fyrri daginn. Ráðamenn skríða fyrir glóbalnum og framselja vald sem þeir hafa ekki, sem eru hrein og bein landráð.

Á tímum Carbfix og Mílu á að auka óskapnaðinn með hamfarórækt í formi skóræktar á erlendum styrkjum, með vindmyllu ökrunum yfirgnæfandi til lands og sjávar. Á meðan innfluttur Blóðþorrinn svamlar helsjúkur fyrir framan nefið á okkur í fjörðunum.

Í upphafi Úlfljótslaga er sagt frá landvættunum “sigl eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu svo að landvættir fælist við” -erlent vald hefur aldrei náð fótfestu á Íslandi nema með landráðum og þau hafa hingað til hefnt sín grimmilega.

Landvættir hafa varið fullveldi þjóðarinnar þegar hún hefur farið fram á það. Er þar skemmst að minnast Eyjafjallajökuls sem spúði eimyrju yfir fjendur okkar sem beittu hryðjuverkalögum og viðskiptaþvingunum.

Flissandi fábjánar í Davos dúkkulísudrögtum láta nú viðgangast að fósturjörðin sé seld í bókstaflegri merkingu til erlendra auðróna, og verði flutt úr landi í skiptum fyrir niðurdælanlegan sóðaskap á carbfix nýsköpunarstyrkjum úr ranni ESB.

Engan þarf að undra að leitað sé nú fornra gilda, á náðir vætta landsins, um að koma náhirðinni svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvíti. Fátt er orðið um annað að ræða en ákalla landvætti og biðja Guð um að blessa Ísland.


Blokkin

Útgarður 2

Einu sinni voru húsin stór og trén það smá að beðið var í eftirvæntingu eftir að þau stækkuðu svo skjól yrði í kringum húsin. Nú má segja að öldin sé önnur á Íslandi og ef fer sem horfir þá munu byggðir landsins smá saman hverfa í hamfaraórækt. Annars var ekki meiningin að setja saman pistil um timbur heldur steypu. Fyrsta blokkin á Egilsstöðum á nefnilega hálfrar aldar afmæli á þessu ári, þ.e.a.s. ef notast er við byggingaárið 1972, sem skráð er á fasteignaskrá, en bygging blokkarinnar hófst 1971.

Blokkin var lengi vel ekki kölluð annað en blokkin eða allt þar til að annað eins hús var byggt á sömu hæð nokkrum árum seinna, þá voru þær kallaðar annaðhvort rauða eða bláa blokkin. Nú er rauða blokkin blá og bláa blokkin græn og heita Útgarður 6 og 7. Það var ekkert smá mál að ráðast í byggingu blokkar í litlu sveitaþorpi eins og Egilsstaðir voru upp úr 1970.

Það var byggingafélagið Brúnás sem stóð í stórræðunum, yfirsmiður var Þórhallur Eyjólfsson. Að byggja 16 íbúða blokk í nokkur hundruð manna sveitahreppi var því stórhuga framkvæmd. Útgarður 6 er steinsteypt í hólf og gólf úr Hólsmöl, sem er ættuð úr Jöklu, utan úr Hjaltastaðaþinghá. Þeir veggir sem ekki eru staðsteyptir eru hlaðnir úr vikursteini og múrhúðaðir.

Þetta var byggingamáti þessa tíma, innlend byggingarefni og handverk í hvívetna, flest annað en innflutt ósamsett gler, trjáviður, og auðvitað þakjárn -sem þurfti að flytja inn í trjálaust landið. Blokkin á sér margar systurblokkir á Íslandi s.s. á Akureyri og Keflavík og vafalaust var víðar notast var við sömu teikningu.

Þegar ég flutti aftur í Egilsstaði 2004 keyptum við íbúð í blokkinni, þá sagði mér Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur og rithöfundur með fleiru, -sú sem átti íbúðina, að hún hefði komist að því að hreppsnefndarmenn á Egilsstöðum hefðu verið vel meðvitaðir um að blokkin yrði byggð á besta stað í bænum. Þeim hefði þótt rétt að sem flestir gætu notið útsýnisins, -og í blokkinni væru flestir íbúar eins og kóngar í ríki sínu sem horfðu út yfir byggðir Héraðsins.

Undanfarin 18 ár höfum við Matthildur mín átt heima í Útgarði 6. Útsýnið úr gluggunum spannar allt Héraðið og gott betur. Héðan úr gluggunum má sjá inn eftir Fljótinu allt inn í Snæfell, -hæsta fjall utan jökla á Íslandi. Fljótsdalinn, Fellin, norður í Heiðarenda, Jökulsárhlíðina með sínum líparítgulu strandfjöllum, norður Tunguna eftir Lagarfljóti þar sem það mætir bláma Héraðsflóans, Eiðaþinghána, austurfjöllin með Beinageitina gægjast undan Fjarðarheiðarendanum, Gagnheiði, Tungufell og Skagafelli, mynni Fagradals, Rauðshauginn, Höttinn og Sandfellið, Skriðdalinn og Geitdalinn með Þingmúlann á milli, síðan Hallormstaðahálsinn inn af Völlunum.

Reyndar hef ég stundum lýst þessu útsýni fyrir ókunnugum og þá tíundað að auk alls þessa sjái ég yfir Öxi alla leið niður á Djúpavog auk þess sem ég sjái ofan í Seyðisfjörð, Mjóafjörð og Reyðarfjörð, en þá vill það koma fyrir að fólk segir ; „jæja, nú lýgurðu". En það er ekki bara að ég sjái lengra nefi mínu úr Útgarðinum heldur sé ég fyrstur manna blikur á lofti og fáa staði veit ég betri til að fylgjast með skýjunum fara yfir himininn.

Í seinni tíð hefur trjágróðurinn byrgt á útsýnið niður á göturnar og þar sem gamla þorpið er, er orðið eins og að horfa yfir frumskóg, en flest kemur svo aftur í ljós þegar trén fella laufið á haustin. En það breytir ekki því að aðeins einn staður á Héraði hefur svipað víðsýni, það er í turninum á Egilsstaðakirkju, sem stendur á Gálgaásnum næsta kletti innan við Útgarðinn.

Þegar við Matthildur mín fluttum úr Laufenginu, innan við sundin blá, austur í Útgarðinn lofaði ég henni því að dvölin í Útgarðinum yrði stutt, að ég myndi byggja fyrir hana hús þegar við værum búin að koma okkar hafurtaski austur, hviss bang. Hún hafði það á hreinu að úti á landi væri ekki ástæða til að klifra upp á vindgnauðandi hæðir þar sem fólki væri staflað upp í loftið þegar nóg væri af skjólgóðum trjálundum.

Þetta hafði komið til tals inna stórfjölskyldunnar áður en ákvörðun lá fyrir svo að öllum væri ljóst að um eiðstaf væri að ræða. Mágur minn var fljótur að taka minn málstað varðandi þessa tímabundnu búsetu í Útgarðs blokkinni, þegar ég sagðist vissulega byggja hús þegar tími gæfist til, -hann sagði; „þú verður nú ekki lengi að henda upp húsi, varstu nokkuð nema 10 ár að því síðast?“ Matthildur mín er fyrir löngu hætt að tala um að flytja úr blokkinni, segist ekki tíma að missa útsýnið.

Eins og flestir vita þá standa Egilsstaðir í miðri sveit og fátt sem gerði þéttbýli mögulegt annað enn krossgötur og flugvöllur. Klettahæðin sem Útgarðs blokkin stendur á hét áður en nokkuð hús var reist á Egilsstöðum, því búsældarlega nafni Stekkás samkvæmt Egilsstaðabók. Í mínum uppvexti var svæðið oftast kallað Búbót þó svo að Útgarður hafi verið þá orðið hið formlega nafn. “Á hverju ætlar það að lifa” á Snæbjörn ömmubróðir minn í Geitdal að hafa spurt þegar þorp fór að myndast á Egilsstöðum.

Þéttbýli byrjaði að myndast eftir að sjúkrahús hafði verið flutt úr Fljótsdal eftir bruna á Brekku, -byggt á Egilsstöðum 1944. Á fyrstu árunum var þorpið oft kallað Gálgaás eftir ásnum sem það var byggt sunnan undir. Veturinn 1951–52 stofnuðu flestir heimilisfeður í Egilsstaðakauptúni með sér samvinnufélag, og var tilgangur þess að koma upp kúabúi og framleiða nauðsynlega neyslumjólk fyrir þorpsbúa. Vandræði höfðu orðið á því þennan vetur að útvega mjólk. Félagið skírðu þeir Búbót.

Framkvæmdahraði var mikill hjá þessu nýja félagi. Land var fengið og réttindi til nýbýlisstofnunar á því samþykkt af Landnámi ríkisins. Bústjóri var ráðinn, Björgvin Hrólfsson, -búfræðingur frá Hallbjarnarstöðum og frumbyggi í þorpinu. Strax um vorið 1952 hófust framkvæmdir. Byggt var fjós yfir 21 fullorðinn grip, þurrheyshlað 325 m3 að stærð og votheysturnar 2 samtals 144 m3. Auk þess mjólkurhús. Húsunum var valin staður framan í hæðinni utan við Gálgaklett.

Síðari hluta árs 1953 hætti Björgvin ráðsmannsstarfinu, en við tók Metúsalem Ólason frá Þingmúla og hafði það með höndum þar til búið var selt vorið 1956 Ólafi Sigurðssyni frá Bæjum á Snæfjallaströnd, en hann hafði þá búið á Miðhúsum nokkur ár. Búbótarfélagið var jafnframt lagt niður.

Árið 1956 eru hinar upphaflegu forsendur gjörbreyttar og eru þá Ólafi Sigurðssyni seldar eignir Búbótarfélagsins og félaginu slitið. Ólafur, sem oftast var kallaður Óli í Búbót, bjó á jörðinni í 10 ár og byggði á henni íbúðarhúsið Útgarð sem seinna varð nafngjafi fyrstu fjölbýlishúsagötu Egilsstaða þar á hæðinni. Vernharður Vilhjálmsson frá Möðrudal nytjaði jörðina eftir að Ólafur hætti búskap 1966.

Árið 1969 keypti Egilsstaðahreppur öll mannvirki á jörðinni en landið rann aftur til ríkisins. Ég spurði þá bræður Eyþór og Sigurð syni Óla hvort Útgarður væri goðsögulegt nafn, þeir sögðu báðir svo ekki vera pabbi þeirra hefði skýrt húsið Útgarð vegna þess að það hefði þá verið svo langt fyrir utan þorpið.

Á árunum 1970 – 1980 var ævintýraleg uppbygging við Útgarð og á landi Búbótar. Túnin urðu á svipstundu alsett húsum þar sem nú eru götunöfnin með völlum og tröðum. Menntaskóli var byggður á milli Útgarðs og Gálgaáss, þar sem reis Egilsstaðakirkja. Íþróttahús og sundlaug austan við Útgarðinn, rétt við skólann og menntaskólann.

Breytingarnar á hálfri öld hafa verið ótrúlegar og trén, sem kúrðu sunnan undir vegg við einstaka hús, hafa vaxið tugi metra upp fyrir húsin. Íbúar eru fyrir löngu hættir að bryðja  moldarrykið, sem rauk af götunum í suðvestan strekkinginum á heitum sumardögum, og geta nú gengið hnarreistir um göturnar í blíðalogni og hlustað laufvinda ljúfa hvísla í trjátoppunum.

Vilhjálmsvöllur 1973

Myndina tók ég 17. júní 1973, þá var Útgarðsblokkin nýlega komin í notkun, íbúðarhúsið Útgarður er vinstra megin við Blokkina og Búbótar fjósið fyrir framan blokkina

Vilhjálmsvöllur 2022

Myndin er tekin við Vilhjálmsvöll, á nákvæmlega sama stað og efri myndin, fyrir nokkrum dögum síðan

 

Búbót 1

Búbót áður en blokkin var byggð á hæðinni fyrir aftan sem mun hafa heitið Stekkás samkvæmt Egilsstaðabók. Búbót var brotin niður árið 1978 en síðustu árin höfðu hestamenn þar aðstöðu

Búbót 2

Mynd frá sama stað og efri myndin af Búbót, austurendi blokkarinnar gægist á milli trjánna. Fyrir tveimur árum var grafinn rafstrengur að rafbílahleðslustöðvum, sem eru við græn bílastæði Menntaskólans, ég kíkti ofan í skurðinn og viti menn blöstu þá ekki við veggjabrot úr Búbót

 

Útgarður 1

Enn má sjá klappir gægjast upp úr, inna á milli trjánna norðan við blokkinni á þeim gróðurlausu klettahrjóstrum sem hún var upphaflega byggð á 


Ótroðin slóð

Þó ég hafi tapað fleiri orrustum í gegnum tíðina en tölu verður á komið þá hef ég ekki enn tapað stríðinu stóra. Þó að stríðsreksturinn hafi kostað að ég sé kominn það langt upp í afdalinn að síðasti bærinn sé horfinn og einungis sjáist í heiðið blátt, -þá trúi ég á sigur.

Í heiðríkju barnsálarinnar veit ég að tveir plús tveir þurfi ekki að vera fjórir frekar en mér sýnist. Sú útkoma er samkomulag breyskra manna, rétt eins og verðtryggðir tíu, -óraunverulegri en alda sem rísa á grunnsævi áður en hún brotnar í grýttri fjöru.

Sigurinn er og verður meistarans, "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?" -rétt eins og genginn suðafjárbóndi veit ég að hvorki gagnast aurar né dýr skítadreifari á meðal fugla himinsins.

 


Sama gamla tuggan

Nú hefur Seðlabankinn skitið á sig einn ganginn enn og styttist í að fnykinn leggi um land allt.

Viðundrin þar á bæ hræra í soppunni, þvæla um hagvöxt og vendipunkta, -hækka svo vexti. Verðbólga og lækkandi gengi er árangurinn, -Jóni og Gunnu til stórtjóns. Gengi, sem viðundrin hafa verið að fikta í, svo sérvaldir auðrónarnir fái meira fyrir sitt innanlands til að flytja aflands.

Það er ekki heil brú í kjaftavaðlinum ef litið er til verðbólgu markmiða Seðlabankans. Ef svo væri þá ættu viðundrin að segja sig frá milljónunum sínum á mánuði ásamt öllum þeim flissandi fábjánum sem raðað hafa sér á jötuna.

Ef hagvöxtur innmúraðs sértrúarsafnaðar er málið þá getur hver sem er fixað svoleiðis með því að keyra upp verðbólgu, hækka vexti og auka skatta, -bara spurning hverjir fá að tilheyra klaninu.

En það þarf ekki mann með meðal minni til að muna hvert þessi aðferðafræði leiðir.


Fjósið

Það voru mistök þegar Íslendingar yfirgáfu torbæina og tóku steypuna í þjónustu sína að sameina ekki kosti þessara tveggja innlendu byggingarefna, -byggja steinsteypt hús og einangra þau að utan með torfi. Þannig hefðu orðið til umhverfisvæn, hlý og viðhaldslítil hús, einstök á heimsvísu rétt eins og torfbærinn.

Fyrir stuttu var auglýst til sölu eitt af stórvirkjum til sveita frá árdaga síðustu aldar, byggt úr steinsteypu fyrir rúmum hundrað árum síðan. Um þessa framkvæmd skrifaði ég pistil og setti hér inn fyrir tæpu ári síðan undir heitinu Herragarðurinn.

Mér var húsið hugleikið vegna þess að þarna bjuggu amma mín og afi lungann úr sinni ævi. Þegar hús og jörð var auglýst til sölu fyrir stuttu sá ég á meðfylgjandi myndum gamla fjósið þeirra afa og ömmu frá nýju sjónarhorni.

Það var ekki hluti af upphaflegum byggingum. Fjósið hafði verið byggt við stríðasárabragga í skyndi eftir að foktjón varð á upphaflegu fjósi. Myndin af fjósinu er tekin með dróna og sést vel á henni hvernig fólk bjargaði sér til sveita þegar mikið lá við að koma bústofninum í skjól.

Þetta fjós stendur enn rúmri hálfri öld eftir að afi og amma hættu að nota það og um 70 árum eftir að það var byggt. Ég á bara góðar minningar úr þessu fjósi, af vinkonum sem höfðu þar sitt skjól.

Ein minning, sem lifir betur en aðrar, er sú þegar ég sótti beljurnar í haga, en þær voru yfirleitt ekki langt út á nesi. Einn morgunn sem oftar var ég sendur til að sækja kýrnar, þó ekki væri langt að fara, gat vegalengdin verið strembin í mýrlendum þúfnagangi fyrir 5-6 ára dreng.

Það var þá sem ein vinkonan tók það til bragðs að leggjast niður á framfæturna og bjóða snáðanum far. Þegar ég kom heim að fjósi hjá afa sat ég eins og höfðingi á hesti fyrir framan herðar einnar beljunnar. Þessi minning segir mér enn þann dag í dag hvað sterk tengsl geta myndast á milli barns og dýrs.

Búskapur afa og ömmu samanstóð af 7-8 kúm og einum tarfi, 150-200 kindum og hænum í hænsnakofa austan við fjósið. Tveir hestar voru þegar ég man, þau Gola og Tvistur, hundurinn hét Sámur. Stærri var nú bústofninn ekki og ég minnist ekki annars en allsnægta hjá ömmu og afa.

Jaðar 13

Fjósið, -dyrnar t.v. eru fjósdyrnar, t.h. er dyr í mjólkurhúsið þar sem brúsarnir voru í vatnsþró þangað til þeim var keyrt í veg fyrir mjólkurbílinn, -á brúsapallinn. Torf var upp að veggnum til vinstri en framhliðin var ekki klædd torfi. Myndin er fengin af vef fasteignasölu


Hof og hörgar

Það hefur varla farið fram hjá þeim sem aðhyllist vegtyllur þessa heims, hversu mikilvægt það er að tilheyra liði rétttrúnaðarins. Liðssöfnuðurinn kristallast í veraldarvafstri, pólitík, vísindum, trú á veiru og Úkraínu stríð á hinsegin, kynsegin dögum, -svo sitthvað sé talið. Það má segja að trúarbrögðin hafi lengi stundað þá íþrótt að skipa fólki í rétt lið og umbuna samkvæmt því, sama hvað það kostar. Enda ekki að ósekju að þau eru kölluð trúar-brögð.

Því hefur verið haldið fram á þessari síðu um nokkurt skeið að heimurinn, sem við samþykkjum, sé á hverfanda hveli. Einn ganginn enn sé komið að Völuspá að mæla fyrir yfirtöku nýrra trúarbragða í nafni rétttrúnaðar feminsima, -samhliða falli feðraveldisins, þjóðríkisins og kristinna gilda. Við taki hagvöxtur Mammons með sínar Davos dúkkulísur sem hofgyðjur.

Völvan sagði í sinni tölu “níu man ég heima” áður en hún spáði ragnarökum. Slík endalok heimsmyndar, er nú blasa við, hafa ekki orðið s.l. 2000 ár. Í lok Völuspár er lýst hinum nýja heimi dyggvra drótta. Þar sem ásamt þeim búa þeir Höður og Baldur Hrofts sigtóftir vel valtívar. Þá kná Hænir hlautvið kjósa og burir byggja bræðra tveggja vindheim víðan. Vituð þér enn eða hvað? -nokkurskonar hán transhumanistar í Gimlé þar sem gullið eitt lýsir upp heiminn og sólin sjálf orðin óþörf.

Landnámsmenn Íslands voru síðustu merkisberar heimsmyndar sem var forveri Kristindóms í vestrænni menningu. Eftir að hafa hrakist undan trúarbrögðum Rómarvaldsins, sem þá orðið voru kennd við Krist, frá Svartahafi norður alla Evrópu, endaði þetta fólk á Íslandi og átti um 200 ár án þess að þurfa að skipast í lið nýs rétttrúnaðar. Það var samt alls ekki svo að landnámsfólk, sem átti sína trú, þyrfti ekki líka að þola brögð hvað sína lífsýn varðaði í goðheimi þjóðveldisins.

Sögur er lúta að goðhelgi frá heiðni, þ.e. helgir staðir, eru oft í hamrabeltum og hengiflugum, s.s. goðaborgir í fjöllum. Fólk til forna hefur mátt leggja á sig harðræði og meinlæti til að þóknast goðunum og sanna trú sína, -ef þar eiga að hafa verið hof. Örnefnin segja nú mest um sögu þessara staða þó svo að þau sé aðeins eitt samsett orð. Þessi örnefni koma í stað skrásettra heimilda og geima munnmælin um hver var helgi þessara staða.

Þær skráðu heimildir sem lýsa goðhelgi staða eru fáar, stuttar og einkennilegar, sagði Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari, og má nú aðallega finna í þjóðsögum. Þessir staðir eru oftar en ekki á fjöllum eða í hamraflugum sem kenndir eru við goðin s.s. Goðatindur, Goðaborg, Goðagil osfv. Líklegast er að þessir staðir til fjalla hafi verið svo kallaðir hörgar. En hörgar, samkvæmt norrænni tungu, geta verið kletta hrjóstur, -oft á háum stöðum.

Þeir sem hafa stundað það að fara á fjallstinda upplifa oft frelsi sem útsýninu fylgir, og eftir því sem umhverfið er hrjóstrugra verður upplifunin sterkari. Jafnframt má ætla að fjallgangan hafi verið meira afrek fyrir fornmenn sem ekki höfðu yfir nútíma gönguskóm að ráða. Eins má álykta að sagnir af goðhelgi hörga hafi verið upplifuð manndómsvíxla þess sem þangað kom. Hörgar hafi þar af leiðandi haft í raun lítið með trúarbrögð að gera.

Líklegra er að goðatrúin, ef þá hún hefur verið til sem skipuleg trúarbrögð, hafi verið iðkuð þar sem voru hof. Fjöldi bæja um allt land bera nafnið Hof, eða bera það í sér s.s. Hoffell, Hofsstaðir, Hofteigur osfv. Þær sagnir sem greina frá því að hof hafi verið á illfærum fjallstindum hljóta því að byggja á misskilningi, þar sé átt við hörga. Landvætti hafi frekar verið að finna þar sem voru hörgar, þær sem menn hugðu búa í steinum, fossum aða á öðrum fögrum og sérkennilegum stöðum.

Af landnámabók sést, að ýmsir landnámsmenn eða synir þeirra reistu hof, og héldust síðan goðorð í ættum flestra þeirra, ef ekki allra. Menn þessir voru venjulega kynstórir og auðugir, enda þurfti nokkurt fé til að reisa stór hof. Oftast munu þeir einnig hafa verið blótmenn miklir, en þó má vera, að sumir hafi reist hof, þótt þeir hefðu ekki mikinn áhuga á blótum, sökum valdastöðu, sem þau sköpuðu. Hofin voru persónuleg eign eins og kirkjur síðar, og voru þeim stundum lagðar til eignir til uppihalds. (Jón Jóhannesson - Íslendinga saga I bls 73)

Líklegt er að bæir þar sem áður hafi verið hof hafi breyst í kirkjustaði við kristni eins og reyndar mörg nöfn benda eindregið til s.s. Hof í Vopnafirði, Hofteigur á Jökuldal, Hof í Álftafirði, Hof í Öræfum osfv. Eins er ekki ólíklegt að nöfn sumra kirkjustaða, sem áður báru goðtengd nöfn, hafi breyst t.d. í Kirkjuból. Heiðin hof hafi því verið staðir þar sem andinn var taminn í rétt lið með trúarbrögðum, á meðan hörgar voru þar sem maðurinn naut frelsis í persónulegu sambandi við almættið á hrjóstrugum stað.

Mannshugurinn á hrjóstrugum fjallstindi með sjálfum sér er laus úr viðjum dægurþras hversdagsins. Því er kannski ekki að furða að trúarbrögðin hafi viljað goðhelga þannig stað. Flest fjarskiptamöstur sem færa okkur sannleika hversdagsins í heimi hagvaxtar Mammons eru á háum hrjóstrum og fjallstindum. Athyglisverð er í því sambandi frásögn Egilssögu þegar Egill rak niður níðstöng á kletti í Noregi og snéri hrosshaus inn til lands við að virkja landvætti í að koma fram vilja sínum.

Hæðin Akrapólís í Aþenu er dæmi um hörga þar sem reyst var hof og síðan byggð háborg goðhelgrar menningar, þaðan sem var útsýni yfir alla borgina. Hauskúpuhæð, eða Golgata í Jerúsalem höfuðborg trúarbragðanna, eru sennilega einhverjir þekktustu hörgar Kristindómsins. Á þeirri hrjóstrugu útsýnishæð var frelsarinn krossfestur.

Hörgar hafa víða verið yfirteknir af táknfræði trúarbragðanna. Á Íslandi hafa t.d. verið byggðar á þeim kirkjur. Á Egilsstöðum er kirkjan byggð á hæð sem heitir upphaflega Gálgaás, kirkjan stendur við hliðina á Gálgaklettinum fornum aftökustað. Þaðan má sjá vítt um Héraðið, nú heitir gatan sem kirkjan er við Hörgsás.

Í Reykjavík er ein tilkomu mesta kirkja landsinns byggð á fyrrum hörgum, víðsýnum og hrjóstrugum stað þar sem áður fyrr mátti sjá yfir bæinn og suður eftir öllu Reykjanesi. Á Skólavörðuhæðin eru táknfræði minnin einnig allt um kring. Dys ólánskonu að vestan, Steinunnar Sveinsdóttur frá Sjöundá, var þar sem stytta Leifs heppna er nú, fyrsta Kristniboðans í vesturheimi.

Sagnir af kristnitöku á Íslandi bera með sér hve mikilvægt var að tilheyra réttu liði. Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og komst að því að rétt væri að hafa einn sið og eitt lið. Spak-Bessi í Fljótsdalnum ákvað að kasta goðunum í Lagarfljótið og treysta á nýjan sið og rétt lið. Það má því segja sem svo að haga seglum eftir vindi hafi þar tekið hofum og hörgunum fram. Kristnin hafði bókina fram yfir goðatrúna, Mammon hefur nú ljósvakann fram yfir bókina og goðin.

Ljós hofs og hörgar eru samt sem áður allt um kring, umvefja þannig að við tökum varla eftir þeim. Þar sem ég sit nú við stofugluggann í Útgarði, á næstu útsýnishæð norðan við Gálgaásinn, sé ég allt í einni hendingu, -Kirkjuna við Gálgaklettinn, Þórsnesið og Freysnesið þar sem goð Spak-Bessa fundust rekin úr Fljótinu. Einnig sé ég uppáhalds hörga Ásröðar landnámsmanns á Ketilstöðum þar sem hann lét heygja sig, -Rauðshauginn á Aurnum. Í flútti við Rauðshauginn er útsendingamastur Mílu á Þverklettunum ofan við fótboltavöllinn, -sú níðstöng okkar tíma sem flytur seiðinn.

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? -sagði Jesú Kristur, -sannur boðberi upplifunar hörganna, -benti mannfólkinu þannig á sannindin sem hann var krossfestur fyrir, sem myndi vera á nútímans níðstöng í beinni útsendingu, -svo ískyggileg þóttu orð Krists að byggð voru á þeim bókstafleg trúar-brögð.

Því verður seint haldið fram á þessar síðu að Mammon með sínum hagvöxnu ljósvakans hofgyðjum og transhumanisma sé ímynd hörga, -það mikið hefur þó þjóðsagan geymt en ekki gleymt. Glóbalskur Gandhi komst þó nær því með að benda á að með því að breyta sjálfum sér þá breytir maður heiminum.

Nú er siglt inn í nýjan tíma. Tíma þar sem gullið á Gimlé lýsir heiminum í stað sólarinnar, eða allt þar til kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, naður fránn, neðan frá Niðafjöllum, -eftir rúm 2000 ár eða svo, -hvað þá?


Örnefni og gildi þeirra

Þegar ég fór til að kíkja á Rakkabergið austan við Hermannastekkana um daginn, -hafði aldrei skoðað svæðið nákvæmlega þó svo að ég hafi oft komið þangað, enda Djúpivogur og nágrenni verið mér kær í áratugi. Ofan við túnið á Hermannastekkum, rétt vestan við Rakkaberg, er ferhyrnt tóft hlaðin úr grjóti, sennilega gamall stekkur.

Það álykta ég, auk nafnsins á svæðinu, af því hvernig tóftin er í laginu og hvernig hún er byggð. Hún er með þremur svo að segja jafnlöngum veggjum upp að hallandi kletti í brekku, sem myndar fjórða vegginn, og frekar breið til þess að hafa haft þak. Vatn hefði runnið inn í þannig hús úr brekkunni ofan við klettinn. Smá halli er frá opinu á tóftinni sem er fyrir miðri þeirri hlið sem snýr fram á túnið.

Þessari tóft hafði ég aldrei veitt athygli fyrr, enda fellur hún inn í gróið landið. Hún gæti þess vegna verið mjög gömul, jafnvel hafa verið viðhaldið á sama stað í gegnum aldirnar. Mér varð hugsað til Guttorms Hallsonar bónda á Búlandsnesi sumarið 1627, -þess sem munnmælin segja að hafi varist með reku og pál þegar Tyrkir hernámu hann við stekkana, sem staðurinn ber síðan nafn sitt af. Það gæti allt eins hafa verið við þennan stekk.

Reyndar er nú, -samkvæmt ritrýndum heimildum, svo til búið að flytja Hermannastekka af Búlandsnesinu norður yfir Berufjörðinn á Berunes. Það gerði Þorsteinn Helgason sagnfræðingur með grein í Glettingi, tímariti um austfirsk málefni, árið 2003 og í doktorsritgerð sinni 2013 sem fjallar um Tyrkjaránið. Þar sem hann rengdi þjóðsöguna og misskildi munnmælin möglunarlaust.

Örnefni segir mikla sögu þó svo að það sé aðeins eitt samsett orð. Þegar ég sat við stekkinn varð mér einnig hugsað til Más heitins Karlssonar vinar míns sem var mikill örnefna og sögu maður, -þekkti hvern krók og kima við Djúpavog. Honum þótti slæmt ef var misfarið með örnefni í ritmáli. Því þá vildi hann meina að örnefnið sem misfærist fylgdi ritmálinu, og ef það væri rangt samkvæmt munnmælunum væri betur heima setið en af stað farið.

Má vini mínum varð meir að segja um og ó þegar Ólafur Ragnarsson frændi hans flutti Háaurana, sem eru næstir fyrir utan Hermannastekkana, um nokkra tugi metra í sinni sveitarstjóratíð á Djúpavogi með því einu að senda ritaða tilkynningu í hús um móttöku rusls í aflagðri Vegagerðargirðingu, og kallaði móttökuna Háaura.

Ég hafði á orði að þetta væri saklaust, og örnefnið varðveittist allavega. -Háaurarnir eru bara ekki þarna, þeir eru á há aurnum, - sagði Már. -Hvað má þá kalla ruslmóttökuna í gömlu girðingu Vegagerðarinnar, -hváði ég. -Hún má bara heita Vegagerðargirðing áfram, -svaraði Már.

Nú heitir sveitarfélagið ekki lengur Djúpavogshreppur, -heldur Múlaþing, sem auglýsir á heimasíðu sinni opnunartíma móttökustöðvar á Háaurum; -þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 13:30-16:30. Laugardaga frá klukkan 11:00-13:00.

Þegar ég sat þarna í morgunnkyrrðinni á tóftarbrotinu inn á Hermannastekkum án þess að svo mikið sem sjá Berufjörðinn hvað þá yfir á Berunes eða sorpmóttökustöðina á Háaurum, yfir há aurinn sem bar í milli, -sá ég þó hátt í aldarfjórðungi seinna að Már hafði 100% rétt fyrir sér.

Bláklukkur

Bláklukkur á Hermannastekkum. -Bláklukkan er ein af fáum íslenskum háplöntum sem er nær algjörlega einskorðuð við einn ákveðinn landshluta. Hún er algeng á öllu Austurlandi, frá Þistilfirði suður að Skeiðará, en nær hvergi annarstaðar samfelldri útbreiðslu. Hún er mest á láglendi en þó finnst hún á strjáli upp í 500 m h.y.s. og hæst á Teitutindi í 1.000 m h.y.s. (Skógræktarfélag Íslands)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband