18.4.2014 | 08:38
Úlfar og arfleið.
Bróðir Hrólfs, sem fór til Íslands, þegar Hrólfur fór í Normandí, ...stofnaði í því vindbarða landi þjóðfélag fræðimanna og afburðargarpa". Þessir menn urðu, þegar stundir liðu, höfundar eins hins merkilegasta þjóðveldis, sem nokkurn tíma til hefur verið, með einstæðri höfðingjastjórn, og þar þróuðust á eðlilegan hátt bókmenntir slíkar, að aðrar hafa aldrei ágætari verið. Í því landi, þar sem engar voru erlendar venjur eða áhrif til að hindra það, blómgaðist norrænt eðli og andi til fullkomnunar".
Þetta má lesa í bók Adams Rutherford, Hin mikla arfleið Íslands, sem út kom í Englandi árið 1937. Þarna er verið að skírskota til sona Rögnvaldar Mærajarls. Annars vegar til Göngu Hrólfs forföður Normandí Normanna sem unnu orrustuna um Bretland við Hastings árið 1066 og enska konungsættin er rakin til, hins vegar til landnámsmannsins Hrollaugs sem nam Hornafjörð og Suðursveit. Adam Rutherford vildi meina að þessir bræður og allflestir landnámsmenn Íslands hefðu ekki verið dæmigerðrar norskrar ættar heldur hefði þeirra ættbálkur verið aðfluttur í Noregi. Að stofni til verið ein af 12 ættkvíslum Ísraels, hvísl Benjamíns.
Í ljósi þessa uppruna væru Íslendingar, vegna einangrunar í gegnum aldirnar, ekki Norskastir Norðmanna eins og ætla mætti af Landnámu, heldur hreinasta afbrigðið sem fyrir finnist á jörðinni af ætthvísl Benjamíns. Þessu til stuðnings benti hann m.a. á að ýmsir sagnaritarar telji að þegar Normannar réðust inn í England árið 1066, þá hafi úlfur verið í skjaldarmerki Vilhjálms bastarðar. Úlfur var merki Benjamíns og algengt í mannanöfnum þeirrar ættkvíslar. Rutherford vill meina að nafngift sem ber úlfsnafnið í sér hafi verið algeng hjá landnámsfólki Íslands, s.s. Ingólfur sem sagður er fyrsti landnámsmaðurinn, Kveldúlfur, Þórólfur, Herjólfur, Brynjólfur, Hrólfur, Snjólfur osfv., enda megi úlfs örnefni víða finna á Íslandi þó svo aldrei hafi þar verið úlfar.
Vissuna um uppruna Íslendinga taldi Adam Rutherford sig hafa úr píramídanum mikla í Gíza, en hann var einn þeirra sem var þar við fornleifauppgröft og rannsóknir árið 1925, þegar áður ófundinn veggur kom í ljós sem talinn er hafa að geima skýringar hinna ímsu spádóma sögunnar þ.m.t. spádóm um fæðingu frelsarans, sem og um eyjarnar í vestri með eldlandinu sem má finna í enskri þýðingu Biblíunnar í spádómum Jesaja.
Með útreikningum komst hann auk þess að því Ísland er í geisla norðvestur hliðar píramídans, liggur þar í honum miðjum ásamt Suðureyjum Skotlands. Ísland á samkvæmt spádómnum að komast í brennidepil mankynsögunnar með því að vera á ásnum þar sem geislinn er breiðastur, verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar". Langt mál er að fara í gegnum þessa útreikninga Rutherford og það sem hann uppgötvaði um Ísland í Gíza píramídanum enda gaf hann út bókina "Hin mikla arfleið Íslands" um þessar rannsóknir sínar auk margra annarra rita.
En hverjir voru Benjamínítar? Samkvæmt hinni helgu bók var Benjamín yngsti sonur Ísraels (Jakobs sonar Ísaks Abrahamssonar) sem bar beinin í Egyptalandi. Ætthvísl Benjamíns var sú minnsta af Ísrael. Í Dómarabókinni 19-21 segir frá refsidómi Benjamíns ættkvíslarinnar sem kveðinn var upp á þeim tíma þegar allar ættkvíslar Ísraels bjuggu í fyrirheitna landinu. Benjamín skildi eytt úr Ísrael vegna níðingsverksins í Gíbeu, mönnum, konum og börnum.
Ísraelsmenn hófu útrýminguna og sáu ekki að sér fyrr en þeir höfðu eitt svo til öllum kynstofni Benjamíns. En þá tók þá að iðrast og sögðu Nú er ein ætthvísl upphöggvin úr Ísrael! Hvernig eigum við að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar að vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum". Það urðu því örlög Benjamíns að fara með vopnum á aðrar þjóðir og ræna sér kvonfangi. Síðar fékk Benjamín uppreisn æru í Ísraelsríki og var Sál fyrsti konungur Ísrael af ætt Benjamíns, Davíð konungur sem á eftir kom gerði Jerúsalem að höfuðborg, sonur hans Salómon lét reisa musterið þar sem hin mikla viska á að hafa verið geymd.
Þegar Ísraelsmenn voru herleiddir af Assýríumönnum voru það aðeins tvær ættkvíslar sem snéru aftur til fyrirheitna landsins, Juda og Benjamín. Benjamín hafði áður búið í Jerúsalem en þegar aftur var snúið varð Galílea heimkynni Benjamíns, Jerúsalem tilheyrði þá Juda. Lærisveinar Jesú eru allir taldir hafa verið af ætthvísl Benjamíns, nema Júdas sem var af ætt Juda líkt og Jesú. Um það bil 100 árum eftir Krist, í kjölfar ofsókna Rómverja, flyst ættkvísl Benjamíns til Litlu Asíu og dreifist þaðan til annarra landi m.a. til Svartahafslanda. Talið er að þeir hafi svo aftur lent á flakk á tímum Atla Húnakonungs skömmu fyrir fall Rómarveldis u.þ.b. árið 400.
Fleiri hafa fetað svipaðar slóðir og Rutherford varðandi uppruna þeirra Norðmanna sem námu Ísland. Þar má nefna Barða Guðmundsson (1900-1957) sagnfræðing, þjóðskjalavörð og um tíma Alþingismann. Árið 1959 kom út ritgerðasafn hans um uppruna Íslendinga. Þar leiðir Barði líkum að því að Íslendingar séu ekki komnir út af dæmigerðum Norðmönnum heldur fólki sem var aðflutt, einkum á vesturströnd Noregs.
Þessu til stuðnings bendir hann á að útfararsiðir íslendinga hafi verið allt aðrir en tíðkuðust á meðal norrænna manna. Samkvæmt fornleifarannsóknum á norðurlöndunum hafi bálfarargrafir verið algengastar, á Íslandi finnist engin bálfarargröf frá þessum tíma né sé um þann útfararsið getið í íslenskum bókmenntum. Því sé ljóst af þessum mikla mun á útfararsiðum Norðmanna og Íslendinga í heiðni að meginþorri þeirra sem fluttu til Íslands frá Noregi hafi þar verið af ættum aðkomumanna.
Barði bendir einnig á baráttuna sem var gegn Óðni í Noregi, guði seiðs og skáldskapar. Hann telur hamremmi, Óðinsdýrkun og skáldskap hafa haldist í hendur, sbr. Egils-sögu Skallagrímssonar. Seiðmennska var í litlu uppáhaldi hjá Haraldi hárfagra og lét hann m.a. Eirík blóðöxi gera ferð til Upplanda þar sem hann brenndi inni Rögnvald bróður sinn ásamt átta tugum seiðmanna.
Einnig vitnar Barði Guðmundsson í Snorra Sturluson þar sem hann segir að Æsir hafi komið til Norðurlanda frá Svartahafslöndum, undir forystu tólf hofgoða, er réðu fyrir blótum og dómum manna á milli." Óðinn er þeirra æðstur. Þykir Barða einkum merkilegt, að Snorri skuli gera ráð fyrir norrænni sérmenningu, sem upptök eigi í hinum fjarlægu Svartahafslöndum við Donósa, en njóti lítilla vinsælda sem aðflutt í Noregi.
Einn af þeim sem ekki hefur hikað við að umturna hefðbundnum kenningum sögunnar er Thor Hayerdhal. Hann hefur leitað uppruna Óðins á svipuðum slóðum og bent á að við Kasbíhaf, nánar tiltekið í Qobustan héraði í Azjerbaijan séu hellar sem hafi að geima myndir greyptar í stein af bátum sem minni á víkingaskip. Einnig taldi hann að nafngiftina Æsir á guðum norrænnar goðafræði mætti rekja til lands sem bæri það í nafninu s.s. Azer í Azerbaijan.
Við þetta má bæta að rúnaletur var notað á norðurlöndum árhundruðum eftir að latnesk letur náði yfirhöndinni í hinu evrópska Rómarveldi. Rúnir hafa, af ýmsum fræðimönnum, löngum verið kenndar við þær launhelgar sem stundaðar hafa verið við að varðveita viskuna úr musteri Salómons sem ættuð var úr Egypsku píramídunum. Að öllu þessu athuguðu þá er alls ekki svo ólíklegt að fótur sé fyrir kenningum um að uppruni Íslendinga eigi sér dýpri rætur en í fljótu bragði virðist mega ætla.
Það er í íslenskum bókmenntum sem heimildir um goðafræðina varðveitast og má því segja að fornbókmenntirnar séu hin mikla arfleið. En eins líklegt er að sá spádómur sem Adam Rutherford telur sig hafa fundið í píramídanum Gíza og viðrar í bókinni Hin mikla arfleið Íslands", þar sem hann gerir ráð fyrir því að landið muni verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar" hafi komið fram fyrir þúsund árum þegar landnámsmenn opinberuðu siglingaleið á milli Evrópu og Ameríku.
Menntun og skóli | Breytt 2.10.2017 kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2014 | 18:56
Úr álögum
Hér á þessum kletti voru þeir af lífi teknir sem töldust hafa brotið lög þessa lands. Enginn veit nú nöfn þessara ólánsömu manna. Nema Valtýs á grænni treyju. Kletturinn einn vitnar þögull um stór örlög. Rotaryklúbbur Héraðsbúa.
Eftir að ég kom heim í Hérað, úr fjörbaugsgarðinum í Noregi, hefur það verið að smá renna upp fyrir mér að ég bý á sögulegri klettabyggð. Gálgakletturinn er það fyrsta sem ég rek augun í þegar þau opnast á morgnanna. Þar sem ofangreinda áletrun má finna greypta í plötu úr kopar. Þó engin hafi haft fyrir því að skrá nöfn þeirra ólánsmanna sem af lífi voru teknir á Gálgakletti þá voru Valtýarnir allavega tveir eins og fræðast má um í sögunni Valtýr á grænni treyju.
Á upplýsingaskilti við klettinn má lesa að; "aldrei hefur nein staðfesting fengist á sanngildi Valtýssögu, önnur en sú að við klettinn komu upp mannabein, sem lágu í óreiðu fram á miðja síðustu öld, en var þá safnað saman, og sett í kassa, með glerloki, sem festur var á klettinn. Árið 1975 gekkst Rotaryklúbbur Héraðsbúa fyrir því að sett var upp skilti á klettinn, en beinakassinn tekinn niður og settur á minjasafnið á Egilsstöðum, og um áratug síðar á Þjóðminjasafnið, þar sem beinin eru nú geymd".
Nú er ég nokkuð öruggur á því að sannleiksgildi Valtýssögu er ekki síðra en upplýsinganna sem koma fram á skiltinu við klettinn. Allavega minnist ég þess að hafa verið ásamt fleiru ungviði að gramsa í beinum undir Gálgakletti löngu eftir miðja síðustu öld. Ef rétt er munað lágu mannabein undir klettinum fram yfir 1970 er þau fóru í umræddan kassa með glerlokinu svo hægt væri að skoða án þess að snerta. Ekki fengu bein þessara ólánsmanna að hvíla í friði þó í kassa með glerloki væru komin, og fljótlega mátti sjá þau liggja á jörðu niðri innan um glerbrot og spýtnabrak. Sennilega hefur orsakavaldur þess verið fallandi steinn ofan af klettinum.
Einnig er á upplýsingaskiltinu lesning um nánasta umhverfi Gálgaklettsins; "Klettaásinn sem Egilsstaðakirkja og sjúkrahúsið standa á heitir Gálgaás (Gálgás), og það heiti var var í fyrstu notað um þorpið sem byggðist á ásnum og við hann um miðja 20. öld. (Sbr. vísu Sigurjóns á Kirkjubæ Glatt er á Gálgaás)". Mig skortir kannski aldur til að minnast þess að þorpið hafi verið kallað Gálgaás þó ég hafi heyrt hvíslað um vísuna hans séra Sigurjóns á Kirkjubæ á unga aldri, sem farið var með eins og mannsmorð. Enda var hún þess eðlis að ekki var talið rétt að kenna byggðina og íbúa hennar við þesskonar skáldskap.
Glatt er á Gálgaás,
Gróa á hverjum bás,
það er nú þjóð legur staður,
engin af öðrum ber,
efalaust þaðan fer,
til andskotans annar hver maður.
Þó svo Gálgakletturinn standi nú orðið á besta staðnum í bænum hefur ekki nokkrum lifandi manni dottið í hug að byggja sér hús norð-austan undir honum. En ekki er svo með klettinn sem ég bý á, norð-austan undir honum var byrjað á húsi sem má sjá merki um enn í dag.
Til að gera langa sögu stutta þá var byrjað á þessar húsbygginu fyrir áratugum og hafa örlagasögur þeirra sem hafa haft eignarhald á þessum bletti stundum verið sorglegar. Það má því kannski segja sem svo að aldrei sé rétt að byggja hús norð-austan undir kletti sem skyggir á sól yfir bjartastan daginn þó svo að morgunn sólar gæti.
Það var æskufélagi minn sem hóf húsbyggingu stórhuga og bjartsýnn. Ég man að það sótti á mig efa þegar hann sagði mér frá þessum áformum sínum, er ekki frá því að sami hrollurinn hafi hríslast niður bakið og þegar gramsað var í beinunum undir Gálgaklettinum um árið. Þó svo mér fyndust kostnaðar- og tímaáætlun byggingarinnar vera í bjartara lagi, þá fannst mér staðarvalið skuggalegt.
Æskufélaginn fékk bekkjarbróðir okkar til verksins og vann hann að því ásamt félaga sínum sumarlangt. Fljótlega kom í ljós að byggingin myndi ganga treglegar en áætlað var og ekki varð meira en húsgrunnur. Enn þann dag í dag stendur allt eins og þegar félagi minn gaf þessi áform upp á bátinn fyrir 30 árum, breytir engu þó síðan séu eigendurnir orðnir fjórir.
Fyrir um sex árum fékk ágætur kunningi minn eignarhald á þessum stað. Mér brá í brún við fréttirnar og spurði hann hvort honum væri ekki sagan kunn. Sagan var honum kunn, hann sagðist þess vegna hafa haft samband við sjáanda til að skoða staðinn áður en hann lét verða af viðskiptunum. Sjáandinn hafði setið dagstund undir klettinum og lygnd aftur augunum. Eftir þá helgistund hafði hann sagt að þessi staður væri ekki lengur bundinn álögum, ljóti kallinn sem hefði haldið þarna til í gegnum árin væri fluttur undir annan klett.
Stuttu eftir þetta samtal vakti Matthildur mín mig um miðja nótt. Í símanum var maður sem nauðsynlega þyrfti að hafa tal af mér hvað sem tímanum liði. Þetta var æskufélagi minn sem ég hafði hvorki heyrt né séð árum saman enda var hann þá búin að búa erlendis hátt á annan áratug. Honum var mikið niðri fyrir, sagðist hafa frétt af eigendaskiptum á húsbyggingunni. Hann bað mig lengstan orða að vara nýja eigandann við, því þessi blettur hefði óvægin álög. Ég róaði hann með því að láta hann vita að nýi eigandinn hefði fullvissað mig um að álögin hvíldu ekki lengur á staðnum.
Við æskufélagarnir spjölluðum lengi saman þessa nótt og fórum yfir örlagasöguna. þessi blettur hafði snert flesta sem nálægt komu. Bekkjarbróðir okkar og félagi sem séð hafði um húsbygginguna var þá horfin á vit feðranna langt um aldur fram. Eins kunni æskufélagi minn skil á flestum þeim sorgaratburðum sem hent höfðu eigendur þessarar byggingar. Hann hafði sagt söguna í útvarpsþætti þar sem hann nú bjó og hafði hún vakið mikla athygli.
Eins og ég sagði í upphafi þá fóru þessi klettur að sækja á hugann eftir að ég kom heim yfir himin og haf, enda hef ég hann fyrir augunum dag hvern. Af örlagasögum hálfbyggðra húsa hefur heldur ekki verið neinn hörgull á síðustu árin, þar skiptir ekki nokkru máli hvort kletturinn snýr út og suður eða norður og niður.
En nú er aftur svo komið að sjá má byggingakranana sveiflast yfir klettum. Við þær framkvæmdir hefur margur gamall sótrafturinn verið á flot dreginn og skýjaglópurinn á loft hafinn þó kannski sé ekki beinlínis farið þöndum seglum með himinskautum. Nýt ég nú góðs af stórhuga fólki sem er að byggja við 110 ára gistihús höfuðbýlisins á Egilsstöðum, sem hefur frá aldaöðli búið við þau álög að hýsa gesti og gangandi.
Eða eins og segir; "Á stórbýlinu Egilsstöðum, sem stendur á fjölförnustu vegamótum á Austurlandi, hefur löngum verið mikill gestagangur og segja má að engin tilviljun hafi ráðið því að komið var upp gistihúsi á þessum stað. Fyrr á öldum reyndist erfitt að hýsa þann fjölda gesta sem sótti húsráðendur heim vegna fátæktar. Fór það svo að árið 1884 taldi Eiríkur Halldórsson, ábúandi á Egilsstöðum, sig tilneyddan að hefja gjaldtöku fyrir gistingu að Egilsstöðum. Þar með hófst rekstur gistihúss á Egilsstöðum, sem hefur í raun haldist óslitinn alla tíð síðan (Gistihúsið Egilsstöðum 2004)".
Árið 1889 keyptu Jón Bergsson og Margrét Pétursdóttir jörðina Egilsstaði og er það upphafið að sögu þeirrar ættar sem þar rekur nú eitt glæsilegasta hótel á Austurlandi. Jón byggði gamla Egilsstaðahúsið árið 1904 og á þá að hafa sagt: Hér verða vegamót".
Eins get ég hugsað mér gott til glóðarinnar eftir að hótelbyggingunni lýkur, því verið er að byggja hjúkrunarheimili aldraðra rétt neðan við Lagarásinn, ásnum sem um er getið með forskeytinu gálgi á upplýsingaskiltinu við Gálgaklett.
Núna í bygginga blíðunni um daginn hitti ég svo kunningja sem á álagablett og spurði hvort allt væri með felldu? Hann svaraði; "Þetta allt í þessu fína, ljóti kallinn er farinn".
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 5.10.2019 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2014 | 12:15
Hver er lögeyrir Íslands?
Það kann að vera eðlilegasta mál í frjálsu markaðskerfi að allt sé frjálst nema sjálfir peningarnir. Ætla mætti þar sem íslensk króna er lögeyrir landsins þá væri verðgildið eitt.
Þess í stað er króna margbrotið fyrirbæri, í það minnsta þríbrotið. Það er krónan sem er í launaumslaginu, verðtryggða krónan sem skuldir eru reiknaðar eftir og utanríkisviðskipta krónan sem er skömmtuð.
Um lögmæti þess að hafa íslenska krónu með mismunandi verðgildi eftir því hver í hlut á er umdeilanlegt. Það sem hins vegar þarf ekki að deila um er siðleysi þess að mismuna þegnunum.
Það athygliverða við lögmæti þessarar mismununar íslenska ríkisins gagnvart þegnunum er að hún fæst ekki tekin fyrir af dómstólum landsins. Er þar skemmst að minnast frávísunar kröfu Íbúðarlánasjóðs í eigu íslenska ríkisins vegna máls Hagsmunasamtaka heimilanna varðandi lögmæti verðtryggingar.
Í þessari youtube klippu fer Michael Tellinger yfir baráttu UBUNTU hreyfingarinnar í Suður Afríku við banka þar í landi sem ekki eru að höndla með peninga heldur upp gíraðar skuldaviðurkenningar. Hann kemur m.a. inn á að þar í landi sé litið með athygli til samskonar baráttu fólks Íslandi.
![]() |
Mikilvægt að eyða lagalegu tómarúmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.3.2014 | 22:22
Sérkennilegasta aðgerð Íslandssögunnar.
Skuldlækkunar áform ríkisstjórnarinnar verða með þeim hætti að hver og einn lántaki þarf að sækja um skuldaniðurfellingu. Það sem fyrir kosningar var boðað sem almennar aðgerðir eru þar með orðnar sértækar.
Nú á eftir að koma í ljós hvort niðurfellingin verður skilyrt þannig að lántakendur afsali sér rétti ef og þegar kemur til þess að verðtryggingin neytendalána verður dæmd ólögleg. Því ljóst er að þessi leiðrétting nær aðeins til hluta þeirra skulda sem keyrðar hafa verið upp með verðtryggingu.
Eins er það nokkuð ljóst að á meðan verðtrygging er ekki afnumin mun hún éta upp þessa leiðréttingu á skömmum tíma. Þetta er því af sama meiði og 110% hundakúnstirnar nem að þetta nær til fleiri lántakenda.
Það er sérkennilegt að ríkisstjórnin beiti sér ekki fyrir því að fá efnislega niðurstöðu fyrir dómstólum hvort verðtryggingin sé lögleg.
![]() |
Dæmigert lán lækkar um 20% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.3.2014 | 19:53
Aumingjagæska.
Virðing stofnanna ríkisins fyrir fyrir fégræðgi er með miklum ólíkindum. Það að ekki skuli vera búið að stöðva fjárplógstarfsemi landeigenda með lögregluvaldi minnir einna helst á veiðileyfið þegar bankar fengu að stunda óáreittir innheimtu vegna ólöglegrar lánastarfsemi. Þeir sem eru féflettir af bönkum þurfa að leita á náðir dómstóla.
Nú er sami háttur hafður á gagnvart ferðafólki, vegna landeigenda sem telja sig geta lokað aðgengi að náttúruperlum í eigu þjóðarinnar nema gegn gjaldi. Á meðan skipuleggur ríkisstjórnin hvernig beita megi sömu græðgi með því að koma á náttúrupassa með sambærilegri gjaldtöku. Þessi aumingjagæska gagnvart græðginni fer óneitanlega að minna á skipulega glæpastarfsemi.
![]() |
Hverirnir á landi í eigu ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2014 | 21:33
Orgone energy.


Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2014 | 22:40
Mögnuð heimskupör.
Forstjóra mannvirkjastofnunar færi betur að líta líta sér nær og spyrja sig hvernig standi á því að 27 fermetra "Haarlem" flutt alla leið frá Kína varð ódýrari byggingakostur en efnið sem liggur undir fótum hans.
Þegar litið er til þess hvað kostnaðurinn sem fylgir íbúðarhúsnæði er orðinn stjarnfræðilegur þá er ekki ólíklegt að skinsamlegast sé að grafa sér holu og bíða þar af sér svartanættið líkt og skógarbjörn sefur af sér skammdegið. Það versta við þá skinsamlegu ákvörðun er að það gæti þurft að sofa býsna lengi miðað við hvað verðtryggðar lántökurnar eru lífseigar.
En aftur á móti gæti það komið til að reglugerðar farganið þvældist ekki fyrir byggingakostnaðinum ef hann er niður á við, þó er það aldrei að vita nema mætti koma við ákvæðum samræmdrar byggingareglugerðar efnahagssvæðisins og fasteignagjöldum yfir holu, allavega ekki útilokað að þar væri í það minnsta hægt að innheimta gistináttagjald.
Undanfarið hafa fréttir af vörugámum farið sem eldur í sinu eftir að upp komst að hægt væri leigja þá til búsetu í London. Nú þykir þetta orðinn álitlegur kostur til að græða á ungu fólki á Íslandi því leigan var ekki nema 60 þúsund krónur á mánuði í London og væri því hæfileg 80 þús í Reykjavík. Þegar svo er komið að ódýrasta íbúðarhúsnæðið á Íslandi er gámur frá Kína þá hlýtur eittvað að vera orðið bogið í veröldinni. Alla vega er reglugerðar farganið búið að svipta ungt fólk hugmyndafluginu til sjálfsbjargar Bjarts í Sumarhúsum.
Máltækin segja "sjálfs er höndin hollust" og "hollur er heimafenginn baggi", en einhvern veginn hafa lög og reglugerðir þróast á þann hátt að flestu fólki er fyrirmunað að uppfylla þörf sína fyrir þak yfir höfuðið öðruvísi en að steypa sér í lífstíðar skuldir. Þetta hefur leitt til þess að alltaf verður það byggingarefni sem er hendinni næst torfengnara til notkunar því það þarf að uppfylla kröfur fjórfrelsisins innan lagarammans þannig að endingu er hægt að reikna tilbúnar gámaeiningar frá Kína sem ódýrasta kostinn.
Reglugerða farganið þegar þak yfir höfuðið er annars vergar er komið á það stig að vert er að hafa varnaðarorð Vilhjálms Hjálmarssonar aldna héraðshöfðingjans í Mjóafirði í huga, sem sennilega hefur aldrei sótt um leifi til annars en sjálfs sín þegar kemur að húsaskjóli. En hann sagði; "þó svo Bakkabræður hafi stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka". Sennilega hefði þeim ekki heldur dottið í hug að taka verðtryggt lán til að uppfylla lög og reglur settar af fábjánum.
![]() |
Tilraunabyggðir möguleiki? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.3.2014 | 06:55
Bilun.
Það þætti sjálfsagt óðs manns æði að halda því fram að hagvöxturinn sé að fara með allt til helvítis. En gæti verið að það megi framkalla hagvöxt með verðhækkunum einum saman?
Allavega virðist eitt mesta hagvaxtarskeið þessarar aldar hafa átt sér stað með því að blása út fasteignabólu sem ekki reyndist innistæða fyrir án þess að lánastofnanir fjármögnuðu hana. Eftir að bólan sprakk hafa skuldsettir íbúðaeigendur haldið uppi hagvexti bankanna þar sem þeir eru tregir til að færa niður verðmæti lána og þar með að lækka fasteignaverð.
Eins hefur ekki farið framhjá þeim sem standa í húsbyggingum, að á síðustu árum hafa verið settar íþyngjandi reglur bundnar í byggingareglugerðum sem hækka hjúsnæðisverð stórlega. Það hefur í raun verið sett margþætt lög um það að skjól fjölskyldunnar skuli halda uppi hagvextinum.
Samræmdum reglum frá ESB er útbýtt og skulu þjóðir ESS einnig fara eftir regluverkinu. Þetta regluverk sýnir færni sýna þegar kemur t.d. að orkusparandi aðgerðum s.s. einangrun húsa. Jafnvel þar sem varminn er ódýr sem á Íslandi eru settar reglur svo ekki tapist varmaorka, þeim skal framfylgja jafnvel þó heita vatnið velli upp úr jörðinni utan við húsvegginn sem veita má inn í húsið með slöngubút. Einangrun sem halda á hitanum inni skal vera allt að 25 cm þykk.
Svona reglur sem eru íþyngjandi fyrir almenning efla aftur á móti hagvöxt. Á Íslandi mun nýja byggingareglugerðin hreinlega stórhækka hitunarkostnað þetta kunna gömlu verkfræðingarnir betur að skýra, sjá hér. Ef einhver heldur að þetta sé eitthvað grín þá er þessum reglum nú þegar framfylgt í Noregi, sem á samt gnægð orkugjafa s.s. afgangs gas til að hita upp hús almennings því sem næst frítt. Nú er unnið að því að innleiða samræmdu ESB reglugerðina einnig á Íslandi.
Svona hefur hagvöxturinn verið trekktur áfram m.a. í gegnum byggingariðnað þannig að nú er svo komið að fólki endist ekki ævin til að greiða fyrir sómasamlegt þak yfir höfuðið og er þá ein lausnin að bjóða ungu fólki upp á Kínverska iðnaðargáma til búsetu fyrir 60 þús á mánuði í London, en Íslenska græðgin ætlar sér þriðjungi meira.
Það er af sem áður var að ungu fólki gagnist aðferðir Bjarts í Sumarhúsum, það að fara til óbyggða með skófluna að vopni og koma sér þar upp þaki yfir höfuðið án þess að uppfylla skyldur sínar við hagvöxtinn. Það má kannski segja að einhver millivegur megi vera á torfkofa og ströngustu reglugerðum, en það ætti aldrei að vera millivegur á því að þakið á að þjóna heimilinu en ekki regluverki hagvaxtarins.
![]() |
27 m² íbúðir á 80 þúsund á mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2014 | 12:16
Gæfa eða gjörvileiki?
Það þarf menn sem hafa kjark til þess að storka forlögunum, að koma fram í nafni Fáfnis. Nafnið Fáfnir má finna í norrænni goðafræði um drekana þrjá, nafn Fáfnis er tengt græðginni. Völsunga-saga greinir frá örlögum Fáfnis og Sigurðar Fáfnisbana þar fara ekki alltaf saman gæfa og gjörvileiki.
Eins og fram kemur í fréttinni verður fyrsta verkefni skipsins við Svalbarða, sem sumir vilja meina að írski munkurinn St Brendan hafi gefið nafnið Ægisey þegar hann kannaði norðurhöf á árunum milli 5-600 e.k.
Völsunga-saga segir m.a. frá þvi þegar Reginn egnir Sigurð "síðasta Völsunginn" Sigmundsson til að vega Fáfnir bróðir sinn til fjár. En Fáfnir hafði sér það til saka unnið að hafa myrt Hreiðmar föður þeirra Regins til að komast yfir gull sem hálfjötuninn Loki hafði stolið af dvergnum Andvara til að bæta Hreiðmari sonarmissi þegar Loki drap son hans Otur (bróðir þeirra Regins og Fáfnis) af misgáningi þegar Loki var á ferð með Óðni æðstum goða við Andvarafoss.
Reginn setti saman sverðið Gram fyrir Sigurð, nokkurskonar ættargrip sem hafði hrokkið í tvo hluta í lokaorrustu Völsunga. Síðan hvetur hann Sigurð til að grafa sér holu við vatnsból Fáfnis og stinga hann með sverðinu þegar hann skríður yfir holuna á leið sinni til vatnsbólsins. Allt gengur þetta eftir, en á eftir drepur Sigurður einnig Reginn með sverðinu Gram þar sem þeir sitja að sumbli við að drekka blóð Fáfnis, voru þeir ekki einhuga um hvor þeirra ætti að éta hjartað. Þetta gerir hann til að þurfa ekki að deila með honum fjársjóð Fáfnis. Á samtali Sigurðar og Fáfnis á banabeði Fáfnis kemur m.a.fram;
Eftir að Fáfnir hafði fengið banasár spurði hann m.a: "Hver eggjaði þig þessa verks eða hví léstu að eggjast? Hafðir þú eigi frétt það hversu allt fólk er hrætt við mig og við minn ægishjálm? Hinn fráneygi sveinn, þú áttir föður snarpan."
Sigurður svarar: "Til þessa hvatti mig hinn harði hugur, og stoðaði til að gert yrði þessi hin sterka hönd og þetta hið snarpa sverð er nú kenndir þú. Og fár er gamall harður ef hann er í bernsku blautur."-----
Einnig segir Fáfnir: "Heiftyrði tekur þú hvetvetna því er eg mæli. En gull þetta mun þér að bana verða, er eg hefi átt."
Sigurður svarar: "Hver vill fé hafa allt til hins eina dags, en eitt sinn skal hver deyja." -------
Enn mælti Fáfnir: "Eg bar ægishjálm yfir öllu fólki síðan eg lá á arfi míns bróður. Og svo fnýsti eg eitri alla vega frá mér í brott að engi þorði að koma í nánd mér og engi vopn hræddist eg og aldrei fann eg svo margan mann fyrir mér að eg þættist eigi miklu sterkari, en allir voru hræddir við mig."
Sigurður mælti: "Sá ægishjálmur, er þú sagðir frá, gefur fáum sigur því að hver sá er með mörgum kemur má það finna eitthvert sinn að engi er einna hvatastur."
Fáfnir svarar: "Það ræð eg þér að þú takir hest þinn og ríðir á brott sem skjótast, því að það hendir oft að sá er banasár fær, hefnir sín sjálfur."
Eftir að Sigurður hafði afhöfðað Reginn bróðir Fáfnis; "etur hann suman hlut hjartans ormsins en sumt hirðir hann. Hleypur síðan á hest sinn og reið eftir slóð Fáfnis og til hans herbergis og fann að það var opið, og af járni hurðirnar allar og þar með allur dyraumbúningurinn og af járni allir stokkar í húsinu, og grafið í jörð niður. Sigurður fann þar stórmikið gull og sverðið Hrotta, og þar tók hann ægishjálm og gullbrynjuna og marga dýrgripi. Hann fann þar svo mikið gull að honum þótti von að eigi mundi meira bera tveir hestar eða þrír. Það gull tekur hann allt og ber í tvær kistur miklar, tekur nú í tauma hestinum Grana. Hesturinn vill nú eigi ganga og ekki tjár að keyra. Sigurður finnur nú hvað hesturinn vill. Hleypur hann á bak og lýstur hann sporum og rennur sjá hestur sem laus væri."
Um örlög Sigurðar Fáfnisbana má svo lesa í Völsunga-sögu en með honum dó út ætt Völsunga.
![]() |
Dýrasta skip Íslands sjósett |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt 3.3.2014 kl. 06:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)