Færsluflokkur: Dægurmál
16.5.2023 | 16:23
Merci Bocú von der Leyen
Þá er stærsta hagsmunamál Íslendinga síðan EES samningurinn tók gildi komið í höfn og ekkert að vanbúnaði að samþykkja bókun 35 á alþingi. Landinn getur glaðst yfir að fá að fara til Tene án verulega íþyngjandi kolefnisskatta til ESB, en situr í þess stað uppi með flækinga og túristavaðalinn rammflæktan í innviðunum.
Gamla fraukan tók öllum dúkkulísum fram með því að taka af skarið, eftir að landinn hefur hreinlega beðið á milli vonar og ótta um að þetta mál færi á hinn skelfilegasta veg. Að sitja uppi með landráð og flissandi fábjána án þess að eiga raunhæfa möguleika að geta hvílt kvarnirnar við öldugjálfur á suðrænni strönd er hreint ekkert grín.
Já og merci bocú mbl fyrir að vera fyrst með fréttina.
![]() |
Von der Leyen: Ísland fær undanþágur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
12.5.2023 | 19:44
Elíta íslensks fáránleika
Er þegar saman kemur góða fólkið og stjórnmálamenn, sem hafa setið við kjörkatlana árum jafnvel áratugum saman. Flissa í stutta stund með forsætisráðherra yfir háleitum markmiðum um útrýmingu fátæktar íslenskra barna, sem hefur einungis aukist á þeirra vakt, auk þess sem þeim fer fækkandi.
En það breytir því ekki að við erum ennþá með of margar hindranir. Það eru þættir sem við getum gert betur og hér var sérstaklega rætt um húsnæðismálin. Ég held að það blasi við að þó að stjórnvöld hafi verið að beita sér á húsnæðismarkaði á undanförnum árum hefur enn ekki verið byggt nóg til þess að standa undir þörfinni, -segir sú sem flissar best.
Sennilega verður niðurstaðan af skrautsýningunni sú að bjóða heimilum ungs fólks 110% leiðina aftur, og þeim sem hafa enn kjark til að eignast börn. Skrúfa síðan áfram upp vextina auðrónum til arðs, sem hækka síðan fasteignaverðið upp úr skýjunum með tíð og tíma, svo hægt verði að gjaldfæra sjálfvirkt fyrir allri sjálftöku elítunnar.
![]() |
Vilja útrýma fátækt barna fyrir 2030 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 13.5.2023 kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.5.2023 | 19:53
Sumarið fyrir EES
Sumar, sól og steypa. Bæjarhátíð, brauð og barnapíur. Lada, Lapplander og leikir. Allt var með öðrum hætti en í dag, þar sem flest hefur verið njörvað niður á sinn bás, -innan sinnar girðingar í skóm með stálstá, klætt í gult með hjálm, heyrnaskjól og öryggisgleraugu.
Mörkin á milli leiks og starfs skilgreind upp á nýtt, vinna er eitthvað sem á helst að vera leiðinlegt og sumarfrí eitthvað annað, helst einhversstaðar langt í burtu. Allt Íslandi skildi lúta markaði fjórfrelsisins, -eða helsisins, eftir því hvernig túlka ber frelsi.
Fyrir tíð EES hafði hvert EFTA-ríki sjálfstæð samskipti við EB (forvera ESB). Árið 1984 var efnt til sameiginlegs ráðherrafundar EFTA og EB í Lúxemborg með það að markmiði að efla viðskipti og samvinnu á ýmsum sviðum á milli bandalaganna.
1989 hófust formlegar samningaviðræður sem stóðu til 1991 en þá var samningsuppkastið sent Evrópudómstólnum til umfjöllunar. Dómstóllinn gerði athugasemd við grein í samningnum sem fjallaði um sérstakan EES-dómstól sem skyldi fjalla um deilumál vegna framkvæmdar samningsins.
Slíkur dómstóll var talinn brjóta á Rómarsamningnum sem kveður á um að Evrópudómstóllinn fer einn með dómsvaldið innan ESB. Niðurstaðan var að stofnaður var sérstakur EFTA-dómstóll til að leysa úr deilumálum frá EFTA-ríkjunum.
Á Íslandi veitti Alþingi stjórnvöldum heimild til að staðfesta EES-samninginn með því að samþykkja lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 þann 12. janúar 1993. Málið var mjög umdeilt og til marks um það var það samþykkt í þinginu með 33 atkvæðum á móti 23 en 6 sátu hjá.
Alþýðuflokkurinn og megnið af Sjálfstæðisflokkinum samþykktu en Alþýðubandalagið, megnið af Kvennalistanum, hálfur Framsóknarflokkurinn og þrír Sjálfstæðismenn voru á móti. Hinn helmingur Framsóknarmanna og einn þingmaður Kvennalistans sátu hjá.
Andstaðan við samningin var að hluta til komin af ótta við afleiðingar aukins viðskiptafrelsis (t.d. að útlendingar myndu kaupa upp jarðir á Íslandi í stórum stíl) en einnig vegna þess að margra mati felur samningurinn í sér óásættanlegt framsal á sjálfstæði þjóðarinnar til alþjóðastofnunar.
Því hefur einnig verið haldið fram að samningurinn kunni að brjóta á stjórnarskrá Íslands sem að gerir ekki ráð fyrir því að löggjafar-, framkvæmda- eða dómsvald sé framselt. Heimild Wikipedia
Já ég er enn í steypunni flesta daga, klæddur sem gulur trúður innan girðingar. Þar eru engar hetjudáðir framkvæmdar, nema ef vera skildi að upp komist eitt og eitt ómyglað hús. Steypuhrærivélinni er ekki lengur plantað niður og steypan blönduð og hrærð þar sem hennar er þörf, allt skal nú framkvæmt samkvæmt regluverki fjórfrelsisins. En þannig var þetta ekki á Íslandi sumarið fyrir EES.
Dægurmál | Breytt 9.5.2023 kl. 05:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.5.2023 | 17:21
Er komið að skuldadögum?
Nú hefur ESB stöðvað aflátsbréfasölu íslenska orkuiðnaðarins út fyrir landsteinana. Ekki dugði minna en að láta hálfan álf í fánalitunum fronta fréttina, enda gæti víst tapið hlaupið á milljörðum. Af kolefniskontór Landsvirkjunar berast svo þau válegu tíðindi að ekki sé augljóst hver beri endanlega skaðann.
Að því komust við steypukallarnir í Noregi fyrir meira en áratug síðan, þegar verð á rafmagni til norskra heimila hækkaði hviss bang um 30% við það eitt að hitamælirinn fór niður um nokkrar gráður um haust. Endurnýtanleg vatnsaflsorka Noregs var nefnilega samtengd raforkukerfi ESB með sæstreng, -og þá hafin aflátsbréfasala kolefniskirkjunnar.
Við steypukallarnir ræddum þessa rafmagnshækkun í kaffitíma, og þótti norskum frændum mínum aflátsbréfin vera hvað hrikalegust í þessu seigfljótandi slýgræna orkusvindli kolefniskirkjunnar, þar sem hrein vatnsafls raforka Norðmanna var höfð af eigendunum og þeir látnir greiða fyrir þjófnaðinn með okurverði.
-Og það án þess að nokkur vissa væri fyrri því að sá þungaiðnaður Evrópu, sem sagður var kaupa aflátsbréfin fengi hreina orku í staðin, en fengi samt sem áður upp á skrifað aflátsbréf fyrir sínum sóðaskap, og væru síðan heimili Noregs rukkuð fyrir óskapnaðinn auk förgunarkostnaðar á umbúðum umhverfissóðanna.
Mér datt í hug eftir þetta kaffitímaspjall -um árið- að kanna hvernig þessu væri háttað á Íslandi, -jú einmitt sama aflátsbréfa útgáfan út fyrir landsteinana, -en enginn sæstrengur. Orkustofnun hélt utan um umsvif svindlsins og samkvæmt bókhaldi hennar er sú raforka sem íslensk heimili nota langt innan við 10% endurnýtanleg, rest er fengin með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.
Það sem er undarlegast við það að ESB skuli nú vera búið að stöðva aflátsbréfasöluna, -er hvað hún fékk að standa lengi, eða allt frá 2011. Ástæðan fyrir því ætti samt að vera flestum skuldseigum Íslendingum augljós, því þegar kemur að skuldadögum borgar sig að hafa þá óviðráðanlega.
Er nema von að nú liggi á að innleiða EES bókun 35 um að Evrópuréttur taki yfir íslensk lög þar sem við á? -þar sem nú á endanlega að staðfesta á Alþingi Íslendinga að hann sé rétthærri íslenskum lögum, nema að þau séu samhljóma.
Allt þetta vita náttúrlega fjárplógsmenn sjálftökunnar og Davos dúkkulísur með augun vatnsblá, glær og galtóm. Þó svo að þeim detti helst í huga að láta hálfan álf fronta óskapnaðinn í fánalitunum í ríkismiðlunum þegar kemur að því -sem kallað er á því ástkæra og ylhýra - skuldadagar.
Þessi kaka var í boði Orkustofnunnar árið 2019, ég nenni ekki að finna nýrri svo oft hef ég bloggað um fyrirbærið að ég á þessa enn óétna.
Ps. ef einhver kynni að hafa áhuga á að kinna sér málið þá má hér sjá hvað er að koma út úr hólnum í fánalitunum. Á meðan gálur á glapstigum faðma leikarann ástsæla frá Kænugarði umvafðar stjörnuprýddu flaggi ESB.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.5.2023 | 16:22
Ég horfi niður
En ég næ ekki upp í það sem ég sé, -kvað þjóðskáldið um árið. Nú má segja að það hafi tekið mig hátt í hálfa öld að fatta hvað hann var að meina, þó svo að ekki hafi beinlínis verið mælt undir rós.
Reyndar koma fleiri vísbendingar fram í torræðum textanum, sem eru eins og talaðar í tíma dagsins í dag, en ekki eins og veröldin var fyrir 45 árum.
Þegar litið er til nútímans er merking skáldsins kristal tær, -eða þannig. Þarf ekki einu sinni að gúggla.
Ef þú lesandi góður ert í þann veginn að fara að fletta í snjallsímanum eða skrolla í tölvunni þá ættirðu í þann veginn að vera búin að fatta hvað ég er að meina.
En kannski er bara best að babla í bláan skjáinn og fíla góðan blues.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2023 | 05:42
Lymskuleg landráð stjórnsýslunnar
Það er nokkuð ljóst að Ísland hefur verið unnið á ippon innan frá. Sama hvaða 35. greinar Hat trick kemur frá alþingi.
ESB skattleggur í gegnum EES samninginn flugsamgöngur til og frá landinu, innflytur innlent matvælaöryggi og útfluttar sjávarafurðir bera sína ESB tolla, -allt ber að sama brunni.
Íslendingar fengu ekki að kjósa um EES samninginn á sínum tíma, enda hefðu þeir þá aldrei samþykkt hann, þó svo að lygin hafi gengið út á blómleg héruð og tækifæri fyrir sjávarbyggðir.
-Og Íslendingar munu ekki fá að kjósa um aðild að ESB fyrr en búið verður að skipta um þjóð í landinu, -flytja inn þjóðir sem þekkja ekkert annað en unionið hvort sem er sovét eða euró.
Um heilindi íslenskra stjórnálamanna gagnvart landi og þjóð er aðeins eitt að segja; -Þeir sem eiga slíka vini þurfa ekki á óvinum að halda.
22.4.2023 | 08:39
Karlinn í tunglinu
Veðrið kom til tals á mínum vinnustað eftir landsfrægt blíðviðrið á sumardaginn fyrsta. Vitnað var í veðurfræðingana og visku þeirra, um hæð yfir Grænlandi ofl. Mér varð á orði ef veðurfræðingar væru til lengri tíma þungskýjaðir þá skildum við vera bjartsýnir, svo oft hefði þeir bjargað sumrinu á Íslandi með því að aflýsa því. Skemmst er að minnast sumarsins 2021 sem varð once on a lifetime summer eftir að veðurfræðingur aflýsti því endanlega í beinni um sumarsólstöður.
Ekki átti ég von á að verða sammála veðurfræðingum, -sem jú ljúga samkvæmt þjóðvísunni, en nú verð ég að viðurkenna að ég tek nokkuð mark á spánni. Enda hef ég tekið eftir því að veðurfræðin er farin í auknum mæli að taka mark á karlinum í tunglinu. Alla vega sýnist mér að langtíma spálíkön stóru reikniveitnanna hafi síðustu misserin sett inn sömu forsendur í spákúluna og gangur tunglsins gefur til kynna.
Á sumardaginn fyrsta kviknaði nýtt tungl í norð-austri og stórstreymi var sama dag. Þumalputtareglan segir að þá megi búast við norðlægum áttum út það tungl, með hæð yfir Grænlandi og köldu veðri. Veðurfræði karlsins í tunglinu er nokkuð fyrirsjáanleg að þessu leitinu. Nýtt maí tungl kviknar svo í suð-vestri þann 19. maí, með stórstreymi sama dag.
Annars getur veðurfræði karlsins í tunglinu verið nokkuð görótt því stórstreymi þarf ekki alltaf alveg að fylgja tunglkomu. Það er margt fleira sem getur sett twist á tunglið s.s. fullt tungl og fjarlægð frá jörðu ofl. Rithöfundurinn Árni Óla tók saman þekkingu á karlinum í tunglinu, sem var nokkuð almenn á meðan bændur höfðu hvorki veðurfræðinga né ríkisútvarpið til að segja sér hvernig veðrið yrði.
Í gegnum tíðina hef ég haft mikinn áhuga á veðurfræði karlsins í tunglinu og hef viðað að mér þeim fróðleik þegar hann rekur á fjörur mínar. Það eru ekki margir veðurglöggir menn sem vilja gefa uppi þekkingu sína á tunglinu, en þeir eru samt til, en fara dult með enda um hindurvitni að ræða. Ein handbók er þó með flest sem þarf til að ná sambandi við karlinn, en það er kerlingabókin; Almanak Hins íslenska þjóvinafélags sem kemur út árlega.
![]() |
Veðurhorfur fyrir maí að skýrast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.4.2023 | 16:26
Bjössi
Þetta er búið að draga sig ótrúleg fljótt hérna í burtu. Einhvern veginn komu þessi orð upp í hugann eftir andvökunótt áður en ég fór út í morgunninn með ríflega fullt fangið af 60 árum, og viðraði þau í þrastarsöng á meðan ég hlustaði á úthafsölduna brotna í grýttri fjöru. Ég hafði verið að lesa barna og unglingasöguna um Bjössa á Tréstöðum eftir Guðmund Friðfinnsson fram eftir nóttu og varð andvaka á eftir þegar við Matthildur mín dvöldum í Sólhólnum úti við ysta haf.
Sáldsagan af Bjössa á Tréstöðum tekur til rúmleg tveggja ára, segir af harðneskju síðari hluta 19. aldar. Þegar fjölskyldum var enn miskunnarlaust sundrað, börnum komið á sveit og foreldrum í vinnumennsku. Foreldrar Bjössa höfðu misst kúna á útmánuðum svo barnaheimilið varð bjargþrota.
Það kom til af því að kýrin var leigð og kom eigandinn að sækja hana þó svo að leigusamningurinn, sem var munnlegur, rynni ekki út fyrr en að fardögum á sumri. Pabbi Bjössa varði kúna en eigandinn náði þá bæði í liðsauka og hreppstjórann til að ná kúnni, enda hafði beljueigandinn sjálfur misst aðra kúna á sínu heimili og svo hin kýrin misst kálf svo börnin hans voru mjólkurlaus.
Eftir þetta uppgjör var heimili Bjössa skipt og fylgdi eitt barn foreldrum í vinnumennsku á sitthvorum bænum. En Bjössa og einu systkini var komið fyrir hjá vandalausum á sitthvorum bæ. Bjössi var á 12. ári og sprækur til vinnu. Var smali tvö í sumur, úti dag og nótt á eftir kindunum með hundinum Sámi um tveggja mánaða skeið í hvort sumar.
Bjössi sá móður sína aðeins tvisvar eftir þetta. Í fyrra skiptið fékk hún frí til að heimsækja hann þegar hann lá þungt haldinn af lungnabólgu eftir að hafa verið úti um haust við að slá í krapahríð fram í myrkur með Jóni bónda á Tréstöðum.
Sumarið eftir hitti hann móður sína við messu þegar tilhlýðilegt þótti að koma með ómagann til kirkju því að innan við ár var í að hann ætti að fermast. Þá sagði mamma hans honum fréttir af systkinunum og pabba hans og hvað þau myndu vel eftir honum og þætti vænt um hann. Þar skynjaði Bjössi að mamma hans var að kveðja hann í síðast sinn.
Það hefur verið harka í íslensku samfélagi seint á 19. öld. Þess ber sagan af Bjössa á Tréstöðum glöggt vitni og er þetta með betri lýsingum um dagleg störf sem ég hef séð á prenti frá þessum tíma. Ég ætla að stelast til að birta hérna einn kafla úr bókinni um Bjössa sem á svo sem við á öllum tímum.
Nóttin er orðin löng og dimm og dagarnir fráir og þungbrýndir. Blærinn feykir fölnuðu laufi, og svalur hausvindurinn sveigir trénuð strá allt til jarðar. Með ám og lækjum má sjá hærugrá klakaskegg og mýrarsund eru dökk á að líta. Móar og valllendis grundir eru nokkuð ljósari. En í hlíðum myndar lyngið og fjalldrapinn einkennileg, listræn litbrigði. Myndasafn náttúrunnar enn fagurt og fjölskrúðugt. En allt ber þó svip haustsins, sem er tákn hrörnunar og dauða, en jafnframt fullkomnun þroskans, sem er fyrirheit um framhald lífsins á jörðinni.
Út úr kirkjunni á Stað er borin svört kista. Fámennur hópur vina og ættingja fylgir á eftir. Karlmennirnir ganga berhöfðaðir, en kvenfólkið hefur sveipað ullarklútum um höfuðið til að verjast náköldum andgusti norðannæðingsins.
Ég geng þarna við hlið föður míns og systkina. Úti í kirkjugarðinum bíður opin gröf. Þar á kista móður minnar að síga niður. Hún mamma mín góða, sem allar mínar björtustu minningar og helgustu hugðir eru bundnar við, liggur nú köld og stirðnuð í þessari svörtu kistu. Með armana krosslagða og passíusálmana opna á brjóstinu. Nú er hjartað hennar ástríka og trausta hætt að slá. Ég veit, að það sló fyrir mig, og okkur börnin, allt til síðustu stundar. Ég veit að bænir hennar fylgja mér allt til æviloka.
Mennirnir láta kistu móður minnar síga hægt niður í þessa dimmu gröf. Presturinn tekur litla reku og kastar ofurlitlu af mold þrem sinnum á kistuna og mælir eitthvað um leið. Ég tek lítið eftir orðunum, en það er eins og hárbeitt hnífsblað smjúgi í gegn um mig, er ég heyri tómahljóðið, þegar þessi dökka, kalda mold fellur á kistuna. Það er eins og þetta ömurlega tómahljóð endurómi einhverstaðar innan í sjálfum mér.
Ást barnsins til móðurinnar er venjulega eigingjörn ást, sem heimtar án endurgjalds. Og þótt endurgjaldið sé í rauninni fólgið í fórninni sjálfri í móðurgleðinni, er slíkt endurgjald án vitandi tilverknaðar barnsins.
Á dögum aðskilnaðarins breytist viðhorf og hugmyndir oft skyndilega. Í huga mínum renna fram ótal minningar frá liðnum samverustundum. Undanfarna daga hefur svo margt rifjast upp fyrir mér, sem ég ætlaði að gera fyrir mömmu, þegar ég væri orðinn stór. Þá ætlaði ég að endurgjalda allar hennar fórnir og kærleika. Allt, allt mundi ég hafa gert, sem ég hefði getað til að mömmu liði vel og ævikvöld hennar yrði bjart og fagurt.
En nú voru þetta aðeins mjúksárar, andvana fæddar hugmyndir, sem aldrei gátu orðið að veruleika aldrei.
Sál mín er lömuð og aflvana. Ég er búinn að gráta svo mikið. Og enn græt ég. Gegnum móðu táranna sé ég hvernig moldarskaflarnir flæða yfir kistu móður minnar. Ég sé föður minn, þar sem hann stendur álútur með samanbitnar varir. Andlitsdrættirnir eru stirðir og nærri því hörkulegir. Brjóstið þrútnar og hvelfist eins og það vildi varpa af sér fargi, sem þó er ómögulegt að losna við. Ég sé hvernig systkini mín standa hnípin og grátbólgin. Þau halda sér hvert í annað eða þá í pabba. Nú er hann okkar eina stoð. Öll erum við lítil, umkomulaus smá peð, sem sviptivindar lífsins feykja til og frá eftir duttlungum sínum.
Jarðaför móður minnar er lokið. Ég er kominn heim aftur í Tréstaði og tekinn við mínum vanalegu störfum: Að moka fjósið, bera fjósvatnið, raka hús, taka moð, bera út skólp og ösku, berja fisk og þorskhausa, læra kverið og prjóna sjóvettlinga. Allt er eins og það var, þó er allt breytt. Einhver sársaukakenndur tómleiki, auðn í sjálfum mér.
Ekki er ég frá því, að ég sé nú oftar kallaður rýjan, greyið eða auminginn, og jafnvel stundum einstæðingsbjálfinn. En ekkert af þessum gæluorðum mýkir sviðann og sorgina. Stundum getur jafnvel komið kökkur í hálsinn á mér, einkum er það einstæðingsbjálfinn, sem verkar þannig á mig. Ég er sem nakinn í norðan nepju.
En tíminn líður. Og tíminn græðir öll sár. Smá saman eignast ég aftur mitt hversdaglega jafnvægi, en eftir er minningin, björt og hlý, blandin trega. Helgur arfur, sem aldrei glatast og aldrei deyr.
Bjössi fór frá Tréstöðum á fardögum fyrir ferminguna sína sem fram fór á Stað. Þar fermdist hann ásamt börnunum í sveitinni. Ein fermingarsystir hans var Sigga sem var frænka prestsins og hjá presthjónunum í fóstri. Bjössi og Sigga höfðu hist sumarið áður þegar Bjössi var smali.
Þá hafði þokan gert það að verkum að Sigga villtist þegar hún átti að sækja nokkrar kindur, og grét í þokunni. Bjössi hélt að hún væri huldumey en komst svo að því að hún var að leita kinda. Frekar en að segja henni að vonlaust væri að finna kindurnar í svarta þoku þá fór hann að leita og bað hana um að bíða. Enda hafði mamma hans kennt honum að almættið sæi um sína, og viti menn sunnan gola feykti þokunni niður í dalinn og við blöstu kindurnar hennar Siggu.
Í fermingafræðslunni færði Sigga Bjössa rósótta íleppa í skóna sem hún hafði prjónað sjálf. Hún hafði tekið eftir því sumarið áður að Bjössi var í stagbættum prjónabuxum og götóttum skinnskóm. Hún afsakaði prjónaskapinn sem hún sagði að væri ekki eins góður og hann. Bjössi varð hugfanginn, greip til Siggu og kyssti hana beint á munninn. Daginn eftir var Bjössi fermdur og kominn í fullorðinna manna tölu.
Þetta var ekki svona harðdrægt, -eins og með beljuna heima hjá Bjössa, seint á 20. öldinni, þegar Matthildur mín saumaði á mig smókinginn í Burda blaðinu og við giftum okkur á sumardaginn fyrsta og skírðum börnin árið eftir sama dag. - Hún bara fór í Kaupfélagið, sem var við hliðina á kirkjunni, og keypti mjólk, Burda og terlín.
í Kaupfélaginu, sem kynslóðin kom á legg sem kom landinu úr árhundraða erlendri áþján og gaf börnum sínum fullveldið í fermingagjöf, sem varð svo kynslóðin sem gaf sínum börnum lýðveldið í skírnargjöf, sem var kynslóðin sem ól okkur upp fyrir 60 árum, sem stöndum nú vaktina á meðan öllu er stolið. Og börnin og barnabörnin sem núna , , , ,já, vel á minnst, meðan ég man, -gleðilegt sumar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.4.2023 | 16:42
Sumarmál - voru Íslendingar Gyðingar?
Það er margt sem íslenskan geymir af sögu heimsins, sem óvíða er skráð annarsstaðar, og er þó sumt af því heimsþekkt orðið í dag án þess að nútíma Íslendingar hafi mikla hugmynd um hvers vegna. Má þar t.d. nefna fornaldasögur Norðurlanda og tímatal. En þaðan kemur t.d. hugmyndin af The lord of the rings og The vikings.
Nú eru Sumarmál, en síðustu fimm dagar vetrar voru kallaðir sumarmál í gamla íslenska tímatalinu. Á eftir kom sumardagurinn fyrsti sem var fyrsti dagur hörpu, -fyrsta mánaðar í sumri. Þetta tímatal er ævafornt og hafa fræðimenn velt vöngum yfir hvaðan það kom, því þar er ekki bein samsvörun í norræn tímatöl.
Tolkein lá ekki á því að hugmyndin af Hringadrottins-sögu væri sótt í Völsunga-sögu og það dylst engum að sjónvarpþáttaserían Vikingarnir er byggð á Ragnars-sögu loðbrókar, sem segir m.a. frá konu hans Áslaugu kráku og sonum, þeim Ívari beinlausa, Birni blásíðu og Sigurði ormi í auga. Báðar þessar sögur varðveittust á Íslandi og hafa verið kallaðar Fornaldarsögur Norðurlanda.
Símon Dalaskáld skrifaði skáldsöguna Árni á Arnarfelli og dætur hans skömmu eftir 1900 og var hún útgefin árið 1951. Tími sögunnar virðist vera frá því skömmu fyrir 1880 til aldamóta. Höfundur lætur söguna gerast í Skaftafellssýslu þar sem bændur versluðu á Djúpavogi. Fjöldi fólks kemur við sögu og gerir höfundur grein fyrir ætt sögupersóna í samtölum.
Í skáldsögu Dalaskáldsins má finna kafla sem heitir Deila Halldórs og Hallfríðar. Þar rökræða Halldór Lambertsen stúdent og Hallfríður Árnadóttir heimasæta á Arnarfelli um persónur Íslendingasagna. Síðar berst tal þeirra að ættum Íslendinga. Það samtal fer hér á eftir:
Halldór: Á ég að segja þér af hverjum flestir Íslendingar eru komnir?
Hallfríður: Já það væri fróðlegt að heyra.
Halldór: Þeir eru fjölmargir komnir af írskum þrælum. Svo mæla Danir og mun mikið hæft í því.
Hallfríður: Hvaða vitleysu ferð þú með maður. Þeir eru heldur margir komnir af írskum konungum. Í Landnámu er ekki getið um aðra írska þræla en þá sem drápu Hjörleif við Hjörleifshöfða og menn hans, en Ingólfur hefndi fóstbróður síns og drap þá skömmu seinna, svo varla hefir komið mikil ætt frá þeim. Reyndar voru það írskir þrælar, sem brenndu inni Þórð Lambason, en þeir voru ráðnir af dögum skjótlega. Hingað fóru fáir Írar, heldur norrænir víkingar, sem herjuðu vestur um haf og komust í mægðir við konunga Englands og önnur stórmenni; vegna hreysti sinnar fluttust margir hingað, og má heita, að helmingur Íslands sé numinn af þeim.
Halldór: Ég hefi gaman, ef þú telur mér nokkra upp.
Hallfríður: Það get ég gjört að telja nokkra: Þórður skeggi, bróðursonur Ketils flatnefs; hann átti Vilborgu, dóttur Ósvalds konungs. Helgu dóttur þeirra átti Ketilbjörn hinn gamli, afi Gissurar hvíta. Eyvindur austmaður átti Raförtu, dóttur Kjarvals Írakonungs, þeirra son Helgi hinn magri er nam Eyjafjörð. Höfða-Þórður átti Þorgerði dóttur Þóris hímu og Friðgerðar, dóttur Kjarvals Írakonungs. Erpur, leysingi Auðar djúpúðgu, var son Melduns jarls af Skotlandi og Mýrgjólar, dóttur Gljómals Írakonungs, hann nam Sauðafellsströnd. Auðunn stoti, er nam Hraunsfjörð, átti Mýrúnu, dóttur Maddaðar Írakonungs. Án rauðfeldur, son Gríms loðinkinna úr Hrafnistu og Helgu dóttur Áns bogsveigis, átti Grelöðu dóttur Bjartmars jarls. Af þeirra börnum kom hið mesta stórmenni í Orkneyjum, Færeyjum og Íslandi, enda var Þorsteinn rauður kominn af Ragnari loðbrók, er frægastur hefir verið konunga í fornöld, og Sigurði Fáfnisbana. Helga hin fagra var af þessari ætt.
Halldór: Ég hefði gaman, ef þú gætir rakið þá ættarþulu.
Hallfríður: Það get ég vel, byrja þá í niðurstígandi línu. Sigurður Fáfnisbani og Brynhildur Buðladóttir. Þeirra dóttur Áslaugu átti Ragnar loðbrók Danakonungur. Þeirra synir Ívar beinlausi, konungur á Englandi, Björn blásíða konungur í Svíþjóð. Sigurður ormur-í-auga, átti Blæju dóttur Ella konungs. Af Hörða-Knúti syni þeirra voru Danakonungar komnir í fornöld, en af Áslaugu dóttur þeirra var Haraldur hárfagri kominn og þar með allir Noregskonungar, afkomendur hans. En Þóru dóttur Sigurðar orms í auga átti Ingjaldur konungur Helgason. Þeirra son, Ólafur hvíti, konungur á Írlandi, átti Auði hina djúpúðgu, dóttur Ketils flatnefs. Þeirra son Þorsteinn rauður átti Helgu, dóttur Eyvindar austmanns. Hann var konungur á Skotlandi; var svikinn af Skotum og drepinn. Ólafur feilan, þeirra son, fór þá barn til Íslands með Auði djúpúðgu, ömmu sinni. Hann giftist á Íslandi Álfdísi hinn barreysku. Þeirra börn: Þórður gellir, mestur höfðingi á Íslandi á sinni tíð, og Þóra, móðir Þorgríms, föður Snorra goða, og Helga, er átti Gunnar Hlífarson, þeirra dóttur Jófríði átti Þorsteinn Egilsson á Borg. Þeirra dóttir Helga fagra. Ólafur pá var af þessari ætt og næstum því öll stórmenni Vesturlands. Mikil fremd þótti fyrrum að vera kominn af Ragnari loðbrók og Sigurði Fáfnisbana, eins og sjá má af sögunum, en ekki gátu hrósað sér af því nema Breiðfirðingar og Skagfirðingar. Breiðfirðingar voru komnir af börnum Þorsteins rauðs en Skagfirðingar af Höfða-Þórði, sem kominn var af Birni blásíðu Svíakonungi, syni Ragnars loðbrókar, enda hafa í þessum fögru og tignarlegu héruðum verið mestir höfðingjar og skáld. Víðdælir voru og komnir af Ragnari loðbrók og fyrri konu hans, Þóra dóttur Herrauðs Gautajarls, og ég er búin að rekja þetta út í æsar, en hvort þið trúið því eða ekki, get ég ekki gjört að. Ég ætla að sýna ykkur það svart á hvítu, hvort ég hef ekki rétt fyrir mér og væri gott, ef þið vilduð gefa ykkur tíma til að rannsaka það.
Um öll þessi fjölskyldutengsl má lesa svart á hvítu í Íslendingasögum og Fornaldarsögum Norðurlanda, m.a Völsunga-sögu og Ragnars-sögu loðbrókar. Fornaldarsögurnar teiga sig í austur veg um Garðaríki suður til Svartahafs. Gamla tímatal Íslendinga á sér samsvörun í fornum tímatölum enn austar, og má rekja til Babýlon, -jafnvel Persíu.
Á fyrri hluta 20. aldar taldi enski rithöfundurinn Adam Ruthedford Íslendinga vera hreinasta afbrygði Benjamíns, ættkvíslar Ísraels, -yngsta sonar Jakobs. Hluti ættar Benjamíns fóru Garðaríki upp í Eystrasalt, og voru þá kallaðir Herúlar. En úlfur var Benjamín að sögn Jakobs faðir hans og úlfur einkenni Benjamíníta. Samsettur úlfur er algengt mannsnafn á Íslandi s.s. Ingólfur, Brynjólfur, Herjólfur, Þorólfur, Hrólfur, Snólfur o.s.fv. Ættforeldrar þessara Herúla voru þau Óðinn, Frigg, Njörður, -Freyja, Freyr og allt það goðsögulega slekti sem Snorri gerði góð skil í Heimskringlu.
Landnámsfólk Íslands kom flest frá vesturströnd Noregs og Bretlandseyjum samkvæmt Landnámu og Íslendingasögunum. Samkvæmt Biblíusögunum voru Júda og Benjamín herleiddir til Babýlon ásamt öðrum Ísraelsmönnum, þær ættkvíslar fylgdust svo einar aftur að í fyrirheitna landið. Benjamín settist þá í Galíleu, en hafði áður búið í Jerúsalem og Júda settist þá í Jerúsalem. Fjölmennigarsvæðið Samaría var þá orðið til og var á milli þessar ættkvísla Ísraels, sem lentu svo aftur á flakk í kringum Krist og jafnvel nokkru fyrr.
Íslendingasögurnar og Fornaldarsögurnar segja frá miklum þjóðflutningum fólks, sem að endingu nam Ísland og setti þar upp einstakt þjóðveldi, allt vandlega skrásett rétt eins og testamennin. Völsungasaga gerist í Evrópu allt frá Njörfasundum til Héðinseyjar, -Gíbraltar til Krím.
Sagan segir frá Völsungi og hverjir forfeður hans voru; -Reri sonur Siga, sonar Óðins. -Og svo Sigmundi syni Völsungs og sonum hans m.a. Sigurði Sigmundssyni Fáfnisbana. Í sögunni má finna mörg þau minni sem goðafræðin byggir á. Hluti Völsungasögu gerist í Dacia í Rúmeníu og segir frá þegar Sigmundur og Sinfjötli, eftirlætssonur Sigmundar, lögðust út sem varúlfar.
Svo eru til fornar írskar sagnir og annálar sem herma, -þessu tengt, -að löngu fyrir Krists daga hafi komið til Írlands austan úr löndum skip, sem á var gamall spámaður, Allamh Fodlha, skrifari hans og konungsdóttirin Tamar Tephi. Um þetta sagði sögugrúskarinn Árna Óla í titgerð: Í fornum írskum þjóðsögur og þjóðkvæðum er það beinlínis sagt, að Allamh Fodlha hafi verið Jeremía spámaður og Tamar Tephi hafi verið dóttir Zedekia konungs (Júda í Jerúsalem). Skömmu eftir komu þeirra Jeremía til Írlands giftist Tamar Tephi konunginum þar. Hann hét Heremon og var líka af Ísraelsætt. Og til þeirra er rakin ætt núverandi Bretakonunga.
Það er nokkuð ljóst að fyrri tíma Íslendingar kunnu vel að meta, -og lesa í sagnaarf þjóðarinnar og þurftu hvorki latínulærðan millilínulestur né Hollywood útgáfur á borð við The lord of the rings, eða The vikings á Netflix til á átta sig á um hverskonar bókmenntir er að ræða, -þeir skildu einfaldlega tungumálið.
Lýstur sól
ljósum sprota
læðing lífs;
lásar hrökkva.
Svella hugir.
Syngur í hlíð.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
Sól er á fjöllum,
sól í dölum,
sól í bæjum;
söngur í hlíð.
Hreifir vor
hörpustrengi.
Fellur ryð
af fornu stáli.
Sefur í hörpu
Sigurðardóttir
Áslaug - arfuni
afreksverka.
Þrútnar Heimis brjóst,
er harpan lætur.
Glóir gull
gegnum tötra.
Lýstur sól
ljósum sprota
ævintýraheim
unglings hugar.
Gnótt er ennþá gulls
á Gnítheiði.
Gangvarinn góði
gneggjar og rís.
Sér yfir Gnítheiði:
Situr á gulli
óframgjarn ormur
eigin hægðar,
hálfur dýr,
hálfur maður.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
Vek ég þig að vígi
vanræningja
vetrar langs
og vanafestu.
Vek ég þig til styrks
hinum stóru þrám,
hlýleika hugarins
og hvassrar sjónar.
Lýstur sól
ljósum sprota
ævintýraheim;
ómar hlíð:
Handan við Gnítheiði
glóa laukar.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
(Sumarmál / Ljóðmæli bls 8 SF)
Allur verðmætur skáldskapur hefur tvö aðaleinkenni, annaðhvort eða bæði. Í venjulegu máli talar skynsemi mannsins beint til skilnings, vit til vits. En í skáldskap tekur vitið sér til aðstoðar ímyndunarafl og tilfinningu. (Litlu-Laugum í apríl 1927 - Sigurjón Friðjónsson).
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.4.2023 | 05:04
Ástkæra og ylhýra gervigreindar-app ríkisins
Sagt er að á Tene sé talaður rjómi íslenskrar tungu á meðan á fósturjörðinni sé einna helst hægt að bjarga sér á hroða ensku eða pólsku. Þar eigi ekki lengur við - ástkæra, ylhýra málið, og allri rödd fegra, blíð sem að barni kvað móðir á brjósti svanhvítu, móðurmálið mitt góða, hið mjúka og ríka, orð áttu enn eins og forðum mér yndið að veita.
Það var Jónas Hallgrímsson sem kvað fyrstur manna á 19. öld um íslenskuna sem ástkæra og ylhýra móðurmálið þegar danskurinn tröllreið þjóðinni. Megas er landvættur sólseturs síðustu aldar, einn af 20. aldar þjóðskáldum íslenskrar tungu, merkisberi sem fleytti þeirri ástkæru og ylhýru á hyllingum inn í öld glóbalsins, -þursins sem ræður ríkjum fjórhelsisins.
Og veröldin víst er hún flá
þér er fullkunnugt um það
enda fráleitt við öðru að búast úr þeirri átt
en vertu næsta fremstur í fláttskap og vélum
flaggandi smælinu góða við fjandann í sátt.
Þú sem lætur hvunndagsraunirnar ríða þér á slig
ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.
Skáldskapur Megasar er eins og hverjir aðrir Nostradamus spádómar, sem fáir skilja í dag án skýringa upplýsingaóreiðunnar. Enda áhuginn nú orðin mun meiri á metoo Megasi með myllumerki, en því hvort röðull rís við heiðarbrún eða sú ástkæra og ylhýra sé með lafandi tungu.
Nú er íslenskan orðin eins og hver önnur Fata Morgana á flæðiskeri. Stór hluti þjóðarinnar er úr tengslum við tunguna og á í erfiðleikum með að skilja það sem hefðu þótt hinar eðlilegustu setningar fyrir nokkrum áratugum síðan.
Bróðurpartur ungdómsins veit lítið sem ekkert um ljóð þjóðskáldanna, eða hefur heilaburði til að lesa fornbókmenntir og dróttkvæði sér til einhvers skilnings. Það tilheyrir liðinni tíð, og þar með skilningurinn á blæbrigðum þess ástkæra og ylhýra móðurmáls sem kallað er íslenska.
Meðferð Megasar á þjóðskáldinu í Fatamorgan á flæðiskerinu er nú orðin eins spádómur. Textinn er byggður á minninu um Ólaf liljurós, auk þessa sem hann sagðist hafa fengið að láni frá Heinrich Heine í gegnum Jónas Hallgrímsson og var honum þó tjáð að Jónas hefði farið fremur frítt með texta Hinriks.
Megas sagðist leifa sér ýmislegt á hyllingum flæðiskersins, en baðst forláts á ef það særði einhverjar fínar taugar í sambandi við bókmenntasmekk. Það breytti samt ekki því að flestir Íslendingar skildu nokkurn veginn á þeim tíma við hvað hann átti, -rétt eins og að flestir vissu þá að Megas gæti verið bæði klúr og myrkur. Árið 2000 hlaut Megas svo verðlaun Jónasar Hallgrímssona á degi íslenskrar tungu.
Gervigreindar viðræðu app í snjallsímann er nú talin stóra lausnin. Svo hægt verði áfram að tala það ástkæra og ylhýra á landinu bláa í snjallsíma við sjálfan sig. Hvernig á að ræða við snillinginn um huldufólk, álfa og landvætti, -já eða biðja bæna til almættisins í gegnum forrit tengdu gervigreindarmiðstöð rétttrúnaðarins undir regluverki alríkisins, -það verður hver og einn að eiga við sjálfan sig.
Þar verður sennilegast eins með farið og þennan bloggpistil, -allt vistað í gagnveri ásamt ljósmyndum af löngu liðnum sólsetrum, sem engin hefur lengur áhuga á, nema myllueigendur orða- og orkuskiptanna. -Sem sagt tínt og tröllum gefið, -nema ef vera kynni að hægt sé að ná sér niður á þér með tíð og tíma. Nei, ráðherra má ég þá heldur biðja um Megas og Jónas þó svo Heine hafi veitt innblásturinn.
Og sólin hún skein á skrúði blómanna
og skinnið svo mjúkt á stúlkunum ungu
og fuglarnir á trjátoppana
tylltu sér
þöndu brjóst
og sperrtu stél
og sungu;
skríddu ofan í öskutunnuna,
aftur á bak með lafandi tungu.
Heiðraði ráðherra úr hamrinum þínum
hola massífa úr fljótandi steypu
ég kem ekki á fund þinn
til að fá hjá þér neina fyrirgreiðslu
enda yrði slíkt sneypu för
heldur gefa þér gott ráð ráðherra
við geðfargi,
geðfári,
geðstríði,
geðkrabba,
geðmeini þín þungu
skríddu ofan í öskutunnuna,
aftur á bak með lafandi tungu.
Árið 1979 kom út eitt af meistaraverkum íslensks skáldskapar, Drög að sjálfsmorði, tónleikaplata Megasar sem átti upphaflega að vera fyrir konsept albúma elítuna. Blankheit listamannsins gerðu það að verkum að ekki var hægt að taka upp í stúdíói og þess vegna var hljóðritað á tónleikum, sem haldnir voru í Menntaskólanum í Hamrahlíð 5. nóv 1978, -við magnaðar undirtektir.
Hljóðfæraleikarar voru, -fyrir utan Megas; -Björgvin Gíslason, Guðmundur Ingólfsson, Lárus Grímsson, Pálmi Gunnarsson og Sigurður Karlsson. Hljóðblöndun í sal annaðist Magnús Kjartansson. Eftir Drög að sjálfsmorði hvarf Megas af sjónarsviðinu langa hríð og uppi voru sögusagnir um tíma að hann hefði stytt sér aldur.
Eins og allt sem er gert án aðkomu auðróna er þetta konsept albúm meistaraverk, og gæti allt eins verið minnst, sem eins af því besta sem íslensk menningu hafði upp á að bjóða seinni hluta 20. aldar,,, - -þegar fram í sækir. Hreinasta þjóðargersemi hvað tónlist, skáldskap og íslenska tungu varðar.
Ég keypti Drög að sjálfsmorði um leið og það kom í sölu, líkt og fleiri plötur Megasar fram að því. Þetta var mest spilaða albúmið mitt 1979, -erfiðasta ár sem ég hef lifað. Sú, sem kenndi mér móðurmálið mitt góða, og var minn verndarvættur þrátt fyrir að ég ætti það ekki skilið, hafði látist af slysförum í desember 1978.
Ég var týndur á botni brennivínsflösku svo vikum skipti þetta ár, orðin einn og afskiptur. Fáir vildi þá kannast við kauða, enda vandræða gemlingur löngu fyrr. Undir koddanaum var flaskan og Drög að sjálfsmorði í botni á fóninum. Tappinn náði svo botni rétt eftir áramótin 79-80 á Silungapolli og Sogni.
Fyrir skemmstu lagði ég svo aftur í að hlusta á Drög að sjálfsmorði og upp þyrluðust gamlir draugar. Vonandi verður það samt ekki svo að íslensk tunga, ástkæra og ylhýra móðurmálið, hafi þau áhrif eftir nokkra áratugi að hún verði hvergi skilin án apps og skýringa þess opinbera, því þar munu;
Væla draugar í dalnum gróðursæla
dauðir fuglar tísta á hverri grein
Eva litla sestu hérna hjá mér
vertu ekki hrædd
þú veist að ég vil þér ekkert mein.
Það er tré,
það er vatn,
það er fiskur í hylnum
fiskurinn sem var veiddur þar forðum.
það er dýr sem sefur vært og veit sig óhult
menn vöktu það eitt sinn
og drápu það jafnskjótt með orðum.
Eftir skotgröfinni skýst ég eins og krypplingur
og skeyti hvergi um tár eða svita.
Ég vaknaði klukkan níu í niða myrkri
og hélt nötrandi af stað
til að borga rafmagn og hita.
Drög að sjálfsmorði - gjörið svo vel.
Dægurmál | Breytt 11.6.2023 kl. 06:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)