Færsluflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur

Vættir og menn

Vættir eru sagðar ekki vera mennskrar gerðar og erfiðar fyrir menn að skynja, þó þær séu í sama rými. Sumt eru landvættir, -verur sem yfirskyggja vissa staði, nota þá, -og skilyrða landið með vissum ógnum og þokka. Náttúruvætti þekkjum við vel í landi elds og ísa, svo sem af eldfjöllum, jöklum, hafi ofl, -náttúruöflin.

Vættir geta verið verndarar lands og þær skal ekki styggja, því að þá farnast fólkinu illa. Vættir geta verið að báðum kynjum og þess vegna hvorugkyns t.d. náttúruvætti. Samkvæmt fornum sögnum eru vættir flestar ónafngreindar. Bjuggu í klettum, vötnum, undir fossum, steinum, hólum, á fjöllum og í hafi. Velferð byggðanna var nátengd því hvernig vættirnar þrifust í hugarheimi fólksins.

Þær sagnir sem lýsa vættum eru fáar, stuttar og einkennilegar. Þær loða helst við staði þar sem náttúran er svo til ósnert af mönnum, stöðum sem stundum eru kenndir við goðin. Goða- og þjóðtrúin segja álfa t.d. vera anda, en þjóðtrúin segir þá samt koma fram að flestu leiti sem menn og birtast þannig við og við. Trúin á vættir heiðninnar virðast hafa horfið með kristninni en varðveist í þjóðsögunum gegnum aldirnar sem nokkurskonar álfasögur.

"Álfar eru göfugastir og merkastir jarðbúa; meiri hluti þeirra er svo líkur oss mönnunum að manni dettur í hug ósjálfrátt er maður heyrir lýst ljósálfum – hinni betri og blíðari tegund álfa – að þarna séu nú komnir fram aftur á æðra stig, þó í sama heimi, ættingjar og forfeður vorir er komnir voru löngu áður yfir um. Svo eru þeir líkir mönnum og þá fullkomnari. Snorri segir svo í Eddu um álfa að álfheimur sé á himni: “Þar byggvir fólk þat, er ljósálfar heita; en dökkálfar búa niður í jörðu, ok eru þeir ólíkir sýnum ok miklu ólíkari reyndum. Ljósálfar eru fegri en sól sýnum, en dökkálfar eru svartari en bik.” (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar III bindi bls 4)

Sumar vættir skilyrða land, setja álög og hafa gert það frá aldaöðli. Önnur aðferð við að skilyrða land er að formæla þeim stöðum sem yfirteknir hafa verið af mönnum. Sem byggingamaður þá kannast ég við álög sem fylgja vissum stöðum. Þeirra verður t.d. vart þegar nýtt byggingaland er brotið undir mannabústaði.

Á landinu eru þá verur, sem hafa átt þar heima frá alda öðli, nærtækast er t.d. að nefna rjúpur og mýs. Skyndilega er þeim gert að hypja sig ásamt úreltum vættum samkvæmt tíðarandanum, en þá eru komnar nýjar vættir ósýnilegar. Því getur ógæfa komið yfir þá sem fyrst brjóta undir sig land og eru til mörg óútskýrð dæmi þess önnur en náttúruöfl.

Álög vætta og formælinga geta virst vera eitt og hið sama. En rétt er að skilja þar á milli. Álög vætta eru kraftar frá eldri tíð, en formælingar seinni tíma álög. Álögum vætta þarf því ekki að fylgi illvild. Álagavaldar gátu t.d. verið völvur sem urðu að verndarvættum. Völvuleiði eru víða um land og fylgir þeim oftar en ekki svipuð þjóðsaga, -ekki skal hrófla við leiðinu og þá mun blessun fylgja.

Svo er mælt að til forna átti völva eða seiðkona heima innarlega í Breiðdal í Suður-Múlasýslu eða innanvert í Skriðdal. Hún vissi fyrir ófrið af hafi. Kvað hún svo á að er hún væri látin skyldi heygja sig á Breiðdalsheiðinni sem liggur á milli þessara dala, nálægt vatni sem er á heiðinni. Lét hún það um mælt eða lagði það á að engin ófriður er kæmi af hafi skyldi komast upp yfir heiðina á meðan hún hvíldi þar og leiðið væri óbrotið. Það segja kunnugir að leiðið hafi sést þar til skamms. Hefur engin verið til að rjúfa það. Þykir sumum sem ummæli hennar hafi ollið því meðfram að Algeirsmenn, Tyrkir, komust aldrei nema í Breiðdalinn. Er og varla hætt við því að menn fari að glettast við völvuleiðið á Breiðdalsheiði. (Þjóðs Sigfúsar V bindi bls 227)

Í Hólmatindi við Eskifjörð er völvuleiði sem hefur útsýni út Reyðarfjörð. Hún á að hafa verndað firðina fyrir Tyrkjum. En skip þeirra sneru við í minni Reyðarfjarðar vegna sterks norð-vestan vinds sem skall á og gerði ófært leiði þegar Tyrkir hugðust sigla inn fjörðinn. Sigldu þeir þessi í stað suður með landinu til Vestmannaeyja.

Sagnir af formælingum valva til ills eru fáar, en þó þekktar. Á prestsetrinu Kálfafellsstað í Suðursveit Hornafirði upp úr siðaskiptum að hafa búið hjón. Bóndinn hét Kálfur, en húsfreyjan kölluð Valva. Þegar Kálfafellsstaður var gerður að prestsetri um 1050 urðu þau nauðug að fara þaðan að býlinu Burtu, sem var hjáleiga frá staðnum.

Sagt er að Valva, sem var bæði heiðinn og forn í skapi, hafi líkað svo illa flutningarnir að hún hafi lagt það á að engum presti skildi vært á Kálfellsstað lengur en 20 ár, fyrr en fengið yrði í kirkjuna líkneski Ólafs helga Noregskonungs “bróður” síns og mundu þeir þó flestir hafa fullkeypt. Prestar á Kálfafellstað máttu síðan reyna álögin á eigin skinni þar til líkneski Ólafs helga var sett í kirkjuna, sem varð ekki fyrr en 1717, -og þótti álögunum þá létta um stuttan tíma. 

Þegar Kristján Vigfússon bjó á Kálfafelli skopaðist hann af átrúnaðinum og sagðist skildi sýna hvað mikið væri að marka líkneskið. Hann hjó af líkneski Ólafs helga nokkra fingur. Litlu seinna var sonur Kristjáns að leika sér við annan dreng jafnaldra sinn úti á túni 10-12 ára. Þeim sinnaðist og var drengurinn með hníf og stakk Sæmund til bana beint í hjartað. Þetta var talið hefnd fyrir handarhögg Ólafs helga. (Þjóðsögur og sagnir – Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm bls 204)

Kristján var um tíma sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu, frá því er Jóni Helgasyni var vikið frá 1798, uns honum var sjálfum vikið frá 1804. (Ættir Austfirðinga) Sagt er að Kristján þessi hafi endaði ævina sem niðursetningur og er ævi hans talin til vitnis um það hvað það getur kostað að fara gegn álögum sem sett eru á með formælingum.

Kálfafellsstaðarkirkja fauk í Knútsbyl 7. janúar 1886, þá nýlega endurbyggð, í einhverju mesta fárviðri sem gengið hefur yfir Austurland. Nýreist kirkja veglegt guðshús á þeirra tíma mælikvarða, hafði tekið af grunni og fokið í brak. Þetta var timburkirkja, kölluð Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga. Af honum var líkneski sem stóð á áberandi stað í kirkjunni.

Þetta var mikið tjón fyrir söfnuðinn í Suðursveit og ekki síst fyrir prestinn, Jóhann Knút Benediktsson, sem bar hita og þunga af framkvæmd þess að koma kirkjunni upp. Þegar hér var komið, var heilsa hans farin að bila, en sagt var, að mjög hefði honum hnignað við þetta áfall. (Knútsbylur - Halldór Pálsson bls 11) - Ólafur kóngur fannst svo alveg heill, nema fingralaus, uppistandandi, niður í fjöru langan veg frá bænum. Líkneski Ólafs helga úr Kálfafellsstaðarkirkju er nú á Þjóðminjasafni Íslands.

Getgátur eru uppi um að Valva á Kálfafellsstað hafi í raun heitið Gunnhildur og verið systir Ólafs helga Noregskonungs. Sá landnámsmaður, sem nam Hornafjörð var Hrollaugur, sonur Rögnvaldar Mærajarls. Hrollaugur bjó í Suðursveit. Hans bræður voru Torf-Einar Orkneyjajarl, og Göngu-Hrólfur forfaðir Vilhjálms bastarðar, sem fór fyrir Normandí Normönum, þegar þeir unnu orrustuna um Bretland við Hastings 1066, og enska konungsættin er rakin til.

Það má ætla að vættir og þau álög, sem  sögð eru vera valva og helgi í þjóðsögunum, séu dæmi um fornar vættir og formælingar. Þau eiga rætur aftur í heiðni, og hafa lifað siðaskipti í gegnum þjóðsöguna alla leið inn í nútímann. Hvort þjóðsagan varðveiti í aldir héðan í frá sagnir fólks um álaga vættir dagsins í dag þau; -verðbólgu og hagvöxt, -getur tíminn einn leitt í ljós.

 


Sögur af landinu bláa

Hæsta byggða ból landsins, í u.þ.b. 460 m.y.s, er Möðrudalur. Kallaður í fornskjölum Möðrudalur á Efra-Fjalli. Talið er að Möðrudalur hafi verið byggður frá landnámi með örfáum undantekningum. Margar og athyglisverðar sögur eru til úr Möðrudal enda bærinn á einstökum stað inn á öræfum. Svo gott hefur verið að búa í Möðrudal að ættir hafa ílengst í marga ættliði og er núverandi ætt búin að búa þar í meira en 100 ár.

Drauga og presta sögur eru margar og magnaðar. Sennilega er sagan af Möðrudals Möngu sú þekktasta, en hún skreytir flest íslensku þjóðsaganasöfnin. Í Desjamýrarannál Halldórs Gíslasonar prests er sögn sem má geta sér til sem ein ástæða þess að byggð í Möðrudal hefur af og til lagst af í gegnum aldirnar.

Í lok 15. aldar gekk plágan síðari yfir Austfirði. Þá gjöreyddist svo byggð í Múlasýslum, að ekki lifðu eftir nema tvær manneskjur, presturinn í Möðrudal og stúlka ein í Mjóafirði. Þau náðu saman og urðu samferða suður um land að leita annarra manna. – Fundu þau ekki fólk nema á Síðu, 7 menn, og 11 undir Eyjafjöllum. Landið byggðist svo aftur af Vestfjörðum, því þar kom plágan ekki.

Þessi sögn er frá sama tíma og saga af Þorsteini jökli Magnússyni, sem á sér sömu ástæðu og sagan af Torfa í Klofa. Síðari plágan svokallað gekk yfir Ísland árin 1493-1495 og var mannskæð farsótt. Yfirleitt er talið að þetta hafi verið sama sótt og olli Svartadauða sem gekk yfir landið í upphafi 15 aldar. Plágan er talin hafa borist til landsins með ensku skipi sem kom til Hafnarfjarðar. Í árbókum Espólín segir:

„Um sumarið komu enskir kaupmenn út í Hafnarfirði; þar þótti mönnum sem fugl kæmi úr klæði bláu, að því er Jón prestur Egilson segir, og þá var talað; gjörði  því næst sótt mikla, og mannskæða plágu í landi hér. ... tókst mannfallið um alþingi, og stóð yfir, fyrir sunnan land, fram yfir Krossmessu um haustið, en rénaði nokkuð þá loft kólnaði.“

Pestin gekk fyrsta sumarið um Suður- og Vesturland en árið eftir um Norður- og Austurland. Vestfirðingum tókst að verjast smiti og barst hún aldrei til Vestfjarða. Sagt var að konur hafi fundist dauðar með skjólur sínar undir kúm og ungbörn hafi sogið mæður sínar dauðar.

Þeir sem fylgdu líki til grafar hrundu niður á leiðinni og fóru stundum sjálfir í þær grafir sem þeir grófu öðrum. Þá fjölgaði eyðibýlum verulega um allt land og sagt var að fátækt fólk frá Vestfjörðum hafi á eftir getað fengið góðar jarðir víða um land. 

„Þorsteinn jökull bjó á Brú á Jökuldal um aldamótin 1500. Það hefur verið algeng sögn um hann í Austfjörðum, að hann hafi búið þar, þegar plágan mikla gekk 1494 -5. Þegar hann spurði til plágunnar, flutti hann vestur á öræfi, að svo kallaðri Dyngju í Arnardal (inn af Möðrudalshásléttunni). Byggði þar bæ og bjó þar í tvö ár.

Meðan plágan stóð sendi hann tvo menn til byggða, sitt árið hvorn, og kom hvorugur aftur. Þriðja árið sendi hann son sinn. Hann sá bláa móðu yfir dalnum (Jökuldal) en engar mannaferðir. Þá flutti Þorsteinn að Netseli við Ánavatn í Jökuldalsheiði og bjó þar eitt ár. En næsta ár flutti hann aftur að Brú og bjó þar til elli”.

Mikil ætt Austfirðinga er komin út af Þorsteini jökli, eins og vænta má sé eitthvað að marka Desjamýrarannál.

Munnmæli eru til um að byggð í Möðrudal hafi eitt sinn lagst af vegna ísbjarna. Sagan er í grófum dráttum þannig að maður utan af Hólsfjöllum átti erindi í Möðrudal. Þegar hann kom þangað var engin úti við og engin sem kom til dyra. Hann fór því inn í bæinn og var aðkoman ömurlega. Lík alls heimilisfólks lágu á gólfi baðstofunnar rifin og tætt.

Manninn grunaði strax að ísbirnir væru þessu valdandi. Baðstofan í Möðrudal var ekki á palli heldur niður á jafnsléttu. Það voru samt tvö rými í lofti hvort við sinn stafn með bjálka á milli. Þangað fór maðurinn því ekki þorði hann að ganga langa leið til baka og eiga von á ísbjörnum, eins grunaði hann að ísbirnirnir ættu eftir að koma aftur og vitja veiðinnar.

Ísbirnirnir komu aftur og hafði maðurinn þá undirbúið sig vel og tókst að flæma þá á flótta með eldglæringum af hefilspónum. Engar tímasetningar eru til á þessum munnmælum. En í annál Eiríks Sölvasonar prests í Þingmúla er sagt frá því að mikill hafís hafi verið við Austfirði 1621, hafi þá gengið 25 ísbirnir í hóp um Fljótsdalshérað og upp um heiðar.

Árið 1916 var tekin gröf í kirkjugarðinum í Möðrudal komu þá upp 9 höfuðkúpur og mikið af mannabeinum, settu menn það í samband við munnmælin um ísbirnina. Þessi bein gætu hafa verið þarna að öðrum ástæðum, s.s. drepsóttum aða einhverjum öðru, enda kirkjugarður. En ólíklegt var talið að skortur á landrými í Möðrudal hafi orðið til þess að fólk væri grafið í fjöldagröf, eitthvað annað hafi þurft að koma til að svo væri gert.

Þá segja máldagar Möðrudalskirkju einstaka sögu, m.a. frá skógarítaki kirkjunnar í Skaftafellsskógi og sumarbeitarrétti Skaftfellinga fyrir hesta í Möðrudal. Þessir máldagar gefa það ótvírætt til kynna að Vatnajökull hafi verið mun minni og með öðrum hætti fyrr á öldum en hann er í dag.

 

Í Möðrudal á Fjöllum er mánaljósið tært

og meyjaraugun fegri en himinsólin

Og kvöldstjörnunnar ljós

það lýsir þar svo skært

Þar leiðast þau

sem elskast

bak við hólinn

(ljóð Þórbergur Þórðarson)


Sumarmál - voru Íslendingar Gyðingar?

Það er margt sem íslenskan geymir af sögu heimsins, sem óvíða er skráð annarsstaðar, og er þó sumt af því heimsþekkt orðið í dag án þess að nútíma Íslendingar hafi mikla hugmynd um hvers vegna. Má þar t.d. nefna fornaldasögur Norðurlanda og tímatal. En þaðan kemur t.d. hugmyndin af The lord of the rings og The vikings.

Nú eru Sumarmál, en síðustu fimm dagar vetrar voru kallaðir sumarmál í gamla íslenska tímatalinu. Á eftir kom sumardagurinn fyrsti sem var fyrsti dagur hörpu, -fyrsta mánaðar í sumri. Þetta tímatal er ævafornt og hafa fræðimenn velt vöngum yfir hvaðan það kom, því þar er ekki bein samsvörun í norræn tímatöl.

Tolkein lá ekki á því að hugmyndin af Hringadrottins-sögu væri sótt í Völsunga-sögu og það dylst engum að sjónvarpþáttaserían Vikingarnir er byggð á Ragnars-sögu loðbrókar, sem segir m.a. frá konu hans Áslaugu kráku og sonum, þeim Ívari beinlausa, Birni blásíðu og Sigurði ormi í auga. Báðar þessar sögur varðveittust á Íslandi og hafa verið kallaðar Fornaldarsögur Norðurlanda.

Símon Dalaskáld skrifaði skáldsöguna Árni á Arnarfelli og dætur hans skömmu eftir 1900 og var hún útgefin árið 1951. Tími sögunnar virðist vera frá því skömmu fyrir 1880 til aldamóta. Höfundur lætur söguna gerast í Skaftafellssýslu þar sem bændur versluðu á Djúpavogi. Fjöldi fólks kemur við sögu og gerir höfundur grein fyrir ætt sögupersóna í samtölum.

Í skáldsögu Dalaskáldsins má finna kafla sem heitir Deila Halldórs og Hallfríðar. Þar rökræða Halldór Lambertsen stúdent og Hallfríður Árnadóttir heimasæta á Arnarfelli um persónur Íslendingasagna. Síðar berst tal þeirra að ættum Íslendinga. Það samtal fer hér á eftir:

Halldór: Á ég að segja þér af hverjum flestir Íslendingar eru komnir?

Hallfríður: Já það væri fróðlegt að heyra.

Halldór: Þeir eru fjölmargir komnir af írskum þrælum. Svo mæla Danir og mun mikið hæft í því.

Hallfríður: Hvaða vitleysu ferð þú með maður. Þeir eru heldur margir komnir af írskum konungum. Í Landnámu er ekki getið um aðra írska þræla en þá sem drápu Hjörleif við Hjörleifshöfða og menn hans, en Ingólfur hefndi fóstbróður síns og drap þá skömmu seinna, svo varla hefir komið mikil ætt frá þeim. Reyndar voru það írskir þrælar, sem brenndu inni Þórð Lambason, en þeir voru ráðnir af dögum skjótlega. Hingað fóru fáir Írar, heldur norrænir víkingar, sem herjuðu vestur um haf og komust í mægðir við konunga Englands og önnur stórmenni; vegna hreysti sinnar fluttust margir hingað, og má heita, að helmingur Íslands sé numinn af þeim.

Halldór: Ég hefi gaman, ef þú telur mér nokkra upp.

Hallfríður: Það get ég gjört að telja nokkra: Þórður skeggi, bróðursonur Ketils flatnefs; hann átti Vilborgu, dóttur Ósvalds konungs. Helgu dóttur þeirra átti Ketilbjörn hinn gamli, afi Gissurar hvíta. Eyvindur austmaður átti Raförtu, dóttur Kjarvals Írakonungs, þeirra son Helgi hinn magri er nam Eyjafjörð. Höfða-Þórður átti Þorgerði dóttur Þóris hímu og Friðgerðar, dóttur Kjarvals Írakonungs. Erpur, leysingi Auðar djúpúðgu, var son Melduns jarls af Skotlandi og Mýrgjólar, dóttur Gljómals Írakonungs, hann nam Sauðafellsströnd. Auðunn stoti, er nam Hraunsfjörð, átti Mýrúnu, dóttur Maddaðar Írakonungs. Án rauðfeldur, son Gríms loðinkinna úr Hrafnistu og Helgu dóttur Áns bogsveigis, átti Grelöðu dóttur Bjartmars jarls. Af þeirra börnum kom hið mesta stórmenni í Orkneyjum, Færeyjum og Íslandi, enda var Þorsteinn rauður kominn af Ragnari loðbrók, er frægastur hefir verið konunga í fornöld, og Sigurði Fáfnisbana. Helga hin fagra var af þessari ætt.

Halldór: Ég hefði gaman, ef þú gætir rakið þá ættarþulu.

Hallfríður: Það get ég vel, byrja þá í niðurstígandi línu. Sigurður Fáfnisbani og Brynhildur Buðladóttir. Þeirra dóttur Áslaugu átti Ragnar loðbrók Danakonungur. Þeirra synir Ívar beinlausi, konungur á Englandi, Björn blásíða konungur í Svíþjóð. Sigurður ormur-í-auga, átti Blæju dóttur Ella konungs. Af Hörða-Knúti syni þeirra voru Danakonungar komnir í fornöld, en af Áslaugu dóttur þeirra var Haraldur hárfagri kominn og þar með allir Noregskonungar, afkomendur hans. En Þóru dóttur Sigurðar orms í auga átti Ingjaldur konungur Helgason. Þeirra son, Ólafur hvíti, konungur á Írlandi, átti Auði hina djúpúðgu, dóttur Ketils flatnefs. Þeirra son Þorsteinn rauður átti Helgu, dóttur Eyvindar austmanns. Hann var konungur á Skotlandi; var svikinn af Skotum og drepinn. Ólafur feilan, þeirra son, fór þá barn til Íslands með Auði djúpúðgu, ömmu sinni. Hann giftist á Íslandi Álfdísi hinn barreysku. Þeirra börn: Þórður gellir, mestur höfðingi á Íslandi á sinni tíð, og Þóra, móðir Þorgríms, föður Snorra goða, og Helga, er átti Gunnar Hlífarson, þeirra dóttur Jófríði átti Þorsteinn Egilsson á Borg. Þeirra dóttir Helga fagra. Ólafur pá var af þessari ætt og næstum því öll stórmenni Vesturlands. Mikil fremd þótti fyrrum að vera kominn af Ragnari loðbrók og Sigurði Fáfnisbana, eins og sjá má af sögunum, en ekki gátu hrósað sér af því nema Breiðfirðingar og Skagfirðingar. Breiðfirðingar voru komnir af börnum Þorsteins rauðs en Skagfirðingar af Höfða-Þórði, sem kominn var af Birni blásíðu Svíakonungi, syni Ragnars loðbrókar, enda hafa í þessum fögru og tignarlegu héruðum verið mestir höfðingjar og skáld. Víðdælir voru og komnir af Ragnari loðbrók og fyrri konu hans, Þóra dóttur Herrauðs Gautajarls, og ég er búin að rekja þetta út í æsar, en hvort þið trúið því eða ekki, get ég ekki gjört að. Ég ætla að sýna ykkur það svart á hvítu, hvort ég hef ekki rétt fyrir mér og væri gott, ef þið vilduð gefa ykkur tíma til að rannsaka það.

Um öll þessi fjölskyldutengsl má lesa svart á hvítu í Íslendingasögum og Fornaldarsögum Norðurlanda, m.a Völsunga-sögu og Ragnars-sögu loðbrókar. Fornaldarsögurnar teiga sig í austur veg um Garðaríki suður til Svartahafs. Gamla tímatal Íslendinga á sér samsvörun í fornum tímatölum enn austar, og má rekja til Babýlon, -jafnvel Persíu.

Á fyrri hluta 20. aldar taldi enski rithöfundurinn Adam Ruthedford Íslendinga vera hreinasta afbrygði Benjamíns, ættkvíslar Ísraels, -yngsta sonar Jakobs. Hluti ættar Benjamíns fóru Garðaríki upp í Eystrasalt, og voru þá kallaðir Herúlar. En úlfur var Benjamín að sögn Jakobs faðir hans og úlfur einkenni Benjamíníta. Samsettur úlfur er algengt mannsnafn á Íslandi s.s. Ingólfur, Brynjólfur, Herjólfur, Þorólfur, Hrólfur, Snólfur o.s.fv. Ættforeldrar þessara Herúla voru þau Óðinn, Frigg, Njörður, -Freyja, Freyr og allt það goðsögulega slekti sem Snorri gerði góð skil í Heimskringlu.

Landnámsfólk Íslands kom flest frá vesturströnd Noregs og Bretlandseyjum samkvæmt Landnámu og Íslendingasögunum. Samkvæmt Biblíusögunum voru Júda og Benjamín herleiddir til Babýlon ásamt öðrum Ísraelsmönnum, þær ættkvíslar fylgdust svo einar aftur að í fyrirheitna landið. Benjamín settist þá í Galíleu, en hafði áður búið í Jerúsalem og Júda settist þá í Jerúsalem. Fjölmennigarsvæðið Samaría var þá orðið til og var á milli þessar ættkvísla Ísraels, sem lentu svo aftur á flakk í kringum Krist og jafnvel nokkru fyrr.

Íslendingasögurnar og Fornaldarsögurnar segja frá miklum þjóðflutningum fólks, sem að endingu nam Ísland og setti þar upp einstakt þjóðveldi, allt vandlega skrásett rétt eins og testamennin. Völsungasaga gerist í Evrópu allt frá Njörfasundum til Héðinseyjar, -Gíbraltar til Krím.

Sagan segir frá Völsungi og hverjir forfeður hans voru; -Reri sonur Siga, sonar Óðins. -Og svo Sigmundi syni Völsungs og sonum hans m.a. Sigurði Sigmundssyni Fáfnisbana. Í sögunni má finna mörg þau minni sem goðafræðin byggir á. Hluti Völsungasögu gerist í Dacia í Rúmeníu og segir frá þegar Sigmundur og Sinfjötli, eftirlætssonur Sigmundar, lögðust út sem varúlfar.

Svo eru til fornar írskar sagnir og annálar sem herma, -þessu tengt, -að löngu fyrir Krists daga hafi komið til Írlands austan úr löndum skip, sem á var gamall spámaður, Allamh Fodlha, skrifari hans og konungsdóttirin Tamar Tephi. Um þetta sagði sögugrúskarinn Árna Óla í titgerð: Í fornum írskum þjóðsögur og þjóðkvæðum er það beinlínis sagt, að Allamh Fodlha hafi verið Jeremía spámaður og Tamar Tephi hafi verið dóttir Zedekia konungs (Júda í Jerúsalem). Skömmu eftir komu þeirra Jeremía til Írlands giftist Tamar Tephi konunginum þar. Hann hét Heremon og var líka af Ísraelsætt. Og til þeirra er rakin ætt núverandi Bretakonunga.

Það er nokkuð ljóst að fyrri tíma Íslendingar kunnu vel að meta, -og lesa í sagnaarf þjóðarinnar og þurftu hvorki latínulærðan millilínulestur né Hollywood útgáfur á borð við The lord of the rings, eða The vikings á Netflix til á átta sig á um hverskonar bókmenntir er að ræða, -þeir skildu einfaldlega tungumálið.

Lýstur sól

ljósum sprota

læðing lífs;

lásar hrökkva.

Svella hugir.

Syngur í hlíð.

Vaki þú, vaki þú

Völsungakyn!

 

Sól er á fjöllum,

sól í dölum,

sól í bæjum;

söngur í hlíð.

Hreifir vor

hörpustrengi.

Fellur ryð

af fornu stáli.

 

Sefur í hörpu

Sigurðardóttir

Áslaug - arfuni

afreksverka.

Þrútnar Heimis brjóst,

er harpan lætur.

Glóir gull

gegnum tötra.

 

Lýstur sól

ljósum sprota

ævintýraheim

unglings hugar.

Gnótt er ennþá gulls

á Gnítheiði.

Gangvarinn góði

gneggjar og rís.

 

Sér yfir Gnítheiði:

Situr á gulli

óframgjarn ormur

eigin hægðar,

hálfur dýr,

hálfur maður.

Vaki þú, vaki þú

Völsungakyn!

 

Vek ég þig að vígi

vanræningja

vetrar langs

og vanafestu.

Vek ég þig til styrks

hinum stóru þrám,

hlýleika hugarins

og hvassrar sjónar. –

 

Lýstur sól

ljósum sprota

ævintýraheim;

ómar hlíð:

Handan við Gnítheiði

glóa laukar.

Vaki þú, vaki þú

Völsungakyn!

(Sumarmál / Ljóðmæli bls 8 SF)

Allur verðmætur skáldskapur hefur tvö aðaleinkenni, annaðhvort eða bæði. Í venjulegu máli talar skynsemi mannsins beint til skilnings, vit til vits. En í skáldskap tekur vitið sér til aðstoðar ímyndunarafl og tilfinningu. (Litlu-Laugum í apríl 1927 - Sigurjón Friðjónsson).

Ægishjálmur


Jökuldæla og Gunnhildur

Þjóðsagan getur farið krókótta leið. Oft má ætla að hún sé upprunnin í munnmælum sem hafa ferðast á milli manna áður en þau voru skráð, svona nokkurskonar kjaftasaga, og því óáreiðanlegri heimild en skráð samtímasaga. Svo má velta vöngum yfir því hvað medían, sem færir okkur vísindi og pólitík dagsins, - samfélagsmiðlar osfv,  eru áreiðanleg þegar fram líða stundir.

Síðuhafi hefur bent á að hið viðtekna er oft tískubóla blásin af út áhrifavöldum líkt og hver annar pólitískur áróður eða vísindi, -sem eru eitt í dag og annað á morgun. Þjóðsagan, geti aftur á móti verið fínpússuð, menntuð og fullreynd sannindi að aflokinni rýni fjöldans áður en hún er sett í rit.

Kristian Kålund ferðaðist um landið 1872-1874 minnist á Íslendingasagna bókina Jökuldælu í ferðabók sinni, en þar segir: Jökuldalur og bæir þar koma aðeins stöku sinnum fyrir í sögunum. Reyndar er mikið talað um Jökuldælu, sem þar á að hafa gerst, en virðist þó glötuð að undanteknum fáeinum brotum. (Íslenskir sögustaðir IV bindi bls 16 - Bidrag til historisk-topografisk Beskrivelse af Island)

Í bókinni Að vestan þjóðsögur og sagnir, sem í eru þjóðsögur sem skráðar eru af brottfluttum Íslendingum í vesturheimi, er smáþáttur eftir Guðmund Jónsson sem heitir Sagnir úr Hróarstungu. Þar hefur Guðmundur eftir sögu úr Hróarstungu sem hann telur vera úr Jökuldælu. Í formála sögunnar segir hann svo:

"Fáar sögur eru til frá fornöld af Austfjörðum. Vera má, að þar hafi færra gerst sögulega en í öðrum landshlutum, en hitt er þó öllu líklegra, að þær sögur séu nú margar glataðar. Svo er um margar sögur frá fornöld, sem vissa er fyrir, að voru til á 17. og 18. öld. Þar á meðal er Jökuldæla, sem víst er, að til var á skinnhandriti á 18. öld. Ég heyrði nokkrar sagnir um það, þegar ég var ungur, að gamlir menn höfðu afspurn af þeirri bók í æsku. Sigurður prófastur Gunnarsson á Hallormsstað getur þess, í Safni til sögu Íslands (að mig minnir), að hann hafi frétt um þá bók, en hún hafi verið týnd fyrir sína daga. Þó mun hafa verið til brot af henni lengur, þótt fáir vissu, og er þessi sögn því til sönnunar:

-Sigurður Sigurðsson frá Fögruhlíð sagði mér það síðasta, sem ég hef frétt af bók þessari. Sigurður var vel greindur maður og gætinn og manna færastur að lesa settletur og gömul handrit.

Hann kvaðst hafa farið upp að Arnórsstöðum á Jökuldal nálægt 1880, í kynnisför til bóndans þar, Jóns Kjartanssonar, sem áður hafði verið nágranni hans. Þegar hann kom þangað, var Jón bóndi ekki heima. Hann kvaðst hafa farið að leita þar í bókarusli sér til skemmtunar, en þar rakst hann á skinnbókarræfil, mig minnir aðeins tvö blöð. Þau voru svo máð, að þau voru lítt læsileg. Þó komst hann að þeirri niðurstöðu, að þau væru úr Jökuldælu. Ekki kvaðst hann hafa getað náð samhengi úr efni þeirra, því þetta var í skammdegi og dauf birta. Þó kvaðst hann hyggja, að hann hefði getað lesið þau að mestu leyti við góða dagsbirtu. Enginn þar á bæ sagði hann, vissi hvað á blöðum þessum stóð. Þau höfðu þvælst þar lengi í öðru bókarusli. Næsta vetur heimsótti Sigurður Jón bónda og spurði eftir blöðunum, en þau voru þá glötuð.

Þegar ég var um tvítugsaldur, kynntist ég gömlum manni, sem Magnús hét Einarsson. Hann var greindur maður, bókvinur mikill og fróður um margt, en dulur í skapi. Sagði hann mér margt í fornum fræðum, sem ég sé nú eftir, að ég skrifaði ekki upp. En ég vona, að Sigfús þjóðsagnahöfundur hafi notað betur þann fróðleik, því að ég vissi, að þeir voru kunnugir. Meðal annars sagði Magnús mér, að hann hefði á yngri árum sínum átt tal við gamlan mann, sem hefði heyrt lesna bók þá, er Jökuldæla var á, en ekki kunni hann rétt samhengi úr efni hennar. En hann sagði, að á sömu bók hefði verið þáttur af bræðrum þrem í Hróarstungu. Efnið úr þeim þætti hefði hann numið, og er það þannig:" (Að Vestan þjóðsögur og sagnir I bindi bls 10-11)

Síðan hefur Guðmundur eftir söguna af þeim Gunnhildarsonum, Galta, Geira og Nef-Birni og er hún nokkurn vegin samhljóma sögu í Gunnhildar-þætti í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar að öðru leiti en Sleðbrjóts hlutanum, sem gerist ekki eftir að þeir bræður eru allir, heldur áður, og er þar í aðdraganda ósamlyndis þeirra.

Þannig hefst Gunnhildar þáttur hjá Sigfúsi í hlutanum Fornmenn: “Svo hafa gamlir menn sagt er kváðust hafa séð Jökuldæla sögu að í henni hafi verið allir þessir þættir: af Hákoni og Skjöldólfi, af Böðvari og Gull-Birni og enda Hauki; má vera að hann sé sá sami og sá er byggði Haukstaði á Dalnum. Ennfremur fylgja hér þættir er menn segja úr henni.

“Þorsteinn kleggi nam fyrstur Húsavík; “segir Landnámabók, “og bjó þar, hans son var Án, er Húsvíkingar eru frá komnir”.

Gunnhildur hét kona ein margfróð; hún átti bræður tvo, að sagan segir, og hétu hvortveggja Herjólfur. Gunnhildur segja munnmæli að kæmi skipi sínu í Loðmundarfjörð og við hana sé kenndur Gunnhildartindur þar. Gunnhildur var þá ekkja og átti þrjá sonu, Galta, Geira og Björn, er kallaður var Nef-Björn. Allir voru þeir bræður og synir Gunnhildar miklir fyrir sér og svo hún sjálf og mjög forn í skapi. Galti var fyrir bræðrum sínum um frækileik. Gunnhildur byggði fremst í Húsavík þar sem nú heitir Gunnhildarsel.

Herjólfur eldri nam næstu vík fyrir norðan sem við hann er kennd og heitir Herjólfsvík. Stóð bær hans undir Stórafjalli. Herjólfur annar fór upp í Hérað; segja sumir menn hann byggi að Glúmstöðum og þó fleiri Egilsstöðum í Fljótsdal. (Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI bls 61-Sigfús Sigfússon)

Síðan heldur Sigfús áfram að segja af þeim Gunnhildi bræðrum hennar og sonum. Herjólfur eldri í Herjólfsvík og Gunnhildur elduðu grátt silfur svo að Gunnhildur flutti upp í Hérað ásamt sonum sínum, yst í Hróarstungu þar sem Tungan mætir Húsey. Þar eru bæjarnöfnin, Gunnhildargerði, Nef-Bjarnarstaðir, Geirastaðir og Galtastaðir.

Þátturinn um Gunnhildi endar á að segja frá hörmulegum endalokum sona Gunnhildar þar sem þeir börðust við hvern annan og drápu, að endingu dó Gunnhildur úr harmi. Sagan sem Guðmundur Jónsson í vesturheimi kemur með Að Vestan er svo til samhljóða Sigfúsi, en hún er einungis um endalok þeirra mæðgina auk þessa að gefa skýringu á bæjarnafni í Jökulsárhlíð. Þar er sá blæbrigða munur á þeim Guðmundi og Sigfúsi, hvort atburðir þar gerist fyrir eða eftir dauða þeirra Gunnhildarsona.

Það má allt eins ætla að fjöldi munnmæla í þjóðsögum frá landnámsöld séu komnar úr tíndum fornritum á við Jökuldælu, sem hafa að geyma skýringar á því hvernig ýmis örnefni urðu til og eins ýtarlegri frásagnir af fornmönnum.

Mér komu þjóðsögurnar til hugar um daginn þegar ég sá hve tímasetningar fornleifauppgraftarins í Firði á Seyðisfirði eru í takt við sagnir Sigfúsar Sigfússonar af Bjólfi sem nam Seyðisfjörð samkvæmt Landnámu. Um Bjólf er lítið í Landnámu og eingin íslendingasaga um hvenær og hvar nákvæmlega hann nam land í Seyðisfirði.

Sigfús Sigfússon getur sér þess til í Þjóðsagnasafni sínu að til hafa verið skráð saga af Seyðfirðingum þegar hann skrifar niður þau munnmæli sem til eru um Bjólf og landnámsjörð hans Fjörð, -segir þar að Bjólfur hafi komið seint á landnámstíð. Nú hefur fornleifauppgröftur í Firði tímasett upphaf byggðar í Firði á Seyðisfirði í kringum árið 930, -í lok landnáms.


Vestfjarða-Grímur og Vatnajökull

Nú fer hamfarahlýnunin með himinskautum og trúboðar kolefniskirkjunnar skreyta  himinhvelfinguna þotuslóðum. Norðurslóðir eiga að vera til marks um hvað er í vændum, -hamfarabráðnun jökla mun drekkja mankyninu. Gott ef ekki verður fleygt dánarvottorði í Ok einn ganginn enn, um leið og liðið þýtur hjá, sem vit kann að hafa fyrir öðrum, með kolefnissporin á eftir sér og tvær litlar Síberíu lerki plöntur til framtíðar hamfaraóræktar og afláts eigin óskapnaðar.

Dálæti íslenskra fyrirmenna á því að vera málsmetandi í þessum söfnuði verður að teljast einkennilegt, ef litið er til þess að enn hefur hitastig landsins bláa ekki náð því sem það var um landnám. Hjákátlegra er að verða vitni að því að litla ísöld sé heiðruð með hinu rétta hitastigi, -þeirra sem eiga að vita að þá riðu yfir einhverjar mestu hörmungar Íslandssögunnar.

Síðuhafi setti hér á bloggið nokkur orð um Öræfi, Litlahérað og Klofajökul fyrir nokkrum  dögum. Þau voru að mestu fengin úr Íslenskir sögustaðir, reisu bók Kristian Kålund, og greinarskrifum Sr Sigurðar Gunnarssonar prófasts á Hallormastað í Norðanfara. Báðir þessir menn skráðu hjá sér gamlar sagnir og leituðu eftir heimildum þeim til staðfestu s.s. úr máldögum kirkna og jarðatölum.

Núna ætla ég að benda á þjóðsöguna um Vestfjarða- Grím, sögu sem vitað er að var til í munnmælum á 16. öld og ekki fyrr en á þeirri 19. sem hún var skráð. Þjóðsögur eru með því marki brenndar að auðveldlega má rengja þær vegna ævintýralegs söguþráðar, eru oft um álfa, drauga og forynjur. En að sama skapi fara þær oftast rétt með staðhætti og geyma miklar upplýsingar um fyrri tíma.

Sagan af Vestfjarða-Grím segir frá manni sem fæddist á Skriðu (Skriðuklaustri) í Fljótsdal. Hann var sonur Sigurðar og Helgu, sem létu hann frá sér til bróður Sigurðar sem bjó vestur á fjörðum, og þar ólst hann upp. Sigurður lenti í stælum við Indriða höfðingja á Eiðum út af belju með þeim afleiðingum að Indriði drap Sigurð.

Grímur fór austur á land, þá fullorðinn maður, til að hefna föður síns og drap Indriða á Eiðum. Hann varð eftirlýstur sakamaður og þurfti að leynast víða um Hérað, m.a. er Grímstorfan í Hafrafellinu í Fellum nefnd eftir þessum Grími. Eins er talið að hann hafi leynst um tíma í helli, sem var á bak við Fardagafoss í Fjarðarheiðinni ofan við Egilsstaði, en fyrir munnann á þeim helli hrundi fyrir nokkrum árum.

Grímur fór síðan, að ráði móður sinnar, til konu sem leyndi honum, sennilega í tjaldi fyrir ofan Krossavík í Vopnafirði, þó sagan geti ekki um hvar. Sú kona ráðlagði honum að fara suður á fjöll og leynast um veturinn á stað þar sem nóg væri af fiski í vötnum og búsældarlegt um að litast. Þegar voraði ráðlagði hún honum að taka sér far með skipi við Ingólfshöfða og fara úr landi, -eða eins og þjóðsagan orðar það:

Þess á milli sótti Helgi (bróðir Indriða) alstaðar eftir Grími og setti öll brögð til að ná honum, frétti og um síðir að hann mundi dyljast hjá fyrrnefndri konu. Kona þessi var berdreymin og forspá; sagði hún Grími eitthvert sinn að Helgi mundi þar innan skamms koma og vísaði honum að vötnum nokkrum í landsuður, hvar hann sig af veiðiskap nært gæti þar til skip einhver af hafi kæmi undir Ingólfshöfða; ráðlagði hún honum þar að leita utanferðar, en voga ekki til langdvala hér í landi.

Grímur fór alfarið að ráðum konunnar, en við vötnin bjó risi í helli ásamt dóttur sinni. Grímur drap risann og bjó með dótturina hjá sér um veturinn. Ferðir Gríms eru rökréttar, sé farið til vatnanna, sem hann bjó við, -en þau eru nú á kafi í snjó, og ef ekki væri fyrir þjóðsöguna hefði sennilega engin vitað af þessum vötnum í fleiri hundruð ár þar til nú á dögum nútíma vísindanna.

Þannig lýsir þjóðsagan þessum stað á dögum Vestfjarðar-Gríms: 

Grímur fór sem honum var ráðlagt til vatnanna og gjörði sér þar skála, laufskála úr skógi er þar var nógur, og tók að veiða í vötnum.

Þessi þjóðsaga er hárnákvæmt tímasett, þó svo að ekki sé hægt að rekja munnmæli aftar en til 16. aldar. Grímur eignaðist nefnilega velgerðar mann í Noregi sem var Haraldur konungur harðráði Sigurðsson (1015-1066) sá sem lét lífið í orrustunni við nafna sinn við Stamford Bridge á Englandi, og var afi Þóru Magnúsdóttir í Odda á Rangárvöllum. Faðir Þóru var Magnús berfættur, stundum kallaður síðasti víkingakonungurinn. Sennilega eiga flestir Íslendingar nú ætt að rekja til Þóru í Odda, þannig að Haraldur harðráði hefur óbeint átt stað í lífi fleiri hér á landi en Vestfjarða-Gríms.

Grímur fór utan sem til var ætlað og komu til Noregs; þá var konungur Haraldur Sigurðsson; með honum fékk Grímur sér vistar um veturinn. Að jólum hélt konungur veislu ríkmannlega; bjó Grímur sig þá því fyrrtéða belti. Strax kom á hann ógleði og þráði hann jafnan risans dóttur. Þetta fann konungur og spurði hann hverju gegndi, sagði hann þá konungi allt um sambúð þeirra risadóttur.

Að vori gaf konungur honum skip á hverju hann til Íslands fara kynni til að sækja unnustu sína. Grímur hélt á haf og kom við Ingólfshöfða, gekk á land og fór til Grímsvatna (svo hétu þau síðan Grímur hafði þar vistum verið). Þar við vötnin fann Grímur risans dóttur og hjá henni sveinbarn er hún alið hafði meðan Grímur var í burtu og kenndi honum það nú.

Það varð fagnaðarfundur og bað Grímur hana með sér að fara; tóku þau svo barnið með sér og fé það allt er úr hellinum hafði áður í skálann flutt verið og fóru á burt. Þessu næst héldu þau til skips, létu í haf og náðu Noregi; tók risans dóttir þar kristna trú og skírn með barni þeirra.

Nokkrum vetrum síðar fýstist Grímur að fara út til Íslands og staðnæmast þar. Bjóst hann því burt úr Noregi með konu sína, risans dóttur, og kom norðan að Íslandi að eyju einni; þar sté Grímur á land og bar af skipi; bjuggu þá í eyjunni risar einir eður bjargbúar; stökkti Grímur þeim á burt sumum, en drap suma og hreinsaði svo eyjuna; síðan setti hann þar byggð sína og juku þau risadóttir þar ætt þeirra.

Eyin liggur út frá Eyjafirði og heitir síðan Grímsey; bjuggu ættmenn Gríms þar eftir hann og lýkur svo þessari frásögn.


Uxafótur, Úlfljótur og geitskór

Það má segja að hið viðurkennda sé tískubóla líkt og vísindi, sem eru eitt í dag og annað á morgun. Þjóðsagan, jafnvel þó nafn- og staðlaus sé, sé aftur á móti fínpússuð, menntuð og fullreynd sannindi að afloknu námi hjá þjóðinni. Þess vegna hefur þjóðsagan það fram yfir samtíma heimildir að lúta hvorki vísindum né tísku, en í stað þess fylla upp í eyður og leiðrétta meinlokur samtímans.

Margar þær sögur, sem hvað mest eru af ætt þjóðsagna, virðast oft hvorki styðjast við skráðar heimildir, rök né staðhætti og eru því afgreiddar sem uppspuni eða hrákasmíð. Þannig er Íslendinga-sagan þátturinn af Þorsteini uxafót Ívarssyni. En þó svo þessi saga sé fræðilega handan þess möguleg þá geymir hún þjóðfélagsgerð og hugsanahátt í upphafi Íslandsbyggðar.

Ég sagði frá því í pistli um fjallagrös, auðróna og dánumenn í sumar að ég hefði farið í Vopnafjörð að Gljúfurárfossi því hugsanlega væri áhugavert að skoða ströndina neðan við foss því það hafði ég ekki gert áður. Þá, -eins og ég hafði tekið eftir áður, hafi svo undarlega viljað til að þar voru örfáir erlendir ferðamenn á rangli, aðallega miðaldra þýskir Norrænu farþegar.

Þegar ég ætlaði að gera grein fyrir þessu sá ég strax að það yrði of langt mál í pistli um fjallagrös, auðróna og dánumenn. Mér hafði semsagt árum saman leikið hugur á að vita hvort hugsanlega eitthvað fleira trekkti erlenda ferðamenn á þessar slóðir, annað en Gljúfurárfossinn, malarslóðinn yfir Hellisheiði og stórbrotin norðurströnd Vopnafjarðar. Því aðrir túristar, en þessir Norrænu farþegar, sem ég þekki einungis af þýsku bílnúmerunum, -virðast fara lítið út fyrir þjóðveg eitt.

Þessi ferð var því engin tilviljun. Ég hafði þar að auki lesið s.l. vetur um Þorstein uxafót Ívarsson og ákvað þá að fleira áhugavert væri að skoða á ströndinni neðan við foss, s.s. tættur Krumsholts sem sagðar eru þar vera, en ekki fann ég þær. Þetta var reyndar eina ferðalagið sem ég hafði planað í sumar. En eftir það tel ég mig hafa komist að því hvað dregur Norrænu farþega að þessum stað, annað en Gljúfurárfoss.

“Þórður skeggi hét maður. Hann nam lönd öll í Lóni fyrir norðan Jökulsá, millum og Lónsheiðar, og bjó í Bæ tíu vetur. En er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leiruvogi (nú Mosfellsbær, landnámi Ingólfs) fyrir neðan heiði þá seldi hann lönd sín Úlfljóti lögmanni er þar kom út í Lóni.”

Á þessum orðum hefst sagan um Þorstein uxafót og vitna því næst í Úlfljótslög, -fyrstu lög Íslendinga, sem stundum eru nefnd Grágás og er þá látið eins þar sé um lögbók að ræða, en í raun voru lögin upp sögð en ekki lesin því þau fóru ekki á bókfell fyrr en löngu eftir að þau tóku gildi og þá sjálfsag eitthvað bjöguð. Þar eru fyrst tiltekin lög um að eigi skuli styggja landvætti og um heiðna siði, m.a. er þar að finna lýsingu á baug hofgoðanna og hvernig lög voru svarin við goðin.

Þá er sagt frá uppruna og ætt sögupersóna og komu þeirra til Íslands. Skip kemur úr hafi í Gautavík með norskan viðskiptajöfur, hersir er var kallaður Ívar ljómi, Þorkell sonur Geitis í Krossavík býður Ívari og föruneyti að hafa vetursetu í Krossavík. Þorkell biður Oddnýju systur sína, sem var mállaus og honum mjög kær, að vera Ívari til þjónustu um veturinn. Hún biðst undan með því að rista rúnir og lætur þar bróður sinn vita að að þessi ráðstöfun muni leiða til ófagnaðar.

Um vorið er Oddný ófrísk af barni Ívars. Þorkell biður Ívar að eiga Oddnýu og heitir honum ríkidæmi í staðinn. Ívar firrtist við og segist geta valið úr glæsilegu og ættstóru kvonfangi í Noregi í stað málleysingja og gefur í skin að Oddný sé lauslætisdrós. Ívar yfirgefur Krossavík í fússi ásamt föruneyti. Þorkell eltir Ívar um fjöll og heiðar Austurlands með það markmiði að drepa hann. Ívar og félagar komast til skips síns í Gautavík og yfirgefa Ísland.

Það sem er ótrúlegt og órökrétt við í samhengi þessa hluta sögunnar, - auk Úlfljótslaga, er að nefndir eru til sögu staðir vítt og breitt um Austurland. Gautavík suður í Berufirði, Krossavík norður í Vopnafirði sem ekki eru neinir nágrannar, auk þess sem ættfærsla sögupersóna til Þóris hins háva í Krossavík, norðan Reyðarfjarðar (nú Vöðlavík), er nefnd til sögunnar sem er ekki beinlínis í leiðinni.

Oddný eignast um sumarið son sem Þorkell biður í reiði sinni Freystein þræl sinn að bera út. Freysteinn er sagður gæðablóð en hlýðinn og ber ungabarnið út með flesk sneið til að lifa. Krumur í Krumsholti heyrir barnsgrát í landi sínu og finnur snáðann og sneiðina. Kerling hans Þórgunnur, forn í skapi mikið eldri en Krumur og þau barnlaus, tekur drenginn að sér og þau gefa honum nafnið Þorsteinn.

Þorsteinn vex úr grasi í Krumsholti til æskusára, næsta bæ norðan við Krossavík í Vopnafirði. Hann kemur þá dag einn í Krossavík og sér Geitir afi hans hann og þekkir strax á svipnum að þarna er Krossvíkingur á ferð og minnist sonar Oddnýjar sem út var borinn.

Eftir þetta kemur Þorsteinn oft í Krossavík og er þar í góðu yfirlæti. Hann á draumkennt ævintýr með þrælnum Freysteini þar sem hann kemst yfir gull í haug fornmannsins Brynjars og gefur móður sinni, sem verður til þess að Oddný fær málið þegar hún lætur gullið undir tungurætur.

“Freysteinn fékk frelsi brátt af orðum Þorsteins og gerði Þorkell það vel og liðuglega því að honum var vel í geði til Freysteins því að hann vissi að hann var góðrar ættar og göfgra manna fram í kyn. Grímkell faðir Freysteins bjó á Vors og átti Ólöfu Brunnólfsdóttur, Þorgeirssonar, Vestarssonar. En Sokki víkingur brenndi inni Grímkel föður hans en tók piltinn og seldi mansali. Hafði Geitir hann út hingað.

Það segja sumir menn að Þorsteinn gifti Freysteini Oddnýju móður sína. Freysteinn hinn fagri bjó í Sandvík á Barðsnesi og átti Viðfjörð og Hellisfjörð og var kallaður landnámsmaður. Frá honum eru komnir Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar.”

Síðan yfirgefur Þorsteinn Ísland og siglir úr Gautavík til Noregs. Þar finnur hann Ívar föður sinn og fer fram á að hann gangist við sér. Ívar svarar honum; "Þú munt eiga allt verra faðerni. Eru nógir þrælar út á Íslandi til þess að móðir þín kenni þig. Er það og mála sannast að mér þætti eiga að leiða drengjum og herjanssonum það að hver pútuson kallaði mig föður að sér." Þorsteinn segist muni hitta hann aftur seinna og þá muni honum vera betra að svara sér á réttan máta, því annars muni hann drepa hann.

Þorsteinn varð frækinn maður í Noregi eftir að hafa drepið flögð í Heiðarskógi og Ólafur konungur Tryggvason gefur honum nafnið uxafótur fyrir eitt hreystiverkið. Næst þegar hann hittir Ívar föður sinn til að herma upp á hann faðernið þá gengst Ívar stoltur við syni sínum. Þorsteinn uxafótur lét lífið á Orminum langa með Ólafi konungi Tryggvasyni og þar endar þáttur Þorsteins uxafóts.

Eins og greina má á þessum stutta úrdrætti er sagan þjóðsagnakennt ævintýr sem tekur til upphafs Íslandsbyggðar, -ef með eru talin Úlfljótslög, og til kristnitöku, -ef tekið er tillit til dánardægurs Ólafs konungs Tryggvasonar og Þorsteins uxafóts. Úlfljótur sá er færði Íslendingum lögin bjó á Bæ í Lóni, enn sunnar á Austurlandi, og Grímur geitskór fóstbróðir hans og bjó á næsta bæ.

Það var Grímur sem ferðaðist um Ísland til að vinna lögum Úlfljóts samþykkis og finna Alþingi stað. sumir vilja meina að geitskór hafi ekkert með skótau að gera heldu þýði það mælingamaður, enda segir sagan að Grímur hafi staðsett Alþingi af stakri nákvæmni. Sagan nær því um allt Ísland. Tímarammi sögunnar gengur ekki upp í einni mannsæfi hvað þá á stuttri ævi útborins barns.

Margir hafa tekið lítið mark á þessari sagnfræði og talið hana fjalla um þjóðsagnakenndar missagnir ef ekki sé þá um hreinan skáldskap að ræða. Samt hreifir sagan við flestum á þann hátt að um sannan boðskap sé að ræða. Einn þeirra var Kristian Kålund sem vann eitt af stórvirkjum útlendinga um Ísland og færði útlendingum lykil að heimi Íslendingasagna. Kålund komst ekki fram hjá þættinum um Þorstein uxafót þegar hann fór um Vopnafjörð vegna allra örnefnanna sem vísuðu þar á söguna.

Kålund hefur m.a. þetta að segja: “Þessi litli þáttur í Flateyjarbók er sérstaklega eftirtektarverður. Hann sýnir hve lífseig örnefni geta verið án tillits til ritaðra heimilda og jafnvel þótt ritaðar heimildir greini á (og á þá við hvernig sagan hefur lifað í gegnum aldirnar í Vopnafirði m.a. vegna Krossavíkur, Krumholts og Brynjarshaugs ofl örnefna sem honum tengjast).

Hin varðveitta gerð þáttarins í Flateyjarbók, hin eina sem til er, heimfærir semsé greinilega þá atburði sem er sagt frá, til allt annarra byggða. Fyrst er sagt í inngangi þáttarins frá ýmsum landnámsmönnum á Austfjörðum, meðal þeirra er Þórir hávi en nam Krossavík fyrir norðan Reyðarfjörð.” - “Söguritari þáttarins um Þorstein uxafót, eins og hann er í Flateyjarbók, hlýtur að hafa verið með öllu ókunnur staðháttum á Austurlandi.” (Íslenskir sögustaðir-P.E. Kristian Kålund)

Tekur Kålund þarna til þess hvar landnámsmenn námu land, eins getur hann sér þess til að nafn góða þrælsins Freysteins hafi ekki verið upphaflega í þættinum, heldur verið sótt til landnámsmannsins Freysteins fagra sem hann segir að hafi numið land við Reyðarfjörð. En þar misstígur Kålund sig á staðfræðinni því landnáma segir:

“Freysteinn hinn fagri hét maður; hann nam Sandvík og bjó á Barðsnesi, Viðfjörð og Hellisfjörð. Frá honum eru Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar komnir.

Þórir hinn hávi og Krumur, þeir fóru af Vors til Íslands, og þá er þeir tóku land, nam Þórir Krossavík á milli Gerpis og Reyðarfjarðar; þaðan eru Krossvíkingar komnir.

En Krumur nam land á Hafranesi og til Þernuness og allt hið ytra, bæði Skrúðey og aðrar úteyjar og þrjú lönd öðrum megin gegnt Þernunesi; þaðan eru Krymlingar komnir.”

Austfirðingurinn Halldór Stefánsson skrifaði um landnám í Austfirðingafjórðungi í Austurland safni til austfirskra fræða. Hann kemst að þveröfugri niðurstöðu við Kålund. “Krymlingar þekkjast nokkuð af sögu Þorsteins uxafóts. Þar segir að sonur hans hafi heitið Ásbjörn, faðir Vémundar föður Krums (yngra) í Krumsholti í Vopnafirði, þess er fóstraði Þorstein uxafót.

Kona Krums, fóstra Þorsteins, segir sagan að hafi verið Þórgunnur Þorsteinsdóttir Veturliðasonar, Ásbjarnarsonar, göfugs manns á Beitistöðum (í Noregi), Ólafssonar langháls, Bjarnasonar reiðarsíðu. Þessi ættfærsla er samhljóða ættfærslu Veturliða (landnámsmanns) í Borgarfirði (eystra) og umgetinna bræðra hans og getur allt vel heimfærst.”

Halldór telur þau Krum (yngri) og Þórgunni í Krumsholti í Vopnafirði hafa verið náin frændsystkin, sem venja var til í heiðnum sið. Þáttur Þorsteins uxafóts sé því merk heimild um margt og engin ástæða til að vefengja ættfærsluna. Eins er athyglivert að Halldór telur að Krossavíkur landnámsjarðirnar, sem bæði má finna þar sem nú heitir Vaðlavík norðan Reyðarfjarðar og Krossavík í Vopnafirði, -þar sé nafngiftin tilkomin vegna þess að landnámsmenn þar hafi verið kristnir.

Það leynir sér ekki að sagan af Þorsteini uxafót á sér þann tilgang að lýsa tíðaranda þess tímabils sem hún tiltekur þ.e. á mörkum heiðni og kristni á Íslandi. Margt má finna um Þorstein uxafót á alheimsnetinu. Rúmlega klukkustundar bodcast á ensku finnst við stutta leit um Þorsteins þátt uxafóts, auk þess á Þorsteinn Uxafótur á wikipedia síðu á spænsku. Á vísindavef HÍ má lesa um hvernig sagan geymir heimildir sem ekki finnast víða.

Þrátt fyrir skort á ritheimildum frá heiðnum tíma á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum er sú skoðun ríkjandi meðal fræðimanna að útburður á börnum hafi verið stundaður í norrænum samfélögum í heiðni. Samkvæmt sögunum virðist barnaútburður hafa verið frjáls í heiðni, og ástæður fyrir útburði verið af ýmsum toga. Í Þorsteins þætti uxafóts er drengur borinn út vegna þess að hann er óskilgetinn og faðirinn neitar að kvænast móðurinni. (af vísindavef HÍ)

Sagan af Þorsteini uxafót er ævintýri þar sem útbornu barni er bjargað. Sagan lýsir jafnframt fyrirgefningunni, hvernig Þorsteinn fyrirgefur móðurbróðir sínum og föður. Hann gefur móður sinni gull svo hún fær málið og launar þrælnum Freysteini með frelsinu. Eftir það fer hann til annarra landa og berst við flögð og forynjur og lætur lífið á Orminum langa með Ólafi Tryggvasyni, sem var sá Noregs konungur, er mestan þátt átti í að kristna Ísland. Þorstinn uxafótur var þátttakandi í tímamótum þegar nýr siður tekur við, -kristnin með sínum kærleika, fyrirgefningu og rétti allra barna til lífs.

Sagan skírskotar til dagsins í dag þar sem fæðingarrof þykir svo til sjálfsögð úrlausn, hvað þá ef barn verður til við nauðgun, -eins og skilja má af orðum og afdrifum Oddnýjar. Sagan á sér einnig skírskotun til þeirra sem útskúfaðir hafa verið vegna kynferðislegs ofbeldis, hvað fyrirgefninguna varðar til Ívars ljóma sem fær annað tækifæri. Og sagan á sér síðast en ekki síst skírskotun í nú glataða ímynd karlmennskunnar, með hetjulegri framgöngu útburðarins Þorsteins uxafóts sem ekki var ætlað neitt líf. Svona sannar eru þjóðsögur.


Droplaug og Darraðardansinn

Lítið hefur farið fyrir því í gegnum tíðina að Íslendingasögunum sé hampað sem kvennabókmenntum. Kannski má kenna því helst um að þeir sem skrifuðu þær hafi verið karlmenn sem og einnig þeir sem túlka þær inn í nútímann.

Í vetur tók ég mig til og las Njálu í fyrsta skipti. Auðvitað kunni ég Njálu nokkuð vel enda hafði ég lesið um söguhetjur og er alinn upp á málsháttum þeirrar bókar eins og flestir íslendingar á mínum aldri. Tekið hefi ég hér hvolpa tvo eða hvað skal við þá gera?

Njála er eitt gleggsta dæmið um kvennabókmenntir Íslendingasagnanna. Þær sögupersónur sem þar ráða örlögum og eru afgerandi hvati sögunnar eru Bergþóra Skarphéðinsdóttir á Hvoli og Hallgerður langbrók Höskuldsdóttir á Hlíðarenda.

Það sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir, áður en sagan var lesin í heild, var hversu mikil tengsl sagan hefur við Bretlandseyjar. Í henni er að finna Brjánsbardaga í Dublin í ljóðinu sem Darraðardansinn er kenndur við, einn magnaðasta kveðskap fornbókmenntanna og var sá vefur spunnin af konum.

Barði Guðmundsson fyrrum Þjóðskjalavörður á að hafa getið sér þess til að Njála sé skrifuð af Þorvarði Þórarinssyni, síðasta goðanum, og fékk hann litla þökk, -og enn minni athygli fyrir þá tilgátu. En Þorvarður varð síðastur til að ganga Noregskonungi á hönd á Þjóðveldisöld og þar með var íslenska Þjóðveldið formlega fallið um allt land.

Þorvarður lifði lengst þeirra sem fóru með goðorð á Íslandi. Hann var frá Valþjófstað í Fljótsdal, hafði búsetu á Hofi í Vopnafirði. Hann aðstoðaði Magnús lagabæti Noregskonung við ritun laga Jónsbókar þegar landsmenn gátu ekki sætt sig við lög Járnsíðu, sem tók við af þjóðveldislögum Grágass, -og þáði hann m.a. riddara nafnbót að launum.

Þorvarðar og Odds bróður hans er getið í Sturlungu, þeir voru af ætt Svínfellinga sem réðu Austfirðingafjórðungi. Brennu Flosi frá Svínafelli, sem kemur við Njálssögu, er einn af forfeðrum þeirra bræðra og áttu þeir kvonfang á söguslóðum Njálu. Í pistlinum Síðasti goðinn og bróðir hans eru því gerð skil hversu afgerandi mark konur settu á Sturlungaöld og kemur það vel fram í sögu þeirra Valþjófstaðabræðra.

Það er því kannski ekkert einkennilegt þó svo Barði Guðmundsson hafi getið sér þess til að Njála hafi verið skrifuð af, -eða að undirlagi síðasta goðans. Því svipuð kvenleg sagnaminni má finna í Austfirðingasögum og ber þau hæðst í Droplaugarsonasögu. Og ekki er ólíklegt að Þorvarður riddari Þórarinsson hafi haft hönd í bagga með því hvernig saga landnáms og þjóðveldis í Austfirðingafjórðungi varðveittist.

Það sem gerir hlut kvenna stóran í Austfirðingasögum má finna í gengum nöfnin Arnheiður, Droplaug og Gróa, ekki er ólíklegt að þar sé um að ræða formæður og frænkur síðasta goðans. Það sem einkennir þessar áhrifamiklu konur er hve vandasamt reynist að ættfæra þær til göfugra ætta landnámsmanna. Sjálfur hef ég trú á að Arnheiður hafi enn fremur haft með nafngiftir á Íslandi að gera, sem má lesa um í pistlinum Hvaðan kom Snæfellið?

Arnheiður var ambátt sem landnámsmaðurinn Ketill þrymur keypti af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð. Hún var dóttir Ásbjörns skerjablesa á Mön í Suðureyjum. Þau byggðu Arnheiðarstaði í Fljótsdal og hefur sá bær borið nafn Arnheiðar frá landnámi. Arnheiður var föðuramma þeirra Droplaugarsona.

Droplaug er sögð í Droplaugarsonasögu frá Giljum á Jökuldal og lítið meira um uppruna hennar sagt annað en hún varð kona Þorvaldar Þiðrandasonar, sonarsonar Arnheiðar og Ketils þryms á Arnheiðarstöðum, og settist þar að.

Miklar og ótrúlegar vangaveltur er að finna í Austfirðingasögum um hver Droplaug raunverulega var og ekki er farið í grafgötur með að hún var mikill skörungur enda synir hennar við hana kenndir en ekki föður sinn sem varð skammlífur.

Söguþráður Droplaugarsonasögu umhverfist um það hvernig synir hennar, Helgi og Grímur, verja sæmd móður sinnar. Og hvernig hún giftist aftur til ríkidæmis í þeirra óþökk með þeim afleiðingum að hún og Helgi sonur hennar eru stefnt fyrir dóm grunuð um samantekin ráð vegna manndráps til fjár. Þar teygir sagan sig í nokkrum torskyldum setningum til Írlands. Droplaug fór til skips í Berufirði áður en til dóms kom og keypti jörð í Færeyjum.

Tvær aðrar Austfirðingasögur eru í reynd um Droplaugu, þ.e. Brandkrossa þáttur og Fljótsdæla. Í Brandkrossaþætti er reynt að ættfæra Droplaugu til ókenndra göfugra ætta í Þrándheimi. Það er gert með ævintýralegri sögu af nautinu Brandkrossa í Vopnafirði sem synti á haf út og fannst hjá hellisbúanum Geiti í Þrándheimi og viðurkenndi Geitir að hafði tælt nautið til sín.

Geitir gifti Droplaugu dóttur sína í Vopnafjörð sem nokkurskonar skaðabætur fyrir Brandkrossa er best naut var á öllu Íslandi. Droplaug Geitisdóttir er þar amma Droplaugar á Arnheiðarstöðum sem er samkvæmt Brandkrossa þætti dóttir Gríms úr Vopnafirði sem bjó á Giljum á Jökuldal.

Fljótsdælasaga segir svo að Droplaug á Arnheiðarstöðum sé dóttir Arnheiðar sem Arnheiðarstaðir eru skírðir eftir og þær mæðgur hafi komið saman frá Hjaltlandi þar sem Þorvaldur Þiðrandason sonar sonur Ketils þryms og Arnheiðar á Arnheiðarstöðum bjargaði henni frá jötninum Geiti sem hafði numið Droplaugu frá föður sínum Björgólfi jarli á Hjaltlandseyjum.

Það má segja að ættfærsla Droplaugar sé hálf vandræðaleg samkvæmt Brandkrossaþætti og Fljótsdælasögu, en það segir m.a. Arneiður móðir hennar átti mörg skilgetin börn og var hún þá ekkja er hún átti þessa sína dóttir, Droplaugu. Þar er reyndar margt fremur einkennilegt í ljósi þess að ekkert er legið á ambáttar uppruna Arnheiðar á Arnheiðarstöðum í Droplaugarsonasögu.

Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Reyðarfjörð. Kona ein réð fyrir skipinu sú er Gróa hét. Hún var systir Droplaugar, mjög rík að fé. Fór hún af því út hingað að bóndi hennar hafði andast og þá seldi hún lendur sínar og keypti skip og ætlaði að finna móður sína. Droplaug ríður til skips og býður systur sinni til sín og það þiggur hún. Og þennan vetur er Gróa er þar voru sveinarnir Helgi og Grímur heima og var Gróa vel til þeirra. Ástúðugt var með þessum frændum. Fundu menn það að hvorri þeirra systra var yndi að annarri. (Fljótsdæla saga)

Gróa á Eyvindará er svo enn einn kvenkyns örlagavaldur Droplaugarsonasögu. Hún er sögð í Droplaugarsonasögu systir Þorvaldar Þiðrandasonar, en í Fljótsdælasögu systir Droplaugar og kemur óvænt á skipi sínu til Íslands, þá á besta aldri búin að missa mann sinn og kaupir Eyvindará að undirlægi Droplaugar systur sinnar, rífur skip sitt og notar í húsviði.

Hún var kvenna minnst en afbragðlega sjáleg, greyp í skapi og skörungur mikill og forvitra. Svo mikill fégróður hljóp að Gróu að Eyvindará að nálega þóttu tvö höfuð á hverju kvikindi. Menn fóru úr ýmsum héruðum og báðu Gróu og hnekkti hún öllum frá og kvaðst svo misst hafa bónda síns að hún ætlaði öngvan mann að eiga síðan. (Fljótsdæla saga)

Það má að endingu geta þess að það er Gróa sem ræður endi og örlögum Droplaugarsonasögu sem gengur einna best upp Íslendingasögulega séð í tíma og ættfærslum. Þarft verk væri sögufróðra sagnfræðinga, sem þora að lesa á milli línanna, -líkt og Barði Guðmundsson gerði með Brennu Njálssögu, -að gera því skil hversu miklar kvennabókmenntir má finna Íslendingasögunum.


Heiðmyrkur og Hermann

Það er til veður fyrirbæri sem kallast heiðmyrkur. Íslenskt orðnet gefur upp skýringarnar þoka, þokudrungi eða þokumyrkur á fyrirbærinu auk 123 vensla. Þetta mun samt vera sérstök tegund lágþoku í heiðskýru verði, stundum sögð það sama og dalalæða. Það eru ekki margar heimildir til þar sem nafnið á fyrirbrigðinu kemur við sögu. 

Við austurströndina er kaldur hafsstraumur sem rennir sér suður með Austurlandi og býr til hina frægu Austfjarðaþoku í samspili við hlýtt loft. Um helgina var ég niður á Stöðvarfirði og gafst færi á að fylgjast með fyrirbærinu heiðmyrkur af sólpallinum, sem ég hef reyndar oft séð áður án þess að íhuga hvað það kallaðist annað en þoka.

Heiðmyrkvi

Myndin að ofan er af heiðmyrkri sem birgði sýn þegar þoka af hafi kom inn á sólríkan fjörðinn með innfalli og hafgolu. Neðri myndin er með sama útsýni frá kvöldinu áður

Vorkvöld

 

Í vetur las ég þjóðsöguna um Hermann litla sem bjargaði fólkinu sínu undan Hundtyrkjanum, en þá var heiðmyrkur.

Er Tyrkir fóru ránsferð sína 1627 komu þeir að Eyjum í Breiðdal fyrir miðjan morgun. "Náðu þeir öllu fólki heima, tóku það allt og bundu, nema dreng einn fjögurra ára er Hermann hét. Síðan fóru þeir burtu og leituðu fleiri bæja. Heiðmyrkur var á mikið. Þegar þeir voru farnir sagði móðir Hermanns við hann: -Hefurðu ekki busann þinn í kotinu þínu svo þú getir skorðið af mér böndin? Drengur hvað já við því, kom með busann og gat um síðir skorið svo böndin, að önnur höndin losnaði. Tók hún þá við busanum og skar öll bönd af sér og síðan af þeim manni sem næstur var. Fékk hún síðan þeim manni busann og bað hann að losa hitt fólkið, en hljóp sjálf til fjalls með Hermann litla. Slapp allt fólkið með þessum hætti. Þegar Hermann var fulltíða réðst hann á skip og var lengi í siglingum, var mælt að hann hafi síðar eignast Berunes. (Ættir Austfirðinga, 11307)

Hermann Ásmundsson var fæddur 1623 og passar aldurinn við þjóðsöguna. Hann er fjögurra ára er Tyrkjaránið var 1627. Í jarðarbréfum frá 16.-17. öld (s.280) sést að Hermann eignast 200 í Berunesi, en átti jörðin alla samkvæmt bréfi dagsettu 13.júlí 1687. Hermann bjó á Berunesi þar til hann lést upp úr 1695. (Dvergasteinn - þjóðsögur og sagnir / Alda Snæbjörnsdóttir)

Því er þessi sögn af Hermanni tilfærð hér af heiðmyrkri, að þegar Tyrkir rændu við Berufjörð og í Breiðdal, þá kom þokan mörgum til bjargar, en í veðurlýsingum var blíðviðri þá daga sem Tyrkir dvöldu í Berufirði, enda hásumar. Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9, -í Hamarsfirði, Berufirði og í Breiðdal, náðu fáum í Breiðdal.

Tyrkjaránssaga hefur verið talin sannsögulegt plagg enda var hún skrásett sem samtímaheimild. Tyrkir fóru frá Austfjörðum í Vestamannaeyjar og létu þar nokkra Austfirðinga lausa til að hafa pláss fyrir fleiri Vestamannaeyinga sem þeim þótti álitlegri söluvara. Saga ránanna fyrir austan var síðan skráð eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti.

Þjóð- og munnmælasögur hafa því ekki átt upp á pallborð fræðimanna hvað Tyrkjaránið varðar, nema þá sem kviksögur. Sagan af Hermanni skýrir kafla sem má finna í Tyrkjaránssögu um það hversvegna Tyrkjum tókst ekki að ræna prestsetrið Heydali. Um það hefur Tyrkjaránssaga þetta að segja.

Nú er Hamarsfólkið var til skips komið þ. 7. júlíum, fóru nokkrir af illvirkjunum enn strax aptur um fjörðinn að Berunesi, þustu svo norður yfir fjöllin, til þess þeir komu í Breiðdal. Þeir voru alls átta illmennin. Þessir komu fyrst á þann bæ, sem Ós heitir. Þar fundu þeir átta karlmenn og bundu á þeim bæði hendur og fætur og voru þar eptir tveir Tyrkjar að gæta þeirra, meðan hinir fóru yfir um ána til þeirra manna, er þeir sáu hinu megin árinnar, hverjir voru menn frá síra Höskuldi Einarssyni frá staðnum Heydölum, sem áttu að koma undan kistum nokkrum fullum af gripum, því spurzt hafði þangað af illvirkjunum. En í þessum atriðum kom að Ósi gangandi neðan úr byggðinni með sitt fólk sá maður, sem hjet Jón, af bænum Streiti. Hann vissi ekki að ófriðarmenn voru komir í Breiðdalinn. En sem þeir tveir illgjörnu vaktarar þetta fólk sáu, flýðu þeir upp í fjallið, en nefndur Jón á Streiti leysti þá þrjá menn hina bundnu, Gísla Þórarinsson með sínum syni og Ásmund Hermannsson, og flýðu þeir svo gangandi með Jóni inn eptir Breiðdal og upp í hjeruðin. Þeir menn, sem með kistur síra Höskuldar fóru, yfir gáfu þær, en flýðu síðan. úr þeim kistu tóku ræningjarnir nær 30 hundruð í silfri og klæðum, en klufu þar eptir kisturnar í sundur. Heim til staðarins fóru ræningjarnir ekki, því þeim sýndist þar klettur vera, sem staðurinn var. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðasá)

Munnmælin segja frá atburðum í Breiðdal á svipaðan hátt og Tyrkjaránssaga þó svo Hermanns litla sé ekki getið í Tyrkjaránssögu. Hermann og móður hans voru á bænum Eyjum, sem er bær fyrir innan Ós. Hvers vegna aðeins karlmenn voru heima við í böndum á Ósi gæti stafað af því, eins og reyndar kemur fram um kistur séra Höskuldar, að spurst hafi til Tyrkjanna við Berufjörð. Líklegt er að Ásmundur Hermannsson, einn af þeim sem leystur var úr böndum á Ósi, hafi verið faðir Hermanns litla.

Munnmælunum ber nokkuð vel saman við Tyrkjaránssögu um atburðina á Ósi, en hefur það þó til viðbótar að vera staðkunnug. Við Ós hef ég heyrt að hafi verið ferjustaður áður fyrr yfir Breiðdalsá og Heydalir eru handan ár, ekki er ólíklegt að þeir menn sem voru að flytja kisturnar hafi forðað sér á bát yfir ána án kistnanna og síðan í Heydali.

Þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara segir frá því að Tyrkir hafi oftar en einu sinni reynt að komast í Heydali en hafi ítrekað tínt bænum eða sýnst hann vera kletta. Þar er þess getið að séra Höskuldur hafi farið til kirkju og bænhita hans þakkað að bærinn fannst ekki, en ekki er ólíklegt að heiðmyrkri sé að þakka hvort sem séra Höskuldur bað þess í bænum sínum eða lét almættið um með hvaða hætti hann verndaði Heydali.

Það kemur víða fram í Tyrkjaránssögu hvernig dyntótt Austfjarðaþokan kom sér fyrir fólkið þessa ógnardaga, bæði vel og illa. Ein sagan er af dreng sem var fluttur úr Breiðdal í böndum ásamt fleirum. Þegar hann sá sér færi, á bænum Núpi á Berufjarðaströnd, hljóp hann inn í þokuna með hendur bundnar aftur fyrir bak. Hann komst inn í þokuna með ræningjana á hælunum en missti þá niður um sig buxurnar og féll, lá síðan grafkyrr, ræningjarnir leituðu allt í kring, svo nálægt að hann heyrði tal þeirra, en þeir fundu hann ekki, svo skyndilega getur heiðmyrkur úr Austfjarðaþokunni skollið á í glaða sólskini.

IMG_2995

Orðabók Menningasjóðs hefur þetta að segja um orðið heiðmyrkur; "þoka á láglendi en tindar bjartir og heiður himinn. Íslensk Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal hefur ekki orðið heiðmyrkur, en um orðið heið segir; "skýlaus himin, bjart loft" og um myrkur; dimma, ljósleysi


Svaðalegar kerlingabækur

Þetta er svaðalegt var stundum sagt og er kannski sagt enn. Er þá átt við svakalegt, hrikalegt eða eitthvað verulega slæmt. En hvaðan er svaðalegt upprunnið? Um upprunann má lesa í fyrstu hallærum íslandssögunnar.

Árin skömmu fyrir 1000 voru slæm hallærisár með hörðum vetrum. Veturinn 975-976 var talin harðastur á þjóðveldisöld, þó svo að fleiri slæmir kæmu fyrir árþúsundamótin. Vildu sumir meina að þessi hallæri hafi flýtt fyrir kristnitöku á Íslandi.

"þá átu menn hrafna og melrakka, og mörg óátan ill var étin. En sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir og drepnir. Þá vógust skógarmenn sjálfir, því það var lögtekið að ráði Eyjólfs Valgerðarsonar, að hver frelsti sig, sá er þrjá dræpi seka". (viðauki Skarðsbókar)

Í Svaða þætti og Arnórs kerlingarnefs kemur glöggt fram hversu harðneskjan var mikil, en þar tókust á tveir pólar, -harkan og gæskan. -Gleðilega páska.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Mikil og margföld er miskunn allsvaldanda guðs í öllum hlutum og háleitur hans dómur er hann lætur öngan góðgerning fyrirfarast heldur kallar hann elskulegri mildi þá sem eigi kunna hér áður til að nema, skynja og skilja, dýrka og elska sinn lausnara sem vor herra Jesús Kristur, lifandi guðs son, hefir sýnt í mörgum frásögnum þó að vér munum fár tína. Svo sem yfirboðan miskunnar tilkomu og fullkomins kristindóms á Íslandi sýnir guð í þeim frásögnum sem eftir fara að hann styður og styrkir hvert gott verk þeim til gagns er gera en hann ónýtir og eyðir illsku og grimmd vondra manna svo að oftlega fyrirfarast þeir í þeim snörum er þeir hugðu öðrum.

Nokkuru eftir utanferð Friðreks biskups og Þorvalds Koðránssonar gerðist á Íslandi svo mikið hallæri að fjöldi manns dó af sulti. Þá bjó í Skagafirði nokkur mikilsháttar maður og mjög grimmur er nefndur er Svaði, þar sem síðan heitir á Svaðastöðum.

Það var einn morgun að hann kallaði saman marga fátæka menn. Hann bauð þeim að gera eina mikla gröf og djúpa skammt frá bæ sínum við almannaveg. En þeir hinir fátæku urðu fegnir ef þeir mættu hafa amban erfiðis síns með nokkuru móti og slökkva sinn sára hungur. Og um kveldið er þeir höfðu lokið grafargerðinni leiddi Svaði þá alla í eitt lítið hús.

Síðan byrgði hann húsið og mælti síðan til þeirra er inni voru: "Gleðjist þér og fagnið þér því að skjótt skal endir verða á yðvarri vesöld. Þér skuluð hér búa í nótt en á morgun skal yður drepa og jarða í þeirri miklu gröf er þér hafið gert."

En er þeir heyrðu þann grimma dóm fyrir sitt starf, er þeim var dauði ætlaður, síðan tóku þeir að æpa með sárlegri sorg um alla nóttina. Þar bar svo til að Þorvarður hinn kristni, son Spak-Böðvars, fór þá sömu nátt upp um hérað að erindum sínum en leið hans lá allsnemma um morguninn hjá því sama húsi er hinir fátæku menn voru inni. Og er hann heyrði þeirra grátlegan þyt spurði hann hvað þeim væri að angri.

En er hann varð vís hins sanna mælti hann til þeirra: "Vér skulum eiga kaup saman ef þér viljið sem eg. Þér skuluð trúa á sannan guð þann er eg trúi á og gera það sem eg segi fyrir. Þá mun eg frelsa yður héðan. Komið síðan til mín ofan í Ás og mun eg fæða yður alla."

Þeir sögðu sig það gjarna vilja. Tók Þorvarður þá slagbranda frá dyrum en þeir fóru þegar fagnandi með miklum skunda ofan í Ás til bús hans.

En er Svaði varð þessa var varð hann harðla reiður, brá við skjótt, vopnaði sig og sína menn, riðu síðan með öllum skunda eftir flóttamönnum. Vildi hann þá gjarna drepa en í annan stað hugsaði hann að gjalda grimmu sína svívirðu er hann þóttist af þeim beðið hafa er þá hafði leysta. En hans illska og vondskapur féll honum sjálfum í höfuð svo að jafnskjótt sem hann reið hvatt fram hjá gröfinni féll hann af baki og var þegar dauður er hann kom á jörð. Og í þeirri sömu gröf er hann hafði fyrirbúið saklausum mönnum var hann sjálfur, sekur heiðingi, grafinn af sínum mönnum og þar með hundur hans og hestur að fornum sið.

En Þorvarður í Ási lét prest þann er hann hafði með sér skíra hina fátæku menn er hann hafði leyst undan dauða og kenna þeim heilug fræði og fæddi þá þar alla meðan hallærið var.

Það segja flestir menn að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi skírður verið af Friðreki biskupi en Gunnlaugur munkur getur þess að sumir menn ætla hann skírðan verið hafa á Englandi og hafa þaðan flutt við til kirkju þeirrar er hann lét gera á bæ sínum. En móðir Þorvarðs Spak-Böðvarssonar hét Arnfríður, dóttir Sleitu-Bjarnar, Hróarssonar. Móðir Sleitu-Bjarnar var Gróa Hrafnsdóttir, Þorgilssonar, Gormssonar hersis, ágæts manns úr Svíþjóð. Móðir Þorgils Gormssonar var Þóra dóttir Eiríks konungs að Uppsölum. Móðir Herfinns Eiríkssonar var Helena dóttir Búrisláfs konungs úr Görðum austan. Móðir Helenu var Ingibjörg systir Dagstyggs, ríks manns.

Á þeim sama tíma sem nú var áður frá sagt var það dæmt á samkomu af héraðsmönnum, og fyrir sakir hallæris og svo mikils sultar sem á lá var lofað að gefa upp fátæka menn, gamla, og veita öngva hjálp, svo þeim er lama var eða að nokkuru vanhættir og eigi skyldi herbergja þá. En þá knúði á hinn snarpasti vetur með hríðum og gnístandi veðrum.

Þá var mestur höfðingi út um sveitina Arnór kerlingarnef er bjó á Miklabæ í Óslandshlíð. En er Arnór kom heim af samkomu þessi þá gekk þegar fyrir hann móðir hans, dóttir Refs frá Barði, og ásakaði hann mjög er hann hafði orðið samþykkur svo grimmum dómi. Tjáði hún fyrir honum með mikilli skynsemd og mörgum sannlegum orðum hversu óheyrilegt og afskaplegt það var að menn skyldu selja í svo grimman dauðann föður sinn og móður eða aðra náfrændur sína.

"Nú vit það fyrir víst," segir hún, "þó að þú sjálfur gerir eigi slíka hluti þá ertu með öngu móti sýkn eða hlutlaus af þessu glæpafullu manndrápi þar sem þú ert höfðingi og formaður annarra, ef þú leyfir þínum undirmönnum að úthýsa sínum feðginum eða frændum nánum í hríðum og jafnvel þó að þú leyfir eigi ef þú stendur ekki í mót með öllu afli slíkum ódáða."

Arnór skildi góðfýsi móður sinnar og tók vel ásakan hennar. Gerðist hann þá mjög áhyggjufullur hvað er hann skyldi að hafast. Tók hann þá það ráð að hann sendi þegar í stað sína menn um hina næstu bæi að safna saman öllu gamalmenni því er út var rekið og flytja til sín og lét þar næra með allri líkn.

Annan dag stefndi hann saman fjölda bónda.

Og er Arnór kom til fundarins mælti hann svo til þeirra: "Það er yður kunnigt að vér áttum fyrir skömmu almennilega samkomu. En eg hefi síðan hugsað af sameiginlegri vorri nauðsyn og brotið saman við þá ómannlegu ráðagerð er vér urðum allir samþykkir og gáfum leyfi til að veita líftjón gamalmenni öllu og þeim öllum er eigi mega vinna sér til bjargar með því móti að varna þeim líflegri atvinnu. Og hirtur sannri skynsemd iðrast eg mjög svo illskufullrar og ódæmilegrar grimmdar. Nú þar um hugsandi hefi eg fundið það ráð sem vér skulum allir hafa og halda. Það er að sýna manndóm og miskunn við mennina svo að hver hjálpi sínum frændum sem hver hefir mest föng á, einkanlega föður og móður og þar út í frá, þeir sem betur mega fyrir sulti og lífsháska, sína aðra náfrændur. Skulum vér þar til leggja allan vorn kost og kvikindi að veita mönnum lífsbjörg og drepa til hjálpar vorum frændum faraskjóta vora heldur en láta þá farast af sulti svo að engi bóndi skal eftir hafa meira en tvö hross. Svo og eigi síður sá mikli óvandi er hér hefir fram farið að menn fæða fjölda hunda svo að margir menn mega lifa við þann mat er þeim er gefinn. Nú skal drepa hundana svo að fáir eða öngir skulu eftir lifa og hafa þá fæðu til lífsnæringar mönnum sem áður er vant að gefa hundunum. Nú er það skjótast af að segja að með öngu móti leyfum vér að nokkur maður gefi upp föður sinn eða móður, sá er með einhverju móti má þeim hjálpa en sá er eigi hefir lífsnæring til að veita sínum náfrændum eða feðginum, fylgi hann þeim til mín á Miklabæ og skal eg fæða þá. En hinn er má og vill eigi hjálpa hinum nánustum frændum þá skal eg grimmu gjalda með hinum mestum afarkostum. Nú þá mínir kærustu vinir og samfélagar heldur en undirmenn, fremjum í alla staði manndóm og miskunn við vora frændur og gefum ekki færi til óvinum vorum því oss að brigsla að vér gerum með of mikilli fávisku við vora náunga svo ómannlega sem á horfist. Nú ef sá er sannur guð er sólina hefir skapað til þess að birta og verma veröldina og ef honum líkar vel mildi og réttlæti sem vér höfum heyrt sagt þá sýni hann oss sína miskunn svo að vér megum prófa með sannindum að hann er skapari manna og að hann megi stjórna og stýra allri veröldu. Og þaðan af skulum vér á hann trúa og öngan guð dýrka utan hann einn saman ríkjanda í sínu valdi."

Og er Arnór hafði þetta talað þá var þar Þorvarður Spak-Böðvarsson við staddur og segir svo: "Það er nú sýnt Arnór að sá hinn sami guð er þú kvaddir að þínu máli hefir sinn helgan anda sent í þitt brjóst til að byrja svo blessaðan manndóm sem þú hefir mönnum nú tjáð í tölu þinni og það hygg eg ef Ólafur konungur hefði þig heyrt slík orð segja að hann mundi gera guði þakkir og þér fyrir svo fagran framburð og því trúi eg að þá er hann spyr þvílíka hluti að hann verði forkunnar feginn og víst er oss það mikill skaði að vér skulum hann eigi mega sjá eða heyra hans orð sem mér þykir ugganda að hvorki verði."

En er allir þeir er þar voru saman komnir létu sér þetta allt vel viljað er hann hafði talað þá slitu þeir með því þinginu. Þá var hinn snarpasti kuldi og frost sem langan tíma hafði áður verið og hinir grimmustu norðanvindar en svelli og hinu harðasta hjarni var steypt yfir jörð svo að hvergi stóð upp. En á næstu nótt eftir þennan fund skiptist svo skjótt um með guðlegri forsjá að um morguninn eftir var á brottu allur grimmleikur frostsins en kominn í staðinn hlær sunnanvindur og hinn besti þeyr. Gerði þaðan af hæga veðráttu og blíðar sólbráðir. Skaut upp jörðu dag frá degi svo að af skömmu bragði fékk allur fénaður nógt gras af jörðu til viðurlifnaðar. Glöddust þá allir menn með miklum fagnaði er þeir höfðu hlýtt því miskunnar ráði er Arnór hafði til lagt með þeim og tóku þegar í mót svo nógan velgerning guðlegrar gjafar að fyrir þá skyld gengu allir þingmenn Arnórs, karlar og konur, fljótt og feginsamlega undir helga siðsemi réttrar trúar með sínum höfðingja er þeim var litlu síðar boðið því að á fárra vetra fresti var kristni lögtekin um allt Ísland.

Arnór kerlingarnef var son Bjarnar Þórðarsonar frá Höfða. Móðir Bjarnar hét Þorgerður, dóttir Þóris ímu og Þorgerðar dóttur Kjarvals Írakonungs. Höfða-Þórður var son Bjarnar byrðusmjörs, Hróaldssonar hróks, Áslákssonar, Bjarnarsonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar.(Svaða þáttur og Arnórs kerlingarnefs)

Málsháttur páskaeggsins þessa páska er; "Bregður ávexti til rótar".


Hvaðan kom nafnið - Hermannastekkar

Innan við Rakkaberg eru Hermannastekkar, nafn frá Tyrkjaráni, og er þar nú grafreitur. Það er ekki mikið meira að finna um örnefnið Hermannastekkar á alheimsnetinu, en staðurinn er við þjóðveg eitt þar sem hann liggur rétt fyrir innan Djúpavog. Við Hermannastekka er núverandi grafreitur Djúpavogsbúa, fagur og friðsæll staður. Málvenjan er Hermannastekkar ekki Hermannastekkir eins og ætla mætti.

En hvers vegna bera Hermannastekkar þetta nafn - hvaða atburður varð nákvæmlega til þess að klettarnir við grafreitinn fengu þetta nafn? Um þá atburði er getið í Tyrkjaránssögu og  munnmælum m.a. í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og víðar, þó svo að sumir telji að þar beri atburðarásinni ekki saman við opinberu heimildina, sem er Tyrkjaránssaga.

Þorsteinn Helgason sagnfræðingur vildi meina í greininni Örnefni og sögur tengd við Tyrkjarán á Austurlandi, sem hann skrifaði í Gletting árið 2003, að atburðarásin, sem nafnið er dregið af, stæðist ekki skoðun. Atburðurinn hefði gerst við Berunes á norðan verðri Berufjarðarströnd þar sem var verið að hlaða stekk samkvæmt þjóðsögunni, en söguhetjan hafi verið hernuminn sunnan fjarðar á Búlandsnesi, sem er á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar, samkvæmt Tyrkjaránssögu.

Þetta ályktar Þorsteinn af munnmælasögu, sem Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari birti í þjóðsagna safni sínu, um bardaga Guttorms Hallssonar frá Búlandsnesi við Tyrki á Berunesi þar sem hann var sagður í heimsókn hjá móðursystur sinni (reyndar var Sigríður húsfreyja á Berunesi dóttir séra Einars á Eydölum, systir Sesselju Einarsdóttir fyrri konu Halls föður Guttorms samkv. Íslendingabók). Miðað við örnefnakortið sem Þorsteinn birti með grein sinni verður ekki betur séð en að Hermannastekkar hafi því verið að Berunesi á Berufjarðarströnd og eru þar nefndir Hermannastekkir.

Hermannastekkar eru sunnan við Berufjörð rétt austan við þar sem bærinn Búlandsnes stóð og þar er munnmælasaga til af nafngiftinni á svipuðum nótum og á Berunesi. Guttormur á að hafa varist Tyrkjum með reku og pál. Hann hefði þess vegna getað verið báðu megin fjarðar með hálftíma millibili og átt í útistöðum við sitthvorn Tyrkjaflokkinn og munnmælin þess vegna farið rétt með, því Tyrkir sendu flokka á land svo til samtímis sitthvoru megin Berufjarðar samkvæmt Tyrkjaránssögu.

Munnmælin eru á tveimur stöðum í þjóðsaganasafni Sigfúsar og greinir á öðrum staðnum frá atburðum á þann hátt að Guttormur hafi einmitt verið báðu megin fjarðar. Þannig að ekki þarf að fara á milli mála hvoru megin Berufjarðar Hermannastekkar hafa ávalt verið og hvaða atburðum nafnið tengist. Það er eins og önnur sagan hafi farið fram hjá Þorsteini Helgasyni þegar hann skrifar greinina í Gletting.

En hver var Guttormur Hallson? Hann var fæddur um 1600, sonur séra Halls Högnasonar og Sigþrúðar sem bjuggu á Kirkjubæ í Hróarstungu á Héraði. Sigþrúður er sögð seinni eða síðasta kona Halls, án þess að meira sé um hana vitað, annað en að hún var einnig nefnd Þrúður. Víst er talið að hún hafi verið móðir þeirra Guttorms og Sigríðar, -yngst 10 barna Halls.

Guttormur var nýlega farinn að búa á kristfjárjörðinni Búlandsnesi þegar Tyrkir gerðu strandhöggið við Djúpavog. Búlandsnes hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi, en hvorki ríki né kirkju. Tyrkjaránssaga segir að Guttormur hafi verið fangaður á Búlandsnesi ásamt heimilisfólki sínu en þar voru þá auk þess 6 umrenningar, enda sú kvöð á kristfjárjörðum að hýsa fátæka.

Til eru talsverðar heimildir um afdrif Guttorms m.a. vegna sendibréfa, -bréfs sem hann skrifaði úr Barbaríinu til Íslands, þar sem hann biður landsmenn um að biðja fyrir sér, og bréfs sem enskur skipstjóri skrifaði að honum látnum. En Guttormur var ásamt heimilisfólki seldur á þrælamarkaði í Algeirsborg. Smala piltur Guttorms, Jón Ásbjarnarson, var einnig seldur í þrældóm, en komst til nokkurra metorða hjá húsbónda sínum,  sem var fursti í borginni. Jón fékk Guttorm, fyrr um húsbónda sinn, leystan úr ánauð og keypti fyrir hann far til Íslands með ensku skipi, lét Guttorm hafa farareyri og gull sem hann átti að færa foreldrum Jóns.

Þegar skipið var að nálgast höfn á Englandi höfðu skipverjar komist að því að Guttormur var með gullsjóð og tóku sig þá 4 saman um að ræna hann og drepa. Tveir ræningjanna náðust og voru hengdir. Skipstjórinn kom síðar bréfi til Íslands þar sem þess var getið að það sem eftir var af jarðneskum eigum Guttorms væri í Bristol á Englandi.

Sigríður systir Guttorms og Magnús, sonur séra Höskuldar Einarssonar á Eydölum, sem einnig kemur talsvert við sögu í Tyrkjaránsögu, settust að á Búlandsnesi eftir Guttorm og hans búalið. Tyrkjaránssaga greinir frá því að ræningjarnir hafi farið um Breiðdal án þess að verða verulega ágengt við mannrán og hafi hvað eftir annað týnt Eydölum. Bæði Tyrkjaránssaga og þjóðsagan segir frá því að þar komi við sögu feðgarnir, -prestarnir Einar og Höskuldur. Út af Sigríði og Magnúsi er komin stór ættbálkur íslendinga þ.m.t. síðuhöfundur.

Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9. Til eru samtímaheimildir af því sem gerðist skráðar eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti. Sennilega eru heimildirnar fyrir því sem gerðist á austfjörðum áreyðanlegar og greinagóðar vegna þess að þegar ræningjarnir komu til Vestamannaeyja, eftir að hafa verið í Berufirði, settu þeir 5 austfirðinga frá borði, skiptu þeim út fyrir Vestmannaeyinga. Tvo af þessum fimm drápu þeir í Eyjum, en ekki er ólíklegt að hinir þrír hafi farið heim og sagt sínar farir ekki sléttar. Þannig hafi sagan fljótlega borist með skólapiltum í Skálholt.

Það eru fáar heimildir eins trúverðugar og Tyrkjaránssaga. Þekkt eru nöfn fjölda fólks sem rænt var, og örlög nokkurra í þrældómi. Alls var fólkið tæplega 400 sem hernumið var frá Grindavík, nágrenni Djúpavogs og úr Vestmannaeyjum sumarið 1627. Fólkið var flutt til Marokkó og Alsír og selt þar á þrælamörkuðum. Hátt í 50 manns voru drepnir hérlendis meðan á ránunum stóð. Mörgum árum seinna náðist að safna lausnarfé til að kaupa fólk úr ánauð, talið er að innan við 50 hafi náði að snúa aftur heim til Íslands. Þektust er saga Guðríðar Símonardóttur úr Eyjum, -Tyrkja Guddu.

Uppnefni og örnefni, sem munnmæli geyma, eru oft einu upplýsingarnar sem til eru fyrir þjóðsögum er greina frá ákveðnum atburðum. Þannig heimildaleysi er ekki til að dreifa um sjálft Tyrkjaránið. Þó svo Hermannastekkar finnist einungis í munnmælunum og þjóðsögunni þá vann nafngiftin Hermanna, eðli málsins samkvæmt, sér ekki sess fyrr en eftir skráningu hinnar upphaflegu Tyrkjaránssögu á Austfjörðum.

 

Heimildir:

Glettingur tímarit um austfirsk málefni 1. tbl 2003

Dvergasteinn, þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi - Alda Snæbjörnsdóttir

400 ár við Voginn - Ingimar Sveinsson

Undir Búlandstindi - Eiríkur Sigurðsson

Þjójóðsögur og sagnir - Sigfús Sigfússon

Tyrkjaránið - Jón Helgason


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband