Hús byggð úr eldfjallaösku

Byggingarefni

Að leita ekki langt yfir skammt, hollur er heimafenginn baggi og vera sjálfum sér nógur, eru forn máltæki. Með alþjóðahyggjunni þykir svona forneskja í besta falli að vera heimóttaleg fáviska ef ekki hrein heimska. Svo langt hefur alþjóðavæðingin náð með sýnar aðfluttu lausnir að það er orðið of flókið, og mörgu fólki um megn að koma þaki yfir höfuðið, þó svo að það standi í byggingarefninu. Efni sem um tíma var flutt úr landi til húsbygginga í öðrum löndum. Nú á tímum byggja ótrúlega margir alþjóðahyggnir bisnissmenn afkomu sína á því að leitað sé langt yfir skammt, þó svo að þeir hafi ekki snefil af því að byggja hús, þá eru þeir séðir. En ekki hefði dugað það eitt að kallast séður til að koma í veg fyrir að fólk kæmi sér upp þaki yfir höfuðið án aðstoðar séníanna, ef ekki kæmi til regluverkið.

Við vinnufélagarnir ræddum húsnæðisvanda ungs fólks á kaffistofunni núna í vikunni enda fór mikið fyrir þeim vanda á Húsnæðisþingi íbúðalánasjóðs í byrjun viku. Eins varð myglan til umræðu sem er flutt, keypt og borinn inn í nýbyggingarnar með ærnu tilkostnaði að forskrift verkfræðinnar og undir ströngu regluverki þess opinbera. Af hverju geta menn ekki gert þetta eins og áður, spurði ég; hlaðið og múrhúðað veggi, þá var ekki mygla vandamálið. Nei þetta er ekki hægt lengur sagði einn félaginn. Láttu þér ekki detta svona vitleysa í hug, sagði annar. Hvers vegna ætti þetta ekki að vera hægt, sagði ég sármóðgaður múrarinn. Þá svaraði sá sem allt veit manna best; skilurðu það ekki maður það eru allir komnir í háskóla og fæst engin til að vinna svona vinnu lengur.

Það var þannig í gegnum tíðina, áður en menn urðu séðir, hámenntaðir og reglusamir, að fólk reisti sín hús úr því byggingarefni sem var nærtækast. Á Íslandi voru hús byggð úr torfi og grjóti í þúsund ár. Timbur var vandfengið byggingarefni í skóglausu landi og því einungis notað þar sem þurfti í burðarvirki húsa. Er leið á aldirnar fluttu erlendir kaupahéðnar inn tilsniðin timburhús, oft frá Noregi. Þegar sementið kom til sögunnar var farið að steypa hús og var til nóg af innlendu byggingarefni í steypuna, þannig að almúgamaðurinn kom sér upp húsi með eigin höndum án þess að notast við torf. Nú á 21. öldinni er svo komið að stærsti kostnaðurinn við húsbyggingu er óhóflegt regluverk, auk lóðar, teikninga, og allslags byggingagjalda, þessir þættir koma í veg fyrir að fólk geti byggt yfir sig sjálft. 

cement-solid-block-250x250Eitt byggingarefni var mikið notað við húsagerð þar til fyrir nokkrum áratugum síðan að það hvarf því sem næst af sjónarsviðinu og í staðin komu annaðhvort eftirlíkingar, en þó að mestu mygluvaldurinn mikli, innflutt pappa gibbs. Þar sem áður var múrhúð á einangrunarplasti og steyptir steinar úr eldfjallavikri og sementi,aðallega notaðir í milliveggi. Lítið var um að þessir steinar væru notaðir við að byggja heilu húsin, útveggirnir voru oftast úr steinsteypu. Vikursteinar voru ekki vel séðir í út- og burðarveggi, þóttu ekki öruggir með tilliti til jarðskjálfta. En eru meira notaðir erlendis þar sem hefð er fyrir því að hlaða hús.Útveggjasteinninn kallaðist holsteinn og var 40X20X20 sm á Íslandi. Í Noregi eru útveggjasteinarnir stærri, 50X250X20 cm er algengt. 

Þó svo þessi byggingarmáti hafi aldrei náð verulegri útbreiðslu á Íslandi vegna hættu á jarðhræringum þá vill svo einkennilega til að hlutfallslega hefur mest hefur verið hlaðið af svona húsum í Mývatnssveit, einu af meiri jarðskjálfta svæðum landsins, og það án vandkvæða. Fyrsta húsið sem ég man eftir mér í var úr vikursteini frá Mývatni. Foreldrar mínir hlóðu það hús á Egilsstöðum árið 1963. Reyndar aðeins um 40 m2 og varð það síðar að bílskúr við mun stærra steinsteypt hús. Þannig byrjuðu þau á að snara upp ódýru þaki yfir höfuðið á fjölskyldunni. 

Thuborg hleðsla

Sjálfur varð ég svo frá mér numinn af byggingaraðferð foreldra minna að hún er það fyrsta sem ég man, enda ekki nema þriggja ára þegar þau hlóðu skúrinn. Árið eftir var hann múrhúðaður að utan og gekk ég þá á eftir múraranum fram í myrkur til að nema kúnstina. Það þarf því ekki að koma á óvart að þegar ég ungur maðurinn byggði okkur Matthildi hús á Djúpavogi, rúmum 20 árum seinna, að það væri úr Mývatnsvikri. Ekki hef ég tölu á því, frekar en steinunum í húsið, hvað oft ég var spurður; "og hvað ætlarðu svo að gera þegar kemur jarðskjálfti?"

Flatarsel

Sami Mývatnssteina leikurinn var svo endurtekin á Egilsstöðum 20 árum eftir ævintýrið á Djúpavogi,  þegar við vinnufélagarnir byggðum þrjú tveggja hæða Mývatnssteinahús. Þessi aðferð var fljótleg, þannig að húsin ruku upp stein fyrir stein, en vakti þegar þá var komið aðallega athygli fyrir að koma aftan úr grárri forneskju, og svo auðvitað gamalla húsbyggenda sem komu til að rifja upp sín bestu ár.

IMG_1303

Í Noregi var íslenski vikurinn lengi í hávegum hafður sem byggingarefni og höfðu þar verið starfræktar heilu verksmiðjurnar sem steyptu steina úr eldfjallavikri. Á árunum eftir hrun varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að komast í að hlaða fleiri hundruð fermetra af vikurveggjum og pússa ásamt fjölþjóðlegum flokk múrara sem áttu það allir sameiginlegt að vera aðfluttir flóttamenn, rétt eins og eldfjallavikurinn sem þá var orðin alþjóðlega stöðluð eftirlíking í Noregi. Það má kannski segja sem svo að þar hafi alþjóðavæðingin náð tæknilegri fullkomnun.

IMG_0149

Enn má sjá byggingar við Vogsfjörðin í Troms sem tilheyrðu steinasteypu til húsbygginga úr íslenskum eldfjallavikri fyrir N-Noreg. Engir steinar eru steyptir lengur í N-Noregi heldur er þar nú einungis birgðageymsla fyrir Leca steina sem koma sunnar úr Evrópu, verksmiðjan var keypt upp til þess eins að leggja hana niður. Leca er alþjóðlegt skrásett vörumerki sem býr til vikur úr leir með því að hita hann upp í 1.200 C°. Það má því seigja að markaðurinn hafi kæft íslensku eldfjöllin með því að skrásetja vörumerki og búa til staðla sem má stilla regluverkið eftir, það hefði verið erfiðara að staðla eldfjöllin og fá þau skráð sem vörumerki.

Tuborg í byggingu

Tuborg Djúpavogi byggt úr Mývatns vikursteini. Það þarf ekki mikið til að byrja á því að hlaða hús eftir að sökkull og gólfplata hafa verið steypt. Nokkrar spýtur til að setja upp eftir hallamáli á húshornin og strengja spotta á milli til að hlaða eftir í beinni línu, steina, sand, sement, vatn og litla steypuhrærivél. Glugga er hægt að steypa í jafnóðum eða setja í eftirá.

 

Tuborg I

Tuborg Djúpavogi 150 m2, útveggi svona húss tekur um vikutíma að hlaða fyrir tvær manneskjur. Viku tekur að múrhúða veggi að utan, mest vinna er í gluggum og þaki. Múrhúðin á þessu húsi er með hraunáferð. Mölin í hraunið var fengin úr næstu fjöru.

 

Flatarsel í byggingu

 Flatasel Egilsstöðum, byggt úr Mývatns vikursteini. Það tekur meiri tíma pr.m2 að hlaða tveggja hæða hús, en á einni hæð. Þar kemur hæðin til, sem útheimtir vinnupalla og aukið burðavirki. Í hverri hæð eru 12 raðir steina og er raunhæft að tveir menn hlaði 4 raðir á dag. Gólfplata á milli hæða var steypt og þak með kraftsperrum.

 

Flatarsel 4

Flatasel Egilsstöðum 190 m2, einangrað og múrhúðað að utan með ljósri kvarssteiningu. Einangrunin er úr plasti og límd með múrblöndu á veggi, 3-4 daga verk fyrir 2 múrara. Utanhússmúrverk og steiningin tekur u.þ.b. 2 vikur fyrir 4 múrara.

 

IMG_2738

Í N-Noregi kom fyrir að við hlóðum hús í janúarmánuði. Þá var notað heitt vatn og frostlögur í múrblönduna sem notuð var til að líma saman steinaraðirnar.

IMG_6736

Hábær 40 m2, fyrsta hús foreldra minna er enn á sínum stað sem bílskúrin að Bjarkarhlíð 5 á Egilsstöðum. Núna 55 árum eftir að húsið var byggt er múrhúðunin með sýnilegum múrskemmdum.

 

IMG_0070

 

Básar

Að endingu má segja frá því að ég kom út í Grímsey í sumar og gisti þar á Gistiheimilinu Básum, ágætu tveggja hæða húsi. Við samferðafólkið tókum eftir því að hátt var til lofts og vítt til veggja á neðri hæðinni, en þó svo að jafn vítt væri til veggja á þeirri efri þá var frekar lágt til lofts. Múrviðgerðir og málningarvinna stóðu yfir utanhúss og komu þær til tals við eigandann. Þá kom í ljós að afi hans hafði hlaðið þetta stóra hús úr Mývatnssteini árið 1960, flutt nákvæmlega þá steina sem til þurfti úr landi.

Húsbyggingin var það skemmtileg, og afinn það mikill ákafamaður að hann hlóð einni röð of mikið í neðri hæðina. Í stað þess að tefja verkið með því að brjóta ofauknu röðina niður eftir að hún uppgötvaðist, þá steypti hann gólfplötuna fyrir aðra hæðina og hélt áfram að hlaða úr þeim steinum sem eftir voru og lét það duga. Þar var komin skýringin á mismuninum á lofthæðinni milli hæða.

Ef einhver hefur í hyggju að hlaða sér upp húsi er rétt að hafa það í huga að stoppa á réttri röð þó svo að ákafinn sé mikill. Það er víst enn verið að grínast með húsbyggingagleði gamla mannsins út í Grímsey. Auk þess gæti verið að regluverkið sé orðið örlítið smámunasamara í dag þegar kemur að úttekt þess opinbera. Í Grímsey skipti þetta engu máli enda hefur húsið á Básum þjónað eigendum sínum hátt í 60 ár.

 


Hafa mælar verið fleiri?

Jarðvísindamenn segja að Öræfajökull skjálfi sem aldrei fyrr samkvæmt þeirra mælum og er því spurning hvað lengi jökullinn hefur verið mældur í þeim mæli sem nú er gert. Sennilega hefur mælum verið fjölgað stórlega eftir að hann fór að láta á sér kræla fyrr nokkrum árum.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvernig nafnið Öræfi kom til, svo oft hefur eldgosinu 1362 verið gerð skil, sem gjöreyddi Litla-Héraði. Þó svo að ekki séu til um þetta stórgos, nema mjög takmarkaðar samtímaheimildir í annálum, telja seinna tíma rannsóknir að þá hafi orðið eitt mesta eldgos á Íslandi á sögulegum tíma og sennilega stærsta og mannskæðasta sprengigos frá því land byggðist.

Um mun meðalstóra gosið 1727 er meira vitað um. Sama gildir um það gos og 1362, að um það eru mjög takmarkaðar heimildir í annálum. En um það gos er þó til lýsing sjónarvotts á upptökum og afleiðingum. Þar er um að ræða lýsingu séra Jóns Þorlákssonar sóknarprests í Sandfelli.

Jón var fæddur árið 1700 á Kolmúla við Reyðarfjörð og var prestur í Sandfelli í Öræfum 1723-1732, því aðeins 27 ára þegar eldumbrotin urðu. Hann skrifar samt ekki lýsingu sína á því sem gerðist fyrr en um 50 árum seinna, þegar hann er sóknarprestur á Hólmum í Reyðarfirði.

Sagt er var um séra Jón, "hann var mikilfengur og hraustmenni, fastlyndur og geðríkur, og lét lítt hlut sinn." Fer frásögn hans hér á eftir: 

"Árið 1727, hinn 7 ágúst, er var 10. sunnudagur eftir trinitatis, þá er guðsþjónusta var byrjuð í heimakirkjunni á Sandfelli og ég stóð þar fyrir altarinu, fann ég hreyfingu undir fótum mér. Gaf ég henni eigi gaum í fyrstu, en undir prédikun fóru hræringar þessar mjög vaxandi, og greip menn þá felmtur, en samt sögðu menn, að slíkt hefði áður við borið. Gamall maður og örvasa gekk niður að lind, sem er fyrir neðan bæinn og kraup þar á kné stundarkorn, og hlógu menn að þessu atferli hans. Þegar hann kom aftur og ég spurði hann, hvers hann hefði verið að leita, svaraði hann: „Gætið yðar vel, herra prestur, það er kominn upp jarðeldur.“ Í sama bili varð mér litið til kirkjudyranna, og sýndist mér þá eins og öðrum, sem viðstaddir voru, líkt og húsið herptist og beygðist saman.

Ég reið frá kirkjunni en gerði eigi annað en að hugsa um orð öldungsins. Þegar ég var fyrir neðan miðjan Flögujökul og varð litið upp á jökultindinn, virtist mér sem jökullinn hækkaði og belgdist út aðra stundina, en lækkaði og félli saman hina. Þetta var ekki heldur missýning, og kom það brátt í ljós, hvað þetta boðaði. Morguninn eftir, mánudaginn 8. ágúst, fundu menn eigi aðeins tíða og ægilega landskjálftakippi, en heyrðu einnig ógnabresti, sem ekki voru minni en þrumuhljóð. Í þessum látum féll allt, sem lauslegt var í húsum inni, og var ekki annað sýnna en allt mundi hrynja, bæði húsin og fjöllin sjálf. Húsin hrundu þó eigi. En það jók mjög á skelfingu fólksins, að enginn vissi, hvaðan ógnin mundi koma né hvar hún dyndi yfir. Klukkan 9 um morguninn heyrðust 3 miklir brestir, sem báru af hinum; þeim fylgdu nokkur vatnshlaup eða gos og var hið síðasta mest, sópuðu þau brott hestum og öðrum peningi, er fyrir þeim urðu, í einu vetfangi.

Þar á eftir seig sjálfur jökullinn niður á jafnsléttu, líkt og þegar bráðnum málmi er hellt úr deiglu. Hann var svo hár, er hann var kominn niður á jafnsléttuna, að yfir hann sá ég ekki meira af Lómagnúpi en á stærð við fugl. Að þessu búnu tók vatnið að fossa fram fyrir austan jöklana og eyddi því litla, sem eftir var af graslendi. Þyngst féll mér að horfa á kvenfólkið grátandi og nágranna mína ráðþrota og kjarklausa. En þegar ég sá, að vatnsflóðið leitaði í áttina til bæjar míns, flutti ég fólk mitt og börn upp á háan hjalla í fjallinu, sem Dalskarðstorfa heitir. Þar lét ég reisa tjald og flytja þangað alla muni kirkjunnar, matvæli, föt og aðrar nauðsynjar, því að ég þóttist sjá, að þótt jökullinn brytist fram á öðrum stað, mundi þó hæð þess standa lengst, ef guði þóknaðist; fólum við okkur honum á vald og dvöldumst þar.

Ástandið breyttist nú enn við það, að sjálfur jökullinn braust fram og bárust sumir jakarnir allt á sjó fram, en hinir stærri stóðu rétt við fjallsræturnar. Þessu næst fylltist loftið af eldi og ösku, með óaflátanlegum brestum og braki; var askan svo heit, að engin sást munur dags og nætur og af myrkri því, er hún olli; hið eina ljós er sást, var bjarminn af eldi þeim sem upp var kominn í 5 eða 6 fjallaskorum. Í 3 daga samfellt var Öræfasókn þjáð á þennan hátt með eldi, vatni og öskufalli. Þó er ekki létt að lýsa þessu eins og í raun réttri var, því að öll jörðin var svört af vikursandi og ekki var hættulaust að ganga úti sakir glóandi steina, sem rigndi úr loftinu, og báru því ýmsir fötur og kollur á höfðinu sér til hlífðar.

Hinn 11. sama mánaðar tók ögn að rofa til í byggðinni, en eldur og reykur stóð enn upp úr jöklinum. Þennan dag fór ég við fjórða mann til þess að líta eftir, hversu sakir stæðu á kirkjustaðnum Sandfelli, sem var í hinni mestu hættu. Þetta var hin mesta hættuferð, því að hvergi varð farið nema milli fjallsins og hins hlaupna jökuls, og var vatnið svo heitt, að við lá, að hestarnir fældust. En þegar við vorum komnir svo langt, að fram úr sá, leit ég við. Sá ég þá, hvar vatnsflaumur fossaði ofan frá jöklinum, og hefði hann sennilega orðið bani okkar, ef við hefðum lent í honum. Ég tók því það til bragðs að ríða fram á ísbreiðuna og hrópaði til förunauta minna að fylgja mér hið skjótasta. Með þeim hætti sluppum við og náðum heilu og höldnu að Sandfelli. Jörðin ásamt tveimur hjáleigum var að fullu eydd, og var ekkert eftir nema bæjarhúsin og smáspildur af túninu. Fólkið var grátandi úti í kirkju.

En gagnstætt því, sem allir héldu, höfðu kýrnar á Sandfelli og fleiri bæjum komist lífs af, og stóðu þær öskrandi hjá ónýtum heystökkum. Helmingur fólksins á prestsetrinu hafði verið í seli með 4 nýlega reistum húsum. Tvær fullorðnar stúlkur og unglingspiltur flýðu upp á þak hæsta hússins, en skjótt þar á eftir hreif vatnsflaumurinn húsið, þar sem það, eftir sögn þeirra, er á horfðu, stóðst ekki þunga aurflóðsins, sem féll að því. Og meðan menn sáu til stóðu þessar þrjár vesalings manneskjur á þakinu. Lík annarrar stúlkunnar fannst seinna á aurunum, það var brennt og líkast sem það væri soðið. Var varla unnt að snerta hið skaddaða lík, svo var það meyrt orðið. Allt ástand sveitarinnar var hið hörmulegasta. Sauðféð hafði flest farist, sumt af því rak seinna á fjörur í þriðju sókn frá Öræfum. Hey skorti handa kúnum, svo að ekki var unnt að setja nema fimmta hluta þeirra á vetur. 

Eldurinn brann án afláts í fjallinu frá 8. ágúst fram til sumarmála í apríl árið eftir. Fram á sumar voru steinar svo heitir, að af þeim rauk, og var ekki unnt að snerta þá í fyrstu. Sumir þeirra voru fullbrenndir og orðnir að kalki, aðrir voru svartir á lit og holóttir, en í gegnum suma var unnt að blása. Flestir þeir hestar, sem hlaupið hafði ekki borið út á sjó, voru stórkostlega beinbrotnir, er þeir fundust. Austasti hluti Síðusóknar skemmdist svo af vikri, að menn urðu að slátra miklu af búpeningi.

Á sumardaginn fyrsta árið eftir, 1728, fékk ég nefndarmann einn með mér til að kanna sprungurnar í fjallinu; var þá hægt að skríða um þar. Ég fann þar dálítið af saltpétri og hefði getað safnað nokkuð af honum, ef hitinn hefði ekki verið svo mikill, að ég var tregur til að haldast þar við. Á einum stað var stór, brunninn steinn á sprungubarmi; af því að hann stóð tæpt, hrundum við honum niður í sprunguna, en ómögulegt var okkur að heyra, er hann nam við botn. Þetta, sem nú er sagt, er hið markverðasta, sem ég hef frá að skýra um þennan jarðeld.

Þó skal því við bætt, að húsmaður einn sagði mér, að hann hefði nokkru áður en eldurinn kom upp heyrt hljóð í fjallinu, sem líktust andvörpum og málæði margra manna, en þegar hann fór að hlusta betur, heyrði hann ekkert. Ég tók þetta til íhugunar og vildi ekki reynast miður forvitinn, og ég get ekki borið á móti því, að ég heyrði hið sama. Þetta kvað og hafa gerst víðar, þar sem eldur var uppi með sama hætti. Þannig hefur guð leitt mig í gegnum eld og vatnagang, ótal óhöpp og andstreymi allt fram til 80. æviárs. Hann sé lofaður, prísaður og í heiðri hafður að eilífu."

Frásögn séra Jóns Þorlákssonar er fengin af stjörnufræðivefnum.


mbl.is Skjálftavirkni aldrei mælst meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband