Bæn vígamanns í jólabúningi

2009-ofridarvaktEinn af fegurstu sálmum sem ortur hefur verið á íslenska tungu er án efa Heyr himna smiður eftir Kolbein Tumason í Víðimýri. Kolbeins er getið í  Sturlungasögu og var hann höfðingi í Skagafirði, foringi Ásbirninga.

Kolbeinn var vígamaður að hætti sinnar tíðar þegar húsbrennur og grjótkast tilheyrðu tíðarandanum. Hann fór að Önundi Þorkelssyni á Lönguhlíð í Hörgárdal, ásamt Guðmundi dýra Þorvaldssyni, og brenndu þeir hann inni ásamt Þorfinni syni hans og fjórum öðrum, annað heimilisfólki fékk grið. Þeir Önundur og Guðmundur dýri höfðu lengi átt í deilum. Brennan var talin til níðingsverka.

Kolbeinn átti mikinn þátt í því að Guðmundur góði Arason, frændi Gyðríðar konu hans og prestur á Víðimýri, var kjörinn biskup að Hólum, og hefur sjálfsagt talið að hann yrði sér auðsveipur en svo varð ekki. Guðmundur góði vildi ekki lúta veraldlegu valdi höfðingja og varð fljótt úr fullur fjandskapur milli þeirra Kolbeins. Guðmundur biskup bannfærði Kolbein.

Í september árið 1208 fóru Kolbeinn, Arnór bróðir hans og Sigurður Ormsson Svínfellingur, til Hóla með sveit manna, og úr varð Víðinesbardagi. Steinar voru meðal vopna á Sturlungaöld. Kolbeinn fékk stein í höfuðið í Víðinesi sem varð hans bani. Hann á að hafa ort sálminn 8. september, daginn fyrir andlát sitt, og verður helst af honum ráðið að þar sé Drottinn beðinn að sjá í gegnum fingur sér við þræl sinn.

Auk þess að vera þjóðargersemi, er Heyr himna smiður elsti varðveitti sálmur Norðurlanda og nú oftast fluttur við lag Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds. Sálmurinn er eitt vinsælasta íslenska efnið sem finna má á youtube og er þar farið um hann mjög svo lofsamlegum orðum.

Hér fyrir neðan flytur hin Færeyska Eivör Pálsdóttir bænina í jólabúningi frá dýpstu hjartans rótum. Ég óska lesendum gleðilegra jóla, árs og friðar.

 


Bloggfærslur 25. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband