Góðir Íslendingar

IMG_1922

Það er flestum ljóst að það vorum ekki við sem fundum upp hjólið og auk þess seinir til að tileinka okkur kosti þess. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að við höfum þróað með okkur axarskaftið. Sú saga sem við höfum af mestri sjálfsumgleði hampað, er frá þeim tímum sem teljast til gullalda, þ.e. þjóðveldisöldin, og svo 20. öldin frá hingaðkomu hjólsins. Þarna á milli er margra alda saga sem hefur verið lítið höfð í frammi af okkur sjálfum. Enda tímar niðurlægingar og hörmunga sem mörgum finnst fara best á því að gleyma eins og hverjum öðru hundsbiti.

Það er engu líkara en þjóðarsálin skammist sín mest af öllu fyrir hversu snögglega hún hrökk inn í nútímann. Lífshættir áratuganna á undan eru huldir móðu nema ef vera kynni að vottaði örlítið fyrir þeim í Íslandssögu Jónasar frá Hriflu fyrir börn, sem þykir ekki trúverðugt plagg, jafnvel argasta þjóðernispólitík. Þögnin hefur verið látin að mestu um að greina frá lífsháttum þessa volaða tíma eftir að drunur jarðýtnanna hljóðnuðu sem sáu um að varðveita byggingasöguna.

En nú á tímum umhverfisvitundar er samt að koma æ betur í ljós að fyrir fátt er að fyrirverða sig, fyrri tíma þjóðlíf og byggingahefð hafði að geyma eitthvert umhverfisvænsta og sjálfbærasta mannlíf sem fyrir fannst á byggðu bóli. Þrátt fyrir að við kjósum að sjá ekki annað en moldarkofa og rolluskjátur, sem eiga að hafa eytt skógum og jafnvel nagað gat á jarðskorpuna. En á móti komu átthagafjötrar vistarbandsins sem lágmarka kolefnissporið með mælihvörðum nútímans. 

Þó svo áar okkar hafi vissulega flest verið því fegin að komast út úr hálf hrundum moldarkofum og losna undan því að rölta á eftir rollum allt sitt líf þá er óþarfi að blygðast sín fyrir söguna um ókomna tíð. Nú er flest það fólk sem hörmungina upplifði fallið frá og verður ekki gerð nein minnkun þó svo að þessari sögu sé haldið á lofti. Og sem betur fer var til fólk sem áttaði sig á því hvað íslenskt þjóðlíf var einstakt á heimsvísu og hélt ýmsu til haga sem annars hefði orðið jarðýtutönninni að bráð.

Árunum 1890-1920 gerði hinn danski Daniel Bruun skil og varð svo hugfangin af landi og þjóð að hann ferðaðist vítt og breytt um landið. Með í föruneyti sínu hafði Bruun ljósmyndara og málara til að festa á mynd það sem fyrir augu bar. Jafnframt stundaði hann fornleifarannsóknir og skráði niður búskaparhætti, samgöngumáta, fæði, klæði og húsakost. Svo uppnuminn varð Bruun að hann lagði til að fyrirhugaður sýningarbás Danaveldis, á heimsýningu í París, sýndi íslenskan veruleika, ásamt færeyskum og grænlenskum.

Sandfell

Danskir landmælingamenn í túninu við Sandfell í Öræfum árið 1902.Í bók Ófeigs Sigurðssonar, Öræfi, segir frá því, þegar hringvegurinn var formlega opnaður með því að frammámenn  þjóðarinnar komu og klipptu á borða; "1974 þegar reynt var að geðjast forseta lýðveldisins með því að landbúnaðarráðuneytið kveikti í Sandfellsbænum og slétti út tóftunum með jarðýtu, þetta hátíðarár, var sérstakt húsfriðunarár í Evrópu, þá áttuðu menn sig ekki á því að forsetinn var fornleifafræðingur að mennt og fyrrum þjóðminjavörður Íslendinga".

Það voru fleiri útlendingar en Danir sem áttuðu sig á sérstöðu Íslands. Þjóðverjarnir Hanz Kuhn, Reinhard Prinz og Bruno Schweizer fóru um Ísland á fyrri hluta 20. aldar, í kjölfar Daniels Bruun og fylgdust með hvernig landið stökk inn í nútímann. Bókaforlagið Örn og Örlygur gaf út árið 1987 tvær veglegar bækur, sem gera ferðum Daniels Bruun skil, undir heitinu Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Og árið 2003 þrjú bindi Úr torfbæjum inn í tækniöld, sem segir frá ferðum þjóðverjanna.

Formála bókanna Úr torfbæjum inn í tækniöld er fylgt úr hlaði m.a. með þessum orðum. „Íslendingar voru opnir fyrir nýjungum og fljótir að kasta fyrir róða gömlum tækjum og tólum. Hanz Kuhn veitti þessu athygli og skrifaði 1932; „Á Íslandi tekur bíllinn beint við af reiðhestum og áburðarklárum - hestvagnatímabilinu byrjaði að ljúka skömmu eftir að það hófst. Togarar taka beint við af opnum árabátum, steinsteypan af torfinu, gervisilki af vaðmáli og stálbitabrýr í stað hesta sem syntu yfir jökulvötn.“

Í þrem bókum Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, Baráttan um brauði og Fyrir sunnan er að finna einhverjar raunsönnustu heimildir um daglegt líf fólks á þessum miklu umbrotatímum. Þar lýsir Tryggvi lífi sínu í hálfhrundum torfbæjum við sjálfsþurftarbúskap með lítinn bústofn sem samanstóð af nokkrum, rolluskjátum, hesti, hundi, og belju. Þar eru lýsingar á því hvernig þarfasti þjónninn missti hlutverk sitt á einni nóttu, eftir að bíll komst einu sinni með flutning og fólk á palli í sveitina, og var hesturinn aldrei notaður eftir það til ferða í kaupstað. Í bókunum má finna lýsingar á braggalífi og því hvernig ríkisútvarpið, hernámið og hitaveitan breytti öllum heimilissiðum og heimsviðmiðum. Tryggvi endaði einstakt æviskeið sem skrifstofumaður, búandi í raðhúsi í Reykjavík.

Ég fékk nasasjón í mýflugumynd af þessum gamla tíma kyrrstöðu, umbrota og framfara úr baksýnisspegli ömmu minnar og afa. Þar varð ég var við tvennskonar viðhorf. Þegar ég spurði afa minn hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í gamladaga með torfbæ sem skjól út á grænni grundu á meðan yndi vorsins undu skoppandi í kringum lítinn smaladreng. Þá hristi hann höfuðið og sagði; „minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn" og bætti svo við að þetta hefði verið hörmungar hokur. Aftur á móti tók ég oft eftir því að þegar amma var kominn í upphlutinn þá var hún farin yfir í hátíðlegri heim, og rokkurinn sem til hennar gekk frá móður hennar er eitt af mínum dýrmætustu stofustássum þó hann sé fyrir löngu þagnaður.

Undanfarin ár hafa augu mín og eyru opnast fyrir þessari mögnuðu sögu. Þegar sól skín í heiði og tækifæri er til þá höfum við Matthildur mín ekki látið hjá líða að heimsækja þá fáu torfbæi sem enn finnast í landinu. Það eru ennþá til kot, kirkjur og höfðingjasetur, sem má skoða. Þeir sem hafa heimsótt þessa síðu í gegnum tíðina ættu að hafa orðið varir við myndir og frásagnir frá þessum torfbæja túrum. Núna þegar sumarið er brostið á enn á ný, eru ferðir farnar út um þúfur. Mælir síðuhöfundur með þjóðlegum þúfnagangi um leið og hann óskar lesendum gleðilegs þjóðhátíðardags.

 

IMG_1913

Glaumbær í Skagafirði árið 1896 þegar Daniel Bruun var þar á ferð

 

GlaumbærII

Enn má finna forna bæi á ferð um landið. Síðasta fjölskyldan flutti úr Glaumbæ 1948. Bærinn er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins. Er það talið hafa skipt sköpum varðandi varðveislu bæjarins að Íslandsvinurinn Mark Watson gaf til þess 200 sterlingspund árið 1938

 

IMG_3251

Í gamla hlóðaeldhúsinu í Glaumbæ 2017

 

Glaumbær eldhús

Teikning Daniels Bruun af hlóðaeldhúsinu í Glaumbæ, sem er að grunni til frá 1785


Bloggfærslur 17. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband