Niðursetningar

Samkvæmt orðabók er niðursetningur einstaklingur sem býr ekki hjá fjölskyldu sinn heldur er á framfæri sveitarfélags, -sveitarómagi. Að verða niðursetningur forðaðist fólk af öllum mætti áður fyrr, því þá var einstaklingurinn upp á sveitunga sína kominn með framfærslu. Enda var meðferðin á niðursetningum ekki alltaf góð.

Í manntali frá 1801 kemur fram að niðursetningar voru tæp 5 % fólksfjölda á Íslandi. Í manntali hundrað árum fyrr eru þeir taldir um 15 % þjóðarinnar. Niðursetningar voru færðir á milli bæja, eða þeir færðu sig sjálfir á milli, en það átti þá helst við um vinnufæra ómaga. Hreppurinn greiddi með, -eða réttar sagt lét bjóða í niðursetninginn og fékk sá sem lægst bauð.

Helst var það ungt og gamalt fólk, sem átti á hættu að verða niðursetningar, eins einstæðingar sem höfðu misst starfsgetuna af einhverjum ástæðum. Áður en ellin kvaddi dyra þá var það stundum þannig, að ef fólk átti fjármuni þá lét það eignir sínar til þeirra sem sáu um það í ellinni og ef það var ótengt fólk var það kallað próventa.

Í bókinni Að vestan II eru tvær sögur af niðursetningum í Fellahreppi sem Sigmundur M Long skráði eftir að hann flutti til Vesturheims. Sigmundur var fæddur 1842 og foreldrar hans bjuggu um tíma á Ekkjufelli. Þessi bók er einstaklega áhugaverð fyrir þá sem vilja sjá fyrir sér hvernig lífið gekk fyrir á 19. öld og jafnvel á seinni hluta 18. aldar því Sigmundur hefur einnig skráð það sem hann heyrði frá eldra fólki.

Önnur niðursetnings sagan er af Jófríði Magnúsdóttir sem var niðursett unglingstúlka hjá Bessa ríka Árnasyni á Ormarsstöðum. Hún var sögð hafa verið frá náttúrunnar hendi efnisstúlku, en mjög illa haldin eins og átti sér stað um niðursetur á þeim árum. En Jófríður hefur verið niðursetningur á Ormarstöðum, miðað við fæðingadag og unglingsár, skömmu fyrir eða í Móðuharðindunum upp úr 1780.

Sigmundur segir þarna sjálfsagt söguna eins og hann hefur heyrt og munað. Ormarstaðafólkið á að hafa farið til messu í Áskirkju á páskadag, en Jófríður verið ein eftir heima. Á meðan fólkið var í burtu fór hún og skar stykki úr dauðum hesti, sem hafði lent ofan í fen snemma um veturinn, fór með bitann heim, -sauð og át.

Þetta uppgötvaðist og mæltist illa fyrir, bæði var bann við hrossakjötsáti hjá kirkjuyfirvöldum og hún hafði þar að auki gert þetta í leyfisleysi á stórhátíð. Bessi, sem var bæði hreppstjóri og nefndarmaður, fékk því framgengt að henni yrði refsað við messu á Ási, en þar var gapastokkur við kirkjuna til refsinga ætlaður.

Um hvítasunnu dróst Jófríður við staf máttfarin til messu með Ormarsstaðafólkinu. Á hlaðinu stakk einhver því að henni í trúnaði, hvaða refsing biði hennar. Við þá frétt ákvað hún að forða sér og höktir við stafinn heim á leið. Bessi bað menn um að sækja hana, en það vildi engin gera og var honum sagt að það færi best á að hann gerði það sjálfur.

Bessi snaraðist á eftir Jófríði og greip til hennar, en hún streittist á móti. “Nú duga engar sperringar;” -sagði Bessi og dró hana í gapastokkinn. Það merkilega við þessa sögu er að Jófríður varð síðar seinni kona Bessa og þótti bæði efna- og myndarkona því um hana var kveðin þessi vísa í sveitarvísum Fellahrepps eftir að hún hafði búið ekkja og eigandi á Birnufelli.

Á Birnufelli hringa hrund

hefur búið lengi,

Jófríður með jafna lund

jarðeigandi er þetta sprund.

Hin niðursetnings saga Sigmundar er frá hans samtíma, en þar segir hann frá Ingibjörgu gömlu Jósefsdóttir. Hann segir frá því þegar hún kom í heimsókn á hans bernskuheimili á Ekkjufelli um miðja 19. öld, lýsir henni sem lítilli konu, hörkulegri fjörmanneskju, greindri í betra lagi og skap mikilli.

Ingibjörg var Eyfirsk að uppruna, átti til að drekka vín og var hálfgerður flækingur í Fellum. Ef henni var misboðið, þá fór hún með illyrði og bölbænir, en fyrirbænir og þakklæti ef henni líkaði. Hann segir að Ingibjörg hafi verið næturgestur hjá foreldrum sínum og beðið þeim margfaldrar blessunar þegar hún kvaddi.

Hún hafði átt eina dóttir sem einnig hét Ingibjörg. Maður, sem kallaður var Jón Norðri af því að hann var að norðan, hafði barnað Ingibjörgu dóttir Ingibjargar og dó hún af barnsförum. Taldi gamla Ingibjörg Jón banamann dóttur sinnar og hataði hann bæði lífs og liðinn.

Þau Jón og Ingibjörg hittust einhverju sinni á Egilsstaðanesi og var Jón þá drukkin á hesti en Ingibjörg gamla algáð og fótgangandi. Bæði voru á leiðinni út fyrir Eyvindará og bauð Jón henni að sitja fyrir aftan sig á hestinum svo hún þyrfti ekki að vaða ána.

Ingibjörg þáði þetta, en þegar komið var á hinn bakkann var hún ein á hestinum, en Jón drukknaður í ánni. Hún Guð svarði fyrir að hún hefði verið völd að dauða Jóns, en ekki tók hún þetta nærri sér og sagði að fjandinn hefði betur mátt hirða Jón, þó fyrr hefði verið.

Sigmundur hitti Ingibjörgu aftur þegar hún lá í kör á Skeggjastöðum í Fellum. Þá var hún farin að sjá púka í kringum sig og fussaði og sveiaði um leið og hún sló til þeirra með vendi. Á milli bráði af henni og hún mundi vel eftir foreldrum Sigmundar og blessaði þá í bak og fyrir, þarna var Ingibjörg háöldruð orðin ómagi á framfæri sveitar.

Hún átti samkvæmt reglunni sveit í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði en þaðan var borgað með henni sem niðursetningi því ekki vildu þeir fá hana norður, og varla var tækt að flytja hana hreppaflutningum svo langa leið háaldraða og veika. Á seinasta aldursári Ingibjargar barst sú frétt með Héraðsmanni í Fell, sem hafði verið norður í landi, að Eyfirðingum þætti Ingibjörg vera orðin grunsamlega langlíf.

Um veturinn kom Glæsibæjarhreppstjórinn í Fell eins og skrattinn úr suðaleggnum. Vildi þá svo óheppilega til að Ingibjörg var dáin þremur mánuðum áður, en Fellamenn gátu sýnt honum kirkjubókina svo hann mætti sannfærast um að Fellamenn hefðu ekki látið þá í Glæsibæjarhreppi greiða með henni dauðri.

Í þessari bók Að vestan eru miklar heimildir um samfélag þess tíma og má ætla að þar sé sagt tæpitungu laust frá, enda sögurnar skráðar í fjarlægð við það fólk sem þær gátu sært. Sagnaþættir Sigmundar eru í raun mun merkilegri heldur en bara sögurnar, því þar lýsir hann einnig staðháttum og samgöngum.

Frásögnin af Ingibjörgu gömlu og Jóni Norðra á Egilsstaðanesinu á leið yfir Eyvindarána hefur líklega gerst þar sem Egilsstaðaflugvöllur er nú og hefur ferðinni væntanlega verið heitið út Eiðaþinghá eða niður á Seyðisfjörð.

Einnig var á þeim tíma engin brú yfir Lagarfljót, en ferja frá Ferjusteinunum í Fellbæ, sem eru rétt innan við norður enda Lagarfljótsbrúarinnar. Ferjan sigldi þaðan yfir í Ferjukílinn sem er rétt utan við austur enda brúarinnar.

Lögferju var lengst af sinnt á Ekkjufelli og má ætla að Skipalækur þar sem ferðaþjónusta er í dag neðan við golfvöllinn á Ekkjufelli, beri nafn sitt af lægi ferjubátsins.


Upplýsingaóreiða í upphafi viku


mbl.is „Þessi banki er tossinn í bekknum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband