21.12.2021 | 06:00
Vetrarsólstöður
Sólstöður og jafndægur skipta sólárinu í ársfjórðunga. Í dag eru vetrarsólstöður, dimmasti dagur ársins. Eftir því sem á ævina líður hef ég veitt þessum árstíðamótum meiri athygli. Um sumarsólstöður hef ég vakað sumarsnóttina, hefur þess oft verið getið í sólstöðu pistlum á þessari síðu.
Á vetrarsólstöðum, um hádegisbil, hef ég sóst í að eiga hljóða stund frá erli dagsins undir berum himni með krumma og skýjunum. Hér á Héraði er hádegi sólar kl 13. Á þessum hljóðu krossgötum sólarinnar verður maður margs vís sem hvorki er greint frá í símanum né sjónvarpinu.
Um vetrarsólstöður stendur sólin í stað 3 daga. Þessa 3 daga er sólin við suðurkrossinn eða á suðurenda sýnilegu vetrarbrautarinnar. Eftir þann tíma, ca 25. desember, færist sólin um eina gráðu í norður, sem gefur til kynna að daginn er tekið að lengja, -nýtt sólár er hafið.
Mörg táknfræði trúarbragða er tengd vetrarsólstöðum. Sem dæmi má ætla að vitringarnir 3, sem vitjuðu Jesúbarnsins, séu tákngervingar þessara 3. kyrrstöðudaga sólarinnar við suðurkrossinn, þeir og fæðingadagur frelsarans hafi verið settir í ritningunni samfara hækkandi sól.
Til forna voru jól um þennan tíma þriggja daga hátíð matar og drykkju, þetta kemur m.a. fram í Grettissögu. Vetrarsólstöðuhátíðir eru þekktar frá heiðinni tíð og að fólk hafi víða í norðri haldið hátíðir í aðdraganda hækkandi sólar. Trúarbrögðin flétta svo saman þessum tímamótum við boðskap sinn. Enda viðkvæmur hugur mannfólksins í myrkrinu undir áhrifum þessara tímamóta þegar hvarflað er vonarhug til bjartari framtíðar.
Á sóltöðunum fyrir ári síðan setti ég hér inn pistil um hinn forna mánuð mörsug. Þar var farið á hundavaði yfir árið 2020: Á undanförnum mánuðum hefur hátíðum hefða í tímans rás verið raskað. Páskar, stærsta hátíð kristninnar, var haldin með fjarfundabúnaði í læstum kirkjum. 1. maí án kröfugöngu í mesta atvinnuleysi lýðveldissögunnar. Hetjur hafsins ekki sýndur sómi á sjómannadaginn. Þjóðhátíðardagurinn fór fram án hátíðarhalda, -þríeykið var að vísu heiðrað með fálkaorðu 17. júní úr hendi forseta í framboði korter í kosningar. Og verslunarmanna helgarinnar verður einna helst minnst fyrir feimniskar hugmyndir dómálaráðherra um að senda stjörnusýslumann stones út í Eyjar. Og ekkert verður af því að tíðarandi árisins 2020 verði kvaddur við brennu.
Um það sem þá hafði verið sett á öldur ljósvakans um árið framundan 2021: Því svo ber nú við um þessar mundir að bólusetja á alla heimsbyggðin, böl mun þá allt batna og ósánir akrar vaxa, -vitið þér enn eða hvað? Svarið lá í raun fyrir skrifað í sólstöðu skýin: Naðarfráu veiruskimunartæki hefur verið til landsins strandar flogið í rússneskri Antonov, -korteri fyrir bólusetningu allrar heimsbyggðarinnar. Hinn dimmi dreki nú að regin dómi ráðskast um vindheim víðan, þar er grímunnar laga verðir tíundina telja.
Stærstu skipulögðu útisamkomur ársins 2021 hafa síðan verið við skimunarstöðvarnar, mannfjöldin í þéttskipaðri biðröðinni slær við stærstu þjóðhátíðum sögunnar í Eyjum, dag eftir dag. Einungis óskipulögð útisamkoma við gosstöðvarnar náði að komast í hálfkvist. Og hver hefði trúað því fyrir 2 árum síðan að til svona útisamkoma væri boðað um hávetur til að skima eftir kvefi hjá þríbólusettu fólki, sem léki grunur á að væri smitað drepsótt? -já vitið þér enn eða hvað?
Einnig hefur það fyrirsjáanlega framhald orðið á þessu ári, að sameiningartákn þjóðarinnar hefur farið veg allrar veraldar. Þetta gerðist m.a. þegar fótbolta landsliði karla var rústað. Eftir að fræknasti fótboltakappi sem þessi þjóð hefur alið meig á Ingólfstorg hefur Vanda verið sett í þann vanda að eiga úr vöndu að velja.
Má segja að femínísku fótboltabullurnar hafi nú gengið mun lengra en að senda sýslumann stones út í Eyjar, -svo ekki sé minnst á þjóðskáldin. Ekkert lát er á niðurbroti feðraveldisins, en um það hrun mátti fyrir löngu lesa í spánni hennar Völu. Síðmiðaldra hvítir karlmenn mega nú teljast heppnir meðan þeir fá að koma hrútaskýringunum sínum á framfæri á afvikinni bloggsíðu.
Þó útisetur á Ingólfstorgi með símanum sínum á snappinu teljist til þjóðþrifa, þá var það ekki svo til forna. Þau sem í einrúmi útisetur stunduðu á krossgötum sólársins voru ekki talin æskileg innan um annað fólk. Nú kallar tíðarandinn þá fornu iðju og að gefa innsýn í framtíðina samsæriskenningar, sem valda upplýsingaóreiðu. En snapp af torgi Ingólfs er upphafið sem #metoo. Jafnvel þó svo að ekkert af því sé fyrir framan nefið á fólki, sem sagt er vera staðreynd í sjónvarpinu og símanum, annað en gríman, -og svo kannski röðin á sýnatökustöðvunum.
Eitt ber að hafa sérstaklega í huga varðandi árið framundan. Í marsmánuði 2020 var lýst yfir alheimsstríði gegn kvefi og því stríði hefur hvergi nærri verið aflýst. Mannfallið hefur sem betur fer farið fram hjá fólki víðast hvar um heiminn, nema þá í sjónvarpinu. Árið framundan mun einkennast af stríðsbrölti í stökkbreyttri mynd veirunnar og munu efnahagslegar afleiðingar koma í ljós. En kvefið sjálft mun dala með vorinu, eins og venjulega, samfara því að áhuginn minnkar á símanum og sjónvarpinu með hækkandi sól.
Rétt er að hafa í huga að stríð eiga það til að vara árum saman áður en sést í gegnum reykinn. Þá mun koma í ljós að þetta stríð hefur aldrei snúist um heilsu, það snýst um þann draum auðróna að breyta heiminum, -uppbygginu rafræna Babelsturnsins í anda sjálfsafgreiðslukassa stórmarkaðanna og endalok þjóðríkisins, -hnattrænt vald yfir nýjum tíma, -skilyrðislaus yfirráð yfir þér, líkama þínum og tíma, lesandi góður.
Í aðdraganda áramóta og hátíðar ljóssins vil ég nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem eiga til að líta hér inn og óska þeim lesendum sem hafa haft nennu til að lesa þetta langt gleðilegra jóla árs og friðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.