Kúlur og stolnir draumar

Aðventan að hátíð ljóss og friðar er yfir dimman tíma ekki síður hér á 69°N en á landi elds og ísa.  Hérna heldur sólin sig meir að segja í felum vikum saman langt fyrir neðan sjávarmál.  Líkt og á Íslandi skreyta Norsararnir húsin sín með ljósum til að vega upp mirkrið og undirbúa jólahátíðina í desember, "ha de bra og kosa sig".  þeim finnst því sjálfsagt að farandverkamenn annarra landa séu ekki að bögga þá um að sjá þeim fyrir vinnu um helgar sem gerir það að maður veit varla hvað maður á af sér að gera.  Ekki það að aðventan sé einhver uppáhaldstími hjá mér til vinnu eða yfirleitt til eins eða neins.  Þessi tími ársins hefur um áratuga skeið verið  tengdur sárum minningum.  Foreldrar mínir yfirgáfu þetta jarðlíf bæði í desember með tíu ára millibili fyrir áratugum síðan, á aldri sem ég reikna með að ná leikandi sjálfur þó ég legði æviár beggja saman.

Mér varð hugsað til þess fyrsta föstudaginn í desember, þegar ég var að klöngrast frá einni nýbyggingunni hérna í hæðunum fyrir ofan Harstad, í rigningu sem fraus um leið og hún snerti jörðina og sá að stóra radiomastrið sem er eitt helsta kennileiti staðarins var orðið alsetið ljósum að það væri orðinn tími síðan að ég hefði verið upptekinn við vinnu í aðventunni en hefði ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera við tímann eftir "kort fredag" en á föstudögum hættum við kl. 13.  Það var þá sem mér datt í hug að réttast væri að setja inn í mynnið á tölvunni 42 kúlur (eða eru þær kannski 48 það er þetta með mynnið) fyrir ofan stjórnarráðið við 101 Hótel, fyrrum húsi alþýðunnar við Arnarhól, svona rétt á meðan ég myndi hvað þær væru margar.  En við þetta hús eru tengdar lúxus minningar tveggja skammdeiga. 

Þarna í portinu í 101 dingluðum við vinnufélagarni fótunum fram vinnupöllum líkt og nú á sundlaugarbakka í blárri skammdegisbirtu N-Noregs.   En síðustu daga hef ég verið að vinna við sundlaugarbyggingu í Evenskjer sem er nokkur hundruð íbúa bær nálægt flugvellinum í Evenes sem þjónar suðurhluta Troms fylkis, þar sem stærstu bæirnir eru Harstad og Narvik með rúmlega 40 þús íbúa.  Vinnufélagarnir eru 7 frá 5 þjóðlöndum 3 frá Noregi, 2 frá Afganistan, 1 frá Sudan, 1 frá Pólandi auk íslenska farandvíkingsins.  Við sitjum í pásum á sundlaugarbakkanum og sötrum kaffi með nestinu, stundum bryðjum við king size sörur eða jöplum á dúnmjúku vínarbrauði sem Norsararnir kaupa í tilefni aðventunnar.  Sundlaugabakkarnir eru upp á millimetir og þegar í ljós kom að 3mm munaði á braut 1 og 3 kom babb í bátinn.  Sundlaugin skal uppfylla Óumpíustaðal því eins og með alla staði í heiminum er Evenskjer miðdepillinn sem er aðeins tímaspursmál hvenær komið verður auga á sem tilvalinn stað fyrir ólumpíuleika. 

 

IMG 0110

 

Einhvernvegin finnst mér samhugurinn vera meiri hjá þessum fjölþjóðlega múraraflokki núna á aðventunni.  Ég hef samt alltaf gengist upp við það þegar upprunans er getið og það gleður mig að Norsararnir gæta þess, þegar þeir rifja það upp hverjir eru komnir af víkingum, að telja íslendinginn með.  Og alveg sérstakleg þegar bossinn Mette kynnir íslenska víkinginn, en samt kem ég því að ef vinnufélagarnir eru nálægir, að, sumir þeirra séu komnir af Gengis Khan, finnst það einhvern veginn viðkunnanlegra.  En á alltaf jafn erfitt með Pólverjann sem kemur frá landi sem nánast hefur verið traðkað yfir fram og til baka frá ómunatíð, svo rækilega að þeir sjá sér það eitt fært að fara úr einu unioninu í annað.  Helst að það sé hægt að slá honum gullhamra með því að minnast á að Norsararnir eigi það til að kalla íslenska varandverkamenn nýju "Polakana", það sé því ekki leiðum að líkast.

Undanfarin tíu ár hef ég átt því láni að fagna að vera í návistum við fjölskylduna yfir aðventuna en á árum áður var desember undirlagður í vinnutörnum fjarri heimili, stundum komið heim á Þorláksmessu og á annan í jólum haldið að heiman.  Það voru því viðbrigði þegar við fluttum í borgina við sundin blá að vera heima alla aðventuna jafnframt því að "jobba", eins og Norsararnir kalla það, sannkallaður lúxus.  Svoleiðis var það líka fyrst eftir að við fluttum í Egilsstaði og var það til að finna enn frekar fyrir því að desember hafði að geyma hátíð ljóssins.  

Á árunu milli 1990 og 2000 var ég þó heima hluta úr einni aðventu.   Það kom ekki til af góðu ég var að flýta mér heim frá Reykjavík eftir vinnutörn og átti eftir hálftíma heim á Djúpavog á stjörnubjörtu kvöldi og nýju tímameti, þegar bíllinn tók upp á því að fara kollhnís á veginum með þeim afleiðingum að ég hvarf út og niður í götu.  Mín síðasta hugsun áður en ég setti hausinn í gegnum framrúðuna var sú að þetta væri ekki búið ég væri ekki kominn heim.  Síðan tók við flugferð til Reykjavíkur aftur, og erfiðasti sólahringur sem ég hef lifað með klesst andlit, brotinn haus, slitna öxl og samfallna hryggjarliði.  Fyrstu klukkutímana var ég sjónlaus með blæðandi úr eyra en heyrði sagt "við erum að missa hann" en það var mikill misskilningur því í mínum huga var það alveg á hreinu að ég var á leiðinni heim til alls þess sem ég átti og ef þau voru að missa eitthvað þá voru það sjúkrabörurnar.  Þar að auki var ég á leiðinni til þeirra óþrjótandi verkefna sem í jólavinnutörninni urðu að lukkast til að halda sýslumanninum rólegum.  Það er svo skítið með sýslumenn að þeir ærast á aðventunni. 

En á þessari aðventu upplifði ég kraftaverk.  Á öðrum degi á Borgarspítalanum var ég farin að finna batamerki, sérstaklega eftir að sérfræðingarnir á háls, nef og eyrna komu til að kíkja á mig með gorm, svipaðan og er notaður til að beygja rafmagnsrör, tróðu honum upp i nasirnar á mér þangað til að ég fann fyrir honum lengst niður í koki, spurðu svo geturðu nú andað með nefinu, foxillur með samanbitna skolta kinkaði ég kolli.  Þeir höfðu á orði þegar þeir stormuðu frá rúminu að á þennan þyrfti að kíkja á betur það væri öruggt að hann sæi tvöfalt og að bitið væri skakkt þannig að það þyrfti að saga af tönnunum og rétta stefnuna á blóðsprengdum glirnunu.  Tveimur dögum seinna var komið til mín og mér sagt að nú ætti að flytja mig í hjólastól niður á háls, nef og eyrna.  Þangað var mér trillað og sagt að bíða.  Þar var mikið um að vera, úr litlum sofandi polla voru rifnir hálskirtlarnir, hann réttur í fangið á foreldrunum um leið og blóðugir kirtlarnir glumdu í rusladallinum.  Mér varð hugsað til frásagna Bjössa Heiðdals vinnufélaga míns af svipuðum atburði sem ég hafði ekki trúað en sá nú að var sannleikanum samkvæm.  Eins var ungur maður með skakkt nef sagt að leggjast upp á bekk og nefið skoðað varfærnislega áður en töng sem falin var aftan við bak, svipuð og notuð er við útigrill, var eldsnöggt skellt á nefið og snúið upp á þangað til small í með tilheyrandi angistarveini unga mannsins.  Sérfræðinganir skoðuðu síðan mig og sögðu sín á milli; nei hann er ennþá of bólgin. 

Það var eftir heimsóknina á háls nef og eyrna sem kraftaverkið gerðist.  Eftir þá heimsókn stóð ég upp úr hjólastólnum, fór í símann og hringdi í hana Matthildi mína til að biðja hana um að koma með skósíða svarta frakkann, ég hefði verið útskrifaður.  Hún hafði verið búin að gera sig klára til að yfirgefa börn og bú leggja upp í langferð þvert yfir landið til að heimsækja mig á spítalann.  Þegar Matthildur kom og var búin að leggja svarta frakkann yfir axlirnar á mér tilbúnum til brottfarar stóð gamall maður á ganginum við sjúkrastofuna og studdi sér við stöng sem hafði að geima næringu í æð og súrefni, hann sagði við Matthildi, "jæja svo þú ætlar bara að fara heim með víkinginn þinn, gangi ykkur vel".  Ég hef alla tíð síðan verið einstaklega ánægður þegar ég er heiðraður með víkings nafnbótinni.  En þetta var nú ástæðan fyrir því að ég var heima hluta úr aðventu árið 1991.

Undanfarnar þrjár aðvenntur hefur svo engin vinna kallað á að sinna ekki undirbúningi jólanna, en það hefur nú samt farið svona og svona allan tíman, þetta með að skrifa í jólakortin.  En núna er ég semsagt kominn út um víðan völl eina ferðina enn, ég sem ætlaði að skrifa sögur úr 101 til að drepa tímann, en þegar ég fór að rifja upp efnið þá sá ég að í það tímadráp entist mér varla ævin.  En örstutt um 101 svona í aðdraganda hátíðar ljóssins.

Þó ég vilji alls ekki viðurkenna það, þegar það hentar, að ég sé ábyrgur fyrir öllu því sem gerist í mínu lífi þá veit ég samt innst inni að svo er, í 101 Hótel var ég nálægt hringiðu drauma sem hafa litað skammdeigið dekkra en á árum áður, en þar var ég vitanlega jafnhárifalaus og allir þeir sem keyptu flatskjá fyrir jól fram til ársins 2008.  Í portinu á milli íslensku óperunnar, sem nú er gengin í sjóinn fyrir neðan Seðlabankann, og fyrrum húsi alþýðunnar við Arnarhól, hefur mig lengi grunað að kúlurnar séu eitt af því fáa sem ég hef gert af viti um dagana.  Og ætlaði því að færa atburði þeim tengdum í aðventubúning þar sem systrakærleikur kæmi við sögu, en kúlurnar eru listaverk Lilju Pálmadóttir sem Ingibjörg systir hennar veitti henni brautargengi við að koma fyrir í miðbæ Reykjavíkur árið 2002 þegar hús alþýðunnar fékk andlitsupplyftingu sem 101 Hótel. 

Þó svo þetta mikla listaverk sjáist hvergi nema frá örlitlum bletti á Lækjartorgi þá mátti sjá frá kúlunum helstu örlagavalda íslandssögunnar í seinni tíð, Davíð í stjórnaráðinu, Má aðalhagfræðing að möndla vaxtastefnuna í Seðlabankanum, inn um gluggana hjá ríkissaksóknara, héraðsdóm og hæstarétt auk Jóns Ásgeirs að kíkja á herlegheitin hjá Ingibjörgu sinni á milli þess sem hann er gunaður um að hafa samið auglýsingar í Fréttablaðið um kostaboð á steinlausum vínberjum sem ynnu á gyllinæð og geðillskuköstum. Þarna hafði Ingibjörg hátt í 50 iðnaðarmenn, þegar mest var, um eins og hálfs árs skeið m.a. við að múra kúlur.  Ég verð að segja það eins og er að þarna leið mér mun betur en þegar ég var sendur í tilraunaskini á leikvöll þegar ég var 5 ára gamall.  Það er ekki loku fyrir það skotið að mér hafi liðið jafn vel og góða dátanum Sveik áður en honum var hent út af geðveikraspítalanum.  Listaverkið hennar Lilju heitir Klak en mér hefur alltaf fundist það eiga að heita systrakærleikur eftir að hafa orðið vitni að því þegar þær systur fóru yfir það hvernig kúlurnar skildi raðað á 15 metra háan vegg óperunnar sem nú er komin í sökkvandi skuldir út í sjó á Hörpunni fyrir neðan Seðlabankann.  En frekari frásagnir af gjaldþrota góðverkum í 101 verða að bíða betri tíma. 

Ég hef komið inn á, í nánast í hvert sinn sem ég skrifa um raunir mínar hérna á 69°N, léttinn við að vera laus við stefnuvottana af útidyrasnerlinum og söknuðinn vegna þess að geta ekki lengur tekið við þá stutt spjall um daginn og veginn.  Verra þykir mér að nú eru þeir farnir að fara á fjörurnar við hana Matthildi mína um hvað hafi af mér orðið því sýslumaðurinn vill eins og á árum áður fá sitt í galtóman ríkiskassann á aðventunni, auk þess sem hann hefur tekið að sér smá viðvik fyrir hina og þessa kunningja sína.  Ég hef sagt Matthildi minni að segja bara já og amen án þess að játa neitt, "má ég þá nokkuð búast við því að verða borin út spurði hún", neeeei ætli það segi ég. 

Það er með þessa undarlegu þrjósku mína að vilja ekki viðurkenna að tveir plús tveir þurfi að vera fjórir frekar en mér sýnist sem ég þyrfti að ræða persónulega við um stefnuvottana.  Þegar boðið er upp á að 2+2 séu 110% verðtryggð skuld eru fleiri en ég sem fara frjálslega með útkomuna úr 2+2 og hefðu fallið á barnaskólaprófi.  Það að skrifa upp á 110% verðtryggt samkomulag um skuld á því sem maður eitt sinn átti, jafngildir í mínum huga því að hjálpa innbrotsþjófi að bera allar eigur út og láta hann hafa undirritaðan óútfylltan tékka í kveðjuskini vegna þess að hann bjóst við að hafa meira upp úr krafsinu.  Svo er það alveg magnað að fólk verður að sækja um það sjálft að fá að skulda 110%  til að losna við stefnuvottana af snerlinum um stund.  Væri maður svo talinn með "fulle femm" ef maður sæktist eftir því að skulda 110% í engu upp úr þurru vegna þess að 2+2 eiga að vera fjórir en ekki bara það sem manni sýnist.

Þegar mér verður hugsað til alls þessa er það aðeins magnvana bræðin sem kemur í veg fyrir að helvítis tárin trítli niður kinnarnar og að mér finnist allt mitt streð hafa verið eins og að míga í sand. Enda skreyta bankarnir og landsliðið í kúlu efnahagsreikninginn með stolnum draumum sem okkur er ætlað að draga í land.  En sárast er þó að hugsa til þeirra sem verða að skreyta sína drauma með útburðarbeiðnum á meðan skreytt er með jólakúlum sem afskrifaðar hafa verið af þeim sem sigldu öllu í strand.

En nú styttist óðum í að ég haldi á suðlægar slóðir til að halda upp á hátíð ljóss og friðar með litlu fjölskyldunni okkar Matthildar minnar og gleymi öllu bölvaða svartnættisruglinu.  Þó Ísland verði seint talin sólskinsparadís í lok desember þá er það orðið svo í hyllingum hugans eftir næstum hundarað daga úhald í skúmaskotum skammdegisins hérna norður í ,,,,,, þar sem sólin ekki skín og er undir sjávarmáli í 43 daga og sést ekki í 60.   Ég reikna fastlega með því að sjá sólina aftur heima á Íslandi um jólin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll vertu, hugljúft eins og áður hjá þér, góða ferð heim.

Ásdís Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 21:51

2 identicon

Spítalasagan þín Magnús er algerlega mögnuð og sýnir vel hvað Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir.

Eg hef líka sterka tilfinningu fyrir því að Matthildur kona þín sé magnaður heilari og tengist huldufólki á einhvern hátt.

Eg vil ekki hugsa það til enda hvernig farið hefði ef þú hefðir ekki forðað þér.Það er bara slekfilegt.

Þegar eg var að lesa pistilinn þinn áðan þá mundi eg eftir að fyrir nokkrum árum vann eg með konu sem hafði menntað sig í lögregluskólanum og unnið sem lögregluþjónn í nokkur ár við almenn störf.

Eg spurði hana hvað hefði komið henni mest á óvart í starfinu þegar hún var að byrja.

Hún sagði að sér hefði komið mest á óvart hvað innbrotsþjófar urðu spólvitlausir í illsku þegar komið var að þeim og þeir staðnir að verki og jusu óbótaskömmum yfir lögguna og gott ef ekki hjóluðu í pólísinn fyrir að trufla si og eyðileggja all plottið.

þjófar og sjálftökulið er allstaðar eins.

skítsama um réttlæti.

Sólrún (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 21:53

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir dömur mínar, stundum á ég bágt.

Magnús Sigurðsson, 12.12.2011 kl. 22:13

4 identicon

Þú ert flottur penni. Knús á ykkur Matthildi.

Þorbjörg (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 22:26

5 identicon

Fínn pistill eins og alltaf.  Lífið er ólgusjór.   Það er tilgangur með öllu.  

Matthildur er örugglega búin að baka eitthvað gott handa þér,  það verður nú gott fyrir þig að komast til þeirra og njóta austurlandsins!   Þetta fer nú allt að koma,  hafðu það gott Magnús  og góða ferð heim í heiðardalinn:)   Kveðja frá Húsó

Jóhanna Másdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 22:53

6 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Þú ert snillingur Maggi, snillingur að segja þannig frá lífi þínu, bæði nær og fjærumhverfi að maður finnur alla flóruna við lesturinn án þess að of mörg orð séu notuð.

Segi enn og aftur, sakna skrifa þinna um íslandsástandið því þar eina og annars staðar segir þú svo margt sem kveikir á og í mér kjark og baráttuanda og það veit Guð að þess gerist nú þörf í skammdeginu ef einhverntímann.

Góða ferð heim, ef þú ert eitthvað á ferðinni hér fyrir sunnan þá þætti mér gaman að sjá framan í þig.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 12.12.2011 kl. 23:51

7 identicon

Maggi minn þetta er nú fyrsta bloggið þitt sem ég les, já auðvita skammast maður sín núna og sérstaklega að hafa ekkið lesið blogg frá Egilsstaðabúa, (Hef sagt öllum að ég sé frá Eg. þótt ég hafni nú bara búið þar í 10 ár) Mér fannst þetta blog eitt af því bestu sem ég hef lesið, kannske finnst mér það því að við þekktumst vel hérna á árum áður eins og allir krakkar og unglingar á Eg. En ég held að hvernig þú segir frá þá er maður automatic dreginn inn í hvað er að ske og getur auðveldlega séð fyrir sér hvað þú ert að tala um. Þakka þér fyrir gott Blogg Kveðja frá Ameríku Sólrún Björk Björgvinsdóttir

Sólrún Hunt (IP-tala skráð) 13.12.2011 kl. 01:42

8 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Langar að láta þig vita af aðgerðum okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna - við höldum áfram að reyna að verja heimili landsins fyrir þessum ósköpum;

Gefum heimilunum grið fyrir aðförum fjármálastofnana

birtist á mbl.is í morgun;

Ráðherra gefi heimilunum grið

Góða ferð út í sólina og gangi þér vel að losna við áhyggjurnar þó ekki sé nema tímabundið 

Þess óskar formaður Hagsmunasamtaka heimilanna

Andrea J. Ólafsdóttir, 13.12.2011 kl. 12:08

9 identicon

Sæll Maggi minn. Mikið gleður það mig að þú skulir vera í faðmi fjölskyldunnar um jólin. Það er hlutur sem ekki öllum hlotnast.

En án þess að fara nánar inn á efnið bið ég þig að muna að stefnuvottarnir eru bara að vinna sína vinnu og eiga líka fjölskyldur.

Ólafía Herborg (IP-tala skráð) 13.12.2011 kl. 13:22

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ásdís;  takk kærlega það eru svona komment sem fá mann til að skrifa. 

Sólrún;  ég veit það með vissu að það eina sem hægt var að gera að viti var að útskrifa sig sjálfur og þannig er það yfirleitt með flest.  Ég finn mig svolítið í þessu með innbrotsþjófunum, þegar ég verð reiðastur þá er ég veikastur fyrir, þannig var þetta á sjúkrahúsinu um árið ekki beint samvinnuþýður, því það var ekkert að mér allir hinir voru að gera of mikið úr málinu.

Þorbjörg;  takk þú mátt bóka að ég knúsa hana Matthildi frá þér.

Jóhanna; ætli hún verði ekki bara búin að baka kókostertu þegar ég kem, hjónabandssælu hefur hún aldrei þurft að baka því hún hefur alltaf verið á borðum.

Villi;  það er þetta með íslenska ástandið, það nær alla leið hingað til Noregs.  Það eru hundruð ef ekki þúsundir íslendinga í nákvæmlega sömu sporum og ég, baksandi í útlegð að heiman við að halda fölskyldunni á floti á meðan draumarnir eru lýstir gjaldþrota á Íslandi.  Þegar ég kom heim síðast í lok ágúst þá brá mér hvað margir höfðu sótt um 110% leiðina.  Sú verðtryggða leið byggir á því að fasteignaverð hækki og þannig verði hægt að komast frá dæminu. 

En hver á að kaupa?  Hæfileika fólk fer, lætur ekki fara svona með sig, þá er ég ekki að tala um gamla og heimkæra álka eins og mig.  Hér í Harstad eru hátt í 20 íslendingar, flest ungt dugnaðar fólk.

Hérna er blogg um íslenska ástandið  og upplifun mína þegar ég kom heim síðast ég var meir að segja nokkuð bjartsýnn þá en þeim tillögum sem ég hef hreift við við bankann hefur verið hafnað og mér síðast bent á að prófa að sækja um 110%.  Glætan.

Það breytist ekkert fyrr en það ágæta fólk sem vinna fyrir þá sem stela, hættir að skýla sér á bak við það að vera í vinnunni og stendur með nágrönnum sínum.

Sólrún;  takk fyrir uppörvandi orð það er gaman að fá það svona hreint og beint að fólk nær meiningunni.  Já ég man vel eftir ykkur í gamla daga á Egilsstöðum, gangi þér allt í haginn í Ameríkunni.

Andrea;  þakka ykkur fyrir ykkar óþrjótandi elju, ef ekki væri fyrir hana væri trúin á réttlætið löngu farin.  Réttlæti sem verður að sigra að lokum.  Ef ekki, þá komast íslendingar ekki frá þessu mesta ráni íslandsögunnar sem sem þjóð.

Olla;  það er það óviðjafnalegt að geta verið í faðmi fjöskyldunnar, þó það sé bara yfir jólin, að ég myndi ekki einu sinni láta mér detta í hug að hlutgera það. 

Ég vona að ég hafi ekki látið óviðurkvæmileg orð falla í garð stefnuvottanna.  Eins og við bæði vitum þá er ekki tekið út með sældinni að vera atvinnulaus, en samt verð ég að segja það alveg eins og er mér væri nokkuð sama þó stefnuvottar yrðu verkefnalausir.

Magnús Sigurðsson, 13.12.2011 kl. 17:10

11 identicon

Stefnuvottar eru eitt

og 110% þjófar eru annað

það vitum við víst öll.

Magnús nú er orðið svo sutt heim.

Og löngu bíð að byggja ljósbogabrú

fyrir þig alla leið heim á Djúpavog

Áttu ekki súkkulaðidagatal :)

Bestu óskir um gleðileg jól..

Sólrún (IP-tala skráð) 13.12.2011 kl. 22:22

12 identicon

http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV0F420D9B-C6D1-4C03-BC84-800A56DAF5A0

Sólrún (IP-tala skráð) 13.12.2011 kl. 23:19

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa sendingu Sólrún, það var fínt í morgunnsárið að fá féttir af ekta íslending.

Magnús Sigurðsson, 14.12.2011 kl. 04:58

14 identicon

sendi hér linkinn aftur ef hann

skyldi hafa klikkað áðan

Þetta á að vara mynd um konu sem býr á Læk í Ásahreppi

viltu láta mig vita ef það er kemuer ekki rétt

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV0F420D9B-C6D1-4C03-BC84-800A56DAF5A0

Sólrún (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 13:27

15 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Jú, jú Sólrún þetta lukkaðist í bæði skiptin og ég fer ekki ofan af því að hún Guðmunda er ekta íslendingur.  Svona erum við flest inn við beinið baksandi fram úr öllu og gerum okkur grein fyrir að íslenska verðtryggingin er þjófnaður en höldum áfram þó aldrei sjái til lands.  Þó sumum finnist þetta vera gamla Ísland þá er ég ekki viss um að það verði svo mikið lengur sem fólki á eftir að finnast það.

Mig langaði alveg svakalega í lambasteikina hjá henni.  Lambahryggur með brúnuðum rauðum íslenskum er jólamaturinn á mínu heimilu og svo náttúrulega hangikjöt, allt heimafalsað eins og þeir segja hjá ESB.  Ég fæ mér stundum gönguferð á sunnudagsmorgnum og finn stundum steikarlykt af lambakjöti og brúnuðum kartöflum, þá ætla ég alveg að ærast úr heimþrá.

En tókstu eftir því hvað Tinna var upp með sér að eiga svona vinkonu? 

Magnús Sigurðsson, 14.12.2011 kl. 15:13

16 identicon

Eg er sv ánægð að einhver hugsar það sama og geg hef alltaf í undirmeðvitundinni að það íslensaka mun halada velli.Rasismi heitir það víst núna á Evrópusambandsmáli En eins og hún sagði hún Guðmunda .FRAMSÓKNARMENN HAFA JAFN MIKINN RÉTT TIL AÐ VERA FRAMSÓKNARMENN EINS OG TIL AÐ VERA ÞAÐ EKKI.

DÁSAMLEG FEGURÐARDÍS YST SEM INNST :)

Tnna kann sko gott að meta og er ekki í neinum vafa.

Eg held reyndar að við sjáum þetta sama í öðrum löndum HVAR SEM sem fólk fénaður og jörðin sjálf vinna saman í takt.

Eftir því sem farið er lengra frá því eykst óheilbrigði fólks ekki síst barna

Geðsjúkdómar er stærsta heilbrigðis vandamál vestræna heimsins í dag.

Og það má ekki segja það vegna þess að orsökin er vituð en er ekki góð fyrir hagvöxtinn..

Sólrún (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 17:00

17 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sem betur fer er svona "kjölfestu" fólk eins og Guðmunda allt í kring um Ísland.  Það er það sem gerir okkur ennþá að þjóð.  Hún hefur aldrei slitið ræturnar skydan við málleysingjana sér til þess. 

Það eru augnablik eins og í myndinni eftir sögunni hans Indriða G Þorstenssonar heitins, þegar sveitin var yfirgefin og hesturinn skotinn ofan í gröfina sem sýna það svo vel þegar ræturnar slitna. 

Sveitalúði í krummaskuði eða rasisti allt er betra en vera rótlaus.  Myndin Roothless People er svo annar handleggur.

Magnús Sigurðsson, 14.12.2011 kl. 19:21

18 identicon

Eg er búina ða horfa þrisvar.Alltaf jafn spennt :)

Sólrún :) (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband