Frímúrarinn

Heilinn 

Það hefur blundað í mér í áratugi að skrifa hugnæma ritsmíð um steypu. Fyrir margt löngu bar ég þessi hugðarefni undir góðan vin sem ráðlagði mér eindregið frá þesslags skrifum. Hann sagði að ef svo vildi til að einhver nennti að lesa þá steypu, myndi sá hinn sami sennilega komast að þeirri niðurstöðu að höfundurinn væri kolruglaður.

Það gerðist núna í sumar að á mínum vinnustað, þar sem sement er haft um hönd, að verkfræðingur kom hvað eftir annað til að spjalla. Mér datt fyrst í hug að hann væri að forðast inniveruna með því að gera sér erindi út í sólina til að ræða steypu. Svo kom að því einn daginn að hann kom himinlifandi og tilkynnti að hann væri kominn í sumarfrí sem hann ætlaði að nota við að gera upp gamalt hús sem hann hafði fest kaup á í nálægri sveit sér til frístundagamans. Mér datt í hug án þess að hafa orð á því, til að skemma ekki stemmingu augnabliksins, að þessi verkfræðingur hefði betur lært múrverk, þá væri hann alltaf uppnuminn í fríi. 

Það finnst kannski ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá. Það virðist verða æ algengara að samfélagsgerðin slíti alfarið á milli staðar og stundar eða kannski réttara sagt frí- og vinnutíma. Þetta hefur orðið til þess að ný fíkn hefur fæðst sem má með réttu kalla fjarverufíkn.

Einn kollegi minn spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari.  Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði til að losna við steypuvinnu en allt kæmi fyrir ekki í múrverkið væri hann kominn aftur jafnharðan.  "Já veistu ekki út af hverju það er" sagði ég og svaraði honum svo að bragði; " það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum".

Aftur hugsaði ég með steypunni nú í sumar þegar ég vann um tíma með norskum kolleiga sem hefur söðlað um og stundar nú verkfræðinám. Hann ljómaði dag hvern í sumarsólinni, starfsgleðin geislaði af honum við það að vera kominn aftur í gamla starfið í sumarfríinu sínu, límdur við stað og stund. Þegar það kom til tals hvers vegna hann legði það á sig að sitja í háskóla árum saman til að öðlast verkfræði gráðu þá tjáði hann mér með áhyggjuglampa í fjarrænum augunum að hann ætti sér draum. Þessi draumur snérist í grófum dráttum um að komast til Brasilíu og byggja sér sumarhús við hafið.

Til þess að gera sér léttara fyrri ætlaði hann að komast í vellaunaða verkfræðingsstöðu einhversstaðar í dreifðum byggðum N Noregs þar sem þar að auki væri skattfríðindi í boði fyrir það eitt að vilja búa þar kalda vetur í skammdegismyrkrinu. Safna þar góðum sjóði meðfram afborgunum af námslánunum og komast svo sem hálaunaður pensjónisti með sjóðinn alla leið til Brasilíu ásamt reglulegum eftirlaunagreiðslum og byggja svo þar drauma húsið.

Í fljótfærni varð mér á að spyrja, "þér hefur ekki dottið í hug að fara strax til Brasilíu". Kolleginn svarað fálega; "þú segir nokkuð". Þetta hefði ég betur látið ósagt, því þó svo ég hafi alltaf gengið með steypu í hausnum þá er ekki víst að aðrir geri það.

 

Fyrsta minningin voru múrsteinar foreldrana sem byrjuðu á því að byggja ca. 40 m2 hús sem kallað var Hábær, en varð síðan bílskúrinn við Bjarkarhlíð 5 á Egilsstöðum. Steyptu vikursteinarnir sem gægjast upp úr snjónum hafa orðið að ævintýri lífs míns, ekki einu sinni Zorro sverðið og hvelhettubyssan sem  var fjögurra ára afmælisgjöf standa upp úr, enda urðu hvellhetturnar fljótlega búnar og sverðið brotið í pússningasandhaugnum undir snjóskaflinum.

Þrjú systkini fyrir framan Hábæ á steyptri gólfplötu, ásamt félaga af hæðinni f.v. Áskell, Magnús, félaginn Héðinn og Dagbjört, síðar bættist Björg við í skúrinn en Sindri ekki fyrr en húsið að Bjarkarhlíð 5 var komið í gagnið. Á þessari mynd má sjá að ég hef ég verið búin að taka upp þann sið sem hélst fram eftir aldri, þ.e.a. mæta til múrverks í spariskónum. Nú hafa reglugerðarpésarnir komið því þannig fyrir að öryggisskór, gul vesti og plasthjálmur kveða á um tilverurétt á byggingastað.  

IMG NEW 

 Stoltir hæðarstrákar við fyrsta og eina þriggja hæða húsið á Hæðinni, f.v. Siggi Halldórs sem sennilega hélt að hann væri ekki á myndinni, Magnús, Sissi Halldórs, Hjörtur Jóa og sennilega er Dóri Halldórs á hlaupum til að komast inn á myndina sem Jóhann Stefánsson tók.

Múrsteinarnir okkar Matthildar. 

 

 Mynstruð og lituð steinsteypa fór vel við múrsteinana okkar Matthildar.

 

Arin fyrir eldinn telst til múrverks, sem og mynstruð steypa í gólf. 

 Laugarvellir

Yfir 10 ára tímabil átti mynstruð steypa hug minn allan, þar má líkja eftir náttúrunnar steinum með litum og formum. 

St Louis 

Á árunum 1993-1998 var þrisvar farið til landsins steypta USA til móts við 200 kolleiga á workshop. Þar voru sett upp svæði og menn sýndu listir sínar. Eitt skiptið duttu út fyrirfram ákveðnir sýnendur og íslensku víkingarnir voru óvænt manaðir til að hlaupa í skarðið. Þá kom sér vel að hafa rúnina Ægishjálm á heilanum til að móta og lita í steypuna. Því miður á ég ekki mynd af íslenska Ægishjálminum okkar í Ameríku, eða kannski sem betur fer þegar þetta tígulsteinaverk innfæddra er haft til hliðsjónar. 

Flot og stucco prufa I 

Það er líka hægt að lita sementsbundin flotefni sem notuð eru við afréttingu steyptra gólfa.

 Pizza 67

Það má hreinlega gagna af göflunum í að lita og reykspóla flotgólf, þetta tilraunagólf gerðum við Mallands félagarnir fyrir Pizza 67 á Egilsstöðum 1998. 

Hafnarstræti stucco 

Eins er hægt að lita múrblöndu á veggi, þá er það kallað "stucco" upp á Ítalskan máta. Þessa veggi gerði ég 2003 fyrir skemmtistað sem kallaðist Kapital og var í Hafnarstræti. 

Aðalstræti Sjávarkjallarinn 1993 

Grjót hefur verið fúgað frá fornu fari, þessir steinar voru fúgaðir fyrir Minjavernd þegar Geysishúsið á horni Aðalstrætis og Vesturgötu gekk í endurnýjun lífdaga 2003. 

Breiðdalsvík epoxy 1992 

Epoxy er einskonar plastmúrverk sem mikið er notað í fiskverkun og annarri matvælavinnslu. Með rekstri fyrirtækisins Mallands flæktumst við félagarnir frá Djúpavogi um allt land með okkar epoxy og jafnvel víðar um veröldina. 

Sjávarútvegs sýning 1993 

Epoxy árin komust næst því að geta kallast þægileg innivinna sem var þó leiðinleg til lengdar, ekki síst vegna þess að þá komst maður næst því að neyðast til að vera í nýpússuðum spariskónum vegna svokallaðrar markaðsettningar. Sjávarútvegssýningar urðu alls þrjár sem staðnar voru í sparifötum. 

 

Listamenn eiga það til að steypa. Þessar kúlur múruðum við félagarnir frá Egilsstöðum fyrir listakonuna Lilju Pálmadóttir sumarið 2002 í portinu á milli Gamlabíós og Hótels 101 við Ingólfsstræti. Ingibjörg systir hennar lét vinna þetta verk þegar Alþýðuhúsið við Hverfisgötu gekk í endurnýjun lífdaga, þar sem hún naut aðstoðar Hrólfs Gunnlaugssonar múrarameistara varðandi allt múrverk úti sem inni.  

IMG 0302 

Þennan svan gekk ég fram á í Skuggahverfinu s.l. sumar, mundi eftir að hafa klesst honum á vegg fyrir 10 árum. Ekki man ég nafnið á listamanninum sem átti hugmyndina, en þetta var á meðan ég vann undir verndarvæng Hrólfs sem var nokkhverskonar spari múrari hjá latteliðinu í 101. 

IMG 2024 

Þennan heiðursmann hjálpaði ég listakonunni Steinunni Þórarinsdóttir að jarðsetja á horni Vesturgötu og Aðalstrætis fyrir Menningarnótt 2003. Jón Ársæll maður Steinunnar birtist með kappann á vörubílspalli á föstudagsmorgni, brá kaðli um hálsinn á honum og hann var hífður á sinn stall. Þetta þóttu óvirðulegar trakteringar en ef ég man rétt þá heitir verkið "...að moldu skaltu aftur verða". Eins og sjá má er kappinn alveg að bugast. Snemma á mánudeginum eftir menningarnótt mátti sjá verkið fullkomnað. Gamall slitin Laisy Boy stóll hafði verið settur aftan við kappann, sem lýsti vel einskærri hugulsemi. 

IMG 0147 

Kannski voru það steinarnir í orminum hans Hrings Jóhannessonar myndlistamanns á kaupfélagsveggnum á Egilsstöðum sem kveikti áhugann við að lita stein í steypu. En fyrir 40 árum síðan sátum við þrír pollarnir sunnan undir KHB bröggunum og hjuggum til steina með múrhömrum fyrir Hring í þessa miklu mynd . 

Flatarsel jasec 

Í "gróðærinu" 2006 og 2007 byggðum við kollegarnir á Egilsstöðum nokkur hreinræktuð múrhús og nutum til þeirra verka starfskrafta pólverja. Það má með sanni segja að eftir þá gullöld hafi margur íslendingurinn þurft að leggjast í víking og feta í fótspor pólskra kappa. 

IMG 3232 

Það góða við múrverk er að steina má finna um víða veröld, þessa steina dunduðum við Afríkuhöfðinginn Juma okkur við að rífa niður og endurhlaða í samísku fjósi sem er staðsett í Evenesmarka ,N Noregi.  

IMG 1299 

Sól, skúta og viti, Norsk sprunguviðgerð með flísum í hinu eilífa sumarfríi á Harstad Camping.

Stokksnes radsjárstöð 

Hún snýst nú samt, Stokksnes 1989. 

 Grátmúrinn 1998

Við leifar musteris Salómons, sjálfan grátmúrinn, með Guðmundi Björnssyni múrarameistara. Árin 1997-1998 var tekið þátt í útrásarverkefni í Ísrael við að leggja epoxy gólf fyrir Gyðinga. Í landinu helga náði ég meir að segja að halda dagbók af og til, svo sérstök var veran þar. Í þau skipti sem ég hef reynt að koma þessum dagbókarbrotum í tölvutækt form hefur tölvan hrunið svo ég hef tekið því sem fyrirboða um að oft megi satt kyrrt liggja.

Arizona 1998 

Mallands félagar, Gísli Sigurðarson, Magnús og Karl Elvarsson, á Indíánaslóðum í Arizona. 

Grand Canion 1998 

 Þetta er nú að verða meiri steypan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er dásemd

Ásdís (IP-tala skráð) 26.10.2013 kl. 03:12

2 identicon

þetta finnst mer vera flott steypa

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 26.10.2013 kl. 03:48

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk, takk. Ég má til með að láta þessa youtube klippu fylgja sem pússar þessa steypu.

http://www.youtube.com/watch?v=wU0PYcCsL6o

Magnús Sigurðsson, 26.10.2013 kl. 07:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband