Gæfa eða gjörvileiki?

RedDragon 

Það þarf menn sem hafa kjark til þess að storka forlögunum, að koma fram í nafni Fáfnis. Nafnið Fáfnir má finna í norrænni goðafræði um drekana þrjá, nafn Fáfnis er tengt græðginni. Völsunga-saga greinir frá örlögum Fáfnis og Sigurðar Fáfnisbana þar fara ekki alltaf saman gæfa og gjörvileiki.

Eins og fram kemur í fréttinni verður fyrsta verkefni skipsins við Svalbarða, sem sumir vilja meina að írski munkurinn St Brendan hafi gefið nafnið Ægisey þegar hann kannaði norðurhöf á árunum milli 5-600 e.k.

Völsunga-saga segir m.a. frá þvi þegar Reginn egnir Sigurð "síðasta Völsunginn" Sigmundsson til að vega Fáfnir bróðir sinn til fjár.  En Fáfnir hafði sér það til saka unnið að hafa myrt Hreiðmar föður þeirra Regins til að komast yfir gull sem hálfjötuninn Loki hafði stolið af dvergnum Andvara til að bæta Hreiðmari sonarmissi þegar Loki drap son hans Otur (bróðir þeirra Regins og Fáfnis) af misgáningi þegar Loki var á ferð með Óðni æðstum goða við Andvarafoss.

Reginn setti saman sverðið Gram fyrir Sigurð,  nokkurskonar ættargrip sem hafði hrokkið í tvo hluta í lokaorrustu Völsunga.  Síðan hvetur hann Sigurð til að grafa sér holu við vatnsból Fáfnis og stinga hann með sverðinu þegar hann skríður yfir holuna á leið sinni til vatnsbólsins.  Allt gengur þetta eftir, en á eftir drepur Sigurður einnig Reginn með sverðinu Gram þar sem þeir sitja að sumbli við að drekka blóð Fáfnis, voru þeir ekki einhuga um hvor þeirra ætti að éta hjartað.  Þetta gerir hann til að þurfa ekki að deila með honum fjársjóð Fáfnis.  Á samtali Sigurðar og Fáfnis á banabeði Fáfnis kemur m.a.fram;

Eftir að Fáfnir hafði fengið banasár spurði hann m.a: "Hver eggjaði þig þessa verks eða hví léstu að eggjast? Hafðir þú eigi frétt það hversu allt fólk er hrætt við mig og við minn ægishjálm? Hinn fráneygi sveinn, þú áttir föður snarpan."

Sigurður svarar: "Til þessa hvatti mig hinn harði hugur, og stoðaði til að gert yrði þessi hin sterka hönd og þetta hið snarpa sverð er nú kenndir þú. Og fár er gamall harður ef hann er í bernsku blautur."-----

Einnig segir Fáfnir: "Heiftyrði tekur þú hvetvetna því er eg mæli. En gull þetta mun þér að bana verða, er eg hefi átt."

Sigurður svarar: "Hver vill fé hafa allt til hins eina dags, en eitt sinn skal hver deyja." -------

Enn mælti Fáfnir: "Eg bar ægishjálm yfir öllu fólki síðan eg lá á arfi míns bróður. Og svo fnýsti eg eitri alla vega frá mér í brott að engi þorði að koma í nánd mér og engi vopn hræddist eg og aldrei fann eg svo margan mann fyrir mér að eg þættist eigi miklu sterkari, en allir voru hræddir við mig."

Sigurður mælti: "Sá ægishjálmur, er þú sagðir frá, gefur fáum sigur því að hver sá er með mörgum kemur má það finna eitthvert sinn að engi er einna hvatastur."

Fáfnir svarar: "Það ræð eg þér að þú takir hest þinn og ríðir á brott sem skjótast, því að það hendir oft að sá er banasár fær, hefnir sín sjálfur." 

Eftir að Sigurður hafði afhöfðað Reginn bróðir Fáfnis;  "etur hann suman hlut hjartans ormsins en sumt hirðir hann. Hleypur síðan á hest sinn og reið eftir slóð Fáfnis og til hans herbergis og fann að það var opið, og af járni hurðirnar allar og þar með allur dyraumbúningurinn og af járni allir stokkar í húsinu, og grafið í jörð niður. Sigurður fann þar stórmikið gull og sverðið Hrotta, og þar tók hann ægishjálm og gullbrynjuna og marga dýrgripi. Hann fann þar svo mikið gull að honum þótti von að eigi mundi meira bera tveir hestar eða þrír. Það gull tekur hann allt og ber í tvær kistur miklar, tekur nú í tauma hestinum Grana. Hesturinn vill nú eigi ganga og ekki tjár að keyra. Sigurður finnur nú hvað hesturinn vill. Hleypur hann á bak og lýstur hann sporum og rennur sjá hestur sem laus væri."

Um örlög Sigurðar Fáfnisbana má svo lesa í Völsunga-sögu en með honum dó út ætt Völsunga. 


mbl.is Dýrasta skip Íslands sjósett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband