Steypa

heilinn

Það er ljótt að ljúga að blessuðum börnunum, en þess hafa sést merki í þeim tilgangi að fá þau til að afla sér starfsmenntunar í byggingaiðnaði. Stundum er talað um tæknimenntun til að fegra sements gráan veruleikann og því hefur jafnvel verið haldið fram af hámenntuðu latínu liði að störfum iðnaðarmanna fylgi ekki óhreinindi, hávaði og kuldi, í þeim tilgangi að fegra ímynd bóklegs iðnnáms.

Enn sannleikurinn er sá að byggingavinna er fyrir hetjur, sem kalla ekki allt ömmu sína, þ.m.t. óhreinindi, hávaða og kulda. Vilji ungt fólk aftur á móti halda sér í góðu formi og reisa minnisvarða sem standa um ókomin ár, þá er byggingavinna betri en bókhald. En hetjur verða sjaldnast langlífar, þó svo að lengi sé hægt að jamla áfram í starfi sem krefst álíka líkamsburða og t.d. bókhald. Því mættu launin vera betri þar sem hetjunnar er þörf.

Það finnst kannski ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá. Og virðist æ algengara að samfélagsgerðin slíti alfarið á milli staðar og stundar, eða kannski réttara sagt ánægju- og vinnustunda. Þetta hefur orðið til þess að ný fíkn hefur fæðst sem má með réttu kalla fjarverufíkn, -í snjallsímanum sínum með svokallaðri fjarvinnu án mætingaskildu.

Um þessar mundir eru þau orðin 45 árin síðan ég byrjaði steypunni, Þó ekki sé samt svo að ég hafi ekki verið viðloðandi hana lengur, enda uppalinn á byggingarstað. Þegar foreldrar mínir byggðu sér hús þá var ca 40m2 skúr hlaðinn fyrst úr Mývatns-vikurholsteini. Þar var mamma með okkur systkinin á meðan pabbi vann í burtu og safnaði fyrir húsi, milli þess sem hann kom heim til að slá upp og steypa í tommu sex.

Fyrstu minningar af steypu voru samt þegar múrari, sem pabbi þekkti, kom við á heimleið og múraði skúrinn að utan á 2 dögum. Ég var rétt að verða 4 ára þá og var alveg hugfanginn og límdur við hann til að læra handtökin. Þegar fór að dimma seint um kvöldið bað hann mig að fari inn og ná í ljósahundinn og var ég snöggur til, hann hafði þá líka haft með sér hund án þess að ég hefði tekið eftir.

Því var það svo þegar pabbi byggði húsið úr tommu sex og steypu þá kunni ég þá þegar að múra og stakk undan sementspoka 7 ára gamall. Safnaði síðan félögunum saman til múrverks. Pabbi koma að þar sem við vorum bak við hús í óða önn að draga upp á vegg. Hann sló á fingurna á mér, sagði að þetta væri bara fúsk sem kæmi í veg fyrir að eitthvað festist á veggnum þegar múrarar kæmu til að múra húsið að utan.

Ég snerti ekki á sementi í fjölda ára á eftir. Lét mér nægja frá 12 ára aldri að naglhreinsa og skafa spýtur hjá Trésmiðju Kaupfélagins á sumrin, á milli þess sem ég var til ama í skólanum. Ég var alltaf hálf týndur í einhverjum vitleysisgangi þangað til veturinn 1978 að ég var beðin óvænt um að vera tímabundið handlangari hjá múrurum. Eftir það var ekki aftur snúið og ég hef ljómað í vinnunni óður og uppvægur svo að segja hvern einasta dag síðan.

Þó svo mikil áhersla hafi verið lögð á að koma vitinu fyrir mig í uppeldinu, til að forða mér frá steypu, þá hefur hún nú verið mín kjölfesta og sálarheill í 45 ár. Þó svo að í æsku hafi verið reynt að telja mér trú um að ég hefði ekki skrokk til erfiðisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ, þá hefur steypan verið mitt lifibrauð.

Alla mína barnaskólagöngu fannst mér margt það sem þar var á borð borðið vera á skjön við meðfædda skinsemina, en lét mig samt hafa það því þeir sem bæru spekina á borð hlytu að vita betur hvað mér væri fyrir bestu en ég sjálfur. En á endanum var það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bókhaldinu.

Einn kollegi minn spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari. Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði til að losna við erfiðisvinnu en allt kæmi fyrir ekki í steypuna væri hann kominn jafnharðan aftur; -Já veistu ekki út af hverju þetta er, -sagði ég, og svaraði honum svo að bragði; -það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum.

 Mjólkurstöð steypa

Úr bókinni 100 ára saga Kaupfélags Héraðsbúa. Tomma sex og steypa, við byggingu mjólkurstöðvar KHB sennilega 1975, en sjaldan hefur annað eins samsafn ungra drengja tekið þátt í að byggja stórhýsi og þá. Ég var lengi að finna mig á myndinni, enda alveg týndur á þessum árum, en sá loks að ég er akkúrat á myndinni miðri að bíða eftir að komast að steypubílnum með hjólbörur

 

Múrverk KBF 1985 MS og Kári Óla mynd Dúna

Þeir ausa steypunni sem mega það, ákast á vegg 1985. Múrverk var unnið samkvæmt uppmælingu fram undir 1990, laun borguð eftir máli. Því skipti skipulagning og dugnaður öllu máli ef átti að hafa gott kaup og gera ekki stór mistök, því mistök uppskar maður sjálfur í launum

 

IMG_0065

Steypa er skemmtileg útivinna, gólf hafa verið mín sérgrein eftir því sem á ævina hefur liðið. Steypa er gjörningur sem grjót harðnar, tekur ekki mið af klukkunni og er ekki hægt að vinna í fjarvinnu

 

Berufjarðarbrú steypa

Gamall og lúinn, feykinn og fúinn steypukall með víkingum

 

Austri SR steypa

Það er ekki oft sem gefist hefur tími til að líta upp úr steypunni, -hvað þá brosa

 

Ps. Myndunum með færslunni hef ég flestum stolið héðan og þaðan en tel það í lagi, þar sem ég er myndefnið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjartans þakkir fyrir pistlana, Magnús.

Engin er ég hetja, enda vann ég bara í byggingarvinnu frá 13 ára aldri og fram til 28 ára aldurs, samfellt, öll sumur um leið og síðasta skóladegi lauk það árið og alltaf eins langt inn í haustið og ég gat, syndgaði upp á náðina að fresta minni skólabyrjun um iðulega 2 vikur inn í haustið.  Var þá orðinn jafnvígur á uppslátt og að brytja niður járn, beygja og binda bita, lykkjur og í grind, lóðréttar sem láréttar.  Alltaf síðan hefur byggingarvinna og járnavinna verið mitt haldreipi að grípa í tímabundið og í smá skorpum, þegar lítið var um teiknivinnu.

Þannig þekki ég og skil hvað þarf til að vera alvöru steypukall, og alvöru hetja, þó aldrei hafi ég verið það til fullnustu, en ætíð notið þess að brasa og fá að dinglast með alvöru hershöfðingum og athafnaskáldum og verða vitni að draumsýnum þeirra rísa upp og verða að veruleika.

Um geðveiki gæðavottaðra embættismanna, laga og reglugerða klikkhausa, mannauðsstjóra og viðlíka bólgnandi fjölda kerfisliðsins, sem þvælist fyrir bakvið luktar dyr, árin eftir hrun kerfisins, ætla ég hins vegar að sleppa að fjalla um.  Enda er það svo miklu geðslegra að minnast liðinna tíma þegar venjulegt fólk byggði sér sín eigin hús, frelsið var og hét, með aðstoð hetja sem riðu um héruð með staðkunnáttu, steypu og léttblendi til sálarinnar.

Enn og aftur hjartans þakkir, Magnús, fyrir þennan sem aðra pistla þína, sem lyfta lundinni á þessum síðustu tímum forheimskunar og veldis kerfisins og heildsalanna sem flytja inn ce vottaðar myglueiningar í hrönnum, staðlað, vottað í drep, í stað þess að nýta reynslu og þekkingu þeirra sem áður byggðu upp heilu byggðirnar og landið

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.2.2023 kl. 11:51

2 identicon

Smá viðbót, tók ungur hjólbörupróf, bæð á litlar og einnig hinar stærri og framþungu.  Dómnefndin var engin, við strákarnir lærðum allt af eigin reynslu, jafnóðum, og svo var um annað.  Þá þurfti aðeins móavitið, heilbrigða skynsemi.  Það var fyrir þann tíma að íslenska ríkið afsalaði sér öllu viti til Brussel, og toppstykki þess varð gímald með kóngulóarvef spillingar og græðgi, á kostnað íslensks almennings. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.2.2023 kl. 12:14

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri þessa uppbyggilegu athugasemd Pétur Örn.

Þú ert svo heppin að hafa skáldgáfuna í vöggugjöf með víkingnum, svona rétt eins og forfeðurnir, getur bæði gripið til sirkilsins og snellunnar við að snara upp húsi svo vel fari.

Að alast upp hjá foreldrum mínum var eins og hvert annað ævintýr, sem ég á enn í dag örðugt með að tala um vegna þess að vegferðin með þeim varð stutt.

Meðan mamma var með okkur systkinin skúrnum kom eitt sinn arkitekt heim með pabba og skáldaði húsið við skúrinn, -ræddi við þau, stikaði síðan um klappirnar og horfði til sólar. Mig grunar að hann hafi heitið Sigvaldi, og verið austfirðingur, án þess að vita það nákvæmlega.

Já ég spyr mig oft að því hvernig gat þetta orðið svona myglað, CE vottað og innflutt á okkar vakt, -og hvernig standi á því að ungir drengir skuli sífellt þurfa að berjast hatramari baráttu fyrir því að fá að verða hetjur og skáld.

Magnús Sigurðsson, 26.2.2023 kl. 13:26

4 identicon

Bestu þakkir fyrir svarið, Magnús

Já, hér áðður fyrr var reyndar nóg að einhver drátthagur maður teiknaði upp hús, í kvarða 1:100.  Skilaði því til bygginganefndar til samþykktar og byggingafulltrúa að stika út lóðina og staðsetningu húss.  Flóknara var það ekki.

Einlyft húsið sem ég fæddist og ólst upp í - heima á Krók segi ég enn þó það séu komin meira en 40 ár síðan ég átti þar síðast lögheimili - var teiknað og byggt af skraddara og tekið út af múraranum, byggingarfulltrúanum þá.  Húsið var hlaðið.  Nýflutt á Krókinn keyptu svo foreldrar mínir húsið af skraddaranum, en hann byggði sér tvílyft hús með klæðskera verslun á neðri hæðinni.  Þá var allt hægt að gera.  Það voru tímarnir þá.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.2.2023 kl. 14:31

5 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Skemmtileg lesning Magnús. Man alltaf þegar ég var í steypuvinnu

í Sléttuhlíð í Skagafirði þá 12 ára gamall. Bóndinn á næsta bæ var að steypa

nýtt fjós og borgardrengurinn, ásamt bóndanum sem ég var hjá,

fórum yfir til hjálpar. Mitt sumar og góður hiti þannig að þegar 

kom að kaffi var maður orðin ansi þyrstur og fyllti stórt glas af þessum

líka kalda djús. Djúsin reyndist hins vegar vera mysa og mér svelgdist svo

á gúlsopanum að ég næstum kafnaði. Að sjálfsögðu var þetta mikið

hlátursefni hjá öllum þarna, nema mér. Ekki fengið mér mysu aftur og

hef ekki verið aftur í steypuvinnu síðan..:)

Sigurður Kristján Hjaltested, 26.2.2023 kl. 17:09

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Sigurður, -takk fyrir góð orð og sögu.

Það er ekki nema von að þú hafir verið þyrstur, steypa í sumarhita er strembin. 

Þú ættir samt að prófa mysu aftur, hún er eins og gott vín er sagt vera, batnar með aldrinum. Góður svaladrykkur við þorsta og þarf ekki einu sinni að vera köld til þess.

Ég fékk mér mysu s.l. sumar, sem var búin að vera í fernu í ár inn í ísskáp, konan spurði hvort ég væri orðinn eitthvað ruglaður, besti svaladrykkur sem ég hef fengið.

Við pollarnir fórum oft í mjólkurstöðina og fengum mysu í 10 ltr belju til að svala þorstanum í brakandi sumarblíðu þegar við vorum að að naglhreinsa og skafa spýtur hjá KHB í gamla daga.

En ég myndi ekki ráleggja þér að steypa þér til hressingar í sumarhita úr því að þú hefur ekki gert það síðan þú varst polli.

Magnús Sigurðsson, 26.2.2023 kl. 18:03

7 Smámynd: Haukur Árnason

Takk Magnús fyrir enn einn snildar pistilinn. Hann gáraði minningarhafið á þremur stöðum.

Fyrst var Iðnskólinn í Reykjavík, (1964-1968 ) Einhver af kennurunum þar sagði við okkur: „Það er alveg eins víst að þið lendið í því að þurfa að nota steypuefni sem er ekki alveg hreint. Þá takið þið sem svarar einni skóflu af efninu, setjið í fötu og vatn, nóg til að geta hrært vel í þessu. Setjið matskeið af eitursóda útí og hrærið vel. Grátt og brúnt er í lagi, en ef að kemur gul slikja þá er það ónothæft“.

Ég hef einu sinni farið eftir þessu. Sló upp fyrir arni með kubbageymslu og alles.
Út við lóðarmörkin var malarhrúa, leit ekki illa út. Eigandinn vildi nota þetta og  að ég hjálpaði honum að steypa.þetta. Ég samþykkti það ef að eitursódaprófið sýndi engan gulan lit, sem það gerði ekki. Og við steyptum.

Í annann stað, var gamla íbúðarhúsið á Reykjarhóli á Bökkum, byggt 1937. Það var þetta hefðbundna á þessum tíma. Hálfgrafin kjallari og hæð með valmaþaki. Maður sér þessi hús um allt land. Mér er sagt að þegar það var steypt hafi þeir notað tunnu og látið hest draga kaðal sem snéri tunnunni. Hef aldrei séð svoleiðis útfærslu. En mér finnst hugmyndin góð.

Það þriðja var þegar þakið var steypt á Íþróttahöllina í Laugardal 1963. Ég var þá að vinna hjá ABF, ekki samt við Höllina, helldur í hitaveituframkvæmdun í Teigunum. En þarna var öllu tjaldað sem til var.
Verkstjórinn hét Sigurjón, þekkti hann ekki mikið en fannst hann rólyndismað ur. Um morguninn á fyrsta degi, hópur af mannskap að fá sér kaffisopa, þá allt í einu heyrist: „STEYPAN ER KOMINN“ Það var eins og sprenging hefði orðið, Sigurjón hann einhvern vegin splundraðist, ég hafði heyrt um steypuæði, en þetta í fyrsta skipti sem ég sá það með eigin augum

En þetta var heilmikið æfintýri. Ég lenti með múrara sem hét Einar og við lentum í hallanum austanmegin. Þá voru engir kranar sem náðu nema stutt inná þakið. Það hafði verið byggt undir rafmagnskrana sem stóð uppúr þakinu

Steypan kom frá ÍAV, þeir voru með steypustöð í Hafnarfirði. Þeir eru á þessum tíma að steypa Keflavíkurveginn, og þeir einu sem vildu/gátu haft sólarhringsopnun.

Hallinn var það mikill á þakinu að þurfti að bolta niður sliskjur fyrir okkur að standa á. Við erum komir tölvert áleiðis upp hallan, Einar á fjórum fótum að reyna að koma skikki á steypuna fyrir neðan: „Eina skóflu enn“ Og ég sæki skóflu uppfyrir, búinn að snúa mér að Einari, þá fæ ég steypusílóið í herðarnar, fálma afturfyrir mig og næ taki á sílóinu en næ ekki jafnvægi á sliskjunni og hangi í sílóinu útfyrir þakið. Kranastjórinn var snöggur að koma mér aftur inn´fyrir, þó ekki með látum
Mér er minnistætt hvað ég hélt fast um skófluna.

Þetta var óttalegt vesen. Rok sem rafmagskraninn réði ekki við.
Rafmagsleysi sem stoppaði steypustöðina, Ja, hérna

Fyrirgefðu langlokuna.

Haukur Árnason, 27.2.2023 kl. 15:09

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir frásögnina Haukur, -það eru einmitt svona langlokur sem manni þykir bestar.

Gott að vita hvernig þið prófuðuð steypumölina því um þessa aðferð hef ég ekki heyrt. Það spurði mig einu sinni gamall byggingamaður hvað það ætti að nota mikinn vítissóta til að steypa harðnaði hraðar. Hann var að steypa í lest á togara og það átti að ísa hann samdægurs og togarinn svo að fara á veiðar.

Gaman að að frétta nú hvernig þið prófuðuð steypumölina með vítissóta. Um hvoruga þessa vítissóta aðferð hafði ég áður heyrt. Nú veit ég meira um steypu. Stundum setjum við svokallaðan anti-freeser (frostlög) í steypu sem keyptur er í brúsum og hefur mig grunað að þar sé um einskonar vítissótablöndu að ræða.

En ég hygg að aðferðin sem þú lýsir hafi verið til að finna út hvort sýrustigið í steypumölinni hafi verið of hátt fyrir sementið og þar af leiðandi hefði steypan orðið ónýt með gulu útfellingunni. Möl og sandur með of hátt sýrustig í steypu á það til að verða að salla með tímanum. Þetta hefur maður séð með gólfílagnir úr sandi þegar á að fara að skipta um gólfefni.

Ég sá ljósmynd af því þegar þakið á Laugardalshöllinni var steypt og þykir mér það aldeilis mögnuð mynd, sá slikjurnar og kappana sem voru að steypa á myndinni. Eins hef ég séð ljósmynd af svona steypuhræru tunnu, en hesturinn var ekki á myndinni, hafði heyrt að þessi aðferð hafi verið notuð fyrri hluta 20. aldar hér fyrir austan.

Ég segi alltaf við mína menn að steypa endi í einu helvítis ráðaleysis klúðri ef einhver verður ekki óður, -og ég sé um það.

Þakka þér fyrir aldeilis áhugaverðar upplýsingar og einstaka steypusögu.

Ps. Það er möguleiki að ég sé með ljósmyndina af steypuköppunum á Laugardalshallar þakinu í tölvunni minni, ég skal senda þér þær ef þú vilt?

Magnús Sigurðsson, 27.2.2023 kl. 16:07

9 Smámynd: Haukur Árnason

Jamm, það var sýrustigið sem átti að greinast.

Það væri gaman að myndina, ef þú rekst á hana hjá þér.
Meilið mitt er trubrot@simnet.is

Kveðjur til ykkar frá Selfossi.

Haukur Árnason, 27.2.2023 kl. 17:42

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Haukur, þú lætur mig vita ef myndin berst ekki, -og eins væri gaman að vita hvort að þú ert á henni.

smile

Magnús Sigurðsson, 27.2.2023 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband