Íslenska - fæðingarfylgjan

Sennilega dettur fáum í hug að leita sér andlegrar uppörvunar í íslenskum draugasögum, eða auka skilning á andans málum með því að glugga í sögur um íslensku fornkappanna. Hin fjarlægu austurlensku fræði hafa þótt álitlegri kostir til sáluhjálpar. Nútíma vísindi gera ráð fyrir aðgreiningu líkama og sálar, þó svo enn sé algengt að álykta sem svo að manneskja samanstandi af huga, líkama og sál. Skilningsvit séu fimm; sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt. Heimarnir hafi síðustu aldirnar verið taldir þrír þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Efnishyggja nútímans hefur aftur á móti tilhneigingu til að hafna yfirnáttúrulegum, trúarlegum og dulspekilegum skýringum á líf fólks, maðurinn tilheyri ríki náttúrunnar. Heimurinn sé einn og lúti þróunarsögu Darwins, sem er nátengd markaðslögmálunum. Hugleiða má svo hvaða vitneskju menn hafi um tilveru efnisheimsins aðra en huglæga. Heimurinn geti því allt eins verið hugmynd, líkur þeirri sem Gandi benti á, "ef þú vilt breyta heiminum breyttu þá sjálfum þér".

Samkvæmt margri austurlenskri speki getur heimurinn aðeins verið til í huga sérhvers einstaklings í eins mörgum útgáfum og hann óskar sér, þar verður hver að vera sinnar gæfu smiður. Innan hverrar manneskju býr samkvæmt því, rýmið, sólin og áttirnar fjórar, það sem er fyrir ofan og fyrir neðan, guðir, djöflar og hægt að fara hvert þangað sem andans truntur þeysa. Því er betra að vera meðvitaður um að hugurinn getur svifið í tómarúmi líkt og skýin um himininn. Þó skýin geri ekki mistök með ferð sinni um himininn, þá hefur vindátt og hitastig áhrif á hvort þeim fylgir blíða eða ótíð.   

Hugmyndir fornmanna um skinfæri einstaklingsins virðast hafa verið frábrugðnar þeim sem uppi eru í dag, t.d. er hugsunin talin til eins af skilningsvitunum, líkt og gert er í Búddisma. Með því að færa hugsunina úr flokki skilningsvita yfir á vestræna vísu, í það sem mætti kalla hið óskilvitlega, er hægt að hafa gífurlega ómeðvituð áhrif á huga fólks og það hafa markaðsöfl nútímans notfært sér miskunnarlaust.

Sjálfsmynd heiðinna mann s.s. þeirra víkinga sem námu Ísland gerði ráð fyrir að manneskjan samanstæði af ham, hamingju, huga og fylgju, þessi fjögur atriði sköpuðu henni örlög. Þetta fernt virðist kannski flókið, en er það svo? Þeir hafa kannski gert sér betri grein fyrir hvað hugurinn er flækjugjarn ef hann er ekki notaður til að fylgjast með rétt eins og sjón og heyrn, þess í stað notaður til að meðtaka hvers hin skilningsvitin verða áskynja.

Ef sjálfsmynd fornmanna er sett í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina haminn sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveld-Úlfur faðir Skalla-Gríms hafi verið.

En Kveld-Úlfur var samkvæmt sögunni klofinn persónuleiki. Á daginn var hann góður búmaður, duglegur og vitur, en á kvöldin svefnstyggur og afundinn, þaðan er viðurnefnið komið. Var því sagt að hann væri hamrammur eða hamskiptingur. Þjóðsögurnar skýra þetta fyrirbæri ágætlega og hve algeng hin forna meining er í íslenskri tungu.

"Betur hefur sú trú haldist frá fornöld að menn ímynda sér að sálin geti yfirgefið líkamann um stund, verið fyrir utan hann, en vitjað hans svo aftur; af þessu eru leidd mörg orð: vér köllum að maður sé hamslaus og hamstola af ákafa eður æðisfenginni reiði; hamhleypa er kallaður ákafur maður og skjótvirkur; hamur er vestanlands kölluð kona sem er geðvargur, óhemja og annað því um líkt. Alkunn eru orðin að hamast, skipta hömum og enn fleiri." Þjóðs. JÁ bls 341 I bindi

Nú á tímum verður fólki tíðrætt um hamingjuna sem allir þrá, orðið hamingja er haft um gleði eða sælu. Hamingjan er talin tilfinning, sem kemur innan frá eitthvað sem sagt er að þurfi að taka meðvitaða ákvörðun um að öðlast, hún sé nátengd hugarástandi. Til forna bjó hamingjan ekki í huganum, frekar en huganum er ætlaður staður á meðal skilningsvitana fimm nú á tímum. En hver er merking íslenska orðsins hamingja og hvernig er það saman sett?

Samkvæmt því sem sérfræðingar segja merkir orðið hamingja gæfa, heill, náðargjöf og í elsta máli einnig heilladís eða verndarvættur. Það er sett saman úr orðunum hamur sem merkir líkami, húð eða gervi og í eldra máli með viðtengingunni fylgja eða verndari. Viðtengingin –ingja er komin af engja af sögninni að ganga, nokkurskonar vættur sem gengur inn í ham eða gervi.

"Ásgeir Blöndal Magnússon getur sér þess til í Íslenskri orðsifjabók (1989:303) að hamur merki í þessari samsetningu "fósturhimna, fylgja" og vísar þar til ham í dönsku og sænskum mállýskum í sömu merkingu. Hamingjan hafi þá upphaflega verið heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir sérhverjum frá fæðingu".

Fræðimenn telja því hina fornu notkun orðsins bera vitni um að einstaklingurinn hafi ekki ráðið miklu um hamingju sína, sumum fylgi mikil hamingja en öðrum minni. Þetta á þá væntanlega rætur að rekja til upphaflegrar merkingar orðsins hamingja, þ.e verndarvættur, heilladís, fylgja. Einnig eimir eftir af hinni fornu merkingu í orðatiltækjum eins og; „Það má hamingjan vita“ eða „Hamingjan hjálpi mér!“ Þar sem talað er um hamingjuna eins og sjálfstæða persónu, „ hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull“; segir í íslenskum dægurlagatexta og kveður þar við fornan tón. 

Fylgja er oftast talið draugalegt fyrirbæri, en svo hefur ekki alltaf verið. Hjá forfeðrunum skipti miklu að búið væri þannig að einstakling sem nýkominn var í heiminn að honum fylgdi góður andi eins og lesa má um í þjóðsögunum.

"En í fornöld var allt öðru máli að skipta því þá koma fylgjur oftast fram sem andlegar verur enda eru þær annað veifið kallaðar dísir sem fylgi hverjum einstökum manni, verndi hann og farsæli, og liggur þá nærri að ímynda sér að fylgja sé sama og hamingja, gifta aða gæfa, auðna eða heill." Þjóðs. JÁ bls 340 I bindi

"En eigi eru allar fylgjur sagðar draugakyns og nokkuð annars eðlis; því svo segir gamla þjóðtrúin að þegar barn fæðist þá verður eftir af sálarveru þess hluti – sem sérstæð vera – í himnubelg þeim sem utan um það í móðurlífi og leysist síðar og kallast barnsfylgja. Þessi vera kallast fylgja og verður leiðtogi barnsins og líklega verndarvera þess. Hún er kölluð heilög og hefur ef til vill af fornmönnum verið sett í samband við forlög og hamingju og gefin stundum vinum og orðið kynfylgja." Þjóðs. SS bls.183 III bindi

Því var til siðs að fara vel með barnsfylgjuna í henni byggi heill barnsins sem myndi fylgja því í gegnum lífið. Fylgjan var stundum grafin innanhúss í námunda við móðir barnsins svo hún myndi hafa góð áhrif á fylgju þess. Ef fylgjan var grafin utandyra eða fleygt á víðavang þá var hún talin taka áhrif þess sem fyrst fór þar yfir, hvort sem um mann eða dýr væri að ræða, sem myndi uppfrá því einkenna fylgju einstaklingsins. Athyglivert er í því sambandi hvað mörg íslensk nöfnu bera í sér dýraheiti, björns nöfn og úlfs eða fuglsnöfn á við örn, val, svan, hrafn ofl..

"Mikill hluti fylgja þykir vera sá hluti mannssálarinnar sem verður eftir þegar barnið fæðist og fylgir barnsfylgjuhimnunni. Guðlaugur Guðmundsson – Guðlaugssonar, Hálfdánarsonar er gera lét á sig reiðfæri og óð allar ár austan af Djúpavogi með hestburð á baki – bjó að Þverá í Hörgslandshreppi á Síðu. Synir hans voru tveir, Guðmundur og Guðlaugur. Þegar Guðlaugur fæddist gleymdi nærkonan að bera ljós í kross yfir móðurina og barnið í rúminu og fleygði fylgjunni í koppinn. Þá kom Guðmundur, þá 7ára gamall, og settist á koppinn, enda átti Guðlaugur mynd bróður síns fyrir fylgju upp frá því, alltaf á því reki sem hann var þá og eins eftir að Guðmundur var dáinn." Þjóðs. SS bls 287 III bindi

Þegar börn fóru að fæðast á fæðingardeildum, og jafnvel fyrr, er fæðingarfylgjan yfirleitt brennd og eftir það er einstaklingurinn talinn fylgjulaus, hafi þess í stað það sem vinsælt er að kalla áru. Fylgjan gerði yfirleitt vart við sig áður en viðkomandi einstaklingur birtist, ef hún gerði vart við sig á eftir viðkomandi þá var hann talinn feigur. Sumir eru taldir hafa átt fleiri en eina fylgju, þá oft ættarfylgju að auki eða jafnvel aðra góða og hina vonda. Fylgjan var samt oftast talin heilladís eða verndarvættur sem lifði og dó með manneskjunni. Ef fylgjan dó eða yfirgaf manninn í lifanda lífi af einhverjum völdum þá var hann talinn gæfulaus eða heillum horfinn. 

Það þarf ekki endilega að fara langt yfir skammt við að sækja andlegan skilning. Flest trúarbrögð eiga sinn uppruna á fjarlægum slóðum, austurlenskri speki s.s. hindú, jóga og búddismi sem þurfa mikla iðkunn áður en þau nýtast til sáluhjálpar, auk þess sem það þarf að setja sig inn í aragrúa torskilinna hugtaka. Kannski liggur einfaldasta leiðin til sálarþroska í gegnum þann menningararf sem fylgir heimahögunum og skilningur auðmeltastur þar sem tungumálið hefur verið drukkið með móðurmjólkinni. Því er það hvorki tilviljun hvar við fæðumst né hvað því fylgir.

 

Ps. Þessi hugleiðing varð til við áhorf á fyrirlestra fornleifafræðingsins Neil Price The Viking Mind. Þar fer hann yfir hvað frásögn og túlkun léku stórt hlutverk í heimsmynd norrænna manna.

Í þessum fyrirlestrum leitaði Neil Price á náðir íslenskra bókmennta m.a. Íslendingasagna og íslenskra þjóðsagna til að átta sig á hugarheimi víkinga. Það má vera nokkuð ljóst að ef bókmennta á íslensku hefði ekki notið við hefðu heimildir um heimsmynd víkinga verið fátæklegar. 

Pistill þessi birtist hérna á síðunni 13. maí 2015 og er endurbirtur í tilefni dags íslenskrar tungu.


Hús úr bárujárni

Flókagata

Bárujárnshús við Bergþórugötuna - söng Egill Ólafsson um árið við lag Gunnars Þórðarsonar og texta Davíðs Oddssonar. Textinn framkallar hugljúfa mynd af gömlum tímum og hlýlegum húsum í 101. Það er leitun að byggingarefni sem hefur verið eins einkennandi fyrir Ísland bárujárnið. Það hefur sennilega náð fullkomnun hagvæmninnar í bragganum, enda er bárujárnið víðast hvar í heiminum notað til að koma upp ódýru húsaskjóli í snatri og er því einkennandi fyrir fátækrahverfi. Hvernig íslendingar gerðu bárujárnið að litríku listaverki í húsagerð vekur athygli flestra sem heimsækja landið. En eins og með svo margt sem einkennir byggingasögu þjóðarinnar þá er engu líkara en við skömmumst okkar fyrir sérstöðuna, líkt og var með torfbæina á sínum tíma, sem jarðýtan var látin varðveita, en þykja í dag athyglisverður vitnisburður um sér íslenska byggingarlist sem talin er eiga erindi á heimsminjaskrá.

Bárujárnshúsin tína tölunni eitt af öðru og ekki síst í Mekka þeirrar byggingalistar, Reykjavík. Þar hafa menn horft hærra og eru litlu litríku húsin látin víkja fyrir dökkum Dubai draumnum. Gamla skuggahverfið er því sem næst horfið og þess í stað komnir svartir turnar sem stara tómeygir út á hafið, apandi hver upp eftir öðrum. Munurinn á Dubai norðursins og þeirra dúbæja sem eru sunnar á hnettinum er þó sá að götur Skuggahverfisins eru álíka lífvana og tómlegt augnaráð turnanna sem stara út á sundin blá. Við íslendingar ættum að taka frændur okkar í Færeyjum oftar til fyrirmyndar þegar kemur að varðveislu gamalla húsa. Frændum okkar hefur ekki enn komið til hugar að rústa miðbæ Þórshafnar til að hægt væri að spegla sig í sviplausum háhýsum sem hvort eð er má sjá allstaðar í heiminum. Kannski stafar það af því að þeir fengu sjónvarpið seinna en við og sáu sennilega aldrei Dallas.

Reykjavik-7

Það er ekki lengur hægt að segja að bárujárnhúsin í Reykjavik "bíða þess að lifna eitt og eitt af gleði og trú, bjartsýni æsku og von" eins og sagði í Reykjavíkurtjarnar ljóðinu hans Davíðs. Síðustu trakteringar sem þesslegs hús fengu mátti sjá þegar völlurinn var ruddur fyrir nýtt Hafnartorg, þar mátti sjá bárujárnshjallana mulda niður með stórvirkum vinnuvélum, svo mætti breyta ásjónu hafnarsvæðisins með einu reglu striki í hvert annað Kalverstaat með sínum H&M höndlurum og coffee shops. Já, Guð hjálpi bæjarins bestu, því nú mylja vinnuvélarnar sig til suðurs komnar á Landsímareitinn í hinn gamla Víkurkirkjugarð og nálgast Tjarnargötuna óðfluga. Allt í boði sálarlauss auðs og spilltra valda.

Annars var það ekki meining mín að láta þennan pistil fara í fjas um ásjónu höfuðstaðarins, heldur fjalla um sögu bárujárns til húsagerðar. Húsafriðun á Íslandi hefur hvort eð er í megin atriðum falist í að varðveita innflutt timburhús sem byggð voru á nýlendutímanum. Þau hús hafa verið gerð glæsileg í sinni upprunalegu mynd og er þá oft fjarlægt í leiðinni það sem íslendingar lögðu til húsanna í gegnum tíðina svo mætti lengja líftíma þeirra, líkt og bárujárnið. Það má samt segja að landsmenn hafi gert bárujárnsklædd hús að einstakri  byggingalist á heimsmælikvarða upp á landinu bláa.

Bárujárn og strá

Það var ekki fyrr en um 1880 sem fóru að berast byggingarefni til landsins, önnur en timbur og tjara, sem hafði verið notað fram til þess ásamt torfi og grjóti. Á meðal nýju efnanna var bárujárnið sem kom frá Englandi í tengslum við svokallaða sauðasölu sem hófst þangað um svipað leiti. Bárujárnið gerði það að verkum að íslenskir smiðir gátu byggt hátískutimburhús og klætt bárujárni sem verndaði þau gegn íslenskri veðráttu. Bárujárn hefur þrátt fyrir allt óvíða notið meiri virðingar í húsagerðarlist en á Íslandi. Þó er sagt að töluvert sé um slíkar klæðningar húsa á Falklandseyjum, þar sem veðurfar er svipað og hér, í Færeyjum og Afríku. Annars hefur bárujárnið aðallega einkennt braggabyggingar á stríðstímum og fátækrahverfi heimsins.

Sjálfur hef ég kynnst þrem bárujárnshúsum náið um ævina. Fyrst var það Sigfúsarhús í Neskaupstað sem gekk undir nafninu "Skakkinn" og var heimavist Iðnskóla Austurlands, síðar Framhaldsskólans í Neskaupstað. Sigfúsarhús var byggt 1895 sem íbúðarhús Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns og var þegar ég síðast vissi samkomuhús eldri borgara í Neskaupsstað. Þegar ég var þar má segja að "Skakka" nafnbótin hafi verið af tíðarandans toga, því timburhús klædd bárujárni voru síðasta sort á iðnnámsárum mínum, jafnan kölluð bárujárnshjallar. En ekki man ég eftir öðru en að mér hafi liðið vel í skjóli "Skakkans" þá mánuði sem ég dvaldi þar á árunum 1978 og 1980.

IMG_3879

Sigfús kaupmaður í Neskaupstað var einnig með umsvif á Djúpavogi á sínum mektarárum. Sunnan við voginn voru lengi lágreistar byggingar sem kallaðir voru Sigfúsarskúrar, þar sem útgerð hans hafði haft aðstöðu á Djúpavogi. Þar hafði einnig staðið stórt hús framan við skúrana sem kallað hafði verið Sigfúsarhús en þegar Sigfús hætti útgerð frá Djúpavogi tók hann niður húsið og flutti. Fyrir framan húsið og skúrana skaraði svo Sigfúsarbryggja út í voginn. Þegar ég flutti á Djúpavog árið 1984 stóðu skúrarnir enn á grjóthleðslunum. Þeir voru rifnir og brenndir árið 1988 ásamt öðru sjóhúsi og bryggjum sem stóðu sunnan við voginn. Varð af því mikill sjónarsviptir.

Sumarið 1988 vann ég við byggingu raddsjárstöðvarinnar á Gunnólfsvíkurfjalli og kom þá inn á skrifstofu fjármálastjóra verkefnisins, en þar var upp á vegg mynd af Djúpavoginum, spurði ég hann út í tilvist myndarinnar. Hann sagðist hafa verið á ferð á Djúpavogi og hafa þá tekið þessa mynd, og látið stækka, því þarna við voginn væri einstök söguleg heimild, gömlu timburbryggjurnar og sjóhúsin sunnan við voginn, en nýlegt frystihúsið og togarinn við stálþil norðan hans, smábátar vögguðu svo blítt við ból á voginum miðjum. Næst þegar ég kom heim í helgarfrí á Djúpavog voru allar menjar um útgerð sunnan við voginn horfnar ekki einu sinni reykurinn af þeim eftir. Það átti nefnilega að halda upp á 400 ára afmæli Djúpavogs sem verslunarstaðar ári seinna.

scan0008

Á Djúpavogi bjuggum við Matthildur mín 10 fyrstu búskaparár okkar í Sólhól, gömlu bárujárnshúsi. Matthildur fæddist í húsinu og átti þar heima í 33 ár. Foreldrar hennar ásamt systkinum fluttust í húsið árið 1961. Húsið var byggt 1930 og var þá annað hús rifið sem einnig hét Sólhóll byggður um 1880, viðir og bárujárn notað í nýja húsið. Gamli Sólhóll var fallegt hús, af mynd að dæma, byggður af Lúðvík Jónsyni snikkara á Djúpavogi sem byggði flest stóru húsin sem þar enn standa frá því seint á 19. öldinni. Húsið byggði hann fyrir Ivarsen kaupmann en svo fór að Lúðvík og Ivarsen höfðu makaskipti á húsum og höfðu afkomendur  Lúðvíks bæði búið í gamla og nýja Sólhól til 1960. 

IMG_5571

Það voru þeir Ólafur yfirsmiður Eiríksson frá Hvalnesi og Guðlaugur listasmiður Stefánsson frá Hamri sem höfðu veg og vanda að smíði Sólhóls. Húsið er eitt af þeim sem fanga augað samstundis, sannkölluð listasmíði með bárujárni og því vinsælt myndefni erlendra ferðamanna á Djúpavogi. Árið 2000 seldu Matthildur og systkini Sólhól að Jóni föður þeirra gengnum en hann bjó í húsinu til dauðadags 1. nóvember 1998. Nýir eigendur eru þau Þór Vigfússon myndlistamaður og Steinunn Björg Sveinsdóttir myndlistakennari. Þau hafa sýnt húsinu einstaka ræktarsemi og tekið það til gagngerrar endurnýjunar. Í bók sinni Fólkið í Plássinu gerir Már Karlsson sögu beggja Sólhólanna á Djúpavogi vegleg skil.

Sólhóll 

Það má kannski orða það sem svo að ekki hafi Matthildur mín getað veri lengi Sólhólslaus. Árið 2006 keyptum við Sólhól á Stöðvarfirði ásamt vinafólkinu Einþóri og Ólínu. Um þann aðdraganda mætti skrifa heila bók, en tilvonandi húsfreyjur höfðu báðar átt bárujárns Sólhól sem æskuheimili, önnur í Neskaupstað og hin á Djúpavogi. Stöðfirðingar vildu meina að fátt gæti komið bárujárnshjallinum til bjargar, eins og komið var þegar við keyptum, og til tals hefði komið að ryðja honum fyrir bakkann. Það má segja að þessi Sólhóll sé það hús sem hefur átt huga minn allan frá fyrstu kynnum. Í hönd fóru tvö ár sem við félagarnir nýttum hverja frístund í endurbætur á húsinu. Má þar segja að orð meistarans hafi fullkomnast, hverja þá bæn sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim.

Húsið er sagt byggt 1944 og reiknuðum við með að efniviður þess væri varla annað en kassafjalir eins og svo margra húsa sem byggð eru á stríðsárunum. Við höfðum keypt húsið án þess að skoða það, það kom skemmtilega á óvart að í því voru kjörviðir. Enda komumst við fljótlega að því í samtölum við heimamenn að húsið hafði upphaflega ekki verið byggt í þorpinu á Stöðvarfirði, heldur á Kambanesi handan fjarðar og hét þar Kambar en ekki Sólhóll. Hvaða ár húsið var byggt upphaflega hef ég ekki ennþá fengið fullkomlega staðfest, en heyrt ártalið 1928.

IMG_3460

Sólhóll á Stöðvarfirði hefur rétt eins og nafni hans á Djúpavogi vakið ómælda athygli ferðamanna. Matthildur viðrar stundum handvekið sitt á góðum dögum og ég Bob Marley fánann minn,,,, já, og það hefur bankað upp á fólk frá Jamaica

Þegar húsið á Kömbum var flutt af Kambanesinu norður yfir fjörðinn fylgdu íbúarnir með, þeir eru Stöðfirðingum enn í fersku minni og hafa sumir þeirra fullyrt að þau passi fyrir okkur húsið þó svo að þau séu löngu flutt til annarra heima. Það var Kristín Jónsdóttir úr Hornafirði, Jóhannes Sigurðsson úr Eyjafirði sem höfðu látið byggja húsið á Kömbum á sínum búskaparárum þar, 1900-1944. Jóhannes lést árið 1941, eftir það flutti Kristín fljótlega ásamt Sigfúsi Jónssyni fóstursyni sínum og Guðmundínu Einarsdóttir yfir fjörðinn, með allt sitt hafurtask nema neðri hæð hússins en hún stendur enn steinsteypt á Kambanesi. Nafnið Kambar var skilið eftir á nesinu og húsið endurskírt Sólhóll. Kristín lést 1948, Stöðfirðingar minnast þeirra Ínu og Fúsa með hlýju enn þann dag í dag þó svo að þau hafi horfið á braut árið 1978.

Það ár keyptu Guðbjartur Þórarinsson og Petra Landmark húsið, en þau komu frá Heyklifi sem er á Kambanesinu, höfðu verið þar vitaverðir í 10 ár. Guðbjartur byggði bílskúr við húsið, þar sem hann geymdi Trabantinn sinn og enn eru sagðar sögur af því hvað þurfti að keyra með mikilli varúð framhjá bílskúrnum í Sólhól því það var aldrei að vita hvenær Trabantinn spýttist afturábak úr á götu. Sólhóll var svo eigu fjölskyldu Guðbjartar og Petru þangað til árið 2006.

Árið 2016 urðum svo við Matthildur eigendur af því félagi sem við áttum til helminga með Einþór og Ólínu, en þau fluttu til Noregs 2009 og hafa ílengst þar. Mér múraranum hefði ekki komið það til hugar á yngri árum að gamall bárujárnshjallur ætti eftir að verða mér svona kær, en með árum og hrukkum hef ég gert mér betur grein fyrir hvað bárujárnið er mikil gersemi.

Sólhóll Stöðvarfirði 022

Við Sólhóll urðum mestu mátar við fyrstu kynni

 

IMG_0031

Freedom fáni Bob Marleys fer vel við Sólhól og svo náttúrulega sá íslenski sem fær að blakta á hátíðisdögum

 

Fjarðarbraut 66

Hann var orðin gagnslaus og smáður, gisinn og snjáður

 

IMG_9549

Hefur gengið í endurnýjun lífdaga þrisvar á 90 árum og litið sólarupprásina oftar en elstu menn muna

 

IMG_1653

Atlantshafið er í garðinum við Sólhól og handan fjarðar úti við ysta haf er Kambanesið þaðan sem Sólhóll var fluttur yfir fjörðinn í bát árið 1944

 


Hús byggð úr eldfjallaösku

Byggingarefni

Að leita ekki langt yfir skammt, hollur er heimafenginn baggi og vera sjálfum sér nógur, eru forn máltæki. Með alþjóðahyggjunni þykir svona forneskja í besta falli að vera heimóttaleg fáviska ef ekki hrein heimska. Svo langt hefur alþjóðavæðingin náð með sýnar aðfluttu lausnir að það er orðið of flókið, og mörgu fólki um megn að koma þaki yfir höfuðið, þó svo að það standi í byggingarefninu. Efni sem um tíma var flutt úr landi til húsbygginga í öðrum löndum. Nú á tímum byggja ótrúlega margir alþjóðahyggnir bisnissmenn afkomu sína á því að leitað sé langt yfir skammt, þó svo að þeir hafi ekki snefil af því að byggja hús, þá eru þeir séðir. En ekki hefði dugað það eitt að kallast séður til að koma í veg fyrir að fólk kæmi sér upp þaki yfir höfuðið án aðstoðar séníanna, ef ekki kæmi til regluverkið.

Við vinnufélagarnir ræddum húsnæðisvanda ungs fólks á kaffistofunni núna í vikunni enda fór mikið fyrir þeim vanda á Húsnæðisþingi íbúðalánasjóðs í byrjun viku. Eins varð myglan til umræðu sem er flutt, keypt og borinn inn í nýbyggingarnar með ærnu tilkostnaði að forskrift verkfræðinnar og undir ströngu regluverki þess opinbera. Af hverju geta menn ekki gert þetta eins og áður, spurði ég; hlaðið og múrhúðað veggi, þá var ekki mygla vandamálið. Nei þetta er ekki hægt lengur sagði einn félaginn. Láttu þér ekki detta svona vitleysa í hug, sagði annar. Hvers vegna ætti þetta ekki að vera hægt, sagði ég sármóðgaður múrarinn. Þá svaraði sá sem allt veit manna best; skilurðu það ekki maður það eru allir komnir í háskóla og fæst engin til að vinna svona vinnu lengur.

Það var þannig í gegnum tíðina, áður en menn urðu séðir, hámenntaðir og reglusamir, að fólk reisti sín hús úr því byggingarefni sem var nærtækast. Á Íslandi voru hús byggð úr torfi og grjóti í þúsund ár. Timbur var vandfengið byggingarefni í skóglausu landi og því einungis notað þar sem þurfti í burðarvirki húsa. Er leið á aldirnar fluttu erlendir kaupahéðnar inn tilsniðin timburhús, oft frá Noregi. Þegar sementið kom til sögunnar var farið að steypa hús og var til nóg af innlendu byggingarefni í steypuna, þannig að almúgamaðurinn kom sér upp húsi með eigin höndum án þess að notast við torf. Nú á 21. öldinni er svo komið að stærsti kostnaðurinn við húsbyggingu er óhóflegt regluverk, auk lóðar, teikninga, og allslags byggingagjalda, þessir þættir koma í veg fyrir að fólk geti byggt yfir sig sjálft. 

cement-solid-block-250x250Eitt byggingarefni var mikið notað við húsagerð þar til fyrir nokkrum áratugum síðan að það hvarf því sem næst af sjónarsviðinu og í staðin komu annaðhvort eftirlíkingar, en þó að mestu mygluvaldurinn mikli, innflutt pappa gibbs. Þar sem áður var múrhúð á einangrunarplasti og steyptir steinar úr eldfjallavikri og sementi,aðallega notaðir í milliveggi. Lítið var um að þessir steinar væru notaðir við að byggja heilu húsin, útveggirnir voru oftast úr steinsteypu. Vikursteinar voru ekki vel séðir í út- og burðarveggi, þóttu ekki öruggir með tilliti til jarðskjálfta. En eru meira notaðir erlendis þar sem hefð er fyrir því að hlaða hús.Útveggjasteinninn kallaðist holsteinn og var 40X20X20 sm á Íslandi. Í Noregi eru útveggjasteinarnir stærri, 50X250X20 cm er algengt. 

Þó svo þessi byggingarmáti hafi aldrei náð verulegri útbreiðslu á Íslandi vegna hættu á jarðhræringum þá vill svo einkennilega til að hlutfallslega hefur mest hefur verið hlaðið af svona húsum í Mývatnssveit, einu af meiri jarðskjálfta svæðum landsins, og það án vandkvæða. Fyrsta húsið sem ég man eftir mér í var úr vikursteini frá Mývatni. Foreldrar mínir hlóðu það hús á Egilsstöðum árið 1963. Reyndar aðeins um 40 m2 og varð það síðar að bílskúr við mun stærra steinsteypt hús. Þannig byrjuðu þau á að snara upp ódýru þaki yfir höfuðið á fjölskyldunni. 

Thuborg hleðsla

Sjálfur varð ég svo frá mér numinn af byggingaraðferð foreldra minna að hún er það fyrsta sem ég man, enda ekki nema þriggja ára þegar þau hlóðu skúrinn. Árið eftir var hann múrhúðaður að utan og gekk ég þá á eftir múraranum fram í myrkur til að nema kúnstina. Það þarf því ekki að koma á óvart að þegar ég ungur maðurinn byggði okkur Matthildi hús á Djúpavogi, rúmum 20 árum seinna, að það væri úr Mývatnsvikri. Ekki hef ég tölu á því, frekar en steinunum í húsið, hvað oft ég var spurður; "og hvað ætlarðu svo að gera þegar kemur jarðskjálfti?"

Flatarsel

Sami Mývatnssteina leikurinn var svo endurtekin á Egilsstöðum 20 árum eftir ævintýrið á Djúpavogi,  þegar við vinnufélagarnir byggðum þrjú tveggja hæða Mývatnssteinahús. Þessi aðferð var fljótleg, þannig að húsin ruku upp stein fyrir stein, en vakti þegar þá var komið aðallega athygli fyrir að koma aftan úr grárri forneskju, og svo auðvitað gamalla húsbyggenda sem komu til að rifja upp sín bestu ár.

IMG_1303

Í Noregi var íslenski vikurinn lengi í hávegum hafður sem byggingarefni og höfðu þar verið starfræktar heilu verksmiðjurnar sem steyptu steina úr eldfjallavikri. Á árunum eftir hrun varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að komast í að hlaða fleiri hundruð fermetra af vikurveggjum og pússa ásamt fjölþjóðlegum flokk múrara sem áttu það allir sameiginlegt að vera aðfluttir flóttamenn, rétt eins og eldfjallavikurinn sem þá var orðin alþjóðlega stöðluð eftirlíking í Noregi. Það má kannski segja sem svo að þar hafi alþjóðavæðingin náð tæknilegri fullkomnun.

IMG_0149

Enn má sjá byggingar við Vogsfjörðin í Troms sem tilheyrðu steinasteypu til húsbygginga úr íslenskum eldfjallavikri fyrir N-Noreg. Engir steinar eru steyptir lengur í N-Noregi heldur er þar nú einungis birgðageymsla fyrir Leca steina sem koma sunnar úr Evrópu, verksmiðjan var keypt upp til þess eins að leggja hana niður. Leca er alþjóðlegt skrásett vörumerki sem býr til vikur úr leir með því að hita hann upp í 1.200 C°. Það má því seigja að markaðurinn hafi kæft íslensku eldfjöllin með því að skrásetja vörumerki og búa til staðla sem má stilla regluverkið eftir, það hefði verið erfiðara að staðla eldfjöllin og fá þau skráð sem vörumerki.

Tuborg í byggingu

Tuborg Djúpavogi byggt úr Mývatns vikursteini. Það þarf ekki mikið til að byrja á því að hlaða hús eftir að sökkull og gólfplata hafa verið steypt. Nokkrar spýtur til að setja upp eftir hallamáli á húshornin og strengja spotta á milli til að hlaða eftir í beinni línu, steina, sand, sement, vatn og litla steypuhrærivél. Glugga er hægt að steypa í jafnóðum eða setja í eftirá.

 

Tuborg I

Tuborg Djúpavogi 150 m2, útveggi svona húss tekur um vikutíma að hlaða fyrir tvær manneskjur. Viku tekur að múrhúða veggi að utan, mest vinna er í gluggum og þaki. Múrhúðin á þessu húsi er með hraunáferð. Mölin í hraunið var fengin úr næstu fjöru.

 

Flatarsel í byggingu

 Flatasel Egilsstöðum, byggt úr Mývatns vikursteini. Það tekur meiri tíma pr.m2 að hlaða tveggja hæða hús, en á einni hæð. Þar kemur hæðin til, sem útheimtir vinnupalla og aukið burðavirki. Í hverri hæð eru 12 raðir steina og er raunhæft að tveir menn hlaði 4 raðir á dag. Gólfplata á milli hæða var steypt og þak með kraftsperrum.

 

Flatarsel 4

Flatasel Egilsstöðum 190 m2, einangrað og múrhúðað að utan með ljósri kvarssteiningu. Einangrunin er úr plasti og límd með múrblöndu á veggi, 3-4 daga verk fyrir 2 múrara. Utanhússmúrverk og steiningin tekur u.þ.b. 2 vikur fyrir 4 múrara.

 

IMG_2738

Í N-Noregi kom fyrir að við hlóðum hús í janúarmánuði. Þá var notað heitt vatn og frostlögur í múrblönduna sem notuð var til að líma saman steinaraðirnar.

IMG_6736

Hábær 40 m2, fyrsta hús foreldra minna er enn á sínum stað sem bílskúrin að Bjarkarhlíð 5 á Egilsstöðum. Núna 55 árum eftir að húsið var byggt er múrhúðunin með sýnilegum múrskemmdum.

 

IMG_0070

 

Básar

Að endingu má segja frá því að ég kom út í Grímsey í sumar og gisti þar á Gistiheimilinu Básum, ágætu tveggja hæða húsi. Við samferðafólkið tókum eftir því að hátt var til lofts og vítt til veggja á neðri hæðinni, en þó svo að jafn vítt væri til veggja á þeirri efri þá var frekar lágt til lofts. Múrviðgerðir og málningarvinna stóðu yfir utanhúss og komu þær til tals við eigandann. Þá kom í ljós að afi hans hafði hlaðið þetta stóra hús úr Mývatnssteini árið 1960, flutt nákvæmlega þá steina sem til þurfti úr landi.

Húsbyggingin var það skemmtileg, og afinn það mikill ákafamaður að hann hlóð einni röð of mikið í neðri hæðina. Í stað þess að tefja verkið með því að brjóta ofauknu röðina niður eftir að hún uppgötvaðist, þá steypti hann gólfplötuna fyrir aðra hæðina og hélt áfram að hlaða úr þeim steinum sem eftir voru og lét það duga. Þar var komin skýringin á mismuninum á lofthæðinni milli hæða.

Ef einhver hefur í hyggju að hlaða sér upp húsi er rétt að hafa það í huga að stoppa á réttri röð þó svo að ákafinn sé mikill. Það er víst enn verið að grínast með húsbyggingagleði gamla mannsins út í Grímsey. Auk þess gæti verið að regluverkið sé orðið örlítið smámunasamara í dag þegar kemur að úttekt þess opinbera. Í Grímsey skipti þetta engu máli enda hefur húsið á Básum þjónað eigendum sínum hátt í 60 ár.

 


Hafa mælar verið fleiri?

Jarðvísindamenn segja að Öræfajökull skjálfi sem aldrei fyrr samkvæmt þeirra mælum og er því spurning hvað lengi jökullinn hefur verið mældur í þeim mæli sem nú er gert. Sennilega hefur mælum verið fjölgað stórlega eftir að hann fór að láta á sér kræla fyrr nokkrum árum.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvernig nafnið Öræfi kom til, svo oft hefur eldgosinu 1362 verið gerð skil, sem gjöreyddi Litla-Héraði. Þó svo að ekki séu til um þetta stórgos, nema mjög takmarkaðar samtímaheimildir í annálum, telja seinna tíma rannsóknir að þá hafi orðið eitt mesta eldgos á Íslandi á sögulegum tíma og sennilega stærsta og mannskæðasta sprengigos frá því land byggðist.

Um mun meðalstóra gosið 1727 er meira vitað um. Sama gildir um það gos og 1362, að um það eru mjög takmarkaðar heimildir í annálum. En um það gos er þó til lýsing sjónarvotts á upptökum og afleiðingum. Þar er um að ræða lýsingu séra Jóns Þorlákssonar sóknarprests í Sandfelli.

Jón var fæddur árið 1700 á Kolmúla við Reyðarfjörð og var prestur í Sandfelli í Öræfum 1723-1732, því aðeins 27 ára þegar eldumbrotin urðu. Hann skrifar samt ekki lýsingu sína á því sem gerðist fyrr en um 50 árum seinna, þegar hann er sóknarprestur á Hólmum í Reyðarfirði.

Sagt er var um séra Jón, "hann var mikilfengur og hraustmenni, fastlyndur og geðríkur, og lét lítt hlut sinn." Fer frásögn hans hér á eftir: 

"Árið 1727, hinn 7 ágúst, er var 10. sunnudagur eftir trinitatis, þá er guðsþjónusta var byrjuð í heimakirkjunni á Sandfelli og ég stóð þar fyrir altarinu, fann ég hreyfingu undir fótum mér. Gaf ég henni eigi gaum í fyrstu, en undir prédikun fóru hræringar þessar mjög vaxandi, og greip menn þá felmtur, en samt sögðu menn, að slíkt hefði áður við borið. Gamall maður og örvasa gekk niður að lind, sem er fyrir neðan bæinn og kraup þar á kné stundarkorn, og hlógu menn að þessu atferli hans. Þegar hann kom aftur og ég spurði hann, hvers hann hefði verið að leita, svaraði hann: „Gætið yðar vel, herra prestur, það er kominn upp jarðeldur.“ Í sama bili varð mér litið til kirkjudyranna, og sýndist mér þá eins og öðrum, sem viðstaddir voru, líkt og húsið herptist og beygðist saman.

Ég reið frá kirkjunni en gerði eigi annað en að hugsa um orð öldungsins. Þegar ég var fyrir neðan miðjan Flögujökul og varð litið upp á jökultindinn, virtist mér sem jökullinn hækkaði og belgdist út aðra stundina, en lækkaði og félli saman hina. Þetta var ekki heldur missýning, og kom það brátt í ljós, hvað þetta boðaði. Morguninn eftir, mánudaginn 8. ágúst, fundu menn eigi aðeins tíða og ægilega landskjálftakippi, en heyrðu einnig ógnabresti, sem ekki voru minni en þrumuhljóð. Í þessum látum féll allt, sem lauslegt var í húsum inni, og var ekki annað sýnna en allt mundi hrynja, bæði húsin og fjöllin sjálf. Húsin hrundu þó eigi. En það jók mjög á skelfingu fólksins, að enginn vissi, hvaðan ógnin mundi koma né hvar hún dyndi yfir. Klukkan 9 um morguninn heyrðust 3 miklir brestir, sem báru af hinum; þeim fylgdu nokkur vatnshlaup eða gos og var hið síðasta mest, sópuðu þau brott hestum og öðrum peningi, er fyrir þeim urðu, í einu vetfangi.

Þar á eftir seig sjálfur jökullinn niður á jafnsléttu, líkt og þegar bráðnum málmi er hellt úr deiglu. Hann var svo hár, er hann var kominn niður á jafnsléttuna, að yfir hann sá ég ekki meira af Lómagnúpi en á stærð við fugl. Að þessu búnu tók vatnið að fossa fram fyrir austan jöklana og eyddi því litla, sem eftir var af graslendi. Þyngst féll mér að horfa á kvenfólkið grátandi og nágranna mína ráðþrota og kjarklausa. En þegar ég sá, að vatnsflóðið leitaði í áttina til bæjar míns, flutti ég fólk mitt og börn upp á háan hjalla í fjallinu, sem Dalskarðstorfa heitir. Þar lét ég reisa tjald og flytja þangað alla muni kirkjunnar, matvæli, föt og aðrar nauðsynjar, því að ég þóttist sjá, að þótt jökullinn brytist fram á öðrum stað, mundi þó hæð þess standa lengst, ef guði þóknaðist; fólum við okkur honum á vald og dvöldumst þar.

Ástandið breyttist nú enn við það, að sjálfur jökullinn braust fram og bárust sumir jakarnir allt á sjó fram, en hinir stærri stóðu rétt við fjallsræturnar. Þessu næst fylltist loftið af eldi og ösku, með óaflátanlegum brestum og braki; var askan svo heit, að engin sást munur dags og nætur og af myrkri því, er hún olli; hið eina ljós er sást, var bjarminn af eldi þeim sem upp var kominn í 5 eða 6 fjallaskorum. Í 3 daga samfellt var Öræfasókn þjáð á þennan hátt með eldi, vatni og öskufalli. Þó er ekki létt að lýsa þessu eins og í raun réttri var, því að öll jörðin var svört af vikursandi og ekki var hættulaust að ganga úti sakir glóandi steina, sem rigndi úr loftinu, og báru því ýmsir fötur og kollur á höfðinu sér til hlífðar.

Hinn 11. sama mánaðar tók ögn að rofa til í byggðinni, en eldur og reykur stóð enn upp úr jöklinum. Þennan dag fór ég við fjórða mann til þess að líta eftir, hversu sakir stæðu á kirkjustaðnum Sandfelli, sem var í hinni mestu hættu. Þetta var hin mesta hættuferð, því að hvergi varð farið nema milli fjallsins og hins hlaupna jökuls, og var vatnið svo heitt, að við lá, að hestarnir fældust. En þegar við vorum komnir svo langt, að fram úr sá, leit ég við. Sá ég þá, hvar vatnsflaumur fossaði ofan frá jöklinum, og hefði hann sennilega orðið bani okkar, ef við hefðum lent í honum. Ég tók því það til bragðs að ríða fram á ísbreiðuna og hrópaði til förunauta minna að fylgja mér hið skjótasta. Með þeim hætti sluppum við og náðum heilu og höldnu að Sandfelli. Jörðin ásamt tveimur hjáleigum var að fullu eydd, og var ekkert eftir nema bæjarhúsin og smáspildur af túninu. Fólkið var grátandi úti í kirkju.

En gagnstætt því, sem allir héldu, höfðu kýrnar á Sandfelli og fleiri bæjum komist lífs af, og stóðu þær öskrandi hjá ónýtum heystökkum. Helmingur fólksins á prestsetrinu hafði verið í seli með 4 nýlega reistum húsum. Tvær fullorðnar stúlkur og unglingspiltur flýðu upp á þak hæsta hússins, en skjótt þar á eftir hreif vatnsflaumurinn húsið, þar sem það, eftir sögn þeirra, er á horfðu, stóðst ekki þunga aurflóðsins, sem féll að því. Og meðan menn sáu til stóðu þessar þrjár vesalings manneskjur á þakinu. Lík annarrar stúlkunnar fannst seinna á aurunum, það var brennt og líkast sem það væri soðið. Var varla unnt að snerta hið skaddaða lík, svo var það meyrt orðið. Allt ástand sveitarinnar var hið hörmulegasta. Sauðféð hafði flest farist, sumt af því rak seinna á fjörur í þriðju sókn frá Öræfum. Hey skorti handa kúnum, svo að ekki var unnt að setja nema fimmta hluta þeirra á vetur. 

Eldurinn brann án afláts í fjallinu frá 8. ágúst fram til sumarmála í apríl árið eftir. Fram á sumar voru steinar svo heitir, að af þeim rauk, og var ekki unnt að snerta þá í fyrstu. Sumir þeirra voru fullbrenndir og orðnir að kalki, aðrir voru svartir á lit og holóttir, en í gegnum suma var unnt að blása. Flestir þeir hestar, sem hlaupið hafði ekki borið út á sjó, voru stórkostlega beinbrotnir, er þeir fundust. Austasti hluti Síðusóknar skemmdist svo af vikri, að menn urðu að slátra miklu af búpeningi.

Á sumardaginn fyrsta árið eftir, 1728, fékk ég nefndarmann einn með mér til að kanna sprungurnar í fjallinu; var þá hægt að skríða um þar. Ég fann þar dálítið af saltpétri og hefði getað safnað nokkuð af honum, ef hitinn hefði ekki verið svo mikill, að ég var tregur til að haldast þar við. Á einum stað var stór, brunninn steinn á sprungubarmi; af því að hann stóð tæpt, hrundum við honum niður í sprunguna, en ómögulegt var okkur að heyra, er hann nam við botn. Þetta, sem nú er sagt, er hið markverðasta, sem ég hef frá að skýra um þennan jarðeld.

Þó skal því við bætt, að húsmaður einn sagði mér, að hann hefði nokkru áður en eldurinn kom upp heyrt hljóð í fjallinu, sem líktust andvörpum og málæði margra manna, en þegar hann fór að hlusta betur, heyrði hann ekkert. Ég tók þetta til íhugunar og vildi ekki reynast miður forvitinn, og ég get ekki borið á móti því, að ég heyrði hið sama. Þetta kvað og hafa gerst víðar, þar sem eldur var uppi með sama hætti. Þannig hefur guð leitt mig í gegnum eld og vatnagang, ótal óhöpp og andstreymi allt fram til 80. æviárs. Hann sé lofaður, prísaður og í heiðri hafður að eilífu."

Frásögn séra Jóns Þorlákssonar er fengin af stjörnufræðivefnum.


mbl.is Skjálftavirkni aldrei mælst meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níu heimar

The Kardashian

Það er ekki á hverjum degi sem greinaskrif hræra upp í skilningsvitunum. Greinin sem um ræðir er eftir A. True Ott PhD sem skreytir sig með háskólagráðu í listum frá Cedar City University, Utah 1982 og doktorsgráðu í heimspeki frá American College, Washington DC 1994. Það er með ólíkindum að maður sem hefur dvalið á æðri menntastofnunum í áratugi hafi heilabú til að skrifa slíka hugvekju.

Enda kom í ljós þegar gæinn var gúgglaður að þarna er á ferð gyðingahatari sem logið hefur upp á sig gráðum rétt eins og hver annar framsóknarmaður auk þess að vera þjóðernissinni með tengsl við ný-nasista og öfga kristna, í ofanálag djöfladýrkandi. Þetta höfðu rannsóknarblaðamenn áreyðanlegra fjölmiðla komist á snoður um varðandi A. True Ott og var sett upp vefsíða um tíma svo fólk gæti varast fýrinn. það er því með hálfum hug sem ég birti þessar hugleiðingar sem byggðar á eru hugvekju hans um níu heima og slæðurnar sem þá hylja.

Til að sjá bak við hulurnar sem leyna vitundina heimana níu er gagnlegt að hafa í huga að forn hugmyndafræði gerði ráð fyrir að ákveðin öfl stýrðu okkar lífi. Dulspekin gerir einnig ráð fyrir að heimarnir sem umlykju okkur séu fleiri en þessir þrír sem kirkjan bauð upp á í árhundruð, þ.e.a.s. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Nærtæk er goðafræðin sem kennd er við Ásatrú sem gerði ráð fyrir níu heimum, hafði eigin sköpunarsögu og þeir sem hafa kynnt sér það sem nýlega hefur lekið út á alheimsnetið, þ.e. Annunaki geta fundið samsvörun í Völuspá. Heimurinn virðist því ævinlega vera sú hugmynd sem samþykkt er af fjöldanum á hverjum tíma, jafnvel þó tálsýn sé. Speki goðafræðinnar væri rangt að telja til trúarbragða, miklu frekar væri að telja hana til hugmyndar fólks um heim þess tíma og lífsviðhorfa sem honum tengdust.

Að sumu leiti liggur það í augum uppi að heimarnir sem umlykja okkur eru fleiri en við viðurkennum, þetta er nokkuð skýrt hjá barnsálinni þar til henni hafa verið innrætt lífsviðhorf rökhyggjunnar. Flestir áhangendur innrættrar rökhyggju, sem láta þó það uppi að þeir trúi á trúleysið, telja að stærðfræðilegur sannleikur talnanna getur hvorki falið í sér dulspeki né trúarbrögð. En þær geta samt sem áður villt sýn eftir því í hvaða samhengi þær eru fram settar.

A. True Ott bendir á að tölurnar eru ekki margar, eða alls níu á bilinu 1 – 9 sem þarf til að fá allar útkomur. Yfirleitt er talnafræði kennd almenningi til reiknings eða stærðfræði og mikið notaðar nú á tímum til að sýna fram á lygilega hagfræði. Stundum er samsetning talnanna kennd sem brotareikningur í formi þokugrárrar algebru þar sem barnsálin rammvillist í ósýnileka óþekktra stærða, en sjaldnast eru töfrar talnanna kynntir sem heilög rúmfræði (sacret geometry).

magical_numbers_by_bernce-d4u2vvwÞess virðist því vera vandlega gætt að töfrar talnanna séu huldir barninu þegar því eru innrætt notagildi þeirra, kannski er þetta gert til þess heimarnir sem umlykja barnsálina trufli ekki við það að búa til nýtan þjóðfélags þegn. Svo markviss er 2+2=4 akademían að margt sem áður var þekkt eru orðið að afgangsstærð. Þannig að flest börn sem breytast í rökhugsandi menntamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, skila auðu varðandi tilvist himnaríkis og helvítis fyrir trú sína og von á hagvöxt jarðlífsins.

Hvað ef okkur væri innrætt tölfræði á töfrandi grunni?

(1 x 8) + 1= 9

(12 x 8) + 2 = 98

(123 x 8) + 3 = 987

(1234 x 8) + 4 = 9876

(12345 x 8) + 5 = 98765

(123456 x 8) + 6 = 987654

(1234567 x 8) + 7 = 9876543

(12345678 x 8) + 8 = 98765432

(123456789 x 8) + 9 = 987654321

Magnað er það ekki; fullkomin speglun, As Above, So Below, ætli lífsins tré hafa svipað til þessa þegar búið var að umreikna þess óendanlega óþekktu stærð?

Það er kannski ekki undarlegt að helstu hugsuðir heimsins hafi verið talnaglöggir s.s. Arkímedes, Copernicus, Sókrates og DaVinci. Það ætti að vera jafn auðvelt skilja að allt frá spádómum Biblíunnar til DNA stiga nútímans er byggt á mynstri einfaldra talnaformúla. En hvað kemur það þessum níu heimum við?

Íhugum ef svokallaðir „mystery schools“, skólar galdra til forna, þar sem seiður ásamt þekkingu á heilagri rúmfræði vísaði veginn til þess sem ætti að vera hverjum nytsamt, þ.e. uppgötvunum á tilurð þessa heims þar sem sköpun hans væri opinberuð. Að halda því fram að opinber menntun sé til þessa að rugla barnsálina í ríminu, er auðvitað bara samsæriskenningin. En hversvegna er svona erfitt að sjá þann sannleika sem mun gera okkur frjáls?

MonopolyÞví telur A True Ott best svarað með orðum sem hann eignar vini sínum Don Harkins. „Á undanförnum árum hef ég leitast við að setja fram kenningar varðandi það hvers vegna fólk sér ekki sannleikann, jafnvel þó það fái hann óþveginn beint í andlitið. Þau okkar sem eiga auðvelt með að sjá samsærið hafa örugglega átt óteljandi samræður við fólk sem gremst það að deilt sé á stofnanir samfélagsins, jafnvel þó að færa megi fram skjalfest rök fyrir því hvernig kerfið er markvist notað til að koma okkur í ánauð svo hægt sé að nota okkur í þágu hagvaxtar hinna fáu. Líklegasta skíringin á þessu er sú að fólk vilji hreinlega ekki sjá hvað er að gerast“

Því er oft þannig farið að heimsins ráð brugga vondir menn, sem koma því þannig fyrir að grasið er grænna hinu megin við lækinn þannig að við sækjumst eftir glysinu líkt og asni sem eltir gulrót, tilhneiging er til að líta á þann sem á það bendir sem samsæriskenninga smið. Enda ráða heimsins öfl launuðum störfum, fjölmiðlum og afþreyingu sem eitthvað kveður að. Meir að segja tímaritið Forbes greinir frá því árlega að 1% íbúa jarðar ráði yfir 50% af auði hennar, svo má ætla innan við 1% íbúa heimsins sjái eitthvað samsæri við það í gegnum hulurnar.

Það er ekki þannig að þeir sem ekki sjá frelsið hverfa ofan í hagvaxtar skrímslið vilji ekkert sjá og haldi ráðabruggi vondra manna gangandi meðvitað. þeir einfaldlega geta ekki séð hvað er að gerast vegna þess að trúin á að heimurinn sé ekki annað en okkar innrætta útgáfa af jarðlífinu lokar sýninni á aðra heima og svo er þetta auðvitað líka atvinnuspursmál.

consciousnessportal-640x427

Fyrsta heimur mótast af stjórnmálum og efnislegu umhverfi, að vera virkur í samfélaginu með því að kjósa á milli viðtekinna viðhorfa. Skoðanir taka mið af efnahagsmálum; við vitum af uppeldinu að það á að bera virðingu fyrir embættismönnum, fjölmiðlar fara með sannleika, undirstrikaðan af helstu sérfræðingum samfélagsins. Níutíu prósent okkar munu lifa og deyja án þess að svo mikið sem efast um þessa heimsmynd.

Annar heimur, þeir sem þangað koma munu kanna söguna, tengslin milli einstaklingsins og stjórnvalda í hennar ljósi. Öðlast skilningi á því hvernig valddreifing getur stjórnskipulega farið saman við stjórnarskrárbundnum réttindum einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að leita lengra þrátt fyrir að gera sér grein fyrir að ríkisvaldið hefur í gegnum tíðina sífellt gengið lengra á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklingsins.

Þriðji heimur, þeir sem hingað kíkja mun finna óyggjandi sannanir fyrir því að auðlindir heimsins, þar á meðal fólk, er stjórnað af mjög auðugum ættum sem byggja á gömlum auði heimsins, sem þær viðhalda með nútímalegri fjárkúgun sem felst í því að skuldsetja hagkerfi þjóðanna. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að sjá meira.

Fjórði heimur, þeir sem í þennan heim sjá munu komast að því að það eru til leynileg samtök manna s.s. Illuminatti, frímúrarar ofl. sem styðjast við forna dulspeki, táknfræði og helgisiði. Þessi samtök eru byggð upp á svipaðan hátt og pýramídi þannig að upplýsingarnar færast frá breiðum grunni upp á toppinn þar sem þær komast í þjónustu fámenns hóps án þess að þeir sem starfa á lægri stigum hafi nokkra hugmynd um hvernig . Halda allt eins að þeir starfi í góðgerðasamtökum. Um níutíu prósent fólks, sem þó þetta sér, mun ekki sjá til næsta heims.

Fimmti heimur þar sem lærist að með leyndarhyggju hefur verið svo langt á veg komist að tæknilega er fjarhrifum, tímaflakki og heilaþvotti engin takmörk sett. Með því móti er hægt að stjórna hugsunum og gerðum fólks þannig að það gegnir, líkast því og þegar við segjum börnunum að fara að sofa. Líkt og á dögum syndaflóðsins er ákveðin tækni notuð af ráðandi öflum til að ráðskast með heiminn, rétt eins og ákveðnir menn fari með umboð Guðs.

Sjötti heimur þar sem komist er að því drekar, eðlur og geimverur sem við héldum að væri skálduð skrímsli barnabókmenntanna eru raunveruleg ráðandi öfl á að baki leyndarhyggjunni sem uppgötvuð var í fjórða heimi. Níutíu prósent af fólki í þeim hópi sem sér inn í þennan heim mun lifa og deyja án þess gægjast í þann sjöunda.

Sjöundi heimur er ótrúlegur heimur heilagrar rúmfræði þar sem lögmál alheimsins verða skilin og meðtekin. Frumsköpunarkraftur alheimsins verður að fullu sýnilegur í formi tölulegra "leyndardóma" þar á meðal tilurð tíma og rúms, hliðstæðra heima, og aðgangur að þeim opinberast. Þeir snilldarhugsuðir sem komast í þennan sjöunda heim munu flestir láta glepjast af loforðum um stórfelldan auð úr hendi elítunnar, og þannig munu yfir níutíu prósent þeirra sem hingað komast lifa og deyja án þess að vísa fjöldanum veginn og kynnast þeim áttunda.

Áttundi heimur er þegar við sjáum í gegnum blæjuna sem kom í veg fyrir að við greindum ljós almættisins, þar upplifum við þá hreinu orku sem gengur undir heitinu skilyrðislaus kærleikur og fyrirfinnst í öllu í lífi á jörðu, sem er eitt og hið sama sama í hvaða formi sem er. Djúpstæðrar auðmýktar er þörf til þess að sjá í næsta heim.

Níundi heimur þar sem fullkomnunar hreinnar orku kærleikans er náð með því að verða eitt með almættinu og sköpunar þess. Með fullkomnun þessarar hreinu orku, mun kærleikurinn skapa fullan skilning á því að dauðinn er ekki fórn heldur endurlausn; lífið sjálft verður sannarlega hringferli þar sem þú munt munt líta heiminn á ný með augum saklaus barns, enn með skilningi sem það gaf og varð endanlega til við að uppgötva skilyrðislausan kærleika lífsins.

Það kaldhæðnislega er að því meira sem þeir upplýsa sem færir eru um að sjá umfram fjöldann, þeim mun geðveikari eru þeir taldir vera af fjöldanum. Jafnvel svo veikir að nauðsynlegt hefur talist að loka svoleiðis samsæriskenningasmiði inn á hæli, eða meðhöndla á þann hátt sem hentar tíðarandanum og auðkenna þá sem væntanlega hryðjuverkamenn. Í fyrstu tveimur heimunum lifir og hrærist yfirgnæfandi meirihluti fólks. Munurinn á þeim fyrsta og öðrum er í meginatriðum sá að þeir sem þekkja innviði annars heims útvega stjórnmálamönnum meðvitað fallbyssufóður á vígvöllinn með því kjósa þá áfram í hreinni firringu. Þeir sem hafa heimsótt 3 – 5 heim gera ríkisvaldinu erfiðra fyrir að hygla elítunni með ábendingum sínum, en með því fórna þeir oft tengslum við vinafólk og fjölskyldu. Verðlaunin verða svo þau að vera taldir ruglaðir af megin þorra fólks.

sinister-santa

Ekki þurfti samt háskólagráðurnar hans A. True Ott til að uppgötva þetta allt saman. Í þjóðsögunum íslensku má vel sjá að fólk hafði vitneskju um hina ýmsu heima í gegnum aldirnar sem þykja kannski ekki eiga erindi við daginn í dag. Þriðja bindi þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar hefur að geima álfasögur og þar má finna söguna af Steini á Þrúðvangi, sem var bóndi á austanverðu Íslandi skömmu eftir að kristni var meðtekin, og samtali sem hann varð vitni að þar sem hann dormaði á milli svefns og vöku á jóladag; „,,,sjáið samt til að elskan hvort heldur á hlutum til dæmis auðæfum eður persónum verði svo sterk að elskan til Guðs tapist með öllu. Í einu orði ef þér gætuð viðhaldið þessum tveimur grundvallarstólpum Lúsífersríkis, hatri og óleyfilegri elsku, þá mun allt annað illt leggjast til: Guð og hans orða forakt, óhlýðni við yfirboðarana, manndráp, hórdómur og blóðskammir, þjófnaður lygar og að ég ei tali um allra handa vondar girndir.“ Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er útgáfa sögunnar af Steini á Þrúðvangi mun styttri, en þar segir af því þegar menn fréttu af vitrunum hans; „Könnuðust menn þá við anda þessa og það voru þeir sem menn kalla jólasveina. Ganga þeir um byggðirnar og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn.“

Líkt og með jólasveinana sem voru einn og átta samkvæmt þjóðvísunni, þá hafði goðafræðin sína níu heima til að skýra myndina. Nú nægir einn heimur með einum jólasveini.

 
Ps. Þessi pistill hefur birst áður hér á síðunni 19. apríl 2015 og er nú endurbirtur í tilefni vetrar.

 


Hús úr holu

Underground-Home-2

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn.

Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem er eftirlitskylt af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins. Þar að auki verður sá sem framkvæmir að fá öll herlegheitin samþykkt í sveitarfélaginu þar sem húsið skal standa. 

Marteinn Mosdal - hvað?

Tryggvi Emilsson segir frá því, í bók sinni Baráttan um brauðið, þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi á Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Earth_house_interior1

Útsýnið eins og það gæti verið úr steyptum torfbæ 21. aldarinnar

Nú á tímum stendur ungu fólki ekki til boða aðferð Tryggva ef það vill koma sér upp húsi, til þess hefur verið séð með reglum á reglur ofan svo aurarnir rati í rétta vasa.

Það er því spurning hvort reglugerðirnar nái yfir holur á við þær sem gömlu torfbæirnir voru. Þannig hús hafði Tryggvi fyrst hugsað sér að komast í við Glerána í denn, en hætti við þegar hann sá að hann gæti byggt sitt hús eins og honum þóknaðist. það má segja að steypa og hola geti sameinað helstu eiginleika sem hús þarf að hafa. Þetta megi jafnvel gera fyrir lítið fé, á meðan reglugerðin geri lítið fyrir hús en kosti mikið fé.

eart-house plan

 Grunnmynd af lítilli steinsteyptri einstaklings torfholu

Videoið hér fyrir neðan er um mann sem lét verða af því að koma sér upp holu. Það ætti að vera lítið mál ef land er til staðar og verður ekki séð að reglugerðir og annað opinbert utanumhald þurfi að koma til svo lengi sem holan er ekki fjármögnuð með lánsfé né tengd opinberri stjórnsýslu. Þetta ætti hver sem er að geta gert í garðinum hjá sér. 


Aumasti prestur á Íslandi

Þetta sagði biskup um séra Jón, og lét hann einnig hafa það eftir sér að ekki gæti hann ímyndað sér að til væri vesælli og fátækari prestur í veröldinni. Í bréfi biskups kemur fram að séra Jón hafi flosnað upp, flakkað um verganginn, en börn og kona gengið betlandi bæ af bæ. Séra Jón tapaði oftar en einu sinni aleigunni, meir að seigja sænginni sinni. En hann tapaði aldrei fjölskyldunni.

Einu sinni var það svo að ættfræði þóttu mikil alþýðuvísindi. Eftir að Íslendingabók varð öllum aðgengileg hefur farið minna fyrir þessum fræðum enda getur hver sem er flett sjálfum sér upp í einrúmi og komist að því til hvaða höfðingja rætur liggja. Þó svo gagnagrunnur Íslendingabókar sé ekki tæmandi og stundum tínist þráðurinn er hæpið að hægt sé að bæta við þá vitneskju með frekari eftirgrennslan.

Fyrir rúmum 30 árum síðan var ég heilan vetur hjá afa mínum og nafna. Þá sýndi hann mér ættartölu sína sem honum hafði nýlega verið færð og þótti okkur þetta athyglisvert plagg. Það sem mér fannst merkilegast þá í þessari ættartölu var hvað mikið af Jónum var í ætt afa míns, ekki nóg með að hann hafi verið Jónsson þá hét móðir hans Jónbjörg Jónsdóttir. Ættleggur Jónbjargar fór fljótlega út um víðan völl í eintómum Jónum því það var ekki nóg með þeir væru mann fram af manni heldur voru systkinahópar stundum með tveimur og að mig minnir þremur Jónum, ef einhver Jóninn hafði fallið frá í æsku. Það var samt svo með Jón föður Magnúsar afa að hann var Sigvaldason og síðan var hæfilega mikið af Jónum í þeim legg, þannig að halda má þræði langt aftur í aldir.

Þennan vetur sátum við nafnarnir við eldhúsborðið, sem Jón Sigvaldason hafði smíðað, kvöld eftir kvöld og ræddum horfna tíð og sagði hann mér þá oft hvað það hefði verið bagalegt hvað hann hefði haft lítinn áhuga á ættum sínum á yngri árum því þegar hann mundi fyrst eftir sér hefðu gömlu konurnar haft það alveg á hreinu hver var hvaða Jón.

Þjóðsögurnar hans Sigfúsar Sigfússonar voru svo eitt áhugamálið sem kom til umræðu við eldhúsborðið, svona nokkurn veginn um leið og ég las þær. Þar mátti finna mikla þjóðasagnapersónu sem var Jónsdóttir úr ættartölunni, sem ekki verður gerð skil að þessu sinni. En einn var sá Jón sem við afi minn stoppuðum sérstaklega við, hann var Brynjólfsson, sá sem Hannes biskup Finnsson kallaði „aumasta prest á Íslandi“. Nú á dögum er því sem næst hægt er að kalla fram hvaða Jón sem er úr fortíðinni á alheimsnetinu, svo ekki sé talað um séra Jón, þar sem má nánast fá ævisöguna alla.

Þegar forvitnast er um séra Jón Brynjólfsson kemur í ljós að hann var ekki eins aumur og orð biskups gefa til kinna, ef miðað er við þróunarkenninguna, því hann mun nú vera einn af helstu ættfeðrum austfirðinga. Þó svo 225 ár séu á milli mín og séra Jóns, þá er tiltölulega fljótlegt að fletta honum upp á netinu þannig að heillegt æviágrip fáist og ekki er verra að fræðimaðurinn Ármann Halldórsson hafði gefið út bókina Mávabrík fyrir daga netsins þar sem hann hefur tekið saman efni viðkomandi ævi Jóns Brynjólfssonar.

Það er yfirleitt meira vitað um presta en alþýðufólk fyrr á tíð, af þeirri einföldu ástæðu að þeir þurftu að fylla út kirkjubækur og skrifuðu talsvert um sjálfa sig í því málavafstri sem bréflega fór á milli þeirra og yfirvalda. Í þetta efni sökkti Ármann Halldórsson sér í ellinni og sagðist hafa gert það a.m.k. tveimur orsökum. Séra Jón Brynjólfsson og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir, eru einhverjir mestu ættarforeldrar á Austurlandi. Önnur er sú að ævi hans er söguleg, því að líklega er um að ræða átakanlegustu fátækrasögu nokkurs manns í prestastétt. Eins sver Ármann ekki fyrir, að áhugi hans á þessum örsnauðu presthjónum hafi með það að gera að hann á ætt til þeirra að rekja.

Íslendingabók hefur þetta æviágrip að geyma; Jón Brynjólfsson Fæddur um 1735, látinn á Ormsstöðum í Eiðasókn, S-Múl. 15. febrúar 1800. Djákn á Skriðuklaustri 1758-1760. Prestur á Hjaltastað í Útmannasveit 1760-68, Skeggjastöðum á Langanesströnd 1768-76, mun þó hafa flosnað upp þaðan 1775. Kom börnum sínum og konu sinni fyrir á Austurlandi en fór sjálfur suður á land þá strax. Þjónaði Landþingum veturinn 1776-77 og settur prestur í Holtaþingum í Landsveit mestallt árið 1779. Fékk Fjarðarsókn í Mjóafirði, S-Múl. 1780 og var þar í Firði 1780-83, kom þangað sunnan úr Holtum í Rang. Var á Hesteyri í Mjóafirði 1783-84 og Krossi í Mjóafirði 1784-85 er hann fór að Eiðum. Prestur á Eiðum í Eiðaþinghá frá 1785 til dánardags 1800.

Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir fædd í Eyvindarmúla í Fljótshlíð 1744, látin í Dölum í Hjaltastaðaþinghá 4. september 1834. Prestfrú á Eiðum. Vinnukona í Krossavík, Refsstaðarsókn, Múl. 1801. Barnfóstra á Hofi, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1816. Faðir Jóns var kallaður Brynjólfur allstaðar Markússon eða „Tuttugubýla Brynki“.

Eiðavinir hafa tekið þetta saman á vefinn sinn um Jón Brynjólfsson (1735-1800) varð prestur á Eiðum 1785. Kona hana var Ingibjörg, systurdóttir Hans Wium (Bóel). Jón var Sunnlendingur, og hafði gegnt prestþjónustu á ýmsum stöðum, m.a. á Austurlandi, en hafði lengst af búið við sára fátækt og ómegð, svo mjög að Hannes biskup kallar hann „aumasta prest á Íslandi“ í bréfi 1792, enda hafði hann oftar en einu sinni komist á vonarvöl. Hans Wium aumkar sig yfir þennan, tengdamann sinn, og byggir honum Eiða 1785, og þar kallast hann bóndi næstu árin.

Nokkru áður en Hans lést (1788) hafði hann selt Þórði Árnasyni mági sínum Eiðastól. Flutti Þórður í Eiða 1789 og hrökklaðist séra Jón þá í Gilsárteig og síðan í Ormsstaði, sem þá voru í eyði, bjó þar til æviloka árið 1800, og virðist hafa búnast sæmilega. Þau hjón áttu fjölda barna; af þeim komust 10 á legg og 9 eignuðust afkomendur. Er mikill ættbogi af þeim kominn. Þar á meðal eru nokkrir helstu fræðimenn og rithöfundar Austurlands, svo sem Jón Sigurðsson í Njarðvík, Halldór Pétursson frá Geirastöðum, Sigurður Óskar Pálsson og Ármann Halldórsson, en hann ritaði þátt um forföður sinn og birti í bók sinni Mávabrík (1992).

Það má kannski segja að litlu væri við þetta að bæta ef ekki kæmi til Mávabrík Ármanns Halldórssonar. En þar kemur fram rétt eins og hjá Eiðavinum að Ingibjörg Sigurðardóttir kona Jóns var dóttir Bóelar, dóttur Jens Wium sýslumanns, sem var systir Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Jón var sunnlenskur að ætt og ekki gott að sjá hvort hann var fæddur í Rangárvalla eða Árnessýslu því eins og kemur fram í viðurnefnum föður hans, tuttugubýla Brynka eða Brynjólfur allstaðar, bjó hann víða.

Það er á Skriðuklaustri undir verndarvæng Hans Wium sýslumanns sem Jón Brynjólfsson hefur sinn starfsferil, sem djákni því þó svo að hann hafi þá verið búin læra til prests hafði hann ekki aldur til vígslu. Ingibjörg sem átti eftir að verða kona hans er fædd á Suðurlandi en hefur sennilega alist upp á Austurlandi og þau kynnst þar. Sigurður faðir hennar var sunnlenskur og hafði hann farið með klausturumboð á Suðurlandi, en drukknaði í Lagarfljóti og hefur þá sennilegast búið á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð því Bóel kona hans var yfirleitt kennd við Surtsstaði.

Jón hafði útskrifast frá Skálholtsskóla 1755 og var djákni á Skriðuklaustri 1758-1760, þegar hann vígist í Skálholti sem prestur á Hjaltastað. Eldklerkurinn Jón Steingrímsson var vígslubróðir hans og áttu mestu harðindi Íslandssögunnar eftir að marka líf þeirra beggja. Jón og Ingibjörg giftast 1765 en árið áður fæðist elsta barn þeirra. Ingibjörg hefur sennilega talist vera það sem kallað var ættgöfug manneskja því hún var af Wium ætt sem stærði sig af tengslum við dönsku konungsfjölskylduna. Afi hennar Jens Wium var danskur og hafði komið til Íslands sem undirkaupmaður við Reyðarfjörð og varð síðar sýslumaður í Múlaþingi með aðsetur á Skriðuklaustri.

Þau Ingibjörg og Jón eru á Hjaltastað til ársins 1769 og höfðu þau þá eignast þrjú börn, þau Sigurveigu, Elísabetu og Brynjólf. Þá taka þau sig upp og flytjast í Skeggjastaði á Langanesströnd, ekki er vitað hvað varð til þess. Þar er Jón prestur til 1775 en þá flosnar hann upp. Það að flosna upp þýðir á þessum tíma að verða matarlaus, heylaus og jafnvel eldiviðarlaus. Þá höfðu bæst við í barnahópinn Sigurður, Bóel, Níels og Kristín. Í bókinni Árferði á Íslandi í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen, segir að 1774 hafi stórharðindi verið í Múlasýslum og fólk dáið úr hungri, 60 manns í Norður-Múlasýslu „og presturinn á Skeggjastöðum flosnað upp og yfirgefið brauðið.“

Til eru heimildir um hvernig brotthvarfi séra Jóns var háttað, m.a. vegna þess að hann var sakaður um að hafa selt pott sem hann hafði veðsett. Biskup segir í bréfi vegna þess máls að ekki sé rétt að sakfella Jón vegna pottsölunnar þar sem hann hefði selt hann í neyð og kaupandanum hafi verið fullkunnugt um veðböndin sem á pottinum hvíldu. Eins kemur fram í ferðabók Olaviusar, sem kemur í Skeggjastaði nokkrum árum eftir brottför Jóns, að Skeggjastaðir séu eitt lélegasta brauð í öllu landinu.

Sagt er í Íslendingabók að Jón hafi komið fjölskyldunni fyrir á bæjum á Héraði eftir brottförina frá Skeggjastöðum og sjálfur farið suður á land og haldið þar til næstu árin. Ármann Halldórsson telur þó að fjölskyldan hafi verið með honum á Suðurlandi þann tíma, nema þá Sigurður sem hafi verið hjá Bóel ömmu sinni á Surtsstöðum. Það merkir hann m.a. á því að Ólafur sonur þeirra hjóna fæðist fyrir sunnan og þá sennilega Guðrún. Eins það að Bóel dóttir þeirra giftist og staðfestist síðar á Suðurlandi. Bendir það til þess að annaðhvort hafi hún átt þar tengingu frá æskuárum eða orðið þar eftir þegar fjölskyldan flutti aftur austur.

Árin 1776-1780 á Suðurlandi voru Jóni erfið en þar er hann sagður hafa þjónað í Land- og Holtaþingum tímabundið og í afleysingu, þess á milli er hann talin hafa hokrað eða jafnvel verið á vergangi við að framfleyta sér og sínum. Þó að biskup hafi verið honum innanhandar með íhlaupaverkefni þá hafi hest og klæðleysi stundum komið í veg fyrir að hann gæti nýtt sér það. Jón hafði haft von um að komast að sem prestur í Einholti á Mýrum í Hornafirði þegar hann fór frá Skeggjastöðum, en af því varð ekki.

Það var ekki fyrr en 1780 að Jón var aftur settur sem sóknarprestur og þá í Firði í Mjóafirð, en þar var bændakirkja þannig að jörðin var öll í bændaeign en kirkjan hafði hana hálfa fyrir prestinn. Þegar Jón kom með fjölskylduna í Mjóafjörð var fyrrverandi prestfrú í Firði, þannig að fjölskylda Jóns hafði ekki í önnur hús að venda en kirkjuna fyrst um sinn. Skömmu eftir að þau komu í Fjörð keypti Hermann Jónsson Fjörð af gömlu prestfrúnni,sem var tengdamóður hans, og flutti úr Sandvík í Mjóafjörð. Samdist þeim séra Jóni um að Hermann hefði Fjörð allan gegn því að hann greiddi ákveðna upphæð til Jóns fyrir að láta eftir afnot af kirkjuhluta jarðarinnar.

Jón flutti sig síðan út á Hesteyri þar sem kirkjan hafði ítök í henni hálfri og var þar með lítilsháttar búskap auk þess að drýgja preststekjur sínar með smíði. Hermann greiddi honum ekki alla þá umsömdu upphæð fyrir að víkja af Firði, taldi það eiga að ganga upp í viðgerð á kirkjunni, sem hefði látið á sjá í Jóns tíð í Firði. Fjölskyldan flytur síðan út í Kross sem er yst í Mjóafirði og hefur þá verið löng leið fyrir séra Jón að fara til að messa í Fjarðarkirkju inn í fjarðarbotni. Það virðist vera að Hermann hafi fengið Mjófirðinga á sveif með sér í að hrekja Jón og fjölskyldu úr Mjóafirði.

„Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harð bannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir.“ (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)

Þau voru tvö stór áföllin sem dundu á séra Jóni og fjölskyldu í Mjóafirði. Annað var koma Hermanns í Fjörð og hin voru móðuharðindin sem gengu yfir landið 1783-1785. Sumarið 1784 reikuðu um sveitir landsins uppflosnað fólk máttvana af hor og hungri. Því auk eiturmóðunnar hafði veturinn á undan verið óhemju harður, firði hafði lagt út til ystu annesja og víða náði frostið hátt í metra ofaní jörðu. Hörmungarnar léku búsmalann jafnvel enn verr en mannfólkið, sem stráféll úr hor og hungri.

Þann 10. júní sumarið 1784 skrifaði, Jón Sveinsson sýslumaður S.Múla sýslu, sem hafði aðsetur á Eskifirði, bréf sem fór með vorskipinu frá Djúpavogi til Kaupmannhafnar þar sem m.a. mátti lesa þetta; „... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel nú í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti,,, verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara yðar þrautpíndu fátæku undirsáta ...“. Það var við þessar aðstæður sem Hermann í Firði átti samtalið við prestfrúna á Krossi.

Það fór svo að séra Jón hrökklaðist úr Mjóafirði, en fram á vor dvelur hann samt í Firði undir verndarvæng Hermanns, eftir að fjölskylda hans hafði verið leyst upp á og send burt úr firðinum. Hermann hafði af manngæsku tekið að sér framfærslu prestsins gegn 16 ríkisdala meðgjöf, sem ekki kemur fram hver átti að greiða. Þegar Jón yfirgefur Mjóafjörð hirðir Hermann af honum smíðaverkfærin og sængina upp í skuld. Innheimtuaðgerðir Hermanns á hendur Jóni stóðu lengi yfir. Rúmum sex árum seinna, árið 1791, kærir Hermann hann fyrir kirkjustjórnarráði, stiftamtmanni og biskupi, að því er virðist vegna vangoldins uppihalds og skuldar við kirkjuna í Firði. Þá eru Jón og fjölskylda búin að búa bæði á Eiðum, Gilsárteigi og komin Ormsstaði.

Eiðavinir segja hér að ofan, að svo virðist sem Jóni hafi búnast sæmilega síðustu árin á Ormsstöðum. Það þó svo að bærinn hafi verið í eyði árin á undan og jafnvel talin óíbúðarhæfur þegar fjölskyldan kom í Ormsstaði. Ályktanir um góðan búskap telur Ármann Halldórsson vera dregnar af gerðabók hreppstjóra Eiðahrepps um tíundarskýrslu. Þar koma fram gjöld frá Ormsstöðum og að eitt árið hafi einungis tveir bæir í hreppnum verið hærri gjaldendur. En þá ber til þess að líta að börn hjónanna voru uppkominn og þeir Brynjólfur og Níels vinnumenn heima á Ormsstöðum.

Séra Jón þjónaði á Eiðum í 15 ár eftir að hann kom upp í Hérað úr Mjóafirði, en hafði sótt um lausn snemma árs 1800, stiftamtmaður synjaði honum viðstöðulaust um lausnina fyrr en á fardögum 1801. Það bréf barst Jóni aldrei því þegar bréfið kom í Ormsstaði "þá hafði séra Jón fengið lausn fyrir fullt og allt eftir armæðusamt líf og átakanlega ævihagi". Ingibjörg átti langt líf fyrir höndum þar sem ekki er alltaf kunnugt um hvar hún dvaldi, en hún lést 91 árs að aldri í Dölum Hjaltastaðþinghá hjá Ólafi syni sínum.

Börn þeirra hjóna eru talin hafa orðið alls 13 og 10 þeirra komust til fullorðinsára, Sigurveig þeirra elst fædd á Hjaltastað og Magnús þeirra yngstur fæddur í Mjóafirði. Er ekki óvarlegt að ætla að einhver barnanna þriggja sem ekki komust til fullorðins ára, hafi látið lífið í móðuharðindunum. Um þau er lítið vitað annað en að ein stúlka mun hafa heitið Bolette. Í Íslenskum æviskrám segir: Mikill kynbálkur er af séra Jón Brynjólfssyni og Ingibjörgu Sigurðardóttir, margt myndarfólk. Í ættum Austfirðinga segir: Margt var efnalítið af afkvæmi hans, en margt vel greint og góðsemdarfólk og ráðvant.

Nú þegar ég hef rakið í Íslendingabók ættartölu til "aumasta prests á Íslandi" og rifjað upp það sem við afi minn ræddum við eldhúsborð Jóns Sigvaldasonar um árið, hef ég m.a. komist að því að Jón Sigvaldason faðir afa míns átti báðir ættir að rekja til séra Jóns og Ingibjargar. Móðir hans Guðrún Jónstóttir var komin af Níels sem var bóndi á Hrollaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Og faðir hans Sigvaldi Einarsson var komin af Sigurveigu elsta barns þeirra presthjónanna, hún var húsfreyja í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá. þau Guðrún og Sigvaldi voru þremenningar.

Það er ekki laust við að ég finni fyrir stolti yfir því að eiga ættir að rekja til svo þrautseigra og samheldinna hjóna, sem létu ekki erfiðleika sundra fjölskyldunni. Eins fyrrverða ég mig ekki fyrir það að eiga jafnlangt genin að sækja til annars austfirsks ættarhöfðingja, sem var Hermann Jónsson í Firði. En um Hermann er sagt í Íslendingabók; Hár vexti og sæmilega gildur. "Heldur þótti hann eigingjarn en ekki nískur, ráðríkur og ágengur nokkuð". Og í íslenskum æviskrám: "Var héraðshöfðingi í sveit sinni, auðgaðist mjög að jörðum og lausafé, búmaður góður og mikill atorkumaður til sjósóknar, rausnsamur og stórgjöfull við fátæklinga". Þetta fólk varð fyrir þeirri ógæfu að leiðir lágu saman í Mjóafirði, þegar yfir gengu mestu hörmunga ár Íslandssögunnar.

 

Ps. Ofanritað birti ég hér á síðunnu 14. apríl 2017. Við það væri litlu að bæta ef ekki kæmu til Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar. Þar segir í VIII bindi, í þætti um Hermanni Jónsson í Firði, af viðskiptum þeirra Hermanns og presthjónanna í Mjóafirði. Flest er það með blæ þjóðsögunnar. En að auki er haft eftir úr Árbók Espólín um séra Jón Brynjólfsson: "Hann hafði þolað hrakningar fyrri af Hermanni Jónssyni í Firði í Mjóafirði er þar var hreppstjóri og brokkur mikill." Málaferli mynduðust á milli prests og Hermanns af áðurgreindum sökum og fleirum.

Sigfús Sigfússon segir síðan af ferð sem Hermann fór gangandi upp á Hérað um vetrartíma.

Þar með iðraðist hann breytni sinnar við Jón prest og Ingibjörgu og vildi ná sættum af þeim. Víkur nú sögu upp að Eiðum. Það var einn dag að prestur kom út og sá mann koma álengdar. Hann gengur inn og segir við Ingibjörgu: -"Nú kemur Hermann hérna að framan, ég þekki hann af bláu hosunum hans. Mun hann nú vilja ná sættum ef mig grunar rétt. Heldurðu að þú getir fyrirgefið honum?" -"Nei", segir hún, "það er alveg ómögulegt að fyrirgefa honum, ef ég gæti skyldi ég gera það." -"Guð styrki þig, barn". Segir prestur; "ég fyrirgef honum af hjarta" segir hann og gengur í kirkju. Þóttist hún vita að hann baðst fyrir. En svo undarlega brá við að þegar Hermann kom var henni runnin öll reiði við hann og þakkaði hún bæn prests það síðan. Eftir það rippaði Hermann sakir þeirra og bað auðmjúklega þess að þau sættust við sig. Gekk það fyrir sér auðveldlega. Þá bar Hermann fram stórgjafir er hann skenkti þeim. Fór þá allt vel á með þeim og skildust þau vinir og héldu það vel.


Penigana eða lífið

Var vinsæll frasi í bófaleiknum í denn. Auðvitað vildi maður halda lífi, og ef maður afhenti ekki peningana þá var maður úr leik hvort eð var. Stundum var formáli frasans "upp með hendur niður með brækur" og svo "peningana eða lífið". Þá vandaðist málið því sjálfsvirðingin leyfði ekki að maður tæki niðrum sig áður en maður afhenti peningana fyrir það eitt að fá að halda lífi í þykjustuleik. Það má segja að frasinn hafi með þeim formála verið á svipuðu kalíberi fyrir heilabúið og spurningin um það hvað væri líkt með krókódíl.

En þegar til alvöru lífsins kemur, hvort verður þá fyrir valinu peningarnir eða lífið? Svarið vill oft verða nokkuð snúið, en ætti auðvitað að vera núið. Rétt eins og maður vildi ekki rífa niður um sig brækurnar í þykjustuleik. Það er bara í núinu sem maður hefur lífið og ef maður ætlar að geyma sjálfsvirðinguna þangað til á morgunn gæti maður allt eins hafa tapað bæði lífinu og peningunum þegar sá dagur birtist, með allt niðrum sig.

Hvað þá ef maður bara rífur niður um sig brækurnar og afhendir peningana? Það er nú reyndar einmitt það sem margir gera með því að vanda t.d. val á menntun burt séð frá hvar áhugamálið liggur. Telja sig gera það í skiptum fyrir fjárhagslegt öryggi í framtíðinni, áhyggjulaust ævikvöld og allan þann pakka. Eru jafnvel á ævilöngum harðahlaupum eftir framtíðar gulrótinni. Koma sér upp bókhaldslegu talnaverki í banka til síðari nota, eða það sem ekki er síður í móð að koma upp kretid bókhaldi sem kemur peningum í framtíðar lóg.

Þó það sé erfitt að skulda peninga þá hafa margir bent á að það sé enn erfiðar að eiga þá. Heimsspekingurinn Gunnar Dal sagði í viðtalsbók að hann þekkti engan sem ætti peninga. Hann þekkti einungis örfáa menn sem ættu einhverjar milljónir um stund, yfirleitt færi það svo að þegar þær stoppuðu við hjá einhverjum þá ættu milljónirnar manninn. Dæmi væru um að svo rammt kvæði að eignarhaldinu, eftir því sem á ævina liði, að fólk sem talið var forríkt dó úr hungri af því að það hélt að það gæti eignast örlítið meiri pening rétt áður en það lenti í gröfina.

Einn ónefndur nafni minn, sem var bóndi upp í sveit, var talinn eiga aura. Þegar hann fékk sölumann landbúnaðarvéla í heimsókn hafði hann unnið hörðum höndum langa ævi og vildi sölumaðurinn létta honum erfiðið í ellinni með því að selja honum skítadreifara. Nafni taldi að sú fjárfesting borgaði sig ekki úr því sem komið væri. Sölumaðurinn benti honum góðfúslega á að ekki færi hann með peningana með sér yfir um, "og hvað þá skítadreifarann" ansaði gamli maðurinn.

Það er því spurning hvort að formálinn upp með hendur niður með brækur auðveldar ekki ákvarðanatökuna um peningana eða lífið þegar öll kurl koma til grafar. Og varðandi það, hvað sé líkt með krókódíl þá er fræðilega svarið, að hann getur hvorki hjólað.

 


Fjárborgir

Fjárborg

Það er oft svo að í landslaginu meðfram veginum leynast mannvirki sem eftirtektin missir af, og þó svo tekið sé eftir þeim þá veit maður ekki hverrar gerðar þau eru og telur þetta stundum í fljótu bragði vera náttúrusmíð eða jafnvel eitthvað dularfyllra.

Þannig var því eitt sinn háttað þegar ég var á ferð skammt austan við Lönd við Stöðvarfjörð; óveðursnótt í myrkri, regni og roki. Skyndilega keyrði ég inn í heim annars tíma, á milli hlaðinna grjótgarða og torfveggja. Þó ég hafi farið þarna um oft síðan, þá tókst mér ekki að staðsetja hvar þessi mannvirki hefðu verið fyrr en nýlega.

Það gerðist þegar ég frétti hvar Bæjarstaðir hefðu verið. En fram að því hafði skýringin á þessari sýn minni, óveðursnóttina fyrir meira en 30 árum síðan, verið fyrir mér nánast yfirnáttúruleg. En þetta helgaðist af því að vegagerð stóð yfir, þegar ég var þarna á ferð og hafði vegstæði þjóðvegarins verið fært þannig að það liggur í genum hlaðið á Bæjarstöðum sem löngu voru komnir eyði. Næst þegar ég fór þessa leið var búið að jafna við jörðu þeim ummerkjunum um Bæjarstaði, sem voru enn við vegkantana á meðan vegagerðin stóð yfir.

IMG_2393

Því er ekki þannig farið með fjárborgina að Ósi í Breiðdal, en hún stendur í vegkantinum á þjóðvegi eitt og er greinileg sem hringur í landslaginu. Samt var það ekki fyrr en nýlega sem ég sá hana, þó svo að ég hafi keyrt fram hjá henni fleiri hundruð sinnum. Það var frásögn í bók sem fékk mig til að finna það út hvar fjárborgin er og þegar ég fann hana undraðist ég sjónleysi mitt fram að þeirri stundu. 

Í bókinni um Knútsbyl sem geisaði 7.janúar 1886, og Halldór Pálsson skráði frásagnir af, er örstutt lýsing höfð eftir Sigurði Jónssyni um það hvernig fjárborgin á Ósi í Breiðdal var notuð. "Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt."

IMG_0435

Önnur fjárborg sem er mikið mannvirki er á Skógum í Mjóafirði og þar háttar þannig til að beygja hefur verið gerð á þjóðveginn þannig að keyra þarf því sem næst hálfhring í kringum hana. Það er því erfitt að láta þær manngerðu grjóthleðslur fara fram hjá athyglinni. Fjárborgin í Mjóafirði er á Þjóðminjaskrá, eftir að hafa verið friðuð í tíð Kristjáns Eldjárns. 

Fjárborgir eru víða á Íslandi þó eru þær helst sagðar á Suður- og Austurlandi. Á vefnum ferlir.is hefur fjárborgum í grennd við höfuðborgarsvæðið verið gerð góð skil, eins er grein Birnu Lárusdóttir í Árbók fornleifafélagsins 2010, heill hafsjór af fróðleik um þessar steinahrúgur.

Árið 1778 kom út á Íslandi rit, eftir Magnús Ketilson, um fjárborgir og gagnsemi þeirra. Þessu riti var dreift um landið bændum til halds og trausts við gerð slíkra mannvirkja, en þau taldi Magnús að kæmu að góðu gagni. Hann sagði vera mun á fjárborg og fjárbyrgi, samkvæmt skilgreiningu Magnúsar gæti mörg borgin flokkast sem byrgi. Sama hvort var þá voru báðar byggingarnar notaðar til að veita sauðkindinni skjól. Talið var að á Austurlandi einu væru til eiginlegar fjárborgir samkvæmt skilgreiningu Magnúsar, og þar hélt hann að þekkingar mætti afla um byggingu þeirra.

Fjárborg á að hafa verið hringlaga grjóthleðsla, samkvæmt riti Magnúsar, sem mjókkaði þegar ofar dró og myndaði þak í toppinn, þesslags bygging var því nokkurskonar fjárhús. Fjárbyrgi var aftur á móti hlaðinn hringur úr grjóti og torfi sem hafði lóðréttan mannhæðar háan vegg úr grjóti að innanverðu, en var tyrfður að utan með aflíðandi halla og með lágri lóðréttri torf hleðslu ofan á veggnum, þetta lag gerði það að verkum að þegar skóf snjó þá lyftist skafrenningurinn yfir byrgið og féð fennti ekki, auk þess að hafa fullkomið skjól. Bæði byrgin og borgirnar höfðu hurð sem var staðsett þar sem minnst var áveðurs. 

Þegar Daniel Bruun ferðaðist um landið á árunum 1890-1910 við að skoða og skrásetja íslenskt þjóðlíf og mannvirki, þá tók hann eftir þessum hringlaga borgum. Hann tók fjárborgir á Reykjanesskaga til sérstakrar athugunnar, sem voru bæði hlaðnar opnar, eða saman í toppinn. Bruun taldi að rætur þessa byggingarlags mætti rekja til Hjaltlandseyja eða Írlands.

IMG_2122

Sumarið 2017 var ég á ferð í Færeyjum, nánar tiltekið á Sandey. Í bæ á þeirri eyju, sem heitir Húsavík rak ég strax augun í grjóthrúgöld sem mér þótti líklegt að væru fjárborgir. Þegar ég fór að þessum hrúgum kom í ljós að svo var og það sem meira er að þarna eru þær í fullri notkun, það jarmaði innan úr einni borginni. Í Húsavík er mikið af fornum steinbyggingum og hef ég einhversstaðar séð að sú húsagerð eigi að sanna keltnesk áhrif í Færeyjum fyrir tíma víkinga.

Hvað telst til fjárborga er oftast skilgreint sem svo að um sé að ræða lokað mannvirki, jafnvel með þaki, sem sé einungis byggt úr grjóti, ekkert timbur né annað notað í burðarvirki eða þak, nema þá torf. Orðabók Máls og menningar hefur þessa skýringu á orðinu fjárborg; grjótbyrgi fyrir fé út á víðavangi, veggirnir látnir dragast saman að ofan, eða reft yfir, með engri jötu. Sumir hafa viljað meina að margar hringlaga borgir, sem teljast til fjárborga, hafi upphaflega ekki verið byggðar sem slíkar, heldur dómhringir, virki eða nokkurskonar helgistaðir, jafnvel komnir úr keltneskum sið. Síðar hafi það komið til að þessi mannvirki voru notuð sem skjól fyrir sauðfé.

IMG_0836

Á bænum Bragðavöllum í Hamarsfirði eru miklar og listilega vel gerðar grjóthleðslur í túninu. Ef ekki væri eins stutt síðan og raun ber vitni að þær voru hlaðnar, þá myndu þessar hleðslur vekja spurningar sem erfitt væri að svara, væru sennilega dularfull ráðgáta. En haustið 1906 komu skriður í miklum rigningum úr giljum ofan við túnið og runnu ótrúlega langar leiðir á því sem næst jafnsléttu.

Þegar Bragðavalla menn hreinsuðu aurinn og grjótið úr túninu, hlóðu tveir daufdumbir bræður grjótinu upp í tvöfaldan vegg, til að setja aurinn og smærri steina á milli, svo skriðan tæki sem minnst pláss í túninu. Þessi hleðsla er mikið augnayndi og ef menn vissu ekki tilurð þessa mannvirkis er næsta víst að það þætti dularfyllra en svo að þar hefði tilgangurinn einungis verið að hreinsa grjótið úr túninu.

IMG_2481

Það er fátt sem minnir lengur á Bæjarstaði, þar sem þjóðvegur eitt liggur nú um hlaðið, annað en tóftarbrot á stangli, og svo grjótgarðurinn ofan við tún

 

IMG_4160

Fjárborgin að Skógum í Mjóafirði er farin að láta á sjá, þrátt fyrir að vera á þjóðminjaskrá. Í sumar frétti ég að fengist hefði fjárveiting til lagfæringa

 

IMG_2038

 Fjárborgaþyrping á Sandey í Færeyjum, þar er þeim haldið við enda ennþá í fullri notkun

 

IMG_2060

 Færeysk fjárborg í Húsavík

 

 IMG_0838

Meira ern 100 árum seinna ber steinhleðslan í túninu á Bragðavöllum daufdumbum bræðrum veglegt vitni, sem listilega vel gerður minnisvarði um aurskriðu


Myrkrið í ljósinu

Í dag eru jafndægur að hausti. Næsta ársfjórðunginn mun því dimma með hverjum deginum. Þó svo slökkt yrði á öðru hverju ljósi á Íslandi þá mun birtan frá þeim sem á eftir loga samt sem áður næga til þess að flestir sæju betur í myrkrinu, eftir en áður. Er það því ekki undarlegt hvernig rándýr raflýsing er notuð til að búa til myrkur?

Nú mun sjálfsag einhver hugsa sem svo að þetta sé nú meira endemis bullið, síðuhöfundur hljóti að vera eitthvað ruglaður. Að sérviska sem setur sig á móti raflýsingunni í skammdeginu sé undarleg bilun. En staðreyndin er engu að síður sú, að þegar raflýsing er orðin eins fyrirferðamikil og raun ber vitni þá getur hún orðið til að framleiða rándýrt myrkur sem kemur í veg fyrir að umhverfið sjáist. Eins og dæmin sanna. 

Undanfarin ár hef ég tamið mér að ganga eða hjóla til og frá vinnu, allan ársins hring. Þetta geri ég ekki af sérviskunni einni saman, heldur líka samkvæmt læknisráði. Eftir því sem sérfræðingar segja er þessi aðferð nauðsynleg til þess að ég fái nægjanlegt súrefni. Það á víst að vera betra að verða passlega móður og gapa út í loftið. Það sleppur víst ekki lengur, eins og á yngri árum, að draga djúpt andann um leið og maður fékk sér smók.

Á þessum eyðimerkur göngum mínum, á dimmum morgnum, hef ég oft tekið eftir því að ljósið myrkvar umhverfið, nema það sem er rétt fyrir framan tærnar. Á leiðinni er smá spotti sem áhrifa rafljósanna gætir minna. Einmitt þar sé ég best frá mér, en ekki bara svartan vegg þegar ljósinu sleppir. Mér hefur meir að segja stundum sýnst grilla í hulduverur í móunum lengra frá vegkantinum.

Reyndar var ég búin að taka eftir því áður, þegar ég var útlagi í Noregi, að raflýsingin býr til myrkur og kemur í veg fyrir að flest sjáist annað en leiðin inn í næstu sjoppu. Best tók ég eftir þessu, þegar ég af tómri heimþrá kíkti á vefmyndavélar á yr.no, við að taka veðrið á morgnana á mínum heima slóðum. Vegna tímamismunar voru veðurathuganir mínar á morgnanna í Noregi seinni hluta nætur á Íslandi, og því sá ég hvers kyns var. 

131012_1134238_1

Þessar myndir sýna vel hversu myrkvandi raflýsing getur verið á tunglskins bjartri nóttu. Báðar eru þær frá því fimm mínútur í fimm þann 28.11.2012. Það eru einungis örfáir kílómetrar á milli Fjarðarheiðar, þar sem engin raflýsing er, og flóðlýstra gatna á Seyðisfirði. Skær raflýsing hefur svipuð áhrif á sjáaldur augna og ljósop myndavéla

Álfar virðast t.d., rétt eins og sjónin, hverfa við raflýsingu. Gott ef vitið fer ekki líka sé eitthvað að marka kostnaðinn, sem upplýst var í vikunni að sjálftökuliðið við Austurvöll hafði stofnaði til, þegar það ætlaði að lýsa upp dagsbirtuna um hásumar, svo þjóðin greindi betur merkisbera fullveldisins. Á þessu ljósasjói var víst kveikt eftir að liðið hafði girt sig af úti í móum á fyrr um aftökustað þjóðarinnar. Já, þeir eru orðnir fáir staðirnir sem er lausir við ljósið og alls ekki allir sem þola dagsbirtuna.

Þetta er í eina skiptið sem ég hef vitað til að hægt væri að upplýsa álfa með rafmagni, en að það skyldi gerast þegar reynt var að yfirgnæfa dagsljósið um hábjartan dag gat náttúrulega ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug fyrirfram. Það væri vel þess virði að nýta þessi rándýru uppgötvun og halda við girðingunni utan um fullveldis álfana svo hafa megi þá til sýnis fyrir túrista þarna lengst út í móum ásamt norðurljósunum. En þá þyrfti líka að bæta stólum og kömrum við kostnaðinn.

Á dimmri nóttu s.l. vetur vorum við Matthildur mín á ferð við Streitishvarf,alveg grunlaus um hve stutt væri í þann tímamóta viðburð að dagurinn yrði raflýstur. Við eiðbýlið, Streiti, er smá kafli á þjóðveginum sem ekkert rafmagnsljós nemur. Allt í einu slökkti ég bílljósin, steindrap á bílnum og snarstoppaði. Matthildur leit andartak upp frá prjónunum og spurði hvað nú væri í gangi. Ég sagði henni að við skildum koma okkur út úr bílnum í einum grænum hvelli. Þarna stóðum við svo eins og agndofa óvitar út á miðjum þjóðveginum í froststilltri nóttinni og göptum upp í himininn án þess að hafa hugmynd um hvað til bragðs skildi taka.

Þarna virtust vera einungis við og stjörnurnar. Á himninum voru þær eins og endalaus hundruð þúsundir ljósa, sem liðu fram af fjöllunum í kring til að lýsa leiðina út í hafsauga. Og ef maður horfði ekki beint í ljós stjarnanna, heldur upp í myrkrið á milli þeirra, þá sá maður varðaðan veginn að hinum óendanlega möguleika. Þó að nærliggjandi móar, klettaborgir og fjallshlíðar sæist eins og á björtum degi væri, þá tókum við ekki eftir nokkrum lifandi álfi, svo hægt væri að leita leiðsagnar um hvort rétt væri að fagna augnablikinu.

Við biðum ekki eftir því að sjá stjórnsýsluálf þessa stjörnubjörtu nótt á Streiti, þó svo umhverfið gæfi til kynna að þar gæti þá verið að finna. Og í stað þess að sogast inní þá ljósum prýddu veröld, sem er orðin okkur venjulegu fólki svo framandi, settumst við upp í bílinn og skröngluðumst áfram þjóðveginn með bæði ljósin logandi, hlustandi Hjálminn söngla.; En gæti ég andað á ný og með augunm skæru örlitla mæðu og stundarkorn leikið mér. Og gluggi og hurð á herbergisveggjunum væru. Og 700 þúsund stólar, ég settist hjá þér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband