14.8.2012 | 19:48
Lítill fugl í svörtu malbiki.
Það kemur fyrir að manni er kippt inn í tilveruna svipað og þegar regndropi skellur á malbiki og verður við það eins og silfraður álfur út úr hól. Undanfarið hafa síðuna skreytt færslur um draumkennt efni og ímyndaðan veruleika. Enda hef ég fílað mig í nokkurskonar sumarfríi frá vinstra heilahvelinu þó svo að 12 tíma smelteverkið hafi verið áfangastaður flestar vikur sumarsins. En á meðan ég naut glamursins í prjónunum hennar Matthildar minnar, ilms frá kaffi og tóbaksreyk þegar ég opnaði augun við geisla morgunnsólarinnar þá datt mér ekkert annað í hug en sumarfrí.
En það var sem sagt í síðustu viku sem við vinnufélagarnir brunuðum Matthildarlausir í norðurhjara sólinni alla leið norður í Finnfjörð, þrjá tíma í gegnum skóga Troms eftir svörtu malbikinu með gulu miðlínunni sem vísar veginn í blindbeygju boga skáhallt niður í smeltevekið, þar sem járnið er brætt og veggirnir múraðir. Af og til tók ég eftir að smáfuglar höfðu hætt sér út á autobanann og verið straujaður samviskusamlega niður í malbikið.
Þegar ég fór að velta því fyrir mér hvaða erindi smáfuglar ættu út á autobanann varð mér litið, þó ekki nema í örskotstund, til hliðar því ekki væri gæfulegt ef ég yrði valdur að því að strauja smáfugli utaní tré tré. Þessi örskotstund gerði það að verkum að ísaldarleirinn slettist til á milli eyrnanna og í hugann kom að réttast væri að stoppa bílinn og hlaupa út í skóga norðurhjarns, fara hreinlega út um þúfur og tína upp í sig ber með smáfuglunum. Hætta sér aldrei aftur út á autobanann og lifa samkvæmt kenningu Krists; "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?"
En úr því varð nú ekki í þetta sinn, því augnabliki seinna sá ég glitta í stórvirka heyrúllubindivél á milli trjánna, bónda pakkandi slægjunni inn í plast og upp í hugann flugu sjaldséðir hvítir hrafnar. Hvernig getur staðið á því að þessir bóndi er ekki komnir á launaskrá hjá smelteverkinu? Ekki getur það verið að nokkur lifandi sála hafi efni á því að versla við hann, ef svo er þá hefur hann ekki efni á nema í mestalagi förgun á rúlluplasti eftir skatt. Það var þá sem þeirri óþægilegu spurningu laust niður í leirpyttinn á milli eyrnanna, með svipuðum afleiðingum og þegar loftbóla springur í hver og drullan sléttast út.; hvort skyldi bóndinn verðleggja sig út af autobananum eða smeltverkið borga of lítð í ferðakostnað?
Það vill þannig til að ökuferðir mínar í þetta fjarlæga smelteverk með hvæsandi málmbræðslu, organdi slípirokkum, brothamarsóhljóðum og öryggisflautum eru farnar því ég hef ekki efni á að vinna í smelteverki heimahaganna þó ég væri uppstílaður sem trúður á kostnað verksins. Auk þess að enda hérna 12 tíma daga að kvöldi, þá get ég huggað mig við að hafa tvöfalda þénustu eftir skatt miðað við vaktaálg heimahaga smelteverksins með ferðakostnaði. Og ekki veitir af í heimi þar sem enginn hefur efni á því lengur að búa heima hjá sér. Íslendingar fara til Noregs til að hafa efni á að standa við sín samkomulög við andskotann, Pólverjar til Íslands og koll af kolli. Hvert skyldu Norðmenn svo fara þegar þeir hafa ekki lengur efni á að búa heima?
Um það bil sem við renndum autobanann á enda niður í hvæsandi smelteverkið settist ísaldarleirinn hljóðlega í sínar skorður á milli eyrnanna og í spegilsléttum huganum gat ég huggað mig við það að hafa nýlega gert þann samning við andskotann að hann fengi hverja krónu sem ég hefði upp úr krafsinu nema í mesta lagi það sem ég þyrfti í baun og bláber. Almættinu sé lof að ég þurfi ekki að brjóta heilann um hvað ég eigi að gera við afraksturinn hvað þá hvort skrattakollurinn sá standi við sinn hluta samkomulagsins..... í þetta sinn.
En þeir sem kynnu að efast um það, en eru ekki alveg tilbúnir að fara út um þúfur með smáfuglunum, ættu kannski að kíkja í bíó og sjá hvernig má bæði vera bóndi og bústólpi í kanntinum á autobananum.
kreppan | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
7.8.2012 | 19:01
Fjörutíu öskur á þykkt.
Hvað þykk getur þögnin verið og hversu hljóðlátur verðu þá hávaðinn? Við erum fædd sem lítil kríli hinna óendanlegu möguleika. Þegar þú stækkaðir byrjaðirðu að spyrja heiminn í kringum þig. En í skólanum var þér kennt að endurtaka upplýsingar í stað þess að hugsa eigin hugsanir.
Er furða að okkur finnist við vera rugluð og ráðvillt? Með valdi hefur verið unnið hörðum höndum að því að telja þér trú um að þú hafir ekkert vald, enga stjórn. En þetta er allt sjónhverfing, eftir að þú hefur einu sinni áttað þig á hvað þú býrð yfir miklum mætti muntu aldrei framar vinna gegn sjálfum þér.
Hérna er merkileg mynd um hljóðbylgjur. Einhvern veginn fór þessi fróðleikur alveg fram hjá mér í skóla. En algebru voru gerð gríðarlega góð skil þó svo að ég sæi ekki tilganginn með því, þá var mér sagt að hún þjálfaði rökhugsun það myndi ég uppgötva síðar á lífsleiðinni. Ég bíð enn í þykkri þögninni sem gæti þess vegna verið meira en 40 öskur á þykkt.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
2.8.2012 | 19:56
Huliðsheimar og galdrastafir.
Þegar rennt er blint í sjóinn er væntingin það eina sem gefur til kinna hvað upp kann að koma. Sumt er eins og sjórinn er fyir þeim sem í honum búa umlykjandi allt í kring, þess vegna ekki svo gott að átta sig á hvar það endar eða byrjar frekar en andrúmsloftið. Það er því oft sagt að erfiðast sé að átta sig á augljósustu sjónhverfingunni vegna þess að hún sé allt um kring.
En það var kannski ekki um þetta sem ég ætlaði að þvæla heldur ástæðunni fyrir því að maður rennir blint í sjóinn en vill jafnvel ráða spákonu til að segja fyrir um hvað verður vegna þess að maður trúir ekki á eigin væntingar. Af sama meiði eru jafnvel verndargripir og galdrastafir.
Ég hef oft velt vöngum yfir Ægishjálmi og hvers vegna táknið höfðar svona sterkt til fólks og að jafnvel ég hef borið það um hálsinn. Þessu tákni tók ég fyrst eftir að var greipt í hugann upp úr tvítugt þó svo að ég hafi ekki sett það upp fyrr en fyrir fáum árum. Svo fast hefur þetta tákn meitlað í hugann að fyrir 15 árum síðan skárum við félagar mínir Ægishjálm á ca 10 fermetra steypuplatta á workshope í St Louis eftir að hafa óvænt verið krafðir um að sína hugmyndaauðgi íslendinga í steypu fyrir framan 200 steypukalla. Eftir að ég hafði látið klappa fyrir íslensku víkingunum var úr vöndu að ráða með að bjarga sér út úr aðstæðunum algerlega óundirbúið. Þá kom sér vel að vera með Ægishjálm í hausnum.
Það er ekki mikið á alheimsnetinu að finna um Ægishjálm. Í alfræðiritinu Wikipedia segir að hann sé "gamall íslenskur galdrastafur sem er til í fjölmörgum gerðum og útgáfum. Hans er getið í Eddukvæðum, Sigurður Fáfnisbani bar Ægishjálm þegar hann sigraði drekann Fáfni á Gnitheiðii. Ægishjálmurinn er öflugur varnarstafur, bæði gegn öllu illu og einnig örugg vörn gegn reiði og yfirgangi höfðingja. Honum fylgir svohljóðandi formáli:
- Fjón þvæ ég af mér
- fjanda minna
- rán og reiði
- ríkra manna."
Ég renni semsagt blint í sjóinn með von um frekari upplýsingar um fornar rúnir og þá sér í lagi Ægishjálm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.7.2012 | 20:14
Bill Hicks.
Undanfarið hefur ímyndun átt hug minn allan og á því ímyndunarfylleríi hefur Bill Hicks verið nefndur ítrekað til sögunnar. Í sumar höfum við Matthildur mín þvælst um fjöll og firnindi N-Noregs. Á þessum þvælingi hafa tvenn mannvirki vakið sérstaka athygli mína án þess að ég hafi gert meira með það en að minnast orða Hicks um tilveruna, m.a. hvernig okkur er ætlað að trúa á annarra manna ímyndunarfyllerí. Þessi mannvirki eru tómar kirkjubyggingar fortíðarinnar og skólabyggingar nútímans.
Lífið er eins og ferð í skemmtigarð og þegar við ákveðum að fara um hann finnst okkur hann vera raunverulegur, vegna þess hve máttugur hugur okkar er. Og ferðin er upp og niður, hring eftir hring, með spennandi og hrollvekjandi uppákomum þar sem allt er litað skærum litum, og með háværum áherslum, og það er svo gaman - um stund.
Sumir, eftir að hafa verið á ferð um langa hríð, spurðu eftir stund er þetta raunveruleikinn eða er þetta virkilega bara ferðalag? Sumir sem þekkja þetta ferðalag koma til baka til að segja okkur; "Hey, hérna þarft þú ekkert að óttast aldrei, eða vera hræddur, vegna þess að þetta er bara ferð" -og við drepum þetta fólk.
"Hann verður að halda kjafti! Ég hef fjárfest í þessari ferð...sérðu ekki hvað ég ég markaður áhyggjum...sjáðu hvað ég hef lagt á mig fyrir bankainnistæðurnar mínar...fyrir fjölskylduna....þetta verður að vera raunveruleikinn".
En þetta er nú samt sem áður bara ferðalag.
En við drepum alltaf góðu gæjana sem reyna að segja okkur það, og leifum djöflunum að ganga af göflunum. En það skiptir ekki máli, þetta er bara ferðlag og við getum breytt um stefnu hvenær sem við viljum.
Allt sem við þurfum er að velja.
Ekkert erfiði, engin vinna, ekkert starf, engin sparnaður né peningar - bara að velja á milli ótta og kærleika.
Með augum óttans viltu setja stærri lás fyrir útidyrnar, kaupa byssur og loka þig af - augu kærleikans sjá okkur aftur á móti öll sem eitt.
Það sem við getum gert til að breyta heiminum strax, er að taka alla peninga sem við samþykkjum að eitt sé í vopn og varnir ár hvert. Í staðinn notað þá í að fæða, klæða og uppfræða þá sem eru þurfandi í heiminum, sem væri samt mörgum sinnum meira en þyrfti, og ekki ein manneskja yrði útundan, síðan kæmumst við áfram ...saman...bæði hið innra og ytra...að eilífu...í friði. - Bill Hicks 1961 - 1994 (grínisti og uppistandari var vanur að ljúka þáttum sínum með þessari orðum).
Ef einhver hefur haft þolinmæði til að lesa svona langt er spurning um að gefa sér einnig tíma til að horfa á þetta uppistand. Það tekur grínarann ekki nema nokkrar mínútur að ná fullri athygli, að vísu nokkuð grófur á köflum, og eftir er setið með allskonar ímyndanir.
26.7.2012 | 17:20
Organite og orkuflögur.
Undanfarið hefur organite oft komið til tals á þessari síðu og kannski kominn tími til að gera viðfangsefninu einhver skil. Ég var svo lánsamur að áskotnast tvo organite píramída hlaðna orku sem kom yfir himin og haf, alla leið frá Ástralíu hingað langt norður fyrir heimskautsbaug á 69°N. Það er ekki um það að villast að þetta fyrirbæri hefur orkuvirkni þó ég þori varla að kannast við það eftir að Helgi fræddi mig á því að fólk sem væri svolítið ruglað fyndi þetta betur. En eftir að Matthildur mín kannaðist við orkustreymið frá þeim líka, þó svo ég fræddi hana áður um speki Helga, þá fer ég allur að koma til með að þora að kannast við þetta.
Það sem einnig gerðist eftir að ég fékk Áströlsku píramídana var að ég hrasaði um sama steininn í þriðja sinn í uppáhalds fjörunni minni hérna á 69°N, fjöru sem er hlaðin töfrum. Það var því ekki um það að villast að þennan stein höfðu örlögin ætlað mér að skoða, en ég hafði tekið eftir því fyrri föllum að hann gæti verið fallegur, en það hef ég ekki viljað með nokkru móti kannast við að Noregur hefði fallegt grjót að geyma, það er bara á Íslandi.
Þegar ég var kominn með steininn heim á stofuborð á milli píramídana hófst rannsóknavinnan. Það þarf ekki að efast um það að Ástralska organitið er sett þannig saman að orkustreymið frá þeim er auðfinnanlegt, því má segja að það hafi vinninginn fram yfir Norska stofu grjótið sem sem lítur út eins og stálslegin kvartsfylling. Þegar ég fór að lesa mig til á háskólasetrinu google um organite kom nafni minn á Filippseyjum fljótlega upp í hugann, en hann hefur sent mér þessar fínu flögur hlaðnar orku sem ég hef límt á mig við verkjum og svefnleysi.
Málið er að nafni á Filippseyjum sagði mér frá verkjaflögum sem höfðu hjálpað honum við gigtarverkjum. Svo var það fyrir ári síðan að ég sá ekki fram á að geta verið í þessu starfi lengur, sem útheimtir að skriðið sé á hnjánum, vegna verks í vinstri hnébót. En þann djöful hafði ég haft að draga í nokkur ár eftir aðgerð sem kemur hnénu ekkert við. Þar sem ég vissi að ekkert var að hnénu mínu hlaut þetta að vera rangur misskilningur, eða þannig. Því datt mér í hug að tala við nafna sem sendi mér verkjaflögur um hæl og svefnflögur svo ég ætti ekki fleiri andvökunætur vegna hnésins. Þetta virkaði alveg glimrandi, svo vel að ég er ennþá á hnjánum, sef eins og engill ef ég man eftir því, en verst þykir mér hvað er lítill buisness í mér fyrir nafna.
Ég er semsagt að verða kominn að þeirri niðurstöðu að píramídarnir og flögurnar séu af sama meiði. Hvorutveggja hafi með það að gera að halda orkustreyminu í takt við himintungl alheimsins. Organitið sé grunnvísindin og flögurnar séu þessi mörg þúsund ára gömlu vísindi í nútíma neytendapakkningum.
http://www.soul-guidance.com/health/orgonite.htm organite
http://www.cieaura.com/index.html orkuflögur
Fyrir þá sem hafa ekki áhuga á organite og orkuflögum er boðið upp á í fimmtudagsbíói viðtal við drottningu austfirsku steinanna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
24.7.2012 | 20:10
Áfangi 101 í ímyndun fyrir fábjána.
Hérna kemur enn eitt fræðslumyndbandið um það hvernig heimurinn verður til fyrir eintóma ímyndun. Eins og grínistinn Bill Hicks komst að orði þá ert þú ímyndun eigin hugsana og getur því breytt heiminum að vild. Á það sama hefur verið bent af ekki minni spámönnum en Gandih, Buddha og Jesú Kristi ásamt mörgum fleirum. Ef þú vilt breyta heiminum byrjaðu þá á sjálfum þér, við að mála þá mynd sem þú vilt sjá notarðu ímynunarafl en ekki steingelda rökfræðina 2+2=4.
Þegar ég sá þetta video sem hér er kynnt til sögunar vissi ég að hér var vísindaleg sönnun á ferðinni um það að hver og einn hefur allt vald í sínu lífi, það er bara spurning um það hvernig það er notað. Mér varð meir að segja svo mikið um að ég bloggaði um þetta myndband á sínum tíma og tók hálfs árs frí frá bloggi á þessari síðu í framhaldinu til að sökkva ofan í viðfangsefnið laus við allt dægurþras. http://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/1009444/
Þó ég hætti að blogga um dægurþras um stund þá breytti það samt ekki því að ég birti niðurstöður þess sem ég varð áskynja í rannsóknarvinnunni. Til þess notaði ég sparisíðuna þar sem ég forðast eins og heitan eldinn að nefna það að fólk sem hefur verið hvít skrúbbað á milli eyrnanna af menntakerfinu gæti átt á hættu að öðlast gráðu til fábjána. http://maggimur.blog.is/blog/maggimur/entry/1068933
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)