Grundvöllur alls árangurs er að vita hvað þú vilt.

HHHHH lögmálið: Gerðu þér grein fyrir HVAÐ þú vilt, HVENÆR þú vilt það, HVERSVEGNA þú vilt það og HVERNIG þú hyggst ná því.

 

"Allir geta BYRJAÐ en aðeins þeir ákveðnu KLÁRA".

 

Gerðu það að þínu aðalmarkmiði sem þú vilt að verði að veruleika í þínu lífi, gerðu þér því grein fyrir hvers þú óskar þér að verði að veruleika, í hvaða stöðu þú vilt helst vera í t.d. eftir fimm ár.  Gerðu það að þínu höfuðmarkmiði og taktu mið af því í öllum þínum gerðum þannig muntu öðlast það.

 

Ekki dreifa kröftunum með því að eltast við aðrar óskir sem samræmast ekki aðalmarkmiði þínu, þær eru yfirleitt ekki annað en dægurflugur og hugdettur.  Enn síður skaltu dreifa kröftum þínum við að hugsa neikvæðar hugsanir og gefa því neikvæða í heiminum athygli þína.

 

Það er ekki nóg að óska einhvers þú verður að ákveða hvaða árangri þú ætlar að ná og trúa því að þú náir honum.  Að greina ekki muninn á því að trúa og óska getur komið í veg fyrir að þú náir markmiðum þínum.

 

Þegar þú hefur ákveðið þitt höfuð markmið skaltu láta þá vita sem næst þér standa að hverju þú stefnir svo þeir geti orðið hluti af þeim fjölhug sem mun hjálpa þér að ná settu marki.

 

Mundu að flestir hafa orðið fyrir því að afturkippur hefur orðið á fyrirætlunum þeirra áður en þeir náðu markmiðum sínum.  Með staðfestu og trú munt þú ná þínu markmiði.

 

Mark. 11.23  Hver sem segir við fjall þetta:, Lyft þér upp og steyp þér í hafið, og efar ekki í hjarta sínu, heldur trúir, að svo fari sem hann mælir, honum mun verða af því.

 

 


Mótmælum í dag með því að minnast lífeyrissjóðanna í þögn.

Gleymum ekki því að okkur er gert með lögum að láta 12% tekna okkar renna til lífeyrissjóða. 


"Hér stend ég og get ekki annað."

Síðastliðna daga hafa flestar mínar bloggfærslur verið hálfgert skítkast út í þá sem mér hefur fundist vera að gera hluti sem væru til skaða fyrir mig og samfélagið, sem sagt hefðbundið kreppuröfl og svartsýni.  Í morgunn ákvað ég i að blogga ekki um neitt neikvætt í dag einblína á það jákvæða og vinna í stöðunni eins og hún er.  Verkefni dagsins voru að skila inn skráninganúmerum af fyrirtækisbílunum.  Eftir lagasetningu næturinnar ákvað ég að henda tveimur bílum og skila inn númerunum af tveimur í viðbót.  En hef samt tvo vinnubíla enn á númerum.  Einnig fór ég á skrifstofu Vinnumálastofnunar og lét skrá mig atvinulausan í fyrsta skipti á ævinni.

 

Ég er atvinnurekandi með verktakafyrirtæki í byggingariðnaði (flísar / múrverk) auk þess að reka flísa og gólfefna verslun.  Fyrirtækið var mest með 12 starfsmenn á þessu ári en um mánaðarmótin ág-sept sagði ég upp starfsmönnunum vegna lausafjárvanda sem stafaði af verulega erfiðri innheimtu. 

 

Síðan bankarnir hrundu hafa tveir af fjórum mínum helstu viðskiptavinum orðið gjaldþrota og sá þriðji á í verulegum lausafjárvanda.  Þó svo það hafi tapast kröfur upp á milljónir við þessi gjaldþrot, var það verra að við annað gjaldþrotið sem varð í byrjun nóvember hvarf stærstur hluti þeirra verkefna sem fyrirliggjandi voru til áramóta.  Um mánaðarmótin nov-des voru því eingin verkefni fyrir þá starfsmenn sem höfðu ekki þegar farið og ekki aðrir eftir hjá fyrirtækinu en sölumaður í verslun og ég sjálfur. Frá því í byrjun desember hafa þeir klukkutímar sem hafa verið við verktak verið teljandi á fingrum annarra handar. 

 

Ég hef að mestu verið sjálfstæður atvinnurekandi síðan 1983 og yfirleitt verið með menn í vinnu oft hafa komið erfiðir tímar þar sem verkefni hafa verið strjál og verð lá.  Núna skipta verðin minna máli það er verkefnaleysið sem er vandamálið.  Það hefur verið ósegjanlega erfitt að sjá á eftir mínum góðu starfsmönnum og vinnufélögum til margra ára og sérstaklega sárt að vita af sumum þeirra án atvinnu.

Staða mín hefur oft verið erfið áður en ég hef alltaf séð  ljósið framundan.  Núna geri ég mér grein fyrir hve margir eru í miklum vanda og eiga bágt með að sjá ljósið.  Þegar ég kom heim í kvöld beið mín svo þykkt umslag frá lífeyrissjóðnum mínum þar sem mér var tilkynnt að um -20,1% neikvæða ávöxtun væri að ræða það sem af er ári.  En nú er ég sennilega um það bil að falla í þá gryfju að verða neikvæður.


mbl.is Öflugt andóf boðað eftir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hefðum greitt allar okkar skuldir og átt góðan afgang.“

Það verður fínt fyrir þá sem eru í svipuðum rekstri og Next að fá "umboðsmann skuldara" inn í bankana til að senda fyrirspurn á vegna svona vinagreiða.

Það var leitt að vegna flókinna gjaldþrota skyldi þessir eigendur ekki eiga "afgang".  Hver skyldi hafa komið því að hjá Next í Bretlandi að þau væru eina rétta fólkið til að reka verslunina?  og mátti alls ekki loka þessari búllu Bretana vegna eða Landsbankans vegna?

Kannski er rétt fyrir þá sem eru með svipaðar verslanir og Next að koma sér upp flóknu gjaldþroti og semja svo við bankann.  Þó svo það gæti kostað að eigendur misstu af "afgangi" þá skerast af skuldir sem verður að teljast plús.  Sennilega mun einfaldara ferli en að setja sig í samband við "umboðsmann skuldara".


mbl.is Next vildi þau eða ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vinna sig út úr erfiðleikunum.

Er hægt með því að leggja aukalega á sig, að veita meiri þjónustu en greitt er fyrir, að gera það alltaf og gera það með jákvæðu viðhorfi. 

Þetta kemur upp í hugann núna á tímum samdráttar og atvinnuleysis þegar margir eignast tíma til að nota í annað en launaða vinnu.  Einn bloggvinur minn hefur sýnt í verki hvernig er hægt að nota þessa tækni með árangri og hefur leift okkur að fylgjast með á síðunni sinni.  Eins heyrði ég utan að mér í útvarpsþætti um daginn  að hópur fólks ætlaði að hittast til að viðra hugmyndir sínar og koma þeim í framkvæmd nú þegar tíminn er nægur en atvinnan lítil, í stað þess að hver og einn sem misst hefur vinnuna sé með sínar hugrenningar með sjálfum sér.

 

"Eitt af því sem þú ættir að gera að þínu áramótaheiti er að hætta að nota orðið ómögulegt."

 

Flestir kannast við að tíminn flýgur og þreyta gerir ekki vart við sig þegar unnið er við það sem er mjög áhugavert, jafnvel þó engin þóknun sé í boði. 

 

Þó svo hlutirnir virðist mótdrægir þá kemur að endanum að því að það sem unnið er að af brennandi áhuga, einlægni og eldmóði skilar árangri.

 

Hvað sem það er sem þú vinnur að eða villt koma á framfæri, gerðu það eftir bestu getu og gerðu meira en þú færð greitt fyrir.

 

Í fyrsta lagi byggirðu upp orðstír um að þú veitir meiri þjónustu og betri þjónustu en þú færð greitt fyrir og þú munt hagnast á öllum samanburði, því mun verða eftirspurn eftir þinni þjónustu sama hvert starf  þitt er.

 

Önnur ekki síðri ástæða fyrir því að gera meira en þú færð greitt fyrir, er ein af grundvallar ástæðum náttúrunnar, sem er ágætlega lýst þannig að ef þú bindur hægri höndina á þér niður með síðunni til að spara hana verður hún að endingu ónýt af notkunarleysi, en ef þú þjálfar hana með áreynslu og notkun verður hún sterk og ávalt tilbúin til átaka þegar á þarf að halda.

 

Eins og bóndinn undirbýr akurinn fyrir sáningu, án þess að fá greitt fyrir undirbúninginn, þá mun hann  fá uppskeru inna ákveðins tíma sem er margfalt það sem hann sáði og því meira eftir því hvað hann lagði í undirbúninginn.  Ef þú áttar þig á hvernig þetta lögmál virkar þá munt þú uppskera margfaldlega.

 

"Maður með þekkingu er sá sem hefur lært að komast yfir allt sem hann þarfnast án þess að brjóta á rétti náungans.  Þekkingin kemur að innan með baráttu, framtaki og hugsun."

 

Hvert er það fjall sem þú þarft að flytja með trú þinni, þó hún sé ekki stærri en mustarðskorn?  Það er tilfinningin fyrir því að þú hafir verið snuðaður, að þú hafir verið beittur rangindum, ekki fengið greiðslu fyrir þá þjónustu sem þú hefur látið af hendi. Þesskonar hugsanir er mikilvægt að dragnast ekki með eins og lík í farteskinu.

 

Mundu að þeim meira sem bóndinn hlúir að akrinum þeim meiri uppsker hann og uppskeru tíminn kemur.

Lögmál uppskerunnar er; leggðu meira í vinnu þína en greitt er fyrir og þú munt uppskera margfalt.

 

Þú þarft ekki að biðja aðra um leifi fyrir því að gera meira en þú færð greitt fyrir.  Ef þér tekst ekki að gera meira en þú færð greitt fyrir, er líklegt að þér takist ekki heldur að ná þínu markmiðum.

 

Viðurkenndu það að þegar starfsumhverfið hefur ekki verið samkvæmt þínum óskum hefur þú hugsað, þetta er ekki þess virði að halda áfram og hefur síðan hætt.  En í stað þess að hætta vegna hindrana sem þarf að yfirstíga, hefðirðu átt að hafa í huga að lífið sjálft er röð af yfirstíganlegum erfiðleikum og hindrunum.

 

"Það er enginn maður latur. Sá sem virðist latur og uppburðarlítill er maður sem ekki hefur fundið starfið sem hæfir honum."

 

Þú getur ekki orðið frumkvöðull án þess að gera meira en þú færð greitt fyrir, og þú nýtur ekki velgengni fyrr en þú þroskar með þér frumkvæði á þínu sviði.

 

"Ef þú trúir á það ósýnilega geturðu vænst þess að fá meiri umbun en þú hefur gert þér í hugarlund."

 

 

Prédikarinn 3.22.  Þannig sá ég, að ekkert betra er til en að maðurinn gleðji sig við verk sín, því að það er hlutdeild hans.  Því hver kemur honum svo langt, að hann sjái það sem verður eftir hans dag?

 


Ingibjörg Sólrún og Davíð á Núllinu.

Ingibjörg Sólrún og Davíð eiga margt sameiginlegt, starfsvettvangur þeirra og lífshlaup hefur verið í kringum Núllið í Bankastræti.  Þau eru fólkið sem er að vinna að því að koma okkur út úr kreppunni.  Þau er fólkið sem vill að þjóðin sýni samstöðu og gefi þeim vinnufrið.   Þau hafa bæði verið utanríkisráðherrar fyrir vini sína.  Þau hafa ekki gert nein mistök.  En þau eru ekki samála um að hvort þeirra gerði þau.  Í dag hafa þau keppst við að gefa út 0% yfirlýsingar þar sem ekki er hægt að greina annað en þau hafi 0% traust hvort á öðru.

Eigum við að treysta þeim til að "sigla í gegnum brimskaflinn" eða sturta þeim niður?


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Davíð, Churchill eða Mugabe norðursins?

Það er misjafnt hvað ástfóstri þjóðir taka við leiðtoga sína.  Þjóðverjar höfðu sinn Willy Brant, Frakkar De Gulle, Bretar Churchill, Cuba Castro og Simbabwe Mugabe.

Ekki verður betur séð á þessari frétt en Davíð sé að gíra sig upp.  Hann er sennilega einn mesti örlagavaldur þjóðarinnar á lýðveldistímanum, því skiptir hans óútreiknanlega hegðun þjóðina svo miklu.  Síðan verður það sagan þegar frá líður sem mun gefa honum sinn sess.


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Havð björgunaráætlun ríkisstjórnarinnar til fyrirtækjanna hefði þurft að innihalda.

Það má vera nokkuð ljóst að atvinuleysi er á leiðinni í áður óþekktar hæðir.  Í gærkvöldi var sú fáheyrða frétt í sjónvarpinu að þremur kennurum hefði verið sagt upp, þannig að atvinnuleysi er á leiðinni inn í greinar sem það hefur verið með öllu óþekkt áður.  Þegar allar hópuppsagnir ársins eru skoðaðar eftir atvinnugreinum kemur á daginn að langflestar þeirra koma úr mannvirkjagerð eða 42%, sem ekki þarf að koma á óvart við núverandi aðstæður.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til björgunar fyrirtækjunum eru allt of almenns eðlis til að þær komi til með að slá á atvinnuleysi.  Eina atriðið í þeim sem hugsanlega væri hægt að segja að væri markviss aðgerð til að búa til störf er að finna í lið nr.3 "Skipaður verðu óháður umboðsmaður viðskiptavina í hverjum banka og skipar bankaráð umboðsmanninn. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir eðlilegast að bankaráðin taki þessar ákvarðanir".  Hvort þetta kemur fyrirtækjum að gagni er alveg óvíst, þetta svipar til hugmyndarinnar um umboðs mann Alþingis og ef úrskurðarferlið verður með svipuðum hætti geta menn rétt ímyndað sér hvort það kemur til að gagnast fyrirtækum.

Björgunaráætlunin hefði þurft að innihalda;

1.  Auknar aflaheimildir og útfærslu á því hvernig þeim yrði varið til að skapa sem mesta vinnu og verðmæti innanlands.

2.  Bein tilmæli um hvaða mannaflsfrekar verklegar framkvæmdir verði á döfinni næstu sex mánuði af hálfu ríkisins, hvernig sveitarfélöginn verði aðstoðuð við að halda uppi lögbundinni þjónustu auk þess að fjármagna mannaflsfrekar framkvæmdir.

3.  Að ríkið dragi úr álögum á verslun og þjónustu t.d. með lækkun á vsk og tollum sem kæmi neytendum til góða og yrði til að fleiri þjónustuaðilar sæju ljósið í að halda áfram rekstri.

4.  Fella niður tolla á ölum aðföngum til landbúnar.

Tillögurnar sem ríkisstjórnin lagði fram í gær eru of almennar og ómarkvissar til að getað bjargað bráðavanda atvinnulífsins.  Núna þarf beinskeyttar aðgerðir sem miða að því einu að auka framleiðslu og sporna við bráða atvinnuleysi.  Þegar atvinnufyrirtækin eru kominn í þrot verður erfitt að koma þeim af stað aftur við núverandi aðstæður og tap samfélagsins verður enn meira en þegar er orðið. 


mbl.is Um 80% hafa misst vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgunarpakki til skuldugra fyrirtækja.

Það er spurning hvaða fyrirtæki voru höfð í huga þegar björgunarpakki ríkisstjórnarinnar var settur saman.  Það sem helst má sjá út úr þessu að bjarga eigi eignarhaldsfélögunum og bönkum sem hafa ekkert með beina atvinnustarfsemi að hafa.  Allavega er það alveg ljóst að fyrirtæki þurfa að vera í botnlausum skuldum til að hafa einhverja möguleika í þessum björgunarpakka eða í það minnsta að hafa einbeittan vilja til að stofna til þeirra.

Ég atvinnurekandi beið milli vonar og ótta eftir því hvað þessi björgunaráætlun hefði að geyma.  Nú þegar hún er fram kominn sé ég ekki eitt atriði sem gagnast gæti mínum rekstri eins og staðan er, enda varla von þar sem mitt fyrirtæki er verktakafyrirtæki.  Nú sem oftar virðast bara þau fyrirtæki sem skulda það mikið að bankarnir veigra sér við að gera upp eiga bestu lífsmöguleikana.


mbl.is Bjarga á fyrirtækjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væntingin er þýðingarmeiri en staðreyndin.

Í Kastljósið á föstudagskvöldið komu þau Margrét Pála Ólafsdóttir (Hjallastefnan) og Halldór Einarsson (Henson).  Það var ánægjulegt að hlusta á hvað þau höfðu fram að færa, sérstaklega í ljósi þerra tíma sem nú eru.  Þetta fólk hefur haldið sinni sannfæringu og látið sínar væntingar rætast þrátt fyrir að staðan hafi oft virtist vonlaus.  Þau bentu á lausnir, þær felast í út frá hvaða sjónarhorni horft er til möguleikanna og væntinga þinna til þeirra.  Möguleikarnir verða til í huga hvers og eins, hafa því ekki eins mikið með peninga að gera og halda mætti.

 

"Það er til örugg leið til að komast hjá gagnrýni; gerðu ekkert og vertu ekkert, kæfðu allan metnað."

 

Einbeiting er það sem fær hugann til að halda sér við ákveðna væntingu, þar til hann hefur  fundið leiðir til að koma henni til leiðar.

 

Tvö áríðandi lögmál fá hugann til að einbeita sér að ákveðinni ósk.  Það eru vani og eðlisávísun.

 

Vani fær þig til að gera það sama aftur og aftur og hugsa sömu hugsanirnar aftur og aftur þar til þær eru orðnar að föstum venjum sem erfitt er að breyta.  Smá saman verða þessar venjur hluti af undirmeðvitund þinni og munu hafa áhrif á allt sem þú gerir.  Þú ferð að velja umhverfi þitt samkvæmt þessum vana svo að það verði andleg fæða fyrir óskir þínar.  Stjórnaðu því vana þínum eins og hægt er, en forðastu að vera þræll slæms ávana. Til að losna við slæma ávana er best og jafnvel eina leiðin að setja nýjan og betri í staðinn.  Í hvert skipti sem þú ferð yfir ósk þína í huganum gerir vanin "slóðina dýpri" og óskin verður nær því að rætast.

 

Leiðbeiningar um það hvernig þú getur notað vana til að öðlast það sem þú óskar þér.

  1. Við að móta vanahugsun skaltu setja eldmóð og kraft í hugsun þína.  Sjáðu og finndu það sem þú þráir, upplifðu það í huga þínum.  Gerðu þetta reglulega þar til vaninn hefur gert djúpa slóð sem auðvelt er að fara eftir.
  2. Einbeittu þér að nýjum vana hugsunum og haltu þér frá gamla ávananum. Gleymdu öllu um gamla ávanan og láttu þig aðeins varða um nýju vana hugsunina sem samræmist ósk þinni og markmiði.
  3. Ferðastu um nýju vana slóðina þína eins oft og þú getur.  Búðu til aðstæður til að getað það, en ekki láta þær verða til fyrir heppni og vegna þess að þú hefur tíma.  Því oftar sem þú venur þig á að hugsa um það sem þú þráir því skýrara sérðu það fyrir þér.  Þannig hefurðu troðið slóð fyrir nýjan ávana.
  4. Þú skalt standast freistinguna að hugsa af gömlum vana fortíðarinnar, því hvert skipti sem þú stenst freistinguna því sterkari verðurðu og auðveldar verður það fyrir þig standast hana í næsta skipti.  En í hvert skipti sem þú lætur undan freistingunni því erfiðara verður að standast hana í næsta skipti sem hún gerir vart við sig.  Þetta verður barátta í byrjun þar sem þú skalt nota einbeitinguna og viljastyrkinn.
  5. Vertu öruggur með það að þú hafir séð fyrir þér rétta leið að þínu aðalmarkmiði.  Farðu svo af stað án alls efa, líttu ekki til baka, láttu vanan troða djúpa slóð sem liggur beint inn í það markmið sem þú þráir.

 

Það eru náin tengsl á milli eðlisávísunar og vana.  Segjum að þú sért að leggja göngustíg þá er eðlisávísunin verkfærin, einbeitingin er höndin og vanin er uppdrátturinn.  Hugmynd sem þú óskar þér að komist í framkvæmd verðurðu að halda að undirmeðvitundinni af trú og staðfestu með vananum þar til hún hefur fengið varanlega ásýnd í líkingu við uppdrátt eða áætlun.

 

Ef þér finnst kringumstæðurnar sem þú ert í ekki vera þér í hag varðandi þitt aðal markmið breyttu þeim þá í huga þér og sjáðu þær fyrir þér eins og þær þurfa að vera,  einbeittu huga þínum að þessu þar til þær verða að veruleika.  Eins og mögulegt er skalt þú vera í sambandi við þá sem hafa skilning á markmiði þínu, og með viðhorfi sínu hvetja þig til dáða, vekja með þér eldmóð og sjálfstraust.  Mundu að hvert orð sem þú heyrir, allt sem þú sérð og hvað það sem hefur áhrif á skilningsvit þín mun hafa áhrif á hugsun þína.  Því er svo mikilvægt að þú umgangist fólk sem hefur trú á því sem þú ert að gera og örvar þig í að ná markmiði þínu, eins að verða þér út um efni sem leiða þig í jákvæðan hugsunarfarveg.  Þannig m.a. stjórnarðu kringumstæðum þínum.

 

"Sá maður sem fær enga umbun fyrir vinnu sína nema þá sem er á launaseðli hans, er undirborgaður hvað svo sem launin eru há í peningum."

 

Töfralykillinn að því að opna allar dyr fyrir þér, hvort sem það er til ríkidæmis, frægðar eða hamingju, er einbeiting.  Einbeiting er það sem fær þig til að gera að vana þínum að fara aftur og aftur yfir ákveðið atriði þar til það verður að veruleika. 

 

Með einbeitingunni getur þú beint huga þínum í að hugsa um það góða og það sem þú villt að verði.  Metnaður og þrá er drifkraftur einbeitingarinnar, án þessara þátta er töfralykillinn ónothæfur. 

 

Einbeiting er í raun það að hafa stjórn á því hvert þú beinir athygli þinni.  Lærðu að halda athygli þinni á ákveðnu málefni í hvað langan tíma sem þú þarft og þú hefur fundið veginn að orku og allsnægtum.  Þetta er einbeiting.  Þú skalt jafnframt hafa í huga að málefni sem tveir eða fleiri koma sér saman um að nái fram að ganga nýtur mun meiri athygli og einbeitni en þegar einn á í hlut, þar hefur verið skapaður "master mind".  "Master mind" er ekki annað en hópur manna sem einbeita sér í fullum samhljómi að því að ákveðið markmið nái fram að ganga.

 

Lukas 11.9  Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upplokið verða

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband