16.4.2023 | 16:42
Sumarmál - voru Íslendingar Gyðingar?
Það er margt sem íslenskan geymir af sögu heimsins, sem óvíða er skráð annarsstaðar, og er þó sumt af því heimsþekkt orðið í dag án þess að nútíma Íslendingar hafi mikla hugmynd um hvers vegna. Má þar t.d. nefna fornaldasögur Norðurlanda og tímatal. En þaðan kemur t.d. hugmyndin af The lord of the rings og The vikings.
Nú eru Sumarmál, en síðustu fimm dagar vetrar voru kallaðir sumarmál í gamla íslenska tímatalinu. Á eftir kom sumardagurinn fyrsti sem var fyrsti dagur hörpu, -fyrsta mánaðar í sumri. Þetta tímatal er ævafornt og hafa fræðimenn velt vöngum yfir hvaðan það kom, því þar er ekki bein samsvörun í norræn tímatöl.
Tolkein lá ekki á því að hugmyndin af Hringadrottins-sögu væri sótt í Völsunga-sögu og það dylst engum að sjónvarpþáttaserían Vikingarnir er byggð á Ragnars-sögu loðbrókar, sem segir m.a. frá konu hans Áslaugu kráku og sonum, þeim Ívari beinlausa, Birni blásíðu og Sigurði ormi í auga. Báðar þessar sögur varðveittust á Íslandi og hafa verið kallaðar Fornaldarsögur Norðurlanda.
Símon Dalaskáld skrifaði skáldsöguna Árni á Arnarfelli og dætur hans skömmu eftir 1900 og var hún útgefin árið 1951. Tími sögunnar virðist vera frá því skömmu fyrir 1880 til aldamóta. Höfundur lætur söguna gerast í Skaftafellssýslu þar sem bændur versluðu á Djúpavogi. Fjöldi fólks kemur við sögu og gerir höfundur grein fyrir ætt sögupersóna í samtölum.
Í skáldsögu Dalaskáldsins má finna kafla sem heitir Deila Halldórs og Hallfríðar. Þar rökræða Halldór Lambertsen stúdent og Hallfríður Árnadóttir heimasæta á Arnarfelli um persónur Íslendingasagna. Síðar berst tal þeirra að ættum Íslendinga. Það samtal fer hér á eftir:
Halldór: Á ég að segja þér af hverjum flestir Íslendingar eru komnir?
Hallfríður: Já það væri fróðlegt að heyra.
Halldór: Þeir eru fjölmargir komnir af írskum þrælum. Svo mæla Danir og mun mikið hæft í því.
Hallfríður: Hvaða vitleysu ferð þú með maður. Þeir eru heldur margir komnir af írskum konungum. Í Landnámu er ekki getið um aðra írska þræla en þá sem drápu Hjörleif við Hjörleifshöfða og menn hans, en Ingólfur hefndi fóstbróður síns og drap þá skömmu seinna, svo varla hefir komið mikil ætt frá þeim. Reyndar voru það írskir þrælar, sem brenndu inni Þórð Lambason, en þeir voru ráðnir af dögum skjótlega. Hingað fóru fáir Írar, heldur norrænir víkingar, sem herjuðu vestur um haf og komust í mægðir við konunga Englands og önnur stórmenni; vegna hreysti sinnar fluttust margir hingað, og má heita, að helmingur Íslands sé numinn af þeim.
Halldór: Ég hefi gaman, ef þú telur mér nokkra upp.
Hallfríður: Það get ég gjört að telja nokkra: Þórður skeggi, bróðursonur Ketils flatnefs; hann átti Vilborgu, dóttur Ósvalds konungs. Helgu dóttur þeirra átti Ketilbjörn hinn gamli, afi Gissurar hvíta. Eyvindur austmaður átti Raförtu, dóttur Kjarvals Írakonungs, þeirra son Helgi hinn magri er nam Eyjafjörð. Höfða-Þórður átti Þorgerði dóttur Þóris hímu og Friðgerðar, dóttur Kjarvals Írakonungs. Erpur, leysingi Auðar djúpúðgu, var son Melduns jarls af Skotlandi og Mýrgjólar, dóttur Gljómals Írakonungs, hann nam Sauðafellsströnd. Auðunn stoti, er nam Hraunsfjörð, átti Mýrúnu, dóttur Maddaðar Írakonungs. Án rauðfeldur, son Gríms loðinkinna úr Hrafnistu og Helgu dóttur Áns bogsveigis, átti Grelöðu dóttur Bjartmars jarls. Af þeirra börnum kom hið mesta stórmenni í Orkneyjum, Færeyjum og Íslandi, enda var Þorsteinn rauður kominn af Ragnari loðbrók, er frægastur hefir verið konunga í fornöld, og Sigurði Fáfnisbana. Helga hin fagra var af þessari ætt.
Halldór: Ég hefði gaman, ef þú gætir rakið þá ættarþulu.
Hallfríður: Það get ég vel, byrja þá í niðurstígandi línu. Sigurður Fáfnisbani og Brynhildur Buðladóttir. Þeirra dóttur Áslaugu átti Ragnar loðbrók Danakonungur. Þeirra synir Ívar beinlausi, konungur á Englandi, Björn blásíða konungur í Svíþjóð. Sigurður ormur-í-auga, átti Blæju dóttur Ella konungs. Af Hörða-Knúti syni þeirra voru Danakonungar komnir í fornöld, en af Áslaugu dóttur þeirra var Haraldur hárfagri kominn og þar með allir Noregskonungar, afkomendur hans. En Þóru dóttur Sigurðar orms í auga átti Ingjaldur konungur Helgason. Þeirra son, Ólafur hvíti, konungur á Írlandi, átti Auði hina djúpúðgu, dóttur Ketils flatnefs. Þeirra son Þorsteinn rauður átti Helgu, dóttur Eyvindar austmanns. Hann var konungur á Skotlandi; var svikinn af Skotum og drepinn. Ólafur feilan, þeirra son, fór þá barn til Íslands með Auði djúpúðgu, ömmu sinni. Hann giftist á Íslandi Álfdísi hinn barreysku. Þeirra börn: Þórður gellir, mestur höfðingi á Íslandi á sinni tíð, og Þóra, móðir Þorgríms, föður Snorra goða, og Helga, er átti Gunnar Hlífarson, þeirra dóttur Jófríði átti Þorsteinn Egilsson á Borg. Þeirra dóttir Helga fagra. Ólafur pá var af þessari ætt og næstum því öll stórmenni Vesturlands. Mikil fremd þótti fyrrum að vera kominn af Ragnari loðbrók og Sigurði Fáfnisbana, eins og sjá má af sögunum, en ekki gátu hrósað sér af því nema Breiðfirðingar og Skagfirðingar. Breiðfirðingar voru komnir af börnum Þorsteins rauðs en Skagfirðingar af Höfða-Þórði, sem kominn var af Birni blásíðu Svíakonungi, syni Ragnars loðbrókar, enda hafa í þessum fögru og tignarlegu héruðum verið mestir höfðingjar og skáld. Víðdælir voru og komnir af Ragnari loðbrók og fyrri konu hans, Þóra dóttur Herrauðs Gautajarls, og ég er búin að rekja þetta út í æsar, en hvort þið trúið því eða ekki, get ég ekki gjört að. Ég ætla að sýna ykkur það svart á hvítu, hvort ég hef ekki rétt fyrir mér og væri gott, ef þið vilduð gefa ykkur tíma til að rannsaka það.
Um öll þessi fjölskyldutengsl má lesa svart á hvítu í Íslendingasögum og Fornaldarsögum Norðurlanda, m.a Völsunga-sögu og Ragnars-sögu loðbrókar. Fornaldarsögurnar teiga sig í austur veg um Garðaríki suður til Svartahafs. Gamla tímatal Íslendinga á sér samsvörun í fornum tímatölum enn austar, og má rekja til Babýlon, -jafnvel Persíu.
Á fyrri hluta 20. aldar taldi enski rithöfundurinn Adam Ruthedford Íslendinga vera hreinasta afbrygði Benjamíns, ættkvíslar Ísraels, -yngsta sonar Jakobs. Hluti ættar Benjamíns fóru Garðaríki upp í Eystrasalt, og voru þá kallaðir Herúlar. En úlfur var Benjamín að sögn Jakobs faðir hans og úlfur einkenni Benjamíníta. Samsettur úlfur er algengt mannsnafn á Íslandi s.s. Ingólfur, Brynjólfur, Herjólfur, Þorólfur, Hrólfur, Snólfur o.s.fv. Ættforeldrar þessara Herúla voru þau Óðinn, Frigg, Njörður, -Freyja, Freyr og allt það goðsögulega slekti sem Snorri gerði góð skil í Heimskringlu.
Landnámsfólk Íslands kom flest frá vesturströnd Noregs og Bretlandseyjum samkvæmt Landnámu og Íslendingasögunum. Samkvæmt Biblíusögunum voru Júda og Benjamín herleiddir til Babýlon ásamt öðrum Ísraelsmönnum, þær ættkvíslar fylgdust svo einar aftur að í fyrirheitna landið. Benjamín settist þá í Galíleu, en hafði áður búið í Jerúsalem og Júda settist þá í Jerúsalem. Fjölmennigarsvæðið Samaría var þá orðið til og var á milli þessar ættkvísla Ísraels, sem lentu svo aftur á flakk í kringum Krist og jafnvel nokkru fyrr.
Íslendingasögurnar og Fornaldarsögurnar segja frá miklum þjóðflutningum fólks, sem að endingu nam Ísland og setti þar upp einstakt þjóðveldi, allt vandlega skrásett rétt eins og testamennin. Völsungasaga gerist í Evrópu allt frá Njörfasundum til Héðinseyjar, -Gíbraltar til Krím.
Sagan segir frá Völsungi og hverjir forfeður hans voru; -Reri sonur Siga, sonar Óðins. -Og svo Sigmundi syni Völsungs og sonum hans m.a. Sigurði Sigmundssyni Fáfnisbana. Í sögunni má finna mörg þau minni sem goðafræðin byggir á. Hluti Völsungasögu gerist í Dacia í Rúmeníu og segir frá þegar Sigmundur og Sinfjötli, eftirlætssonur Sigmundar, lögðust út sem varúlfar.
Svo eru til fornar írskar sagnir og annálar sem herma, -þessu tengt, -að löngu fyrir Krists daga hafi komið til Írlands austan úr löndum skip, sem á var gamall spámaður, Allamh Fodlha, skrifari hans og konungsdóttirin Tamar Tephi. Um þetta sagði sögugrúskarinn Árna Óla í titgerð: Í fornum írskum þjóðsögur og þjóðkvæðum er það beinlínis sagt, að Allamh Fodlha hafi verið Jeremía spámaður og Tamar Tephi hafi verið dóttir Zedekia konungs (Júda í Jerúsalem). Skömmu eftir komu þeirra Jeremía til Írlands giftist Tamar Tephi konunginum þar. Hann hét Heremon og var líka af Ísraelsætt. Og til þeirra er rakin ætt núverandi Bretakonunga.
Það er nokkuð ljóst að fyrri tíma Íslendingar kunnu vel að meta, -og lesa í sagnaarf þjóðarinnar og þurftu hvorki latínulærðan millilínulestur né Hollywood útgáfur á borð við The lord of the rings, eða The vikings á Netflix til á átta sig á um hverskonar bókmenntir er að ræða, -þeir skildu einfaldlega tungumálið.
Lýstur sól
ljósum sprota
læðing lífs;
lásar hrökkva.
Svella hugir.
Syngur í hlíð.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
Sól er á fjöllum,
sól í dölum,
sól í bæjum;
söngur í hlíð.
Hreifir vor
hörpustrengi.
Fellur ryð
af fornu stáli.
Sefur í hörpu
Sigurðardóttir
Áslaug - arfuni
afreksverka.
Þrútnar Heimis brjóst,
er harpan lætur.
Glóir gull
gegnum tötra.
Lýstur sól
ljósum sprota
ævintýraheim
unglings hugar.
Gnótt er ennþá gulls
á Gnítheiði.
Gangvarinn góði
gneggjar og rís.
Sér yfir Gnítheiði:
Situr á gulli
óframgjarn ormur
eigin hægðar,
hálfur dýr,
hálfur maður.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
Vek ég þig að vígi
vanræningja
vetrar langs
og vanafestu.
Vek ég þig til styrks
hinum stóru þrám,
hlýleika hugarins
og hvassrar sjónar.
Lýstur sól
ljósum sprota
ævintýraheim;
ómar hlíð:
Handan við Gnítheiði
glóa laukar.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
(Sumarmál / Ljóðmæli bls 8 SF)
Allur verðmætur skáldskapur hefur tvö aðaleinkenni, annaðhvort eða bæði. Í venjulegu máli talar skynsemi mannsins beint til skilnings, vit til vits. En í skáldskap tekur vitið sér til aðstoðar ímyndunarafl og tilfinningu. (Litlu-Laugum í apríl 1927 - Sigurjón Friðjónsson).
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.4.2023 | 05:04
Ástkæra og ylhýra gervigreindar-app ríkisins
Sagt er að á Tene sé talaður rjómi íslenskrar tungu á meðan á fósturjörðinni sé einna helst hægt að bjarga sér á hroða ensku eða pólsku. Þar eigi ekki lengur við - ástkæra, ylhýra málið, og allri rödd fegra, blíð sem að barni kvað móðir á brjósti svanhvítu, móðurmálið mitt góða, hið mjúka og ríka, orð áttu enn eins og forðum mér yndið að veita.
Það var Jónas Hallgrímsson sem kvað fyrstur manna á 19. öld um íslenskuna sem ástkæra og ylhýra móðurmálið þegar danskurinn tröllreið þjóðinni. Megas er landvættur sólseturs síðustu aldar, einn af 20. aldar þjóðskáldum íslenskrar tungu, merkisberi sem fleytti þeirri ástkæru og ylhýru á hyllingum inn í öld glóbalsins, -þursins sem ræður ríkjum fjórhelsisins.
Og veröldin víst er hún flá
þér er fullkunnugt um það
enda fráleitt við öðru að búast úr þeirri átt
en vertu næsta fremstur í fláttskap og vélum
flaggandi smælinu góða við fjandann í sátt.
Þú sem lætur hvunndagsraunirnar ríða þér á slig
ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.
Skáldskapur Megasar er eins og hverjir aðrir Nostradamus spádómar, sem fáir skilja í dag án skýringa upplýsingaóreiðunnar. Enda áhuginn nú orðin mun meiri á metoo Megasi með myllumerki, en því hvort röðull rís við heiðarbrún eða sú ástkæra og ylhýra sé með lafandi tungu.
Nú er íslenskan orðin eins og hver önnur Fata Morgana á flæðiskeri. Stór hluti þjóðarinnar er úr tengslum við tunguna og á í erfiðleikum með að skilja það sem hefðu þótt hinar eðlilegustu setningar fyrir nokkrum áratugum síðan.
Bróðurpartur ungdómsins veit lítið sem ekkert um ljóð þjóðskáldanna, eða hefur heilaburði til að lesa fornbókmenntir og dróttkvæði sér til einhvers skilnings. Það tilheyrir liðinni tíð, og þar með skilningurinn á blæbrigðum þess ástkæra og ylhýra móðurmáls sem kallað er íslenska.
Meðferð Megasar á þjóðskáldinu í Fatamorgan á flæðiskerinu er nú orðin eins spádómur. Textinn er byggður á minninu um Ólaf liljurós, auk þessa sem hann sagðist hafa fengið að láni frá Heinrich Heine í gegnum Jónas Hallgrímsson og var honum þó tjáð að Jónas hefði farið fremur frítt með texta Hinriks.
Megas sagðist leifa sér ýmislegt á hyllingum flæðiskersins, en baðst forláts á ef það særði einhverjar fínar taugar í sambandi við bókmenntasmekk. Það breytti samt ekki því að flestir Íslendingar skildu nokkurn veginn á þeim tíma við hvað hann átti, -rétt eins og að flestir vissu þá að Megas gæti verið bæði klúr og myrkur. Árið 2000 hlaut Megas svo verðlaun Jónasar Hallgrímssona á degi íslenskrar tungu.
Gervigreindar viðræðu app í snjallsímann er nú talin stóra lausnin. Svo hægt verði áfram að tala það ástkæra og ylhýra á landinu bláa í snjallsíma við sjálfan sig. Hvernig á að ræða við snillinginn um huldufólk, álfa og landvætti, -já eða biðja bæna til almættisins í gegnum forrit tengdu gervigreindarmiðstöð rétttrúnaðarins undir regluverki alríkisins, -það verður hver og einn að eiga við sjálfan sig.
Þar verður sennilegast eins með farið og þennan bloggpistil, -allt vistað í gagnveri ásamt ljósmyndum af löngu liðnum sólsetrum, sem engin hefur lengur áhuga á, nema myllueigendur orða- og orkuskiptanna. -Sem sagt tínt og tröllum gefið, -nema ef vera kynni að hægt sé að ná sér niður á þér með tíð og tíma. Nei, ráðherra má ég þá heldur biðja um Megas og Jónas þó svo Heine hafi veitt innblásturinn.
Og sólin hún skein á skrúði blómanna
og skinnið svo mjúkt á stúlkunum ungu
og fuglarnir á trjátoppana
tylltu sér
þöndu brjóst
og sperrtu stél
og sungu;
skríddu ofan í öskutunnuna,
aftur á bak með lafandi tungu.
Heiðraði ráðherra úr hamrinum þínum
hola massífa úr fljótandi steypu
ég kem ekki á fund þinn
til að fá hjá þér neina fyrirgreiðslu
enda yrði slíkt sneypu för
heldur gefa þér gott ráð ráðherra
við geðfargi,
geðfári,
geðstríði,
geðkrabba,
geðmeini þín þungu
skríddu ofan í öskutunnuna,
aftur á bak með lafandi tungu.
Árið 1979 kom út eitt af meistaraverkum íslensks skáldskapar, Drög að sjálfsmorði, tónleikaplata Megasar sem átti upphaflega að vera fyrir konsept albúma elítuna. Blankheit listamannsins gerðu það að verkum að ekki var hægt að taka upp í stúdíói og þess vegna var hljóðritað á tónleikum, sem haldnir voru í Menntaskólanum í Hamrahlíð 5. nóv 1978, -við magnaðar undirtektir.
Hljóðfæraleikarar voru, -fyrir utan Megas; -Björgvin Gíslason, Guðmundur Ingólfsson, Lárus Grímsson, Pálmi Gunnarsson og Sigurður Karlsson. Hljóðblöndun í sal annaðist Magnús Kjartansson. Eftir Drög að sjálfsmorði hvarf Megas af sjónarsviðinu langa hríð og uppi voru sögusagnir um tíma að hann hefði stytt sér aldur.
Eins og allt sem er gert án aðkomu auðróna er þetta konsept albúm meistaraverk, og gæti allt eins verið minnst, sem eins af því besta sem íslensk menningu hafði upp á að bjóða seinni hluta 20. aldar,,, - -þegar fram í sækir. Hreinasta þjóðargersemi hvað tónlist, skáldskap og íslenska tungu varðar.
Ég keypti Drög að sjálfsmorði um leið og það kom í sölu, líkt og fleiri plötur Megasar fram að því. Þetta var mest spilaða albúmið mitt 1979, -erfiðasta ár sem ég hef lifað. Sú, sem kenndi mér móðurmálið mitt góða, og var minn verndarvættur þrátt fyrir að ég ætti það ekki skilið, hafði látist af slysförum í desember 1978.
Ég var týndur á botni brennivínsflösku svo vikum skipti þetta ár, orðin einn og afskiptur. Fáir vildi þá kannast við kauða, enda vandræða gemlingur löngu fyrr. Undir koddanaum var flaskan og Drög að sjálfsmorði í botni á fóninum. Tappinn náði svo botni rétt eftir áramótin 79-80 á Silungapolli og Sogni.
Fyrir skemmstu lagði ég svo aftur í að hlusta á Drög að sjálfsmorði og upp þyrluðust gamlir draugar. Vonandi verður það samt ekki svo að íslensk tunga, ástkæra og ylhýra móðurmálið, hafi þau áhrif eftir nokkra áratugi að hún verði hvergi skilin án apps og skýringa þess opinbera, því þar munu;
Væla draugar í dalnum gróðursæla
dauðir fuglar tísta á hverri grein
Eva litla sestu hérna hjá mér
vertu ekki hrædd
þú veist að ég vil þér ekkert mein.
Það er tré,
það er vatn,
það er fiskur í hylnum
fiskurinn sem var veiddur þar forðum.
það er dýr sem sefur vært og veit sig óhult
menn vöktu það eitt sinn
og drápu það jafnskjótt með orðum.
Eftir skotgröfinni skýst ég eins og krypplingur
og skeyti hvergi um tár eða svita.
Ég vaknaði klukkan níu í niða myrkri
og hélt nötrandi af stað
til að borga rafmagn og hita.
Drög að sjálfsmorði - gjörið svo vel.
Dægurmál | Breytt 11.6.2023 kl. 06:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.4.2023 | 15:37
Örfá orð um her
Þegar kaldastríðskumlin hrygla og mæðast við að mæla fyrir íslenskum her, -tekst kannski eftir allt saman að endurvekja andvana fæddan tilbera í vindrellandi bryndreka, sem ekkert varð úr fyrir hrun, -Geysis Green og EES til arðs og æðis.
Formsatriði var á sínum tíma ekki fullnægt, -en slapp samt til þá, helferðarhyskið sá um að verja þetta ógeðslega þjóðfélag fyrir náhirðina, -þar sem eru engin prinsipp, engar hugsjónir, bara tækifærismennska og valdabarátta vatnsblá, glær og galtóm, -en nú skal formsatriði fullnægt.
Þegar fölsku tennurnar glamra enn á ný í kaldastríðskumlinu, augun eru orðin eins og gutlandi spælegg innan við ferköntuðu flöskubotna gleraugunum, sem trjóna á nánösunum, -styttist í að Grísalappalísa heillist af mesta fríki á Fróni - sem verður mælandi á hroða ensku.
Sú herkvaðning verður vonandi á við öskur trúðsins, sem er þúsund þagna virði, -drög að dróma; á við dyn kattarins, skegg konunnar, undirstöðu bjargsins, sinar bjarnarins og minni gullfisksins, -svo ég held ég bara þegi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.4.2023 | 06:58
Einu sinni enn
Það kom um páskana með gulri viðvörun Veðurstofunnar, þó svo að það hafi mátt greina veðrabrigði dagana undan. Enn er samt svo að ég ligg andvaka í nætur myrkrinu, -og það eru fleiri sem vaka.
Kliður unga fólksins berst inn um gluggann frá flóðlýstum körfuboltavellinum með þessum þungu droppum og hringlanda glamri í spjaldinu.
Þögn og smá dúr með draumi um krumma, losa svefnrofana við píkuskræki í fjarska, á balli með Stjórninni í Valaskjálf, -eftir að helgi föstudagsins langa lauk.
Sný mér á hina hliðina og næ í lítinn kríublund og dreymi krumma, Þegar skellinaðra rífur þrautseig og þrusandi þögnina. Einhver á leið fram Tjarnarbrautina, ekki á neinu hljóðu hoppi, -heldur er silast langt aftur tímann.
Krummi er hættur að krunka fyrir utan gluggann upp úr kl 5, -búin að skella í góm, tína saman sprekin og brúkar nú flugfjaðrirnar til meira áríðandi starfa, -ég sakna krumma um stund.
Ævi er uppi fyrir allar aldir, komin í bleikt, brosið ljómar í fyrstu sólargeislum morgunsins, vindurinn leikur um hárið. Hún skellir niður hælunum í 30 ára jólaskóm af mömmu, -nú dansar Ævi í rauðum skóm úti á svölum fyrir ömmu.
Já það er komið vor, einu sinni enn.
Dægurmál | Breytt 11.4.2023 kl. 05:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2023 | 06:00
Þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína
Ef eitthvað er, -sem ætti skilyrðislaust að að sleppa í löngum bloggpistli í von um lesendur, þá er það að minnast á eilífðina, sálina, kærleikann og Guð, -hvað þá fara með ljóð þessu tengd. Allar þessar grundvallarreglur ætla ég að brjóta þennan langa föstudag og hef meir að segja ljóðlínur í fyrirsögn.
Kærleikurinn og kærleiksviljinn, traust á handleiðslu æðri máttar og einlæg viðleitni að samþýðast honum, eru aðalþættirnir í kenningu Jesú og allri sannri guðsdýrkun. Það í trúarbrögðunum sem er fram yfir þetta er að mestu leyti hljómandi málmur og hvellandi bjalla.
Í kirkjum kristinna manna er það oftast bjölluhljóðið, sem mest ber á.
Við jarðarfarir nálgast kirkjurnar það mest að vera musteri guðs. Ekki vegna þess, sem þar er venjulega sagt, heldur vegna þeirrar hljóðlátu undirgefni undir guðs vilja, sem fram kemur við slík tækifæri. (Skriftamál einsetumannsins kafli VI - Hið mikla dularfulla - bls 37)
Þessar vangaveltur um trúarbrögðin, kirkjuna og kærleikann í kenningu Krists má finna í bókinni Skriftarmál einsetumannsins eftir Sigurjón Friðjónsson, sem kom út 1929. Þar birtast skoðanir hans á andans málum í ljóðrænum og þ.m.t. tilgangi trúarbragða. Sigurjón lenti upp á kannt við þjóðkirkjuna á sínum yngri árum.
Í bók um Sigurjón Friðjónsson, sem Arnór sonur hans tók saman um ljóð hans og ævi, kemur fram hvað bar þar á milli. Sigurjón Friðjónsson og Kristín Jónsdóttir létu ekki skíra börnin sín, sem á 19. öld samsvaraði nánast því að segja sig úr lögum við Guð og menn. Þetta gerðu þau Kristín þrátt fyrir að vera sjálf gefin saman í kirkju.
Það sem meira var að Sigurjón hirti ekki um að greina frá ástæðum þess að skíra ekki börnin, og lenti snemma í ógöngum. Í bréfi til vinkonu sinnar í Vesturheimi skýrði hann ástæðuna og segist þar vel vita hvað það geti þýtt að taka sig út úr í þessu efni, og þá einkum fyrir börnin. Hans skoðun var sú að börn eigi að fá að taka þessa ákvörðun sjálf þegar þau hafi aldur og þroska til, -og segir;
Ég þykist ekki hafa gert neitt jafn stórt drengsakaparbragð í lífinu og það að brjóta í bága við venjuna í þessu efni enda gerði ég það eftir skýlausri skipan tilfinningar minnar fyrir því hvað rétt er og rangt. En þó þekki ég ekkert dæmi þess, að það hafi verið lagt öðruvísi út en á verri veg.
Sigurjón hafði komist í mikinn vanda vegna þessarar afstöðu sinnar þegar Sigurbjörg, annað barn þeirra hjóna, lést á fyrsta ári. Presturinn á Grenjaðarstað, séra Benedikt Kristjánsson, taldi sig ekki geta jarðað barnið vegna þess að það var ekki innan þjóðkirkjunnar. Jarðarför Sigurbjargar fór samt fram í kirkjunni í Nesi í Aðaldal eftir fjölmenna messu þar sem séra Benedikt þjónaði fyrir altari.
Þar flutti Sigurjón sjálfur ræðu og las síðan stutt kvæði við gröf barnsins. Í kvæðinu kvaðst hann fela hana minningu móður sinnar með ljóði þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína, en móðir sína missti hann sjálfur á 6. ári. Eftir að ljóðið var flutt við gröfina, gekk Friðjón faðir Sigurjóns til prestsins, sem stóð álengdar, og fékk hann til þess að taka rekuna og molda kistuna með vanalegum formálsorðum.
Sigurjón hélt ævilangt vopnahlé við kirkjuna, þó svo að ekkert af hans 11 börnum hafi verið skírð eftir sem áður, né fermd. Hann sótti ekki mikið kirkju um ævina nema við jarðarfarir nágranna, segir Arnór. Í bók Sigurjóns, -Skriftamál einsetumannsins, sem kom út árið 1929 á 63. aldursári hans, kemur glöggt fram hversu mikla virðingu hann bar fyrir almættinu og kærleiks boðskap Krists.
Hið eilífa snertir manninn eins og háfjalla kyrrð. Eins og dásamlegur friður. Eins og hamingja sem ekki verður skýrð með orðum.
Eins og niður fjarlægra vatna. Eins og vængjaþytur hvítra svana. Eins og hvískur gróandi skóga.
Í faðmi þess verður fljót sorgarinnar lygnt. Harmur hins liðna eins og brimgnýr í miklum fjarska.
Eins og hlýr geislastafur, sem brýst í gegnum ský; brýst í gegnum myrkur og kulda svo er kærleikur þess dularfulla. (Skriftarmál einsetumannsins kafli XII - Návist hins ósýnilega bls 64)
Mér lá mikil forvitni á að vita hvernig jaðarförin að Nesi hefði farið fram, því á hana hafði verið minnst á við mig þegar ég var enn vel innan við þrítugt og við Matthildur mín vorum að eignast okkar börn, á svipuðum aldri og Sigurjón og Kristín voru þegar Sigurbjörg annað barn þeirra var jarðað.
Þegar ég svo las þessi fáu orð úr ljóði í vetur þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína, þá fannst mér ég verða að finna ljóðið ef mögulegt væri. Arnór segir ekki mikið um jarðaför systur sinnar, en gefur þá vísbendingu að frá henni hafi Erlingur Friðjónsson, bróðir Sigurjóns, sagt í bók sinni, -Fyrir aldamót.
Ég fór því að leita eftir bókinni ef allt ljóðið skyldi vera þar, eins til að fá nákvæma lýsingu á þessum atburði. Bókina fann ég svo í fornbókaverslun og keypti. Þar er þessum jarðafarardegi lýst nákvæmlega, enda var Erlingur sjálfur viðstaddur og dagurinn honum sjálfsagt minnisstæður alla ævi.
Erlingur segir frá þeim bræðrum sínum Sigurjóni og Guðmundi Friðjónssonum sem ekki voru sammæðra Erlingi. Friðjón faðir þeirra átti fimm börn með móður Erlings án þess að þau hjónakornin hefðu gifst. Guðmundur var ungt skáld sem fór opinberlega gegn kirkjunni. Sigurjón gerði það sem fáheyrðast var, -hann fór ekki með börnin sín til skírnar.
Erlingur, sem var mikill félagsmálamaður og alþingismaður á sinni tíð, telur að kirkjuyfirvöld hafi verið búin að setja séra Benedikt fyrir, vegna trúarskoðana þeirra feðga á Sandi. Presturinn hafi því hvorki talið sér skylt né fært að jarðsyngja Sigurbjörgu þar sem hún var óskírð.
Í bókinni Fyrir aldamót er þessum jarðafaradegi lýst sem björtum og fögrum síðsumardegi. Húskveðja fór fram heima á Sandi áður en haldið var til messu með litlu kistuna. Kirkjan var aldrei þessu vant yfirfull á venjulegum messudegi. Erlingur telur það vera vegna þess að mörgum hafi leikið forvitni á að vita hvernig þessi jarðaför barns, sem var óskrifað blað, færi fram. Enda afstaða prestsins hljóðbær orðin.
Öllu er lýst nákvæmlega, -hvar ungu hjónin sátu í kirkjunni við hornið á altarinu og hvar litla kistan stóð hjá þeim sunnan við gráturnar, en vaninn var við jarðaför að láta kistuna standa beint fram af altarinu. Þegar séra Benedikt hafði lokið venjulegri sunnudagsmessu gekk hann frá altarinu og settist við vegginn norðan við.
Sigurjón stóð á fætur og las yfir kistunni ræðu sem hann hafði á blöðum, hann talið hægt og með hléum. Ræðan var nokkuð löng og vék hann eitthvað að trúarskoðunum sínum. Hann hallaði ekki einu orði á kirkjuyfirvöld, en talaði um hversu lítið væri vitað um lífið hinumegin grafar.
Að ræðunni lokinni var litla kistan borin út að gröf og látin síga niður. Þar fór Sigurjón með ljóð, sem var eins og talað til móður hans sem hvíldi í gröfinni. Presturinn hafði ekki fylgt nánustu ættingjum eins og vani var við jarðarför, heldur stóð einn álengdar og fylgdist með hópnum við gröfina.
Þegar þarna var komið kom hik á jarðaförina, messufólkið stóð hljótt eins og beðið væri eftir einhverju. Friðjón faðir þeirra bræðra gekk þá til prestsins og talaði eitthvað við hann í hálfum hljóðum, sem engin heyrði, og ekki sá Erlingur séra Benedikt svara neinu.
En séra Benedikt gekk að gröfinni, tók skóflu úr moldarbingnum og þögnin var rofin með orðunum: Af jörðu ertu komin. Að jörðu skaltu aftur verða. Og af jörðu skaltu aftur upp rísa. Og nokkur korn af mold féllu á kistuna í gröfinni við hverja setningu.
Það létti yfir söfnuðinum, sem staðið hafði þögull þétt saman í kirkjugarðinum. Erlingur segir að úr andlitum fólksins hafi mátt sjá að presturinn hafði unnið það verk, sem í vitund þess var þýðingamest við skilnað manneskju við þetta líf.
Þegar séra Benedikt og kona hans voru kvödd við brottför frá Grenjaðarstað, voru Sigurjón og Kristín flutt úr kirkjusókn séra Benedikts og í aðra sveit. Þau hjónin gerðu sér ferð í kveðjusamsæti til heiðurs presthjónunum. Þar talaði Sigurjón til þeirra og sagði að ýmsir myndu halda að hann væri í andstöðu við prestinn, en þau hjónin væru komin til að sýna að svo hefði aldrei verið, ef einhver ágreiningur hefði verið, þá væri hann um ytri atriði í siðvenjum kirkjunnar.
Ljóðið sem ég vænti að finna í bók Erlings Friðjónssonar, -Fyrir aldamót, var ekki þar nema ein hending, en Erlingur segir erindin hafa verið þrjú, annað virðist því glatað, -en erindið er svona:
Þess vegna, móðir, ég hneigi hér,
er hélar um stigu mína,
þær fegurstu vonir, er fæddust mér,
í faðmlög við minningu þína.
Landsins-saga | Breytt 31.3.2025 kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.4.2023 | 14:45
Ógeðslega Ísland
Það hefur sjálfsagt mátt greina undanfarið á þessari síðu að höfundur hefur verið gnafinn. Tungumálið á hverfandi hveli fyrir hroða ensku, regluverk andskotans flæðir yfir svo landanum er orðið ófært að koma sér upp heimagerðu þaki yfir höfuðið hvað þá hænsnakofa án þess að brjóta EES samninginn, sem nú á endanlega að staðfesta að er rétthærri íslenskum lögum, nema að þau séu samhljóma.
Allt hefur þetta gerst á minni vakt, kynslóðar sem ólst upp við að haldið var upp á fullveldisdaginn með fríi í skólum, -kynslóðar sem ólst upp við að vera Íslandi allt með 17. júní helstan hátíðisdag ársins, -kynslóðar sem vissi að dreifðar byggðir landsins yrðu að vera í byggð því síðasti bærinn yrði aldrei til lengdar sá síðasti.
Nú er risið við sjóndeildarhring djöflaríki, þar sem íbúar byggðalags í nauðvörn verða að kaupa heilsíðuauglýsingu til að vekja athygli á firðinum sínum sem á að eyðileggja með óumbeðnu erlendu fiskeldi. Íbúar hafa einfaldlega ekkert um það að segja og fjölmiðlar landsins bláa þegja þunnu hljóði svo ekki slettist á allt of litlu bláu buxnadragtir Davos dúkkulísanna sem halda þeim uppi á óreiðustyrkjum.
Íbúar í stórsameinuðu sveitarfélagi Múlaþings eru með heilsíðu auglýsingu í Dagskránni þessa vikuna þar sem má lesa þetta: Stopp verndum Seyðisfjörð - 75% íbúa Seyðisfjarðar hafna sjókvíaeldi Ice Fish Farm, samkvæmt skoðanakönnun sveitarfélagsins. Ice Fish Farm, sveitarfélagið og innviðaráðherra virða ekki vilja íbúa. Persónulegur fjárhagslegur ávinningur erindreka fyrirtækisins er að minnsta kosti þrír milljarðar ef af verður. Náttúran, lífríkið og samfélagið á Seyðisfirði bera skaðann.
Já svona er komið á minni vakt, því segi ég ógeðslega Ísland.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.4.2023 | 16:53
Sama árferðið - sitt hvor aðferðafræðin
Árið 1966 ákvað ríkisstjórn Íslands að sporna gegn verðbólgu með því að lækka vöruverð, þetta var m.a. gert með með lækkun mjólkur og annarra innlendra nauðsynjavara. Um þetta mátti lesa í pólitískum fjölmiðlum þess tíma og þótti þetta arfavitlaust af mörgum, -en virkaði.
Í aðdraganda aðgerðanna mátti í Degi lesa þetta: -Ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða niður verðlækkun þá, sem um samdist fyrir skömmu við verðlagningu búvara. Stjórnarblöðin raupa af þessu og segja, að ríkisstjórnin hafi nú stigið fyrsta skrefið til að stöðva verðbólguna. Á öðrum stað segir, að nú geti stjórnar andstæðingar verið ánægðir, því að þetta hafi þeir heimtað.
Í dagbók afa míns, var þetta skráð þann 23.10.1966 -Messað í Vallaneskirkju prestur var séra Ágúst Sigurðsson, 36 manns voru við messuna. Víkingur í Skógargerði kom og sótti 6 ær sem hann átti hér. Í dag lækkaði mjólkin um 1,35 kr, mjólk í lausu máli er 5,95 kr, var áður 7,30 kr. Egg eru seld á 90,00 kg, kartöflur á 18,00 kr hvert kg, rófur á 16,00 hvert kg.
Ég sæi þetta gerast nú á dögum þegar allt gengur út á hækkanir verðbólgu púkum hagvaxtarins til yndisauka.
![]() |
Mjólkin hækkar líka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2023 | 05:45
Jón og Gróa
Flestir hafa Gróu á Leiti nú orðið í hendi sér eftir að hún snjallvæddist og geta upplýsingar þess vegna borist á ljóshraða hvert á land sem er í fjarvinnu. Í upphafi vinnuvikunnar stóðu íbúar í Neskaupstað frami fyrir ógnvænlegum vágesti og var Guðs mildi fyrir að þakka að ekki fór ver.
Fljótlega var samhæfingarmiðstöð almannavarna virkjuð í Skógarhlíðinni til að hafa yfirsýn yfir hamfara vettvanginn. Þörf var talin á að skerpa á upplýsingaflæðinu með því að trekkja upp Víðir hlýðir, enda fyrirsagnir frétta oftar en ekki nú orðið eins og hverjar aðrar Gróusögur sem nærast á klikkum lesenda.
Dagana á eftir fóru fram einar víðtækustu rýmingaraðgerðir Íslandssögunnar. Reyndar hafði staðið til að hefja rýmingu um það leiti sem snjóflóðið féll í Neskaupstað, en ekki náðst í tíma, eftir því sem fyrstu fréttir úr Skógarhlíðinni hermdu. Aldrei er of varlega farið því engin tryggir eftirá eins og frægt er orðið, og voru rýmingar því viðhafðar hér og þar um endilanga Austfirði.
Er á vikuna leið, og eftir því sem hús í fleiri fjörðum voru rýmd kom söngurinn um Jón pönkara upp í hugann, og að rétt væri að fara tilhlýðilega um í hamförum tölvustýrðra spálíkana, og láta ekki boðskapinn rúlla eins og valtara. Því ef ekki; þá er allt eins víst að farið gæti eins og í söngnum um Jón:
Orð hans mælast óðar illa fyrir
Hann svívirðir okkur, ég segi það með
Hann rakkar niður samfélagið
Öryggi, tekjur og fasteignaveð
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2023 | 16:53
Stolið og skrumskælt
Góðir Íslendingar nú erum við ekki í góðum málum. Viðundrin á Svörtuloftum hafa hækkað flugið einn ganginn enn, og ætla sér nú að ná niður verðbólgunni á heimsvísu eftir að Jón og Gunna eru hætt við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nú gildir sama aðferðafræði og hjá gálunum sem heimsóttu Kænugarð í vikunni sem leið, til ráðfæra sig við stríðsherra um hvernig mætti fjármagna síðustu heimstyrjöldina.
Þegar að tærnar á Jóni og Gunnu á Tene hættu að vera vandamálið blossaði verðbólgan upp á heimsvísu, auk þess sem ríki, sveitafélög og auðrónar landsins hafa neyðast til að fara hamförum við lántökur til að fjármagna allar frábæru hugmyndirnar sínar; -sjálftökuna og arðgreiðslurnar af vísitölu verðbólgunnar. Meir að segja verkalýðsforingjarnir eru að ranka úr rotinu.
Eftir áralanga baráttu við víxlhækkanir verðbólgu og vaxta innanlands hafa Why Iceland viðundrin og flissandi fábjánar nú ákveði að nota afburða þekkingu sína til að bjarga heiminum. Nú mega Jón og Gunna heldur betur bretta niður buxnaskálmarnar, trúa á hamfarahlýnunina og sameinast um að ýta öllum flækingunum upp úr snjósköflunum svo aftur megi koma blóm í haga með betri tíð.
Já nú er Einmánuður gnafinn, stolinn og skrumskældur.
Fnæsir nepju úr nösum
næðu um barm og vanga
norðan napuryrði
krepja tár á vanga.
Hleður snjó í hlíðar
skefur skafli í götu,
-mjöll sólar geislum í.
Senn kemur lóa,
sem syngur í móa;
bí bí bí og dýrðin dí.
Vorið kemur víst á ný.
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.3.2023 | 13:55
Niðursetningar
Samkvæmt orðabók er niðursetningur einstaklingur sem býr ekki hjá fjölskyldu sinn heldur er á framfæri sveitarfélags, -sveitarómagi. Að verða niðursetningur forðaðist fólk af öllum mætti áður fyrr, því þá var einstaklingurinn upp á sveitunga sína kominn með framfærslu. Enda var meðferðin á niðursetningum ekki alltaf góð.
Í manntali frá 1801 kemur fram að niðursetningar voru tæp 5 % fólksfjölda á Íslandi. Í manntali hundrað árum fyrr eru þeir taldir um 15 % þjóðarinnar. Niðursetningar voru færðir á milli bæja, eða þeir færðu sig sjálfir á milli, en það átti þá helst við um vinnufæra ómaga. Hreppurinn greiddi með, -eða réttar sagt lét bjóða í niðursetninginn og fékk sá sem lægst bauð.
Helst var það ungt og gamalt fólk, sem átti á hættu að verða niðursetningar, eins einstæðingar sem höfðu misst starfsgetuna af einhverjum ástæðum. Áður en ellin kvaddi dyra þá var það stundum þannig, að ef fólk átti fjármuni þá lét það eignir sínar til þeirra sem sáu um það í ellinni og ef það var ótengt fólk var það kallað próventa.
Í bókinni Að vestan II eru tvær sögur af niðursetningum í Fellahreppi sem Sigmundur M Long skráði eftir að hann flutti til Vesturheims. Sigmundur var fæddur 1842 og foreldrar hans bjuggu um tíma á Ekkjufelli. Þessi bók er einstaklega áhugaverð fyrir þá sem vilja sjá fyrir sér hvernig lífið gekk fyrir á 19. öld og jafnvel á seinni hluta 18. aldar því Sigmundur hefur einnig skráð það sem hann heyrði frá eldra fólki.
Önnur niðursetnings sagan er af Jófríði Magnúsdóttir sem var niðursett unglingstúlka hjá Bessa ríka Árnasyni á Ormarsstöðum. Hún var sögð hafa verið frá náttúrunnar hendi efnisstúlku, en mjög illa haldin eins og átti sér stað um niðursetur á þeim árum. En Jófríður hefur verið niðursetningur á Ormarstöðum, miðað við fæðingadag og unglingsár, skömmu fyrir eða í Móðuharðindunum upp úr 1780.
Sigmundur segir þarna sjálfsagt söguna eins og hann hefur heyrt og munað. Ormarstaðafólkið á að hafa farið til messu í Áskirkju á páskadag, en Jófríður verið ein eftir heima. Á meðan fólkið var í burtu fór hún og skar stykki úr dauðum hesti, sem hafði lent ofan í fen snemma um veturinn, fór með bitann heim, -sauð og át.
Þetta uppgötvaðist og mæltist illa fyrir, bæði var bann við hrossakjötsáti hjá kirkjuyfirvöldum og hún hafði þar að auki gert þetta í leyfisleysi á stórhátíð. Bessi, sem var bæði hreppstjóri og nefndarmaður, fékk því framgengt að henni yrði refsað við messu á Ási, en þar var gapastokkur við kirkjuna til refsinga ætlaður.
Um hvítasunnu dróst Jófríður við staf máttfarin til messu með Ormarsstaðafólkinu. Á hlaðinu stakk einhver því að henni í trúnaði, hvaða refsing biði hennar. Við þá frétt ákvað hún að forða sér og höktir við stafinn heim á leið. Bessi bað menn um að sækja hana, en það vildi engin gera og var honum sagt að það færi best á að hann gerði það sjálfur.
Bessi snaraðist á eftir Jófríði og greip til hennar, en hún streittist á móti. Nú duga engar sperringar; -sagði Bessi og dró hana í gapastokkinn. Það merkilega við þessa sögu er að Jófríður varð síðar seinni kona Bessa og þótti bæði efna- og myndarkona því um hana var kveðin þessi vísa í sveitarvísum Fellahrepps eftir að hún hafði búið ekkja og eigandi á Birnufelli.
Á Birnufelli hringa hrund
hefur búið lengi,
Jófríður með jafna lund
jarðeigandi er þetta sprund.
Hin niðursetnings saga Sigmundar er frá hans samtíma, en þar segir hann frá Ingibjörgu gömlu Jósefsdóttir. Hann segir frá því þegar hún kom í heimsókn á hans bernskuheimili á Ekkjufelli um miðja 19. öld, lýsir henni sem lítilli konu, hörkulegri fjörmanneskju, greindri í betra lagi og skap mikilli.
Ingibjörg var Eyfirsk að uppruna, átti til að drekka vín og var hálfgerður flækingur í Fellum. Ef henni var misboðið, þá fór hún með illyrði og bölbænir, en fyrirbænir og þakklæti ef henni líkaði. Hann segir að Ingibjörg hafi verið næturgestur hjá foreldrum sínum og beðið þeim margfaldrar blessunar þegar hún kvaddi.
Hún hafði átt eina dóttir sem einnig hét Ingibjörg. Maður, sem kallaður var Jón Norðri af því að hann var að norðan, hafði barnað Ingibjörgu dóttir Ingibjargar og dó hún af barnsförum. Taldi gamla Ingibjörg Jón banamann dóttur sinnar og hataði hann bæði lífs og liðinn.
Þau Jón og Ingibjörg hittust einhverju sinni á Egilsstaðanesi og var Jón þá drukkin á hesti en Ingibjörg gamla algáð og fótgangandi. Bæði voru á leiðinni út fyrir Eyvindará og bauð Jón henni að sitja fyrir aftan sig á hestinum svo hún þyrfti ekki að vaða ána.
Ingibjörg þáði þetta, en þegar komið var á hinn bakkann var hún ein á hestinum, en Jón drukknaður í ánni. Hún Guð svarði fyrir að hún hefði verið völd að dauða Jóns, en ekki tók hún þetta nærri sér og sagði að fjandinn hefði betur mátt hirða Jón, þó fyrr hefði verið.
Sigmundur hitti Ingibjörgu aftur þegar hún lá í kör á Skeggjastöðum í Fellum. Þá var hún farin að sjá púka í kringum sig og fussaði og sveiaði um leið og hún sló til þeirra með vendi. Á milli bráði af henni og hún mundi vel eftir foreldrum Sigmundar og blessaði þá í bak og fyrir, þarna var Ingibjörg háöldruð orðin ómagi á framfæri sveitar.
Hún átti samkvæmt reglunni sveit í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði en þaðan var borgað með henni sem niðursetningi því ekki vildu þeir fá hana norður, og varla var tækt að flytja hana hreppaflutningum svo langa leið háaldraða og veika. Á seinasta aldursári Ingibjargar barst sú frétt með Héraðsmanni í Fell, sem hafði verið norður í landi, að Eyfirðingum þætti Ingibjörg vera orðin grunsamlega langlíf.
Um veturinn kom Glæsibæjarhreppstjórinn í Fell eins og skrattinn úr suðaleggnum. Vildi þá svo óheppilega til að Ingibjörg var dáin þremur mánuðum áður, en Fellamenn gátu sýnt honum kirkjubókina svo hann mætti sannfærast um að Fellamenn hefðu ekki látið þá í Glæsibæjarhreppi greiða með henni dauðri.
Í þessari bók Að vestan eru miklar heimildir um samfélag þess tíma og má ætla að þar sé sagt tæpitungu laust frá, enda sögurnar skráðar í fjarlægð við það fólk sem þær gátu sært. Sagnaþættir Sigmundar eru í raun mun merkilegri heldur en bara sögurnar, því þar lýsir hann einnig staðháttum og samgöngum.
Frásögnin af Ingibjörgu gömlu og Jóni Norðra á Egilsstaðanesinu á leið yfir Eyvindarána hefur líklega gerst þar sem Egilsstaðaflugvöllur er nú og hefur ferðinni væntanlega verið heitið út Eiðaþinghá eða niður á Seyðisfjörð.
Einnig var á þeim tíma engin brú yfir Lagarfljót, en ferja frá Ferjusteinunum í Fellbæ, sem eru rétt innan við norður enda Lagarfljótsbrúarinnar. Ferjan sigldi þaðan yfir í Ferjukílinn sem er rétt utan við austur enda brúarinnar.
Lögferju var lengst af sinnt á Ekkjufelli og má ætla að Skipalækur þar sem ferðaþjónusta er í dag neðan við golfvöllinn á Ekkjufelli, beri nafn sitt af lægi ferjubátsins.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)