Fari það í rauðglóandi helvíti

Það hrynja öll þjóðleg gildi þegar auðræði og hórdómur ríða röftum, ekkert fær þann Darraðardans staðist ekki Alþingi frekar en Sódóma gamla testamentisins. Sú upplýsingaóreiða sem kemur frá fjölmiðlum þessi misserin er ætlað að ganga endanlega frá þjóðríkinu.

Óhamingja þjóðarinnar er og hefur verið innanlend græðgi og undirlægjuháttur við erlend áhrif. Í ríkasta landi heims virðumst við vera að komast á svipaðar slóðir með fullveldi lýðveldisins og þjóðveldið fyrir 750 árum síðan.

Fullveldið er haft af sofandi þjóð með landráðum. Flotið er að feigðarósi í allsnægtum. Augunum lokað fyrir þeirri staðreynd að gullaldir okkar voru á tímum þjóðveldis og lýðveldis í fullveldi. Þar á milli volæði.

Lítil von virðist til að landsmenn vakni til vitundar í allri hjarðhegðuninni, með gulrótina fyrir augunum og kolefnissporið strókandi aftan úr rassgatinu. Helst að landinn hafi áhyggjur af sóðaskapnum þegar hann fréttir af fyrirhuguðum þungaflutningum fósturjarðarinnar til skips fram hjá stofuglugganum.

Einn ganginn enn er búið að upphefja erlenda fjárfestingu til skýjanna, þó að engin von sé til þess að glópagullið gagnist landsmönnum frekar en fyrri daginn. Ráðamenn skríða fyrir glóbalnum og framselja vald sem þeir hafa ekki, sem eru hrein og bein landráð.

Á tímum Carbfix og Mílu á að auka óskapnaðinn með hamfarórækt í formi skóræktar á erlendum styrkjum, með vindmyllu ökrunum yfirgnæfandi til lands og sjávar. Á meðan innfluttur Blóðþorrinn svamlar helsjúkur fyrir framan nefið á okkur í fjörðunum.

Í upphafi Úlfljótslaga er sagt frá landvættunum “sigl eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu svo að landvættir fælist við” -erlent vald hefur aldrei náð fótfestu á Íslandi nema með landráðum og þau hafa hingað til hefnt sín grimmilega.

Landvættir hafa varið fullveldi þjóðarinnar þegar hún hefur farið fram á það. Er þar skemmst að minnast Eyjafjallajökuls sem spúði eimyrju yfir fjendur okkar sem beittu hryðjuverkalögum og viðskiptaþvingunum.

Flissandi fábjánar í Davos dúkkulísudrögtum láta nú viðgangast að fósturjörðin sé seld í bókstaflegri merkingu til erlendra auðróna, og verði flutt úr landi í skiptum fyrir niðurdælanlegan sóðaskap á carbfix nýsköpunarstyrkjum úr ranni ESB.

Engan þarf að undra að leitað sé nú fornra gilda, á náðir vætta landsins, um að koma náhirðinni svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvíti. Fátt er orðið um annað að ræða en ákalla landvætti og biðja Guð um að blessa Ísland.


Blokkin

Útgarður 2

Einu sinni voru húsin stór og trén það smá að beðið var í eftirvæntingu eftir að þau stækkuðu svo skjól yrði í kringum húsin. Nú má segja að öldin sé önnur á Íslandi og ef fer sem horfir þá munu byggðir landsins smá saman hverfa í hamfaraórækt. Annars var ekki meiningin að setja saman pistil um timbur heldur steypu. Fyrsta blokkin á Egilsstöðum á nefnilega hálfrar aldar afmæli á þessu ári, þ.e.a.s. ef notast er við byggingaárið 1972, sem skráð er á fasteignaskrá, en bygging blokkarinnar hófst 1971.

Blokkin var lengi vel ekki kölluð annað en blokkin eða allt þar til að annað eins hús var byggt á sömu hæð nokkrum árum seinna, þá voru þær kallaðar annaðhvort rauða eða bláa blokkin. Nú er rauða blokkin blá og bláa blokkin græn og heita Útgarður 6 og 7. Það var ekkert smá mál að ráðast í byggingu blokkar í litlu sveitaþorpi eins og Egilsstaðir voru upp úr 1970.

Það var byggingafélagið Brúnás sem stóð í stórræðunum, yfirsmiður var Þórhallur Eyjólfsson. Að byggja 16 íbúða blokk í nokkur hundruð manna sveitahreppi var því stórhuga framkvæmd. Útgarður 6 er steinsteypt í hólf og gólf úr Hólsmöl, sem er ættuð úr Jöklu, utan úr Hjaltastaðaþinghá. Þeir veggir sem ekki eru staðsteyptir eru hlaðnir úr vikursteini og múrhúðaðir.

Þetta var byggingamáti þessa tíma, innlend byggingarefni og handverk í hvívetna, flest annað en innflutt ósamsett gler, trjáviður, og auðvitað þakjárn -sem þurfti að flytja inn í trjálaust landið. Blokkin á sér margar systurblokkir á Íslandi s.s. á Akureyri og Keflavík og vafalaust var víðar notast var við sömu teikningu.

Þegar ég flutti aftur í Egilsstaði 2004 keyptum við íbúð í blokkinni, þá sagði mér Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur og rithöfundur með fleiru, -sú sem átti íbúðina, að hún hefði komist að því að hreppsnefndarmenn á Egilsstöðum hefðu verið vel meðvitaðir um að blokkin yrði byggð á besta stað í bænum. Þeim hefði þótt rétt að sem flestir gætu notið útsýnisins, -og í blokkinni væru flestir íbúar eins og kóngar í ríki sínu sem horfðu út yfir byggðir Héraðsins.

Undanfarin 18 ár höfum við Matthildur mín átt heima í Útgarði 6. Útsýnið úr gluggunum spannar allt Héraðið og gott betur. Héðan úr gluggunum má sjá inn eftir Fljótinu allt inn í Snæfell, -hæsta fjall utan jökla á Íslandi. Fljótsdalinn, Fellin, norður í Heiðarenda, Jökulsárhlíðina með sínum líparítgulu strandfjöllum, norður Tunguna eftir Lagarfljóti þar sem það mætir bláma Héraðsflóans, Eiðaþinghána, austurfjöllin með Beinageitina gægjast undan Fjarðarheiðarendanum, Gagnheiði, Tungufell og Skagafelli, mynni Fagradals, Rauðshauginn, Höttinn og Sandfellið, Skriðdalinn og Geitdalinn með Þingmúlann á milli, síðan Hallormstaðahálsinn inn af Völlunum.

Reyndar hef ég stundum lýst þessu útsýni fyrir ókunnugum og þá tíundað að auk alls þessa sjái ég yfir Öxi alla leið niður á Djúpavog auk þess sem ég sjái ofan í Seyðisfjörð, Mjóafjörð og Reyðarfjörð, en þá vill það koma fyrir að fólk segir ; „jæja, nú lýgurðu". En það er ekki bara að ég sjái lengra nefi mínu úr Útgarðinum heldur sé ég fyrstur manna blikur á lofti og fáa staði veit ég betri til að fylgjast með skýjunum fara yfir himininn.

Í seinni tíð hefur trjágróðurinn byrgt á útsýnið niður á göturnar og þar sem gamla þorpið er, er orðið eins og að horfa yfir frumskóg, en flest kemur svo aftur í ljós þegar trén fella laufið á haustin. En það breytir ekki því að aðeins einn staður á Héraði hefur svipað víðsýni, það er í turninum á Egilsstaðakirkju, sem stendur á Gálgaásnum næsta kletti innan við Útgarðinn.

Þegar við Matthildur mín fluttum úr Laufenginu, innan við sundin blá, austur í Útgarðinn lofaði ég henni því að dvölin í Útgarðinum yrði stutt, að ég myndi byggja fyrir hana hús þegar við værum búin að koma okkar hafurtaski austur, hviss bang. Hún hafði það á hreinu að úti á landi væri ekki ástæða til að klifra upp á vindgnauðandi hæðir þar sem fólki væri staflað upp í loftið þegar nóg væri af skjólgóðum trjálundum.

Þetta hafði komið til tals inna stórfjölskyldunnar áður en ákvörðun lá fyrir svo að öllum væri ljóst að um eiðstaf væri að ræða. Mágur minn var fljótur að taka minn málstað varðandi þessa tímabundnu búsetu í Útgarðs blokkinni, þegar ég sagðist vissulega byggja hús þegar tími gæfist til, -hann sagði; „þú verður nú ekki lengi að henda upp húsi, varstu nokkuð nema 10 ár að því síðast?“ Matthildur mín er fyrir löngu hætt að tala um að flytja úr blokkinni, segist ekki tíma að missa útsýnið.

Eins og flestir vita þá standa Egilsstaðir í miðri sveit og fátt sem gerði þéttbýli mögulegt annað enn krossgötur og flugvöllur. Klettahæðin sem Útgarðs blokkin stendur á hét áður en nokkuð hús var reist á Egilsstöðum, því búsældarlega nafni Stekkás samkvæmt Egilsstaðabók. Í mínum uppvexti var svæðið oftast kallað Búbót þó svo að Útgarður hafi verið þá orðið hið formlega nafn. “Á hverju ætlar það að lifa” á Snæbjörn ömmubróðir minn í Geitdal að hafa spurt þegar þorp fór að myndast á Egilsstöðum.

Þéttbýli byrjaði að myndast eftir að sjúkrahús hafði verið flutt úr Fljótsdal eftir bruna á Brekku, -byggt á Egilsstöðum 1944. Á fyrstu árunum var þorpið oft kallað Gálgaás eftir ásnum sem það var byggt sunnan undir. Veturinn 1951–52 stofnuðu flestir heimilisfeður í Egilsstaðakauptúni með sér samvinnufélag, og var tilgangur þess að koma upp kúabúi og framleiða nauðsynlega neyslumjólk fyrir þorpsbúa. Vandræði höfðu orðið á því þennan vetur að útvega mjólk. Félagið skírðu þeir Búbót.

Framkvæmdahraði var mikill hjá þessu nýja félagi. Land var fengið og réttindi til nýbýlisstofnunar á því samþykkt af Landnámi ríkisins. Bústjóri var ráðinn, Björgvin Hrólfsson, -búfræðingur frá Hallbjarnarstöðum og frumbyggi í þorpinu. Strax um vorið 1952 hófust framkvæmdir. Byggt var fjós yfir 21 fullorðinn grip, þurrheyshlað 325 m3 að stærð og votheysturnar 2 samtals 144 m3. Auk þess mjólkurhús. Húsunum var valin staður framan í hæðinni utan við Gálgaklett.

Síðari hluta árs 1953 hætti Björgvin ráðsmannsstarfinu, en við tók Metúsalem Ólason frá Þingmúla og hafði það með höndum þar til búið var selt vorið 1956 Ólafi Sigurðssyni frá Bæjum á Snæfjallaströnd, en hann hafði þá búið á Miðhúsum nokkur ár. Búbótarfélagið var jafnframt lagt niður.

Árið 1956 eru hinar upphaflegu forsendur gjörbreyttar og eru þá Ólafi Sigurðssyni seldar eignir Búbótarfélagsins og félaginu slitið. Ólafur, sem oftast var kallaður Óli í Búbót, bjó á jörðinni í 10 ár og byggði á henni íbúðarhúsið Útgarð sem seinna varð nafngjafi fyrstu fjölbýlishúsagötu Egilsstaða þar á hæðinni. Vernharður Vilhjálmsson frá Möðrudal nytjaði jörðina eftir að Ólafur hætti búskap 1966.

Árið 1969 keypti Egilsstaðahreppur öll mannvirki á jörðinni en landið rann aftur til ríkisins. Ég spurði þá bræður Eyþór og Sigurð syni Óla hvort Útgarður væri goðsögulegt nafn, þeir sögðu báðir svo ekki vera pabbi þeirra hefði skýrt húsið Útgarð vegna þess að það hefði þá verið svo langt fyrir utan þorpið.

Á árunum 1970 – 1980 var ævintýraleg uppbygging við Útgarð og á landi Búbótar. Túnin urðu á svipstundu alsett húsum þar sem nú eru götunöfnin með völlum og tröðum. Menntaskóli var byggður á milli Útgarðs og Gálgaáss, þar sem reis Egilsstaðakirkja. Íþróttahús og sundlaug austan við Útgarðinn, rétt við skólann og menntaskólann.

Breytingarnar á hálfri öld hafa verið ótrúlegar og trén, sem kúrðu sunnan undir vegg við einstaka hús, hafa vaxið tugi metra upp fyrir húsin. Íbúar eru fyrir löngu hættir að bryðja  moldarrykið, sem rauk af götunum í suðvestan strekkinginum á heitum sumardögum, og geta nú gengið hnarreistir um göturnar í blíðalogni og hlustað laufvinda ljúfa hvísla í trjátoppunum.

Vilhjálmsvöllur 1973

Myndina tók ég 17. júní 1973, þá var Útgarðsblokkin nýlega komin í notkun, íbúðarhúsið Útgarður er vinstra megin við Blokkina og Búbótar fjósið fyrir framan blokkina

Vilhjálmsvöllur 2022

Myndin er tekin við Vilhjálmsvöll, á nákvæmlega sama stað og efri myndin, fyrir nokkrum dögum síðan

 

Búbót 1

Búbót áður en blokkin var byggð á hæðinni fyrir aftan sem mun hafa heitið Stekkás samkvæmt Egilsstaðabók. Búbót var brotin niður árið 1978 en síðustu árin höfðu hestamenn þar aðstöðu

Búbót 2

Mynd frá sama stað og efri myndin af Búbót, austurendi blokkarinnar gægist á milli trjánna. Fyrir tveimur árum var grafinn rafstrengur að rafbílahleðslustöðvum, sem eru við græn bílastæði Menntaskólans, ég kíkti ofan í skurðinn og viti menn blöstu þá ekki við veggjabrot úr Búbót

 

Útgarður 1

Enn má sjá klappir gægjast upp úr, inna á milli trjánna norðan við blokkinni á þeim gróðurlausu klettahrjóstrum sem hún var upphaflega byggð á 


Ótroðin slóð

Þó ég hafi tapað fleiri orrustum í gegnum tíðina en tölu verður á komið þá hef ég ekki enn tapað stríðinu stóra. Þó að stríðsreksturinn hafi kostað að ég sé kominn það langt upp í afdalinn að síðasti bærinn sé horfinn og einungis sjáist í heiðið blátt, -þá trúi ég á sigur.

Í heiðríkju barnsálarinnar veit ég að tveir plús tveir þurfi ekki að vera fjórir frekar en mér sýnist. Sú útkoma er samkomulag breyskra manna, rétt eins og verðtryggðir tíu, -óraunverulegri en alda sem rísa á grunnsævi áður en hún brotnar í grýttri fjöru.

Sigurinn er og verður meistarans, "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?" -rétt eins og genginn suðafjárbóndi veit ég að hvorki gagnast aurar né dýr skítadreifari á meðal fugla himinsins.

 


Sama gamla tuggan

Nú hefur Seðlabankinn skitið á sig einn ganginn enn og styttist í að fnykinn leggi um land allt.

Viðundrin þar á bæ hræra í soppunni, þvæla um hagvöxt og vendipunkta, -hækka svo vexti. Verðbólga og lækkandi gengi er árangurinn, -Jóni og Gunnu til stórtjóns. Gengi, sem viðundrin hafa verið að fikta í, svo sérvaldir auðrónarnir fái meira fyrir sitt innanlands til að flytja aflands.

Það er ekki heil brú í kjaftavaðlinum ef litið er til verðbólgu markmiða Seðlabankans. Ef svo væri þá ættu viðundrin að segja sig frá milljónunum sínum á mánuði ásamt öllum þeim flissandi fábjánum sem raðað hafa sér á jötuna.

Ef hagvöxtur innmúraðs sértrúarsafnaðar er málið þá getur hver sem er fixað svoleiðis með því að keyra upp verðbólgu, hækka vexti og auka skatta, -bara spurning hverjir fá að tilheyra klaninu.

En það þarf ekki mann með meðal minni til að muna hvert þessi aðferðafræði leiðir.


Fjósið

Það voru mistök þegar Íslendingar yfirgáfu torbæina og tóku steypuna í þjónustu sína að sameina ekki kosti þessara tveggja innlendu byggingarefna, -byggja steinsteypt hús og einangra þau að utan með torfi. Þannig hefðu orðið til umhverfisvæn, hlý og viðhaldslítil hús, einstök á heimsvísu rétt eins og torfbærinn.

Fyrir stuttu var auglýst til sölu eitt af stórvirkjum til sveita frá árdaga síðustu aldar, byggt úr steinsteypu fyrir rúmum hundrað árum síðan. Um þessa framkvæmd skrifaði ég pistil og setti hér inn fyrir tæpu ári síðan undir heitinu Herragarðurinn.

Mér var húsið hugleikið vegna þess að þarna bjuggu amma mín og afi lungann úr sinni ævi. Þegar hús og jörð var auglýst til sölu fyrir stuttu sá ég á meðfylgjandi myndum gamla fjósið þeirra afa og ömmu frá nýju sjónarhorni.

Það var ekki hluti af upphaflegum byggingum. Fjósið hafði verið byggt við stríðasárabragga í skyndi eftir að foktjón varð á upphaflegu fjósi. Myndin af fjósinu er tekin með dróna og sést vel á henni hvernig fólk bjargaði sér til sveita þegar mikið lá við að koma bústofninum í skjól.

Þetta fjós stendur enn rúmri hálfri öld eftir að afi og amma hættu að nota það og um 70 árum eftir að það var byggt. Ég á bara góðar minningar úr þessu fjósi, af vinkonum sem höfðu þar sitt skjól.

Ein minning, sem lifir betur en aðrar, er sú þegar ég sótti beljurnar í haga, en þær voru yfirleitt ekki langt út á nesi. Einn morgunn sem oftar var ég sendur til að sækja kýrnar, þó ekki væri langt að fara, gat vegalengdin verið strembin í mýrlendum þúfnagangi fyrir 5-6 ára dreng.

Það var þá sem ein vinkonan tók það til bragðs að leggjast niður á framfæturna og bjóða snáðanum far. Þegar ég kom heim að fjósi hjá afa sat ég eins og höfðingi á hesti fyrir framan herðar einnar beljunnar. Þessi minning segir mér enn þann dag í dag hvað sterk tengsl geta myndast á milli barns og dýrs.

Búskapur afa og ömmu samanstóð af 7-8 kúm og einum tarfi, 150-200 kindum og hænum í hænsnakofa austan við fjósið. Tveir hestar voru þegar ég man, þau Gola og Tvistur, hundurinn hét Sámur. Stærri var nú bústofninn ekki og ég minnist ekki annars en allsnægta hjá ömmu og afa.

Jaðar 13

Fjósið, -dyrnar t.v. eru fjósdyrnar, t.h. er dyr í mjólkurhúsið þar sem brúsarnir voru í vatnsþró þangað til þeim var keyrt í veg fyrir mjólkurbílinn, -á brúsapallinn. Torf var upp að veggnum til vinstri en framhliðin var ekki klædd torfi. Myndin er fengin af vef fasteignasölu


Hof og hörgar

Það hefur varla farið fram hjá þeim sem aðhyllist vegtyllur þessa heims, hversu mikilvægt það er að tilheyra liði rétttrúnaðarins. Liðssöfnuðurinn kristallast í veraldarvafstri, pólitík, vísindum, trú á veiru og Úkraínu stríð á hinsegin, kynsegin dögum, -svo sitthvað sé talið. Það má segja að trúarbrögðin hafi lengi stundað þá íþrótt að skipa fólki í rétt lið og umbuna samkvæmt því, sama hvað það kostar. Enda ekki að ósekju að þau eru kölluð trúar-brögð.

Því hefur verið haldið fram á þessari síðu um nokkurt skeið að heimurinn, sem við samþykkjum, sé á hverfanda hveli. Einn ganginn enn sé komið að Völuspá að mæla fyrir yfirtöku nýrra trúarbragða í nafni rétttrúnaðar feminsima, -samhliða falli feðraveldisins, þjóðríkisins og kristinna gilda. Við taki hagvöxtur Mammons með sínar Davos dúkkulísur sem hofgyðjur.

Völvan sagði í sinni tölu “níu man ég heima” áður en hún spáði ragnarökum. Slík endalok heimsmyndar, er nú blasa við, hafa ekki orðið s.l. 2000 ár. Í lok Völuspár er lýst hinum nýja heimi dyggvra drótta. Þar sem ásamt þeim búa þeir Höður og Baldur Hrofts sigtóftir vel valtívar. Þá kná Hænir hlautvið kjósa og burir byggja bræðra tveggja vindheim víðan. Vituð þér enn eða hvað? -nokkurskonar hán transhumanistar í Gimlé þar sem gullið eitt lýsir upp heiminn og sólin sjálf orðin óþörf.

Landnámsmenn Íslands voru síðustu merkisberar heimsmyndar sem var forveri Kristindóms í vestrænni menningu. Eftir að hafa hrakist undan trúarbrögðum Rómarvaldsins, sem þá orðið voru kennd við Krist, frá Svartahafi norður alla Evrópu, endaði þetta fólk á Íslandi og átti um 200 ár án þess að þurfa að skipast í lið nýs rétttrúnaðar. Það var samt alls ekki svo að landnámsfólk, sem átti sína trú, þyrfti ekki líka að þola brögð hvað sína lífsýn varðaði í goðheimi þjóðveldisins.

Sögur er lúta að goðhelgi frá heiðni, þ.e. helgir staðir, eru oft í hamrabeltum og hengiflugum, s.s. goðaborgir í fjöllum. Fólk til forna hefur mátt leggja á sig harðræði og meinlæti til að þóknast goðunum og sanna trú sína, -ef þar eiga að hafa verið hof. Örnefnin segja nú mest um sögu þessara staða þó svo að þau sé aðeins eitt samsett orð. Þessi örnefni koma í stað skrásettra heimilda og geima munnmælin um hver var helgi þessara staða.

Þær skráðu heimildir sem lýsa goðhelgi staða eru fáar, stuttar og einkennilegar, sagði Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari, og má nú aðallega finna í þjóðsögum. Þessir staðir eru oftar en ekki á fjöllum eða í hamraflugum sem kenndir eru við goðin s.s. Goðatindur, Goðaborg, Goðagil osfv. Líklegast er að þessir staðir til fjalla hafi verið svo kallaðir hörgar. En hörgar, samkvæmt norrænni tungu, geta verið kletta hrjóstur, -oft á háum stöðum.

Þeir sem hafa stundað það að fara á fjallstinda upplifa oft frelsi sem útsýninu fylgir, og eftir því sem umhverfið er hrjóstrugra verður upplifunin sterkari. Jafnframt má ætla að fjallgangan hafi verið meira afrek fyrir fornmenn sem ekki höfðu yfir nútíma gönguskóm að ráða. Eins má álykta að sagnir af goðhelgi hörga hafi verið upplifuð manndómsvíxla þess sem þangað kom. Hörgar hafi þar af leiðandi haft í raun lítið með trúarbrögð að gera.

Líklegra er að goðatrúin, ef þá hún hefur verið til sem skipuleg trúarbrögð, hafi verið iðkuð þar sem voru hof. Fjöldi bæja um allt land bera nafnið Hof, eða bera það í sér s.s. Hoffell, Hofsstaðir, Hofteigur osfv. Þær sagnir sem greina frá því að hof hafi verið á illfærum fjallstindum hljóta því að byggja á misskilningi, þar sé átt við hörga. Landvætti hafi frekar verið að finna þar sem voru hörgar, þær sem menn hugðu búa í steinum, fossum aða á öðrum fögrum og sérkennilegum stöðum.

Af landnámabók sést, að ýmsir landnámsmenn eða synir þeirra reistu hof, og héldust síðan goðorð í ættum flestra þeirra, ef ekki allra. Menn þessir voru venjulega kynstórir og auðugir, enda þurfti nokkurt fé til að reisa stór hof. Oftast munu þeir einnig hafa verið blótmenn miklir, en þó má vera, að sumir hafi reist hof, þótt þeir hefðu ekki mikinn áhuga á blótum, sökum valdastöðu, sem þau sköpuðu. Hofin voru persónuleg eign eins og kirkjur síðar, og voru þeim stundum lagðar til eignir til uppihalds. (Jón Jóhannesson - Íslendinga saga I bls 73)

Líklegt er að bæir þar sem áður hafi verið hof hafi breyst í kirkjustaði við kristni eins og reyndar mörg nöfn benda eindregið til s.s. Hof í Vopnafirði, Hofteigur á Jökuldal, Hof í Álftafirði, Hof í Öræfum osfv. Eins er ekki ólíklegt að nöfn sumra kirkjustaða, sem áður báru goðtengd nöfn, hafi breyst t.d. í Kirkjuból. Heiðin hof hafi því verið staðir þar sem andinn var taminn í rétt lið með trúarbrögðum, á meðan hörgar voru þar sem maðurinn naut frelsis í persónulegu sambandi við almættið á hrjóstrugum stað.

Mannshugurinn á hrjóstrugum fjallstindi með sjálfum sér er laus úr viðjum dægurþras hversdagsins. Því er kannski ekki að furða að trúarbrögðin hafi viljað goðhelga þannig stað. Flest fjarskiptamöstur sem færa okkur sannleika hversdagsins í heimi hagvaxtar Mammons eru á háum hrjóstrum og fjallstindum. Athyglisverð er í því sambandi frásögn Egilssögu þegar Egill rak niður níðstöng á kletti í Noregi og snéri hrosshaus inn til lands við að virkja landvætti í að koma fram vilja sínum.

Hæðin Akrapólís í Aþenu er dæmi um hörga þar sem reyst var hof og síðan byggð háborg goðhelgrar menningar, þaðan sem var útsýni yfir alla borgina. Hauskúpuhæð, eða Golgata í Jerúsalem höfuðborg trúarbragðanna, eru sennilega einhverjir þekktustu hörgar Kristindómsins. Á þeirri hrjóstrugu útsýnishæð var frelsarinn krossfestur.

Hörgar hafa víða verið yfirteknir af táknfræði trúarbragðanna. Á Íslandi hafa t.d. verið byggðar á þeim kirkjur. Á Egilsstöðum er kirkjan byggð á hæð sem heitir upphaflega Gálgaás, kirkjan stendur við hliðina á Gálgaklettinum fornum aftökustað. Þaðan má sjá vítt um Héraðið, nú heitir gatan sem kirkjan er við Hörgsás.

Í Reykjavík er ein tilkomu mesta kirkja landsinns byggð á fyrrum hörgum, víðsýnum og hrjóstrugum stað þar sem áður fyrr mátti sjá yfir bæinn og suður eftir öllu Reykjanesi. Á Skólavörðuhæðin eru táknfræði minnin einnig allt um kring. Dys ólánskonu að vestan, Steinunnar Sveinsdóttur frá Sjöundá, var þar sem stytta Leifs heppna er nú, fyrsta Kristniboðans í vesturheimi.

Sagnir af kristnitöku á Íslandi bera með sér hve mikilvægt var að tilheyra réttu liði. Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og komst að því að rétt væri að hafa einn sið og eitt lið. Spak-Bessi í Fljótsdalnum ákvað að kasta goðunum í Lagarfljótið og treysta á nýjan sið og rétt lið. Það má því segja sem svo að haga seglum eftir vindi hafi þar tekið hofum og hörgunum fram. Kristnin hafði bókina fram yfir goðatrúna, Mammon hefur nú ljósvakann fram yfir bókina og goðin.

Ljós hofs og hörgar eru samt sem áður allt um kring, umvefja þannig að við tökum varla eftir þeim. Þar sem ég sit nú við stofugluggann í Útgarði, á næstu útsýnishæð norðan við Gálgaásinn, sé ég allt í einni hendingu, -Kirkjuna við Gálgaklettinn, Þórsnesið og Freysnesið þar sem goð Spak-Bessa fundust rekin úr Fljótinu. Einnig sé ég uppáhalds hörga Ásröðar landnámsmanns á Ketilstöðum þar sem hann lét heygja sig, -Rauðshauginn á Aurnum. Í flútti við Rauðshauginn er útsendingamastur Mílu á Þverklettunum ofan við fótboltavöllinn, -sú níðstöng okkar tíma sem flytur seiðinn.

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? -sagði Jesú Kristur, -sannur boðberi upplifunar hörganna, -benti mannfólkinu þannig á sannindin sem hann var krossfestur fyrir, sem myndi vera á nútímans níðstöng í beinni útsendingu, -svo ískyggileg þóttu orð Krists að byggð voru á þeim bókstafleg trúar-brögð.

Því verður seint haldið fram á þessar síðu að Mammon með sínum hagvöxnu ljósvakans hofgyðjum og transhumanisma sé ímynd hörga, -það mikið hefur þó þjóðsagan geymt en ekki gleymt. Glóbalskur Gandhi komst þó nær því með að benda á að með því að breyta sjálfum sér þá breytir maður heiminum.

Nú er siglt inn í nýjan tíma. Tíma þar sem gullið á Gimlé lýsir heiminum í stað sólarinnar, eða allt þar til kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, naður fránn, neðan frá Niðafjöllum, -eftir rúm 2000 ár eða svo, -hvað þá?


Örnefni og gildi þeirra

Þegar ég fór til að kíkja á Rakkabergið austan við Hermannastekkana um daginn, -hafði aldrei skoðað svæðið nákvæmlega þó svo að ég hafi oft komið þangað, enda Djúpivogur og nágrenni verið mér kær í áratugi. Ofan við túnið á Hermannastekkum, rétt vestan við Rakkaberg, er ferhyrnt tóft hlaðin úr grjóti, sennilega gamall stekkur.

Það álykta ég, auk nafnsins á svæðinu, af því hvernig tóftin er í laginu og hvernig hún er byggð. Hún er með þremur svo að segja jafnlöngum veggjum upp að hallandi kletti í brekku, sem myndar fjórða vegginn, og frekar breið til þess að hafa haft þak. Vatn hefði runnið inn í þannig hús úr brekkunni ofan við klettinn. Smá halli er frá opinu á tóftinni sem er fyrir miðri þeirri hlið sem snýr fram á túnið.

Þessari tóft hafði ég aldrei veitt athygli fyrr, enda fellur hún inn í gróið landið. Hún gæti þess vegna verið mjög gömul, jafnvel hafa verið viðhaldið á sama stað í gegnum aldirnar. Mér varð hugsað til Guttorms Hallsonar bónda á Búlandsnesi sumarið 1627, -þess sem munnmælin segja að hafi varist með reku og pál þegar Tyrkir hernámu hann við stekkana, sem staðurinn ber síðan nafn sitt af. Það gæti allt eins hafa verið við þennan stekk.

Reyndar er nú, -samkvæmt ritrýndum heimildum, svo til búið að flytja Hermannastekka af Búlandsnesinu norður yfir Berufjörðinn á Berunes. Það gerði Þorsteinn Helgason sagnfræðingur með grein í Glettingi, tímariti um austfirsk málefni, árið 2003 og í doktorsritgerð sinni 2013 sem fjallar um Tyrkjaránið. Þar sem hann rengdi þjóðsöguna og misskildi munnmælin möglunarlaust.

Örnefni segir mikla sögu þó svo að það sé aðeins eitt samsett orð. Þegar ég sat við stekkinn varð mér einnig hugsað til Más heitins Karlssonar vinar míns sem var mikill örnefna og sögu maður, -þekkti hvern krók og kima við Djúpavog. Honum þótti slæmt ef var misfarið með örnefni í ritmáli. Því þá vildi hann meina að örnefnið sem misfærist fylgdi ritmálinu, og ef það væri rangt samkvæmt munnmælunum væri betur heima setið en af stað farið.

Má vini mínum varð meir að segja um og ó þegar Ólafur Ragnarsson frændi hans flutti Háaurana, sem eru næstir fyrir utan Hermannastekkana, um nokkra tugi metra í sinni sveitarstjóratíð á Djúpavogi með því einu að senda ritaða tilkynningu í hús um móttöku rusls í aflagðri Vegagerðargirðingu, og kallaði móttökuna Háaura.

Ég hafði á orði að þetta væri saklaust, og örnefnið varðveittist allavega. -Háaurarnir eru bara ekki þarna, þeir eru á há aurnum, - sagði Már. -Hvað má þá kalla ruslmóttökuna í gömlu girðingu Vegagerðarinnar, -hváði ég. -Hún má bara heita Vegagerðargirðing áfram, -svaraði Már.

Nú heitir sveitarfélagið ekki lengur Djúpavogshreppur, -heldur Múlaþing, sem auglýsir á heimasíðu sinni opnunartíma móttökustöðvar á Háaurum; -þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 13:30-16:30. Laugardaga frá klukkan 11:00-13:00.

Þegar ég sat þarna í morgunnkyrrðinni á tóftarbrotinu inn á Hermannastekkum án þess að svo mikið sem sjá Berufjörðinn hvað þá yfir á Berunes eða sorpmóttökustöðina á Háaurum, yfir há aurinn sem bar í milli, -sá ég þó hátt í aldarfjórðungi seinna að Már hafði 100% rétt fyrir sér.

Bláklukkur

Bláklukkur á Hermannastekkum. -Bláklukkan er ein af fáum íslenskum háplöntum sem er nær algjörlega einskorðuð við einn ákveðinn landshluta. Hún er algeng á öllu Austurlandi, frá Þistilfirði suður að Skeiðará, en nær hvergi annarstaðar samfelldri útbreiðslu. Hún er mest á láglendi en þó finnst hún á strjáli upp í 500 m h.y.s. og hæst á Teitutindi í 1.000 m h.y.s. (Skógræktarfélag Íslands)


Goðgá

Ég hafði mig upp á Hafrafellið fyrstu vikuna í sumarfríinu, -sem nú er lokið, til að hitta landvættina og heita á þá landi og lýð til heilla. Landvættir hafa sótt á mig um nokkra hríð og einhvernvegin hefur mér fundist að nær þeim verði komist á sérstökum stöðum sem skapa visst hugarástand. Reyndar fetaði ég slóðinni upp á fell hafranna á gamla sorry Grána, eða réttara sagt Grand Cherokee með lúna sál. Þó klettaborgin sé hvorki há né brattgeng þar sem leiðin lá, þá er ég bæði orðinn fótafúinn og mæðin.

Það er auðvelt að átta sig á því hvers vegna fornmenn tilbáðu goðin á háum útsýnistöðum til fjalla þegar setið er á Hafrafellinu og Héraðið blasir við sjónum. Eins er auðvelt að átta sig á hvers vegna flestar Goðaborgir standa hátt til fjalla þar sem er víðsýnt. Sennilega hafa flestir heyrt talað um að þetta eða hitt sé engin goðgá. Samkvæmt orðabókinni er goðgá ekki að gá eftir goðum heldur óviðeigandi framkoma, s.s. guðlast, -óhæfa.

Goðgá er því móðgun eða fyrirlitning, í besta falli skortur á lotningu gangvart því er telst hafa friðhelgi. Nú á tímum frussast goðgáin í formi upplýsingaóreiðu og falsfrétta frá ríkisstyrktum seiðhjallinum. En það stóð reyndar hvorki til að ákalla goðin né vanvirða, heldur heita á vætti landsins. Ef einhver tíma hefur verið ástæða til að ákalla landvætti þá er það þessi misserin, þegar það er ekki lengur talin goðgá að selja erlendum auðrónum fósturjörðina og fórna sjálfstæðinu á altari glóbalsins.

Reyndar hafði ég haft Hafrafellið í sigtinu úr eldhúsglugganum í mörg ár. Hafði verið að mana mig upp í að ganga upp á það, en sá fljótlega að þangað myndi ekki auðhlaupið. Fyrir nokkrum árum var sett upp skilti fyrir ferðamenn og ætlast til að gengið væri þaðan sem hefði verið álíka erfitt fyrri mig og staulast Stuðlagil. En þegar ég álpaðist svo upp úr þurru að Hafrafellinu, við að mæna á Grímstorfuna, þá sá ég engan þar á gangi á slóðinni og sló í Cherokee.

Grímstorfan er skógi vaxin klettasylla í miðju Hafrafellinu þar sem það er hvað brattast og þangað hefur aldrei verið auðhlaupið. Sagt er að vegna þess hvað erfitt er að komast í hana sé landnámsskógur í klettatorfunni, þangað hefur aldrei komist svo mikið sem sauðkind og lengi var því trúað að Grímur Droplaugarson hafi þar falið sig og sumir háskólaðir fræðimenn trúa því enn. En langt er síðan að Sigfús þjóðsagnaritari upplýsti að það var sakamaðurinn Vestfjarða Grímur sem þar hafi sig falið.

Þessi torfa í Hafrafellinu sást líka úr eldhúsglugga æskuheimilisins. Afi minn hafði mikinn  áhuga á að komast í Grímstorfu og einn sumar morgunn fyrir um 45 árum síðan kom hann og bað mig um að koma með sér þangað rétt áður en hann datt í sjötugt. Einhverra hluta vegna vorum við bara tveir heima bræðurnir, ég sá elsti 17 ára og Sindri sá yngsti 4 ára. Við keyrðum því sem næst undir hamrabelti Hafafellsins, en samkvæmt minningunni var þá þar malarnáma.

Sindri rótaðist upp skriðuna, kleif þverhníptan hamarinn og hvarf upp í Grímstorfuna. Við áttum ekki annan kost en hafa okkur upp á eftir honum, því hann var horfinn inn í kjarrið áður en varði. Þegar við nafnarnir vorum komnir upp, en þangað átti hvor nóg með sig, hóuðum við eftir Sindra og heyrðum í honum inn í ófærri óræktinni við hinn enda klettasyllunnar sem talin er ókleifur. Sindri birtist svo skyndilega og dreif sig niður enda búinn að skoða Grímstorfu. Við komumst að því að erfiðara var að komast niður en upp, en urðum að láta okkur hafa það, enda Sindri komin niður að bíl. Við nafnarnir ræddum aldrei þessa Grímstorfu ferð, -ekki einu sinni um útsýnið.

Morgunninn eftir að ég fór á Hafrafellið í sumar kom bróðir minn, sem næstur er mér í aldri, óvænt í heimsókn og þegar við stóðum við eldhúsgluggann benti ég honum á Hafrafellið og Grímstorfuna, -og sagði honum grobbsögur. Hann hafði aldrei þangað komið. Ég sagði honum að þarna upp hefði ég farið í gær og við afi hálfa leið fyrir næstum hálfri öld, sem hefði verið afrek af sjötugum manni.

-Já afi talaði oft um að fara í Grímstorfuna og undir Fardagafossinn, sagði bróðir minn. -Ég fór með honum upp að Fardagafossi, sagði bróðir. -þá var hann um áttrætt og við að horfa á Ísland – Danmörk keppa í handbolta í beinni á sumar Ólimpíuleikum að mig minnir. Í fyrri hálfleik voru Danir komnir 10 mörkum yfir, þá spratt afi á fætur og slökkti á sjónvarpinu og sagði; “-nú gengur þetta helvíti ekki lengur Áskell við skulum drífa okkur upp að Fardagafossi.”

Af Hafrafellinu blasir Fljótsdalshérað við, allt frá mósku Fljótsdalsins út í bláma Héraðsflóans;

Í skógarbreiðum og brekkuskrúði vafið!

Bláfeldar heiðar rísa þér við síðu.

Vegi þína greiðu nú af hamrabrún hef litið,

sem og skýin bólstrandi yfir sveitanna blíðu.

Héraðið ljómar - Fljótið faðminn breiðir.

Fardagafossinn — Grímstorfan — mig seiðir.

Auðvitað er þessi vísa af mér bæði stolin og skrumskæld, og kemur alla leið frá Grindavík, en lýsir vel Fljótsdalshéraði. Ég er ekkert skáld, svo því sé haldið til haga. En hvað hefur þetta hnoð með landvætti að gera?

Landvættir eru verndarar landsins. Þær skal ekki styggja, því að þá farnast fólkinu illa. Samkvæmt fornum sögnum eru vættirnar flestar ónafngreindar. Bjuggu upp í klettum, undir fossum, í trjám, steinum, hólum og á fjöllum. Velferð byggðanna var nátengd því hvernig vættirnar þrifust í hugarheimi fólksins. Í Heimskringlu Snorra segir svo frá landvættum Íslands eftir að íslendingar höfðu ort níð um Harald Gormsson konung er varð þeim svo reiður að hann vildi senda þangað flota og hefna níðsins:

Haraldur konungur bauð kunnugum manni að fara í hamförum til Íslands og freista, hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá, að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vopnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill, og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill, að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austur með endilöngu landi - "var þá ekki nema sandar og öræfi og brim mikið fyrir utan, en haf svo mikið millum landanna," segir hann, "að ekki er þar fært langskipum."

En hvernig skal umgangast og virkja landvættina?

Elstu lög Íslendinga, hefjast á því að menn áttu að taka niður útskorin drekahöfuð af skipum sínum til þess að styggja ekki landvætti þegar siglt var að landinu, eða eins og segir í Úlfljótslögum; að menn skyldu eigi hafa höfuðskip í haf, en ef þeir hefði, þá skyldi þeir af taka höfuð, áður þeir kæmu í landsýn, og sigla eigi að landi með gapandi höfðum eða gínandi trjónum, svo að landvættir fælist við.

Í Egilssögu Skalla-Grímssonar er frá því greint, að Egill reisti níðstöng til þess að egna landvætti Noregs og fá þá til að hrekja Eirík blóðöxi konung og Gunnhildi drottningu frá völdum og úr landi, en þau höfðu brotið erfðarétt á Agli og segir sagan svo frá; gekk Egill upp í eyna. Hann tók í hönd sér heslistöng og gekk á bergsnös nokkra, þá er vissi til lands inn; þá tók hann hrosshöfuð og setti upp á stöngina. Síðan veitti hann formála og mælti svo: "Hér set eg upp níðstöng, og sný eg þessu níði á hönd Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu," - hann sneri hrosshöfðinu til lands, – "sný eg þessu níði á landvættir þær, er land þetta byggva, svo að allar fari þær villar vega, engin hendi né hitti sitt inni, fyrr en þær reka Eirík konung og Gunnhildi úr landi."

Ég tel það enga goðgá að hafa haft mig upp á Hafrafellið.

 

IMG_3846

Hafrafell

 

IMG_3803

Útsýni af Hafrafelli í austur

 

IMG_3791

Útsýni af Hafrafelli í norður

 

 IMG_3790

Seiðhjallurinn á sitt útsendingamastur á há Hafrafellinu

 

IMG_3843

Grímstorfa

 

Hafrafell


Orð

Íslenskan á sér mörg orð þar sem merkingin er ekki alltaf einhlít. Þetta kom mér í hug við Kárahnjúkastíflu fyrir skemmstu þegar staðið var á útilistverkinu Hringiðu. En í iðunni las ég “forn spjöll fira”. Mér datt fyrst í hug að þarna hefðu umhverfissinnar fengið að senda Landsvirkjun tóninn og látið hana borga brúsann. þegar gengið var um verkið mátti finna fleiri orð á stangli límd á steina, sem og staflausa staði.

Á upplýsingaskilti neðan við Hringiðu sá ég svo öll vísubrotin, sem voru á víð og dreif í iðunni, og var þar seinni hluti fyrsta erindis Völuspár: Viltu að eg, Valföður, / vel fyr telja / forn spjöll fira, / þau er fremst um man. -Skýring á þessum orðum völvu Völuspár var á skilti Landsvirkjunar þessi: “Menn vildu að ég segði Óðni af mönnum og goðum svo langt aftur í tíma sem ég frekast man”.

Skilningur minn á “forn spjöll fira” hafði verið í fljótu bragði sá að þarna væri átt við spellvirki yfirgangsmanna. En spjöll merkja yfirleitt skemmdaverk nú á tímum. En þegar málið er skoðað þá getur þýðingin verið misjöfn eftir því hvort spjöll eru dregin af spell eða spjall. Getur svo hver og einn dregið ályktun út af fyrir sig í hvaða merkingu þessi orð hafa lent í Hringiðuna.

Með mér þarna á grjóthrúgunni var náttúrulega hún Matthildur mín, ásamt Búdda munknum bróður mínum, master í burðarþols verkfræði. Þau voru að tala saman um annað en þann stað sem ég stóð á og þau orð sem ég var í að spá. Þar koma fram hjá Matthildi minni að þetta hefði verið við böltann austan við Læknishúsið á Djúpavogi.

Ég hef svo oft heyrt Matthildi mína tala um bölta að ég vissi upp á hár að þarna var hún að tala um grasi vaxið barð, þó svo master verkfræðingurinn hváði. En ég ákvað samt þarna í grjót hringiðu orða við Kárahnjúka að kryfja þetta orð bölti næst þegar gæfist tími, því ég hef enga heyrt nota það nema hana og hennar nánustu.

Það er einu sinni þannig að ef maður er alin upp á íslensku og veit hvaðan uppruni orðanna kemur þá hefur maður mikið meiri skilning á tilverunni, getur jafnvel séð í gegnum holt og hæðir eins og hún Matthildur mín, eða jafnvel fram og aftur í aldir rétt eins og völvan sem fræddi Óðin æðstan goða um forn spjöll fíra.

Samkvæmt Orðabók Menningasjóðs er; -Bölti, -a, -ar k, hjalli, brekka, hóll, þúst.

Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar er; -Bölti k., böltur k. (17. öld) “hjalli, barð, hóll, þústa”. E.t.v. upphafl. u-st. *baultu- og v.b. bölti ung og hefur fengið ö frá böltur. Sbr.nno. balt “smástrákur, sendisveinn”, balter “flóki, hnoðri”, sæ máll. bulten “böggulslegur, feitlaginn” og d. bylt “böggull” sem er e.t.v.to. úr (m)lþ. bult(e) “bunki, dyngja” (hljsk.). E.t.v. er ísl. örn. Bylta (fjallsheiti) (s.Þ.) af þessum sama toga. Af germ. rót *bel-t, ie *bhel-d-, sbr. *bhel- í bali (1) og bolur.

Orðsifjarnar fara þarna um víðan böltann, ef ekki hreinlega út um þúfur, svo maður verður að lúta í gras. Einna helst má skilja að orðið komi úr þýsku í gegnum dönsk áhrif frá því á 17. öld, og geti verið yfir nánast hvað sem er.

Þó svo að íslenskan þyki ekki einföld með öllum sínum fallbeygingum þá eru tökuorð ekki til að einfalda málið þó svo að þau lúti íslenskri málhefð, og svo sem ekki alltaf nýyrði heldur. Tökuorð og nýyrði eða nýjar merkingar orða koma oft af sjálfu sér í gegnum notkun fólks á tungumálinu og hafa þá þannig oft bæði dýpt og einfaldleika til að bera.

Fjölskylda dóttur minnar er margtyngd, móðurmál húsbóndans er s-amerísk spænska, húsmóðurinnar er íslenska, og saman tala þau oft á lítt innblásinni ensku. Ævi 4 ára dóttir þeirra talar svo öll tungumálin þrjú. Já, -og vel á minnst, það var ekki íslenski hluti fjölskyldunnar, sem átti hugmyndina af nafni með íslensku æ-i, orði sem er eins í öllum föllum.

Í þessari fjölskyldu hafa orðið til mörg kjarnmikil íslensk nýyrði og Ævi segir sögu á þremur tungumálum. Hún hefur meir að segja byrjað sögu á íslensku, sagt miðhlutann á ensku og niðurlagið á spænsku án þess að rugla orðum tungumálanna saman.

Mamma Ævi heitir Snjófríður Kristín eftir ömmum sínum, en er frá bernsku kölluð Systa, -sama og Snjófríður amma hennar var kölluð. Eiginmaðurinn kallar hana hvorki Systu né Snjófríði, enda ókunnugt um að önnur hver formóðir í kvenlegg hefur verið nefnd eftir Snjófríði frá 1741,- að minnsta kosti. Hann segir ekki einu sinni Kristín, heldur Snjóma, -sennilega samsett úr Snjófríður Magnúsdóttir, án þess að ég hafi spurt.

Ævi hefur búið til nokkur íslensk nýyrði sem ekki er hægt að hrekja með rökum. Eins og önnur börn þá er hún ekki alltaf til í að fara að sofa á kvöldin. Þá segir hún að það sé ekki kominn náttatími, þver neitar að það sé sama og háttatíma, og rökstyður muninn á honum og náttatíma. Þá sé komið myrkur og bæði kominn tími til að hátta og sofa.

Nú er sumar og Ævi í sumarskapi, þá skal fara í útilegu. Í fyrrasumar fórum við oftar en einu sinni á fleiri en einn stað með henni og tjölduðum í veðurblíðu einstaks sumars. Auðvitað vildi Ævi útilegu í sumar og bað um að fara út í tjaldastaði og var þá ekki sama hvert var farið. Tjaldastaðir er nefnilega alveg sérstakur staður.

Þeir eru gamlar steypumalarnámur úti í Hjaltastaðaþingá í bökkum Lagarfljóts. Þar höfum við Matthildur mín oft tjaldað part úr degi undanfarin sumur á góðviðrisdögum. Matthildur þá átt til að prjóna á meðan ég spái í steypu, eða við bara horfum saman á Fljótið streyma hjá og njótum veðurlagsins blíða. Aldrei hafði okkur hugkvæmst að kalla þennan sælureit Tjaldastaði.

IMG_5689

Ps. Höfundur útilistaverksins Hringiða er myndlistakonan Jónína Guðnadóttir í Hafnafirði. Völuspá hefur verið talið að samið hafi, Kolskeggur vitri Iberíasson í Krýsuvík, -seinni tíma- svokallaður Kölski. 


Fjallagrös

Í Landnámu er sagt frá Atla graut Þiðrandasyni sem nam austurströnd Lagarfljóts þ.e. frá Atlavík út undir Vallanes. Viðurnefnið grautur segir þjóðsagan að Atli hafi fengið vegna fjallagrasa sem hann sauð í graut eftir að hann hafði verið dæmdur skógarmaður, þ.e. í 20 ára útlegð frá Íslandi, réttdræpur ella. Atli vildi ekki yfirgefa landnám sitt og leyndist í Hallormstaðaskógi og lifði á grösum og því sem bóndadóttirin á Hallormstað gaukaði að honum. Þjóðsögurnar greina víða frá því að íslenskir útilegumenn hafi lifað á fjallagösum.

Nútímavísindi segja ýmislegt um gagnsemi fjallagrasa t.d. gegn hósta, kvefi, öndunarfærakvillum og magaólgu. Uppistaðan í fjallagrösum - 40-50 % - eru slímkenndar fjölsykrur. Slímið þenst út og verður að hlaupkenndum massa þegar það kemst í snertingu við vatn og sefar þannig og verndar viðkvæmar slímhimnur, sem verða aumar og bólgnar, vegna kvefs, hósta eða þrálátrar barkabólgu. Slímsykrurnar meltast í þörmum og það útskýrir hvers vegna eðlisávísun fólks rak það til þess að leggja sér fjallagrös til munns til að sefa og fylla magann.

Gagnsemi fjallagrasa hefur lengi verið þekkt á Íslandi. Í Ferðabók Olavíusar 1775-1777 um landshagi er oftsinnis komið inn á nytjar fjallagrasa þegar landsins gæðum er lýst. Í ferð hans um Múlasýslur má m.a. þetta finna.

Langanes: Ef ekki væri brimið og þokurnar, sem valda því, að menn verða þar vegna saltleysis að reykja fiskinn í eldhúsi, reyktur fiskur er raunar nógu bragðgóður, og gæta fjárins allan sólarhringinn, mundu bændur á Langanesi vera eins vel efnum búnir og nágrannar þeirra; og mátti raunar sjá þess ljós merki. Að sögn er mikil grasatekja þar hátt til fjalla.

Um Jökuldal: Hofteigssókn er að mestu umkringd af Möðrudalsöræfum, Smjörvatnsheiði og Jökulsá. Á heiðunum er mikil grasatekja. -Vallanessókn: Þarna stunda menn því bæði nautgripa- og sauðfjárrækt, en auk þess afla þeir fjallagrasa af miklum dugnaði.- Valþjófsstaðasókn: Í sjálfum Fljótsdalnum sem héraðið dregur nafn sitt af, nota menn fjallagrös mjög mikið, eins og víðar á þessum slóðum. Er grasatekjan talin meðal bestu landkosta sóknar þessarar.

En hvernig var fjallagrasanna aflað og hvernig voru þau matreidd? Í bók Sigurðar Eiríkssona Af Sjónarhrauni er kafli um Fossárdal í Berufirði og búskap þar fyrr á tímum, en talið er að þar hafi verið búið á 14 bæjum þó svo að það hafi sennilega ekki verið samtímis á öllum (nú er þar tvíbýli, sauðfjárbú og ferðaþjónusta). Í kaflanum er stutt, en athygliverð frásögn af fjallagrösum.

Karólína Auðunsdóttir frá Víðinesi, sem bjó lengi á Djúpavogi, hefur sagt mér ýmislegt frá bernskustöðvum sínum á Fossárdal, sem henni þótti mjög vænt um. Þarna var fátækt, en mikið unnið, því búið var lítið en börnin fimm á heimilinu. Um notkun fjallagrasa til matar hefur hún sagt mér eftirfarandi:

Fjallagrös voru mikið notuð til matar. Það var nóg af góðum fjallagrösum í fjöllunum við Fossárdal einkum í Afréttinni, en hún er í botn dalsins. Á hverju sumri, þegar þau bjuggu í Víðinesi, fór Katínka á grasafjall með tvö eða þrjú börnin með sér. Þau höfðu með sér hestana og sátu börnin á þeim inn eftir. Þau völdu gott veður og voru venjulega í tvo daga í ferðinni. Venjulega fengu þau mikið af grösum, sem þau fluttu á hestunum heim. Þau lágu úti í grænni laut yfir nóttina og breiddu föt sín, teppi og grasapokana ofan á sig. Venjulega voru grasapokarnir ofnir og því talsvert skjól í þeim.

Fjallagrösin voru notuð til matar. Alltaf drukkið grasate á morgnana, og borðuð með því  sneið af rauðseyddu pottbrauði með smjöri og mysuosti. Var það mesta hnossgæti. Grösin voru alltaf notuð með grjónum. Einnig voru þau notuð í pottabrauðið. Mjölið var látið út í þétta grasastellu, þegar grösin höfðu legið í bleyti og svo var deigið hnoðað upp á þann hátt.

Nokkru eftir fótaferð var skyrhræringur til morgunverðar. Katínka síaði skyrið svo vel úr ærmjólkinni, að sumrinu, að það súrnaði ekki. Til miðdegisverðar var oftast fiskur. Um miðaftanleytið drakk fullorðna fólkið kaffi en börnin mjólk. Á kvöldin var alltaf skyrhræringur með slátri og brauði. Grösin voru því notuð í flestar máltíðar dagsins, þar sem þau voru bæði í grautum, sem borðaðir voru tvisvar á dag, te að morgninum og í brauði. (Eiríkur Sigurðsson / Af Sjónarhrauni bls 112-1976)

Ég hef stundum sagt frá því hér á síðunni að undanfarin ár höfum við Matthildur mín gefið okkur tíma til að plokka fjallagrös sólbjartan dag upp til heiða, þegar spóinn vellur í kappi við svanasöng, og gæsir gára heiðarvötnin blárri en blá með ungunum sínum.

Þar erum við laus úr erli dagsins, hafgolu og austfjarðaþoku. Hvergi er betra að búa sér ból en í heiðanna ró, meðan blítt blæs gola um kinn, liggja upp í loft á milli þúfna í grasamó og fá sér miðdegislúrinn í fjallasól og mófugla söng, og vita að meira en helmingurinn af hollustunni fæst strax með útiverunni.

Ég fór að rifja það upp fyrir nokkrum árum síðan hvaðan maður hefði vitneskjuna um hollustu fjallgrasa og gat ekki betur munað en hún hefði alltaf verið til staðar. Ég var nefnilega mömmudrengur í bernsku og mamma fór flest sumur þangað sem henni var kærast. Fjölskyldan fór þá eitt sinn á grasafjall í heimahögum  hennar sér til yndisauka í sumarfríinu.

Ég ætlaði að sýna Matthildi minni þessar grasa slóðir þegar við vorum þar á ferð fyrir nokkrum árum, en þær eru á heiðinni milli Reykjadals og Laxárdals í S-Þingeyjarsýslu. Við vorum á hraðferð heim frá Akureyri og hugðist ég fara sömu leið og forðum, inn Laxárdalinn og upp á heiðina rétt vestan við Skútustaði í Mývatnsveit. En viti menn leiðin var þá orðin ófær, rétt sást móta fyrir vegslóða í hlíðinni. Þá rann skyndilega upp fyrir mér að það voru meira en 50 ár síðan að mamma kenndi barnahópnum sínum að þekkja og tína fjallagrös.

Við Matthildur mín komumst að sjálfsögðu alla leið heim og erum búin að kenna 4 ára sólargeislanum henni Ævi að þekkja og tína fjallagrös. Það þarf ekki að fara lengra en út á klettana fyrir utan lóð og stundum kemur Ævi inn með fjallagrös í grautinn hans afa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband