Krossflöt

Það hefur færst í vöxt á 21. öldinni að krossar séu reistir rétt utan við þjóðvegi landsins. Þarna er oftast verið að minnast þeirra sem hafa farist í bílslysum. Krossar voru ekki áberandi við þjóðvegina á 20. öldinni, nema þá frá gamalli tíð í ætt við Nadda-krossinn í Njarðvíkurskriðum til verndar vegfarendum fyrir illum vættum.

Í Hamarsfirði er kross í minningu konu sem lést þar í bílslysi á þjóðveginum veturinn 2002. Krossinn er við stað sem heitir Krossflöt, nafnið er samt frá fyrri tíð, eldra en elstu menn muna. Ofan við krossinn og Krossflöt í hinum vegkantinum er lítill lækur með fossi rétt ofan við veg og rennur lækurinn um ræsi undir veginum.

IMG_3988

Krossinn, fossinn, og Krossflötin, þar sem lækurinn rennur um til sjávar, fer að mestu fram hjá vegfarendum vegna þess að þetta er í blindbeygju á veginum og sést því aðeins örskots stund. Þó svo að ég hafi farið þennan veg ótal sinnum fór staðurinn fram hjá mér, jafnvel þó svo mér hafi verið kunnugt um bílslysið sem þarna varð.

Ég hef sagt frá því oftar en einu sinni hér á síðunni að þegar ég var á ferð með sagnfræðingunum Karli Smára Hreinssyni og Adam Nichols, sem gáfu út Tyrkjaránsögu Austfjarða á ensku, að Adam hafi verið hugleikið hvað af húsfreyjunni varð þegar Tyrkir rændu bæinn á Hamri. Tyrkir hernámu allt fólkið, börðu og spörkuðu í húsfreyjuna, skyldu hana eftir ósjálfbjarga, -töldu hana jafnvel dauða.

Eins hef ég sagt að eftir kynningafund bókarinnar á Djúpavogi hafi ég getað frætt þá um hvað af húsfreyjunni varð, því mér hefði verið sögð saga af stúlku sem hefði drekkt sér í smá lækjarsprænu skammt frá Hamri við þjóðbrautina út á Djúpavog og þar hefði sennilega verið átt við húsfreyjuna á Hamri.

Það verður að segjast eins og er að eftir að ég heyrði þessa sögu í Löngubúð á bókarkynningunni hafi mér orðið húsfreyjan á Hamri jafn hugleikin og ameríska sagnfræði prófessornum. Ég leitaði því að uppruna sögunnar um stúlkuna sem drekkti sér og fann hann að lokum í þjóðsagnasafni.

Í stuttu máli þá er sagan orðin til svona, -og alls ekki svo gömul:

Á krossmessu vorið 1917 gekk vinnustúlka á Hamri, sem var á heimleið frá Hálsi, fram á stúlku sem var grá, raunaleg og lyktaði af mold. Hún var ekki þessa heims því stúlkan hvarf þegar hún reyndi að snerta hana. Stúlkan var við fossinn ofan við Krossflöt.

Dreymdi hana síðar stúlkuna, vildi stúlkan fá að komast til hennar í draumum, frekar en vera henni sýnileg. Sagði hún henni að hún hefði drekkt sér í læknum undir fossinum frekar en að lenda í höndum Tyrkja þegar þeir voru að ræna við Hamarsfjörð sumarið 1627. Hafði hún síðan verið þar við fossinn einsömul föst á milli heima.

IMG_3999

Sagði Ragnheiður (en svo hét vinnukonan) Kristínu móður Ólafas Thorlsius læknis á Búlandsnesi frá þessu þegar hún var þar í vist. Vorkenndi Kristín stúlkunni mikið. Í árslok 1922 var Ragnheiður komin til Reykjavíkur. Dreymdi hana þá stúlkuna sem þá var mikið breytt, bæði orðin björt yfirlitum og glaðleg.

Sagði hún Kristínu hafa komið til sín og hjálpað sér og væri hún nú komin til fólks þar sem henni liði vel. Nokkru síðar frétti Ragnheiður lát Kristínar. Dreymdi hana þá stúlkuna sjaldnar en áður og síðast árið 1925. Sagði stúlkan þá að hún kæmi ekki til hennar næstu 5 árin.

Sigurður Nordal skrásetti þessa sögu eftir Ragnheiði Stefánsdóttur árið 1927. Mun lengri frásögn af stúlkunni á Hamri er að finna í þjóðsagna safninu Gráskinnu og stendur þar í eftirmála að Ragnheiður Stefánsdóttir sé merk og vönduð stúlka og engir sem til hennar þekki dragi í efa að hún segi samviskulega frá reynslu sinni.

Þar sem Krossflöt er um svo margt merkilegur staður þá gat ég ekki látið vera að koma á hann. Það er ekki auðvelt að stoppa á þjóðveginum í Hamarsfirði á milli tímatrekktra  túrista, blindbeygja og -hæða, með ræsi og vegrið í vegköntum. Ég varð því að stoppa nokkru frá staðnum og ganga að honum.

Það verður að segjast eins og er að staðurinn er ægifagur og hefur yfir sér sömu friðsæld og finna má í grafreit. Því er auðvelt að ímynda sér að hann geymi örlög fólks öld fram af öld, þó svo að hann skjótist framhjá og sé aðeins sýnilegur örskotsstund í amstri dagsins.

Þarna við krossinn hefur þjóðleiðin legið í gegnum aldirnar, dularfull sagan kallað fram harmþrungna atburði, -frá Tyrkjaráni til okkar daga. Auk þessa hefur nafnið Krossflöt verið haft um staðinn frá ómuna tíð og á sér vafalaust einnig sína sögu.

IMG_4002


Rammíslenskur splatter

Flugu hjaldrs tranar

á hræs lanar,

órut blóðs vanar

benmás granar,

Sleit und freki,

en oddbreki

gnúði hrafni

á höfuðstafni.

Sagt er að eftir að útskýrt hefur verið fyrir barni hvað fugl sé, þá muni það aldrei sjá fugl framar, aðeins hugsanir sínar um fugl samkvæmt útskýringunni. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér hvað Egilssögu varðar. Þegar hún var fyrst útskýrð fyrir mér í skóla lét kennarinn þess getið að þarna væri um magnaða lygasögu að ræða, ekki væri nóg með að söguhetjan hefði lent á sitt fyrsta fyllerí þriggja ára gömul, heldur hefði hún drepið mann sex ára. Síðan væri söguþráðurinn svo blóði drifin og lýsingar á manndrápum það yfirgengilegar, að hálfa væri miklu meira en nóg.

Egilssaga Skallagrímssonar er saga tvennra bræðra. Þar sem annar bróðirinn í hvoru pari er hvers manns hugljúfi, eftirsóttur af eðalbornum, ljós og fagur; en hinn svartur, sköllóttur, þver og ljótur. Bræðurnir eru annarsvegar, þeir Skallagrímur og Þórólfur, Kveldúlfssynir og svo synir Skallagríms þeir Þórólfur og Egill. Sagan fjallar um örlög ættar á 150 ára tímabili á víkingaöld, glímuna við að ná sínum rétti samkvæmt lögum sem valdhafar setja og breyta jafnharðan ef þeim hentar. Í sögunni falla báðir Þórólfarnir fyrir vopnum á besta aldri, þeir voru hinir hugljúfu, á meðan Skallagrímur og Egill þverskallast til elli. Sagan gerist víða í N-Evrópu, en aðallega þó í Noregi, Englandi og á Íslandi.

Þegar ég las loksins söguna í heild á sextugsaldri, en lét ekki bara útskýringar kennarans næga, þá gerði ég það mér til huggunar þar sem ég var staddur í minni sjálfskipuðu þriggja ára útlegð í Hálogalandi. Söguþráðurinn er eins og kennarinn sagði á sínum tíma, mögnuð saga af drykkju og manndrápum, sem myndi sóma sér vel í hvaða splatter sem er, -a la Tarantino. En þó var fleira sem vakti forvitni mína við lesturinn, Hálogaland var nefnilega heimavöllur Þórólfs Kveldúlfssonar. Áhugi kviknaði á að komast að því hvar nákvæmlega í Hálogalandi Þórólfur hafði alið manninn og efaðist ég um að rétt væri farið með það atriði. Á meðan á þeim heilabrotum stóð hitti ég mann sem gjörbreytti viðhorfi mínu til Egilssögu.

Leit minni að Þórólfi Kveldúlfssyni hefur áður verið gerð skil hér á síðunni. En þá hitti ég norðmann sem kunni önnur skil á Agli Skallagrímssyni en kennarinn í denn. Þessi fundur var í Borkenes nágrannabæ Harstad, þar sem ég bjó. Þangað hafði ég verið sendur um tveggja vikna skeið til að laga flísar í sundlaug grunnskólans. Þetta litla sveitarfélag gerði út á að hafa "móttak" fyrir flóttamenn sem þurfa að komast inn í norskt samfélag. Eins er þar "móttak" fyrir þá sem hafa misstigið sig á kóngsins lögum og vilja komast aftur á meðal löghlíðina borgara með því að veita samfélagsþjónustu. Þarna átti ég marga áhugaverða samræðuna.

Síðasta daginn minn í Borkenes höfðum við sammælst um það, fjölbreyttur vinnuhópur móttaksins og íslenski flísalagningamaðurinn, að ég kæmi með hákarl og íslenskt brennivín til "lunsj" í skiptum fyrir vöfflur með sultu. Leifur, sem kannski ekki bar með sér að hafa verið hinn heppni eins og íslenski nafni hans ef marka mátti rúnum rist andlitið, sá um vöfflubaksturinn og heilsaði mér með virktum. "Ja so du er en Islanding kanskje viking som Egil Skallagrimson kommen å hente din arv ". Þarna hélt ég mig hafa himinn höndum tekið við að fá botn í heimilisfang Þórólfs. Spurði því Leif hvort hann hefði lesið Egilssögu; "að minnsta kosti fjórum sinnum" sagði hann. Þegar ég færði Þórólf Kveldúlfsson í tal sagðist hann ekki hafa hugmynd um þann náunga. En eitt vissi hann; "Egil var ikke en kriger han var en poet" (Egill var ekki vígamaður, hann var skáld).

Síðan fór Leifur yfir það hvernig Egill hefði bjargað lífi sínu með ljóðinu Höfuðlausn, þegar Egill kunni ekki við annað en að heilsa upp á fjanda sinn Eirík blóðöxi, sem  óvænt var orðinn víkinga konungur í York, en ekki lengur Noregskonungur. Til York rambaði Egill í sinni síðustu Englandsferð. Þau konungshjónin (Eiríkur og Gunnhildur) og Egill höfðu eldað grátt silfur árum saman. Hafði Egill m.a. drepið Rögnvald son þeirra 12 ára gamlan, reisti þeim hjónum að því loknu níðstöng með hrosshaus og rúnaristu, þar sem hann hét á landvætti Noregs að losa sig við þá óværu sem þau hjónin sannarlega væru, en virðist hafa sést yfir það að biðja Englandi griða fyrir hyskinu.

Eiríkur náði um Egil eina nótt í York, en fyrir áeggjan Arinbjarnar fóstbróður síns, auk þess sem Arinbjörn var besti vinur Egils, lét Eiríkur Arinbjörn narra sig til loforðs um grið Agli til handa, svo framarlega sem Egill gæti samið eilífa lofgjörð um Eirík. Þá varð til ljóðið Höfuðlausn, sem Eiríkur blóðöxi gat ekki tekið öðruvísi en lofi. Úr þessu ljóði fór Leifur með erindi við vöfflubaksturinn í Borkenes um árið, og sagði svo að endingu að þarna væri allt eins um hreinustu níðvísu að ræða til handa Eiríki.

Þetta vakti áhuga minn á kveðskap Egils sem ég hafði skautað fram hjá sem óskiljanlegu þrugli í sögunni, enda vel hægt að fá samhengi í fyllerí og vígaferli Egils án ljóðanna. Þegar ég las svo Höfuðlausn náði ég fyrst litlum botni í kveðskapinn, en gekk þó betur að skilja hann á ensku en því ástkæra og ylhýra.

Þegar Hálogalandsútlegð minn lauk árið 2014 átti ég eina glímu eftir henni samfara, en þessi útlegð var tilkominn vegna ósættis við bankann. Mér hafði tekist með þriggja ára Noregsdvöl að losa heimilið við óværuna. Og það án þess að reisa níðstöng með hrosshaus, en með því að senda mína hverja einustu norska krónu til þriggja ára í hít hyskisins. En eina orrustu varð ég að heyja til viðbótar. Ég gat nefnilega ekki látið bankanum eftir Sólhólinn við ysta haf, jafnvel þó á honum stæði bara dekurkofi. Vegna ósveigalegrar græðgi fjármálaflanna í skjóli ríkisvaldsins(eðalborinna okkar tíma)gekk hvorki né rak og að endingu kom mér til hugar, Höfuðlausn.

Þetta magnaða kvæði náttúrustemminga og manndrápa, þar sem blóðugur blærinn flytur dauðann yfir láð og lög. Aðeins ef ég gæti ráðið í það hvernig Egill færi að því að bjarga sínu á mínum tímum, því eins og öðrum hverjum manni af Kveldúlfsætt þá geðjast mér ekki að því að vera botnlaus fjáruppspretta aðalsins fyrir lífstíð, enda kannski ekki á öðru von, því ef Íslendingabók Kára fer með rétt mál er ég komin út af börnum Egils Skallagrímssonar. Ég ákvað því til þess að komast að leyndarmáli lausnarinnar myndi ég mála mynd af kveðskapnum og væri best að stytta sér leið og byrja á höfðinu.

Þess er skemmst að mynnast að byrjunin lofaði ekki góðu, þegar ég hafði gert lítið meira en koma blindrammanum á trönurnar fékk ég hjartaáfall af verri gerðinni, hjarnaði við á hjartadeild. Við tók nokkurra vikna endurhæfing undir handleiðslu hjúkrunarfólks og sálfræðings. Þegar ég færði tildrög minnar ófullgerðu höfuðlausnar í tal við sálfræðinginn var svarið einfalt; þessu skaltu reyna að gleyma þú hefur ekkert þrek lengur í að stofna til orrustu. Myndin lenti ókláruð upp á skáp þó svo hún væri fullkláruð í höfðinu. Það var síðan núna í vetur sem ég tók hana fram aftur og fullgerði hana enda lausnin fyrir löngu fram komin. 

Þegar ég las Egilssögu í annað sinn með hliðsjón af myndinni þá áttaði ég mig á því að lofgjörð Egils í Höfuðlausn er ekki ort til Eiríks blóðöxi. Það sést á  þeim náttúrustemmingum sem ljóðið hefur að geyma að þetta er ljóð um orrustuna á Vínheiði þar sem Þórólfur bróðir Egils lét lífið nokkrum árum fyrir magnþrungnu nóttina í York. Sú orrusta hefur verið kölluð orrustan við Brunanburh og mun hafa markað upphafið að nútíma skipan Bretlands. Þar hafði Þórólfur gengið á mála hjá Aðalsteini Englandskonungi ásamt Agli bróður sínum og víkingum þeirra.

Um liðskipan þeirra bræðra í orrustunni lét Þórólfur Aðalstein konung ráða, við mótmæli Egils, því fór sem fór, þrátt fyrir frækilegan sigur þá lét Þórólfur lífið. Lýsingarnar á Agli þegar hann kom til sigurhátíðar Englandskonungs eru magnaðar. Þar settist hann gengt konungi yggldur á brún, með sorg í hjarta og dró sverð sitt hálft úr slíðrum án þess að segja eitt aukatekið orð og smellti því svo aftur í slíðrin. Aðalsteinn hætti ekki á annað en láta bera gull og kistur silfurs í röðum til Egils um leið og hann þakkaði honum sigurinn. 

Ljóðið Höfuðlausn orti Egill svo í sinni seinni Englandsferð þegar hann fór til að heilsa upp á Aðalstein Englandskonung og herma upp á hann loforð. Í enskri útgáfu ljóðsins má m.a. finna þessar hendingar; 

The war-lord weaves

His web of fear,

Each man receives

His fated share:

A blood-red suns

The warriors shield,

The eagle scans

The battlefield.

----

The ravens dinned

At this red fare,

Blood on the wind,

Death in the air;

The Scotsmens foes

Fed wolves their meat,

Death ends their woes

As eagles eat.

----

Carrion birds fly thick

To the body stack,

For eyes to pick

And flesh to hack:

The ravens beak

Is crimson-red,

The wolf goes seek

His daily bread.

Þetta er varla lofgjörð til nokkurs manns þó svo Egill hafi leyft Eiríki blóðöxi að halda svo um árið í York. Það var rétt með farið hjá Leif í Borkenes að þarna er kveðið argasta níð til rangláts valds. Það er nær að ætla að Egill hafi haft bróðir sinn í huga þegar hann yrkir kvæðið þessa nótt í York. Höfuðlausn sé því í minningu Þórólfs og þeirra Þór-álfa sem láta glepjast af gylliboðum um frama með þjónkun við það vald sem telur sig eðalborið til yfirgangs og græðgi. 

Þó Höfuðlausn sé tvíeggjað torf og tímarnir aðrir þá en nú á dögum markaðsvæddra svartra föstudaga, lögfróðra og bankstera; er rétt að fara varlega í að útskýra fyrir blessuðu barninu hvers eðlis fuglinn er, og hafa þá efst í huga orð mankynslausnarans. "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?"

IMG_7797

Ps. Þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir rúmum fjórum árum og er nú endurbirtur í gúrkunni.


Goð og gullabú

Nú er engu líkara en bloggið sé að geispa golunni í gróanda gúrkunnar. Það er sumarfrí blíðum í blænum með gróðrarskúrum hér og þar á stöku stað. Ég skelli því í barnalega langloku þó svo að hún sé gömul. Ef einhvertíma er ástæða fyrir þá eldri að láta barnsálina ráða þá er það um hásumar.

Fyrir akkúrat tíu árum tók ég mig til og braut heilann um ægishjálm, tákn sem ég hef þekkt frá unglingsárum og borið um hálsinn stóran hluta ævinnar. Þessi heilabrot birti ég svo hér á síðunni í þremur pistlum á sínum tíma og endurbirti nú í heild.

Samveran með ægishjálmi er reyndar miklu lengri en langloka með gúrku, -og verður líka barnalegri eftir því sem á líður, en það er akkúrat það sem mestu máli skiptir.

 

Ægishjálmur - lengra að kominn en Goðin og Darwin æðstiprestur.

Fyrir nokkrum mánuðum barst mér sérkennileg sending hingað á 69°N. þetta voru tveir píramídar hlaðnir dularfullri orku komnir alla leið úr heimsálfunni "down under". Frá þessu greindi ég í bloggi "Organite og orkuflögur" stuttu eftir að þeir bárust. Það sem síðan hefur gerst er um margt merkilegt og mörgu varla hægt að segja frá nema eiga það á hættu að vera talinn snarruglaður. En þær leiðbeiningar fylgdu svo sem þessum organite píramídum að þeir gögnuðust þeim betur sem væru ekki alveg samkvæmt norminu.

Píramídarnir hafa vísað mér á undarlega heima þar sem ýmislegt kynngimagnað hefur átt sér stað. Fyrir það fyrsta þá birtist hér fluga sama dag og þeir voru teknir úr umbúðunum.  Flugan sú hnitaði hringi í kringum þá á stofuborðinu en virtist auk þess eiga mikið erindi við okkur Matthildi mína með suði sínu, sem var þá hérna hjá mér í norðurhjara sólinni.  Jafnvel eftir að henni hafði verið vísað kurteislega út um stofugluggann og lokuð úti um tíma, þá kom hún inn með hálfu stærra erindi en áður þegar glugginn var opnaður næst. 

Eftir að Matthildur yfirgaf 69°N snemma í ágúst hélt flugan sig enn innandyra, hafði orðið sér úti um herbergi í hinum stafninum á risinu, en kom annað slagið út úr því til að spjalla og lét sig aldrei vanta ef ég var að bauka í eldhúsinu. Einu sinni heimsótti ég hana í herbergið sitt, opnaði gluggann eldsnöggt tókst að koma henni út og loka. Þegar ég var svo á leiðinni eftir ganginum inn í stofu, sem er í hinum stafninum, fékk ég það á tilfinninguna að ég myndi mæta henni, þar sem ég var með opinn stofugluggann. Það passaði hún var þegar komin inn og þusaðist með suði og vængjaslætti eftir endilöngu ganginum inn í sitt herbergi. 

Á þessum tíma fór ég í fjögurra daga vinnuúthöld norður í nes Finnanna. Þó svo að ég hafi verið frekar ógestrisin við fluguna þá brást það ekki að hún fylgdi mér niður að útidyrunum til að kveðja á mánudagsmorgnum og tók mér fagnandi á móti á fimmtudagskvöldum. Þetta gerðist í tvær vikur en eftir það hvarf hún. Sérfræðingar segja, en þess má finna stað einhverstaðar í sérfræðikverinu, sem hefur hlotið löggildingu í fávisku fabrikkum ríkisins, að meðalaldur húsflugu sé sex vikur sem gæti hugsanlega skýrt hvarf hennar úr mínum híbýlum og jafnvel þessum heimi.

Einnig fékk ég um þær mundir sterkt hugboð að setja fram hér á síðunni bloggið "Huliðsheimar og galdrastafir"  um ægishjálm, það væru tengsl á milli hans, píramídana og flugunnar. Þetta blogg virtist kannski vera sett fram í hálfkæringi, en þegar ægishjálmur er annars vegar er betra að vera ekki með neinn hálfkæring. Þetta var gert til að fiska upplýsingar um töfratáknið sem mér hefur verð hugleikið í gegnum tíðina og fannst lítið vera til um á alheimsnetinu. Þetta blogg virtist kannski ekki skila miklu, en þó vísbendingu sem ég hef fylgt eftir og ætla m.a. að segja frá hérna á síðunni. Að vísu er fyrirboðinn ekki hagstæður því þegar ég ætlaði að koma þessu frá s.l. fimmtudag læsti tölvan mig úti og það lengur en ég fluguna, kemst því ekki með nokkru móti í upplýsingarnar sem hún hefur að geima um ægishjálminn. Ég varð að draga fram gömlu tölvuna sem er sjö ára forngripur, er því með nokkhverskonar morstæki hérna í loftkeytaklefanum miðað við nýjustu samskiptagræjur í netheimum og þar að auki að notast við mitt stopula minni.

Á wikibedia (alfræðiriti almennings)  segir svo frá ægishjálmi; "Ægishjálmur er gamall íslenskur galdrastafur sem er til í fjölmörgum gerðum og útgáfum. Hans er getið í Eddukvæðum, Sigurður Fáfnisbani bar Ægishjálm þegar hann sigraði drekann Fáfni á Gnitaheiði. Ægishjálmurinn er öflugur varnarstafur, bæði gegn öllu illu og einnig örugg vörn gegn reiði og yfirgangi höfðingja. Honum fylgir svohljóðandi formáli:

Fjón þvæ ég af mér
fjanda minna
rán og reiði
ríkra manna.

Það mætti kannski ætla að beinast lægi við að komast að töfrum ægishjálmsins með því að skoða þær vísbendingar sem koma fram í wikipedia úr goðafræðinni. Eins og þar kemur fram á Sigurður Fáfnisbani að hafa borið hjálminn þegar hann drap drekann Fáfni, fara þessar upplýsingar víða um í netheimum. Þannig að ég varð mér úti um Völsunga sögu en þar segir m.a. frá þvi þegar Reginn egnir Sigurð "síðasta Völsunginn" Sigmundsson til að vega Fáfnir bróðir sinn til fjár. En Fáfnir hafði sér það til saka unnið að hafa myrt Hreiðmar föður þeirra Regins til að komast yfir gull sem hálfjötuninn Loki hafði stolið af dvergnum Andvara til að bæta Hreiðmari sonarmissi þegar Loki drap son hans Otur (bróðir þeirra Regins og Fáfnis) af misgáningi þegar Loki var á ferð með Óðni æðstum goða við Andvarafoss.

Reginn setti saman sverðið Gram fyrir Sigurð, nokkurskonar ættargrip sem hafði hrokkið í tvo hluta í lokaorrustu Völsunga. Síðan hvetur hann Sigurð til að grafa sér holu við vatnsból Fáfnis og stinga hann með sverðinu þegar hann skríður yfir holuna á leið sinni til vatnsbólsins. Allt gengur þetta eftir, en á eftir drepur Sigurður einnig Reginn með sverðinu Gram þar sem þeir sitja að sumbli við að drekka blóð Fáfnis, voru þeir ekki einhuga um hvor þeirra ætti að éta hjartað. Þetta gerir hann til að þurfa ekki að deila með honum fjársjóð Fáfnis. Verður ekki annað séð af Völsunga sögu en fjársjóður Fáfnis hafi haft ægishjálminn að geyma. Á samtali Sigurðar og Fáfnis á banabeði Fáfnis kemur m.a.fram;

Eftir að Fáfnir hafði fengið banasár spurði hann m.a: "Hver eggjaði þig þessa verks eða hví léstu að eggjast? Hafðir þú eigi frétt það hversu allt fólk er hrætt við mig og við minn ægishjálm? Hinn fráneygi sveinn, þú áttir föður snarpan."

Sigurður svarar: "Til þessa hvatti mig hinn harði hugur, og stoðaði til að gert yrði þessi hin sterka hönd og þetta hið snarpa sverð er nú kenndir þú. Og fár er gamall harður ef hann er í bernsku blautur."-----

Einnig segir Fáfnir: "Heiftyrði tekur þú hvetvetna því er eg mæli. En gull þetta mun þér að bana verða, er eg hefi átt."

Sigurður svarar: "Hver vill fé hafa allt til hins eina dags, en eitt sinn skal hver deyja." -------

Enn mælti Fáfnir: "Eg bar ægishjálm yfir öllu fólki síðan eg lá á arfi míns bróður. Og svo fnýsti eg eitri alla vega frá mér í brott að engi þorði að koma í nánd mér og engi vopn hræddist eg og aldrei fann eg svo margan mann fyrir mér að eg þættist eigi miklu sterkari, en allir voru hræddir við mig."

Sigurður mælti: "Sá ægishjálmur, er þú sagðir frá, gefur fáum sigur því að hver sá er með mörgum kemur má það finna eitthvert sinn að engi er einna hvatastur."

Fáfnir svarar: "Það ræð eg þér að þú takir hest þinn og ríðir á brott sem skjótast, því að það hendir oft að sá er banasár fær, hefnir sín sjálfur." 

Eftir að Sigurður hafði afhöfðað Reginn;"etur hann suman hlut hjartans ormsins en sumt hirðir hann. Hleypur síðan á hest sinn og reið eftir slóð Fáfnis og til hans herbergis og fann að það var opið, og af járni hurðirnar allar og þar með allur dyraumbúningurinn og af járni allir stokkar í húsinu, og grafið í jörð niður. Sigurður fann þar stórmikið gull og sverðið Hrotta, og þar tók hann ægishjálm og gullbrynjuna og marga dýrgripi. Hann fann þar svo mikið gull að honum þótti von að eigi mundi meira bera tveir hestar eða þrír. Það gull tekur hann allt og ber í tvær kistur miklar, tekur nú í tauma hestinum Grana. Hesturinn vill nú eigi ganga og ekki tjár að keyra. Sigurður finnur nú hvað hesturinn vill. Hleypur hann á bak og lýstur hann sporum og rennur sjá hestur sem laus væri."

Síðar í sögunni kemur ægishjálmurinn aftur til tals þegar Sigurður leitar til Brynhildar  örlaganornar sinnar til að gefa sér heilræði. En þegar Sigurður kemur á hennar fund og vekur hana spyr hún; "hvað svo var máttugt er beit brynjuna "og brá mínum svefni. Eða mun hér kominn Sigurður Sigmundarson er hefir hjálm Fáfnis og hans bana í hendi?" 

Svo mörg voru þau orð um ægishjálm, fimm sinnum er hans getið og ekki með nokkru móti hægt að ráða í það hvernig hann kemur að gagni.  Vísbendingin sem sem var gefin um að Sigurður Fáfnisbani hafði borði ægishjálm þegar hann banaði Fáfni reyndust því ekki réttar samkvæmt Völsungasögu.  Ægishjálmurinn kemur ekki meira við sögu en fjársjóður Fáfnis er síður en svo til gæfu því hver harmleikurinn af öðru ríður þar röftum uns Svanhildur dóttir Sigurðar Fáfnisbana er að lokum drepin með því að hleypt er á hana hestum og líkur með því sögu Völsunga. 

En til hvers er þá ægishjálmurinn sem sagður er vera máttugur verndarstafur sem m.a. færði Sigurði sigurinn yfir Fáfni og hvaðan kemur hann?

Eftir að hafa lagst í rannsóknir í netheimum báru þær mig fljótlega út til stjarnanna. Ef drekinn Fáfnir hafði ægishjálminn að geyma í sínum fjársjóði þá getur hann allt eins verið mun eldri en norræn goðafræði. Þegar ægishjálmur er teiknaður kemur margt upp í hugann, hann hefur jafn fullkominn hlutföll og þegar dropinn gárar vatnsflötinn. Hann minnir á vegvísi og til eru hugmyndir um að hann hafi vísað á hina ýmsu heima norrænnar goðafræði, sé jafnvel útgáfa af Yggdrasill (lífsins tré). Einnig minnir hann hann á stjörnu sem hefur það umfram festar aðrar að hafa átta arma. Og ekki síður minnir hann á kaungulóravef sem beinir athyglinni að miðju vefsins, getur því verið vegvísir inn á við til sjálfshjálpar líkt og vísan í formála ægishjálmsins gefur til kynna, "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna,,," osfv..

 

Ægishjálmur II - launhelg vé.

Undarlegir hafa þeir verið draumar mínir upp á síðkastið. Hef í þeim átt samtöl fram og aftur í tímann, setið í laufskála suðrænnar hitabeltiseyju staðsettum undir íslenskum frystihúsvegg með gjálfrandi ölduna undir gisnu gólfinu sem merlaði ljósbrotum sólarinnar upp um hrímaða veggi laufskrúðsins. Tekið þaðan á loft út yfir himin og haf, flogið yfir bernskustöðvar þar sem upp fyrir mér rann að nú var ég í flugvél drauma minna sem við pollarnir smíðuðum á hæðinni í denn. Eftir að tímavélin sú var komin á flug er allt mögulegt og lítill vandi að vita hvernig það er að ferðast hraðar en hljóðið þráðbeint upp til skýanna og þaðan á ljóshraða út til stjarnanna.  

Heimarnir sem við upplifum í vöku og draumi eru í reynd jafn sannir, því báðum tilfellum upplifum við tilveruna. Munurinn á þessum tveimur tilverustigum er að upplifanirnar verða til vegna næmni mismunandi stöðva okkar innra sjálfs. Draumaheimurinn varir einungis jafnlengi og draumurinn á meðan vökuheimurinn á sér síendurtekið framhald. En jafnvel í vöku kemur sumt þannig að hvorki verður að því orðum komið, né það skynjað með skilningsvitunum fimm. Eina skynjunin er tilfinning hjartans. 

Til að reyna að skýra þetta nánar ætla ég að segja frá því þegar ég keyrði fram á norsku þjóðarsálina á förnum vegi núna í hauslitunum. Þegar ég stoppaði fór út úr bílnum til að taka myndir af litasinfóníunni sem fyrir augu bar mætti rúllubaggi, kyrrðin, fuglasöngur, blær sem bylgjaði grasið í síðdegissólinni og baulið í belju heima við bæ. Þarna var hún þá allt um kring, undir, yfir og á milli loftlínanna sem flutti rafmagnið um sveitina. Það að finna fyrir þessari sál svona óvænt og óumbeðið má einna helst líka við nærveru kærleiksríkrar ömmu, nema hvað þarna var amma ung og ég komin yfir fimmtugt. Sem passar náttúrulega ekki alveg á línuna, því amma var ekki amma þegar hún var ung og ég ekki orðinn gráhærður. En betri skýringu hef ég ekki haldbæra með orðum á því þegar allur tími stendur ljóslifandi í einu augnabliki og maður heilsar heilli þjóðarsál.

Ég gaf það í skin hérna um daginn að til þess öðlast skilning á uppruna ægishjálms þurfi að fara alla leið út til stjarnanna. Svo stór sé uppruni hans að hann sé hvorki það sem fram kemur í goðafræðinni, þ.e. sá verndargripur sem gaf Sigurði máttinn til að bana Fáfni né íslenskur galdrastafur. Eins var ég búin að rekast á að hann gæti allt eins verið ættaður austan úr Asíu, að á Indlandi væri svipað tákn brúkað gegn neikvæðni og illsku. Í haust fékk ég svo óvænta staðfestingu á Asíu upprunanum. Þannig er að á hæðinni fyrir neðan býr fólk frá Pakistan. Í haust þurfti að endurnýja baðherbergið í íbúðinni þeirra, á meðan fengu þau aðgang að mínu. Ég þarf varla að taka það fram að ég naut góðs af þessu.  

Kvöld eitt kom Roomi upp á stiga skörina til að færa mér heitt te frá frúnni, honum varð starsýnt á ægishjálm sem ég hafði um hálsinn og spurði forviða "hvar fékkstu þetta" áður en ég náði að svara hafði hann kallað á frúna til að sýna henni þessi stórmerki. Sjáðu hvað hann er með um hálsinn sagði hann, hún leit snöggvast á gripinn og fór svo með hraði niður stigann. "Þetta tákn er líka til hjá okkur" sagði hann "en hvað merkir það hjá þér?" Ég sagði honum það sem ég vissi um merkinguna og að talið væri að þetta væri gömul rún komin aftan úr norrænni goðafræði sem víkingarnir hefðu ástundað. Hún hefði fundist í gamalli íslenskri bók á 19 öld, "ja svo, eru þá líka víkingar á Ísland" spurði Roomi. Þegar ég ætlaði að fara að fá uppgefið hjá honum hvaða merkingu hann legði í þetta tákn eyddi hann samtalinu.

Eftir að hafa leitað uppruna ægishjálmsins nú um nokkra hríð vegna þess að mér fundust upplýsingarnar sem um hann voru gefnar á alheimsnetinu vera af skornum skammti hef ég komist að því að alheimsnetið er einn allsherjar ægishjálmur. Hann hafi alltaf verið til og rétt eins og í sögunni um Sigurð Fáfnisbana þá tilheyri hann fjársjóði sem er kominn enn lengra að en norræn goðafræði.  Hann virðist vera til í öllum menningarheimum sem hið átta arma sólarhjól oftast sem verndarstafur gegn ágangi hins ágjarna, samanber íslensku forskriftina; "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna rán og reiði ríkra manna". 

Til eru hugmyndir um að átta arma verndarstafurinn eigi uppruna sinn aftan við alla vísindalega viðurkennda menningarheima. Hann sé arfur úr fjársjóði sem kemur frá gullöld Atlantis jafnvel alla leið úr paradísargarðinum Eden. Síðar hafi hann dreifst í áttirnar fjórar og varðveist í þeim menningarheimum sem ríktu þar, s.s. goðafræðinni í norðrinu, menningu frumbyggja í suðrinu, Buddhisma í austrinu, Kristni í vestrinu svo fátt eitt sé upp talið.  Þetta má sjá á þeim táknum sem þessir menningarheimar skarta, s.s. stærsta sýnilega tákni Vadilkansins í Róm, tímahjóli Mayana, Darmha hjóli Buddhismans og ægishjálmi Goðafræðinnar.

En hvers vegna er þetta tákn hjúpað dulúð og galdri svo mögnuðum að kaþólsku kirkjunni þótti jafnvel ástæða til að brenna fólk á báli vegna gruns um samskipti við myrkrahöfðingjann byggi það yfir þekkingu táknsins? 

Þess má geta sér til að þar séu völd höfuð orsakavaldurinn eða "Fjón ríkra manna". Ægishjálmurinn er nefnilega vegvísir á hina mörgu heima sem manneskjan býr að. Í norrænu goðafræðinni voru heimarnir a.m.k. níu þ.e. Miðgarður sem var jörðin, Ásgarður heimkynni Goðana, Jötunheimar, Dvergheimar, Eldheimar, Helja, Vindheimar, Álfheimar og Huliðsheimar.  Kaþólsku kirkjunni tókst að afnema vísdóm goðafræði norðursins og gera heimana sem almenningi stóðu til boða þrjá, þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti. Það sama átti við menningarheim suðursins, visku hans var því sem næst eytt um leið og menningu indíána Ameríku. Bæði víkingar og indíánar voru stimplaðir hryðjuverkamenn síns tíma sem þarf ekki að koma á óvart þegar litið er til þess stríðs sem nú er háð gegn hryðjuverka ógn sem sögð er steðja af menningu austursins.

Ægishálmur hefur hin fullkomnu hlutföll lífsins blóms. Hann er því sennilega ættaður úr helgri rúmfræði eða það sem kallað er sacred geometry, stundum fingrafar Guðs. Þessi stærðfræði er í raun einföld í praxis en hefur verið haldið til hlés fyrir almenningi.  Fjársjóð hinnar helgu stærðfræði má hvarvetna finna ef maður aðeins hefur lykilinn. Það hefur því verið "Fjón" ráðandi afla í gegnum tíðina að halda þessum lykli innan sinna fjárhirslna og er enn ef marka má námskrár menntastofnanna ríkisins sem kenna það umfram kaþólsku kirkjuna að heimurinn sé helst jarðlífsins hagvöxtur þeim Mammon til dýrðar sem kallast í daglegu tali markaðsöfl og hamra járnið í gegnum marggjaldþrota imbakasann sem telst vera öryggistæki í almannaþágu. Meira að segja kaþólsku kirkjunni þótti ekki ráðlegt að taka himnaríki alveg út í einum áfanga en setti samt helvíti til mótvægis til að hafa allt undir control.

Það má því með réttu segja að Fáfnir gang aftur á öllum tímum. En svo merkilegt sem það er þá má finna verkfærin til að smíða lykil af hinni helgu rúmfræði í táknum félagskapar sem kennir sig við starfsheiti mitt. Án þess að ég ætli að halda því sérstaklega fram að frímúrara sitji stilltir á stúkufundum teiknandi ægishjálma helgrar rúmfræði þá er það með hana eins og þjóðarsálina það er tilfinningin sem gefur skynjunina. Er von að spurt sé hvers vegna er heilög rúmfræði ekki kennd í skólum?

 

Ægishjálmur þrjú - kálgarður og gullabú.

Því hefur stundum flogið fyrir á þessari síðu, að maðurinn sé helst með sjálfum sér þegar mætt er í þennan heim sem ómálga barn. Svo sé von til þess að komast aftur til sjálfs sín þegar komið er þangað sem er kallað út úr heiminum, s.s. slefandi gamalmenni sem hefur ekki endilega tengsl við þá stund sem dagatalið sýnir. Þó ber þess að gæta að þær eru fleiri en ein, útgönguleiðirnar til sjálf sín, mismunandi gáfulegar þó, t.d. var sú útgönguleið sem ég sannreyndi á yngri árum ekki vænleg þ.e. í gegnum glerið á flöskubotni.

"En sjáðu samt hvað þetta er fallegt Maggi" sagði hún Matthildur mín við mig í haust þegar við komum í okkar fyrr um heimabæ. Það er reyndar flest fallegt á Djúpavogi hjá þeim sem slitu þar barnskónum og ekki síður hjá þeim sem lifðu þar sín manndómsár. Ég sá nefnilega ekki fegurðina alveg á augabragði, enda þarf að vera hægt að ferðast á ljóshraða fram og aftur um allan tíma til þess átta sig á öllu því sem Matthildi þykir fallegt. Þarna blöstu við leggur, skel og kjálki úr sviðakjamma í skjóli við sinubrúska fyrir norðanátt sem gerði öldutoppana hvíta á Berufirðinum. En það þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu til að sjá að þarna hafði barnsálin búið vel að sínu gullabúi þannig að blessaðir málleysingjarnir nutu góðs af fyrir norðanblæstrinum sem barst frá landshlutanum þar sem búsmalinn snjóaði í kaf vindasama september daga. Þessi fegurð hefði svo sem ekki átt að þurfa að vefjast fyrir mér eitt augnablik, því oft hafði ég skoðað með henni Matthildi minni á álíka fjársjóði. 

Þegar við fluttum úr fjölbýli Grafarvogsins í Egilsstaði var meiningin að koma sér aftur upp gullabúi eins og á Djúpavogi, jafnvel með sinubrúskum í kringum veggi einbýlis. Því voru margir kvöldrúntarnir farnir um byggingalendur góðærisins til að skoða það nýjasta í gullabúagerð. En flestir bíltúrarnir enduðu með því að fara framhjá flottasta hverfinu í bænum. Þetta hverfi stendur venjulega sumarlangt skammt frá Eyvindaránni og er kallaður starfsvöllur af lærðum. Þarna fá blessuð börnin hamar, nagla og spýtur til að byggja sínar draumahallir. Í stað þess að þurfa að slá sinuakurinn sumarlangt höfðu þau komuð sér upp Edengarði inn á milli draumahallanna, sem hafði að geyma gulrætur, hvítkál og spínat o.fl., kallað skólagarðar á fagmálinu. Þarna mátti sjá að það vafðist ekkert fyrir barnsálinni að bæta herbergi hvað þá heilli hæð við draumahöllina. Reglugerðafarganinu ekki fyrir að fara frekar en í Kristjaníu og allsnægtirnar við útidyrnar.

"Ég hlusta á Zeppelin og ferðast aftur í tímann..." söng kóngurinn í denn og endaði sönginn á "...svartur Afgan drauma minna ég sakna". Eins og svo oft hitti Bubbi þráðbeint í hjörtu mannanna með þessu ljóði. Það þarf ekki að muna nema upphafið og endinn til að lifa töfrana. Það þarf ekki einu sinni að fíla Zeppelín hvað þá hafa prófað svartan Afgan. Lykillinn að hjartastöðinni er ferðalag augnabliksins aftur í tímann þar sem framtíðardraumanna er saknað. Yfir öllum þessum töfrum hafa börnin að ráða þegar þau hlúa að legg og skel, eða byggja kofana sína í kálgarðinum. Jafnvel þegar það er gert undir faglegu eftirliti starfsvallarstjórans í skólagarðinum. En eftir það fara þau mörg hver að sakna drauma sinna og ferðast aftur í tímann til að grennslast fyrir um hvar þeim var stolið. Nema hægt sé að halda þeim kirfilega uppteknum við að halda jafnvægi á línunni. Svo uppteknum að jafnvel þyki orðið eðlilegt að borga fyrir það að hlaupa með síauknum hraða á sama stað á færibandinu í World Class og þá eins gott að sleppa því að líta til hliðar ef ekki á illa að fara.

Ég kom inn á það að sennilega væri ægishjálmurinn alþjóðlegt tákn sem hefði verið til á meðal manna alla tíð.  Lykilinn af töfrum hans mætti kannski finna á stúkufundum frímúrara því það væri ýmislegt sem benti til að þeir hefðu yfir þeim verkfærum að ráða sem opnuðu helga rúmfræði. Frekar en að taka mér frí frá múrverki og reyna að fá inngöngu á stúkufundi spurði ég Búddamunkinn bróðir minn um það hvaða hlutverki ægishjálmurinn gegndi hjá þeim Búddunum. En þar gengur hann undir nafninu Darmhahjól. Bróðir sagði að Darmha þýddi vernd á Búddísku, vernd hugans, nánar tiltekið þess huga sem hjartastöðin hefur að geyma og er meðfæddur við komuna í þennan heim. Íslenski formáli ægishjálmsins á semsagt fullkominn samhljóm í Búddísku; "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna, rán og reyði ríkra manna"

Það er með hjartanu sem við höfum aðgang að alheiminum, hinni miklu sameiginlegu vitund. Það er með þeim huga sem hægt er að ferðast fram og aftur um tímann á einu augnabliki til að finna fjársjóðinn sem við eitt sinn áttum. það er með hjartanu sem við höfum aðgang að öllum tímum, hverri hugsun, allri vitneskju sem þessi heimur býr yfir. Reyndar kom það fram í Völsungu þegar Sigurður snæddi hjarta Fáfnis þá sögðu fuglarnir honum hvar hann gæti fundið framtíðar sögur. En það varð Sigurði Fáfnisbana að aldurtila að meta veraldlegan fjársjóðinn meira en hjartað. Þegar hann reið vafurlogann fyrir annan mann í þeim tilgangi að blekkja Brynhildi sem hann hafði heitið ævarandi tryggð, sveik hann ekki einungis Brynhildi heldur líka hjarta sitt fyrir gullið í fársjóðnum sem hafði ægishjálm að geyma, þann sem Loki hafði stolið af dvergnum Andvara við fossinn í Dvergheimum.

Eins og maðurinn sagði; þá ert þú kominn í þennan heim til að vera þú sjálfur og það er enginn annar betri í því að vera þú, en þú sjálfur. Til þess hefurðu hjartað að vísa veginn, það er hjartað sem býr yfir mættinum til að ferðast um rúm og tíma til að nálgast alla þá visku sem fyrirfinnst. Eða eins og meistarinn orðaði þegar hann útlistaði mikilvægi óttalauss hjarta "Í húsi föður míns eru margar vistarverur".


Ísland fyrir íslendinga

Mér rann í brjóst í hádeginu á sunnudaginn var og dreymdi að ég hefði fengið flokkskýrteini Framsóknarflokksins sent í pósti ásamt skrautrituð heiðursskjali. Martröð kann einhver að hugsa, en þá ber þess að geta að ég hef tvisvar sótt skriflega um inngöngu í flokkinn án árangurs.

Það var reyndar á síðustu öld. Grænn á milli eyrnanna hélt ég þá að Framsóknarflokkurinn stæði vörð um hagsmuni landsmanna af því að svo stutt var síðan að hans helsta slagorð var Ísland fyrir íslendinga. Þá látið í skína að markmið slagorðsins væri enn í fullu gildi þó svo það væri ekki lengur haft í hámælum.

Á þessar öld hafa fjölþjóðlegir framsóknarmenn allra flokka unnið grettistak fyrir Uber, auðróna og innflutt matvælaöryggi, í viðleitni sinn við að koma bændum á borgarlínuna, dýralæknunum á veggjalda jötuna og sveitum landsins undir kolefnisjafnaða græna torfu, -eins og engin sé morgunndagurinn.

Fyrir ekki svo löngu vældi einn ráherra flokksins sig til aumingja vikunnar með þeim fádæma árangri að öðlast fjölda atkvæða í borg óttans. Þessi ráðherra hefur nú komið bújörðum sínum í Dölunum í búsældarlegt vindmyllubrask í samstarfi við erlenda kolefnislóða. Sprengjudeild Landhelgisgælunnar verður væntanlega seinna sett á aukafjárlög.

Látið er í veðri vaka að vænkist hagur Dalamanna um leið og innviðavæddar skurðgröfurnar verða ræstar, rétt eins og meðal aust- og vestfirðinga þegar norska laxeldið hélt innreið sína í kvótalausa firði íbúum þeirra til auðskyldrar hagsældar, líkt og eftir þorskastríðin á síðustu öld, -eða þannig.

Þetta er kallað á fínna framsóknarmáli kvíaból og þurfa þau hvorki að þvælast í skipulags eða grenndarkynningar kjaftæði. Heilu vöruskemmurnar eru dregnar að ströndum landsins og fljóta bólfestar um alla firði íbúum til augnayndis. Á meðan hefur Jóni og Gunnu verið haldið heima á mottunni í kotinu, komandi ekki svo mikið sem hænsnakofa í gegnum regluverkið, frekar en að renna færi til fiskjar.

Nú má reikna með að afdalamenn í Dölunum fái í framfarir sjónhverfingar að hætti hússins. Vindmyllu stöplar geti orðið kvíaból þegar fram líða stundir m.a. fyrir dritandi lofthænsnaeldi í helíum loftbelgjum þjónustuðum að utan með Zeppelin loftförum, öllu svífandi upp af kolefnisjöfnuðum vindmyllu skóginum, -alþjóðlegum auðrónum til hagsældar.

Það má því segja að framsóknarmennskan hafi meir en svo fundið sinn farveg og Finn í væli ráðherrans til aumingja vikunnar, í stað gamla góða slagorðsins Ísland fyrir íslendinga. Draumurinn um flokkskírteinið hafi því eftir allt saman verið martröð.


Fjallagrös, auðrónar og dánumenn

IMG_3716

Í gær var ríki Ratcliffs heimsótt, farið fram í heiðanna ró eða þannig. Eins og landslýður væntanlega veit þá hefur auðmaður eignast stóran hluta norðausturlands, keypti m.a. hlut í lögheimili forseta alþingis á sínum tíma. Segja má því að um nokkurskonar utanlandsferð sé að ræða.

Ferðin var farin til fjallagrasa og dagurinn tekin snemma, rétt eins og þegar farið er í Leifsstöð. Eins og ég hef komið inn á hér á síðunni þá erum við hjónin komin í sumarfrí og heiðanna ró heillar okkur bæði því eru þessar fjallagrasaferðir orðinn árlegur hluti sumarfrísins.

Í ríki Ratcliffs er nóg af bæði heiðum og fjallagrösum, enda hefur hann ekki legið á því að hann ætlar að eignast land á vatnasvæði villta Atlantshafs laxins norðan Vatnajökuls. Íslensku suðfé á sömu slóðum til sárrar gremju og fer því ört fækkandi þessi árin.

Suðandi flugurnar trufluðu til að byrja með í lognstilltri fjallakyrrðinni, þannig að tekin var pása og farið út Vopnafjörð að Gljúfurárfossi. Svo undarlega hefur viljað til að þar hafa verið einungis örfáir erlendir ferðamenn á sama tíma og við síðustu ár, aðallega þýskir Norrænu farþegar.

Mér hafði því leikið forvitni á að vita hvort hugsanlega eitthvað fleira trekkti erlenda ferðamenn að á þessar slóðir, annað en Hellisheiðin, Gljúfurárfossin og stórbrotin norðurströnd Vopnafjarðar. Komst svo að því þegar ég las um Þorstein uxafót Ívarsson í þeim slitrum sem enn eru til úr Vopnfirðingasögum að hugsanlega væri fleira áhugavert að skoða á ströndinni neðan við foss.

Þegar hafgolan og austfjarðaþokan tóku að svífa inn Vopnafjörðinn héldum við aftur til fjalla í grösin, laus við flugaur í heiðar golunni sem blítt blés um kinn. Það er fátt betra en búa sér ból í heiðanna ró og leggjast upp í loft á milli þúfna og fá sér miðdegislúr við mófugla söng.

Þegar við töldum okkur hafa tínt nóg af fjallagrösum í hafragrautinn næsta árið héldum við aftur niður í dali Vopnafjarðar í ríki Ratcliffs þar sem heimamenn standa vart lengur upp úr trénuðum túnunum, fórum út Hofársdalinn austanverðan.

Þar keyrðum við fram á virkjunarhús sem sprottið hefur upp eins og gorkúla á mykjuskán. Vatnsrörin lágu í bunkum á áreyrunum og einungis á eftir að umsnúa Þverárdal með stórvirkum innviðjarðýtum til að koma þeim fyrir svo hægt verði að fara framleiða raforku fyrir Guð má vita hvern.

Þetta ku víst vera samtarfsverkefni Rarcliffs og stórfjölskyldumeðlima fjármálaráðherra við að vernda villta Atlantshafs laxastofninn á vatnasvæðinu norðan Vatnajökuls og kallast þá Arctic Hydro.

Ekki höfðum við áhuga á að skoða gorkúluna á mykjuskáninni frekar en hallarbyggingu auðrónans í vesturhlíðum Vesturárdals þar sem austantjaldinum hefur verið staflað niður í gámum ásamt verkfræðingum Íslenskum aðalverktaka og einum gámi af lögfræðingum svo heimamenn fái hvílt í friði í trénuðu túnunum.

Skömmu áður hafði ég snarstoppað enda steypa neðan við veg þannig að ég snaraðist með myndavélina út úr bílnum. Ég sagði Matthildi minni að þarna væru sennilega menningarverðmætin Guðmundarstaðir, æskuheimili Hrannar fyrrverandi sveitunga okkar á Djúpavogi, -og aftur nú í sameinuðu Múlaþingi.

Ég klofaðist yfir gaddavírinn á meðan Matthildur beið upp við veg og efaðist um að ég hefði rétt fyrir mér hvað stað og stund varðaði, hvað þá að þennan stað ætti ekki nokkur lifandi sála. Þarna óð ég puntinn í trénuðu túnunum til að ná myndum af steypu áður en hún hyrfi ofaní svörðinn.

Þegar heim var komið stóð allt eins og stafur á bók, Guðmundarstaðir voru það þó svo að ég hafi aldrei komið þarna áður þekkti ég þá, svo vel hafði Ómar Ragnarsson gert fólkinu á þessum bæ skil á síðustu öld, gott ef það var ekki upphafið á hans mesta afreki.

Þó svo að ég hafi aldrei fyrr séð Stikluna hans Ómars í sjónvarpi þá var það mikið um hana rætt að ég var aldrei í vafa um að þarna hefðu búið þeir dánumenn, sem vissu að skuldlaus kemur þú í þennan heim og skuldlaus skal stefnt á úr honum að fara, það sem umfram er hvort eð er bara til leiðinda fyrir eftirlifendur á hvorn veginn sem fer.

 

IMG_3723

Byggingasaga til sveita; timburhús byggt við torfbæinn, steypt hús byggt við timburhúsið, nýtni í hávegum höfð öld fram af öld. Skildu innfluttu krosslímdu mygluhjallarnir endast betur?

IMG_3730

Meir að segja sementið var drýgt með stórum steinum, svo kölluðu púkki

 

IMG_3736

Þekjan á nýjustu viðbyggingu íbúðarhússins hefur verið einangruð með torfi sem hengt er upp með gaddavír

 

IMG_3737

Húsaþyrpingin að Guðmundarstöðum

 

IMG_3746

Það verður sennilega hvorki réttað sauðfé né slegin tún í bráð á kotbýli auðrónans

 


Hafnarhólminn

Þá er sumarfríið hafið hjá landanum með öllum sínum lystisemdum, rigningu, roki og jafnvel slyddu, en sól og hiti þar á milli. Ég heyrði oft erlenda ferðamenn dásama þessa tíð þegar ég seldi lopapeysurnar hennar Matthildar minnar sumrin eftir hrun. Eitt af því sem aldrei var til nóg af, auk lopapeysanna, voru svartir stutterma bolir með áletruninni Day in Iceland og öllum veðurtáknum á bringunni.

Nú er sumarfríið okkar formlega hafið, mötuneytið og steypan komin í frí og lopaleysan aftur í, svona til vonar og vara, og ekki má gleyma Færeysku prjónabrókinni í allri sumarblíðunni. Í gær var farið á Boggann, eða Borgarfjörð-eystri eins og fjörðurinn fagri formlega nefnist. Veðrið var allslags, þó ekki rigning. Sólarlaust blíðulogn fram eftir morgni, strekkings kalsa vindur um miðjan daginn og sumar og sól seinnipartinn.

Litla stórfjölskyldan okkar var öll í Borgarfjarðar blíðunni í gær, nema sá sem ekki kemst frá vegna ferðamanna. Í gær var Dyrfjallahlaupið sem ekki er hlaupið í gegnum Dyrfjöllin  heldur fjöllin á Víknaslóðum. Ungur vinnufélagi minn í steypunni, sem er mikill fjallagarpur, hefur getað sagt mér allt um þessi fjöll svo oft hefur hann smalað þau á harðahlaupum, - hann tók ekki þátt. Sagðist ekki ætla að taka þátt í hlaupi sem kennt er við Dyrfjöll en hlaupið í þveröfuga átt.

Fleiri hundruð manns allstaðar af landinu tóku þátt í Dyrfjallahlaupinu og fjörðurinn fagri iðaði af fjölþjóðlegu mannlífi. Við gömlu létum nægja að hlaupa á eftir Ævi og bíða við endamarkið eftir fjölskyldumeðlimum litlu stórfjölskyldunnar. Á eftir var farið út í Hafnarhólmann í eitt skiptið enn og ekki sveik hann frekar en fyrri daginn, og Þiðranda forðum. Ævi var að sjá uppáhalds fuglinn sinn í fyrsta sinn, en hingað til hefur teiknimynd í sjónvarpinu verið látin duga. 

Höfnin á Borgarfirði er einstaklega falleg og einn langvinsælasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi. Aðstaðan við Hafnarhólma til fuglaskoðunar er með eindæmum góð og hér er auðvelt að komast í návígi við Lunda, Fýl, Ritu og Æðarfugl auk annarra tegunda sem dvelja í og við hólmann. Á undanförnum árum hefur Borgarfjarðarhreppur ásamt landeigendum lagt metnað sinn í að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn til fuglaskoðunnar og útivistar við höfnina. Búið er að leggja göngupalla um hólmann, opna fuglaskoðunarhús og þar er nú risið glæsilegt þjónustuhús með sýningarrými, veitingaaðstöðu, snyrtingum og aðstöðu fyrir sjómenn Hér er mikið lundavarp og talsvert æðavarp ásamt dálitlum ritu- og fýlsvörpum. Æðavarpið er mest áberandi í fyrri hluta júní á meðan blikinn er í varpinu. Lundinn er við holur sínar fram í ágústbyrjun og rita og fýll við hreiður út ágúst. (af síðu Borgarfjarðar-eystri)

Set hér inn nokkrar myndir frá gærdeginum, það getur hvaða auli sem er náð góðum lundamyndum í Hafnarhólmanum.

 

IMG_3556

IMG_3565

Hafnarhólminn

Ævi

Lundar

IMG_3610

Lundi


Hér eru engir njólar

Að vera sérfræðimenntaður í fíflum og njóla gerist ekki að sjálfu sér, hefur bæði aðdraganda og afleiðingar. Núna í gúrkutíðinni, þegar ekki einu sinni er neitt bitastætt að frétta af Rússum í Úkraínu, ætla ég að setja hér inn upp á dag 11 ára gamla hugleiðingu um njóla.

Síðuhafi er orðinn sérfræðingur í njóla, eins og þeir vita sem líta hér reglulega inn. Annars er það efst á baugi að síðasti dagur í steypunni fyrir sumarfrí er í dag og á því vel við að huga að landsins gæðum og nauðsynjum nú á tímum matvælaöryggis. 

Hefst nú lesturinn;

Í vetur hafði ég hugsað mér að nota sumarið í að rannsaka njóla.  Til undirbúnings hafði ég hlaðið á náttborðið bókum um nytjajurtir og grasafræði.  Njólinn er til margra hluta nytsamlegur þó svo að hann hafi hálfgert óorð á sér.  Það er helst að njóli sé nefndur í annarri merkingu en niðrandi, þegar menn um miðjan aldur minnast æsku afreka sinna við það að þróa með sér tækni til tóbaksreykinga.  Ég varð reyndar aldrei þeirrar reynslu aðnjótandi að reykja njóla, ég notaði te til að þróa reykingatæknina.  Það var nefnilega þannig að móðir mín heitin gerðist áskrifandi að Æskunni, því fyrirmyndar blaði, og hélt því að okkur systkinunum sem hollri lesningu.  Í einu tölublaðinu var heilsusemi te-reykinga gerð skil í örfáum setningum.  Þar sem pabbi var í reykbindindi og pípusafnið safnaði bara ryki, fannst mér tilvalið að skella mér í heilsuátak og mökkreykti te dagana langa mömmu til mikilla leiðinda.  Það var sama hvað hún reyndi að fá mig ofan af þessu, alltaf gat ég vitnað í hið ágæta barna blað, Æskuna.

Þetta var í þá daga þegar eldspítur voru á hvers manns færi, en nú er búið að banna að bera eld að flestu og er þær því að verða úreltar, kerti og útigrill eru að verða það eina sem er undanskilið.  Ruslatunnan, sinan, sígaretturnar og varðeldurinn heyra nú  brátt sögunni til að viðlögðum fjársektum eða jafnvel fangelsi.  Þannig þróaðist ein helsta tækniframför mannfólksins eldurinn á hálfum mannsaldri.  Enda er nú svo komið að ef ungt fólk og eldfæri fara saman endar það yfirleitt með ósköpum, ef það næst að kveikja eldinn virðist kunnáttan um það hvernig hann hagar sér og hvernig á að slökkva hann hafa glatast á nokkrum áratugum.  Það þarf orðið sérfræðinga með háskólagráður til að fara með eld.  Öll notkun á eldi er svo háð leyfisveitingum frá hinu opinbera sem kosta sitt, t.d. kostar um 400 þúsund að fá leyfi til að kveikja varðeld en sektin er 80 þúsund fyrir að gera það í leyfisleysi, hvað það kostar að kveikja í njóla, um það hef ég ekki upplýsingar, en sjálfsagt má afla þeirra hjá Umhverfisstofnun.

En hvað um það það var ekki meiningin að þvæla hér um eldspítur og njólareykingar.  Kveikjan að þessum pistli var önnur, sú að ég hafði hugsað mér að nota sumarið í rannsaka njóla til fæðu.   Ég hef nefnilega smásaman verið að átta mig á því eftir því sem á ævina hefur liðið að það er eins og praktísk þekking kynslóðanna sé að glatast, ef ekki af hreinni leti þá vegna regluverks sérfræðingasamfélagsins í boði ríkisins.  Sem dæmi þá gátu afi og amma alið skepnur og slátrað, auk þess sem veiddur var silungur yfir sumartímann, sáð kartöflum, rabbabarinn spratt eins og af sjálfu sér, svo má ekki gleyma blessuðum hænunum og berjamónum á haustin.  Heimilið var einhvern veginn alveg sjálfbært og leið aldrei skort það eina sem var skilda að kaupa var dagblaðið Tíminn en hann kom margra daga gamall í sveitina og var notaður í skeinispappír.  Pappi og mamma tóku mikið af kunnáttunni úr foreldrahúsum, en þó ekki þá að ala skepnur og praktíska notkun á áróðursskrifum dagblaðanna.  Þau tóku slátur að hausti, leigðu pláss í frysti þar sem þau byrgðu sig upp af kjöti og fisk fyrir veturinn, ekki má gleyma rabbabaranum, kartöflugarðinum og berjamónum.

Það flaug því gegnum hugann fyrir nokkrum árum þegar við hjónakornin vorum að versla í Bónus, að ef Bónus lokaði í viku þá upplifðum við sennilega hungursneyð sem yrði tvísýnt um að við lifðum af.  Ekki minnkaði svartnættið í huga mínum þegar ég hugsaði fram í tímann til blessaðra barnanna, hvað yrði um þau ef mötuneytunum á bensínstöðvunum, Dominos og Subway yrði lokað vegna rafmagnsleysis.  Þau sem kynnu ekki einu sinni að tendra upp eld í njóla og ekki yrði iphone-inn notaður til að skeina sér á með nokkrum árangri.  Það var akkúrat í kælinum á Bónus sem vegferðin að njólarannsókninni hófst.  Það var upp frá því sem ég fór að sjá að það væri vissara að eiga allavega matarbirgðir til vikunnar heima í ísskáp.

Síðan hefur þessi árátta smá saman undið upp á sig og eftir að kreppan skall á þá fór ég að taka aftur eftir því sem manni fannst best í gamla daga, en engum með sjálfsvirðingu datt í hug að láta spyrjast að hann æti í gróðærinu.  Berjamórinn varð vinsæll, rabbabaragrauturinn eitt það besta sem ég man eftir frá bernskuárunum varð aftur á mínum borðum og kartöflugarður með ruðum íslenskum hefur verið áhugmál.  Síðasta vetur dugði rabbarin og berin fram í janúar, reiknast mér til að rabbabari hafi verið ca. tvö mál í viku að jafnaði, sælkeramáltíð sem kostar ca. sjötíu og fimm kall.  Kartöflurnar dugðu fram í apríl og þá er komið að mikilvægi njólans einu sinni enn.

Jóhanna á Skorrastað sagði mér einu sinni að njólinn hefði verið notaður sem meðæti í stað kartafla hér áður fyrr, enda geymast kartöflur illa út árið og voru annaðhvort ónýtar eða búnar í sumarbyrjun.  Eins hafði ég heyrt það í útvarpserindi að ætihvönn og ýmsar jurtir, njólinn þar á meðal, hafi upphaflega komið til landsins sem garðjurtir og grænmeti.  Þær hefðu svo dreift sér um landið og fólk væri búið að gleyma því að hver upphaflega hlutverk þeirra var og væri nú flokkaðar sem illgresi.  Grænlendingar kynnu þó ennþá að nýta sér þessa búbót og er t.d. hvönnin talin úrvals grænmeti þar yfir sumartímann.  Það var semsagt meiningin að prófa sig áfram með njóla og afla sér uppskrifta til matargerðar.  Hvað hvönnina varðar þá hef ég heyrt að Grænlendingar leggi hana í nokkurskonar marineringu þannig að minni á súrkál.

Þessi njóla rannsókn mín virðast því miður vera komin á fullri ferð út um þúfur í bili.  Snemma í maí þegar ég var nýbúinn að setja niður kartöflurnar og u.þ.b. var að verða tímabært að líta eftir njóla, álpaðist ég til að spyrjast fyrir vegna atvinnuauglýsingar hérna í Noregi og þar sem vantar fólk til starfa.  Hérna hef ég alveg gleymt mér ásamt öllum njólaáformum þangað til um daginn að ég var að vinna með vinnufélaga sem man tímana tvenna og segir mér þessar hrikalegu kreppusögur frá Rússlandi, nánar tiltekið Múrmansk en þaðan er konan hans.  Í nokkra daga höfðum við þann starfa að múra kanta á heilu íbúðahverfi þar sem endurnýjaðir voru gluggar í því sem næst hverju einasta húsi hérna upp í skógivöxnum hæðunum.  Vinnufélagi minn er mikill matmaður þó mjósleginn sé enda mallar hann sígarettur líkt og Lukku Láki og keðjureykir þær, við getum rætt matbjargir út í eitt. 

Þegar við lágum í kaffi í skógi vaxinni brekku og rannsökuðum berja vísana, fór hann að segja mér að þangað til fyrir nokkrum árum síðan hefðu verið þrjú stór fiskvinnslufyrirtæki hérna í Harstad en nú væri búið að loka þeim öllum.  En í staðinn væru komnar þrjár risastórar byggingavöruverslanir sem gæða hafnarbakkana nýju lífi.  En fiskurinn sem veiðist hérna fyrir utan og í Barentshafinu væri sendur til Kína og unnin þar.  Fyrir hvert eitt kíló sem sent væri af óunnum fiski kæmi eitt kíló til baka "hvis du transportar en kilo, en kilo skal kome til bake, sodan skal det være" segir hann.  Það sem hann undraði sig samt á var að þetta skildi vera flokkað sem matvæli eftir allt þetta transport.

Ég fræddi hann á því að á Íslandi væri árangurinn gott betur en kíló, og sæjum við alfarið um það sjálf, það væri algilt að eitt kíló af fiski upp úr sjó yrðu að einu og hálfu í vinnslu.  Auk þess að nota Kínversku aðferðina, sem hann sagði að fælist í því að hirða allan afskurð og bein hakka það í marningssoppu og sprauta því í flökin, þá væri mikil tækni á Íslandi við að þyngja fisk með efnafræðiformúlum auk þess sem hann væri hvíttaður þó heiðgulur væri orðinn.  Eftir vísindaafrekin gæti hann svo staðið árum saman við stofuhita án þess að nokkuð sæist á útlitinu, ein gallinn væri að hann bragðaðist bæði nýr og gamall eins og korkur, en því mætti kippa í liðinn með góðu kryddi.  Þessi aðferð hefði verið þróuð úr kjúklingaiðnaðnum þar sem kjúklingabringurnar væru seldar á uppsprengdu verði sem heilsufæði enda væru þær alltaf eins og nýslitnar úr hænsninu sama hvað þær væru gamlar og nú væri búið að þróa sumt af tækninni í lambakjötið, lærin í frystinum í Bónus hefðu verið eins og útstungnir sparautufíklar nýkomnir úr vaxtarækt síðast þegar ég fór þangað.  Nei, ef menn ætluðu að borða hollan mat þá væri best að halda sig við rabbbarann og annað heimafengið sagði félagi minn. 

Vinnufélaga mínum leist ekkert orðið á að reyna að toppa upplýsingar mínar um matargerðarlist og fór að tala um að sennilega myndum við fljótlega lenda í að vinna við skólabyggingu sem hann benti mér á og blasti við úr brekkunni þar sem við sátum, það eina sem ætti eftir að gera áður en verkið hæfist væri að rífa skólann sem stendur þar fyrir sem er fjögurra hæða steinhús ca. 40 ára gamalt.  Því nú ætti að byggja miklu flottara skólahús sem uppfylltu kröfur nútímans.  Ég fræddi hann á því að í mínu heimabæ á Íslandi væru menn búnir að prófa svona framfarir, menn hefðu rifið bæði skóla og þessi fínu hús til að byggja fínni, vegna þessa að landið var svo verðmætt, þó óbyggðirnar hefðu kallað allt um kring.  Það hefði varla verið liðið árið þegar allt var hrunið og menn hefðu tyrft yfir herlegheitin og leitað til nágrannanna um fjárhagsaðstoð til að hægt væri a koma börnunum í skóla sem hefði þak.  Það hefði nefnilega gleymst að spyrjast fyrir um hvort einhver hefði efni á að borga fyrir svona framfarir.

Þegar við stóðum upp og röltum niður brekkuna með nestisboxin og kaffibrúsana, -vinnufélagi minn nýbúinn að kveikja í einni handgerðri, sem gæti hafa verið gerð úr njóla, -tók ég eftir því að eitthvað kannaðist ég við umhverfið.  Úrelt útigrill, garðhúsgögn sem tilheyrðu tískunni frá því í fyrra, tengdamömmubox og fleira dót rann eins og skriða niður frá bakhliðum íbúðarhúsanna í kring, samt var rétt svo að draslið næði að standa upp úr trénuðum rabbabaranum.  Þessir úreltu nytjahlutir höfðu þurft að rýma til fyrir verðmætum sem þjónuðum nútímanum betur, s.s. hjólhýsum, húsbílum, mótorhjólum,  kæjökum og nýjustu sortum af útigillum sem prýddu aðaldyramegin.  Allt í einu fattaði ég á hvað þetta minnti mig, þetta minnti mig á árið 2007.  Og þá mundi ég eftir fyrirhugaðri njólarannsókn í sumar og uppgötvaði mér til mikillar skelfingar að hér eru engir njólar.


Enslaved

July 7 / -Close to sunrise those ungodly blood hounds came and broke in to the house where the people were sleeping. They hammered on the beds with swords, screaming and yelling, commanding the farm people to get to there feet, hardly giving theme time to dress. They drove everybody to the chapel.

They lit torches and searched the houses of the farmstead. They found the two faithless guards in the kitchen and dragged them over to others. The pirates then tied everybody up – as they always did.

There were thirteen people captured in all, including the wife of the farmer, who was very weak, and so she could not keep up with others. One of the pirates struck her on the cheek with the butt of his gun, and she collapsed. The pirates kicked her and thought she was dead and so they abandoned her.

Þessi frásögn er í Enslaved, bók þeirra Karls Smára Hreinssonar og Adam Nichols. Þarna er frásögn austfirskra skólapilta í Skálholti snúið á ensku, en frásögnin var skráð árið 1628, veturinn eftir Tyrkjaránið sem átti sér stað sumarið 1627.

Þarna segir frá morgni 7. júlí við Hamarsfjörð fyrir nákvæmlega 395 árum síðan, þegar heimilisfólkið á Hamri var hernumið og rekið til skips á Djúpavog. Alls voru 13 manns tekin á Hamri en húsfreyjan var sú sem var skilin liggjandi eftir á leiðinni og haldin dauð. Ætla má að hún hafi verið skilin eftir á milli Hamars og kirkjustaðarins Háls við Hamarsfjörð 

Ég sagði frá því hér á síðunni fyrir tæpum mánuði síðan þegar bókin kom út að höfundurinn Adam Nichols hefði verið það verulega hugleikið hvað hefði orðið af húsfreyjunni á Hamri, hafði það á orði oftar en einu sinn þegar við komum að Hamri.

Eins sagði ég frá því að ég hefði fengið að heyra gömul munnmæli um lækjarsprænu skammt frá Hamri þar sem ófrísk stúlka átti að hafa drekkt sér frekar en lenda í ánauð Tyrkja, -hjá Djúpavogsbúum þegar bókin var kynnt í Löngubúð. Gat því sagt Adam á eftir hvað varð af húsfreyjunni á Hamri.

Nú er ég búin að lesa bók þeirra félaga orð fyrir orð og verð að segja að þar er farið á mis við miklar heimildir með því að gefa ekki gömlum munnmælum og þjósögum meiri rúm í bókinni. Bókin hefði gefið mun gleggri mynd af því hvað gerðist þá sumardaga þegar sjóræningjar hernámu íbúa við Hamars- og Berufjörð.

Það er þannig með þjóðsögur og munnmæli að þau fylla upp á milli línanna í knöppum texta opinberu skýrslunnar og geymist þá heildarmyndin í gegnum aldirnar þegar lesið er á milli línanna. Þetta tækifæri hafa sagnfræðingar því miður oftast látið fram hjá sér fara. Það sama á við um þessa bók og er hún því fátæklegri fyrir vikið.

Bókin segir þó umfram það, sem skjalfest var eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti, frá umhverfi fólksins á þrælamarkaði í Algeirsborg, þó án þess að segja mikið frá afdrifum þess annað en kom fram í þekktum bréfaskriftum. Tyrkjaránið, bók Jóns Helgasonar er nákvæmari hvað þetta varðar, en þess ber að geta að Enslaved er ætluð fyrir erlenda lesendur.

Kannski væri hægt að rekja slóð íslenska fólksins, sem selt var á þrælamörkuðum N-Afríku sumarið 1627, með nútíma DNA tækni. Hægt hefur verið að rekja slóð afrískra íbúa sem seldir voru í þrældóm til Ameríku, en þar kemur til litarháttur, auk sagna og gena.

Frelsisþráin hefur samt veri sú sama hvort sem hún var ættuð úr hjörtum fólks úr myrkviði Afríku eða í bjarta sumarnótt á Íslandi. Bob Marley kom þessari frelsis þrá angurvært í ódauðlegt ljóð. Sama er hvort með þann söng fara þjóðlagasmiðir eða pönkarar, hann er alltaf sannur.


Er ekki tími til kominn að tengja?

Fjólurnar fjúka og Finnbogi skiptir um gír. Verðbólgan æðir um Hveradali og hnjúka. Nú liggur lífið við fyrir auðrónana að gera sér mat út innviðunum. Míla verður seld, kannski með skilyrðum, -og fetar þannig slóð greiðslumiðlunar landsins bláa, sem seld var í fyrra til landsins helga, -sælla minninga. Hvernig þýfi verður svo kannski selt með skilyrðum er svo aftur hulin ráðgáta. Sennilegra er að útúrsnúningar verði látnir duga.

Viðundrið í Seðlabankanum hefur svo tekið þann pólinn í hæðina að slá á verðbólguna með því að hækka vexti og fella gengið á víxl. Með því vinnst tvennt; að fyrstu kaupendur íbúðarhúsnæðis eru ekki lengur að þvælast fyrir auðrónum sem þurfa að koma sér upp sparibauk til leigu, auk þess sem vergangs lýðurinn hefur minna á milli handanna til húsnæðiskaupa með hækkandi verðbólgu og vöruverði.

„Verðbólgan á Íslandi er að stóru leyti drifin áfram af húsnæðisverði og það orsakast ekki síst af framboðsskorti. Við erum núna að vinna að tillögum um það hvernig við getum tryggt húsnæðisöryggi og framboð fyrir alla þjóðfélagshópa“ -flissar fáráðurinn og er sjálfsagt að spekúlera í að setja spretthlauparann Móra frá Gunnarsstöðum í nefnd til að finna út hvað má snúa út úr ungu barna fólki í húsaleigu með aðkomu ríkisins.

Svo þarf náttúrulega einhver að fjármagna Úkraínustríðið. Almenningur og launafólk verða því að sýna ábyrgð á meðan skipt er um gír, enda dúkkulísurnar í drögtunum og lélegu leikararnir í allt of litlu bláu jakkafötunum fyrir lögnu búin að sína þá samfélagslegu ábyrgð að verðtryggja launin sín svo ekki þurfi að standa í frekara stappi við kjararáðs pakkið. Nú verður hægt að einhenda sér í því að bjarga því sem bjargað verður í money heven.


Independence Day

Í tilefni dagsins læt ég rasismann ráða ríkjum hér á síðunni. Sem sonur feðraveldisins  finnst mér einhvern veginn sumarið aldrei vera alveg komið fyrr en Sweet home Alabama Where the skies are so blue -Lord I am cominng home to you -hefur verið þrusað á milli eyrnanna og ekki veitir af til að kveða burt kuldann.

Nú til dags er svona lagað náttúrulega ekkert annað en argasti rasismi samkvæmt öllum rétttrúnaðinum, en þar sem sumarið hefur verið frekar svalt og grámyglulegt upp á síðkastið þá læt ég mig dreyma og sól, sumar og blágresið bylgist blíðum í blænum, auk sveitaballanna í þá gömlu og góðu.

Ég vona samt að við eigum ekki eftir að banna íslenska fánann í nafni frelsisins.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband