Þarf að endurskrifa Íslandssöguna?

Ég hef farið víða, ég hef verið hér og þar, og ég veit að við öllum þessum spurningum er til eitt og annað loðið svar, -söng nafni minn þjóðskáldið um árið. Svo er það æskufélagi minn sem sjaldnast fer neitt en lendir hingað og þangað. Segja má að svipað eigi við um mig upp úr því að sumardagurinn fyrsti hefur litið sólarupprásina og ég geri hlé á því að lesa á milli línanna eftir há-skaðræðis tímann.

Milli-línu-lestur er sömu lögmálum gæddur og lesblinda. Maður tekur ekkert eftir því sem stendur í leiðbeiningunum, heldur því sem sleppt var að segja þegar þær voru skrifaðar. Rekur svo tærnar oftar en ekki á það sem liggur beint fyrir framan nefið á manni. Þessu heilkenni má einna helst líka við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríinu sínu en var ekki kominn lengra en í næsta fylki þegar sumarfríið varð búið.

Þegar Íslendingasögurnar eru lesnar þá liggja gríðarlegar upplýsingar á milli línanna. Sem dæmi þá er ég með blátt skol í æðum, kominn af Haraldi hárfagra. Er þá styst að rekja til nafna míns berfætts sem stundum hefur verið kallaður síðasti víkingakonungurinn og var drepinn á Bretlandseyjum. Þetta get ég fengið staðfest í Íslendingabók. Svo má líka finna það út að ég sé kominn af Mýrkjartani konungi á Írlandi. Þó svo megi lesa á milli línanna þá gæti þurft að umsnúa einhverjum þúfum til að fá þær staðfestingar að Norðmenn hafi verið gamlir Írar sem áttu eitt sinn heima suður við Svartahaf.

Það á að hafa verið sagt af þjóðminjaverði seint á síðustu öld að það borgaði sig ekki að fara út í þann þúfnaviðsnúning svo það þyrfti að endurskrifa Íslandssöguna vegna einhverra moldarkofa sem finnast í móum landsins. En eftir því sem tækni til aldursgreininga fornminja verður fullkomnari fer æ fleirum að gruna landnámið fyrir landnám, sem Árni Óla skrifaði um, eigi við áþreifanleg rök að styðjast. En ekki einungis að einstaka lesblindingi hafi mislesið Landnámu og Íslendingasögurnar.

Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur og hans fólk hafa verið við uppgröft á Stöðvarfirði í nokkur sumur og rannsakað þar hús og gripi, sem Bjarni hnaut um í þýftu túninu á Stöð, fyrst árið 2007. Bjarni segir æ fleira koma í ljós, en fjöldi gripa hefur fundist við rannsóknina auk húsa og telur hann eldri skálann, sem talinn er frá því um 800, vera útstöð frá Norður Noregi þaðan sem fólk hafi ferðast og haft sumardvöl á Íslandi og nýtt sér auðlindir sjávarins, fisk, hval og sel.

Þarna reynir Bjarni að rugga ekki Landnámu um of, en hún greinir svo frá "Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri. Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét engu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi og eru frá honum Stöðfirðingar komnir." -hvernig sem bann við drápi villtra dýra svo samrýmist út-Stöðvar kenningunni og það að hvalir hafi verið dregnir langt inn í dal.

Fornleifarannsóknin á skálanum að Stöð í Stöðvarfirði hefur leitt í ljós að þar hafi verið gríðarlega öflugt býli. Svo virðist sem þar hafi búið höfðingi sem síðar hafi horfið úr sögunni. „Ef við horfum á þá kvarða sem notaðir eru til að mæla auð, völd og stöðu þá er þetta orðið öflugasta býli sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Það er samt alls ekki það sama og að um sé að ræða öflugasta býli landsins. Það er sama á hvaða gripaflokk litið er. Við erum alls staðar með fleiri en fundist hafa í fyrri rannsóknum hérlendis. Þetta er líka stærsti landnámsskáli sem rannsakaður hefur verið. Stærðin er yfirleitt ein öruggasta vísbendingin um velsæld. Þarna virðist hafa búið höfðingi sem síðan hefur horfið úr sögunni.“ Þetta segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrt hefur uppgreftrinum að Stöð frá því hann hófst formlega sumarið 2016.

Rannsóknir á landnámsskála (hugsanlegum) og mögulegri útstöð höfðingja á Stöð í Stöðvarfirði fengu hæsta styrkinn úr Fornminjasjóði í ár (2021), fjórar milljónir króna. Lítið fé til fornleifarannsókna veldur því að aðeins er hægt að vinna í mánuð á sumri. Með þessu áframhaldi tekur tíu ár til viðbótar að ljúka uppgreftrinum.

Nú er semsagt öldin önnur og menn komnir fram fyrir Landnámu þó styrkir séu smáir og hægt gangi þúfnagangurinn. Á sumardaginn fyrsta fórum við Matthildur mín að Stöð í Stöðvarfirði, sem er farið að kalla út-Stöð svo ekki þynnist um of bláablóðið sem Landnáma var skrifuð upp úr á kálfskinnið.

Þegar við komum að út-Stöðvar-uppgreftrinum voru þar tveir Stöðfirðingar fyrir og sögðu okkur að lítillega ætti að gramsa í moldarflagi Bjarna þúfnabana í sumar og freista þess að finna nokkrar perlur í viðbót með teskeiðinni, en þessi uppgröftur er einhver sá ríkulegasti að fornmunum á Íslandi hingað til, auk þess að innihalda stærsta landnámsútskála sem fundist hefur hér á landi.

Gallinn er aftur á móti sá að þessi risa skáli er frá því fyrir skráð landnám og því eru styrkveitingar til rannsókna vandfundnar. Það ku víst vera allt eins auðvelt að fá styrki hér á landi til að grafa upp coke dósir og skrá, sem Bandaríski herinn skildi eftir á öskuhaugunum.


Lofoten

IMG_0523

Á góðu ferðalagi ætti upphafið eða áfangastaðurinn ekki að vera málið, því gott ferðalag á sér hvorki annað upphaf né endi en heima. Það eru aftur á móti slæm fyllerí sem eiga sér upphaf og endi. Fyrir 10 árum lenti síðuhöfundur á vergang, fór til Noregs til að steypa, enda lítið að gera, -og launin lág, fyrir iðnaðarmann á landinu bláa.

Til stóð að Matthildur mín fylgdi í kjölfarið, en svo fór að hún átti lengst af við heilsubrest að stríða árin þrjú sem ég var í Noregi og kom því þangað einungis í heimsóknir og dvaldi þá mislengi. Ég aftur á móti fór þrisvar á ári heim til Íslands og skipti þá sumarfríinu mínu á milli vors og hausts, auk þess að vera heima hjá fjölskyldunni um jól.

Hver einasta króna þessarar Noregsdvalar fór í að friða gjaldþrota banka vegna persónulegrar ábyrgðar sem við hjónin höfðum skrifað okkur fyrir vegna atvinnurekstrar í íslenskri steypu. Þar að auki fóru sumarfríin í að halda utan um stökkbreytt skuldahalahúsnæði fyrir bankann, sem leigt var til vetrargeymslu hjólhýsa og húsbíla.

Það lenti svo á Matthildi minni að taka á móti þungbrýndum stefnuvottunum á meðan ég naut mín í norsku steypunni. Svo tókum við saman á móti brosandi fólki í sumarskapi á leiðinni í og úr fríi.

Þegar ég var búin að vera handan við hafið í heilt ár og þrauka niðdimman norður-norskan vetur, langt fyrir norðan heimsskautsbaug með örbylgjuofn og skaftpott að vopni upp á hanabjálka, búandi í starfsstöð fyrirtækisins, fór ég að velta því fyrir mér hvar ég væri staddur og komst fljótlega að því að ég væri í rauninni á nyrstu og stærstu eyju Lofoten eyjaklasans.

IMGP5733

 Robuer (gamlar verbúðir) hafa gengið í endurnýjun lífdaga á Lofoten og eru leigðar út sem lúxus gististaðir fyrir ferðamenn

Mette framkvæmdastýra Murbygg hafði margboðið mér sumarið áður að nota bíla fyrirtækisins til að skoða mig um, en því hafði ég alveg sleppt. Hún spurði mig þá hvers vegna ég hefði ekki áhuga á að nota tækifærið og ferðast um fallegasta hluta Noregs þessi ár sem útlegðin stæði, en við höfðum samið um að ég yrði í 3 – 5 ár. Ég sagði henni að göngutúrar í heimabænum Harstad dygðu mér alveg fyrsta árið.

Þegar Matthildur kom sumarið 2012 höfðum við fjölþjóðlegi múrarflokkurinn verið sendir norður í nes Finnanna til að hlaða og pússa veggi næstu 4 mánuðina og bjuggum þar á tjaldstæði, en fórum heim um helgar. Matthildur var þar með okkur og svo fórum við sunnudagsrúnta á vinnubílunum í boði Mette þegar við vorum heima í Harstad, auk þess sem hún lánaði okkur bílinn sinn í sumarfríinu sínu.

Það var þá sem við fórum heila helgi niður allan Lofoten og gistum í robuer, -aflögðum verbúðum sem hafa verið snilldarlega endurnýttar sem lúxus gististaðir fyrir túrista. Þegar við vöknuðum að morgni vorum við komin út á bryggju um leið og útidyrnar voru opnaðar, eitthvað fyrir hana Matthildi mína sjómannsdótturina úr sjávarplássinu þar sem lífið snerist í kringum bryggjuna.

Ég ætla ekki að lýsa Lofoten öðruvísi en með þessum myndum sem fylgja færslunni og svo myndbandinu hér að neðan, -þegar Matthildur dældi myndaum á það sem fyrir augu bar út um framrúðuna á meðan bíllin brunaði suður Lofoten með mig við stýrið og sígild Íslensk dægurlög í spilaranum. Þeir sem frekar vilja ferðast í lofti um Lofoten í fyrirsjáanlegu dróna myndbandi með örlagasinfóníu um eina mestu náttúruperlu Noregs ættu að klikka hér.

 

IMG_0562

Skreiðarhjallar úr trönum og spírum, fast við verbúðir eru víða að finna syðst á Lofoten og er litið með stolti á þessar byggingar sem menningarverðmæti, auk þess sem fiskur og hausar eru ennþá þurrkaðir í þeim á veturna, -eitthvað sem mátti sjá víða á Íslandi fyrir ekki svo löngu síðan

 

 IMG_0579

Eitt af því sem einkennir strendur Lofoten er að þar er víða skjannahvítur sandur

 

IMG_0252

"Ó hve gott á lítil lind leika frjáls um hlíð og dal". -Já það mætti ætla að dægurtextinn "Sem Lindin tær" hafi orðið til á Lofoten. -"Að öllu skyldi kveða óð um unað, ást og trú sem aldrei bregst en hugga lætur"


Brúin yfir boðaföllin

Ölfusá

Þá man ég næst eftir Ölfusá, þar sem við stóðum á árbakkanum hjá ferjunni, er flaut við bakkann, fyrsta bátnum, er ég hafði séð á ævinni. En engir voru þar hestar. Og er ég spurði um þá, var mér bent niður eftir ánni. Sá ég þá á hinni breiðu lygnu nokkru fyrir neðan okkur eins og röð af þúfum, sem mér var sagt að væru hestarnir á sundi. Loks fannst mér ég skilja þetta, þó ég ætti bágt með að átta mig á því, enda hafði ég aldrei séð neina skepnu á sundi fyrr. Varð svo nokkuð jafnsnemma, að farið var að koma okkur fyrir í ferjunni og hestarnir fóru að tínast upp úr ánni hinumegin.

Árið 1932 kom ég í annað sinn á þessar slóðir, þá á bílferð frá Reykjavík til Selfoss og Eyrarbakka. Þegar við nálguðumst Ölfusána, kannaðist ég við alla afstöðuna frá bernskuferðinni: Áin var lygn og breið til vinstri, allt út að sjó, og fjallið til hægri, nokkuð þverhnípt og bratt, en síður en svo ægilegt eins og mig minnti. Og þá fyrst vissi ég, að þetta hafði verið Ingólfsfjall, og þá skildi ég að leið okkar fyrrum hafði legið upp Grafning. 

Úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar (I bindi bls 30-31) , af margra daga ferðalagi fjölskyldunnar þegar hún flutti frá Miðmörk undir Eyjafjöllum í Prestbakka við Hrútafjörð árið 1867, þegar Magnús var um 5 ára aldurinn.

Mynd; Ísl. Þjóðlíf II bindi bls 394. Við Ölfusá, algengur ferðamáti yfir stórárnar. Menn voru ferjaðir í bátum, en hestarnir sundreknir. Daniel Bruun – R. Christiansen.)


Að æra óstöðugan

Bólusetningardagar heilbrigðisiðnaðarins hafa eftir því sem á líður líkst æ meir vakningarsamkomu sértrúarsafnaðar. Í gær heiðraði æðsti prestur sóttvarna samkomuna og var bólusettur við glymjandi lófatak í Höllinni. Tekið var sérstaklega til þess að sama valkyrjan bólusetti með sama bóluefni og Þann klára, sem hefur spilað á þjóðina frá því seint á síðustu öld.

Það hefur ekki farið fram hjá síðuhöfundi að nú standa yfir efstu dagar. Fyrir skemmstu kom boð að ofan í sms, auk þess hefur oftar en einu sinni verið hringt og fagnaðarerindið boðað af heilsugæslustöðinni. Allt þetta er á sig lagt, til viðbótar við það sem fjölmiðlar hafa dansað í kringum gullfiskin, svo halda megi honum upplýstum.

En vegna fjöldatakmarkana og vanþakklætis man ég bara Hann Smára og silfurpeningana þrjátíu sem fóru í money haven um árið. Þó svo allt sé gert til að halda mér upplýstum um helgustu vers fagnaðarerindis, fluttu á fjöldasamkomum grímunnar við lófatak.

Hvað er þá til ráða fyrir utanveltu hró sem getur ekki munað trúarjátninguna, -annað en fara að ráði Þorsteins jökuls í stórubólu og flýja til fjalla?


Auðrónar í neyslu

Nú dugir auðrónunum ekkert minna en kaupa eldgos til að ganga í augun hver á öðrum, og meina almenningi aðgang að eigin landi.  Það hefur hvort eð er ekki nokkur sála lengur geð í sér til að kíkja ofan í Kerið og greiða stórfé fyrir að leggja á bílastæðunum sem Vegagerð ríkisins lét gera.

Hins vegar ætla ég að benda fólki á fyrir ferðalög sumarsins að Svissneski auðróninn, sem keypti Heiðardalinn við Vík, er búin að taka niður harðlæst hliðið og bendir nú fólki einungis á með skilti að Heiðardalurinn sé í einkaeign.

Hann ku víst hafa þurft að fá Vegagerð ríkisins í viðhald vega í dalnum. Spurning hvort hliðið spratt upp harðlæst aftur á etir vegheflinum, eða hvort það verður opið þangað til að það kemur næst að viðhaldi vegarins í Heiðardalnum.


mbl.is Fjárfestar vilja eldgosajörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíflalegt

Það eru óræk merki um vorkomuna þegar fyrstu fíflarnir skína við sólu. Fíflar eru ekki aðeins til ánægju og yndisauka sem vorboðar, heldur eru þeir býsna ljúffengir í heilsusamlegan mat. Hér áður fyrr kunni fólk almennt betur að nýta sér ávexti jarðar.  Hver sem er getur tínt jurtir og haft þær til notkunar í eldhúsinu; það þurfa engin mörk að vera milli notkunar þeirra við matargerð og til heilsubótar.

Það er bæði hollt og skemmtilegt að nema slík fræði og ekki er margt grænmetið sem fæst algerlega ókeypis líkt og túnfífillinn hefur gert frá örófi alda. Hann þykir með bestu vatnslosandi jurtum sem völ er á, og hefur lengi verið notaður í alþýðulækningum.  Blöð túnfífilsins eru mjög næringarrík og voru áður fyrr notuð til lækninga við bjúg, sérstaklega ef hann orsakaðist af máttlitlu hjarta.

Sjálfur hef ég notað fíflablöð með hundasúrum og njóla í ferskt salat og þá saltað það örlítið og blandað með niðurbrytjuðum ferskum tómat bátum ásamt söxuðum sólþurrkuðum tómötum og helt smá olíu yfir. Svona salat er ljúffengt, t.d. með túnfiski eða harðsoðnum eggjum.

Fífla, hundasúrur og njóla má finna næstum hvar sem er, tómatana ferska og sólþurrkaða fær maður í Bónus. Upphaflega fékk ég áhuga á fíflunum vegna frásagna af lækningamætti þeirra við bjúg sem orsakaðist af máttlitlu hjarta og get staðfest að þeir virka.

Máttur fífla, sem fæðu við að bæta heilsu, hefur verið þekktur frá örófi alda. Þetta má t.d. finna um fíflablöð í ritgerð um íslensk matvæli frá því á ofanverðri 18. öld: "Þau eru ein sú hollasta fæða handa magaveikum. Skal saxa þau og sjóða vel í mysu eða vatnsblandaðri mjólk; smekkurinn er ísnarpur. Þau eiga vel við vatnsbjúg, skyrbjúg, tannholdsveiki og sinakreppu (sinadráttur), sem skyrbjúgum fylgja. 

Þegar þessi veikindi gengu eftir jarðeldinn 1783, ráðlagði Thodal stiftamtmaður að brúka fíflablaðagraut mest matar, og batnaði flestum að fárra daga eða vikna fresti, betur en af skarfakáli, sem allir geta sannað, er brúkuðu þennan graut eftir ráðum mínum. Hefur brúkun þess og síðan haldist við, þó helst hjá þeim efnaðri í salati."

Þó svona speki þyki fíflaleg fræði nú á bólusetningar dögum heilbrigðisiðnaðarins, þá má alltaf hugga sig við það að þegar er orðið fíflalegt um að litast, þá gefur útiveran við að höndla stöffið mikið meira en hálfa hollustuna í d-vítamíni.


Kominn tími til að tjarga og fiðra

Ámátlegir hafa þeir verið söngvar Satans þennan veturinn, næðandi að neðan og norðan í skelfingu lostinni skinhelginni fölri og flárri, másandi napurri mæðunni ofan í hvert hálsmál á meðan freðin fordæðan fýkur yfir holt og hæðir forn og grá af fjósbitum Sæmundar, rammflækt og rauðglóandi í grásprengdu nornahári fjölmenningarinnar.

Já þeir hafa hvorki verið margir né miklir steypu dagarnir í vetur, ekki einu sinni verið hægt að verða almennilega óður, en nú rekur hver steypan aðra við vorsins blæ undir bláum himni, og síðuhöfundur auk þess búinn að taka fram hjólið til sinnar þjónustu, enda lengist sífellt leiðin á steypunnar byrjunarreit fyrir fótafúinn jálk.

Nú er kominn tími til að tjarga og fiðra viðvaranirnar gulu, feysknar og fláar, blása þeim síðan út í buskan eins og hverri annarra biðukollu, safna á sig vítamíni þeirrar gullnu einu og sönnu, vafra hjálmlaus út á tún og ana út um þúfur með fíflum og farfuglum í glampandi sól og brakandi blíðu eins og álfur út úr hól.

Gleðilegt sumar vildi ég sagt hafa lesandi góður.

Austri SR steypa


Sautjánhundruð og súrkál; þegar dansinn dó

Í skóla ungdómsáranna var stundum talað um að það skipti ekki nokkru máli hvað hefði gerst sautjánhundruð og súrkál. Átti þetta við um hörmunga ártöl Íslandssögunnar, en sú saga þótti þá frekar hallærisleg, -og þykir sjálfsagt enn. Sautjánhundruð og súrkál er eitt það skelfilegasta sem á Íslandi hefur dunið, auk óáranar af mannavöldum komu til eldsumbrot í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á aðstæðum fólksins í landinu, en í júní 1783 hófust við Laka það sem sagan kallar Móðuharðindi. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um há sumar.

Hraun rann fram milli Síðu og Skaftártungu alla leið niður í Meðalland með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og fólk í flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja heimili sín, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fé kom horað af fjalli og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þá þegar fallinn.

Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins fjórar kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Langanesi, ráfaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyfli í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu.

Mannfólkið var svipað leikið vorið 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist af blóðkreppusótt, skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði, auk margvíslegra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli bæja og sveita. Þetta sumar gengu menn víðsvegar um landið fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.

Ofan á þessar hörmungar bættust svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, sem fundust víða um land. Þá hristu fjöll af sér jarðveg svo gróðurtorfur og grjóthrúgur lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu.

Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Annálar greina frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.

"Árið 1783 þann 8. júní, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil, kom upp fyrir norðan næstu byggðafjöll á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla Síðuna". Þannig segir séra Jón Steingrímsson frá upphafi Skaftárelda í eldriti sínu. Jón var prófastur Vestur-Skaftfellinga á árunum 1778-1791 og sjónarvottur að eldsumbrotunum og áhrifum þeirra. Frá honum eru komnar nákvæmustu lýsingarnar af Skaftáreldum sem varðveist hafa.

Það er ekki um auðugan garð að gresja í samtímaheimildum um afdrif fólks móðuharðindunum, enda má segja að ef tök hefðu verið á safna þeim, þá hefði verið allt eins gott að gleyma þeim eins og hverju öðru hundsbiti. Samt hafa varðveist, auk einstaks eldrits séra Jóns Steingrímssonar, ótrúlega glöggar tölulegar upplýsingar um hversu hatröm móðuharðindin urðu þjóðinni. Þar kemur til rit Hannesar Finnssonar biskups í Skálholti, Mannfækkun af hallærum, en Hannes lifði móðuna miklu og skrifaði henni samfara þetta merkilega vísindarit á þeim tímum sem Skálholt hrundi til grunna. Biskupsstóllinn var í kjölfarið fluttur til Reykjavíkur, en Hannes keypti jörðina Skálholt og bjó þar til dánardags.

Það er einungis hægt að ímynda sér hve mikið af sögu landsins glataðist í þessum hörmungum, þegar meir að segja höfuðstaður landsins, sjálft fræðisetrið Skálholt, hvarf af yfirborði jarðar. Skýrsla Hannesar er ekki bara um móðuharðindin heldur er þar gerð grein fyrir hallærum allt frá Íslands fyrstu byggð, unnið upp úr annálum sem hann hafði aðgang að í Skálholti. Textinn gefur innsýn í hverskonar óöld geisaði og ritið hefur nákvæmar tölulegar upplýsingar að geima um móðuharðindin. Tölurnar benda til að fjórðungur þjóðarinnar hafi fallið úr hungri og vosbúð, 82% sauðfjár, 77% hrossa og 53% nautgripa.

Það er kannski helst að í því, -sem skrifað hefur verið af lærðum mönnum, -megi fá örlitla innsýn líf fólks á þessum ógnar árum. En þær eru fremur fátæklegar upplýsingarnar sem ég hef rekist á um venjulegt heimilislíf fólks, þó má tína til nokkrar lýsingar. Um afleiðingar móðunnar, eru þessar vísur um Hvalnes í Lóni Austur-Skaftafellssýslu dæmi um slíkt;

 

Tólf um haustið tugir vóru

Taldar ær - á nesi Hvals –

Í hels naustið allar fóru

utan tvær að kalla tals.

 

Eins var ríkrar efni pestar;

Ei var fóðurs kraftur hreinn.

Þar voru líka þrettán hestar,

Þeim af stóð á foldu einn. 

 

Þarna kemur fram að tölulegar upplýsingar Hannesar biskups eru hreint engar ýkjur ef miðað er við fellirinn á Hvalnesi í Lóni. Af 120 kindum lifðu tvær og einn af 13 hestum vegna goseitrunar á hörðum vetri. Vísurnar eru úr vísnabálki sem Hallgrímur Ásmundsson samdi. En Hallgrímur og Indriði bróðir hans hófu hungurgöngu móðuharðindanna frá Hvalnesi og fóru til skyldfólks upp í Skriðdal á Héraði, Hallgrímur þá 24 ára og Indriði 10 árum eldri þá nýbúin að missa konu sína.

Foreldrar þeirra urðu eftir á Hvalnesi en þeir bræður hugðust sækja þau og ungan son Indriða eftir að hafa komið sér fyrir í Skriðdal. Er þeir komu aftur í Hvalnes jörðuðu þeir föður sinn en fluttu móður og son með upp í Skriðdal. Þeir bræður ílengdust í Skriðdal og var Hallgrímur kenndur við Stóra-Sandfell en Indriði bjó á Borg. Benedikt Gíslason frá Hofteigi tók saman ævisögu Hallgríms, forföður síns, eftir þeim vísum sem til voru og hann hafði ort á ævi sinni.

Næst ætla ég vitna í aðstæður forfeðra minna, einna stærstu ættforeldra austfirðinga, séra Jóns Brynjólfssonar og Ingibjargar Sigurðardóttir ásamt Hermanni Jónssyni í Firði. En séra Jóni gaf Hannes Finnsson biskup vitnisburðinn aumasti prestur á Íslandi. Séra Jón var prestur í Mjóafirði þegar ósköpin stóðu sem hæðst og hafði þá hrakist undan héraðshöfðingjanum Hermanni úr Firði að Hesteyri og síðar að Krossi, ysta bæ í Mjóafirði sunnanverðum. Sögubrotið er þegar Hermann kom í Kross og átti orðastað við Ingibjörgu um ástand heimilisins.

„Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harðbannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir”. (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)

Svo má einnig fá innsýn í ástand heimila í landinu með því að grúska í skrif um sakamál þessa tíma, því um þau eru stundum til einhverjar heimildir um daglegt líf fólks. Í bókum Jóns Helgasonar Öldin og Vér Íslands börn eru áhrifa miklar lýsingar. Ein saga í Vér Íslands börn er sláandi um hvað fólk mátti reyna. Því ekki var einungis svo að fjórðungur þjóðarinnar félli heldur lenti stór hluti hennar á vergang og flakkaði bjargarvana um sveitir landsins.

Í sögunni Svart innsigli og níu rauð segir af Ámunda og konu hans sem lögðu í hungurgönguna eftir að hafa hrakist bæ af bæ. Þau bjuggu síðast í Skagafirði hann þá kominn á sextugsaldur en hún talsvert yngri og höfðu misst allt á hörðum vetri 1782-1783, í aðdraganda móðuharðindanna. Þegar vergangssaga þeirra hefst eru þau með tvær dætur sínar með sér, sú yngri það máttfarin af hungri að hann bar hana í poka á bakinu. Þegar þau komu að Glaumbæ á messutíma með von um aðstoð kom í ljós að dóttirin í pokanum var dáin.

Þau hjónin fengu litla aðstoð og ákváðu fljótlega eftir það að flakka í sitt hvoru lagi, í von um að fá þannig frekar ölmusu. Hann tók með sér dótturina, sem enn var á lífi, og þau hjónin héldu hvort sína leið um Húnavatnssýslu, hann í vestur en hún í norður út Skaga. Vorið 1785 eru Ámundi og dóttirin á flækingi í Víðidal og er hann þar beðinn um að yfirgefa svæðið, enda áttu Húnvetningar nóg með sína. Honum er bent á að hann kunni að eiga sveit í Skagafirði fyrir dóttur sína.

Ámundi tekur þá ákvörðun að halda austur til Skagafjarðar og reyna að koma dóttir sinni þar á sveitina. Hún verði betur komin sem niðursetningur hjá vandalausum en með honum. Hann hyggst svo flækjast áfram og freista þess að finna konu sína. Síðasta spurðist til þeirra feðgina saman á bæ við Blöndu þar sem þeim var gefinn matur. Fólk tók sérstaklega til þess hve Ámundi var nærgætinn við dóttur sína, tíndi upp í hana allan matinn og lét sig mæta afgangi. Svo héldu þau feðginin áfram að Blöndu sem var þeim ófær án aðstoðar. Eftir því sem Ámunda sagðist sjálfum frá í þeim yfirheyrslum sem á eftir fóru, þá lögðust þau til svefns í júlí blíðunni á árbakkanum.

Þegar hann vaknaði lá hún sofandi. Hann vefur um dóttur sína peysu tekur hana upp og fleygir í Blöndu og hleypur burt í örvæntingu. Hann sagði að aldrei hefði hún gefið frá sér hljóð eða sýnt lífsmark en hann gæti samt ekki verið viss hvort hún hefði verið lífs eða liðin því hann hefði aldrei litið til baka. Þarna voru þau feðginin búin að flækjast um betlandi og bjargarlaus í öllum veðrum á vergangi frá því árið áður. Á eftir fóru réttarhöld sem aldrei voru leidd til lykta því Ámundi andaðist eftir skamma veru í varðhaldi.

Síðasta aftakan á Austurlandi fór fram haustið 1786 í lok þeirra óskapa sem móðuharðindin orsökuðu. Þar er samtvinnuð örlaga saga fjögurra ungra manna í vonlausum aðstæðum, sem létu lífið á harðindaárunum, og sá þeirra þrautseigasti var að lokum hálshöggvin á Mjóeyri við Eskifjörð. Saga þessara ungu manna hefur ekki nema að litlu leiti varðveist í opinberum heimildum og þá þess sem af lífi var tekinn, en þjóðsagan hefur geymt þessa atburði þannig að gera má sér glögga grein fyrir hverskonar óskapnað var við að glíma. Söguna má nálgast hér.

Ein sú saga, sem ég hef rekist á og greinir hvað best frá lífsreynslu venjulegs fólks í þessum hörmungum, er saga Rögnvaldar halta í Sópdyngju þjóðsagna og alþýðlegs fróðleiks þeirra Braga og Jóhannesar Sveinssona. Þar segir Rögnvaldur Jónson frá lífshlaupi sínu fram að fimmtugu og hefst frásögnin þegar hann er 14 ára gamall árið 1783. Rögnvaldur bjó þá hjá foreldrum sínum í Klifshaga í Öxarfirði ásamt þrem yngri systkinum.

Foreldrar Rögnvaldar voru talin þokkalega stæð og vel búandi. Veturinn fyrir sumarið 1783 hafði verið óvenju harður en ekkert benti til þess að fjölskyldan væri að komast á vonarvöl. Þegar eldsumbrotin byrjuðu við Laka um sumarið visnaði gróður í Öxarfirði eins og víðast hvar í landinu. Anna móðir Rögnvaldar var lasin og hafði þurft að leita sér lækninga. Heyskapur misfórst að mestu vegna eiturmóðunnar og fé kom horað af fjalli.

Seint um haustið ákváðu foreldrar Rögnvaldar að leita til nágranna sinna um aðstoð, og úr varð að vinafólk þeirra á Skógum tók Rögnvald til sín svo létta mætti á heimilinu í Klifshaga. Faðir Rögnvaldar slátraði öllum bústofni nema þeim örfáu rollum sem hann taldi sig geta komist af með, og haldið lifandi gegnum veturinn. Þá bar svo við að presturinn innheimti leiguna fyrir Klifshaga, en jörðin var eign kirkjunnar á Presthólum. Leigan var kvittuð með því að taka kindurnar sem eftir lifðu.

Rögnvaldur var í Skógum, sem smali um veturinn, en foreldrar hans fluttu með yngri börnin á annan bæ, -Gilsbakka, sem var með minni baðstofu og því frekar hægt að halda þar hita. Skömmu áður en Rögnvaldur átti að halda heim til foreldra sinna um vorið var honum tilkynnt að mamma hans væri dáin. Um Hvítasunnu hélt hann í Gilsbakka til föður síns og systkina. Hann hafði verið nestaðaur frá Skógum og geymdi nestið sitt því hann þóttist vita að lítið væri til á Gilsbakka.

Þegar hann kom að Gilsbakka mætti hann hjónum sem voru að yfirgefa bæinn með börn sín á bakinu. Skemmudyr stóðu opnar út á hlaðið og innan við dyrnar var líkkista. Tvö systkini hans komu út úr bænum skinhoruð og að fram komin af hungri til að taka móti stóra bróður sínum. Þau sögðu honum að í líkkistunni væri móðir þeirra, en faðir þeirra hafi dáið um morgunninn og yngsta systir þeirra lægi föst til fóta hjá honum í rúminu.

Þau fara inn í bæ til að ná systur sinni úr rúminu og Rögnvaldur gefur þeim nestið sitt frá Skógum. Á bænum var bara til örlítið salt, honum dettur í hug að fara í berjamó og tína muðlinga, sem eru grjóthörð og þurr ber frá fyrri árum. Hann mýkti muðlingana upp í saltvatni til að næra systkini sín. Það voru miklir vatnavextir í ám um þetta leiti vors og ekki hægt að komast frá bænum í nokkra daga. Rögnvaldur sér samt til mannaferða hinumegin við ána og veður yfir hana til að fá aðstoð við að koma foreldrum sínum til grafar en lík föður hans var þá farið að lykti illa í baðstofunni.

Mennirnir sögðust ekki treysta sér yfir ána því hún væri ófær, og ráðlögðu honum að taka ekki þá áhættu að fara yfir aftur, en þeir myndu aðstoða hann um leið og áin yrði fær. Rögnvaldur fór strax aftur yfir ána og nokkrum dögum seinna þegar sjatnað hafði í ánni komu menn til að hjálpa þeim systkinum. Þeir tóku tvö yngri systkinin með sér, Þórdísi þriggja ára og Jón sjö ára. Við Rögnvald og Þorgerði ellefu ára, sögðu þeir að því miður væru ekki tök á að hjálpa þeim, þau yrðu að bjarga sér sjálf eða leita annað.

Það eru hrikalegar lýsingar á því hvað þeim systkinum mætti þegar þau fóru heim að bæjum í sveitinni til að leita sér aðstoðar. Enda þá margir bæir komnir í auðn í Axarfirði og flest fólkið dáið á þeim og það fólk sem eftir lifði dauðvona af hungri. Á einum bænum tórðu fjórir og gátu gefið þeim vatn með örlitlu mjólkurskoli á öðrum rólaði ein kona eftir á lífi bjargarlaus með barn.

Rögnvaldur ákvað því að komast aftur í Skóga, þar sem hann hafði verið um veturinn, með Þorgerði systur sína og leita þar aðstoðar, en þangað var yfir tvær erfiðar ár að fara og hún orðin hálf rænulaus af hungri. Þegar hann var að bera hana yfir Sandá hrasaði hann svo hún blotnaði.

Það var kalsa veður með krapa slyddu og Þorgerður ófær um að ganga lengra. Hann kom henni í skjól við stein og flýtti sér holdvotur að næsta bæ til að fá aðstoð. Þar var kvenfólk heima, sem tóku hann úr vosklæðunum og háttaði ofan í rúm. Konurnar fóru svo til að ná í systur hans en þá var hún dáin við steininn. Jón yngri bróðir Rögnvaldar dó einnig fljótlega eftir að systkinin fóru frá Gilsbakka en Þórdís yngsta systir hans fluttist síðar austur á Hérað í Hallgeirsstaði í Jökulsárhlíð og komst til fullorðins ára.

Saga Rögnvaldar halta er mikið lengri og sögð af mikilli nákvæmni, margfalt meiri en hér er gert, þar sem einungis er stiklað á því stærsta um nokkra daga. Árin á eftir voru Rögnvaldi erfið en alltaf komst hann af, en samt fór svo að upp úr tvítugt var hann orðinn örkumla maður. Hann fór þá til Skagafjarðar með aðstoð fólksins í Öxarfirði til að leita sér lækninga. Eftir það bjó hann á Skaga þar sem hann kvæntist.

Um fimmtugt fékk Rögnvaldur séra Jón Reykjalín til að skrá sögu sína. Sagan lenti svo í fleiri en einu handriti og vestur um haf. Frásögnin í Sópdyngju er sett saman úr tveimur handritum því eitthvað úr hvoru hafði glatast. Afkomendur Rögnvaldar og Margrétar konu hans urðu seinna vesturfarar og settust margir hverjir að í S-Dakota og kölluðu sig þar Hillman.

Það er alveg ljóst að Rögnvaldur hefur verið mikill atgerfismaður á sínum tíma. Hann stofnaði fatlaður til heimilis á arfleið foreldra konu sinnar og eignaðist með henni börn sem eignuðust svo sína Rögnvalda. Frásögn hans af fyrstu dögunum eftir að hann kom heim til systkina sinna í móðuharðindunum er einstök, -nákvæm og upplýsandi, -um þær hrikalegu aðstæður sem landsmenn stóðu frammi fyrir.

Það hefur ýmislegt verið sagt um móðuna miklu í seinni tíð en þar er samt að mestu um getgátur að ræða. Gunnar Karlsson prófessor í sagnfræði getur sér þess til á Vísindavef HÍ,  að þá hafi dansinn dáið á Íslandi því landsmenn hafi ekki dansað í 100 ár á eftir móðuharðindin. “Íslendingar hættu nokkurn veginn alveg að dansa á 18. öld og byrjuðu ekki á því að neinu marki fyrr en um öld eftir móðuharðindi. Lengi hefur verið talið að þetta stafi af því að heittrúaðir Danakonungar hafi bannað landsmönnum að dansa, og hafa menn þá velt því fyrir sér hvers vegna Færeyingar hafi ekki týnt sínum dansi því að þeir höfðu alveg sömu kóngana. Skoðun mín er sú að Íslendingar hafi hreinlega ekki verið í skapi til að dansa á árunum eftir móðuharðindi, og þannig hafi danslistin tapast”; segir Gunnar.

Það má telja því sem næst öruggt að Íslendingar hafa ekki verið í skapi til að skemmtana í meira en 100 ár eftir móðuharðindin. Í sóknarlýsingu Vopnafjarðar árið 1840 afgreiðir séra Guttormur Þorsteinsson prófastur skemmtanir sóknarbarna sinna í örfáum orðum: “Skemmtanir. Hjálpi mér! Eru fáar og þykja hvorki vera föng eða tími til þeirra”. Þrjátíu og fjórum árum seinna 1874 segir kollegi Guttorms, séra Sigurður Gunnarsson á Hallormsstað þetta um skemmtanir, þar sem notuð var sama forskrift af sóknarlýsingu: “Unglingar spila endrum og sinnum á helgidögum og nokkrir skemmta sér með söng. Vinnan skemmtir flestum best, því hér eru fáir letingjar.”

Séra Sigurði Gunnarssyni verður einnig tíðrætt um dauða Hallormsstaðaskógar í kjölfar sautjánhundurð og súrkál sem og uppplásturs og landeyðingar í framhaldinu. Hann kemur inn á að sverir trjástofnar hafi visnað og drepist, eldiviður hafi smá saman farið úr því að tínd voru saman fúasprek í eld og að lokum notast við sauðatað.

Erlendis hafa fræðimenn vaknað til vitundar um hverskonar hamfarir áttu sér stað sautjánhundruð og súrkál. Jafnvel getið sér til um að móðuharðindin hafi verið mestu náttúruhamfarir í sögu Bretlands og hafi lagt tugi þúsunda Breta af velli. Vísindamönnum hefur jafnframt orðið ljóst með tímanum hvað hnattræn áhrif móðuharðindanna voru gríðarleg á veðrakerfi jarðar. Er jafnvel talið að þau hafi átt sinn þátt í að skapa aðstæður fyrir frönsku byltinguna.

Að vita þetta um sautjánhundruð og súrkál skiptir náttúrulega ekki nokkru máli núna árið 2021, eftir að dansinn hefur legið á líkbörunum í heilt ár um allan heim, -ekkert frekar en á unglingsárunum í denn. Nema ef vera kynni vegna þess sígilda sannleika, "að oft má böl bæta með því að benda á annað verra". Nú þegar þjóðin kemst næst því að vera á dansleik þar sem almannavarnir hafa boðið upp á línudans við bjarmann úr neðra í Geldingadölum.

 

Ps. Inn í þennan pistil er fléttað með undirstrikuðum tenglum því sem ég hef orðið uppvís um ártölin 1700, s.s. fólkinu í Kjólsvík, gerviþjóðsögu, aumasta presti á Íslandi og þeim sem litu blóðs í pollinn, -sannkölluðu súrkáli.


Hvað gerir Cocoa Puffs kynslóðin nú ?

Varla verður þetta talið til Lucky Charms fyrir ESB, -eða hvað?

Skyldi hún kannski fara fram á að EES samningurinn verði tekinn upp, -eða jafnvel sagt upp?

Mér segir svo hugur að ekkert verði aðhafist. Coco Puffs kynslóðin er nefnilega sú kynslóð Íslandssögunnar sem hefur gengið hvað lengst í að afsala sér fullveldi og yfirráðarétti yfir sjálfri sér.


mbl.is Cocoa Puffs og Lucky Charms af íslenskum markaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er markmiðið að rýma til á hjúkrunarheimilum ?

AstraZeneca hefur verið eitt umdeildasta bóluefnið við kóvítinu. Upphaflega þótti það ekki veita nægilega vörn, þannig að rétt þótti að hlífa eldra fólki við því görótta glundri.

Fram kom á upp­lýs­inga­fundi al­manna­varna (4. febrúar samkvæmt mbl) að bólu­efni frá AstraZeneca yrði ein­göngu fyr­ir fólk sem er yngra en 65 ára.

Von væri á 14 þúsund skömmt­um af bólu­efni frá AstraZeneca inn­an skamms. Einnig kom fram hjá sótt­varna­lækni að um 74 þúsund skammt­ar bærust fyr­ir mánaðamót­in mars-apríl. Þá kom fram að fólk muni ekki geta valið sér bólu­efni.

Eftir að hafa stöðvað bólusetningu vegna aukaverkana, s.s. gruns um blóðtappa hjá yngra fólki, hefur nú verið ákveðið að 70 ára og eldri verði bólusett með AstraZeneca birgðunum sem ríkisstjórnin festi kaup á, -er nema von að spurt sé; er markmiðið að rýma til á hjúkrunarheimilunum?


mbl.is Lyfjastofnun Evrópu ósammála íslenskum yfirvöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband