Nú má aftur sjá buðlunga

Buðlungar

Mér varð það á orði við pólskan vinnufélaga, þar sem við vorum á ferð núna í vikunni, að þjóðin í þessu landi ætti eftir að þurfa aðstoð þeirra austantjaldanna við að skeina sig. Það yrði ekki bara sorpið sem austantjaldurinn þyrfti að sjá um að frakta til Kína.

Það fór ekki hjá því að það rynni á mig söknuður við að keyra Vellina endilanga, -mína bernsku sveit, og sjá þar því sem næst engan búskap lengur. Síberíulerki og Alaskaösp skyggja á því sem næst allt útsýni æskunnar, og þó svo búið sé á bæjunum bak við trén veit ég að á þeim flestum er í mesta lagi nokkrir hestar fyrir sportið.

Öðruvísi mér áður brá þegar ömmur og afar lögðu allt kapp á að vera sjálfbjarga með grunnþarfir sínar. Þá voru aðstæðurnar aðrar og sjálfur Tíminn, sem færður var í reikning í kaupfélaginu, notaður í skeini. Sennilega eru margir hættir að gera sér grein fyrir hvað þurfti til að eiga skuldlaust til hnífs og skeiðar. Nú er mun meira í það lagt -og jafnvel skuldum safnað- við að ná af sér mörnum.

Eitt vakti þó smá von um aukna sjálfbærni landans. Nú má sjá buðlunga á Völlunum og kannski á eitthvert nýsköpunar séníið eftir að fá Erasmus styrk frá ESB til að framleiða höfundarréttarvarinn skeinipappír með lífstíls útfærðri og kolefnisjafnaðri áttablaða rós fyrir landann, úr trjábolum sem nú hrannast upp á fyrr um túnunum. Og þá mun sennilega þurfa aðstoð austantjaldans við að transporta trjábolunum til Kína.

Farið hefur fé betra kann einhver að segja um rollubúskaparhokrið og Tímann, og fullyrða jafnvel að sauðkindin hafi verið búin að naga það rækilega gat á jarðskorpuna að ekki einu sinni kræklótt hrísla ætti sér viðreisnar von í þeirri holu svo úr mætti gera gluggaumslag hvað þá skeinipappírsrúllu. Í því sambandi vil ég benda á grein sem sr. Sigurðar Gunnarssonar á Hallormastað birti í Norðanfara fyrir u.þ.b. 150 árum síðan. Greinin er með þeim athyglisverðari þegar kemur að afdrifum skóga á Íslandi.

Samt er það svo merkilegt að hún hefur aðeins einu sinni verið endurbirt í heild sinni, en það var í tímaritinu Gletting árið 1994. Þá las ég greinina og þótti hún enn og aftur merkileg núna í vikunni við að sjá buðlunga hrauka á Héraði, sem var sáð til um það leiti þegar greinin var endurbirt í Glettingi. 

En grípum niður í miðbik greinarinnar þar sem Sigurður lýsir því sem hann varð áskynja hjá gömlum mönnum á sínum tíma;  

Skógeyðingin 1755-1785

Sumarið 1755, þegar Katla gaus, sem olli “móðuhallærinu hinu fyrra”. Þá var svo mikill hiti og þyrringur í lofti, að lauf skorpnaði á skógum og grannar limar skrælnuðu og urðu að spreki. Eftir þetta fóru stórskógar hér að visna að ofan og koma í þá uppdráttur, en lágskógur sem hinn hærri skýldi og var græskumeiri, varðist nokkuð betur.

Tóku nú, þegar frá leið, að falla hinir stærri skógar, einkum frá 1770 til 1783. Þá var og óspart gengið á þá og eytt með öllum hætti. Felldu menn trén, stýfðu niður, og færðu í kastgrafir, sem fengust úr 6 til 10 tunnur kola. Og þó hafði eyðilegging mannanna lítið við sem náttúran olli, og féll meiri hluti trjánna sjálfkrafa, sprekaðaði og fúnaði niður í jörðina.

Það voru enn eftir miklir skógar og víða, þegar Síðueldurinn kom upp 1783. Þá bar að nýju mikla ösku yfir Austurland einkum Fljótsdalshérað, sem varð undirrót “móðuhallærisins seinna”. Féll þá næsta vetur nálega allur sauðfénaður á Héraði, en tölvert slórði af í Fjörðunum. Þar gætti öskunnar minna eða hana rigndi þar heldur í grasinu, svo að ekki varð banvænt.

Síðueldasumarið fór eins og fyrr af Kötlugosinu, eða verr, að lauf skorpnaði á skógum og greinar sprekaði af þyrringu í lofti og öskufalli. Nú herti enn meira á fallinu í öllum skógum og féllu þeir upp frá því umvörpum.

Skógar um 1800.

Um næstliðin aldamót og rétt eftir þau voru hér stærri skógar fallnir. Þá lifðu eigi eftir nema hinir smærri, sem lifað höfðu á ýmsum stöðum innan um stór skóginn eða lifnað eftir Síðueldssumarið. Voru þá löndin víða þakin föllnum eikum og viði, sprekuðum og fúnum. Var sumstaðar að líta yfir ása og hlíðar, eins og á ísmöl sæi, þar sólin skein á þessa barkalausu hvítu fnjóska.

Þá var keppst við á vorum og haustum, að færa saman sprekin í buðlunga, bera heim og aka til eldiviðar. Þó meiri hluti hins fallna fúnaði ofan í jörðina, þá entust þó þessi sprek allvíða til eldbrennslu fram að 1830 og sumstaðar til nokkurra nota fram að 1850. (Alla greinina má lesa hér)

Eftir að hafa bent pólska vinnufélaga mínum á bak við hvaða tré afi og amma bjuggu með sínar ær, kýr, hesta og hænsn. -Eftir að hafa keyrt fram hjá fyrr um einu afurðamesta fjárbúi á Héraði, þar sem ég var part úr tveimur sumrum í sveit hjá henni Siggu og alnafna mínum heitnum og frænda. Þá benti ég félaganum á að nú byggi þar gamall og grár fyrr um varaþingmaður Framsóknarflokksins og stjórnarmaður Seðlabanka Íslands með örfá stáss hross. Þá sagði félagi minn, -hristandi hausinn; -sama í Pólandi.

Buðlungar

Myndirnar með blogginu eru af buðlunga köstum sem nú standa við Höfða á Völlum, rétt fyrir innan Egilsstaði

Ps.

Buðlungur, -s, -ar k. 1 buðlungur, móhraukur, stafli af brenni eða timbri; hlaða viðnum í buðlung. 2 fiskhlaði, fiskstafli (fiskarnir látnir standa á hnökkum og ná saman með sporðana) 3 *konungur (Orðabók Menningarsjóðs)

- 0 - 0 - 0 - 0 -

1 buðlungur k. konungur; e.t.v. höfðingi af ætt Buðla konungs; sbr. mhþ. mannsnafnið Botelunc

2 buðlungur k. (17. öld) viðar- eða móhlaði sem hlaðið er á tiltekinn hátt; fiskhraukur af sérstakri gerð; óflattur, hertur fiskur, bumlungur; buðlunga s. hlaða e-u í buðlung. Svo má virðast sem orðið sé ummyndun úr bulung(u)r (s.Þ.), en bæði merkingartilbrigðin og so. að buðla (af *buðli hraukur?) benda fremur á samruna merkingarskyldra orðstofna; bul-, sbr. bolur, og buðl- e.t.v. sk. budda (s.þ.)  (Íslensk orðsifjabók Ásgeirs Blöndal)


Tæknilýsinga blað yfir eldgos

Því hefur verið velt upp hvaða nafngift hæfði eldgosinu á Reykjanesskaga. Ómar Ragnarsson benti á það á bloggi sínu að gosinu verður helst að ljúka áður en því verður gefið nafn. Í fréttinni sem hann bloggaði við er stungið upp á Sundhnjúkagígaröð eða Þráinsskjaldarhrauni sem nokkurskonar Eyjafjallajökuls tungubrjóti fyrir útlendinga.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og varaformaður örnefnanefndar sagði í samtali við mbl.is í sömu viðtengdu frétt að þau nöfn yrði í öllu falli ólíklega fyrir valinu og benti á hversu snúið væri að ákveða nafn áður en raunverulegt eldgos hæfist.

Það virðist samt engin fara í grafgötur með það að um eldgos sé að ræða. Enda gaus fyrir rúmri viku sviðsmynd í beinni í þó nokkurn tíma á hættustigi í Skógarhlíðinni og Víðir hlýðir hóf náfölur að loka vegum þó svo að hann væri alls ekki búin að ná sér eftir drepsóttina. Á meðan sveimaði þyrla Landhelgisgæslunnar yfir sviðmyndinni og leitaði rammvilltra fræðinga sem sniffuðu gas úr óróapúlsinum.

Annars var þetta alls ekki það sem mér er efst í huga núna, heldur það að í gær var ég beðin um af vinnuveitenda mínum að útvega tæknilýsinga blað yfir vikurstein. En svoleiðis steinar hafa verið notaðir sem byggingarefni á Íslandi og víða um heim áratugum saman.

Málið var að við verkefni sem fyrirtækið er að vinna var teiknaður eldvarnarveggur hlaðinn úr 15 cm þykkum vikursteini. En vikursteinn er í stöðluðum stærðum og hefur ekki verið framleiddur í 15 cm þykkt, þannig að við stungum upp á í 20 cm, -enda nóg plássið.

En viti menn þá bað verkfræðistofan, sem bæði hannar og hefur eftirlit með verkinu, um tæknilýsingu yfir 20 cm stein og ég átti að útvega blaðið. Ég sagði vinnuveitenda mínu að af því fífli gerði ég mig ekki, þessir steinar hefðu verið notaðir til húsbygginga áratugum saman m.a. í innveggi, útveggi og eldstæði, -og ef blessaðir bjálfarnir gerðu sér ekki grein fyrir muninum á 15 og 20 cm, þá skildu þeir bara loka stofunni.

En svo þegar ég rakst á bloggið hans Ómars Ragnarssonar þá datt mér í hug að það væri sennilega kominn tími á að gefa út staðlað tæknilýsinga blað yfir eldgos svo bæði þeir í Skógarhlíðinni og fjölmiðlar fari ekki með almannavanir endanlega út í móa vegna sviðsmynda úr spálíkönum.


Saga sifja, spella og blóðskammar

Þó svo drekar fortíðar hafi vissulega verið lygilegri ógn en veirur nútíðar getur verið gagn af því að vita uppruna sinn, enda byggir genafræði nútímans á þeirri vitneskju. Íslendingar ku víst vera komnir af Sigurði Fáfnisbana, en Sigurður vó drekann Fáfni, sem var engin venjuleg kvefveira. Þetta gerðist á Gnitheiði sælla minninga.

Samkvæmt sifjunum var Sigurður sonur Sigmundar sem var sonur Völsungs sonar Rera er var sonur Siga sonar Óðins. Lengra er ekki vafrað í þá áttina. En Sigurður Fáfnisbani og Brynhildur Buðladóttir eignuðust Áslaugu kráku, þá er átti Ragnar loðbrók víking í Danmörku. Þeirra synir voru Ívar beinlausi víkingakonungur á Englandi, Björn blásíða konungur í Svíþjóð, Sigurður ormur í auga og Hvítserkur.

Það er út af þeim Sigurði ormi í auga og Birni blásíðu sem Íslendingar eru sagðir komnir. En Sigurður ormur átti Blæju dóttir Ella konungs, en fornaldar Danakonungar eru komnir af Hörða-Knúti syni þeirra, sem átti svo dótturina Áslaugu en af henni var Haraldur hárfagri kominn og þar með allir Noregskonungar. Og nú erum við komnir á síður Íslendingabókar svo gramsi nú hver fyrir sig.

Ég hef semsagt verið að lesa Völsunga sögu og það ekki í fyrsta sinn. Þetta er einstök ástarsaga sem varðveitist á Íslandi, en á sér samsvörun í þeim Niflungakviðum sem þriðja ríkið gerði að sínum helgu véum. Sagan er stutt, en margþætt, og er að stærstum hluta um tvo ættliði. Sagan gerist ekki á Íslandi heldur í víða um Evrópu. Þáttur Sigurðar og Brynhildar er talin gerast í Þýskalandi og Frakklandi.

Sá hluti Sögunar sem tekur til Sigmundar, föður Sigurðar Fáfnisbana, og Völsungs afa hans á sér víðar skírskotanir landfræðilega. Þó svo að Sigmundur hafi eignast Sinfjötla sinn eftirlætis son með systur sinni Signý, þá voru það engin afdala sifjaspell. Sá ættleggur varð svo að engu við dauða Sinfjötla.

Framan af sögu höfðu þeir feðgar legið í útlegð sem varúlfar í Moldavíu, og dundað sér við að drepa menn og börn Signýjar systur sinnar og móður, auk þess að drepa mann hennar Siggeir konung, þegar þau systkinin hefndu í sameiningu Völsungs föður síns. Eftir það fór hagur Sigmundar að vænkast og fékk hann Borghildi sem konu og átti með henni synina Hámund og Helga Hundingsbana.

Þeir bræður blésu til stórorrustu, sem nú á tímum engin virðist vita hvar og hvernig fór, en í aðdraganda hennar beið Helgi þess að mikill flokkur kom til þeirra úr Héðinsey og mikið lið úr Njörvasundum með fögrum skipum og stórum. Liðsöfnuðurinn hefur því náð allt frá Svartahafi til Gíbraltarsunds og taldi tugi þúsunda manna. Bræðurnir Helgi Hundingsbani og Sinfjötli urðu sigursælir. En frú Borghildur öfundsjúk og drap Sinfjötla með eitri að Sigmundi manni sínum ásjáandi.

Án þess að nánar sé hér farið út í söguþráðinn, annað en forsögu Fáfnisbana, þá heldur hin ótrúlega saga ásta, töfra og blóðhefnda áfram. Engin virðist lengur vita nákvæmlega hvar sagan gerist eða um hvaða atburði hún fjallar. Einfaldast væri því að afgreiða hana á sama hátt og drekann Fáfni. Fræðimenn telja þó marga atburði hennar trúverðuga og hún gerist við fall keisaraveldisins í Róm. Þetta er því tímamótasaga þegar heimsmynd hverfur og ný verður til, saga aðdraganda hinna myrku miðalda. Enda verður ekki annað skynjað við lestur hennar.

Margir hafa fengið sína andargift af Völsungasögu má þar t.d. nefna Tolkien, sem talin er hafa verið innblásinn af horfnum heimi sögunnar, þegar hann skrifaði Lord of the Rings, sem varð að þekktri kvikmynd í upphafi þessarar aldar. Enn á ný bankaði ættartal Fáfnisbana upp á öldina og afþreyingariðnaðinn í sjónvarpsþáttunum Vikings árið 2013, sem fjalla um Áslaugu kráku og Ragnar loðbrók.

Og nú kunna margir að spyrja; heldur maðurinn virkilega að sagan sé sönn? En ættu mun frekar að spyrja sig; hvernig stendur á því að slíkar sögur varðveitast í ættartölu Íslendinga?

Þó svo að tímalína sögunnar sé ekki samsíða hinni opinberu mankynsögu segir það ekki neitt. Þó svo að háskólaðir fræðimenn bendi á að sagan ruglist fram og aftur í tíma, jafnvel þó að hátt í 400 ár séu á milli dótturinnar kráku og föðurins Fáfnisbana, segir það nákvæmlega ekki neitt. En sagan ásamt Ragnarssögu loðbrókar er af fræðimönnum talin gerast að mestu á tímabilinu 400 – 800 eftir Krist.

Í þessu sambandi mættu fleiri íhuga orð gamla bóndans á Jökuldal sem sagði að hálka væri einungis hugarástand eftir að hann hafði í þrítugasta sinn þvælst út af á svelluðum veginum, -hann hefði bara keyrt aðeins of hratt. Það er nefnilega svo að tími er sjónhverfing notaður sem mælieining til að skýra liðna atburðarás, og við það eitt verður atburðurrásin ekki staðreynd. 

Eins þurfa 2 + 2 ekki að vera 4 frekar enn hverjum og einum sýnist, útkoman 4 er einungis samkomulagsatriði, -rétt eins og verðtryggðir 10. Ávalt ber því að hafa í huga að það er sigurvegarinn sem skrifaði mankynsöguna. Einmitt þetta kemur svo vel fram í sögunni hans Sigurðar, sem varð ekki sigurvegari sögunnar þrátt fyrir Fáfnis drápið.

Þó svo Völsungasaga sé sögð sú fornaldarsaga norðurlanda sem geimi meinlokur norrænnar goðafræði fjallar hún jafnframt á undarlega lygilegan hátt um óræða atburði víða í Evrópu. Því er hún af sama meiði og Íslendingasögurnar, -sagna sem segja hina óopinberu mankynssögu. Svo sem af heimsálfunni í vestri, sem mankynssagan segir að hafi ekki uppgötvast fyrr en 500 árum eftir að Íslendingar vissu af þeim heimi.

Völsungasaga segir frá heimsmynd sem tíðarandi nútímans segir að hafi ekki verið til og af atburðum sem eru sagðir aldrei hafa gerst. En Völsunga saga er sannari en mankynsagan, þegar kemur að greina frá því að það er hjartað sem ræður að endingu ævi mannanna, sama hvort um er að ræða dreka eða veirur.


Grímulaus lögbrot

Mér varð á að fara inn í verslun núna í vikunni en í þær fer ég ekki ótilneyddur. Inn í þessa verslun hef ég þó oft þurft fara í gegnum tíðina vegna vinnu og hef þá komið þar inn fyrir dyrnar eins og ég er klæddur, enda yfirleitt fámennt og góðmennt í búðinni.

Á meðan ég beið eftir afgreiðslu, -aleinn- því sú sem var við afgreiðslu þurfti að bregða sér inn á lager, -komu inn eldri hjón, -eldri en ég allavega. Grímuklædd konan pataði grímu í átt að manninum. Hann leit vongóður yfir til mín og spurði -"er ekki grímuskilda hérna" - ég svaraði -"ég er allavega ekki með grímu".

Þá hvessti sú gamla á mig augun yfir grímuna og sagði -"þú ert þá lögbrjótur". Ég játti því, en maldaði svo í móinn með að -"þetta væru reyndar ólög". "Það verður sjálfasagt seint hægt að gera öllum til geðs" -eða eitthvað í þá áttina tautaði sú gamla. Sá gamli tók við grímunni en þrjóskaðist við að setja hana upp og hóf grímulaus lögbrot í versluninni. 

En ég snautaði út eftir afgreiðslu án þess að segja eitt aukatekið orð til viðbótar, enda bæði lögreglustöð og dómsalur hinu megin við götuna, og tíðarandinn orðinn þannig að glæpamennirnir ganga um grímulausir.


Þegar fábjánar fá frábærar hugmyndir

Íslandspóstur er eitt skýrasta dæmið um það þegar opinber þjónusta snýst upp í að hámenntað fólk tekur sig til við að verja tilveru sína til tekna frá því opinbera.

Þjónustu, sem átti að gera landsmönnum jafnt undir höfði burt séð frá búsetu, er nú íhugað að afleggja svo ekki þurfi að segja upp silkihúfunum. 

En það verður áfram hægt að hagræða með því að segja upp ómenntuðu póstburðarfólki og fábjánar með fimm háskólagráður halda vinnunni.


mbl.is Íhuga að hætta útburði bréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingi með hor

Það hefur færst í vöxt seinni ár að fólk barmi sér opinberlega og að ekki teljist til dyggða lengur að bera harm sinn í hljóði. Svo rammt hefur að þessu kveðið að fyrir nokkrum árum sá þekktur geðlæknir sig knúinn til að skrifa um þetta pistil og minntist þar systur sinnar sem sagði að ekki kæmi út það helgarblað í landinu þar sem aumingi vikunnar færi ekki yfir hrakfarir sínar.

Í minni bernsku þótti það með verri uppnefnum að vera kallaður aumingi með hor, og var farið sparlega með svoleiðis trakteringar. Ef ég man rétt þótti mér þetta það ljótur leikur að ég hafði þessi orð ekki um nokkra sálu í orrahríð orðanna, jafnvel þó svo að slýgrænt hor illi úr nösum leikfélaganna og leppar umlykju eyrnabólguna, sem ekki var óalgengt fyrir tíma pípulagna í eyru.

Undanfarið hef ég verið frekar slappur til blogga hér á síðuna og kemur það til af of góðu. Þennan veturinn hefur verið mikið að gera við ekki neitt. Þó það hafi lengst af verið of kalt til að steypa, hef ég ekki fundið tíma til að þvæla í langloku. Ævi hefur verið heimagangur og við svoleiðis sólargeisla hefur maður athyglina alla, hvort sem hún syngur “afi minn fór á honum rauð”, eða bara húðskammar mann eftir að hafa talið upp á tíu á þremur tungumálum, því hún sé ekki bara þriggja ára Ævi heldur líka Rayja prinsessa.

Það er samt ekki svo að ekkert hafi verið tilefnið til að vola um daginn og veginn. Því talsverðar breytingar hafa staðið fyrir dyrum. Fyrirtækið sem ég hef mætt til vinnu hjá s.l. sjö ár stendur í hreppaflutningum, eins og hver önnur fiskistofa, -ef svo má segja. Þessir flutningar, hefðu fyrir nokkrum árum, hvorki meira né minna en verið yfir í aðra sýslu, þó þetta sé nú bara rétt norður fyrir Lagarfljótsbrúna eins og staðan er í dag. Nú þarf ekki einu sinni að umskrá bílaflotann af U yfir á S númer.

Það er samt meira en að segja það að flytja margra tuga manna fyrirtæki hreppaflutningum innan sama bæjarfélags og kokgleypa steypueiningaverksmiðju með manni og mús í leiðinni. Pólsku vinnufélagar mínir hafa spurt mig áhyggjufullir undanfarna morgna, þegar ég kem skjögrandi fyrir hornið, -þar sem þeir púa reyknum í átt til dagrenningarinnar, hvernig ég ætli að fara að eftir helgi. En undanfarin 5 ár hef ég gengið eða hjólað til vinnu svo blóðið haldist passlega hringrásandi.

Ég hef svarað því til að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, og minnt einn félagann á það þegar hann ætlaði að taka upp á því að hjóla og fór fyrstu ferðina á laugardagsmorgni niður í sjoppu og lét mig þá vita af því að þetta helvíti gerði hann aldrei aftur, því það hefði verið svo seinlegt að fara til baka upp brekkurnar. Þá þurfti ég að leiðbeina honum með það að þó svo hann næði að hjóla niður í sjoppu til að kaupa sér sígarettur þá yrði hann að passa sig á að kveikja ekki í þeim á bakaleiðinni í brekku.

Ég hef semsagt notað þennan spöl til og frá stuttum vinnudegi fyrir ráðlagðan dagskammt hreyfingar og skætings. Morgnarnir byrja á hálftíma teygjuæfingum og graut eftir stirðleika næturinnar áður en ég vagga til vinnu eins og morrandi mörgæs í morgunnkulinu með lopaprjónelsið hennar Matthildar minnar fyrir smettinu til að sía sárasta kulið. Ef frostið hefur farið yfir átta gráður, ætla ég hreint út sagt að kafna lopalaus.

Svo á sumrin hef ég hjólað sömu leið og náð með gapandi ferð, þegar leiðinni hallar heim, að innbyrða heil ósköp af súrefni. Nú eru þessir sælutímar á enda runnir eins og það sé ekki nóg að eldast þó svo að önnur áföll bætist ekki ofaná. Þetta ferðalag til vinnu hefur komist upp í vana og þessir flutningar raskar honum, óttast ég að sakna hans á flatneskjum Egilsstaðanessins.

Þegar ég fór gangandi mátti segja að áfangarnir væru þrír, sem ég skipti með snýtingum á völdum stöðum. Þegar fyrsta hallanum upp gamla bæinn lauk fór ég á bak við fyrst skuggsæla tré og snýtti úr mér slýinu sem vellur upp frá lungunum við minnsta áreiti. Ekki veitti af, því á þeim hluta sem að baki var voru oft fjaðrasófar grænir forhitaðir í lausagangi meðfram veginum á hrímuðum morgnum til að flytja notendur sína til þægilegrar innvinnu þegar stundin nálgaðist.

Í næsta áfanga fór ég hjá bernskuheimilinu á hæðinni sem var innsta og efsta byggða ból í bænum þegar ég fyrst man. Síðan inn í iðnaðarhverfið fram hjá margmærðri moltugerðinni þar sem austantjaldskan er töluð fjálglega snemma dags og starfsmenn hins Íslenska gámafélags sitja í aflóga sófasettum sorphauganna á hlýjum morgnum, en norpandi á bak við vigtarskúrinn á þeim svölu, og láta tóbaksreykinn líða til móts við roðann í austri.

Þar eru vanalega að auki fjórir skarnatrukkar í díselreykjandi lausagangi tilbúnir fyrir fyrstu ferð með flokkaðan farminn til þess að hylja hann í holu út í sveit. Eða ferðast lengra til með verðmætin sem á að senda til þriðja heimsins, jafnvel alla leið til Kína. Þaðan sem frétts  hefur af draslinu koma fljótandi til baka um heimshöfin í risastórum plasteyjum.

Já ég hef ómældar áhyggjur af því hvernig rútínan verður eftir helgi ef ég tek upp á að þramma margfalt ráðlagðan dagskammt hvern dag með bláæðarnar bólgnar af bjúg og tilheyrandi töppum, -hversu lengi ég þurfi þá að liggja með tærnar upp í loft að ferðalaginu loknu. Mér hefur meir að segja dottið til hugar að fá mér snjallúr til að verða ekki ráðvilltur.

Það má nú samt segja sem svo að aumingi vikunnar eigi það til að skapa sitt víti sjálfur. Og það var helst við moltugerðina sem ég tók andköf. En þá greikkaði ég kolefnissporið yfir á næsta leiti og snýtti aftur úr mér óhræsis slýinu, og skjögraði svo síðasta spölinn meðfram Moldóvunum sem eru búnir að koma, fara og byggja stærsta húsið í bænum á ári fjórhelsis og farsóttar, sem sérlegir sérfræðingar íslenskrar starfsmannleigu.

Þarna hefur risið kínverskt stálgrindarmusteri öllum að óvörum vandlega CE vottað fyrir Mannvirkjastofnun íslenska ríkisins, u.þ.b. 500 metrum fyrir innan kofa minninganna sem við pollarnir klömbruðum saman með hor í nös í denn. Nú stendur þetta ferlíki út í miðja tjörnina þar sem ég í bernsku missti fótanna á skautum og skall með hnakkann á ísinn. Þegar ég stóð upp með dúndrandi hausverk og blóðbragð í munni hét því að gera það helvíti ekki aftur. 

Síðustu metrana fór ég svo vanalega standandi á öndinni niður fyrir hornið til félaganna á gamla vinnustaðnum, -nýsnýttur, -en ekki eins og aumingi með hor.


Gautavík

Gautavík fb mynd

Þessi staður hefur komist í fréttir undanfarið vegna hampræktunar. Ábúendurnir fluttu úr Reykjavík austur í Berufjörð til að láta draum rætast um sjálfþurftarbúskap og sjálfbærni. Gautavík hafði verið í eyði í nokkur ár, en var sennilega bæði leynt og ljóst ein af höfuð höfnum landsins fyrr á öldum. 

Fljótlega eftir að landnám hófst á Íslandi munu norræn skip hafa komið af hafi til Berufjarðar til þess meðal annars að eiga viðskipti við fólk sem hafði tekið sér bólfestu um sunnanverða Austfirði. Bæði í Njálu og Fljótsdæla sögu er sagt frá verslunarstaðnum Gautavík við innanverðan Berufjörð. Þar versluðu Þjóðverjar á tímum Hansakaupmanna þar til þeir fluttu bækistöð sína suður yfir fjörðinn til Fýluvogs (Fúluvíkur) upp úr 1500. Rústir í Gautavík eru friðaðar og hefur hluti þeirra verið kannaður með fornleifauppgreftri. (texti Djúpivogur wikipedia)

Fáeinir miðaldaverslunarstaðir hafa verið rannsakaðir að einhverju marki hér á landi. Eru það Gautavík í Berufirði, Maríuhöfn í Hvalfirði, Gásar í Eyjafirði og Kolkuós í Skagafirði. Rannsóknirnar í Gautavík skiluðu ekki miklum upplýsingum, en þó virðist staðurinn hafa átt sinn blómatíma á 14. öld og svo aftur á þeirri 15., en elsta ritaða íslenska heimildin er frá lokum 12 . aldar. Mest áberandi fundarflokkurinn voru leirker og járnnaglar. Einnig fundust þar byssukúlur úr blýi. Nýlega hefur því verið haldið fram að verslun í Gautavík hafi varað fram undir lok 16. aldar. (Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur/ Bærinn sem hvarf í ösku og eldi 1362 bls 127)

Í annálum 14. og 15. aldar er Gautavíkur oft getið sem verslunarhafnar. Þjóðverjar ráku þar verslun fram á síðari hluta 16. aldar og var þá ein aðalverslunarhöfn á Austurlandi. Gautavíkur er getið nokkrum sinnum í Íslendingasögum og þá jafnan sem verslunarstaðar og hafnar. Rústirnar eru báðum megin við Búðaá og ein á sjávarbakkanum austan við ána. Friðlýst 1964. (Sjóminjar á Íslandi)

Daniel Bruun var einna fyrstur til að rannsaka fornleifar íslenskra kaupstaða frá miðöldum. Hann kom í Gautavík árið 1901 og í bókinni Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár er þetta um þá heimsókn. "Berufjörður er þriggja mílna langur fjörður á Austurlandi sunnarlega. Nokkuð innan við fjarðamynnið er á norðurströndinni lítil vík, er Gautavík heitir og við hana samnefndur bær. Þar er þyrping með 6 tóttum, sem Olavius segir að munnmæli hermi, að séu leifar verslunarstaðar írskra kaupmanna. Af sögunum sést, að Norðmenn hafa siglt til Gautavíkur (Kålmlund bls 200), og í Njálu er staðarins getið sem lendingarstaðar kaupskipa. Loks herma íslenskir annálar, að þar hafi verið mjög fjölsótt höfn á 14. og 15. öld.

Árið 1589 fengu Hamaborgar kaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Þar áður höfðu Brimar kaupmenn haft leifi til að versla við Fýluvog, sem er nánast á sama stað á Búlandsnesinu og Djúpivogur, munurinn var sá að inn á Fýluvog var siglt úr Hamarsfirði en inn á Djúpavog úr Berufirði. Talið er að rentukammerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.

Kort

Sagan um Þórð í Dýjakoti heitir "það segir fátt af einum", leið hans til Gautavíkur er lýst nokkuð nákvæmlega og hefur legið að mestu um óbyggðir

Það skildi ætla að verslun við Gautavík hafi verið alfarið úr sögunni þegar tveir verslunarstaðir voru komnir við minni Berufjarðar. Fyrir nokkrum árum rakst ég á athygliverða sögu í bókinni Syndir feðranna, eftir Gunnar Þorleifsson, og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur. Sé eitthvað að marka söguna þá var verslað við Gautavík um aldamót 17. og 18. aldar.

Þessir atburður er sagður gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 – 1787.

Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í annálum. Margt í sögunni passar samt ekki við sagnfræðina.

En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Dýjakots, minnist ég ekki að hafa heyrt annarsstaðar getið. Miðað við staðarlýsingar í sögunni, hefur það verið inn af Fljótsdal gæti hafa verið rétt austan við Laugarfell.

Leið Þórðar í verslunarferðinni til Gautavíkur virðist hafa legið sunnan við Hornbrynju, niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.

Í sem stystu máli lendir Þórður í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft.

Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum, -og enn pakkar Þórður honum saman.

Þórður á að hafa farið sömu leið heim samkvæmt sögunni. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim til konu og barna, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot.

Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í fjárgöngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju illa farið, og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu. Þetta gæti allt eins verið skáldsaga því ef Gautavík hefur verið verslunarstaður með erlendar skipakomur fram að 18. öld skortir þar um allar heimildir.

Scan_20210206 (2)

Þó svo að talið sé að fornleifarannsóknir í Gautavík hafi ekki skilað miklum upplýsingum, þá kom múrsteinshleðsla í ljós. Þessi fundur er viss ráðgáta sem setur verslunarstaðinn síðar í tíma en sagan hermir, en tilgáta er nú um að múrsteinarnir séu hluti lýsisgerðarhúss

Um endalok verslunar í Gautavík segir; -"Þar sem ekki fundust neinar leifar eftir þyrpingu innlendra bóndabæja við víkina, má gera ráð fyrir að hún hafi öll verið yfirgefin þegar endalok hennar urðu að veruleika. Vísbendingar um eyðileggingu eru samt ekki fyrir hendi. Allt smálegt sem var nýtilegt hefur verið flutt burtu. Ef til vill stóðu einungis veggir búðanna uppi á meðan annað nýtanlegt byggingarefni, eins og timbur, hefur einnig verið fjarlægt. Veggirnir voru skildir eftir til þess eins að grotna niður, enda var byggingarefni þeirra ekki æskilegt til endurnýtingar. Sérstaklega var tekið eftir því að múrsteinahringurinn var ekki grafinn upp og fluttur með öðrum varningi, þó steinarnir væru örugglega mikils virði og heldur ekki erfitt að grafa þá upp og nota þá aftur. Svo virðist þó sem að efri hluti kúpulsins hafa fljótlega verið fjarlægður." (Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands.)

Það eru til fleiri sagnir um Gautavík fyrri á öldum eftir að verslun í Gautavík var hætt, sem mætti flokka sem þjóðsögur, Gautavíkur er og getið í Tyrkjaránssögum frá 1627. Í bók Öldu Snæbjörnsdóttur, Dvergasteinn – Þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi, segir frá skriðu sem féll við Gautavík 26. júní 1792. Þar sem hluti fjallshlíðarinnar, sem er óravegu frá sjó, virðist hafa losnað og fallið alla leið í sjó fram. Þá fórust hjónin í Gautavík Jón Jónsson matrós og Ásdís Hermannsdóttir kölluð hin fagra.

Heimildir um þetta er að finna í kirkjubók Berufjarðakirkju. “30. júní grafinn hreppstjóri Jón Jónsson bóndi í Gautavík. Varð fyrir skriðuhlaupi í því mikla storm -og hretviðri hinn 26. s.m. á sínu aldurs 44. ári fannst upptekinn af sjónum þann 27. s.m.; ásamt honum deyði kona hans Ásdís Hermannsdóttir hvörrar lík fannst ekki og meinast begrafin undir hlaupinu 32 ára. Þau eftirlétu 4 ungabörn, kýr og meginhluta ærifjár um 27 kvíaær.”

Bókin Sópdyngja – þjóðsögur, alþýðlegur fróðleikur og skemmtan í útgáfu þeirra Braga og Jóhanns Sveinssona er ítarlegri frásögn af þessum atburði. Þar er sagan höfð eftir Antoníu Jónsdóttir á Arnarstöðum í Núpasveit við Öxarfjörð, en hún var ein af afkomendum Jóns og Ásdísar í Gautavík. Þar segir frá því að Jón hafi farið upp á Fljótsdalshérað að sækja fé og í rekstri hans hafi verið grákollótt kind sem kerling á Héraði hafi ásælst, en Jón ekki viljað láta. Þetta á að hafa verið að haustlagi og þá sennilega haustið áður en skriðan féll. Kellingin á að hafa haft í hótunum við Jón vegna kindarinnar.

Þegar var farið að grafast fyrir um hvernig þessi mikla skriða gæti hafa fallið á að hafa komið í ljós að smalar hefðu séð kerlingu á fjallinu daginn áður. Við upptök skriðunnar hafi sést spor en enginn ferill fundist. Eins kemur fram í frásögninni að Ásdís og Jón hafi verið það efnuð að hægt hafi verið að sjá fyrir fjórum ungum börnum þeirra. Sagt er að einn sonur þeirra hjóna hafi heitið Jón og lengi búið í Núpshjáleigu á Berufjarðarströnd. Nafn og aldur smalans í Gautavík kemur einnig fram í frásögninni, en sá var grunaður um að hafa stolið peningakistli og skorið silfurhnappa af fötum Jóns.

Það má segja, þó undarlegt sé, að upphaf þessa Gautavíkur vangaveltna megi rekja til Bæjarins sem hvarf í ösku og eldi. En í jólagjöf fékk ég samnefnda bók Bjarna E Einarssonar fornleifafræðings um uppgröftinn á Bæ í Öræfum og rannsóknir honum tengdar. Það er talið að allt að 600 manna sveit hafi horfið af yfirborði jarðar með manni og mús á dagparti árið 1362. Ein af blómlegri sveitum landsins, sem áður var nefnd Litla Hérað, fékk þá nafnið Öræfi eftir sprengigos Hnappafellsjökli, þar sem nú nefnist Öræfajökull.

Saga þessarar sveitar glataðist í hamförunum, önnur en þau örlitlu brot sem má finna í kirkjubókum Stafafellskirkju um eignir kirkna í Litla Héraði. Stafafellskirkja er í Lóni, hátt í 200 km fjarlægð. Af uppgreftrinum á Bæ má draga þá ályktun að margt í Íslandssögunni hafi verið með öðrum blæ en heimildir eru fyrir, t.d. að lýsisframleiðsla og sala hafi verið mikilvæg útflutningsvara landsmanna, en lýsi var m.a. notað til að lýsa upp bæi og borgir Evrópu. Vangaveltur í þessa veru má einnig finna í bók Bergsveins Birgissonar, rithöfundar dr í norrænum fræðum, "Svarti víkingurinn", en Bergsveinn telur að þrælaveldi landnámsmannsins Geirmundar heljarskinns hafi m.a. byggst upp á útflutningi á lýsi. 

Það virðast hafa verið snögg umskipti á Íslandi í gegnum tíðina hvort staðir voru blómlegir eða ekki, náttúruhamfarir hafa ráðið þar mestu. Það fer t.d ekki mikið fyrir sögu Reykjavíkur fram eftir miðöldum, annað en að þar setti fyrsti landnámsmaðurinn sig niður. Hugsast gæti að þau eldsumbrot sem hafa verið á Reykjanesskaga á þeim tíma hafi orðið til þess að sá landshluti naut sín ekki á sama hátt og hann gerir nú á tímum. 

Gautavík DB

Gautavík; teikning Daniel Bruun 1901


Hvaðan kom nafnið?

IMG_4725

Það getur verið forvitnilegt að vita hvernig nafngift varð til og hvað hún merkir. Þetta þekkja flestir varðandi eigin nöfn. Í barnaskóla var Guðmundur heitinn Magnússon kennari og síðar sveitarstjóri á Egilsstöðum oft með skemmtilegt námsefni, eins og að setja það fyrir sem heimaverkefni að finna út hvað nöfnin okkar þýddu. Ég varð yfir mig ánægður þegar ég fann það út að mitt nafn merkti "hinn mikli". Þó svo ég vissi að það hafi ekkert með nafngift mína að gera, heldur það að afi minn hét Magnús.

Í minningunni áttu kennarar það til að leifa krakkahópnum að ráfa um fjallahringinn í huganum og geta sér til um hvernig nafngiftir hæstu tinda væru til komnar. Það má segja að frá þessum barnskólaárum hafi þörf verið til staðar að vita hvað nafnið merkir og hvernig það er til komið. Snæfellið er eitt af einkennum Fljótsdalshéraðs sem ber nafn sem maður skildi ætla að ætti að vera auðskilið hverju mansbarni hvers vegna.

Snæfellið er fjallið, sem Björg amma fékk sér kvöldgöngu inn fyrir bæ, til að sjá, -því það sást ekki úr gluggum íbúðarhússins á Jaðri í Vallanesinu. Ef ekki bar ský í Snæfellið að kvöldlagi sagði þjóðtrúin að heyskaparþurrt yrði daginn eftir. Snæfellið blasti við úr stofuglugganum á mínu æskuheimili á Hæðinni á Egilsstöðum. Og enn í dag er það fyrsta og síðasta sem ég lít í áttina að kvölds og morgna frá Útgarðinum til að taka veðrið. Í mínum huga hafði í gegnum tíðina ekki farið á milli mála hvernig nafnið var til komið, fjallið bæri það hreinlega utan á sér í heiðríku.

En fyrir nokkrum árum fóru ský efasemda að draga upp á hvolfið í höfðinu á mér við upplýsingar frá Sigurði Ólafssyni á Aðalbóli, áður Siggi Óla í Útgarði eða réttara sagt Búbót. Hann býr mun nær Snæfellinu en ég og hafði verið á ferðalagi á eynni Mön, þar hafði hann einnig séð Snæfell sem er hæsta og eina fjall Manar. Einhvern veginn hef ég ekki náð að sjá sama Snæfellið eftir að Siggi sagði mér frá þessu og jafnvel talið að okkar gæti verið  falsað. Mig fór að gruna Arnheiði nokkra Ásbjörnsdóttur um verknaðinn. Þannig að ég ákvað að lesa Droplaugarsonasögu aftur. Jú einmitt, sagan byrjar á því að segja frá landnámsmanninum Katli þrym í Fljótsdal, sem kaupir ambáttina Arnheiði af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð.

Í tilhugalífi þeirra Ketils trúði Arnheiður honum fyrir því að hún væri höfðingjadóttir úr Suðureyjum en þeir Ormar, Grímur og Guttormur bræður Véþorms víkings í Jamtalandi hefðu drepið faðir hennar Ásbjörn skerjablesa ásamt öllum karlmönnum á hennar heimili en selt kvenfólkið mansali. Þegar Ketill hafði gengið frá kaupunum á Arnheiði af Véþormi vini sínum sigla þau til Íslands og setjast að í Fljótsdal að Arnheiðarstöðum, gegnt Atla graut bróður Ketils sem setti sig niður austan við Lagarfljótið í Atlavík. Það eitt að Arnheiðastaðir hafi borið nafn þessarar konu í meira en þúsund ár bendir til að hún hafi átt því að venjast að hafa sitt fram.

Þegar hér var komið sögu leitaði ég ásjár heilags gúggúls, bæði himins og jarðar. Lausnarorðið sem ég sendi var „skerjablesi“ og viti menn upp kom saga Manar. Þar hafði verið uppi höfðingi sem hét Ásbjörn skerjablesi laust fyrir árið 900 sem er sagður hafa verið drepin af skyldmennum Ketils flatnefs, norsks hersis sem haldið hafði til á Suðureyjum í áratugi þar á undan. Í gúggúl jörð setti ég svo inn Snaefell, og viti menn hæsta fjall Manar heitir einmitt Snaefell. Eins heitir gata í nágrannaborginni Liverpool Snaefell avenue. Snæfells nöfnin er reyndar fleiri á þessum slóðum á Bretlandseyjum.

Börn Ketils flatnefs, forvera Ásbjörns skerjablesa á Suðureyjum, settust mörg hver að á vestanverðu Íslandi, svo sem Auður djúpúðga og Björn austræni. Björn austræni er sagður landnámsmaður á Snæfellsnesi og Auður í grennd við hann í Dölunum. Það er ekki ósennilegt að nafn á nesið og þess hæsta kennileiti Snæfellsjökul hafi orðið til um landnám.

Þannig er nú farið að ég er ekki lengur viss um að Snæfell sé nefnt eftir snævi þöktum  hlíðum þess, það geti allt eins verð eftirlíking af felli sem sjaldan festir í snjó á Bretlandseyjum. En eitt er víst að Snæfellið var haft í öndvegi í stofu æskuheimilisins og ef það sást ekki út um gluggann vegna skyggnis þá var annað hangandi upp á vegg málað af meistaranum sjálfum, Steinþóri Eiríkssyni.

Snæfell SE

ps. pistillinn hefur birst áður hér á síðunni.


Njóttu nú sem þú namst

Það getur verið áhugavert að grafast fyrir um uppruna orða því tungumálið er það sem notað er til að skýra heimsmyndina og hvernig við hugsum. Samkvæmt vísindunum varð heimurinn til í miklahvelli og heimsmyndin er skýrð vísindalega. Samkvæmt heiðinni goðafræði varð heimurinn til úr sundurtættum líkama Ýmis síðan fylltu æsir út í Ginnungagap.

Vísindin eru sögð eins konar rökfræðileg skýring á heiminum laus við goðsagnir, eða að yfirnáttúruleg öfl að verki við myndun og mótun heimsmyndar, -þó svo að miklihvellur sé látinn liggja milli hluta. Í goðafræði felst, auk upphafsins og heimsmyndarinnar, glíman við að skýra mannlegt eðli og tilveru mannsins, s.s. leit að þekkingu til að móta siðferðislögmál innblásin anda almáttugs.

Orðið Ginnungagap er samsett orð og ætti merkingin að vera auðskilin öðrum en þeim sem lætur hafa sig endurtekið að ginningarfífli. Gapið er rýmið þar sem ginningin fer fram. Þar sem jafnvel ein fáviskan er samþykkt á eftir annarri í stað þess að gera hið eina rétta, -horfast í augu við óttann og skipta honum út fyrir kærleika.

Rætur miklahvells vísindanna liggja í óttanum, sem eru trúarbrögð okkar tíma. Andleysi nútíma vísinda er því æðra goðafræðinni þrátt fyrir svipað upphaf beggja, og heiðnari en sjálfur Óðinn. Það er úr goðafræðinni sem orðið vísindi kemur og var haft um brögð þeirrar trúar sem byggð var í Ginnungagapi. Orð Völuspár segja því ýmis-legt um heimsmyndir manna og tilurð heimsins fyrr og nú.

Yggdrasil

 "Askurinn er allra trjáa mestur og bestur (Yggdrasil/lífsins tré). Limar hans dreifast yfir heim allan og standa yfir himni (það sama gera internetið og fjölmiðlar medíunnar). Þrjár rætur trésins halda því uppi og standa afar breitt. Ein er með ásum en önnur með hrímþursum, þar sem forðum var Ginnungagap (hinn óendanlegi möguleiki). Hin þriðja stendur yfir Niflheimi (þar býður Hel rúm þeim dauðu), og undir þeirri rót er Hvergelmir (upphaf allra strauma), en Níðhöggur gnagar neðan rótina. En undir þeirri rót er til hrímþursa horfir, þar er Mímisbrunnur, er spekt og manvit er í fólgið, og heitir sá Mímir er á brunninn. Hann er fullur af vísindum, fyrir því að hann drekkur úr brunninum af horninu Gjallarhorni. Þar kom Alföður og beiddist eins drykkjar af brunninum, en hann fékk eigi fyrr en hann lagði auga sitt að veði. Svo segir í Völuspá:

Allt veit eg, Óðinn,

hvar þú auga falt,

í þeim hinum mæra

Mímis brunni;

drekkur mjöð Mímir

morgun hverjan

af veði Valföðurs.

Vituð þér enn eða hvað? (Gylfaginning 15. kafli)

"Óðinn hafði með sér höfuð Mímis og sagði það honum mörg tíðindi úr öðrum heimum en stundum vakti hann upp dauða menn úr jörðu eða settist undir hanga. Fyrir því var hann kallaður draugadrottinn eða hangadrottinn. Hann átti hrafna tvo er hann hafði tamið við mál (Huginn og Muninn/hugur og mál). Flugu þeir víða um lönd og sögðu honum mörg tíðindi. Af þessum hlutum varð hann stórlega fróður. Allar þessar íþróttir kenndi hann með rúnum og ljóðum þeim er galdrar heita. Fyrir því eru æsir kallaðir galdrasmiðir. Óðinn kunni þá íþrótt svo að mestur máttur fylgdi og framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. (Ynglinga saga 7. kafli)

Um alla Svíþjóð guldu menn Óðni skatt, pening fyrir nef hvert, en hann skyldi verja land þeirra fyrir ófriði og blóta þeim til árs." (Ynglingasaga 8. kafli)

Það dylst fáum, sem samles skýringar Völuspár í Gylfaginningu ásamt Ynglingasögu, að æsir stýrðu heiminum með brögðum og byggðu sínar ginningar í því gapi sem snéri að hrímþursum. Æsir voru elítan, hrímþursar voru fjöldin, og til að halda völdum þurfti að herja á þá jötna sem íbúar Miðgarðs óttuðust. Þeir jötnar voru sagðir búa í Svíþjóð hinni miklu, sem var í Langtíburtukistan, og þaðan var lítið hægt að sannreyna nema þá með vísindum úr Mímisbrunni sem hrísluðust um Yggdrasil. Þeir sem féllu fyrir æsi risu upp frá dauðum og sátu að veislu í Ásgarði. Þeir sóttdauðu gistu kör Heljar.

Völuspá segir frá Ragnarrökkri, sem túlkað hefur verið sem heimsendir. Völvan segir frá fleiri en einum heimsendi, segir reyndar strax í byrjun níu man ég heima. Nú eru enn komið að lokum heimsmyndar, gamla normið er bensínlaust. Og nú þegar sjónhverfingarnar falla hver af annarri er hætta á að hrímþursar muni vakna til skilnings á misskiptingu heimsins. Til að koma í veg fyrir vitneskju manfólksins um eigin mátt beitir elítan óttastjórnun, -virðið fjarlægðamörkin grímuklædd, og hafið vit á að óttast náungann. Komið ekki saman á meðan ný stafræn skimunar kerfi og smitrakningarforrit verður upp komið, verðandi hin mikla viðspyrna “The grate reset”.

Það eru ill öfl sem spila á andlega heilsu. Þau nærast á kvíða og ótta manfólksins. Þegar menn eru lausir úr viðjum óttans, þá svelta þess lags öfl. En ef ótti og kvíði ræður ríkum til langs tíma þá magnast stjórnendur þessa valds og fá fóður til að eflast enn frekar. Þannig persónur hafa alltaf verið fjandsamlegastar mankyninu. Eftir að ótta og kvíða hefur nú verið dælt yfir heiminn hvern einasta dag í heilt ár vegna heimsfaraldurs eru margir komnir á þann stað andlega að sætta sig umyrðalaust við ráðlagða hegðun sem hefur yfirgripsmiklar afleiðingar fyrir almenn mannréttindi. Samhliða þessu er sótt á að bólusetja milljarða heilbrigða einstaklinga.

Og hvað með bóluefnið, sem er ekki hefðbundið og ver ekki gegn drepsótt Heljar, heldur er mikið til dulkóðað raðbrigði RNA boðbera sem mun erfðabreyta DNA genamenginu og að lokum breyta manfólkinu í aðrar verur, -kannski einhverskonar mennsk auðlesanleg tölvugögn? Fyrsta bóluefnið með nanósendum fyrir 5G móttakarana sem er verið að ljósleiðavæða út um allar koppa grundir? Eða trúir þú því að það eigi að bólasetja sjö milljarða heilbrigða einstaklinga til að mynda hjarðónæmi fyrir þá einstaklinga sem eru fyrstir bólusettir og komnir að því að fá hvíld frá heimsins amstri vegna aldurs? -hvað þá að það fólk óski eftir að fá ekki að fara frekar en að liggja lífs í kör? Dauða skal fá þeim, þann er kenndi lengst.

Mig sjálfan grunar að "æsir" séu nú að nota þráðlausa tækni og gervihnetti í "Ginnungagapi" til að skapa nýjan stafrænan veruleika svo fólk þurfi á rafrænum hugbúnaði að halda til að taka þátt í „nýrri heimsmynd“ og við það sé mér stillt upp gegn þér og okkur gegn þeim. Gæti sá hugbúnaður verið raðbrigða RNA í kórónu bóluefni? En við skulum ekki fara út í framtíðar samsæriskenningar, nú þegar er farið að gefa út rafræn skilríki sem staðfesta hverjir eru í "húsum hæfir". Verum til staðar í núinu og mundu að aðeins þú getur fullkomnað gjörninginn, það þarf nefnilega ekki nema einn til að breyta heiminum.

Það er áhugavert að sjá nú kjörna fulltrúa fólksins tala látlaust fyrir rafrænum Babelsturni kórónu veirunnar sem engin virðist raunverulega vita hvers eðlis á að verða. Slökktu á sjónvarpinu og fylgstu þannig með pólitískri umræðu. Hvað eru þeir þá eiginlega að segja , , , komdu þér í röðina eða haltu þig utan við mannlegt samfélag karlægi vesælíngur? , , , eitt allsherjar leikhús, -sjokkerandi hvað fáir virðast sjá í gegnum farsann. 

Gandhi sagði "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum", Kristur kenndi okkur á krossinum "ég er upprisan og lífið" og Hár mælti svo til Ganglera í lok Gylfaginningar "og njóttu nú sem þú namst".


Stutt á snúruna

Uppruni raforku, sem notuð er á Íslandi er samkvæmt nýjustu tölum sem völ er á, -57% jarðefnaeldsneyti, -34% kjarnorka -og endurnýtanleg raforka einungis 9%. Þetta stafar af sölu upprunavottorða, nokkurskonar aflátsbréfa til að fela svo kallaðan sóðaskap kolefnissporsins.

Þessi þróun hefur átt sér stað frá 2011 þegar orkunotkun Íslendinga hefur verið skráð í "bókhald" umheimsins, sem sumir hafa viljað líkja við aflátsbréf fyrri alda. Það er ekki lengra síðan 2010 að raforkunotkun hérlendis taldist 99,9% endurnýtanleg en telst nú vera innan við 10% endurnýtanleg, sjá hér.

Flestir hér á landi eru samt fullkomlega meðvitaðir um að uppruni þeirrar raforku sem notuð er á Íslandi er það sem kallað er endurnýtanleg, eða hrein orka . Á sama tíma hefur 3. orkupakki ESB verið innleiddur. Það styttist óðfluga í gagnvirku snúruna sem á að upplýsa Evrópu með sem mestri hreinni raforku.

Hver mun þá verða ábyrgð "umhverfisrónanna" á hinum endanum? -verður tekið mark á reiknikúnstum "gullgerðarlistamanna" þegar á reynir, -eða verður íslenskur almenningur látin borga fyrir "sóðaskapinn" sem á hann er klíndur?

uppruni-raforku-a-islandi-2019

Mynd og upplýsingar af heimasíðu Orkustofnunnar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband