18.5.2021 | 18:55
Undir Borginni
"Einhverntíma var sagt að orðtakið Heima er bezt væri rétta forskriftin að góðu lífi, en eftir að heimilin hættu að vera skjól fjölskyldunnar og urðu aðeins stoppistöð til að skipta um föt eða sofa blánóttina, er sú stefna úr sögunni. Hún er líka sögð gamaldags eins og allt annað sem ætti að teljast gott og gilt ! , , ,
-Megi svo jafnan vera í landinu okkar að stjórnarfarið einkennist af frjálsu lýðræði en ekki baktjaldabundnu haftakerfi, sem á eingöngu að þjóna kerfislímdum sérgæskuöflum sem ekkert eiga skylt við almenna velferð !"
Mig langar til að vekja athygli á pistili Rúnars Kristjánssonar hér á mbl blogginu, en hann er eins og talaður úr mínu hjarta.
https://undirborginni.blog.is/blog/undirborginni/#entry-2264866
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2021 | 06:00
Snilldar handverk
Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.
Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.
Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.
Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.
Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum (sjatteringum) að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)
Þetta má lesa í Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík að Þingmúla í Skriðdal. Þá bjó hann ásamt konu sinni Ingibjörgu Pétursdóttir Eggerz og börnum, félagsbúi í Þingmúlabænum með fólki sem var þar fyrir, en um veturinn var Þingmúlaprestakall óvænt sameinað Vallanesprestakalli. Þannig að í Vallanes fluttu þau vorið 1892. Textinn er mun ýtarlegri um allt fólk sem kom við sögu á bænum.
Magnús segir einnig frá því í endurminningum sínum, að seinni kona hans Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested hafi einsett sér þegar hún fluttist á Héraðið að verða ekki eftirbátur bændakvenna í sínum hannyrðum. Hún lærði af þeim og óf sér sjal sem þótti slíkt snilldarverk að hún tímdi ekki að nota það sjálf. Örlög sjalsins urðu þau að það var sent á sýningu til Reykjavíkur og þaðan til útlanda á aðra sýningu um íslenskt handverk, þar sem það var selt á rúmlega tvöföld árslaun vinnufólks þess tíma í peningum.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.5.2021 | 06:28
Þrjú áheit á Strandarkirkju
Það hæfir kannski ekki á trúleysis tímum að segja sögur af áheita kirkju suður með sjó. Mikið hefur verið heitið á Strandarkirkju í gegnum tíðina, og vegna þeirra er hún sögð ríkust allra kirkna á Íslandi. Sagt er að heitið hafi verið á kirkjuna í tengslum við alls konar erfiðleika.
Ætla mætti nú á tímum þyrfti maður að vera annað hvort örvinglaður eða trúgjarn, til að láta sér detta í hug árangur af slíku, þó ekki væri nema einu sinni. En þar sem ég hef verið hvoru tveggja þá ætla ég að segja frá þremur áheitum, og það ætti ekki að koma þeim á óvart sem eiga það til að líta inn á þessa síðu að Matthildur mín komi við sögu.
Veturinn 1986 vann ég við múrverk á byggingaráfanga öldrunardeildar heilsugæslustöðvarinnar á Egilsstöðum þar sem Baldur og Óskar sf voru aðalverktakar. Frá því í október fram í apríl bjó ég hjá afa mínum og nafna á Selásnum. Þar las ég þjóðsögur auk þess að fræðast af afa um gamla tíð.
Þennan vetur rakst ég á frásagnir af áheitum á Strandarkirkju í Selvogi. Sumarið áður hafði ég hitt Matthildi á balli á Djúpavogi og litist ljómandi vel á að kynnast henni betur. En vegna þess hvað ístöðulaus ég var gagnvart brennivíni var ég hræddur um að ég myndi klúðra málum nema að koma mér úr allri óreglu.
Það var þarna um veturinn sem mér datt í hug að heita á Strandarkirkju svo mér mætti auðnast að ná um Matthildi. Þegar ég kom í Berufjörðinn, eftir vetrarverkefnið, fór ég á ball á Djúpavog, Matthildur var þar og í sem allra stystu máli þá höfum við höfum verið saman síðan í meira en 35 ár og innan skamms verða einnig 35 ár síðan ég síðast bragðaði brennivín.
Sumarið 1993 vorum við Matthildur með börnin okkar í heimsókn hjá systur hennar og fjölskyldu í sumarbústað sem þau voru með í viku í Grímsnesi. Þetta sumar var afspyrnukalt á norður og austurlandi, og ekki var hlýtt í Grímsnesinu þó svo sólin skini.
Einn þessara daga var farið í Selvoginn og þá sá ég í fyrsta sinn Strandarkirkju. Fyrirtækið mitt Malland var á þessum tíma mjög illa statt. Margir sem töldu sig vita hvað til rekstrarhæfis heyrði, sögðu það gjaldþrota. Hvað mig varðaði þá vissi ég, að ef af gjaldþroti yrði þá töpuðum við Matthildur öllum okkar eignum.
Þar sem ég stóð í Strandarkirkju og minntist fyrra áheits, þá datt mér í hug að heita á kirkjuna um áframhaldandi lífdaga Mallands. Árið 1997 voru allir rekstrarörðuleikar fyrirtækisins úr sögunni, það skuldlaust og á eftir fóru einhver bestu ár sem við höfum átt fjárhagslega. Árið 2000 seldi ég Malland og við fluttum frá Djúpavogi til Reykjavíkur.
Þegar við fluttu aftur austur í Egilsstaði árið 2004, stofnaði ég ásamt félögum mínum Múrberg, sem var með rekstur í múrverki. Stuttu seinna, ásamt örðum félaga, stofnaði ég Varberg sem hélt utan um fasteignir. Árið 2007 keypti ég félaga mína út úr rekstri Múrbergs og árið 2008 hrundi um allt Ísland.
Við Matthildur höfðum gengist í persónulega ábyrgð við kaupin á Múrberg. Árið 2009 flutti félagi minn í Varberg til Noregs. Það fóru erfiðir tímar í hönd hjá okkur Matthildi föst í persónulegri ábyrgð vegna Múrbergs og skuldir Varbergs stökkbreytt erlend lán. Veturinn 2011 missti Matthildur heilsuna og ég var atvinnulaus.
Um vorið flutti ég til Noregs þar sem ég fékk vinnu hjá norsku múrarafyrirtæki. Þriggja ára tekjur í Noregi dugðu til að losa um persónulegar ábyrgðir og ég flutti aftur heim. En áfram voru mál Varbergs óleyst sem var svo sem í lagi heimilisins vegna. En í Varbergs eignunum var gullmolinn Sólhóll, -gamall dekurkofi leigður sem orlofshús, auk Salthússins þúsund fermetra aflagt fiskvinnsluhús, leigt út sem húsbílageymsla.
Árin eftir Noreg til 2016 voru vörðuð hjartaáfalli og fjárhagslegum vonbrigðum. Mér kom reyndar Strandarkirkja í hug til bjarga gullmolanum Sólhól, en þorði ekki að heita á hana einu sinni enn af ótta við að missa trúna. Þegar öll sund höfðu lokast hét ég enn einu sinni á Strandarkirkju ef það mætti verða til bjargar því að Sólhóll lenti í gini bankans. Þá kom óvænt símtal hvort hægt myndi vera að fá Salthúsið keypt og þá á hvað.
Salthúsið hafði verið auglýst hjá fasteignasölu í mörg ár, ásamt Sólhól. Ég skýrði út hvað kauptilboðið þyrfti að vera til að bjarga Sólhól, sem var ekki langt frá ásettu verði, -af sölu varð. Í öll þrjú skiptin sem ég hef heitið á Strandarkirkju var upphæðin svipuð, eða ígildi svipaðrar upphæðar, ca. 50.000 krónur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.5.2021 | 06:30
Glópar
Það hefur varla farið fram hjá neinum að fasteigna og jarðaverð er í hæðstu hæðum, og fer hækkandi í vaxtaleysi bankanna. Þeir eru margir sem trúa á góðgeðastarfsemi fjármálastofnanna í þetta skiptið og telja sig hafa samning til margra ára um fasta lága vexti, en eru kannski ekki eins öruggir á smáletrinu um hversu fast vaxtaálag kjörvaxtanna sé.
Í svona árferði finnst flestum þeir vera að græða, kaupandi kaupir eign á lágum vöxtum á áður óþekktu verði, seljandi seldi sína eign á miklu hærra verði en hann keypti. Greiningadeildir segja að ekkert bendi til annars en verð haldi áfram að hækka, sem eru náttúrulega byggt á hinni heilögu hagfræði.
En þegar málið er skoðað þá eru skuldir á lífsnauðsynlegt þak yfir höfuðið einungis að hækka, og þegar fram í sækir gæti orðið sífellt erfiðara að standa í skilum með brauðstritinu, -það þurfa jú allir bæði að éta og þak yfir höfuðið.
Þessa hundalógík þekkti gamli presturinn á Héraði. Þegar hann frétti af því að bújörð í hans sveit hefði selst á áður óþekktu yfirverði þá setti hann saman þessa vísu.
Glópur hitti glóp á ferð,
glópur beitti skrúfu.
Glópur keypti á geipiverð
græna hunda þúfu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2021 | 06:05
Möguleikar á upplýsingaöld
Það má segja að tikkandi tíminn á milli lífs og dauða sé línan með öllu atburðum þessa jarðlífs. En frumkrafturinn, sem heldur öllu saman gangandi er engu að síður óendanlegur og hvorki á tímalínu né honum hægt að eyða. Hann er á hinni eilífu hringrás eyktarinnar. Óendanlegir möguleikar sveiflast hinsvegar stöðugt á milli póla gleði og sorgar. Allt getur verið gott eina stundina og þá er skyndilega staðið frammi fyrir hörmungum þá næstu, og þá á tíminn að lækna öll sár.
Það eru hugsunin sem er það lifandi afl sem greinir og tekur af skarið, og það skiptir máli að það sé gert. Því annars hefur tilfinningin sett upplifunina í undirvitundina án ályktunar. Tifinningar eru fræ hvaða ásetnings sem er, og eru gróðursettar í garð huga okkar, -ósýnilega hluta tilveru okkar. Hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki bera þessi fræ ávöxt í samræmi við tegund þeirra. Sum meðvitað í vitundinni, önnur ómeðvitað í undirvitundinni.
Mörg máltæki hafa orðið til um þetta í gegnum aldirnar, s.s að það sem þú sáir, það munt þú uppskera. Þetta er hið óendanlega lögmál endurgjaldsins, - orsök og afleiðing , , , því sem þú sáir munt þú uppskera þú ert það sem þú hugsar daglangt. Óheppni er því óbeint ásköpuð með eigin hugsunum eða hugsanaleysi, meðvitað eða ómeðvitað. Hugsanir eru ekki möguleikar, og heppni ekki til án ásetnings. Því geta óþrjótandi óskilgreindir möguleikar haldið okkur endalaust í kyrrstöðu ómöguleikans.
Spurningin ætti því að vera þessi; var þessi hugsun upprunnin innra með mér, eða kom hún utan frá?
Hver sá sem hefur orðið fyrir andlegri vakningu getur vottað að bókstaflega er hægt að endurskapa lífið, með því að vera meðvitaður. En það kaldhæðnislega er að það er einmitt það sem við gerum á hverjum degi í flóði óþrjótandi upplýsinga án þess að veita tilfinningunum eftirtekt. Meðvitundin um stórbrotna náttúru hugsana okkar, -til að gera eins og við óskum er því nauðsynleg. Annars verður okkur stöðugt haldið uppteknum með upplýsingum
Það er kominn tími til að vakna og sjá að tíminn, sem slíkur, er blekking, hann er aðeins mælikvarði, sem við reyndar vitum innst inni. Hvernig tíminn er notaður í daglegu lífi með síauknum upplýsingum veldur tímaskorti. Tíminn er grundvallaratriði þegar kemur að því vita hvers vegna við erum hér, - s.s. vegna fyrri áfalla, þjáninga, eftirsjár og langana. Það sem við hugsum á að þroska okkur og gera hamingjusamari.
Með upplýsingar má vinna meðvitað, skilgreina þær sem skipta okkur máli og álykta í huganum, en það verður að gera samkvæmt hjartanu annars munu þær halda okkur takmörkuðum. Um leið og við erum meðvituð augnablikinu, fullkomlega í núinu tilfinningalega, greinum við sjálfkrafa tilfinningalegar gildrur þeirra upplýsinga sem fylgja möguleikunum. Þannig nær eilíf sálin að efla sjálfsmyndina með tímanum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2021 | 06:06
Grasætur og veganistar
Það var skoðun gamla fólksins að gulrófur hefðu flust til landsins með landnámsmönnum. Og víst var það að það kunni með rófurnar að fara, ræktaði sitt eigið fræ og geymdi rófur óskemmdar fram á vor. Rófugarðar voru við hvern bæ. Í harðæri varð oft lítill eða enginn undirvöxtur en kálvöxtur gat samt verið góður. Kálið var árvisst en rófur eigi, og garðarnir kölluðust því alltaf kálgarðar. Það mátti segja vegna fræræktar að hver bær hefði sitt eigið rófukyn.
Undir eins þegar kálið var sprottið var byrjað að taka það til matar, eitt blað af hverri rófu og þann veg yfir allan garðinn svo var farin önnur ferð á sama hátt, ef kálið þoldi. Kálið var þvegið vel og saxað í súpur, grauta og skyr. En að haustinu var allt kálið tekið, stórbrytjað og látið í súr og étið með honum yfir veturinn.
Haugarfi og heimula spratt snemma og var notað eins og kál að sumri en ekki í súr. Hvanngarðar voru víða um land og hjá einum bæ í Breiðdal var hvannstóð, hafi þeir verið algengir hefur það verið löngu liðið. Fíflablöð voru notuð að sumri en þó eigi almennt.
Breiðdælir voru fyrrum miklar grasætur en þó lagðist grasneyslan niður og mun það hafa verið vegna betri efnahags og mikillar vinnu við grasnotkun. Notkun þýfisgrasa, fjallgrasa, í blóðmör og lifurmör hélst lengur og svo í rúgbrauð. Líklega hefir almennt grasaát verið úr sögunni um aldamótin 1900.
Það er hverjum manni ljóst nú að neysla ætigrasa er nauðsyn heilsunnar vegna. Þegar ætigrös hurfu af matborðinu þá var það stórt skref aftur á bak. (Heimild kk fæddur 1902 (Breiðdalshreppur) sarpur.is)
Ég set þessa skemmtilegu heimild hér inn svo ég tíni henni ekki aftur, en einhvertíma hef ég punktað þetta hjá mér í tölvuna þegar yfir stóð athugun á því hvernig landinn hafði grænmeti til matar fyrr á tímum. Þessi frásögn úr Breiðdal er greinilega höfð eftir 19. aldar fólki af 20. aldar manni, -og er nú allrar athygli verð á tímum 21. aldar veganisma, -og gengdarlauss innflutnings á matvælum.
Vil samt taka það fram að ég er hvorki sérleg grasæta, -hvað þá veganisti. En það er samt mikið um vagan fólk í nánasta umhverfi og margar góðar þannig máltíðir sem ég hef torgað. Grasætu áhuginn er heldur ekki mikill, að öðru leiti en því að njóta heilsusamlegs lækningamáttar íslenskrar náttúru.
Veganismi hefur reyndar lítið með grænmeti að gera, annað en það telst vegan. Veganismi gengur út á að sniðganga dýraafurðir. Sjálfur set ég mörkin við að versla ekki innfluttar dýrafurðir og þær sem til verða með verksmiðjubúskap eða gæsabringuveiðum. Sem sagt dýraníði inn á verksmiðjubúum og sálarlausum umhverfissóðaskap úti í villtri náttúru.
Það hefur eitthvað látið standa á sér vorið hérna á Héraði síðustu 10 dagana eða svo, grátt í rót og jafnvel alhvítt hvern morgunn og nú þegar komið vel fram á sumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Trausti veðurfræðingur kallar þetta þráviðri, sem er náttúrulega bara þrautleiðinlegur norðaustan þræsingur.
Ég er því ekki farin að gæða mér á heimulu ennþá, sem nú til dags er aldrei kölluð annað en njóli, og fátt sem nýtur álíka óvinsælda annað en lúpínan. Sama á við fífla, hundasúrur og hvönn, en þetta hefur fylgt vorkomunni sem heilsusamlegt fæði á mínu matborði. Og mikið er ég farin að bíða eftir að geta slitið upp fyrstu fíflana.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2021 | 22:40
Tímatal
Sérfræðingar hafa bent á að upplýsingatækni og samfélagsmiðlar hafa leitt af sér tímaleysi sem kemur í veg fyrir að eitthvað sé gert af viti. Þó svo samskiptatæknin eigi að spara okkur tíma við vandaða ákvarðanatöku þá hafa afleiðingarnar orðið þær að mun fleiri möguleikar bætast við á tímalínuna.
Möguleikarnir eru orðnir svo margir að heilastarfsemi venjulegs fólks ræður ekki við að greina á milli þeirra. Sagt er að nútímamanneskjunni berist fleiri möguleikar á einum degi en fólki á 19. öld stóð til boða á 7-8 árum. Fyrir nokkru var gerð athugun á athyglisgáfu og komist að þeirri niðurstöðu að fólk hefði misst stóran hluta athygli sinnar til að álykta, sökum tímaskorts.
Þetta gerist vegna aukinna upplýsinga. Samkvæmt athuguninni var athyglistími hvers og eins árið 2000 að meðaltali 12 sekúndur þar til nýr möguleiki bættist við til að draga ályktun af, árið 2013 hafði upplýsinga -og samskiptatæknin stytt þennan tíma niður í 8 sekúndur.
Gullfiskaminni er talið vara í 9 sekúndur. Svo kannski er það ekki bara tíminn sem er nú af skornari skammti en áður. Sífellt meira af minninu, -og meðfæddu vitinu, glatast vegna skorts á ákvarðanatöku, sem sífellt er frestasð vegna síaukinna upplýsinga.
Þess vegna er háhugavert að ímynda sér hvernig upplifunin af tímanum var á öldum áður. Þegar tíminn var nægur til þess að draga ályktanir og ekki var hægt að skrolla í nýjar upplýsingar á snjallsímanum. Hér segir frá búsháttum á Skarðsströnd á 19. öld og því hvernig tíminn var mældur á Á í fásinninu.
"Bústjórnin innan bæjar á Á var með sömu föstu reglu sem utan bæjar. Allt var þar á sínum vissa tíma, þó engin væri klukkan til að mæla tímann. Farið var eftir svo nefndum dagsmörkum sem voru: Miðmorgunn, Dagmál, Hádegi, Nón, Miðaftan og Náttmál. Var þetta sama sem, talið frá morgni til kvölds, kl. 6, 9, 12, 3, 6, og 9.
Dags -eða eyktarmörk voru miðuð við það er sólin stóð yfir einhverju greinilegu kennileiti, svo sem fjallsöxl, fossi, dalskoru eða öðru slíku. Og að kvöldi var mjaltatíminn miðaður við sjöstjörnuna, þegar heiðríkt var loft.
Og þó öll þessi himinmerki væru hulin skýjaþykkni, þoku eða dimmviðrum, þá var stuðst við birtingu og skyggingu, og svo tíminn þess á milli mældur eftir tilfinningu og venju. Mun sjaldan hafa hafa skeikað miklu fá hinu rétta með tímann." (Úr Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar I bindi bls 137)
Á þessari síðu hefur oft verið velt vöngum yfir tímanum, hvernig og með hvaða hætti hann er mældur, -og þá sérstaklega hvernig gamla íslenska tímatalið virkaði. Fyrir okkur flest nú á dögum virðist tíminn vera af skornum skammti. Það getur því verið áhugavert að gefa sér smá tíma til að rannsaka það sjálfur hvernig tímanum hefur verið útdeilt í gegnum tíðina og hvaða tilgangi hann þjónar.
Sagt er að eykt sé orð sem notað er yfir það sem er ca 3 tímar, eyktir dagsins eru því fjórar og svo á nóttin jafnmargar eyktir. Sólarhringurinn er svo tvö dúsín klukkutíma (2X12). Allt árið er fjórar eyktir með eitt dúsín(tylft) mánaða. Það skiptist í þriggja mánaða tímabil, frá vetrarsólstöðum að vorjafndægrum; vorjafndægrum að sumarsólstöðum o.s.f.v.. Maðurinn á meira að segja sína eykt; huga, líkama og sál. Eilíf hringrás tímans gengur upp í eyktum og dúsínum (tylftum / dozenal). En við teljum samt, og reiknum á okkar tíu fingrum, í tugum, -decimal.
Mannsævina mælum við línulega frá vöggu til grafar, og höldum upp á áfanga hennar í tugum s.s. um fertugt, fimmtugt o.s.f.v.. Vísindin hafa gert mannsævina línulega með upphafi og enda, sem tilheyrir þar af leiðandi ekki hringrásinni. Það má jafnvel ímynda sér að að mannsævin sé gerð upp í tíundum með því að ákveða að ekki sé hægt að telja nema á tíu fingrum. Sumir hafi samt sem áður alltaf vitað lengra nefi sínu, að tíundin er fyrir aurinn og því dýpra sem henni er fyrirkomið í hugarheimi mannfólksins, þeim mun tryggari verður neytandinn á línunni.
Forn tímatöl ganga upp í dúsínum, samkvæmt hringrás sólar, líkt og það íslenska gerði og notað var um aldir. Vagga vestrænnar nútímamenningar í Róm, reyndi jafnvel að láta árið ganga upp á tíund, -desimalt. Það má enn sjá á því að síðasti mánuður ársins er desember, en des er tíu á latínu, nov er níu, okt er átta. Síðar þegar tíundin reyndist engan veginn ganga upp á ársgrundvelli var júlí og ágúst bætt inn, sem eru nefndir eftir keisurunum Júlíusi og Ágústusi.
Allt þetta brambolt Rómarvaldsins leiddi til flækjustigs sem tók margar aldir að reikna sig frá svo árið gengi upp í sólarganginn, þess vegna var íslenska tímatalið notað af almenningi fram á 20. öldina, eða þar til búið var að skóla íslendinga nægilega í neyslunni þannig að eilíf hringrás sólarinnar hætti að skipta öllu máli.
Nú á dögum er notast við rómverskt tímatal, -það Gregoríska, sem er fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis. það tók við af öðru rómversku tímatali, til að leiðrétta meinlega villu á ársgrundvelli, sem var farin að æpa á almenning um 1600. Ennþá er það svo að forn tímatöl ganga betur upp í gang eilífðarinnar en nútímans neytendavæna dagatal, sem við höldum að sé hið eina sanna, þó svo að það hafi af okkur tímann.
Það gamla íslenska var með mánaðarmót í grennd við helstu viðburði sólarinnar s.s. sólstöður og jafndægur, sama á við stjörnumerkin þau skiptast samkvæmt sömu reglu. Það má því segja að vísindalega höfum við gert mannsævina að línulegri tíund, -decimal. Á meðan við vitum innst inni að alheimurinn gengur í tylftum, -dozenal, á hinni eilífu hringrás eyktarinnar.
Klukku-tíminn er mælikvarði vísinda mannfólksins. Og aðeins trúin, sem vísindin efast hvað mest um, leyfir okkur þann munað að verða eilíf eins og alheimurinn sem okkur umlýkur. Þegar þetta er allt haft í huga þá kemur berlega í ljós að maðurinn er jafn langlífur og eilífðin, -nema hann kjósi annað.
Gamla tímatalið | Breytt 8.5.2021 kl. 06:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.5.2021 | 20:09
Eru ekki allir í stuði?
Nú er aldeilis kátt í Höllinni á bólusetningadögum heilbrigðisiðnaðarins, sannkölluð Þórðargleði. Ice Hot One töff í dag eins og sá klári, -æðstistrumpur og popparinn. Heilbrigðisráðherfan, ný bólusett blessunin, sagði að þetta væri svolítið eins og í söngleik.
Heyrst hefur að þeir sem líði út af séu bornir til hliðar og að þeim hlúið, þangað til þeir ná að skjögra heim í fráhvarfi, -sem staðfestir jú bara stuðið.
Facebook vinur minn var ekki í hátíðarskapi með Dadda disco plötusnúð í dag. Á vegginn hafði hann skrifað þetta:
Fékk í vikunni boð í "bólusetningu", mitt svar til þeirra "Sæl verið þið. Ég hef verið boðaður í bólusetningu 06.05.21 klukkan 11:00.
Þar sem ég hef ekki nokkurn áhuga á að gerast tilraunadýr fyrir alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem stjórnað er af siðlausum glæpamönnum, þá getið þið strokað mig af þessum lista ykkar.
Þá vil ég einnig benda ykkur á að þið sem takið þátt í að sprauta þessu efni, sem þið kallið "bóluefni", í fólk, munið eflaust ekki geta frýjað ykkur af ábyrgð ef/þegar þetta tilraunaverkefni fer illa. Ekki frekar en böðlar Hitlers sem voru bara að framfylgja skipunum og vinna sína vinnu, við vitum flest hvernig fór fyrir þeim. Kveðja"
Já, sumir lemja hausnum við steininn, á meðan flestir eru í taumlausu stuði innan um alla þá sem snappa með selfý. Sjálfur er ég farin að þrá kyrrðina til fjalla.
![]() |
Þjóðhátíð í Laugardalshöllinni í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2021 | 06:01
Ísbjörn og lopapeysa
Nú streyma ferðamennirnir til landsins og kannski má búast við að innan skamms opni lundabúðirnar aftur með gore-tex ísbirni við innganginn og asískar lopapeysur á boðstólunum. Sennilega verður minna um grímulaus viðskipti handverksfólks við túristana eins og þegar það sat auðum höndum fyrst eftir "hið svokallað hrun", sælla minninga.
Það var einn sumarmorgunn í Sólhólnum á Stöðvarfirði um árið að Matthildur mín hafði sett út prjónelsið sitt til viðrunar, lopapeysur og fleira, að það kom þýskur ferðamaður að forvitnast. Hann keypti eina peysu og Matthildur kallaði svo í mig og bað mig um að tala við manninn því hann væri að spyrja um eitthvað sem hún væri ekki viss um að geta svarað. Maðurinn var að spyrja um opnunartíma á sjoppunni upp á morgunnhressingu.
Þar sem klukkan var ekki orðin átta og langt í að yrði opnað, þá bauð ég honum inn í kaffi. Þegar við fórum að spjalla þá sagði hann vera nýkomin frá Grænlandi og hefði þurft að millilenda á Íslandi. Hann sagðist hafa tekið skyndiákvörðun um að stoppa í nokkra daga en það hefði ekki verið planið. Til Íslands hafði hann komið 4 sinnum áður, en aldrei á Austfirðina og þessa daga ætlaði hann að nota til að skoða þá.
Hann sagðist vera atvinnuljósmyndari, sem hefð verið ævistarfið til þessa, og þegar ég spurði hann hvort það væri ekki gott starf til að ferðast, -þá sagðist hann vera atvinnulaus. Hann sagði að þangað til fyrir nokkrum árum hefði starfið boðið upp á mikil ferðalög s.s. þegar hefði þurft að gera auglýsingaefni fyrir nýjar árgerðir af bílum þá hefði jafnvel bíll verið fluttur alla leið til Íslands.
Myndtökumenn hefðu fylgt með bílnum og lifað við lúxus til að gera sem flottast auglýsingaefni með myndum af nýjustu árgerðinni í framandi umhverfi. Nú væri svoleiðis vinna framkvæmd af forriturum í tölvu, þar í heiminum sem launin væru lægst. Síðan hefði hann farið að vinna fyrir STO í múrefnageiranum.
Þar sem ég hafði farið í starfsþjálfun til Þýskalands hjá STO árið 1989, þá var þarna komin áhugaverður umræðugrundvöllur. Svo ég spurði hvort STO væri ennþá með höfuðstöðvar í S-Þýskalandi. Hann sagði svo vera, alla vega þegar hann vann síðast. En nú væru fyrirtæki í byggingageiranum farin að gera allt sitt auglýsingaefni í ódýrum tölvum þannig að hann hefði notað tímann til að ferðast og hefði hann farið til Grænlands þetta sumarið.
Ég spurði hvort hann hefði ekki náð góðum myndum á Grænlandi, -og kannski af ísbjörnum. Þá tók hann upp símann sinn og sýndi mér myndir í honum. Þetta voru ekki góðar myndir og satt best að segja átti ég erfitt með að átta mig á hvað væri á þeim í fyrstu, að öðru leiti en þær voru teknar úti á berangri, í móum með snjó í bakgrunni.
Þegar hann stækkaði mynd kom í ljós ísbjörn sem sat í litríkri hrúgu sem voru rústir eða rifrildi af tjaldi. Hann sagði mér að þetta væri tjaldið hans. Hann hefði vaknað snemma morguns og fengið sér göngutúr en þegar hann kom aftur í sjónfæri við tjaldið hefði ísbjörn verið að snuðra í kringum það og rifið svo gat á það, og þarna á myndunum væri hann að gæða sér á nestinu. Allur ljósmyndabúnaðurinn hafði verið í tjaldinu og hann aðeins með snjallsímann til að ná myndum af ráni ísbjarnarins.
Þegar ísbjörninn var búinn að borða morgunnmatinn og farinn, hafði hann tekið saman dótið sitt. Hann sagðist ekki hafa gist fleiri nætur í tjaldi á Grænlandi, heldur keypt sér gistingu með morgunnmat.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)