Bærinn og baðstofan

Stöng

Danskur læknir, Edvard Ehelers, kom til Íslands 1894 til að kanna útbreiðslu holdsveiki. Niðurstöður ferðar sinnar fékk hann birtar í dönsku heilbrigðistímariti. Það sem Ehlers hafði að segja um þrifnað á íslenskum heimilum tóku landsmenn illa upp og sökuðu hann um að vanþakka gestrisni íslenskrar alþýðu. En hann lýsti svo húsakosti hennar, og dæmigerðri baðstofu;

"Hinir litlu þröngu bæir eru að hálfu leyti neðanjarðar og nálega að öllu leyti byggðir úr torfi. Gluggar eru aðeins á öðrum gafli og allir negldir aftur af ótta við vetrarkuldann, því að Íslendingar bera eigi meira skyn á heilbrigðisfræði en svo, að þeir skoða kalda loftið hættulegri óvin en spillt loft. Í baðstofunni eru 6–8 rúm eða stórir trékassar, og sofa tveir eða þrír í hverjum kassa. Fólkið borðar í baðstofunni, oftast á rúmunum.

Þegar komið er inn í baðstofuna, þar sem fólkið er inni, gýs á móti manni óþefur svo mikill, að hann ætlar að kæfa mann. Þennan óþef leggur af mygluðu heyi í dýnum, af sauðskinnsábreiðum og skítugum rúmfötum, sem aldrei eru viðruð, og af óhreinindum þeim sem berast inn í bæinn af hinum óhafandi íslensku skinnskóm. Í óhreinindunum á gólfinu veltast börn, hundar og kettir, veita hvert öðru blíðuatlot og – sulli.

Þennan óþef leggur einnig af votum sokkum og ullarskyrtum, sem hanga til þerris hjá rikklingsstrenglum og kippum af hörðum þorskhausum. Sé vel leitað í baðstofukrókunum munu menn finna ílát, sem þvagi alls fólksins er safnað í. Það er talið gott til ullarþvottar."

Og hafi lýsing Danska læknisins þótt móðgandi á híbýlum alþýðunnar þá gaf lýsing Kaliforníubúans -  J. Ross Brown, 30 árum fyrr - á prestsbústaðnum á Þingvöllum, lýsingu þess Danska lítið eftir;

"Presturinn á Þingvöllum og kona hans búa í moldarkofum rétt hjá kirkjunni. Þessi litlu ömurlegu hreysi eru í sannleika furðuleg. Þau eru fimmtán fet á hæð og er hrúgað saman án nokkurs tillits til breiddar og lengdar og minna helst á fjárhóp í hríðarveðri. Sum þeirra hafa glugga á þakinu, og önnur reykháfa. Þau eru öll vaxin grasi og illgresi, og göng og rangalar liggi í gegnum þau og milli þeirra. Neðst eru kofarnir hlaðnir úr grjóti, og tveir kofar hafa bæjarburst úr svartmáluðum borðum, en hinu er öllu saman tildrað upp úr torfi og allra handar rusli og minnir einna helst á storkshreiður.

Þegar inn kemur í þessi undarlegu híbýli, er umhverfið jafnvel enn þá furðulegra en úti fyrir. Þegar maður er kominn inn fyrir dyrnar á einu hreysinu, sem eru svo lágar og hrörlegar, að vart er hægt að hugsa sér, að þær séu aðalinngangur, er fyrir langur dimmur, gangur með steinveggjum og moldarþaki. Hliðarnar eru skreyttar snögum, sem eru reknir inn á milli steinanna, og á þessum snögum hanga hnakkar, beisli, skeifur, fjallagrasakippur, harðfiskur, auk ýmis konar fatnaðar og gæruskinna. Gangurinn er í laginu eins og hann hafi verið byggður ofan á slóð blindrar kyrkislöngu.

Úr ganginum, sem er ýmist breiður eða þröngur, beinn eða boginn, liggja svo dyr inn í hin ýmsu herbergi. Besta herbergið, eða húsið, því hvert herbergi er einskonar hús, er ætlað gestum. Í öðru húsi býr fjölskylda prestsins í einni kös eins og kanínur. Eldhúsið er einnig notað sem hundaherbergi og stundum sem fjárhús. Í einu horninu eru nokkrir steinar, og á þá er lagt sprek og suðatað, og er þarna maturinn eldaður. Bitarnir í loftinu eru skreyttir pottum og kötlum, harðfiski, nokkrum nærpilsum og leifum af stígvélum, sem presturinn hefur líklega átt í æsku.

Á snögum torfveggjanna hanga olíudunkar, kjötstykki, gamlar flöskur og krukkur og ýmis riðguð verkfæri, sem notuð eru til að rýja kindur. Gólfið er ekki annað en sjálfur hraunflöturinn, en ofan á hann hefur myndast hart lag úr skólpi og allra handa úrgangi. Reykur fyllir loftið, sem þegar er spillt af óþef, og allt innan húss, bitar, stoðir og tíningur af húsgögnum, er gagnþrungið af þykku fúlu loftinu. Ég get ekki hugsað mér aumlegri bústaði mannlegum verum en íslensku torfbæina."

 GlaumbærII

Glaumbær í Skagafirði, íslenskur torfbær. Friðlýstur árið 1947, sem var ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu bæarins strax árið 1938.

Það hafa sjálfsagt fleiri en ég velt fyrir sér hvernig íslensk híbýli voru í gegnum aldirnar og hvers vegna aðal íverustaður þjóðarinnar, sem var bæði mat-, svefn- og vinnustaður fólks, var kölluð; -  baðstofa. Torfbærinn hafði veitt þjóðinni húsaskjól í meira en þúsund ár þegar síðustu manneskjurnar skriðu út úr þeim hálfhrundum á 20. öldinni. Það hafa  varðveist margar lýsingar útlendinga á þessum híbýlum, en landanum sjálfum þótti réttast að láta þjóðsöguna, jarðýtuna og ekki síst þögnina að mestu um varðveisluna.  

Eitt það fyrsta sem kom upp í hugann var, hvernig gat staðið á því að hin glæstu húskynni sem um getur á þjóðveldistímanum gátu orðið að þeim heilsuspillandi hreysum sem blöstu við erlendum ferðalöngum á seinni hluta 19.aldar? - sé eitthvað að marka frásagnir þeirra í rituðum ferðasögum.

Undanfarið hef ég verið að viða að mér efni varðandi húsagerð og sögu torfbæjarins. Eru þar á meðal bækur með rannsóknum Daniels Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund  ár,- meistararitgerð Arnheiðar Sigurðardóttur, Híbýlahættir á miðöldum sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins gaf út árið 1996, -ásamt bók Hjörleifs Stefánssonar arkitekts, Af jörðu - Íslensk torfhús, - auk lýsinga á torfbæjum, svipuðum og hér að ofan, í bókum Jóns Helagasonar, Öldin, ofl, ofl.

Lofotr_vikingmuseum_lofotencom_11

Borg á Lófóten þar sem íslenski landnámsmaðurinn Ólafur tvennumbrúni á að hafa búið. Húsið skiptist í skála og það sem mætti kalla stofu að víkinga sið. Í skálanum sem er til hægri handar þegar komið er inn var voru skemmtanir, matast, drukkið og sofið og kynntur langeldur í gólfi. Í (vinnu)stofunni t.v.við inngang á langhlið, sem er minni, var dvalar og vinnuaðstaða auk eldstæðis. Fræðimaðurinn Valtýr Guðmundsson vildi meina að á landnámsöld hefði stofan verið það sem kallað er skáli og öfugt

Segja má að þessi áhugi fyrir íslenskri byggingahefð hafi komið til þau ár sem ég var í Noregi. Þar vann ég m.a. við grjóthleðslur sem tilheyrðu safni Sama, en Samar kalla sín torfhús "gamma". Skammt frá Harstad, bænum sem ég bjó í, var Víkingasafnið á Borg suður við Leknes á Lofoten. Þar var þeim húsakosti gerð skil sem tíðkaðist við landnám Íslands og kom mér á óvart hversu mikill munur var á þeim stórhýsum úr torfi sem "landnámskálinn" var og þeim "moldarkofum" sem þjóðin skreið út úr þúsund árum seinna.

Í Borg var sýnd stílfærð heimildarmynd um fyrrum íbúa höfðingjasetursins, sem áttu sammerkt fleirum að hafa lent upp á kannt við Harald Hárfagra og neyðst til að yfirgefa Hálogaland. Þar er sagður hafa verið húsbóndi Ólafur tvennumbrúni. Heimildamyndin sem sýnd er við innganginn gerir því skil þegar Ólafur flutti með sitt fólk til Íslands.

Myndinni lýkur svo á þeim hjartnæmu nótum að dóttir Ólafs, sem með honum fór, snýr ein frá Íslandi aftur til Lófóten og giftist syni þess manns sem Haraldur Hárfagri eftirlét Borg, þannig hélst Borg í ættinni ef svo má segja. þetta er nú kannski ekki akkúrat það sem stendur í Landnámu og þó; "Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli".

Stöng Þjórsárdal

Þjóðveldis bærinn Stöng í Þjórsárdal, skömmu ofan við landnám Ólafs tvennumbrúna frá Borg á Lófót. Skáli og stofa eru í löngu byggingunni. Landnámsbærinn þróaðist með tímanum í fleiri en eitt hús. Í útbyggingum voru matarbúr og stundum smiðja, baðstofa eða gripahús. En alla þjóðveldisöldina hélst sú húsaskipan að aðal byggingarnar voru byggða hver fram af annarri og sneru göflum saman

Hinn Danski Daniel Bruun ferðaðist um landið sitthvoru megin við aldamótin 1900 til að stunda fornleifa rannsóknir á norrænum híbýlum "víkingaskálanum" sem viðgengust um landnám á Íslandi. Hann varð fljótlega svo hugfangin af landi og þjóð að hann skrifaði niður ómetanlegar þjóðlífslýsingar og rannsakaði bygginga sögu íslenska torfbæjarins frá upphafi til enda. Fornleifa rannsóknir hans víða um land gefa skýrt til kynna að húsakostur á Íslandi var síður en svo umfangsminni en víkinga annarsstaðar á Norðurlöndum. Íslenski "skálinn og stofan" voru oft 30-40 m langar byggingar og gat þess vegna verið um 2-300 m2 húsnæði að ræða, kynnt var með eldum í gólfi og við innganga. Það var ekki fyrr en eftir að þjóðveldið féll að húsakosti tók að hraka í landinu. Þeirri sögu lýsir Bruun svo í stuttu máli;

"Sá byggingarstíll, sem þróast hafði á Íslandi frá á miðöldum, hélst í megindráttum óbreyttur til vorra daga. Eldsneytisskorturinn, sem smám saman varða sárari og sárari, sakir þess að rekavið þraut og einkum við að skógarnir eyddust, varð ekki til þess að nýtísku hitunartæki væru tekin í bæina eins og gerðist annars staðar á Norðurlöndum. Hins vegar var gripið til þess ráðs að fækka þeim húsum, sem eldar voru kynntir í, og víðast var hvergi tekinn upp eldur nema í eldhúsinu. Í öðrum bæjarhúsum létu menn sér nægja að verjast kuldanum með hinum þykku torfveggjum og loka gluggum og vindaugum í vetrarkuldum. Af því leiddi aftur að löngum var dunillt loft í hinum lokuðu híbýlum.

Hvorki eldstór, ofnar, bíleggjarar né skorsteinar voru á íslenskum sveitarbæjum, fyrr en nú á allra síðustu árum, um leið og ný húsagerð kom til sögunnar, sem algeng er í öðrum löndum, þ.e. timburhús eða hús úr steinsteypu. Glergluggar sem nú eru algengir, jafnvel í hinum gömlu bæjarhúsum, komu mjög seint til Íslands, en þeir komu ekki í sveitabæi á Norðurlöndum fyrr en á 16. öld, þeir hafa því varla haft nokkra þýðingu á Íslandi fyrr en á 18. eða 19. öld. Fyrir þann tíma voru skjágluggarnir, þ.e. líknarbelgur þaninn á trégrind, sem fest var á gat í þekjunni og hleypti nokkurri birtu í gegn, einir um að veita birtu inn í húsin.

Hnignun alls þjóðarhags, sem hélt áfram öldum saman, orkaði auðvitað einnig á húsagerðina. Eftir því sem tímar liðu fram, létu menn sér duga það sem einfaldast var og auvirðilegast. Aðeins á biskupsstólunum, Hólum og Skálholti, og einstaka höfðingjabólum voru húsakynni, sem minntu á höfðingjasetur fornaldar, en allur almenningur þrengdi að húsakosti sínum. Fjósin minnkuðu m.a. því kúnum fækkaði, jafnframt því sem sauðfé fjölgaði. Þó eldhúsið væri eina bæjarhúsið, sem eldur brann í, gat það enn um skeið gerst að fólkið fengi sér bað að gömlum hætti í baðstofu, og hún þá hituð af því tilefni, en ekki vitum vér, hversu lengi sá siður hefur haldist.

Eins og þegar er getið, var baðstofan stundum skilin frá bæjarhúsunum, en venjan var að hún væri eitt af öftustu húsunum í bænum. Var það meðal annars til þess að önnur hús gætu notið hitans frá henni. Vafalaust hefur hún örðum stundum verið notuð til ýmissa annarra hluta. Þannig hefur mátt nota hana til dvalar og vinnustofu, þegar fólk var ekki í baði, en einkum þó eftir að hætt var að kynda elda í stofu og skála. Það kemur í ljós að á 18. öld var tekið að nota baðstofuna á þennan hátt, en upprunaleg notkun hennar var þá úr sögunni, þar sem baðvenjur voru niður lagðar.

En svo fór að menn höfðu ekki einu sinni eldsneyti til að hita baðstofuna. Nafnið eitt hélst á húsi því, sem oftast var fyrir endanum á bæjargöngunum. Það hafði áður verið notað til að baða sig í, en þegar sífellt þurfti að draga saman seglin með húsakostinn, varð það svefnherbergi. Skálinn var yfirgefinn, og rúmin flutt í baðstofuna. Í fyrstu munu það aðeins hafa verið húsbændur og fjölskylda þeirra, sem bjuggu um sig í öðrum enda baðstofunnar, bæði til að njóta hlýunnar og draga sig frá fólkinu. En síðan tók allt heimilisfólkið að sofa og dvelja í baðstofunni.

Lega baðstofunnar innst í húsaþyrpingunni hafði í för með sér að hún varð tiltölulega hlý, en nægði þó varla ætíð. Þá var gripið til þess ráðs í mörgum byggðarlögum að hýsa kýrnar þannig að fólkið í baðstofunni nyti ylsins af þeim. Ekki er kunnugt, hvenær sá siður var upp tekinn að hafa fjósið undir baðstofunni, ef til vill er hann gamall. –Byggingarlagið var þá með þeim hætti að fjósið var ögn niðurgrafið, en baðstofugólfið, sem um leið var nokkuð hærra en gólfflötur annarra bæjarhúsa.

Afstaða bæjarhúsanna innbyrðis hélst óbreytt í höfuðdráttum. Algengast var að þau stæðu til beggja hliða við göngin og fyrir enda þeirra, en tala þeirra gat verið breytileg, en jafnframt mátti bæta fleiri húsum í þyrpinguna, og höfðu þau þá sér inngang. Í tilteknum héruðum var húsunum skipað í eina röð, þannig að skipan þeirra nálgaðist fornaldarbæina, en þó með þeim mun að í fornbæjunum stóðu húsin hvert í framhaldi af stafni annars, en nú stóðu þau hlið við hlið og snéru stöfnum fram á hlaðið. Ef til vill hefur notkun glerglugganna átt þátt í þessu, en leitast var við að hafa þá á timburstöfnum.

Þegar gluggarnir voru í framhlið bæjarins gat fólkið, sem inni var, séð innan úr húsunum, hvað gerðist á hlaðinu. Auk þessa voru þakgluggar á baðstofunni. Þegar fólk var flutt inn í baðstofuna og einnig fyrir nóttina, var skálinn ekki lengur svefnstaður og hvarf brátt úr sögunni, eða merking orðsins breyttist, ef svo má segja, í miklu lítilsverðara hús en áður, en hélt þó sömu stöðu í bæjarþyrpingunni og gamli skálinn. Ennþá er oftsinnis að hús frammi í bænum er kallað „skáli“, þótt það sé notað sem skemma eða á einhvern annan hátt.

Allt frá þeim tíma, sem baðstofan varð sameiginlegur dvalar- og svefnstaður og böð voru úr sögunni, voru öll herbergi, sem notuð voru á sama hátt og hún, kölluð „baðstofur“, án tillits til legu þeirra í bænum. Og um leið höfðu menn horfið til hins forna siðar, að sofa í sama húsi og þeir unnu í og dvöldust á daginn."

Glaumbær

 Glaumbær í Skagafirði, dæmigerður "ganga - bursta bær" sem var loka kaflinn í þróun torfbæjarins. þar er baðstofan aftast í húsaþyrpingunni en fram á hlaðið eru þiljaðar burstir með gluggum og dyrum (sem ekki sjást á þessari mynd sem tekin er baka til) 

Daniel Bruun fór yfirleitt fegurri orðum orðum um íslensku torfbæina en flestir útlendingar, enda hefur hann sjálfsagt gist á betri bæjum í ferðum sínum. Það skildi þó ætla að prestsetrið á Þingvöllum hafi ekki beinlínis verið kotbær þegar Burton hinn Kalaforníski kom þar við. En þetta hefur Bruun m.a. punktað hjá sér eftir veru sína á íslensku prestsetri;

„Á Stóra-Núpi tók síra Valdemar Briem vinur Ólsens á móti okkur. –Kvöldið leið á mjög ánægjulegan hátt við fjörugar samræður í skrifstofu prestsins með mörgum fullum bókaskápum. Og að þeim loknum hvíldum við félagarnir í rúmum okkar og ræddum um, hversu notalegt það gæti verið að dveljast í íslensku torfbæjunum.“ 

Samt átti Bruun það líka til að bölsótast út í baðstofu íslenska bæjarins. "Hann skrifaði syni sínum sumarið 1907 þegar hann dvaldi í tjaldi á Gásum; -ég vil miklu heldur njóta hreina loftsins í tjaldinu en búa við hið andstyggilega, innilokaða loft í bæjunum, þar sem gluggar eru nær aldrei opnaðir. Þeir eru ekki á hjörum og oftast negldir aftur. Ég minnist þess einu sinni á ferðalagi að ég bað bóndann að opna glugga á herbergi, sem ég svaf í. Hann braut rúðuna einfaldlega af einskærri góðvild". 

Nóbelskáldið fór engu rósamáli um íslenska torbæjarmenningu í bókum sínum, en hann minntist torfbæjanna þó þannig, - þegar hann talaði um listfengi þeirra og viðhaldsþörf, því torfbæina þurfti að endurbyggja á 25-50 ára fresti og var þá ekki allur bærinn undir heldur einstök hús hans; - "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."

Þegar ég spurði afa minn, sem fæddur var í upphafi 20. aldarinnar og ólst upp í torfbæ, hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í þannig húsi, þá hristi hann höfuðið og sagði; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn", og sagði mér svo frá sagganum og heilsuleysi foreldra sinna sem hann taldi að húsakynnin hefðu ekki bætt. Hann talaði um leka bæi og fyrirkvíðanlegar haustrigningar.

Þverá Laxárdal

Þverá Laxárdal S-Þing. þessi bær er dæmigerður Norðlenskur torfbær um aldamótin 1900. Hann hafði þó þá sérstöðu að bæjarlækurinn rennur inn í hann, þannig að ekki þurfti að fara út til að sækja vatn. Það sama átti við burstabæinn á Gvendarstöðum í Köldukinn og þar var auk þess fjósbaðstofa

Í Árbók Þingeyinga er nákvæm og skemmtileg lýsing Kristínar Helgadóttir á Gvendarstöðum í Köldukinn um það hvernig var að alast upp í torfbæ með fjósbaðstofu á 4. og 5. áratug 20. aldarinnar, þegar útséð var að nýr húsakostur tæki við af gamla torfbænum og honum yrði ekki lengur við haldið. Í niðurlagi segir Kristín m.a. þetta;  Blessaður gamli burstabærinn, hann bauð upp á margt skemmtilegt bæði úti og inni, einfalda saklausa barnaleiki. Svo urðum við bæði eldri, ég og burstabærinn. Ég hætti að dansa ballett á hlaðinu og horfa á mig í stofuglugganum hvað mér tækist nú vel, þó gúmmískórnir væru nú ekki bestu ballettskórnir.

Gamli bærinn var þreyttur, þökin fóru að leka meira og meira, stundum lak alls staðar og farið var af stað með alla dalla til að setja undir leka. Stór pollur var fremst í göngunum, það var lögð brú yfir hann. Loksins þegar stytti upp var farið að ausa pollinn. Þetta var á haustin, maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því og ofninn sem áður er getið, 14 lína lampinn hitað líka og svo var margt fólk sem gaf frá sér hita.

Ég hugsa um mömmu mína og hennar líf í þessum bæ. Í þessum bæ ól hún sín átta börn, annaðist þau og sá þau vaxa, hún þerraði tárin og tók þátt í gleðinni. Hún hlúði að gamla fólkinu sem sumt var rúmliggjandi lengi. Ég sem yngsta barn man ekki eftir þessu fólki, afa og ömmu, Jórunnu ömmusystir og Önnu Kristjánsdóttir sem lengi var vinnukona hjá foreldrum mínum og var heilsulaus síðustu árin.

Allt þetta fólk dó á Gvendarstöðum í skjóli foreldra minna og mamma annaðist þau. Hún hugsaði vel um bæinn sinn og hélt honum hreinum, moldargólfin voru sópuð með vendi, hurðir, stoðir og gólf, allt var hvítþvegið og öll þessi tréílát sem voru í notkun. Svo þurfti að hugsa um fatnað og allt þetta fólk. 

Árin liðu, bærinn hrörnaði og ég stækkaði, kannski var manni farið að finnast margt erfitt og þröngt og öðruvísi en ætti að vera. Sambúðin við þennan gamla bæ, sem búin var að vera mitt fyrsta skjól og leikvöllur bernsku minnar, var senn á enda og árið 1948 var hann rifinn og nýtt hús byggt á sama stað, stórt og gott hús sem mér hefur með árunum lærst að þykja vænt um eins og gamla bernskubæinn minn. (Árbók Þingeyinga 2012 – Ég og burstabærinn / Kristín Helgadóttir Gvendarstöðum Köldukinn)

 

 Keldur

Keldur á Rangárvöllum sem segja má að sé blanda af burstabæ og fornri húsagerð þar sem skálinn lá samsíða hlaði

 

IMG_1525

Langeldur í gólfi skálans í Borg á Lofoten. Upphækkaður pallur var oft með báðum hliðum skálabæjanna og fyrir stafni. Öðru megin var æðri pallur þar sem húsbóndinn sat um miðju langhliðar í öndvegi milli súlna sinna. Heimilisfólk og gestir mötuðust á pöllunum, héldu sínar kvöldvökur og sváfu svo á fleti eða í lokrekkjum við útveggi. Innst í skála fyrir stafni var pallur þar sem konur höfðu aðstöðu sína

 

Borg á Lofoten

"Stofan" í Borg á Lofóten, sem var vinnuaðstaða og íverustaður bæjarins, og á íslandi var hún talin vera þar sem sá handiðnaður fór fram sem þurfti að sitja við og standa. Þar voru klæði ofin, áhöld smíðuð, reiðtygi smíðuð og geymd, matast og síðar sofið. Síðar urðu smiðja, búr og skemma að útbyggingum líkt og sjá má á myndinni af þjóðveldisbænum að Stöng hér að ofan

 

IMG_3256

Baðstofan í Glaumbæ, Skagafirði. Dæmigerð íslensk baðstofa á betri bæ á 18. og 19. öld. Askar með matarskammti við hvert rúm, en í hverju rúmi gátu sofið fleiri en einn og var það m.a. gert svo fólk ætti auðveldara með að halda á sér hita 

 

IMG_2675

Baðstofan á Grenjaðarstað í Aðaldal. Rokkar, ullarkambar, prjónar og önnur vefnaðaráhöld voru til taks við svo að segja hvert rúm, því í baðstofunni var fatnaður heimilisfólks framleiddur

 

IMG_3644

Galtastaðir fram í Hróarstungu á Héraði. Þar er baðstofan samhliða hlaði líkt og skáli fornbæjanna. Auk þess er fjósbaðstofa á Galtarstöðum, - það er að segja kýr sem hitagjafi undir baðstofugólfi. Þetta virðist ekki hafa verið óalgeng húsaskipan á kotbæjum Austanlands. Í bænum á Galtarstöðum var búið til ársins 1960


Síðasti goðinn og bróðir hans

Hvað fékk 24 ára gamlan mann til að yfirgefa konu og börn, ferðast með flokk vígamanna yfir Kjöl um jól, fara um Hveravelli í stórhríð á gamlársdag með hrævareldinn logandi á spjótoddunum? Þessi ferð var fylgifiskur stórra örlaga í sögu þjóðar, jafnframt því sem helstu dýrgripir hennar eru ferðinni tengdir.

Sturlunga saga segir frá því þegar Gissur jarl Þorvaldsson fór sumarið 1254 til Noregs, veturinn eftir Flugumýrarbrennu. Þá vildi hann fá Odd Þórarinsson til að gæta valda sinna í Skagafirði á meðan hann dveldi ytra. Sagt er að Oddur hafi verið tregur til, enda búsettur austur í Fljótsdal, nánar tiltekið á Valþjófstað, ásamt konu sinni Randalín Filippusdóttir og börnum þeirra Guðmundi sem síðar var kallaður gríss og dótturinni Rikisa.

Þegar Gissur fer fram á þetta við Odd er hann 24 ára gamall, en Gissur 46 ára nýlega búin að missa fjölskyldu sína í Flugumýrarbrennu, í brúðkaupi Halls elsta sonar síns og Ingibjargar 13 ára dóttur Sturlu Þórðarsonar. Átti brúðkaupið að vera sátt til að binda endi á stríð við Sturlunga og áratuga óöld á Íslandi.

Eyjólfur ofsi Þorsteinsson tók ekki þátt í þeirri sátt og fór herför úr Eyjafirði til Skagafjarðar þar sem hann ætlaði að drepa Gissur og syni hans þrjá með því að brenna bæinn á Flugumýri í lok brúðkaups, en Gissur slapp lifandi úr brennunni. Eyjólfur ofsi var kvæntur Þuríði dóttur Sturlu Sighvatssonar, en feðgana Sighvat og Sturlu, og þrjá aðra syni Sighvats, hafði Gissur tekið þátt í að drepa í Örlygsstaðabardaga árið 1238 og hafði sjálfur séð um að aflífa Sturlu föður Þuríðar.

Hinn ungi Oddur Þórarinsson var af ætt Svínfellinga, sem höfðu fram til þessa að mestu haldið Austurlandi utan við átök Sturlungaaldar. Oddur fer með Gissuri úr Haukadal ásamt miklu liði um vorið norður í Skagafjörð. Þar var þeim vel tekið og Skagfirðingar létust fúsir til að hafa Odd sem sinn foringja, þó ungur væri að árum.

Þeir Gissur og Oddur halda svo með liðið til Eyjafjarðar þar sem Gissur hyggst ná um Eyjólf ofsa og aðra brennumenn. Þorvarður bróðir Odds var kvæntur inn í ætt Sturlunga og var þá í Eyjafirði hann hélt til móts við Odd bróðir sinn, en virðist illa hafa vitað í hvorn fótinn hann ætti að stíga enda má segja að þeir bræður hafi verið í sitthvoru liðinu og fór því Þorvarður heim til austfjarða og hélt sig þar þetta sumar.

Oddur hélt til á Flugumýri fyrri part sumars og eltist við brennumenn, ásamt Skagfirðingum og liðsmönnum Gissurar, m.a. út í Grímsey þar sem Oddur lét drepa Hrana Koðránsson ásamt 4 öðrum brennumönnum. Oddur fór svo suður í Haukadal og er við brúðkaup um Jónsmessuleitið, þar sem gefin voru saman Þórir tott Arnþórsson og Herdís Einarsdóttir, bróðurdóttir  Gissurar. Um sumarið eru Flugumýrarbrennumenn dæmdir sekir á alþingi. Einn af þeim sem fékkst dæmdur var Þorsteinn faðir Eyjólfs ofsa, þó svo að hann hafi ekki komið að Flugumýrarbrennu.

Þegar Gissur siglir til Noregs í ágúst um sumarið þá fer Oddur norður í Skagafjörð og hyggst setjast að í Geldingaholti. Hann fer herför norður í Vatnsdal og tekur þar sem sektarfé bústofn Þorsteins föður Eyjólfs ofsa og slátrar sumu til matar en hyggst nytja annað. Heinrekur biskup á Hólum fréttir þetta og bannfærði Odd.

Oddur fer á fund biskups og reynir að fá bannfæringunni aflétt en þeir verða ekki ásáttir um skilmálana. Borið var á biskup „að lítt harmaðir þú er menn voru brenndir á Flugumýri“. Biskup svaraði „það harma ég víst og það harma ég og að sál þín skal brenna í helvíti og viltu það, því er verr“. Oddur tekur biskup svo til fanga.

Höfðingjum á Íslandi varð mikið um að Oddur skildi hafa völd í umboði Gissurar og hafa tekið Hólabiskup til fanga. Þeir safna hátt á annað þúsund manna liði gegn honum og stefna á Skagafjörð. Fyrir þessu liði var ótrúlegur samtíningur höfðingja; Eyjólfur ofsi brennumaður, Sturla Þórðarson faðir brúðarinnar í brennunni, Hrafn Oddson og Þorgils skarði samverkamaður og vinur Gissurar. Þetta var þó að uppstöðu til sundurleitur hópur af töpuðu veldi Sturlunga.

Það var seinni hluta september að liðssafnaðurinn kom í Skagafjörð. Áður en liðið komst komst á leiðarenda hafði Oddur látið Heinrek biskup lausan og farið heim, austur á Valþjófstað í Fljótsdal. Var því engin sameiginlegur óvinur til staðar í Skagafirði og lá þá við innbyrðis stríði með liðinu. Því svo hafði Sturlungaöldin tekið af mannslífum þegar þá var komið að innan þessa liðs var margur sem átti bróður að hefna á sínum samherjum.

Það má segja að þessi sumarferð Odds norður í Skagafjörð hafi verið skiljanleg, þó svo að hann hafi ekki ásælst þau völd sem Gissur bauð honum. Oddur var kvæntur inn í ætt Oddverja, eina göfugustu ætt á Íslandi. Kona hans var Randalín Filippusdóttir en langaamma hennar, Þóra Magnúsdóttir var dóttir Magnúsar berfætts Noregskonungs, sem kallaður hefur verið „síðasti víkingakonungurinn“.

Þórður kakali Sighvatsson, bróðir Sturlu, hafði niðurlægt Filippus föður Randalín og hafði Hrani Koðránsson, sá sem Oddur drap í Grímsey, séð um að hýða Filippus á bæjarhlaði Filippusar. Þorvarður bróðir Odds var einnig kvæntur inn í ætt Oddverja, kona hans var Sólveig Hálfdánardóttir, en Hálfdán og Filippus voru bræður. Móðir Sólveigar var Steinvör Sighvatsdóttir, systir þeirra Sighvatssona, Þórðar kakala sem um tíma hafði tekið við af Sturlu sem valdamesti maður Sturlunga og um tíma mest alls landsins, og þeirra Sighvatssona sem Gissur hafði tekið þátt í að drepa í Örlygsstaðabardaga. Þó svo að þeir bræður, Oddur og Þorvarður væru giftir bræðradætrum var hefndarskyldan, sú sem þeir höfðu kvongast til, gjörólík.

Þórður kakali hafði auk þess sent Filippus faðir Randalín í útlegð og í henni fórst hann. Það má því segja að þegar Oddur hafði drepið Hrana út í Grímsey hafi hann uppfyllt hefndarskildu sína fyrir konuna að hluta. En hann átti eftir að hefna fyrir þátt Þórðar kakala. Sambýliskona Þórðar á Íslandi var Kolfinna Þorsteinsdóttir í Geldingaholti í Skagafirði, sem var höfuðból Þórðar kakala þegar hann var á Íslandi. Klofinna var systir Eyjólfs ofsa, dóttir Þorsteins þess sem Oddur hirti bústofninn af í Vatnsdal og hlaut bannfæringu Hólabiskups að launum og varð um haustið að flýja af hólmi.

Nú erum við kannski komin að ástæðu þess að ungur maður yfirgefur konu og börn rétt fyrir jólaföstu, leggur í langferð þvers og kruss um landið, með viðkomu í Haukadal þar sem hann fær Þórir tott Arnþórsson til að slást í för með sér og berst um hálendið með vígamenn í rafmagnaðri blindhríð á einum erfiðasta fjallvegi landsins á gamlársdag. Um þetta ferðalag segir Sturlunga;

„Þá gerði harða veðráttu og hríðir á fjallinu og hinn sjöunda dag jóla höfðu þeir hríðviðri. Tók þá að dasast mjög liðið Þorgeir kiðlingur lagðist fyrir. Komust þeir eigi með hann. Dó hann suður frá Vinverjadal. Guðrún var móðir hans, dóttir Álfheiðar Tumadóttur. Er hann þar kasaður.

Oddur bargast vel á fjallinu og gaf mörgum manni líf og limu og lyfti á bak í hríðinni og ófærð er eigi urðu sjálfbjarga. Þeir komu í Vinverjadal og voru þar um nóttina fyrir hinn átta dag. (Vinverjadalur eða Hvinverjadalur er talið vera það nafn sem áður var haft um Hveravelli)

Um daginn eftir fóru þeir úr Vinverjadal. Var þá veður nokkru léttara. Og er þeir voru skammt komnir frá Vinverjadal þá kom hræljós á spjót allra þeirra og var það lengi dags“.

Oddur og hans sveit komst í Skagafjörðinn þar sem þeir settust uppi í Geldingaholti. Eyjólfur ofsi frétti fljótlega hvernig komið var hjá Kolfinnu systir hans. Hann safnaði liði og fór úr Eyjafirði um Hörgárdal yfir í Hjaltadal og riðu þeir á ís inn Skagafjörð  aðfaranótt 14. janúar.

Sturlungasaga segir ítarlega frá umsátri Eyjólfs og manna hans um Geldingaholt þessa köldu janúar nótt. En Eyjólfur lagði ekki eld að bæjarhúsum í það skiptið eins og á Flugumýri, heldur rauf þakið og sótti þaðan að Oddi og mönnum hans sem voru innikróaðir.

Oddur lagði til við menn sína að þeir gerðu útrás svo auðveldara yrði að berjast. Hljóp hann út í grænum kyrtli og bar sverð, skjöld og hjálm. Hann komst langt niður á tún enda var hann „manna fimastur við skjöld og sverð þeirra allra, er þá voru á Íslandi,“ segir í Sturlungu.

Már Eyjólfsson fylgdi honum einn og voru þeir algjörlega ofurliði bornir þótt Oddur verðist af fádæma hreysti. Enginn gat sært Odd á meðan hann hafði krafta. „Hlífði hann sér með skildinum, en vá með sverðinu eða sveiflaði því í kring um sig. Hann varðist svo fræknilega, að varla finnast dæmi til á þeim tímum, að einn maður hafi betur varist svo lengi á rúmlendi fyrir jafn margra manna atsókn úti á víðum velli“, segir Sturlunga.

Eftir harðar atlögur fleygði Illugi svartakollur sér aftan í fætur Odds, sem þá var orðinn mjög móður, og felldi hann. Óskaði Oddur þá prestsfundar en fékk ekki, og unnu þar margir á honum en slepptu því að svívirða líkið. Átta menn féllu með Oddi í Geldingaholti. Eftir fall hans fengu flestir grið. Oddur var grafinn utangarðs í Seylu, en þó skáhalt undir kirkjugarðsvegginn. Var þetta gert af því að hann var í banni kirkjuvaldsins.

Þá var komið að Þorvarði að hefna Odds bróður síns. Þorvarður sýndi harðfylgi, dugnað og útsjónarsemi í hefndinni. Hann framkvæmir hana í bandalagi við frændurna Þorgils skarða og Sturlu Þórðarson sem áður höfðu sameinast í miklum liðsafnaði ásamt Eyjólfi ofsa og Hrafni Oddsyni þegar þeir ætluðu að fara að Oddi haustið áður, þegar Oddur tók Hienrek biskup til fanga.

Þorgils, sem var óbilgjarn erindreki Hákonar Noregskonungs, veitti Þorvarði hjálp til hefnda gegn liðveislu Þorvarðar til þess að ná völdum í Skagafirði. Tókst þeim að koma fram hefndum og ná Skagafirði undir Þorgils, þegar Eyjólfur ofsi var drepinn í Þverárbardaga í Eyjafirði. þar var hann með Hrafni Oddsyni bandamanni sínum og svila, en þeir voru giftir dætrum Sturlu heitins Sighvatssonar, sem báðar hétu Þuríður og voru háfsystur. Hrafn slapp óskaddaður á flótta frá Þverárbardaga.

Þorvarður, hélt á goðorðum í Eyjafirði fyrir Steinvöru tengdamóður sína, dóttur Sighvatar heitins á Grund, systur Þórðar kakala, sem eftir hann hafði þau erft. Hann fékk fáu framgengt í Eyjafirði, og er Þorgilsi skarða um kennt. Fór Þorgils að lokum með vopnuðu liði til Eyjafjarðar, til þess að ná héraðinu undir sig og konung.

Þorvarður sá í hvað stefndi og fer að Þorgils, sem treysti Þorvarði vegna fyrra bandalags þeirra, þar sem Þorgils gisti að næturlagi í Hrafnagili og drap hann. Þorvarði var ekki vært í Eyjafirði eftir þetta víg og fór austur á land og bjó eftir það á Hofi í Vopnafirði. Hann hefur hlotið harðan dóm sögunnar fyrir drápið á Þorgils skarða.

Þorvarður varð síðastur íslenskra höfðingja til að afsala goðorðum sínum, sem náðu yfir austur hluta landsins, eða frá Langanesi að Jökulsá að Sólheimasandi, og ganga Noregskonungi á hönd 1264, tveimur árum seinna en flestir aðrir íslenskir höfðingjar. Hefur hann því stundum verið kallaður „síðasti goðinn“.

Eftir það dvaldi Þorvarður um tíma í Noregi og er talið að hann hafi aðstoðað Magnús lagabæti konung við samningu nýrra laga sem tóku við af þjóðveldislögunum. Magnús lagabætir sló hann til riddara og gerði hann að hirðstjóra sínum á Íslandi. Hann lést árið 1296 nálægt 70 ára aldri og hafði þá lifað alla þá sem með goðorð höfðu farið á Íslandi.

Það var ungt fólk sem fór fyrir völdum á Íslandi í lok Sturlungaaldar, og varð að bergja á þeim beiska bikar sem tíðarandinn bauð. Saga þeirra Valþjófstaðar bræðra gefur örlitla innsýn í það hvernig umhorfs var þegar Þjóðveldið féll. Ungt fólk giftist á milli höfuðætta landsins með þann baneitraða kokteil í heimamund að setja niður deilur, gæta sæmdar ættarinnar og hefna fyrri vígaferla.

Þær Þuríðar Sturludætur, frænkurnar Sólveig og Randalín höfðu allar harma að hefna. Þeir Eyjólfur ofsi, Hrafn Oddson, og Valþjófstaðarbræður leituðust við að uppfylla skyldur sínar. Það fólk sem var í aðalhlutverkum var flest á aldrinum milli tvítugs og þrítugs þegar þá var komið sögu, fyrir utan Gissur Þorvaldsson og Sturlu Þórðarson.

Frá Valþjófsstað voru þeir bræður Þórarinssynir, ólíkt varð hlutskipti þeirra. Þorvarður varð langlífur og síðar einn mesti valdamaður landsins. Oddur dó ungur, en var talinn vígfimastur manna á Sturlungaöld. Randalín kona hans sögð kvenna högust og því lengi vel talið mögulegt, af seinni tíma fræðimönnum, að hún hafi skorið út Valþjófsstaðarhurðina, eina mestu gersemi Þjóðminjasafns Íslands. Einnig hefur verið leitt að því líkum að Þorvarður sé höfundur Njálu og hafi þar notast við atgervi Odds bróður síns í persónulýsingu Gunnars á Hlíðarenda.

Randalín varði aldarfjórðungi ævi sinnar og miklum fjármunum í að fá bannfæringu Heinreks biskups aflétt af manni sínum, svo hægt væri að greftra hann í vígðri mold, og naut þar liðveislu Þorvarðar mágs síns. Í Árna sögu biskups er sagt fá þessari baráttu Randalín. Gaf hún til þess stórfé, 20 hundruð í búfé, en það sem upp á vantaði í gulli og silfri. Kvaðst hún una Skálholti alls þessa fjár og auk þess skyldi hún gefa staðnum einhvern grip sæmilegan, og hafa menn giskað á að þar hafi verið um að ræða Valþjófsstaðar hurðina. En ef svo er þá hefur hurðin aldrei farið frá Valþjófsstað í Skálholt. Oddur var á endanum grafinn upp á Seylu og jarðaður í vígðri mold í Skálholti.

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnið, hafnaði nýverið kenningum um að Randalín hafi skorið út Valþjófstaðar hurðina. Þess í stað heldur hún því fram að í hurðina sé skorin út saga Jóns Loftssonar í Odda. Útskurðurinn segir frá riddara sem bjargar ljóni frá dreka. Ljónið þakkar lífgjöfina og fylgir riddaranum það sem eftir er og grætur við gröf hans. Jón fór fyrir Íslendingum í "staðarmálum fyrri", þegar þeir vörðust tilskipunum Páfagarðs um eignaupptöku kirkjujarða.

Steinunni þykir mun sennilegra að hurðin sé frá því fyrir aldamótin 1200. Leiðir hún að því líkum í bók sinni Leitin að klaustrunum að ráðgátan um hurðina sé nú loksins leyst. Þar færir hún rök fyrir tilgátunni um að hurðin hafi upphaflega verið smíðuð fyrir dyr klaustursins, sem afi Randalín, Jón Loftsson í Odda lét reisa að Keldum á Rangárvöllum á síðustu árum 12. aldar.

Þeir sem hafa litið inn á þessa síðu hafa vafalaust séð að síðuhöfundur hefur verið altekin af Sturlungu þetta árið. Mér hefði ekki dottið í hug, að við það að lesa original-inn af Sturlunga sögu ætti ég eftir að uppgötva annan eins mýgrút af sögum inn á milli sagnanna af hinum stóru orrustum Íslandsögunnar, sem maður fræddist um í barnaskóla.

Til þess að fá innsýn tíðaranda Sturlungaaldar, og koma auga á allar sögurnar í sögunni, þarf að setja sig inn í ættir og fjölskyldutengsl. Af ættfræði hefur sagan ofgnótt, svo mikla að sá ættfræðigrunnur sem Íslensk erfðagreining byggir erfðarannsóknir sínar á daginn í dag, er að miklu leiti frá Sturlungu kominn. Ef Sturlungasaga hefði ekki verið skrifuð þá vissum við tæpast hver við værum sem þjóð.

 

val


Bæn vígamanns í jólabúningi

2009-ofridarvaktEinn af fegurstu sálmum sem ortur hefur verið á íslenska tungu er án efa Heyr himna smiður eftir Kolbein Tumason í Víðimýri. Kolbeins er getið í  Sturlungasögu og var hann höfðingi í Skagafirði, foringi Ásbirninga.

Kolbeinn var vígamaður að hætti sinnar tíðar þegar húsbrennur og grjótkast tilheyrðu tíðarandanum. Hann fór að Önundi Þorkelssyni á Lönguhlíð í Hörgárdal, ásamt Guðmundi dýra Þorvaldssyni, og brenndu þeir hann inni ásamt Þorfinni syni hans og fjórum öðrum, annað heimilisfólki fékk grið. Þeir Önundur og Guðmundur dýri höfðu lengi átt í deilum. Brennan var talin til níðingsverka.

Kolbeinn átti mikinn þátt í því að Guðmundur góði Arason, frændi Gyðríðar konu hans og prestur á Víðimýri, var kjörinn biskup að Hólum, og hefur sjálfsagt talið að hann yrði sér auðsveipur en svo varð ekki. Guðmundur góði vildi ekki lúta veraldlegu valdi höfðingja og varð fljótt úr fullur fjandskapur milli þeirra Kolbeins. Guðmundur biskup bannfærði Kolbein.

Í september árið 1208 fóru Kolbeinn, Arnór bróðir hans og Sigurður Ormsson Svínfellingur, til Hóla með sveit manna, og úr varð Víðinesbardagi. Steinar voru meðal vopna á Sturlungaöld. Kolbeinn fékk stein í höfuðið í Víðinesi sem varð hans bani. Hann á að hafa ort sálminn 8. september, daginn fyrir andlát sitt, og verður helst af honum ráðið að þar sé Drottinn beðinn að sjá í gegnum fingur sér við þræl sinn.

Auk þess að vera þjóðargersemi, er Heyr himna smiður elsti varðveitti sálmur Norðurlanda og nú oftast fluttur við lag Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds. Sálmurinn er eitt vinsælasta íslenska efnið sem finna má á youtube og er þar farið um hann mjög svo lofsamlegum orðum.

Hér fyrir neðan flytur hin Færeyska Eivör Pálsdóttir bænina í jólabúningi frá dýpstu hjartans rótum. Ég óska lesendum gleðilegra jóla, árs og friðar.

 


Sýndarveruleikinn í hátæknifjósinu

Það voru sagðar fréttir af því fyrir skemmstu að austur í Rússlandi væru bændur farnir að setja sýndarveruleikagleraugu á beljur. Við vinnufélagarnir gáfum okkur tíma til að taka þessi fjósverk til umræðu í kaffitíma á morgunnandaktinni. Benti ég þeim á það sérkennilega sjónarhorn að það virtust vera orðnir fleiri ungir Rússar sem væru orðnir skólaðir í að kóða saman tölvuforrit fyrir beljur í gluggalausum bakherbergjum heldur en að hleypa þeim út úr fjósinu og njóta þess að rölta á eftir þeim út í mýri þegar þyrfti að sækja kýrnar til mjalta.

Við félagarnir á morgunnandaktinni erum um margt sérkennilegt samsafn sérvitringa, sjaldséðra iðnaðarmanna og hverfandi bænda. En eigum þó flestir þann bakgrunn að hafa sem ungir drengir valhoppað á eftir beljum milli þúfna í mýrum Héraðsins. Því erum við í raun tilvalin stýrihópur sérfræðinga um kúasmölun og teljum okkur vita upp á hár hvar í mýrinni beljum finnst best að halda sig innan um flórgoðann. En það var einmitt friðsæll hagi að sumarlagi sem var hafður í sýndarveruleikagleraugunum sem voru múlbundin á beljurnar sem vöfruðu um innilokaðar og kvíðnar á svellhálli steinsteypunni í forugum hátæknifjósunum austur á gresjum Rússíá.

Sá af okkur sem er tæknilegast sinnaður og alltaf fljótastur að sjá víðtæk not fyrir rússneskar tækniframfarir hélt að svona gleraugu gætu komið að góðum notum fyrir fjármálastjórann okkar því hún væri öfugt við okkur múlbundin fyrir framan svartan tölvuskjá allan liðlangan daginn við kvíðavænleg verkefni. Umræðurnar fóru út um þúfur nokkra stund vegna misskilnings sem stafaði af því að ég sá ekki samhengið, og hélt áfram að tala um beljur á meðan hinir veltu fyrir sér hvernig mætti þróa sýndarveruleikagleraugun áfram á þann veg að hægt væri að vinna með tölur auk þess að éta.

Eftir að umræðan komst aftur á beinu brautina þá benti einn af okkur á að ekki væri lengur í boði að hleypa beljunum út á beit því við þann gjörning féllu í þeim nytin, sem er afleitt á tímum hins heilaga hagvaxtar. Þess vegna væru sýndarveruleikagleraugu framtíðin fyrir kýr og menn. Ég móaðist við aftur í fornöld, eins og venjulega við litlar undirtektir. Þannig að ég benti vinnufélögum mínum í nauðvörn á að þeir væru flestir fábjánar sem vöfruðu um í sýndarveruleika og ættu sennilega eftir að fara sér að voða í drullufeni með sýndarveruleikagleraugu á nefinu.

Það er nefnilega ekki nóg með að þeir horfi á sjónvarp og fái sína visku þaðan heldur eiga þeir það til oftar en ekki að stara á símann í gaupnum sér og í mesta lagi reka hann í andlitið á næsta manni og segja "sjáðu", nema þá helst Pólverjarnir en úr þeirra símum glymja pólskar sápuóperur. Sem betur fer hefur ekki gefist tóm á andaktinni til að fara yfir Namibíu skjölin. Það sama á við þann sýndarveruleika unga dómsmálaráðherrans, sem er dúkkulísu líkust, að taka Samherjann á starfslok Ríkislögreglustjórans.


Myrkurtíð

IMG 6016

Passið ykkur á myrkrinu var hinn þjóðkunni útvarpsmaður, Jónas Jónasson, vanur að segja við gesti sína í lok þátta á gufunni í denn. Árni Tryggvason leikari átti gott með að fá fólk til að hlæja, en talaði líka um svarta hundinn sem ætti það til að glefsa í skammdeginu. Þó rétt sé að passa sig á svörtum hundum myrkursins, þá felst sú þversögnin í ógnum skammdegis myrkursins að það getur þurft að draga sig úr erli dagsins og stíga út fyrir raflýsingu borga og bæja til að sjá ljós dagsins, svo skær er sjónhverfing rafljósanna.

Það virðist vera fjarlægt íslensku þjóðarsálinni að njóta kyrrðar hinnar myrku árstíðar og hægja á erli dagsins í takt við sólarganginn, líkt og náttúran gerir um þetta leiti. Fyrir norðan heimsskautsbaug kemst sólin ekki einu sinni upp yfir hafflötinn um nokkurt skeið á ári hverju. Margar byggðir Noregs eru langt fyrir norðan heimskautsbaug og því eiga norðmenn sér angurværa söngva um fallega bláa ljósið sem fylgir dimmri árstíðinni. Nú mætti halda að þar sem skammdegið er svo mikið að sólin nái ekki einu sinni að kíkja upp fyrir hafflötinn ríki algert myrkur jafnt á lofti og láði, sem í sál og sinni, en svo er ekki bjartur dagurinn er á himninum og kastar blárri birtu yfir freðna jörð.

Þó svo skammdegið eigi það til að vera erfitt með öllum sínum andans truntum þá er það sá tími sem mér finnst maður komast einna næst kjarna tilverunnar. Þetta er sá tími sem ég hugsa venju fremur til þeirra sem horfnir eru og voru mér kærir. Því er það kannski bara eðlilegt að það dragi úr athafnaþránni í myrkrinu og tíminn fari í að leita inn á við. Það er kannski líka heldur ekki undarlegt að vísindin hafi lagt talsvert á sig með gleðipillum og skærum ljósum við að forða fólki frá skammdegis hugans mórum og skottum, sem þjóðsagan hefur gert skil í gegnum tíðina. Það væri nefnilega stórvarasamt fyrir hagvöxtinn ef við kæmumst ævinlega að þeirri niðurstöðu að það sem er dýrmætast fáist ekki fyrir peninga.

Þegar ég var í þriggja ára Noregs útlegð, og saknaði fjölskyldunnar hvað mest heima á landinu bláa, þá bjó ég án sjónvarps og útvarps, en með skaftpott og örbylgjuofn. Þar gafst tími til að uppgötva aftur skammdegi bernskunnar, með því að stíga út fyrir raflýsinguna og paufast á svellum um nes niður við sjó og horfa út yfir Vogsfjörðinn. Það var eitthvað þarna í skímunni, sem gerði að það sást út yfir allan tíma, ég var aftur orðinn þriggja ára drengur í heimsókn með mömmu og pabba hjá afa og ömmu í Vallanesinu. Þarna í fjörunni sá ég alla leið yfir hafið og heim, þar sem augnablikið er alltaf það sama þó svo það komi aldrei til baka.

Á 69°N, þar sem sólin kemur ekki upp úr sjónum vikum saman, er þessi bláa angurværa og  órafmagnaða birta kölluð mørketid sem mundi útleggjast á íslensku myrkurtíð.

Ps. þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir 2 árum.


Ættir Íslendinga og Mafíugenið

Samherjamálið hefur farið fram hjá fáum, virðist í því fjaðrafoki hafi fundist Mafíugenið. Vanti nú aðeins staðfestingu Íslenskrar erfðagreiningar á meininu. Þegar Decode Kára kom fram á sjónarsviðið hafa vafalaust fáir gert sér ljósar allar afleiðingarnar.

Áður hafa fundist, með því að kafa í ættir Íslendinga, sjúkdómar á heimsmælikvarða s.s. BRCA genið. Er talið réttlætismál að gera hverju mannsbarni grein fyrir því, sem það hefur í erfðamengi sínu. Íslensk erfðagreining opnaði í því sambandi vefinn arfgerd.is, þar sem Íslendingar geta nálgast upplýsingar um hvort þeir hafa stökkbreytingu í BRCA2 erfðavísinum.

Á grundvelli þeirrar vitneskju getur fólk svo ákveðið hversu langt það vill ganga gegn meininu og er nú svo komið að ungar konur hafa farið í brjóstanám í forvarnaskini. Ef til þess kemur að minnisafglapa genið finnst er rétt að vona að forvarnirnar verði ekki á pari við BRCA2. Hvað þá þegar frá Mafíugeninu verður greint opinberlega á heimsvísu.

Það má segja að Sturlunga genið hafi alltaf verið þekkt í íslenskum ættum þó svo að menn hafi kosið að líta framhjá því, sem sérstöku Mafíu geni í gegnum aldirnar, sökum afdalamennsku og fólksfæðar. En það er einmitt þær aðstæður sem valda frændrækni og vinagreiðum.

Íslensk erfðagreining er m.a. byggð á ættartölum Íslendinga. Og islendingabok.is var fyrsta stórgjöfina hans Kára til þessarar fámennu þjóðar, - sjálfur DeCode gagnagrunnurinn. Þessi ættargrunnur nær jafnvel lengra aftur í aldir heldur en blóðlínan sem Dan Brown byggði á sína frægustu skáldsögu, - Da Vinci Code.

Ef ég set t.d. sjálfan mig inn í islendingabok.is og bæti við ættartölu Ynglinga, sem má finna í skýringariti Sturlungu, kemst ég rúm 2000 ár aftur í tíman. Með nöfn á forfeðrum í hverjum einasta ættlið, á annað hundrað ár fram fyrir Krist. Ég á ekki von á öðru en það sama eigi við um aðra Íslendinga.

Með islendingabok.is og Ynglingatali má komast aftur til Yngva Tyrkjakonungs forföður Ynglinga. Goðsagnakenndrar ættar sænskra konunga, sem elstu sögulegu norsku konungarnir komu af. Það á að vera Njörður í Nóatúnum sem var sonur Yngva og Freyr sonur Njarðar, þeir voru stundum kallaðir Vanir eða af Vanaætt.

Einn af fyrstu Ynglingunum sem um getur í islendingabok.is er Ólafur feilan Þorsteinsson, stórbóndi í Hvammi í Dölum. Ólafur feilan var sonur Þorsteins rauða Ólafsson, sem var víkingakonungur í Skotlandi á 9. öld. Þorsteinn rauði var sonur Auðar djúpúðgu Ketilsdóttur og Ólafs hvíta Ingjaldssonar, herkonungs í Dyflinni. Ólafur feilan kom til Íslands með Auði ömmu sinni eftir að þeir Þorsteinn pabbi hans og Ólafur afi hans höfðu verið látnir súpa ótæpilega á Mafíu seyðinu.

Svo skemmtilega vill til að frá Ólafi feilan til Yngva Tyrkjakonungs eru 31 ættliður samkvæmt Ynglingatali, eða nákvæmlega sami ættliðafjöldi og er frá mér til Ólafs feilan samkvæmt islendingabok.is. Segi svo hver sem vill að ættfræði grunnur Ynglingatals sé ónákvæmari en sá ættfræði grunnur sem Íslensk erfðagreining byggir á sínar vísindarannsóknir.

Ef Mafíu greining íslenskra erfða verður ofan á í Samherjamálinu er hætt við að lækningin við henni verði jafn sársaukafull og á Sturlungaöld, fólksfæðin verði með því marki brennd að Íslendingum sé ekki treystandi fyrir sjálfum sér og þeim með því talin trú um að koma sínum málum aflands.

Freysteinn heitinn Sigurðsson var mikill grúskari um uppruna Íslendinga og greindi frá því í fyrirlestri að hluti þess fólks Yngva Tyrkjakonungs, sem tók sig upp við Svartahaf til að daga uppi norður við Dumbshaf, hefði farið til Sikileyjar og þess vegna væru svona margt líkt með skyldum.

Ps. Fyrirlestur Freysteins má finna hér, í 8 hlutum á youtube og er hann engu síður athygliverður en bæði Íslendingabók og Ynglingatal.


Steypuhrærivélin

Stokksnes radsjárstöð

Það eru ekki allir þeirrar gæfu aðnjótandi að finnast þeir vera fæddir í fríi. Svo virðist vera að samfélagsgerðin geri ráð fyrir að slitið sé á milli frí- og vinnutíma. Þannig að hjartans þrá tilheyrir hvorki stað né stund og til verður fjarverufíkn án núvitundar. Samt eru til dæmi þess að fólk hafi hitt á fjölina sína og geri ekki mikinn greinarmun á vinnu- og frítíma þegar ánægjan er annars vegar. Í sem stystu máli má segja sem svo að lífsgæði síðuhöfundar hafi velst um í steypuhrærivél.

Alveg frá því fyrst ég man hef ég þvælst um byggingastaði og steypt hvern minnisvarðan um annan þveran. Þar hefur oft átt við dæmisagan um verkamanninn, sem var á þá leið að maður kom á byggingarstað á björtum góðviðrisdegi. Fyrst kom hann að smið sem var að höggva til planka, og spurði hvað hann væri að gera. Smiðurinn svaraði önugur; "Þú hlýtur að sjá það sjálfur maður ég er að höggva til spýtu". Þá kom maðurinn að múrara, sem var að hlaða vegg, og spurði hvað hann væri að gera. Hann svaraði jafn önugur og smiðurinn; "Eins og þú sérð er ég að hlaða vegg". Næst kom maðurinn að verkamanni, sem hamaðist kófsveittur við að moka sandi og maðurinn spurði hvað hann væri að gera. Verkamaðurinn ljómaði allur í ákafa sínum og sagði; "Við erum að byggja dómkirkju".

Núna í sumar var ég á ferð í brotinni byggð og var minntur á eina dómkirkjuna sem ég hrærði steypuna í, en þessi minning kom upp á stað þar sem skáldið orti forðum farðu í rassgat Raufarhöfn. Þegar ég gekk um hafnarsvæðið sá ég bíl sem var merktur fyrirtæki sem átti hug minn allan í hátt á annan áratug. Fyrirtæki sem ég hafði stofnað ásamt vinnufélögum mínu upp úr þeim rekstri sem ég hafði staðið fyrir í eigin nafni frá því 23 ára gamall. Þetta fyrirtæki er enn í rekstri með tvær starfstöðvar á Íslandi og rekið á meira en 30 ára gamalli kennitölu.

Siglufjörður 1988Það var á Djúpavogi fyrir öllum þessum árum sem við vinnufélagarnir  sameinuðumst um fyrirtækið Malland. Markmiðið var að búa okkur til lífsviðurværi sem myndi gagnast okkur til búsetu á Djúpavogi, þó svo að verkefnin þyrfti að sækja um langan veg. Hugmyndin gekk út á, auk steypunnar, að þjónusta matvælaiðnað. Við markaðssettum okkur sem sérfræðinga í epoxy iðnaðargólfum og héldum áfram því skemmtilega á sumrin, að byggja og lagfæra hús, auk þess að steypa mynstraðar stéttar. Verkefnin voru víða um land auk þess sem við fórum um tíma í útrás. Nokkru sinnum fórum við til Ameríku á steypu workshop, svona í nokkurskonar saumaklúbb ásamt 200 steypuköllum víða að úr heiminum.

Ég var stundum spurður útí það hvernig nafnið Malland kom til og varð þá svarafátt. Sumir giskuðu á að það væri dregið af möl samanber steypumöl  aðrir ályktuðu sem svo að nafnið hefði með málningu að gera sem ég var umboðsmaður fyrir um tíma, og væri því Málland. Eins var ég oft spurður að því á Norðurlandi hvort ég tengdist eitthvað bænum Malland á Skaga. Sannleikurinn á bak við nafnið er sá að ég vafði mér sígarettur úr tóbaki sem hét Midland og fannst nafnið líta vel út en gat þó ekki sætt mig  við Miðland né ensku útgáfuna. Leturgerðin í nafninu er meir að segja fengin hjá Midland tobacco.

Það var auðskildara hversvegna húsið sem við Matthildur mín byggðum  hét Tuborg, en sú  nafngift var ekki frá mínu líferni komin, heldur var það þannig að þegar ég þurfti að skrá húsið opinberlega þá voru ekki komin götunöfn á Djúpavogi, heldur hétu húsin hvert sínu nafni. En þar sem ekki hafði gefist tími til að koma sér niður á nafn þegar skráningin fór fram þá stakk Ólöf heitin Óskarsdóttir á hreppskrifstofunni upp á að það héti bara Tuborg því í nágreninu væri Borg. 

Það má segja að Malland hafi verið orðið að epoxy ævintýri sem ég lét félögum mínum eftir upp úr aldamótum, enda þeir meira með hugann við annað en steypu. Ég hélt minn veg og þeir sinn með Malland um tíma, en nú er svo komið að engin af Djúpavogsdrengjum er þar um borð.

 

St. Louis 1998

Mallandsfélagar að sýrulita steypu í Amerískum "saumaklúbb". Á árunum 1993-1998 var þrisvar farið til landsins steypta USA til móts við 200 kolleiga á workshop. Þar voru sett upp svæði og menn sýndu listir sínar. Eitt skiptið duttu út fyrirfram ákveðnir sýnendur og íslensku víkingarnir voru óvænt manaðir til að hlaupa í skarðið. Þá kom sér vel að hafa rúnina Ægishjálm á heilanum til að móta og lita í steypuna

 

Miðvangur

Færanleg Amerísk snigilsteypuhrærivél, sem var sú eina á landinu. Hún hrærði 10 m3 á klukkutíma en var ekki góðkennd af opinbera regluverkinu. En það skipti engu máli við höfðu ævinlega meira að gera en komist var yfir 

 

STO

Múrverk var okkar fag og þess vegna fengumst við mikið við að flikka upp á steinsteypt hús. Að ofan er fyrsta húsið sem ég eignaðist á ævinni, Ásbyrgi Djúpavogi. Margir vildu meina að það væri jarðýtu matur, en í Ásbyrgi er búið enn þann dag í dag og lítur það betur út en það leit eftir endurbæturnar. Hitt húsið er Hvammurinn á Höfn þar sem rekið hefur verið sem gistihús frá því að það var gert upp fyrir meira en 30 árum 

 

Tuborg

Tuborg, húsið sem við Matthildur byggðum okkur á Djúpavogi. Þar voru öll Mallands trixin notuð, múrsteinar, mynstruð steypa og epoxy

 

IMG_3001

Þegar við Matthildur mín dveljum í heimsóknum á Djúpavogi á ég það til að laumast út og dást að gömlu steypuhrærivélinni þar sem hún má muna fífil sinn feguri úti í móum 

 

IMG_3521

Rakst á þennan við fiskverkunarhús á Raufarhöfn í sumar, með áletruninni "í gólfum erum við bestir" 

 

Svona var frystihúsi umbreitt yfir jól og svo var haldið í það næsta um áramót. Þetta var áður en það þurfti að rýna í reglugerðina og fara í grenndarkynningu þó svo að veggur væri færður til innanhúss. Já kannski vorum við í gólfum bestir.

 


Þegar fábjánar fá frábærar hugmyndir

Það eru örfáir áratugir síðan að latínuliðið fór að ásælast verklegt nám. Þá ekki til þess að skíta út hendurnar sjálft, heldur sjá um að kenna þeim sem hafa viljann til verklegrar vinnu og votta  kunnáttu þeirra.

Síðan þessi ásælni latínusamfélagsins í að gera sig gildandi í því, sem það hefur ekki hundsvit á, þá hefur verknámi í landinu hrakað stórlega, jafnvel svo að vandfundið er ungt fólk sem sér nokkurn tilgang í því að fara í verknám.

Ágætu meistarakerfi, þar sem ungur nemur það sem gamall temur, og viðgekkst í byggingariðnaði öldum saman hefur verið rústað, þannig að nú koma gjaldgengir iðnaðarmenn út á vinnumarkaðinn reynslulausir úr fáviskufabrikkunum  latínuliðsins. 

Helst að þeir séu fullnuma í að fylla út gæðavottun um sjálfa sig á exel skjali.

Nú hefur menntun sem þjónar engum tilgangi ná þeim hæðum að handhöfum hennar dettur helst í hug að ekki sé hægt að grafa skurð nema á háskólastigi.


mbl.is Nám í jarðvinnu verði að veruleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haugsnesbardagi var mannskæðasta orusta sem háð hefur verið á Íslandi

Varist þér og varist þér,

vindur er í lofti.

Blóði mun rigna á berar þjóðir.

Þá mun oddur og egg arfi skipta.

Það er öllum holt að lesa Sturlungu. Örlygsstaðabardagi var fjölmennusta orrustu sem háð hefur verið á Íslandi. Hann fór fram í Blönduhlíð í Skagafirði þann 21. ágúst 1238. Frá Örlygsstaðabardaga segir Sturla Þórðarson í Sturlungu, en hann tók sjálfur þátt í bardaganum og barðist í liði frænda sinna, Sturlunga. Þar áttust við Sturlungar annars vegar, undir forystu feðganna Sighvatar á Grund og Sturlu sonar hans, en hins vegar þeir Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi.

Sturlungar höfðu ætlað að gera aðför að systursyni Sighvats, Kolbeini unga Arnórssyni á Flugumýri, þar sem hann bjó, en gripu í tómt. Þeir héldu kyrru fyrir á bæjum í Blönduhlíð í nokkra daga en á meðan safnaði Kolbeinn liði um Skagafjörð og Húnaþing en Gissur Þorvaldsson kom með mikið lið af Suðurlandi. Liðsmunurinn var mikill, því þeir Gissur og Kolbeinn höfðu um 1700 manns, en þeir Sturlungar nálægt 1300.

Þeir Kolbeinn og Gissur komu austur yfir Héraðsvötn og tókst að koma Sturlungum að óvörum, sem hörfuðu undan og bjuggust til varnar á Örlygsstöðum í slæmu vígi sem var fjárrétt, enda mun orrustan ekki hafa staðið lengi því fljótt brast flótti í lið Sturlunga og þeim þar slátrað miskunnarlaust. Alls féllu 49 úr þeirra liði en sjö af mönnum Kolbeins og Gissurar.

Í bardaganum féllu þeir feðgar Sighvatur, Sturla og Markús Sighvatssynir. Kolbeinn og Þórður krókur synir Sighvats komust í kirkju en voru sviknir um grið og drepnir þegar þeir yfirgáfu kirkjuna. Tumi Sighvatsson komst einn bræðranna undan ásamt hópi manna yfir fjöllin til Eyjafjarðar. Sturla Þórðarson, sem sögu bardagans ritaði, komst einnig í kirkju og fékk grið eins og aðrir sem þar voru, að Sighvatssonum og fjórum öðrum undanskildum.

Einn sonur Sighvats hafði verið í Noregi við hirð konungs þegar uppgjörið á Örlygsstöðum fór fram. Sá var Þórður kallaður kakali, hann kom síðan til Íslands í hefndarhug með leyfi konungs því herða þurfti á upplausninni milli nátengdra íslenskra höfðingja þó svo að veldi Sturlunga væri að engu orðið. Þórður kakali var djarfur stríðsmaður sem fór ávalt í fylkingabrjósti síns liðs og bar vanalega hærri hlut í stríðinu þó hann ætti til að tapa orrustunni. Það bar brátt til tíðinda eftir að Þórður steig á land.

Haugsnesbardagi, 19. apríl árið 1246, var mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Þar börðust leifar veldis Sturlunga (aðallega Eyfirðingar) undir forystu Þórðar kakala Sighvatssonar og Ásbirningar (Skagfirðingar), sem Brandur Kolbeinsson stýrði en hann hafði tekið við veldi Ásbirninga af Kolbeini unga gengnum. Hann hafði 720 menn í sínu liði en Þórður kakali 600 og voru það því 1320 manns sem þarna börðust og féllu yfir 100 manns, 40 úr liði Þórðar og um 70 úr liði Brands.

Bardaginn var háður á Dalsáreyrum í Blönduhlíð, í landi sem nú tilheyrir jörðunum Djúpadal og Syðstu-Grund. Skagfirðingar höfðu gist á Víðimýri nóttina fyrir bardagann en komu austur yfir Héraðsvötn og tóku sér stöðu utan við Haugsnes, sem er nes sem skagar til norðurs út í Dalsáreyrar.

Lið Eyfirðinga hafði verið um nóttina á bæjum frammi í Blönduhlíð og bjuggust Skagfirðingar við að þeir kæmu ríðandi út með brekkunum en Eyfirðingar komu fyrir ofan Haugsnesið og komu Skagfirðingum þannig að óvörum. Þórður kakali hafði komið flugumanni í lið Skagfirðinga, sem flýði manna fyrstur og fékk marga til að leggja á flótta. Margir þeirra sem féllu voru drepnir á flótta, þar á meðal Brandur Kolbeinsson, foringi Ásbirninga.

Brandur var tekinn af lífi á grundinni fyrir ofan Syðstu-Grund og var þar síðan reistur róðukross og nefndist jörðin Syðsta-Grund eftir það Róðugrund í margar aldir. Sumarið 2009 var kross endurreistur á Róðugrund til minningar um bardagann og var hann vígður 15. ágúst 2009.

Gissur Þorvaldsson, höfðingi Haukdæla og valdamesti maður á Suðurlandi, var nú orðin einn helsti óvinur Sturlunga en ekki kom þó til átaka á milli þeirra Þórðar kakala, heldur varð það úr að þeir fóru báðir til Noregs og skutu máli sínu undir Hákon konung. Hann úrskurðaði Þórði í vil og sendi hann til Íslands til að reyna að ná landinu undir veldi Noregs, en kyrrsetti Gissur.

Sturlunga er sögð samtímasaga þ.e. skrifuð um leið og atburðir gerast svona nokkurskonar frétta fjölmiðill dagsins. Afkomendum Sturlunga er því holt að lesa söguna. Hún segir frá því hvernig landið komst undir erlent vald vegna græðgi íslenskra höfðingja. Þar réðu ættartengsl og fégræðgi mestu um að hið einstaka íslenska stjórnskipulag, þjóðveldið, féll og landið komst undir Evrópskt vald. Sagan á sér þá samsvörun í nútímanum að stjórnmálmenn hafa framselt löggjöf Íslenska lýðveldisins í síauknum mæli til erlendra valdastofnanna.


mbl.is Mesta blóðbað frá Örlygsstaðabardaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galdur, fár og geimvísindi

Það er sagt að galdur sé andstæðan við vísindi, svona nokkurskonar bábiljur á meðan vísindin byggi á því rökrétta. Því séu þeir sem trúi á galdur draumórafólk í mótsögn við sannleik vísindanna.

Svo hafa þeir alltaf verið til sem vita að galdur byggir á hávísindalegum lögmálum sem hafa mun víðtækari tengingar en rökhyggjan, s.s. krafta náttúrunnar, traustið á æðri mætti og síðast en ekki síst vissunni fyrir eigin getu við að færa sér lögmálin í nyt.

Ef sönn vísindi væru einungis rökhyggja sem byggði á því sem þegar hefur verið reynt, væru þau þar að leiðandi eins og sigling þar sem stýrt er með því að rýna í straumröst kjölfarsins. Þannig vísindi notfæra fortíðar staðreyndir sem ná ekki að uppfylla þrána eftir því óþekkta. Þar með munu vísindin aðeins færa rök gærdagsins á meðan þau steyta á skerjum og missa af draumalöndum sem framundan eru vegna trúarinnar á að best verði stýrt með því að rýna í kjölfarið.

Um miðjan áttunda ártug síðustu aldar tók það um ár fyrir geimförin Víking 1 og 2 að komast til Mars, lögðu þau af stað frá jörðu 1975 og lentu á Mars 1976. Mun lengri tíma tekur að fá úr því skorið hvort líf gæti verið á rauðu plánetunni og það eru ekki nema örfá ár síðan að almenningi voru birtar myndir frá ökuferð þaðan. NASA sendi svo Voyager nánast út í bláinn 1977 til að kanna fjarlægustu plánetur í okkar sólkerfi. Og fyrir nokkrum árum komst hann þangað, sem að var stefnt fyrir áratugum síðan, vegna þess að markmiðið var fyrirfram skilgreint úti í blánum.

Nýlega hafa verið kynntar niðurstöður geimvísindamanna sem hafa fundið sólkerfi sem hafi plánetur svipaðar jörðinni, þar sem talið er að finna megi líf. Plánetur sem eru þó í tuga ljósára meiri fjarlægð en en þær fjarlægustu í okkar sólkerfi þangað sem Voyager komst nýlega. Með tilliti til vísindalegra mælieininga s.s. ljóshraða og fjarlægðar er ekki nema von að spurningar vakni um hvernig geimvísindamenn komust að þessari niðurstöðu úr fjarlægð sem fyrir örfáum árum síðan var sögð taka mannsaldra að yfirvinna, jafnvel á ljóshraða.

Það þarf að láta sig dreyma eða detta í hug töfrandi skáldskap, nokkurskonar galdur, til að skýra hvernig fjarlægðir og tími er yfirunninn geimvísindalega. Þá er líka skýringin einföld; tíminn er mælieining sem vanalega er sett framan við fjarlægðina að takmarkinu, með því einu að setja þessa mælieiningu aftan við fjarlægðina þá er hægt að komast án þess að tíminn þvælist fyrir, hvað þá ef bæði fjarlægðin og tíminn eru sett fyrir aftan takmarkið.

Þannig draumkennda galdra virðast geimvísindamenn nota við að uppgötva heilu sólkerfin og svartholin í órafjarlægð. En þarna er hvorki um að ræða skáldskap né rökfræði, samt sem áður fullkomlega eðlilegt þegar haft er í huga að tíminn er ekki til nema sem mælieining. Það sama á við um fjarlægðina sem gerir fjöllin blá með sjónhverfingu.

Sjónhverfingar mælieininganna má best sjá í peningum sem eru mælieining á hagsæld. Síðast kreppa íslandssögunnar stóð yfir í góðæri til lands og sjávar, ekkert skorti nema peninga sem eru nú orðið aðallega til í formi digital bókhaldstalna.

Allar mælieiningar búa við þau rök að verða virkar vegna þess samhengis sem við ákveðum þeim. Það dettur t.d. engum í hug að ekki sé hægt að byggja hús vegna skorts á sentímetrum, en flestir vita jafnframt að sentímetrar eru mikið notuð mælieining við húsbyggingar. En varla er hægt að byggja hús nú til dags ef peninga skortir þó nóg sé til af byggingarefni, vinnuafli og sentímetrum.

Svo lengi sem við samþykkjum hvernig með mælieiningarnar skuli farið þá verður okkar veruleiki byggður á þeim, rétt eins og víst er að tveir plús tveir eru fjórir, eða jafnvel verðtryggðir 10, svo lengi sem samkomulagið heldur.

Þeir sem á öldum áður fóru frjálslega með viðurkenndar mælieiningar voru oftar en ekki, rétt eins og nú, litnir hornauga, jafnvel ásakaðir um fjölkynngi eða fordæðuskap. Hvoru tveggja eru gömul íslensk orð notuð yfir galdur. Fjölkynngi má segja að hafi verið hvítur galdur þar sem sá sem með hann fór gerði það sjálfum sér til hagsbóta án þess að skaða aðra. Fordæðuskapur var á við svartan galdur sem var ástundaður öðrum til tjóns. Síðan voru lögin notuð til að dæma, og viðurlögin voru hörð.

Nú á tímum er auðvelt að sjá að mælikvarðar laganna sem notaðir voru til að brenna fólk á báli vegna galdurs voru hinn raunverulegi fordæðuskapur. En það var ekki svo auðvelt að sjá galdrabrennurnar í því ljósi á þeim tíma sem mælikvarðar galdrafársins voru í gildi. Rétt eins og nú á tímum eru tölur með vöxtum og verðbótum viðurkenndar sem mælikvarði á hagsæld, burt séð frá dugnaði fólks og hagfelldu árferði, þegar reglum mælistikunnar er fylgt. 

Ofsóknir með tilheyrandi galdrabrennum hófust hér á landi árið 1625, og er 17. öldin stundum kölluð brennuöldin, en talið er að 23 manneskjur hafi þá verið brenndir á báli. Þetta gerðist næstum hundrað árum eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu náðu hámarki. Þar með hófst skelfilegt tímabil fyrir fjölfrótt fólk þegar þekking þess var lögð að jöfnu við galdra. Tímabil þetta er talið hafa náð hámarki með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi.

Því hefur verið haldið fram í seinni tíð að geðþótti og fégræðgi valadamanna hafi verið orsök galdrabrenna á Íslandi, en ekki almanna heill. Þorleifur Kortsons sýslumaður í Strandasýslu átti þar stóran hlut að máli umfram aðra valdsmenn, þó er þessi neikvæðu mynd af honum ekki að finna í ritum samtímamanna hans. Hvort þeir hafa haft réttara fyrir sér en þeir sem stunda seinni tíma fréttaskíringar sem gera hann að meinfisum  fjárplógsmanni fer eftir því við hvað er miðað. Þorleifur átti til að vísa málum aftur heim í hérað og krefjast frekari rannsóknar ef honum fannst rök ákærunnar léleg. Röksemdir Þorleifs breytir samt ekki þeim mælikvarða að hann er sá íslenski valdsmaður sem vitað er að dæmdi flesta á bálið.

Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson, var hann brenndur fyrir kunnáttu sína með rúnir. Stórhættulegt var að leggja sig eftir fornum fræðum, hvað þá að eiga rúnablöð eða bækur í fórum sínum, sem og að hafa þekkingu á grösum til lækninga, en slíkt bauð heim galdragrun.

Hin fornu fræði, sem í dag eru talin til bábilja, sem var svo viðsjálfvert að þekkja á 17. öldinni voru á öldum þar áður talin til þekkingar. Í fornsögunum má víða lesa um hvernig fólk færði sér þessa þekkingu í nyt. Eru margar frásagnir af þeim fræðum hreinasta bull með mælikvörðum nútímans. Nema þá kannski geimvísindanna.

Egilssaga segir frá þekkingu Egils Skallagrímssonar á rúnum og hvernig hann notaði þær í lækningarskyni þar sem meinrúnir höfðu áður verið ristar til að valda veikindum. Eins notaði hann þessa þekkingu sína til að sjást fyrir sér til bjargar í viðsjálu.

Grettissaga segir frá því hvernig Grettir var að lokum drepinn út í Drangey með galdri sem flokkaðist undir fordæðuskap og sagan segir líka hvernig sá sem átti frumkvæðið af þeim galdri varð ógæfunni að bráð með missis höfuðs síns út í Istanbul.

Færeyingasaga segir frá því hvernig Þrándur í Götu beitti galdri til að komast að því hvað varð um Sigmund Brestisson og lýsir hvernig hann leiddi fram í málaferlum þrjá framliðna menn til vitnisburðar sem höfðu verið myrtir.

Í Eiríkssögu rauða segir frá Þorbjörgu lítilvölvu, sem sagan notar orðið "vísindakona" yfir, þar sem hún breytir vetrarkulda í sumarblíðu. Þetta gerði Þorbjörg vísindakona á samkomu sem líst er í sögunni, sem tilkomu mikilli skrautsýningu með hænsnafiðri og kattarskinni svo áhrifin yrði sem mest. Þar voru kyrjaðar varðlokur sem þá var kveðskapur á fárra færi, svona nokkurskonar Eurovision.

Allar sagnir af galdri bera það með sér að betra er að fara varlega þegar hann er við hafður, því fordæðuskapur þar sem vinna á öðrum mein kemur undantekningalaust til með að hitta þann illa fyrir sem þeim galdri beitir. Hins vegar má sega að fjölkynngi hafi oft komið vel og til eru heimildir um fólk sem slapp við eldinn á brennuöld vegna kunnáttu sinnar. Má þar nefna heimildir tengdar Jóni lærða Guðmundssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur Galdra Imbu.

Nú á tímum er gengið út frá því að snilli mannsandans sé hugsunin, sú sem fer fram í höfðinu. Á meðan svo er þá er rökfræðin oftast talin til hins rétta og ekki rúm fyrir bábiljur. Jafnvel þó svo að rökfræðin takamarki okkur í að svara sumum stærstu spurningum lífsins, líkt og um ástina, sem seint verður svarað með rökum.

Áskoranir lífsins eru náttúrulega mismunandi eins og þær eru margar, sumar eru rökfræðilegar, á meðan öðrum verður ekki svarað nema með hjartanu. Svo fjölgar þeim stöðugt nú á 21. öldinni, sem þarfnast hvoru tveggja.

Það er sagt að heilinn ráði við 24 myndramma á sekúndu sem er ekkert smáræði ef við búum til úr þeim 24 spurningar sem þarfnast svara. Svo er sagt að við hvert svar verði til að minnsta kosti tvær nýjar spurningar. Upplýsingatækni nútímans ræður við, umfram mannsheilann, milljónir svara sem býr til síaukinn fjölda spurninga á hveri sekúndu. Þannig ætti hver viti borinn maður að sjá að rökhugsun mannsins ein og sér er ofurliði borin.

Því er tími innsæisins runnin upp sem aldrei fyrr. Þess sem býr í hjartanu, því hjartað veit alltaf hvað er rétt. Nútíma töframenn vita að galdur felur í sér visku hjartans við að koma á breytingum í hugarheiminum, sígilda visku Gandhi þegar hann sagði "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum".

Fólk á brennuöld gat verið sakað um galdur fyrir það eitt að fylgja innsæinu opinberlega. Langt fram eftir síðustu öld fann hinsegin fólk sig knúið til að vera í felum vegna fordóma ef það opinberaði hjarta sitt.

Galdur sem fjölkynngi er byggður á margþættri vísindalegri greind, á tónum mannsandans þegar hann hefur slitið sig úr viðjum tíðarandans til að njóta töfra tímaleysisins og verður því sjaldnast sýnilegur með mælikvörðum samtímans, því ef svo væri gengi fjölkunnáttan oftar en ekki í berhögg við lög fordæðunnar.

Ps. Þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir tæpum tveimur árum síðan og er nú endur birt lítillega breytt í tilefni daga myrkurs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband