Smalinn - 4. hluti

Langt fram á 20. öldina var hvarf smalans, Þorkels Pálssonar í Öxnadal, viðkvæmt mál af skiljanlegum ástæðum, meðan atburðirnir voru ennþá nálægt fólk. Forfeður náinna ættingja og vina gátu leigið undir grun um að hafa hylmt yfir morð. Þetta má sjá í blaðagreinum frá fyrri hluta 20. aldarinnar m.a. þegar á mál þetta var minnst í nýju þjóðsagnasafni, -Rauðskinnu.

Í þjóðsagnabókinni Sópdyngju (1940) eftir Braga Sveinsson er stórmerkilegt safn alþýðlegs fróðleiks, sem hann og Jóhann bróðir hans tóku saman. Sópdyngja hefur að geyma ítarlega frásögn af hvarfi smalans á Þverbrekku. Þar kemur fram að réttarhöld fóru fram vegna þessa máls 15 árum eftir að Þorkell hvarf, en þau voru af allt öðrum ástæðum en ætla mætti.

Frásögnin í Sópdyngju hefur að geyma fjölda nafna, ættfærslna og persónulýsinga þeirra sem að málinu komu. Enda höfundar ættaðir af vettvangi og munnmælasagan komin til þeirra tiltölulega stuttan veg. Líkt og í örðum þjóðsagnasöfnum þá eru foreldrar Þorkels smala sagðir Páll Eiríksson ættaður úr Köldukinn kona hans var Guðbjörg Þorkelsdóttir frá Miðvík á Svalbarðsströnd, áttu þau þrjá syni, Þorkel, Eirík og Pál. Þau eru sögð skörp gáfuð, en fátæk og bjuggu á Hraunshöfða í Öxnadal þegar örlaga atburðurinn gerist sumarið 1828.

Sigurður Sigurðsson var bóndi á Þverbrekku í Öxnadal. Hann var sonur sr. Sigurðar Sigurðssonar sem þá var prestur á Bægisá. Sigurður á Þverbrekku var nýkvæntur Valgerði Björnsdóttur frá Hofi í Svarfaðardal. Sigurður á Þverbrekku var talinn "dagfarsprúður, en funa bráður". Um Valgerði var sagt að hún væri "í meira lagi naum". Þau höfðu fengið Þorkel, sem þá var 16 ára gamall, lánaðan sem smala frá hjónunum í Hraunshöfða. En Þorkell hafði farið í smalastarfið nauðugur og hafði beðið Guðbjörgu móður sína að hafa sig heima, því var þá ekki við komið vegna fátæktar í Hraunshöfða.

Sunnudagskvöld eitt um heyskap var Þorkell með kvíaærnar og átti að gæta þeirra um nóttina. Þoka var og suddi. Nokkru eftir háttatíma kom vinnumaðurinn á Þverbrekku úr bæjarangli um dalinn og var hann drukkinn. Vinnumaður þessi hét Stefán Jónsson og var kallaður sveri eða drykkju Stefán. Hann þótti frekar "hvimleiður á heimili". Þegar hann kemur heim á Þverbrekku þá klagar hann Þorkel smala fyrir það að vera með kindurnar í túninu.

Sigurður, sem var háttaður ásamt Valgerði, vildi ekki gera mikið með þetta því það væri þoka sem Þorkell líklega hræddist. Valgerði leist ekki á að kindurnar bitu grasið af óslegnu  túninu og tók undir við Stefán með neyðarlegum orðum. Það endaði svo að Sigurður snaraðist á fætur og rauk út úr bænum hálfklæddur.

Þegar hann kom út greip hann með sér sleðameið úr járni sem stóð við bæjarþilið og notaður var til að smala kúnum og hljóp niður á tún. Þar kom hann að Þorkeli á rjátli við ærnar og hafði engan formála, heldur sló til hans. Þorkell bar fyrir höndina en höggið var svo þungt að hann bæði handleggs og kjálkabrotnaði.

Valgerður hafði sent Stefán á eftir Sigurði, og kom hann að þar sem Sigurði var runnin reiðin og hélt kjökrandi um Þorkel. Stefán á að hafa sagt Sigurði að ekki þíddi að vola og að um þessi sár yrði ekki bundið. Var svo unnið til fulls á drengnum og komu þeir sér saman um að fela líkið í torfbunka á nesinu við túnið.

Morguninn eftir reið Stefán sveri í Hraunshöfða og tilkynnti Páli og Guðbjörgu hvarf Þorkels. Varð þeim mjög hvert við, kom Guðbjörgu þetta ekki alveg á óvart, því skömmu áður hafði hana dreymt draum, sem henni þótti ekki góðs viti og áleit að boða mundi vofegileg afdrif einhvers sinna nánustu. Er þessi draumur til í þjóðsagnasöfnum og nefnist Guðbjargar draumur.

Páll reið strax í Þverbrekku til að leita að syni sínum. Hafði hann fengið ýmsa sveitunga sína með. Leituðu þeir allan daginn án árangurs. Sigurður bóndi hélt sig að mestu heima um daginn og tók lítið eða ekki þátt í leitinni. Var hann fámáll og varla mönnum sinnandi. Ýmsar getgátur voru um hvarfi drengsins, og héldu menn fyrst, að hann hefði ráfað á fjöll í þokunni.

Margar leitir voru gerðar að Þorkeli og sumar fóru ansi nærri sanni. Taldi t.d. einn sig hafa þreifað á líki þar sem hann leitaði í myrku útihúsi og annar dreymdi Þorkel í torfstabbanum. Þeir Sigurður og Stefán eiga samt alltaf að hafa verið fyrri til að færa lík Þorkels þannig að það fyndist ekki. Á endanum eiga þeir að hafa farið með það á Bægisá til sr. Sigurðar sem hafði komist að hinu sanna hjá syni sínum og hann á að hafa falið lík Þorkels undir kirkjugólfinu. Líkið á svo að hafa verið flutt að Hrafnagili í Eyjafirði og verið þar grafið með leynd.

Þá bjó þar Magnús prófastur Erlendsson, en Hallgrímur, tengdasonur hans, var þá aðstoðarprestur hjá honum. Nokkrum árum síðar var gröf tekin í kirkjugarðinum án vitundar þeirra prestanna, og kom þá upp lík Þorkels, lítt rotið, með lambhúshettu á höfðinu, og sneri hún öfugt. Einhver á þá að hafa komið með þá sögu að piltur sem drukknaði í Eyjafjarðará, hefði verið grafinn niður í öllum fötunum og féll þá málið niður.

Sagt var að Sigurður á Þverbrekku hafi eftir hvarf Þorkels oftar en einu sinni verið kallaður Kela bani. Eitt sinn þegar Sigurður var staddur á Akureyri fór maður að tala við hann. Mun Sigurður eitthvað hafa kannast við manninn, sem var mjög drukkinn, og leiddist Sigurði drykkjurausið og segir: -Þú ert víst ekki vel með sjálfum þér, Jón minn.- Þá segir Jón: -Er þetta Sigurður Kelabani?- Sigurður svaraði engu, en flýtti sér burtu.

Eins á Þorkell að hafa fylgt Sigurði eftir þetta og skyggnir menn orðið varir við fylgd hans, þar var um handleggsbrotinn dreng að ræða þar sem annar kjálkinn á að hafa lafað út úr lambhúshettunni. Þetta varð Sigurði hin mesta raun allt hans líf, en það sem gerði það að mál þetta kom fyrir rétt var af allt öðrum ástæðum en ætla mætti. Sigurður á Þverbrekku, sem þá var orðinn efnaður hreppstjóri í Öxnadal, kærði rógburð sem hann kenndi Agli Jónsyni í Bakkaseli.

Egill bar fyrir sig vitnisburði við réttarhöld sem heimilisfólk hans hafði skrifað niður eftir drykkjurausi Stefáns svera Jónssonar, sem þá var vinnumaður Egils, og var það plagg haft til grundvallar við réttarhöldin. Þess er skemmst að geta að Stefán sveri bar við þessi réttarhöld að allt sem hann hefði sagt um hvarf Þorkels væri lygi sögð í ölæði, og bað í framhaldinu Sigurð í Þverbrekku afsökunar og borgaði miskabætur.

Þannig hljóðaði plaggið sem fram kom í einu opinberu rannsókninni er fór fram um hvarf  smalans í Öxnadal. 

Á þriðjudaginn þann 21. nóv. 1843 kom piltur innan úr Hlíð með brennivín, sem hann færði til Stefáns Jónssonar á Bakka. Um kvöldið þegar hann var orðinn glaður, sagði hann við ekkjuna Helgu Einarsdóttur, að betur hefði Sigurður í Þverbrekku farist við sig heldur en henni að gera útför bónda síns í sumar, þegar hann hefði verið búin að grafa Þorkel Pálsson, sem hvarf þar um sumarið, sem hann var þar, þá hann hefði gefið sér frískan hest, gráskjóttan, fyrir handarvikið, og þar með sagði hann fullkomlega, að Sigurður hefði drepið hann.

Svo sagðist hann hafa riðið ofan að Hraunshöfða að segja frá hvarfi hans foreldrum hans. Þetta heyrðu þau hjónin Jón Hallgrímsson og Helga kona hans og Helga Einarsdóttur og Egill Tómasson. Daginn eftir koma Hjálmar frá Geirhildargörðum og sagði þá, að fundist hefðu ær fram á Þorkelsnesi. Þá sagði Stefán: -Það heitir ekki Þorkelsnes, heldur heitir það Miðnes-. Þá segir einhver: -Hvað veist þú um þetta?- -Það held ég viti það-, segir hann, -hvar hann var drepinn-, og segir, að það hafi verið á Miðnesinu ofan undan stekknum, þá spyr hann einhver, með hvaða atvikum það hafi skeð.

Hann segir Sigurður hafa slegið hann í rot og barið hann til dauða og gengið síðan frá honum. Þá sagðist hann hafa komið að og séð allt saman og sagt við Sigurð, að honum mundi vera betra að vitja um hann aftur, og þá hafi hann verið dauður, og þá sagðist hann hafa skammað Sigurð svert, svo hann hafi orðið hissa og ráðalaus og falið sér allt í hendur, og þá óskaði hann, að guð gæfi okkur það, að við sæjum aldrei svo aumkunarlega sjón sem þessa, og hann sagðist vita, að það yrði aldrei, og gat þá ekki varið sig gráti, og sagðist hann aldrei hafa verið með rólegri samvisku síðan og ekki verða, á meðan hann lifði.

Hann sagði hann hefði verið látinn ofan í gráan poka og verið fluttur ofan í Bægisárgarð, og þar var hann grafinn um haustið. Hann sagði líka, að séra Sigurður hefði orðið var við, hvar hann var grafinn, þegar hann var í leitinni. Þá segir einhver: -Nú ertu farinn að ljúga!- Þá segir hann: -Heldurðu að ég muni það ekki og viti það eins vel og þú, þegar við vorum upp hjá Járnhrygg, og hann sagði, að það væri best að hætta að leita, það væri ekki til neins að vera að þessu lengur-, og þegar séra Sigurður kom úr leitinni, hafi hann skammað Sigurð son sinn, og það hafi verið sú átakanlegasta ræða, sem hann hefði heyrt á ævi sinni, og það hafi verið í hólnum fyrir sunnan og neðan smiðjuna í Þverbrekku.

Eftir þessa ræðu segir einhver, að þetta sé ekki satt. Þá segir hann: -Nú segi ég ykkur satt-. Þetta heyrðu Helga Sveinsdóttir, Helga Einarsdóttir, Egill Tómasson og fleiri á mánudagskvöldið þann 27. f. m. Var Stefán spurður, hvar þessi Járnhryggur væri, sem þeir séra Sigurður hefðu verið til samans hjá báðir í leitinni. Þá segir hann, að sér hafi orðið á mismæli og verði það oft um hrygg þann, en hann heiti Hvassihryggur. Þá segir Helga Einarsdóttir: -Það vildi ég ætti annan eins poka og þann, sem Þorkell heitinn var látinn í-. Þá segir Stefán: -Heldurðu að hann sé ekki orðinn ónýtur núna í meir en 15 ár, að liggja við deiglu-. Þá segir hún: -Það var ljótur skaði að tapa honum, hafi hann verið vænn-. Hún spyr hann, hvort hann hafi verið óbættur og hvort það hafi verið vaðmálspoki. Bæði sagði hann, að hafi verið vaðmálspoki og það óbættur.

Þá segir hann, að þeir Sigurður og Páll hafi farið að því báðir eins og bévaðir klaufar vitlausir, því að Sigurður hefði hann ætlað að klókur væri. Hefði hann átt að vera fremstur í flokki að leita og láta sem sér hefði fundist mikið til um hvarfið á honum, en þvert á móti hefði hann ekkert skeytt um leitina. Páll í öðru lagi hafði vaðið áfram blindfullur, öskrandi eins og naut, með illindum og skömmum við sig. Hann segir, þegar farið hafi verið í fyrstu leitina, segist hann hafa farið á stað með þeim ótilkvaddur og upp að vatni (Þverbrekkuvatn) og segist hafa ætlað að vera með Páli einum og segja honum svo mikið um þetta, að hann væri rólegri eftir en áður og honum til gagns nokkuð.

Þá segir hann, að Páll hafi tekið brennivínstunnu upp úr hnakkpoka sínum og teygað úr henni og skammað sig síðan og skipað sér að segja til hans, því hann vissi af honum. Þá segist hann hafa reiðst og sagt honum, að hann skyldi aldrei segja honum til hans, og hann skyldi hafa það fyrir skammirnar, og héðan í frá skyldi hann ljúga að honum í hvert sinn. Hann sagði honum hefði betra að hafa sig góðan og gefa sér brennivín og vera með sig einan og biðja sig vel að segja sér það, og þetta sagði hann honum heldur skyldi verða til gagns. Hann sagði, að margir heyrt til upp við vatnið.

Eins og greina má þá fer munnmælasagan, þjóðsagan og réttarskjalið að mestu leiti saman, nema það var ekki Páll bróðir Þorkels sem stofnaði til réttarhaldanna. (framhald)


Smalinn - 3. hluti

Það er nú ekki meiningin að fara út um þúfur með þessa frásögn um smalann, en með útúrdúrum þó. Segja má að kunnasta opinbera heimildin um ævikjör smaladrengsins sé eitthvað á þá leið, sem þjóðskáldið úr Öxnadalnum kom í bundið mál;

Vorið góða, grænt og hlýtt,

græðir fjör um dalinn,

allt er nú sem orðið nýtt,

ærnar, kýr og smalinn.

 

Kveður í runni, kvakar í mó

kvikur þrastasöngur;

eins mig fýsir alltaf þó:

aftur að fara í göngur.

Annað þjóðskáld, Steingrímur Thorsteinsson, lýsti starfsumhverfi smalans ekki á síðri hátt en Jónas Hallgrímsson;

Út um græna grundu

gakktu, hjörðin mín.

Yndi vorsins undu.

Ég skal gæta þín.

 

Sól og vor ég syng um,

snerti gleðistreng.

Leikið, lömb, í kringum

lítinn smaladreng.

Þess vegna kom upp í hugann að ef um nöturleg örlög smaladrengs væri að ræða þá hlytu þau að heyra til undatekninga. Að vísu hafði ég rekið augun í skuggalegri hliðar á lífi smaladrengsins í frásögn Hrólfs Kristbjörnsson (1884-1972) bónda á Hallbjarnarstöðum í Skriðdal, þegar hann réð sig sem ársmann þá 13 ára gamall árið 1899, að bænum Þuríðarstöðum sem stóð þar sem kallað er í Dölum upp með Eyvindaránni ofan við Egilsstaði. Þessa lýsingu Hrólfs má finna bæði í bók hans Skriðdælu og í tímaritinu Glettingi: 

Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum.

Í handriti því sem Sigfús Sigfússon vann upp úr frásögn sína af Tungu-Bresti má greina feril munnmælasögunnar í öllu sínu veldi, þegar ung stúlka á að hafa setið ein yfir kindum, þegar úrsvöl næturþokan grúfði sig yfir sveitinni, nóttina sem Þorkels smala bróðir Páls í Kverkártungu varð síðast vart á lífi í Öxnadal;

Vinnukona ein, er var samtíða frú Guðbjörgu Hjartardóttir á Hofi sagði henni frá því að hún hefði verið samtíða vinnukonu er Jóhanna hét sem sagði henni að hún hefði setið yfir ám þessa nótt á Engimýri gagnvart Þverbrekku og hefði þá heyrt mikil angistarhljóð fyrir handan ána. En svartaþoka var svo hún sá ekki yfir hana.

Örlög smalans voru orðin mér hugleikin, því fór ég í að leita mér upplýsinga um lífshlaup þeirra bræðra, Páls og Þorkels Pálssona úr Öxnadalnum, og fikra mig niður tímalínuna, en um ævi alþýðufólks fyrri tíma er lítið að finna nema rétt á meðan munnmælin lifa og svo það, sem ratað hefur í þjóðsögurnar eða greint hefur verið frá í annálum.

Nálægt miðri 19du öld fluttust hjón ein úr Norðurlandi austur á Fljótsdalshérað í Múlasýslu. Hann hét Páll og var Eiríksson en hún Guðbjörg Þorkelsdóttir. Það hafði komið fyrir þau raunalegt tilfelli þegar þau voru í Öxnadal og var álit manna að það hefði rekið þau austur. Páll var greindarmaður álitinn. Hann var verkmaður góður og hestamaður mikill; var hann af því kallaður Páll reiðmaður. Guðbjörg var gáfukona talin og valmenni. Mikið þótti kveða af þeim hjónum báðum. Þau voru nokkur ár að Höfða á Völlum hjá Gísla lækni Hjálmarssyni. Páll og Þorkell hétu synir þeirra hjóna. Það hafði borið við þegar þau Páll voru í Öxnadalnum að bóndi sá er bjó á Þverbrekku í Öxnadal og Sigurður hét, stórættaður maður en bráðlyndur, drykkfelldur og ofsamenni við vín, hafði fengið þau Pál til að ljá sér Þorkel son sinn fyrir smaladreng (sumir segja báða drengina á mis) er þá var um fermingaraldur en efnilegur sagður. En á smölum hafði honum áður illa haldist. Þau urðu við bón hans. En það lyktaði þannig að Þorkell hvarf og fannst aldrei.

Þannig hefst frásögnin um Tungu-Brest í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar en frásagnirnar í safni hans eru tvær. Sú fyrri skráð mest eftir handriti frá Benedikt Davíðssyni. Síðari frásög sögunnar hefur Sigfús Sigfússon birt óbreytta eftir handriti Einars prófasts Jónsonar en Einar hafði ritaði eftir frásögn Þóru Þorsteinsdóttir frá Miðfirði á Langanesströnd, sem þekkti vel hjónin í Kverkátungu þau Pál og Helgu. Þó svo að hún hafi verið á barnsaldri þegar Tungu-Brestur kemur upp, þá hafði hún mikið heyrt um aðdraganda þess enda var vinskapur með foreldrum hennar og hjónunum í Kverkártungu.

Sagt var í Öxnadal að þeir synir Páls og Guðbjargar hafi verið þrír Þorkell, Eiríkur og Páll, sem sennilega var þeirra yngstur. Eiríks er hvergi getið í þjóðsögum eftir að hjónin yfirgáfu Öxnadal. Seinna í fyrri frásögn Sigfúsar segir hann þetta;

Páll sonur þeirra mun hafa fylgt þeim. Hann var gáfumaður, atgerfismikill og háttprúður en drykkfelldur nokkuð. Hann gerðist bókbindari. Páll (eldri) spurði Ísfeld skyggna um son sinn. Hann svaraði: -Drengurinn þinn er dáinn. En það kostaði þriggja manna líf að opinbera hversu það skeði og vil ég það eigi segja.- Það er mál manna að Páll (yngri) bæri þungan hug til Sigurðar fyrir orðróminn um hvarf bróður síns. Það er sögn einstakra mann að svo hafi viljað til eitt sinn í kaupstað að Páll lenti í þrasi við mann og báðir drukknir. Segir sagan að þar kæmi að ókenndur maður er gaf orð i á móti Páli. Páll spurði hver hann væri. En er hann fékk að vita það kannaðist hann við manninn, snerist þegar að honum og segir: -Nú það ert þú djöfullinn, sem drapst hann bróður minn. Það var gott að ég fékk að sjá þig.- Er þá sagt að Páll réðist á hann og hrekti hann mjög áður en þeir voru skildir. En að endingu og áður en þeir skildu jós Sigurður alls konar bölbænum yfir Pál og kvaðst skyldi launa honum hrakning þennan og krefjast þess að hann sannaði orð sín og morðáburðinn. Páll kvaðst mundi bíða og óhræddur fyrir honum ganga. En að lokum segja menn að Sigurður hafi kallað á eftir honum og sagt hann skyldi senda honum sendingu og e.t.v. fá að sjá bróður sinn.

Sigfús segir einnig frá málaferlum á milli þeirra Páls yngri og Sigurðar, þar segir að Páll hafi haft Þorsteinn Jónson kansellíráð fyrir málsfærslumann fyrir sína hönd, en ekki sé vitað hvort það var áður en hann tók Múlasýslu og kom að Ketilsstöðum á Völlum. Ekkert varð á Sigurð sannað þar sem vitni stóð ekki við orð sín. Páli þótti Þorsteinn linur í málinu og sagt hafi verið að hann neitaði að borga Þorsteini eins mikið og hann setti upp fyrir málssóknina.

Þessu á Þorsteinn að hafa reiðst og ráðist á Pál en orðið undir. Þá á að hafa verið sagt að Þorsteinn segði í reiði sinni: Ég skal senda þér pilt sem þú færð nóg af. Samkvæmt fyrri frásögn Sigfúsar eru þessar ástæður nefndar, sem hugsanlegar orsakir Tungu-Brests, auk þessara er Önnu fyrri konu Páls getið sem hugsanlegrar ástæðu, þar sem hún hafði farið fram á við Pál í draumi að hann léti skíra dóttir þeirra Helgu í höfuðið á sér og Páll lofað því en ekki getað staðið við það, þar sem Helga var því ekki samþykk. Anna hafði látist af barnförum sjö árum áður en Tungu-Brestur kom upp. En flesta hafi samt sem áður grunað að Sigurður hefði magnað ættarfylgjuna Þorkel og sent bróður hans til að hefna fyrir hrakning sinn í kaupstaðnum.

Í seinni frásögn Sigfúsar eru orsakir Tungu-Brests sagðar Þorkell bróðir Páls enda hann nefndur í fleirum þjóðasagnasöfnum sem orsök reimleikanna í Kverkártungu. Þorkell er þar yfirleitt sagður ættarfylgja foreldra Páls, sem hann hafi tekið við eftir lát föður síns. Þá skýringu gaf Helga kona Páls á Tungu-Bresti, en til Helgu er mest til vitnað í þjóð- og munnmælasögum.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er látið að því liggja neðanmáls að foreldrar Þorkels hafi þegið fé fyrir að sækja ekki mál á hendur Sigurði bónda á Þverbrekku vegna hvarfs Þorkels sonar þeirra. Saga Tungu-Brests er til í því sem næst öllum þjóðsagnasöfnum landsins í fleiri en einni útgáfu og hefur ævinlega tengingu í Öxnadal við sögu Þorkels bróður Páls. Lítið er um skjalfestar heimildir, sem sína fram á að eftirmál hafi orðið út af hvarfi Þorkels. Saga hans virðist að mestu varðveitt í Þjóðsögunni. Þó er eitthvað til af skjalfestum gögnum og virðist mörgu hafa verið haldið til haga án þess að vera sveipað sérstökum þjóðsagnablæ.

Þennan texta má finna í 19. Aldar annál þar, sem farið er yfir atburði ársins 1828. Piltur hvarf um sumarið frá Þverbrekku í Yxnadal, Þorkell að nafni Pálsson Eiríkssonar. Móðir hans, Guðbjörg Þorkelsdóttir, bjó ekkja að Hraunshöfða, hafði hún ljeð son sinn Sigurði bónda Sigurðssyni, prests að Bægisá, fyrir smala. Var drengsins leitað af mörgum mönnum og fannst hann hvergi. Ætluðu margir að af manna völdum mundi vera og drógu það af grunsamlegum líkum, en ekkert varð sannað, enda mun ekkjan hafa átt fáa formælendur. (Annáll 19. aldar I, bls 396 / sr. Pétur Guðmundsson.)

það má kannski ætla að annálar fyrri alda séu sambærilegir við fjölmiðla dagsins í dag, þeir skrái fréttir opinberlega og séu þær samtímasagnir áreiðanlegri en þjóðsagan. En rétt eins og með fjölmiðla okkar tíma þá greina annálar aðeins frá smábroti af sögunni og ekki alltaf rétt frá.

Þjóðsögurnar og munnmælin greina mun betur frá því hvaða fólk kom við sögu vegna hvarfs Þorkels smala í Öxnadal og hvað um hann varð. Það sem strax ber á milli í fátæklegri frásögn 19. aldar annálsins og þjóðsögunnar er að Guðbjörg móðir Þorkels smala er sögð í annálnum ekkja þegar hann hvarf en þjóðsagan hefur það að geyma sem réttara reynist. Páll og Guðbjörg voru bæði á lífi og bjuggu á Hraunshöfða í Öxnadal þegar atburðir þeir gerðust, sem annállinn  greinir frá með svo naumum orðum, en þjóðsagan geymir söguna alla. (framhald)


Smalinn - 2. hluti

Það er stundum svo að uppákomurnar eru það lygilegar í reynsluheimi fólks, að ekki er hægt að gera þeim skil nema með þjóðsögu. Enda eru flestir málsmetandi menn það grandvarir að láta ekki frá sér fara hvaða rugl sem er, hvað þá þeir sem eiga að teljast vel upplýstir. En stundum er atburðarásin svo viðkvæm að hvergi má á hana opinberlega minnast og geymist hún þá oft sem munnmæli eða kviksögur og kemst síðar á prent, sem þjóðsaga þegar nægilegur tími er liðinn.

Svo virðist hafa verið hvað smaladrenginn í Kverkártungu á Langanesströnd varðar, þar taldi Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari sig ekki með nokkru móti getað minnast á hans örlög þó svo að um hálf öld væri liðin frá þeim atburðum þar til honum var trúað fyrir þeim. Nú rúmum 160 árum seinna, og um 100 árum eftir að Sigfús taldi ekki hægt að setja í þjóðsögu þá atburði, sem taldir eru hafa orsakað reimleikana í Kverkártungu, þarf ekki annað en að gúggla þá á netinu þá er þessu leyndarmáli gerð skil á vef Langanesstrandar.

Tungubrestur er, að öllum öðrum ólöstuðum, þekktasti draugur sveitarinnar og hefur sennilega lifað hvað lengst allra í sveitinni. Fjöldi sveitunga hans kannast vel við kauða, sem kvað sér fyrst hljóðs um miðja 19. öldina. Uppruni stráksins er reyndar eitthvað á reiki en munnmælasögur í sveitinni segja m.a. að Tungubrestur hafi verið vinnumaður eða niðursetningur hjá Páli Pálssyni bókbindara og bónda í Kverkártungu, þeim sem hann hefur jafnan verið fyrst kenndur við, og hafi hann hlotið það illa meðferð hjá honum að hún hafi dregið hann til dauða á einhvern hátt. Hann hafi eftir það ofsótt Pál og fylgt honum í Kverkártungu. Páll Pálsson (1818-1873) var léttadrengur í Geitagerði, Valþjófstaðarsókn, N-Múl. 1835. Vinnumaður á Ketilsstöðum, Vallanessókn, S-Múl. 1840 og 1842, var þar hjá foreldrum fyrri hluta árs 1843. Þegar hann synjaði fyrir barn sem honum var kennt í árslok 1845, Helga Pálsson var hann talinn vera staddur í Papey. Flutti 1848 úr Vallanessókn að Áslaugarstöðum í Vopnafirði. Bókbindari á Þorvaldsstöðum, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1850. Húsmaður og bókbindari á Breiðumýri í Vopnafirði 1855. Bóndi í Kverkártungu á Langanesströnd, N-Múl. um 1859-63, annars í vistum og húsmennsku í Vopnafirði og á Langanesströnd lengst af á árunum um 1850-73. Strákurinn Tungubrestur virðist hafa kunnað vel við sig í Kverkártungu, því eftir að Páll flúði þaðan fylgdi Tungubrestur öðrum ábúendum Kverkártungu og er síðan kenndur við hana. Tungubrestur hefur verið mesta meinleysisgrey því engar sagnir eru til um það að hann hafi gert þeim mein sem hann fylgdi eða þeim sem hans hafa orðið varir, þ.e.a.s. eftir að hann hætti að angra Pál sjálfan. Þess má geta að enginn hefur séð Tungubrest því hann gerir einungis vart við sig með hljóðum, einhvers konar smellum, höggum eða brestum og þaðan er nafnið komið. Sumir hafa lýst hljóðinu þannig að það sé eins og þegar dropar falla í stálvask. 

Kverkártunga fór í eyði árið 1937 og hefur ekki verið búið þar síðan. Í I bindi bókarinnar Sveitir og Jarðir í Múlaþingi, sem kom út 1974 var þetta leyndarmál eitthvað farið að hvissast og komst á prent, sem virðist hafa fram að því lifað í munnmælum á Langanesströnd. Þar má finna þetta í kaflanum um Kverkártungu; Á síðari hluta 19. aldar bjuggu í Kverkártungu Stefán Árnason frá Hjámárströnd í Loðmundarfirði og Ingveldur Sigurðardóttir frá Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá. Sonur þeirra var Magnús skáld (Örn Arnarson) fæddur í Kverkártungu 1884. Skömmu áður en þau Stefán og Ingveldur fluttust í Kverkártungu, bjó þar Páll Pálsson bókbindari. Kom þá upp draugurinn Tungubrestur (sjá sagnir Magnúsar Stefánssonar í Gráskinnu meiri, heimildaskrá II,38). Grafkuml unglings fannst í svonefndum Snjóbotnum skammt frá túni 1920, og herma munnmæli, að þar væri grafinn sá er uppvaktist.

Á vef Langanesstrandar kemur fram að Tungu-Brestur hafi verið vinnumaður eða niðursetningur hjá Páli Pálssyni í Kverkártungu. Einnig að hann hafi síðar fylgt öðrum ábúendum Kverkártungu, jafnframt að engin hafi séð hann og hann gerir einungis vart við sig með hljóðum, einhvers konar smellum, höggum eða brestum, þaðan sé nafnið komið.

Í tímaritinu Súlur 3. árg. er frásögn eftir Hólmstein Helgason, þar sem hann segir frá Tungu-Bresti. Foreldrar Hólmsteins bjuggu í Kverkártungu árin 1905-1909, hann var þá unglingur. Frásögn Hólmsteins styðst að flestu leiti við þjóðsöguna en er merkileg fyrir þær sakir að hann segir frá því hvernig hann varð var við hljóðin í Bresti og hvernig hann fylgdi fjölskyldu meðlimum. Hann segir að Tungu-Brestur hafi fylgt sér í a.m.k. í tvo áratugi eftir að hann flutti úr Kverkártungu og síðast hafi hann orðið var við Brest árið 1961 þegar föðurbróðir hans heimsótti hann á Raufarhöfn.

Einnig segir Hólmsteinn frá því að hann hafi séð Tungu-Brest í draumsýn þegar hann kom til hans í svefnmóki í Kverkártungu-baðstofuna, og lýsir honum sem smávöxnum óttaslegnum dreng á að giska 10-12 ára, klæddum lörfum. Drengurinn hafi barið í kringum um sig með brotnu hrífuskafti og hafi verið berhöfðaður. Í frásögn Hólmsteins vitnar hann einnig í Jóhannes Jónsson, sem kallaður var Drauma-Jói.

Um Jóhannes þennan skrifaði dr. Ágúst H Bjarnason bókina Drauma-Jói, sem út kom 1915. Ágúst var skipaður prófessor í heimspeki, við Háskóla Íslands árið 1911, hann var rektor Háskóla Íslands 1918 og 1928. Ágúst var frumkvöðull í kennslu í sálfræði og ritun bóka um sálfræðileg efni á Íslandi. Í umsögn um bók sína er, á Wikipadia, hann sagður segja þetta;

Drauma-Jói var einkennilegur maður. Það var hægt að spyrja hann sofandi og þá sagði hann hluti sem áttu að vera öllum huldir. Hann ljóstraði oft upp málum sem áttu ekki að komast fyrir almenning. Hann vildi meina að draugar væru miklar víðara hugtak en menn töldu. Ég varð mér úti um bókina "Drauma-Jói" en þar gerir Ágúst skil kynnum sínum af Jóa í gegnum vísindalega úttekt á fjar-skyggni Jóhannesar í draumi, og kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé fölskvalaus.

Bókin er engin skemmtilesning heldu fræðileg úttekt á sögum, sem til voru um Jóhannes. Þegar Ágúst gerði svefn rannsókn á Jóhannesi þá mistókst hún að mestu, enda var Jói á því að draumagáfan (sem hann gerði reyndar ekki mikið úr) hafi verið farin frá honum þegar rannsóknin var gerð. Einnig var Ágústi bent á af þeim sem helst þekktu til Jóhannesar að hann hafi séð fyrir gestakomur, fylgjur og svipi. Ágúst segir Drauma-Jóa neita þessu að mestu nema hvað varaði einstaka mann, þetta hafi þá verið meira í gamni sagt.

Í bókinni kemur berlega fram afstaða höfundar til drauga og er ekki nema u.þ.b. ein síða í allri bókinni, af 224, þar sem Ágúst fjallar um drauga-skyggni Jóa og kemst þar að þeirri niðurstöðu að Jóa hafi mistekist að segja frá mannshvörfum í draumi vegna þess að hann hafi verið líkhræddur. Þar segir hann að endingu: Jói sagði mér frá Tungu-Bresti og annað er fyrir hann hafði borið í vöku, en allt var það svo ómerkilegt, að það er ekki í frásögur færandi. Jói virðist ekki hafa neina skyggni-gáfu til að bera í vöku.

Tildrög þess að Drauma-Jói (Jóhannes) sá Tungu-Brest, segir Hólmsteinn í grein sinni í Súlum, vera þau að hann hafði farið í smölun inn af Kverkártungu ári eftir að Hólmsteinn og hans fjölskylda fluttu úr Kverkártungu. Jóhannes hafði hugsað sér að fá gistingu í Kverkártungu um kvöldið, en þegar hann kom þangað voru nýju ábúendurnir ekki heima. Þegar hann var að snúast á hlaðinu eftir að hafa bankað árangurslaust á dyr og glugga sá hann í tunglskyninu dreng, sem skálmaði viðstöðulaust þvert yfir hlaðið og hvarf fyrir fjárhús austur af bæjarhúsunum.

Þessum dreng lýsti Jóhannes þannig, að hann hafi verið fremur smár vexti, svarað til 9-11 ára aldurs, í mórauðri brók, prjónaðri, girtri niður í sokkagarma, sem signir voru niður fótleggina og í leðurskóræflum. Að ofanverðu í dökkleitri, stuttri treyju með bót á olnboga og barmi úr mórauðu prjóni og berhöfðaður. Sýndist honum hárið og fötin vera blaut. Jóhannes sá strax að ekki var mennskur maður á ferð, heldur sjálfsagt Tungu-Brestur, sem hann hafði heyrt um getið. Þó svo Jóhannes hræddist ekki drauga, enda vanur að sjá það sem aðrir sáu ekki, þá gekk hann rúmleg klukkustundar leið niður í Miðfjarðarnessel, kom þangað löngu eftir að allir voru sofnaðir, vakti upp og fékk gistingu.

Engar upplýsingar hef ég rekist á hver smalinn í Kverkártungu var, en nöturleg voru hans örlög. Í sóknarmanntölum Þjóðskjalasafns Íslands fyrir árið 1860 er Zakarías Eiríksson skráður vinnumaður í Kverkártungu hjá þeim Páli Pálssyni þá 42 ára og Helgu Friðfinnsdóttir þá 21 árs. Þar er einnig skráð Hólmfríður dóttir þeirra hjóna þá 3 ára. Aldur Zakaríasar kemur ekki fram í sóknarmanntalinu og hans er aðeins getið í þetta eina sinn í sóknarmanntölum Skeggjastaðasóknar, seint um haustið hefjast reimleikar í Kverkártungu.

Páll Pálsson virðist hafa vera sá eini sem aldrei bar því við að útskýra af hverju reimleikarnir stöfuðu, ef marka má þjóðsöguna. Ef það var vegna þess að hann vissi upp á sig það sem munnmælin ætla honum, þá voru örlög Páls enn nöturlegri fyrir þær sakir að hann hafði varið kröftum ævi sinnar í að fá réttlætinu fullnægt varðandi bróður sinn sem hvarf þegar hann var smali í Öxnadal. Það að sitja að endingu uppi með það að þurfa að urða eigin smala í túnjaðrinum eftir illa meðferð er ein og sér næg ástæða hjartaáfalls. (framhald)


Smalinn - 1. hluti

Það er sennilega þannig með þjóðsöguna, að í hugum flestra er hún lygasaga. Og ef hún er um drauga þá er hún að auki hindurvitni. En oft er draugasaga besta heimildin um það sem raunverulega gerðist. 

Fyrir nokkrum árum síðan heimsótti mig heilsubrestur, sem varð til þess að ég má taka því rólega. Hjartað hikstaði á þann hátt að það varð svokallað áfall, sem þýðir að það dælir ekki lengur blóðinu um líkamann af fullum krafti. En það var ekki beint heilsubrestur sem ég ætla að tala um heldur annar brestur sem er sending af gömlu gerðinni.

Málið er nefnilega það að ég komst fljótlega að því að hjartaáfall átti ekki að geta komið fyrir mann eins og mig, sem hafði engar fræðilegar forsendur til þess, s.s. háan blóðþrýsting, hátt kólesteról, sykursíki eða ættarsögu. Því fór mig fljótlega að gruna að þarna hefði verið á ferðinni sending af gömlu gerðinni, sem lesa má um í þjóðsögunum. Ef ég orðaði þetta við hjartalækninn þá var boðið upp á þunglyndislyf, eins og það væri eitthvert svar.

Þar sem ég fékk nægan tíma í kjölfar heilsubrestsins þá ákvað ég að leita upplýsinga um sendingar af gömlu gerðinni í Þjóðsögunum, fyrir valinu urðu Þjóðsögur Sigfúsar. Fljótlega rakst ég á söguna um Brest eða réttara sagt Tungu-Brest en hún á að vera um sendingu sem Páli bónda Pálssyni var send í Kverkártungu á Langanesströnd upp úr miðri 19. öld.

Það sem vakti öðru fremur athygli mína á þessari sögu var kannski ekki sagan sjálf heldur endalok Páls, sem komu fram í eftirmála. Nokkrum árum eftir að Páll hafði bæði hrökklast frá Kverkártungu og flosnaður upp úr sambúð við konu sína, fór hann til Vopnafjarðar og fékk sér ótæpilega neðan í því af brennivín sem talið var svikið. Á þriðja degi var Páll aftur orðinn allsgáður og fór þá til Andrésar vinar síns í Leiðarhöfn á Vopnafirði og bað hann um að fá að deyja undir hans þaki.

Það sagði Andrés velkomið en fannst ekkert benda til þess af útliti Páls að dauðinn væri á næsta leiti, enda var hann ekki nema 55 ára. En Páll sagðist vera orðinn kaldur upp að hnjám og því væri ekki aftur snúið. Það fór svo að Páll var allur innan sólahrings. Það var þessi fótkuldi Páls sem fékk mig til að taka eftir sögunni um Tungu-Brest, því fótkuldinn hlyti að stafa af hjartaáfalli, svo vel kynntist ég þeim vágesti þegar hann var mér sendur.

En sendingin sem Páll fékk í heimsókn á bæ sinn Kverkártungu var tilkominn nokkru áður en svikna brennivínið lenti ofan í hann á Vopnafirði. Um Kverkártungu drauginn eða Tungu-Brest er getið í flestu Þjóðsagnasöfnum sem fyrir finnast á Íslandi. Enda er draugurinn sennilega ein af mest rannsökuðu sendingum landsins og sá sem miklar skráðar heimildir eru til um, jafnvel af hinum lærðum mönnum, sem ekki vilja láta það um sig spyrjast að þeir láti bábiljur og hindurvitni byrgja sér sýn.

Að minnsta kosti þrjár tilgátur voru nefndar í þjóðsögunum um ástæður sendingarinnar. Þær helstar; að Páll hafði dreymt fyrri konu sína, sem þá var látin, sem fór fram á það við hann, þar sem komið var að því að hann og seinni konan skírðu dóttur sína, að dóttirin yrði nefnd eftir sér, þessu lofaði Páll í draumnum en móðir stúlkunnar vildi ekki nafnið og lét Páll hana ráða.

Önnur tilgáta var á þá leið að Páll hafði átt bróðir þegar hann var drengur í Öxnadal, sem hafði horfið á vofeigilegan hátt og átti hann að hafa tekið við draug bróður síns, sem var nokkurskonar ættarfylgja, eftir lát föður þeirra en honum á sá draugur að hafa fylgt fram á gamalsaldur.

Þriðja tilgátan var af sama meiði en Páll hafði átt í útistöðum við þann mann, sem sekur var talin um hvarf bróður hans og átti meðal annars að hafa tapað málaferlum fyrir honum. Páll hafði bæði lent illilega upp á kannt við þann ákærða og þann sem sótti málið fyrir hann, því hann neitaði að borga málsóknina þar sem hann taldi hana hafa verið slælega unna. Báðir þessir menn höfðu haft opinberlega í heitingum við Pál.

Þessi saga gaf lítil svör um sendingar fyrri ára og engin um það hvernig sendingar gætu orsakað hjartaáföll. En þegar ég hafði rekist á efni tengt þessari sögu þrisvar sinnum úr ólíkum áttum á u.þ.b. þriggja mánaða tímabili þá fór atburðarásin að líkjast sendingu. En sagan um Tungu-Brest, í allra stystu máli, er í Gráskinnu hinni meiri eftir þá Sigurð Nordal og Þórberg Þórðarson:

Hann var uppi um 1870 og var ósýnilegur, en gerði vart við sig með hljóðum. Var stundum sem vatn drypi, stundum sem högg og slög, en stundum sem dynkir eða brestir, og af því fékk hann nafnið Brestur. Þá bjó í Kverkártungu Páll bókbindari. Hann var fluttur vestan úr Þingeyjarsýslu eða lengra að. En sagan af uppruna Brests var sú, að hann væri meðaladraugur, - og fleiri sögur heyrði ég um meðaladrauga. Páll átti bróðir, er fór ungur í vist, og varð fljótt um hann. Ætluðu menn, að af mannavöldum væri. Var þó ekki við því hreift. Þegar Páll komst til manns, vildi hann hefna bróður síns, vakti upp draug og kom honum í meðul. En fyrir mistök eða kunnáttuleysi fór svo, að draugurinn snérist að Páli sjálfum og gerðist svo umsvifamikill, að kona hans Helga Friðfinnsdóttir, varð að flýja heimilið um skeið. Helgu þessari var ég samtíða og heyrði hana segja frá Bresti. Þó þori ég ekki að fara með þá sögu, enda mun hún vera í safni Sigfúsar.

Eins og greint er frá hér að ofan þá hafði ég fyrst rekist á söguna við að leita upplýsinga um sendingar í þjóðsögunum og er hún mun ítarlegri annarsstaðar m.a. hjá Sigfúsi, og frásögn Gráskinnu er sú eina sem segir Pál hafa vakið upp lyfja draug. Næst rakst ég á frásögn í bók Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, sem ég áttaði mig á að mundi vera af Þorkeli bróður Páls, unglings sem hvarf í Öxnadal. Þriðja frásögnin var í bók Árna Óla, Reimleikar, þar sem hann fer yfir dularfull fyrirbæri á Íslandi, sem rannsökuð hafa verið og skjallegar heimildir eru til um meðan á þeim stóð, en samt sem áður ekki fengist haldbærar skýringar á af hverju stöfuðu.

Jón Illugason hreppstjóri á Djúpalæk var einn af þeim sem hafði skráð reimleikana í Kverkártungu meðan þeir áttu sér stað. Á Kverkártungu á Langanesströndum býr bóndi, Páll að heiti, son Páls Eiríkssonar er ferðaðist suður á land og víðar. Í fyrrahaust var Páll bóndi að leysa hey í hlöðu að kveldi dags, þá heyrir hann barið högg ofan í þekjuna. Hann fer út, en sér engan; það gengur þrisvar að hann verður við engan mann var. Hann lýkur við verk sitt, en finnst þó ei til. (Hann er á lífi, frí við öll hindurvitni og hugleysi.) Hann gengur heim eftir þetta, en í því hann kemur á hlaðið er maður þar kominn og segir honum lát Páls föður hans. Í mæli hefir verið að eitthvað hafi fylgt þeim Páli. Eftir þetta fer að bera á reimleika á bænum, að bæði Pál og fólkið dreymir illa; hann og það sér stundum á kveldin hvítan strók, stundum þokumökk, stundum eins og hálft tungl; oft sá bóndi þetta í fjárhúsunum. Svo fóru leikar að allt fólkið og konan fór á burt í vor og á annan bæ, en Páll varð eftir og kveðst aldrei skuli þaðan fara, hvað sem á gangi, og sagt er að þá Páll væri orðinn einn hafi hann komist í meiri kröggur. En í haust varð Páll minna var við þetta, en kona hans sá þetta oftar og óttalegra en fyrr og skal hún vera orðin sinnisveik af hræðslu. Lengra er ekki komið sögunni og ætla ég við að bæta ef eitthvað fréttist um þetta. (Þjóðsagnasafn JÁ) Áframhald skráðra þjóðsagna byggir m.a. á frásögnum Helgu konu Páls.

Í bók Árna Óla var á það minnst að til væru í handritum Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara minnispunktar á Þjóðskjalasafni Íslands, þar sem Sigfús getur þess að fjórða tilgátan um uppruna Tungu-Brests sé sú sennilegasta, en á hana sagðist Sigfús ekki geta minnst nokkru orði vegna þess að þar sé um of viðkvæmt mál að ræða í sveitinni, þar sem Brestur gerði vart við sig þ.e.a.s. á Langanesströnd.

Svo gerðist það þegar ég var að lesa bók Árna að það hóf maður störf á mínum vinnustað sem nýlega var hættur búskap á Langnesströnd og hafði búið í grennd við Kverkártungu, sem fyrir löngu er komin í eyði. Þessi maður er kominn á eftirlaunaaldur en eins og margir af hans kynslóð þá vildi hann hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni og réð sig í byggingarvinnu. Mér datt því í hug að spyrja hann hvort hann þekkti til þess hvað hefði verið svo viðkvæmt mál í hans sveit að ekki hefði mátt á það minnast í þjóðsögu.

Hann sagðist hafa heyrt ástæðu þess frá gömlum manni þegar hann hóf búskap, ungur og aðfluttur maður, í sveitinni. En í stuttu máli var hún sú að í Kverkártungu hefði drengur horfið, sem var smali en talið væri hvarf hans mætti rekja til illrar meðferðar. Hann sagði að gamli maðurinn, sem sagði honum frá þessu, hefði bent sér á staðinn þar sem drengurinn hefði verið urðaður þegar þeir voru í smalamennsku í landi Kverkártungu.

Í fyrstu efaðist ég um að þetta gætu verið réttar upplýsingar þar sem Páll hefði verið yngri bróðir drengs sem hvarf í Öxnadal og var talin hafa sætt illri meðferð sem smali. Þarna gætu eitthvað hafa blandast þjóðögur og munnmæli. (framhald)


Þorri og dagatal

 5034eb82ab9de

Í dag er bóndadagur fyrsti dagur Þorra sem er fjórði vetrarmánuðurinn og sá fyrsti af útmánuðum samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Þorri hefst á föstudegi á bilinu 19.–25. janúar og lýkur þorraþræl sem er laugardagurinn áður en góa tekur við á sunnudegi. Um bóndadag hefur m.a. verið sagt að áður fyrr hafi sú hefð verið meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður til að bjóða þorrann velkomin í bæinn eins og um tiginn gest væri að ræða. Meir að segja hefur sú saga komist á kreik að bóndinn eigi að hafa farið út fyrir bæ að morgni fyrsta dags þorra, klæddur í aðra buxnaskálmina hoppandi á öðrum fæti í kringum bæinn. Um bóndadag má kannski segja að hann sé öðrum dögum fremur dagur karlmennsku.

Tilgáta er um að þorri dragi nafn sitt af því að þverra; minnka, skerðast. Orðið þekkist einnig í færeysku sem torri og í norsku sem torre. Eldri heimildir gefa þó til kynna annan  uppruna þorrans. Fornaldarsögur norðurlanda segja frá manni sem hét Fornjótur, hann átti son sem hét Kári. Sonur Kára var Snær konungur, börn Snæs voru Þorri, Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri átti svo þrjú börn, tvo syni þeir voru Nór og Gór og dótturina Gói.

Þó svo að flestir hér á landi viti af þorranum er mér það til efa að það sé svo hjá nágrannaþjóðunum. Það kom fyrir að ég átti samræður við norska vinnufélaga mína um gamla tímatalið, þeir könnuðust ekki við það og töldu jafnvel að það væri fleipur að kenna það við norðurlönd. Svo merkilegt sem það nú var þá könnuðust vinnufélagar mínir sem voru innflytjendur í Noregi frekar við svipað tímatal.

Í kringum Valentínusardag kom eitt sinn til umræðu á milli okkar félagana hvort heimalöndin héldu upp á þann dag. Ég sagði frá konudeginum sem væru á mánaðarmótum þorra og góu sem hliðstæðum. Þá kom fram hjá Yasin sem er frá Afganistan að þar voru áramót á sama tíma og Þorri og góa mættust á Íslandi. Á sumardaginn fyrsta datt mér svo í hug að spyrja hann að því hvort þá væru mánaðarmót í Afganistan, hann gluggaði í símanum sínum og sagði „ja det gjør“.

Vinnufélagi frá Súdan sagði okkur að í hans landi væri þekkt, auk hins hefðbundna almanaks, gamalt tímatal sem væri svipað og það Afganska enda íbúar beggja landa að mestu múslímar. Sá hefur mörg nöfn, en það nafn sem hann notar er Juma, dregið af fæðingardegi hans sem er föstudagur, eða El Juma á arabísku. Í heimahéraði hans í Darfur er það til siðs að eitt af nöfnunum sem hverjum er gefið sé dregið af vikudegi fæðingar því sá dagur hafi merkingu í lífi viðkomandi.

Það er sama hvar í heiminum er þá hafa flest samfélög rambað á það að hafa vikudagana sjö talsins og mánuðina tólf. Kannski er það svo enn merkilegra að þeir eiga sér svipaðan uppruna. Eins er það athyglivert að fáar þjóðir hafa gengið lengra í að afmá goðsögur vikudagana og íslendingar með því að breyta nöfnum þeirra til veraldlegri merkingar, þó enn sé haldið í daga aftan úr grárri forneskju á við bóndadaginn.

Hér á landi var nöfnum vikudagana breytt aðallega fyrir tilverknað Jóns Ögmundssonar biskups. Á 12. öld hlutu flestir vikudagarnir þau nöfn sem notuð eru í dag. Áður voru þeir með svipuðum nöfnum og í nágrannalöndunum eða; Sunnudagur, Mánadagur, Týsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur, Freyjudagur, Lokadagur. Meir að segja var reynt að breyta hér á landi sunnudegi í drottinsdag og mánadegi í annadag.

Á norðurlöndunum eru nöfn dagana Søndag, Mandag, Tirsdag, Onsdag, Torsdag, Fredag og Lørdag, enn þann dag í dag kenndir við nöfn hinna fornu goða nema Sunnudagur og Mánudagur sem kenndir eru við himintungl. Í ensku eru dagarnir kenndir við sömu himintungl, sömu goð, í sömu röð, nema lokadagurinn - Saturday, sem kenndur er við stjörnuna Satúrnus eða rómverska goðið Saturn. Miðvikudagur sem er Wedensday á ensku var t.d. áður skrifaður Wodensday, sem Óðinsdagur.

Uppruni vikudagana um víða veröld er talinn eiga meira sammerkt en að vera sjö talsins og goðsöguleg nöfn, því goðin eru talin hafa haft sína skírskotun til himintunglanna. Það segir sig sjálft að sunnudagur er sólardagur og mánudagur er mánadagur. Það er kannski ekki skrýtið að menn hafi komist að sömu niðurstöðu um víða veröld hvað dagana varðar, með sama himinhvolf til að styðjast við, kennt þriðjudaginn við mars, miðvikudaginn við merkúr, fimmtudaginn við jupiter, föstudaginn við venus og laugardaginn við saturnus.

7 days with symbols 2 web

Einkenni dagana gætu hafa verið eitthvað á þennan veg í gegnum tíðina:

Sunnudagur til sigurs, er fyrsti dagur vikunnar / Sól, gull = Sunnudagur; uppljómun „hin skínandi“ gyðja uppljómunar, ákvarðanir, leiðandi, afl. Sólin hefur verið tilbeðin um allan heim og goð henni tengd. Ra var t.d. sólguð í fornegypskri goðafræði sem réð yfir himni og jörð. Ra var guð hádegissólarinnar, um tíma höfuðguð trúarbragða egypta.

Mánudagur til mæðu, er annar dagur vikunnar og fyrsti vinnudagur / Máni, silfur = Mánadagur; hugur, tilfinningar, hjartnæmi, samhygð. Máninn hefur ekki verið talinn álitlegur til tilbeiðslu í gegnum tíðina. Orðið „Luna“ er máninn á grísku og rót enska orðsins „lunatic“ sem gæti útlagst hugsjúkur, þýtt beint á íslensku tunglsjúkur. „Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn"(Matth 17:15)

Þriðjudagur til þrautar, er eins og nafnið gefur til kynna þriðji dagur vikunnar / Mars, járn = Týsdagur; hamingja, velferð, réttlæti, lög, tærleiki, hreysti (hin guðlegu alheimslög)lögmál náttúru. Týr er guð hernaðar, en einnig goð himins og þings. Týr er sonur Óðins. Hann var hugprúðastur og djarfastur allra ása. Stríðsmenn ristu galdrastaf hans á skefti sverða sinna. Meira um Tý ...

Miðvikudagur til moldar, hefur það í nafninu að bera upp á miðja viku / Merkúr, kvikasilfur = Óðinsdagur; vitund skilningur rökhugsun. Óðinn er æðstur goða í norrænni goðafræði, guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn birtist mönnum sem gamall eineygður förumaður í skikkju og með barðabreiðan hatt og gengur þá undir mörgum nöfnum, jafnvel má ætla að eitt þeirra hafi verið Bhúdda. Meira um Óðinn ...

Fimmtudagur til frama, er fimmti dagur vikunnar / Júpíter, tin = Þórsdagur; kraftur, þekking, viska. Þór er þrumuguð í norrænni goðafræði. Hann er sterkastur allra ása og er mest dýrkaður að fornu og nýju. Himnarnir skulfu er hann reið yfir himinhvolfið og klettar og fjöll brustu við þrumur og eldingar sem fylgdu honum, hamar hans Mjölnir er tákn þrumu og eldinga. Meira um Þór ...

Föstudagur til fjár, er dagur sem skal nota til föstu samkvæmt kaþólskum sið / Venus, kopar = Freyjudagur; ást, sköpun, laðar að fólk. Freyja er gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Freyja var valdamikil gyðja og mikið dýrkuð af konum en einnig af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar, veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Verandi ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn bæði goð og konunga sem hún studdi svo í valdatíð þeirra. Meira um Freyju ...

Laugardagur til lukku, lokadagur vikunnar, er til hreingerninga og var um tíma nefndur þvottadagur / Saturnus, blý = Lokadagur; efnishyggja, völd, veraldarhyggja. Loki var brögðóttastur allra goða, ekki hafa fundist merki þess að Loki hafi nokkurstaðar verið tilbeðinn eða dýrkaður opinberlega sem goð, enda tákn efnishyggju og undirferlis. Hnötturinn Saturnus er stundum kallaður „hringa drottinn“ tákngervingur bragða, valds og græðgi, er nafnið Satan líklega af honum dregið. Meira um Loka ...

Þó svo vikudagarnir íslensku hafi tínt sínum goðsögulega uppruna og aðeins tveir þeirra eigi enn sína stjarnfræðilegu merkingu, þá heldur bóndadagurinn lífi á íslenska dagatalinu þrátt fyrir veraldarhyggju nútímans. Umborinn enn í dag, jafnvel með blómum til að hafa einhverja meiningu, líkt og konudagurinn hafði sem fyrsti dagur góu, sem er að hverfa fyrir deginum hans Valentínusar.

Ps. Þessi pistill birtist hér á síðunni þennan dag fyrir 5 árum.

Heimildir:

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=58509

http://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/6828/24gudin-dagar-planetur-mannsheili.pdf?sequence=1

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=48074

http://www.factsbehindfaith.com/Satan-astrology.html

http://infinity-codes.net/raah/_archive(infinity-codes)/earth-codes/7-day-week.html

www.wikipedia.org


Í snjallúrið vantar Völuspá um endalok karlmennskunnar

Það ættu flestir að kannast við það úr síðasta áramótaskaupi hvað karlmenn eiga orðið erfitt með að lifa án snjallúrs. Heilsan og þetta eina líf er svo mikils viðri að rökrétt þykir að setja upp forsíðustatus með bleikri slaufu einn mánuð á ári auk þess að telja skrefin á milli blárra nagla og vera vel meðvitaður um svefninn.

Vinnufélagar mínir sem fengu snjallúr í jólagjöf báru saman tæknifídusana í úrunum sínum í byrjun árs; annar spurði hinn „hvað ert þú með í stressi?“ Eftir að hafa gluggað í snjallúrinu sínu svaraði hann „svona ca. 20 vanalega“. – „Haaa,,, bara tuttugu? Ég er venjulega með á milli 50-60,,,“; og hafði hann ekki haft hugmynd um að vera svona stressaður.

Visku mannfólksins fleytir fram um leið og hún er öll að færast í tæki. Svo er komið að síðasta kynslóðin sem hefur náttúrulega heilaburði til að keyrir bíl er að renna sitt skeið, eftirleiðis verða það að mestu fjarstýrð öryggisforrit og gps leiðsögutæki sem sjá um aksturinn í gegnum 5G. Auðvitað er þetta allt gert til að við getum haft hugann við eitthvað áhugaverðara, t.d. snjallúrið.

Þessar tækniframfarir við akstur ættu ekki að þurfa að koma nokkrum á óvart ef miðað er við hve stutt er síðan að kunnátta manna við siglingar á sjó var vædd tækjum svo ekki þyrfti að rýna í himintungl og hafstrauma. Nú er sennilega fáum orðið fært að sigla eftir fallaskiptum og stjörnum og myndu segja sem svo tækjalausir í þoku; Haah, Pétur minn hvað gerum við nú.

Sjálfur hef ég ekki ennþá eignast snjallúr, ekki einu sinni haft vit á að fá mér snjallsíma með áttavita og keyri þar að auki um á bíl frá síðustu öld eins og hver annar lúser. Og kannski ekki nema von að á mér hafi bæði dunið hjartaáföll og bílslys, en það verður nú væntanlega boðið upp á fríar bólusetningar við þessu öllu saman fljótlega.

Það er samt ekki lengra síðan en á síðustu öld að gamaldags úr urðu algeng, og þá bara til að mæla tímann í mínútum og klukkustundum. Úr á ég nú reyndar ekki heldur en einhvernvegin  hefur karlrembusvíni með hrútaskíringarnar sínar bjargast með tímann í allri hjarðhegðuninni, en varla verður það mikið lengur því nú hefur öld hrútsins runnið á enda, ásamt öllu heila feðraveldinu.

Völuspá greinir frá því að í árdaga hafi goðin gengið þannig frá tímanum að hann markaðist af skiptum sólarhringsins og gangi himintungla til þess mennirnir gætu fylgst með tímanum frá degi til dags í hinu stóra samhengi, þ.e. allt frá upphafi til ragnaraka og frá þeim í nýtt upphaf. Þar þurfti hvorki að hugsa sérstaklega um mínútur né heilsuna, ótímabær dauðdagi hetjunnar var síst talinn síðri en það að leggjast í kör.

Það sem hefur breyst í hugmyndum manna til tímans á síðari árum er að hann hefur allur verið settur á tímalínu tækninnar í stað hringekju sólarinnar. Við þetta breytast hugmyndir manna um heimsendi úr því að vera tímamót, í að verða endir alls og er þá rétt betra að tóra sem lengst. Er á meðan er þar til golunni verður geispað.

Það má sjá í Völuspá að hún greinir oft frá upphafi nýs heims og ragnarökum þess gamla. Hefur tíminn því um langt skeið verið annars vegar hringferli náttúrunnar sem lýtur umhverfi og aðstæðum, svo beinlínuferli sem lýtur fæðingu og dauða einstaklingsins sem aðstæðurnar byggir og  nýtir, - eða eru það kannski öfugt, eru það aðstæðurnar sem nýta einstaklinginn. Þetta eru allavega sá mælikvarði tímans sem hafur gilt á tímum hrútaskýringanna.

Það getur verið auðveldara að gera sér grein fyrir hugmyndum um rás tímans með því að fara hann afturá bak. Og þá hvernig mennirnir breyta mörkum hans. Enda tíminn ekki annað en mælieining mannanna byggð á takmörkunum goðanna í öndverðu. Þessa mælieining hefur verið notað til að breyta upplifun mannsins á heiminum.

Í bók Tryggva Emilssonar, Baráttan um brauðið, er athyglisverð lýsing á því hvernig tímarnir breyttust 1940 við það að Breski herinn kom til Akureyrar. Þó svo Tryggvi lýsi vel hversu áhrifamikil breytingin var á tíðarandanum þá sýnir hún jafnframt, þó svo framtíð almúgans yrði miklum mun óráðnari en áður, að samt mátti lesa framtíðar tilganginn, allavega eftir á, úr atburðinum sem hann lýsir:

"Fyrstu setuliðsdagana var nokkur spenna í lofti. Enginn vissi lengra nefi sínu hvað allt þetta átti að þýða í samtímanum, hvað þá að menn sæju fetinu lengra fram í tímann. Spámenn setti hljóða, hvorki veðurlag eða draumar sögðu fyrir hvað koma mundi og ekki var mark takandi á framferði hunda eða hrafna. Tíminn, sem var því vanur að líða í vissum áföngum, hljóp úr öllum skorðum og varð helst miðaður við stríðsfréttir, eða hver spyr um sauðburð eða sláttarbyrjun eða réttir að miða barnsfæðingar við? Tunglkomur og önnur stórmerki á himni, nema sólin, týndust í rás þessa nýja tíma."

Sagt er að nútímamanneskjunni berist fleiri möguleikar á einum degi en fólki í upphafi 19. aldar stóð til boða á 7-8 ára tímabili og við hvert svar sem fáist við spurningu vakni tvær nýjar. Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á athyglisgáfu fólks, sem komist að þeirri niðurstöðu að fólk hefði misst mestan hluta tíma síns til að draga ályktanir. Þetta gerist vegna stóraukinna upplýsinga, sem allar byggja á viskunni aftur á bak.

Svo höldum áfram niður tímaspíralinn eða aftur á bak tímalínuna. Mikil tímamót urðu um 1930 þegar Ríkisútvarpið tók til starfa og hafði aðal fréttatíma sinn og veðurfregnir ásamt tímamerki í hádeginu. Fram að þeim tíma hafði fólk farið eftir stöðu sólar með matmálstíma, og tekið mið af skýjafari og hegðun dýra hvað veðrið varðaði.

Á sumrin þegar hendur þurftu að standa fram úr ermum voru fjórar máltíðir á dag. Algengt var að klukkan 8-9 væri morgunnmatur, næsta máltíð „skatturinn“, var kl 12-1. Miðdegismaturinn var aðalmáltíðin kl 4-5, kvöldmaturinn var lítil máltíð kl 9. Þessi skipan máltíða er enn í Noregi, en tók að breytast á Íslandi með tilkomu ríkisútvarpsins.

Fram eftir 20. öldinni þurfti klukkan ekki að vera það sama um allt land heldur tók hún mið af stöðu sólar á hverjum stað og stundum bara eftir því hvað hentaði. Klukkur urðu ekki almennar á Íslandi fyrr en á 19. öld fram að þeim tíma mældu menn tímann að ævafornum hætti eftir stöðu sólar á himni og hvernig hana bar við tiltekna staði í nágrenninu. Hver bær átti sín eyktarmörk, sem tíminn var miðaður við, með aðferðum allt frá því á landnámsöld, því eru til Hádegis- og Nóntindar víða um land.

Völuspá greinir reyndar ekki frá þessum smávægilegu breytingum manna við að mæla eða hafa áhrif á tímann heldur hinum stóru aldahvörfum himintunglanna, hún er í ætt við tímatal Maja Mið-Ameríku. Níu man ég heima segir Völvan snemma í þulu sinni þegar hún hefur þrætt tímann aftur á bak um stund. Síðan lýsir hún heimsmynd goða, tilurð fyrsta mannfólksins, Asks og Emblu, ragnarökum ása og manna, og að ragnarökum afloknum endurkomu Baldurs og Haðar sem voru saklausir ljúflingar í Ásgarði.

Völuspá greinir frá heimsmynd sem var á fallandi fæti við landnám Íslands þegar heiðnir menn, sem enn dvöldu á tíma goða ákváðu að setja upp þjóðveldi á Íslandi, vegna þess að þeir gátu ekki unað við hrútaskýringar miðstýrðs konungsvalds sem hafði tekið heimsmynd Rómar upp á sína arma með sitt feðraveldi og línulegu mannsævi.

Skömmu fyrir fæðingu frelsarans hafði heimurinn snúist úr öld hrútsins inn í stjörnumerki  fiskanna með endalokum blóðhefndarinnar sem laut sæmd Valhallar byggðri á fyrr um níu heimum og við tóku kristilegri viðmið, - með jarðlífinu, himnaríki og helvíti. Völuspá lýsir þessum tímamótum með ragnarökum í goðheimum og í framhaldi ragnarökum heims Asks og Emblu sem goðin blésu lífs af sínum heimi.

Fræðimönnum hefur gengið misjafnlega að staðsetja boðskap Völuspár í tíma, hvort hún lýsi heiðinni heimsmynd eða kristinni. Nærtækast er að ætla að hún lýsi þeim báðum (þ.m.t, öld hrútsins) og gefi í skin níu þar fyrir framan. Það er varla tilviljun að Ásgarðs goðin blása lífi í Ask og Emblu á svipaðan hátt og Adam og Eva eru til í Biblíu Rómarkirkjunnar.

Völuspá lýsir í lokin nýjum heimi þar sem gullið eitt mun lýsa í heiminum; Sal sér hún standa sólu fegri, gulli þakin á Gimlé: Þar skulu dyggar dróttir byggja og um aldurdaga yndis njóta. Ekki er um að villast að nýrri heimsmynd er lýst, sem við tekur eftir ragnarök og heimurinn er einn salur hagvaxtarins. Þar eru gull og dyggar dróttir lykilorðin.

Endalokum karlmennskunnar, eins og við þekkjum hana, er skilmerkilega lýst í ragnarökum  Völuspár og eru um upphaf þeirra óskapa hafðar þær hendingar sem best eru kunnar úr þulunni; Bræður munu berjast og að bönum verða, munu systrungar sifjum spilla; hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir munu klofnir, vindöld, vargöld, áður en veröld steypist; mun engin maður öðrum þyrma.

Meetoo tók við af hrútaskýringunum þegar siglt var inn öld vatnsberans, að sagt er í ársbyrjun 2019. Varla hefur farið fram hjá nokkrum að á s.l. ári var jafnlaunavottun með lögleiddum kynjahalla innleidd í allt regluverk, og eru afleiðingarnar þegar farnar að líta dagsljósið með tugmilljóna bótum til þeirra drótta sem á hefur verið brotið með lögmálum sem áttu við á fyrri öldum. Þarf þessi nýi heimur þá að koma á óvart, eða hvað?

Völuspá greinir nákvæmlega frá því undir lok þulunnar hvernig nýr heimur rís, sem dyggar dróttir byggja, með þeim bræðrum Baldri og Heði sem saklausastir voru meðal goða Munu ósánir akrar vaxa, böl mun allt batna, Baldur mun koma; búa þeir Höður og Baldur Hrofts sigtóftir vel, valtívar, vitið þér enn, eða hvað?

Tíminn er endanlega kominn á línu í mannheimi og þarf ekki lengur goðsagna og sólarinnar við, akrar náttúrunnar munu vaxa án hringferlis árstíðanna, þess sjást nú þegar merki í gróðurhúsarækt og verkssmiðjubúskap. Framtíð karlmennskunnar verður í líki Baldurs og Haðar, sem voru saklausir synir stríðandi goða, harmdauði allra.

Blóðhefndin var afnumin með lögmáli sem tóku við í lok aldar hrútsins, sem lauk fyrir rúmum 2000 árum og fiskarnir eru nú að líða undir lok. Í upphafi aldar vatnsberans hefur dauðdagi hetjunnar endanlega horfið á braut. Bleikar slaufur, bleyjuskipti og snjallúrið verða eftirleiðis viðfangsefni karlmennskunnar.

En rétt eins og á þeim orðunum sem Völuspá líkur, þá mun hið næsta óþarfa hringferli sólar og himintungla hafa sinn vana gang; Þar kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; ber sér í fjöðrum, flýgur völl yfir, Níðhöggur nái, nú mun hún sökkvast.


Þarfasti þjónninn - farskjóti og félagi

Það má segja að fyrir nokkrum árum hafi ástæða þessa pistils bankað óvænt upp á dyrnar úti við ysta haf. En þá gerði erlendur túristi sig heimakominn og sagðist vera með tvær spurningar. Sú fyrri var hvers vegna fáni Jamaica með mynd af Bob Marley og áletruninni freedom blakti uppi í flaggstönginni minni. Honum léki forvitni á þessu, hann væri nefnilega sjálfur frá Jamaica. Þessari spurningu gat ég svarða greiðlega. Fáninn væri flottur, tónlist Bob Marley alveg einstök og marga textana hans hefði ég fyrst skilið þegar ég fékk örlitla innsýn sögu Jamaica.

Þá vildi hann vita vegna hvers allstaðar mætti sjá hesta hvar sem farið væri um Ísland. Hvort þeir hefðu einhvern tilgang? Þessarar spurningar hafði hann verið beðin að spyrja fyrir konuna sína sem sat úti í bíl, og hafði orðið var við það að ef var stoppað til að skoða þá komu þeir og heilsuðu kumpánlega upp á þau. Mér vafðist heldur betur tunga um tönn, en þvældi mig svo svo loks út úr spurningunni á þann veg að að ég vissi ekki betur en hestarnir hefðu verið hérna svo lengi sem menn myndu og þeir hefðu fyrir skemmstu verið kallaðir þarfasti þjónninn.

 IMG_1933

Bændur á ferð við Lómagnúp á Skeiðarársandi

"Óvíða á Jörð vorri hefur hesturinn gegnt jafn mikilvægu hlutverki og á Íslandi. Hesturinn var yfirleitt svo mjög mikils metinn að ég hef hvergi komið, þar sem hann var í slíkum hávegum hafður, - nema ef vera skyldi meðal Araba eða kósakka. Vitnisburður um þetta eru ákvæði í fornum lögum, Grágás og Jónsbók. Varla hefur nokkur önnur þjóð á líku menningarstigi sett sér svo frábær lög, og naumast nokkurstaðar í heimi tekur löggjöfin slíkt tillit til hesta og reiðmanna sem á Íslandi."

Svona komst Daniel Bruun að orði fyrir rúmum 100 árum um hug Íslendinga til hestsins. Þessi danski herforingi sem ferðaðist víða um heim, og um landið þvert og endilangt árum saman, átti naumast orð til að lýsa aðdáun sinni á Íslenska hestinum. Um þetta má lesa í bókunum Íslenskt Þjóðlíf í þúsund ár sem bókaútgáfan Örn og Örlygur gaf út um ferðir Bruun á Íslandi.

Þekking Daniels Bruun á ferðalögum um landið og íslenska hestinum var gríðarleg. Um hestinn segir hann m.a. í riti sínu Hesten í Nordboerenes Tjeneste; „Íslenski hesturinn er allmjög loðinn, lítill vexti og fremur ósjálegur, en hefur til að bera þol og nægjusemi umfram flesta aðra hesta í heimi. ...Reiðhestur, sem þarf að geta borið húsbónda sinn fljótt og örugglega á milli staða, verður að vera vanur að fara um hverskonar land og vegleysur, yfir straumharðar ár, hraunbreiður, grjót og urðarfláka, meðfram hengiflugum, yfir fen og forræði, og það engu að síður þó að landið sé hulið snjó. Hann hlýtur að vera harðgerður til að þola hið óblíða veðurfar, þolinn og fljótur á fæti til að komast hinar miklu vegalengdir á tiltölulega skömmum tíma. Og hann hefur alla þessa eiginleika. Hann er hinn óaðskiljanlegi förunautur íslenska bóndans fremur en nokkurt húsdýr hvar sem væri í heiminum, því án hans kemst hann ekkert. Hundurinn og hesturinn eru hinir tryggu förunautar hans.

Það er fullkomlega óskiljanlegt hversu þolnir og sterkir þessir litlu hestar eru. Þeir bera þungan mann allan daginn eins og ekkert sé, hvað sem á dynur, og þá ekki síður aðdáunarvert, hvernig þeir komast yfir árnar með þungar klyfjar á baki.“ Hann getur þess að hestur hafi synt yfir eina af stórám landsins um 200 faðma (120 m) breiða með dauðadrukkinn mann á baki, segist hafa séð, hvernig hestar beri menn ósjálfbjarga af drykkju. Aðdáun Bruun á íslenska hestinum er takmarkalaus. 

IMG_1885 

Skagfirðingurinn Indriði Árnason í Gilhaga var leiðsögumaður í leiðangri Bruun yfir Kjöl 1898, þó svo að hann væri komin fast að sjötugu. Hér fara þeir félagarnir á vaði yfir Svartá. Daniel Bruun þótti mikið til koma að verða vitni að samvinnu manns, hests og hunds

Daniel Bruun fór um Austur Skaftafellssýslu ásamt dönskum landmælingamönnum 1902. Ferð þeirra hófst í Hornafirði þar sem þeir nutu leiðsagnar og þjónustu heimamanna.  Landmælingamenn fóru með mælitæki á hestum upp á Vatnajökul, dvöldust í Öræfum, og eins og flest það sem Bruun varð áskynja um skrifaði hann niður og lýsti, samferðamönnum ásamt öllu því sem fyrir augu bar. Lýsing hans á upphafi þessarar ferðar er um margt mögnuð.

Það lá þokumóða yfir sléttlendinu. Aftur var orðið hlýtt í veðri, hestar og menn, hæðir og hólar dönsuðu í tíbránni, þokan lá yfir jöklinum fram eftir deginum. Sólin skein, og allt umhverfis minnti mig á dag í Sahara, þegar Arabarnir voru að leggja á stað með úlfaldalestir sínar. Eftir öllu er litið, og klyfjar reyrðar fastar. Eftir langar ráðslagnir, flutning á klyfjum milli hesta, spörk og högg, mótaðist úr allri þvögunni löng halarófa, þar sem höfðingjarnir, hreppstjórinn og trúnaðarmenn hans, fóru á undan og ræddu saman, en á eftir þeim komu fylgdarmennirnir, hver með sína 3-4 hesta bundna í lest. Eftir allan hávaðan og þysinn, meðan var verið að komast af stað, kom undarleg kyrrð, sem ekkert rauf, nema höggin þegar járnstengurnar slógust í stein eða klyfjahestarnir neru sér hver utan í annan.

Við fórum brátt yfir ána, sem ég fór yfir fyrir þremur vikum, þá var hún aðeins lækur, sem naggraði niður í grjóti, en nú fossandi jökulflaumur. Numið er staðar til að líta eftir að allt sé í lagi. Hver maður verður að hafa skipan á sínum hestum. Tveir leiðsögumenn fara á undan til að velja vaðið. Vatnið nær hestunum í kvið og gusast upp með síðunum. Lítilsháttar sandbleyta er í botni, en annars gengur allt greiðlega. Áfram er haldið, öruggt en hægt, fyrst lítið eitt undan straumi, síðan í sveig í átt að bakkanum fyrir handan. Það er fögur sjón að líta þessa löngu lest þræða vaðið í ánni. 

Þegar skrif Bruun um íslenska hestinn eru lesin þá dregur hann fram hversu stórt hlutverk hann hafði á meðal landsmanna allt frá landnámi. Það er ekki einungis svo að hann hafi verið þarfasti þjónn sem farartæki, vinnuvél og til matar. Hesturinn hafði áður bæði verið heilagur og hirð fífl, og verður þar það síðara auð skiljanlegt í íslenska máltækinu "að leiða saman hesta sína" en þar var upphaflega átt við hestaat.

IMGP2342

Vér höfum heyrt að það var ekki aðeins við greftranir, sem hestar voru felldir og þeim fórnað til að fylgja eiganda sínum í haug hans, heldur var þeim eigi síður fórnað við hinar miklu blótveislur, er haldnar voru í hofunum í heiðni. Um það atriði er fjöldi vitnisburða, einkum þó í Noregi og Svíþjóð, og á Íslandi er þess oftlega getið að hrossaket var etið í blótveislum og hefur hestunum vafalítið verið fórnað goðunum til handa.

Árið 1880 fann Sigurður Vigfússon hrossatennur í ösku frá blóthúsinu á Þyrli í Hvalfirði. Sama gerði ég, er ég gróf í hof Þorgeirs að Ljósavatni 1896. Líkt var að finna í hofinu á Hofstöðum og í Hörgum í Hörgárdal. Það hvílir því naumast vafi á að á Íslandi hafa menn blótað hestum í heiðni á líkan hátt og annarsstaðar á Norðurlöndum.

Hestar voru gefnir guðunum. - Á Aðalbóli í Hrafnkelsdal var hestur gefin Frey, og öll Hrafnkels saga Freysgoða snýst um þennan hest. Smalinn reið hinum helga hesti í banni húsbónda síns, Hrafnkels, sem drap smalann fyrir verknaðinn. Hestinum var síðan fargað með því að hrinda honum fram af hamri. Mér var sýndur staðurinn 1901.

Rétt eins og Spánverjar hafa nautaöt, svo efndu Íslendingar fyrrum til hestavíga. Og á sama hátt og ákaflyndi hinna blóðheitu Suðurlandabúa blossar upp þegar nautaatið er í algleymingi, svo gáfu og hestavíg Íslendinga í fornöld og lengi síðan tilefni til geðofsa og taumleysi Norðurlandabúans braust fram í hömlulausum áflogum, blóðsúthellingum og mannvígum og morðum, sem allt sigldi í kjölfar hestavíganna meðal þeirra, sem hlut áttu að máli, eða höfðu hug á leiknum.

Oftsinnis snerti þetta ekki aðeins einstaklinga heldur hlutu heilu ættir að taka afleiðingunum af illyrðum, barsmíðum og banahöggum, sem féllu til í hita leiksins sem ýmist var nefndur hestaþing, hestaat eða hestavíg. Drengskaparskylda Íslendinga bauð þeim að hefna sérhverrar móðgunar, annaðhvort á þeim, sem móðgunina framdi, eða frændum hans.

- Nú efna menn ekki lengur til slíkra leika, en gefist tækifæri til að sjá hesta bítast, láta Íslendingar ekki ganga sér úr greipum að horfa á það. - Þegar ég var á ferð í Skagafirði 1896 heimsótti ég séra Hallgrím Thorlacius í Glaumbæ. En hann er hestamaður og tamningamaður mikill og átti alls 150 hross, sem gengu sjálfala á útigangi. Reiðhestar Skagfirðinga voru landskunnir fyrir dug, fjör og þol. Það var því ósjaldan þar í sveit að graðfolarnir bitust í haganum. - Áhorfendur streymdu þá að og fylgdust fullir áhuga með bardaganum og hvernig honum lyki, án þess að reyna að skilja áflogagarpana.

IMG_1929

Ferðafólk á leið til Reykjavíkur

En hvaðan kemur svo þessi smái undrahestur til Íslands? Sagt er að landið sé numið af fólki frá Noregi og Bretlandseyjum. Daniel Bruun nefnir bæði Noreg og Bretland sem upprunalönd hestsins. Miklar rannsóknir á innbyrðis skyldleika hestakynja í Noregi, Bretlandi og íslenska hestsins hafa nú farið fram og er sambærilegan hest ekki lengur þar að finna.  Íslenski hesturinn er samt skyldur Nordland/Lyngen-hestinum í Noregi auk Hjaltlandseyja hestinum. Víkingar frá Noregi lögðu Hjaltlandseyjar undir sig fyrir skráð landnám Íslands svo það þarf varla að koma á óvart.

Svarið við spurningunum um uppruna íslenska hestsins er að hann er ættaður frá Noregi og á þaðan erfðafræðilegar rætur að rekja austur á gresjur Mongólíu. Og er þá ekki ósennilegt að það fólk sem nam Ísland hafi komið upphaflega frá Svartahafi til Norðurlanda og þaðan til Íslands eins og má lesa um í þeim ritum um goðafræðina, sem kennd eru við Snorra Sturluson. Samkvæmt Völsungasögu átti þetta fólk í sambandi við Atla Húnakonung og er þá spurning hvort hesturinn tengist jafnvel eitthvað þeim viðskiptum.

Bruun gat endalaust dásamað þennan goðsagnakennda hest sem hann notaðist við til ferðalaga á Íslandi. Það var ekki svo að Bruun væri ekki góðum hestum vanur, búinn að ferðast víða í Afríku og Asíu, jafnvel um Sahara á arabískum gæðingum, enda kom hann oft inn á það að íslenski hesturinn væri lítill, loðinn og frekar ósjálegur. Það eru samt þessar nákvæmu lýsingar á samspili manns og hests á Íslandi sem gefa svo mikla innsýn í Íslenskt þjóðlíf fyrri tíma.

Íslendingar eru svo vanir að líta á hestinn sem nauðsynlegt hjálpartæki í daglegu lífi að þeir fara ríðandi, þó ekki sé nema um stuttan spöl að ræða. Þess vegna er sjaldgæft að mæta gangandi mönnum, þegar komið er út fyrir túnin á bæjunum. Ég hef jafnvel séð krakka á hestbaki í smalamennsku fjarri bæjum. Fyrsta ferðalagið fer barnið helst á reiðhesti móður sinnar í kjöltu hennar, þegar það stækkar er það bundið í söðul. - Í stuttumáli sagt er hesturinn manninum óaðskiljanlegur frá vöggu til grafar. Eins og fyrsta ferðin hans var á hestbaki, svo er og síðasta ferð öldungsins, því þegar kista hans er borin til grafar frá heimili til kirkjunnar, er hún annaðhvort flutt þversum á reiðingi eða á kviktrjám milli tveggja hesta.

Áburðarhestarnir íslensku eru ekki síður þolnir og sterkir en reiðhestarnir, en þeir eru fjörminni. Þeir eru notaðir til hverskonar flutninga á kaupstaðarvarningi, byggingarefni, heyi osfv. Þeir eru Íslendingum ekki síður lífsnauðsyn en reiðhesturinn, en meðferðin á þeim er langt um verri. Á vetrum eru þeir látnir sjá fyrir sér á útigangi, en á sumrum hljóta þeir að vera vikum saman á ferð dag eftir dag, og mílu eftir mílu. Það er auðskilið mál að slíkir flutningar þreyta hestana mjög, en áburðarhestar geta dag frá degi vikum saman borið 100-150 kg þungar klyfjar. Það er ekki síður margt að gera heima fyrir. Hey af túni og engjum, sem aflað er til vetrarfóðurs, er allt flutt heim á hestum. reiða þarf áburð á túnin og yfirleitt nota hesta til allra flutninga stórra og smárra.

IMG_1924

Stúlka með heybandslest

Hér að ofan hefur ótæpilega verið vitnað í Daníel Bruun, vonandi fyrirgefst mér það, enda væri þessi pistill hvorki fugl né fiskur án þess, hvað þá um hesta. Því sjálfur hef ég svipaða reynslu af hestum og Jamaica túristi, fyrir utan að hafa fengið að sitja Golu berbakt sem polli í sveitinni hjá ömmu og afa.

Það voru fleiri útlendingar en Daninn Daniel Bruun sem áttaði sig á sérstöðu hestsins á Íslandi. Þjóðverjarnir Hanz Kuhn, Reinhard Prinz og Bruno Schweizer fóru um landið á fyrri hluta 20. aldar, í kjölfar Bruun og fylgdust með hvernig landsmenn stukku inn í nútímann. Bókaforlagið Örn og Örlygur gaf út árið 2003 þrjú bindi Úr torfbæjum inn í tækniöld, sem segir frá ferðum þjóðverjanna. Formála bókanna Úr torfbæjum inn í tækniöld er fylgt úr hlaði m.a. með þessum orðum.

Íslendingar voru opnir fyrir nýjungum og fljótir að kasta fyrir róða gömlum tækjum og tólum. Hanz Kuhn veitti þessu athygli og skrifaði 1932; „Á Íslandi tekur bíllinn beint við af reiðhestum og áburðarklárum - hestvagnatímabilinu byrjaði að ljúka skömmu eftir að það hófst. Togarar taka beint við af opnum árabátum, steinsteypan af torfinu, gervisilki af vaðmáli og stálbitabrýr í stað hesta sem syntu yfir jökulvötn.“ þannig lauk þúsund ára þjónustu þarafasta þjónsins svo til á einni nóttu. 

IMG_1689

Landar sem ég rakst á í Færeyjum á ferð með Færeyskri valkyrju. Íslenski hesturinn hefur skapað sér vinsældir víða um heim fyrir að vera einstakur félagi. En eftir að þessi höfðingi hefur einu sinni yfirgefið ættlandið á hann þangað aldrei afturkvæmt

 

 Félagar

Í heimahögunum. Finnist einhverjum að of mikið sé um hesta í landinu þá eru þeir sennilega frekar fáséðir miðað við hvað áður var

 

 IMG_3352

Íslenski hesturinn er sem fyrr smávaxinn og loðinn á vetrum. Kostir hans; þol, þróttur og nægjusemi eru enn til staðar. Hann er einnig með afbrigðum fótviss með sínar fimm gangtegundir. Hann skartar 40 grunnlitum og hundrað litaafbrigðum

 

IMG_1921


Mögnuð manía

Sinn er siðurinn í hverju landi. Um Færeyinga er stundum sagt að hjá þeim sé alltaf nægur tími og ef þeir verði dagþrota þá komi bara meiri tími á morgunn. Annað virðist eiga við um landann þar virðist máltækið „er á meðan er“ gilda í einu og öllu þegar tími er annars vegar.

Þetta Íslenska viðhorf má greina við að lesa bókina um Halaveðrið mikla. Í þessu aftaka veðri fórust 79 manns á Íslandi þ.a. 74 til sjós. Í bókinni kemur fram að togarinn Leifur heppni, sem fórst með allir áhöfn, var að veiðum eftir að veðrið var skollið á og þótti það eðlilegt því að hann var að afla. Eins segir frá því að áhöfnin á togaranum Jóni forseta hafi gert tilraun til að halda áfram veiðum eftir að veðrið gekk niður. Skipið var þá mikið laskað eins og allur togaraflotinn sem hafði verið á Halanum, og kominn var -eða á leið í land óhaffær.

Þegar ég var í Noregi upplifði ég svo þriðju útgáfuna af tímanum, en þar er hann þræl skipulagður, öfugt við okkur afleggjarana í Færeyjum og á Íslandi. Oft var ég spurður af vinnufélögum hvað ég ætlaði að gera um helgina og voru þá sportgöngutúrar umræðuefnið. Ég var aldrei með neitt plan og sagði þeim að það færi alveg eftir skýjafari þann daginn hvort ég færi upp á Gangsástoppinn eða Hinntindinn og aldrei þýddi neitt fyrir þá að fá þennan óskipulega Íslending með sér nema sama dag og sást til sólar.

Þessi munur á frændþjóðunum kom einu sinni til tals við Færeyska kunningjakonu, sem búið hefur á Íslandi mest alla ævi. Taldi ég að skýringin á muni þjóðanna lægi í því að á landinu bláa væri ekki hægt að skipuleggja neitt vegna veðurs og náttúruhamfara. Þess vegna stæðu hendur fram úr ermum á Íslandi þegar aflaðist. Hún sagði þetta ekki vera góða skýringu hjá mér því að Færeyingar væru bæði aflaklær og byggju við válind veður en þetta hamslausa æði væri samt ekki inngróið í þeirra þjóðarsál, því þeir vissu að það aflaðist líka á morgunn.

Nú er svo komið hér á landi að fólk fer jafnvel hamförum í frístundum. Æðir á fjöll með skrefamælandi snjallúrið og símann jafnvel í lágskýjuðu. Það hefur varla farið framhjá neinum að veðurfarið hefur verið dyntótt undanfarið, eða eins og fjölmiðlarnir segja; fylgist með lægðinni í beinni. Eins hefur ítrekað verið leitað að fólki eða aðstoðað vegna ófærðar af hetjum í sjálfboðavinnu. Eitthvað sem flestir hefðu forðast látið um sig spyrjast nema að þeir væru að afla hér áður fyrr.

Þann 28. desember s.l. voru björgunarsveitir kallaðar út til að sækja fótbrotinn leiðsögumann á miðjum aldri upp á Breiðamerkurjökul. Það virðast vera farnar sporttúrar á þennan viðsjálfverða jökul af þeim sem ekki geta látið sér nægja að valhoppa á milli ísjakana á Jökulsárlóni í skammdegisskímunni. Konu var leitað í Esjunni núna í byrjun vikunnar af björgunarsveitum og þyrlu  landhelgisgæslunnar. Og svo var það núna um miðja vikuna sem ferðaþjónustu fyrirtæki leitaði aðstoðar björgunarsveita eftir að hafa lent í lífsháska með 39 ferðamenn við Langjökul, eins og landsfrægt er orðið. Aflamenn nútímans gera orðið út á sportferðamenn sem hafi minna en hundsvit á íslenskri ótíð og jafnvel ekki vit á að fylgjast með lægðinni í beinni.

Núna í vikunni hefur þeim sem „öfluðu mest“ því sem næst verið drekkt í fúkyrðum í öllum fjölmiðlum landsins. Stukku þar margir á vagninn, þar á meðal öryrki sem hafði fyrr í vikunni verið í fréttum fyrir að þiggja 20 milljóna króna bætur fyrir að þurfa ekki að mæta í vinnuna sem þjóðgarðsstjóri. Mátti helst skilja á frétt að kelling á sjötugsaldri hafi farið björgunarleiðangur upp undir Langjökul og bjargað 39 ferðamönnum ásamt öðrum hetjum í sjálfboðavinnu.

Verst þótti þeirri gömlu hvernig gráðugu aflamennirnir fóru með börnin, sem biðu þessarar lífsreynslu sennilega aldrei bætur. Kannski hefði hún átt að hugsa til blessaðra barannanna sem helferðarhyskið bar út af þúsundum heimila um árið með hennar stuðningi. Lágkúra lægðarinnar í beinni náði svo hámarki þegar dúkkulýsan í ferðamálaráðaneytinu lét draga sig út á tún í skítadreifaranum til að sparka í eina mjólkurkúna.

Þeim ræksnunum hefði verið nær að baða sig í sviðsljósinu með því að tilkynna að þær hefðu orðið einhuga um að 20 milljón króna örorkubætur vegna þjóðgarðsvörslunnar rynnu til björgunarsveitanna.


Manngerðar hamfarir

Það sagði mér maður, að eftir óveðrið, sem gekk yfir fyrir tæpum mánuði, hefði komið í ljós að ástæða hins víðtæka rafmagnsleysis væri sú að maðurinn með vasahnífinn hefði verið skorinn niður. Þetta hafði hann eftir reynsluboltum sem unnu sólahringum saman á vettvangi hamfaranna, en létu ekki ljós sitt skína í fjölmiðlum.

Rafmagnseftirlit ríkisins hafði m.a. það hlutverk að ganga reglulega með rafmagnslínum og kanna ástand þeirra. Þar á meðal með því að bora vasahníf í staurana sem halda línunum uppi og kanna hvort þeir væru farnir að fúna þannig að hægt væri að skipta þeim út í tíma. Þessa sumarlöngu göngutúra gengu allavega tveir æskufélagar mínir á sínum skólaárum fyrir meira en 40 árum, ásamt manninum með vasahnífinn, sem þá heyrði undir Rarik.

Nú eru tímarnir breyttir og þegar 1. og 2. orkupakkinn komu í dagsljósið var ekki talin þörf lengur á manninum með vasahnífinn, enda markmið orkuframleiðslu og dreifingar að skila arði til eigenda sinna en ekki greiða fyrir göngutúra. Áður fyrr var þetta sem sagt tiltölulega einfalt, eftirlitið með raflínum ríkisins sem fluttu rafmagni ríkisins til íbúa ríkisins var ríkisins.

Í flóknum umhverfi nútímans sjá tæknimenntaðir menn um þetta eftirlit úr fjarlægð með drónaflugi þegar þeir skjótast á góðviðrisdegi út úr annríki skrifstofunnar, rýnandi í myndskjá og er þá vasahnífur talinn óþarfur. En hátæknimenntun á snjallsíma, drónar og orkupakkar breyta ekki því að innviðir tréstaura halda áfram að fúna og því aumkunarvert að heyra tæknimalandi talsmenn orkufyrirtækja og þjóðkjörna verndara innviða kenna landeigendum um þegar vasahnífurinn er sparaður.

Þó svo að það komi þessu ekki beint við,- og þó,- þá var í Fréttablaðinu um helgina snjallorður pistill Guðrúnar Arnbjargar Óttarsdóttir skrifstofustjóra fjármálasviðs Rarik á Suðurlandi. Þar kemur hún inn á í örfáum orðum hvað snýr að fólki út í hinum dreifðu byggðum landsins, annað en rafmagns- og snjallsímaleysi í aftakaveðrum auk skilningsleysisins fyrir notagildi vasahnífsins. Hún segir;

"Það sem gerir þjóð að þjóð er arfleið, saga og menning. Þjóðgarður er gildishlaðið orð sem vekur upp þjóðerniskennd og stolt og það gerir orðið þjóðgarður líka. En þjóðgarður er ekki allur þar sem hann sýnist. Þegar landsvæði er breytt í þjóðgarð er ekki verið að búa til garð þjóðarinnar né hugsa um afleiðingar fyrir þjóðina og enn síður almenna búsetu í dreifðari byggðum landsins."

Þarna hittir höfundur naglann lóð beint á höfuðið því Þjóðgarður er fyrir flesta aðra en þjóðina sem við hann býr. Nafngiftin virðist vera meira notuð til að slá vopnin úr höndum þeirra sem láta sig þjóðarhagsmuni varða, af fólki sem möndlar keisið annað hvort af litlum skilningi eða í allt öðrum tilgangi. Guðrún heldur áfram að hamra stálið á fleiri sviðum, eða kannski snúa hnífnum í sárinu eftir því hvernig á það er litið;

"Náttúran er orðin söluvara í ferðamannabransanum. Sveitarfélög hafa til þessa haft skipulagsvald á hálendinu og haft hemil á átroðningi en með stofnun þjóðgarðs verður það tekið frá þeim. Við hér í dreifðum byggðum landsins missum forsjána, en vissulega er hálendið auðlind þjóðarinnar, líkt og kvótinn sem var hreinsaður af landsbyggðinni og skildi eftir auð þorp og atvinnuleysi."

Þannig er nú komið að sveitarstjórnarfólk hefur verið upptekið við það undanfarna þrjá áratugi að sameina sveitarfélög með þá glapsýn að leiðarljósi að til verði öflugri "stjórnsýslueiningar" (já hugsið ykkur eitt andartak óskapnað orðskrípisins stjórnsýslueining). En þar virðast eiga að standa ein eftir öfugmælin, ásamt sveitastjórnarfólki sem ekki hefur hundsvit á sínu nánasta umhverfi í víðáttum víðfermisins, innanum alla sérfræðingana. Einnig kemur fram í grein Guðrúnar;

"Bændur hafa í gegnum tíðina nýtt hálendið til beitar fyrir fé sitt vegna þess að tún dugðu með naumindum fyrir vetrarforða. Sauðfjárrækt hélt lífi í okkur Íslendingum fyrr á öldum, háð duttlungum náttúrunnar, en nú þykir torfkofabúskapur ekki smart."

Eftir að hafa búið í síðasta bænum í dalnum svo til heila mannsævi þá get ég ekki annað en tekið undir lokaorð Guðrúnar Arnbjargar og gert þau að mínum, þó svo að ég eigi ekki von á að á þau verði hlustað nú frekar fyrri daginn;

"Ég skora á íbúa sveitarfélaga og sveitarstjórnir landsins að vakna úr dvala, halda forsjá í heimabyggð og standa vörð um atvinnumöguleika á sínu svæði, auðlindir þjóðarinnar og hagsmuni okkar allra."

Ágæta greini Guðrúnar Arnbjargar má lesa í heild sinni hér.


Þjóðkirkja í þúsund ár

 IMG_5392 

Sumarið 1901 fór Daniel Bruun um Austurland, stundaði fornleifarannsóknir og ferðaðist um öræfin norðan Vatnajökuls. Um ferð sína skrifaði hann ferðasögu "Ved Vatnajökuls Nordland", þar segir m.a. þetta; „Stutt var það tímabil, sem Íslendingar voru grafnir að heiðnum sið, aðeins 125 ár, því eftir kristnitöku á alþingi árið 1000, var enginn lagður skartklæddur í haug með dýrgripum sínum, skrauti, vopnum, hestum og hundum.

Eftir það var aðeins blótað á laun á stöku stað og Þór og Freyr lítt færðar fórnir. Kirkjurnar komu í stað hofanna og klukkur hringdu til tíða, þar sem fjöll höfðu fyrr bergmálað baulan og gnegg blótpeningsins. En jafnvel þótt ásatrúin gamla hefði þannig – af stjórnmálalegum skynsemisástæðum – opinberlega vikið fyrir hinum nýja milda sið, ríkti engu að síður andi víkingatímans meðal þess óstýriláta, stríðaglaða fólks, með blóðhefndina í öndvegi, en lög sæmdarinnar lituðust hugsunarhætti víkinganna.

Þá voru hér hetjur er dáðu göfugan dauðdaga með sverð í hendi og við hlið þeirra og þeim jafnfætis í þjóðfélaginu stóðu frjálsbornar konur. Við þekkjum þetta samfélag nær eingöngu af sögunum, því fáar fornaldarminjar hafa fundist, er varpa ljósi yfir þessa tíð.“ (Múlaþing 7. Bindi bls 173 / Daniel Bruun – Við norðurbrún Vatnajökuls)

Það má álykta sem svo að ekki hafi strax orðið miklar breytingar á Íslandi við það eitt að taka upp hinn "nýja milda sið", eins og Daniel Bruun kallar kristnitökuna. Á eftir fór Sturlungaöld með blóðhefndum fornaldar og að henni lokinni fóru biskupar landsins með völdin svo til óskoruð. Síðustu tveir Hóla biskupar í kaþólskum sið voru þeir Gottskálk Nikulásson og Jón Arason. Gottskálk fékk viðurnefnið "grimmi", af honum fór sú þjóðsaga að hann hafi tekið upp svartan galdur ættaðan aftan úr heiðni til að afla kirkjunni eigna. Um Jón biskup Arason og syni hans var sagt hið forn kveðna; - "öxin og jörðin geyma þá best".

IMG_2816

Mósaík mynd af Jóni biskup Arasyni í Hólakirkju. Jón er stundum talinn síðasti íslenski höfðinginn af gömlum sið

Á eftir siðaskiptin seinni um 1550 má segja sem svo að göfugur dauðdagi hafi endanlega aflagst á Íslandi, en þá tók ríkisvaldið við af kirkjunni að framfylgja siðferðilegri lagatúlkun, og gerði það með sínum Stóradómi og Drekkingahyl. Þá var tekið upp á að drekkja konum sem eignuðust börn utan hjónabands og karlmen hálshöggnir, auk þess sem teknar voru upp galdrabrennur 100 árum eftir að þær fóru hamförum í Evrópu. Danska ríkisvaldinu þótti flest til þess vinnandi að siða landsmenn, og gekk mun lengra en hinn "nýji mildi siður" frá því árið 1000. Nú áttu Íslendingar ekki lengur til neinna innlendra höfðingja með máls sín að leita.

Í skrifum Brunn um Ísland má bæði sjá hvað honum þótti vænt um land og þjóð, auk ómetanlegs fróðleiks sem hann safnaði vítt og breitt um land. Þegar hann ferðaðist um landið í rannsókanaferðum sínum skrifaði hann einnig punkta um það sem honum þótti sérstakt, sem hann birti síðar í blaðagreinum og bókum. Í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, sem bókaútgáfa Arnar og Örlygs gaf út árið 1987 um Íslandsferðir Bruun, er lýsing hans á sunnudegi í Skagfirskri sveit árið 1898.

„Á sunnudögum liggur öll vinna niðri nema bjarga þurfi heyjum. Orf og hrífur eru lögð upp á húsþökin. Fólkið fer í betri fötin, hestar eru sóttir í haga og söðlaðir og síðan er riðið í þeysireið til kirkjunnar. Konurnar reiða minnstu börnin í keltu sinni, þau, sem eru ögn stálpaðri, eru bundin í söðul, en stærri krakkarnir ríða einir, strákarnir stinga tánum í ístaðaólarnar, þegar þeir ná ekki ístöðunum. Hundarnir elta.

Hópar koma ríðandi frá hverjum bæ og farið er yfir stokka og steina, ár og læki, en allir stefna til kirkjunnar. Hestunum er stungið inn í hestarétt, sem er á flestum kirkjustöðum, og þar bíða þeir yfir messutímann. Fólkið kemur yfirleitt snemma til kirkjunnar, því margt þarf að gera áður en guðþjónustan hefst. Um margt er skrafað og skeggrætt, eldra fólkið spyr frétta og ræðir heyskaparhorfurnar, en unga fólkið leitar hvort annað uppi, og eru þar gefin heit, sem binda alla ævi meðan reikað er á milli grasi gróinna leiða og hrörnandi krossa í kirkjugarðinum. Áður en konurnar ganga í kirkju fara þær inn í bæ til að klæða sig úr reiðfötunum og skipta á reiðhattinum og litlu skotthúfunni, sem fest er í hárið, og jafnvel, ef eitthvað mikið er um að vera, að klæðast hátíðarbúningi. - Aðkomumenn eru spurðir spjörunum úr, hvaðan þeir komi, og hvað þeir séu að gera, hvert þeir ætli, hvar þeir hafi fengið hesta o.s.frv. og auðvitað verður að gefa greið svör við öllum spurningunum.

En nú gengur presturinn fram og heilsar kirkjugestunum áður en hann fer og klæðir sig í hempuna, og svo er klukkunum hringt, - Presturinn gengur í kirkju í fylgd meðhjálparans. Karlar sitja hægra megin í kirkjunni en konur til vinstri. Jafnskjótt og konurnar setjast lúta þær höfði og halda hvítum klút fyrir andlitinu og gera bæn sína. Víða er lítið orgel, sem einhver úr söfnuðinum leikur á, en þótt ekkert sé hljóðfærið hljómar söngurinn vel. Oft syngja ungar stúlkur í kór og leiða sönginn, allar eru þær smekklega klæddar í fallegum búningum. Daginn áður hefur maður ef til vill mætt þeim í vinnufötum við rakstur í túninu með flaksandi hár, eða lítinn klút bundinn um það í hnakkanum, í stuttum pilsum og mórauðum, grófgerðum sokkum, sem bundnir eru fyrir neðan hné með ólum. Þær ganga öruggar og djarfar til vinnunnar og hoppa lipurt og létt yfir polla og skurði á skinnskóm sínum.

Stundum er kirkjugestum veitt kaffi, og þá oft drukkið í baðstofunni.

En þegar öllu þessu er lokið, stíga kirkjugestir aftur á hestbak og ríða á brott í smá hópum. Piltarnir láta spretta rösklega úr spori, en ungu stúlkurnar hoppa fimlega í söðulinn og fylgja þeim hiklaust eftir.

Sunnudagskyrrðin hvílir yfir sveitinni. Ekkert brýnsluhljóð heyrist, engar heybandslestir á ferðinni, og engir lestarmenn á leið úr kaupstað, einungis glaðir hópar fólks á heimleið frá kirkju sinni. Varla er hægt að sjá að grasið á þaki gömlu kirkjunnar bærist í golunni og enn síður á leiðunum í kirkjugarðinum, eða á bæjarþakinu, þar sem hundurinn liggur eins og hann sé á verði. Þokuhnoðrar hylja fjallstindana, en sólin ljómar yfir engjunum og ánni, sem bugðast eftir dalnum, og hún skín á bæina, en bláir reykir stíga upp frá þeim, og úti við sjóndeildarhringinn er hafið blátt og vítt.“. (Ísl. Þjóðlíf I bindi bls 36-37)

IMG_2732 

Prédikunarstóll Víðimýrarkirkju og "hið virðulega kirkju inni". Í byrjun 18.aldar bannaði Jón biskup Vídalín prestum að tala blaðalaust úr ræðustól og þess vegna á að vera gluggi á þekjunni ofan við prédikunarstólinn í öllum torfkirkjum svo presturinn geti lesið stólræðuna. Sagt var að einn prestur hafi skrifað biskupi og spurt hann hvað ætti að gera ef hundur kæmi upp á kirkjuþakið, sem ekki var óalgengt á meðan á messu stóð, og settist þar á gluggann. Biskup svararði "sigaðu, blessaður sigaðu, og seppi mun fara"

Til að gefa örlitla innsýn í tíðaranda þess tíma sem Bruun var á ferð er hér gripið niður í bækurnar Íslenskt Þjóðlíf. Í Hruna spurði Bruun séra Steindór Briem um siðferðisástandið og hvort það væri ekki á lágu stigi, þar sem konur og karlar svæfu í sömu baðstofu og afklæddust hvert í annars augsýn, en presturinn sagði að vaninn gerði það að slíkt hvorki vekti hneykslan né æsti kynhvötina. „Í prestakallinu fæðast 12-14 börn árlega, en ekki nema eitt óskilgetið annað hvert ár eða svo“.

Sýnilegt er að Bruun þykir mikið til presthjónanna og heimilisfólks í Hruna koma,,, „Briemsættin er mikils metin og áhrifamikil á Íslandi. En dálítið kemur það einkennilega fyrir sjónir, hvernig fjölskyldan umgengst heimilisfólkið daglega, t.d. sefur dóttirin í baðstofunni, og það þó svo fjölskyldan sé meðal fremstu ætta landsins“. 

Þær athafnir sem fóru fram í kirkjunum voru auk guðþjónusta, - brúðkaup, jarðarfarir og ferming, sem má segi að í þá daga hafi verið nokkurskonar grunnskóla próf ungdómsins sem lauk með að gengið var til spurninga. Sjaldgæft var að ungabörn væru skírð í kirkju því að til þess þurfti að reiða þau á hestbaki langar leiðir, þannig að skírnin fór fram heima í baðstofunni og því voru skírnarfontar óalgengir í torfkirkjunum.

Brúðhjón héldu saman heim í bæinn úr kirkjunni til brúðkaupsveislu í baðstofuna, hið stóra sameiginlega herbergi íslensku bæjanna, þar sem unnið var, sofið og dvalist. Þar var brúðarsængin, jafnvel í sömu röð og önnur rúm baðstofunnar, og í henni fæddust hjónunum börnin. Þar voru hinir látnu sveipaðir laki og sálmabókin lögð yfir brjóstið, fyrir kom að líkið lægi þannig í rúmi sínu yfir nótt í baðstofunni ásamt heimilisfólki, áður en það var flutt í skemmu þar sem það stóð uppi til jarðarfarardags.

Hinsta förin hófst heima við bæ á kviktrjám á milli tveggja hesta þar sem líkkistan var reidd til kirkju í fylgd heimilismann og þeirra sveitunga sem til líkfylgdar mættu þegar hún fór fram hjá. Eftir líkræðu prestsins var kistan borin út og látin síga ofan í gröfina í kirkjugarðinum við kirkjuvegginn. Stundum kraup allt fólkið á kné á meðan mokað var ofan í gröfina. Hver og einn signdi yfir hana áður en gengið var á brott. 

IMG_4713

 Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju í Öræfum, með öllum sínum upphleyptu leiðum, þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa á endanum ofan í svörðinn

Daniel Bruun var samála Nóbelskáldinu um það að húsagerðalist torfkirknanna, sem rekja mátti allt aftur á söguöld,  hefði verið mun fegurri og hátíðlegri en kirknanna sem á eftir komu, sem Bruun taldi skorta allan svip byggingarlistar ef miðað var við torfkirkjurnar, jafnvel þó svo að ekki hefði verið hægt að þekkja þær frá öðrum gripahúsum þegar komið var í fyrstu á bæjarhlaðið. En þannig komst Nóbelskáldið að hnitmiðuðu orði, eins og honum einum var lagið, um byggingasögulegt gildi gömlu þjóðkirkjunnar úr torfi; 

„Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús. , , - og þótt vígindin í klömbruhnausunum séu reglulegri í sumum heyhlöðum í Skagafirði, og fjárhúsum, þá hef ég enga kirkjuveggi séð fegurri á Norðurlöndum.“

Enn má finna á Íslandi nokkrar torfkirkjur. Þær sömu og Daniel Bruun rannsakaði þegar hann var í ferðum um Ísland, sem átti hug hans allan um áratuga skeið. Þessar kirkjur hafa verið varðveittar í sinni upprunalegu mynd og eru ómetanleg þjóðargersemi þó svo að stærð þeirra sé ekki mikil, og efniviðurinn langt frá því að slaga í það sem þarf í meðal hesthús, þá er enn þann dag í dag vandfundnir fegurri kirkjuveggur.

 IMG_2728

Víðimýrarkirkja, sú sem Halldór Kiljan Laxness vildi meina að væri eitt merkilegasta hús á Íslandi. Eins má segja að einn frægasti sálmur sem ortur hefur verið á íslenska tungu hafi þar orðið til, en hann er  "Heyr himna smiður" eftir Kolbein Tumason á Víðimýri, héraðshöfðingja Skagfirðinga á Sturlungaöld, sálmurinn er jafnframt talinn elsti varðveitti sálmur Norðurlanda

  

IMG_2833

Saurbæjarkirkja í Eyjafirði er gott dæmi um hvernig kirkjuklukkum var fyrir komið á stafnþili. Eins voru kirkjuklukkur stundum hafðar innandyra, eða í sáluhliðinu og einnig var á einstöku stað sérstakt klukknaport í nágrenni kirkjunnar, einfaldleikinn réði

 

 IMG_4705

Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi, um aldamótin 1900 hafði bygging torfkirkna verið bönnuð á Íslandi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju

 

Bænahúsið á Núpsstað 1899

Bænhúsið á Núpsstað árið 1899, teikning Daniel Bruun 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband