9.11.2015 | 12:19
Minnstu ekki á það helvíti ógrátandi
Hvert kjörhitastig fyrir fátækt er, hlýtur allt fara eftir því við hvað er miðað og hversu mikið þarf að menga til að ná því hitastigi. Í landi elds og ísa þá geta hnattræn exel-meðaltöl kvótafræðinnar verið skjön við þann veruleika. Þar sem vonlaust er að halda aftur af eiturspúandi eldfjöllunum, enda ekki nema ár síðan að meinlaust eldgos í Holuhrauni mengaði margfalt á við alla Evrópu þrátt fyrir einlægan vilja stjórnvalda til að takmarka tjónið. Jafnframt er ekki úr vegi að rifja upp það um hitafar sem sagan telur vera upphaf byggðar í þessu landi.
Fyrir meira en þúsund árum síðan þá á að hafa ríkt hlýindaskeið sem gefur nútímanum lítið eftir nema síður sé. Jafnvel er talið að Ísland hafi verið svo til jöklalaust og uppi eru um það sögusagnir að þar sem nú er Vatnajökull hafi verið þjóðleið á milli Litla-héraðs (nú Skaftafell í Öræfum) og Möðrudals á fjöllum, Vatnajökull á að hafa verið kallaður Klofajökull. Einnig á Bárður nokkur að hafa flutt sig úr samnefndum dal á norðurlandi suður yfir bunguna sem við hann er kennd, ólíklegt er að hann hafi öslað snjóskafla á þeim ógnarslóðum að óþörfu.
Því er alltaf spurningin við hvað er miðað. Þegar ég spurði afa minn og nafna að því hvort ekki hefði verið notalegt að búa í torfbæ á fyrstu áratugum 20. aldar, en þessarar spurningar datt mér í hug að spyrja vegna þess að torfabæjar lífstíllin hlyti að hafa verið notalegt værðarlíf miðað við okkar tíma. Svarið sem sá gamli gaf bergmálar enn í mínu minni minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn. Nú ber svo við að hitastig telst hátt í sögulegu samhengi staðlaðra hitamælinga sem ná örfáa áratugi aftur í tímann. Þegar maður kynnir sér íslandssöguna þá skilur maður vel hvað fyrri kynslóðir máttu glíma við en þar var helvítið ekki alltaf heitt það gat alveg eins verið kalt.
Í bókinni Fátækt fólk segir 20. aldar maðurinn, Tryggvi Emilsson, sem var uppalinn í torfbæ í Öxnadal, svo um sitt samferðafólk á fyrstu áratugum sinnar aldar; Þetta fólk bar grjót á höndum og hlóð garða og veggi, risti torf á hey og á þök, gerði sér eldivið úr suðataði sem varð að ösku til að þurrka upp leka og vann meðan hugurinn hjarði. - Þyngsta þrautin var að standast afleiðingar vetrarhörkunnar þegar seint voraði, börnin voru mögur og lasburða en reyndu þó að skríða á eftir henni móður sinni þegar hún var að hreinsa túnið, með bláar hendur eftir frostbólguna um veturinn, faðirinn fór sér hægt, þrótturinn var ekki upp á marga fiska. En eftir að fært var frá og mjólkin og skyrið og smjörið var aftur í búrinu og hver fékk sinn skammt fór lífsstraumurinn frá kjarngresi dalsins um alla mannkindina og að því bjuggu menn langt fram á næsta vetur.
Þó upphafi 20. aldar hafi verið kalt ,m.a.með sínum frostavetri 1918, þá var seinni hluti þeirrar 19. öllu kaldari, og eru frásagnir sem Tryggvi hefur eftir föður sínum til merkis um það. Á þessum hraunslóðum skeði sá atburður að ung kona þar úr sveit gekk við ásauði og hóaði saman til kvía, hún hélt á prjónum eins og venja var á tímum vinnuhörkunnar og hraðaði göngunni. Þessi kona var smalavön og kunnug hrauninu en í þetta sinn kunni hún ekki fótum sínum forráð og féll í hraungjótu, líka þeirri sem faðir minn dró lambið úr. Ekki slasaðist hún í fallinu svo til baga væri en kom niður á fæturna og hélt á leist og bandi. Þessa sögu sagði faðir Tryggva frá þeim tíma sem hann hafði verið vinnumaður á Straumi þar sem nú stendur álverið í Straumsvík. Þess má geta að konan á að hafa klárað að prjóna sokkana úr bandinu í hraungjótunni sem hún komst ekki uppúr og lognaðist að lokum út af á sjötta degi en vaknaði svo á einhvern yfirnáttúrulegan hátt komin upp úr ókleifri gjótunni. Töldu menn að henni hafi tekist það í svefni sem ekki tókst í vöku.
Ef menn halda að Tryggvi hafi fært í stílinn um köld kjör í bók sinni þá hafa opinberar heimildir ekki gert það síður. Í bókinni Gróandi þjóðlíf-sagan sem aldrei var sögð, má finna eftirfarandi; Þau válegustu tíðindi höfðu nú gerst, að yfir landið dundu einhver ægilegustu harðindi í sögu þjóðarinnar. Það var líkast því sem nokkur aðdragandi væri að þessu, eins og vetrarríkið og hafísinn væri smámsaman að magnast og sækja í sig veðrið og koma í hviðum yfir landið. Mjög harður þriggja ára kafli vetrarríkis og frosta hafði komið árin 1866-69 og þá varð til kvæði Kristjáns Fjallaskálds Nú er frost á fróni. Það fjallar um bjargarskortinn víða á Norðurlandi, voru þá mikil grimmdarfrost með spilliblotum inn á milli svo jörð varð klakastorkin og voru jarðbönn langt fram á vor með 20-30 stiga frostum. Var hann kallaður klakavetur hinn mikli.
En nú tók steininn alveg útyfir. Geysilegar frosthörkur hófust um landið allt strax fyrir jólin 1880 og lagði bráðlega allar víkur og firði, svo að gengið varð á ís úr Reykjavík og upp á Akranes og um allan Breiðafjörð eins langt og eyjar náðu. þá fyrst hóf hið hamramma heimskautslega vetrarríki innreið sína í fullu veldi 9. Janúar 1881, þegar á skall einhver sú skelfilegasta norðanhríð sem sagnir fara af. Þessi bylur stóð að segja má vikum saman með óskaplegri veðurhæð, svo hús og bátar og hey fuku og með hörkufrosti sem komst langtímum niður í 40 stig. Með þessu fárviðri rak ófyrirsjáanleg hafþök af ís að landinu um miðjan vetur svo allir firðir fylltust og fjöldi bjarndýra gekk á land og ráfuðu langt fram í sveitir. Þegar svo hafði staðið vikum saman með litlum hléum og nýjum og nýjum stórhríðum ríkti alger neyð og bjargarskortur um mikinn hluta landsins. Lá jafnvel við að fólk króknaði í húsum inni.
Næsti vetur var ekki eins stórviðrasamur né kaldur, en þá tók ekki betra við, því þá hófust harðindin að ráði með vorinu, í apríl-mánuði, með fádæma norðanstormi svo hafísbreiður rak upp að Norðurlandi og lá hann þar allt sumarið fram í september og orsakaði það, að stórhríðarkaflar komu af og til allt sumarið og ár voru riðnar á ís í júlí-mánuði. Í seinni hluta ágústmánaðar segir sýslumaður, Benedikt Sveinsson, í bréfi frá Héðinshöfða við Húsavík; Hér er dæmalaus ótíð. Hún tekur hreint ekki neinu tali. Enginn baggi hirtur í garð, og einlægir snjóar og krapa-hríðar, svo menn sitja dag eftir dag inni verklausir. Guð má ráða hvar þessi ósköp enda.
Við Berufjörð austanlands segir Marteinn Þorsteinsson frá bernsku sinni í viðtalsbókinni Gengin spor, þó svo að ártölunum skeiki um eitt ár á lýsingin greinilega við um sama tímabil; Fátt eitt man ég úr fyrstu bernsku, þá voru harðindaár og þröngt í búi hjá öllum almenningi. Veturinn 1881-1882 var geysilega frostharður og mikil ísalög. Hafís kom þó aðeins skammt inn fyrir Djúpavog. Þangað út lagði Berufjörð og eru það þrjár mílur danskar. Var allstaðar ekið á ísum landa á milli heim að hverjum bæ.
Árið 1883 varð fellisvetur. Þá kom ísinn á síðasta vetrardag. Flestir bændur voru heylausir og þrjár fyrstu vikur sumarsins stanslaus stórhríðarbylur. Faðir minn slátraði því sem nær hverju lambi um leið og það fæddist og fóru aðeins ellefu lömb á sumarhaga þetta vor, en fullorðið fé lifði allt. Mér er þetta minnisstætt vegna þess, að eitt þessara 11 lamba var mér gefið. Að Fossgerði, næsta bæ við Steinaborg, hafði þá nýlega komið maður, er Árni hét Sigurbjörnsson. Kona hans hét Hallfríður. Þau áttu nokkrar skjátur og misstu þær allar. Urðu síðan að hrökklast burt.
Seinni hluta 19. aldar komu svo árin sem landinn mátti auk kuldans glíma við afleiðingar eldgosa, líkt og Öskju gosins 1875. En þessa lýsingu má finna í bókinni Gróandi þjóðlíf-sagan sem var aldrei sögð; Allt virðist ein tilgangslaus auðn, þar sem við erum á ferð um foksanda hjá Hrossaborgum. Beinagrindur hesta liggja gulnaðar í malarbingjum gosöskunnar og vekja kenndir um skrælnaðan dauðadal, - hinsti fugl flögrar með ámátlegu væli yfir líflaus moldarbörð með skorpnuðu lyngi, - Krafla og Víti krauma og spú frá sér daunillri eimyrju úr brennisteinsgasi yfir flögin. - Hvernig datt mannfólkinu nokkurntíma í hug sú fásinna að setjast hér að og velja niðjum sínum ævikjör og átthaga á þessari heljarþröm,,,
Það er ekki svo langt síðan reglulegar mælingar hitastigs hófust hér á landi, eða um miðja 19. öld þegar danska veðurstofan hóf að skipuleggja veðurathuganir á Íslandi. Hvernig dettur mannfólki okkar tíma sú fásinna í hug að taka þau ár með í meðaltal hnattrænnar hlýnunar sem þeim sem þau lifðu vildu helst gleima eða í það minnst að á það helvíti væri ekki minnst ógrátandi.
![]() |
Milljónir fátækra vegna hlýnunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2015 | 12:19
Hús fortíðarinnar kostuðu ekki krónu
Sem betur fer koma stöðugt fram hugmyndir um ódýrara húsaskjól. Oftast koma þeir með athyglisverðustu hugmyndirnar sem tilheyra ekki byggingabransanum. Svo virðist vera í því tilfelli, þar sem helstir virðast vera tilnefndir athafnamaður í plastbátaframleiðslu og viðskiptalærður ölgerðarforstjóri sem vakti athygli á sér fyrir skemmstu með því að benda Færeyingum á að ekki mættu þeir nota nafnið Gull lengur yfir Færeyjabjórinn sinn sem þeir seldu á Íslandi, vegna reglna um skrásett vörumerki, þó svo að Færeyjabjórinn hefði mun lengur gengið undir nafninu Gull á Íslandi en gullið frá Ölgerðinni.
Ástæðan fyrir því að hús kosta ekki lengur krónu eins og var með torfbæina í denn er óhóflegt reglugerðarfargan. Þetta getur hver sem er sannreynt með því að fara út í móa og gera tilraun til að byggja sér þak yfir höfuðið. Þó svo að hann steypti það upp úr viðurkenndri steinsteypu í staðlaðri vörugámastærð er líklegast að það yrði brotið niður af yfirvöldum áður en hann lyki verkinu. Meiri líkur eru á að sá sem reyndi að sniðganga byggingareglugerðirnar kæmist upp með að búa í vörugámi sem plantað væri niður úti í móum, jafnvel í nokkur ár. En yrði samt að gera sér að góðu bréfaskriftir frá yfirvöld þar sem farið væri fram á að umræddur gámur yrði fjarlægður og stöðugjalds krafist þangað til.
Sennilega er afturhvarf til fyrri tíma í við húsbyggingar hagstæðast fyrir allan almenning hvað kostnað varðar því allar líkur eru á því að fólki yrði ekki skotaskuld úr því að byggja sér hús fyrir ekki svo mikið sem krónu. Ef fólk efast eitthvað um að svo megi vera þá ættu það að kynna sér videoið hér að neðan þar sem aðeins þurfti að greiða þorpshöfðingjanum tvær hænur fyrir byggingaleyfið. Allavega mætti segja að á Íslandi sætu allir við sama borð, hvað kostnað við reglugerðafarganið varðar, ef þeim yrði ekki gert að greiða ráðherra húsnæðismála nema tvær hænur fyrir byggingaleyfið en hefðu síðan frjálsar hendur að öðru leiti og hugmyndafluginu væri um leið leift að njóta sín.
![]() |
Hús framtíðarinnar úr plasti? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 3.4.2016 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2015 | 13:10
Gámavæðing íbúðamarkaðarins
Það verður að teljast undarlegt þegar forstjóri mannvirkjastofnunnar ríkisins talar hvað eftir annað eindregið fyrir innfluttu íbúðarhúsnæði. Fyrir rúmu einu og hálfu ári talaða að hann fyrir því að ungu fólki yrði útvegað leiguhúsnæði í vörugámum innréttuðum í Kína. Nú akíterar hann fyrir innflutnings fyrirtækið IKEA um ágæti innfluttra gáma úr timbri sem stafla mætti saman copy-paste eins og hann orðar það. Athyglisvert er að ráðherra gefur svo IKEA fundinum vægi með nærveru sinni.
Það ætti öllum hugsandi fólki að vera það orðið ljóst að markaðsöflin hafa tröllriðið byggingageiranum og íbúðarhúsnæði fyrir lifandi löngu orðið allt of dýrt Íslandi. Ef ráðherra og forstjóra Mannvirkjastofnunnar ríkisins er ekki nú þegar ljóst hvers vegna ættu þau að kynna sér málið á heimavelli því þar er um að kenna fjármagnkostnaði, reglugerðafargani og græðgi sem þrífst í skjóli ríkisins.
Það er löngu orðið ljóst að húsnæði úr íslenskum hráefnum byggt af íslendingum fyrir íslenskar aðstæður er ódýrara og endingarbetra. Aðeins með því að pakka reglugerðarfarganinu ofaní skúffu verður húsnæði úr innfluttum byggingarefnum álíka dýrt og úr innlendum.
Dæmi undanfarinna ára sína að þegar hús eru flutt inn í heilulagi er eins og ekki þurfi að fara eftir byggingareglugerð á sama hátt og þegar er um hefðbundnar húsbyggingar sé að ræða. Þetta hefur síðan oft á tíðum leitt til stórtjóns fyrir íbúðaeigendur. Eins og dæmin sann þar sem heilu hverfin af innfluttum einingahúsum hafa verið talin óíbúðarhæf vegna raka.
![]() |
Ódýr timburhús alvöru kostur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hús og híbýli | Breytt 18.1.2018 kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.10.2015 | 07:44
Rýnt í rúnir og forna siði
Hrekkjavaka eða Halloween, vakan fyrir Allraheilagramessu, er kvöldið 31. október og var tileinkuð píslarvottum kirkjunnar. Allraheilagramessa sem fram til ársins 834 var haldin 1.maí var þá flutt til 1. nóvember, fyrst og fremst vegna þess að henni var ætlað að koma í staðinn fyrir ýmsar mikilvægar heiðnar hátíðir sem haldnar voru á sama tíma.
Veturnætur var forn tímamótahátíð sem haldin var hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni. Heimaboða, sem kölluðust dísarblót, er getið í fornsögum og eiga að hafa átt sér stað fyrir kristnitöku. Blót þessi munu hafa verið haldin í námunda við vetrarnætur eða á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir.
Talið er að kvenvættir líkar Grýlu og nornum úr evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessum fornu dísum. Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýra og þeirrar gnægta sem þau gáfu, einnig myrkri og kulda komandi vetrar. Eftir að norðurlönd tóku kristni yfirtók allraheilagramessa, sem var frá 8. öld og haldin 1. nóvember, ímynd þessara hausthátíða. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna því að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum og dísablótum eða öðrum heiðnum hausthátíðum.
Eins og þeir hafa kannski tekið eftir sem heimsótt afa þessa síðu undafarið þá hefur hún verið undirlögð af upplýsingum um fornar sögur. Undanfarin ár hefur fánýtur fróðleikur eða það sem kallast "useless information" heillað hug minn. Ein af þessum fornu fræðum eru rúnir sem eiga sín tengsl aftur í fornan heim. Rúnir komu til Íslands með víkingum og eru taldar hafa verið hvað lengst í almennri notkun af öllum löndum veraldar á Íslandi.
Upplýsingar um rúnir og merkingu þeirra má víða finna á veraldarnetinu, auk gúggúl hef ég gramsað í Galdraskræðu Skugga og íslensku þjóðsögunum sem hafa miklar upplýsingar að geyma um rúnir og galdrastafi. Það má segja að þjóðtrúin sem fram kemur í íslensku þjóðsögunum komi frá sama uppruna og rúnirnar sem spönnuðu allt sviðið ekki síður myrkrið en ljósið. En í þeim fræðum er myrkrið talið hluti ljóssins. Í þessa rúnarýni hafa farið ófáar stundir og afrakstur þeirra má finna hér.
Heimildir:
www.visindavefur.is
Myndin að ofan er af húsvegg á Seyðisfirði, sjá meira um hann hér.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 28.2.2016 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2015 | 21:56
Lögbundinn þjófnaður
Fram á þennan dag hafa greiðslur til lífeyrissjóða oft á tíðum verið hreinn þjófnaður af launum fólks. Það eru ekki lengra síðan en 2008 að verðtryggingarhyskið hefði tapað bróðurpartinum af lífeyri landsmanna ef ekki hefði komið til þess að hægt var að stórhækka skuldir fólks og láta það fjármagna tapið eftir elítan í sjóðstjórnunum hafði skitið upp á bak.
Nú færir sama hyski sig upp á skaftið og boðar að 15,5% af launum landsmanna skuli nú renna í brasksjóðina þeirra án þess að spyrja þá sem aurana eiga og ekki þarf að efast um að mannvitsbrekkurnar á alþingi munu leggja blessun sína yfir verknaðinn.
Til áminninagar um fyrri gjörðir þessa hyskis þá læt ég gamlar minningar fylgja um lögbundinn þjófnað. Sjá hér.
![]() |
Lífeyrisiðgjald fer í 15,5% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.10.2015 | 15:38
Frá torfbæ til tölvualdar
Elsta gerð íbúðarhúsa hér á landi eru svo kölluð langhús, sem höfðu einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið, þetta var húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er þjóðveldisbærinn Stöng í Þjórsárdal. Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaðið. Þannig sköpuðu Íslendingar sér sína eigin húsagerð í gegnum aldirnar, torfbæinn, sem átti sér varla hliðstæðu annarsstaðar, en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld. Þá tók önnur íslensk gerð húsa við þar sem uppistaðan er áfram íslenskt jarðefni, það er steinsteypan.
Íslensk húsagerð hefur heillað mig svo lengi sem ég man enda hefur leikur og starf verið helgað húsum það sem af er æfi. Steinsteypa er það byggingarefni sem hefur hefur átt hug minn allan tímunum saman. Síðustu ár hef ég gert mér ferðir í sveitir til að skoða steinsteypt hús fyrri tíma þar sem regluverk hefur ekki verið að þvælast fyrir andaktinni og komist að því að margur steinsteypti sveitabærinn hefur tekið mið af torfbænum hvað húsaskipan varðar, s.s. með því að hafa innangengt í fjós úr íbúð. Þegar ég var í Noregi gat ég ekki látið hjá líða að leggja leið mína í langhús, en það var á víkingasafninu Borg á Lófóten í Hálogalandi. Íslenskir torfbæirnir eru ekki lengur á hverju strái en rústir þeirra má sjá víða sem grænar þústir í landslagi og er þá oft staldrað við. Eins höfum við Matthildur mín skoðað uppistandandi torfbæi saman en hún hefur látið sig dreyma um að búa í einum slíkum á meðan orð Magnúsar afa míns bergmála í mínum eyrum minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn.
Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og gömlu torfbæjunum
Í sumar heimsóttum við Laufás í Eyjafirði sem er fornt heldrimannasetur, en úr bænum fluttu síðustu íbúarnir árið 1936. Fyrir nokkrum árum skoðuðum við Sænautasel sem er heiðarbýli og myndi flokkast sem kotbær miðað við Laufás. En sögur fara af því að hugmyndir af sögusviði Sjálfstæðs fólks hafi kvikknað hjá Laxness á Jökuldalsheiðinni og kom Halldór m.a. í heimsókn á Sænautasel þegar hann var að skrifa bókina. Það hefur verið mikill munur á koti og höfðingjabýli þó svo að hvoru tveggja hafi verið byggt úr torfi. Sú lýsing sem mér finnst passa hvað best við þær hugmyndir sem afi minn og nafni gaf mér um lífið í torfbæ má finna í bók Tryggva Emilssonar Fátækt fólk, en Tryggvi ólst upp í Eyjafirði og Öxnadal og hefur verið samtíðarmaður afa míns, eiga þeir það sameiginlegt að hafa alist upp í torfbæ í sitthvorum landshlutanum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar.
Tek ég mér það bessaleyfi að láta lýsingu Tryggva á húsakosti í Öxnadalnum fara hér á eftir um leið og ég mæli með því að þeir sem ekki hafa þegar lesið Fátækt fólk verði sér út um bókina, sem er mögnuð lýsing á lífsbaráttu almúgafólks á Íslandi fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.
"Flestir voru bæirnir hlaðnir úr torfi og grjóti og þökin tyrfð, framstafnar voru burstmyndaðir af standþiljum, og hvít með stofuþil. Þar sem best var að fólki búið voru baðstofur þiljaðar í hólf og gólf, á nokkrum bæjum voru þil bakatil við rúmin en annars staðar naktir torfveggir og súð, þar bjó fátækasta fólkið.
Sænautaselsbaðstofan ásamt áföstum útihúsum
Útihúsin voru öll hlaðin úr sama efni og bæirnir, það voru lágreist hús, fjósin heima við bæina en fjárhús og hesthús oftast í útjöðrum túna og voru fjárhúsin að jafnaði staðsett þar sem best lá við að hleypa fé í haga. Önnur bæjarhús en baðstofan voru óþiljuð víðast hvar, búr og eldhús, göng og skemmur, veggir voru víðast grjóthleðsla í einnar alinnar hæð og síðan klömbruhnausar með strengjum á milli og mold til uppfyllingar, víða voru þess hús manngeng út við veggi með nær alinnar rishæð. Stafnveggir voru hlaðnir í ristlögum og var höfð hella undir endum á mæniásnum en síðan reft af þeim ás og niður á vegglægjur. Vegglægjur og mænirás voru venjulega þverhandar þykkt tré ferköntuð, oft var ásinn sverari, jafnvel fimm sex tommur og úr rekaviði, eins var með rafta að í þá var keyptur rekaviður ef um hann var að gera, á sumum bæjum var hrístróð undir torfi á þökum.
Bæjargöngin í Laufási á björtum sumardegi
Erfitt var að halda þessum bæjum hreinum og tókst misjafnlega, krabbar og skúm sóttu í dimma afkima, moldarmmylgringur sáldraðist um búr og göng úr veggjum og þaki, sótfok var í eldhúsi en heyryk og veðraslæðingur barst inn um öll göng allt til baðstofu. Þar sem innangengt var í fjós áttu beljur leið um göng og bæjardyr ef engin var útihurðin á fjósinu, og svo háttaði á Gili en þar rak ég beljuna sem hraðast út úr bænum svo henni gæfist ekki tími til að leggja frá sér í göngin en ekki dugði það til í hvert sinn. Víða voru þökin lúalek og það svo að lækur rann fram göngin og því var oft tjörn í bæjardyrum sem lágu lægra en hlaðið, væri trassað að ausa vatninu út, fraus á pollinum og þá voru svellalög inn öll göng. Margir notuðu hlóðaösku til að þurrka upp lekavatnið og til marks um þrálátan leka í baðstofu er ein saga úr Geirhildargörðum, þá bjó ég á næsta bæ, Fagranesi, og bræddi kúamykju í lekastaði á þaki en það var algeng þrautarlending.
Þessi baðstofa er engin kotungs kytra, enda Laufás heldrimanna híbýli
Á Geirhildargörðum hefur sennilega verð léleg torfrista og leirkennd og kom það fram á þökum sem illa héldu vatni, baðstofan á þessum bæ var sílek og til þess að þurrka upp það vatn á gólfin settist var notuð hlóðaaska. Þegar Jón Sigurbjörnsson kom að Geirhildargörðum og settist þar að í baðstofu þótti honum furðu lágt undirloft og því tók hann sig til og stakk út úr baðstofunni. Gólfskánin sem gerð var að mestu leiti úr ösku, var samþjöppuð á milli rúma en lausari í sér undir rúmunum. Hæfilegt þótti Jóni að stinga út eina skóflustungu og það gerði hann og hafði það ráð þar sem skánin var hörð eins og grjóthella, að hann flagaði upp skánina. Þegar stungin var sem svaraði einni skóflustungu þótti Jóni bónda bregða undarlega við en þá kom hann niður á timburgólf fornt sem enginn vissi að vera ætti í þessari baðstofu. Gott þótti Jóni að fá pallinn en aldrei varð hann hvítskúraður í Jóns tíð og eins þó dreift væri á hann sandi í hvert sinn að þvegið var.
Dæmið frá Geirhildargörðum var ekki einsdæmi og til þess vissi ég að stungið var út úr baðstofum þykkt öskulag þó ekki kæmi pallur í ljós. Á Gili var stungið út úr baðstofunni annað sumarið sem ég átti þar heima en það verk var ekki á allra færi, ódaunninn var slíkur að flýja varð undir bert loft með stuttu millibili eins og opnast hefðu helheimar, eins og rotnandi lík í hverju öskulagi. Pabbi bar allt út úr baðstofunni og tók stafngluggann úr, síðan var sofið í heytótt í tvær nætur en á baðstofugólfið var borin ný taðaska.
Matthildur taldi sig ekki verða í vandræðum með að sjá um matseld í hlóðaeldhúsi
Bæirnir höfðu sterk áhrif á það fólk sem í þeim bjó og mótuðu svip þess, þeir réðu hvernig búshlutum var fyrir komið þar sem hver vistarvera var jafnframt geymsla og vinnustaður, í baðstofu og búri, hlóðaeldhúsi og skemmu og í bæjardyrum varð hver hlutur að vera á sínum stað, þar var engu um þokað og fólkið fylgdi þeim eftir, þeir voru heimilistækin. Allir höfðu þessir gömlu bæir líka húsaskipan en voru misstórir og fór það eftir stærð jarðarinnar og efnahag bóndans. Víða var þrifnaði ábótavant og sá það gestaugað glögga þó heimamenn fyndnu þar enga annmarka á. Þegar gengið var í bæinn lék straumur blandinnar lyktar manni um vit, mest bar á reykjarlyktinni þar sem voru hlóðaeldhús og gat orðið að fastelju ef eldur var illa falinn,í bland var þefur af rakri mold í lekabæjum, sótlykt úr eldhúsrjáfri og súr lykt úr búri, oft var innlokað loft í göngum, sérstaklega þeim sem voru samhlaðin og án rafta, það loft var mengað þef úr fjósi og af hundum sem bældu sig í göngum en hundar báru í sér stækan útiþef. Öllu þessu varð maður samdauna enda var ekkert að flýja, bærinn var heimilið, þar sem matast var og hvílst. Í sumum baðstofum var oft þungt loft þegar inn var komið þar sem forðast var að opna glugga vegna kulda en í þeirri vistarveru ægði öllu saman, matar og mannþef, þar voru þurrkuð plögg, jafnvel undir sér í rúmunum, þar var skæðaskinnið skorið á gólfi, gerðir nýir skór og stagað í garmana og saumaðar bætur, þar var unnið úr ullinni og tætt hrosshár, spunnið og fléttað og jafnvel þvegnir smærri þvottar, þar voru náttgögn undir rúmum sem menn tóku upp í rúmið til sín á nóttum þegar kastað var af sér vatni, kettir bældu sig ofaní brekánum og í sængum og þrifu sig þar, kannski nýkomnir neðan úr öskutroginu sem haft var í baðstofunni svo þeir gætu gert þar sín stykki á nóttum. Það var mikil vinna sem margar konur á sig lögðu að berjast gegn öllum þessum áleitna óþrifnaði og mjög víða sást furðumikill árangur þeirrar eljusemi.
Það er ekki í kot vísað í búrinu í Laufási
Í einum af næstu bæjum við Gil var fjósið til hliðar við baðstofuna og einfalt þil á milli gisið, þar naut fólkið þess að mikill ylur var í fjósi og því hlýrra í baðstofunni en ella. Væri autt rúm í baðstofu var algengt að hýsa þar lömb eða vanmetakindur og var þá gerð jata í öðrum enda rúmstæðisins, ylur var af þessum skepnum, fyrir kom að kálfar voru í auða rúminu um stundar sakir. Þegar Hannes stutti kom í baðstofuna í Húnavatnssýslu og sá folald í auða rúmstæðinu þá vildi hann ekki fallast á að um folald væri að ræða og sagði;
Þetta er ekki þriflegt grey,
Þetta er ljótur kálfur.
Enginn gefi honum hey,
hirði hann skrattinn sjálfur.
Sumum bæjum fylgdu draugar í einhverri mynd og átrúnaður og ekki þorði ég að gó augum að glugga á þessum bæjum, væri myrkur en gekk á snið við gluggana og barði þrjú högg á bæjarhurð, það var fullkristilegt, skrattinn var sagður berja tvö högg. Í lágum og þröngum torfbæjum hætti mönnum til að vera heimóttalegir, í lekalausum og velhýstum bæjum gengu menn uppréttari, þannig voru húsakynnin mótandi á manninn". (Fátækt fólk, Tryggvi Emilsson bls.234-237)
Daniel Bruun ferðaðist ásamt fríðu föruneyti um Ísland á árunum 1890-1910 og safnaði ómetanlegum heimildum um húsakost og líf þjóðarinnar sem finna má í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Myndin er af hlóðaeldhúsi á höfðingjasetrinu Melstað í Miðfirði.
Hús og híbýli | Breytt 3.4.2016 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.10.2015 | 22:18
Gormánuður
Gormánuður er fyrsti mánuður vetrar og ber upp á laugardaga 21. 27. Október, er þá fyrsti vetrardagur. Gormánuður hefur ekki haft önnur nöfn að fornu. Mánaðarins er getið í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu. Þar segir: Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr. Sama nafn ber mánuðurinn í Bókarbót frá 12. öld sem til er í handriti frá því um 1220. Gormánuður, þorri og góa eru einu fornu mánuðirnir sem aldrei sjást kallaðir öðru nafn.
Gormánuður ber nafn af því að sláturtíð hófst í þeim mánuði. Með gor er átt við hálfmelta fæðu í innyflum dýra, einkum jórturdýra. Sagt er að gamlir menn hafi kallað þennan mánuð gormánuð og slátruðu aldrei fyrr en hann var byrjaður. Mánuðinum fylgdu í gegnum tíðina margvíslegar annir; sláturgerð, sauma vambir, raka gærur, spýta skinn sem og önnur störf sem tilheyrði árstíðinni. Í gamla norræna tímatalinu er talið að árið hafi hafist með komu vetrar þannig var því fyrsti vetrardagur nokkurskonar nýársdagur. Á undan fóru veturnætur sem eru forn tímamót sem haldin voru hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni.
Heimboða um veturnætur er oft getið í fornsögum, sem eiga að gerast fyrir eða um kristnitöku, svo sem Gísla sögu Súrssonar, Laxdælu, Reykdæla sögu, Njálu og Landnámu. En í rauninni var lítil ástæða til að fagna komu Vetur konungs, sem síst hefur þótt neinn aufúsugestur. Svo mjög hafa menn óttast þessa árstíð, að í gamalli vísu frá 17. öld stendur, öllu verri er veturinn en Tyrkinn. Ekki er vitað hve hefðin er gömul, minnst er á veturnætur í ýmsum íslenskum handritum þótt ekki komi fram nema mjög lítið um hvernig hátíðin fór fram.
Í Egils sögu, Víga-Glúms sögu og fleiri handritum er einnig minnst á dísablót sem haldin voru í Skandinavíu í október og má skilja á samhengi textanna þar að þau hafi verið haldin í námunda við vetrarnætur eða mögulega á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir. Dísir voru kvenkyns vættir, hugsanlega gyðjur eða valkyrjur og vetrarnætur oft kenndar við kvenleika.
Talið er að kvenvættir eins og Grýla og nornir í evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessari fornu dísatrú. Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýranna og þeirrar gnægta sem þau gáfu, einnig myrkri og kulda komandi vetrar sem og nýju upphafi. Eftir að Norðurlönd tóku kristni yfirtók allraheilagramessa sem var frá 8. öld og haldin 1. nóvember ímynd þessarar hausthátíðar. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum eða öðrum heiðnum hausthátíðum
Dagarnir frá síðustu heilu viku sumars (en sumardagurinn fyrst er ætíð fimmtudagur) og fram að fyrsta vetrardegi (sem er alltaf laugardagur), þ.e. fimmtudagurinn og föstudagurinn, voru kallaðir veturnætur. Veturnætur og fyrsti vetrardagur voru samkomu- og veislutími til forna hjá norrænum mönnum enda heppilegur sem slíkur því að þá var til gnótt matar og drykkjar eftir uppskeru haustsins og sláturtíð. Í fornsögum er víða minnst á veislur og brúðkaup á þessum árstíma. Kirkjan mun hafa amast við þessum hátíðum og því lögðust þær af eða færðust yfir á allraheilagramessu , 1. nóvember, sem var hátíðisdagur kirkjunnar.
Heimildir:
www.wikipedia.org
www.visindavefur.is
www.arnastofnun.is
www.nams.is
Gamla tímatalið | Breytt 20.12.2015 kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2015 | 17:33
Verðtryggingar glæpóið
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2015 | 20:23
Indíánasumar
Hestarnir á Finnstaðatúninu höfðu það gott við sólarupprás síðasta dag september
Undanfarna daga hefur ríkt sannkallað indíánasumar austanlands með veðurblíðu daga eftir dag. Síðustu vikur hafa verið kærkominn sumarauki eftir blautt og kalt sumar. Í dag 1. október var hlý suðvestan átt með 14°C upp á héraði og hitinn fór í 17°C niður á fjörðum.
Útsýnið af svölunum í Útgarðinum hefur verið ljúft undan farin kvöld
September hefur verið hlýjasti mánuður sumarsins þar sem dags hitinn hefur oft farið í 15 - 20 stig og nætur hitinn sjaldan mikið niður fyrir 10 gráður. Náttúran er farin að skarta sínu fegursta í haustlitunum.
Veðrabrigði á kvöldhimninum núna í kvöld, 1. október
Undanfarnar vikur hef ég notið þeirrar gæfu að fá að flækjast um með vinnufélögunum í eintómri steypu dag eftir dag. Það má segja að hlýindin hafi svipuð áhrif og á lífverur með kalt blóð, lífsneistinn glæðist í hitanum.
En einu hef ég mikið verið að velta fyrir mér. Sagt er að karlmenn geti ekki straujað, því heilinn á þeim ráði ekki við svo flókið verkefni, en ætli kvenfólk geti steypt?
Dægurmál | Breytt 20.10.2015 kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2015 | 22:18
Haustmánuður
Haustmánuður er sjötti og þar með síðasti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Haustmánuður var einnig talin 12. mánuður ársins og hefst alltaf á fimmtudegi í 23. viku eða 24., ef sumarauki er, þ.e. 21.-27. September. Hann er nefndir svo í Snorra Eddu, en hefur einnig verið kallaður garðlagsmánuður, því þessi tími árs þótti hentugur til að bæta túngarða, engigarða, haga- eða skjólgarða og grannagarða.
Samkvæmt gamalli venju er nú tími að plægja land það sem sáð skal í að vori. Vatnsveitingaskurði er gott að stinga svo ekkert vatn geti staðið yfir landi á vetrum heldur að það súra vatn fái gott afrennsli. Jarðarávexti skal nú upp taka og láta nokkuð þorrna, grafa þá síðan niður hvar frost má ei að þeim koma. Um þennan tíma fellir melur fræ, má nú safna því áður og sá strax í sendið land og breiða mold yfir, kemur upp næsta vor. Hvannafræi og kúmeni má nú líka sá þar sem menn vilja þær jurtir vaxi síðan.
Sumri og vetri er samkvæmt gamla tímatalinu skipt í tvær jafnlangar árstíðir. Haustmánuður byrjar nálægt jafndægri að hausti og er yfir tíma þar sem nóttin er lengri en dagurinn, ætti því samkvæmt gangi sólar að tilheyra vetrinum. Þar sem Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn, sem hefst í kringum 20. apríl, telst Hausmánuður sjötti mánuður sumars.
Það sýnir vel hvað gamla tímatalið var vel ígrundað, að það tók ekki einungis mið af afstöðu sólar við miðbaug, einnig tók það mið af lofthita og gangi náttúru jarðar sem er mun hagstæðari fyrsta mánuð eftir haustjafndægur heldur en á fyrstu vikum eftir vorjafndægur, sem eru um 23. mars.
Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumarblíða.
Kristján jónsson
https://is.wikipedia.org
http://natturan.is/samfelagid/efni/7426/
Gamla tímatalið | Breytt 5.12.2015 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)