Munið þið þegar miðlínan var gul?

-Það var fyrir EES, Schengen, túristavaðalinn og mest af þeirri óáran sem unioninu fylgir. Nú er búið að heilaþvo heilu kynslóðirnar með þeirri möntru að allt sé betra. Stuttbuxnadeildin varð sú fyrsta, sem var vöskuð milli eyrnanna í trú á að Dabbi kóngur hefði komið Íslendingum inn í nútímann. Það dugði þangað til hann hrapaði af Svörtuloftum og fór sem próventukarl upp í Hádegismóa.

Eftir hið svokallaða hruni kom smá icesave glæta, en þá voru blessuð börnin vöskuð enn betur á milli eyrnanna með falsfréttum, ólæsi og hroða ensku, -af Davos dúkkulýsum. Og nú er svo komið að kynslóðin sem er að vaxa úr grasi veit varla hvað Ísland er annað en millilandaflugvöllur sem flytur landann í sólina á Tene og flækinga á klakann.

Á meðan hefur landráðaliðið framselt fullveldi og auðlindir landsins út í eitt og það verður trauðla endurheimt nema að taka afleiðingunum af því að segja sig frá EES og Schengen. Þó svo að það gæti kostað smá töf til Tene þá yrði Ísland á eftir meira á íslenskum forsemdum, -fiskurinn sem unnin var í Grindavík yrði unnin á landinu bláa en ekki á meðgjöf í unioninu.

Útlendingaiðnaðurinn er orðin helsti tekjumöguleiki innfæddra s.s ferðaþjónusta mönnuð með erlendu starfsfólki, byggingaiðnaðurinn er í sama fasa, -ekki nema nokkrir dagar síðan að rúmenskur vinnuflokkur bjargaði hitaveitunni á Suðurnesjum sem er í erlendri eigu. Allt gert til að hirða mismun af lágum launum og okri auðrónum til yndisauka.

Glópelskur landinn er orðinn eins og kotbændur fyrri tíma, sem héldu að þeir væru stórbokkar ef þeir fengu niðursetning, því það var borgað með þeim og hægt að fara illa með þá að auki. Allt heila helvítis fræðingabáknið og sviðsmyndaveldið þrífst orðið á niðursetningum og flækingi.

Í grófum dráttum eru niðursetningar lögfræðistóðsins hælisleitendur, og innflutta vinnuaflið þjónustar túristavaðalinn og byggir innviðina. Á meðan flestir innfæddra erum orðnir fákunnandi bjánar með fræðigráður á fundi.

-Eða í starfshóp á vegum ríkisins og fá frábærar hugmyndir á færibandi, en hafa hvorki hendur né verkkunnáttu til að framkvæma, hvað þá sjálfstæði, - og geta nú orðið varla þrifið eftir sig skítinn.

Já man einhver þegar miðlínan var gul? -og Ísland var Ísland – Bubbi hafði hár og söng óræð ljóð.

 


Fífl

Ég missti út úr mér á kaffistofunni um daginn; -eins og þú veist nafni þá er sveitarstjórnarfólk mestu fífl sem fyrir finnast. Þá firrtist nafni við og sagði; -og þetta þykist þú geta sagt hafandi verið sjálfur í sveitastjórn. – Já láttu mig vita það, -svaraði ég þá með þjósti.

-Þetta með fíflskuna er reyndar alls ekki einhlítt hún getur haft sínar ýmsu birtingamyndir í gegnum alla flóruna, og þegar fíflunum fer fjölgandi er rétt að líta í eigin barm.

Nú hefur verið ákveðið að hefja bílastæðagjaldtöku á þremur innanlands flugvöllum. Á það að vera til að “bæta upplifun flugfarþega” með því einu að setja upp gjaldtöku myndavélar, eftir því sem mannauðstjóri upplifunar hins opinbera hlutafélags orðar það, - ISAVIA sem hét áður Flugmálastjórn ríkisins er eftir sem áður jafn mikið ríkisins.

Hvernig bætt upplifun á að fást út úr því að vera rukkaður sérstaklega fyrir að fara á flugvöll er jafn hulin ráðgáta og þegar Reykjavíkurborg rukkar gamalt og fatlað fólk um stöðumælabrot í stæðinu heima hjá sér bara vegna þess að fábjánar með frábærar hugmyndir halda að hægt sé að breyta bílastæði í göngustíg með nýju deiliskipulagi, eða að setja upp skilti með mynd af Óla prik.

Einhverjir tæknilegir örðugleikar urðu reyndar á því að bætta upplifunin gæti hafist þegar til stóð á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum fyrr í vetur, -vegna Reykjavíkurflugvallar. Þeim hefur nú verið rutt úr vegi, sennilega með því að lauma reglugerð í gegnum ráðuneyti sem leifir myndatöku af fólki í landi ríkisins og rukka það.

Það er rétt að hafa í huga að ekki verða önnur bílastæði á flugvöllunum en þau sem bjóða upp á bætta upplifun og að Akureyrar og Egilsstaðaflugvellir eru notaður af fleirum en íbúum þessara staðar. Á Egilsstöðum eru mikið meira en næg bílastæði, bílaleigurnar raða tugum bíla í flest malbikuð stæði utan þeirra sem eru allra næst innganginum með tímamörkum.

Flugvöllurinn er notaður af öllum austfirðingum í tilfelli Egilsstaða. Farlama og fótafúnir fjarðabúar úr innviðaleysinu í neðra, búandi við lélegar eða engar almenningssamgöngur geta þurft að komast í flug vegna sjúkleika til Reykjavíkur og átt yfir 100 km leið á flugvöll, en engin deildskipulögð bílastæði eru fyrir þá í efra og nú fá þeir ekki einu sinni að leggja úti á túni án þess að njóta bættrar upplifunar.

Þá, sem hafa ekki annað en eigin bíl til að komast leiðar sinnar í og úr flugi, gæti þessi bætta upplifun kostað meira en flugferðin suður og jafnvel sjúkrakostnaðinn. Þetta ráðslag ISAVIA ohf í eigu ríkisins er því gott betur en á pari við þá þjóðarsátt sem birtist í heimabönkum landsmanna núna eftir áramótin, -bæði frá ríki og bæ.

Varla heyrist múkk í bæjarstjórnarfólki eða kjörnum fulltrúum löggjafasamkomunnar, hvað þá þjóðarsáttarsemjurum á vöfflukaffistofunni. Og þeir fáu sem fá að tjá sig af almúganum í fjölmiðlum bera sig bara mannalega. Setningar á við - “löngu komin tími til” og - “mig munar nú lítið um 350 kall fyrir korter” eru efst á vinsældarlistanum.

Sjálfur er ég fljótari á flugvöllinn gangandi enn á bíl svo þessi upplifun snertir mig ekki neitt.

Enda,,, -yfir bættri upplifun nöldra náttúrulega bara fífl.


Bárujárnsrokk

Í gegnum svefninn

hlusta ég á snjókomuna

þekja þykka þögnina

sem gjálfrar á hleinum

neðan við kot

 

Heyri hnullunga

rúlla og mala

í sogi úthafsöldu

niður básinn

í Þúfnafjörunni

 

Ég kom til að sofa

tímana tvenna

á brim strönd

úti við ysta haf

í hundrað ára

gulu húsi

 

Í faðmi bárujárns

læt ég sem ég sofi

en mun samt vaka

-vonandi til vors


Væringinn mikli og hin blóðuga, mállausa ákæra

Einn af þeim sem talin hefur verið til mikilmenna þessarar þjóðar er Einar Benediktsson. Í æsku heyrði maður þá lygasögu að Einar Ben hefði náð að selja norðurljósin í fylleríi. Hitt er rétt að hann hafði uppi stórhuga virkjanaáform löngu á undan sinni samtíð.

Sumar hugmynda Einars komust til framkvæmda áratugum eftir hans daga. Búrfellsvirkjun varð t.d. að veruleika hálfri öld eftir að Einar fékk hugmyndina. Hún varð fyrsta stórvirkjun Íslands til þess að útvega rafmagn fyrir erlenda stóriðju.

Einars Benediktssonar hefur einkum verið minnst sem einnar af sjálfstæðishetjum þjóðarinnar, auk þess að vera athafnamaður og þjóðskáld sem veitti innblástur fram eftir 20. öldinni. Eitt af þekktari ljóðum hans er einmitt um rafmagnað aðdráttarafl norðurljósanna sem nú í dag eru virkjað af ferðaþjónustunni.

Veit duftsins son nokkra dýrlegri sýn

en drottnanna hásal í rafurloga?

Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga!

– Hver getur nú unað við spil og vín?

Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín,

mókar í haustsins visnu rósum.

Hvert sandkorn í loftsins litum skín,

og lækirnir kyssast í silfurósum.

Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut

af iðandi norðurljósum. (sjá meira)

Snemma á 20. öldinni keypti Fossafélag Einars Benediktssonar land meðfram Jökulsá á Fjöllum ásamt náttúruperlunni Ásbyrgi. Hugsjón hans var að virkja ána og sagðist hann ætla að nýta raforkuna til að framleiða áburð á blóm og birki í örfoka landi.

Einar átti Ásbirgi í 15 ár, -hafði áður orti þar ódauðlegt ljóð á sumarmorgni. Jökulsá á Fjöllum rennur óbeisluð frá Vatnajökli, um Dettifoss og Hljóðakletta, allt til sjávar enn þann dag í dag, sem betur fer, ekki er ólíklegt að Sumarmorgunn í Ásbyrgi eigi sinn þátt í því.

Alfaðir rennir frá austurbrún

auga um hauður og græði.

Glitrar í hlíðinni geislarún,

glófaxið steypist um haga og tún.

Signa sig grundir við fjall og flæði,

faðmast í skrúðgrænu klæði. 

En hvað var það raunverulega, -sem gerði Einar Benediktsson eins mikinn og af er látið? Ég hef verið að lesa bókina Væringinn mikli, ævi og örlög Einars Benediktssonar eftir Gils Guðmundsson, og kemur það mér nokkuð á óvart hvað gerði þennan stóra mann svo mikinn.

Vissulega var Einar með stærri og myndarlegri mönnum, stór ættaður, komin af betur stæðum Íslendingum. Móðir hans Katrín Einarsdóttir heimasæta á Reynisstað í Skagafirði, sem sagt er að hafi verið trúlofuð manni 12 ára gömul, en áratugur var á milli þeirra í aldri. Foreldrar hennar styrktu föður Einars, -Benedikt Sveinsson til mikilla mennta og út á þær komst hann til æðstu metorða, -sem Landsdómari.

Þau Katrín og Benedikt skildu eftir stormasama sambúð á Elliðavatni þar virðist óregla Benedikts hafa ráðið mestu, -og skiptu með sér barnahópnum. Benedikt hafði missti Landsdómara embættið, en varð síðan sýslumaður í Þingeyjarsýslum og þingmaður N-Múlasýslu, bjó á Héðinshöfða á Tjörnesi við Skjálfanda. Einar ólst upp hjá föður sínum.

Þegar fræðst er um Einar þá gerir maður sér grein fyrir hvað gerði manninn eins mikinn og af er látið. Segja má að það sem hafi gert Einar mikinn hafi hann sjálfur komið hvað best í orð sem örstuttri hendingu í ljóði. Allir þekkja orðatiltæki sem lifað hefur með þjóðinni allar götu síðan Einar kom þeim orðum í ljóð; -aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Það virðist vera sem næmni Einars fyrir þessum sannindum hafi umfram annað gert hann mikinn. Og sú aðgát átti ekki einungis við sál okkar mannanna heldur alls þess er prýðir sköpunarverkið.

Í bókinni er frásögn Einars af því þegar hann uppgötvaði hvernig allt tengist og hve mikilvægt er að bera virðingu fyrir öllu og öllum, -alltaf, -og að ekki verði bæði sleppt og haldið. Þar segir hann frá veiðiferð sem hann fór ungur maður út á Sjálfandaflóa. Ég ætla að leifa mér að birta valda kafla úr frásögninni því hún segir mikið um mikilmennsku.

Við vorum þrír á kænunni, kátir ungir og vel nestaðir. Hvað á dauðlegt líf ágætara að bjóða en slíkan dag og þvílíka volduga, dragandi fegurð? Eilífðin brosti í þessari skínandi skuggsjá, hafi öræfanna, og átti um leið náðargeisla handa þeim minnsta smælingja, sem leita vildi upp ljósið frá myrkrum djúpsins. Rétt við vörina vöktu birtingarnir og létu heila heima glitra á hreistrinu. Hrognkelsi sveimuðu á grunni, með blakka, hrjúfa hryggi í vatnsborðinu, til þess að dýrð sólarinnar mætti líta þá og snerta. Landselskóparnir iðuðu í látrunum, sælir og glampandi, með síopin augu. Veldi og skaut norðlenskrar náttúru ríkti yfir öllu á sjó og landi.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Í þetta sinn vorum við óheppnir. Selurinn kom upp langt fyrir aftan bátinn. Ég tók það ráð að leggja upp árar og hafast ekkert að. Ég hafði séð, að þetta var afar stór útselur, af því sama kyni, sem kallast kampur, en þeir eru haldnir ganga næst landsel að skynsemd og forvitni. Selurinn tók dýfu frá bátnum, en ekki mjög langa. Annar hásetinn var neftóbaksmaður, ég lánaði af honum rauðan vasaklút, sem ég lét lafa aftur af stýrinu. Svo biðum við kyrrir, án þess að láta neitt minnsta hljóð heyrast.

Eftir nokkur köf fór kampurinn að færast nær, og loksins kom ég skoti á hann, en hitti illa. Hann tók fyrst langa dýfu, en nú gátum við séð, hvert róa ætti. Bráin á sjónum sagði til og svo fór óðum að draga saman með okkur. Selurinn var auðsjáanlega særður til ólífis. En þá kom það fyrir, sem ég get aldrei gleymt.

Kampurinn tróð marvaða og rétti sig upp, á að giska fimmtíu faðma frá bátnum. Þetta færi var heldur langt fyrir högl, en samt miðaði ég og ætlaði að fara að hleypa af. En þá greyp selurinn til sunds beint á bátinn. Ég hafði heyrt sagt frá því hvernig selir réðust á báta, þegar líkt stóð á. En það var eins og eitthvað óskiljanlegt hik kæmi yfir okkur alla. Við hreyfðum okkur ekki í bátnum og kampurinn rétti sig aftur upp örfáa faðma frá kænunni.

Blóðið lagði úr sári á kverkinni og yfir granirnar. Mér sýndist hann einblína á mig, þarna sem ég stóð í skutnum á selabyttunni með morðvopnið til taks á móti þessum saklausa, forvitna einstæðing hafsins, sem var viðskila við sitt eigið kyn, sjálfur aðeins óvopnaður meinleysingi.

Eflaust hefur sú breyting verið áður að ná tökum á mér, smátt og smátt, að aumkva dýrin eins og mennina, þegar þau eru í nauð eða verða fyrir meiðslum og dauða. Mér finnst það nú til dæmis með öllu óskiljanlegt, hvernig ég hef getað fengið af mér að drepa saklausa fugla mér til gamans, án þess að nein neyð kreppti að mér. Endurminningar um þetta fylla mig oft viðbjóði og andstyggð á minni eigin tilgangslausu og léttúðugu grimmd. En í þetta skipti opnuðust fyrst augu mín. Þessi blóðuga, mállausa ákæra stendur mér oft í hugskoti – en ég hef aldrei fyrr komið mér til þess að færa neitt um það í letur.

Kampurinn gjörði enga tilraun til árásar á bátinn – og svo leið þetta andartak, sem verður að notast með skutli eða áróðri, ef veiðin á ekki að mistakast. En selurinn stein sökk í sama svip – og eitthvað hulið afl lagði þögn og kyrrð yfir þessa litlu bátshöfn, sem fremur hafði lagt af stað í þessa veiðiför af leik heldur en þörf.

Maður í álögum segir gamla sagan! Ég get ekki gjört mér grein fyrir, hve oft ég hef, síðan þetta kom fyrir, hugsað um lið Faraós og sækonur þjóðsagnanna. En óendanlegur tregi og iðrun kemur upp hjá mér, þegar ég minnist þess augnaráðs, sem selurinn beindi á mig, þegar hann hvarf í djúpið.

–Ég hef ætið orðið staðfastari með árum og reynslu í sannfæringu minni um algjört orsakasamband, milli alls og allra. Þessi viðburður, sem er mér svo minnisstæður, hefur sjálfsagt átt að vera mér bending, samkvæmt æðri ráðstöfun. Ef til vill hefur mér verið ætlað, þegar á þessu skeiði æsku minnar, að innrætast einhver neisti af miskunnsemi við aðra, sem máttu sín miður eða báru þyngri byrði.

En hvílíkur fjöldi atvika birtist í örsnöggri svipan fyrir athugulum augum í borgum þúsunda og milljóna, í kvikmyndastraumi strætalífs og skemmtihalla, - þar sem ætið og alls staðar endurtekur sig hin sama saga. Er ekki hamingja heimsins grundvölluð á samanburði auðæva, yfirburða, fegurðar og fróðleiks gagnvart þeim snauðu, gunnhyggnu, miður menntuðu og ósjálegri, er byggja umhverfi staðanna, margir við eymd og tötra? Hver ómælisgeimur af örbirgð og læging þarf að hlaðast undir stétt hinna æðri, sem svo kallast, til þess að þeir geti þóknast sér sjálfum og fundið sinn mikilleik.

Hve ótölulega mörg bleik, deyjandi andlit sökkva í þetta friðaða, lygna yfirborð mannlífsins, sem geymir dauða og glötun? Gangi ég framhjá tötruðum beiningamanni, sný ég stundum aftur. Er blóðug myndin, sökkvandi við borðstokkinn, sem gægist upp úr öræfum minninganna?

Þessi voru orð skáldsins um eigin mikilmennsku á Skjálfandaflóa og hygg ég að samferðamenn hans hafi oft upplifað hana á þennan hátt, því í þeim vitnisburði sem þeir hafa um Einar, -sem hann þekktu, -ber aðgát í nærveru sálar hæðst.

Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

Eins og sjálfsagt allir vita, sem náð hafa að lesa þetta langt, þá endaði skáldið, heims- og athafnamaðurinn ævina í Herdísarvík á Reykjanesi svo að segja við sjálfsþurftarbúskap, á stað sem ekki var bílfært á á þeim tíma. Það gerði Einar samkvæmt eigin vali.

-KVEÐIÐ Í HERDÍSARVÍK- 

Í æsku hugði ég á hærra stig.

Það heldur fyrir mér vöku,

að ekkert liggur eftir mig

utan nokkrar stökur.  (EB)


Í garði Gunnlaðar

Huganum má líkja við skafrenning í snjall væddum nútímanum, þar sem Óminnishegrinn leiðir um villu vegar með þriggja sekúndna gullfiskaminni.

Þegar hugsun vekur upp tortryggni, kvíða eða efa, -og síðan skeytingaleysi, -orsakar hún dulda væntingu.

Ef flett er yfir í næstu nýmæli, án þess að ná áttum í þeim fyrri, sest hugmynd, -óafgreidd af innsæinu í undirvitundina.

Þannig er stafrænum nútímanum leyft að leiða hugann með tvískynungi, og viðhorfið til veruleikans litast af ranghugmyndum.

Hliðin sem er snúið er að heiminum mótast mest af innrætingu, fordómum og snjalltækni. -Á kostnað sköpunargáfu, kærleika og bænar.

 

IMG_4570

 

Óminnishegrinn spígsporar

yfir auðnir vitundarinnar

en í skúmaskoti hjartans

lifir von um hið eilífa vor

á meðan vindar tímans

halda áfram að gnauða

á gluggum sálarinnar


Skaufhalar og þursameyjar

Það er greinilegt að sá í neðra leikur sér að ríkisstjórninni, eins og köttur að mús. Varnagarðar hér og varnargarðar þar og allt í fári. Heil Grindavík ónýt, en samt svo til óbætanleg úr viðlagatryggingu. Heita vatnið farið af Suðurnesjum í frostinu og rafmagnsofnarnir í landinu annað hvort uppseldir aða fastir í Grindavík, þar sem engin fær að ná í þá á meðan landinu er stjórnað með spálíkani og sviðsmyndum úr Skógarhlíðinni.

Það vantar samt ekki að ríkisstjórnin er kokhraust. Allt verður komið í lag á morgunn. Vísindamennirnir okkar gerðu ráð fyrir öllum sviðsmyndum. Þó svo að það hafi komið örlítið á óvart hvernig þær rættust. En það má alltaf gera nýja sviðsmynd og bæta á nýjum sköttum fyrir nýjum garði. Jafnvel selja mjólkurkýrnar fyrir þjóðarsjóð úr því að bæði hamfara- og ríkissjóður eru tómir, -bara að muna að hafa borð fyrir báru í eigin vasa.

Því var haldið fram á þessari síðu að þessi ríkisstjórn væri ekki á vetur setjandi og er lítið annað að segja úr þessu en “I told you so”. Nú hefði verið gott að hafa ekki eitt öllu púðrinu í að fegra bókahaldið með dekri við auðróna, loftslagsvá, erlendan stríðsrekstur og sitja uppi með þúsundir erlendra flækinga ofan á ósköpin.

Einhverjum kann að detta í hug “you ain´t seen nothing yet” en við skulum vona að svo veði ekki, og þess í stað biðja fyrir ríkisstjórninni, -við höfum enga aðra. En ég ætla að setja hér inn samsuðu elds og ísa, -skoffín úr Völuspá og Skaufhalabálki, ríkisstjórninni til viðvörunnar svo margrómuð þjóðarsáttin fari ekki veg allrar veraldar.

 

Surtur fer sunnan

með sviga lævi

skín af sverði

sól valtíva.

Hafði áður

hætt útvegi

nægtir voru þá

og nógar vistir.

Geisar eimi

við aldurnara

leikur hár hiti

við himin sjálfan.

Matur er eigi meiri

mér í höndum:

halarófu bein

og hryggur úr lambi

bógleggir þrír

og banakringla


Frostaveturinn mikli

Það hefur verið frost á Fróni undan farna daga. Núna tvo síðustu vetur hefur verið kaldara en maður af minni kynslóð á að venjast, nema þá hugurinn reiki aftur í barnsminnið frá því á sjöunda áratugnum. Þá voru nokkur hafísár 1965-1970 og þó svo að ég hafi ekki séð hafísinn, þá var kalt í minningunni á þessum vetrum inn til landsins. Nú tala málsmetandi menn um hamfarahlýnun í frostinu og eins og venjulega eru mestu hamfarirnar Langtíburtukistan.

Það eru samt um næga óáran að ræða þessi dagana á landinu bláa með Reykjanesið rauðglóandi þó svo ekki sé verið að velta sér upp úr hamfarhlýnun í frosti. Sennilega hafa kynslóðirnar frá aldamótunum 1900 búið við hvað best skilyrði frá náttúrunnar hendi hér í landi frá því á þjóðveldisöld.

Jafnvel þó svo að loftslagsvísindin vilji meina að æskilegt sé að meðalhiti jarðar verði í kringum það sem hann var á 19. öld eftir að lítillega var farið að hlýna  aftur eftir litlu ísöld. Þess vegna getur verið fróðlegt að skyggnast aftur í tímann og skoða hvernig árferðið gat verið á Íslandi á hinu gullna viðmiði vísindanna.

Það er ekki svo langt síðan að uppi var fólk sem mundi frostaveturinn 1918 en um frostaveturinn mikla 1882 og veturna þar í kring eru fáar frásagnir enda hefur fólki sennilega þótt rétt að gleyma þeim vetrum eins og hverju öðru hundsbiti.

Í bókinni Gengin spor, sem í eru saganaþættir Þorsteins Matthíassonar, er viðtal við Martein Þorsteinsson f. 23. apríl 1877. Marteinn var 92 ára gamall þegar viðtalið var tekið og segir þar m.a. frá sínum fyrstu minningum í Steinaborg á Berufjarðarströnd.

Fátt eitt man ég úr fyrstu bernsku, þá voru harðindaár og þröngt um hjá öllum almenningi. Veturinn 1881-1882 var geysilega frostharður og mikil ísalög. Hafís komst þó aðeins skammt inn fyrir Djúpavog. Þangað lagði út Berufjörð og eru um þrjár mílur danskar (ca 22 km). Var alls staðar ekið á ísnum landa í milli heim að hverjum bæ.

Árið 1883 var fellisvetur. Þá kom ísinn á síðasta vetrardag. Flestir bændur voru heylausir og þrjár fyrstu vikur sumarsins sanzlaus stórhríðarbylur. Faðir minn slátraði því nær hverju lambi um leið og það fæddist og fóru aðeins ellefu lömb á sumarhaga þetta vor, en fullorðið fé lifði allt. Mér er þetta minnisstætt vegna þess, að eitt þessara 11 lamba var mér gefið.

Í bók Öldu Snæbjörnsdóttir frá Þiljuvöllum á Berufjarðarströnd, -Dvergasteinn, sem er stórmerkileg samantekt munnmæla og þjóðasagna frá Berufirði, Djúpavogi, Hamarsfirði og Álftafirði, er munnmælasaga sem hún skráir eftir Emil Björnssyni manni sínum. Emil var flest sumur æsku sinnar á Teigarhorni við sunnan verðan Berufjörð, -gengt Steinaborg sem er á ströndinni  norðanverðri.

Það má ætla að þessi munnmæla saga á Teigarhorni sé frá sama ísavetri og Marteinn getur um í æskuminningum sínum í Steinaborg, þegar hafís var við Berufjörð og lagís á firðinum. En hafís hefur ekki komið inn á Djúpavog við Berufjörð síðan 1968, að ég held, og þótti þá viðburður.

Til eru ljósmyndir af hákarlaskútum innilokuðum í ís á Djúpavogi, teknum af Nikólínu Weywadt frá því á árunum í kringum 1900. Nikólína lærði ljósmyndun fyrst kvenna á Íslandi og bjó á Teigarhorni þar sem hún stundaði veðurathuganir fyrir veðurstofuna. Amma Emils, sem hann hefur munnmælasöguna eftir, er systurdóttir Nikólínu.

Sagan sem Emil hefur eftir ömmu sinni er svona.

Ein er sú saga sem Hansína Regína Björnsdóttir amma mín sagði mér oft, en það var sagan af vinnukonunni á Búlandsnesi og bjarndýrinu. Átt þessi atburður að hennar sögn að vera dagsannur og gæti hafa gerst á hafísárunum fyrir aldarmótin 1900.

Einn ísavetur gekk hvítabjörn á land í nágrenni Teigarhorns. Sást fyrst til hans niður á Teigum, sem er talsvert breitt flatlendi er gengur í sjó fram skammt fyrir innan Teigarhorn. Fljótlega fór bjarndýrið að færa sig upp eftir og hafði fólkið á bænum allan vara á sér, ef ske kynni að hann tæki stefnuna þangað. En björninn hélt áfram í rólegheitum upp alla Teiga og snuðraði öðru hvoru í jörðina eins og til að leita slóða. En hvítabirnir sjá ákaflega illa og nota þefskynið til að leita að bráð. Áfram hélt hann upp mýrarnar fyrir ofan og stefndi í átt að Hálsunum.

Skyndilega var eins og ísbjörninn hefði veður af einhverju því hann herti á sér. Þá sá fólk sér til skelfingar, hvar kvenmaður kom úr gagnstæðri átt yfir Hálsana og hélt sem leið lá niður að Dvergastein, stóran ferhyrndan klett utan í hlíðinni. Bilið á milli bjarnarins og stúlkunnar styttist nú óðum.

Þau nálguðust Dvergasteininn sitt úr hvorri áttinni vinnukonan og hvítabjörninn og náðu þangað svo til samtímis. Fólkið horfði á og bað guð, að hjálpa sér og aðrir bölvuðu í hljóði, þegar bjarndýrið lagði af stað í kringum klettinn. Næstum í sömu andrá birtist stúlkan hinu megin á niðurleið. Þannig gengu þau sitthvoru megin við Dvergastein, vinnukonan og ísbjörninn, að hvorugt sá hitt.

Þá fann björninn slóð stúlkunnar fyrir ofan klettinn og rakti sig á harðahlaupum eftir henni upp yfir Hálsana, þar sem hann hvarf sjónum suður af. En vinnukonan hélt hin rólegasta niður á við og sveigði síðan inn með í áttina að Urðarteigi, þangað sem för hennar var heitið. Hafði hún ekki orðið vör við neitt óvenjulegt á ferðalagi sínu.

Það má ætla að gönguferð þessa ísbjarnar hafi endað í Hamarsfirði. En Hálsarnir, sem getið  er um í sögunni, liggja á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Ingimar Sveinsson frá Hálsi í Hamarsfirði fer með munnmæla sögu af ísbjarnardrápi í Hamarsfirði frá þessum árum sem getið er í bókinni Dvergasteinn. Svona er sú saga.

Hér segir frá hvítabirni í nágrenni Djúpavogs kulda- og frostaveturinn 1882, en Álftfirðingar á leið í kaupstað komu fyrstir auga á björninn inn með Hamarsfirði. “Þennan hvítabjörn sáu Álftfirðingar í Rauðuskriðubotninum er þeir voru í kaupstaðarferð og gerðu skotmönnum á Djúpavogi aðvart.”

Hafa Álftfirðingar að öllum líkindum farið sjóleiðina yfir fjörðinn frá Melrakkanesi (þá á ís) eins og oft var gert á þessum árum. Þegar Hans Lúðvíksson í Sjólyst kom á vettvang með byssuna, hafði ísbjörninn fært sig nær byggðinni og var kominn út á hólinn rétt hjá prestssetrinu á Hálsi. Þar var björninn síðan felldur áður en hann náði að gera nokkurn óskunda af sér.

Þess má svo geta að ísbjarnarskyttan Hans Lúðvíksson var kominn út af Hans Jónatan, manninum sem stal sjálfum sér, fyrsta innflytjandanum sem settist að á Íslandi af Afrískum uppruna. Hansína Regína á Teigarhorni var langafabarn sama Hans Jónatans.


Sænska sálfræðin

Þegar ég var enn á besta aldri sagði vinur minn mér, sem var mörgum áratugum eldri, -þá á svipuðum aldri og ég í dag, hver munurinn væri á almennri og sænskri sálfræði.

Hann sagði sænska konu hafa verið með son sinn í sænskri verslunarmiðstöð og eftir að hafa lokið erindi sínu þá vildi hún fá soninn til að koma heim, en hann var að leika sér á gormhesti. Sonurinn hlýddi engu sem mamma hans sagði og hélt bara áfram að hamast á hestinum.

Þá kom sálfræðingur sem hún þekkti, sérfræðingur í barnasálfræði, ásamt æskuvini sínum sem hafði ekki aðra menntun en lífsreynsluna. Konan bað sálfræðinginn um að tala um fyrir syni sínum.

Sálfræðingurinn talaði við drenginn og sagði honum m.a. að önnur börn biðu eftir því að komast að til að leika sér á hestinum auk þess sem mamma hans væri tímabundinn og þyrfti að komast heim til að elda mat fyrir hann og fjölskylduna, þetta útlistaði hann fyrir drengnum auk fjölda annarra sviðsmynda.

Þetta bar samt engan árangur. Sálfræðingurinn snéri sér þá að vini sínum og sagði villt þú prófa. Hann kinkaði kolli og beygði sig snöggt niður að drengnum og hvíslaði nokkrum orðum að honum. Strákurinn stökk strax af hestinum og sagði; mamma við skulum fara heim.

Sálfræðingurinn var forvitinn um hvað vinur hans hefði sagt við strákinn og spurði hvort hann vildi segja sér það. Já það er alveg sjálfsagt sagði vinurinn, -ég sagði; ef þú kemur þér ekki af hestinum eins og skot þá lem ég þig.

Þegar ég bjó í fjölbýli á fyrstu hæð í úthverfi við sundin blá skömmu eftir aldamótin, þá kom fyrir eitt kvöldið, þegar mullaði niður blautum snjó, að ég lá í sófanum fyrir framan imbakassann að horfa á fréttirnar.

Skyndilega smullu blautir snjóboltar með þungum dynkjum í stofuglugganum. Ég leit út, og þegar krapinn hafði runnið niður rúðuna horfðist ég í augu við tvær 14-15 ára stelpur hnoða snjóbolta við grindverkið úti við götu. Mér fannst rétt að veita þessu ekki frekar eftirtekt og hélt áfram að horfa á imbann. Enda leið ekki á löngu þar til snjóboltaskothríðin færðist upp í stofugluggana á hæðinni fyrir ofan.

Þar kallaði húsfreyjan ekki allt ömmu sína enda úr Vestmannaeyjum þar sem elsku mamma hefur ekki alltaf verið á hverju götu horni. Hún snaraðist út á svalir og sagðist hringja á lögregluna ef þessi djöfulgangur hætti ekki á stundinni. Við þetta jókst snjóboltaskothríðin svo hún varð að forða sér inn, -og áfram hélt skothríðin í gluggana hjá henni.

Þessi húsfreyja var vön að standa við orð sín og hafði sambönd innan lögreglunnar, á það hafði reynt í götunni, enda vann hún þá í Dómsmálaráðuneytinu ef ég man rétt. Ég stóð því upp frá fréttunum og klæddi mig í útivistarföt, Matthildur mín spurði hvert ætlar þú nú, ég sagðist ætla út að hitta stelpurnar.

Svo fór ég í gegnum bílageymsluna og út um annan stigagang í húsinu, kom síðan gangandi eftir gangstéttinni eins og hver annar joggari sem var á leið út og suður göngustíginn.

Þegar ég stóð á milli stelpnanna fyrir framan stofugluggann minn og þær voru að hnoða snjóbolta til að henda í gluggana á hjá nágrönnunum í íbúðinni fyrir ofan, sagði ég við þær fáein orð. Hendurnar á þeim sigu og snjóboltarnir láku úr lófunum áður en þær tóku til fótanna niður götu.

Þegar ég var kominn inn og var lagstur aftur upp í sófa fyrir framan kastljósið í frið og spekt, spurði Matthildur mín; -hvað sagðirðu við stelpurnar Maggi.

Ég sagðist bara hafa tekið þær á sálfræðinni. En hún gafst ekki upp og spurði ákveðin; -hvað sagðirðu. Ég sagði; -vitið þið það stelpur, ef þið hættið ekki þessum djöfulgangi eins og skot þá lem ég ykkur. – Jæja -sagði Matthildur -það má þá teljast heppni ef lögreglan bankar ekki upp á eftir.

Já hún er nú svona og svona sænska sálfræðin.


Sögur af landinu bláa

Hæsta byggða ból landsins, í u.þ.b. 460 m.y.s, er Möðrudalur. Kallaður í fornskjölum Möðrudalur á Efra-Fjalli. Talið er að Möðrudalur hafi verið byggður frá landnámi með örfáum undantekningum. Margar og athyglisverðar sögur eru til úr Möðrudal enda bærinn á einstökum stað inn á öræfum. Svo gott hefur verið að búa í Möðrudal að ættir hafa ílengst í marga ættliði og er núverandi ætt búin að búa þar í meira en 100 ár.

Drauga og presta sögur eru margar og magnaðar. Sennilega er sagan af Möðrudals Möngu sú þekktasta, en hún skreytir flest íslensku þjóðsaganasöfnin. Í Desjamýrarannál Halldórs Gíslasonar prests er sögn sem má geta sér til sem ein ástæða þess að byggð í Möðrudal hefur af og til lagst af í gegnum aldirnar.

Í lok 15. aldar gekk plágan síðari yfir Austfirði. Þá gjöreyddist svo byggð í Múlasýslum, að ekki lifðu eftir nema tvær manneskjur, presturinn í Möðrudal og stúlka ein í Mjóafirði. Þau náðu saman og urðu samferða suður um land að leita annarra manna. – Fundu þau ekki fólk nema á Síðu, 7 menn, og 11 undir Eyjafjöllum. Landið byggðist svo aftur af Vestfjörðum, því þar kom plágan ekki.

Þessi sögn er frá sama tíma og saga af Þorsteini jökli Magnússyni, sem á sér sömu ástæðu og sagan af Torfa í Klofa. Síðari plágan svokallað gekk yfir Ísland árin 1493-1495 og var mannskæð farsótt. Yfirleitt er talið að þetta hafi verið sama sótt og olli Svartadauða sem gekk yfir landið í upphafi 15 aldar. Plágan er talin hafa borist til landsins með ensku skipi sem kom til Hafnarfjarðar. Í árbókum Espólín segir:

„Um sumarið komu enskir kaupmenn út í Hafnarfirði; þar þótti mönnum sem fugl kæmi úr klæði bláu, að því er Jón prestur Egilson segir, og þá var talað; gjörði  því næst sótt mikla, og mannskæða plágu í landi hér. ... tókst mannfallið um alþingi, og stóð yfir, fyrir sunnan land, fram yfir Krossmessu um haustið, en rénaði nokkuð þá loft kólnaði.“

Pestin gekk fyrsta sumarið um Suður- og Vesturland en árið eftir um Norður- og Austurland. Vestfirðingum tókst að verjast smiti og barst hún aldrei til Vestfjarða. Sagt var að konur hafi fundist dauðar með skjólur sínar undir kúm og ungbörn hafi sogið mæður sínar dauðar.

Þeir sem fylgdu líki til grafar hrundu niður á leiðinni og fóru stundum sjálfir í þær grafir sem þeir grófu öðrum. Þá fjölgaði eyðibýlum verulega um allt land og sagt var að fátækt fólk frá Vestfjörðum hafi á eftir getað fengið góðar jarðir víða um land. 

„Þorsteinn jökull bjó á Brú á Jökuldal um aldamótin 1500. Það hefur verið algeng sögn um hann í Austfjörðum, að hann hafi búið þar, þegar plágan mikla gekk 1494 -5. Þegar hann spurði til plágunnar, flutti hann vestur á öræfi, að svo kallaðri Dyngju í Arnardal (inn af Möðrudalshásléttunni). Byggði þar bæ og bjó þar í tvö ár.

Meðan plágan stóð sendi hann tvo menn til byggða, sitt árið hvorn, og kom hvorugur aftur. Þriðja árið sendi hann son sinn. Hann sá bláa móðu yfir dalnum (Jökuldal) en engar mannaferðir. Þá flutti Þorsteinn að Netseli við Ánavatn í Jökuldalsheiði og bjó þar eitt ár. En næsta ár flutti hann aftur að Brú og bjó þar til elli”.

Mikil ætt Austfirðinga er komin út af Þorsteini jökli, eins og vænta má sé eitthvað að marka Desjamýrarannál.

Munnmæli eru til um að byggð í Möðrudal hafi eitt sinn lagst af vegna ísbjarna. Sagan er í grófum dráttum þannig að maður utan af Hólsfjöllum átti erindi í Möðrudal. Þegar hann kom þangað var engin úti við og engin sem kom til dyra. Hann fór því inn í bæinn og var aðkoman ömurlega. Lík alls heimilisfólks lágu á gólfi baðstofunnar rifin og tætt.

Manninn grunaði strax að ísbirnir væru þessu valdandi. Baðstofan í Möðrudal var ekki á palli heldur niður á jafnsléttu. Það voru samt tvö rými í lofti hvort við sinn stafn með bjálka á milli. Þangað fór maðurinn því ekki þorði hann að ganga langa leið til baka og eiga von á ísbjörnum, eins grunaði hann að ísbirnirnir ættu eftir að koma aftur og vitja veiðinnar.

Ísbirnirnir komu aftur og hafði maðurinn þá undirbúið sig vel og tókst að flæma þá á flótta með eldglæringum af hefilspónum. Engar tímasetningar eru til á þessum munnmælum. En í annál Eiríks Sölvasonar prests í Þingmúla er sagt frá því að mikill hafís hafi verið við Austfirði 1621, hafi þá gengið 25 ísbirnir í hóp um Fljótsdalshérað og upp um heiðar.

Árið 1916 var tekin gröf í kirkjugarðinum í Möðrudal komu þá upp 9 höfuðkúpur og mikið af mannabeinum, settu menn það í samband við munnmælin um ísbirnina. Þessi bein gætu hafa verið þarna að öðrum ástæðum, s.s. drepsóttum aða einhverjum öðru, enda kirkjugarður. En ólíklegt var talið að skortur á landrými í Möðrudal hafi orðið til þess að fólk væri grafið í fjöldagröf, eitthvað annað hafi þurft að koma til að svo væri gert.

Þá segja máldagar Möðrudalskirkju einstaka sögu, m.a. frá skógarítaki kirkjunnar í Skaftafellsskógi og sumarbeitarrétti Skaftfellinga fyrir hesta í Möðrudal. Þessir máldagar gefa það ótvírætt til kynna að Vatnajökull hafi verið mun minni og með öðrum hætti fyrr á öldum en hann er í dag.

 

Í Möðrudal á Fjöllum er mánaljósið tært

og meyjaraugun fegri en himinsólin

Og kvöldstjörnunnar ljós

það lýsir þar svo skært

Þar leiðast þau

sem elskast

bak við hólinn

(ljóð Þórbergur Þórðarson)


Hútar

Það er nokkuð ljóst að hafsvæðið sem Hútar herja á við strendur Jemen hefur frá alda öðli verið Vesturlandabúum varasamt. Í bókinni Jón Indíafari Reisubók getur Jón Ólafsson úr Álftafirði vestra þessa hafsvæðis með þessum orðum

Eitt eyland, liggjandi í því Rauða hafi, kallast Zocotora og heyrir til Afríka. Það með lyktar hér um meira að tala. Út af því Rauða hafi koma þrátt í veg fyrir Indíafara nokkur smáskip og skútur, sem kallast barkar, hver skip þeir taka með harðri hendi og alla vöru.

Á þeim eru egypskir og arabískir menn. Sumum sleppa þeir tómhentum, en suma aflífa þeir, sem morðingjar og sjóreyfarar. Þar fá þeir oftlega mikið herfang, og nær svo ber við, að þessi smáskip koma út af þeim Rauða sjó í móti þeim, en á vorri leið skeði það ei, og ei komum vér við nokkur lönd, fyrr en við komum að Ceylon.

Þetta má lesa í Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara þegar hann sigldi á vegum Danakonungs á skipinu Kristjánshöfn til Indlands árið 1622. Þarna er hann að lýsa hluta leiðarinnar á milli Madagascar og Ceylon (Siri Lanka). Það sem Jón kallar Zocotora er eyja við minni Adenflóa.

Jón dvaldi um tíma á Indlandi og segir m.a. frá því í Reisubókinni, sem hann skrifaði fyrir um 400 árum síðan, að á Indlandi hafi hann skrifað bréf til Halldórs bróður síns í Súðavík. Hann segir að félagar hans hafi sagt að þetta væri í fyrsta skipti sem fréttir hefðu farið á milli Indlands og Íslands.

Jón gerir grein fyrir hvaða leið bréfið fór til Íslands og hvernig það komst alla leið. Það fór með skipinu Kristjánshöfn milli Indlands og Danmerkur. Bréfið fór svo í kaupfar á Eyrarsundi sem var á leið til Skutulsfjarðar við Ísafjarðardjúp.


mbl.is Skutu niður eldflaugina á síðustu stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband