Færsluflokkur: kreppan

Að afloknum fjörbaugsgarði.

Ársins 2014 verður minnst fyrir einstaka blíðu, ársins þegar náttúran blómstraði sem aldrei fyrr og ársins sem bláberin spruttu í tonnatali. Eins mun árið verða í mínum huga árið sem þriggja ára útlegð lauk og ég kom aftur heim á landið bláa, til hennar Matthildar minnar. Eftir útlegð sem var á við fjörbaugsgarð.

Þegar Goðarnir settu lögin til forna þá voru dómar yfir sekum manni þrenns konar. Í fyrsta lagi var hægt að dæma hinn seka til að greiða bætur eða fjársekt en þegar féð hafði verið greitt var maðurinn aftur frjáls. Þetta var vægasta refsingin.

Næsta stig var kallað fjörbaugsgarður en það fól í sér að hinn seki var dæmdur til þriggja ára brottvísunar úr landi. Þá varð hann að fara úr landi áður en þrjú sumur voru liðin frá dómi og vera í burtu í þrjú ár. En að þremur árum liðnum gat hann komið heim og verið frjáls.

Þriðja og þyngsta refsingin kallaðist skóggangur. Sá sem var dæmdur skógargangsmaður mátti ekki vera á Íslandi. Ef hann náðist á Íslandi var leyfilegt að drepa hann. Sumir skógarmenn gátu verið frjálsir í útlöndum, aðrir voru réttdræpir þar líka. Það var ekki fyrr en mörgum öldum seinna sem farið var að dæma menn í kostnaðarsama fangelsisvist.

Skógargangur, fjörbaugsgarður og fjársektir var íslensk refsing sem beitt var á þjóðveldisöld. Það má kannski segja að enn séu til íslendingar á erlendri grund, sem ekki hafa haft efni eða geð til að greiða fjársektir hrunsins, sem kallast gætu fjörbaugsmenn jafnvel skógarmenn.

Finna má eftirfarandi erindi í hinum fornu landslögum Grágáss; "Ef maður gefur manni nafn annað en eigið, varðar það fjörbaugsgarði ef hann vill reiðast við. Svo ef maður reiðir aukanefni til háðungar honum." Þannig að ekki væri rétt af mér að hafa frekari orð en þegar hafa verið látin falla á þessari bloggsíðu í gegnum árin um þær orsakir sem urðu til að ég varð af þremur árum á landinu bláa.

Árið 2014 var árið sem fjörbaugsvistinni á 69°N lauk og ekki hægt að segja annað en að lífið hafi leikið við mig síðan. Í lok febrúar s.l. lauk ég störfum hjá hinu ágæta fyrirtæki AS Murbygg í Hálogalandi og hóf störf hjá Múrverktökum Austurlands í heimahögunum sem kenndir eru við landsfjóirðung drekans. Það er ekki hægt að segja annað en að móttökurnar hafi verið frábærar, þvílíkt ár, auk flísa tóm steypa. Hér má sjá myndir af sæluni.

Sumarið 2014 notuðum við Matthildur svo til að njóta frelsisins í botn og þvælast um landið bláa á þann hátt sem við höfðum ekki gert áður, þ.e. í fótsporum túrista. Það var eins og mig grunaði í fjörbaugsvistinni að við búum í flottasta landi í heimi jafnvel þó það sé töff.

Ég óska lesendum þessrar síðu farsæls komandi árs og friðar.


Í gegnum nóttina.

IMG 0202 

Hún farin að láta á sér kræla blessuð sólin hérna á 69°N og ekki laust við að hún ylji hjartaræturnar. Um síðustu helgi hafði hún það af að kíkja upp fyrir hafsbrún og núna er hún farin að skoppa á milli tindana sem eru reyndar ekki nema eins og smá peð í fjarlægð suður við Tjeldsundið séð héðan frá Harstad. Þó svo að hin eiginlega Mörketid þegar sólin kemur ekki einu sinni uppúr hafinu á 69°N vari einungis frá 30. Nóvember til 10. Janúar þá er norðurhjara nóttin búin að vera óvenju löng í þetta skiptið.

Um miðjan október kom snjórinn með dimma éljatíð. Eftir að Matthildur mín yfirgaf 69. gráðuna 20. nóvember hefur verið myrkur þar til núna í vikunni sem leið. Það fór ekki hjá því að það rökkvaði í sálinni við hvarf sólarinnar og hennar Matthildar minnar. Þó svo að ég færi í stutt jólafrí til Íslands varð rökkrið svo drungalegt að maður á sextugs aldri sá sér ekki annað fært en að segja upp föstu starfi í sæluríki olíugróðans. Reyndar blundaði það meira en í hjartanu að fara til baka á landið bláa þegar tækifæri gæfist.  En hingað á norðurhjarann hrökklaðist ég eins og útlagi á söguöld nema það var ekki vegna dramatískra hetjudáða heldur skuldar við gjaldþrota banka sem tilkomin var vegna persónulegrar ábyrgðar á byggingafyrirtæki.

Eins og kannski einhverjir muna þá drógu bankarnir margt niður með sér í óhappinu um árið. Eftir að hafa leitað ásjár hjá bankanum með nýju kennitöluna um að hann afskrifaði þó ekki væri nema hluta af dráttar vöxtunum fékk ég hið margfræga 110% tilboð. Eftir að hafa farið leiftursnöggt yfir það í huganum fannst mér það að skrifa upp á 110% verðtryggða skuld á blokkaríbúð jafngilda því að hjálpa innbrotsþjófi að bera allar eigur út og láta hann hafa undirritaðan óútfylltan tékka í kveðjuskini vegna þess að hann bjóst við að hafa meira upp úr krafsinu. Spurði því blessaðan bankastjórann í einfeldni minni hvort hann héldi að ég væri fábjáni. Eftir það spursmál var ekki meira spaugað og ekki um annað að ræða en að halda í útlegð sem nú er farin að nálgast þrjú ár.

Nú sér semsagt fyrir endann á svartnættinu, farið að hilla í landið blá handan við hafið, bara eftir að þreyja Þorrann, umsamin starfslok verða í byrjun Góu. Þegar ég las kveðju Dagbjartar systur minnar um jólin rann upp fyrir mér uppskera þessa fjörbaugsgarðs; „þú ert ekki ríkur fyrr en þú átt eitthvað sem þú getur ekki keypt fyrir peninga".

Þegar ég réði mig til norður norsk fyrirtækis á sínum tíma hélt ég að ég væri að fara til að bjástra í steypu með norðmönnum, en félagarnir í vinnunni hafa auk þeirra verið frá Súdan, Afganistan, Burma og Pólandi, nábúarnir á neðri hæðinni frá Pakistan. Það hefur verið ævintýri að fá tækifæri til að kynnast þessu heiðurs fólki. Eins er ég orðinn þaulvanur fjörulalli því í fjörurnar hef ég vanið komur mínar þessi ár til að eiga samræður við fuglana ef það hefði verið nokkur leið til þess að þeir gætu léð mér vængi sem notast hefði mátt við að komast yfir hafið og heim. Sjálfsagt á ég eftir að sakna fjörunnar, fuglanna og fólksins þegar fram líða stundir enda hef ég verið staddur í perlu.  En ég veit að allt þetta bíður mín handan við hafið og meira til, því þar kem ég til með að finna hana Matthildi mína í búsældarlegri fjöru.  


Frímúrarinn

Heilinn 

Það hefur blundað í mér í áratugi að skrifa hugnæma ritsmíð um steypu. Fyrir margt löngu bar ég þessi hugðarefni undir góðan vin sem ráðlagði mér eindregið frá þesslags skrifum. Hann sagði að ef svo vildi til að einhver nennti að lesa þá steypu, myndi sá hinn sami sennilega komast að þeirri niðurstöðu að höfundurinn væri kolruglaður.

Það gerðist núna í sumar að á mínum vinnustað, þar sem sement er haft um hönd, að verkfræðingur kom hvað eftir annað til að spjalla. Mér datt fyrst í hug að hann væri að forðast inniveruna með því að gera sér erindi út í sólina til að ræða steypu. Svo kom að því einn daginn að hann kom himinlifandi og tilkynnti að hann væri kominn í sumarfrí sem hann ætlaði að nota við að gera upp gamalt hús sem hann hafði fest kaup á í nálægri sveit sér til frístundagamans. Mér datt í hug án þess að hafa orð á því, til að skemma ekki stemmingu augnabliksins, að þessi verkfræðingur hefði betur lært múrverk, þá væri hann alltaf uppnuminn í fríi. 

Það finnst kannski ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá. Það virðist verða æ algengara að samfélagsgerðin slíti alfarið á milli staðar og stundar eða kannski réttara sagt frí- og vinnutíma. Þetta hefur orðið til þess að ný fíkn hefur fæðst sem má með réttu kalla fjarverufíkn.

Einn kollegi minn spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari.  Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði til að losna við steypuvinnu en allt kæmi fyrir ekki í múrverkið væri hann kominn aftur jafnharðan.  "Já veistu ekki út af hverju það er" sagði ég og svaraði honum svo að bragði; " það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum".

Aftur hugsaði ég með steypunni nú í sumar þegar ég vann um tíma með norskum kolleiga sem hefur söðlað um og stundar nú verkfræðinám. Hann ljómaði dag hvern í sumarsólinni, starfsgleðin geislaði af honum við það að vera kominn aftur í gamla starfið í sumarfríinu sínu, límdur við stað og stund. Þegar það kom til tals hvers vegna hann legði það á sig að sitja í háskóla árum saman til að öðlast verkfræði gráðu þá tjáði hann mér með áhyggjuglampa í fjarrænum augunum að hann ætti sér draum. Þessi draumur snérist í grófum dráttum um að komast til Brasilíu og byggja sér sumarhús við hafið.

Til þess að gera sér léttara fyrri ætlaði hann að komast í vellaunaða verkfræðingsstöðu einhversstaðar í dreifðum byggðum N Noregs þar sem þar að auki væri skattfríðindi í boði fyrir það eitt að vilja búa þar kalda vetur í skammdegismyrkrinu. Safna þar góðum sjóði meðfram afborgunum af námslánunum og komast svo sem hálaunaður pensjónisti með sjóðinn alla leið til Brasilíu ásamt reglulegum eftirlaunagreiðslum og byggja svo þar drauma húsið.

Í fljótfærni varð mér á að spyrja, "þér hefur ekki dottið í hug að fara strax til Brasilíu". Kolleginn svarað fálega; "þú segir nokkuð". Þetta hefði ég betur látið ósagt, því þó svo ég hafi alltaf gengið með steypu í hausnum þá er ekki víst að aðrir geri það.

 

Fyrsta minningin voru múrsteinar foreldrana sem byrjuðu á því að byggja ca. 40 m2 hús sem kallað var Hábær, en varð síðan bílskúrinn við Bjarkarhlíð 5 á Egilsstöðum. Steyptu vikursteinarnir sem gægjast upp úr snjónum hafa orðið að ævintýri lífs míns, ekki einu sinni Zorro sverðið og hvelhettubyssan sem  var fjögurra ára afmælisgjöf standa upp úr, enda urðu hvellhetturnar fljótlega búnar og sverðið brotið í pússningasandhaugnum undir snjóskaflinum.

Þrjú systkini fyrir framan Hábæ á steyptri gólfplötu, ásamt félaga af hæðinni f.v. Áskell, Magnús, félaginn Héðinn og Dagbjört, síðar bættist Björg við í skúrinn en Sindri ekki fyrr en húsið að Bjarkarhlíð 5 var komið í gagnið. Á þessari mynd má sjá að ég hef ég verið búin að taka upp þann sið sem hélst fram eftir aldri, þ.e.a. mæta til múrverks í spariskónum. Nú hafa reglugerðarpésarnir komið því þannig fyrir að öryggisskór, gul vesti og plasthjálmur kveða á um tilverurétt á byggingastað.  

IMG NEW 

 Stoltir hæðarstrákar við fyrsta og eina þriggja hæða húsið á Hæðinni, f.v. Siggi Halldórs sem sennilega hélt að hann væri ekki á myndinni, Magnús, Sissi Halldórs, Hjörtur Jóa og sennilega er Dóri Halldórs á hlaupum til að komast inn á myndina sem Jóhann Stefánsson tók.

Múrsteinarnir okkar Matthildar. 

 

 Mynstruð og lituð steinsteypa fór vel við múrsteinana okkar Matthildar.

 

Arin fyrir eldinn telst til múrverks, sem og mynstruð steypa í gólf. 

 Laugarvellir

Yfir 10 ára tímabil átti mynstruð steypa hug minn allan, þar má líkja eftir náttúrunnar steinum með litum og formum. 

St Louis 

Á árunum 1993-1998 var þrisvar farið til landsins steypta USA til móts við 200 kolleiga á workshop. Þar voru sett upp svæði og menn sýndu listir sínar. Eitt skiptið duttu út fyrirfram ákveðnir sýnendur og íslensku víkingarnir voru óvænt manaðir til að hlaupa í skarðið. Þá kom sér vel að hafa rúnina Ægishjálm á heilanum til að móta og lita í steypuna. Því miður á ég ekki mynd af íslenska Ægishjálminum okkar í Ameríku, eða kannski sem betur fer þegar þetta tígulsteinaverk innfæddra er haft til hliðsjónar. 

Flot og stucco prufa I 

Það er líka hægt að lita sementsbundin flotefni sem notuð eru við afréttingu steyptra gólfa.

 Pizza 67

Það má hreinlega gagna af göflunum í að lita og reykspóla flotgólf, þetta tilraunagólf gerðum við Mallands félagarnir fyrir Pizza 67 á Egilsstöðum 1998. 

Hafnarstræti stucco 

Eins er hægt að lita múrblöndu á veggi, þá er það kallað "stucco" upp á Ítalskan máta. Þessa veggi gerði ég 2003 fyrir skemmtistað sem kallaðist Kapital og var í Hafnarstræti. 

Aðalstræti Sjávarkjallarinn 1993 

Grjót hefur verið fúgað frá fornu fari, þessir steinar voru fúgaðir fyrir Minjavernd þegar Geysishúsið á horni Aðalstrætis og Vesturgötu gekk í endurnýjun lífdaga 2003. 

Breiðdalsvík epoxy 1992 

Epoxy er einskonar plastmúrverk sem mikið er notað í fiskverkun og annarri matvælavinnslu. Með rekstri fyrirtækisins Mallands flæktumst við félagarnir frá Djúpavogi um allt land með okkar epoxy og jafnvel víðar um veröldina. 

Sjávarútvegs sýning 1993 

Epoxy árin komust næst því að geta kallast þægileg innivinna sem var þó leiðinleg til lengdar, ekki síst vegna þess að þá komst maður næst því að neyðast til að vera í nýpússuðum spariskónum vegna svokallaðrar markaðsettningar. Sjávarútvegssýningar urðu alls þrjár sem staðnar voru í sparifötum. 

 

Listamenn eiga það til að steypa. Þessar kúlur múruðum við félagarnir frá Egilsstöðum fyrir listakonuna Lilju Pálmadóttir sumarið 2002 í portinu á milli Gamlabíós og Hótels 101 við Ingólfsstræti. Ingibjörg systir hennar lét vinna þetta verk þegar Alþýðuhúsið við Hverfisgötu gekk í endurnýjun lífdaga, þar sem hún naut aðstoðar Hrólfs Gunnlaugssonar múrarameistara varðandi allt múrverk úti sem inni.  

IMG 0302 

Þennan svan gekk ég fram á í Skuggahverfinu s.l. sumar, mundi eftir að hafa klesst honum á vegg fyrir 10 árum. Ekki man ég nafnið á listamanninum sem átti hugmyndina, en þetta var á meðan ég vann undir verndarvæng Hrólfs sem var nokkhverskonar spari múrari hjá latteliðinu í 101. 

IMG 2024 

Þennan heiðursmann hjálpaði ég listakonunni Steinunni Þórarinsdóttir að jarðsetja á horni Vesturgötu og Aðalstrætis fyrir Menningarnótt 2003. Jón Ársæll maður Steinunnar birtist með kappann á vörubílspalli á föstudagsmorgni, brá kaðli um hálsinn á honum og hann var hífður á sinn stall. Þetta þóttu óvirðulegar trakteringar en ef ég man rétt þá heitir verkið "...að moldu skaltu aftur verða". Eins og sjá má er kappinn alveg að bugast. Snemma á mánudeginum eftir menningarnótt mátti sjá verkið fullkomnað. Gamall slitin Laisy Boy stóll hafði verið settur aftan við kappann, sem lýsti vel einskærri hugulsemi. 

IMG 0147 

Kannski voru það steinarnir í orminum hans Hrings Jóhannessonar myndlistamanns á kaupfélagsveggnum á Egilsstöðum sem kveikti áhugann við að lita stein í steypu. En fyrir 40 árum síðan sátum við þrír pollarnir sunnan undir KHB bröggunum og hjuggum til steina með múrhömrum fyrir Hring í þessa miklu mynd . 

Flatarsel jasec 

Í "gróðærinu" 2006 og 2007 byggðum við kollegarnir á Egilsstöðum nokkur hreinræktuð múrhús og nutum til þeirra verka starfskrafta pólverja. Það má með sanni segja að eftir þá gullöld hafi margur íslendingurinn þurft að leggjast í víking og feta í fótspor pólskra kappa. 

IMG 3232 

Það góða við múrverk er að steina má finna um víða veröld, þessa steina dunduðum við Afríkuhöfðinginn Juma okkur við að rífa niður og endurhlaða í samísku fjósi sem er staðsett í Evenesmarka ,N Noregi.  

IMG 1299 

Sól, skúta og viti, Norsk sprunguviðgerð með flísum í hinu eilífa sumarfríi á Harstad Camping.

Stokksnes radsjárstöð 

Hún snýst nú samt, Stokksnes 1989. 

 Grátmúrinn 1998

Við leifar musteris Salómons, sjálfan grátmúrinn, með Guðmundi Björnssyni múrarameistara. Árin 1997-1998 var tekið þátt í útrásarverkefni í Ísrael við að leggja epoxy gólf fyrir Gyðinga. Í landinu helga náði ég meir að segja að halda dagbók af og til, svo sérstök var veran þar. Í þau skipti sem ég hef reynt að koma þessum dagbókarbrotum í tölvutækt form hefur tölvan hrunið svo ég hef tekið því sem fyrirboða um að oft megi satt kyrrt liggja.

Arizona 1998 

Mallands félagar, Gísli Sigurðarson, Magnús og Karl Elvarsson, á Indíánaslóðum í Arizona. 

Grand Canion 1998 

 Þetta er nú að verða meiri steypan.


Sveppur og sjálfstætt fólk.

IMG 1811 

Sænautasel á Jökuldalsheiði

Ljúfir liðu dagarnir á landinu bláa núna í september heimsókninni. Mikið var mig búið að hlakka til og ekki yrði veðrið látið spilla fyrir andaktinni þó svo að blési hressilega með kafaldsbil til fjalla í nokkra daga. Svo tilbreytingasnautt getur lognið í Norsku fjörðunum verið til lengdar að maður saknar norðan nepjunnar. 

Það var strax í fokkernum á flugi austur sem fyrirheitið um frábæran tíma framundan leit morgunsins ljós. Þann bjarta laugardagsmorgunn, þegar skýhnoðrarnir að sunnan liðu hjá á flugi yfir Öskju, mátti sjá út Jökuldalsheiðina allt útundir bláma Vopnafjarðarins, Ánavatnið langt og mjótt tvískipt með veiðitanganum í miðju kóngablátt sem Sænautavatnið og nefndu það. Innan um steinana í öræfaauðninni voru rollur eins loðnir hnoðrar ásamt skjannahvítum álftunum, sem innan um stórgrýtið vörpuðu löngum svörtum skuggum á gular sandöldurnar litðar af morgunnsólinni. Akkúrat þarna á fluginu í fokkernum mundi ég eftir því hvað ég þyrfti að gera áður en vindar haustsins blésu rollurnar á kaf og ég fyki aftur yfir himin og haf.

Það gerðist nefnilega núna í sumar að við Súdanski höfðinginn Juma vorum sendir upp í Bláfjöll til að aðstoða gamlan Sama hann Karstein við að endurbyggja jarðhýsi sem hafði verið notað til að geima mat fyrr á tíð. Þetta var á stað sem heitir Vilgesvárre sem er úr alfaraleið, án rafmagns og allra nútíma þæginda. Eftir 4 km labb upp í Bláfjöll frá næsta vegslóða komum við í nokkhverskonar Múmíndal þar sem Samísk stórfjölskylda hafði búið í torfbæjum í 4 ættliði. Þetta voru forfeður Karsteins en nú hefur dalurinn verið gerður að Samísku safni. 

Karstein hafði ekki tíma til að stoppa lengi, skildi okkur eftir og fór niður í byggð með hreindýrabóndanum Nils sem hafði flutt Karstein og búnaðinn á fjórhjóli. Hann þurfti að komast niður til að skrifa tímaskýrslu vegna vinnu frá sumrinu áður þar sem aðstoðarmaður hans frá því þá væri hreint að gera hann brjálaðan vegna þess að Samasafnið sem heldur utan um ríkisstyrkinn sem fjármagnar endurbygginguna vildi ekki greiða honum launin frá fyrra sumri nema gegn tímaskýrslu. Forstöðukonan sem hefði með þetta að gera væri fyrir munað að átta sig á því að hann væri ekki 18 ára lengur, heldur 63 ára, og því af sem áður var þegar hann gat leikandi verið á tveimur stöðum í einu. En nú þyrfti hann auk þessara tveggja að fara til jarðarfarar og læknis daginn eftir. Tímaskin Sama virðist því vera heldur fjölbreyttara en á Jökuldalnum í denn þar sem sagt var til lítils væri að gefa úr í fermingagjöf, betra væri að gefa dagatal. 

Áður en Karstein fór til byggða kom það fram hjá hreindýrabóndanum Nils að það væri óvíst hvenær hann gæti skutlað honum aftur fótalausum upp í Bláfjöll, hann þyrfti nefnilega að fara í hreindýrasmölun á fjórhjólinu. Mér varð á að spyrja Nils hvað hann ætti mörg hreindýr en þá brosti hann bara og hvarflaði augunum á Karstein. Ég spurði hvort það væri eins með samíska hreindýrabændur og íslenska hrossabændur að þeir þættust aldrei vita hvað stofninn teldi. Karstein leit  djúpt í augun á mér um leið og hann sagði alvarlega; að þetta hefði ekkert að gera með íslenska hesta. Maður spyr einfaldlega ekki Samískan hreindýrabónda svona spurningar frekar en ég spyrði þig að því hvað mikið þú eigir inn á bankabókinni þinni, sagði hann. Eftir þetta steinhélt ég kjafti, enda ekki yfir miklu að gorta. En í kveðjuskini benti Karstein okkur Juma á hlaupandi rollu í hlaðvarpanum sem ekki væri góður fyrirboði.

Mig var búið að hlakka mikið til  þessa verkefnis ekki síst vegna þess að við áttum að gista í torfbæ á meðan á því stæði, sem var eitthvað sem gaman væri að upplifa. Þar að auki var ég talsvert spenntur að vita hvaða áhrif algert rafmagnsleysi hefði á sálina en það hafði ég heyrt að gæti verið þess virði að veita eftirtekt. Torfbærinn sem við gistum í var ekki stór kannski ca.  5.5 m X 3m sem skiptist í tvö rými annað þar sem komið var inn á moldargólf með steinhellum í gangveginum og svo inn af því stærra rými með timburgólfi sem hafði að geyma tvö rúmstæði sem stóðu meðfram vegg gafl í gafl, annað 1,70 m á lengd hitt 1,75, gamla viðareldavél, borð og tvo stóla, veggir og loft voru borðaklædd. Pottar og önnur eldhúsáhöld héngu upp um veggi, hvorki rennandi vatn né salernisaðstaða var í húsakinnunum. Okkur kom saman um að Juma fengi lengra rúmið því hann væri stærri þar sem hann slagar í 1,90 m.

Það er skemmst frá því að segja að rafmagnleysið hafði þau áhrif á sálina að það var eins og öll mörk á milli himins og jarðar hyrfu, svona eitthvað svipað og að vera undir stjörnubjörtum himni og ætla að telja stjörnurnar. Þar sem ég lá andvaka í rúminu hans Ola í Vilgesvarre, sem var húsbóndi einni öld fyrr í þessu húsi, liðu samtöl og myndir í gegnum hugann sem ég henti ekki nokkrar reiður á. Um miðnættið heyrði ég fótatak sem mér fannst nálgast millihurðina sem var fram í rýmið með moldargólfinu. Ekki opnaðist hurðin en fótartakið hélt áfram að heyrast og fyrir rest gat ég staðsett það í lausu lofti rétt fyrir ofan rúmgaflinn. Þá heyrðust skruðningar og hvít flyksa rann fram hjá glugganum í veggnum á móti en krafsaði sig svo upp í glugga tóftina aftur og ég horfðist í augun við rollu í gegnum stráin þar sem hún var á beit í gluggakistunni.

IMG 1003

Torfbærinn og jarðgeimslan í Vilgésvarre með rabarbaragarðinn á milli

Það var loks af fjórum nóttum liðnum í torfbænum að reiða komst á andvöku óráð rafmagnsleysisins. Eftir að við Juma skildum við Karstein eftir árangurlausar tilraunir við að endurbyggja hálfhrunið jarðhýsið með bíltjakki, járnkalli og kúbeini, þar sem hvorki var viðkomið samískum galdri né Afríkönsku vúúddúi hvað þá hugmyndaflugi minnislauss múrarameistara, að menn urðu þó sammála að lokum um að Afríkanar og Samar hugsuðu í hringi þó svo að ekki yrði það til að endurgera 150 ára jarðhýsi. Rabarbaragraut höfðum við í matinn á hverjum degi, Juma brosti út undir eyru eftir að hafa smakkað það góðgæti í fyrsta sinn og sagði "jæja mister Magnús héðan förum við allavega ekki fyrr en rabarbaraakurinn er búinn".  

Það gerðist reyndar fyrir tilviljun að við stoppuðum við lítið upplýsingaskilti til að hagræða hryggsekkjunum á heimleiðinni, að skyndilega fengu samtöl og myndir andvökunáttanna samhengi. Á þessu skilti stóð að John Johnsen og hans kona Kirsten Andersdatter hefðu tekið sig upp 1868 og flutt til fjalla í leit að jarðnæði. Þau, börn þeirra og barnabörn hefðu svo byggt sér torbæi í dalverpinu í Bláfjöllum sem þau nefndu Vilgesvarre. Þar hafði stórfjölskyldan búið allt til ársins 1958. Það var sem sagt akkúrat þarna sem Jökuldalsheiðin kom inn á radarinn.

Skömmu eftir að Fokkerinn var lentur á Egilsstöðum fór ég að taka eftir því að sveppur hafði tekið sér bólfestu í hugum fólks við að keyra upp hagvöxtinn, allavega meðal iðnaðarmann og ekki laust við að gamli fiðringurinn kæmi í fingurna þó svo að ekki sé enn farið að setja staðla um sveppafrítt múrverk. Votihvammur var með smiðum upp á þaklausum húsum að störfum við að fjarlæga óvættinn fyrir haustrigningarnar. Eins var búið rífa heilt hús við Laufásinn og byrjað á nýju 300 fermetra a la 2007. Þannig að húsin í gamla bænum líta út eins og gorkúlu þyrping við húsveggi sveppafríu hallarinnar. Eins mátti heyra í útvarpsauglýsingum að byggingavöruverslunum var einstaklega umhugað um heilsufar fólks og buðu upp á sveppapróf á tilboðsverði.

Mér varð hugsað til afa míns, nafna og vinar sem bjó síðasta æviskeiðið í þeim hluta bæjarins sem hefur hús sem nú þykja orðin óíbúðarhæf, algerlega grunlaus um það að hann byggi í eitursveppi. Þarna bjó hann sæll í sínu húsi og taldi sig hafa öðlast allsnægtir með skuldleysi við Guð, kaupfélagið og bankann leifandi sér þann luxus að kynda húsið yfir 20°C. Oft áttum við Magnús afi minn skemmtileg samtöl um fyrri tíð, þar á meðal húskost. Einu sinni spurði ég hann að því hvort það hefði ekki verið notalegt að búa í torfbæ. Ég held ég muni svarið orðrétt; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn". Hann sagði mér frá lekanum í haustrigningunum og myglunni sem fylgdi rakanum. Foreldrar hans börðust bæði við berkla með tilheyrandi fátækt en tókst samt að halda heimili sínu saman sem taldi fimm barna hóp. Afi vildi meina að húskinnin hefðu átt stærstan þátt í heilsubresti fyrri ára.

Vallaneshjálega ein af endurbyggðu baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar

Í 1. tlbl. 5.árg. Glettings 1995 gerði Guðrún Kristinsdóttir, hjá safnastofnun Austurlands, húsakosti á Héraði skil á fyrri hluta 20 aldar í greininni "Baðstofurnar hans Jóns Sigvaldasonar". Jón var faðir Magnúsar afa míns og hafði smíðar að ævistarfi. Í erindi Guðrúnar kemur fram að Jón hafi oft verið fengin til að færa gömlu torfbæina til nútímalegra horfs með sínu sérstaka lagi. En þetta gerði hann með því að byggja tvílyft timburhús inn í tóft eldri baðstofa með háan, járnklæddan timburvegg fram á hlaðið sem hafði útidyr og glugga, með járni á þaki sem tyrft var yfir, bakveggir og stafnar héldu sér úr torfi og grjóti. Það kemur fram í grein Guðrúnar að heimili Jóns, gamli torfbærinn í Tunghaga, hafi verið síðast baðstofan sem hann endurbyggði árið 1934. Sannast kannski þar hið fornkveðna að iðnaðarmaðurinn lætur endurbætur við eigið hús ævinlega sitja á hakanum, nema þá að lífsbaráttan hafi verið með þeim hætti hjá smiðum í þá daga að allt varð til að vinna við að afla heimilinu lífsviðurværis. En fram kemur í samantekt Guðrúnar ;"Jón vann fram á síðasta dag við fjósbyggingu á Höfða á Völlum, en veiktist af lungnabólgu er hann kom heim og dró hún hann til dauða 5. júlí 1936".

Skömmu eftir að Jón Sigvaldason endurbyggir baðstofuna í gamla torfbænum í Tunghaga flytur Magnús elsti sonur hans í Jaðars húsið í Vallanesi með rolluskjáturnar sínar til ungu ekkjunnar eftir sr Sigurð Þórðarson og æskuvinkonu sinnar, Bjargar ömmu. Jaðar var einn fyrsti herragarðurinn á Íslandi byggður af séra Magnúsi Blöndal sem var einn af umdeildari Vallanesprestum. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. október 1970 bls. 32 má lesa grein um Jaðar þar sem vitnað er í skrif Þórhalls Bjarnasonar biskups yfir Íslandi eftir yfirreið hans um Austurland 1912; Þar er presturinn sr. Magnús Bl. Jónsson, búinn að byggja íbúðarhús, sem ólíklega á "nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru". - Segir biskup að sér hafi dottið í hug að hér væri í byggingu verulegur herragarður í líkingu við herragarða í þjóðmenningarlöndum "til gagns og sóma og fyrirmyndar lýð og landi".

Jaðar 

Á Jaðri var hátt til lofts og vítt til veggja, húsið steinsteypt, svo kalt á vetrum að ekki voru tök á að kynda öll þau salarkynni í stofuhita. Sjálfur fékk ég að kynnast hrollköldum herragarðinum í Jaðri þegar ég var barn í sveitini hjá ömmu og afa. Eins man ég eftir að hafa komið í eina af baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar bjartan sumarmorgunn og fundist hún notaleg en það var í Vallaneshjálegu. Það er ekki að undra að afi hafi talið sig búa við lúxus eftir að þau amma fluttu á Selásinn á Egilsstöðum þar sem hæglega var hægt að halda 20°C stofu hita án þess að eiga á hættu að stofna til skulda. Líklegast gildir annað um sveppinn sem nú ríður verðtryggðum röftum, varla verður honum útrýmt án skuldsetningar út yfir gröf og dauða ólíkt því sem gerðist með gömlu torfbæina.

Annars er þessi hagvaxtar sveppur einkennilegur þegar hugsað er til þess að skuldir fóru ekki saman við sjálfstætt fólk á Íslandi í denn. En það má kannski segja að Nóbelsskáldið Laxness hafi komið okkur íslendingum í skilning um að okkur væri ekki ofgott  það besta og að rakakær myglu sveppur í þakskegginu væru ekki eitt af því. En ég upplifði það andvökunæturnar í skuggsælum torbænum Vilgesvarre að rakinn er sínu hvimleiðari en rafmagnleysið og jafnvel fónandi fyrir skuldleysið.

Vegna þessara óráðs hugrenninga á slóðum Samana í sumar ákvað ég einn sólskinsmorguninn í septemberheimsókninni að halda á vit ævintýra, um leið og mér var litið inn Héraðið sem skartaði spegilsléttu Lagarfljóti allt innundir Snæfell. Kanna íslenskan torfbæ með því að fara á slóðir þess sjálfstæða fólks sem Halldór diktaði upp forðum. Leiðin skildi liggja í Sænautasel á Jökuldalsheiði, en landnámi þeirrar heiðar byggðar lýsir hennar helsti fræðimaður Halldór Stefánsson sem svo; "Byggð þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri." 

Í tímaritinu Glettingi 11. árg. 1.tbl. segir Hallveig Guðjónsdóttir Dratthalastöðum á úthéraði frá kynnum af sínum nágrönnum í Sænautaseli en hún er fædd í Heiðarseli á Jökuldalsheiði.

Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var.

Það má kannski segja að Nóbelskáldið hafa kennt Íslendingum að steypa sér í skuldir og gera gis að sjálfstæðu fólki. Allavega notar nútíminn sjálfstæði Bjarts í Sumarhúsum oft til háðungar í umræðu manna á meðal. 

Eldhúsið í Sænautaseli

Við Matthildur mín brunuðum semsagt inn á Jökuldalsheiði á sólskinsbjörtum septemberdegi alla leið í Sænautasel. Þegar þangað var komið stóð á upplýsingaskilti að síðasti opnunardagur hefði verið daginn áður. Alltaf erum við jafn fyrirhyggjusöm, sagði Matthildur, förum allra okkar ferða án þess að leita upplýsinga, með engin plön og ef við erum á ferðinni á ókunnum slóðum þá höfum við ekki einu sinni landakort. Þetta skiptir engu máli, sagði ég hughreystandi, við hringgöngum pleisið og fáum okkur svo kaffi þegar við komum heim. Þar að auki hefur aldrei verið til vandræða að rata með sól í heiði. Þegar við komum heim að gamla bænum smeygði sér óðamála köttur út um dyragættina með þessar líka ekki litlu móttökurnar  og bauð okkur í bæinn, þannig að allavega færi ekki svo að við hefðum ekki komið inn í Íslenskt heiðarbýli. Þegar við komum út kom ókunnur maður heim að bæ og spurði hvort bærinn hefði staðið opinn, "kannski ekki beint en þessi höfðingi hér bauð okkur inn" svöruð við Matthildur einum róm og bentum á köttinn.

Þarna var kominn Dagur Jóhannesson frá Haga í Aðaldal, bróðir tveggja öðlinga sem ég kannaðist við, þeirra Völundar þúsundþjalasmiðs og Hrings heitins myndlistamanns. Dagur veitti okkur leiðsögn um bæinn því Sænautasel þekkir hann út og inn sagðist reyna að dvelja þar einhverja daga á hverju sumri. Hann sagðist hafa komið þarna við núna á sinni ferð vegna þess að hann hefði grun um að staðarhaldarinn Lilja í Merki ætti leið um, myndi þá hella upp á kaffi og steikja lummur. Eftir að hafa notið leiðsagnar Dags þar sem kötturinn fylgdi okkur við hvert fótmál fórum við að draga okkur til baka en þegar við vorum við gömlu fjárhúsin bættust tveir kettir við sem höfðu haldið sig í eldhúsinu þar. Þegar að við höfðum hvatt Dag fórum við yfir lækinn með kattastóðið í eftirdragi alveg að bílnum og greinilegt var að það ætlaði að komast með. Það var því ekki um annað að ræða en smala köttunum aftur heim í selið og troða þeim innum gluggann á lummueldhúsinu hennar Lilju og loka þá þar inni.

Þegar við vorum að fara í annað sinn renndu þær Lilja í Merki og Þóra Sólveig frá Borg farm í hlað, þannig að aftur var snúið í selið í kaffi og lummur og fjárhúsin skoðuð auk baðstofunnar í gamla bænum. Það var notalega værðarlegt að sitja með kaffibollan í gömlu torfhúsunum og hlusta á sunnanvindinn þjóta í grasinu á þakinu maulandi lummur. Stundum hefur belja verið höfð til sumardvalar í Sænautaseli og fyrir nokkrum árum var mjólkin úr henni notuð í lummurnar og út í kaffið. Þar til heilbrygðiseftirlit ríkisins komst að þeirri niðurstöðu að mjólkin úr kúnni samræmdist ekki reglugerðum ríkisins um gerilsneydda mjólk geymda við 4°C. Gaman hefði verið að fá útgáfu Nóbelsskáldsins á því sjálfstæða fólki heiðabýlisins sem hefði haldið gerilsneydda kú sem þar að auki fullnægði reglugerðum ríkisins. Kannski það hefði leigt skáldinu bollann og diskinn  en gefið honum kaffið og lummurnar.

Þær voru notalegar stundirnar sem við Matthildur áttum með góðu fólki í Sænautaseli núna í september. Tilfinningin önnur en í andvökuóráð rakans í Vilgevárre tveimur mánuðum áður. Það sem er athyglivert við samanburð á Vilgésvárre og Sænautasel  er m.a. það að bæði býlin eru byggð á svipuðum tíma. Sænautasel 1843 sem eitt af fyrstu heiðarbýlunum næst á eftir Háreksstöðum og var þar búið nær óslitið til 1943. Vilgésvarre er byggt 1868 og er búið þar til 1958, hátt í hundrað ár á báðum stöðum. Þannig virðist sama sjálfsbjargarviðleitni kvikna í hjörtum manna á svipuðum tíma og vera hrint í framkvæmd á tveimur ólíkum stöðum því fátt er líkt með Íslenskum öræfum og skógum Noregs. Saga heiðarbýlanna 16 á Jökuldalsheiði er stórmerkileg þessi byggð lagðist að mestu af í Öskjugosinu 1875 þegar fólkið þar flosnaði upp og margt af því fluttist til Ameríku.

Til að slá einhvern botn í þetta óráðshjal þá vil ég nefna það að það sótti ónota tilfinning að okkur Afríku höfðingjanum Juma í torfbænum í Vilgésvárre. Þessi tilfinning sem ásótti mig var svipuð tilfinningu fyrir 15 árum þegar við félagar í múrarastétt ferðuðumst um verndarsvæði Navaho indíána. Þannig var að að einn af okkur félögum vildi beygja af aðalveginum heim að skúraþyrpingu í eyðimörkinni þar sem fólk hafði búsetu en ég fékk á tilfinninguna að það væri betur látið ógert og lét félaga minn vita af því. Hann beygði samt og þegar við komum að fyrsta kofanum var enginn utandyra nema einn ca 5 ára gutti, skítugur, svarthærður og með snaran glampa í svörtum augunum. Hann hafði beðið okkar sallarólegur með hendur aftan við bak og steina í báðum sem hann lét dynja á gljáfægðum bílaleigubílnum þegar við renndum í hlað. Ég lét félaga minn vita með hasti að þarna ættum við ekki heima og allra síst í skemmtiferð við að skoða niðurlægt fólk. Það var 5 ára guttinn með grjótkastinu sem varð til að stökka okkur köppunum af víkingaættum á flótta í rykmekki á Pontiac Space Wagon. Hefðum kannski heldur látið tilfinninguna ráða sem ég fann um leið og beygjan var tekinn af aðalbrautinni. 

Það má kannski segja að oft má satt kyrrt liggja og því hafi jarðýtan verið mest notaða verkfærið við að viðhalda minningu íslenska torfbæjarins við aðalbraut nútímans. Samt datt okkur Juma og Karstein í hug að nota járnkallinn við endurbyggja minninguna í Vilgesvárre, án nokkurs árangurs. Hvort sem jarðýta eða járnkall eru til þeirra verka nitsamlegust þá er eitt víst að í óráðinu í sumar endurómuðu orð afa míns sterkt í hugskoti mínu; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn".  

Magnús Jónsson fyrir framan Selás 26

Í stórmerkilegri og nýútkominni Skriðdælu bls. 210 "Þuríðarstaðir í Dölum 1899; lýsir Hrólfur Kristbjörnsson (1884-1972) bóndi á Hallbjarnarstöðum í Skriðdal því þegar hann réð sig sem ársmann þá 13 ára gamall, að bænum Þuríðarstöðum sem stóð þar sem kallað er í Dölum upp með Eyvindaránni ofan við Egilsstaði, skömmu áður en komið er að Mjóafjarðarheiði. Þessi frásögn hafði áður birtst í Glettingi 8.árg. 1. tbl. 1998.

Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin. 

Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði , og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará. 

Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju.

Það er ekki að undra að mannlýsingar á því fólki sem lifði ævina við slíkar aðstæður til að halda sínu sjálfstæði skuldlausu við Guð og menn hafi verið skorinortar.

Í Lesbók Morgunblaðsins 1.árg 1927 má m.a. finna stutta mannlýsingu á Steindóri Hinrikssyni í Dalhúsum sem stóðu dálítið neðar við Eyvindaránna en Þuríðarstaðir, nær Egilsstöðum. Mannlýsingin er örstutt úr viðtali sem Guðmundur Friðjónsson skáld á Sandi tók í Reykjarvíkurferð Steindórs á gamals aldri.

Þessi maður er lágur í lofti og hvatlegur, orðskár og djarfur í framgöngu, veðurbarinn, kvistur kynlegur.

Og undir lok viðtals;

Nú fyrst lít ég á hendurnar, er hann réttir fram þá hægri til kveðju. Þær eru iðjumerktar og hafa á sér orrustueinkenni, sigg og þá snerpu, sem lífsbaráttan lætur eftir sig til minja. Skeggið er grófgert, og líkt því sem garnsel þeim, sem hefur legið uppi á ís og kafað karpaðan sjó. En augun í karlinum leiftra og úr þeim hrjóta gneistar íslenskrar hörku. Og allir limir þessa öldurmennis leika á als oddi fjörs og fimleika.

Og þó hefur hann engar æfingar stundað, aðrar en þær sem honum hafa í skaut fallið á útigangi þeim sem íslensk náttúra hefir haft á boðstólum.

Þeim sem hafa komist svona langt í að stauta sig í gegnum þetta óráðshjal, læt ég eftir að hugleiða hvernig sú mannlýsing verður orðuð um þá af okkar kynslóð sem barist hafa í skuldafjötrum við sveppinn á milli þess sem þeir brugðu sér í ræktina. 

 

Ps. Hér má sjá myndir frá Sænautaseli og Vilgesvárre. 


Bátur bíður

IMG 1396
 
Í dag verður Unnur Jónsdóttir í Naust til grafar borin frá Djúpavogskirkju. Hún kvaddi þetta jarðlíf þriðjudaginn 6. ágúst eftir stutta dvöl á líknardeild fjórðungssjúkhússins í Neskaupstað  enda erfitt fyrir sjálfstæða manneskju sem Unni að vera upp á aðra komin.
 
Allt frá því hið hörmulega slysi varð við höfnina í Innri Gleðivík á Djúpavogi í október 2011,  þar sem Ægir lét lífið, sást að Unnur gekk ekki heil til skógar. Enda vandséð hvernig Unnur gæti verið án Ægis svo samrýmd voru þau mæðgin. Unnur var félagi Ægis í öllu, tónlist æskufélaganna, jafnt sem hans kæru konu og barnanna þeirra, þannig fylgdust þau að í gegnum tíðina.
 
Fyrir rétt rúmu ári síðan greindist Unnur svo með hið illvíga mein sem hún barðist við frá þeirri stundu. Þegar fólk hittist sjaldan eins og átti við okkur Unni núna síðari ár, þá var það auðsjáanlegt hversu mikið af henni dró. En í þeim strjálu fríum sem ég hef átt á Íslandi þá hitti ég Unni s.s í hvert sinn. Eitt sinn heyrði ég í henni í síma og spurði hvort hún væri ekki til í að skoða N Noreg, koma í heimsókn með Matthildi systur sinni. Unnur kannaðist við N Noreg eins og hann lagði sig, þó svo að hún kæmi ekki  þá ráðlagði hún okkur Matthildi heilt með hvaða staðir væru áhugaverðastir. Suma staðina sem hún hafði séð hér í nágreninu hef ég ekki enn þá haft mig í að skoða eins og t.d. hinn magnaða Trollfjord sem ekki er hægt að komast í nema af hafi eða þá af fótgangandi yfir fjallveg.
 
Núna í vor hittumst við Unnur þegar við Matthildur mín heimsóttum hana í Naust. Það leyndi sér ekki að baráttan var hörð og ferðirnar til Reykjavíkur höfðu tekið sinn toll. Enn ein ferðin var framundan. Þrátt fyrir það að mikið mæddi á þá gaf hún sér góða stund við eldhúsborðið. Þar sagði Unnur okkur frá siglingu sem hefði verið ógleymanlega falleg sjón, en þar kom við sögu bátur bernskustöðvanna í Núpshjálegu þar sem hann lét úr vör tunglskinsbjarta nótt með merlandi haf og Papeyna fyrir stefni. Það var svo skrítið að þetta stóð mér skýrt fyrir sjónum þegar hún lýsti þessu, eins og ég hefði séð þetta sjálfur.
 
Við Unnur sammældumst um að ég myndi reyna að koma þessari tunglskins siglingu í mynd. Þarna sátum við svo með blað og blýant og teiknuðum upp voginn í Núpshjálegu, Papeyna og bátinn Þór, sem Jón og Snjófríður fluttu börn og bú á yfir Berufjörðinn árið 1961 í Sólhól á Djúpavogi. 
 
Það er skemmst frá því að segja að ég er fyrir löngu búin að mála bátinn í tunglskininu en beið með að senda Unni myndina vegna þess að ég ætlaði að færa henni hana sjálfur þegar ég kæmi heim í haust. En nú er það of seint Unnur verður ekki í Nausti og Djúpivogur aldrei samur að Unni og Ægi gengnum. Samt er tilhlökkun að koma á Djúpavog næst til að hitta þar þau Emilio Sæ, Hafrúnu Alexiu og Claudiu. En þeim, ásamt Sólhólssystkinum, sem misst hafa svo óendanlega mikið á svo stuttum tíma vil ég í dag með fátæklegri kveðju votta mínu dýpstu samúð yfir hafið og heim.
 
Hvíl í friði kæra mágkona.  

Camping með sól, skútu og fýr úr flís

IMG 1299 

Nú er langt liðið á þriðja sumarið hérna 69°N, en hingað kom ég í maí 2011 þjakaður af  atvinnuleysi og verðbættum stefnuvottum, með þær hugmyndir að hugsanlega yrði veran hér sem sumarfrí sem gæfi þar að auki smá salt í grautinn. En upphaflega réði ég mig í þrjá mánuði til reynslu hjá norsku múrarafyrirtæki. Bankinn var fljótur að skrifa mér rándýrt bréf eftir að það kom í ljós að ég hefði tekjur, ykkur að segja þá kostar staðlað bréf frá innheimtudeild banka um 300 þúsund og þar á bæ er nóg af lögfræðingum tilbúin að fjölfalda svoleiðis póst gegn þóknun.

En núna að áliðnum sólríkum sumarfríum var ekki meiningin að fara að básúna leiðindi á öldum alheimsnetsins, heldur hvernig útilega getur orðið til þess að sumri er varið við leik á tjaldstæði þó ekki sé það beinlínis sumarfrí. Í fyrra sumar var það tjaldstæðið í Finnsnesi, en þar dvöldum við vinnufélagarnir frá Afganistan og Súdan við að múra og pússa veggi í hvæsandi málmbræðslu. Sem betur fer dvaldi Matthildur mín með okkur bróðurpartinn úr sumrinu við sefandi prjónaglamur. Undraveröld eyjunnar Senja var svo hinumegin við Finnsnessundið, þannig að einn og einn eftirmiðdagur fór í sólríka bíltúra um spegilslétta firði Senja. 

Sumrinu núna var svo eftir vinnu að stórum hluta eytt á tjaldstæðinu í Harstad. Þar var reyndar meiningin að dvelja síðasta sumar en vegna Finnsnesferðarinnar datt það upp fyrir. Tjaldstæðið í Harstad stendur við Kanebogen sem er mikil náttúruperla inn í miðjum bæ. Fjörurnar í Kanebogen voru þær fyrstu sem ég lallaði um eftir að ég skyndilega datt niður úr skýjunum í annan heim eftir að hafa flogið yfir himin og haf í öskugosinu mikla vorið 2011. Í einmanaeika mínum hafði ég ráfað út um útidyrnar einn sunnudagsmorguninn í austurátt til móts við sólarupprásina og viti menn allt í einu var ég staddur í kríuskýi. 

Fjörurnar í Kanebogen, þar sem Harstad Camping er staðsett, urðu strax uppáhalds fjörurnar, þarna gat ég setið tímunum saman og fylgst með kríunum. Sennilega hafa eigendur Tjaldstæðisins, sem er í einkaeign og rekið af stórfjölskyldu, verið farnir að taka eftir gráa kallinum sem þvældist um fjörborðið fleytandi kerlingar inna um kríuskýið. Svo gerðist það veturinn eftir að óskað var eftir múrara til flísalagna í þjónustuhúsi tjaldstæðisins. Mette framkvæmdastýra Murbygg taldi rétt að senda mig þar sem þarna gæti ég stofnað til kunningsskapar við fólk sem vissi upp á hár ef íslendingar væru á flækingi um norðurhjarann.

Þegar verkinu var að ljúka í apríl 2012 vorum við Ívar einn af eigendum tjaldstæðisins orðnir vel málkunnugir. Hann spurði mig hvort ég væri fáanlegur til að gera við sprungur á veggjum mótöku tjaldstæðisins, sagðist hafa fengið þá hugmynd að líma flísar yfir sprungurnar og það mættu þess vegna vera marglitir afgangar sem ég réði sjálfur hvernig raðað yrði saman. Þegar minnst var á liti fór eins og vanalega allt á flug í höfðinu á mér, að íslenskum hætti varð svarið "ok ekkert mál" frístundum sumarsins 2012 yrði ráðstafað á Harstad Camping.

Í lok ágúst í fyrra kom Ívar eina helgina sem ég var í fríi frá Finnsnesi og bankaði upp á í loftkastalanum mínum til að grennslast fyrir um það hvers vegna að ég hefði ekkert látið sjá mig allt heila sumarið. Ég sagði honum að ég hefði verið sendur norður í nes Finnanna en spurði svo hvernig stæði á  því að það hefðu ekki verið neinar kríur í skerinu þetta sumarið. Ívar sagðist hafa veitt þessu athygli en myndi ekki eftir að þetta hefði gerst áður. Spurði svo hvort ég væri til í að fara í sprunguviðgerðina næsta sumar. Hann fékk staðlað svar "ekkert mál".

Núna í júní kom einn vinnufélaginn með skilaboð frá Ívari hvort ég væri ekki til í að svara símanum, hann væri búin að reyna að ná í mig dögum saman. En þannig er að ég svara ekki norskum númerum sem ég þekki ekki eftir að ég svaraði óvart skoðanakönnun sem ég nennti ekki að taka þátt í. Tveimur dögum seinna var bréf í póstkassanum sem tilgreindi að það varðaði við kóngsins lög frá 1989 að svara ekki skoðanakönnuninni. Þegar ég spurði norska vinnufélaga út í þetta urðu þeir forviða og spurðu hvort ég svaraði virkilega símhringingum úr ókunnugum númerum, þetta gæti varðað háum fjársektum.

En eftir að ég vissi símanúmeri hjá Ívari svaraði ég honum og við mæltum okkur mót á tjaldstæðinu. Hann byrjaði á því að tilkynna mér að krían hefði komið þetta vorið, sem ég reyndar var búin að komast að, hann hafði drepið tvo minka í skerinu í vetur og fundið þar að auki einn sem otur hefði drepið. En hann taldi að oturinn gerði kríunni ekkert mein. Þannig að nú væri ekkert að vanbúnaði með að láta hendur standa fram úr ermum.

Fljótlega eftir að ég byrjaði flísalögnina yfir sprungurnar missti  ég mig í mósaík og smá veggur varð að ótal flísa verki út og suður. Svo komst ég fljótlega að því að ég tímdi þar að auki ekki að klára verkið því þarna hafði ég afsökun fyrir því að hanga tímunum saman innan um kríur og túrista.

Tjaldstæðið í Harstad er friðsæl ævintýra veröld þar sem hægt er að leigja kajaka, fiskibáta eða bara að dorga fram af kæjanum. Þarna komst ég að því að það eru fleiri en ég sem líkar að hanga á Harstad Camping, því fólk kom til að spjalla með það að yfirskini að það væri búið að fatta hvaða mynd ætti að vera á veggnum. Margir koma um langan veg til að dvelja þarna sumar eftir sumar. Það voru samt ekki allir sem áttuðu sig á því að þarna væri ekki verið að gera mynd af því sem fyrir augu bar úti á Vogsfirðinum heldur væri um að ræða sprunguviðgerðir eftir norskum staðli.

Eins fékk ég við sprunginn vegginn tilsögn í Nostradamusi, fræðslu um lækningamátt kvarssteina, hvernig olían hefur eyðilagt norskt samfélag og margar fleiri áhugaverðar upplýsingar. Útsýnið frá veggnum er stórfenglegt, yfir tjaldstæðið, eyjar og sker merlandi Vogsfjarðarins. Það ætti ekki að fara fram hjá neinum sem sér þetta kennslu myndband um norska sprunguviðgerð að svona eiga sumarfrí að vera.

 


Að afloknum fjósverkum

IMG 3232

Það er kannski eins og að bera í bakkafullan lækinn að koma með enn eina langlokuna frá samíska fjósinu í Evenesmarka. En úr því að maður byrjaði á annað borð að þvæla um þetta fjós þá er varla um annað að ræða en að steypa saman lokaritgerð um þessa steina. 

Hinn sterki Súdani, Juma frá Darfur, ásamt mér gamla safnvíkingnum erum búnir að koma björgunum fyrir í múrinn. Eftir að hafa rifið niður 120 ára fallandi fjósmúrinn á samíska safninu á Gallogiedde og staflað honum upp aftur erum við sammála um að tækninni í byggingalist fer aftur í hárnákvæmu samræmi við það hvað menntun múrara fleytir fram. Það má sjá  best á því að með öllum tæknibúnaði og þekkingu dagsins í dag hafa múrarar aldrei verið eins langt frá því að geta reist mannvirki á við pýramídana.  Þess vega erum við bara nokkuð ánægðir með að hafa getað farið aftur í tímann við að endurhlaða fjósmúr Samana og teljum okkur þannig hafa komist 120 árum nær því að geta reyst pýramída.

Annars vorum við báðir farnir að hafa orð á því í lokin að réttast væri að treina sér jobbið.  Það væri lúxus að klappa steinunum upp í fjallshlíðum, sötra kaffi þess á milli og virða fyrir okkur sveitina niður í dalnum meðan ernirnir hnituðu hringi í uppstreyminu fyrir ofan fjallsbrúnina.  Elgirnir voru að vísu fyrir löngu búnir að naga það sem þeir náðu í úr trjánum í túnfætinum og farnir í aðra haga.  En í þeirra stað mættu hrafnarnir til þinghalds svo þá gafst mér færi á að láta ljós mitt skína varðandi visku hrafnsins, jafnvel fara með vísuna um krumma sem krunkar úti og kallar á nafna sinn.

Ég gat  frætt Afríkumanninn á hrikalegri greind hrafnsins hvernig hann hefði fundið Ameríku fyrir víkingana langt á undan Kolumbusi.  Einn daginn að loknum fjósverkum stóð Juma fyrir framan fjósdyrnar tilbúin til heimferðar og beið eftir að ég drattaðist upp túnið, en ég hafði farið í ljósmyndaleiðangur niður að girðingu.  Þá renndi hrafn sér niður hlíðina, þegar hann var rétt fyrir ofan höfuðið á Juma snéri hann sér á bakið í fluginu og skellti í góm með bjölluhljóm.  Svo þegar hann kom yfir mig nokkrum vængjatökum neðar  gerði hann nákvæmlega það sama nema þá snéri hann sér á hinni hliðinni.  Ég þurfti ekki að sannfæra Súdanan frekar um það að hrafninn væri fjölkunnugur fugl.

Aðalstræti 1 2003

En núna hafa semsagt hversdaglegri tímar tekið við hérna á 69°N og má segja að það sé svolítill söknuður yfir því að fara ekki lengur upp í hlíðar Evenesmarka að klappa steinum og krunka með krummunum.  Það er heldur ekki oft sem býðst að sinna svona gælu verkefnum.  Það eru orðin 10 ár síðan að ámóta verkefni rak upp á fjörur en það var í 101 Reykjavík við Aðalstræti  í húsi sem hýsti á árum áður verslunina Geysir en heitir nú Ingólfsnaust eftir Ingólfi syni Arnar.  Þar fékk ég að leika mér við steina og flísar aðallega við að vaska þá upp og  sparsla á milli þeirra. 

Þetta var í kjallarakompu sem síðan hýsti veitingastaðinn Sjávarkjallarann.  Mér var sagt að sumir steinarnir hefðu verið hluti af Reykjavíkurhöfn á árum áður.  Ég var því feiminn við steinana og hafði á orði við Þorstein Bergsson hjá Minjavernd að ég vissi ekki alveg til hvers væri ætlast ég gæti leikandi gleymt mér dögum saman við að snurfusa þá.  Hafðu ekki áhyggjur af því, sagði þorsteinn valdsmannslega, við stoppum þig ef okkur lýst ekki á, en þeir Hjörleifur Stefánsson arkitekt höfðu með endurnýjun Aðalstrætis að gera. 

Á endanum var ég búin að leika mér þarna Aðalstrætinu í hálft ár m.a. hreinsa upp gamla múrsteina á hæðinni fyrir ofan Sjávarkjallarann.  Þar lék ég mér í tvær vikur við að vaska steina og fúga sem höfðu verið notaðir sem púkk þegar gólfplata hafði verð steypt í bakhús sem hefur kannski enn að geyma Tapas barinn, en þeir voru eins og ormur í miðjum vegg Aðalstrætismegin í bland við fornfárlegt burðarvirki úr tré.  Það voru sumir hissa á því að ég fengi að leika lausum hala við að gera ekki neitt að viti.  

Þegar verslunin Rammagerðin flutti inn í rýmið þá voru jafnvel þeir sömu  aftur svo gáttaðir á því þegar veggurinn með rauða múrsteinagorminum  var klæddu af með plötum að þeir höfðu á orði við verslunarstýruna; "veistu hvað það er búið að eyða mikilli vinnu í að varðveita þessi múrsteinsbrot sem þú setur á bak við veggplötur".  Hún lét þá vita af því að þarna stæði til að reka verslun en ekki minjasafn um múrsteina. Seinna þegar ég hitti Þorstein og hafði uppi afsakanir yfir því að þarna hefði mikil vinna farið fyrir lítið þá sagði hann; "þetta er allt í lagi Maggi minn við vitum báðir að þetta er þarna á bak við plöturnar". 

101 2002

Það er ekki á hverjum degi sem maður fær að leika lausum hala bak við vegg og því var fjósmúrinn á Gallogiedde ánægjuleg tilbreyting jafnvel þó að vinnufélagarnir hafa flestir mært Mette eiganda Murbygg fyrir þá visku að láta mig um að halda þræðinum við verkið því þeir kærðu sig lítið um verkið sjálfir.  Það þarf því ekki að koma á óvart að sælar minningar um kúluvegg í 101 hótel hafi bankað upp á við fjósverkin. 

Við Hverfisgötu dingluðum við kolleikarnir frá Egilsstöðum löppunum fram af vinnupöllum sumarlangt við að pússa kúlur fyrir meira en 10 árum síðan.  Þar hafði Hrólfur múrarameistari Gunnlaugsson fengið að sjá um múrverk og flísalagnir í draumasmiðju Ingibjargar Pálmadóttir.  Hann hafði svo fengið gamla meistarann sinn, Braga Guðjónsson og mig gamla handlangarann sinn, sér til halds og trausts.  Hrólfur var á þessum árum nokkhversskonar spari múrari hjá latte liðinu í 101 Reykjavík. Ingibjörgu Pálmadóttir hafði dottið í hug að gera Lilju systur sinni þann heiður að setja listaverkið hennar "Klak" á 15 m háan Óperu vegginn í portinu á milli Gamla bíó við Ingólfsstræti og Alþýðuhússins við Hverfisgötu. 

Á þessum árum sat Davíð í Stjórnarráðinu neðan við kúlnaportið og í Fréttablaðinu auglýsti Bónus steinlaus vínber á kostakjörum við geðillsku og gillinæð.  Már nokkur Guðmundsson sat svo norðan við Arnarhólinn í Seðlabankanum og skipulagði stöðuleikann með undraverðum árangri sem aðalhagfræðingur.  Ríkissaksóknari var í næsta húsi fyrir neðan portið, Hæstiréttur í Ingólfsstrætinu á milli Alþýðuhússins og Seðlabankans við hliðina á Þjóðmenningarhúsinu með þjóðleikhúsið næst, Héraðsdóm Reykjavíkur mátti svo sjá fyrir mynni portsins.  Tilsýndar hefur sviði ekki svo mikið breyst þó óperan sé nú flutt á stað sem ber nafn hljóðfærisins sem leikið var á þegar Róm brann.  

Til að sjá listaverkið hennar Lilju "Klak" þarf að fara inn á resturantinn á 101 hótel þar sem það blandast blámanum þegar horft er til himins út um þakgluggann. Þó svo að litagleðinni sé ekki fyrir að fara á 101 hótel þá var þeim mun meiri hugmyndaauðgi lögð í það hvað skyldi vera hvítt og hvað svart.  Það sem var svart þennan daginn gat verið hvítt þann næsta.  Þarna lék ég mér því ásamt tugum annarra iðnaðarmanna um árabil við að múra hvítar kúlur og leggja svartar flísar.  Á þessum árum höfðu málararnir margsinnis málað það sem var hvítt svart og öfugt.  Þegar ég sagði þeim svo til uppörvunar að mig grunaði að þeir myndu fá einn daginn að mála lyftudyrnar fjólubláar hristu þeir vonlitlir höfuðið.  En eftir að sá dagur kom töldu þeir mig vera einn af innmúrúðum.

Svarti liturinn á flísunum og sá hvíti á kúlunum fengu þó að halda sér, en það þurfti að flísaleggja 5. hæðina tvisvar því Ingibjörg vildi hafa sturtu gólfin 3 mm lægri og klósett gólfin 4 mm hærri en upphaflegar teikningar gerðu ráð fyrir, eftir fyrri umferð flísalagningar.   Sturta og klósett eru þó ekki sama rýmið heldur sitt hvor glerskápurinn, sturtan út í horni og klósettin með þremur glerveggjum fyrir miðju herbergi þar sem má virða fyrir sér Esjuna út um gluggann á meðan setið er.  Það fór því ekki hjá því að manni dytti í hug hugmyndaríki strákurinn sem hugðist fjármagna drauma sína með því að selja aðgang að gjörningi í gamla hænsnakofanum á Djúpavogi. Eftir að það var uppselt í kofann þá skeyt hann í glerkrukku áhorfendum til óblandinnar.

Þegar að sturtu gólfin í 101 höfðu verið lækkuð um 3 mm hafði það ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Það höfðu nefnilega verið tekin mál af speglum sem klæða áttu veggi sturtuklefana sem höfðu svo glerveggi fyrir framan.  Þetta kannski hljómar ekki sem stór mál, en þessir speglar voru um 3 m á hæð og klæddu veggi sem vor 1,6 m á lengd. Glerveggurinn kom síðan upp úr gólfinu og hvarf upp í gegnum loftið. Eftir að speglagerðarmennirnir höfðu borið spegla og gler  í tvo daga upp þrönga stiga Alþýðuhússins alla leið upp á 5. hæð máttu þeir nota annan eins tíma í að bera speglana niður, þegar í ljós kom að þeir voru 3 mm of stuttir.  Gler veggina settu þeir samt upp en sögðu að það tæki mánuð að búa til nýja spegla.  Af eðlislægri forvitni spurði ég þá hvernig þeir ætluðu að koma speglunum inn um 80 cm opið á sturtuklefanum eftir að hafa sett upp glerveggina. Þeir sögðu mér ekki að vera að brjóta heilann að óþörfu. 

Mánuði seinna hófst svo aftur speglaburður upp þrönga stiga húss alþýðunnar við Hverfisgötu alla leið upp á 5. hæð og ekki var vandræðagangurinn við að koma þeim á sinn stað eftir að upp var komið.  En nokkrum dögum seinna mátti sjá ógleymanlega sjón á 5. hæðinni, við blöstu sturtuklefar úr gleri með hálfs meters lagi af mölbrotnum speglum.  Það hafði ekki farið fram hjá glöggu auga Ingibjargar að speglaburðarmennirnir höfðu ætlað að svindla á henni.  Í stað þess að hafa spegilinn í tvennu lagi hafði hann verið hafður í þrennu með ólíðandi auka fúgu á milli.  Því tók við speglaburður í bölum niður stiga Alþýðuhússins, ný spegla smíði auk þess sem það þurfti að rífa niður glerveggina til að koma speglunum fyrir samkvæmt máli.  Svona geta 3 mm verið stórir, enda hafði Bragi kolleiki minn það á orði dag hvern að við værum komnir í draumaverkefnið, það væri nefnilega alltaf miklu meiri eftir að kvöldi heldur en þegar við mættum að morgni.

Ég hélt því  staðfastlega fram við vinnufélaga mína í 101 hótel úr öðrum iðngreinum að hvítu kúlurnar væru það eina sem hefði verið gert að viti í því húsi, þó svo að Ingibjörgu hafi dottið það í hug að hnika þeim til á veggnum eftir að það kom í ljós að gluggapóstur í þakglugganum skyggði óþarflega mikið á eina þeirra, þá hefði Lilja ekki tekið það í mál, verkið væri fullkomið.  Eftir því sem fram líða stundir þá hallast ég að því að kúlurnar hennar Lilju séu það eina sem gert var af viti í öllum 101 á þessum árum.

IMGP0339

Snemma beygist krókurinn segir einhverstaðar, 12 ára gamlir sátum við pollarnir sunnan undir kaupfélagsbröggunum og hjuggum til steina í ormurinn hans Hrings heitins Jóhannessonar myndlistamanns sem er utan á Kaupfélagsveggnum á Egilsstöðum.  Þar á meðal okkar pollana var kaupfélagsstjóra sonurinn Magnús Þorsteinsson, ávalt kallaður Maggi í Kóngó á þeim árum þó síðar hafi hann fengið viðurnefnið huldumaðurinn í þríeyki þeirra Björgúlfsfeðga sem kennt er við Samson.

Það má kannski ætla að álíka kærleikur og var á milli þeirra 101 systra hafi orðið til þess að sá veggur prýðir Héraðið.  Það eru þeir bræður Völundur og Hringur sem eiga heiðurinn af því að nákvæm eftirmynd úr steini er til af orminum sem nú er horfin í grugg Lagarfljótsins og þó ég muni það ekki svo gjörla þá er ekki ólíklegt að þeir Bragi og Hrólfur hafi aðstoðað við að koma honum þar fyrir svona eitthvað svipað og Finnarnir sem voru fengnir úr Samabyggðum Noregs til að ráða niðurlögum óvættarins í Lagarfljóti árþúsundi fyrr.  Steinarnir í þessum ormi eru úr austfirskri náttúru komnir víða að af austurlandi.  

Núna þegar ég var heima á Héraðinu fyrir jólin hafði ég það á orði við hana Matthildi mína þegar við fórum í kaupfélagið hvað hún væri hrikaleg sú Mafía  sem hefði gert kaupfélagið okkar gjaldþrota á 100 ára afmælisárinu til þess að koma því í hendur hyskis sem hefðu spilað stærstu rolluna í að koma Íslandi á hausinn.  Allt vegna þess að kaupfélagið skuldaði minna en glæpahyskið.  "Svona, svona, slakaðu nú aðeins á" sagði Matthildur mín "óskuðu þeir ekki eftir gjaldþroti sjálfir".  Af því að þetta var í aðdraganda hátíðar ljóssins ákvað ég að láta kyrrt liggja að svo stöddu.  En svo hrökk ég upp um miðja nótt hérna á 69°N fyrir skömmu við þá martröð að það væri búið að mála orminn hvítan.  Því hafði ég samband við Mathildi mína í snatri á skypinu, bað hana að fara eins og skot niður í kaupfélag til að taka mynd af orminum ef hann væri enn á veggnum, því fíflin ættu örugglega eftir að mála hann hvítan svo hann skyggði hvorki á Netto né N1 merkin.

Það er lítið að finna um sögu ormsins á kaupfélagsveggnum þó svo að fólk hafi hann dagsdaglega fyrir augunum er alls ekki ólíklegt að örlög hans gætu orðið þau sömu og nafna hans í Fljótinu.  Þegar ég kem að kaupfélagsveggnum með þessari stóru mynd og hitti þá jafnvel Völund sem upphefur mig ævinlega með því að kalla mig frænda, þá finnst mér ég vera heima og geri mér betur grein fyrir því að þó ég fari út um víðan völl við að klappa steina þá er Það allt gert til þess geta átt áfram heima heima.

 


Með steypu í hausnum og stein í maganum á Gállogieddi

 IMG 2982

Síðustu vikurnar höfum við Afríkumaðurinn Juma glímt við björgin í fjóskjallara gamals Samísks minnismerkis frá1891.  Samann sjálfan, sem er okkur til halds og traust, höfum við ekki séð í tvær vikur.  Annað hvort hefur hann ekki séð ástæðu til að rífa af dagatalinu eða þá úrkomuleysið veldur, en hann hefur séð um að halda veginum snjólausum sem liggur upp í hlíðina.  Við höfum komist að því að fjósið er á bæ sem heitir Gállogieddi, þetta getum við séð á vegvísi í fjallshlíðinni en við erum samt ekki orðnir það klárir í samískunni að við getum áttað okkur á hvort vísað  er á veginn til Darfur eða heim á Fljótsdalshéraðið. 

Hún læðist því stundum aftan að mér spurningin um það hvernig maður á sextugsaldri varð þeirrar gæfu aðnjótandi að rogast með steina framan á maganum í fjósmúrinn á safni Samana við Várdobaiki hátt upp í hlíðum Evenesmarka í stað þess að eigra vegalaus um á auðnum verðtryggðar vísitölu. En af því að ég hef komist að því að við hverri spurningu sem svarað er verða til tvær snúnari þá hef ég reynt að bæga svarinu frá.  Mér varða samt á að spyrja Juma að því hvernig stæði á hans veru við fjósmúrinn og ef svarið væri tíundaði hér yrði um flóknari spurningar að ræða en í bókinni Alkeimistinn eftir Paolo Huelo.  Með svona spurningar er því betra að fara eins og vandamálin þ.e. a. þykjast ekki sjá þau, því um leið og farið er að veita þeim eftirtekt verða til fleiri.  Svo  er það líka þannig að aðrir hafa lífsviðurværi sitt af svörum sem búa til fleiri spurningar.  Það er aðeins á færi fagfólks með þar til gerðar gráður, jafnvel heilar fimm úr hagvöxnum háskóla. 

IMG 2785

Það er því betra fyrir okkur sem hafa ekki til þess bæra þekkingu að hugsa frekar um spurningar þar sem svarið hefur alltaf legið ljóst fyrir.  Einn kollegi minn í múrarastétt hafði það einu sinni á orði hvort ég vissi hvers vegna það væri svona undarlega erfitt að hætta í þessari starfsgrein.  Hann hefði meir að segja haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði og áralöngu hrísgrjónaáti en allt hefði komið fyrir ekki í múrverkinu væri hann.  Það stafaði samt ekki af því að honum byðust ekki önnur störf betur borguð.  Hann hafði t.d. um eins árs skeið séð um bókahald stórs byggingafélags með tilheyrandi debet og kredit.  En eftir árið sagðist hann hafa verið orðinn úttaugaður. Aðallega vegna þess að honum fannst ekkert sjást eftir sig og hann hefði því leitað í gamla farið.  Samviskubitið hefði verið farið að hvíla svo þungt á honum að líðanin hefði verið eins og að hafa stein í maganum.  

Nú hefði einhverjum sjálfsagt dottið í hug að setja upp spekingssvip og gera hálfgert gys af kolleiga mínum með því að skella fram gömlum málshætti og segja "þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur".  En ekki datt mér það í hug eitt augnablik því ég vissi upp á hár að maður hefur það ekki í flimtingum þegar menn eru á hillunni sinni.  Því sagði ég við félaga minn af varfærni "já veistu ekki út af hverju þú ert með stein í maganum þegar þú ert ekki að múra" og svaraði honum síðan með nærgætni " það er vegna þess að þú ert með steypu í hausnum".  Þetta vissi náttúrulega kollegi minn allan tímann og hefði því getað sparað sér gefa flókin svör á prófi til að fá  vinnu við að að leggja saman 2 + 2.

IMG 2791

Það sem m.a. heillar við múrverk er að ef ekki er búið að setja vatn út í sement og sand þá gerist ekki neitt, en um leið og það er búið að hræra þessum kokteil saman þá fer allt á fullt og betra að láta hendur standa fram úr ermum áður en herlegheitin harðna sem einhver óskapnaður, meðan 2 + 2 geta beðið að því er virðist út í það óendanlega því það á að vera eins víst að þeir séu 4.  Þetta hefur því með sköpunarþörfina að gera, það að sjá eitthvað eftir sig sem getur talist til minnismerkis.  

Þegar ég trúði svo kunningja mínum fyrir því að ég hefði fyrir löngu komist að því að 2 + 2 þyrfti ekkert endilega að vera 4 frekar en manni sýndist, maður fengi bara ekki borgað fyrir að halda öðru fram, þá svaraði hann að bragði "já veistu það þetta hafa þær líka alltaf vitað húsmæðurnar". Það eru hreinlega ekki allir sem eiga því láni að fagna að vinna við minnismerkjagerð eða kökubakstur, þá gjörningalist að gera mikið úr litlu.  það þekkjum við múrarnir, rétt eins og húsmæður sem hafa kynnt ofninn fyrir hefað deigið, að þá dugir lítið að velta fyrir sér 2+2 ef ekki á allt að  fara í handaskolum.

Tuborg

Það hefur samt ekki verið mikið um steypu á milli steinanna í fjósinu á Gallogieddi þeir höfðu víst ekki aðgang að svoleiðis töfrakokteil 1891.  Þó svo steypuna vanti að mestu í gjörninginn þá hef ég samt bætt mér það upp á nóttinni með því að dreyma þessar fínu steypuvinnu fram á morgna, ævinlega heima á landinu bláa aðallega á Djúpavogi.  Þannig hef ég náð að vakna sæll og ánægður tilbúin að takast á við steinana.  Nú styttist óðum í að Matthildur mín komi í Páskaheimsókn hingað á Norðurhjarann og þó svo að ég hafi ekki hugsað mér að fá hana til að aðstoða mig við steina þá getur vel hugsast að við eigum eftir að fá okkur köku saman. Matthildi eru samt hvorki steinar né steypa ókunnug.  Okkar skemmtilegustu steina og bestu kökur höfum við steypt saman.

Spurningin sem þarf ekki að spyrja vegna þess að gamla svarið liggur alltaf ljóst fyrir er semsagt sú að steinar og steypa hafa verið mitt líf og yndi, því sennilega orðið of seint að kenna gömlum hundi að sitja hvað þá að baka kökur.


Í mynd.

IMG 2663 

Þá eru vikurnar orðnar þrjár síðan ég fór fljúgandi að heiman yfir himin og haf, feðralag sem endaði á svelli langt fyrir norðan heimskautsbaug.  Eftir að hafa verið í faðmi fjölskyldunnar yfir hátíð ljóssins er ég ekki frá því að það hafi verið venju fremur skuggalegt hérna á 69°N og einmanalegt eftir að mýsnar fóru, en þær fóru í sitt árlega sumarfrí s.l. sumar og rötuðu ekki heima aftur í haust enda komu fyrstu snjóar bæði snöggt og snemma.  Núna um 20. janúar fór svo draumadísin sjálf sólin á stjá sem hún venjuleg gerir um það leiti.  En alltaf hefur lífið samt upp á nýungar að bjóða, núna í janúar er fyrsta skiptið sem ég hef tekið þátt í að hlaða hús á þessum árstíma og það á breiddargráðu sem maður hefði haldið að frostharkan væri meiri en suður á ísaköldu landi.

Það er samt ekki svo að frosthörkurnar hafi ekki verið nægar í Noregi undanfarnar vikur.  Í suðri hafa verið fréttir um allt að -40°C og héðan 150 km norðar í Tromsö komu vinufélagarnir sem þar voru við störf fyrstu vikur janúar með fréttir af vetrarríki. Hérna við Vogsfjörðinn lék milt skammdegið við fólkið og maður fékk fræðslu um það að ekki væri tilviljun að víkingarnir hefðu sett sig hér niður með Trondenes sem eitt af höfuðbólum Hálogalands.  Þeir hefðu vitað lengra en nefið náði þegar kom að veðri.  Víkingarnir bjuggu hérna við norðurströnd Hynneyju, út í eyjum Vesterålen og Lofoten.

Fyrstu tveim vikum ársins var varið í að hlaða viðbyggingu úr vikursteini við gamalt hús í vík sem er hérna rétt utan við dyrnar.  Þarna var fleira á ferð í skammdegisskímunni en fjölþjóðlegur múraraflokkur.  Niður í fjörunni er bátur á þurru og þar snérust refir í kring um sinn næturstað.  Einn morgunn hafði otur lagt upp í ferð til að kanna hvað væri um að vera hjá múrurunum.  Hann hentist svo á harðaspretti niður í fjöru þegar hann var uppgötvaður í njósnaleiðangrinu, án þess að fara hratt yfir enda lappastuttur greyið, en þegar í fjöruna var komið tók hann til sunds og þá var hann á heimavelli.  Eins var svartur skógarköttur úr næsta húsi sem fylgdist af andakt með framkvæmdunum fram í myrkur auk þess að gera sér ferðir niður í fjöru yfir hádaginn og forvitnast hvað refirnir hefðu verið að bralla undir bátnum meðan þeir voru á útstáelsi.

IMG 2738

Síðustu viku hefur svo verið varið við fjósmúrinn hátt upp í hlíðum Evenesmarka á Vaárdíbakken samesk museum.  Þegar þangað kom tók veturinn við með éljum og snjó.  Fyrsti dagurinn hjá okkur múrarameistara Rune fór í að spóla bílnum í snarbröttum brekkunum sem voru með 20 cm púðursnjó yfir svellunum.  Á endanum ákváðum við að nota hjólbörur til að koma verkfærunum síðasta spölinn upp í fjósið.  Rune batt sig með stroffi í hjólbörurnar og fór fyrir lestinni en ég rak hana með því að ýta á eftir.  Svona ferðuðumst við fram og til baka á svellunum á meðan dagskímu gætti. 

Þetta var farið að minna mig á það þegar ég þurfti að bjarga vikunni út í Færeyjum um árið eftir að hafa tínt útborguninni yfir Hvítasunnuhelgi.  Þá var ekki annað í stöðuni en að tína saman tómu bjórflöskurnar og koma þeim í verð hjá kaupmanninum niður á horni.  Eftir að hafa sett tómar flöskurnar í svartan ruslapoka reyndust þær vera allt of þungar.  Því varð að hnupla hjólbörum frá Verkakvennafélagi Þórshafnar, en hjá þeim leigðum við félagarnir á farfuglaheimili.  Þó ekki væri svellunum fyrir að fara og leiðin virtist greið niður á við var hjólið á börunum ryðgað fast, því ótrúleg átök að ýta þeim niður brekkurnar og halda um leið jafnvægi með dýrmætan farminn.  Ég veit ekki enn í dag næstum 30árum seinna hvort það var fyrir að hafa fjarlægt flöskurnar af gistiheimili Verkakvennafélags Þórshafnar eða liðka hjólbörurnar sem gerði það að okkur félögunum var ekki vísað á dyr, en það hafði staðið til í upphafi ferðar en var aldrei minnst meira á eftir að hjólbörunum var skilað. Kóngalífi gátum við félagarnir svo lifað í mat og drykk fram að næstu útborgun fyrir afraksturinn af bjórflöskusölunni.

 IMG 2724

Vaárdibakken er samískt safn eða réttara sagt bóndabær sem gerður hefur verið að safni "kyst sama" en svo nefndust samar sem höfðu fasta búsetu.  Rune segir mér að enn séu hérna í nágreninu samar sem hafa hreindýr til að fylgja eftir og séu tvær hjarðir.  Þessir samar hafa rétt frá fornu fari til að ferðast með hreindýrahjarðir óheft.  Kyst samarnir eða strandsarmarnir höfðu ekki hreyndýr eða tjöld þeir bjuggu á sínum bæjum með sinn bústofn.  Talið er að til séu einhverstaðar á milli 50.000 - 80.000 samar og að um 40.000 af þeim búi í Noregi, annars nær þeirra búsetusvæði yfir Noreg, Svíþjóð, Finnland og Rússland.  Samarnir hafa svolítið austur Evrópu útlit, ljósir yfirlitum með há kinnbein, ljós augu og allt annað tímaskin eftir því sem norðmenn segja.  Kannski eitthvað svipað og stundum var sagt um Jökuldælinga í denn; að það væri til lítils að gefa þeim úr í fermingagjöf, dagatal kæmi að betri notum.

Þó að Vaárdibakken sé langt upp í hlíðum Evenesmarka er síður en svo um lífvana auðn að ræða.  Þarna hafa elgir haldið sig í túnfætinum síðustu daga, fylgst með tiltektum múraranna við grjótburðinn, á milli þess sem þeir naga trjágreinar með stólískri ró.  Einnig eru skóahöggsmenn á ferð í hlíðunum við að safna saman eldiviði fyrir fjarvarmaveituna í Harstad en hún er kynnt með timbri.  Svo hefur komið fyrir að hafhörinn konungur fuglanna svífi yfir svæðið.  Hérna í N-Noregi má bæði sjá haförn og kóngsörn sem er örlítið minni með hvítan haus og makka.  Ég hef átt því láni að fagna að sjá vel til þeirra beggja en hef ekki ennþá séð til gaupu sem er rófulaus köttur á stærð við kálf.  Reyndar segir Rune að ég skuli ekkert búast við því að sjá gaupu hún sé það stygg.

Það má kannski segja að heima í Útgarðinum um jólin hefði ég átt að fá nóg af kattardýrunum okkar Matthildar þannig að það komi ekki að sök þó svo að ekki sýni sig gaupa.  Dagarnir heima yfir hátíð ljóssins liðu samt allt of fljótt og fæstu var komið í verk sem hugurinn stóð til, hvorki farið á Djúpavog né notið dvalar á Sólhólnum úti við ysta haf.  Reyndar lenti ég ofaní í geymslu og var þar bróðurpartinn af jólunum.  En málið er það að það hefur lengi staðið til að grynnka á draslinu í geymslunni.  Ég er marg búin að segja Matthildi minni að það sé lítið mál bara keyra þessu á haugana.  Mest af þessu sé dót í kössum frá því að við fluttum frá Djúpavogi í Grafarvoginn fyrir 13 árum síðan og svo úr Grafarvoginum í Egilsstaði fyrir 9 árum síðan, okkur hafi ekki vantað neitt af því sem er í þessum kössum.  Þetta má hún ekki heyra á minnst því þarna sé um verðmæti að ræða.  Ég hef verið að laumast í geymsluna í leit að enni mynd sem mig grunar að gæti leynst þar, áður en ég hef mig á haugana.

Birgir & Snæbjörn

Þessi mynd var tekin fyrir meira en 40 árum síðan og er af eina þriggja hæða húsinu sem hefur verið byggt á hæðinni á Egilsstöðum.  Þetta hús byggðum við nokkrir pollarnir úr spýtum sem fyrst átti að verða flugvél en síðan misstu flestir trúna á það að hún gæti flogið áður en á reyndi, því var henni breytt í hús og þó svo að sumir vildu meina þetta væri kofi þá var ekki svo í okkar huga.  Jóhann Stefánsson tók þessa mynd af okkur pollunum við mannvirkið enda var Hjörtur sonur hans einn af smiðunum.  Jói hefur gert sér grein fyrir því að þarna var nógu merkilegur viðburður á ferð til að festa á filmu enda Jói stundum með viðurnefnið "snikkari".  Hann gaf okkur svo hverjum og einum eintak af þessari mynd.  Þessa mynd taldi ég mig geta gengið að vísri en nú er hún týnd.

Þó svo að myndin sem ég ætlaði að ganga að í geymslunni sé týnd fann ég margar myndir sem ég hafði tekið fyrir 40 árum á Kodak instamatic myndavélina mína sem hægt var að setja á flasskubb. Filmur og flasskubbar voru dýr munaður fyrir 11 ára gutta þannig að venjulega var ærið verk að safna fyrir filmu og framköllun því flasskubburinn látin sitja á hakanum.  Þess vegna voru flestar myndirnar teknar úti þar sem dagsljóssins naut við.  Ég man ennþá hvað ég varð alltaf fyrir miklum vonbrigðum þegar þessar myndir komu úr framköllun, fátt af því á þeim sem ég hélt að ég hefði verið að taka mynd af, hvað þá að það heyrðist fuglasöngurinn.  En núna meira en 40 árum seinna er betur hægt að sætta sig við þær og yfir að hafa ekki hent þeim eins og öllum málverkunum sem máluð voru voru í denn eftir frábærum fyrirmyndum.

Ég hafði hugsað mér að finna þessa mynd hans Jóa af okkur pollunum við kofan vegna þess að ég hef verið tína saman myndir af þeim húsum sem ég hef komið að því að byggja, eða réttara sagt við félagarnir sem höfum staðið fyrir kofabyggingum.  Reyndar hitti ég Jóa "snikkara" á Barra markaðnum rétt fyrir jólin.  Hann var þar á ferð fjörgamall með Helgu dóttir sinni.  Helga sagði við Jóa; þú þekkir hann þennan er það ekki?  Nei Jói kom ekki manninum fyrir sig.  Hvort var það Héðinn eða Magnús sem bankaða alltaf og spurði eftir stráknum hans Jóa því hann ætlaði sko ekki að leika við stelpu; spurði Helga.  Ja þetta er allavega ekki Héðinn sagði Jói.  Svo fór hann að rifja upp gömul nágranna kynni og sagðist alveg sérstaklega muna eftir egginu sem ég hafði sent í nýmálaðan húsvegginn hjá honum, hvað það hafi erfitt að ná því af, því þegar hann hafði þrifið það þá hefði ekki liðið nema nokkrar mínútur þar til það var komið annað á sama stað þannig að á endanum hafi hann séð að best væri að láta það veðrast af húsinu, en það hefði tekið óra tíma.  Þessu hafði ég gleymt. En allavega varð mér þannig um þessar upplýsingar að gleymdi að spyrja Jóa út í þessa mynd af eina þriggja hæða húsinu sem reist hefur verið á hæðinni.

Sennilega gefst mér ekki færi á að leita meira né spyrjast fyrir um þessa mynd fyrr en í vorheimsókninni til Íslands og verð allavega að þreyja Þorrann og Góuna hérna á 69°N áður en Matthildur mín kemur í heimsókn.  Þangað til verða Skype fundir okkar Matthildar að duga og fundir með köttunum á Skype verða að næga fram í maí.  Það er margt spjallað á Skype og eftir að kettirnir föttuðu að það þýddi ekkert að leita að kallinum fyrir aftan tölvuna sem heyrðist í honum úr sitja þeir upptendraðir fyrir framan hana og láta sig varla vanta með sín innlegg eitt einasta kvöld.  En eitt vita þeir ekki, að ég er betur búin en bankinn að því leiti að ég get bæði hljóðritað samtölin og tekið þau upp í mynd.

Video call snapshot 10   "Hvað ertu að segja, er það virkilegt, haga þær sér svona þarna í Noregi"

 

 Video call snapshot 9  "Já, mig grunaði það þessar mýs eru skaðræðis kvikindi"

 

Video call snapshot 11  "Ég ætla nú barasta að láta ykkur vita það að ekki er allt sem sýnist í þessum heimi"


Rosalega er orðið dýrt að vera í vinnu

IMG 2514 

Það er ekki á hverjum degi sem múrarar verða þess heiðurs aðnjótandi að vera settir á safn.  En nú er svo komið á 69°N að við félagarnir frá landi ísa og úr myrkviðum Afríku hefur verið komið til vetrar dvalar á safni Samana upp í fjallshlíðum Evenesmarka.  Þarna eiðum við dögunum við fallandi fjósmúrinn, inn af stalli hestsins, gengt básunum sem geiturnar þrjár voru geymdar í denn.  Til svona verks dugir ekkert minna en fölþjóðlegur vinnukraftur enda nóg að gera hjá Norðmönnum við að þéna á olíu þó þeir fari ekki að eyða dýrmætum tímanum í að gera upp gamalt samískt fjós.  Ekki veit ég hvernig að ég gamli safnvíkingurinn kæmist frá því að rogast með björgin úr fjósveggnum ef ekki væri fyrir jötuninn Juma, hinn öfluga Afríkumann sem er kominn alla leið frá víðernum Darfur í Sudan.

Það fór ekki hjá því við fjósverkin að í gegnum hugann hafi flogið setning sem Siggi sonur minn sagði fyrir margt löngu síðan þegar hann var um fimm ára aldurinn "pabbi er ekki rosalega dýrt að vera í svona vinnu eins og þú?".  Þessi settningu rann reyndar fyrst á milli eyranna á mér þegar ég var að höndla flugmiðana yfir hafið og heim fyrir hátíð ljóssins og komst að því að það var ekki nokkur leið að komast fyrir minni hækkun en þriðjungs frá fyrra ári.  Um árið þegar Siggi spurði datt mér í hug eitt augnablik að skýra það út fyrir blessuðu barninu hvernig peningar yrðu til, en efaðist um að ég gæti gert það á nógu sannfærandi hátt með því að setja það í samhengi við mína vinnu.  Svo ég sleppti því, sem betur fer, enda löngu komið í ljós að hann Sigurður er miklu slyngari en ég í lífsins póker.

Það fer ekki hjá því að það örli aðeins á kvíða við þá röskun sem verður á grjótburðinum í fjósvegginn við það að fyrir höndum er flugferð yfir himin og haf.  Síðast þegar ég fór þessa leið mátti ég gjöra svo vel að stíga til hliðar á Evenesflyplass á skokkaleistunum, með vasana ranghverfa og buxurnar á hælunum vegna skerandi óhljóða frá leitahliðinu.  Eftir að hafa verið þuklaður átt og lágt af kallmanni fékk ég að halda áfram för, en það sama gerðist svo í Gardemoen.  Þegar ég kom til Keflavíkur reiknaði ég með að þetta yrði eins og í gamla daga að tollararnir byðu glaðlega góðan daginn og ef maður svaraði rétt á íslensku þá yrði málinu lokið með "velkominn heim". 

En það var nú aldeilis ekki, þarna stóðu þær tvær svartklæddar í tollinum, önnur gekk í veg fyrir mig og spurði um vegabréf á ensku.  Eins og illa gerður hlutur í grárri lopapeysu svaraði ég á ástkæra og ylhýra, "svo þú ert íslendingur" sagði daman þegar hún hafði skoðað vegabréfið, "þú mátt fara í gegn".  En þá brá svo við að hin daman gekk ennig í veg fyrir mig og skipaði mér á ensku að koma afsíðis þar sem taskan mín var sett í skanna, "hvað er þetta" spurði hún á ensku og aftur greip lopapeysan til þess að svara skilmekilega á ástkæra og ylhýra.  "Svo þú talar bara íslensku" sagði svartklædda daman "þú mátt fara í gegn".

Þegar ég kom í gegnum tollinn heyrði ég háreysti sem mér fannst ég kannast etthvað við og jú þarna var náungi sem ég hafði séð nokkrum mánuðum áður við vopnaleitarhliðið í Keflavík.  Hann hafði tilkynnt þar að það kæmi ekki til greina að hann tæki af sér skó og buxnabelti, hvað þá að hann tæmdi vasana að óþörfu.  Þegar það átti svo að leita á honum lét hann þá vita með gargandi snilld að þessu skyldu þeir sleppa því hann væri nefnilega ekki glæpamaður.  Fjöldi manns mátti bíða á sokkaleistunum með buxurnar á hælunum meðan serímónían fór fram.  Ég er ekki frá því að það hafi flogið í gegnum hugann á fleirum en mér, þegar svona góður tími gafst til að doka við og líta yfir sviðið, að þessi maður væri sá eini með fulle femm á öllu svæðinu.  En hann er, það sem sennilega er kallað á fagmáli, misþroska.  Þannig að hjá honum hefur varðveist viska barnsins allt til fullorðins ára.

Það sem helst truflar kvíðann vegna væntanlegrar flugferðar er tilhlökkunin yfir því að komast heim.  Því eins og hún Lea frænka mín komst að orði í sögunni sem hún skrifaði á leikskólanum um árið, þá bakaði stelpan svo góða köku handa stráknum að hann bað hana um að giftast sér.  Það er tilhugsunin um kókosterturnar hennar Matthildar minnar sem gera það að ég ferðast úr rándýrri vinnu yfir himinn og haf með buxurnar á hælunum grunaður um hryðjuverkaáform.  Með þá von í hjarta að í aðdraganda hátíðar ljóssins hafi blessuð börnin eins og ævinlega á réttu að standa.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband