Færsluflokkur: Dægurmál
3.12.2022 | 09:28
Íslenaka þjóðin
Nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningar, þegar flóttamenn flæða til landsins í skjóli innfluttra alþjóðalaga, eins og enginn sé morgunndagurinn, er ekki úr vegi að líta til þess hvaðan þjóðarsálin kom áður en hún hverfur í alþjóðlegan glóbalinn. Síðasta blogg fékk einstaklega höfðinglegar og áhugaverðar athugasemdir. Þar var athugasemd frá Hauki Árnasyni, og vitnaði hann í þjóðskáldið Einar Benediktsson þar sem hann minnist á bóki Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi, Íslenzki bóndinn. Einnig setti Pétur Örn Björnsson inn af höfðingsskap einstakt ljóð, sem mér fannst undirstrika allt, sem segja þurfti um það sem bloggið fjallaði um, -og gott betur.
Það er athygliverður kafli um tvískiptan jarðveg íslensku þjóðarinnar, hvað varðar atgerfi, tungumál og fornbókmenntir, í Íslenzki bóndinn, bók Benedikts Gíslasonar sem kenndi sig við Hofteig á Jökuldal. Þar getur hann sér m.a. til um frumlandnám Íslands á þeim tímum sem það var kallað Thule og hvernig kom til þess að Norðmenn settu hér upp einstakt þjóðveldi, sem er í tísku að kalla smákónga veldi, en er í raun hið íslenska bændaþjóðfélag, sem var einstakt á Evrópska vísu um aldir, -löngu eftir að þjóðveldið féll, jafnvel allt fram á 20. öldina, að tíma þess lýðveldis tók yfir sem nú er á hverfanda hveli.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Og landnámsmennirnir streyma til Íslands af tveimur þjóðum, sem þá eru farnar að blanda blóði saman í heimkynnum annarrar.
Tvær þjóðir af ólíkum slóðum, en virðast eiga vel saman, ólíkar að menningu en vel gerðar að líkams- og sálarfari leggja saman í þetta landnám.
Tvær lífsstefnur, sín með hvorri þjóð, verða samferða til þessa lands. Hin kristna lífskoðun, með samfélagshugsjónir, og hin heiðna lífskoðun, með einstaklingshyggju, íþróttaanda og vopnahreysti, verða samferða til landsins og leggja saman í þjóðarsál, sem óvíst er að hafi átt sinn líka að atgervi, hvorki fyrr né síðar í sögunni. Af hinni fyrri gengur huglæg saga inn í sálarlíf fólksins, og er þögul, og erfist sem slík frá kyni til kyns. Af hinni síðari hlutlæg saga og er hávaðasöm af vopnum og viðburðum, sem einkum einkennast af þessum tveimur þjóðsálarlegu þráðum, og er merkileg og æ uppi. Hvor lífsskoðunin eykur gildi hinnar á vettvangi lífs og sögu.
En hvernig nema svo þessir menn þetta land? Mynda þeir þéttbýli við veiðistöðvarnar, sem svo mikið orð fer af, og ætla mætti að væri einna auðveldast fyrir aðkomið fólk, sem hlýtur í fyrstu að skorta svo margt það, sem til bús og þæginda heyrir, og það hefur vanist í heimkynnum sínum? Því fer fjarri. Það dreifir sér um landið. Það skiptir landinu niður í smá reiti og hver fjölskylda eignast sinn reit. Þetta eru jarðir á Íslandi eins og þær hafa heitið um alla sögu, þessar skákir, sem landnámsmenn námu til eignar sér af þessu nýja engra manna landi, að því að talið er. Hver fjölskylda eignast sína jörð, og nú byrjar búskapurinn á þessum jörðum, svo fjölskyldan geti lifað. Bóndinn ber ábyrgð á þessum búskap, hann verður að standa fyrir viðskiptum við jörðina, svo fjölskyldan geti lifað. Hann ræður þessari jörð óskorað. Í þessum viðskiptum hans við jörðina sjást hæfileikar hans, brýnast hæfileikar hans; einn, sjálfráður notar hann hæfileika sína í viðskiptum við sína eigin jörð, og kemur ekkert annað við, meðan hann er látinn óáreittur.
Þjóðfélagsleg vandamál steðja ekki að honum, þjóðfélagsskyldur hans eru bundnar við afmarkaðan ætthring, það sem þær ná til út fyrir heimilið.
Jörðinni sinni gefur hann nafn, og oftast verður það hans eigin heiti, eða nafnið festist á jörð hans af hans heiti í þessum þröngu samskiptaháttum. Hann er einkenndur af nafni sínu og nafn hans flyst á heimkynni hans. Önnur koma af einkennum lands, ám, hólum, holtum, mýrum, skógum og þess háttar auðkennum, en hér um bil öll verða þau hlutlæg. Landið verður lifandi af heitum, sem öll eru gefin af hlutlægi á málfræðilega vísu. Það er ekkert fjall svo hvítt eða sindrandi af björtum bergtegundum, að það heiti Bjartfjall, en af sterku litareinkenni heitir Bláfjall, það er hér um bil hlutlægt orð.
Mörg þessi heiti verða listræn á málmynda- og hugmyndavísu, og bera fólkinu góða sögu um gáfur og fegurðarskyn.
Og nú er Íslandi skipt niður í jarðir, fram til innstu dala, út til ystu nesja. Hvergi er þorp eða borg. Landið er allt jarðir, hverri jörð ræður bóndi. Þjóðin er bændaþjóð, alveg óskorað. Það er engin stéttarskipting til, bara verkaskipting á heimilunum. Það kemur aldrei konungur í þetta land. Hver bóndi er sinn eigin konungur, hver jörð ríki hans, heimilisfólkið þegnar hans. Hann þarf að vera meira. Hann þarf að vera það, sem skáldbóndinn sagði um sjálfan sig á nítjándu öld:
Löngum var ég læknir minn,
lögfræðingur, prestur,
smiður, kóngur, kennarinn,
kerra plógur hestur.
Dægurmál | Breytt 7.12.2022 kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.12.2022 | 06:12
Fylgjan
Sennilega dettur fáum í hug að leita þekkingar á heimsmyndinni í íslenskum þjóðsögum, eða auka skilning á andans málum með því að glugga í sögur um íslensku fornkappanna. Heimsmyndin er orðin hávísindaleg og hin fjarlægu austurlensku fræði og sjónvarpið hafa þótt álitlegri kostir til sáluhjálpar. Nútíma vísindi gera varla orðið ráð fyrir tilvist sálar, þó svo enn sé algengt að álykta sem svo að manneskja samanstandi af huga, líkama og sál. Skilningsvitin séu fimm; sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt. Heimarnir hafi síðustu aldirnar verið taldir þrír þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti.
Efnishyggja nútímans hefur aftur á móti tilhneigingu til að hafna yfirnáttúrulegum, trúarlegum og dulspekilegum skýringum á líf fólks. Maðurinn tilheyri ríki náttúrunnar. Heimurinn sé einn og lúti þróunarsögu Darwins sem er nátengd markaðslögmálum hagvaxtarins. Hugleiða má svo hvaða vitneskju menn hafi um tilveru efnisheimsins aðra en huglæga. Heimurinn geti því allt eins verið hugmynd, jafnvel líkur þeirri sem Gandi benti á, "ef þú vilt breyta heiminum breyttu þá sjálfum þér".
Samkvæmt margri austurlenskri dulspeki getur heimurinn aðeins verið til í huga sérhvers einstaklings í eins mörgum útgáfum og hann óskar sér, þar verður hver að vera sinnar gæfu smiður. Innan hverrar manneskju býr samkvæmt því, rýmið, sólin og áttirnar fjórar, það sem er fyrir ofan og fyrir neðan, guðir, djöflar og hægt að fara hvert þangað sem andans truntur þeysa. Því er betra að vera meðvitaður um að hugurinn getur svifið í tómarúmi líkt og skýin um himininn. Þó skýin geri ekki mistök með ferð sinni um himininn, þá hefur vindátt og hitastig áhrif á hvort þeim fylgir blíða eða ótíð.
Hugmyndir fornmanna um skinfæri einstaklingsins virðast hafa verið frábrugðnar þeim sem uppi eru í dag, t.d. er hugsunin talin til eins af skilningsvitunum, líkt og gert er í Búddisma. Með því að færa hugsunina úr flokki skilningsvita yfir á vestræna vísu, í það sem mætti kalla hið óskilvitlega, er hægt að hafa gífurlega ómeðvituð áhrif á huga fólks og það hafa markaðsöfl nútímans notfært sér miskunnarlaust.
Sjálfsmynd heiðinna mann s.s. þeirra sem námu Ísland gerði ráð fyrir að manneskjan samanstæði af ham, hamingju, huga og fylgju, þessi fjögur atriði sköpuðu henni örlög. Þetta fernt virðist kannski fornfálegt og flókið, en er það svo? Fornmenn hafa kannski gert sér betur grein fyrir hvað hugurinn er flækjugjarn, ef hann er ekki notaður til að fylgjast með rétt eins og sjón og heyrn. Þess í stað svæfður við að meðtaka innrætingu í stað þess að fylgjast með á sama hátt og hin skilningsvitin.
Ef sjálfsmynd fornmanna er sett í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina haminn sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveld-Úlfur faðir Skalla-Gríms hafi verið.
En Kveld-Úlfur var samkvæmt sögunni klofinn persónuleiki. Á daginn var hann góður búmaður, duglegur og vitur, en á kvöldin svefnstyggur og afundinn, þaðan er viðurnefnið komið. Var því sagt að hann væri hamrammur eða hamskiptingur. Þjóðsögurnar skýra þetta fyrirbæri ágætlega og hve algeng hin forna meining er á íslenskri tungu.
"Betur hefur sú trú haldist frá fornöld að menn ímynda sér að sálin geti yfirgefið líkamann um stund, verið fyrir utan hann, en vitjað hans svo aftur; af þessu eru leidd mörg orð: vér köllum að maður sé hamslaus og hamstola af ákafa eður æðisfenginni reiði; hamhleypa er kallaður ákafur maður og skjótvirkur; hamur er vestanlands kölluð kona sem er geðvargur, óhemja og annað því um líkt. Alkunn eru orðin að hamast, skipta hömum og enn fleiri." Þjóðs. JÁ bls 341 I bindi
Nú á tímum verður fólki tíðrætt um hamingjuna, sem allir þrá, orðið hamingja er haft um gleði eða sælu. Hamingjan er talin tilfinning, sem kemur innan frá, eitthvað sem sagt er að þurfi að taka meðvitaða ákvörðun um að öðlast, hún sé nátengd hugarástandi. Til forna bjó hamingjan ekki í huganum, frekar en huganum er ætlaður staður á meðal skilningsvitana fimm nú á tímum. En hver er merking íslenska orðsins hamingja og hvernig er það saman sett?
Samkvæmt því sem sérfræðingar segja merkir orðið hamingja gæfa, heill, náðargjöf og í elsta máli einnig heilladís eða verndarvættur. Það er sett saman úr orðunum hamur sem merkir líkami, húð eða gervi og í eldra máli með viðtengingunni fylgja eða verndari. Viðtengingin ingja er komin af engja af sögninni að ganga, nokkurskonar vættur sem gengur inn í ham eða gervi.
"Ásgeir Blöndal Magnússon getur sér þess til í Íslenskri orðsifjabók (1989:303) að hamur merki í þessari samsetningu "fósturhimna, fylgja" og vísar þar til ham í dönsku og sænskum mállýskum í sömu merkingu. Hamingjan hafi þá upphaflega verið heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir sérhverjum frá fæðingu".
Fræðimenn telja því hina fornu notkun orðsins bera vitni um að einstaklingurinn hafi ekki ráðið miklu um hamingju sína, sumum fylgi mikil hamingja, en öðrum minni. Þetta á þá væntanlega rætur að rekja til upphaflegrar merkingar orðsins hamingja, þ.e verndarvættur, heilladís, fylgja. Einnig eimir eftir af hinni fornu merkingu í orðatiltækjum eins og; Það má hamingjan vita eða Hamingjan hjálpi mér! Þar sem talað er um hamingjuna eins og sjálfstæða persónu, hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull; segir í íslenskum dægurlagatexta og kveður þar við fornan tón.
Fylgja er oftast talin þjóðsagnakennd og draugalegt fyrirbæri, en svo hefur ekki alltaf verið. Hjá forfeðrunum skipti miklu að búið væri þannig að einstakling sem nýkominn var í heiminn að honum fylgdi góður andi eins og lesa má um í þjóðsögunum.
"En í fornöld var allt öðru máli að skipta því þá koma fylgjur oftast fram sem andlegar verur enda eru þær annað veifið kallaðar dísir sem fylgi hverjum einstökum manni, verndi hann og farsæli, og liggur þá nærri að ímynda sér að fylgja sé sama og hamingja, gifta aða gæfa, auðna eða heill." Þjóðs. JÁ bls 340 I bindi
"En eigi eru allar fylgjur sagðar draugakyns og nokkuð annars eðlis; því svo segir gamla þjóðtrúin að þegar barn fæðist þá verður eftir af sálarveru þess hluti sem sérstæð vera í himnubelg þeim sem utan um það í móðurlífi og leysist síðar og kallast barnsfylgja. Þessi vera kallast fylgja og verður leiðtogi barnsins og líklega verndarvera þess. Hún er kölluð heilög og hefur ef til vill af fornmönnum verið sett í samband við forlög og hamingju og gefin stundum vinum og orðið kynfylgja." Þjóðs. SS bls.183 III bindi
Því var til siðs að fara vel með barnsfylgjuna í henni byggi heill barnsins sem myndi fylgja því í gegnum lífið. Fylgjan var stundum grafin innanhúss í námunda við móðir barnsins svo hún myndi hafa góð áhrif á fylgju þess. Ef fylgjan var grafin utandyra eða fleygt á víðavang þá var hún talin taka áhrif þess sem fyrst fór þar yfir, hvort sem um mann eða dýr væri að ræða, sem myndi uppfrá því einkenna fylgju einstaklingsins. Athyglivert er í því sambandi hvað mörg íslensk nöfnu bera í sér dýraheiti, björns nöfn og úlfs eða fuglsnöfn á við örn, val, svan, hrafn ofl..
"Mikill hluti fylgja þykir vera sá hluti mannssálarinnar sem verður eftir þegar barnið fæðist og fylgir barnsfylgjuhimnunni. Guðlaugur Guðmundsson Guðlaugssonar, Hálfdánarsonar er gera lét á sig reiðfæri og óð allar ár austan af Djúpavogi með hestburð á baki bjó að Þverá í Hörgslandshreppi á Síðu. Synir hans voru tveir, Guðmundur og Guðlaugur. Þegar Guðlaugur fæddist gleymdi nærkonan að bera ljós í kross yfir móðurina og barnið í rúminu og fleygði fylgjunni í koppinn. Þá kom Guðmundur, þá 7ára gamall, og settist á koppinn, enda átti Guðlaugur mynd bróður síns fyrir fylgju upp frá því, alltaf á því reki sem hann var þá og eins eftir að Guðmundur var dáinn." Þjóðs. SS bls 287 III bindi
Þegar börn fóru að fæðast á fæðingardeildum, og jafnvel fyrr, er fæðingarfylgjan yfirleitt brennd og eftir það er einstaklingurinn talinn fylgjulaus, hafi þess í stað það sem vinsælt er að kalla áru. Fylgjan gerði yfirleitt vart við sig áður en viðkomandi einstaklingur birtist. Ef fylgjan gerði vart við sig á eftir viðkomandi þá var hann talinn feigur. Sumir eru taldir hafa átt fleiri en eina fylgju, þá oft ættarfylgju að auki eða jafnvel aðra góða og hina vonda. Fylgjan var samt oftast talin heilladís eða verndarvættur sem lifði og dó með manneskjunni. Ef fylgjan dó eða yfirgaf manninn í lifanda lífi af einhverjum völdum þá var hann talinn gæfulaus eða heillum horfinn.
Það þarf ekki endilega að fara langt yfir skammt við að sækja andlegan skilning. Flest trúarbrögð eiga sinn uppruna á fjarlægum slóðum, austurlenskri speki s.s. hindú, jóga og búddismi sem þurfa mikla iðkunn áður en þau nýtast til sáluhjálpar, auk þess sem það þarf að setja sig inn í aragrúa torskilinna hugtaka. Kannski liggur einfaldasta leiðin til sálarþroska í gegnum þann menningararf sem fylgir heimahögunum og skilningur auðmeltastur þar sem tungumálið hefur verið drukkið með móðurmjólkinni. Því er það hvorki tilviljun hvar við fæðumst né hvað því fylgir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.11.2022 | 06:08
Snjófríður
Er ekki algengt nafn í dag, en kemur samt fyrir í yfir 60 skipti á Íslendingabók. Tvisvar finn ég nafnið í mínu langmæðratali. Árið 1961 fluttu foreldrar Matthildar minnar börn og bú á bát yfir Berufjörð, frá Núpshjáleigu á Berufjarðaströnd suður á Djúpavog í Búlandsnesinu. Þegar ég hef heyrt þessum flutningi lýst er það líkt og ævintýri úr örðum heimi. Matthildur fæddist svo um ári seinna í Sólhól á Djúpavogi.
Dóttir okkar heitir Snjófríður, og Kristín að millinafni, eftir ömmum sínum. Hún er sú eina sem ber nafnið Snjófríður nú á Íslandi, eftir því sem ég best veit, og sennilega í heiminum. Snjófríður Hjálmarsdóttir amma hennar var móðir Matthildar minnar, henni kynntist ég aldrei því hún var fallin frá áður en til kynna okkar Matthildar kom. En Jóni Antoníussyni pabba Matthildar kynntist ég vel, enda héldum við Matthildur heimili með honum fyrstu búskaparár okkar og urðum við Jón góðir vinir.
Í bók Eiríks Sigurðssonar, Af Sjónarhrauni er þáttur um Fossárdal og fyrr um íbúa hans. Þar er athygliverð frásögn af ungum hjónum ásamt dóttur, sem fluttust að Eyjólfsstöðum á Fossárdal við Berufjörð árið 1826, úr Breiðdal. Þetta voru þau Gunnlaugur Erlendsson og Sigríður Þorsteinsdóttir, dóttirin Ljósbjörg. Þau voru þá 24 ára og dóttir þeirra 6 ára.
Á meðan þau áttu heima á Fossárdal kynnist Gunnlaugur jafnöldru þeirra hjóna, Snjófríði Árnadóttir fæddri í Núpshjáleigu 1802. Árið 1829 skildi Gunnlaugur við Sigríði konu sína og þau sóttu síðan sameiginlega um skilnað til amtmanns. Gunnlaugur byrjaði búskap árið 1830 á Eiríksstöðum í Fossárdal og Snjófríður varð ráðskona hans, þetta sama ár eignaðist Snjófríður dóttir. Gunnlaugur er ekki skráður faðir dóttur Snjófríðar í kirkjubókum heldur Erlendur bróðir Gunnlaugs, sem var vinnumaður á næsta bæ, Eyjólfsstöðum í Fossárdal.
Snjófríður eignaðist tvö börn í viðbót, sem bústýra hjá Gunnlaugi, og eru hvorugt þeirra skráð Gunnlaugsbörn í kirkjubókum, en byrjað hefur verið á að skrá Gunnlaug í öðru tilfellinu, en síðan strikað yfir nafn hans. Árið 1842 fá Gunnlaugur og Sigríður kona hans loks samþykktan skilnað hjá amtmanni, -eftir 12 ár. Þá giftust þau Gunnlaugur og Snjófríður og eignuðust saman tvær dætur. Óskiljanlegt er hvers vegna svo langan tíma tók fyrir þau Gunnlaug og Sigríði að fá skilnað, en gögn eru sögð sína að þau hafi verið sammála í því efni.
Kannski hafa börn Snjófríðar verið rangt feðruð í kirkjubókum vegna þess að Gunnlaugur og Sigríður voru enn gift samkvæmt lögum og stutt síðan að lög stóradóms ullu fólki í þeirri stöðu stórfelldum vandkvæðum. Fyrsta dóttir Snjófríðar hét Ingibjörg, skráð Erlendsdóttir. Út af Ingibjörgu er móðurfólk Matthildar komið og til Snjófríðar móður hennar má sennilega rekja Snjófríðar nafn dóttur minnar og reyndar enn aftar því amma Snjófríðar hét einnig Snjófríður og var líka Árnadóttir og bjó í Núpshjáleigu á Berufjarðarströnd.
Á Íslendingabók er það svo að Ingibjörg er skráð Erlendsdóttir. Í kvenlegg dóttur minnar á Íslendingabók hefur annað hvert nafn verið Snjófríður, svo langt sem hægt er að rekja, eða allt aftur til ársins 1741, ef með er talið nafnið Snjólaug, sem var dóttir Ingibjargar Erlendsdóttur, dóttir Snjófríðar. Má ætla að Ingibjörg hafa látið Snjólaugu heita eftir foreldrum sínum báðum. Búskapar annáll þeirra Snjófríðar og Gunnlaugs er langur og nákvæmur í bók Eiríks Sigurðssonar og sagt á greinagóðan hátt frá fólkinu á Fossárdal og hvet varð lífshlaup þeirra Sigríðar og Ljósbjargar, fyrri konu og dóttur Gunnlaugs.
Nýlega átti ég samtal við hana Ævi 5 ára dóttur dóttur okkar, um að nafnið hennar væri einstakt á Íslandi og það sama ætti við um mömmu hennar. Hvort hún myndi þá ekki láta dóttur sína heita Snjófríður: Nei; -sagði Ævi; -hún á að heita Sóví. - En þú verður nú eiginlega að láta hana heita Snjófríður; -maldaði ég í móinn; -og getur þá kallað hana Sóví. - NEI, -sagði Ævi hækkandi rómi alveg harðákveðin; -hún á víst að heita Sóví.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2022 | 20:26
Hulur samsærisins
Níu man ég heima sagði Vala í upphafi spár sinnar til Óðins. Til að sjá bak við hulurnar sem leyna vitundina heimana níu er gagnlegt að hafa í huga að forn hugmyndafræði gerði ráð fyrir að ákveðin öfl stýrðu okkar lífi. Dulspekin gerir einnig ráð fyrir að heimarnir sem umlykju okkur séu fleiri en þessir þrír sem kirkjan bauð upp á í árhundruð, þ.e.a.s. jarðlífið, himnaríki og helvíti.
Nærtækt er goðafræðin, sem stundum er kennd er við Ásatrú, gerði ráð fyrir níu heimum, hafði eigin sköpunarsögu og átti sín ragnarök í Völuspá. Heimurinn virðist því ævinlega vera hugmynd, sem samþykkt er af fjöldanum á hverjum tíma, jafnvel þó tálsýn sé. Speki goðafræðinnar væri rangt að telja til trúarbragða, miklu frekar væri að telja hana til hugmynda fólks um heim þess tíma, og lífsviðhorfa sem honum tengdust.
Að sumu leiti liggur það í augum uppi að heimarnir sem umlykja okkur eru fleiri en við viðurkennum, þetta er nokkuð skýrt hjá barnsálinni þar til henni hafa verið innrætt lífsviðhorf rökhyggjunnar. Flestir áhangendur innrættrar rökhyggju, sem láta þó það uppi að þeir trúa á trúleysið, telja að stærðfræðilegur sannleikur talnanna getur hvorki falið í sér dulspeki né trúarbrögð. En þær geta samt sem áður villt sýn eftir því í hvaða samhengi þær eru fram settar.
Tölurnar eru ekki margar, eða alls níu á bilinu 1 9 sem þarf til að fá allar útkomur. Yfirleitt er talnafræði kennd almenningi til reiknings eða stærðfræði og mikið notuð nú á tímum til að sýna fram á lygilega hagfræði um hagvöxt. Stundum er samsetning talnanna kennd sem brotareikningur jafnvel í formi þokugrárrar algebru þar sem barnsálin rammvillist í ósýnileka óþekktra stærða, en sjaldnast eru töfrar talnanna kynntir sem heilög rúmfræði.
Þess virðist vandlega gætt að töfrar talnanna séu huldir barninu þegar því eru innrætt notagildi þeirra, kannski er þetta gert til þess heimarnir sem umlykja barnsálina trufli ekki við það að búa til nýtan þjóðfélags þegn. Svo markviss er 2+2=4 akademían að margt sem áður var þekkt eru orðið að afgangsstærð. Þannig að flest börn, sem breytast í rökhugsandi menntamenn, og vilja láta taka sig alvarlega, -skila nú jafnvel auðu varðandi tilvist himnaríkis og helvítis fyrir trú sína og von á hagvöxt jarðlífsins.
Hvað ef okkur væri innrætt tölfræði á töfrandi grunni?
(1 x 8) + 1= 9
(12 x 8) + 2 = 98
(123 x 8) + 3 = 987
(1234 x 8) + 4 = 9876
(12345 x 8) + 5 = 98765
(123456 x 8) + 6 = 987654
(1234567 x 8) + 7 = 9876543
(12345678 x 8) + 8 = 98765432
(123456789 x 8) + 9 = 987654321
Magnað er það ekki; fullkomin speglun, ætli lífsins tré hafa svipað til þessa þegar örlaganornirnar voru búnar var að umreikna þess óendanlegu óþekktu stærð?
Það er kannski ekki undarlegt að helstu hugsuðir heimsins hafi verið talnaglöggir s.s. Arkímedes, Copernicus, Sókrates og DaVinci. Það ætti að vera jafn auðvelt skilja að allt frá spádómum Biblíunnar til DNA stiga nútímans er byggt á mynstri einfaldra talnaformúla. En hvað kemur það þessum níu heimum við?
Íhugum ef svokallaðir Svartaskógs skólar galdra til forna, væru ennþá til, þar sem seiður ásamt þekkingu á heilagri rúmfræði vísaði veginn til þess sem ætti að vera hverjum nytsamt, þ.e. uppgötvunum á tilurð þessa heims þar sem sköpun hans væri opinberuð. Að halda því fram að opinber menntun sé til þessa að rugla barnsálina í ríminu, er auðvitað talin vera samsæriskenningin. En hversvegna er svona erfitt að sjá þann sannleika sem mun gera okkur frjáls?
Á undanförnum árum hafa verið settar fram tilgátur varðandi það hvers vegna fólk sér ekki sannleikann, jafnvel þó það fái hann óþveginn beint í andlitið. Þeir sem eiga auðvelt með að sjá samhengi hafa örugglega átt slæmar stundir þegar fólki gremst að deilt sé á stofnanir samfélagsins, jafnvel þó að færa megi fram skjalfest rök fyrir því hvernig kerfið er markvist notað til að koma okkur í ánauð svo hægt sé að nota okkur í þágu hagvaxtar hinna fáu. Líklegasta skíringin á þessu er kannski sú að fólk vilji hreinlega ekki sjá hvað er að gerast.
Því er oft þannig farið að heimsins ráð brugga vondir menn, sem koma því þannig fyrir að grasið er grænna hinu megin við lækinn þannig að sóst er eftir glysinu líkt og asninn sem eltir gulrót. Tilhneiging er til að stimpla þann er á það bendir sem samsæriskenninga smið. Enda ráða heimsins öfl launuðum störfum, fjölmiðlum og afþreyingu sem eitthvað kveður að. Meir að segja er árlega greint frá því að 1% íbúa jarðar ráði yfir mest öllum auði hennar, og ætla má að innan við 1% íbúa jarðar sjái eitthvað samsæri við það í gegnum hagvaxtar þulurnar.
Það er ekki þannig að þeir sem ekki sjá frelsið hverfa ofan í hagvaxtar skrímslið vilji ekkert sjá og heyra, og haldi þess vegna ráðabruggi vondra manna gangandi meðvitað. þeir einfaldlega geta ekki séð hvað er að gerast vegna þess að trúin á að heimurinn sé ekki annað en innrætt útgáfa af jarðlífinu lokar sýninni á aðra heima, eða að þeir geti hafa verið níu eins og Vala upplýsti í upphafi spár sinnar, hvað þá að þeir geti allt eins allir verið til í samtímis.
Fyrsta heimur mótast af stjórnmálum og efnislegu umhverfi, að vera virkur í samfélaginu með því að kjósa á milli viðtekinna viðhorfa. Skoðanir taka mið af efnahagsmálum; við vitum af uppeldinu að það á að bera virðingu fyrir embættismönnum, fjölmiðlar fara með sannleika, undirstrikaðan af helstu sérfræðingum samfélagsins. Níutíu prósent okkar munu lifa og deyja án þess að svo mikið sem efast um þessa heimsmynd.
Annar heimur, þeir sem þangað koma munu kanna söguna, tengsl milli einstaklings og stjórnvalda í hennar ljósi. Öðlast skilningi á því hvernig valdefling getur stjórnskipulega farið saman með stjórnarskrárbundnum réttindum einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að leita lengra þrátt fyrir að gera sér grein fyrir að ríkisvaldið hefur í gegnum tíðina sífellt gengið lengra á stjórnarskrárvarinn rétt borgaranna.
Þriðji heimur, þeir sem hingað kíkja mun finna óyggjandi sannanir fyrir því að auðlindir heimsins, þar á meðal fólk, er stjórnað af mjög auðugri elítu sem byggir á gömlum auði heimsins, sem viðhaldið er með nútímalegri fjárkúgun sem felst í því að skuldsetja hagkerfi þjóðanna. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að sjá meira.
Fjórði heimur, þeir sem í þennan heim sjá munu komast að því að það eru til leynileg samtök manna, sem styðjast við forna dulspeki, táknfræði og helgisiði. Félagssamtök, sem elítunni þjóna, eru byggð upp á svipaðan hátt og pýramídi. Þannig að upplýsingar færast frá breiðum grunni upp á toppinn þar sem þær komast í þjónustu fámenns hóps, án þess að þeir sem starfa á lægri stigum hafi nokkra hugmynd um hvernig. Halda allt eins að þeir starfi í góðgerðasamtökum. Um níutíu prósent fólks, sem þó þetta sér, mun ekki sjá til næsta heims.
Fimmti heimur þar sem lærist að með leyndarhyggju hefur verið svo langt á veg komist að tæknilega er fjarhrifum, tímaflakki og heilaþvotti engin takmörk sett. Með því móti er hægt að stjórna hugsunum og gerðum fólks þannig að það gegnir, líkast því og þegar við segjum börnunum að fara að sofa. Líkt og á dögum syndaflóðsins er ákveðin tækni notuð af ráðandi öflum til að ráðskast með heiminn, rétt eins og ákveðnir menn fari með umboð Guðs.
Sjötti heimur þar sem komist er að því drekar, eðlur og geimverur, sem við héldum að væri skálduð skrímsli barnabókmenntanna, eru raunveruleg ráðandi öfl á að baki leyndarhyggjunni sem uppgötvuð var í fjórða heimi. Níutíu prósent af fólki í þeim hópi, sem sér inn í þennan heim, mun lifa og deyja án þess gægjast í þann sjöunda.
Sjöundi heimur er ótrúlegur heimur heilagrar rúmfræði þar sem lögmál alheimsins verða skilin og meðtekin. Frumsköpunarkraftur alheimsins verður að fullu sýnilegur í formi tölulegra "leyndardóma" þar á meðal tilurð tíma og rúms, hliðstæðra heima, og aðgangur að þeim opinberast. Þeir snilldarhugsuðir sem komast í þennan sjöunda heim munu flestir láta glepjast af loforðum um stórfelldan gróða úr hendi elítunnar, og þannig munu yfir níutíu prósent þeirra sem hingað komast lifa og deyja án þess að vísa fjöldanum veginn og kynnast þeim áttunda.
Áttundi heimur er þegar við sjáum í gegnum blæjuna sem kom í veg fyrir að við greindum ljós almættisins, þar upplifum við þá hreinu orku sem gengur undir heitinu skilyrðislaus kærleikur og fyrirfinnst í öllu í lífi á jörðu, sem er eitt og hið sama í hvaða formi sem er. Djúpstæðrar auðmýktar er þörf til þess að sjá í næsta heim.
Níundi heimur þar sem fullkomnunar hreinnar orku kærleikans er náð með því að verða eitt með almættinu og sköpunar þess. Með fullkomnun þessarar hreinu orku, mun kærleikurinn skapa fullan skilning á því að dauðinn er ekki fórn heldur endurlausn; lífið sjálft verður sannarlega hringferli þar sem þú munt líta heiminn á ný með augum saklaus barns, en með skilningi sem það gaf og varð endanlega til við að uppgötva skilyrðislausan kærleika lífsins.
Það kaldhæðnislega er að því meira sem þeir upplýsa, sem færir eru um að sjá umfram fjöldann, þeim mun ruglaðri eru þeir taldir vera af fjöldanum. Jafnvel svo veikir að nauðsynlegt hefur talist að stimpla þá sem samsæriskenningasmiði, eða meðhöndla á þann hátt sem hentar tíðarandanum og auðkenna þá sem væntanlega hryðjuverkamenn.
Í fyrstu tveimur heimunum lifir og hrærist yfirgnæfandi meirihluti fólks. Munurinn á þeim fyrsta og öðrum er í meginatriðum sá að þeir sem þekkja innviði annars heims útvega elítunni meðvitað fallbyssufóður á vígvöllinn með því kjósa stjórnmálamenn hennar í hreinni firringu.
Þeir sem hafa heimsótt 3 5 heim gera ríkisvaldinu erfiðra fyrir að hygla elítunni með ábendingum sínum, en með því fórna þeir oft tengslum við vinafólk og fjölskyldu. Verðlaunin verða svo þau að vera taldir samsæriskenningasmiðir af megin þorra fólks.
Það þarf samt engan Svartaskógs skóla til að finna þessu öllu saman stað. Í þjóðsögunum íslensku má vel sjá að fólk hafði vitneskju í gegnum aldirnar um hina ýmsu heima sem þykja kannski ekki eiga erindi við upplýstar háskólagráður dagsins í dag.
Þriðja bindi þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar hefur að geima álfasögur og þar má finna söguna af Steini á Þrúðvangi, sem var bóndi á austanverðu Íslandi skömmu eftir að kristni var lögtekin, og samtali sem hann varð vitni að þar sem hann dormaði á milli svefns og vöku á jóladag;
,,,sjáið samt til að elskan hvort heldur á hlutum til dæmis auðæfum eður persónum verði svo sterk að elskan til Guðs tapist með öllu. Í einu orði ef þér gætuð viðhaldið þessum tveimur grundvallarstólpum Lúsífersríkis, hatri og óleyfilegri elsku, þá mun allt annað illt leggjast til: Guð og hans orða forakt, óhlýðni við yfirboðarana, manndráp, hórdómur og blóðskammir, þjófnaður lygar og að ég ei tali um allra handa vondar girndir.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er útgáfa sögunnar af Steini á Þrúðvangi mun styttri, en þar segir auk þess af því þegar menn fréttu af vitrunum hans; Könnuðust menn þá við anda þessa og það voru þeir sem menn kalla jólasveina. Ganga þeir um byggðirnar og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn.
Líkt og með jólasveinana sem voru einn og átta samkvæmt þjóðvísunni, þá hafði goðafræðin sína níu heima til að skýra myndina. Í dag nægir einn heimur með einum jólasveini sem við köllum Hagvöxt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.11.2022 | 16:31
Hvernig verður hægt að vera hamingjusamur án þess að eiga neitt?
Peningakerfi heimsins er byggt á skuldum. Þess vegna getur verið auðvelt að trúa boðskap World Economic Forum, að innan skamms muni einstaklingurinn ekki eiga neitt en samt vera hamingjusamur. Þetta byggir á aðgengi að skuldum, nú sagt keyrt sem sosial cretid system í Kína, en hefur verð prufukeyrt undir nafninu greiðslumat á vesturlöndum.
Greiðslumatið hefur m.a. átt sér þær birtingamyndir á Íslandi að fólk getur staðið undir 300.000 kr leigugreiðslu á mánuði vegna íbúðarhúsnæðis, en fær ekki greiðslumat fjármálastofnanna til að kaupa íbúðarhúsnæði af sömu stærð með 200.000 kr greiðslubyrði á mánuði.
Kerfið byggir á gögnum aftur í tímann og refsa eigendur skuldabókhaldsins þeim sem þeir hafa ekki fullkomið tangarhald á með því að gera þeim erfitt fyrir. Þeir eru fáir sem gera sér grein fyrir því að þetta greiðslumat að skuldaaðgengi er ávísun á þrældóm í framtíðinni.
Fyrir aðgengi að skuldum gefur einstaklingurinn frelsi sitt og tíma fyrirfram og fær t.d. í staðinn að láni mismun á 200.000 og 300.000 til að kaupa eitthvað sem honum vantar ekki, en telur sig verða hamingjusaman með því að hafa. Um leið samþykkir lántakandinn greiðslugetu fortíðarinnar. Hætt er við að hamingjan tilheyri þá einnig fortíðinni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.11.2022 | 08:57
Hvað er hagvöxtur?
Vegna þess hvað hagvöxtur gerir mikið fyrir kaupgetu almennings er talið ásættanlegt að stór hluti upplýsingasamfélagsins inni af hendi vinnu sem engin hefur þörf fyrir. Til þess að hámarka eyðslu almennings þarf frjáls tími jafnframt að vera af passlega skornum skammti, sem geri það að verkum að fólk borgi meira fyrir ímynduð þægindi og hafi minni tíma til að komast upp á lag með að skipuleggja eigin tíma. Þetta heldur m.a. fólki óvirku utan vinnu við að horfa á síma, sjónvarp og auglýsingar á það sem er sagt að því vanti.
Við erum föst í menningu sem hefur verið hönnuð af færustu markaðsfræðingum í að gera okkur þreytt, eftirlátsöm af áreiti, tilbúin til að borga fyrir þægindi og skemmtun, og síðast en ekki síst fyrir það sem hefur ekki það sem þarf til að uppfylla væntingar okkar. Þannig höldum við áfram að vilja það sem við gerum til að geta keypt það sem okkur vantar ekki, vegna þess að okkur finnst eitthvað vanta.
Vestræn hagkerfi neyslunnar hafa þannig verið byggð upp á útspekúleraðan hátt til að búa til fíkn og fullnæga henni með óþarfa. Við eyðum til að hressa okkur upp, til að verðlauna okkur, til að fagna, að fresta vandamálum, að gera okkur meiri í augum náungans og síðast en ekki síst til að draga úr leiðindum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það myndi leika hagvöxtinn ef við hættum að kaupa það sem okkur vantar ekki og hefur ekkert raunverulegt gildi í lífi okkar til lengri tíma.
Það væri hægt að stytta vinnudaginn, minka við sig húsnæðið (þar með húsnæðislánin) og gera sorphirðuna verkefnalausa. Vandamál myndu fara minnkandi, svo sem offita, sjúkdómar, mengun og spilling, sem eru tilkomin vegna kostnaðarins við að halda uppi hagvexti. Heilbrigðu, hamingjusömu fólki finnst ekki þurfa svo mikið af því sem það hefur ekki, og það þýðir að það kaupir minna af rusli og þarf minn af afþreyingu sem það finnur ekki sjálft.
Vinnumenningin er hagvaxtarins öflugasta tól, þar sem launin gera kleyft að kaupa eitthvað. Flest okkar fara á þann hátt með peninga að því meir sem er þénað því meiru er eytt. Ég er ekki endilega að halda því fram að það verði að forðast vinnu og fara þess í stað út um þúfur í berjamó. En það er hverjum og einum holt að gera sér grein fyrir á hverju hinn heilagi hagvöxtur þrífst og hvort hann sé sá leiðtogi sem við viljum fylgja í þessum heimi.
Það hefur verið lögð í það ómæld vinna að hanna lífstíl sem byggir á því að kaupa það sem vantar ekki fyrir peninga sem ekki verða til fyrr en þú hefur látið frelsi þitt í skiptum, jafnvel ævilangt. Í sem stystu máli er hagvöxtur dagsins í dag;
Mælska meðal manna
um gagnsemi sóunar.
Gröf grafin í sand
neyslu til hagsældar.
Í heljarslóð jarðar,
með orkuskiptum,
hamfaraórækt
og carbfix.
Dægurmál | Breytt 26.12.2024 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
7.11.2022 | 16:22
Helvíti fyrr og síðar
Það er nokkuð síðan að kirkjan hætti að prédika helvíti opinberlega barnanna vegna, en þá tók kolefniskirkjan boðskapinn upp á sína arma. Nú fara þeir með himinskautum, sem vilja að venjulegt fólk verði skattlagt fyrir að draga andann, gott ef þeir eiga ekki eftir að þjóta einhverja hringi í kringum hnöttinn með kolefnissporið strókandi aftan úr rassgatinu í viðleitni sinn í að koma á neyðarástandi til tekjuauka fyrir stjórnmálamenn og auðróna.
Þegar svona árar er ágætt að líta í gamlar heimildir, -jafnvel í þjóðsögur. Því helvíti hefur yfirleitt verið í Langtíburtukistan nema svo óheppilega vilji til að það sé á staðnum. Árni Magnússon sagði í Chorographica Islandica, að um 1640 hafi verið vegur frá Hoffelli í Hornafirði upp í Fljótsdalshérað. Hafi það verið stíf dagleið, en á hans tíma hafi jöklar lokað leiðinni. Þessi frásögn, þótt ósennileg sé, fær þó styrk í Droplaugarsona sögu. Enn í dag lokar Vatnajökull leiðinni og skriðjökull sem heitir Hoffellsjökull.
Það er til Þjóðsaga um Hornafjarðafljót, -og er hún svona:
Hornafjarðarfljót koma úr jökli þeim er kallaður er Heiðnabergsjökull. Falla þau niður miðjan Hornafjörð og eyddu þau þar bæi marga er þau hlupu fram. Segir sagan að þar hafi áður verið fögur sveit og þéttbýl. Jökullinn hljóp um nótt og var fólk allt í svefni. Fórust þar allir og engu varð bjargað, hvorki mönnum né skepnum. Sópuðu fljótin gjörsamlega öllu, bæjum og húsum og því er í var, og fylgdi þar grassvörðurinn með. Þurrkaðist þannig sveitin öll í burtu og þótti það mikil sjón og ógurleg um morguninn er menn sáu vegsummerki.
Þrem árum síðar var smali á ferð niður við ósinn á fljótinu. Hundur var með honum og nam staðar við þúfu eina á sandinum. Smalinn ætlaði að halda áfram, en rakkinn flaðraði upp um hann og hljóp ýmist að þúfunni og rótaði í henni snuddandi eða að smalamanni. Smalamaður gekk þá að þúfunni og vildi vita hvað um væri. Heyrði hann þá gelt niðri í henni. Reif hann þá til og fann þar stúlku eina og hund hjá henni. Hún hafði þar verið síðan hlaupið varð og hafði húsið sem hún var í haldið sér og sandorpið. Hafði hún fundið þar vistir margar og því hafði hún getað lifað. Smalamaður fór nú heim með fund sinn, og þótti þetta merkilegur atburður og þykir svo enn í dag.
Finnist einhverjum þjóðsagan um Hornafjarðafljót helst til ótrúleg þá má þetta finna í ferðabókum Kålund:
Sé haldið inn Nesjasveit, er komið að prestsetrinu Bjarnanesi (Njála) um mílu vegar frá fjarðarmynni, en á bakka Eystra fljóts, en margar hjáleigur allt í kring. Eystra fljótið skilur Bjarnanes frá Skógey, sem fyrr var nefnd og er nú næstum gróðurlaust sand- og hraunsker, en sagnir herma að upphaflega hafi verið þar frjósöm ey með 18 bæjum. Sýslulýsing frá síðustu öld segir að þar hafi enn sést tóftir og gamlir grjótveggir húsa. Af máldögum mætti ef til vill draga að þar hafi eitt sinn verið kapella. Sennilega hefur eyjan beðið mikinn hnekk við skyndilega breytilegt vatnsmagn Fljótanna, mikinn vöxt, stíflun óssins, jökulhlaup ofl. Sóknarlýsingar Bjarnaness segja frá jökulhlaupum eða skyndilegu og óreglulegum vexti vatnsmagnsins, sem einkennir Hornafjarðarfljótin eins og aðrar jökulár. (Íslenskir sögustaðir IV- Kristian Kålund bls 58)
Í sóknarlýsingu sr Magnúsar Bergsonar frá árinu 1839 fyrir Stöðvarsókn í Stöðvarfirði má lesa eftirfarandi um veðurfar á hans tímum:
Hafís kemur hér þráfaldlega en þykir aldrei góður gestur, stundum kemur hann seint á góu, stundum á einmánuði, um og eftir sumarmál, og stundum seinna, en því fyrr hann kemur því skemur liggur hann hér við land. Komi bráð norðvestanveður öndverðlega á vetri en liggi í norðanátt og norðaustrum þegar á hann líður, þykja líkindi til eftir því veðráttufari að hafís komi á vorinu og það reynist ogsvo oft. Meðan hafís er í reki er loft oft sífelldlega hulið gráu þykkni og hrein sólskin gefst þá mjög sjaldan; um það bil eru og stöndugir norðaustan þræsingar og ýmist norðanveður með kófi og frosti, regn kemur þá mjög sjaldan úr lofti. Af þessu leiðir að jörðin skrælist upp og gróður hindrast, ýmisleg óhollusta fylgist með honum er fyrir verkanir sínar, einkum á sauðpeningi, í hvörn að detta ýmsir sjúkdómar, aflleysi, útbrot og fleira sem almennt er kölluð hafísplága, en þegar hafís er orðin landfastur, búinn að fylla firði og víkur, þá reynist það oft að tíð stillist og mildast og jafnvel koma þá mildar rigningar og loftvarmi. (Sýslu- og sóknarlýsingar Múlasýslur bls 450)
Nú segja prédikarar kolefniskirkjunnar að vá sé fyrir dyrum um allt Langtíburtukistan það sé að breytast í hamfarahlýnunarhelvíti, nú þegar hafi hlýnað um 1,2 gráðu frá því að séra Magnús í Stöðvarfirði upplifði hafísinn þráfaldlega, en Stöðfirðingar hafa nú verið blessunarlega lausir við landsins forna fjanda frá því 1968.
Hækki hitastig í heiminum um gráðu í viðbót, samkvæmt loftslagsvísindunum, verður það svipað og á landnámsöld, það nálgast nú óðfluga það sem var á Sturlungaöld, -og ekki vill fólk það er það, þó réttast væri að hver fengi að eiga sitt helvíti án þess að þurfa að borga sérstaklega fyrir að draga andann.
![]() |
Á hraðri leið til loftslagshelvítis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 8.11.2022 kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.11.2022 | 06:01
Steypa í minningu íslensku sauðkindarinnar
Nú þegar lífstílsliðið hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska sauðkindin sé fulltrúi feðraveldisins, ásamt Bjarti heitnum í Sumarhúsum, og þar að auki völd af flestum banaslysum í umferðinni, eftir að hafa verið staðin að því að naga gat á jarðskorpuna á síðustu öld, á hún sér varla viðreisnar von. Ofan á þetta hafa stjórnvöld lagt óværunni fé til höfuðs að ráði spretthlauparans Móra með einstakri hækkun eingreiðslu, þannig að búast má við að henni hafi verið slátrað sem aldrei fyrr þetta haustið.
Málpípur bænda prísa sig sælar enda komnar á jötuna án þess að þurfa að yfirgefa Garðabæinn, Hótel Saga undir græna torfu og Bændahöllin á vonarvöl. Stærðu sig af því á miðju sumri að kindakjötsfjallið væri á hverfandi hveli í fyrsta skipti um aldir. Túristavaðallinn hafði étið það upp til agna á meðan landinn taldi tærnar á Tene. Hvernig á að fylla á fjallið er hulin ráðgáta öðrum en þeim sem vinna að hagvöxnu matvælaöryggi með innflutningi.
Mér varð það á fyrir skemmstu í óþökk við land og lífstílslýð, að reisa við afvelta rollu. En þannig var að við Matthildur mín vorum á sunnudagsbíltúr um fyrr um búsældarlega sveit, hún með lopann á tifandandi prjónunum og ég við stýrið gónandi út í móa, þar sem við blasti hópur af álftum og kindum. Ég reyndi að telja álftirnar en fannst fjórar þeirra hafa undarlegan háls og höfuðlag.
Mér var þetta hugleikið næstu kílómetrana en mundi þá allt í einu eftir að hafa séð svona furðufugla áður innan um hrafna. Það var kaldan hríðar morgunn að vorlagi um sauðburð þegar hretin koma sér hvað verst. Þá var ég snáði í sveit hjá nafna mínum á Úlfsstöðum og man ég hvað hann varð reyður þegar við komum að þessum furðufugla söfnuði, enda hrafnarnir búnir draga garnir úr rollu langt út á tún, ekki að henni ásjáandi vegna þess að augun voru þá þegar úr.
Þegar við komum inn í hádegismat til Siggu þá var það helst í fréttum að þrír menn hefðu látið lífið á Fjarðarheiði eftir að bíll þeirra festist í skafli og fennti fyrir púst, -í þessu maíhreti árið 1971. Allt þetta rann í gegnu hugann við stýrið þar til að ég stoppaði bílinn svo snarlega að Matthildur mín leit upp frá prjónunum og sagði; -hvað nú? Ég sagði henni að ég yrði að snúa við ég hefði séð furðufugla úti í mýri.
Við keyrðum til baka bæði rýnandi í móann án þess að sjá álftir eða kindur, hvað þá furðufugla. Allt í einu sagði ég, -þarna voru þeir. Þar gægðust horn upp úr grasi á liggjandi gimbur, -og allt í einu teygðu furðufuglarnir fjórir upp hálsana á bak við gimbrina. Álftirnar og hinar kindurnar höfðu fært sig um set. Ég stoppaði og óð yfir mýrarfen, gimbrin spratt strax upp, hljóp í átt til hinna kindanna og nam svo staðar. Þá kom í ljós rolla sem lá ósjálfbjarga í tvennum reifum á bakinu milli þúfna spilandi upp fótunum.
Ég sagði rollunni að vera alveg rólegri því ég ætlaði að reyna að hjálpa henni. Síðan reisti ég hana við, hún skjögraði smá og féll svo aftur í sömu skorður. Aftur reisti ég hana við og studdi í smá stund þar til hún skjögraði upp á barðið til gimbrarinnar. Matthildur mín stóð við veginn og kallaði; -Maggi sjáðu hvað þær horfa fallega á eftir þér, -á meðan ég öslaði til hennar eins og álfur út úr hól í gegnum mýrarsefið í gráu lopapeysunni sem hún prjónaði á mig s.l. vetur.
Það verður að segjast alveg eins og er að mér leið mun betur þegar við keyrðum áfram heim við prjónaglamur í síðdegissólinni, en áður en ég snéri við, -eftir að hafa greint furðufuglana fjóra. Jafnvel þó svo þetta hafi allt verið til einskis og þær mæðgur séu sennilega báðar komnar í Sumarlandið og telji nú tærnar á Hótel Sögu.
Þó ég gæfi upp öndina, ófær um andardrátt framar andlit mitt gapandi í loftið sem ekkert er
Hjarta mitt brostið og greindin beinhvítur hamar þá barn, í huganum væri ég ávallt hjá þér
Ef veröldin snerist á hæli og léti sig hverfa hánefjuð hefði sig burt með hurðir og gler
Þá veggirnir grétu og gólfið, það myndi sverfa burtgengin spor sem enginn lengur sér
Ef lægi mitt lík í miðið og mælti eigi svo mátulegt væru slík örlög, hygði einhver
Því aldrei eins vitlaus og volaður hefði neinn tregi velkst í brjósti sem banaði sjálfu sér
En gæti ég andað á ný og með augunum skæru örlitla mæðu og stundarkorn leikið mér
Og gluggi og hurð á herbergisveggjunum væru og 700 þúsund stólar, ég settist hjá þér
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.11.2022 | 05:57
Innviðinir brenndir
Á meðan túrista vaðallinn veltist um landið, byggja dýralæknar, auðrónar og þeirra áhangendur hús með handaböndum. Halda að að til þess nægi að panta að utan CE vottaða myglugáma til íbúðar fyrir landsmenn, ásamt einum og einum gám af austantjalds höndum.
Að auki er markmiðið að rukka landann um veggjöld svo hægt sé að gefa flækingum frítt í strætó. Nú þegar hafa fleiri þúsund flækingar numið land, sem flissandi fábjánar hafa hug á að koma á sveitina með því að leigja einkavædda ríkishjalla vítt og breytt um land.
Það er fyrir löngu orðið þannig á landinu bláa að varla verður þverfótað til læknis vegna túristavaðals og flækings lýðs, hvað þá hægt sé að fá gert við annað en í mesta lagi dekk á bílnum sínum heima hjá sér að sumarlagi.
Því ekki má mismuna fólki eftir búsetu samkvæmt EES Schengen samkurlinu, hvað þá flækingum í þeim vanda verandi að missa af flugi eitthvað út í bláinn. Um þetta hefur aldrei nokkur tíma verið kosið, enda sennilega orðið of seint.
Nú þegar moðreykurinn rýkur um alla stjórnsýsluna umvefjandi Davos dúkkulýsur, sem blása gáfnafari sínu úr allt of litlum bláaum jakkafötum á glæðurnar, til að fá fólk á flækingi að ylja sér við íslenska innviði, -og blessaðir auðrónarnir tromma undir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)