Færsluflokkur: Lífstíll
31.7.2021 | 05:43
Sálarháski í Valhöll
Það má ætla að að fram til þessa hafi almennt verið litið svo á að manneskjan samanstandi af huga, líkama og sál. En það er misjafnt eftir menningarheimum, trúarbrögðum og tíðaranda hvar sálin heldur sig, eða réttara sagt hvar í sjálfsmynd mannsins hún er staðsett eða þá hvort hún fyrirfinnst þar yfir höfuð.
En ef sjálfsmyndin hefur sál þá má ætla að líkaminn sé bústaður hugans, jafnframt því að vera farartæki sálarinnar í efnisheiminum. Hugurinn hafi að geima persónuleikann sem við staðsetjum okkur með gagnvart öðrum, stundum kallað egó. Sálin sé svo hin æðri vitund sem tengist alheimsorkunni, nokkurskonar stýrikerfi huga og líkama í gegnum lífið.
Það fer samt lítið fyrir sálinni í tæknivæddri upplýsingaveröld nútímans. Hafa nútíma vísindi jafnvel efast um að til sé eitthvað sem lifi dauðann líkt og sál. Fornar hugmyndir fólks s.s. þess sem nam Ísland fyrir meira en 1000 árum gerði ráð fyrir öðruvísi sjálfsmynd. Hún samanstóð að mestu af ham, hamingju, huga og fylgju. Þessir þættir sköpuðu manneskjunni örlög. Þetta kann að virðast torskilið í nútímanum en ef heiðin minni og þjóðsögur eru skoðaðar þá var margt í umhverfinu sem hafði áhrif.
Náttúran var t.d. mun stærri hluti af vitundinni en hún er í dag. Þar gátu búið duttlungafullar vættir í steinum, hólum og hæðum, allt um kring, oftast ósýnilegar. Eins las fólk í atferli fugla og dýra. Haldnar voru hátíðir um vetrarsólstöður og önnur árstíðaskipti til að hylla heilladísir og blóta goðin. Fólk taldi sig jafnvel getað séð óorðna atburði með því að sitja á krossgötum á réttu augnabliki.
Ef reynt er að setja sjálfsmynd fornmanna í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina ham sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveldúlfur hafi verið. Á kvöldin varð hann svefnstyggur og afundinn, þaðan var viðurnefnið komið. Eins var talað um hamskipti, þjóðsögurnar skýra þessi fyrirbæri ágætlega og hver hin forna meining er á íslenskri tungu.
Við tölum t.d. enn um hamhleypur til verka, þegar menn herða upp hugann líkamanum til hjálpar. Það má kannski segja sem svo að hugurinn sé á margan hátt með sömu merkingu í dag og til forna. Þó mun hann sennilegast hafa verið meira notaður til hjálpar líkamanum áður fyrr. En í dag þegar hann hneigist meira til þeirrar sjálfhverfu sem einkennir nútímann, enda líf fólks áður meira bundið líkamlegu striti.
Hamingjan var ekki öllum gefin frekar en skýra gull og fólk gat lítið aðhafst til að ávinna sér hana. Miklu af lífsins gæðum hafði þegar verið úthlutað við fæðingu. Þar voru það örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld sem sáu um að útbúa forlög mannanna. En nú á tímum líta menn meira til hamingjunnar sem huglægs ástands.
Eitt var þó til forna, sem mátti hafa áhrif á til heilla, en það var sjálf fæðingafylgjan. Hana bar að fara vel með því í henni bjó sú heill barnsins sem kæmi til með að fylgja því í gegnum lífið. Ef fæðingafylgjunni var t.d. fleygt á viðavangi var heill barnsins óvarin og tók þá fylgja barnsins mynd þess sem fyrst kom, er talið að þessa hafi mátt sjá merkis í nöfnum manna s.s. Kveld-Úlfur, Hrafna-Flóki osfv..
Auðveldasta leiðin til að átta sig á hvar í mismunandi sjálfsmynd sálin er fólgin, er að kanna viðhorf til dauðans. Nútímamanninum getur virst erfitt að skilja hvernig litið var á dauðann í fornri heiðni. Hetjudauðinn var þar ávinningur samanber eilíf veisluhöld vígamanna í Valhöll að kvöldi hvers dags, gagnvart því að þurfa að þola þrautir og liggja köld kör Heljar.
Þessar tvær birtingarmyndir dauðans voru litaðar sterkum litum til að auðvelda gönguna um lífsveginn æðrulaust og án ótta við dauðann. Æðsta markmið var að mæta örlögum sínum óttalaus. Taka dauðanum með óbilandi rósemd, og þola kvalir hans af karlmennsku.
Nú á dögum er algengara að fólk taki pillur til að sefa óttan. Leggist jafnvel meðvitað í kör á meðan vottur af lífsneista er til staðar, þó það viti að það verði svo ósjálfbjarga að það komi til með að vera tengt slöngum og dælt ofaní það með vél. Nútíminn gerir ekki mikið með eilífð óttalausrar sálar.
Hvar sálina var að finna í heiðni er greinanlegt af viðhorfi fólks til forlagana og dauðans. Sálin bjó með manneskjunni og var henni meðvituð dags daglega. Það sem meira var að til forna voru dauðir heygðir og helstu verkfærum sem kæmu að gangi í framhaldslífinu var með komið s.s. vopnum til Valahallarvistar. Í vissan tíma var litið svo á að haugbúinn væri á milli heima, ennþá að hluta í þessum sem draugur.
Nú á tímum hefur sálin verið einangruð frá efnisheiminum, þar sem hugur og líkami dvelja í síauknum hraða tækninnar. Dauðinn er að verða myrkvaður endir alls og flestir karlægir áður en til hans kemur. Hvað er til ráða? ,,, kyrra hugann?
Ps. Þessi pistill er frá 3. mars 2019. Hér á blogginu hef ég haldið út annarri síðu Mason eða maggimur.blog.is, þar sem ég hef sett inn hugðarefni mín utan við steypu dagsins, m.a. þýddar og endursagðar greinar.
Í gegnum tíðina hefur m.a. mátt þar finna glósur skrifaðar undir áhrifum "sækjast sér um líkir" eða það sem á ensku kallast "Law of Attraction". Eins má þar finna skrif undir áhrifum frá búddisma, norrænnar goðafræði og að sjálfsögðu Jesú Krists. Síðuna Mason má sjá hér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2010 | 21:08
Hundrað þúsund og ein mantra.
Það getur verið nauðsynlegt að taka hvild frá öllu fréttaáreyti og gluggaumslöum. Stundum tek ég frí frá öllu og dvel í nokkra daga í Sólhól, sælureitnum við sjóinn, núna dvaldi ég þar í þrjá daga. Þetta hef ég gert þrisvar sinnum undanfarið ár, hvert skipti 3 - 5 daga í senn. Stuttar helgar dvalir teljast ekki með sem hughreinsunar dvöl, því þá er erindið oftar en ekki ákveðið fyrirfram og fréttabindindið ekki algjört. Núna var mottóið að gera bara það sem mig langaði til. Síðasliðið sumar í svipaðri ferð lá ég í berjamó og sólbaði. Í febrúar í fyrra fylgdist ég með sólaruppkomunni og rölti um fjörurnar. Þessar stundir hafa fengið mig til að koma auga á hvað það er dýrmætt að losna undan daglegu áreiti.
Dvölin núna var sérstök, ég var ekki einn í Sólhól, því Sindri bróðir hefur dvalið í Sólhól frá því um áramót. Hann er að kyrja möntrur. Markmiðið er að þilja hundrað þúsund möntrur á fimmtíu dögum, í þetta fara átta tímar á dag með hléum. Eitt herbergið líkist nú Búddahofi, frá því heyrist sönglandi og bjölluhljómur með vissu millibili líkt og í bíómynd frá Tíbet. Hver möntru þula stendur í tvo klukkutíma svo er hlé á milli í klukkutíma og lengra yfir hádaginn.
Þegar ég fávís um Búdda fræði spurði hvað mantra væri, sagði Sindri að það væri nokkurskonar bæn eða réttara sagt aðferð til að hreinsa hugann, mind protection á ensku. Svarið leiddi af sér spurninguna eru hundrað þúsund möntrur það sem þarf til að vernda hugann? Þá ko svarið, það þarf ekki að vera þær geta verið færri og þær gætu þurft að vara fleiri, en aðferðirnar eru tvær þú ákveður að þilja möntrur þar til að þú ert viss um að hugurinn er hreinn eða þú ákveður fyrirfram að þilja ákveðið margar og lætur þá gott heita þó svo að þú sért ekki viss. Hvernig getur maður þá vitað,ef maður er ekki viss, að það verði ekki hundraðþúsundasta og fyrsta mantran sem hreinsar hugann fullkomlega.
Fyrir rúmum tveimur árum, í gróðærinu, hætti Sindri að vinna sem hálaunaður verkfræðingur og snéri sér að því að kynna sér Búdda fræði. Ég hafði verið að gæla við að taka mér lengri tíma í vetur en vanalega frá daglegu áreiti og heimsækja hann á Búdda setrið í Brighton þar sem hann hefur búið tvö síðustu árin. En svo var það í nóvember sem Sindri spurði mig hvort hann gæti fengið að vera í Sólhól í nokkrar vikur, ég væri búin að kveikja upp áhugann með því að halda þvílíkar lofræður um hvað staðunn hefði góð áhrif á hugann.
Húsið Sólhóll stendur fram á sjávarbakka og þar er trjágarður er fyrir opnu Atlantshafinu. Auk þess stendur húsið eitt og sér yst í þorpinu á Stöðvarfirði. Þarna eru því kjöraðstæður til að ná til að hreinsa hugann í rólegheitum. Hægt að hlusta á ölduna í fjörunni um leið og vindurinn þýtur í trjánum. Aðstæður sem eru ekki víða á hér á landi, frekar að þær séu í suðlægari löndum þar sem pálmatrén standa á ströndinni.
Þó að það sé full time job að kyrja möntrur þá þá fórum við í fjöruferðir á hverjum degi. Það er auðvelt að hafa halda huganum heiðskýrum á klettóttri strönd Austfjarða og nóg að skoða þegar gengið er um nes og voga. Myndir frá þessum vetrardögum má sjá með því að klikka hér.
Lífstíll | Breytt 3.2.2010 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2010 | 12:57
Spáin fyrir 2010,,,,,,,, þokunni mun létta.
"Til að byrja með er ráðlegt að þú takir andataks hvíld til að gera ráð fyrir að þrátt fyrir allt muni í hinu ókomna bíði þín paradís."
"Við munum aðeins að gefa þér innsýn í það sem verður; við erum ekki að færa þér neina töfraþulu á silfurfati, sem ekki verður til með þinni eigin hugarorku."
"Frjálst val þitt til hugsunar og skoðanamyndunar mun varða veginn og fullmóta hann greiðfæran inn í framtíðina."
"Á árinu 2010 mun allt sem þú þráir nógu sterkt, sérð skýrt í huga þínum og finnur í hjarta þínu, verða að veruleika í þínu lífi."
"Fjöldi þeirra fer sífellt vaxandi sem eru meðvitaðir um að uppspretta þess lífs sem við þráum býr innra með okkur."
"Fólk mun verða meðvitaðra en það hefur verið í marga mannsaldra."
"Á árinu 2010, mun verða erfiðara að fela sannleikann. Gagnsæi er lykilorð okkar tíma."
"Á árinu framundan er tími til losna við leiðindi og deilur, skipta á þeim, fyrir nýja framtíðarsýn , þar sem vöxtur, manngæska og hugsjónin fyrir nýjum veruleika fæðist, veruleika eins og þú vilt hafa hann."
"Heimurinn eins og hann er, er fullur, útblásinn og spilltur með öllum sýnum launhelgu leyndarmálum."
"Leyndarmálum sem mun verða sópað undan teppinu, dregin fram úr skúmaskotunum þar til þau liggja fyrir almannasjónum, árið 2010 verður því árið þar sem þeir sem aðhyllast samsæriskenningar, geta sagt,
"sagði ég ekki"."
"Margt mun koma fram af því sem falið var í fortíðinni vegna þess að stjórnvöld okkar tíma hafa ekki talið það þola dagsljósið , og hefur hingað til verið talið ótrúlegt líkt og fljúgandi furðuhlutir og andaglas."
"Sannleikurinn og samhengið mun með ótrúlegri orku sinni ná til alheimsins með síauknum hraða."
"Það verður vaxandi meðvitund á jörðinni fyrir því að margir hlutir eru í raun ekki eins og þeir hafa virtist vera, og svo hefur verið um langan tíma."
"Fyrir mörg af ykkur, verður þetta árið þar sem þið segið
" vissi ég ekki."
"Umfang opinberana leyndamála munu verða á áður fordæmalausum mælikvarða."
"Hin nýja heimsýn mun verða til innra með þér í stað þess að koma utanfrá."
"Mannkynið fjarlægast innrætingu kerfisins í átt að meðvitaðri sköpun eigin hugsana."
"Það sem gerist á milli 2010 og 2012 verður fyrirboði næstu tíu ára. Og það sem umbreytist innan næstu tíu ára verður grundvöllurinn fyrir árin þar á eftir."
"Vertu undirbúinn fyrir stöðugar, fréttir kerfisins af ótal farsóttum."
"Gerðu jafnframt ráð fyrir frábærri tækni sem mun leysa vandamál í vatnsbúskapi heimsins."
"Að ævintýralegar uppgötvanir í örflögutækni komi fram sem munu gera fjöldann gapandi af undrun."
"Fólk mun geta átt von á því að lifa með sterk bein að 100 ára aldri eftir þessa árs uppgötvanir."
"Vísindamenn munu byrja að rannsaka þátt hugans og mannlegra tilfinninga í tilurð sjúkdóma. Og vísindasamfélagið mun smátt og smátt samþykkja þessar staðreyndir."
"Á árinu 2010 munu stjórnvöld hefja krossferð gegn internetinu með velferð ungs fólks að yfirskini."
"Tækni þróuð af tölvuhökkurum mun gera fólki kleyft af öllum þjóðernum að miðla upplýsingum án afskipta þeirra stjórnvalda sem reyna þöggun tjáningarfrelsisins."
"Önnur blessun frjáls internets verður til að lyfta hulunni af barnaþrælkun þar sem hún viðgengst."
"Samfélög munu blómstra á þann hátt sem ekki hefur sést um nokkurt skeið."
"Þú munt greina síaukna vakningu fyrir hollum mat, án mengandi aukaefna."
"Fortíðin sem hefur haldið boðberum valdsins í guðatölu er að deyja."
"Orkan mun streyma á þessu ári og vinna með þér við að ná markmiði drauma þinna og upplifa velgengni með vitneskunni um það hvers kröftug sýn hugsana þinna er megnug."
"Þannig að ef við ættum að gefa þér ráð fyrir komandi ár, myndi það verða, búðu til öfluga framtíðarsýn í huganum."
"Orkan mun streyma um hugann."
"Við sjáum jafnvel þá síðustu koma út úr þokunni."
"Ekki gefa dýrmæta hugarorku þína til villugjarnrar og hverfandi fortíðar."
"Snúðu þér að sköpunarmættinum sem býr innra með þér."
"Lifðu í draumi þínum."
One Eskimo. http://www.youtube.com/watch?v=Q3zJm98UXzQ&feature=player_embedded
Dregur úr svartsýni neytenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 27.2.2010 kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.1.2010 | 00:03
One way ticket to the blue.
Stundum er sannleikurinn svo skýr að ekki er hægt að greina frá honum með orðum. Undanfarið hef ég öðru hvoru komið inn á það hérna á bloggsíðunni, hvers hugurinn er megnugur og spurninguna um það hvort lífið er ímyndun eigin hugsana, hvað sé draumur og hvað sé veruleiki. Þeim meira sem ég hef kynnt mér þetta efni þeim skírara verður það að heimsmyndin sem ég lifi er búin til af mér. Það eru mörg öfl sem hafa áhrif á þessa heimsmynd en á endanum er það mitt að velja og hafna.
Hvort sem hlutirnir eru settir í stórt eða smátt samhengi þá lúta þeir lögmálum alheimsorkunnar. Orkunnar sem tengir allt saman í hina stóru heild. Ef skyggnst er undir yfirborð þessa orku heims og t.d. skoðum eigin líkama þá vitum við að hann er gerður úr vefjum og líffærum. Vefjir og líffæri úr frumum, frumu úr sameindum, sameindir úr frumeindum, fumeindir úr öreindum sem eru orka. Það er með huga okkar sem við röðum upp og skynjum þessa orku. Það sem skiptir öllu máli er því hvernig hugsunin ákveður að skynja hana, í því er valið fólgið.
Munurinn á því sem við gerum og því sem við erum fær um að gera myndi fara langt með að leysa flest vandamál heimsins, sagði Mahatma Gandhi.
Það er alltaf þægilegt að hafa einhvern til að kenna um vandamálin, stjórnmálamennina vegna ástandsins, bankana vegna skuldanna o.s.f.v.. En það er alltaf undir okkur sjálfum komið hvernig heimur okkar er, valið er því okkar.
Mótsögnin sem við stöndum frammi fyrir er að margt af því sem við óttumst mest t.d. skuldir, gjaldþrot og aðrar ógnanir kerfisins sem við tejum vera til ánauðar, getur jafnframt orðið leið til frelsis. Mesti höfuðverkur fjármálakerfisins er sá að einstaklingarnir snúi baki veð skuldunum. Tjónið fyrir fjármálakerfið yrði mun meira en fyrir einstaklingana sem innan skamms myndu finna til frelsisins. Fjármálakerfi byggt á stöðugri skuldsetningu og vöxtum yrðu úr sögunni, veldu einstaklingarnir í stórum stíl að yfirgefa skuldirnar.
Svona er þetta með svo mörg málefni. Allt fer þetta svo eftir því með hvað hugarfari viðfangsefninu er mætt. Kærleikurinn er andhverfa óttans, það er með kærleika og hreinu hjarta sem við öðlumst bjartan heim.
Eins og ég sagði í upphafi kem ég ekki orðum að sannleikanum en með því að horfa á þetta myndband má kannski skynja sumt af því sem ég er að reyna að skýra með orðum.
http://www.youtube.com/watch?v=4dpRPTwsKJs&feature=player_embedded
Lífstíll | Breytt 8.2.2010 kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2010 | 00:32
Heimurinn í kringum þig er ekki fallegri en þér finnst hann vera.
"Heimurinn í kringum þig er ekki fallegri en þér finnst hann vera".
Þetta var spakmæli eins dagsins á dagatalinu í vikunni. Undanfarið hef ég farið gangandi í vinnuna. Á morgnana rétt fyrir kl 9, hef ég mætt 6 ára snáða á leiðinni í skólann. Fyrst þegar ég mætti honum í froststyllu með tunglið á himni, heyrði ég hann syngja glaðlega "stóð ég út í tunglsljósi...". Á föstudaginn var rigning og flughálka þegar ég mætti söngvaranum síkáta, ólarnar á skólatöskunni héngu í olnbogabótunum þannig að taskan dinglaði niður undir hælum , kappinn kominn með sólgleraugu og hökuna niður bringu þannig að hann næði að gjóa augunum yfir sólgleraugun í skammdegismyrkrinu.
Með huga barnsins er allt hægt, meir að segja að njóta sólar í janúar. Hvernig svo skólinn undirbýr þennan snáða fyrir lífið verður önnur saga, sennilega þarf hann ekki á námi að halda til að átta sig á að betra er að nota sólgleraugu á öðrum tímum en á dimmum janúarmorgnum. En mikið væri gefandi fyrir það að skólinn varðveitti sönginn, kjarkinn og sköpunargáfuna hjá ungum snillingum. Gott væri ef orð Krists væru höfð að leiðarljósi; "Hver sem ekki tekur við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma."
Námi er ætlað að undirbúa einstaklingana fyrir lífið, gera þeim auðveldara fyrir að verða sér út um sérhæfða vinni til framfærslu. Það er jafnframt viðurkennt að skólakerfið leitast fyrst og fremst við að þjálfa það sem tileyrir vinstra heilahvelinu þar sem rökhugsunin býr, hæfileikinn til að draga ályktanir, vita hvað debet og kredit samkvæmt viðurkenndum normum samfélagsins. Minna fer fyrir því að hægra heilahvelið sé örvað í námi. Heilahvelið þar sem sköpunargáfan býr og hæfileikinn til að sjá heiminn í víðara samhengi, tilfinningin fyrir fegurðinni, skynjunin fyrir fæðunni, hvernig kartöflurnar vaxa og hvaða efni eru í umhverfinu til að byggja þak yfir höfuðið.
Þetta rökhyggjumiðaða menntakerfi hefur gert okkur að sérfræðingum í að vita mikið um lítið. Við getum lagt tvo og tvo saman af mikilli nákvæmni fyrir vinnuveitenda okkar án þess að útkoman gefi okkur neina ánægju, aðeins ígildi útborgaðra launa. Þetta þjóðfélagskerfi hefur gert einstaklingana að neytendum sem lifa ekki af eigin sköpunargáfu heldur vinnuframlagi. Það eru sumarfríin og aðrar stundir sem við eigum sjálf sem við notum til að gera það sem okkur raunverulega langar til að gera.
Forn Grikkir trúðu að menntun væri til þess að kenna fólki að hugsa. Menntun nútímans gengur út á að þjálfa fólk í að gera það sem því er sagt frá blautu barnsbeini. Menntakerfi nútímans, sem að mestu er byggt upp á Prússnesku kerfi19. aldar, var ætlað að bú til gott starfsfólk og hlýðna hermenn. Fólk sem í blindni fylgir fyrirmælum og bíður eftir að vera sagt hvað það eigi að gera. Framúrskarandi nemendur þessa kerfis eru nær því undantekningarlaust verðlaunaðir, með vinnu við að viðhalda kerfinu.
En þurfum við að láta þetta vinstra heilahvels kerfi ráða svona miklu í okkar lífi? Getum við kannski gert það sem okkur þykir skemmtilegast og lifað af eigin sköpunarmætti án ótta við það sem framtíðin ber í skauti sér? Því undir niðri erum við alltaf að búa í haginn fyrir framtíðina. Við gerum aldrei ráð fyrir að dagurinn í dag sé okkar síðasti og meir að segja er líklegt að daginn sem við deyjum séum við enn að plana framtíðina. Dauðinn er því kannski ekki það sem við óttumst mest, sennilega óttumst við mest áhættuna sem við tökum með því að verða það sem okkur raunveralega dreymir um. Samfélaginu er meira og minna stjórnað af óttanum við framtíðina. Viðurkennd menntun gengur út á að undirbúa einstaklingin til að komast af í hörðum heimi, fjölmiðlarnir færa okkur stöðugt fréttir af því hvað veröldin er grimm og að rétt sé að undirbúa sig vel fyrir framtíðina.
En á endanum getur hver maður aðeins orðið sekur um það eitt, að hafa ekki gert allt það góða sem hann gat til þess að draumurinn um fallegri heim yrði að veruleika.
Lífstíll | Breytt 26.1.2010 kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2010 | 12:29
Hækkandi sól.
"Margir segja að eitthvað sé ómlöglegt en alla framfarir hafa orðið fyrir tilverknað þeirra sem héldu hinu gagnstæða fram."
"Á nýja árinu ætla ég að lifa einn dag í einu. Ég ætla að nota hvern dag til að búa mig undir betri tíð. Ég ætla hvorki að beina huganum að fortíðinni né framtíðinni, heldur aðeins nútíðinni. Ég ætla að yfirvinna óttann við framtíðina, allar neikvæðar beiskjublandnar hugrenningar, andúð mína, gremju, vanmatakennd, leiða og kjarkleysi, vonbrigði mín með sjálfan mig og aðra. Á nýja árinu ætla ég að yfirvinna þetta allt og halda áfram í átt til nýs lífs."
Textinn um nýja árið er fenginn úr Tuttugu og fjögurra stunda bókinni, sem er ætluð félögum í A.A. sem hjálp í þeirri lífsstefnu að lifa einn dag í einu.
Efri textinn er á dagatalinu fyrir 10. janúar. Ég mátti til með að vekja athygli á þessum heilræðum núna þegar sólin hækkar á lofti og dagarnir eru aftur að verða bjartir.
Myndirnar hérna fyrir neðan eru teknar af svölunum hjá mér með fjögurra daga millibili. Á fyrri myndinni rétt nær sólin að gægjast upp fyrir fjöllin yfir há daginn, örfáum dögum seinna er hún farin að gefa morguninn til kynna í suð-austri.
Klikkið á myndirnar til að stækka þær.
Þetta myndaalbúm fann ég á youtube það minnir á að dag hvern búum við í listaverki auk þess að fá mig til að hlakka til sumarsins.
http://www.youtube.com/watch?v=jZOSzXADuNU&feature=player_embedded
Lífstíll | Breytt 27.2.2010 kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2010 | 23:50
Erum við ímyndun eigin hugsana?
Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig við skynjum umhverfið og hvað hugmyndir fjöldans eru líkar, enda fer skynjun okkar fram í gegnum skilningsvitin fimm sem við erum flest fædd með, þ.e. sjón, heyrn, bragð, lykt og snerting. En við vitum að það er margt fleira í umhverfinu sem við verðum ekki vör við í gegnum þessi skilningsvit, nema með utanaðkomandi hjálp.
Sjónvarp er t.d. aðeins haugur af dóti settur saman á ákveðinn hátt, sem framkallar mynd sem send er úr óra fjarlægð sem við skynjum með augunum með því að horfa á þennan samsetta haug. Svona eru kvikmyndir færðar okkur án þess að við sjáum, heyrum eða snertum, við finnum ekki einu sinni lyktina af því hvað þá bragðið.
Skilningsvitin fimm skynja því aðeins það sem þeim tilheyrir. Þó hvert þessara skilningsvita ná yfir ákveðið svið ætti þau samt ekki að þurfa að túlka það sama hjá öllum (t.d. heyrir hundur annað tíðnisvið hljóðs en maður; snákur sér annarskonar birtu o.s.f.v.). Með öðrum orðum, skilningsvitin skynja orku frá sjónarhorni sem býr til mynd út frá því. Hún ætti hvorki að þurfa að vera endanleg né nákvæm, heldur aðeins persónuleg túlkun. En með samræmdri innrætingu hefur okkur verið kennd ákveðin túlkun.
Þetta vita flest okkar, því er það umhugsunar efni hvað nútíma vísindi hafa verið treg til að viðurkenna margt af því sem er utan okkar viðurkenndu skynjunar. Því frekar eftir því sem aldur, þekking og menntun verður meiri. Reynsla þeirra sem segjast t.d. hafa orðið fyrir andlegri vakningu eða geta veitt huglæga lækningu sem skinfærin fimm ná ekki að túlka á viðurkenndan hátt, eru oftast afgreiddir sem loddarar af vísindunum.
Frá blautu barnsbeini hefur okkur verið innrætt að trúa aðeins því sem skilningsvitin fimm geta staðfest á viðurkenndan hátt. Samt er það vitað að saklaus börn virðast oft skynja víddir sem ekki eru til staðar fyrir okkur sem þroskaðri teljumst, og er þeim þá bent á að vera ekki að þessu bulli. Eins er hægt að dáleiða fólk til að skynja umhverfið á allt annan hátt en þann sem það myndi sjá annars. Því gengur innrætingin lengra í vísindalegum rétttrúnaði en við innst inni vitum að er rétt.
Hugsanir okkar eru tengdar þeirri orku sem skynjun okkar nemur. Þetta skírir hvers vegna jákvæð hugsun, bænir, trú, sköpunargáfa, markmiðasetning og margt fleira gagnast okkur þó svo að við skynjum það ekki með skilningsvitunum fimm. Það sama getur átt við fátækt, sjúkdóma og einmanaleika. Hugsanir okkar bókstaflega ákvarða þann veruleika sem við lifum í efnislega. Lífið verður af því sem við ímyndum okkur að það verði og því sem viðtekin viðhorf samþykkja. Lífið er nákvæm spegilmynd, sem gerir okkur kleift að upplifa efnislega það sem við teljum vera sannleika.
Þannig geturð athugun og eftirtekt á einhverju, auk ásetnings hreinlega orðið að ákveðnum tímasetjanlegum atburði. Hugsanlega er hægt er að sýna fram á með andlegum og vísindalegum staðreyndum, að hver og einn er ábyrgur fyrir öllu í sínu lífi. Því er spurningin sú hvort heimurinn er á okkar valdi eða utan okkar huga óumbreytanlegur.
Hérna er verulega áhugaverð 20 min mynd í tveimur hlutum um skilningsvitin fimm og þann heim sem þau skapa. Framleiðendur myndarinnar ganga svo langt að vara þá við að horfa á myndina sem ekki vilja láta raska sinni heimsmynd.
http://www.youtube.com/watch?v=vnvM_YAwX4I&feature=player_embedded
http://www.youtube.com/watch?v=YG9FO7JGWq4&feature=player_embedded
Lífstíll | Breytt 17.1.2010 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2009 | 23:38
Að þora.
Það þarf kjark og einbeitingu til að fara út fyrir rammann. Margir hugsa út fyrir hann en þeir eru færri sem láta verða af því að yfirgefa hið þekkta í leit af sjálfum sér í því ókunna. Ég er einn af þeim sem læt mig dreyma um að yfirgefa rammann en læt yfirleitt tilhugsunina eina nægja. Fyrirmyndirnar eru samt nálægar og að einhverju leiti tel ég mig fá innsýn í gegnum þær.
Bróðir minn sem er verkfræðingur er einn þeirra sem mér standa nær sem hefur haft þor til að láta hjartað ráða og leita á vit hins óþekkta. Hann yfirgaf sitt fyrra líf fyrir tveimur árum síðan, fluttist til Brighton til að kynna sér Búdda fræði og er nú Búddamunkur. Hann ætlar að heimsækja mig um áramótin og dvelja um tíma. Ég hugsa mér gott til endurfundanna kynna mér það sem hann hefur orðið áskynja í gegnum sína reynslu.
Vinur minn sem hefur búið í Ástralíu í 26 ár lét verða af því í nóvember að fara í 37 daga gönguferð einn síns liðs. Gekk frá Perth í V-Ástralíu til Albany í suðri, í gegnum óbyggðir. Við höfðum stundum talað um það hvað það hlyti að vera meiriháttar reynsla að fara einn út í eyðimörkina á svipaðan hátt og Kristur gerði. Vinur minn lét verða af því og hefur sagt mér frá því hvernig hann upplifði fréttaleysið í óbyggðunum, hvernig heimurinn er allt annar frá því sjónarhorni.
Draumurinn, óskin, bænin, eða hvaða orð sem við veljum að nota, verður til í huganum og við náum eins langt og hugurinn sér. Besta staðfestingin fyrir því að hugurinn efist ekki er þegar tilfinningarnar eru í samræmi við hugann. Um leið og bilinu er lokað sem er á milli hugsana og tilfinninga er orðin til samhljómur hugar og hjarta sem tengir okkur við alheiminn. Þá höfum við öðlast það sem okkur dreymir um. Þetta er ekki spurning um tíma þetta er aðeins spurningin um að loka því tilfinningalega bili sem er á milli hugsana og vellíðunar.
Lífið er í raun draumur og við ímyndun eigin hugsanna. Það sem við fáum út úr lífinu er eigin spegilmynd. Bænin hefur rætst um leið og við höfum beðið hennar, verum því meðvituð um hvers við biðjum.
Mig langar til að vekja athygli á Gregg Braden og kenningum hans um hvernig við tengjumst öllu í heiminum. Ábendinguna um Gregg Barden fékk ég hjá vini mínum í Ástralíu sem hefur gefið mér margar ábendingar um áhugavert efni í gegnum tíðina. Gregg Braden kemur inn á það m.a. hvers vegna óskir, draumar og bænir hafa tilhneigingu til að rætast. Hvernig þau skilaboð sem við sendum frá okkur eru það sem við fáum til baka. Þetta er s.s. auðsjáanlegt ef við sýnum óvinsamlega hegðun þá fáum við óvinsemd til baka. En þetta nær mun lengra þetta hefst með geðshræringunni, tilfinningunni og svo hugsuninni sem við notum til að ná einbeitingu. Því er svo mikilvægt að hugsunin sé jákvæð og að við upplifum væntingarnar með góðri tilfinningu.
http://www.youtube.com/watch?v=6nKSq2tV1kE&feature=player_embedded#
Lífstíll | Breytt 27.2.2010 kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2009 | 22:17
The Living Matrix.
Síðastliðinn þriðjudagskvöld fór ég á fyrirlestur hjá Sigrúnu Theodórstóttir þar sem myndin The living matrix var sýnd. Bæði fyrirlestur Sigrúnar og myndin voru sérstaklega áhugaverð. Þessi mynd greinir frá því hvernig það sem oft er flokkað sem kraftaverk, getur orðið að hversdagslegum viðburðum. Um það hvers hugurinn er megnugur þegar kemur að því ná góðri heilsu sem af einhverjum orsökum er ekki til staðar.
Ég vissi ekki af þessum fyrirlestri fyrr en ég kom heim um tæpum klukkutíma áður en hann byrjaði. Matthildur sagði mér frá því að á dagskrá Ormteitisins væri fyrirlestur um lækningamátt eigin hugsanna, þarna væri sennilega eitthvað fyrir sérvitring eins og mig. Fyrst í stað ætlaði ég ekki að nenna á þennan fyrirlestur, hafði hugsað mér að sjá eitthvað viðtal sem var í Kastljósi sjónvarpsins og fjallaði væntanlega um efnahagserfiðleika hér á landi. Svo hugsaði ég sem svo þessa erfiðleikaumræða get ég hvenær sem er meðtekið í gegn um fjölmiða, en það er ekki víst að á þennan fyrirlestur komist ég á jafn auðveldlega í annan tíma. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun og kom það reyndar nokkuð á óvart að það skyldu vera um 50 aðrir sérvitringar á fyrirlestrinum.
Það sem mestu skiptir hjá hverjum og einum er hugarfarið, hvernig hann hugsar og hvernig hann tengist jákvæðri orku með hugsunum sínum. Fjölmiðlarnir hafa upp á síðkastið verið ötulir við að færa fréttir slysum, glæpum, náttúruhamförum og þeim erfiðleikum sem framundan eru í efnahagslífinu. Það getur því verið erfitt að komast í það jákvæða hugarfar að það sem telst til kraftaverka verði jafn eðlilegt og daglegt brauð.
Seinnihluta vikunnar ákvað ég því að nota til að koma mér í verulega jákvætt hugarfar, fór niður að "sælureitnum við sjóinn" kveikti hvorki á útvar, sjónvarpi né las blöð í nokkra daga. Það er eins og að hafa lifað í öðrum heimi. Ég stakk upp á því við Matthildi að hún kæmi með og við prófuðum að lifa á því sem náttúran gæfi, tíndum ber, fengum okkur njólasalat og nöguðum hvannarstöngla auk þess að dorga í soðið. Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að éta arfa og hundasúrur líka, afþakkaði gott boð og sagði að hún hefði meiri áhuga á dagskrá Ormsteitisins.
Dagarnir síðsumars eru oftast hlýir og margbreytilegir, birta dagsins oftast einstaklega tær þegar næturnar eru farnar að vera dimmar og svalar. Þetta er því minn uppáhalds tími en honum fylgir oft söknuður þess liðna sumars sem leið allt of fljótt. Eftir að kreppan skall á hætti ég þeirri vinnu sem ég hef haft lífsviðurværi af alla æfi. Þar sem grundvöllurinn hvarf fyrir verktakastarfsemi í byggingariðnaði ákvað að gera bara það sem er skemmtilegt hér eftir.
Sumarið hjá mér hefur farið í að selja ullarfatnað og íslenskt handverk til erlendra ferðamanna þar á meðal prjónaskap Matthildar. Þegar fundur forsætisráðherra norðurlandana var haldin á Egilsstöðum í júní keyptu flestar norrænar forsætisráðherra frúr hosur gerðar af Matthildi, þó ekki sú íslenska. Auk þess að selja ullarhandverk hef ég tekið þátt í því með einstöku fólki að setja upp fiskvinnslusýningu, markað, ljósmynda og málverksýningu á Stöðvarfirði sem var opin frá því í byrjun júní og til síðustu helgar. Þetta hefur verið einstakt sumar og það er alveg öruggt að ég hefði átt að taka þá ákvörðun fyrir löngu að gera bara það sem er skemmtilegt. Núna síðustu dagana hef ég toppað það með því að liggja í berjamó, sólbaði og virða fyrir mér fugla himinsins.
Það er greinilegt að það eru fleiri sem hafa fengi þá hugmynd að gera það sem er skemmtilegt. Það má sjá báta í hverjum firði á góðviðrisdögum. Hafnir sem hafa verið lífvana undanfarin ár eru nú fullar af smábátum og iðandi af lífi. Það eru ekki bara strandveiðar ríkisstjórnarinnar sem orsaka þetta líf, einnig er það sú staðreynd að fólk hefur rýmri tíma, hvað er þá betra en að blanda saman skemmtun og búdrýgindum, róa og fiska í soðið. Undanfarna viku hef ég heimsótt marga af uppáhaldsstöðunum mínum m.a. Djúpavog og séð eina af undursamlegu skemmtunum sumarsins, en það er listaverk Sigurðar Guðmundssonar "Eggin í Gleðivík".
Vinir og samstarfsfélagar, kjarkmeiri en ég, hafa notað tækifærið sem breytingarnar gefa. Gera það sem þá hafði alltaf langað til að prófa, flytja til annarra landa og hefja nýtt líf. Söknuður sumarsins er að miklu leiti sú eftirsjá sem er af vinum og samstarfsmönnum sem ég hef umgengist daglega undanfarin ár. Söknuðurinn yfir því að hafa ekki daglegt samneyti við vini sem sönnuðu fyrir mér kenningu Krists í þeim verkefnum sem við tókum okkur fyrir hendur; "Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim".
Samt kem ég sennileg seint með að hafa hugrekki bróður míns, til að gera það sem hugurinn býður. Hann lét af störfum sem verkfræðingur hjá Mannvit. Þar hafði hann starf sem tengdist byggingu Tónlistarhússins, kom að hönnunar þeirrar byggingar frá upphafi þegar hann vann með dönskum arkitektum hússins Kaupmannhöfn. En í september 2007 sagði hann upp og hætti um áramót, fór í það sem honum langaði mest til, þ.e.a. kynna sér Búdda fræði. Nú er hann Búdda munkurinn Kelsang Lobon en hjá okkur, hans nánustu, verður hann alltaf Sindri.
The Living Matrix ; lífið er því draumur og við ímyndun eigin hugsanna. Hér á síðuna hef ég sett myndaalbúmið Ágúst 2009 þar er að finna myndir frá síðustu viku. Það er svo skrítið að það gerist æ oftar þegar tekin er mynd af mér að þá er grár karl á myndinni en ekki snaggaralegur glókollur eins og áður fyrr. Þó get ég svarið að glókollurinn er í speglinum þegar ég lít í hann. En þess ber að geta að ljósmynd þarf ekki að vera annað en óraunveruleg túlkun á fyrirmyndinni. En eitt datt mér ekki í hug þegar Þursaflokkurinn söng á sínum tíma; "Vill einhver elska 49 ára gamlan mann" að hann kynni að vera að syngja um mig.
Hér má sjá myndina The Living Matrix.
http://www.youtube.com/watch?v=fCWhXbtqx0k
Lífstíll | Breytt 24.8.2009 kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.2.2009 | 11:08
Velmegunin felst í frelsi hugans.
Sá veruleiki sem daglegi er haldið að okkur í fréttum er ekki endilega sá rétti og svo sannarlega ekki sá eini sem er í boði. Ef við komumst ekki framhjá þeim sannleika sem haldið er að okkur í fjölmiðlum þá látum við þá ráðskast með okkur.
Það er svo ótal margt fleira sem gerist í veröldinni en það sem fréttastofur sjóvarpstöðvanna halda að okkur og flest af því bæði jákvæðara og skemmtilegra. Frétta stofurnar færa okkur í megindráttum fréttir sem eiga að skipta okkur máli, fréttir sem eiga að upplýsa okkur í okkar daglega amstri.
Af hverju skildu meginefni fréttatímana vera á neikvæðum nótum, fréttir sem færa okkur stríð, hungur og efnahagshrun heim í stofu. Eru þetta aðstæðurnar í okkar nánast umhverfi? Eru þetta þær aðstæður sem við erum að upplifa á eigin skinni í augnablikinu? Þetta eru ekki fréttir sem hjálpa okkur í hinu daglega lífi. Þessum fréttum er ætlað að halda okkur innan vissra marka. Þær eiga að sýna okkur hvað við höfum það gott, sá ótta í huga okkar ef okkur skildi detta í hug að yfirgefa þann sannleika sem að okkur er haldið. Þeim er ætlað að ráða því sem við hugsum.
Prófum að slökkva á sjónvarpinu, útvarpinu, lesum ekki fréttir og við munum eignast tíma fyrir frjálsa hugsun. Við munum komast að því að lífið bíður þær allsnægtir sem við óskum okkur. Við komumst að því að við tilheyrum hinni stóru heild. Við erum ekki hólfuð niður samkvæmt þeim gildum sem fjölmiðlarnir halda að okkur í ríka, fátæka, valdamikla osfv. við eru ein heild sem tilheyrum þessum heimi.
Samsærið sem haldið er að okkur í gegnum fjölmiðla felst í því að við séum einstaklingar sér á parti og aðstæður annarra séu ekki okkar að við séum heppin og skulum því halda okkur við kassann það verði séð um okkur.
Náum tökum á okkar eigin hugsunum. Þó við getum ekki breytt umhverfinu getum breytt okkur sjálfum, þetta er sannleikur sem vill sjást yfir. Sannleikur sem er í raun jafn einfaldur og spegillinn, þú færð það ti baka sem þú sýnir honum. Ef þú stendur fyrir framan spegilinn og reynir að greiða honum breytist ekki neitt en ef þú greiðr sjálfum þér sýnir spegillinn þér það sem þú vilt sjá.
http://www.youtube.com/watch?v=ITukSyRzVxs&eurl=http://thecrowhouse.com/bigpic.html
Lífstíll | Breytt 27.2.2010 kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)