Íslenaka þjóðin

Nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningar, þegar flóttamenn flæða til landsins í skjóli innfluttra alþjóðalaga, eins og enginn sé morgunndagurinn, er ekki úr vegi að líta til þess hvaðan þjóðarsálin kom áður en hún hverfur í alþjóðlegan glóbalinn. Síðasta blogg fékk einstaklega höfðinglegar og áhugaverðar athugasemdir. Þar var athugasemd frá Hauki Árnasyni, og vitnaði hann í þjóðskáldið Einar Benediktsson þar sem hann minnist á bóki Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi, Íslenzki bóndinn. Einnig setti Pétur Örn Björnsson inn af höfðingsskap einstakt ljóð, sem mér fannst undirstrika allt, sem segja þurfti um það sem bloggið fjallaði um, -og gott betur.

Það er athygliverður kafli um tvískiptan jarðveg íslensku þjóðarinnar, hvað varðar atgerfi, tungumál og fornbókmenntir, í Íslenzki bóndinn, bók Benedikts Gíslasonar sem kenndi sig við Hofteig á Jökuldal. Þar getur hann sér m.a. til um frumlandnám Íslands á þeim tímum sem það var kallað Thule og hvernig kom til þess að Norðmenn settu hér upp einstakt þjóðveldi, sem er í tísku að kalla smákónga veldi, en er í raun hið íslenska bændaþjóðfélag, sem var einstakt á Evrópska vísu um aldir, -löngu eftir að þjóðveldið féll, jafnvel allt fram á 20. öldina, að tíma þess lýðveldis tók yfir sem nú er á hverfanda hveli.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Og landnámsmennirnir streyma til Íslands af tveimur þjóðum, sem þá eru farnar að blanda blóði saman í heimkynnum annarrar.

Tvær þjóðir af ólíkum slóðum, en virðast eiga vel saman, ólíkar að menningu en vel gerðar að líkams- og sálarfari leggja saman í þetta landnám.

Tvær lífsstefnur, sín með hvorri þjóð, verða samferða til þessa lands. Hin kristna lífskoðun, með samfélagshugsjónir, og hin heiðna lífskoðun, með einstaklingshyggju, íþróttaanda og vopnahreysti, verða samferða til landsins og leggja saman í þjóðarsál, sem óvíst er að hafi átt sinn líka að atgervi, hvorki fyrr né síðar í sögunni. Af hinni fyrri gengur huglæg saga inn í sálarlíf fólksins, og er þögul, og erfist sem slík frá kyni til kyns. Af hinni síðari hlutlæg saga og er hávaðasöm af vopnum og viðburðum, sem einkum einkennast af þessum tveimur þjóðsálarlegu þráðum, og er merkileg og æ uppi. Hvor lífsskoðunin eykur gildi hinnar á vettvangi lífs og sögu.

En hvernig nema svo þessir menn þetta land? Mynda þeir þéttbýli við veiðistöðvarnar, sem svo mikið orð fer af, og ætla mætti að væri einna auðveldast fyrir aðkomið fólk, sem hlýtur í fyrstu að skorta svo margt það, sem til bús og þæginda heyrir, og það hefur vanist í heimkynnum sínum? Því fer fjarri. Það dreifir sér um landið. Það skiptir landinu niður í smá reiti og hver fjölskylda eignast sinn reit. Þetta eru jarðir á Íslandi eins og þær hafa heitið um alla sögu, þessar skákir, sem landnámsmenn námu til eignar sér af þessu nýja engra manna landi, að því að talið er. Hver fjölskylda eignast sína jörð, og nú byrjar búskapurinn á þessum jörðum, svo fjölskyldan geti lifað. Bóndinn ber ábyrgð á þessum búskap, hann verður að standa fyrir viðskiptum við jörðina, svo fjölskyldan geti lifað. Hann ræður þessari jörð óskorað. Í þessum viðskiptum hans við jörðina sjást hæfileikar hans, brýnast hæfileikar hans; einn, sjálfráður notar hann hæfileika sína í viðskiptum við sína eigin jörð, og kemur ekkert annað við, meðan hann er látinn óáreittur.

Þjóðfélagsleg vandamál steðja ekki að honum, þjóðfélagsskyldur hans eru bundnar við afmarkaðan ætthring, það sem þær ná til út fyrir heimilið.

Jörðinni sinni gefur hann nafn, og oftast verður það hans eigin heiti, eða nafnið festist á jörð hans af hans heiti í þessum þröngu samskiptaháttum. Hann er einkenndur af nafni sínu og nafn hans flyst á heimkynni hans. Önnur koma af einkennum lands, ám, hólum, holtum, mýrum, skógum og þess háttar auðkennum, en hér um bil öll verða þau hlutlæg. Landið verður lifandi af heitum, sem öll eru gefin af hlutlægi á málfræðilega vísu. Það er ekkert fjall svo hvítt eða sindrandi af björtum bergtegundum, að það heiti Bjartfjall, en af sterku litareinkenni heitir Bláfjall, það er hér um bil hlutlægt orð.

Mörg þessi heiti verða listræn á málmynda- og hugmyndavísu, og bera fólkinu góða sögu um gáfur og fegurðarskyn.

Og nú er Íslandi skipt niður í jarðir, fram til innstu dala, út til ystu nesja. Hvergi er þorp eða borg. Landið er allt jarðir, hverri jörð ræður bóndi. Þjóðin er bændaþjóð, alveg óskorað. Það er engin stéttarskipting til, bara verkaskipting á heimilunum. Það kemur aldrei konungur í þetta land. Hver bóndi er sinn eigin konungur, hver jörð ríki hans, heimilisfólkið þegnar hans. Hann þarf að vera meira. Hann þarf að vera það, sem skáldbóndinn sagði um sjálfan sig á nítjándu öld:

Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur, kennarinn,

kerra plógur hestur.


Bloggfærslur 3. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband