Svona er Ísland í dag

það verður of seint að ætla að endurheimta landið sitt, tala tungumálið og verja unga fólkið eftir að íslenska þjóðin verður orðin örlítill minnihluta hópur á Íslandi. Nú virðist enn einu sinni stefna í að fyrstu kaupendur, -unga fólkið og innflutta láglaunafólkið, verði sett út á Guð og gaddinn.

Kerfið; -ríki, sveitarfélög og bankar græða á verðbólgu, í það minnsta er komist upp með að hækka vexti og gjöld í takt við síhækkandi verðbólgu gróðaaflanna. Sú fjármálapólitík sem rekin er á Íslandi í dag er hrein illska gagnvart öllum þeim sem draga vagninn, -þó mest þeim sem eru að koma sér upp heimili á landinu bláa.

Tugþúsundir fjölskyldufólks yfirgáfu landið í hinu svokallaða hruni sem öreigar. Hyskið sá um sína með afskriftum, enda vantaði ekki stjórnsýslu sérfræðinga, stjórnmálamenn né bankamenn í nágrannlöndunum. Síðan var tekin sú afdrifaríka ákvörðun á klakanum af þessu fólki, frekar en bæta þeim hlunnförnu tjónið, að skipta um þjóð í landinu, fá í staðinn erlendar hendur á lágum launum og hirða mismun.

Ég ætla ekki ungu fólki né erlendu, að gera sér grein fyrir þeirri illsku sem liggur að baki þeirra klækjabragða sem síendurtekin eru á klakanum við að gera heimili fólks að féþúfu, -og fara síversnandi. Þá illsku höfum við sem eldri erum mátt horfa upp á ítrekað. Það er því okkar - í þessu sem öðru - að vera hollar vættir og verja land og þjóð.

Í vetur hef ég smásaman verið að gera mér grein fyrir hversu ógnvænlega hraðar breytingar eru að eiga sér stað á Íslandi. Það er að verða of seint fyrir íslendinga að ætla að endurheimta landið sitt, tala tungumálið og verja unga fólkið, þegar að íslenska þjóðin er að verða eins áhrifalaus og minnihluta hópur í eigin landi, sem verður þar að auki að gera sér að góðu að gera sig skiljanlegan á hroða ensku.

Um langt skeið hef ég þó unnið með erlendum iðnaðarmönnum bæði hér á landi, og í Noregi þar sem það er frágangs sök að tala ekki þjóðtunguna. Í vetur finnst mér breytingarnar hafa gengið ískyggilega hratt fyrir sig og þá á ég ekki bara við í vinnunni þar sem ég vinn. En þessa dagana vinn ég með ungum Rúmenum, -öndvegis mönnum, -og einum íslenskum gullmola um tvítugt. Það er heiður fyrir gamlan jálk.

Fyrstu árin hjá þessu fyrirtæki var ég oft einn íslendingur með hóp af Pólverjum. Skiljanlega eru ekki allir sem kæra sig um að vinna með erlendum starfsmönnum, stór hluti vinnunnar er félagslegs eðlis. En þar sem ég er bæði gamall og laskaður félagskítur þá þótti mér sjálfsagt að taka það að mér í sérhlífni.

Það hefur tvisvar gerst í vetur að ég hef keyrt fram á menn frá Úkraínu á förnum vegi og tekið þá upp. Í fyrra skiptið vorum við vinnufélagarnir á ferð í snjómuggu í skammdegismyrkrinu úti í sveit og keyrðum fram á einn í blindbrekku, sem ýtti á undan sér pappakassa með eigum sínum í, og núna í vikunni tók ég einn upp í á Seyðisfirði á leið upp í Hérað.

Sá var á fjarfundi hjá Alcoa í símanum sínum vegna starfsþjálfunar. Fjarfundurinn fór fram á austantjölsku og það litla sem ég náði sambandi við hann var á hroðalegri ensku, s.s. Syðisfjördur verí næs sittí, -Egilsstadir túú. Það sem verra er að við landsmenn erum að tapa tungumálinu okkar í þessa hroða ensku, þar sem standardinn er settur af stórfyrirtækjum og þeim sem kunna ekki ensku.

Tengdasonur minn er frá Hondúras, -já einn af þeim sem kom til að leita sér að betri tekjumöguleikum, en ekki til tekjuauka fyrir lögfræðistóð góða fólksins og Útlendingastofnunnar. Hann hefur unnið frá degi eitt á Íslandi og fær greitt eins hver annar og Íslendingur í sinni vinnu. Enda orðinn íslenskur ríkisborgari, og hefur alla tíð verið harðduglegur. Vöntun er á fólki eins og honum, rétt eins og í öll störf sem þarf að vinna með höndum.

Núna eftir áramótin hefur erlent fólk tvisvar fengið gistingu hjá okkur Matthildi minni, stúlka frá Hondúras í nokkra daga á meðan hún var í ökutímum og ungur maður frá Spáni, sem vinnur á Djúpavogi, í sólahring á meðan hann húkkaði sér far. Flest það erlenda fólk sem ég hef samskipti við býður góðan daginn á lýtalausri íslensku og getur gert sig skiljanlegt með einföldum orðaforða, rétt eins og á ensku.

Dóttir mín og fjölskylda hennar eru ein af unga fólkinu sem mér er mikið niðri fyrir vegna stöðunnar á Íslandi í dag. Hún er í hjúkrunarfræði fjarnámi, í háskólanum Akureyri, Þarf að sækja lotur til Akureyrar og Reykjavíkur, vinnur á hjúkrunarheimili á Egilsstöðum og býr á Djúpavogi. Þau hjónin eru nýlega búin að fjárfesta í húsnæði yfir fjölskylduna á Djúpavogi og mega engar tekjur missa.

Það má segja að fyrir okkur Matthildi sé þetta samt allt til ánægju, við höfum haft mikið meira af 5 ára sólageislanum Ævi að segja en annars, þar sem þær mæðgur eru hjá okkur á meðan vinnutarnir standa yfir á hjúkrunarheimilinu, og gestirnir hvaðan svo sem þeir koma lífgi bara upp á tilveruna.

Ævi getur sagt sögur á þremur tungumálum. Hún hefur meir að segja byrjað sögu á íslensku, sagt miðhlutann á ensku og niðurlagið á spænsku án þess að rugla orðum tungumálanna saman. Hún hefur búið til nokkur íslensk nýyrði sem ekki er hægt að hrekja með rökum.

Eins og önnur börn þá er hún ekki alltaf til í að fara að sofa á kvöldin. Þá segir hún að það sé ekki kominn náttatími, þver neitar að náttatími sé sama og háttatími, og rökstyður muninn með því að þá sé komið myrkur en samt ekki tími til sofa.

Um daginn var Ævi að tala við prinssessudúkkurnar sínar á ensku og mér varð á orði, af hverju talarðu ekki bara við þær á íslensku? -ekkert svar, -svo ég endurtók spurninguna og bætti við; -þú átt að tala við þær íslensku.

Þá svaraði Ævi kankvís á svip, en ákveðið; -Afi þú ræður ekki yfir mér.


Bloggfærslur 18. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband