Heiðríkja á góu - loftbóla andans

Ragnarökkur

Rifizt er um hvort í Rússaveldi

roði af degi – eða kveldi.

Í ágirndar svaði ákaft gjalla

orustur miklar um veröld alla.

Hroll að vonum og hlýleik setur

helkaldur, margþættur fimbulvetur.

Ískuldi hugar; heiftir; stríð.

Vindöld; vargöld; varmennskutíð.

Spurnir þyrpast að hátt í hljóði:

Hvar er ríki þitt Baldur góði?

Ormahryggjum er undið um sali.

Eitraðar falla ár un dali.

Rógtönnum er lagt til að lemstra og neyða.

Loftungum slafrað til fylgisveiða.

Með mútum fákænska til fylgis vakin.

Fjötruð mannlund og í útlegð hrakin.

Eigið reiptog sem alúð gyllt.

Einlægni smælingja sýkt og villt.

Rifizt er um, hvort í Rússaveldi

roði af degi – eða kveldi.

Heyrði ég í hamrinum 1939

Þá eru um alla veröld orustur miklar (Gylfaginning)

Því hefur borið við hér á síðunni að höfundur hefur látið sig dreyma um að koma orðum sínum í ljóð en ekki langloku. Ljóðið hér að ofan er ekki eftir síðuhafa, heldur langa-afa hans, Sigurjón Friðjónsson, -og er sennilega ort fyrir u.þ.b. 100 árum síðan. Síðuhafi kæmi orðum sínum seint fyrir í svo stuttu og kjarnyrtu máli.

Nokkru sinnum hef ég gert tilraun til að koma orðum mínum fyrir í stuttu máli með myndum, -svo orðin skiljist. Hefur þá brugðið svo við að lesendum síðunnar snarfækkar, enda varða fyrirsagnir bloggsins yfirleitt veginn að efninu, -en athugasemdirnar við bloggið geta aftur á móti orðið áhugaverðari.

Skáldið Pétur Örn Björnsson á þá til að lauma inn einu og einu ljóði í athugasemd. Hann er mitt uppáhalds ljóðskáld og hefur gefið út ljóðabókina Af kynjum og víddum, , , og loftbólum andans. Þessa ljóðabók hef ég lesið þrisvar spjaldanna á milli auk þess að glugga í hana reglulega og lesa af og til eitt og eitt ljóð mér til yndisauka.

Hérna á blogginu er ekki mikið um ljóðskáld þó einn, -sem ég les reglulega bloggin hjá, -eigi það til að setja inn ljóð eftir sjálfan sig, það er Ingólfur Sigurðsson. Svo eru nokkrir sem eru snjallir hagyrðingar og geta sett saman smellnar vísur. En góð ljóð finnst mér hafa það umfram vísur að vera tímalaus. 

Frá því á tvítugsaldri hef ég safnað ljóðabókum Sigurjóns langa-afa míns, þó svo að ég hafi ekki lesið þær með sömu andakt og ljóðabók Péturs Arnar. Í vetur hef ég verið að grúska í því sem afi og amma settu í dagbækur og í aðdraganda þess, -til að sefa samtímann og komast tímalaus rúma hálfa öld aftur í tímann, -nýtti ég mér að lesa ljóð þeirra Péturs Arnar og Sigurjóns.

Sigurjón langi-afi minn gaf út fjórar ljóðabækur, Ljóðmæli og Heyrði ég í Hamrinum 1, 2 og 3. Áður hafði hann gefið út bókina Skriftamál einsetumannsins, sem mætti flokka sem ljóðrænur, -eins og í móð er að kalla svo stutt og hnitmiðað mál í dag. Eins komu út eftir hann  bækur sem ég á ekki; smásagnasafnið Þar sem grasið grær og ljóðabókin Barnið á götunni.

Arnór Sigurjónsson tók saman valin ljóð og ágrip af ævi föður síns og gaf út í bók árið 1967. Í bóki Arnórs kemur margt fram um Sigurjón sem annars væri týnt og tröllum gefið. Þessa bók las ég oftar en einu sinni á mínum yngri árum. Í bókinni birtir Arnór athyglisvert bréf þar sem Sigurjón skýrði tilgang sinn með ljóðagerð. Jafnframt segir Arnór frá Sigurjóni sem ljóðskáldi í samhengi þessa bréfs, og gríp ég nú niður hér og þar:

“Sú mikla þversögn í lífi föður míns, að frá því er hann var ungur maður, var honum ekkert eins hugleikið og ritstörf og skáldskapur, og þó var þetta honum ekki annað en tómstundaiðja, þar til hann var kominn á sjötugsaldur. Hann hafði heldur aldrei neina aðstöðu til að rækja þessa tómstundaiðju sína.”

“Ég varð þess aldrei var, að hann stundaði skáldskap sinn af ástríðu. Ég held að hann hafi ort af því þetta var eina listgreinin, sem hann hafði aðstöðu til að stunda og leggja alúð við.” – “Faðir minn naut aldrei viðurkenningar sem ljóðskáld, nema helst stuttan tíma frá því hann var bóndi á Einarsstöðum þar til lokið var setu hans á Alþingi -  eða um 1922.”

“Tómlæti það, sem ljóðagerð föður míns var sýnd á efri árum hans, olli honum vonbrigðum. Þetta kemur skýrast fram í bréfi skrifað “góðum vini”. “

Hér fyrir neðan eru örstuttar glefsur úr bréfinu:

“Annað aðal markmið mitt er málfegurð – og mýkt málsins fyrst og fremst. Aðaleinkenni okkar forna máls er máttur þess og skýrleiki, sem mjög minnir á hvasst, leiftrandi sverðshögg, ein af megin hugsjónum víkingaaldar.” – “Skilningurinn á krafti mýktarinnar kemur skýrast fram í hugmyndinni um fjötur Fenrisúlfs, sem var gerður úr konu skeggi, kattardyn og öðru þessháttar, og þó öllu heldur vegna þess – var sterkasti fjöturinn.”

“Þriðja skáldskapar markmið mitt, efnið, sem mörgum hefur orðið svo erfitt að finna, eða þeir hafa litið á sem barnaskap að öðrum kosti, má líka segja að sé mýktin – að miklu leyti, þ.e. andstæða harðneskjunnar, grundvallartónn kristninnar, góðvildin, kærleikurinn, sá máttur, sem fáeinum mönnum hefur sýnst “mestur í heimi” og hið eina sem dugað geti í fjötur á Fenrisúlf, -styrjaldarofstopa mannanna.”

Nú hef ég haft mikla ánægju af að lesa ljóð forföður míns og finnst meiriháttar að eiga flest allar ljóðabækurnar í frumútgáfu því ég hygg að þær séu að verða vandfundnar.

Ég á það líka til að líta inn á facebook síðu Péturs Arnar og sjá hann deila þar einu og einu ljóði tímalausrar orðsnilldar sinnar. Í vetur sá ég að hann var spurður hvenær næsta bók væri væntanleg. Pétur Örn svaraði því til að það væri ekki á vísan að róa með það enda færi best á að hann léti ljóðin frá sér eins og honum einum er lagið, -örlátur höfðinginn.

En eftir að ég fór að grúska í gömlum ljóðabókum langa-afa míns hefur mér hvað eftir annað verið hugsað til Péturs Arnar og hversu mikill skaði það væri fyrir íslenska tungu og ljóðagerð samtímans, ef ljóðin hans næðu ekki að lifa í 100 ár vegna þess að engin fyndi þau í bók. Hvet ég hann því til að íhuga, í það minnsta, alvarlega útgáfu fleiri ljóðabóka, -ef hann kynni að líta hér inn.

Eins og ég sagði hér í upphafi þá á fyrirsögnin að varða veginn að efni bloggpistils, og ekki ætla ég að hlunnfara lesendur, sem hafa nennt að lesa þetta langt, -um heiðríkjuna sem nóg hefur verið af hér austan lands síðustu dagana.

Heiðríkjustund

Blátt. Allt loftið blátt. Dökkblátt; fagurblátt. Og í þessu bláa hafi sindrandi sólkringla yfir heiðarbrún.

Ég leita að orðum og ég finn lengi ekki annað en þetta: Blátt, dökkblátt, fagurblátt. Og sindrandi sólkringla yfir lágri heiðarbrún – eins og hún væri á næstu grösum.

Svo tínast orðin að: Þögn. Unaður. Sumardýrð. Helgidagsdýrð.

Ég hika við “sumardýrð”. Þetta er á góu. Enginn fuglasöngur; enginn lækjarniður. – Lágur fossdynur í fjarska. –

“Helgidagskyrrð” minnir mig á messugjörð fyrir 50 árum. Ég sé Jón í Brekku á bekk framundan mér. Hann dottar; missir höfuðið niður á bringu; hrekkur við, lyftir upp höfðinu – missir það niður á bringu aftur. - -

Ég geng frá bænum; langar upp að Austurhlíð. En hún er í skugga. Ég geng út á hól og horfi yfir dalinn.

Þögn. Unaður. – þetta er nóg. Sindrandi sólkringla í bláu hafi; lofthafi. Lágur vatnaniður í fjarska. –

Skriftamál einsetumannsins 1929.

Sigurjón Friðjónsson má finna með google og hægt er að forvitnast um hann hér.


Bloggfærslur 2. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband