Heiðríkja á góu - loftbóla andans

Ragnarökkur

Rifizt er um hvort í Rússaveldi

roði af degi – eða kveldi.

Í ágirndar svaði ákaft gjalla

orustur miklar um veröld alla.

Hroll að vonum og hlýleik setur

helkaldur, margþættur fimbulvetur.

Ískuldi hugar; heiftir; stríð.

Vindöld; vargöld; varmennskutíð.

Spurnir þyrpast að hátt í hljóði:

Hvar er ríki þitt Baldur góði?

Ormahryggjum er undið um sali.

Eitraðar falla ár un dali.

Rógtönnum er lagt til að lemstra og neyða.

Loftungum slafrað til fylgisveiða.

Með mútum fákænska til fylgis vakin.

Fjötruð mannlund og í útlegð hrakin.

Eigið reiptog sem alúð gyllt.

Einlægni smælingja sýkt og villt.

Rifizt er um, hvort í Rússaveldi

roði af degi – eða kveldi.

Heyrði ég í hamrinum 1939

Þá eru um alla veröld orustur miklar (Gylfaginning)

Því hefur borið við hér á síðunni að höfundur hefur látið sig dreyma um að koma orðum sínum í ljóð en ekki langloku. Ljóðið hér að ofan er ekki eftir síðuhafa, heldur langa-afa hans, Sigurjón Friðjónsson, -og er sennilega ort fyrir u.þ.b. 100 árum síðan. Síðuhafi kæmi orðum sínum seint fyrir í svo stuttu og kjarnyrtu máli.

Nokkru sinnum hef ég gert tilraun til að koma orðum mínum fyrir í stuttu máli með myndum, -svo orðin skiljist. Hefur þá brugðið svo við að lesendum síðunnar snarfækkar, enda varða fyrirsagnir bloggsins yfirleitt veginn að efninu, -en athugasemdirnar við bloggið geta aftur á móti orðið áhugaverðari.

Skáldið Pétur Örn Björnsson á þá til að lauma inn einu og einu ljóði í athugasemd. Hann er mitt uppáhalds ljóðskáld og hefur gefið út ljóðabókina Af kynjum og víddum, , , og loftbólum andans. Þessa ljóðabók hef ég lesið þrisvar spjaldanna á milli auk þess að glugga í hana reglulega og lesa af og til eitt og eitt ljóð mér til yndisauka.

Hérna á blogginu er ekki mikið um ljóðskáld þó einn, -sem ég les reglulega bloggin hjá, -eigi það til að setja inn ljóð eftir sjálfan sig, það er Ingólfur Sigurðsson. Svo eru nokkrir sem eru snjallir hagyrðingar og geta sett saman smellnar vísur. En góð ljóð finnst mér hafa það umfram vísur að vera tímalaus. 

Frá því á tvítugsaldri hef ég safnað ljóðabókum Sigurjóns langa-afa míns, þó svo að ég hafi ekki lesið þær með sömu andakt og ljóðabók Péturs Arnar. Í vetur hef ég verið að grúska í því sem afi og amma settu í dagbækur og í aðdraganda þess, -til að sefa samtímann og komast tímalaus rúma hálfa öld aftur í tímann, -nýtti ég mér að lesa ljóð þeirra Péturs Arnar og Sigurjóns.

Sigurjón langi-afi minn gaf út fjórar ljóðabækur, Ljóðmæli og Heyrði ég í Hamrinum 1, 2 og 3. Áður hafði hann gefið út bókina Skriftamál einsetumannsins, sem mætti flokka sem ljóðrænur, -eins og í móð er að kalla svo stutt og hnitmiðað mál í dag. Eins komu út eftir hann  bækur sem ég á ekki; smásagnasafnið Þar sem grasið grær og ljóðabókin Barnið á götunni.

Arnór Sigurjónsson tók saman valin ljóð og ágrip af ævi föður síns og gaf út í bók árið 1967. Í bóki Arnórs kemur margt fram um Sigurjón sem annars væri týnt og tröllum gefið. Þessa bók las ég oftar en einu sinni á mínum yngri árum. Í bókinni birtir Arnór athyglisvert bréf þar sem Sigurjón skýrði tilgang sinn með ljóðagerð. Jafnframt segir Arnór frá Sigurjóni sem ljóðskáldi í samhengi þessa bréfs, og gríp ég nú niður hér og þar:

“Sú mikla þversögn í lífi föður míns, að frá því er hann var ungur maður, var honum ekkert eins hugleikið og ritstörf og skáldskapur, og þó var þetta honum ekki annað en tómstundaiðja, þar til hann var kominn á sjötugsaldur. Hann hafði heldur aldrei neina aðstöðu til að rækja þessa tómstundaiðju sína.”

“Ég varð þess aldrei var, að hann stundaði skáldskap sinn af ástríðu. Ég held að hann hafi ort af því þetta var eina listgreinin, sem hann hafði aðstöðu til að stunda og leggja alúð við.” – “Faðir minn naut aldrei viðurkenningar sem ljóðskáld, nema helst stuttan tíma frá því hann var bóndi á Einarsstöðum þar til lokið var setu hans á Alþingi -  eða um 1922.”

“Tómlæti það, sem ljóðagerð föður míns var sýnd á efri árum hans, olli honum vonbrigðum. Þetta kemur skýrast fram í bréfi skrifað “góðum vini”. “

Hér fyrir neðan eru örstuttar glefsur úr bréfinu:

“Annað aðal markmið mitt er málfegurð – og mýkt málsins fyrst og fremst. Aðaleinkenni okkar forna máls er máttur þess og skýrleiki, sem mjög minnir á hvasst, leiftrandi sverðshögg, ein af megin hugsjónum víkingaaldar.” – “Skilningurinn á krafti mýktarinnar kemur skýrast fram í hugmyndinni um fjötur Fenrisúlfs, sem var gerður úr konu skeggi, kattardyn og öðru þessháttar, og þó öllu heldur vegna þess – var sterkasti fjöturinn.”

“Þriðja skáldskapar markmið mitt, efnið, sem mörgum hefur orðið svo erfitt að finna, eða þeir hafa litið á sem barnaskap að öðrum kosti, má líka segja að sé mýktin – að miklu leyti, þ.e. andstæða harðneskjunnar, grundvallartónn kristninnar, góðvildin, kærleikurinn, sá máttur, sem fáeinum mönnum hefur sýnst “mestur í heimi” og hið eina sem dugað geti í fjötur á Fenrisúlf, -styrjaldarofstopa mannanna.”

Nú hef ég haft mikla ánægju af að lesa ljóð forföður míns og finnst meiriháttar að eiga flest allar ljóðabækurnar í frumútgáfu því ég hygg að þær séu að verða vandfundnar.

Ég á það líka til að líta inn á facebook síðu Péturs Arnar og sjá hann deila þar einu og einu ljóði tímalausrar orðsnilldar sinnar. Í vetur sá ég að hann var spurður hvenær næsta bók væri væntanleg. Pétur Örn svaraði því til að það væri ekki á vísan að róa með það enda færi best á að hann léti ljóðin frá sér eins og honum einum er lagið, -örlátur höfðinginn.

En eftir að ég fór að grúska í gömlum ljóðabókum langa-afa míns hefur mér hvað eftir annað verið hugsað til Péturs Arnar og hversu mikill skaði það væri fyrir íslenska tungu og ljóðagerð samtímans, ef ljóðin hans næðu ekki að lifa í 100 ár vegna þess að engin fyndi þau í bók. Hvet ég hann því til að íhuga, í það minnsta, alvarlega útgáfu fleiri ljóðabóka, -ef hann kynni að líta hér inn.

Eins og ég sagði hér í upphafi þá á fyrirsögnin að varða veginn að efni bloggpistils, og ekki ætla ég að hlunnfara lesendur, sem hafa nennt að lesa þetta langt, -um heiðríkjuna sem nóg hefur verið af hér austan lands síðustu dagana.

Heiðríkjustund

Blátt. Allt loftið blátt. Dökkblátt; fagurblátt. Og í þessu bláa hafi sindrandi sólkringla yfir heiðarbrún.

Ég leita að orðum og ég finn lengi ekki annað en þetta: Blátt, dökkblátt, fagurblátt. Og sindrandi sólkringla yfir lágri heiðarbrún – eins og hún væri á næstu grösum.

Svo tínast orðin að: Þögn. Unaður. Sumardýrð. Helgidagsdýrð.

Ég hika við “sumardýrð”. Þetta er á góu. Enginn fuglasöngur; enginn lækjarniður. – Lágur fossdynur í fjarska. –

“Helgidagskyrrð” minnir mig á messugjörð fyrir 50 árum. Ég sé Jón í Brekku á bekk framundan mér. Hann dottar; missir höfuðið niður á bringu; hrekkur við, lyftir upp höfðinu – missir það niður á bringu aftur. - -

Ég geng frá bænum; langar upp að Austurhlíð. En hún er í skugga. Ég geng út á hól og horfi yfir dalinn.

Þögn. Unaður. – þetta er nóg. Sindrandi sólkringla í bláu hafi; lofthafi. Lágur vatnaniður í fjarska. –

Skriftamál einsetumannsins 1929.

Sigurjón Friðjónsson má finna með google og hægt er að forvitnast um hann hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ljóðið sem hér birtist er mjög gott, og það sem kemur á óvart er að það er eins og það tali inní okkar samtíma líka - og þótt Rússar séu ekki sömu kommúnistarnir lengur, er eins og deilurnar um Rússana séu líka í nútímanum eins og var á þeim tíma.

Ég sé að áhugi þinn á Eddukvæðum og Íslendingasögum er kannski fenginn frá langafa þínum. Þetta er það sama og ég lærði af afabróður mínum Ingvari Agnarssyni. Hann var skáld líka og gaf út 2 ljóðabækur, og átti efni í fleiri þegar hann dó 1996.

Ég þakka fyrir að þú minnist á þau ljóð sem ég birti. Ég vona að ég verði öðrum hvatning til að fást við þessa iðju, hún kostar æfingu og þjálfun, en þetta er eins og jóga, sumir fara í innhverfa íhugun, en að slaka á og koma einhverju í ljóð sem er stundum á mörkum draums og veruleika, það er gefandi.

Nú orðið fást hefðbundnar ljóðabækur aðallega í fornbókabúðum, og ég hef stundum keypt mér þar bækur. Mér finnst það skaði að nútímafólk les ekki mikið af þjóðskáldunum, og atómljóðin lifa betur en stuðlaði kveðskapurinn, sennilega vegna þess að þetta er ekki kennt í skólum.

Þú hefur vakið áhuga minn að leita að þessum ljóðabókum langafa þíns. 

Mér finnst vanta fleiri orð yfir litina, til dæmis bláan, er sammála.

Enskan á tvö orð sem ég man eftir eru þekkt yfir blá litbrigði. Asúr/azúr, það er að segja næstum himinblár, en örlítið dekkri, ljósdökkblár gæti verið þýðingin.

Cyan, sem er grænblár, en þó meira blár en grænn.

Gaman að lesa þennan pistil eftir þig. Það er hressandi og upplífgandi að lesa um bjartar hliðar tilverunnar.

Þessi pistill hvetur mig og aðra til að búa til litanýyrði á okkar máli. Það er hægt ef viljinn er fyrir hendi, eða þýða alþjóðleg litaorð og lagfæra að málinu.

Ingólfur Sigurðsson, 2.3.2023 kl. 06:58

2 identicon

Kærar þakkir, Magnús, fyrir lofsamleg ummæli um ljóðastúss mitt.  Verð að viðurkenna að þau eru kannski full rausnarleg, enda ert þú óspar á lofsyrði um menn og málefni.  Höfðingi mikill.  En svo skal það einnig viðurkennt að lofsyrði þín hreyfa þannig við mér að mér hafi nú glumið klukkan og kominn sé nú sá tími að reyna að taka saman aðra ljóðabók, taka saman segi ég því nf þeim á ég nóg í nokkrar, en þyrfti í hverja að yrkja í eyður svo einhver samfella væri í hverri.

Með kveðju góðri

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 2.3.2023 kl. 10:35

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Vel kveðið - hef sjálfur ekkert vit á kvæðum og vísum. Hef þó hlustað með ánægju á upptökur Sveinbjörns Beinteinssonar sem komu út á hljómplötum. Sumar þeirra snilldarlega endurfluttar af Steindór Andersyni í samvinnu Hilmars Arnar Hilmarssonar.

Elska setningu sem höfð er eftir Sveinbirni; ljótt er að sjá fagra hugsun í tötrum. Þess vegna skrifa ég helst í tötrum, en það er bara ég.

Eitt sinn skrifaði ég Eiríki Jónssyni, kennara og fyrrum leiðtoga kennarasambandsins, en hann kenndi mér tvö ár á unglingsárum, til að fá orðrétt vísu sem hann hafði stundum eftir, og sagði að væri eftir Bólu Hjálmar.

Það er svalasta vísa sem ég hef heyrt.  Skelli hér tengli í afurðina; http://hreinberg.is/?p=2329

Guðjón E. Hreinberg, 2.3.2023 kl. 13:38

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

 Ef ég má bæta við, varðandi Bólu Hjálmar. Ég held að hann hafi verið valdáskorandi og það að honum gekk illa í lífinu - og ódæðismaður sagður - hafi verið vegna aumingjaskapar og lítilmennsku öfundarfólks. Rétt eins og var með Sölva Helgason, Íslendingsins sem þorði að ferðast um allt landið án leyfisbréfa frá Hreppstjórum og var settur í fangelsi fyrir vikið. Tvei menn sem sönnuðu á undan okkur, að bæði elíta og almeningur okkar ástkæra lands, eru lyddur og varmenni.

Góðar stundir.

Guðjón E. Hreinberg, 2.3.2023 kl. 13:41

5 identicon

Sé að þú ert af miklu skáldakyni kominn, og mér því enn meiri heiður að þú skulir nefna mitt nafn í sömu andrá og þíns mikla skáldakyns.

Af svo miklu skáldakyni er ég ekki.  Við Magnús Ásgeirsson vorum reyndar náskyldir, og pabbi var skáldmæltur vel, en báðir dóu, systkinasynirnir, einungis 54 ára.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 2.3.2023 kl. 13:46

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ingólfur, -þakka þér fyrir innlitið og góða athugasemd.

Mér finnst góð ljóð yfirleitt vera tímalaus og er Ragnarökkur um Rússaveldi gott dæmi þess.

Ábyggilega hef ég fengið eitthvað af áhuganum fyrir íslenskum menningararfi frá Sigurjóni langa-afa mínum og móðurfólki. Það er reyndar svo að bæði móður og föðurfólk var bókmenntafólk hvort á sína vísu, og ljóðabækurnar sem ég hef fengið í arf eru það margar að ég kemst aldrei yfir að lesa það allt saman mér til andaktar.

Sigurjón hefur þó þá sérstöðu að vera það ljóðskáld sem ég hef safnaði bókum markvist eftir frá tvítugsaldri og bókin um hann var til heima og þótti mér hún merkileg, enda um margt mikilhæfan og sérstakan mann að ræða.

Já, þú ert nánast einn um að birta það sem mér finnst vera frumsamin ljóð á blogginu, svo eru nokkrir sem kveða vísur.

Það á ábyggilega sama við lestur ljóða og jóga, að það þarf að setja sig í ákveðna andakt til að sjá boðskap þeirra fyrir sér, þess vegna eru þau um margt lík bloggi sem ekki er tengt því sem medían matar.

Ég tek heilshugar undir með þér að það er mikill skaði af því að fólk setji sig ekki inn í ljóð, því þar búa svo miklir möguleikar rétt eins og þú kemur inn á hjá þér í góðum pistli dagsins.

Afstaða hvers og eins getur verið margbreytilega frá vöggu til grafar og þannig á það einmitt að vera, allir eiga að gefa sér leifi til að skipta um skoðun og hafa það sem sannara reynist.

Blátt er bara blárra en blátt, því kemst maður best að með því að mála myndir, þar er það fjarlægðin sem gerir fjöllin blá. Turkish-blátt er t.d. bara blágrátt með fjólubláum blæ að því sagt er þó svo mér finnist blærinn blá-grænni en fjólublár.

Náttúrufræðingurinn Helgi Hallgrímsson segir að Lagarfljótið hafi veri Vatnajökuls-blátt fyrir Kárahnjúka, aðrir segja að turkish blái liturinn sé farin og núna sé það bar grátt í besta falli mógrátt.

Ég hvet þig til að skreyta ljóðin þín með litríku og auðskildu íslensku máli.

Takk fyrir athugasemdina, -ljóðin og skrifin á bloggsíðunni þinni.

Magnús Sigurðsson, 2.3.2023 kl. 14:59

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Pétur Örn, -nei þetta er ekki full rausnarlegt þetta er málið.

Í vetur hef ég verið að skrifa niður dagbækur afa og ömmu, -föðurfólksins. Það merkilega við þær er þetta skorinorða mál sem þarf til að segja frá deginum í tveimur línum, meir að segja svo ég skilji, þó svo þessa hafi ekki verið getið af medíunni hvað þá verði skráð í mankynsöguna. Þetta var bara um sannleikann og lífið.

27. Maí 1959 -Piltarnir breiddu áburð og snérust við lambfé. Í kvöld var deildarfundur KHB, var hann mjög fámennur. Spíruhraunsgarðurinn var unninn. Það kom geysi mikill skúr eftir hádegið, sem stóð til kvölds. Var gott fyrir jörðina að fá þessa vætu.

28. Maí 1959 -Við Gunna sáðum hreðkum, spínati, salati og rauðrófum en piltarnir breiddu áburð. Við Magnús skruppum fyrir hádegi inn í Tunghaga að kveðja Þuru, hún fór til uppskurðar til Reykjavíkur kl 4 í dag. Guð gefi henni bata.

27.10. 1966 -Keyrði skítinn úr hesthúsinu og dreifði á blettinn. Gott veður.

28.10. 1966 - Þurrkaði kartöflur og fór með þær í geymsluna 3 og hálfan pk útsæði 4 pk matarkartöflur. Þurrkaði rófur og að skildi, 4 pk stórar, 1 pk smáar. Leista bar rauðum tarfi. Fór með kjöt í reykhúsið.

Ekki það að ég ætli að gefa út neina bók enda yrði það bara kostnaður, en þessi dagbókarbrot ætla ég samt að prenta út og ganga þannig frá að Ævi geti lesið ef hún kærir sig um þegar hún kemst til vits og ára. Það sem er merkilegast við samtímann er að það þykir engum hann merkilegur fyrr en hann kemst í fréttir.

Þá er ég komin að því sem ég vildi segja; það er ekki margir sem koma tímalausum samtímanum eins vel í ljóð og þú, -kannski finnst mér það vegna þess að við erum samtíða, 20. aldar sveita drengir, en það er ekki bara það, þú hefur gáfuna að geta sett samtímans æviskeiðið í orð tímalausrar andaktar, sem koma til með að verða alveg jafn merkileg í dag og eftir 100 ár, ef þá ekki merkilegri.

Það er þess vegna sem mér var hugsað sterkt til þín þegar ég las þetta ljóð langa-afa míns, það er ekki öllum þetta gefið og okkur ber að koma því góða sem okkur er gefið til afkomendanna. Þú hefur auk þess það til að bera að hafa kostað útgáfu ljóðabókar svo við hin getum notið höfðingskarparins af því að þú komst því sem við þekkjum í ljóð sem munu lifa. -Það er ef eitthvað er, -full rausnarlegt.

Þakka þér fyrir að taka svona vel í beiðni mína, -Höfðingi.

Magnús Sigurðsson, 2.3.2023 kl. 15:10

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Guðjón, aldeilis mögnuð vísa hjá bóndanum í Bólu.

Reyndar er það svo með bloggsíðuna þína að hún er magnaður skáldskapur. Ég er nokkuð viss um að hún skoraði einna hæðst hér á blogginu ef því værir við háborðið.

Þið Bólu Hjálmar og Sölvi Helgason eigið það sammerkt að geta skammað samtímann svo hann lesi, -og það er vel skorað þegar umvöndunin er almenn í langlokustíl spámannsins sem talar eins við alla, að eiga samt sem áður fjölda lesenda.

Já, ljótt er að sjá fagra hugsun í tötrum, -og ekki er það fallegt að sjá rætna hugsun umvafða helgislepju. Það er nú sennilega lykillinn að leyndarmáli spámannsins.

Ég hef verið að velta fyrir mér ljóðlínu sem sögð er vera langa-afa míns, en get hvergi fundið ljóðið; -þær fegurstu vonir fæddust mér - - er hélar um stigu mína.

Þakka þér fyrri að benda á þessi mergjuðu ljóð.

Magnús Sigurðsson, 2.3.2023 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband