20.4.2019 | 07:04
Nú eru sumarmál
Það má víða finna sumarmála getið í frásögnum frá gamalli tíð, s.s. þetta eða hitt varð um sumarmál. En til hvað tíma er nákvæmlega verið að vísa þegar talað er um sumarmál? Íslensk orðabók Máls og menningar segir að sumarmál kallist síðustu 5 dagar vetrar, frá laugardegi til sumardagsins fyrsta (fimmtudags).
Sumarmál tilheyra því gamla íslenska tímatalinu. Fyrir nokkrum árum var öllum mánuðum gamla íslenska tímatalsins gerð skil hér á síðunni. Eins og kostur var, eftir því sem um það mátti finna á netinu.
Það varð svo bók Gísla Hallgrímssonar, Betur vitað, sem hafði að geyma kafla um gamla íslenska tímatalið, sem batt saman þetta netgrúsk mitt. Á þann hátt að fyllri skilningur fékkst á tilurð og merkingu þessa tímatals sem fylgdi íslendingum í gegnum aldirnar og eimir enn af í dag s.s. með gömlu mánaðarheitunum og hins sér íslenska frídags, sumardagsins fyrsta.
Í bók Gísla, er þetta um sumarmál; "Síðustu 2 dagar sumars eru kallaðar veturnætur og 5 síðustu vetrardagar eru sumarmál. Sérhver mánuður byrjar ætíð á sama vikudegi. Við búum enn við þetta tímatal að hálfu. Enn byrjar harpa og sumar á fimmtudegi og gormánuður með vetri á laugardegi. Enn getum við lesið í almanaki um veturnætur, sumarmál og aukanætur í sumri í árslok. Í þessu gamla ári okkar er margt miðað við nætur. Þrítugnættir mánuðir, aukanætur, gestanætur, þriggja nátta fiskur."
Ég birti fyrir nokkrum árum stuttan kafla sem mátti finna um gamla tímatalið í bók Gísla Hallgrímssonar, Betur vitað. Og leifi mér að gera það aftur nú um sumarmál, því skýringar Gísla á þessu merkilega tímatali, sem notast var við í gegnum aldirnar á Íslandi, eru mjög svo áhugaverðar.
"Margt bendir til þess að tímatal, sem íslendingar tóku upp líklega þegar Alþingi var stofnað 930 hafi átt rætur sínar að rekja til Babýlon og Persíu. Ef til vill má rekja sumt í tímatalinu til finnskra þjóða, sem ríktu um mörg þúsund ára skeið í löndunum frá Finnlandi til Úralfjalla. Finnsk þjóð lagði undir sig ríki sunnan Kákasusfjalla og lærði þá menningu sem þar var. Menning frá Asíuþjóðum kom norður í Evrópu með Skýþum og svo vestur og norður að Eystrasalti með Gotum. Náskyldar þjóðir áttu vafalítið heima á þessum tíma (400-800 e. kr.) á Austur-Englandi og víða í kringum Eystrasalt. Innhöf tengdu þessar þjóðir saman.
Íslendingar virðast vera komnir af þessum þjóðum, og enn má sjá líkt fólk í Bretlandi, Íslandi og Eystrasaltslöndunum. Flestir af þessari þjóð, sem sest höfðu að á vesturströnd Noregs munu hafa farið til Íslands. Þess vegna eru Norðmenn ekki mjög líkir Íslendingum.
Íslenska árið byrjaði með heyönnum, um 20. júlí eins og hjá Babýloníumönnum. Síðan kemur tvímánuður, haustmánuður, gormánuður, ýlir, mörsugur, þorri, góa, einmánuður harpa, skerpla, og sólmánuður. Á eftir Sólmánuði í árslok voru svo 4 aukanætur. Allir 12 mánuðirnir voru þrítugnættir, svo árið allt var 364 dagar, eða sléttar 52 vikur. 24 árum eftir Alþingisstofnun fundu hinir fornu Íslendingar að sumarbyrjun hafði flust aftur til vorkomu þ. e. um einn mánuð. Trúleg hefur þá ekki verið kominn gróður handa hestum þegar Alþingi skyldi háð.
Þá fann Þorsteinn Surtur upp það ráð að bæta inn í árið viku sumarauka sjöunda hvert ár. Þetta ráð var upp tekið. Sjöunda hvert ár var sumarið aukið með einni viku. Það ár er 53 vikur eða 371 dagur. Nú voru Íslendingar komnir með ár, sem var að meðaltali 365 dagar að lengd. Árið 954 hefur skekkjan, sem orðin var eflaust verið leiðrétt þ. e. sumarbyrjun færð á réttan stað.
Ennþá var tímaskekkja á hverju ári samkvæmt júlíanska árinu. Það ár kom með kristninni. Samkvæmt júlíanska tímatalinu þarf sumarauki oftast að vera 6. hvert ár, en stundum á fimm ára fresti. Eitt af einkennum íslenska ársins er vikukerfið. Veturinn er 26 vikur í venjulegu ári, og rúmar 27 vikur í sumaraukaári. Veturnætur og sumarmál eru til samans í viku.
Síðustu 2 dagar sumars eru kallaðar veturnætur og 5 síðustu vetrardagar eru sumarmál. Sérhver mánuður byrjar ætíð á sama vikudegi. Við búum enn við þetta tímatal að hálfu. Enn byrjar harpa og sumar á fimmtudegi og gormánuður með vetri á laugardegi. Enn getum við lesið í almanaki um veturnætur, sumarmál og aukanætur í sumri í árslok. Í þessu gamla ári okkar er margt miðað við nætur. Þrítugnættir mánuðir, aukanætur, gestanætur, þriggja nátta fiskur.
Þess mætti geta hér að norræna tímatalið var annað en það íslenska. Þar var árið 365 dagar og notuð voru fimmt í stað vikna. Í gömlu kvæði er talað um órofi alda. Gísli Konráðsson telur að með því sé átt við þann tíma, sem var áður en fór að rofa til, þ. e. áður en farið var að telja í árum og öldum. Erfitt væri nútímamönnunum að hugsa sér lífið án tímatals.
Íslenska árið er miðað við það að ólæsir og óskrifandi menn eigi auðvelt með að fylgjast með tímanum er hann líður. Árið er útfært á tvo vegu. Annars vegar eru 12 þrítugnættir mánuðir og 4 aukanætur. Þetta ár hefur 5 mánaða sumar, eins mánaðar haust, 5 mánaða vetur og vor, sem er einn mánuður. Hins vegar er 52 vikna árið, sem hefur tvær árstíðir, sumar og vetur. Eru 180 dagar í vetri og 184 dagar í sumri. Í sumarauka ári eru 191 dagur í sumri.
Allar árstíðir byrja ennþá eftir íslenska árinu. Í 26. viku vetrar eru aðeins 5 dagar af því sumar byrjar 2 dögum fyrr í vikunni. Í 27. (eða 28.) viku sumars eru 2 dagar. Síðan byrjar vetur. Sumarauki fluttist um 1928 frá sumarlokum til ársloka á miðju sumri. Sérhver vika á vetri byrjar á laugardegi, en allar sumarvikur á fimmtudegi. Veturnætur eru alltaf fimmtudagur og föstudagur, en sumarmál hinir dagar vikunnar.
Íslenska árið var áður mikið notað með tvennu móti. Annars vegar var fardagaár. Fardagar eru 3 fyrstu dagar þ. e. fimmtudagur, föstudagur og laugardagur í 7. viku sumars. Þessa daga höfðu bændur til ábúðaskipti á jörðum. Ábúendaskipti á jörðum voru á hverju ári mjög algeng. Vissu þó gamlir menn að langir búferlaflutningar voru ámóta dýrir og húsbruni.
Hins vegar var skildagaárið. Þann 14 maí hafði vinnufólk vistaskipti. Þetta hefur verið í þriðju viku sumars samkvæmt íslenska árinu, en er nú alltaf miðað við Gregoríska árið. Hið einfalda og fasta form hjálpaði ólærðu fólki mjög mikið við að telja tímann rétt."
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.4.2019 | 19:40
The Totalitarian Tiptoe
Það er svo merkilegt að það hefur enginn þingmaður getað bent á hver ávinningurinn fyrir þjóðina er með því að samþykkja 3. orkupakkann. Þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið benda til þess að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar telji orkupakkann vondan, en ráðamenn þykjast vita betur og fara gegn þjóðarvilja.
Einna helst er á þingmönnum að skilja að hendur þeirra séu bundnar vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, frá 5. maí 2017, þar sem átta gerðir eru teknar upp í EES-samninginn og samþykkt af íslenskum embættismönnum með fyrirvara um samþykki alþingis.
Núverandi ríkisstjórn tók við völdum þann 30. nóvember 2017 eftir að nýtt alþingi hafði verið kjörið. Framsóknarmenn og VG liðar voru ekki í ríkisstjórn þegar embættismenn samþykktu ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar með fyrirvara um samþykki alþingis.
Til hvers er lýðræðið og til hvers eru kosningar, ef fara á eftir því sem embættismenn ríkisins skrifuðu undir, fyrir stjórnarskipti sem komu til eftir lýðræðislegar kosningar?
Eru það kannski svona aðferðir, sem notaðar eru til að hundsa lýðræðislegan vilja kjósenda, sem flokkast undir djúpríkið?
Það er engu líkara en blessaður sakleysinginn, sem situr á stólum ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra auk þess starfandi dómsmálaráðherra, viti hreinlega ekki hvað máltækið "að læða tánni inn fyrir þröskuldinn" merkir.
Og ætli að láta nægja að væna þá sem á það benda um að afvegaleiða umræðuna. Þegar skildan býður að skýra það út fyrir almenningi hvaða hag hann hefur af 3. orkupakkanum.
![]() |
Viljandi verið að afvegaleiða umræðuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.4.2019 | 12:06
Er Orkupakkinn Geysis-Glæsir genginn aftur?
Það er til er þjóðsaga sem segir frá draugnum Sandvíkur-Glæsi. Þessi draugur gekk ljósum logum austur á fjörðum, nánar tiltekið á svæðinu á milli Norðfjarðarflóa og Reyðarfjarðar. Hann var, eins og nafnið bendir til, kenndur við Sandvík.
Getgátur voru uppi um að Glæsir þessi ætti sér erlendan uppruna, væri sjórekinn kapteinn af erlendu skipi. Tvennum sögum fer af því hvort hann var bæði með lífsmarki og peningakistil þegar hann fannst. Kistillinn var talin mikilsvirði eftir að kapteinninn hafði geispað golunni og peningar voru einnig ástæða þess að draugurinn var uppvakinn. Glæsis nafnbótina fékk hann fyrir að vera uppá búinn með pípuhatt. Hann átti það til afturgenginn að taka ofan þegar hann mætti sveitavarginum á förnum vegi og fylgdi þá yfirleitt höfuðið hattinum.
Hvort Glæsir átti sök á því að landsvæðið þar sem hann gekk ljósum logum lagðist í auðn er ekki gott að segja. En ógæfunnar varð vart frá upphafi á næsta leiti við peningakistilinn og vissulega var Glæsir talin ein af ástæðum þess að ekki þótti þarna lengur búandi, þrátt fyrir búdrýgindi til lands og sjávar sem engin hafði efast um allt frá landnámi fram á 20. öld.
Nú til dags fara erlend glæsimenni með himinskautum og kaupa heilu sveitirnar fyrir klink í skottúrum á einkaþotum. Er þar skemmst að minnast Grímstaða-Glæsis, sem hefur auk þess keypt mest allan Vopnafjörð og hefur nú hafið fjárfestingar sínar á heiðum norðan Vatnajökuls sem helst hafa verið þekktar fyrir að vera sögusvið Bjarts, í Sumarhúsum sjálfstæðs fólks.
Grímsstaða-Glæsir er þekkur orkugrósser sem hefur auðgast gríðarlega á því sem kallað er fracking. Það er að sprengja jarðskorpuna með efnameðferð sem gerir grunnvatnið ódrykkjarhæft, en gefur af sér þeim mun verðmætara gas. Hvort sá Glæsir á eftir að fara þannig að ráði sínu á íslenskum öræfum er ósennilegt, ef eitthvað er að marka hans eigin orð.
Hann segist kaupa upp land til að vernda upptök vatnasvæðis villta laxins í Vopnafjarðaránum og hættir því væntanlega ekki landakaupum á Íslandi fyrr en hann verður kominn með fullt eignarhald á Vatnajökli. Grímstaða-Glæsir hóf reyndar svona landakaup í Skotlandi fyrir nokkrum árum án þess að átta sig á að þar var engin villtur lax lengur. Hefur hann frá þeirri uppgötvun átt í málaferlum vegna skerts nýtingaréttar síns á Skotlandi sem hann vill fá að breyta í Gasland.
Einnig er skemmst að minnast Magma draugagangsins sem upp vaktist skömmu eftir hið svokallaða hrun og hefur gengið ljósum logum norður á ströndum síðustu misserin undir nafninu HS orka. Engin virðist vita með vissu hverra manna Magma er en í alla staði er hann einstaklega byggða- og umhverfisvænn. Þeir Glæsir sem þar fara um byggðir er sennilega dugandi dreggjar þeirrar geispandi golu sem skottaðist til Tortóla eftir að Geysir Green Energy rauf skarð í eignarhald almennings á orkuauðlindum landsins, korteri fyrir hið svokallað hrun.
Nú stendur yfir draugagangur þjóðkjörinna fulltrúa á alþingi. Má allt eins segja að Geysis-Glæsir gangi þar aftur. Enda þeir mórar og skottur sem nú ríða röftum í húsum þjóðarinnar að mestu leiti sama hyskið og samanstóð af gamla landsliðinu í kúlu sem náði þeim einstaka árangri að kepp til heimsmeistaratignar í þjóðargjaldþroti.
Nú virðist það ætla að hafa sama háttinn á og Sandvíkur-Glæsir á árum áður, taka höfuðið ofan og hverfa svo með eldglæringum eftir að hafa platað inn á sveitavarginn neytendavernd ættaðri frá Brussel og koma á stofn sjálfu sér til sjálftöku þjóðarsjóð. Allt kemur þetta til með að losa þjóðina við allt umstang og áhyggjur af orkuauðlindinni til langra frambúðar en hvort unga fólkið yfirgefur athafnasvæði Glæsis og skilur eftir draugabyggðir á svo eftir að koma í ljós.
![]() |
Kúnstir að baki orkupakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.4.2019 | 19:32
Popúlismi sjálftökunnar
Nú stendur yfir leiftursókn þjóðkjörinna fulltrúar á alþingi gegn almenningi, gengur undir nafninu 3.orkupakkinn með "fyrirvara". Þar stendur til að markaðsvæða raforku til þjóðar sem á hana. Þar er þrástagast á því að ekkert breytist á meðan ekki er lagður strengur frá landinu til annarra landa, ákvörðunin um það verði áfram í höndum alþingis. Eins og orðum þeirra sem hafa "kjararáðssópað" ofan í eigin vasa með orðhengilshætti og útúrsnúningum sé treystandi.
Fyrir nokkrum árum bjó ég í Noregi, en þar er raforkukerfið tengt Evrópu. Þar kom fyrir 30% hækkun á rafmagni við það eitt að hitastigið úti fór niður fyrir frostmark í nokkra daga. Jafnvel þó svo að í Noregi sé framleidd meiri raforku en Norskur almenningur getur torgað. Kvörtunum var svarað með; markaðurinn ræður og hann er ekki bara í Noregi.
Í fimmta tölulið forsendna reglugerðarinnar um þriðja orkupakkann kemur fram að aðildarríkin geti í raun ekki gert neina fyrirvara eða sett aðrar lagalegar hindranir: "Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku."
Þessi orðanna hljóman er næg ástæða til þess að rétt sé hafna 3.orkupakkanum því að þeir fyrirvarar sem er sagt að eigi að tryggja hagsmuni Íslands koma ekki til með að halda. Ég hvet alla til að fara inn á www.orkanokkar.is þar sem er að finna undirskriftasöfnun þar sem skorað er á alþingismenn að hafna Orkupakka þrjú.
![]() |
Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.4.2019 | 19:41
Á fallegum degi
Það eru ekki allir svo heppnir að hafa tekið fleiri réttar ákvarðanir en rangar. En ég hygg æskufélagi minn eigi því láni að fagna. Hann hætti í skóla við fyrsta tækifæri og hóf sína atvinnuþátttöku. Við vorum skólabræður í barnæsku og unnum saman sem unglingar þar sem skilin urðu aldrei skír á milli leiks og starfs. Hann hélt sig við sitt, en ég sérhæfði mig í tómri steypu.
Á unglingsárum skildu leiðir um stund, en við vissum þó nokkuð vel af hvor öðrum. Fyrir nokkrum árum síðan höguðu örlögin því þannig að við lentum á sama vinnustað í steypunnar leik. Þessi félagi minn á flest það sem hugurinn girnist, s.s. einbýlishús, bíl og einkaflugvél, svo ekki sé minnst á góða konum.
Undanfarin ár hef ég notið góðs af réttum ákvörðunum félaga míns. Á góðum dögum á hann það til að spyrja ertu ekki til í að koma með í smá flugferð, það er að birta í suðri. Það er sama hvernig á stendur kostaboðum og sólskinstundum sleppir maður einfaldlega ekki. Í dag flugum við á milla fjalls og fjöru, skoðuðum fjallasali Austurlands og merlandi haf við vogskorna strönd.
Það eru ekki allir jafn heppnir að eiga kost á útsýnisflugi yfir falleg fjöll og fagra firði þegar veðrið er best. Þær eru að verð nokkrar flugferðirnar sem ég hef farið með félaga mínu, þar sem þrætt er á milli fjallstoppa og með sólgiltum ströndum. Það fer að verða svo að mér finnst vorið varla vera komið fyrr en til þess sést úr lofti.
Ég set hér inn nokkrar myndir frá deginum í dag. Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær.
Tekið á loft frá Egilsstöðum og haldið á vit heiðríkjunnar
þrætt á milli fjallanna "niður í neðra"
Djúpivogur, gamli heimabærinn
Eystra-horn, Hvalnes kúrir í króknum
Vestara-horn; Papaós, Horn, Stokksnes fjærst
Höfn í Hornafirði
Flogið við Fláajökul þar sem hann skríður niður af Vatnajökli
Yfir Vatnajökli
Frjáls á fjöllum
Fellabær t.v., Lagarfljótsbrú, Egilsstaðaflugvöllur t.h.
Ferðalög | Breytt 6.4.2019 kl. 06:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.4.2019 | 15:24
Gjaldþrota lífskjarasamningar
Það er varla að maður þori að leggja orð í belg á þessum helga degi þegar hver málsmetandi maðurinn um annan þveran keppist við að mæra nýgerða "lífskjarasamninga". Ég hygg þó að verkalýðsforinginn af skaganum fari nokkuð nærri því að hitta naglann á höfuðið þegar hann fer fram á afsökunarbeiðni frá hyskinu.
Það var hátt reitt til höggs gegn sjálftökuliðinu, sem sópar í sína eigin vasa, þegar kom að kröfugerð, sem þó verður að teljast hafa verið hógvær hvað varðar lægstu laun. Nú liggur það fyrir að lægstu laun hækka um 17.000 kr og 26.000 kr eingreiðsla kemur til í formi orlofsuppbótar.
Rúsínan í pilsuendanum varðandi láglaunafólkið er svo 10.000 kr skattalækkun sem kemur til framkvæmda í fyrsta lagi á næsta ári. Þangað til má láglaunafólk greiða 40-50% af sautjánþusundkallinum og orlofseingreiðslunni í skatta og gjöld.
Varðandi vexti og verðtryggingu er orðalagið svo loðið að finna má mun meira afgerandi orðalag um bætta tíð húsnæðislánþega í stefnuskrám þeirra stjórnmálaflokka sem setið hafa í ríkisstjórn síðustu 10 ár. Ríkisstjórnin ætlar að "skoða", "huga að", "athuga í samráði við sérfræðinga", "skoða aukna hagræna hvata" osfv. frá árinu 2020.
Í upphafi skildi endirinn skoða. Það var lagt af stað með að lægstu laun næðu 425.000 kr, nú er komið í ljós að þau verða 368.000 eftir fjögur ár. Hækka strax um heil 30% eða sautján þúsund sem gerir tæp tíuþúsund eftir skatt og gjöld, þannig að sjálftökuliðið og verkalýðsfélögin fá strax sínar hækkanir að moða úr á meðan lálaunafólkið má bíða eftir rúsínunni í pilsuendanum að minnstakosti fram á næsta ár.
Hvorki sjálftökuliðið, með sínar mörghundruðþúsunda launahækkanir hviss bang, né verklýðsforingjar hafa haft hugmyndaflug til að taka út sín laun á jafn varkáran hátt og þeir ætla umbjóðendum sínum, þar hefur eingreiðslurnar jafnvel verið hafðar aftur í tímann. Það virðist ætla að nægja sjálftökuliðinu að lækka laun tveggja kvenmanna í bankastjórastöðum til að fleyta sér í gegnum brotsjóinn með fenginn hlut.
Það kæmi mér ekki á óvart í ljósi gjaldþrots WOW, sem á að hafa vakið ábyrgð og hógværð allra við lífskjarasamningaborðið, fólks á margföldum lágmarkslaununum, hafi markað upphafið að endanlegu gjaldþroti verkalýðshreyfingarinnar.
![]() |
Ættu að biðja okkur afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2019 | 18:23
Loftbóla verður að vindhana
Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum síðan að það ætti eftir að setja stofn Loftslagsráð ríkisins.
"Í frumvarpinu er í fyrsta skipti kveðið á um loftslagsráð í lögum og tekið fram að ráðið sé sjálfstætt og óhlutdrægt í störfum sínum." Og það á vegum ríkisins.
Ja hérna hér er orðið eintómt loft á milli eyrnanna á fólki?
![]() |
Kveðið á um loftslagsráð í fyrsta sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2019 | 06:26
Orkupakkinn með fyrirvara andskotans
"Það sem var kynnt hér fyrir helgi snýst í raun og veru um það að á meðan Ísland er ekki tengt inn á þetta orkukerfi Evrópu, eigi ekki við ákvæði þriðja orkupakkans", sagði forsætisráðherra sem jafnframt benti á að tenging við orkukerfi Evrópu yrði ekki komið á nema með samþykki alþingis. Með þessháttar útúrsnúningi sleppa stjórnmálamenn ævinlega við að svara spurningunni, til hvers á alþingi Íslendinga að samþykkja framsal á orkuauðlindum landsins, og þá sérstaklega ef samþykktin skiptir engu máli.
Það er þrástagast á því að ekkert breytist á meðan ekki er lagður strengur frá landinu til annarra landa, ákvörðunin um það verði áfram í höndum alþingis. Eins og orðum þeirra sem hafa "kjararáðssópað" ofan í eigin vasa með orðhengilshætti og útúrsnúningum sé treystandi. Fólki sem einna helst verði trúað til að ganga fyrir mútum þegar það andskotast við að koma orkuauðlindum landsins á markað.
Staðreyndin er að nú stendur til leiftursókn þjóðkjörinna fulltrúar á alþingi gegn almenningi, gengur nú undir nafninu 3.orkupakkinn með "fyrirvara". Þar stendur til að markaðsvæða raforku til þjóðar sem á hana. Eftir að ACER regluverk ESB hefur verið samþykkt þá þurfa þjóðkjörnir fulltrúar ekki einu sinni að svara fyrir það hvers vegna sérvaldir gæðingar fá að sópa til sín verðmætum úr sameiginlegri auðlind.
Fyrir nokkrum árum bjó ég í Noregi, en þar er raforkukerfið tengt Evrópu. Þar kom fyrir 30% hækkun á rafmagni við það eitt að hitastigið úti fór niður fyrir frostmark í nokkra daga. Jafnvel þó svo að í Noregi sé framleidd meiri raforku en Norskur almenningur getur torgað. Kvörtunum var svarað með; markaðurinn ræður og hann er ekki bara í Noregi.
Þegar auðlindir eru teknar frá þeim sem í þeim búa þá er það kallað markaðsvæðing og á að vera til þess að finna út svokallað markaðsverð. Ef 3.orkupakkinn verður samþykktur þá er ekki einu sinni víst að það þurfi alvöru "kapal" til að finna út "markaðsverð" það verði nóg að vitna til ACER.
Þeirra tilskipanir gilda. Innlendir viðskiptajöfrar, svipaðir þeim sem fóru fyrir Geysir Green Energy korter fyrir "hið svokallaða hrun", útbúa svo markaðsverðið samkvæmt "Sterling uppskriftinni". Og geta með því að vísa í ACER regluverkið komið sæstreng í gegnum dómstóla þegar þeim sýnist, svona rétt eins og hverjir aðrir kvótakóngar.
Ef einhver áttar sig ekki á því hvernig "kapallinn" verður lagður svo hann gangi upp, þá er ekkert nýtt undir sólinni. Svona markaðsvæðing með "fyrirvara ríkis" hefur verið framkvæmd áður og var á sínum tíma kölluð ENRON svindlið. Þar var raforka almennings snarhækkuð með sýndarviðskiptum og "fyrirvara samþykki" annaðhvort fábjána eða gjörspilltra andskota, nema hvoru tveggja hafi verið.
Í bréfi sem orkumálastofnunin (FERC) sendi segja rannsóknarmenn stofnunarinnar að skjölin lýsi hvernig undir svokallaðri Helstirnisáætlun hafi fjárfestar Enron skapað, og síðan létt af, ímyndaðri vöntun á orkuneti ríkisins. Samkvæmt New York Times lýsa skjölin einnig í smáatriðum því sem rannsóknarmenn lýstu sem megavattaþvætti þar sem Enron keypti rafmagn í Kaliforníu á lægra verði seldi rafmagnið út úr ríkinu og keypti það síðan aftur til að selja það til baka til Kaliforníu á uppsprengdu verði. Með því að selja Kaliforníuríki rafmagn frá öðru ríki gat Enron farið í kringum verð,,,,,
Á bloggsíðu Jónasar Gunnlaugssonar má lesa nánari lýsingu á því hvernig raforka Kaliforníubúa var markaðsvædd með svindli, sjá hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.3.2019 | 20:32
Þeir litu blóðs í pollinn
Um Hvítasunnuleitið árið 1784 var ógeðfellt morð framið í grennd við syðsta bæ í Breiðdalshreppi, Streiti á Berufjarðarströnd, eftir að þrír ungir menn lögðust út og hugðust lifa í félagi sem útilegumenn, inn í atburðarásina blandaðist síðar fjórði austfirski unglingurinn. Örlögin höguðu því þannig að allir þessir ungu menn tíndu lífinu í framhaldi þessa Hvítasunnumorðs. Síðasta opinbera aftakan á Austurlandi var lokakaflinn í þeirri atburðarás, þegar einn þessara ungu manna var aflífaður á hroðalegan hátt á Eskifirði rúmum tveimur árum seinna. Sagan hefur ekki farið fögrum orðum um ævi og örlög þessara drengja, en spyrja má hverjir voru valkostirnir.
Árferðið 1784 var eitt það versta sem á Íslandi hefur dunið, móðuharðindin voru þá í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á lífskjörum fólksins í landinu. En árið 1783 hófust eldsumbrot á Síðumannaafrétti í Lakagígum sem sagan kallar Móðuharðindin. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um mitt sumar, hraunflóð vall fram milli Síðu og Skaftártungu með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og flókið úr flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja átthaga sína, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fénaður kom magur af fjalli ef ekki horaður og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þegar fallinn.
Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins þrjár kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Melarakkasléttu, reikaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyflin í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu. Mannfólkið var svipað leikið um vorkomuna 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði auk blóðkreppusóttar og annarra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli sveita og bæja. Þetta sumar gengu menn víða um land fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.
Ofan á þessar hörmungar bætast svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, þegar fjöllin hristu af sér jarðveginn svo gróðurtorfurnar lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bóndabæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu. Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Þó greina annálar frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið hvað skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.
Djúpivogur
Þann 10. júní 1784 var Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga staddur á Djúpavogi, en hann var búsettur á Eskifirði. Þar sem hann var í kaupmannshúsinu hjá Grönvolt ritaði hann bréf til dönsku stjórnarinnar sem átti að fara með verslunarskipinu sem lá við ból úti á voginum, ferðbúið til Kaupmannhafnar. Gripið er hér niður í bréf sýslumanns; , .. tel ég það mína embættisskyldu að skýra hinu háa stjórnarráði stuttlega frá óheyrilegu eymdarástandi þessarar sýslu, sem orsakast ekki aðeins af feiknarlegum harðindum tveggja undangenginna ára, heldur hefur dæmalaus ofsi síðastliðins vetrar þreifanlega á því hert; því eftir að napur kuldi ásamt viðvarandi öskufalli og móðu af völdum eldgosa höfðu kippt vexti úr gróðri, þá þegar örmagnað búpeninginn sem fitna átti á sumarbeitinni, skall hér á strax um Mikjálsmessu (þ.e. 29. sept) svo harður vetur, að hann gerist sjaldan bitrari í marsmánuði. Hlóð þegar miklum snjó í fjöll og dali, svo að fé fennti víða á svipstundu.
Menn urðu að hætta heyskap í miðjum klíðum. Heyið lá undir snjó og spilltist. Lestir á leið að höndlunarstöðum komust ekki leiðar sinnar, en urðu að láta þar nótt sem nam. Þeir sem voru á heiðum uppi misstu ekki aðeins hesta sína úr hungri, heldur skammkól þá sjálfa í frostinu. Veðurfar þetta hélst fram í miðjan nóvember, er heldur brá til hins betra. Með nýári hófst miskunnarlaus vetrarharka með langvinnum stormum og fannfergi og svo óstjórnlegu frosti, að um 20. febrúar hafði alla firði lagt innan úr botni til ystu nesja, en slíks minnast menn ekki næstliðið 38 ár. Hér við bætist hafísinn, sem hinn 7. mars þakti svo langt sem augað eygði af hæstu fjallstindum, og hélst þessi ótíð fram á ofanverðan apríl, að heldur hlýnaði í lofti, þó ekki nóg til þess að fjarðarísinn þiðnaði eða hafísinn hyrfi frá landi fyrr en í maímánaðarlok.
Sauðfé og hross, sem hjarað höfðu af harðærin tvö næst á undan og fram á þennan ódæma harða vetur féll nú víðast hvar í sýslunni... Búendur á hinu kunna Fljótsdalshéraði, sem áður voru fjáðir og gátu sent 5-8 eða 10 hesta lestir í kaupstað, verða nú að fara fótgangandi um fjöll og heiðar og bera á sjálfum sér eina skeppu korns í hverri ferð... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti, flakk og þjófnaður ágerist svo, að ég hef síðan manntalsþing hófst haft auk annarra, sem refsað hefur verið, tvo sakamenn í haldi, sem dæma verður til Brimarhólmsþrælkunar, af því hesta er hvergi að fá til að flytja þá í fangahús landsins...
Landsbóndinn hefur misst búfjáreign sína, og missir hrossanna gerir honum með öllu ókleift að stunda atvinnu sína eða afla sér brauðs, þótt í boði væri. Sjóarbóndinn svonefndi, sem um mörg undanfarin ár hefur eins og hinn að mestu lifað af landsins gæðum, er engu betur settur...; verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema Yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara Yðar þrautpíndu fátæku undirsáta á eftirfarandi hátt.
1. Að kaupmenn konungsverslunarinnar hér í sýslu fengju með fyrsta skipi skýlaus fyrirmæli um að lána öllum bændum sýslunnar undantekningalaust nauðsynjavörur, þó í hlutfalli við þarfir og fjölda heimilisfólks.
2. Að Yður náðarsamlegast þóknaðist að gefa fátæklingunum í hreppunum, þeim sem annars féllu, tiltekinn skammt matvæla, þar sem lán sýnist ekki mundu verða til annars en sökkva þeim í skuldir, sem aldrei yrði hægt að borga
3. Eða, að Yður allramildilegast þóknaðist að flytja héðan það fólk, sem komið er á vergang og vinnufært teldist, annað hvort til Danmerkur eða annarra staða hérlendis, þar sem betur kynni að horfa, til að létta þá byrði sem það er á örsnauðum fjölskyldum, sem þreyja á býlum sínum, og bjarga þannig dýrmætu lífi margrar óhamingjusamrar manneskju, er ella hlyti að hníga í valinn ríkinu til tjóns...
Það er í þessu árferði, á uppstigningardag, sem þrír ungu menn hittast á Hvalnesi við sunnan verðan Stöðvarfjörð og eru sagðir hafa gert með sér félag um að leggjast út. Sá elsti þeirra hét Eiríkur Þorláksson fæddur á Þorgrímsstöðum í Breiðdal árið 1763 og vistaður hjá séra Gísla Sigurðssyni á Eydölum. Umsögn séra Gísla um Eirík var á þann veg; að hann væri latur, áhugalaus um kristin fræði, hneigður til stráksskapar, þjófnaðar og brotthlaups úr vistum. Eiríkur hafði, þegar hér kemur sögu, hrökklast úr vist við norðanverðan Reyðarfjörð á útmánuðum. Hann hafði verið hjá Marteini Jónssyni útvegsbónda í Litlu-Breiðuvík í Helgustaðahreppi, sem var sagður valinkunnur maður, og sjósóknari í betra lagi, ekki er ólíklegt að Eiríkur hafi róið með Marteini og hafi því hrakist til neyddur úr góðri vist.
Sá yngsti þeirra þriggja var Gunnsteinn Árnason, fæddur 1766, frá Geldingi (sem heitir Hlíðarendi eftir 1897) í Breiðdal. Hann hafði dvalist með foreldrum sínum framan af æfi en þau annaðhvort flosnað upp eða fyrirvinnan látist, var honum fyrirkomið sem niðursetningi á Þverhamri í Breiðdal um 12 ára aldurinn. En síðast settur niður á Einarstöðum við norðanverðan Stöðvarfjörð (þar sem þorpið á Stöðvarfirði stendur nú) og hafði þaðan hrakist í apríl byrjun. Eftir það hafði hann dregið fram lífið á flakki á milli bæja allt frá Breiðdal í Fáskrúðsfjörð. Umsögn séra Gísla á Eydölum um Gunnstein er á þann veg að hann teljist læs en latur og kærulaus um kristin fræði.
Þriðji ungi maðurinn sem kom þennan uppstigningadag í Hvalnes var Jón Sveinsson frá Snæhvammi í Breiðdal sennilega fæddur 1764. Sagður á sveitarframfæri eftir að hafa misst föður sinn sem fór niður um ís á Breiðdalsá 1772. Hann er þó skráður sá eini af fjölskyldu sinni hjá föðurbræðrum sínum í Snæhvammi 1771, svo ef til vill hefur fjölskyldunni verið tvístrað áður en faðir hans fórst. Bræður hans eru síðar skráðir niðursetningar víða um Breiðdal, en hann niðursettur að Ánastöðum 10 ára gamall og síðar í Flögu og Eyjum, en eftir það hjá Birni föðurbróðir sínum í Snæhvammi. Þennan uppstigningardag á Hvalnesi leikur grunur á að Jón hafi verið orðinn sjúkur og máttlítill. Haft var eftir Jóni Árnasyni í Fagradal sem hafði hitt nafna sinn skömmu áður, að hann hafi verið magur, en þó gangfær, og ekki kvartað um veikindi.
Eins og greina má af opinberum lýsingunum höfðu þeir félagar ekki átt sjö dagana sæla. Enda hafa þeir sem minna mega sín, allt frá fyrstu hallærum Íslandssögunar, átt verulega undir högg að sækja. Sagnir herma að fyrsta hungursneiðin eftir að land byggðist hafi verið kölluð óöld (975) Þá átu menn hrafna og melrakka og mörg óátan ill var þá étin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir drepnir. Í Flateyjarbók segir að árið 990 hafi verið svo mikið hallæri á Íslandi, að fjöldi manna hafi dáið úr sulti. Þá var samþykkt á héraðsfundi í Skagafirði, að reka út á gaddinn öll gamalmenni og vanheila, og banna að veita þeim hjálp. (En Arnór kerlinganef, sem kannski var kallaður svo vegna afstöðu sinnar, kom í veg fyrir að þetta væri gert). Því þarf kannski ekki að koma á óvart, miðað við árferðið þetta vor, að þessir þrír ungu menn hafi látið sig dreyma um betra líf sem útilegumenn.
Þeir félagar Eiríkur, Gunnsteinn og Jón lögðu upp frá Hvalnesi við Stöðvarfjörð að kvöldi uppstigningardags þann 20 maí 1784, sennilega án þess að nokkur sakanaði þeirra, enda vafalaust lítið til skiptana handa gestum og gangandi í því árferði sem ríkti, hvað þá handa ómögum. Fóru þeir fyrir Hvalnesskriður(nú er algengara að kalla bróðurpart lands Hvalness við Stöðvarfjörð, Kambanes, og hluti fyrrum Hvalnesskriða er kallaður Kambaskriður). Þar hefur hafísinn lónað úti fyrir ef marka má bréf Jóns sýslumanns. Þeir fóru yfir í Snæhvamm í Breiðdal og eru sagðir hafa gist þar hjá frændum Jóns. Síðan fara þeir yfir í Þverhamar og sagði Gunnsteinn þá hafa gist í fjósinu, hafa kannski ekki gert vart við sig hjá Höskuldi hreppstjóra Breiðdælinga þar sem Gunnsteinn hafði verið niðursettur nokkru fyrr. Á þriðja degi fluttu þeir sig suður í Krossdal gegnt Breiðdalseyjum þar sem þeir hafast við í kofa eina nótt og þaðan fara þeir upp í miðja kletta í fjallinu Naphorni á Berufjarðarströnd, við Streiti syðsta bæ í Breiðdalshreppi. Þar gerðu þeir sér sér byrgi og bjuggu um sig upp í klettarák. Þegar þarna var komið var Jóni Sveinssyni ekki farið að lítast á blikuna og vildi draga sig úr félagskapnum. Enda orðin það sjúkur að hann taldi sig betur kominn í byggð. Eiríkur aftók það með öllu.
Neðst á myndinni má greina bæinn Streiti þar sem hann kúrir undir Naphorninu
Í fyrstu reyndu þeir að seðja hungrið með því að grafa upp hvannarætu ofan við klettana við Streiti, þar sem Stigi heitir, en fóru fljótlega heim að Streiti, rufu þar þak á útihúsi og stálu fiski og kjöti. Jón stóð álengdar en tók ekki þátt vegna sjúkleika og máttleysis. Vildi hann fara heim að bæ og leita þar hjálpar. En félagar hans vantreystu honum og tóku hann aftur með sér upp í klettana í Naphorninu, þar sem þeir lágu fyrir næstu daga. Jón fór þar úr öllum fötunum og fór að leit á sér lúsa. Það, og vegna þess hvað hann var orðin veikur og vælgjarn, virðist hafa orðið til þess að Eiríkur stekkur að honum, kannski í bræðikasti, hefur hann undir, sker úr honum tunguna og stingur hann síðan með hnífnum í brjóstið. Gunnsteinn segist hafa látið sem hann svæfi og ekki hafa séð svo gjörla hvað fram hafi farið á milli þeirra Eiríks og Jóns. En þarna var samt enn óljóst hvort Jón var lífs eða liðin, þegar þeir félagar yfirgáfu hann eftir að hafa hent fötum hans yfir hann.
Héldu þeir Eiríkur og Gunnsteinn síðan af stað inn Berufjörð og fengu sig ferjaða yfir fjörðinn við þiljuvelli. Segir lítið af ferðum þeirra fyrr en suður í Álftafirði, þar sem þeir voru fljótlega handteknir vegna suðaþjófnaðar á Melrakkanesi. Á Geithellum, þann 12. Júní, dæmir Jón Sveinson sýslumaður þá Eirík og Gunnstein til húðstrýkingar fyrir suðaþjófnað, en um þetta leiti hefur hann verið á ferð við Djúpavog eins og bréf hans til Stjórnarinnar í Kaupmannahöfn þann 10. júní ber með sér hér að ofan. Kannski hafa þeir tveir verið sakamennirnir sem hann telur í bréfinu að verði að dæma til Brimarhólmsvistar en endirinn á verið húðstrýking þar sem engir hestar hafi verið tiltækir til flutninga á föngum.
Þegar það svo fréttist í Breiðdal að þeir félagar hafi verið handteknir í Álftafirði vekur það undrun að Jón skuli ekki hafa verið með þeim. Gunnsteinn sagði frá því í Álftafirði að Jón hafi verið með þeim í upphafi útilegunnar en þeir hafi skilið við hann á milli Streitis og Núps þar sem hann hafði viljað leita sér hjápar vegna lasleika. Þegar Gunnsteinn kom svo aftur í Breiðdal að áliðnu sumri játaði hann fyrir séra Gísla í Eydölum og Höskuldi hreppstjóra á Þverhamri, hvar lík Jóns myndi vera að finna. Voru tveir menn á Streiti fengnir með þeim Gísla, Höskuldi og Gunnsteini til að sækja líkið eftir leiðsögn Gunnsteins. Aðkoman var ekki geðsleg, líkið var kvikt af maðki og lyktin óbærileg. Samt báru þeir það niður úr illfærum klettunum og létu það í stokk sem þeir höfðu haft meðferðis. En ekki fóru þeir með líkið strax heim að Streiti vegna myrkurs, og dróst það í tvær vikur að vitja um stokkinn. Þegar það var svo loksins gert var ekki lengur hægt að sjá neina áverka á líkinu, því maðkurinn hafði ekkert annað skilið eftir en beinin og sinarnar sem tengdu þau saman.
Eskifjörður
Samt sem áður gekkst Eiríkur við verknaðnum eftir að Gunnsteinn hafði greint frá viðskiptum þeirra Jóns. Þeir félagar voru þá fluttir til Eskifjarðar þar sem Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga fékk málið til frekari meðferðar. Að rannsókn lokinni dæmdi sýslumaður Eirík til dauða sem morðingja, en Gunnsteinn í ævilanga þrælkun sem vitorðsmann. Þar til dómur yrði staðfestur átti að geyma þá í dýflissu sýslumanns á Eskifirði. Með þeim þar í haldi var Sigurður Jónsson 18 ára unglingur úr Mjóafirði, sagður ólæs og skrifandi, sem hafði náðst á flakki og verið dæmdur vegna þjófnaðar í Helgustaðahreppi.
Þessi ungi Mjófirðingur er ekki talin hafa verið neinn venjulegur þjófur eða hreppsómagi, því þjóðsagan telur hann hafa legið úti í nokkur ár, og skýrir það kannski hvers vegna hann var fangelsaður með þeim Eiríki og Gunnsteini en ekki hýddur og sendur heim í sína sveit. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar má lesa þetta um Sigurð; gjörðist hann útileguþjófur og hafðist við í ýmsum stöðum í Suðurfjarðafjöllum, helst þó í kringum Reyðarfjörð; var oft reynt að höndla hann, en varð ekki, því þó að vart yrði við bústað hans í einhverjum stað og þar ætti að grípa hann, þá var hann allur í burt er þangað kom, en víða fundust hans menjar; til að mynda í skútum þar í fjalli einu sem kölluð eru Glámsaugu fundust átján kindagærur, enda var haldið að hann hefði þar dvalið einna lengst. En er hann hafði haldið þessu tvö eða þrjú ár kom harður vetur og varð hann þá bjargþrota og orðinn mjög klæðlaus, leitaði því ofan til byggða og fór að stela sjófangi út hjöllum þeirra Reyðfirðinga; og þá gátu þeir tekið hann og færðu hann fanginn til sýslumanns,,, Þeir þremenningar struku úr dýflissunni eina nóvember nótt, og stálu sér til matar frá sýslumanni. Félagarnir lögðu svo af stað í glórulausum hríðarbyl, daginn eftir voru þeir handteknir úti í Helgustaðahreppi eftir að bóndinn í Sigmundarhúsum hafði orðið þeirra var í útihúsum og boðið þeim heim með sér í mat um morguninn, en lét senda skilaboð til Jóns sýslumanns í laumi.
Eftir þetta voru þeir fluttir á nýjan stað, til vetursetu í byrgi sem sýslumaður lét gera við bæinn Borgir sem var sunnan Eskifjarðarár gegnt Eskifjarðarbænum. Fangageymslan var lítið annað en hola þar sem var hægt að láta mati niður um gat í þakinu. Þar tókst ekki betur til en svo að þeir Gunnsteinn og Sigurður dóu báðir úr hungri, en Eiríkur var þeirra hraustastur og át þann mat sem kom í byrgið. Talið er að hann hafi setið við gatið, þegar von var matar og félagar hans aðeins fengið naumar leifar þess sem hann ekki át. Sagt var að sýslumannsfrúin hafi séð um matarskammtinn og var haft eftir Eiríki að svo naumt hafi frúin skammtað, að maturinn hefði rétt dugað handa sér einum.
Fremur hljótt var um þennan atburð og sýslumaður var í slæmum málum vegna þessa, er jafnvel talið að hann hafi látið dysja hina horföllnu fanga með leynd undir steini skammt frá byrginu um leið og uppgötvaðist hve slysalega hafði tekist til við fangavörsluna. Þjóðsagan segir vandræði sýslumanns hafa verið mikil vegna þessa hungurmorðs: En eftir það brá svo við að Sigurður fór að ásækja sýslumann á nóttunni svo hann gat ekki sofið. Var þá tekið það ráð sem algengt var við þá er menn hugðu mundu aftur ganga, að lík Sigurðar var tekið og pjakkað af höfuðið með páli og gengu svo sýslumaður og kona hans milli bols og höfuðs á honum og höfuðið að því búnu sett við þjóin og bar ekki á Sigurði eftir það. Sagt er að skriða úr Hólmatindinum hafi rótað ofan af beinagrindum þeirra Sigurðar og Gunnsteins á 19. öld og hafi mátt sjá þar tvær hauskúpur og mannabein á stangli, liggja fyrir hunda og manna fótum allt fram undir 1940.
Um sumarið (18. júlí 1785) var kallaður saman héraðsdómur til að staðfesta dóm sýslumanns yfir Eiríki, var þar staðfest að Eiríkur skildi klipinn fimm sinnum með glóandi töngum á leið á aftökustað, þá handarhöggvinn og síðan hálshöggvinn. Hönd og höfuð skildu sett á stjaka, öðrum vandræða mönnum til eftirminnilegrar aðvörunar. Að réttum landslögum hefði Eiríkur átt að koma fyrir Öxarárþing til að staðfesta dóminn. En þar sem kostnaður sýslumanns af föngunum var nánast allar tekjur hans af sýslunni fékk hann því breytt og dómurinn var staðfestur heima í héraði, enda tvísýnt að nothæfir hestar hefðu fengist til að flytja fanga þvert yfir landið. En þetta var þó gert með þeirri viðbót að aftakan mætti ekki fara fram fyrr en fyrir lægi konungleg tilskipun. Þann 20. janúar 1786 staðfesti konungurinn í Kristjánsborg dóminn endanlega með þeirri mildun að Eiríkur yrði ekki klipinn með glóandi töngum en dómurinn skildi standa að öðru leiti. Svo virðist sem sýslumaður hafi ekki fengið tilkynningu um úrskurð konungs fyrr en undir haust og virðist því sem sýslumaður hafi setið uppi með Eirík ári lengur en hann hugðist gera með því að óska eftir að dómurinn yrði staðfestur í héraði.
Þann 30. september 1786 var Eiríkur Þorláksson tekin af lífi á Mjóeyri við Eskifjörð þá 23 ára gamall. Erfiðlega hafði gengið að fá mann í böðulsverkið, en seint og um síðir hafði verið fenginn maður að nafni Björn frá Tandrastöðum í Norðfirði og fékk hann 4 ríkisdali og 48 skildinga að launum. Hann var kallaður eftir þetta Björn Tandri eða Karkur, sagður hrikalegur á velli og hranalegur í orði. Eftir munnmælum var hann búinn að drekka talsvert áður en embættisverkið hófst. Eins segja sumar sagnir að það hafi verið eldhús saxið í Eskifjarðarbænum sem notað var til aftökunnar. Björn Tandri lagðist í flakk síðari hluta ævi sinnar og eiga börn að hafa verið hrædd við hann því að sú saga fylgdi honum að hann hefði drepið mann, enda síðasti böðullinn á Austurlandi.
Fátt er til í opinberum plöggum um aftökuna sjálfa, eða hversu fjölmennt þar var. Til siðs var að viðstaddir væru aftökur á Íslandi annað hvort biskup eða prestur, séra Jón Högnason á Hólmum við Reyðarfjörð uppfyllti þetta ákvæði og var þar allavega viðstaddur ásamt Jóni Sveinssyni sýslumanni. Varla þarf að efast um að hönd Eiríks og höfuð hafa verið fest á stangir til sýnis að aftökunni lokinni almenningi til viðvörunar. Sýslumaður hafði sett mann sem umsjónarmann verksins sem hét Oddur, og var sagður hreppstjóri frá Krossanesi við Reyðarfjörð.
Til er handrit eftir Einþór Stefánsson frá Mýrum í Skriðdal sem hann skráði niður eftir munnmælasögum um atburði þessa. Þó svo margt í þeim sögum sé ekki samkvæmt því sem fram kemur í opinberum heimildum hvað sum nöfn og atburði varðar, er þó greinilegt við hvað er átt. En í handriti Einþórs stendur þetta um það sem gerðist Eskifirði þennan haustdag.
Mjóeyri
Hófst nú Oddur handa um undirbúning aftökunnar. Skyldi hún fara fram á Mjóeyri við Eskifjörð. Böðull sýslumanns var til kvaddur, en hann færðist undan að vinna á Eiríki og kvað sig skorta hug til þess. Böðull þessi nefndist Bergþór og bjó á Bleiksá, býli við Eskifjörð. Þorsteinn hét maður úr Norðfirði, er hafði flakkað víða og var nokkuð við aldur, er þetta gerðist. Bauð hann sýslumanni að vinna böðulsverkið, og var það boð þegið. Öxi var fengin að láni hjá kaupmanni á Eskifirði.
Þegar lokið var öllum undirbúningi aftökunnar, fór Oddur hreppstjóri með tilkvadda menn að Borgum til að sækja fangann. Voru þeir allir mjög við vín. Er þangað kom, sat Eiríkur í fangelsinu og uggði ekki að sér, enda hafði honum ekki verið birtur dómurinn. Lét Oddur binda hendur hans, kvað hann eiga að skipta um verustað og lét gefa honum vín. Hresstist þá Eiríkur og varð brátt kátur mjög; þótti honum sem sinn hagur mundi nú fara batnandi. Var svo haldið af stað áleiðis til Mjóeyrar, en það er æðispöl að fara.
Gekk ferðin greitt, uns komið var í svonefnda Mjóeyrarvík. Þá mun Eirík hafa farið að gruna margt, enda hefur hann líklega séð viðbúnaðinn á Mjóeyri og menn þá, er þar biðu. Sleit hann sig þá lausan og tók á rás, en Oddur og menn hans náðu honum þegar í stað. Beittu þeir hann harðneskju og hrintu honum áleiðis til aftökustaðarins. Eggjaði Oddur menn sína með þessum orðum: Látum þann djöful hlýða oss og landslögum.
Var Eiríkur síðan hrakinn út á eyrina, þar sem biðu hans höggstokkurinn og öxin. Allmargt manna var þar saman komið, meðal þeirra skipstjóri og einhverjir skipverja af dönsku kaupfari, sem lá á firðinum. Er Eiríkur var leiddur að höggstokknum, trylltist hann og bað sér lífs með miklum fjálgleik. En Oddur og menn hans létu hann kenna aflsmunar og lögðu hann á stokkinn. Eiríkur hafði hár mikið á höfði; tók Oddur þar í báðum höndum og hélt höfðinu niðri. Skipaði hann síðan Þorsteini úr Norðfirði að vinna sitt verk. Þorsteinn brá við hart, en svo illa tókst til, að fyrsta höggið kom á herðar Eiríki og sakaði hann lítt. Þá reið af annað höggið og hið þriðja, og enn var fanginn með lífsmarki.
Oddur hreppstjóri skipaði nú böðlinum að láta hér staðar numið, eða hvað skal nú gera, mælti hann, samkvæmt lögum má ekki höggva oftar en þrisvar. Þá gekk fram skipstjórinn danski, leit á fangann, sem var að dauða kominn, og skipaði að binda skyldi endi á kvalir hans án frekari tafar. Hjó þá Þorsteinn ótt og títt, og fór af höfuðið í sjöunda höggi. Skipstjórinn leit þá til Odds og mælti: Drottinn einn veit, hvor ykkar hefur fremur átt þessa meðferð skilið, þú eða fanginn. Ef ég hefði ráðið, skyldir þú hafa fylgt honum eftir. Lík Eiríks var síðan grafið á Mjóeyri.
Um þennan atburð varð til vísan;
Öxin sem Eiríkur var höggvin með er sögð hafa verið til í verslun á Eskifirði fram til 1925 og á að hafa verið notuð þar sem kjötöxi. Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland þann 30. desember 2015 urðu miklar skemmdir vegna sjávargangs á Eskifirði. Sjór braut þá á leiði Eiríks Þorlákssonar sem hefur verið á Mjóeyri allt frá því að þessir atburðir gerðust. Vitað var með vissu alla tíð hvar hann hvílir, þó svo að menn hafi talið sig þurft að staðfesta það með því að grafa í leiðið. Var það gert í upphafi 20. aldar að viðstöddum þáverandi héraðslækni á Eskifirði. Þá var komið niður á kassa úr óhefluðum borðum sem innhélt beinagrind af manni sem hefur verið meira en í meðallagi. Hauskúpa lá við hlið beinagrindarinnar og var hún með rautt alskegg.
Frásagnir af atburðum þessum bera það með sér að Eiríkur Þorláksson hefur verið hraustmenni sem komst lengur af en félagar hans, við ömurlegar aðstæður. Lokaorð Einars Braga rithöfundar, sem gerir þessum atburðum mun gleggri skil í I. bindi Eskju, eiga hér vel við sem lokaorð. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér. Við nútímamenn áfellumst ekki þessa ógæfusömu drengi. Kannski hefðu þeir við hliðhollar aðstæður allir orðið nýtir menn. En þeir urðu fórnarlömb grimmilegrar aldar, sem ekkert okkar mundi vilja lifa. Meinleg forlög sendu þá í þessa byggð til þess eins að þjást og deyja.
Leiði Eiríks Þorlákssonar á Mjóeyri við Eskifjörð
Efnið í þessa frásögn er fengið úr; Öldin átjánda, Eskja I. bindi, Þjóðsögum Jóns Árnasonar, Landnámið fyrir landnám - eftir Árna Óla, handriti Einþórs Stefánssonar sem hefur birst víða og þætti Þórhalls Þorvaldssonar af síðustu aftökunni á Austurlandi.
19.3.2019 | 19:06
Óupplýst morð við Hafnarnes
Þetta mátti lesa í Þjóðólfi 11. júlí 1878; Morðfréttir eystra. Um fardagaleytið fóru fjórir menn á, báti úr Fáskrúðsfirði til Djúpavogs að sækja veislukost ofl.; þeir tóku út vöruna og sneru 3 heimleiðis með bátnum en 1 varð eftir. Skömmu síðar kom inn á Djúpavog frönsk jakt og hafði með sér nefndan bát og nakin lík hinna þriggja manna, og höfðu þeir sýnst myrtir (kyrktir), og sést meiðsl á, þeim öllum. Allt annað sem í bátnum átti að vera, var horfið, er Frakkar skiluðu honum, höfðu þeir sagt, að einhver dugga hefði verið að leggja frá bátnum, er þeir sáu fyrst til hans, en ekki höfðu þeir getað séð nafn á því skipinu fyrir fokku sem hékk fyrir, og ekki kannast við, að það hefði verið franskt. Kaupmaður Weywadt á Berufirði hafði þegar sent orð hinu franska herskipi, er lá þar eystra, og hafði Þá þegar lagt af stað til að leita morðingjanna.
Viku seinna var þetta í Ísafold; Morðsagan af Austfjörðum, er hér hefur gengið staflaus um hríð og komist í Þjóðólf, er eintómur tilbúningur, eftir því sem frést hefur með öðru herskipinu frakkneska (Beaumanoir), sem nú er nýkomið að austan, enda var saga þessi í sjálfu sér næsta ósennileg (morðingjarnir t. d. Látnir skilja líkin nakin ertir í bátnum í stað þess að kasta þeim í sjóinn o.s.f.v.). Sannleikurinn er sá, að bátur með þrem mönnum úr Fáskrúðsfirði hefur farist í kaupstaðarferð til Eskifjarðar (ekki Berufjarðar), og fundu Frakkar á herskipinu bátinn með mönnunum dauðum rekinn við eyna Skrúðinn, og færðu þeir líkin, sem voru alklædd og ómeidd að öllu leyti að vottorði læknisins á skipinu, til hreppstjórans á Fáskrúðsfirði.
Hafnarnes um 1952, Andey og Skrúður fyrir fjarðarmynni (mynd;Þjóðminjasafnið - Guðni Þórðarson)
Við minni Fáskrúðsfjarðar að sunnanverðu er Hafnarnes, þar var þorp langt fram eftir 20. öldinni. Mestur mun fólksfjöldin hafa verið árið 1907 eða 105 manns. Hafnarnes byggðist um 1850 og er í landi Gvendarness sem var bær á milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Þetta þorp byggði afkomu sína á sjósókn og sjálfsþurftarbúskap. Stutt var að róa til fiskjar á fengsæl mið í álunum á milli Andeyjar og Skrúðs. Í Hafnarnes komu sjómenn víða að af landinu, jafnvel frá Færeyjum til að róa þaðan yfir sumartímann, aflinn var saltaður. Innan við tangann neðst á nesinu var höfnin og hefur þar verið steinsteyptur hafnarkantur sem nú er lítið eftir af annað en einstaka brot.
Fyrstu íbúarnir á Hafnarnesi vor Guðmundur Einarsson og Þuríður Einarsdóttir. Þau komu frá Gvendarnesi og Vík. Guðmundur var annálaður sjósóknari á austfjörðum og hraustmenni. Afkomendur Guðmundar og Þuríðar settust margir að á Hafnarnesi og byggðin óx hratt. Árið 1918 voru þar 12 íbúðarhús, og 1939 var Franski spítalinn, sem byggður var inn á Fáskrúðsfirði fyrir franska sjómenn árið 1900, rifin og fluttur út í Hafnarnes.
Þar breyttist hlutverk Franska spítalans í það að verða eitt fyrsta fjölbýlishúsið á Austurlandi, auk þess sem hann var notaður sem skóli. Þegar leið á 20. öldina tók byggðinni að hnigna og var svo komið árið 1973 að engin bjó lengur í Hafnarnesi. Stærsta kennileiti byggðarinnar, Franski spítalinn, var svo fluttur þaðan aftur inn á Fáskrúðsfjörð 2010. Þar þjónar hann nú sem Fosshótel og safn um sögu franskra sjómanna við Íslandsstrendur.
Á fyrstu áratugum byggðarinnar var mikið um að franskar fiskiskútur væru viðloðandi Fáskrúðsfjörð og höfðu þær bækistöðvar inn við þorpið Búðir í botni Fáskrúðsfjarðar þar sem nú kallast í daglegu tali Fáskrúðsfjörður. Þó svo að Fransmenn hafi yfirleitt komið vel fram við heimamenn gat kastast í kekki, og ekki er víst að Fransmenn hafi alltaf komið eins vel fram við Hafnarnesmenn eins og fólkið inn á Búðum þar sem þeir voru háðari því að fá þjónustu.
Franskir sjómenn á Fáskrúðsfirði (mynd; Minjavernd)
Eitt sinn hafði Dugga legið við ból á Árnagerðisbótinni og ekki gengið að innheimta hafnartoll. Fór Þorsteinn hreppstjóri í Höfðahúsum ásamt Guðmundi í Hafnarnesi og hásetum hans um borð. Þeir voru snarráðir, ráku frönsku hásetana og lokuðu ofaní lest. Fóru svo með skipstjórann og stýrimanninn ofaní káetu og kröfðu þá um hafnargjöldin. Það stóð ekki á því að þau væru greidd þegar svo var komið. Það sama skipti fundu þeir í lest skútunnar mann, sem horfið hafði úr landi nokkru áður, bundinn og þjakaðan, en ómeiddan.
Annað sinn var Guðmundur ásamt áhöfn sinni að vitja um línu út í álunum, þar sem Fransmenn voru komnir að með færi sín flækt í lóðin. Guðmundur bað þá að gefa eftir og láta laus lóðin, en því sinntu þeir engu. Hann lét þá áhöfn sína róa meðfram duggunni og greip færin með annarri hendinni en skar á þau með hinni. Hafði til þess franska sleddu. Frönsku sjómennirnir urðu æfir og eltu bát þeirra Hafnarnesmanna en Guðmundur stýrði á grynningar og skildi þar með þeim. Þetta sýnir vel hversu óragur og skjótur til ákvarðana Guðmundur var.
Það voru Hafnarnes menn sem voru fréttaefni stórblaðanna í höfuðstaðnum þessa júlídaga 1878 þar sem metingur var um það hvað væri satt og rétt varðandi morðin sem frétts hafði af frá Austfjörðum. Það sannasta má sennilega finna í sagnaþáttum Vigfúsar Kristjánssonar en hann hefur gert rúmlega hundrað ára sögu Hafnarnesbyggðar hvað gleggst skil á prenti. Kristinn faðir Vigfúsar var sonur Guðmundar hins hrausta frumbyggja í Hafnarnesi og var 16 ára þegar atburðir þessir gerðust er rötuðu svona misvísandi í fréttir sunnanblaðanna.
Samkvæmt sagnaþáttum Vigfúsar er hið rétta að í maí 1878 fóru tveir bátar með mönnum úr Hafnarnesi í verslunarferð til Eskifjarðar. Guðmundur var formaður í öðrum sem á voru fjórir. Maður sem hét Friðrik Finnbogason formaður á hinum bátnum, sem á voru þrír menn. Fljótlega eftir að bátarnir yfirgáfu Hafnarnes sigldu þeir fram hjá skútu, sem Friðrik vildi fara um borð í, en Guðmundur ekki í það skipti, og var talað um að heimsækja skútuna frekar í bakaleiðinni.
Þeir sinntu kaupstaðarerindum sínum á Eskifirði og fengu sér brennivín að þeim loknum. Vildi Friðrik að þeir færu heim strax um kvöldið. Guðmundur vildi láta heimferðin bíða morguns. Þegar bátur Guðmundar kom í Hafnarnesið daginn eftir voru Friðrik og félagar ókomnir. Farið var að leita og fannst báturinn á reki milli Andeyjar og Skrúðs og mennirnir í honum látnir. Öllu hafði verið stolið úr bátnum ekki skilin eftir ein laus spýta. Mennirnir voru bundnir við þófturnar, illa útleiknir, naktir, stungnir og kyrktir. Giskað var á að þeir hefðu ætlað um borð í skútuna á heimleiðinni, en hún var horfin af þeim miðum sem hún hafði verið daginn áður.
Í kirkjubókum Kolfreyjustaðar er sagt frá því að þessir menn hafi verið jarðsungnir þann 25. maí 1878; Friðrik Finnbogason, 33 ára, frá Garðsá í Hafnarnesi, Þórður Einarsson, 22 ára, frá Gvendarnesi, Oddur Jónsson, 27 ára, sama staðar. Þeir fundust öreindir í báti milli Andeyjar og Skrúðs. Þar sem Vigfús Kristinsson getur þessa atburðar í saganaþáttum sínum um Hafnarnes telur hann fullvíst að mennirnir hafi verið myrtir og færir rök fyrir því sem ekki verða uppi höfð hér.
Ps. Hafnarnes hefur lengi heillað ferðamenn og má sjá þá þar með myndavélar á lofti árið um kring. Það er að verða fátt sem minnir á fyrri frægð eftir að helsta kennileitið Franski spítalinn var fluttur inn á Fáskrúðsfjörð. Á þessari síðu hefur áður birst mynda blogg um Hafnarnes, sjá hér. Einnig læt ég fljóta með nokkrar myndir hér fyrir neðan.
Nýi og gamli vitinn í Hafnarnesi við sólarupprás
Skrúður
Kirkjan á Kolfreyjustað, Hafnarnes handan fjarðar
Frá Hafnarnesi 2009
Franski spítalinn á Hafnarnesi 2009
Franski spítalinn orðinn að Fosshóteli á Fáskrúðsfirði
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)