Söluskatturinn og ö tvöhöndröð og sex

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrri því þegar iðnaðarmanni er borgað fyrir vinnu, að þá eru laun hans ekki há. Þetta kemur til vegna þess að reikningur iðnaðarmannsins er svimandi hár, og ætlaður í fleira en laun. Þegar ég byrjaði á vinnumarkaði þurftu flestir sem keyptu mína vinnu að borga mér svipað fyrir tímann og þeir fengu sjálfir.

Ég rak fyrirtæki síðustu áratugi 20. aldarinnar og fyrsta áratug þeirrar 21. Var það orðið þannig í lok 20. aldar að til að hafa fyrir öllum kostnaði starfsmanns, þurfti að rukka allt að tvöfalt tímakaup hans. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig þessu er háttað núna, en mér kæmi ekki á óvart að hlutfallið sé orðið þrefalt. Svo það er ekkert skrýtið að fólki blöskri það að fá iðnaðarmann í vinnu.

Stjórnvöld eiga það til að setja upp allskonar útgáfur af virðisaukaskatti til að hvetja eða letja almenning til viðhalds framkvæmda. Undanfari virðisaukaskattsins var söluskatturinn. Þá var vinna á byggingastað undanþeginn söluskatti og í þá tíð fór flest öll vinna við húsbyggingar fram á byggingarstað, annað en innréttingar til lokafrágangs hússins og var sumt af þeim innflutt.

Undanfarið hef ég verið að lesa bókina um Ella P, og var tími kominn til, því Elli var mikill steypuhrærukall. Elli segir m.a. frá því hvernig söluskatturinn fór með hann, en þá munaði minnstu að hann og fjölskyldan fengu að gista götuna. Voru þau hjónin þó ýmsu vön, hófu sinn búskap í bragga og er sá braggi sá eini á landinu sem enn er notaður til búsetu, eftir því sem ég best veit.

Steypa hrærð á byggingastað bar ekki söluskatt, en steypa sem keyrt var á byggingastað í steypubíl skyldi bera söluskatt. Þessu flöskuðu sumir á, óviljandi eða viljandi, og segir Elli að þegar skattayfirvöld gerðu átak í að innheimta söluskattinn aftur í tímann hafi verið mikil vá fyrir dyrum hjá mörgum, þar á meðal honum sjálfum. Hann nefnir það t.d. að Hagvirki sem var eitt stærsta verktakafyrirtæki landsins í þá daga, hafi ekki lifað af eftirá söluskatts innheimtuna.

Elli gerði sér ferð til höfuðborgarinnar til að ná tali af fjármálaráðherra þegar öll sund höfðu lokast, en hvorki hafði gengið né rekið að fá einhvern í kerfinu til að hlusta á rök og raunatölur Ella varðandi söluskattinn. Þegar suður kom fór hann í alþingishúsið og faldi sig í fatahenginu, beið af sér og hlustaði á einhvern lengsta og leiðinlegasta fund sem hann segist hafa hafa á ævinni setið.

Þegar þingfundi lauk kom fjármálaráðherra til að ná í frakkann sinn, sem var þá Ólafur Ragnar Grímsson. Elli spratt fram úr fatahenginu og heilsaði Ólafi með handabandi og passaði sig á að sleppa ekki hendinni og halda fast. Hann kynnti sig sem Ella P frá Breiðdalsvík, sem væru búin að reyna að ná tali af honum í síma dögum saman út af söluskattinum og láta liggja fyrir skilaboð án þess að því hefði verið nokkru svarað.

Síðan hóf hann að segja söguna af söluskattinum, sem hann næði ekki að innheimta aftur í tímann, og hvernig það mál færi með hann og hans fjölskyldu, án þess að sleppa hendi fjármálaráðherra. Ólafur sagðist því miður ekki hafa tíma til að ræða þetta þarna í fatahenginu, en bauð honum að koma til sín í ráðuneytið kl 10 morguninn eftir, sem Elli þáði þáði og sleppti hendinni. Daginn eftir var söluskattsskuldin úr sögunni og Elli gat haldið áfram að steypa.

En eftir þetta var steypustarfsemi Ella ekki svipur hjá sjón því hann varð að innheimta  söluskatt og við það hækkaði verðið á steypunni. Í hinum dreifðu byggðum úti um land var veðhæfi ekki talið það hátt á íbúðarhúsnæði að einu sinni íbúðalánasjóður ríkisins treysti sér til að lána fyrir húsi með söluskattinum.

Elli var mikill þjónustu maður og rak einnig krana til að hífa steypuna á byggingastað. Hann hafði þann sið að biðja bæna og heita á Beruneskirkju svo að hann kæmist klakklaust frá verki þar sem líf og limir annarra voru undir því komið að allt gengi óhappalaust hjá honum.

Ég spurði kranamann í steypunni um daginn hvort hann hefði sama hátt á og Elli heitinn, þegar hann hífir 6 tonna sílóið yfir okkur og hvort hann hefði lesið bókina um Ella P. Hann hafði ekki lesið bókina, en mundi vel eftir Ella og hífinga sögunum hans sem hann sagði að allar hefðu endað á orðunum; -það var nú mekjel gvöð melde að ekki fór ver en það fór.

Elli var flámæltur og fyrirvarði sig aldrei fyrir sína gömlu viðkunnanlegu austfirsku. Í síðustu viku þegar ég fór með sögumanni, sem ætlar að fara að byggja upp á gamla mátann til að skoða möl, heyrði ég sögu af því þegar Elli hafði verið að kaupa dísilolíu á uppáhaldsbílinn sinn sem var með skráninganúmerið U-206, og þurfti nótu í bókhaldið.

Þegar afgreiðslustúlkan spurði hvað bílnúmer ætti að setja á nótuna, þá sagði Elli; -ö tvöhöndröð og sex. Á leiðinn út eftir að hafa fengið nótuna tók hann eftir því að stúlkan hafði skrifað Ö-206 í stað U-206. Þá snaraðist hann til baka og sýndi henni; -þú skrefar Ö-206 og ég sem sagði þér að númerið væri ö tvöhöndröð og sex.

Við félagarnir á Djúpavogi tókum við af Ella að hræra þar steypu á byggingastað eftir söluskattsmálið. Elli yfirgaf Austurland í ellinni og sagði við mig bæði í gamni og alvöru; -það voruð þeð félagarnir á Djúpavogi sem hafið það á samviskunni að ég yfirgef Austurland.

Við félagarnir vorum þá orðnir síðustu Móhíkanarnir, og nú er svo komið um allt Ísland að það eru fjárplógsmenn einir sem eru færir um að byggja íðbúðarhúsnæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Skemmtileg saga  hjá þér Magnús og enn skemmtilegra myndband.

Að sjá kranann  boginn eins og banana rifjaði upp eina steypuafgreiðslu hjá mér, forðum. Þegar ég mætti á staðinn var kraninn sem átti að hífa, í minni kantinum fyrir þá lengd sem koma þurfti steypunni. Kranastjórinn taldi það lítið vandamál, sagði mér bara að setja sílóið hálft af steypu.

Hvort ég var þarna eitthvað ónákvæmur um steypumagnið í sílóið, enda ein af mínum fyrstu ferðum á steypubíl, eða hvort kranastjórinn ofmat getu kranans veit ég ekki. Nema hvað, hann hífir í sílóið og byrjar að teygja sig í átt að mótinu, hélt því neðarlega en þurfti þó fljótlega að fara hífa á móti svignun kranans.

Þegar hann nær rétt yfir enda mótsins öskrar hann á steypumenn að losa sílóið,, enda farið að landa undir ytri lappir kranans. Eitthvað fórst steypukalli illa að opna sílóið nema hvað að það opnast að fullu. Kraninn datt niður á lappirnar og bóman réttist. Við þetta flaug sílóið hátt til lofts, galopið og steypan yfir kallana.

Þegar sílóið kom undir rennuna aftur sagði kranamaður mér að setja bara einn þriðja í sílóið.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 10.5.2023 kl. 08:44

2 identicon

Takk fyrir þennan fróðlega og gráglettni blandna pistil, af veröld sem var.  Og er, því ekki hefur hún minnkað skattheimta ríkisins.  Allt virðist gert til að fella einyrkja og smærri fyrirtæki.  Hjá útbólgnu ríkinu fer nú æ meira í sjálft sig, en þjónustan við landslýð minnkar að sama skapi.   

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.5.2023 kl. 09:39

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég þakka fyrir innlitið Gunnar, -og skemmtilega kranssögu

Þeir eru orðnir fáir sem geta unnið á krana eftir tilfinningunni því að öryggisbúnaður slær krananum út ef þunginn er of mikill.

það er samt lítið öryggi í þessum útslætt, því að sláttur á steypusílói hefur ekki alltaf með þyngdina að gera.

Fyrir ekki svo löngu steyptum við með krana sem var vanalega notaður við löndun og var full léttur fyrir lengstu steypu híf.

Kranamaðurinn gat aftengt öryggisútsláttinn og flutti svo sílóið á ferðinni og við tæmdum á meðan kraninn vó salt.

Sumir forðuðu sér í fyrstu og héldu að kranamaðurinn væri blindfullur. En staðreyndin var að hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera og allt gekk eins og best varð á kosið.

Magnús Sigurðsson, 10.5.2023 kl. 13:03

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitið og þarfa athugasemdina, -Pétur Örn.

Veröld sem var segirðu. Elli var mikill greiðamaður og vildi allt fyrir þá gera sem voru að koma sér upp þaki yfir höfuðið á sem hagkvæmastan hátt. Hann var ekki mikill markaðsmaður.

Nú hefur húsnæði fjölskyldunnar verið að fullu markaðsvætt og gott betur en það því það svæsnasta sem maður sér í fjárplógsstarsemi er tengt þaki fjölskyldunnar.

Mér varð oft hugsað til þess þegar við síðustu Móhíkanarnir hrærðum steypuna á Djúpavogi hvað tilveran væri miklu ljúfari ef húsnæði fjölskyldunnar væri óhagnaðardrifið samfélagsverkefni.

Það hringdi einn í mig í morgunn sem hafði lesið þetta blogg og vildi koma því á framfæri að ég hefði gleymt einu í pistlinum, því að húsin sem fólk byggði sjálft hefðu ekki myglað.

Þessi hafði byggt sitt hús úr tommu sex og með steypuhræruvél og upp rifjuðust ljúfir draumar. Því miður gat ég ekki talað við hann eins og ég hefði viljað á kafi í steypu upp á svölum, að bíða eftir næsta sílói.

Magnús Sigurðsson, 10.5.2023 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband