Mennskan

Mig dreymdi undarlegan draum í ársbyrjun, þar sem ég var kominn fótgangandi niður á Reyðarfjörð. Eftir að hafa beygt fyrir Grænafellið blasti fjörðurinn við í allri sinni dýrð og það merkilega var að þar voru engin mannanna verk  lengur sjáanleg. Fjörðurinn spegilslettur og fagur, skriður, melar og hæðir vaxið grámosa.

Mér fannst ég þurfa að taka mynd af þessu því svona væri þetta ekki á hverjum degi og þarna sæi ég landið án áhrifa mannsins. En uppgötvaði þá að ég var ekki með myndavélina með mér, þannig að ég snéri við og ætlaði til baka að sækja hana.

Þegar ég byrjaði að ganga til baka fór jörðin að gliðna, svipað og hraun sem flýtur hægt fram hálfstorkið. Það var samt ekki rauð glóð sem ég sá í sprungunum í gegnum mosann og milli steina, heldur sá ég þar undir allt fullt náhvítum beinum dýra.

Mér datt í hug á meðan jörðin var að gliðna og opnast undir mér að ég hefði gengið út á gamla miltisbrands eða riðuveiki gröf. Ég ákvað því að forða mér upp í skriðuna áður en ég lenti ofan í sprungu og niður á milli beina hrúgnanna.

Ég reyndi að komast til baka í fjallshlíðinni og ætlaði aftur upp Fagradalinn. En ég rann stöðugt niður á lausum steinum í skriðunni í áttina að undirlendinu sem var alltaf að gliðna meira og meira. Þarna spólaði ég hraðar og hraðar á sama stað.

Ég hef verið reyna að átta mig á hvað þessi draumur merkir en hef ekki komist að niðurstöðu. Kannski er hann tíðarandans, þ.e.a.s. að það sé engin auðveld leið til baka þegar síðasti bærinn verður horfinn úr dalnum. Þá verði jafnvel of seint  að ná sviðsmynd í spálíkan fyrir gervigreind.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Já, Magnús, við erum komin á þann stað í sögu mannsins að mennskan sem Guð gaf manninum er horfin, ómennska komin í staðin.

Adam og Eva voru sköpuð í Guðs mynd þ.e.a.s. hinn fullkomni maður.

Nú líkist mannkynið meira Djöflinum.

Guð hefur einu sinni eytt öllu lífi á jörðinni vegna illsku mannsins og hefur heitið því að gera það aftur.

Í Lúkasarguðspjalli 17. kafla lesum við:

Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins: Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum.

Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu. En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum.

Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast. (Lúk. 17:26-30).

Eftir Nóaflóðið var jörðin eins og þú sást Reyðarfjörð, ósnortin af mönnum. En Guð hóf endurlífgun lífs á ný.

Nú hefur mannkynið enn fyllt mæli synda sinna, þess vegna á Guð engra annarra kosta völ en send aftur eyðingu yfir jörðina.

Aftur verður nýtt upphaf. Hann mun koma á Friðarríki á jörðu sem er á næsta leiti.

En þrengingar og tortíming fer á undan sem fæðingarhríðir. Þær eru hafnar og eru sýnilegar um alla jörð. Stríðsátök breiðast út. Jarðskjálftum og eldgosum fjölgar enda yfirborð jarðarinnar á mikilli hreyfingu.

En kristið fólk þarf samt ekki að skelfast. Þeim sem hafa gefist Guði verður forðað, líkt og Lot. Þessir munu lifa þúsund ár í Friðarríki Guðs.

Beinin í dalnum, sem þú sást vísa til allra þeirra sem dáið hafa í trú á Jesú Krist, þeir munu upp rísa.

Hönd Drottins kom yfir mig, og hann flutti mig burt fyrir anda sinn og lét mig nema staðar í dalnum miðjum, en hann var fullur af beinum. Og hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu, og sjá, það lá aragrúi af þeim þar í dalnum, og sjá, þau voru mjög skinin. Og hann sagði við mig: Mannsson, hvort munu bein þessi lifna við aftur? Ég svaraði: Drottinn Guð, þú veist það! Þá sagði hann við mig: Tala þú af guðmóði yfir beinum þessum og seg við þau: Þér skinin bein, heyrið orð Drottins! Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Sjá, ég læt lífsanda í yður koma, og þér skuluð lifna við. (Esek. 37:1-5).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 9.1.2024 kl. 19:05

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir skýringuna á draumnum Guðmundur Örn, -hennar sér víða stað í heiminum í dag.

Mennskan virðist fara verst með það sem saklaust er, og á sér engin takmörk í að gera sér það að ávinningi, jafnvel þó það kosti endalok.

Já við skulum vona að kærleikurinn og sakleysið marki nýtt upphaf.

Magnús Sigurðsson, 9.1.2024 kl. 21:15

3 identicon

Sæll Magnús.

Mér þykir líklegt að þú hafir ungur að árum verið
viðstaddur eða kynnst líkvöku.

Sá er þar lá vill minna á sig og kann að vera
að þú eigir í fórum þínum eitthvert rifrildi,
eins konar lýsingu um þetta eða jafnvel ennfrekar
ljóð eða kvæði þar sem þú minnist þessa fundar.

Draumurinn að öðru leyti kann að vísa til þess
sem nýlega gerðist og kom þér að óvörum;
leitar á hugann.þegar minnst varir.

Ekki er ólíklegt með öllu að þú þurfir
í þett sinnað hlusta á þá engla sem sitja á öxlum
þér og huga betur að sjálfum þér og hvað
þér er fyrir bestu og í því felst að skipuleggja næstu
ár og sjá að líf er að lokinni steypunni sem er hvorttveggja
í senn, gefandi og til gæfu fallið.

VINSAMLEGAST HENTU ÞESSU EF ÞAÐ KENNIR EKKI GRUNNS.

.

Húsari. (IP-tala skráð) 10.1.2024 kl. 12:38

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þessa athugasemd Húsari, -þó hún sé hyldjúp þá er hún umhugsunarverð.

Mér fannst tíðarandinn vera full grunn skýring á draumnum, enda hefur hann verið við lýði um nokkurt skeið.

Eins og ég hef sagt áður þá eru það athugasemdirnar sem gera bloggin og ekki sjálfgefið að fá þær við svona draumarugl.

Annars var þessi draumur mjög skýr, sem kom í kjölfar einstaklega ánægjulegra jóla og áramóta, -og árs yfir höfuð.

þessi athugasemd er fyrir mig umhugsunarverðari en draumurinn. 

Magnús Sigurðsson, 10.1.2024 kl. 14:49

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Magnús.

 Það er magnað að lesa nánast allt er þú ritar. 

 Takk fyrir mig.

 Þetta var magnaðra öðru, því magninu hef ég sjálfur kynnst.

 Góðar stundir,

 með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 11.1.2024 kl. 03:36

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þessa höfðinglegu athugasemd Halldór, -það gleður að fá hana frá manni sem sækir saltan sjó suður um höf.

Ég er farin að sakna snarpra pistla frá þér hér á blogginu.

Bloggið er nú eins og það er nú um stundir og stundum finnst mér umræðan full einhlýt samkvæmt mbl medíunni, -þegar blessuð börnin eru annars vegar.

þannig að draumarnir gefa mér meira þó ruglaðir séu, því þykir mér vænt um svona athugasemd.

Bestu kveðjur suður um sjó.

Magnús Sigurðsson, 11.1.2024 kl. 07:08

7 identicon

Heill og sæll Magnús

Þó maður tjái sig lítt í athugasemdum í seinni tíð, þá les ég hins vegar alla þína eftirtektarverðu pistla og vil hér þakka elju þína og dugnað að benda á þær vár sem voma yfir, landi okkar og svo sem heimsbyggðinni allri. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.1.2024 kl. 15:18

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir það Pétur Örn. Það er nú varla svo að hægt sé að kalla þetta pistla lengur, meira orðið skætingur, örsögur og draumarugl.

Allavega orðið langt síðan maður hefur hrært í ærlega langloku, ekki svo að maður eigi ekki efnið í eina eða tvær, heldur er það kannski full persónulegt.

Annars hef ég verið krankur núna í nokkra daga og krunka þá hér á blogginu í einsemd minni á milli hóstaroka.

Aldrei að vita nema maður leggi í eina langa ef þetta fer ekki að lagast.

Mér er farin að leiðast frekar Medían þessi misserin.

Bestu kveðjur, -og þakkir fyrir uppörvunina.

Magnús Sigurðsson, 11.1.2024 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband