Here we go again

Það hefur varla farið fram hjá neinum að fleira en þakið er við það að fjúka af kofanum. Húsnæðisverð í hæstu hæðum, verðbólgan sú mesta í 10 ár og allt útlit er fyrir að vextir verði snarhækkaðir hjá viðundrunum í Seðlabankanum, sem hafa staðið að gengislækkun krónunnar að undaförnu með inngripum af því taginu sem glæðir verðbólgu bálið. Já það styttist óðum í að púkar Sæmundar gæði sér á hverjum bita í helsjúku pestargreninu.

Þegar ég var á leið til vinnu í morgunnmyrkrinu undir lok síðustu viku brá mér í brún þegar ég tók fyrstu beygjuna til vinstri. Þar var bara svarta myrkur, logaði ekki svo mikið sem ein týra til hægri. Búið að rífa elliheimilið, litlar raðhúsaíbúðir sem höfðu aldrei staðið tómar í beygjunni á besta stað í bænum í meira en 50 ár. Ég var reyndar búin að heyra að lóðin væri svo svakalega verðmæt að til stæði að endurnýja húsin, en að það ætti að massa þau endanlega með stórvirkum vinnuvélum, brothömrum og trukkum hafði mér ekki hugkvæmst. En maður býr jú í heimabæ skurðgröfunnar.

Síðast þegar svona gjörningalist í verðmætaaukningu kom til framkvæmda í mínum smáheimabæ var árið 2008. Þá voru tæplega 20 ára gömul, -mörg þúsund fermetra gróðurhús Barra rifin og byggð önnur splunkuný í rokrassgati fyrir norðan Fljót. Raftækjaverslun með áföstu rafmagnsverkstæði sem hafði staðið í rúm 40 ár rifið. Lóðirnar voru víst svo svakalega verðmætar að þar átti hvorki meira né minna en byggja miðbæ, þó svo að hann yrði bæði fyrir utan bæinn og enginn þyrfti sérstaklega á honum að halda.

Núna öllum þessum árum seinna er gras á verðmætu miðbæjarlóðunum. Þær eru notaðar sem tjaldstæði fyrir ferðamenn. Ef ekki hefði orðið hið svokallaða hrun væri ekki svo mikið sem kamar á svæðinu, því hvorki gafst tími né lánsfé til að rífa gamla Tehúsið sem var byggt sem verbúð fyrir sláturhúsið löngu fyrir mína tíð. Það hefur ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug síðan um árið að þessar miðbæjarlóðir séu það verðmætar að það borgi sig að draga upp úr þeim tjaldhælana.

Enda varð stærsta verktakafyrirtæki bæjarins, og rafmagnverkstæðið gjaldþrota í kjölfar verðmætaaukningarinnar. Kaupfélag Héraðsbúa fór sömu leið 2009 á 100 ára afmælinu. Hafði þó selt miðbæjarlandið og keypt kaupanda landsins árið eftir söluna, sem var verktakafyrirtækið, það hafði nefnilega ekki ráð á að borga kaupfélaginu. Sú viðskiptaflétta kom til eftir að í ljós kom að bókhaldslega reyndist hagstæðara fyrir kaupfélagið að kaupa kaupandann, en að afskrifa góðar sölutölur á lóðum úr bókhaldinu. Eftir stóð raðgjaldþrota samfélag og bæjarfélag í gjörgæslu.

Nú virðist allt þetta bix gleymt og grafið, komið yfir móðuna miklu ásamt Barra þrátt fyrir hetjulega baráttu Byggðastofnunnar. Bankarnir aftur orðnir stútfullir af peningum og fólkið brunar flest orðið til vinnu í rauðglóandi smeltiverkið á orkuskiptu bílunum niður í orkuskortinn í neðra. Það eina sem hefur verið byggt í miðbænum er Skattstofa ríkisins rétt norðan og neðan við þar sem rafmagnsbúðin stóð. Og var hart á því um tíma að skattstofan yrði ekki gjaldþrota líka, sælla minninga.

Þegar fólk fær þær frábæru hugmyndir að rífa hús í fullri notkun til verðmætasköpunar á lóðum, sér þær í hyllingum til að selja lífsreyndu eldra fólki hugmyndina af nákvæmlega eins þaki yfir höfuðið á meira en tvöfalt hærra verði, þá er sama hversu skaðmenntað það er, réttast væri að það rifjaði upp tvo plús tvo á fingrum sér. Er nema von að þegar ekkert ljós logar lengur í bestu beygjunni í bænum að upp komi í hugann gamli frasinn, -here we go again.


Hvaðan kom nafnið - Hermannastekkar

Innan við Rakkaberg eru Hermannastekkar, nafn frá Tyrkjaráni, og er þar nú grafreitur. Það er ekki mikið meira að finna um örnefnið Hermannastekkar á alheimsnetinu, en staðurinn er við þjóðveg eitt þar sem hann liggur rétt fyrir innan Djúpavog. Við Hermannastekka er núverandi grafreitur Djúpavogsbúa, fagur og friðsæll staður. Málvenjan er Hermannastekkar ekki Hermannastekkir eins og ætla mætti.

En hvers vegna bera Hermannastekkar þetta nafn - hvaða atburður varð nákvæmlega til þess að klettarnir við grafreitinn fengu þetta nafn? Um þá atburði er getið í Tyrkjaránssögu og  munnmælum m.a. í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og víðar, þó svo að sumir telji að þar beri atburðarásinni ekki saman við opinberu heimildina, sem er Tyrkjaránssaga.

Þorsteinn Helgason sagnfræðingur vildi meina í greininni Örnefni og sögur tengd við Tyrkjarán á Austurlandi, sem hann skrifaði í Gletting árið 2003, að atburðarásin, sem nafnið er dregið af, stæðist ekki skoðun. Atburðurinn hefði gerst við Berunes á norðan verðri Berufjarðarströnd þar sem var verið að hlaða stekk samkvæmt þjóðsögunni, en söguhetjan hafi verið hernuminn sunnan fjarðar á Búlandsnesi, sem er á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar, samkvæmt Tyrkjaránssögu.

Þetta ályktar Þorsteinn af munnmælasögu, sem Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari birti í þjóðsagna safni sínu, um bardaga Guttorms Hallssonar frá Búlandsnesi við Tyrki á Berunesi þar sem hann var sagður í heimsókn hjá móðursystur sinni (reyndar var Sigríður húsfreyja á Berunesi dóttir séra Einars á Eydölum, systir Sesselju Einarsdóttir fyrri konu Halls föður Guttorms samkv. Íslendingabók). Miðað við örnefnakortið sem Þorsteinn birti með grein sinni verður ekki betur séð en að Hermannastekkar hafi því verið að Berunesi á Berufjarðarströnd og eru þar nefndir Hermannastekkir.

Hermannastekkar eru sunnan við Berufjörð rétt austan við þar sem bærinn Búlandsnes stóð og þar er munnmælasaga til af nafngiftinni á svipuðum nótum og á Berunesi. Guttormur á að hafa varist Tyrkjum með reku og pál. Hann hefði þess vegna getað verið báðu megin fjarðar með hálftíma millibili og átt í útistöðum við sitthvorn Tyrkjaflokkinn og munnmælin þess vegna farið rétt með, því Tyrkir sendu flokka á land svo til samtímis sitthvoru megin Berufjarðar samkvæmt Tyrkjaránssögu.

Munnmælin eru á tveimur stöðum í þjóðsaganasafni Sigfúsar og greinir á öðrum staðnum frá atburðum á þann hátt að Guttormur hafi einmitt verið báðu megin fjarðar. Þannig að ekki þarf að fara á milli mála hvoru megin Berufjarðar Hermannastekkar hafa ávalt verið og hvaða atburðum nafnið tengist. Það er eins og önnur sagan hafi farið fram hjá Þorsteini Helgasyni þegar hann skrifar greinina í Gletting.

En hver var Guttormur Hallson? Hann var fæddur um 1600, sonur séra Halls Högnasonar og Sigþrúðar sem bjuggu á Kirkjubæ í Hróarstungu á Héraði. Sigþrúður er sögð seinni eða síðasta kona Halls, án þess að meira sé um hana vitað, annað en að hún var einnig nefnd Þrúður. Víst er talið að hún hafi verið móðir þeirra Guttorms og Sigríðar, -yngst 10 barna Halls.

Guttormur var nýlega farinn að búa á kristfjárjörðinni Búlandsnesi þegar Tyrkir gerðu strandhöggið við Djúpavog. Búlandsnes hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi, en hvorki ríki né kirkju. Tyrkjaránssaga segir að Guttormur hafi verið fangaður á Búlandsnesi ásamt heimilisfólki sínu en þar voru þá auk þess 6 umrenningar, enda sú kvöð á kristfjárjörðum að hýsa fátæka.

Til eru talsverðar heimildir um afdrif Guttorms m.a. vegna sendibréfa, -bréfs sem hann skrifaði úr Barbaríinu til Íslands, þar sem hann biður landsmenn um að biðja fyrir sér, og bréfs sem enskur skipstjóri skrifaði að honum látnum. En Guttormur var ásamt heimilisfólki seldur á þrælamarkaði í Algeirsborg. Smala piltur Guttorms, Jón Ásbjarnarson, var einnig seldur í þrældóm, en komst til nokkurra metorða hjá húsbónda sínum,  sem var fursti í borginni. Jón fékk Guttorm, fyrr um húsbónda sinn, leystan úr ánauð og keypti fyrir hann far til Íslands með ensku skipi, lét Guttorm hafa farareyri og gull sem hann átti að færa foreldrum Jóns.

Þegar skipið var að nálgast höfn á Englandi höfðu skipverjar komist að því að Guttormur var með gullsjóð og tóku sig þá 4 saman um að ræna hann og drepa. Tveir ræningjanna náðust og voru hengdir. Skipstjórinn kom síðar bréfi til Íslands þar sem þess var getið að það sem eftir var af jarðneskum eigum Guttorms væri í Bristol á Englandi.

Sigríður systir Guttorms og Magnús, sonur séra Höskuldar Einarssonar á Eydölum, sem einnig kemur talsvert við sögu í Tyrkjaránsögu, settust að á Búlandsnesi eftir Guttorm og hans búalið. Tyrkjaránssaga greinir frá því að ræningjarnir hafi farið um Breiðdal án þess að verða verulega ágengt við mannrán og hafi hvað eftir annað týnt Eydölum. Bæði Tyrkjaránssaga og þjóðsagan segir frá því að þar komi við sögu feðgarnir, -prestarnir Einar og Höskuldur. Út af Sigríði og Magnúsi er komin stór ættbálkur íslendinga þ.m.t. síðuhöfundur.

Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9. Til eru samtímaheimildir af því sem gerðist skráðar eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti. Sennilega eru heimildirnar fyrir því sem gerðist á austfjörðum áreyðanlegar og greinagóðar vegna þess að þegar ræningjarnir komu til Vestamannaeyja, eftir að hafa verið í Berufirði, settu þeir 5 austfirðinga frá borði, skiptu þeim út fyrir Vestmannaeyinga. Tvo af þessum fimm drápu þeir í Eyjum, en ekki er ólíklegt að hinir þrír hafi farið heim og sagt sínar farir ekki sléttar. Þannig hafi sagan fljótlega borist með skólapiltum í Skálholt.

Það eru fáar heimildir eins trúverðugar og Tyrkjaránssaga. Þekkt eru nöfn fjölda fólks sem rænt var, og örlög nokkurra í þrældómi. Alls var fólkið tæplega 400 sem hernumið var frá Grindavík, nágrenni Djúpavogs og úr Vestmannaeyjum sumarið 1627. Fólkið var flutt til Marokkó og Alsír og selt þar á þrælamörkuðum. Hátt í 50 manns voru drepnir hérlendis meðan á ránunum stóð. Mörgum árum seinna náðist að safna lausnarfé til að kaupa fólk úr ánauð, talið er að innan við 50 hafi náði að snúa aftur heim til Íslands. Þektust er saga Guðríðar Símonardóttur úr Eyjum, -Tyrkja Guddu.

Uppnefni og örnefni, sem munnmæli geyma, eru oft einu upplýsingarnar sem til eru fyrir þjóðsögum er greina frá ákveðnum atburðum. Þannig heimildaleysi er ekki til að dreifa um sjálft Tyrkjaránið. Þó svo Hermannastekkar finnist einungis í munnmælunum og þjóðsögunni þá vann nafngiftin Hermanna, eðli málsins samkvæmt, sér ekki sess fyrr en eftir skráningu hinnar upphaflegu Tyrkjaránssögu á Austfjörðum.

 

Heimildir:

Glettingur tímarit um austfirsk málefni 1. tbl 2003

Dvergasteinn, þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi - Alda Snæbjörnsdóttir

400 ár við Voginn - Ingimar Sveinsson

Undir Búlandstindi - Eiríkur Sigurðsson

Þjójóðsögur og sagnir - Sigfús Sigfússon

Tyrkjaránið - Jón Helgason


Að slá tvær flugur sama höggi

Nú hræra sóttvanafasistarnir í sóttkvínni eftir að hafa orðið uppvísir af því að hafa falsað einkennalausu drepsóttina í spálíkani.

Í stað þess að afnema íþyngjandi aðgerðir freista þeir þess að fokka upp skólastarfi með enn flóknari sóttvarnareglum fyrir skólastjórnendur að vinna úr og mismununum vegna svokallaðrar bólusetninga stöðu. 

Þetta er gert með því að setja aðrar reglur yfir þríbólusetta, en margt skólafólk er svokallaðir Jassenþegar, sem ekki eru komnir í þríbólusetta hópinn.

Er alið á að kennurum standi ógn af blessuðum börnunum, og jú líka þeim óbólusettu, sem og sjálfum sér.

Þetta eru ekki afléttingar í ljósi meinlausrar kvefpestar, heldur að slá tvær flugur í sama höggi, -færast feti nær pestarpassanum og herða á inndælingunni í blessuð börnin.


mbl.is Verulegar breytingar á sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hyskið út úr húsum þjóðarinnar

Nú eru orkupakka landráðin farin að líta upp á landið. Vegasjoppa, sem átti með réttu að verða  lýst gjaldþrota haustið 2008, er farin að bíta unga íslendinga í afturendann með markaðstrixum á rafmagni, sem sjoppan hvorki framleiðir né dreifir, en kemst í skjóli orkupakka ESB í að dreifa reikningum fyrir rétt eins og hverjum öðrum skít.

Ungt saklaust fólk, sem er að koma grænt út í lífið, fær enn einu sinni að kynnast glæpasamtökum þess opinbera og auðróna í fjárplógsstarfsemi. Leikrit vikunnar hefur verið ævintýralegt. Opinber stofnun sendi til opinberra stofnanna neyðarkall vegna orkuskorts s.l þriðjudag. Til að undirstrika alvarleikann á orkumarkaði og gefa tóninn um væntanlegar hækkanir.

Í gær kom svo í ljós að gamla bensínstöðin við vegasjoppuna, sem var svo heppin að njóta stjórnaformennsku fjármálaráðherra þegar Jón og Gunna urðu gjaldþrota um árið, varð uppvís að því að selja ungum saklausum afkomendum þeirra hjónakornanna rafmagn á nær tvöföldu uppgefnu verði vegna föðurlegrar umhyggju opinberu stofnunarinnar sem hæpar upp hækkanir þessa dagana. 

Framkvæmdastjóri vegasjoppunnar, sem tók upp á því að græða á því einu að vera milliliður og gefa út reikning, hafnaði því alfarið fyrr í dag að beitt væri blekkingum. En áttaði sig svo á því að hann var með skítinn upp á bak og baðst velvirðingar undir kvöld um leið og hann lofaðist til að skeina sig í boði lífeyrissjóðanna.

Eftir stendur að þeir sem vilja græða á því einu að skrifa reikninga á saklaust fólk fá að gera það óáreittir áfram í skjóli orkupakka ESB og landráða íslensku stjórnsýslunnar. -Já Guð blessi Ísland.


mbl.is N1 biðst velvirðingar og endurgreiðir mismun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsti bær við Cocoa Puffs

Í denn var stundum sagt að þessi eða hinn hefði fengið prófgráðuna sína úr Cocoa Puffs pakka. Þetta var þá oft sagt með lítilsvirðingu. Sjálfum hefur mér alltaf fundist þeir gáfulegri sem hafa náð að plumma sig með þannig prófskýrteini upp á vasann. Þeir hafi allavega losnað við að láta yfirfylla harða diskinn í höfðinu með þarflausri þvælu, -plássið á þeim diski er jú takmarkað.

Þó svo að transhumanisminn eigi eftir að bjóða upp á aukna ígrædda gervigreind, þá er ekki nokkur von til annars en þar verði einni metnaðarfullu þarfleysunni bætt aftan við aðra ef diskurinn hefur ekki þegar verði fullstraujaður við harðsnúið latínunám. Latína og gervigreind kemur aldrei í staðin fyrir meðfætt innsæi á stað og stund, því þar er ástæðuna að finna til hvers er komið í þennan heim.

Fyrir mér varð barnaskólinn á sínum tíma latína, í besta falli limbó, en sem betur fer hafði hinu opinbera þá ekki komið til hugar að hefja þá iðju að hakka barnshugann fyrr en við sjö ára aldurinn og bjargaði það því sem bjargað varð. Móðir mín hafði kennt mér að lesa og skrifa nafnið mitt áður en til barnaskólagöngu kom. Eftir að henni lauk má segja að ég hafi ekki getað skrifað nafnið mitt skammlaust, en var samt orðinn nokkuð fær í að snúa út úr.

Blessuð hundaheppnin og brennivínið bjargaði mér svo alveg frá bókhaldinu. Ég komst nefnilega á samning við steypuna enda hefur steypa verið mitt líf og yndi frá því fyrst ég man. Í iðnskóla lærði ég ekkert í þeirri gjörningalist því hún byggist alfariða á reynslu og verklegri færni. Ég var samt útskrifaður bóklega fyrir slysni án tilskilinna áfanga. Það dugði mér samt til að taka sveinspróf. 

Það minnisverðasta úr iðnskóla var þegar Kiddi Jó skýrði fyrir okkur í ensku tíma tengingu orðsins Police við puplic service, -og að því skyldum við aldrei gleyma að á íslensku væri police, -lögregluþjónn. Það voru svo vinnufélagar mínir í steypunni sem tóku mig til sveinsprófs út á þessa latínu. Svona nokkurskonar manndómsvíxlu af gömlu gerðinni, en auðvitað þekktu þeir kauða og vissu upp á hár hvað hann kunni af því sem þurfti.

Sveinsprófið mitt reyndist því léttara en þegar greiðugur steypukall af Guðs náð reyndi í annað sinn að standast sitt sveinspróf. Mikið var þá að gera í steypu eins og alltaf hjá múrurum svo samið var um það að fá flíslögn á baðherbergi, sem átti eftir að flísaleggja, dæmt sveinsstykki.

Þegar kom að því að taka stykkið út, og prófnefndin var mætt í baðherbergið, kom í ljós að engin flísalögn hafði verið framkvæmd, flísarnar voru allar í pökkunum á gólfinu. Þá muldrar minn maður „hann hefur svikið mig“ en bauð svo prófnefndinni upp á koníak í sárabætur. Hann hafði af greiðasemi haft vinnuskipti við handlaginn smið sem nauðsynlega þurfti að múra, en lofaðist til að flísaleggja sveinstykkið í staðinn.

Meistarabréf fékk ég svo sent eftir símtal við sýslumann. Þannig var að í mínum smáheimabæ var engin múrarameistari til að ábyrgjast verk. Því var gripið til þess ráðs að sá sem múraði sæi um það og sótti ég um löggildingu til bygginganefndar míns smáheimabæjar með sýslumanninn í vasanum. Fljótlega fóru byggingaraðilar í nágrannabæjunum að fara fram á að ég ábyrgðist verk í þeirra bæjum.

Svo kom að því að ég var beðin sérstaklega um að mæta á helgarnámskeið í byggingastjórnun, aðallega til að fylla upp í tölu þátttakenda svo sérfræðingarnir að sunnan sæju sér fært að gera sér ferð út á land til að halda námskeið. Þetta var þegar byggingastjórinn var fundinn upp af latínuliðinu um síðustu aldarmót.

Einhvern veginn fór það svo að í kjölfarið fékk ég byggingastjóra réttindi og meistaralöggildingu á landsvísu frá ráðuneyti í Reykjavík og hef ég síðan óskrifandi maðurinn ekki fengið frið við að krota nafnið á meistaraábyrgðir.

Þetta var orðin meiri skriffinnska en víxlarnir fyrir kunningjana í þá gömlu og góðu, en er nú til allrar Guðs lukku orðnar rafrænar undirskriftir og gilda frama og aftur í tímann. Lengst hef ég komist meira en áratug aftur fyrir sjálfan mig og svo að sjálfsögðu út yfir gröf og dauða.

Ég hef alla tíð notið visku Kidda Jó frá á námsárum mínum í Neskaupstað og að það var sjálfur sýslumaðurinn sem gaf út meistarabréfið mitt í denn. Það er því mitt að sjá um puplic service þáttinn svo meðbræður mínir komist í gegnum regluverkið þegar byggja á þak yfir höfuðið. Auðvitað er þetta ekkert annað en næsti bær við Cocoa Puffs.


Aumingi vikunnar er Landspítalinn

Það kemur alltaf betur og betur í ljós að hve lífshættulegt er orðið að leggjast inn á sjúkrahús, og til læknis ætti engin að hætta sér þessa dagana öðruvísi en láréttur. Ekki voru nema þrír dagar liðnir frá því að sóttskimandi varðhundur veirunnar fékk sín minnisblöð staðfest, en að hinir tveir orðuhafarnir á seiðhjallinum hófu pestarsönginn.

Síðan hafa þau rök verið notuð að hátt í 400 heilbrigðisstarfsmenn Landspítalans, sem skiptast  nokkuð jafnt á milli sóttkvíar og einangrunar, séu úr leik vegna einkennalausu drepsóttarinnar. Allt eftir að hafa tekið þátt í útihátíð skimunarstöðvanna.

Það verður æ skírara að eina markmið sóttvarnafasistanna er að lama heilbrigðiskerfið og alla starfsemi í landinu með öllum tiltækum ráðum, þar til auðrónar verða komnir með tögl og haldir á heilbrigði fólks í gegnum pestarpassa.

Til samstarfs við sig hafa auðrónar og sóttvarnafasistar fengið mergsjúgandi blóðsugur í mörghundruð manna stjórnendateymi Landspítalans. Stjórnenda sem hafa síendurtekið hirt aukin framlög til heilbrigðiskerfisins við að koma á niðurskurði.

Sparnaði sem jók tekjur í eigin vasa, og sömu stjórnendur hika ekki lengur við að taka raunverulegt heilbrigðisstarfsfólk úr umferð og ráða þess í stað verkataka úr einkageiranum inn á spítalann. 


mbl.is Tíu manna samkomutakmörkun á miðnætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumur í dós

Undarlegir hafa þeir verið draumar mínir í upphafi árs.

Hríðin stríð svo leita varð vars í skóginum, því þar var örlítið meira skjól. Hentist á harðahlaupum yfir ódáinsakur, til þess eins að ná skógarjaðrinum hinu megin áður en glóruleysið skylli saman og byrgði alla sýn. Visin var á þeim akri uppskeran, en með andvara sumars sem eitt sinn var.

Stóð þétt með fáum í hrímuðum sinumóum, við yl frá konu sem ég þekkti ekki hót. Í fámenni hélt bakleiðis í bæinn. Stóð fyrir framan gamla kaupfélagið, sem nú hafði að geima gróða grið, -til þeirra er vildu komast inn. Horfði úr svalanum inn í gegnum glerið á fjöldann sem þráði heitast að komast út.

Þetta voru reyndar tveir draumar, -en í sömu dós.


Gildur limur og hopputussa

Það getur verið gaman að bera saman mismunandi merkingu orða náskyldra tungumála, s.s. færeysku og íslensku. Á mínum unglingsárum þótti fyndið að hægt væri að verða gildur limur í ríðimannafélagi Færeyja. Seinna eignaðist ég skírteini sem staðfesti að ég væri gildur limur í handverkara félagi Tórshavanar, án þess þó að finnast það vera sérstaklega fyndið. En ég steypti ekki það lengi í Færeyjum að mér hugkvæmdist eignast hest og sækja um að fá að vera gildur limur í ríðimannafélagi.

Það er ekki nóg með að spaugilegt geti verið að bera saman mismunandi merkingu orða skyldra mála, einnig má með því leiða að því líkum hversvegna sumt ber óskiljanlegar nafngiftir á móðurmálinu. Og þarf ekki skyld mál til, sem dæmi um það get ég nefnt fjallið Beinageit, sem gægist upp yfir Fjarðaheiðarendann þegar ég lít út um eldhúsgluggann, og er einn af syðstu tindum Dyrfjalla í Hjaltastaðaþinghá. Þó gelíska teljist seint skyld íslensku þá eru mörg orð íslenskunnar sögð úr henni ættuð, s.s. strákur og stelpa.

Freysteinn heitinn Sigurðsson jarðfræðingur taldi sig hafa fundið út hvernig Beinageitar nafngiftin væri til kominn. Upphaflega hefðu allur Dyrfjalla fjallgarðurinn heitið Bhein-na-geit upp á forn gelísku, sem gæti útlagst fjallið með dyrunum, eða Dyrfjöll. Síðar þegar norrænir menn fóru að setja mark sitt á landið hefði legið beinast við að kalla fjöllin Dyrfjöll, en nafnið Beinageit hefði lifað áfram á syðsta tindinum. Landnám Hajaltastaðaþinghárinnar hefur lengi þótt dularfullt. Hvorki dregur Beinageitin, né Landnáma úr þeirri dulúð með sinni hrakningasögu af Una "danska" Garðarssyni.

En það er ekki þannig orð sem ég vildi gera skil núna, heldur orð sem er illa séð á íslensku. Þetta orð hefur valdið mér heilabrotum, því lengi hafði ég ekki fundið trúverðugan uppruna þess. Þó svo að orðið megi finna orðabók þá hef ég hvergi séð að málfræðingar hafi lagt sig niður við að útskýra af hverju það er dregið. Þó svo að það væri eins og orðabókin tilgreinir, þá er það hvorki notað í daglegu tali um skjóðu né skinnpoka hvað þá lasleika, - og það sem alls ekki má nefna, - nema vera túlkað í það dónalegri merkingu að enginn vill láta hafa það eftir sér opinberlega. Ef menn voga sér t.d. að nota orðið í sömu setningu og kvenmann þá er nokkuð víst að þeir sem það gera flokkast ekki sem femínistar og varla að þeir fengju inngöngu í feðraveldið, helst að þeir lentu metoo myllunni.

Þetta er semsagt orð sem maður viðhefur ekki ef maður vill vera partur af siðmenntuðu samfélagi. Ég man að fyrir áratugum síðan vorum við að vinna saman nokkrir félagar við að undirbúa bílaplan undir steypu, þegar fram hjá gekk kvenmaður í þyngri kantinum og vildi þá einn vinnufélaginn meina að hún myndi nýtast vel sem jarðvegsþjappa. Viðhafði í því sambandi þetta forboðna íslenska orð. Við hinir urðum vandræðalegir þangað til sá elsti okkar tók af skarið og sagði með þjósti "þetta eru nú meiru helvítis brandararnir". Sem leiðir aftur hugann að því hvaðan orðið brandari er komið. En í stað þess að fara með þessa spekúlasjónir út um þúfur þá ætla ég að halda mig áfram við ljóta orðið.

Það sem mig grunaði ekki þá, var hvað þessi vinnufélagi, fyrir margt löngu síðan, fór hugsanlega nærri uppruna orðsins. Að hjá frændum okkar lengra í austri en Færeyjar væri hvorki um brandara né dónaskap að ræða að hafa þetta orð uppi við þau störf sem var verið að vinna, að vísu samsett, en það var nú reyndar akkúrat það sem vinnufélaginn gerði í denn.

Það var ekki fyrr en mörgum áratugum seinna þegar ég bjó í Noregi að ég fór að brjóta þetta orð raunverulega til mergjar, og það eftir að hafa varla heyrt nokkurn lifandi mann hafa haft það á orði í áratugi. Það var þegar við Matthildur mín vorum í heimsókn hjá vinafólki. Þar sá hún bát við smábátahöfnina, en bátar fara ekki framhjá sjómannsdætrum, en í þetta skipti var það nafnið á fleyinu, - Havtussa. Þær kímdu yfir bátsnafninu sjómannsdæturnar, meðan okkur vinunum þótti vissar að þykjast ekki taka eftir því, enda sjálfsagt báðir brenndir af bröndurum forboðinna orða frá því í bernsku.

Það var semsagt hjá frændum okkar í Noregi sem upprunan gæti verið að finna. Þegar við Matthildur keyrðum seinna niður Lofoten, þá gleymdum við að taka með okkur landakort, hvað þá að við hefðum gps, enda eru flestar okkar ferðir skyndiákvarðanir, sem helgast af því hvort sólin sjáist á lofti og hún stendur hæst í hásuður, því auðvelt að rata. En þetta ferðalag var óvenjulegt að því leiti að við þurftum að yfirnátta eins og frændur okkar komast að orði. Þess vegna þurfti að fylgjast með vegvísum þegar leið að kveldi. Þá sáum við vegvísi, sem vísaði á stað, þangað sem ferðinni var ekki heitið. En hvað um það, þetta staðarnafn gaf mér tækifæri til að færa þetta dónalega orð í tal, án þess að vera dónalegur.

Það var semsagt Tussan á Lofoten sem gaf mér tækifæri á að ræða þetta orð við norska vinnufélaga mína. Ég gætti þess að sjálfsögðu vandlega að láta þá ekki vita af tilvist orðsins á íslensku, en spurði hvað það þýddi á norsku. Fyrst könnuðust þeir ekki við að orðið merkti nokkurn skapaðan hlut, þó svo að staður á Lofoten héti þessu nafni. Ég benti þeim þá á að til væri norskur bátur sem bæri nafnið Hav-tussa. Þeim elsta rámaði þá í þetta orð, og sagði að það tengdist frekar fjöllum en sjó, reyndar kvenveru, sem byggi í fjöllum, þó ekki nákvæmlega norskri tröllkonu. Til væri ljóðabálkur eftir norðmanninn Arne Garborg sem nefnist Haugtussa og er þar kveðið um ást í meinum, tröll og huldufólk í fjöllum.

Það sem mér datt helst í hug eftir þessa eftirgrennslan var að tussa hefði upphaflega verið orð yfir skessu eða skass. Þá rann upp fyrir mér að verkfæri sem við norsku vinnufélagarnir vorum vanir að vinna með þegar jarðvegur er þjappaður undir steypu, jarðvegsþjappa á íslensku, er kölluð hopputussa á norsku, eða hoppetusse, en þegar e-ið er aftan við á það við hvort kynið sem er af þessum huldu verum. Hann var þá kannski ekki eins dónalegur og í fyrstu virtist brandarinn sem vinnufélaginn sagði um árið.

Nú má segja að þessi pistill sé orðinn tilbúinn undir steypu, ef ekki algjör steypa. Það er samt mín von að hann forði þeim, sem hafa náð að lesa þetta langt, frá því að þurfa að liggja andvaka yfir þessu forboðna orði. Það er ekki víst að málvísindamenn leggist í rannsóknir á uppruna þess í nánustu framtíð, frekar en fram til þessa.

Tussefolk_(13625489553)

Tussefolk

Ps. þessi pistill birtist hér á síðunni árið 2018 og er nú endurbirtur í tíðindalausu tómarúmi almanaks áramótanna, sem fer aðallega í upprifjun þess liðna, en áramót sólársins voru fyrir viku með hækkandi sól í örófi alda. Ég vil biðja lesendur um að taka efni pistilsins ekki sem hrútaskýringu, heldur fróðleiksmola um málið.


Þegar fábjánar fá frábærar hugmyndir

Nú spangóla varðhundar veirunnar á hverjum hól eftir að hafa efnt til stærstu útisamkomu aldarinnar á skimunarstöðvunum um hávetur. Sóttin er orðin sjálfbær og það eina sem getur stöðvað hana er að skimunarliðið tínist smá saman í sóttkví eða einkennalausa einangrun. 

Það sem er ekki beint geðslegt við ástandið er að þessi geðveiki geisar nú um allan heima og er kallaður heimsfaraldur. Þar er mannréttindum fólks miskunnarlaust fórnað á altari siðblindra auðróna. Heilbrigðiskerfið er orðið helsjúkt af meðvirkni og tröllið sem stal jólunum heimtar að halda þeim.

Ungur maður birti sinn jólaboðskap  á facebook á jóladag, sem segir meira en þúsund orð og ótal greiningar, um það sem farið hefur úrskeiðis á milli eyrnanna á fólki. 

Hjálpræðisherinn þurfti að vísa 300 manns sem höfðu skráð sig í jólamat fyrir þessi jól frá vegna sóttvarnareglna. Af þeim eru 150 börn. Hvar ætli þau hafi verið um jólin? Á sama tíma voru undanþágur veittar svo efri-millistétt landsins kæmist á jólatónleika og á Jómfrúna í Þorláksmessutradissjón. Ekkert að því. Dauðlangaði sjálfum á Jommuna. En mig langaði meira að börnin fengju að borða.

Frá því fyrsta smitið kom upp hafa svo á bilinu 80 til 90 framið sjálfsmorð, langflest þeirra yngri en 45 ára (skv. bráðabirgðatölum Landlæknis), en 37 dáið úr Covid, langflest eldri en 70 ára. Aftur og aftur er traðkað á rétti barna til þess að stunda sitt nám til að margbólusettir kennarar smitist ekki af einhverju sem er einfaldlega ekki hættulegt að fá, Covid.

Samfélag sem fórnar lífum, líkamlegri og andlegri heilsu ungmenna fyrir hagsmuni (mjög) fullorðins fólks er sjúkt. Virkilega sjúkt. Samfélag sem fórnar hagsmunum þeirra sem þurfa að sækja í félagsskap og mataraðstoð Hjálpræðishersins á altari sóttvarna en er til í að sjá í gegnum fingur sér þegar kemur að klístruðum jólatónleikum, enda neyðin ekki það mikil, er sjúkt.

Ég spurði aðstoðarmann Landlæknis hvers vegna ekki lægi fyrir fjöldi sjálfsmorða nema fyrir fyrri helming árs, og það „bráðabirgðatölur.“ Nú, það er vegna skorts á réttarmeinafræðingum. Það er samt hægt að greina hvert einasta covid smit ofan í kjölinn, raðgreina í ræmur og elta hvar þúsundir manna hafa hóstað, hnerrað og heilsast marga daga aftur í tímann. En það er ekki hægt að taka saman hversu margir tóku eigið líf í þessu landi síðustu sex mánuði. Það er sjúkt.

Að ekki sé hægt að fjármagna geðheilbrigðispakkann almennilega þegar 2% af kostnaðinum við Covid myndu duga, er sjúkt.

Stefna íslenskra heilbrigðisyfirvalda er helsjúk.

https://www.facebook.com/heimirhann/posts/10158969781243655


mbl.is Gætum átt von á fjöldasamkomu á spítalanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarsólstöður

Sólstöður og jafndægur skipta sólárinu í ársfjórðunga. Í dag eru vetrarsólstöður, dimmasti dagur ársins. Eftir því sem á ævina líður hef ég veitt þessum árstíðamótum meiri athygli. Um sumarsólstöður hef ég vakað sumarsnóttina, hefur þess oft verið getið í sólstöðu pistlum á þessari síðu.

Á vetrarsólstöðum, um hádegisbil, hef ég sóst í að eiga hljóða stund frá erli dagsins undir berum himni með krumma og skýjunum. Hér á Héraði er hádegi sólar kl 13. Á þessum hljóðu krossgötum sólarinnar verður maður margs vís sem hvorki er greint frá í símanum né sjónvarpinu.

Um vetrarsólstöður stendur sólin í stað 3 daga. Þessa 3 daga er sólin við suðurkrossinn eða á suðurenda sýnilegu vetrarbrautarinnar. Eftir þann tíma, ca 25. desember, færist sólin um eina gráðu í norður, sem gefur til kynna að daginn er tekið að lengja, -nýtt sólár er hafið.

Mörg táknfræði trúarbragða er tengd vetrarsólstöðum. Sem dæmi má ætla að vitringarnir 3, sem vitjuðu Jesúbarnsins, séu tákngervingar þessara 3. kyrrstöðudaga sólarinnar við suðurkrossinn, þeir og fæðingadagur frelsarans hafi verið settir í ritningunni samfara hækkandi sól.

Til forna voru jól um þennan tíma þriggja daga hátíð matar og drykkju, þetta kemur m.a. fram í Grettissögu. Vetrarsólstöðuhátíðir eru þekktar frá heiðinni tíð og að fólk hafi víða í norðri haldið hátíðir í aðdraganda hækkandi sólar. Trúarbrögðin flétta svo saman þessum tímamótum við boðskap sinn. Enda viðkvæmur hugur mannfólksins í myrkrinu undir áhrifum þessara tímamóta þegar hvarflað er vonarhug til bjartari framtíðar.

Á sóltöðunum fyrir ári síðan setti ég hér inn pistil um hinn forna mánuð mörsug. Þar var farið á hundavaði yfir árið 2020: Á undanförnum mánuðum hefur hátíðum hefða í tímans rás verið raskað. Páskar, stærsta hátíð kristninnar, var haldin með fjarfundabúnaði í læstum kirkjum. 1. maí án kröfugöngu í mesta atvinnuleysi lýðveldissögunnar. Hetjur hafsins ekki sýndur sómi á sjómannadaginn. Þjóðhátíðardagurinn fór fram án hátíðarhalda, -þríeykið var að vísu heiðrað með fálkaorðu 17. júní úr hendi forseta í framboði korter í kosningar. Og verslunarmanna helgarinnar verður einna helst minnst fyrir feimniskar hugmyndir dómálaráðherra um að senda stjörnusýslumann stones út í Eyjar. Og ekkert verður af því að tíðarandi árisins 2020 verði kvaddur við brennu.

Um það sem þá hafði verið sett á öldur ljósvakans um árið framundan 2021: Því svo ber nú við um þessar mundir að bólusetja á alla heimsbyggðin, böl mun þá allt batna og ósánir akrar vaxa, -vitið þér enn eða hvað? Svarið lá í raun fyrir skrifað í sólstöðu skýin: Naðarfráu veiruskimunartæki hefur verið til landsins strandar flogið í rússneskri Antonov, -korteri fyrir bólusetningu allrar heimsbyggðarinnar. Hinn dimmi dreki nú að regin dómi ráðskast um vindheim víðan, þar er grímunnar laga verðir tíundina telja.

Stærstu skipulögðu útisamkomur ársins 2021 hafa síðan verið við skimunarstöðvarnar, mannfjöldin í þéttskipaðri biðröðinni slær við stærstu þjóðhátíðum sögunnar í Eyjum, dag eftir dag. Einungis óskipulögð útisamkoma við gosstöðvarnar náði að komast í hálfkvist. Og hver hefði trúað því fyrir 2 árum síðan að til svona útisamkoma væri boðað um hávetur til að skima eftir kvefi hjá þríbólusettu fólki, sem léki grunur á að væri smitað drepsótt? -já vitið þér enn eða hvað?

Einnig hefur það fyrirsjáanlega framhald orðið á þessu ári, að sameiningartákn þjóðarinnar hefur farið veg allrar veraldar. Þetta gerðist m.a. þegar fótbolta landsliði karla var rústað. Eftir að fræknasti fótboltakappi sem þessi þjóð hefur alið meig á Ingólfstorg hefur Vanda verið sett í þann vanda að eiga úr vöndu að velja.

Má segja að femínísku fótboltabullurnar hafi nú gengið mun lengra en að senda sýslumann stones út í Eyjar, -svo ekki sé minnst á þjóðskáldin. Ekkert lát er á niðurbroti feðraveldisins, en um það hrun mátti fyrir löngu lesa í spánni hennar Völu. Síðmiðaldra hvítir karlmenn mega nú teljast heppnir meðan þeir fá að koma hrútaskýringunum sínum á framfæri á afvikinni bloggsíðu.

Þó útisetur á Ingólfstorgi með símanum sínum á snappinu teljist til þjóðþrifa, þá var það ekki svo til forna. Þau sem í einrúmi útisetur stunduðu á krossgötum sólársins voru ekki talin æskileg innan um annað fólk. Nú kallar tíðarandinn þá fornu iðju og að gefa innsýn í framtíðina samsæriskenningar, sem valda upplýsingaóreiðu. En snapp af torgi Ingólfs er upphafið sem #metoo. Jafnvel þó svo að ekkert af því sé fyrir framan nefið á fólki, sem sagt er vera staðreynd í sjónvarpinu og símanum, annað en gríman, -og svo kannski röðin á sýnatökustöðvunum.

Eitt ber að hafa sérstaklega í huga varðandi árið framundan. Í marsmánuði 2020 var lýst yfir alheimsstríði gegn kvefi og því stríði hefur hvergi nærri verið aflýst. Mannfallið hefur sem betur fer farið fram hjá fólki víðast hvar um heiminn, nema þá í sjónvarpinu. Árið framundan mun einkennast af stríðsbrölti í stökkbreyttri mynd veirunnar og munu efnahagslegar afleiðingar koma í ljós. En kvefið sjálft mun dala með vorinu, eins og venjulega, samfara því að áhuginn minnkar á símanum og sjónvarpinu með hækkandi sól.

Rétt er að hafa í huga að stríð eiga það til að vara árum saman áður en sést í gegnum reykinn. Þá mun koma í ljós að þetta stríð hefur aldrei snúist um heilsu, það snýst um þann draum auðróna að breyta heiminum, -uppbygginu rafræna Babelsturnsins í anda sjálfsafgreiðslukassa stórmarkaðanna og endalok þjóðríkisins, -hnattrænt vald yfir nýjum tíma, -skilyrðislaus yfirráð yfir þér, líkama þínum og tíma, lesandi góður.

Í aðdraganda áramóta og hátíðar ljóssins vil ég nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem eiga til að líta hér inn og óska þeim lesendum sem hafa haft nennu til að lesa þetta langt gleðilegra jóla árs og friðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband