Færsluflokkur: Dægurmál

Fullvalda 20. aldar maðurinn

Ætlarðu ekki að skrifa minningargrein um hann afa þinn, spurði hún Matthildur mín mig fyrir 19 árum síðan. Nei ég get það ekki, var svarið. Þetta þótti minni konu aumt svar. En málið var að ég gat engan veginn skrifað minningargrein um hann afa, sem var bæði minn besti vinur og nafni. Þau skrif hefðu varla orðið um annað en hve missir minn var mikill og þar af leiðandi ekki verið um hann afa minn.

Þegar föðurafi minn hélt á vit forfeðranna, tæplega 91. árs, þá var í þessum heimi til engra forfeðra lengur að leita og var ég þó ekki fertugur. Fram að því var afi minn sá sem alltaf hafði verið til staðar, sá sem hafði grátið með okkur systkinunum og föður við eldhúsborðið morguninn eftir að móðir okkar dó. Afi var sá sem sagði 10 árum seinna, þegar ég fann að ýmsu eftir líkræðu prestsins við útför föður míns; blessaður vertu ekki að svekkja þig á þessu nafni minn ég hef lent í miklu verri jarðarförum hjá honum en þessari.

Níu árum eftir að afi minn dó sagði hún Matthildur mín, ætlaðu ekki að skrifa minningu um hann afa þinn í tilefni 100 ára árstíðar hans, það er oft gert, og það þekktu hann fáir betur en þú. Nei, ég gat það ekki, vegna þess að ég þekkti hann afa minn ekki nógu vel. Það voru nefnilega setningar sem hann sagði á níræðis afmælisdeginum sínum sem fékk mig til að efast um hvort ég þekkti hann afa minn, besta vin og nafna, nógu vel til að geta skrifað svoleiðis æviágrip.

Og hvernig átti ég að vera fær um að skrifa minningu um mann sem lifað hafði meira en tímana tvenna, eða líkt og Tryggvi Emilsson lýsir í bók sinni Fátækt fólk þegar hann minnist ársins 1918 í hálfhruninni torfbaðstofunni á kotbýlinu Gili í Öxnadal. Þá bar enn til stórtíðinda og langsóttra sem gerjuðust svo í hugum manna að margir þeir, sem aldrei sáust brosa út úr skegginu eða virtust kippa sér upp við nokkurn skapaðan hlut, urðu drýldnir á svip og ábúðarmiklir rétt eins og þeir væru allt í einu orðnir að sjálfseignarbændum, en nú var Ísland fullvalda ríki. Ég heyrði föður minn tala um þann ægistóra atburð eins og hann hefði sjálfur átt þátt í úrslitunum. Þessi tíðindi bárust fyrir jól og var þeim fagnað alls staðar þar sem hátíð var haldin. Menn höfðu fylgst með sambandsmálinu framar öllum örðum málum á undanförnum árum og heyrði ég Guðnýju segja að þessi sigur væri fyrirboði annarra og meiri. Sjálfur var ég í uppnámi vegna fregnarinnar, sá landið í nýju og skæru ljósi og taldi víst að nú mundi hækka hagur íslenskra öreiga. Þannig vógu ein stórtíðindi góð á móti þrem stórtíðindum vondum, frostunum miklu, spænsku veikinni og Kötlugosi. (Fátækt fólk bls.279)

Hann afi minn hafði aldrei barmað sér í mín eyru fyrr en á 90 ára afmælisdaginn sinn. Þá var það tvennt sem hann angraði. Annað var hve margar rjúpur hann hefði drepið um ævina. Ég sagði að hann þyrfti nú varla að hafa samviskubit út af þeim, þar sem lífsbarátta fólks á hans yngri árum hlyti oft að hafa verið hörð og hann hefði alltaf borið þá virðingu fyrir bráð sinni að hún hefði verið étin upp til agna. Nei það voru ekki þær rjúpur, heldur rjúpurnar sem hann hafði selt þegar hægt var að selja til Danmerkur; það hefði engu breytt þó ég hefði verið án þeirra peninga, sagði hann. Hitt var atvik frá bernsku sem setti fyrir mér ævi afa míns í allt annað samhengi en ég hafði ímyndað mér fram að því.

Það er ekki fyrr en nú á 110 ára ártíð afa míns að ég ætla að reyna að minnast hans, og nú óumbeðinn. Reyndar var það bók Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, sem varð til þess að ég sá lífshlaup afa frá sjónarhóli sem ég hafði ekki komist á meðan hans naut við, en við lestur bókarinnar komst ég á skjá sem gaf aðra sýn. Hann og Tryggvi voru samtímamenn sem lifðu 20. öldina og því hægt að kalla 20. aldar menn. Það er varla til fólk sem hefur lifað stærri breytingar á umhverfi sínu og háttum en íslenskur almúgi sem lifði alla 20. öldina.

Á bókarkápu og í formála endurútgáfu Fátæks fólks árið 2010 segir; bókin vakti mikla athygli og umtal þegar hún kom út árið 1976 – fyrir fádæma orðsnilld, persónusköpun og stíl, en þó fyrst og fremst fyrir þá sögu sem þar var sögð. Söguna af fátæku fólki fyrir tíma almannatrygginga; þegar hægt var að taka björgina frá barnmörgu heimili vegna þess að kaupmaðurinn þurfti að fá sitt; þegar litlum börnum var þrælað út í vist hjá vandalausum; þegar sjálfsagt þótti að senda hungrað barn gangandi tvær dagleiðir í vondu veðri til að reyna að fá úttekt í verslun. - Bókin Fátækt fólk var tilnefnd til Bókmenntaverðalauna Norðurlandaráðs árið 1977, og er haft fyrir satt að munað hafi svo fáum atkvæðum, sem talin voru á færri fingrum en finnast á annarri hendi, að verðlaunin féllu Fátæku fólki.

Bækur Tryggva, Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan, ætti hver og einn að lesa sem hefur minnsta áhuga á að kynna sér úr hvað jarðvegi íslenskt þjóðfélag er sprottið. Þó svo að bækur Tryggva Emilssonar hafi verið umdeildar á sínum tíma og hann hafi þótt fara hörðum orðum um menn og málefni, þá var varla hægt að gera það á annan hátt, nema fara í kringum sannleikann eins og köttur í kringum heitan graut. Auk þess segja bækurnar frá tæringunni (berklunum) og því hvernig íslensk alþýða komst út úr hálfhrundum torfbæjunum, sem höfðu verið hennar skjól í þúsund ár, inn í nútímann á aðeins örfáum áratugum.

Ég hafði spurt afa, í einhverri af okkar mörgu samverustundum, hvort það hefði ekki verið notalegt að búa í torfbæ. Hans svar var stutt og skorinort; minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn. Þegar ég gekk eftir hvers vegna, þá talaði hann í örstuttu máli um slaga, haustrigningar og vetrarkulda. Eins kom að lokum upp úr kafinu í þeim samræðum að foreldrar hans hefðu barist við berkla, sem hann taldi húsakostinn ekki hafa bætt. Faðir hans hafði tvisvar verið "hogginn" eins og kallað var, en það er þegar rifbein eru fjarlægð.

Jón Sigvaldason, faðir Magnúsar afa míns var smiður sem átti við berkla að stríða stóran hluta sinnar ævi, hann hefur því átt erfitt með að framfleyta fjölskyldunni. Hann þurfti oftar en einu sinni að leita sér lækninga við tæringunni, en það að vera höggvinn þýddi nánast örkuml og var lokaúrræðið í baráttunni við berkla fyrir tíma sýklalyfjanna. Foreldrar afa þau Jón Sigvaldason og Jónbjörg Jónsdóttir hafa því ekki átt sjö dagana sæla við að koma sínum barnahóp á legg. Það var einmitt á 90 ára afmælisdaginn sem ég heyrði afa í fyrsta og eina skiptið gefa örlitla innsýn í þá hörku sem var í samfélagi þessa tíma. Núna ætla ég að reyna að gera örstutta grein fyrir ævi afa.

Magnús Jónsson IIMagnús Jónsson var fæddur á Fljótsdalshéraði 27. nóvember 1908 á Skeggastöðum í Fellum. Hvers vegna hann er fæddur á Skeggjastöðum í Fellum veit ég ekki nákvæmlega. Foreldrar hans ólu mestan sinn aldur austan við Lagarfljót á Völlum, í Skriðdal og áttu auk þess sín fjölskyldutengsl í Hjaltastaðaþinghá, en Fell eru vestan við Fljót. Mig minnir þó afi hafi sagst halda að Skeggjastaðir hafi verið hans fæðingastaður vegna þess að þar hafi þau hjónin verið stödd vegna vinnu smiðsins.

Jónbjörg og Jón eignuðust 5 börn sem komust á legg auk þess að missa tvö á unga aldri. Afi var elstur þeirra systkina sem upp komust og aldrei heyrði ég hann tala um þau systkin sem foreldrar hans misstu. En í kirkjubókum og minningargrein um systur hans kemur fram að þau hafa heitið Sigrún, sem fædd var á Ketilsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 10. júní 1901. Látin á Hreimsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 1. júní 1902. Í minningargreinni kemur fram nafnið Björgvin, en ekkert fann ég um fæðingarstað né aldur.

Næst á eftir honum kom Guðrún Katrín fædd 21.11.1911 á Víðilæk, Skriðdal. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 07.01.1956. Svo kom Þuríður fædd 11.11.1913 í Sauðhaga á Völlum. Húsfreyja í Tunghaga dáin 17.05.2006. Þar á eftir kom Benedikt Sigurjón fæddur 14.04.1921 í Hvammi á Völlum. Var búsettur í Reykjavík dáinn 19.11.2005. Síðust kom Sigríður Herborg fædd 17.02.1925 í Tunghaga. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 26.09.1989.

Það var þegar ég rakst á sóknarmanntöl sem höfðu ratað á netið að ég gerði mér fyrst örlitla grein fyrir hverskonar aðstæður þessi systkinahópur hafði alist upp við og er þar sjálfsagt ekki ólíku saman að jafna við marga fjölskylduna sem ekki hafði jarðnæði á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Afi minn er flest árin skráður til heimilis á sama stað og foreldrar hans en önnur ekki, það er þó sammerkt með þeim árum að hann er ævinlega skráður til heimilis á sama stað og Sigurður Björnsson frá Vaði í Skriðdal og Magnea Herborg Jónsdóttir kona Sigurðar, en þau hjón voru kennd við Sauðhaga.

Það má sjá á fæðingarstöðum barna þeirra Jóns og Jónbjargar, eins í sóknarmanntölum að lengi höfðu þau ekki fastan samastað. Það er ekki fyrr en í Tunghaga 1922 að þau teljast ábúendur með jarðnæði. Dóttirin Katrín er fljótlega skráð í sóknarmanntölum á tveimur stöðum, þar sem Jónbjörg móður hennar var og hjá fósturforeldrum á Seyðisfirði. Þuríður er alltaf skráð á sömu stöðum og móðir hennar. Sigurjón fæðist í Hvammi og Herborg í Tunghaga og eru ávalt skráð til sama heimilis og foreldrar.

Svo virðist vera að Sigurður hafi hætt ábúð í Sauðhaga árið 1918 og flust ásamt Magneu Herborgu konu sinni i Vað í Skriðdal, þar sem Ingibjörg móðir hans bjó ásamt seinni manni sínum og systkinum Sigurðar. Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði varð ekkja 39 ára gömul, er ávalt talin kvenskörungur af Viðfjarðarætt, varð 17 barna móðir og stór ættmóðir á Héraði. Hún keypti jörðina Vað árið 1907 sem var Skriðuklausturs eign, en þar hafði hún búið ásamt fyrri manni sínum Birni Ívarssyni sem dó 1900 frá 12 börnum. Hún giftist Jóni Björgvin Jónssyni ráðsmanni sínum 1901 og áttu þau 5 börn saman.

Þegar Sigurður bregður búi í Sauðhaga og fer í Vað 1918, hverfur Jón Sigvaldason úr sóknarmanntölum sennilega vegna sjúkrahúslegu, en Jónbjörg er skráð vinnukona á Mýrum í Skriðdal ásamt Þuríði dóttir sinni. Árið 1923 eru Sigurður og Magnea Herborg aftur komin í Sauðhaga eftir að hafa verið skráð bæði á Vaði og í Tunghaga í millitíðinni. Þennan tíma er Magnús afi ýmist skráður sem tökubarn eða léttadrengur hjá Sigurði og Magneu Herborgu þ.e. 10-14 ára gamall. Þetta fólk hafði áður haldið saman um nokkurt skeiði og verið skráð til heimilis í Sauðhaga og þá Sigurður sem bóndi en foreldrar afa sem vinnufólk.

Í minni bernsku heyrði ég oft að Björg amma og Magnús afi væru bæði ná skyld fólkinu í Sauðhaga, enda var ég part úr tveimur sumrum í sveit hjá nafna mínum og frænda Magnúsi Sigurðssyni á Úlfsstöðum, en hann var frá Sauðhaga. Ég vissi fljótlega að Sigurður og Björg amma voru systkin, en fékk aldrei nákvæma skýringu á skyldleika afa við fólkið í Sauðhaga. Þegar ég spurði afa út í þetta þá sagði hann; nú skaltu spyrja einhvern annan en mig nafni minn, enda var ættfræði ekki hans helsta áhugamál. Í sóknarmanntölum sést að Magnea Herborg í Sauðhaga var uppeldissystir Jónbjargar móður afa. Þær voru systradætur, Jónbjörg er sögð tökubarn, fósturdóttir Pálínu Jónsdóttir móður Magneu Herborgar en móðir Jónbjargar hét Guðlaug Þorbjörg.

Pálína þessi var í sóknarmanntölum skráð sem vinnukona hjá Magnúsi Guðmundssyni og Herborgu Jónsdóttur búandi á Ormstöðum, sem voru í Hallormsstaðaskógi, og síðar Víðilæk í Skriðdal. Þegar ég spurði afa hvers vegna hann hefði verið skírður Magnús, og hvaðan Magnúsar nafnið okkar væri upprunnið, minnir mig að hann hafi sagt að það væri eftir einhverjum Magnúsi á Hallbjarnastöðum, en Víðilækur er út úr Hallbjarnarstöðum og þær systur Pálína, Herborg og Guðlaug voru frá Hallbjarnarstöðum. Magnús og Herborg áttu eina dóttir, Björgu sem dó að fyrsta barni og barnið líka. Nöfn þessa fólks lifa enn innan fjölskyldnanna sem eiga ættir að rekja til þeirra uppeldisystra Jónbjargar og Magneu Herborgar.

Því er þessi málalenging úr sóknarmanatölum þulin, að megi fá smá innsýn í hverskonar almannatryggingar var um að ræða í upphafi 20. aldarinnar. Almanntryggingin fólst í nánasta fjölskylduneti, eða þá á þann hátt sem ég fann í viðtalsþætti Hallfreðs Eiríkssonar þjóðháttafræðings á ismús, við Sigurbjörn Snjólfsson í Gilsárteigi. En Sigurbjörn var ungur maður að stíga sín fyrstu búskaparár á Völlunum þegar þeir voru æskustöðvar afa míns. Sigurbjörn segir frá því hvernig fátækt barnafólk var litið hornauga af sveitarstjórn og segir þar frá örlögum barna Péturs, sem Sigurbirni sjálfum hafði staðið til boða að taka við af, fullfrískum manninum. En honum hafi boðist annað og flutt með konu og börn í aðra sveit.

"Á Völlunum bjuggu bæði fátæklingar sem og efnaðir menn. Efnuðu mennirnir bjuggu á bestu jörðunum. Fátæklingarnir bjuggu á kotum sem varla var hægt að búa á. Upphaflega lentu Pétur og kona hans sem vinnuhjú hjá séra Magnúsi (Blöndal í Vallanesi) og þau máttu hafa tvö börn með sér. Þau eignuðust fleiri börn og urðu þau þá að finna þeim samastað. Eitt sinn var haldinn sveitarstjórnarfundur og var þar aðalfundarefnið að ráðstafa þurfalingum. Þessir fundir voru kallaðir vandræðafundir. Þessir fundir voru haldnir um sumarmál. Oft var niðursetningum komið fyrir hjá fátæku fólki því að það átti að vera hagur þeirra því að með niðursetningunum fékkst greitt frá sveitarfélaginu."

Það má svo rétt ímynda sér hvernig vandræðafundur Vallahrepps hefði tekið á málum ef fyrirvinna barnafjölskyldu var fársjúkur berklasjúklingur, nánast orðin örkumla, eftir því hvernig var tekið á málefnum þeirra barna Péturs og Sigurbjörns Snjólfssonar fullfrískra ungra manna. En Sigurbjörn telur að svo stutt hafi verið liðið frá afnámi vistarbandsins á Íslandi að sveitastjórnarmönnum á Völlum hafi verið vorkunn með úrlausnirnar. Sjálfur sagðist Sigurbjörn eiga efni sem hann hefði skráð hjá sér vegna þessara framfærslu mála sem hann hefði lagt svo fyrir um að ekki mætti birta fyrr en löngu eftir hans daga og þeirra er hlut áttu að málum, í virðingarskini við samferðamenn sína.

Í 1. tlbl. 5.árg. Glettings 1995 gerði Guðrún Kristinsdóttir, hjá safnastofnun Austurlands, húsakosti á Héraði skil á fyrri hluta 20. aldar í greininni "Baðstofurnar hans Jóns Sigvaldasonar". En eins og komið hefur fram hafði Jón faðir Magnúsar afa míns smíðar að ævistarfi. Í grein Guðrúnar kemur fram að Jón hafi oft verið fengin til að færa gömlu torfbæina til nútímalegra horfs með sínu sérstaka lagi. En þetta gerði hann með því að byggja tvílyft timburhús inn í tóft eldri baðstofa með háan, járnklæddan timburvegg fram á hlaðið sem hafði útidyr og glugga, með járni á þaki sem tyrft var yfir, bakveggir og stafnar héldu sér úr torfi og grjóti.

Það kemur fram í grein Guðrúnar að heimili Jóns, gamli torfbærinn í Tunghaga, hafi verið síðasta baðstofan sem hann endurbyggði árið 1934. Sannast kannski þar hið sígilda að iðnaðarmaðurinn lætur endurbætur við eigið hús ævinlega sitja á hakanum. Líklegra er þó að lífsbaráttan hafi verið með þeim hætti hjá örkumla smið í þá daga að allt varð til að vinna við að afla heimilinu lífsviðurværis. En fram kemur í samantekt Guðrúnar ;"Jón vann fram á síðasta dag við fjósbyggingu á Höfða á Völlum, en veiktist af lungnabólgu er hann kom heim og dró hún hann til dauða 5. júlí 1936".

Tveimur árum eftir að Jón Sigvaldason endurbyggir baðstofuna í gamla torfbænum í Tunghaga flytur Magnús elsti sonur hans sig á Jaðar í Vallanesinu til að gerast vinnumaður ungu ekkjunnar eftir sr Sigurð Þórðarson sem dó úr berklum. Til æskuvinkonu sinnar Bjargar ömmu, sem var sjö árum eldri en hann, systur Sigurðar fóstra hans í Sauðhaga. Húsið á Jaðri var stundum talin fyrsti herragarðurinn á Íslandi byggður af séra Magnúsi Blöndal sem var einn af umdeildari Vallanesprestum, og stóð m.a. að vandræðafundunum sem Sigurbjörn Snjólfsson greinir frá.

Nú skal farið hratt yfir sögu enda kom hver dagur 20. aldarinnar eftir þetta með betri tíð, eða eins og segir í dægurlagatextanum; birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr hver dagur sem ég lifði í návist þinn. Afa og ömmu búnaðist vel í Vallanesinu, fyrir átti amma tvær dætur þær Bjarghildi Ingibjörgu og Oddrúnu Valborgu Sigurðardætur. Þau eignuðust svo saman synina Sigurð Þórðarson og Ármann Örn auk þeirra ólust upp hjá þeim Gerður, Sigurður og Emil af eldri börnum þeirra systranna, svo vorum við nokkrir peyjar sem fengum að dvelja þar í sveit á sumrin sem nokkurskonar flórgoðar. Það ruglaði mig oft svolítið í rýminu þegar ég var barn að þau Gerður og Siggi skyldu alltaf kalla þau afa og ömmu, pabba og mömmu, en svo miklu ástfóstri tóku þau við þau gömlu.

Afi var bóndi öll sín bestu ár, hann var eldhugi, hamhleypa til verka og það stóðst fátt fyrir honum. Hann kunni að hnýta saman þvílíku úrvali blótsyrða þegar hann stóð frami fyrir erfiðleikum að meir að segja ég gat ekki annað en lært að nýta mér þær þulur. Ef sérlega illa stóð á var formálin eitthvað á þessa leið; fari það svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti. Þar með voru hamskiptin komin á og ráðist með áhlaupi til verka þannig að ekkert stóðst í veginum. Ég verð var við það enn þann dag í dag þegar erfiðlega gengur í steypuvinnunni að vinnufélagar mínir eiga til að glotta yfir því orðavali sem ég viðhef í gegnum steypuhauginn.

Amma var fyrrverandi prestfrú í Vallanesi, ekkja sr Sigurðar Þórðarsonar frá Skeiði í Arnarfirði, þess sem hóf prestskap sinn sem aðstoðarprestur hjá sr Magnúsi Blöndal og sameinaði söfnuðinn eftir deilur og daga sr Magnúsar í Vallanesi. Í minni bernsku var Björg amma kirkjuorganisti í Vallneskirkju og afi meðhjálpari. Amma var oft kölluð frú Björg af samsveitungum og vottaði ekki háði í þeirri nafnbót. Enda amma af almúgafólki komin sem ekki hafði verið mulið undir, frúar nafnbótin var tilkomin af verðskuldaðri virðingu fyrir almúgakonunni.

Á Jaðri var tvíbýli og gott á milli granna. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, húsið steinsteypt, svo kalt á vetrum að ekki voru tök á að kynda öll þau salarkynni í stofuhita. Sjálfur fékk ég að kynnast hrollköldum herragarðinum í Jaðri þegar ég var barn í sveitinni hjá ömmu og afa. Eins man ég eftir að hafa komið í eina af baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar, bjartan sumarmorgunn og fundist hún notaleg, en það var í Vallaneshjáleigu. Amma og afi bjuggu í Jaðri í Vallanesinu til 1970, amma þá búin að vera þar í 45 ár og afi í 34, þá fluttu þau í Selás 26 á Egilsstöðum.

Á Selásnum setti afi upp steinplötu við útidyrnar, sem í var grafið Björg Magnús, ég hafði orð á því við hann að það vantað og á milli nafnanna; við amma þín erum fyrir löngu orðin eitt, nafni minn, svaraði hann. Þarna áttu allir afkomendur afa og ömmu öruggt skjól líkt og í Vallanesi. Afi notaði árin á Egilsstöðum til að fínstilla logann innra með eldhuganum.

Amma sagði mér frá fyrstu kynnum sínum af þessum funa bráða dreng á æskuheimilinu Vaði, og augun hennar ljómuðu við frásögnina. Þá undraði mig ekkert hvernig þau hefðu þekkst frá því þau voru börn á sama heimili, spáði aldrei í það, enda trúir barnsálin því að amma og afi hafi alltaf verið saman. En eftir að ég rakst á sóknarmanntölin á netinu þykist ég vita að litli drengurinn hafi komið í Vað á æskuheimili ömmu með Sigurði eldri bróður hennar sem tökubarn þegar fyrra ábúð hans lauk í Sauðhaga.

Amma og afi bjuggu í 13 ár saman á Selásnum, en þá fór amma á sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Þar lá hún á milli tveggja heima í 5 ár, uns hún kvaddi þennan 20. október 1988. Ég átti oft skjól hjá afa árin sem amma var á sjúkrahúsinu, stundum svo mánuðum skipti. Afi fór á hverjum degi niður á sjúkrahús til að eiga stund með ömmu, ég fór einu sinni, fannst amma ekki vera þar og treysti mér ekki oftar. Stundum sagði afi þegar hann kom heim að lokinni heimsókn á sjúkrahúsið; ég er ekki frá því nafni minn að hún amma þín hafi vitað af mér hjá sér í dag, en aldrei fann hann að fælni minni við sjúkrahúsið.

Þegar systkini afa komu í heimsókn sást langt aftur í gamlan tíma, móttökur og kveðjur þeirra heimsókna voru innilega fallegar. Þegar Tunghagahjónin, Sigþór og Þura systir afa, komu í heimsókn skynjaði maður hvað elsti bróðirinn hafði verið mikils metin þegar foreldrarnir fengu ábúðina í Tunghaga, hrjáð af berklum og komin með 4 barna hóp. Þá hafði næstelsta systirin Katrín verið hjá fósturforeldrum, sem voru skyldfólk á Seyðisfirði, í nokkur ár. Sigþór og Þura giftu sig 1936 árið sem Jón Sigvaldason dó og keyptu síðar Tunghaga. Margir heimsóttu afa reglulega á Selásinn, gamli héraðslæknirinn, presturinn, verkamaðurinn, alþingismaðurinn ofl, ofl, og varð ég oft vitni af áhugaverðum samræðum. Afkomendurnir komu auðvitað oft í heimsókn og upp á milli þeirra gerði afi aldrei.

Það var ekki oft í seinni tíð sem afi var á faraldsfæti en hann kom samt nokkru sinnum í dagsferð á Djúpavog til að heimsækja nafna sinn og einu sinni stoppaði hann í nokkra daga. Skömmu eftir að þau amma og afi hættu að búa í Vallanesinu var farin fjölskylduferð norður í land til að heimsækja afkomendur og vini í Skagafirði. Við bræðurnir vorum í 1946 willysnum með afa, en amma var í bíl með foreldrum okkar og systrum. Það var allt svo stórkostlegt sem fyrir augu bar að við bræður máttum hafa okkur alla við að minna afa á hvar á veginum willysinn var, og miklar voru áhyggjur okkar bræðra þegar var farið um Ólafsfjarðarmúlann því willysinn átti það til að hrökkva úr gír og ekki var nú útsýnið amalegt í Múlanum þegar halla fór til Ólafsfjarðar. Einu sinni fór afi út fyrir landsteinana og urðu Færeyjar fyrir valinu.

Á Egilsstöðum vann afi fram yfir sjötugt, hann vann nokkur ár í skóverksmiðjunni Agila, síðan sem sendibílstjóri og lagermaður hjá Verslunarvélagi Austurlands, við byggingavinnu og að lokum hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Eftir að hann hætti í fastri vinnu tók hann að sér ýmis verkefni s.s. að sjá um sumarstarfsvöll fyrir unga Egilsstaðabúa þar sem byggð voru fallegustu hús bæjarins, slá og hirða lóðir fyrir stofnanir og hjálpa skólabörnum yfir götu á varasömustu gatnamótum bæjarins. Í dag má sjá lögreglubíl við þessi gatnamót á annatíma þegar vænta má flestra barna, ökumönnum til áminningar. Hann sagði mér eitt sinn að ef hann hefði haft val á sínum yngri árum hefði hann sennilegast ekki orðið bóndi, menntavegurinn hefði orðið fyrir valinu.

Í áranna rás hafði ég ekki áttað mig á hversu stórt hlutverk afi minn hafði í mínu lífi. Á árunum 1997 og 1998 var ég um tíma við störf í Ísrael við að leggja iðnaðargólfefni á verksmiðjur gyðinga í Galíleu. Við höfðum nokkrir íslendingar tekist á hendur að fara í nokkurskonar útrásarvíking í samstarfi við ísraelskan umboðsmann. Þessi ár vann ég í nokkurra vikna úthöldum ásamt gólflagnamönnum sem ég vann ekki með á Íslandi. Við gistum á samyrkjubúum en borðuðum í grennd við vinnustað og var það frekar fábreitt sjoppu fæði, Mc Donalds eða shawarma hjá götusala, svona eitthvað svipað og pilsa með öllu heima á Íslandi.

Á leið í næturstað að loknum vinnudegi var svo reynt að hafa upp á einhverju kræsilegra að éta. Eitt skiptið höfðum við óvænt lent inn á veitingastað hjá aröbum og borðuðum þar góðan mat, -að mér fannst. Ég stakk oft eftir það upp á því við félaga mína að fara aftur á araba staðinn. Það var að endingu látið eftir mér, þegar við sátum að snæðingi þá sagði annar félaginn; hva, þú færð þér svo bara það sama og síðast. Ég jánkaði því og sagði; lambakjötið hérna er næstum jafn gott og það íslenska og næstum eins og afi hafi steikt það. Vinnufélagar litu kímnir á hvern annan og annar þeirra sagði; það hlaut að vera að þessi staður hefði eitthvað að gera með hann afa þinn.

Síðsumars 1999 brugðum við Matthildur mín okkur upp í Hérað ásamt börnunum okkar tveim. Ferðin var farin til að sigla á Lagarfljótinu, en þá hafði ferjan Lagarfljótsormurinn nýlega hafið siglingar frá Egilsstöðum inn í Hallormsstað. Eins og vanalega komum við á Selásinn til afa og hafði ég gengið með þær grillur að afi myndi hafa gaman að því að koma með í siglinguna. Hann var þá, auk aldursins, orðinn helsjúkur. En á björtum sumardegi þá man maður afa sinn alltaf sem hetju bernskuáranna. Þrátt fyrir hve af honum var dregið gat ég ekki stillt mig um að biðja hann um að koma með í siglinguna. Hann brosti og svaraði; já ég held ég geri það bara nafni minn.

Ormurinn sigldi inn Fljótið í sólskini og 20 stiga hita á meðan Héraðið skartaði sínu fegursta til beggja handa. Við nafnarnir sátum saman í skuti meðan siglt var með vesturbakka Fljótsins, Fellamegin, og fylgdumst með því sem fyrir augu bar. Á móts við Skeggjastaði beygði Lagafljótsormurinn þvert yfir Fljótið og tók landi við Atlavík í Hallormstaðaskógi. Þegar áningunni þar var lokið var siglt út Fljótið að austanverði fram hjá Vallanesinu með sínum líparítgulu fljótsmalarfjörum þar sem afi hafði lifið sín manndómsár, siglingin endaði svo við sporð Lagarfljótsbrúarinnar á Egilsstaðanesinu. Þetta var síðasta ferðin okkar afa, við höfðum farið með bökkum Fljótsins þar sem hann fæddist og ól sinn aldur. Hann hélt svo til æðri heima á vit fólksins síns 13. nóvember 1999. En ég sigldi inn í 21. öldina þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast fullvalda 20. aldar manninum, sem aldrei fór fram á önnur laun í lok dags en að fólkinu hans liði vel.

Hann afi minn var af kynslóð fólks sem lifað hafði frá torfbæ til tölvualdar, fólks sem þakkaði sér hvorki uppbyggingu né framfarir 20. aldarinnar, heldur sagði að svona hefði þetta nú bara æxlast og það hefði tekið þátt í því. Hann var afkomandi kotfólksins, sem tók öllum höfðingjum fram. Hann tilheyrði ungu fólki sem  fékk fullveldið í fermingargjöf og mundi tímana tvenna.

Tryggvi Emilsson lýsir hörðum kjörum kotfólksins svo í upphafi 20. aldar. Á vorin ætlaði aldrei að hlána þessar fáu rollur gengu magrar undan hörðum vetrum og snjóþungum. En þegar loksins náði til jarðar og grösin komu græn undan snjónum voru stráin svo kjarngóð að ærnar, sem voru stundum komnar með horlopa, hjörnuðu fljótt við. Lömbin komust á spena og mjólkin varð feitari með hverjum degi, og svo var fært frá. Þyngsta þrautin var að standast afleiðingar vetrarhörkunnar þegar seint voraði. Börnin voru mögur og lasburða en reyndu þó að skríða á eftir henni móður sinni þegar hún var að hreinsa túnið, með bláar hendur eftir frostbólguna um veturinn, faðirinn fór sér hægt, þrótturinn var ekki á marga fiska. (Fátækt fólk bls.299)

Afkomendur kotfólksins skildu þannig við 20. öldina að Rúnar heitin Júlíusson gat sungið seint á áttuna áratugnum þannig um lífskilyrði kynslóðarinnar okkar sem sigldum um miðjum aldur inn í þá 21., við texta Þorsteins Eggertssonar; betri bíla, yngri konur, eldra viskí, meiri pening, en það verður allt önnur saga. Hvað þá hvort kynslóðinni, sem vanist hefur snappi takist að tengja sig við fullveldið með appi.


Hafa mælar verið fleiri?

Jarðvísindamenn segja að Öræfajökull skjálfi sem aldrei fyrr samkvæmt þeirra mælum og er því spurning hvað lengi jökullinn hefur verið mældur í þeim mæli sem nú er gert. Sennilega hefur mælum verið fjölgað stórlega eftir að hann fór að láta á sér kræla fyrr nokkrum árum.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvernig nafnið Öræfi kom til, svo oft hefur eldgosinu 1362 verið gerð skil, sem gjöreyddi Litla-Héraði. Þó svo að ekki séu til um þetta stórgos, nema mjög takmarkaðar samtímaheimildir í annálum, telja seinna tíma rannsóknir að þá hafi orðið eitt mesta eldgos á Íslandi á sögulegum tíma og sennilega stærsta og mannskæðasta sprengigos frá því land byggðist.

Um mun meðalstóra gosið 1727 er meira vitað um. Sama gildir um það gos og 1362, að um það eru mjög takmarkaðar heimildir í annálum. En um það gos er þó til lýsing sjónarvotts á upptökum og afleiðingum. Þar er um að ræða lýsingu séra Jóns Þorlákssonar sóknarprests í Sandfelli.

Jón var fæddur árið 1700 á Kolmúla við Reyðarfjörð og var prestur í Sandfelli í Öræfum 1723-1732, því aðeins 27 ára þegar eldumbrotin urðu. Hann skrifar samt ekki lýsingu sína á því sem gerðist fyrr en um 50 árum seinna, þegar hann er sóknarprestur á Hólmum í Reyðarfirði.

Sagt er var um séra Jón, "hann var mikilfengur og hraustmenni, fastlyndur og geðríkur, og lét lítt hlut sinn." Fer frásögn hans hér á eftir: 

"Árið 1727, hinn 7 ágúst, er var 10. sunnudagur eftir trinitatis, þá er guðsþjónusta var byrjuð í heimakirkjunni á Sandfelli og ég stóð þar fyrir altarinu, fann ég hreyfingu undir fótum mér. Gaf ég henni eigi gaum í fyrstu, en undir prédikun fóru hræringar þessar mjög vaxandi, og greip menn þá felmtur, en samt sögðu menn, að slíkt hefði áður við borið. Gamall maður og örvasa gekk niður að lind, sem er fyrir neðan bæinn og kraup þar á kné stundarkorn, og hlógu menn að þessu atferli hans. Þegar hann kom aftur og ég spurði hann, hvers hann hefði verið að leita, svaraði hann: „Gætið yðar vel, herra prestur, það er kominn upp jarðeldur.“ Í sama bili varð mér litið til kirkjudyranna, og sýndist mér þá eins og öðrum, sem viðstaddir voru, líkt og húsið herptist og beygðist saman.

Ég reið frá kirkjunni en gerði eigi annað en að hugsa um orð öldungsins. Þegar ég var fyrir neðan miðjan Flögujökul og varð litið upp á jökultindinn, virtist mér sem jökullinn hækkaði og belgdist út aðra stundina, en lækkaði og félli saman hina. Þetta var ekki heldur missýning, og kom það brátt í ljós, hvað þetta boðaði. Morguninn eftir, mánudaginn 8. ágúst, fundu menn eigi aðeins tíða og ægilega landskjálftakippi, en heyrðu einnig ógnabresti, sem ekki voru minni en þrumuhljóð. Í þessum látum féll allt, sem lauslegt var í húsum inni, og var ekki annað sýnna en allt mundi hrynja, bæði húsin og fjöllin sjálf. Húsin hrundu þó eigi. En það jók mjög á skelfingu fólksins, að enginn vissi, hvaðan ógnin mundi koma né hvar hún dyndi yfir. Klukkan 9 um morguninn heyrðust 3 miklir brestir, sem báru af hinum; þeim fylgdu nokkur vatnshlaup eða gos og var hið síðasta mest, sópuðu þau brott hestum og öðrum peningi, er fyrir þeim urðu, í einu vetfangi.

Þar á eftir seig sjálfur jökullinn niður á jafnsléttu, líkt og þegar bráðnum málmi er hellt úr deiglu. Hann var svo hár, er hann var kominn niður á jafnsléttuna, að yfir hann sá ég ekki meira af Lómagnúpi en á stærð við fugl. Að þessu búnu tók vatnið að fossa fram fyrir austan jöklana og eyddi því litla, sem eftir var af graslendi. Þyngst féll mér að horfa á kvenfólkið grátandi og nágranna mína ráðþrota og kjarklausa. En þegar ég sá, að vatnsflóðið leitaði í áttina til bæjar míns, flutti ég fólk mitt og börn upp á háan hjalla í fjallinu, sem Dalskarðstorfa heitir. Þar lét ég reisa tjald og flytja þangað alla muni kirkjunnar, matvæli, föt og aðrar nauðsynjar, því að ég þóttist sjá, að þótt jökullinn brytist fram á öðrum stað, mundi þó hæð þess standa lengst, ef guði þóknaðist; fólum við okkur honum á vald og dvöldumst þar.

Ástandið breyttist nú enn við það, að sjálfur jökullinn braust fram og bárust sumir jakarnir allt á sjó fram, en hinir stærri stóðu rétt við fjallsræturnar. Þessu næst fylltist loftið af eldi og ösku, með óaflátanlegum brestum og braki; var askan svo heit, að engin sást munur dags og nætur og af myrkri því, er hún olli; hið eina ljós er sást, var bjarminn af eldi þeim sem upp var kominn í 5 eða 6 fjallaskorum. Í 3 daga samfellt var Öræfasókn þjáð á þennan hátt með eldi, vatni og öskufalli. Þó er ekki létt að lýsa þessu eins og í raun réttri var, því að öll jörðin var svört af vikursandi og ekki var hættulaust að ganga úti sakir glóandi steina, sem rigndi úr loftinu, og báru því ýmsir fötur og kollur á höfðinu sér til hlífðar.

Hinn 11. sama mánaðar tók ögn að rofa til í byggðinni, en eldur og reykur stóð enn upp úr jöklinum. Þennan dag fór ég við fjórða mann til þess að líta eftir, hversu sakir stæðu á kirkjustaðnum Sandfelli, sem var í hinni mestu hættu. Þetta var hin mesta hættuferð, því að hvergi varð farið nema milli fjallsins og hins hlaupna jökuls, og var vatnið svo heitt, að við lá, að hestarnir fældust. En þegar við vorum komnir svo langt, að fram úr sá, leit ég við. Sá ég þá, hvar vatnsflaumur fossaði ofan frá jöklinum, og hefði hann sennilega orðið bani okkar, ef við hefðum lent í honum. Ég tók því það til bragðs að ríða fram á ísbreiðuna og hrópaði til förunauta minna að fylgja mér hið skjótasta. Með þeim hætti sluppum við og náðum heilu og höldnu að Sandfelli. Jörðin ásamt tveimur hjáleigum var að fullu eydd, og var ekkert eftir nema bæjarhúsin og smáspildur af túninu. Fólkið var grátandi úti í kirkju.

En gagnstætt því, sem allir héldu, höfðu kýrnar á Sandfelli og fleiri bæjum komist lífs af, og stóðu þær öskrandi hjá ónýtum heystökkum. Helmingur fólksins á prestsetrinu hafði verið í seli með 4 nýlega reistum húsum. Tvær fullorðnar stúlkur og unglingspiltur flýðu upp á þak hæsta hússins, en skjótt þar á eftir hreif vatnsflaumurinn húsið, þar sem það, eftir sögn þeirra, er á horfðu, stóðst ekki þunga aurflóðsins, sem féll að því. Og meðan menn sáu til stóðu þessar þrjár vesalings manneskjur á þakinu. Lík annarrar stúlkunnar fannst seinna á aurunum, það var brennt og líkast sem það væri soðið. Var varla unnt að snerta hið skaddaða lík, svo var það meyrt orðið. Allt ástand sveitarinnar var hið hörmulegasta. Sauðféð hafði flest farist, sumt af því rak seinna á fjörur í þriðju sókn frá Öræfum. Hey skorti handa kúnum, svo að ekki var unnt að setja nema fimmta hluta þeirra á vetur. 

Eldurinn brann án afláts í fjallinu frá 8. ágúst fram til sumarmála í apríl árið eftir. Fram á sumar voru steinar svo heitir, að af þeim rauk, og var ekki unnt að snerta þá í fyrstu. Sumir þeirra voru fullbrenndir og orðnir að kalki, aðrir voru svartir á lit og holóttir, en í gegnum suma var unnt að blása. Flestir þeir hestar, sem hlaupið hafði ekki borið út á sjó, voru stórkostlega beinbrotnir, er þeir fundust. Austasti hluti Síðusóknar skemmdist svo af vikri, að menn urðu að slátra miklu af búpeningi.

Á sumardaginn fyrsta árið eftir, 1728, fékk ég nefndarmann einn með mér til að kanna sprungurnar í fjallinu; var þá hægt að skríða um þar. Ég fann þar dálítið af saltpétri og hefði getað safnað nokkuð af honum, ef hitinn hefði ekki verið svo mikill, að ég var tregur til að haldast þar við. Á einum stað var stór, brunninn steinn á sprungubarmi; af því að hann stóð tæpt, hrundum við honum niður í sprunguna, en ómögulegt var okkur að heyra, er hann nam við botn. Þetta, sem nú er sagt, er hið markverðasta, sem ég hef frá að skýra um þennan jarðeld.

Þó skal því við bætt, að húsmaður einn sagði mér, að hann hefði nokkru áður en eldurinn kom upp heyrt hljóð í fjallinu, sem líktust andvörpum og málæði margra manna, en þegar hann fór að hlusta betur, heyrði hann ekkert. Ég tók þetta til íhugunar og vildi ekki reynast miður forvitinn, og ég get ekki borið á móti því, að ég heyrði hið sama. Þetta kvað og hafa gerst víðar, þar sem eldur var uppi með sama hætti. Þannig hefur guð leitt mig í gegnum eld og vatnagang, ótal óhöpp og andstreymi allt fram til 80. æviárs. Hann sé lofaður, prísaður og í heiðri hafður að eilífu."

Frásögn séra Jóns Þorlákssonar er fengin af stjörnufræðivefnum.


mbl.is Skjálftavirkni aldrei mælst meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níu heimar

The Kardashian

Það er ekki á hverjum degi sem greinaskrif hræra upp í skilningsvitunum. Greinin sem um ræðir er eftir A. True Ott PhD sem skreytir sig með háskólagráðu í listum frá Cedar City University, Utah 1982 og doktorsgráðu í heimspeki frá American College, Washington DC 1994. Það er með ólíkindum að maður sem hefur dvalið á æðri menntastofnunum í áratugi hafi heilabú til að skrifa slíka hugvekju.

Enda kom í ljós þegar gæinn var gúgglaður að þarna er á ferð gyðingahatari sem logið hefur upp á sig gráðum rétt eins og hver annar framsóknarmaður auk þess að vera þjóðernissinni með tengsl við ný-nasista og öfga kristna, í ofanálag djöfladýrkandi. Þetta höfðu rannsóknarblaðamenn áreyðanlegra fjölmiðla komist á snoður um varðandi A. True Ott og var sett upp vefsíða um tíma svo fólk gæti varast fýrinn. það er því með hálfum hug sem ég birti þessar hugleiðingar sem byggðar á eru hugvekju hans um níu heima og slæðurnar sem þá hylja.

Til að sjá bak við hulurnar sem leyna vitundina heimana níu er gagnlegt að hafa í huga að forn hugmyndafræði gerði ráð fyrir að ákveðin öfl stýrðu okkar lífi. Dulspekin gerir einnig ráð fyrir að heimarnir sem umlykju okkur séu fleiri en þessir þrír sem kirkjan bauð upp á í árhundruð, þ.e.a.s. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Nærtæk er goðafræðin sem kennd er við Ásatrú sem gerði ráð fyrir níu heimum, hafði eigin sköpunarsögu og þeir sem hafa kynnt sér það sem nýlega hefur lekið út á alheimsnetið, þ.e. Annunaki geta fundið samsvörun í Völuspá. Heimurinn virðist því ævinlega vera sú hugmynd sem samþykkt er af fjöldanum á hverjum tíma, jafnvel þó tálsýn sé. Speki goðafræðinnar væri rangt að telja til trúarbragða, miklu frekar væri að telja hana til hugmyndar fólks um heim þess tíma og lífsviðhorfa sem honum tengdust.

Að sumu leiti liggur það í augum uppi að heimarnir sem umlykja okkur eru fleiri en við viðurkennum, þetta er nokkuð skýrt hjá barnsálinni þar til henni hafa verið innrætt lífsviðhorf rökhyggjunnar. Flestir áhangendur innrættrar rökhyggju, sem láta þó það uppi að þeir trúi á trúleysið, telja að stærðfræðilegur sannleikur talnanna getur hvorki falið í sér dulspeki né trúarbrögð. En þær geta samt sem áður villt sýn eftir því í hvaða samhengi þær eru fram settar.

A. True Ott bendir á að tölurnar eru ekki margar, eða alls níu á bilinu 1 – 9 sem þarf til að fá allar útkomur. Yfirleitt er talnafræði kennd almenningi til reiknings eða stærðfræði og mikið notaðar nú á tímum til að sýna fram á lygilega hagfræði. Stundum er samsetning talnanna kennd sem brotareikningur í formi þokugrárrar algebru þar sem barnsálin rammvillist í ósýnileka óþekktra stærða, en sjaldnast eru töfrar talnanna kynntir sem heilög rúmfræði (sacret geometry).

magical_numbers_by_bernce-d4u2vvwÞess virðist því vera vandlega gætt að töfrar talnanna séu huldir barninu þegar því eru innrætt notagildi þeirra, kannski er þetta gert til þess heimarnir sem umlykja barnsálina trufli ekki við það að búa til nýtan þjóðfélags þegn. Svo markviss er 2+2=4 akademían að margt sem áður var þekkt eru orðið að afgangsstærð. Þannig að flest börn sem breytast í rökhugsandi menntamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, skila auðu varðandi tilvist himnaríkis og helvítis fyrir trú sína og von á hagvöxt jarðlífsins.

Hvað ef okkur væri innrætt tölfræði á töfrandi grunni?

(1 x 8) + 1= 9

(12 x 8) + 2 = 98

(123 x 8) + 3 = 987

(1234 x 8) + 4 = 9876

(12345 x 8) + 5 = 98765

(123456 x 8) + 6 = 987654

(1234567 x 8) + 7 = 9876543

(12345678 x 8) + 8 = 98765432

(123456789 x 8) + 9 = 987654321

Magnað er það ekki; fullkomin speglun, As Above, So Below, ætli lífsins tré hafa svipað til þessa þegar búið var að umreikna þess óendanlega óþekktu stærð?

Það er kannski ekki undarlegt að helstu hugsuðir heimsins hafi verið talnaglöggir s.s. Arkímedes, Copernicus, Sókrates og DaVinci. Það ætti að vera jafn auðvelt skilja að allt frá spádómum Biblíunnar til DNA stiga nútímans er byggt á mynstri einfaldra talnaformúla. En hvað kemur það þessum níu heimum við?

Íhugum ef svokallaðir „mystery schools“, skólar galdra til forna, þar sem seiður ásamt þekkingu á heilagri rúmfræði vísaði veginn til þess sem ætti að vera hverjum nytsamt, þ.e. uppgötvunum á tilurð þessa heims þar sem sköpun hans væri opinberuð. Að halda því fram að opinber menntun sé til þessa að rugla barnsálina í ríminu, er auðvitað bara samsæriskenningin. En hversvegna er svona erfitt að sjá þann sannleika sem mun gera okkur frjáls?

MonopolyÞví telur A True Ott best svarað með orðum sem hann eignar vini sínum Don Harkins. „Á undanförnum árum hef ég leitast við að setja fram kenningar varðandi það hvers vegna fólk sér ekki sannleikann, jafnvel þó það fái hann óþveginn beint í andlitið. Þau okkar sem eiga auðvelt með að sjá samsærið hafa örugglega átt óteljandi samræður við fólk sem gremst það að deilt sé á stofnanir samfélagsins, jafnvel þó að færa megi fram skjalfest rök fyrir því hvernig kerfið er markvist notað til að koma okkur í ánauð svo hægt sé að nota okkur í þágu hagvaxtar hinna fáu. Líklegasta skíringin á þessu er sú að fólk vilji hreinlega ekki sjá hvað er að gerast“

Því er oft þannig farið að heimsins ráð brugga vondir menn, sem koma því þannig fyrir að grasið er grænna hinu megin við lækinn þannig að við sækjumst eftir glysinu líkt og asni sem eltir gulrót, tilhneiging er til að líta á þann sem á það bendir sem samsæriskenninga smið. Enda ráða heimsins öfl launuðum störfum, fjölmiðlum og afþreyingu sem eitthvað kveður að. Meir að segja tímaritið Forbes greinir frá því árlega að 1% íbúa jarðar ráði yfir 50% af auði hennar, svo má ætla innan við 1% íbúa heimsins sjái eitthvað samsæri við það í gegnum hulurnar.

Það er ekki þannig að þeir sem ekki sjá frelsið hverfa ofan í hagvaxtar skrímslið vilji ekkert sjá og haldi ráðabruggi vondra manna gangandi meðvitað. þeir einfaldlega geta ekki séð hvað er að gerast vegna þess að trúin á að heimurinn sé ekki annað en okkar innrætta útgáfa af jarðlífinu lokar sýninni á aðra heima og svo er þetta auðvitað líka atvinnuspursmál.

consciousnessportal-640x427

Fyrsta heimur mótast af stjórnmálum og efnislegu umhverfi, að vera virkur í samfélaginu með því að kjósa á milli viðtekinna viðhorfa. Skoðanir taka mið af efnahagsmálum; við vitum af uppeldinu að það á að bera virðingu fyrir embættismönnum, fjölmiðlar fara með sannleika, undirstrikaðan af helstu sérfræðingum samfélagsins. Níutíu prósent okkar munu lifa og deyja án þess að svo mikið sem efast um þessa heimsmynd.

Annar heimur, þeir sem þangað koma munu kanna söguna, tengslin milli einstaklingsins og stjórnvalda í hennar ljósi. Öðlast skilningi á því hvernig valddreifing getur stjórnskipulega farið saman við stjórnarskrárbundnum réttindum einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að leita lengra þrátt fyrir að gera sér grein fyrir að ríkisvaldið hefur í gegnum tíðina sífellt gengið lengra á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklingsins.

Þriðji heimur, þeir sem hingað kíkja mun finna óyggjandi sannanir fyrir því að auðlindir heimsins, þar á meðal fólk, er stjórnað af mjög auðugum ættum sem byggja á gömlum auði heimsins, sem þær viðhalda með nútímalegri fjárkúgun sem felst í því að skuldsetja hagkerfi þjóðanna. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að sjá meira.

Fjórði heimur, þeir sem í þennan heim sjá munu komast að því að það eru til leynileg samtök manna s.s. Illuminatti, frímúrarar ofl. sem styðjast við forna dulspeki, táknfræði og helgisiði. Þessi samtök eru byggð upp á svipaðan hátt og pýramídi þannig að upplýsingarnar færast frá breiðum grunni upp á toppinn þar sem þær komast í þjónustu fámenns hóps án þess að þeir sem starfa á lægri stigum hafi nokkra hugmynd um hvernig . Halda allt eins að þeir starfi í góðgerðasamtökum. Um níutíu prósent fólks, sem þó þetta sér, mun ekki sjá til næsta heims.

Fimmti heimur þar sem lærist að með leyndarhyggju hefur verið svo langt á veg komist að tæknilega er fjarhrifum, tímaflakki og heilaþvotti engin takmörk sett. Með því móti er hægt að stjórna hugsunum og gerðum fólks þannig að það gegnir, líkast því og þegar við segjum börnunum að fara að sofa. Líkt og á dögum syndaflóðsins er ákveðin tækni notuð af ráðandi öflum til að ráðskast með heiminn, rétt eins og ákveðnir menn fari með umboð Guðs.

Sjötti heimur þar sem komist er að því drekar, eðlur og geimverur sem við héldum að væri skálduð skrímsli barnabókmenntanna eru raunveruleg ráðandi öfl á að baki leyndarhyggjunni sem uppgötvuð var í fjórða heimi. Níutíu prósent af fólki í þeim hópi sem sér inn í þennan heim mun lifa og deyja án þess gægjast í þann sjöunda.

Sjöundi heimur er ótrúlegur heimur heilagrar rúmfræði þar sem lögmál alheimsins verða skilin og meðtekin. Frumsköpunarkraftur alheimsins verður að fullu sýnilegur í formi tölulegra "leyndardóma" þar á meðal tilurð tíma og rúms, hliðstæðra heima, og aðgangur að þeim opinberast. Þeir snilldarhugsuðir sem komast í þennan sjöunda heim munu flestir láta glepjast af loforðum um stórfelldan auð úr hendi elítunnar, og þannig munu yfir níutíu prósent þeirra sem hingað komast lifa og deyja án þess að vísa fjöldanum veginn og kynnast þeim áttunda.

Áttundi heimur er þegar við sjáum í gegnum blæjuna sem kom í veg fyrir að við greindum ljós almættisins, þar upplifum við þá hreinu orku sem gengur undir heitinu skilyrðislaus kærleikur og fyrirfinnst í öllu í lífi á jörðu, sem er eitt og hið sama sama í hvaða formi sem er. Djúpstæðrar auðmýktar er þörf til þess að sjá í næsta heim.

Níundi heimur þar sem fullkomnunar hreinnar orku kærleikans er náð með því að verða eitt með almættinu og sköpunar þess. Með fullkomnun þessarar hreinu orku, mun kærleikurinn skapa fullan skilning á því að dauðinn er ekki fórn heldur endurlausn; lífið sjálft verður sannarlega hringferli þar sem þú munt munt líta heiminn á ný með augum saklaus barns, enn með skilningi sem það gaf og varð endanlega til við að uppgötva skilyrðislausan kærleika lífsins.

Það kaldhæðnislega er að því meira sem þeir upplýsa sem færir eru um að sjá umfram fjöldann, þeim mun geðveikari eru þeir taldir vera af fjöldanum. Jafnvel svo veikir að nauðsynlegt hefur talist að loka svoleiðis samsæriskenningasmiði inn á hæli, eða meðhöndla á þann hátt sem hentar tíðarandanum og auðkenna þá sem væntanlega hryðjuverkamenn. Í fyrstu tveimur heimunum lifir og hrærist yfirgnæfandi meirihluti fólks. Munurinn á þeim fyrsta og öðrum er í meginatriðum sá að þeir sem þekkja innviði annars heims útvega stjórnmálamönnum meðvitað fallbyssufóður á vígvöllinn með því kjósa þá áfram í hreinni firringu. Þeir sem hafa heimsótt 3 – 5 heim gera ríkisvaldinu erfiðra fyrir að hygla elítunni með ábendingum sínum, en með því fórna þeir oft tengslum við vinafólk og fjölskyldu. Verðlaunin verða svo þau að vera taldir ruglaðir af megin þorra fólks.

sinister-santa

Ekki þurfti samt háskólagráðurnar hans A. True Ott til að uppgötva þetta allt saman. Í þjóðsögunum íslensku má vel sjá að fólk hafði vitneskju um hina ýmsu heima í gegnum aldirnar sem þykja kannski ekki eiga erindi við daginn í dag. Þriðja bindi þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar hefur að geima álfasögur og þar má finna söguna af Steini á Þrúðvangi, sem var bóndi á austanverðu Íslandi skömmu eftir að kristni var meðtekin, og samtali sem hann varð vitni að þar sem hann dormaði á milli svefns og vöku á jóladag; „,,,sjáið samt til að elskan hvort heldur á hlutum til dæmis auðæfum eður persónum verði svo sterk að elskan til Guðs tapist með öllu. Í einu orði ef þér gætuð viðhaldið þessum tveimur grundvallarstólpum Lúsífersríkis, hatri og óleyfilegri elsku, þá mun allt annað illt leggjast til: Guð og hans orða forakt, óhlýðni við yfirboðarana, manndráp, hórdómur og blóðskammir, þjófnaður lygar og að ég ei tali um allra handa vondar girndir.“ Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er útgáfa sögunnar af Steini á Þrúðvangi mun styttri, en þar segir af því þegar menn fréttu af vitrunum hans; „Könnuðust menn þá við anda þessa og það voru þeir sem menn kalla jólasveina. Ganga þeir um byggðirnar og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn.“

Líkt og með jólasveinana sem voru einn og átta samkvæmt þjóðvísunni, þá hafði goðafræðin sína níu heima til að skýra myndina. Nú nægir einn heimur með einum jólasveini.

 
Ps. Þessi pistill hefur birst áður hér á síðunni 19. apríl 2015 og er nú endurbirtur í tilefni vetrar.

 


Penigana eða lífið

Var vinsæll frasi í bófaleiknum í denn. Auðvitað vildi maður halda lífi, og ef maður afhenti ekki peningana þá var maður úr leik hvort eð var. Stundum var formáli frasans "upp með hendur niður með brækur" og svo "peningana eða lífið". Þá vandaðist málið því sjálfsvirðingin leyfði ekki að maður tæki niðrum sig áður en maður afhenti peningana fyrir það eitt að fá að halda lífi í þykjustuleik. Það má segja að frasinn hafi með þeim formála verið á svipuðu kalíberi fyrir heilabúið og spurningin um það hvað væri líkt með krókódíl.

En þegar til alvöru lífsins kemur, hvort verður þá fyrir valinu peningarnir eða lífið? Svarið vill oft verða nokkuð snúið, en ætti auðvitað að vera núið. Rétt eins og maður vildi ekki rífa niður um sig brækurnar í þykjustuleik. Það er bara í núinu sem maður hefur lífið og ef maður ætlar að geyma sjálfsvirðinguna þangað til á morgunn gæti maður allt eins hafa tapað bæði lífinu og peningunum þegar sá dagur birtist, með allt niðrum sig.

Hvað þá ef maður bara rífur niður um sig brækurnar og afhendir peningana? Það er nú reyndar einmitt það sem margir gera með því að vanda t.d. val á menntun burt séð frá hvar áhugamálið liggur. Telja sig gera það í skiptum fyrir fjárhagslegt öryggi í framtíðinni, áhyggjulaust ævikvöld og allan þann pakka. Eru jafnvel á ævilöngum harðahlaupum eftir framtíðar gulrótinni. Koma sér upp bókhaldslegu talnaverki í banka til síðari nota, eða það sem ekki er síður í móð að koma upp kretid bókhaldi sem kemur peningum í framtíðar lóg.

Þó það sé erfitt að skulda peninga þá hafa margir bent á að það sé enn erfiðar að eiga þá. Heimsspekingurinn Gunnar Dal sagði í viðtalsbók að hann þekkti engan sem ætti peninga. Hann þekkti einungis örfáa menn sem ættu einhverjar milljónir um stund, yfirleitt færi það svo að þegar þær stoppuðu við hjá einhverjum þá ættu milljónirnar manninn. Dæmi væru um að svo rammt kvæði að eignarhaldinu, eftir því sem á ævina liði, að fólk sem talið var forríkt dó úr hungri af því að það hélt að það gæti eignast örlítið meiri pening rétt áður en það lenti í gröfina.

Einn ónefndur nafni minn, sem var bóndi upp í sveit, var talinn eiga aura. Þegar hann fékk sölumann landbúnaðarvéla í heimsókn hafði hann unnið hörðum höndum langa ævi og vildi sölumaðurinn létta honum erfiðið í ellinni með því að selja honum skítadreifara. Nafni taldi að sú fjárfesting borgaði sig ekki úr því sem komið væri. Sölumaðurinn benti honum góðfúslega á að ekki færi hann með peningana með sér yfir um, "og hvað þá skítadreifarann" ansaði gamli maðurinn.

Það er því spurning hvort að formálinn upp með hendur niður með brækur auðveldar ekki ákvarðanatökuna um peningana eða lífið þegar öll kurl koma til grafar. Og varðandi það, hvað sé líkt með krókódíl þá er fræðilega svarið, að hann getur hvorki hjólað.

 


Myrkrið í ljósinu

Í dag eru jafndægur að hausti. Næsta ársfjórðunginn mun því dimma með hverjum deginum. Þó svo slökkt yrði á öðru hverju ljósi á Íslandi þá mun birtan frá þeim sem á eftir loga samt sem áður næga til þess að flestir sæju betur í myrkrinu, eftir en áður. Er það því ekki undarlegt hvernig rándýr raflýsing er notuð til að búa til myrkur?

Nú mun sjálfsag einhver hugsa sem svo að þetta sé nú meira endemis bullið, síðuhöfundur hljóti að vera eitthvað ruglaður. Að sérviska sem setur sig á móti raflýsingunni í skammdeginu sé undarleg bilun. En staðreyndin er engu að síður sú, að þegar raflýsing er orðin eins fyrirferðamikil og raun ber vitni þá getur hún orðið til að framleiða rándýrt myrkur sem kemur í veg fyrir að umhverfið sjáist. Eins og dæmin sanna. 

Undanfarin ár hef ég tamið mér að ganga eða hjóla til og frá vinnu, allan ársins hring. Þetta geri ég ekki af sérviskunni einni saman, heldur líka samkvæmt læknisráði. Eftir því sem sérfræðingar segja er þessi aðferð nauðsynleg til þess að ég fái nægjanlegt súrefni. Það á víst að vera betra að verða passlega móður og gapa út í loftið. Það sleppur víst ekki lengur, eins og á yngri árum, að draga djúpt andann um leið og maður fékk sér smók.

Á þessum eyðimerkur göngum mínum, á dimmum morgnum, hef ég oft tekið eftir því að ljósið myrkvar umhverfið, nema það sem er rétt fyrir framan tærnar. Á leiðinni er smá spotti sem áhrifa rafljósanna gætir minna. Einmitt þar sé ég best frá mér, en ekki bara svartan vegg þegar ljósinu sleppir. Mér hefur meir að segja stundum sýnst grilla í hulduverur í móunum lengra frá vegkantinum.

Reyndar var ég búin að taka eftir því áður, þegar ég var útlagi í Noregi, að raflýsingin býr til myrkur og kemur í veg fyrir að flest sjáist annað en leiðin inn í næstu sjoppu. Best tók ég eftir þessu, þegar ég af tómri heimþrá kíkti á vefmyndavélar á yr.no, við að taka veðrið á morgnana á mínum heima slóðum. Vegna tímamismunar voru veðurathuganir mínar á morgnanna í Noregi seinni hluta nætur á Íslandi, og því sá ég hvers kyns var. 

131012_1134238_1

Þessar myndir sýna vel hversu myrkvandi raflýsing getur verið á tunglskins bjartri nóttu. Báðar eru þær frá því fimm mínútur í fimm þann 28.11.2012. Það eru einungis örfáir kílómetrar á milli Fjarðarheiðar, þar sem engin raflýsing er, og flóðlýstra gatna á Seyðisfirði. Skær raflýsing hefur svipuð áhrif á sjáaldur augna og ljósop myndavéla

Álfar virðast t.d., rétt eins og sjónin, hverfa við raflýsingu. Gott ef vitið fer ekki líka sé eitthvað að marka kostnaðinn, sem upplýst var í vikunni að sjálftökuliðið við Austurvöll hafði stofnaði til, þegar það ætlaði að lýsa upp dagsbirtuna um hásumar, svo þjóðin greindi betur merkisbera fullveldisins. Á þessu ljósasjói var víst kveikt eftir að liðið hafði girt sig af úti í móum á fyrr um aftökustað þjóðarinnar. Já, þeir eru orðnir fáir staðirnir sem er lausir við ljósið og alls ekki allir sem þola dagsbirtuna.

Þetta er í eina skiptið sem ég hef vitað til að hægt væri að upplýsa álfa með rafmagni, en að það skyldi gerast þegar reynt var að yfirgnæfa dagsljósið um hábjartan dag gat náttúrulega ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug fyrirfram. Það væri vel þess virði að nýta þessi rándýru uppgötvun og halda við girðingunni utan um fullveldis álfana svo hafa megi þá til sýnis fyrir túrista þarna lengst út í móum ásamt norðurljósunum. En þá þyrfti líka að bæta stólum og kömrum við kostnaðinn.

Á dimmri nóttu s.l. vetur vorum við Matthildur mín á ferð við Streitishvarf,alveg grunlaus um hve stutt væri í þann tímamóta viðburð að dagurinn yrði raflýstur. Við eiðbýlið, Streiti, er smá kafli á þjóðveginum sem ekkert rafmagnsljós nemur. Allt í einu slökkti ég bílljósin, steindrap á bílnum og snarstoppaði. Matthildur leit andartak upp frá prjónunum og spurði hvað nú væri í gangi. Ég sagði henni að við skildum koma okkur út úr bílnum í einum grænum hvelli. Þarna stóðum við svo eins og agndofa óvitar út á miðjum þjóðveginum í froststilltri nóttinni og göptum upp í himininn án þess að hafa hugmynd um hvað til bragðs skildi taka.

Þarna virtust vera einungis við og stjörnurnar. Á himninum voru þær eins og endalaus hundruð þúsundir ljósa, sem liðu fram af fjöllunum í kring til að lýsa leiðina út í hafsauga. Og ef maður horfði ekki beint í ljós stjarnanna, heldur upp í myrkrið á milli þeirra, þá sá maður varðaðan veginn að hinum óendanlega möguleika. Þó að nærliggjandi móar, klettaborgir og fjallshlíðar sæist eins og á björtum degi væri, þá tókum við ekki eftir nokkrum lifandi álfi, svo hægt væri að leita leiðsagnar um hvort rétt væri að fagna augnablikinu.

Við biðum ekki eftir því að sjá stjórnsýsluálf þessa stjörnubjörtu nótt á Streiti, þó svo umhverfið gæfi til kynna að þar gæti þá verið að finna. Og í stað þess að sogast inní þá ljósum prýddu veröld, sem er orðin okkur venjulegu fólki svo framandi, settumst við upp í bílinn og skröngluðumst áfram þjóðveginn með bæði ljósin logandi, hlustandi Hjálminn söngla.; En gæti ég andað á ný og með augunm skæru örlitla mæðu og stundarkorn leikið mér. Og gluggi og hurð á herbergisveggjunum væru. Og 700 þúsund stólar, ég settist hjá þér.


Mannanafnanefnd - nöfn og örnefni

Það hefur sitt sýnst hverjum um tilverurétt mannanafnanefndar. Undir lok síðasta árs fékk yngsti fjölskyldumeðlimurinn nafn sem þurfti að bera undir nefndina. Nafnið gat samt ekki verið íslenskara, enda var það samþykkt. Ævi, dóttur dóttir mín var skírð með þessu fallega nafni, stuttu í stöfum en meiru í merkingu. Sumum brá þegar nafnið varð uppvíst, einhverjir héldu jafnvel að það væri skrifað Ivy og borðið fram æví, samkvæmt engilsaxneskum tíðarandans toga. 

Dóttir mín heitir Snjófríður Kristín, eftir ömmum sínum, og hefur notast við Snjófríðar nafnið.  Eftir því sem ég best veit, er hún ein um að bera nafnið og hefur svo verið frá því hún var skírð. Það mætti kannski ætla að hún hafi ekki verið ánægð með nafnið sitt úr því að hún gefur dóttur sinni nafn sem ekki er sótt til formæðranna. En því er til að svara að það var ekki hún sem fékk hugmyndina af þessu nýja nafni. Það var faðirinn og eiginmaður, en hann kemur frá rómönsku Ameríku og hafði ekki annað í huga en íslensku merkinguna ævi, en á hans spænska móðurmáli merkir orðið "vida" það sama.

Sjálfur er ég það þjóðsögulega sinnaður að finnast það beggja blands að leggja mannanafnanefnd niður, þó svo að stundum þikji smámunasemin mikil. En annað slagið vill svo einkennilega til að það þarf nýja nálgun til að upplýsa það sem liggur í augum uppi en virðist samt sem áður framandi. Fyrir nokkrum árum síðan samþykkti nefndin nafnið Kórekur, sem er ólíkt nöfnum á borð við Snjófríður og Ævi, að því leiti að merking og uppruni liggur alls ekki í augum uppi. 

Kórekur hefur samt verið til á íslenskri tungu frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar, þrátt fyrir að þurfa samþykki mannanafnanefndar. Til er t.d. bæjarnafnið Kóreksstaðir í Hjaltastaðaþinghá. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en það kom fyrir mannanafnanefnd að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður. 

Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.

Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri, miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar teygja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."

Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.

Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ í Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið örnefni af erlendum uppruna, en samt náskylt kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er í mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heiags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.

Á sínum tíma var pistillinn um Kórek ítarlegri, einnig um bláklæddu konuna, Beinageitina ofl. Þann pistil má sjá hér.


Gildur limur og jarðvegsþjappa

Það getur verið gaman að bera saman mismunandi merkingu orða náskyldra tungumála, s.s. færeysku og íslensku. Á mínum unglingsárum þótti fyndið að hægt væri að verða gildur limur í ríðimannafélagi Færeyja. Seinna eignaðist ég skírteini sem staðfesti að ég væri gildur limur í handverkara félagi Tórshavanar, sem múrari, án þess þó að finnast það vera sérstaklega fyndið. En ég var ekki það lengi í Færeyjum að mér hugkvæmdist  eignast hest og sækja um að fá að vera gildur limur í ríðimannafélagi.

Það er ekki nóg með að spaugilegt geti verið að bera saman mismunandi merkingu orða skyldra mála, einnig má með því leiða að því líkum hversvegna sumt ber óskiljanlegar nafngiftir á móðurmálinu. Og þarf ekki skyld mál til, sem dæmi um það get ég nefnt fjallið Beinageit, sem gægist upp yfir Fjarðaheiðarendann þegar ég lít út um eldhúsgluggann, og er einn af syðstu tindum Dyrfjalla í Hjaltastaðaþinghá. Þó gelíska teljist seint skyld íslensku þá eru mörg orð íslenskunnar sögð úr henni ættuð, s.s. strákur og stelpa.

Freysteinn heitinn Sigurðsson jarðfræðingur taldi sig hafa fundið út hvernig Beinageitar nafngiftin væri til kominn. Upphaflega hefðu allur Dyrfjalla fjallgarðurinn heitið Bhein-na-geit upp á forn gelísku, sem gæti útlagst fjallið með dyrunum, eða Dyrfjöll. Síðar þegar norrænir menn fóru að setja mark sitt á landið hefði legið beinast við að kalla fjöllin Dyrfjöll, en nafnið Beinageit hefði lifað áfram á syðsta tindinum. Landnám Hajaltastaðaþinghárinnar hefur lengi þótt dularfull. Hvorki dregur Beinageitin, né Landnáma úr þeirri dulúð með sinni hrakningasögu af Una "danska" Svavarssyni.

En það er ekki þannig orð sem ég vildi gera skil núna, heldur orð sem er illa séð á íslensku. Þetta orð hefur valdið mér heilabrotum, því lengi hafði ég ekki fundið trúverðugan uppruna þess. Þó svo að orðið megi finna orðabók þá hef ég hvergi séð að málfræðingar hafi lagt sig niður við að útskýra af hverju það er dregið. Þó svo að það væri eins og orðabókin tilgreinir, þá er það hvorki notað í daglegu tali um skjóðu né skinnpoka hvað þá lasleika, - og það sem alls ekki má nefna, - nema vera túlkað í það dónalegri merkingu að enginn vill láta hafa það eftir sér opinberlega. Ef menn voga sér t.d. að nota orðið í sömu setningu og kvenmann þá er nokkuð víst að þeir sem það gera flokkast ekki sem femínistar og varla að þeir fengju inngöngu í feðraveldið, helst að þeir lentu metoo myllunni.

Þetta er semsagt orð sem maður viðhefur ekki ef maður vill vera partur af siðmenntuðu samfélagi. Ég man samt að fyrir áratugum síðan vorum við að vinna saman nokkrir vinnufélagar við að undirbúa bílaplan undir steypu, þegar fram hjá gekk kvenmaður í þyngri kantinum og vildi þá einn vinnufélaginn meina að hún myndi nýtast vel sem jarðvegsþjappa. Viðhafði í því sambandi þetta forboðna íslenska orð. Við hinir urðum vandræðalegir þangað til sá elsti okkar tók af skarið og sagði með þjósti "þetta eru nú meiru helvítis brandararnir". Sem leiðir aftur hugann að því hvaðan orðið brandari er komið. En í stað þess að fara með þessa spekúlasjónir út um þúfur þá ætla ég að halda mig áfram við ljóta orðið.

Það sem mig grunaði ekki þá, var hvað þessi vinnufélagi, fyrir margt löngu síðan, fór hugsanlega nærri uppruna orðsins. Að hjá frændum okkar lengra í austri en Færeyjar væri hvorki um brandara né dónaskap að ræða að hafa þetta orð uppi við þau störf sem við vorum að vinna, að vísu samsett, en það var nú reyndar akkúrat það sem vinnufélaginn gerði í denn.

Það var ekki fyrr en mörgum áratugum seinna þegar ég bjó í Noregi að ég fór að brjóta þetta orð raunverulega til mergjar, og það eftir að hafa varla heyrt nokkurn lifandi mann hafa haft það á orði í áratugi. Það var þegar við Matthildur mín vorum í heimsókn hjá vinafólki. Þar sá hún bát við smábátahöfnina, en bátar fara ekki framhjá sjómannsdætrum, en í þetta skipti var það nafnið á fleyinu, - Hav tussa. Þær kímdu yfir bátsnafninu sjómannsdæturnar, meðan okkur vinunum þótti vissar að þykjast ekki taka eftir því, enda sjálfsagt báðir brenndir af bröndurum forboðinna orða frá því í bernsku.

Það var semsagt hjá frændum okkar í Noregi sem upprunan gæti verið að finna. Þegar við Matthildur keyrðum seinna niður Lofoten, þá gleymdum við að taka með okkur landakort, hvað þá að við hefðum GPS, enda eru flestar okkar ferðir skyndiákvarðanir sem helgast af því hvort sólin sjáist á lofti og hún stendur hæst í hásuður, því auðvelt að rata. En þetta ferðalag var óvenjulegt að því leiti að við þurftum að yfirnátta eins og frændur okkar komast að orði. Þess vegna þurfti að fylgjast með vegvísum þegar leið að kveldi. Þá sáum við vegvísi, sem vísaði á stað, þangað sem ferðinni var ekki heitið. En hvað um það, þetta staðarnafn gaf mér tækifæri til að færa þetta dónalega orð í tal, án þess að vera dónalegur.

Það var semsagt Tussan á Lofoten sem gaf mér tækifæri á að ræða þetta orð við norska vinnufélaga mína. Ég gætti þess að sjálfsögðu vandlega að láta þá ekki vita af tilvist orðsins á íslensku, en spurði hvað það þýddi á norsku. Fyrst könnuðust þeir ekki við að orðið merkti nokkurn skapaðan hlut, þó svo að staður á Lofoten héti þessu nafni. En ég benti þeim þá á að til væri norskur bátur sem bæri nafnið Haf tussa. Þeim elsta rámaði þá í þetta orði, og sagði að það tengdist frekar fjöllum en sjó, reyndar kvenveru, sem byggi í fjöllum, þó ekki nákvæmlega norskri tröllkonu. Til er ljóðabálkur eftir norðmanninn Arne Garborg sem nefnist Haugtussa og er þar kveðið um ást í meinum, tröll og huldufólk í fjöllum.

Það sem mér datt helst í hug eftir þessa eftirgrennslan var að tussa hefði upphaflega verið orð yfir skessu eða skass. Seinna uppgötvaði ég það að verkfæri sem við norsku vinnufélagarnir vorum vanir að vinna með þegar jarðvegur er þjappaður undir steypu, jarðvegsþjappa á íslensku, er kölluð hopputussa á norsku, eða hoppetusse en þegar e-ið er aftan við á það við hvort kynið sem er af þessum huldu verum. Hann var þá kannski ekki eins dónalegur og í fyrstu virtist brandarinn sem vinnufélagi minn sagði um árið.

Nú má segja að þessi pistill sé orðinn tilbúinn undir steypu, ef ekki algjör steypa. Það er samt mín von að  hann forði þeim, sem hafa náð að lesa þetta langt, frá því að þurfa að liggja andvaka yfir þessu forboðna orði. Það er ekki víst að málvísindamenn leggist í rannsóknir á uppruna þess í nánustu framtíð, frekar en fram til þessa.

Tussefolk_(13625489553)


Oft má satt kyrrt liggja, en stundum þarf að tala íslensku

Það er sagt að sá sem tekur til sín annarra peninga ófrjálsri hendi sé þjófur. En annað gegnir um þann sem auðgast á annarra kostnað með reikningskúnstum. Allt snýst þetta um að fara eftir bókhaldsreglunum enda eru peningar ekkert annað en digital talnaverk í bókhaldsformi. Svo er stundum sagt að sá sem kaupir það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig. En hvað á sá að gera sem á meira af peningum en hann þarf? -gefa eftir til þeirra sem þurfa? - ræna sjálfan sig með því að kaupa það sem hann ekki vantar? - eða kannski safna meira talnaverki í bókhaldið? Sumir hafa jafnvel verið staðnir að því að koma sínu bókhaldi í skattaparadís.

Það væri svo sem ekki vanþörf á að skrifa pistil um veruleikafirringu efstu laga samfélagsins en ég nenni því ekki, þrátt fyrir að ofurlaun forstjóra, bónus greiðslna til bankamanna byggða á annarra neyð, sjálftöku stjórnmálamanna í skjóli laga sem þeir setja sjálfir. Á öllum sviðum virðast þetta fólk ekki skilja, að það geti ekki tryggt sjálfum sér margra tuga prósenta launahækkun sem eykur muninn í samfélaginu milli þeirra sem nóg hafa og hinna minna hafa þegar prósentunum hefur verið umbreitt í peninga (því fólk lifir ekki á prósentunum einum saman). Jafnhliða sagt þeim sem að grundvellinum standa, að ef þeir fari fram á sömu prósentutölu í launahækkun (takið eftir ekki einu sinni sömu krónutölu) að þá fari allt á hvolf.

Í staðinn fyrir að eyða orku og orðum á þá brjóstumkennanlegu vesalinga, sem sópa til sín margfalt meiru en þeir þurfa, ætla ég að segja sögu af æskufélaga. Þessi æskufélagi minn er um margt merkilegur maður. Það er ekki nóg með að hann hafi hætt í skóla við fyrsta tækifæri, einnig heldur hann því blákalt fram að að hann hafi losnað við að verða fjárglæframaður vegna þess að hann var færður upp um bekk eftir að hafa með einhverju móti komist undan því að hefja nám á tilsettu ári skólaskyldu í barnaskóla. En þeir sem voru í bekknum sem hann var færður úr lærðu mengi og í þeim árgangi segir hann að megi finna flesta helstu ógæfumenn landsins. Þessi félagi minn hefur, þrátt fyrir menntunarleysi og alþýðleg störf, orðið sér út um flest það sem hugur fjárplógsmanna í upphafi girnist, s.s. einbýlishús, einkaflugvél og góða bíla.

Þessi félagi hefur alltaf verið hreinskiptinn jafnt í orði sem á borði og eftirsóttur þrátt fyrir að stundum megi ætla að sviðið gæti undan hreinskilninni. Um daginn hringdi hann í mig og bað mig að koma hið snarasta þangað sem hann var að vinna og sagði að þar þyrfti að bjarga málum föflulaust. Það þurfti að gera ramp upp í útidyr fyrir þá sem notast við göngugrind á hjólum, ekki væri boðlegt að láta þá naga þröskuldinn hjá opinberu þjónustufyrirtæki. Það hafði vafist fyrir þeim sem áttu að taka ákvörðunina hvernig rampurinn skildi úr garði gerður vegna öryggisreglna, en nú þurfti skjót handtök því herlegheitin ætti að taka í notkun daginn eftir. Engin hafði verið tilbúinn til að taka ákvörðun um að gera ramp sem ekki hlyti stífustu öryggisreglum, en aðgengi samkvæmt reglugerðinni var ekki viðkomið nema skipta bæði um dyr og umhverfi hússins, sem krafðist meiri tíma og undirbúnings en í boði var.

Hann hafði á orði þegar ég kom, að það væri alltaf um sömu helvítis ákvörðunarfælnina að ræða ef ekki væri allt á sama sentímetranum eftir bókinni, þó svo að ákvörðunin sem þyrfti að taka blasti við öllum. Það hefði aldrei vafist fyrir honum að taka ákvörðun, þó svo að hann fengi ekkert borgað fyrir það, og auðvitað útbjó ég rampinn því það var augljóst að fólk sem á erfitt um gang þarf að komast á pósthús þó svo að hátt sé upp í dyr með sjálfvirkum  opnunarbúnaði, sem er ætlaður fleirum en handlama viðskiptavinum og losar þannig starfsfólk undan því að hlaupa til dyra og opna fyrir þeim sem eru með fullt fangið af bögglum.

Þegar breytingarnar á þessu húsnæði hófust þurfti að fjarlæga gólfefni, sem var einstaklega fast og seinlegt að fjarlæga. Helstu annmarkar við að fjarlæga efnið var mikill hávaði sem myndi vara dögum saman. Mönnum datt fljótlega í hug að fljótlegast væri að nota beltagröfu með sérútbúinni stálsköfu á skóflunni til að skrapa það upp. Morguninn sem aðgerðin hófst var ég staddur á bensínstöð í nágeninu þegar upphófust skerandi óhljóð. Seinna um daginn hitti ég mann sem hafði verið sofandi í nærliggjandi íbúðarhverfi sem sagðist hafa hrokkið upp og haldið að hann væri staddur í Jurassic Park.

Eftir að hafa dælt bensíni á bílinn gerði ég mér ferð til að kanna hversu vel gengi að ná gólfefninu af, ekki hafði ég mig inn í hávaðann, heldur stóð út á stétt og horfði inn um gluggann. Þá kom til mín forstöðumaður Vinnueftirlitsins en það er einmitt með starfstöð á hæðinni fyrir ofan. Hann spurði mig ábúðarfullur á milli risaeðlu öskranna hvað langan tíma þetta tæki. Mér varð fátt um svör en muldraði eitthvað í einu öskrinu sem hann heyrði ekki. Í því koma til okkar félagi minn ásamt einum eigenda fyrirtækisins sem við vinnum hjá, og ég notaði tækifærið til að laumast í burtu.

Stuttu seinna hitt ég þann sem var með félaga mínu og spurði hvernig þetta hefði farið. Hann sagði að forstöðumaður eftirlitsins hefði fljótlega snautað í burtu. Félagi minn hefði sagt honum það að ef þau gætu ekki unnið vegna hávaða á hæðinni fyrir ofan skildu þau bara koma sér heim, það væri hvorteð er engin að bíða eftir því sem þau væru að gera.


mbl.is Katrín svarar athugasemdum ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blindfullur í berjamó

Það var eitt sinn að verslunareigandi setti miða í gluggann á búðinni sinni sem á stóð "lokað í dag - farinn í berjamó". Þetta gerðist fyrir mörgum áratugum síðan þegar ég var á barnsaldri í mínum heimabæ. Sumir vildu meina að verslunareigandinn væri alls ekki í berjamó heldur væri hann blindfullur. Hvort sem hann var fullur eða ekki þegar hann lokaði sjoppunni þá sýnir tilkynningin í glugganum anda þessa tíma vel. Þó svo hvorki þá né nú sé auðvelt að vera fullur við að tína ber, þá þótti í þá tíð góð berjaspretta eðlileg afsökun fyrir því að loka sjoppu.

Nú á tímum sjást hvorki né heyrast svona tilkynningar, en oft verður vart við tilkynningar um að "sjoppunni" hafi verið lokað vegna árshátíðarferða starfsfólks. Enda kannski eins gott að fólk taki ekki upp á því að verða sér út um ókeypis bláber nú á dögum kjararáðs. Rétt betra að sýna þegnskyldu, og vinna til sinna launa fyrir skatt og fara síðan með útborgunina í sjoppuna til að kaupa berin með virðisaukaskatti. Auk þess gætu hlaupabrettið í ræktinni og slakandi sólarlandaferðin verið í uppnámi ef fólk tæki upp á því að fara frítt í berjamó, og hagvöxturinn þar með farið norður og niður. 

Fyrir nokkru gerði ég grein fyrir tilraun um það hvort eitthvað væri til sem gæti kallast ókeypis hádegisverður, um hana má lesa hér. Þessi tilraun átti að standa sumarlangt og stendur því enn. Ég hafði jafnframt á orði að vel gæti verið að seinna í sumar yrði greint nánar frá þessari tilraun. Þess er skemmst að geta að illgresi s.s. fífla, hundasúrur og njóla mátti éta eins og hvern annan herramanns mat fram undir miðjan júní, en á þeim matseðli hófst tilraunin, eftir það fór þetta grænmeti að verða fullgróft undir tönn og beiskt fyrir tungu og njólinn þar að auki farin að tréna.

IMG_0249

Íslenskt góðgæti - rabbabaragrautur með aðalbláberjum, skyrslettu og rjóma

Síðan hefur rabbabari verið einn aðalrétturinn á matseðlinum þegar kemur að guðs grænni náttúrunni, enda rabbabari orðin því sem næst villt illgresi, því víða má finna rabbabara akra í órækt þar sem áður voru mannabústaðir. Þar að auki prófaði ég arfa í salat en þesskonar salat hafði ég fengið sem barn og minnti að væri gott, en fannst nú of mikið grasbragð.

Eins reyndi ég við beiska og bragðsterka hvönnina aftur með því að gera úr henni pesto í stað salats, en það reyndist verulega bragðsterkt þannig að best fór á að nota pestóið í kryddlög fyrir lambakjöt. Lerkisveppi hirti ég fyrir nokkru síðan, það tekur ekki nema nokkra mínútur að verða sér út um mörg kíló, þá steikti ég í smjöri og helti svo út á hrærðum eggjum og borðaði sem aðalrétt í tvígang, fannst þeir betri í seinna skiptið. Annað hefur verið prófað í mýflugumynd s.s. að stinga upp í sig fjöruarfa og skarfakáli á förnum vegi.

Það sem kerlingabækurnar segja um næringargildi og lækningarmátt íslensks illgresis stenst fullkomlega væntingar, enda fæst hálf hollustan við það eitt að höndla stöffið út í Guðs grænni náttúrunni. Og þó það skipti ekki höfuð máli, þá má komast nálægt því að verða sér út um "frían hádegisverð", sem er herramanns matur, en maður skildi samt ekki sleppa því alveg að nota hugarflugið, rúsínur og bónustrix  til að bragðbæta  herlegheitin. Núna er árstíð berjanna í hámarki og sprettuna hef ég aldrei séð meiri. Hægt var að tína fullþroskuð aðalbláber upp úr 20. júlí. Bláberin eru sögð full af andoxunarefnum og geta því verið ágæt vörn við ýmsum meinum t.d. til að vinna á slæmri blóðfitu og halda mönnum allsgáðum því þau verða ekki tínd á fylleríi.

Það er af sem áður var að "sjoppunni" sé lokað vegna góðrar berjauppskeru, maður verður jafnvel var við færri í berjamó en var fyrir örfáum árum síðan. Nú eru margir sennilega uppteknari við lífsins gæðastundir, með ljúfum vínum á erlendum sólarströndum eða við að ná niður gistanáttakostnaðnum af skuldahalanum. En til að njóta berjamósins þarf að gefa sér tíma, því ekki er hægt að kaupa tíma augnabliksins þegar sól skín í heiði og berin eru blá. Sennilega er sá tími sem er keyptur oft kallaður gálgafrestur, einmitt þess vegna.


Enn ein steypan

IMG_7264

Undanfarin ár hefur það komist í tísku að firðir séu þveraðir, eins og er kallað. Vegagerðin hefur að einhverjum ástæðum séð hag í að hafa vegstæðið út í sjó. Enda túnblettir og teigskógar verðmætari en svo í víðfeðmum auðnum landsins að þeim sé fórnandi undir malbik. Vegagerðin hefur því hannað hvert verkfræðiundrið á fætur öðru út á botnlausum flæðileirum og notað trukka og pramma við að koma fjallshlíðum á haf út.

IMG_7281

Eitt af þessum undrum er í botni Berufjarðar. Þó svo að stytting hringvegarins sé einungis nokkrar mínútur við þennan gjörning, þá þótti til þess vinnandi að sigrast á leirunni í botni Berufjarðar. Reyndar var þjóðvegur nr.1 nánast við sama tækifæri fluttur um "firði" og lengdist því talsvert. Hægt hefði verið að stytta Þjóðveg nr.1 um tugi km með því að sleppa því að beygja út á Berufjarðarleiruna og halda þess í stað þráðbeint áfram þjóðveg nr.939 um Öxi.

IMG_7277

Vegurinn í botni Berufjarðar á að vera tilbúinn fyrir umferð 1. september næstkomandi. Erfiðlega hefur gengið að ráða við vegstæðið út á leirunni þar sem hún er botnlausust og verður að koma í ljós hvort sú barátta vinnst í þessum mánuði, annars er hætt við að ekki verði klippt á neinn borða um næstu mánaðamót.

IMG_9771

Í gær var brú steypt út á leirunni þar sem Berufjarðará á að fá framrás auk flóðs og fjöru. Eins og allir vita sem inn á þessa síðu líta reglulega, þá er höfundur hennar einstakur steypuáhugamaður, ef ekki steypukall. Og þó svo að hann sé orðinn gamall, grár, gigt- og hjartveikur þá fékk hann að fljóta með í steypunni, því einhver verður að verða brjálaður í steypu ef vel á að ganga. Reyndar stóðu steypukallarni sig svo vel að vera mín var því sem næst þarflaus og tók ég því þetta video af gjörningnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband