Færsluflokkur: Dægurmál
4.4.2019 | 15:24
Gjaldþrota lífskjarasamningar
Það er varla að maður þori að leggja orð í belg á þessum helga degi þegar hver málsmetandi maðurinn um annan þveran keppist við að mæra nýgerða "lífskjarasamninga". Ég hygg þó að verkalýðsforinginn af skaganum fari nokkuð nærri því að hitta naglann á höfuðið þegar hann fer fram á afsökunarbeiðni frá hyskinu.
Það var hátt reitt til höggs gegn sjálftökuliðinu, sem sópar í sína eigin vasa, þegar kom að kröfugerð, sem þó verður að teljast hafa verið hógvær hvað varðar lægstu laun. Nú liggur það fyrir að lægstu laun hækka um 17.000 kr og 26.000 kr eingreiðsla kemur til í formi orlofsuppbótar.
Rúsínan í pilsuendanum varðandi láglaunafólkið er svo 10.000 kr skattalækkun sem kemur til framkvæmda í fyrsta lagi á næsta ári. Þangað til má láglaunafólk greiða 40-50% af sautjánþusundkallinum og orlofseingreiðslunni í skatta og gjöld.
Varðandi vexti og verðtryggingu er orðalagið svo loðið að finna má mun meira afgerandi orðalag um bætta tíð húsnæðislánþega í stefnuskrám þeirra stjórnmálaflokka sem setið hafa í ríkisstjórn síðustu 10 ár. Ríkisstjórnin ætlar að "skoða", "huga að", "athuga í samráði við sérfræðinga", "skoða aukna hagræna hvata" osfv. frá árinu 2020.
Í upphafi skildi endirinn skoða. Það var lagt af stað með að lægstu laun næðu 425.000 kr, nú er komið í ljós að þau verða 368.000 eftir fjögur ár. Hækka strax um heil 30% eða sautján þúsund sem gerir tæp tíuþúsund eftir skatt og gjöld, þannig að sjálftökuliðið og verkalýðsfélögin fá strax sínar hækkanir að moða úr á meðan lálaunafólkið má bíða eftir rúsínunni í pilsuendanum að minnstakosti fram á næsta ár.
Hvorki sjálftökuliðið, með sínar mörghundruðþúsunda launahækkanir hviss bang, né verklýðsforingjar hafa haft hugmyndaflug til að taka út sín laun á jafn varkáran hátt og þeir ætla umbjóðendum sínum, þar hefur eingreiðslurnar jafnvel verið hafðar aftur í tímann. Það virðist ætla að nægja sjálftökuliðinu að lækka laun tveggja kvenmanna í bankastjórastöðum til að fleyta sér í gegnum brotsjóinn með fenginn hlut.
Það kæmi mér ekki á óvart í ljósi gjaldþrots WOW, sem á að hafa vakið ábyrgð og hógværð allra við lífskjarasamningaborðið, fólks á margföldum lágmarkslaununum, hafi markað upphafið að endanlegu gjaldþroti verkalýðshreyfingarinnar.
![]() |
Ættu að biðja okkur afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2019 | 18:23
Loftbóla verður að vindhana
Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum síðan að það ætti eftir að setja stofn Loftslagsráð ríkisins.
"Í frumvarpinu er í fyrsta skipti kveðið á um loftslagsráð í lögum og tekið fram að ráðið sé sjálfstætt og óhlutdrægt í störfum sínum." Og það á vegum ríkisins.
Ja hérna hér er orðið eintómt loft á milli eyrnanna á fólki?
![]() |
Kveðið á um loftslagsráð í fyrsta sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2019 | 06:26
Orkupakkinn með fyrirvara andskotans
"Það sem var kynnt hér fyrir helgi snýst í raun og veru um það að á meðan Ísland er ekki tengt inn á þetta orkukerfi Evrópu, eigi ekki við ákvæði þriðja orkupakkans", sagði forsætisráðherra sem jafnframt benti á að tenging við orkukerfi Evrópu yrði ekki komið á nema með samþykki alþingis. Með þessháttar útúrsnúningi sleppa stjórnmálamenn ævinlega við að svara spurningunni, til hvers á alþingi Íslendinga að samþykkja framsal á orkuauðlindum landsins, og þá sérstaklega ef samþykktin skiptir engu máli.
Það er þrástagast á því að ekkert breytist á meðan ekki er lagður strengur frá landinu til annarra landa, ákvörðunin um það verði áfram í höndum alþingis. Eins og orðum þeirra sem hafa "kjararáðssópað" ofan í eigin vasa með orðhengilshætti og útúrsnúningum sé treystandi. Fólki sem einna helst verði trúað til að ganga fyrir mútum þegar það andskotast við að koma orkuauðlindum landsins á markað.
Staðreyndin er að nú stendur til leiftursókn þjóðkjörinna fulltrúar á alþingi gegn almenningi, gengur nú undir nafninu 3.orkupakkinn með "fyrirvara". Þar stendur til að markaðsvæða raforku til þjóðar sem á hana. Eftir að ACER regluverk ESB hefur verið samþykkt þá þurfa þjóðkjörnir fulltrúar ekki einu sinni að svara fyrir það hvers vegna sérvaldir gæðingar fá að sópa til sín verðmætum úr sameiginlegri auðlind.
Fyrir nokkrum árum bjó ég í Noregi, en þar er raforkukerfið tengt Evrópu. Þar kom fyrir 30% hækkun á rafmagni við það eitt að hitastigið úti fór niður fyrir frostmark í nokkra daga. Jafnvel þó svo að í Noregi sé framleidd meiri raforku en Norskur almenningur getur torgað. Kvörtunum var svarað með; markaðurinn ræður og hann er ekki bara í Noregi.
Þegar auðlindir eru teknar frá þeim sem í þeim búa þá er það kallað markaðsvæðing og á að vera til þess að finna út svokallað markaðsverð. Ef 3.orkupakkinn verður samþykktur þá er ekki einu sinni víst að það þurfi alvöru "kapal" til að finna út "markaðsverð" það verði nóg að vitna til ACER.
Þeirra tilskipanir gilda. Innlendir viðskiptajöfrar, svipaðir þeim sem fóru fyrir Geysir Green Energy korter fyrir "hið svokallaða hrun", útbúa svo markaðsverðið samkvæmt "Sterling uppskriftinni". Og geta með því að vísa í ACER regluverkið komið sæstreng í gegnum dómstóla þegar þeim sýnist, svona rétt eins og hverjir aðrir kvótakóngar.
Ef einhver áttar sig ekki á því hvernig "kapallinn" verður lagður svo hann gangi upp, þá er ekkert nýtt undir sólinni. Svona markaðsvæðing með "fyrirvara ríkis" hefur verið framkvæmd áður og var á sínum tíma kölluð ENRON svindlið. Þar var raforka almennings snarhækkuð með sýndarviðskiptum og "fyrirvara samþykki" annaðhvort fábjána eða gjörspilltra andskota, nema hvoru tveggja hafi verið.
Í bréfi sem orkumálastofnunin (FERC) sendi segja rannsóknarmenn stofnunarinnar að skjölin lýsi hvernig undir svokallaðri Helstirnisáætlun hafi fjárfestar Enron skapað, og síðan létt af, ímyndaðri vöntun á orkuneti ríkisins. Samkvæmt New York Times lýsa skjölin einnig í smáatriðum því sem rannsóknarmenn lýstu sem megavattaþvætti þar sem Enron keypti rafmagn í Kaliforníu á lægra verði seldi rafmagnið út úr ríkinu og keypti það síðan aftur til að selja það til baka til Kaliforníu á uppsprengdu verði. Með því að selja Kaliforníuríki rafmagn frá öðru ríki gat Enron farið í kringum verð,,,,,
Á bloggsíðu Jónasar Gunnlaugssonar má lesa nánari lýsingu á því hvernig raforka Kaliforníubúa var markaðsvædd með svindli, sjá hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.3.2019 | 19:06
Óupplýst morð við Hafnarnes
Þetta mátti lesa í Þjóðólfi 11. júlí 1878; Morðfréttir eystra. Um fardagaleytið fóru fjórir menn á, báti úr Fáskrúðsfirði til Djúpavogs að sækja veislukost ofl.; þeir tóku út vöruna og sneru 3 heimleiðis með bátnum en 1 varð eftir. Skömmu síðar kom inn á Djúpavog frönsk jakt og hafði með sér nefndan bát og nakin lík hinna þriggja manna, og höfðu þeir sýnst myrtir (kyrktir), og sést meiðsl á, þeim öllum. Allt annað sem í bátnum átti að vera, var horfið, er Frakkar skiluðu honum, höfðu þeir sagt, að einhver dugga hefði verið að leggja frá bátnum, er þeir sáu fyrst til hans, en ekki höfðu þeir getað séð nafn á því skipinu fyrir fokku sem hékk fyrir, og ekki kannast við, að það hefði verið franskt. Kaupmaður Weywadt á Berufirði hafði þegar sent orð hinu franska herskipi, er lá þar eystra, og hafði Þá þegar lagt af stað til að leita morðingjanna.
Viku seinna var þetta í Ísafold; Morðsagan af Austfjörðum, er hér hefur gengið staflaus um hríð og komist í Þjóðólf, er eintómur tilbúningur, eftir því sem frést hefur með öðru herskipinu frakkneska (Beaumanoir), sem nú er nýkomið að austan, enda var saga þessi í sjálfu sér næsta ósennileg (morðingjarnir t. d. Látnir skilja líkin nakin ertir í bátnum í stað þess að kasta þeim í sjóinn o.s.f.v.). Sannleikurinn er sá, að bátur með þrem mönnum úr Fáskrúðsfirði hefur farist í kaupstaðarferð til Eskifjarðar (ekki Berufjarðar), og fundu Frakkar á herskipinu bátinn með mönnunum dauðum rekinn við eyna Skrúðinn, og færðu þeir líkin, sem voru alklædd og ómeidd að öllu leyti að vottorði læknisins á skipinu, til hreppstjórans á Fáskrúðsfirði.
Hafnarnes um 1952, Andey og Skrúður fyrir fjarðarmynni (mynd;Þjóðminjasafnið - Guðni Þórðarson)
Við minni Fáskrúðsfjarðar að sunnanverðu er Hafnarnes, þar var þorp langt fram eftir 20. öldinni. Mestur mun fólksfjöldin hafa verið árið 1907 eða 105 manns. Hafnarnes byggðist um 1850 og er í landi Gvendarness sem var bær á milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Þetta þorp byggði afkomu sína á sjósókn og sjálfsþurftarbúskap. Stutt var að róa til fiskjar á fengsæl mið í álunum á milli Andeyjar og Skrúðs. Í Hafnarnes komu sjómenn víða að af landinu, jafnvel frá Færeyjum til að róa þaðan yfir sumartímann, aflinn var saltaður. Innan við tangann neðst á nesinu var höfnin og hefur þar verið steinsteyptur hafnarkantur sem nú er lítið eftir af annað en einstaka brot.
Fyrstu íbúarnir á Hafnarnesi vor Guðmundur Einarsson og Þuríður Einarsdóttir. Þau komu frá Gvendarnesi og Vík. Guðmundur var annálaður sjósóknari á austfjörðum og hraustmenni. Afkomendur Guðmundar og Þuríðar settust margir að á Hafnarnesi og byggðin óx hratt. Árið 1918 voru þar 12 íbúðarhús, og 1939 var Franski spítalinn, sem byggður var inn á Fáskrúðsfirði fyrir franska sjómenn árið 1900, rifin og fluttur út í Hafnarnes.
Þar breyttist hlutverk Franska spítalans í það að verða eitt fyrsta fjölbýlishúsið á Austurlandi, auk þess sem hann var notaður sem skóli. Þegar leið á 20. öldina tók byggðinni að hnigna og var svo komið árið 1973 að engin bjó lengur í Hafnarnesi. Stærsta kennileiti byggðarinnar, Franski spítalinn, var svo fluttur þaðan aftur inn á Fáskrúðsfjörð 2010. Þar þjónar hann nú sem Fosshótel og safn um sögu franskra sjómanna við Íslandsstrendur.
Á fyrstu áratugum byggðarinnar var mikið um að franskar fiskiskútur væru viðloðandi Fáskrúðsfjörð og höfðu þær bækistöðvar inn við þorpið Búðir í botni Fáskrúðsfjarðar þar sem nú kallast í daglegu tali Fáskrúðsfjörður. Þó svo að Fransmenn hafi yfirleitt komið vel fram við heimamenn gat kastast í kekki, og ekki er víst að Fransmenn hafi alltaf komið eins vel fram við Hafnarnesmenn eins og fólkið inn á Búðum þar sem þeir voru háðari því að fá þjónustu.
Franskir sjómenn á Fáskrúðsfirði (mynd; Minjavernd)
Eitt sinn hafði Dugga legið við ból á Árnagerðisbótinni og ekki gengið að innheimta hafnartoll. Fór Þorsteinn hreppstjóri í Höfðahúsum ásamt Guðmundi í Hafnarnesi og hásetum hans um borð. Þeir voru snarráðir, ráku frönsku hásetana og lokuðu ofaní lest. Fóru svo með skipstjórann og stýrimanninn ofaní káetu og kröfðu þá um hafnargjöldin. Það stóð ekki á því að þau væru greidd þegar svo var komið. Það sama skipti fundu þeir í lest skútunnar mann, sem horfið hafði úr landi nokkru áður, bundinn og þjakaðan, en ómeiddan.
Annað sinn var Guðmundur ásamt áhöfn sinni að vitja um línu út í álunum, þar sem Fransmenn voru komnir að með færi sín flækt í lóðin. Guðmundur bað þá að gefa eftir og láta laus lóðin, en því sinntu þeir engu. Hann lét þá áhöfn sína róa meðfram duggunni og greip færin með annarri hendinni en skar á þau með hinni. Hafði til þess franska sleddu. Frönsku sjómennirnir urðu æfir og eltu bát þeirra Hafnarnesmanna en Guðmundur stýrði á grynningar og skildi þar með þeim. Þetta sýnir vel hversu óragur og skjótur til ákvarðana Guðmundur var.
Það voru Hafnarnes menn sem voru fréttaefni stórblaðanna í höfuðstaðnum þessa júlídaga 1878 þar sem metingur var um það hvað væri satt og rétt varðandi morðin sem frétts hafði af frá Austfjörðum. Það sannasta má sennilega finna í sagnaþáttum Vigfúsar Kristjánssonar en hann hefur gert rúmlega hundrað ára sögu Hafnarnesbyggðar hvað gleggst skil á prenti. Kristinn faðir Vigfúsar var sonur Guðmundar hins hrausta frumbyggja í Hafnarnesi og var 16 ára þegar atburðir þessir gerðust er rötuðu svona misvísandi í fréttir sunnanblaðanna.
Samkvæmt sagnaþáttum Vigfúsar er hið rétta að í maí 1878 fóru tveir bátar með mönnum úr Hafnarnesi í verslunarferð til Eskifjarðar. Guðmundur var formaður í öðrum sem á voru fjórir. Maður sem hét Friðrik Finnbogason formaður á hinum bátnum, sem á voru þrír menn. Fljótlega eftir að bátarnir yfirgáfu Hafnarnes sigldu þeir fram hjá skútu, sem Friðrik vildi fara um borð í, en Guðmundur ekki í það skipti, og var talað um að heimsækja skútuna frekar í bakaleiðinni.
Þeir sinntu kaupstaðarerindum sínum á Eskifirði og fengu sér brennivín að þeim loknum. Vildi Friðrik að þeir færu heim strax um kvöldið. Guðmundur vildi láta heimferðin bíða morguns. Þegar bátur Guðmundar kom í Hafnarnesið daginn eftir voru Friðrik og félagar ókomnir. Farið var að leita og fannst báturinn á reki milli Andeyjar og Skrúðs og mennirnir í honum látnir. Öllu hafði verið stolið úr bátnum ekki skilin eftir ein laus spýta. Mennirnir voru bundnir við þófturnar, illa útleiknir, naktir, stungnir og kyrktir. Giskað var á að þeir hefðu ætlað um borð í skútuna á heimleiðinni, en hún var horfin af þeim miðum sem hún hafði verið daginn áður.
Í kirkjubókum Kolfreyjustaðar er sagt frá því að þessir menn hafi verið jarðsungnir þann 25. maí 1878; Friðrik Finnbogason, 33 ára, frá Garðsá í Hafnarnesi, Þórður Einarsson, 22 ára, frá Gvendarnesi, Oddur Jónsson, 27 ára, sama staðar. Þeir fundust öreindir í báti milli Andeyjar og Skrúðs. Þar sem Vigfús Kristinsson getur þessa atburðar í saganaþáttum sínum um Hafnarnes telur hann fullvíst að mennirnir hafi verið myrtir og færir rök fyrir því sem ekki verða uppi höfð hér.
Ps. Hafnarnes hefur lengi heillað ferðamenn og má sjá þá þar með myndavélar á lofti árið um kring. Það er að verða fátt sem minnir á fyrri frægð eftir að helsta kennileitið Franski spítalinn var fluttur inn á Fáskrúðsfjörð. Á þessari síðu hefur áður birst mynda blogg um Hafnarnes, sjá hér. Einnig læt ég fljóta með nokkrar myndir hér fyrir neðan.
Nýi og gamli vitinn í Hafnarnesi við sólarupprás
Skrúður
Kirkjan á Kolfreyjustað, Hafnarnes handan fjarðar
Frá Hafnarnesi 2009
Franski spítalinn á Hafnarnesi 2009
Franski spítalinn orðinn að Fosshóteli á Fáskrúðsfirði
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2019 | 15:01
Vesalingar
Það hlýtur að vera fáheyrt að nokkurri þjóð sé stjórnað af eins seinheppnu fólki og ljóst varð þegar fjármálaráðuneytið upplýsti skattabreytingatillögur sínar í sambandi við kjarasamninga. Og undarlegt að reynt hafi verið að telja fólki trú um að þetta væru skattalækkunartillögur sérstaklega til handa tekjulágum.
Það var ekki svo að blessaðir bjálfarnir hafi ekki fengið viðvörun þegar einn verkalýðsforinginn gekk af fundi í stjórnarráðinu í aðdraganda þess að tillögurnar væru kynntar almenningi. Annað hvort hafa þessar tillögur verið lagðar fram á þessum tímapunkti af hreinum fábjánahætti eða þá illkvittni.
Staðreyndin er sú að minnsta skattalækkunin í krónum er til lægst launuðu, ef þá nokkur. Þó svo að það hafi verið villt um með prósentum þá étur engin prósentur. Flöt krónutala ca 6.700 átti að ganga upp allan stigann frá 325 þús upp í hvað sem var, þess vegna bankastjóra laun. Lækkunin átti að koma til á næstu 3 árum.
Svo þegar þetta er skoðað í kjölinn þá átti jafnframt þessu að frysta persónuafslátt næstu 3 árin. Persónuafslátturinn hækkaði um rúmar 2.500 í ár, þannig að reikna má með að eftir 3 ár hafi hann skerts um að minnsta kosti 7.500. Reikningsdæmið upp allan launaskalann er þá vegna þessara tillagna einna, hækkun skatta um ca. 800 kr.
Síðan er það kapítuli út af fyrir sig hvernig þessar tillögur koma við láglauna fólk. Til að geta nýtt að fullu kerfisbreytingarnar, þá þarf fólk að hafa 325.000 kr. í tekjur eða meira. Eftir því sem tekjurnar eru lægri er ávinningurinn minni, en samt á að frysta persónuafsláttinn hjá þessu sama fólki þannig að skattbyrðin eykst verulega hjá þeim sem eru undir 325 þús í lok tímabilsins.
Síðan fögnuðu flóafíflin hjá SA tillögunum í stað þess að standa með vinnumarkaðnum gegn því að láta sjálftökuliðið í stjórnaráðinu ræna hann gengdarlaust eins og viðgengis hefur undanfarin ár. Það er í besta falli fáviska að segja að tillögurnar komi þeim tekjulægstu best, þegar þær gagnast þeim síst.
![]() |
Viðræðum hefur verið slitið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.2.2019 | 15:27
Apaplánetan
Á mínum bernskuárum voru til héraðshöfðingjar, þeir voru stórhuga og oft bændur af gamla skólanum sem máttu muna tímana tvenna og aurana fáa. Einn þessara höfðingja bjó í götunni heima eftir að ævistarvinu lauk. Tók í nefið, fór yfir dægurmálin og mynntist gamallar tíðar.
Einu sinni heyrði ég sögu af honum frá yngri árum þegar hann hefði verið staddur á pólitískum fundi og vitað var að hann myndi verja sína menn af einurð þegar hann tæki til máls. Á fundinum var sveitungi hans sem var yfirleitt sammála nágranna sínum í öllu sem til framfara horfði, en ekki þegar kom að pólitík. Þegar héraðshöfðinginn fékk orðið hóf hann mál sitt með þessum orðum; "Frá mínum bæjardyrum séð,,,", en þar greip sveitungi hans strax fram í fyrir honum og botnaði mál hans "og þaðan sést ekkert nema fjóshaugurinn".
Þessi saga kom upp í hugann í síðustu viku þegar fyrrum forstjóri N1 furðar sig á því í fjölmiðli að það sé álitið mikill glæpur að greiða bankastjórum há laun og vísaði þar sérstaklega til launa tiltekins bankastjóra Landsbankans. Þar greip forstjórinn til líkingamáls og sagði að svona umræða hefði aldrei komið upp varðandi aflaskipstjóra. En skautaði alveg fram hjá því að bankinn er nýlega gjaldþrota "sjoppa" sem var endurreist á kostnað almennings.
Svo að gripið sé til líkingamáls svipuðu forstjórans þá er núverandi " skipstjóri" ein af þeim sem staðin voru að því að fikta við "negluna" þegar dallurinn sökk.
Á athugasemdakerfi fjölmiðilsins, sem viðtalið tók við forstjórann, fór síðan fram kappsfull umræða um hvorir, bankastjórar eða skipstjórar eða jafnvel læknar, ættu að hafa hærri laun, og hélt þar hver með sínu liði líkt og hverju öðrum fótboltaklúbb. Barðist forstjóra bullan þar fyrir sína menn enda sjálfsagt einn af þeim sem finnst sín sexföldu lágmarkslaun verulega hógværi miðað við fimmtánföld lágmarkslaun bankastjóra, sem hvorki eru glæpsamleg né of há að hans mati.
Hvað svo bankastjórinn, forstjórinn og aðrir gera við sín laun sem teljast mikið meiri en hver manneskja hefur þörf á, sé litið til lágmarkslauna, er svo kapítuli út af fyrir sig. Sagt er að sá sem kaupi það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig, og sjaldan eiga þau sannindi betur við en nú á tímum þegar flestir eiga í haugum of mikið af því sem þeir hafa ekki not fyrir.
Er þá fátt annað eftir en að safna þessu útborgaða talnaverki inn á bókhaldsreikninga og þá helst með góðri ávöxtun, eða nota það við að hræra í jackpottum spilavítanna til að teljast maður með mönnum, eða kannski koma afrakstrinum aflands til að komast í kynni við eina prósentið, sem virðist svo mikið áhugaverðara viðkynningar heldur en fólkið í götunni heima.
Þau gömlu sannindi að margur verði af aurum api virðast hreinlega ekki eiga hljómgrunn nú á tímum.
Nema þá að ráðamenn hafi uppi þær hugmyndir að stækka fjóshauginn það mikið að launahækkanir á við þeirra eigin velli niður brekkurnar og geri allt að einum fjóshaug burt séð frá því hvað verður um mjólkurkúna, og jörðina síðan að heilli apaplánetu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.1.2019 | 15:12
Uppruni Íslendinga - úlfar og arfleið
Bróðir Hrólfs, sem fór til Íslands, þegar Hrólfur fór í Normandí, ...stofnaði í því vindbarða landi þjóðfélag fræðimanna og afburðargarpa". Þessir menn urðu, þegar stundir liðu, höfundar eins hins merkilegasta þjóðveldis, sem nokkurn tíma til hefur verið, með einstæðri höfðingjastjórn, og þar þróuðust á eðlilegan hátt bókmenntir slíkar, að aðrar hafa aldrei ágætari verið. Í því landi, þar sem engar voru erlendar venjur eða áhrif til að hindra það, blómgaðist norrænt eðli og andi til fullkomnunar".
Þetta má lesa í bók Adams Rutherford, Hin mikla arfleið Íslands, sem út kom í Englandi árið 1937. Þarna er verið að skírskota til sona Rögnvaldar Mærajarls. Annars vegar til Göngu Hrólfs forföður Normandí Normanna sem unnu orrustuna um Bretland við Hastings árið 1066 og enska konungsættin er rakin til, hins vegar til landnámsmannsins Hrollaugs sem nam Hornafjörð og Suðursveit. Adam Rutherford vildi meina að þessir bræður og allflestir landnámsmenn Íslands hefðu ekki verið dæmigerðrar norskrar ættar heldur hefði þeirra ættbálkur verið aðfluttur í Noregi. Að stofni til verið ein af 12 ættkvíslum Ísraels, hvísl Benjamíns.
Í ljósi þessa uppruna væru Íslendingar, vegna einangrunar í gegnum aldirnar, ekki Norskastir Norðmanna eins og ætla mætti af Landnámu, heldur hreinasta afbrigðið sem fyrir finnist á jörðinni af ætthvísl Benjamíns. Þessu til stuðnings benti hann m.a. á að ýmsir sagnaritarar telji að þegar Normannar réðust inn í England árið 1066, þá hafi úlfur verið í skjaldarmerki Vilhjálms bastarðar. Úlfur var merki Benjamíns og algengt í mannanöfnum þeirrar ættkvíslar. Rutherford vill meina að nafngift sem ber úlfsnafnið í sér hafi verið algeng hjá landnámsfólki Íslands, s.s. Ingólfur sem sagður er fyrsti landnámsmaðurinn, Kveldúlfur, Þórólfur, Herjólfur, Brynjólfur, Hrólfur, Snjólfur osfv., enda megi úlfs örnefni víða finna á Íslandi þó svo aldrei hafi þar verið úlfar.
Vissuna um uppruna Íslendinga taldi Adam Rutherford sig hafa úr píramídanum mikla í Gíza, en hann var einn þeirra sem var þar við fornleifauppgröft og rannsóknir árið 1925, þegar áður ófundinn veggur kom í ljós sem talinn er hafa að geima skýringar hinna ímsu spádóma sögunnar þ.m.t. spádóm um fæðingu frelsarans, sem og um eyjarnar í vestri með eldlandinu sem má finna í enskri þýðingu Biblíunnar í spádómum Jesaja.
Með útreikningum komst hann auk þess að því Ísland er í geisla norðvestur hliðar píramídans, liggur þar í honum miðjum ásamt Suðureyjum Skotlands. Ísland á samkvæmt spádómnum að komast í brennidepil mankynsögunnar með því að vera á ásnum þar sem geislinn er breiðastur, verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar". Langt mál er að fara í gegnum þessa útreikninga Rutherford og það sem hann uppgötvaði um Ísland í Gíza píramídanum enda gaf hann út bókina "Hin mikla arfleið Íslands" um þessar rannsóknir sínar auk margra annarra rita.
En hverjir voru Benjamínítar? Samkvæmt hinni helgu bók var Benjamín yngsti sonur Ísraels (Jakobs sonar Ísaks Abrahamssonar) sem bar beinin í Egyptalandi. Ætthvísl Benjamíns var sú minnsta af Ísrael. Í Dómarabókinni 19-21 segir frá refsidómi Benjamíns ættkvíslarinnar sem kveðinn var upp á þeim tíma þegar allar ættkvíslar Ísraels bjuggu í fyrirheitna landinu. Benjamín skildi eytt úr Ísrael vegna níðingsverksins í Gíbeu, mönnum, konum og börnum.
Ísraelsmenn hófu útrýminguna og sáu ekki að sér fyrr en þeir höfðu eitt svo til öllum kynstofni Benjamíns. En þá tók þá að iðrast og sögðu Nú er ein ætthvísl upphöggvin úr Ísrael! Hvernig eigum við að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar að vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum". Það urðu því örlög Benjamíns að fara með vopnum á aðrar þjóðir og ræna sér kvonfangi. Síðar fékk Benjamín uppreisn æru í Ísraelsríki og var Sál fyrsti konungur Ísrael af ætt Benjamíns, Davíð konungur sem á eftir kom gerði Jerúsalem að höfuðborg, sonur hans Salómon lét reisa musterið þar sem hin mikla viska á að hafa verið geymd.
Þegar Ísraelsmenn voru herleiddir af Assýríumönnum voru það aðeins tvær ættkvíslar sem snéru aftur til fyrirheitna landsins, Juda og Benjamín. Benjamín hafði áður búið í Jerúsalem en þegar aftur var snúið varð Galílea heimkynni Benjamíns, Jerúsalem tilheyrði þá Juda. Lærisveinar Jesú eru allir taldir hafa verið af ætthvísl Benjamíns, nema Júdas sem var af ætt Juda líkt og Jesú. Um það bil 100 árum eftir Krist, í kjölfar ofsókna Rómverja, flyst ættkvísl Benjamíns til Litlu Asíu og dreifist þaðan til annarra landi m.a. til Svartahafslanda. Talið er að þeir hafi svo aftur lent á flakk á tímum Atla Húnakonungs skömmu fyrir fall Rómarveldis u.þ.b. árið 400.
Fleiri hafa fetað svipaðar slóðir og Rutherford varðandi uppruna þeirra Norðmanna sem námu Ísland. Þar má nefna Barða Guðmundsson (1900-1957) sagnfræðing, þjóðskjalavörð og um tíma Alþingismann. Árið 1959 kom út ritgerðasafn hans um uppruna Íslendinga. Þar leiðir Barði líkum að því að Íslendingar séu ekki komnir út af dæmigerðum Norðmönnum heldur fólki sem var aðflutt, einkum á vesturströnd Noregs.
Þessu til stuðnings bendir hann á að útfararsiðir íslendinga hafi verið allt aðrir en tíðkuðust á meðal norrænna manna. Samkvæmt fornleifarannsóknum á norðurlöndunum hafi bálfarargrafir verið algengastar, á Íslandi finnist engin bálfarargröf frá þessum tíma né sé um þann útfararsið getið í íslenskum bókmenntum. Því sé ljóst af þessum mikla mun á útfararsiðum Norðmanna og Íslendinga í heiðni að meginþorri þeirra sem fluttu til Íslands frá Noregi hafi þar verið af ættum aðkomumanna.
Barði bendir einnig á baráttuna sem var gegn Óðni í Noregi, guði seiðs og skáldskapar. Hann telur hamremmi, Óðinsdýrkun og skáldskap hafa haldist í hendur, sbr. Egils-sögu Skallagrímssonar. Seiðmennska var í litlu uppáhaldi hjá Haraldi hárfagra og lét hann m.a. Eirík blóðöxi gera ferð til Upplanda þar sem hann brenndi inni Rögnvald bróður sinn ásamt átta tugum seiðmanna.
Einnig vitnar Barði Guðmundsson í Snorra Sturluson þar sem hann segir að Æsir hafi komið til Norðurlanda frá Svartahafslöndum, undir forystu tólf hofgoða, er réðu fyrir blótum og dómum manna á milli." Óðinn er þeirra æðstur. Þykir Barða einkum merkilegt, að Snorri skuli gera ráð fyrir norrænni sérmenningu, sem upptök eigi í hinum fjarlægu Svartahafslöndum við Donósa, en njóti lítilla vinsælda sem aðflutt í Noregi.
Einn af þeim sem ekki hefur hikað við að umturna hefðbundnum kenningum sögunnar er Thor Hayerdhal. Hann hefur leitað uppruna Óðins á svipuðum slóðum og bent á að við Kasbíhaf, nánar tiltekið í Qobustan héraði í Azjerbaijan séu hellar sem hafi að geima myndir greyptar í stein af bátum sem minni á víkingaskip. Einnig taldi hann að nafngiftina Æsir á guðum norrænnar goðafræði mætti rekja til lands sem bæri það í nafninu s.s. Azer í Azerbaijan.
Við þetta má bæta að rúnaletur var notað á norðurlöndum árhundruðum eftir að latnesk letur náði yfirhöndinni í hinu evrópska Rómarveldi. Rúnir hafa, af ýmsum fræðimönnum, löngum verið kenndar við þær launhelgar sem stundaðar hafa verið við að varðveita viskuna úr musteri Salómons sem ættuð var úr Egypsku píramídunum. Að öllu þessu athuguðu þá er alls ekki svo ólíklegt að fótur sé fyrir kenningum um að uppruni Íslendinga eigi sér dýpri rætur en í fljótu bragði virðist mega ætla.
Það er í íslenskum bókmenntum sem heimildir um goðafræðina varðveitast og má því segja að fornbókmenntirnar séu hin mikla arfleið. En eins líklegt er að sá spádómur sem Adam Rutherford telur sig hafa fundið í píramídanum Gíza og viðrar í bókinni Hin mikla arfleið Íslands", þar sem hann gerir ráð fyrir því að landið muni verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar" hafi komið fram fyrir þúsund árum þegar landnámsmenn opinberuðu siglingaleið á milli Evrópu og Ameríku.
Ps. Þessi færsla var birt hér á síðunni í apríl 2014, sem Úlfar og arfleið.
Dægurmál | Breytt 2.2.2019 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
28.12.2018 | 12:25
Árið var enn ein steypan
Það er ljótt að ljúga að blessuðum börnunum en þess hafa sést merki í þeim tilgangi að fá þau til að afla sér starfsmenntunar í byggingaiðnaði. Stundum er talað um tæknimenntun til að fegra sements gráan veruleikann og því hefur jafnvel verið haldið fram af hámenntuðu fólki að störfum iðnaðarmanna fylgi ekki óhreinindi, hávaði og kuldi, í þeim tilgangi að bæta ímynd iðnnáms. Enn sannleikurinn er sá að byggingavinna er fyrir hetjur sem kalla ekki allt ömmu sína, þ.m.t. óhreinindi, hávaða og kulda.
Það er síðuhöfundi hulin ráðgáta hvernig mynd náðist af honum með verkfæri í höndunum, en hún birtist við frétt af brúarsteypu við Berufjörð. Myndina tók Anna Elín Jóhannsdóttir verkfr. Vegagerðarinnar
Vilji ungt fólk halda sér í góðu formi og reisa minnisvarða sem standa um ókomin ár, þá eru t.d. byggingastörf betri en bókhald. En hetjur verða sjaldnast langlífar, og það sem verra er að á starfsorkuna gengur, þó svo að lengi sé hægt að jamla áfram í starfi sem krefst álíka líkamsburða og bókhald. Því mættu launin vera betri þar sem hetjunnar er þörf. Það getur allt eins komið að því, eins og komið er fyrir síðuhöfundi, að verslunarstjóri í byggingarvöruverslun grípi fram fyrir hendurnar á honum og beri góssið út í bíl hafandi á orði; láttu mig um þetta Maggi minn, þú ert nefnilega orðinn vesalingur.
Ég hafði orð á því í einni morgunnandakt okkar vinnufélagana að það væri betra að hafa það alveg á hreinu að mannslíkaminn toppaði á 29. aldursári eftir það lægi leiðin niður á við, því betra að leggja áhugann fyrir allslags íþróttaæfingum og kappastælum á hilluna í tíma því annars væri voðinn vís, t.d. dytti mér ekki í hug lengur að að stökkva hæð mína í loft upp og fara heljarstökk þó svo að ég hefði einkventíma talið mig geta það.
Annað ætti við þegar steypa væri í boði, algleymi hennar væri ekki hægt að stilla sig um þegar hjartað væri annars vegar. Vinnufélagi minn sem veit allt betur en hinir tók undir þetta með mér en sagði að það versta við steypu væri það að hugurinn væri alltaf 29 ára þó líkaminn eldist, og á því mætti stór passa sig.
En nú eru þau orðin 29 árin síðan ég var 29 ára þannig að ég ætti kannski að vera á mig kominn líkt og reifabarn, ef þá ekki lagstur í kör, og get því allt eins vel við unað og horft björtum augum til framtíðarinnar.
Einu sinni spurði kollegi minn hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari. Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með tilheyrandi hrísgrjónaáti og ærnum peningaskuldbindingum til að losna við steypuvinnu en allt kæmi fyrir ekki í múrverkið væri hann mættur aftur jafnharðan.
Já veistu ekki út af hverju það er sagði ég, og svaraði honum svo sjálfur að bragði; það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum. Málið er nefnilega, að eftir að steypa hefur verið hrærð þarf að koma henni fyrir og móta hana með snatri annars er hætta á að hún verði að grjóthörðum óskapnaði sem kostnaðarsamt yrði að fjarlægja. Maður þarf sem sagt að falla í trans og sýna steypunni samhug í verki og frá svoleiðis sálarháska sleppur maður ekki svo auðveldlega.
Þó svo mikil áhersla hafi verið lögð í að koma vitinu fyrir mig á unglingsárunum til að forða mér frá steypunni þá hefur hún verið mín kjölfesta og sálarheill í meira en fjörutíu ár. Reynt var að telja mér trú um að ég hefði ekki skrokk til erfiðisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ. Eftir að hafa látið tala mig inn á bóknámsbraut síðustu árgangana í gagnfræðaskóla varð það á endanum blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bókhaldinu.
Núna, alveg bláedrú, og öllum þessum árum og áföllum seinna varð mér á að hugsa; hefði ég betur hlustað þarna um árið? Og svarið er; nei, því ef ég þyrfti að snúa til baka þá myndi ég engu breyta heldur bara njóta steypu stressins aðeins meira og æsa mig örlítið minna, því eftir munu standa verkin sýnileg. Þó svo vissulega gæti verið varið í að eiga snyrtilegt bókhald upp í hillu eða hafa framkvæmt faglegt eftirlit með öðrum jafnvel útfyllt exelskjal opinberlega, þá jafnast ekkert af þessu á við varanleg minnismerki.
Stærsta steypan sem mér bauðst að taka þátt í á þessu ári var með ungum og upprennandi köppum við Berufjörð, þar var steypt brú út á botnlausri leirunni. En Vegagerðinni, ásamt bændum og búálfum, hafði fundist Berufjarðarleiran álitleg sem vegstæði. Um leið var tilkynnt um þau tímamót að þjóðvegur eitt yrði allur orðinn með bundnu slitlagi 1. september 2018, þ.e. við verklok vegagerðarinnar í Berufirði. Reyndar var þjóðvegur eitt fluttur "um firði" við sama tækifæri, enda var fyrirsjáanlegt að tímamótamarkmiðið í samgöngumálum landsins myndi ekki nást nema með pólitískum skollaleik.
Þessa ákvörðun tók þáverandi samgönguráðherra og lengdi með því þjóðveg eitt um tugi kílómetra. En eitthvað fóru áformin ekki alveg samkvæmt exelskjalinu, hvað þá dagatalinu, og bíður það verkefni nýráðins forstjóra Vegagerðarinnar að leysa, sem er dýralæknir, skipaður af dýralækni sem plataði sig til samgönguráðherradóms með því að vera á skjön við forvera sinn og ætti þjóðin vera þess minnug hvað dýralæknar geta verið henni dýrir frá síðasta hruni. Er ekki ólíklegt að aukist umsvif tollheimtumanna á komandi árum til að fela axarsköftin og efla hag falskt jarmandi jötuliðsins sjáandi á eftir kjararáði ofaní botnlausa hítina.
En hvað um það, til að gera langa sögu stutta þá sökk vegurinn hvað eftir annað ofan í leiruna og hafa framkvæmdir nú verið stöðvaðar. Þannig að ekkert er í hendi um það hvenær lokið verður við að koma bundnu slitlagi á þjóðveg eitt. En brúin stendur enn sem komið er eins og grjótharður minnisvarði úti á miðri Berufjarðarleirunni, ungum köppum til sóma sem tóku á móti 1000 tonnum af steypu, einn sumardaginn í ár, og komu þeim rennisléttum niður í brúargólfið svo hægt yrði að bruna þjóðveginn hnökralaust, en allt eins getur brúin verið einna líkust óskapnaði skaðmenntuðu exelskjali til stór skammar.
Að endingu vil ég þakka þeim sem hafa enst til að lesa steypu þessarar síðu, og óska þeim velfarnaðar á komandi ári.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.12.2018 | 13:03
Sólin fer á kostum um jólin
Það vefst fyrir sumum hvers vegna halda skal upp á jólin. Flestir halda þó upp á fæðingu frelsarans og það gerir síðuhöfundur.
Margir telja jólin heiðna hátíð aftan úr grárri forneskju, sem á rætur sínar að rekja til vetrarsólstöðu; til þess að nú fer sólin að hækka á lofti og ættu allir að geta sameinast um að því beri að fagna.
Um leið og ég óska lesendum þessarar síðu gleðilegra jóla birti ég hér nokkrar myndir sem ég tók af svölunum í gær, aðfangadag, og núna á jóladagsmorgunn, sem sína að hvað sem öðru líður þá fer sólin á kostum yfir jólin þó með himinskautum sé.
Himininn yfir Fljótsdalshéraði við sólsetur á aðfangadag
Sólarupprás á jóladag
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2018 | 15:25
Þær eru farnar að halla í beygjum
Það er ekki tekið út með sældinni að vera karlamaður þessa dagana. Hvað þá miðaldra karlpungur í tilvistarkreppu með tilheyrandi ranghugmyndir af feðraveldinu uppfullu af allskyns hrútaskýringum. Vinur minn og vinnufélagi komst heldur betur háskalega að orði í vikunni sem leið, í símtali við annan iðnaðarmann og ég varð áheyrandi af símtalinu. Já ég veit það þetta er alltaf sama helvítis vesenið, en stelpu rassgatið kann bara ekki að umgangast þetta og tekur ekki nokkurri tilsögn.
Ég benti félaga mínum á að svona mætti hann alls ekki tala, hann vissi aldrei hvenær tal hans yrði tekið upp og flutt í fjölmiðlum og þá væri stutt í metoo mylluna. Hann sagði að þessi kvenmaður myndi lítið lagast þó svo að sagðar væru fréttir af henni í fjölmiðlum, hún væri bara ekki betur búin á milli eyrnanna en raun bæri vitni. Ég lagði árar í bát, í þetta sinn, enda ekki í fyrsta skipti sem ég reyni að koma vitinu fyrir vin minn.
Atburðir þessa árs hafa oft á tíðum valdið okkur vinnufélögunum angist og örvinglan, þó svo við séum þrátt fyrir allt íslenskir kallamenn. Fyrir nokkrum vikum síðan hafði ég eytt drjúgum hluta kaffitímans í það að gera vinnufélögunum grein fyrir því hvað mikið mæddi á nútímakonunni. Hún þyrfti að sinna framabrautinni bæði með vinnu og háskólanámi, oft hvorutveggja samtímis, auk þess sem tilvera barnanna hvíldi á hennar herðum. Þetta væri svona þrátt fyrir allt það fæðingaorlof sem eyrnamerkt væri körlum, konan fengi kallið ef eitthvað bjátaði á hjá börnunum í leik eða skóla. Þetta sæist best á aksturslagi í umferðinni þar sem konur væru orðnar mun strekktari ökumenn enn karlar.
Vinur minn brunaði í þeim töluðu orðum inn í kaffistofuna, og um leið og hann fór framhjá okkur félögunum til að komast í kaffikönnuna gall í honum; þær eru meir að segja farnar að halla í beygjum. Hvað ertu að meina maður spurði ég; Þú hlýtur að vita það sjálfur, eða manstu ekki þegar við vorum að steypa í sumar og sama manneskjan keyrði þrisvar framhjá eins og druslan dró og við urðum að forða okkur, ferðin var svo mikil á henni að hún þurfti að halla sér til að hendast ekki út í rúðu í beygjunni.
Ég mundi eftir því að við höfðum verið að steypa gangstétt í rólegri íbúðagötu og talið að það væri öruggara að halda okkur ekki á götunni á meðan ung kona ætti leið hjá. Jú það var það sem félagi minn var að meina, hann bætti svo í; Þær eru al varasamastar þessar vinstri grænu því þær myndu strauja mann niður bara ef þær teldu sig vera í rétti, jafnvel þó svo maður væri í gulu vesti með vegagerðarkalla á aðvörunarskiltum í bak og fyrir.
Jú, ég varð líka að gefast upp þarna í kaffitímanum, og viðurkenna það að almennt hafi dregið úr því að fólk hefði nægjanlega aðgát í nærveru sálar þegar það þeytist fram og til baka um blindgötuna.
Dægurmál | Breytt 4.12.2018 kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)