Draumar, leki, mygla og fúsk

Það hefur borið við hér í bók daganna að ég hafi getið drauma minna, misgáfulegra og óræðra. Aðfaranótt 1. febrúar svaf ég illa, var með mínar þrjár sortir að suði fyrir eyrum og fuglasöng. Staulaðist á klósettið upp úr miðnætti, en svaf eftir sem áður lítið fram eftir nóttu vegna þráláts brjóstverks og gyllinæðar í ofanálag. Þegar ég loksins sofnaði dreymdi mig, sem betur fer, tóma steypu eins og vanalega.

Ég var staddur á borgarafundi í vesturhlið heimavistar Menntaskólans Egilsstöðum. Þar var fundur með sveitastjórnarfólki í stórsameinuðu sveitarfélagi. Sveitarsjónarfólkið var að skýra erfiða stöðu sveitarfélagsins fyrir íbúum og hversu hart það sjálft hefði lagt að sér þess vegna. Þetta myndi birtast íbúunum í hækkuðum gjöldum og skertri þjónustu, því eitthvað yrði að gera til að rétta fjárhaginn við, sem ekki væri einfalt mál í flóknum nútíma samfélagi, og krefðist síaukins mannauðs við stjórnun.

Ég stóð upp og benti fundarfólkinu á að á meðan hrepparnir hefðu verið 13, sem nú mynda eitt sameinað Múlaþing, þá hefði uppbyggingin í þeim allt í senn; -verið hraðari, mun meiri og fjárhagurinn blómlegri í rassvasabókhaldi oddvitanna, sem nota bene, hefðu lengst af ekki verið á launum. Íslendingar hefðu hvorki meira né minna en komist út úr moldakofunum inn í steinsteyptan nútímann með þannig rassvasa bókhaldi hreppsnefndarmanna í sjálfboðavinnu.

Þeir sem fóru með fundarstjórn fannst þetta frekar fornfáleg samlíking og vildu að fundarmenn drifu í að rísa úr sætum og sýna samstöðu með því að haldast í hendur á þessum erfiðu tímum. Ég neitað að taka þátt í svoleiðis skollaleik handabanda, ásamt nokkrum  fleirum, og þar með var samtaðan rofin, og keðjan slitin sem átti að mynda með því að fólk héldist í hendur undir blaktandi regnboga fánum.

Ég talaði um það við þá örfáu, sem voru á sama máli og ég, að þetta yrði allt að fá að hrynja til grunna, eins og í Sovétríkjunum forðum, svo hægt væri að byggja aftur upp af einhverju viti. Þá tók frændi minn mig með sér út fyrir Útgarð og sýndi mér mikla uppbyggingu þar sem steyptar höfðu verið undirstöður og stoðveggir, vel faldir á milli Miðgarðs og Vonarlands, og til stóð að hefja miklar byggingaframkvæmdir upp á gamla mátann með tommu sex og steypu.

Í sólskini gengum við svo inn Tjarnarbrautina. Til móts við fimleika- og íþróttahúsið, inn að menntaskóla afleggjaranum, voru feikna fallegar tveggja til þriggja hæða byggingar í anda Menntaskólans, steinsteyptar með mótatimburáferð og hraunuðum flötum á milli, einnig voru sumir veggirnir sementsútflúraðir með risafjallgrösum.

Allar voru þessar byggingar hvítmálaðar með bláum þökum og rauðum opnalegum gluggafögum. Upp með veggjunum uxu grannar reyniviðarhríslur sem skyggðu passlega á morgunnsólina sem merlaði í gleri gluggana. Þegar við beygðum á menntaskólabílastæðin blasti austurhlið Menntaskólans við á sínum stað, við enda húsaraðar sem stóð þar sem steinsteypt Búbót stóð forðum daga.

Þessi göngutúr fyllti mig bjartsýni og gleði svo ég sagði við frænda; “já svona á að byggja”. Þá vaknaði ég upp frá draumnum við torkennilegt óhljóð og komst smá saman til sjálfs mín, við það að snjóruðningstæki höfðu hafið störf við hið eilífa og flókana vetrar verkefni að skrapa snjó af bílastæðum íþróttahússins og Menntaskólans.

Mér dettur helst í hug að þessi draumur tengist því sem ofarlega hefur verið á baugi undanfarið, eða endalausu tjóni og vandræðagang við byggingu húsa, -leka, myglu og fúski. En nothæf hús verða ekki byggð undir alræðisstjórn fólks sem einungis hefur stundað harðsnúið latínunám. Það þarf fólk með reynslu, -þekkingu þeirra sem byggt og rifið hafa hús með höndunum við ramm íslenskar aðstæður.

Já ég hef sofið illa undanfarið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband