Færsluflokkur: Menntun og skóli
26.2.2023 | 06:40
Steypa
Það er ljótt að ljúga að blessuðum börnunum, en þess hafa sést merki í þeim tilgangi að fá þau til að afla sér starfsmenntunar í byggingaiðnaði. Stundum er talað um tæknimenntun til að fegra sements gráan veruleikann og því hefur jafnvel verið haldið fram af hámenntuðu latínu liði að störfum iðnaðarmanna fylgi ekki óhreinindi, hávaði og kuldi, í þeim tilgangi að fegra ímynd bóklegs iðnnáms.
Enn sannleikurinn er sá að byggingavinna er fyrir hetjur, sem kalla ekki allt ömmu sína, þ.m.t. óhreinindi, hávaða og kulda. Vilji ungt fólk aftur á móti halda sér í góðu formi og reisa minnisvarða sem standa um ókomin ár, þá er byggingavinna betri en bókhald. En hetjur verða sjaldnast langlífar, þó svo að lengi sé hægt að jamla áfram í starfi sem krefst álíka líkamsburða og t.d. bókhald. Því mættu launin vera betri þar sem hetjunnar er þörf.
Það finnst kannski ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá. Og virðist æ algengara að samfélagsgerðin slíti alfarið á milli staðar og stundar, eða kannski réttara sagt ánægju- og vinnustunda. Þetta hefur orðið til þess að ný fíkn hefur fæðst sem má með réttu kalla fjarverufíkn, -í snjallsímanum sínum með svokallaðri fjarvinnu án mætingaskildu.
Um þessar mundir eru þau orðin 45 árin síðan ég byrjaði steypunni, Þó ekki sé samt svo að ég hafi ekki verið viðloðandi hana lengur, enda uppalinn á byggingarstað. Þegar foreldrar mínir byggðu sér hús þá var ca 40m2 skúr hlaðinn fyrst úr Mývatns-vikurholsteini. Þar var mamma með okkur systkinin á meðan pabbi vann í burtu og safnaði fyrir húsi, milli þess sem hann kom heim til að slá upp og steypa í tommu sex.
Fyrstu minningar af steypu voru samt þegar múrari, sem pabbi þekkti, kom við á heimleið og múraði skúrinn að utan á 2 dögum. Ég var rétt að verða 4 ára þá og var alveg hugfanginn og límdur við hann til að læra handtökin. Þegar fór að dimma seint um kvöldið bað hann mig að fari inn og ná í ljósahundinn og var ég snöggur til, hann hafði þá líka haft með sér hund án þess að ég hefði tekið eftir.
Því var það svo þegar pabbi byggði húsið úr tommu sex og steypu þá kunni ég þá þegar að múra og stakk undan sementspoka 7 ára gamall. Safnaði síðan félögunum saman til múrverks. Pabbi koma að þar sem við vorum bak við hús í óða önn að draga upp á vegg. Hann sló á fingurna á mér, sagði að þetta væri bara fúsk sem kæmi í veg fyrir að eitthvað festist á veggnum þegar múrarar kæmu til að múra húsið að utan.
Ég snerti ekki á sementi í fjölda ára á eftir. Lét mér nægja frá 12 ára aldri að naglhreinsa og skafa spýtur hjá Trésmiðju Kaupfélagins á sumrin, á milli þess sem ég var til ama í skólanum. Ég var alltaf hálf týndur í einhverjum vitleysisgangi þangað til veturinn 1978 að ég var beðin óvænt um að vera tímabundið handlangari hjá múrurum. Eftir það var ekki aftur snúið og ég hef ljómað í vinnunni óður og uppvægur svo að segja hvern einasta dag síðan.
Þó svo mikil áhersla hafi verið lögð á að koma vitinu fyrir mig í uppeldinu, til að forða mér frá steypu, þá hefur hún nú verið mín kjölfesta og sálarheill í 45 ár. Þó svo að í æsku hafi verið reynt að telja mér trú um að ég hefði ekki skrokk til erfiðisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ, þá hefur steypan verið mitt lifibrauð.
Alla mína barnaskólagöngu fannst mér margt það sem þar var á borð borðið vera á skjön við meðfædda skinsemina, en lét mig samt hafa það því þeir sem bæru spekina á borð hlytu að vita betur hvað mér væri fyrir bestu en ég sjálfur. En á endanum var það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bókhaldinu.
Einn kollegi minn spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari. Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði til að losna við erfiðisvinnu en allt kæmi fyrir ekki í steypuna væri hann kominn jafnharðan aftur; -Já veistu ekki út af hverju þetta er, -sagði ég, og svaraði honum svo að bragði; -það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum.
Úr bókinni 100 ára saga Kaupfélags Héraðsbúa. Tomma sex og steypa, við byggingu mjólkurstöðvar KHB sennilega 1975, en sjaldan hefur annað eins samsafn ungra drengja tekið þátt í að byggja stórhýsi og þá. Ég var lengi að finna mig á myndinni, enda alveg týndur á þessum árum, en sá loks að ég er akkúrat á myndinni miðri að bíða eftir að komast að steypubílnum með hjólbörur
Þeir ausa steypunni sem mega það, ákast á vegg 1985. Múrverk var unnið samkvæmt uppmælingu fram undir 1990, laun borguð eftir máli. Því skipti skipulagning og dugnaður öllu máli ef átti að hafa gott kaup og gera ekki stór mistök, því mistök uppskar maður sjálfur í launum
Steypa er skemmtileg útivinna, gólf hafa verið mín sérgrein eftir því sem á ævina hefur liðið. Steypa er gjörningur sem grjót harðnar, tekur ekki mið af klukkunni og er ekki hægt að vinna í fjarvinnu
Gamall og lúinn, feykinn og fúinn steypukall með víkingum
Það er ekki oft sem gefist hefur tími til að líta upp úr steypunni, -hvað þá brosa
Ps. Myndunum með færslunni hef ég flestum stolið héðan og þaðan en tel það í lagi, þar sem ég er myndefnið.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 06:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.10.2019 | 13:33
Hrævareldar
Eru hrævareldar sem loga um nætur villuljós, sem eiga sér enga samsvörun í upplýstum heimi nútímans og eiga þar með það sameiginlegt með álfum og huldufólki þjóðtrúarinnar að hafa horfið af sjónarsviðinu þegar raflýsingin hélt innreið sína?
Eða eru hrævareldar kannski til? og gæti þá líka verið að það mætti sjá álfa við rétt skilyrði?
Ég fór að velta þessu fyrir mér við lesturs bókar Halldórs Pálssonar um Knútsbyl, sem gekk yfir Austurland 7. janúar 1886, en þar er að finna þessa frásögn frá Ósi í Breiðdal; Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hrævarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.
Þarna er sagt þannig frá hrævareldum, líkt og þeir ættu að vera hverju mannsbarni þekktir ekki síður en norðurljósin, sem hafa heillað ljósmyndara nú á tímum. Þegar ég las frásögnina hugsaði ég með mér "já, það er mýri þarna fyrir innan fjárborgina" en í votlendi grunaði mig að gæti verið von hrævarelda, þó svo að ég hafi þá aldrei séð og viti varla hvernig þessari hugmynd skaut niður í kollinn. En eitthvað truflaði hugmyndina um mýrarljósið, því Knútsbylur var fárviðri og því ekki líklegt að logi lifði í þeim veðraham, hvað þá að Jón hafi séð frá sér á móti dimmviðrinu. Því fór ég að grennslast fyrir um eðli Hrævarelda sem þjótrú fyrri alda á margar frásagnir af, en fáir virðast hafa séð nú á tímum.
Kleifarrétt, þar sem Jón gætti fjárins niður við sjó í Knútsbyl, skarð hefur verið gert fyrir þjóðveginn í gegnum klettinn
Strax í fornsögunum er hrævarelda getið. Í Grettissögu segir frá því þegar Grettir kom til Háramarsey á Suður Mæri í Noregi og sá elda á haug Kárs gamla og gekk í hauginn, rændi gulli Kárs og afhöfðaði draug hans með sverðinu Jökulnaut. Gullið færði Grettir syni Kárs, Þorfinni bónda á Háramarsey. Samkvæmt frásögninni má ætla að það hafi verið hrævareldar eða mýrarljós, sem loguðu á haug Kárs og vísaði Grettri á grafhauginn. Því í vísu um þennan gjörning talar hann um "Fáfnis mýri" eftir að hafa áður haft á orði að "margt er smátt það er til ber á síðkveldum".
Þjóðsaga segir að sjá hafi mátt bjarma frá landi við Djúpavog, sem loga átti "á haug" Melsander Raben úti í Papey. En engin vissi fyrir víst hvar Melsander hafði borið beinin né hvað af auðæfum hans varð, því hvoru tveggja hvarf vofaginlega þar úti í eynni. Samt grunar mönnum að gull Melsanders kunni að vera grafið undir kirkjugólfinu. Þessi hrævarelda bjarmi sem menn töldu sig áður fyrr verða vara við út í Papey gætu því verið af sama toga og greint er frá í öllum þeim þjóðsögum, sem til eru um gull á álagablettum en þegar reynt var að grafa það upp þá sýndist kirkjan loga.
Eftir að hrævareldar hafa komið við sögu í þjóðtrúnni í þúsund ár, viðurkenna vísindi nútímans að stundum sé nokkur sannleikskorn í alþýðutrúnni. Samkvæmt Vísindavef Háskólans er skýringin á fyrirbærinu; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum. Yfirleitt er þá metangas að brenna en það myndast við sundrun jurtaleifa í mýrum. Engin ástæða er til að ætla annað en að fyrirbærið hafi verið þekkt frá alda öðli. Það er nefnt í gömlum íslenskum textum og til að mynda eru ensku orðin um fyrirbærið gömul í ensku ritmáli".
Þó verður það að teljast undarlegt að um leið og vísindavefurinn viðurkennir hrævarelda sem eðlilegan bruna metangass, þá er þetta einnig tekið fram; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum en færast undan mönnum ef reynt er að nálgast þau". Það undarlega er að ef gengið er að metangasloga úr prímus, þá færist hann ekki undan. Það má því segja að vísindin komist að svipaðri niðurstöðu og þjóðtrúin gerði, þ.e. að hrævareldar séu mýrarljós eða villuljós.
Í athyglisverðri grein Ólafs Hanssonar í Mánudagsblaðinu 5. október 1959 segir; "Oft eru hrævareldar settir í samband við haugaelda og þeir taldir loga yfir gröfum, þar sem gull er fólgið. Stundum loga þeir á leiðum, þó að ekkert gull eða fé sé þar. Þetta mun ekki vera eintóm hjátrú, það er talin staðreynd, að hrævareldar sjáist mjög oft í kirkjugörðum, og mun rotnun líkanna valda þeim með einhverjum hætti. Það er ekki að furða, þótt þetta fyrirbæri í reit hinna dauðu hafi komið margvíslegri hjátrú af stað. Sú skoðun er talsvert algeng, að eldarnir séu sálir framliðinna. Einna almennust er sú skoðun, að hér séu á ferðinni sálir sjálfsmorðingja, sem séu á sífelldu reiki og finni engan frið. Líka þekkist sú trú, að hér séu andar manna, sem hafi látizt af slysförum, og reiki æ síðan um í námunda við slysstaðinn. Sú trú, að slíkir andar séu á sveimi í námd við slysstaði er mjög algeng á Íslandi".
Gamla fjárborgin á Ósi hægra megin við þjóðveg 1, mýrin vinstra megin
Samt sem áður getur þetta varla verið skýringin á þeim hrævareldum sem getið er um að Jón hafi séð við fjárborgina á Ósi í Knútsbyl, þó svo mýrin sé nálæg, því varla hafa verið veðurskilyrði fyrir slíkan loga í því aftaka veðri sem talið er hafa farið yfir með fellibylsstyrk.
Á heimasíðu Veðurstofunnar segir frá hrævareldum af öðrum toga, þeim sem fylgja veðrabrigðum s.s. eldingarveðri. Þar er lýsing þriggja manneskja sem telja sig hafa upplifað hrævarelda á Eiríksjökli 20 ágúst 2011, þó svo engin hafi verið þar eldurinn. Þar segir m.a.; "Stundum er hrævareldum ruglað saman við mýraljós (will-o´-the-wisp á ensku), en þau gefa dauf ljós við bruna mýragass (metans). Áður gerðu menn sér stundum ekki grein fyrir að um ólík náttúrufyrirbæri væri að ræða, en mýraljós eru bruna-fyrirbæri á meðan hrævareldar eru raf-fyrirbæri". Frásögnin á Eiríksjökli segir af hagléli og réttum viðbrögðum við eldingahættu, þegar umhverfið er orðið það rafmagnað að hárin rísa. Þessi réttu viðbrögð stemma við þau ráð sem gefin voru í þjóðtrúnni, sem sagði að ekki mætti benda á eða berja hrævarloga því þá gætu þeir ráðist á menn og brennt og ef reynt væri að slökkva hrævareld af vopni dytti maður dauður niður.
Í Sturlungu segir frá ferð Odds Þórarinssonar Svínvellings frá Valþjófsstað í Fljótsdal suður í Haukadal um veturinn 1254-55. Gissur Þorvaldsson jarl hafði sett hann yfir ríki sitt í Skagafirði þegar hann fór af landi brott eftir Flugumýrarbrennu. Oddur fór með þrjátíu vopnaða menn yfir Kjalveg og lentu þeir í mannskaða hríðarveðri 31. desember. Voru þeir þá skammt sunnan við Vinverjadal eða Hvinverjadal sem talið er hafa verið nafngift þeirra tíma á Hveravöllum. Voru þeir þar um nóttina og héldu svo áfram daginn eftir 1. janúar. Þá segir Sturlunga; "og er þeir voru skammt komnir frá Vinverjadal þá kom hræljós á spjót allra þeirra og var það lengi dags". Ferðalags Odds átti sér ekki farsælan endi en hann var drepin þann 14. janúar í Skagafirði af mönnum Eyjólfs ofsa. Oddur var talin fimastur bardagamanna á Íslandi - þótti öllum mönnum mestur skaði um hann er hann var kunnastur - segir Sturlunga.
Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar árið 1772 er lýsingu úr Kjósarsýslu þar sem segir: "Þrumur, eldingar og önnur óvenjuleg loftfyrirbæri eru sjaldgæf hér. Helst verður þeirra vart á vetrum. Þegar dimmviðri er með stormi og hríð á vetrum, verður vart leiftra í neðstu loftlögunum. Þau kalla menn snæljós. Eins konar Ignis fatuus, sem á íslenzku kallast hrævareldur og líkt og hangir utan á mönnum, er sjaldgæfur á þessum slóðum". Þess konar rafmögnun á það til að hlaðast um flugvélar og eru stundum kölluð St Elmo´s Fire.
Líklegast er því að hræfareldarnir sem Jón Einarsson frá Ósi sá við fjárborgina í Knútsbyl hafi stafað af völdum rafmagnaðra veðurskilyrða, svipaðra og greint er frá á síðu Veðurstofunnar að fólkið á Eiríksjökli hafi upplifað sumarið 2011. Sennileg á það sama við um hræljósin á spjótsoddunum við Hveravelli á ferð Odds í Sturlungu og hafi þetta einnig verið sú tegund hrævarelda sem getið er í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772, og sagt er þar að menn kalli snæljós. En greinilegt er að hrævareldar hafa verið fólki kunnuglegra fyrirbæri hér áður fyrr en þeir eru nú til dags. Nema þá sem hrekkjavöku fyrirbrygði og virðast vísindin ekki skýra til fulls þá tegund hrævarelda sem ýmist voru kallaðir mýrarljós, villuljós eða haugeldar.
Ps. færsla þessi hefur áður verið birt hér á síðunni 8. mars 2017 og er nú endurbirt lítið breytt. Það var sagan um hræljós á spjótsoddum í Sturlungu sem vöktu upp hrævareldinn að þessu sinni. Þegar ég fór að grúska í gúggúl þá kom upp þessi athyglisverði bloggpistill hér.
Menntun og skóli | Breytt 4.1.2020 kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2019 | 13:04
Hvítramannaland - og hin mikla arfleið
Íslendingar hafa löngum verið stoltir af uppruna sínum, enda komnir af víkingum sem settust að í mörgum Evrópulöndum og hafa litað menningu þeirra allt til dagsins í dag. Eins eiga þessir fyrrum sægarpar, sem stimplaðir voru hryðjuverkamenn síns tíma, að hafa fundið Ameríku. En þegar spurt er hvort norrænir menn hafi numið þar land er fræðilega svarið nei, ef frá er talið Grænland. En þaðan hurfu norrænir menn með öllu á óútskírðan hátt skömmu eftir 1400. Hér á þessari síðu hefur í nokkur skipti verið velt vöngum yfir því hvað um Grænlendingana varð og þá hvort geti verið að þeir hafi haldið áfram stystu leið yfir hafið til að byggja Vínland eftir að lífskilyrði versnuðu á Grænlandi.
Til eru sagnir af Mandan indíánum sem voru sumir hverjir ljósir á hörund og jafnvel sagðir hafa verið bláeygðir. Svo vel vill til að skráðar heimildir eru til um þessa indíána N-Ameríku og nokkuð vitað um lifnaðarhætti þeirra, sem voru um margt sérstakir þegar frumbyggjar Ameríku eru annars vegar. Könnuðirnir Lewis og Clark dvöldu á meðal þeirra veturinn 1804-1805 í leiðangri sínum vestur yfir Klettafjöll á vegum Thomas Jeffersons.
Þar áður eru til heimildir um að Fransk-Kanadíski kaupmaðurinn Pierre Gautier de Varennes hafi átt samskipti við Mandan indíána, og þó það sé ekki skráð af honum sjálfum þá á hann að hafa rætt það við sænsk ættaða fræðimanninn, Pehr Kalm, að á slóðum Mandan við Missouri ána hafi hann fundið norrænan rúnastein. En þjóðflokkur þessi hafði fasta búsetu í bæjum sem byggðir voru úr torfi og grjóti á bökkum Missouri árinnar í miðvestur ríkjunum, aðallega í suður og norður Dakota.
Lögfræðingurinn, landkönnuðurinn og listmálarinn George Caitlin dvaldi hjá Mandan um tíma árið 1832 og málaði þá margar myndir af þessu fólki og hýbýlum þess. Caitlin lýsti Mandan sem ólíkum dæmigerðum frumbyggjum N-Ameríku, bæði í lífsháttum og vegna þess að 1/6 þeirra væri ljós á hörund með ljósblá augu.
Mandan indíánar voru síðan sameinaðir öðrum ættbálkum inn á verndarsvæðum, sem sífellt minnkuðu vegna ásóknar í land þeirra. Á 19. öld voru Mandan orðnir nokkur hundruð og lifðu innikróaðir ásamt Hidatsa og Arikara ættbálkunum en þar gengu þeir í gegnum "mislukkaða" bólusetningar áætlun stjórnvalda gegn bólusótt, sem því sem næst gjöreyddi þeim. Í dag er ekki talið að neinn Mandan sé uppi standandi sá síðasti hafi horfið af yfirborði jarðar árið 1971.
Þó svo sumir vilji meina að Mandan kunni að hafa haft norrænt víkingablóð í æðum eru aðrir sem vilja meina að um forna kelta hafi verið að ræða. Til eru sagnir um Walesbúann Morgan Jones sem féll í hendur indíána vestur af Virginíu 1660, sem ráðgerðu að drepa hann en þegar hann bað fyrir sér á gamalli gelísku sýndu þeir honum virðingu og var honum sleppt.
Miðað við hvernig mankynssagan greinir frá fundi Kólumbusar á Ameríku og því hvernig hún var numin í framhaldinu, eru það varla aðrir en illa skólaðir sveimhugar sem halda því fram að Ameríka hafi verið þekkt af Evrópumönnum og siglingarleiðin legið í nágreni við Íslandsstrendur árhundruðum fyrir Kólumbus.
Rithöfundurinn Árni Óla ritaði greinina Hvítramannaland fyrir mörgum áratugum síðan og voru skrif hans í besta falli metin sem hugarburður. En sjálfur dró Árni enga dul á að hann léti hugann reika á milli línanna í þeim heimildum sem íslendingasögurnar hafa að geyma um Vínland hið góða. Í grein sinni dregur hann fram menn á við Hrafn Hlymreksfara sem sigldi vestur um haf frá Írlandi og sagði sögur af íslenskum manni sem þar bjó sem talin er hafa verið Björn Breiðvíkingakappi. Eins segir hann frá Guðleifi úr Straumfirði sem til vesturheims kom og Ara Mássyni sem þar ílendist.
Þessir íslendingar tengdust allir Írlandi og Skosku eyjunum enda var Hvítramannaland einnig kallað Írland hið mikla. Hermann Pálsson, sem var prófessor í norrænum fræðum við Edinborgarháskóla, er á svipuðum slóðum og Árni Óla í grein Lesbókar Morgunnblaðsins 18. september 1999. En þar veltir hann fyrir sér Vínlands nafngiftinni og hvort hún hafi orðið til á undan Íslandi.
Árið 1492 greinir mankynsagan svo frá að Kristófer Columbus hafi uppgötvað Ameríku og upp úr því hefjist landnám fyrstu Evrópu mannanna fyrir vestan haf. Í kjölfarið hefjast einhverjir mestu þjóðflutningar sem um getur á sögulegum tíma. Það er ekki einungis að fólk frá löndum Evrópu flytjist yfir hafið, heldur hefst fljótlega flutningur á nauðugum Afríku búum sem notaðir voru sem þrælar á ekrum evrópsku hástéttarinnar í nýnuminni heimsálfu.
Af umfang þessara fólksflutninga mætti ætla að Ameríka hafi verið því sem næst óbyggð áður en Kólumbus uppgötvaði hana, í það minnsta strjálbýl. Á þessum tíma hafði kirkjan og hennar konungar sölsað undir sig mest allt landnæði í Evrópu. Græðgi þessara afla einskorðaðist ekki við Evrópu heldur hafði hún áður ásælst auðlindir Afríku og Asíu. Um 1490 var staðan sú að lokast hafði á ábatasöm viðskipti við Asíu og þar bjuggu menn yfir mætti til að hrinda af sér græðgi Evrópsks valds.
Síðari tíma athuganir benda til að Ameríka hafi alls ekki verið eins strjálbýl og sagan vill af láta, tugum milljónum innfæddra hafi verið rutt úr vegi. Giskað hefur verið á að í N-Ameríku einni hafi verið á milli 80-120 milljónir innfæddra um 1500. En talið er að sú tala hafi farið niður í 800 þúsund áður en yfir lauk og þeim sem eftir lifðu komið fyrir á einangruðum verndarsvæðum. Eins bendir margt til þess að búseta Evrópu manna hafi hafist mörgum öldum fyrr í N-Ameríku og hafa margir fornleifafundir rennt stoðum undir þá tilgátu. Virðist sem fyrri tíma landnemar frá Evrópu hafi búið í meiri sátt við aðra íbúa álfunnar en síðar varð.
Það má því næstum telja öruggt að það var ekki eins og mankynssagan greinir frá hvernig Ameríka var uppgötvuð og numin. Líklegra er að með opinberu sögunni sé reynt að fela spor þeirrar helfarar sem farin var til að eyða öðrum menningarheimi. Óopinber saga í Ameríku sé því meira ætt við galdrabrennur Evrópu, sem viðhafðar voru á hinum myrku miðöldum, þar sem Rómarvaldið fór fremst í flokki við að útrýma þeim menningarheimi sem ekki vildi undirgangast valdið, í nafni manngæsku. Það þarf því engum að koma á óvart að sagan segi að sá sem var fyrstur til að uppgötva Ameríku hafi borið nafnið Kristófer Columbus, nafn sem felur í sér merkinguna kristniboði friðardúfunnar.
Það er ekkert nýtt að friður sé út breiddur með manndrápum. Vestrænt vald hefur um langt skeið boðað frið í nafni frelsarans og hefur þótt sjálfsagt að framfylgja markmiðinu með vopnum þó það hafi kostað milljónir saklausra mannslífa. Því er áhugavert að skoða þær vísbendingar sem til eru um veru Evrópumanna í Ameríku fyrir innreið vestrænnar menningar. Þar eru þekktastar sagnir af ferðum víkinga upp úr árinu 1000. Eins eru skrásettar sagnir til af ferðum írska munksins St Brendan á árunum 5-600. Ekki er ólíklegt miðað við Íslendingasögurnar af ferðum víkinga, að norrænir menn hafi fengið vitneskjuna um löndin í vestri á Bretlandseyjum.
Þegar Ameríka er numin eftir Columbus voru Írar fluttir í stórum stíl til enskra landnema í valdatíð James konungs VI og Karls I, þessi "þrælaútflutningur" frá Írlandi heldur áfram undir veldi Cromwells. James VI er talin hafa 1625, á því eina ári, látið flytja út 30.000 Íra til Ameríku skilgreinda sem fanga. Síðan fóru konur og börn, sem seld voru í ánauð eftir að fjölskyldur höfðu flosnað upp vegna fátæktar þegar fyrirvinnuna vantaði.
Þegar Afríku fólk var flutt sem þrælar til Ameríku voru afrísku þrælarnir taldir fimmfalt verðmætari en þeir írsku og á þá að hafa verið um áratugaskeið blöndun á írskum konum og Afríkönskum karlmönnum, því afkomendur þræla yrðu ávalt þrælar. Þær aðferðir sem Spánverjar og Portúgalar notuðu til að tryggja sér vinnuafl þegar Ameríka var brotin undir vestrænt vald voru síst geðslegri.
Þessi pistlaruna hófst á "Uppruni Íslendinga - úlfar og arfleið" pistils sem má rekja til ábendingar frá vísindamanninum vini mínum, Jónasi Gunnlaugssyni bloggara. Þar var velt vöngum yfir bókinni "Hin mikla arfleið Íslands". Adam Rutherford telur í þeirri bók að Íslendingar muni verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar". Ég gat mér þess til að það hefði gerst fyrir þúsund árum þegar víkingar vísuðu veginn vestur.
Fljótlega fóru þessir pistlar að snúast um hvort musterisriddarar hefðu einhverntíma komið við á Íslandi með "gral" úr musteri Salómons. Án þess að það liggi í augum uppi þá eru fornbókmenntirnar "gral", sem alltaf hefur legið fyrir augunum á okkur, á það benti Valdimar Samúelsson bloggari á í einni af sínum áhugaverðu athugasemdum. Íslendingasögurnar eru ekki einungis okkar "gral" sem þjóðar, heldur má finna í sögunum vísbendingar af óopinberri útgáfu mankynssögunnar um tilurð heimsmyndar dagsins í dag, með heimsveldinu mikla í vestri.
Meðan á þessu sögugrúski mínu hefur staðið, hefur mér oft fundist ég heyra hvissandi ölduna klofna með skelli við kinnung knarrarinnar á leiðinni vestur. Jafnvel talið mig greina marrið í stagfestum siglutrésins og heyra kliðinn frá fólkinu í morgunnskímunni. Á meðan skipið skreið með segli þöndu hjá óþekktri strönd þar sjá mátti til nýs lands.
Vegferðina sem þessi pistlarunu greinir frá má rekja allt til níðingsverksins í Gíbeu og þeirra vangaveltna Adams Rutherfords um það hvort Íslendingar séu hreinasta afbrygði ættkvíslar Benjamíns samkvæmt spádómsgeislanum úr píramídanum mikla í Gísa, og vegna einangrunar sinnar út í ballarhafi í gegnum aldirnar. Jafnframt þessu hef ég sett persónur pistlanna inn í Íslendingabók, og kannað hvort til þeirra liggja blóðbönd.
Þar hefur m.a. þetta komið fram; Hrollaugur Rögnvaldsson er forfaðir minn í 30. lið, sá sonur Rögnvaldar Mærajarls er nam Hornafjörð. Hans bróðir var Göngu-Hrólfur og er hann forfaðir í 31. lið. Hrólfur gerði strandhögg í Normandí og var forfaðir Vilhjálms Bastarðar sem lagði undir sig England árið 1066, og er talin forfaðir ensku konungsættarinnar. Hin mikla arfleið Íslands, bók Rutherfords, hefst á því að gera grein fyrir þessum bræðrum.
Og af því Ómar ákvæðabloggari Geirsson hefur oftar en einu sinni komið inn á Svarta víkinginn í athugasemdum við þessa pistla, þá er sá svarti, Geirmundur heljarskinn Hjörsson forfaðir í 30. lið, sonur Hjörs Hálfssonar hersis á Hörðalandi og sonur Ljúfvinu konungsdóttur úr Bjarmalandi, sem á að hafa haft mongólskt blóð í æðum. En Bjarmaland lá suðaustur af Múrmansk í Rússlandi. Þó svo að ég hafa ekki gert grein fyrir þessum "ættgöfugasta" landnámsmanni Íslands, þá hefði hann verið eins pistils verður. Veldi hans, taldi höfundur Svarta víkingsins, hafa byggst á innfluttum írskum þrælum og viðskiptum við Dyflinni.
Egill Skalla-Grímsson er forfaðir í 29. lið, hann þarf varla að kynna fyrir nokkrum Íslending. Melkorka Mýrkjartansdóttir er formóðir í 29. lið sögð konungsdóttir frá Írlandi sem flutt var ánauðug til Íslands og um er getið í Laxdælu, hún var tilgreind til að staðfesta ættartengsla Íslendinga við keltneska drauga. Vínlandsfararnir Guðríður Þorbjarnardóttir og Þorfinnur karlsefni Þórðarson er forforeldrar í 26. lið. Björn Jórsalafari Einarsson og Sólveig Þorsteinsdóttir eru forforeldrar í 17. lið. Og sjálfur sagnamaðurinn mikli Snorri Sturluson forfaðir í 23. lið.
Nú mun einhver segja; nei hættu nú alveg, jafnvel koma til hugar þjóðremba, í það minnsta grillufang eins Fornleifur myndi orða það, sem stundum hefur laumað hér inn athugasemd. Ég á samt ekki von á öðru en að sá hinn sami myndi geta komist að svipaðri niðurstöðu með það að vera afkomandi Íslendingasagnanna, við það eitt að setja sjálfan sig inn í Íslendingabók. En kannski mun einhverjum koma til hugar að nú á tímum alþjóðavæddrar manngæsku sé það úreltur óþarfi, og í bókunum sé um að ræða rasisma og rökkursögur fyrir börn.
En þá er því til að dreifa að veruleikurinn er oftast lygilegri en sagan sem af honum er sögð. Einn skærasti sólargeislinn í mínu lífi er dóttur dóttir mín, hún Ævi, sem nú er eins árs og því að mestu óskrifað blað. Hún vaknar með bros á vör fyrir allar aldir hvern morgunn og á það oft til í morgunnsárið að dansa salsa og sumba. Mér finnst ég stundum greina í andliti sólargeislans svipmót indíána Mið-Ameríku, þeirra sem Trump vill reisa vegginn og gera America Great Again.
Jafnvel er ég ekki frá því að smá andblæs frá Afríku og glamurs frá conquistadores Cortés-ar gæti líka í geislandi dansinum. En fjölskyldufaðirinn er hingað kominn frá Hondúras. Hvort Adam Rutherford hefði talið Ævi til hreinusta afbrygðis ættkvíslar Benjamíns, eins og hann taldi Íslendinga vera á fyrri hluta síðustu aldar, veit ég hreinlega ekki, og ætla að láta öðrum eftir að geta sér til um þá sögu.
Ég þakka þeim sem entust til að lesa þetta langt, og fyrir athugasemdirnar sem gáfu þessum pistlaskrifum líf.
Ps. pistlana má finna alla á stikunni Vesturfararnir hér til vinstri á síðunni. Þar koma þeir upp í öfugri tímaröð, en hér fyrir neðan í réttri.
1. Uppruni Íslendinga - úlfar og arfleið
2. Kölski og hin launhelga Landnáma
4. Duldar rúnir vestursins og sá heppni
5. Frá Vínlandi til fundar við Vatíkanið
6. Var Snorri Sturluson frímúrari, sem vísaði vestur?
7. Hvað varð um íslensku Grænlendingana?
9. Hvítramannaland, og hin mikla arfleið
Menntun og skóli | Breytt 2.3.2019 kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2019 | 13:08
Fyrirheitna landið
Grænlendingasaga greinir nokkuð nákvæmlega frá áhuga norrænna manna á Ameríku og ferðum þeirra þangað. Góðir landkostir á Vínalandi var eitt helsta umræðuefnið á Grænlandi samkvæmt sögunni.
Árið 1492 segir mankynsagan að Kristófer Columbus hafi uppgötvað Ameríku og upp úr því hefjist landnám fyrstu Evrópu mannanna fyrir vestan haf. Í kjölfarið hefjast einhverjir mestu þjóðflutningar sem um getur á sögulegum tíma. Það er ekki einungis að fólk frá löndum Evrópu flytjist yfir hafið, heldur hefst fljótlega flutningur á nauðugum Afríku búum sem vinnuafli fyrir evrópsku hástéttina í nýnuminni heimsálfu.
Olaf Ohman bóndi af sænskum ættum fann árið 1898 um 100 kílóa stein ristan rúnum þegar hann var að plægja spildu í landi sínu þar sem nú er Douglas County í Minnesota. Þessi steinn hefur fengið nafn eftir fundarstaðnum, Kensington rúnasteinninn. Reist hefur verið yfir hann safn í Alexandria, MN. Steinninn virtist bera þess augljós merki að Evrópumenn hefðu verið á ferð langt inn á meginlandi N-Ameríku 130 árum fyrir komu Columbusar.
Rúnir steinsins hafa verið þýddar eitthvað á þennan veg; 8 Gotar og 22 Norðmenn komnir langt í vestur í könnunarferð frá Vínlandi. Við höfðum búðir á tveim klettóttum eyjum dagleið norður af þessum steini. Vorum við fiskveiðar dag einn, en þegar við komum til baka í búðirnar fundum við 10 félaga okkar dauða og blóði drifna. AVM (Ave Maria) bjargaðu okkur frá því illa. Á hlið steinsins er svo áletrað; 10 félagar okkar gæta skips 14 dagleiðir frá þessum eyjum. Árið 1362.
Fljótlega úrskurðuðu fræðimenn rúnirnar á þessum steini falsaðar og töldu að sænskar ættir Olafs bónda hefðu getað gefið honum innblástur til að falsa upplýsingarnar sem má finna ristar á steininum. Fleiri en ein rún átti að vera gerð af vankunnáttu, þar að auki hafi latneskt letur verið orðið allsráðandi þegar þessar rúnir eiga að hafa verið ristar á Kensington steininn.
Það sem fræðimenn telja þó hafið yfir allan vafa, þegar kemur að sannleiksgildinu, er Vínlandstengingin. Sagnir um ferðir norrænna manna í Ameríku geti þeirra 300 árum fyrr að minnsta kosti og það sé óhugsandi að þeir hafi farið inn á mitt meginland Norður Ameríku.
Scott Wolter fornleifafræðingur og rithöfundur hefur bent á að þau rök standist ekki sem notuð voru upphaflega til sönnunar þess að rúnir steinsins væru falsaðar. Eftir ártuga rannasóknir hefur hann meðal annars bent á að með nútímatækni megi greina merki við rún, sem talin voru vanta.
Einnig hefur Wolter gefið út bókina The Hooked X sem er um rún sem ekki var talin standast samkvæmt rúnastafrófinu sem notað er í áletrun steinsins. Athyglivert er að heyra Scott Wolter lýsa því hvernig hann hefur verið settur út í kuldann í samfélagi fræðimanna fyrir að halda fram að rúnir Kensington steinsins séu réttar og að uppruna hans megi jafnvel rekja til musterisriddara.
Útilokað virðist vera að fá fyrri niðurstöður teknar upp í ljósi nýrra rannsókna. Jafnvel þó það sé nú þekkt að á eyjunni Gotlandi í Eystrasalti var fræðisetur munkareglu sem réði yfir þekkingu á rúnaletri á þessum tíma.
Til eru skjalfestar heimildir um leiðangur sem Magnús IV Smek Svíakonungur kostaði til Grænlands 1355. Hefur sá leiðangur verið nefndur sem möguleiki varðandi tilurð rúnanna á Kensington steininum. Leiðangurinn er talinn hafa verið gerður til að grennslast fyrir um hvað varð af fólkinu í vesturbyggð Grænlands sem þaðan hvarf í kringum árið 1340.
Þessi leiðangur snéri aldrei til baka svo vitað sé, samsetning leiðangursmanna gæti svarað til þess sem fram kemur á steininum. Magnús IV Smek var bæði konungur Svíþjóðar og Noregs um tíma, þ.m.t. Íslands og Grænlands.
Áletrunin á Kensington steininum er sérstök að því leiti að hún getur þess að könnunar leiðangurinn er gerður frá Vínlandi 8 Gotar og 22 Norðmenn komnir langt í vestur í könnunarferð frá Vínlandi. Ætla mætti að áletrun steinsins bæri það með sér að þess lands væri getið sem upphafs lands leiðangurs sem byggt var af Evrópumönnum þessa tíma s.s. Grænlands eða þá Noregs.
Ef um leiðangur Magnúsar IV Smek er að ræða þá má væntanlega gera ráð fyrir því að hann hafi haldið vestur frá Grænlandi til að grennslast frekar fyrir um afdrif fólks í vesturbyggð sem var uppgefin ástæða þegar upphaflega var haldið frá Bergen í Noregi.
Þess má einnig geta að sumir fræðimenn í seinni tíð hafa bent á að í Upernavik á Grænlandi fannst rúnasteinn sem talin er vera frá árinu 1314. Þar var notast við sama rúnastafróf og á Kensington steininum. Um tíma voru rúnir úr því stafrófi notaðar sem rök fyrir fölsun Kensington steinsins. Á Grænlenska steininum stendur "Erlingur Sighvatsson, Bjarni Þórðarson og Indriði Oddson hlóðu þessa vörðu á laugardegi fyrir bænadaga."
Óneitanlega verða orð Gísla Oddsonar Biskups í Skálholti (1634-1638) í bókinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands enn og aftur áhugaverð ef þau eru skoðuð í þessu samhengi. En þar vitnar hann í gömul annálsbrot eitthvað á þá leið að íbúarnir á Grænlandi hafi af frjálsum vilja yfirgefið sanna kristna trú, þar með allar og góða dyggðir, til að sameinast fólkinu í Ameríku. Ekki síður þau orð sem hann lætur falla þegar hann segist hafa rekist á að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin, í sömu annálsbrotum.
Þarna gefur Gísli biskup það sterklega í skin að hin Egipsku myrkur hafi oftar en einu sinni verið á ferð við Ísland. Ef biskup á þarna við musterisriddara líkt á tilgáta Scott Wolters er varðandi uppruna Kensington steinsins, þá gæti svo verið að í eitt skiptið sé það þegar 80 austmanna er getið í Sturlungu og riðu á Þingvöll alskjaldaðir í liði Snorra Sturlusonar árið 1217.
Musterisriddarar hafa þá hugsanlega verið hér á landi í þeim tilgangi að biðja Snorra um að varðveita launhelga arfleið musteris Salómons samkvæmt kenningum ítalska dulmálsfræðingsins Giancarlo Gianazza. Svo gætu hin Egipsku myrkur hafa verið aftur á ferð þegar hin sama arfleið var flutt út frá Íslandi áfram vestur um haf þá hugsanlega með leiðangri Magnúsar IV Smek.
Það er ekki einungis víkingar og Kensington rúnasteinninn sem vekja upp spurningar um ferðir manna úr gamla heiminum til Ameríku áður en hún á að hafa verið uppgötvuð af Kólumbusi. Árið 2010 birti Íslensk Erfðagreining niðurstöður rannsóknar þar sem líklegt þykir að kona úr röðum frumbyggja Ameríku hafi komið til Evrópu fyrir tíma Kristófers Cólumbusar. Hún bjó hér á landi og um 350 íslendingar geta rakið ættir sínar í beinan kvenlegg til hennar. Rannsóknin sýndi að þessi arfgerð hefur verið lengi hér á landi, líklega frá því fyrir árið 1500, eða áður en Kólumbus sigldi til Ameríku.
Skömmu eftir að Ameríka byggðist Evrópumönnum samkvæmt mankynssögunni, eða á árunum milli 1600 1700, fóru landnemar á austurströndinni að verða varir við steinbyggingar sem ekki áttu að fyrirfinnast í menningu innfæddra. Mikið af þessum byggingum eða byrgjum hafa fundist í New England, Main og er í einhverjum tilfellum talið að þær geti hafa verið frá því fyrir Krist.
Sambærilegar byggingar er helst að finna á Orkneyjum og Suðureyjum Skotlands sem eru taldar vera frá heiðinni tíð Kelta. Þekkt er að írski munkurinn St Bernade á að hafa siglt til Ameríku á árunum milli 500-600 e.k.. það er því merkilegt ef að þessara steinbygginga eru aldursgreindar frá því f.k. og tengdar við Kelta. Leitt hefur verið að því líkum að þetta geti átt rætur að rekja allt til hinnar fornu borgar Karþagó en þar er talið að Keltar eigi m.a. uppruna sinn.
Rómverjar eyddu borginni Karþagó árið 146 f.k. eins og frægt er af ummælum Kató úr mankynssögunni. Borgin stóð á norðurströnd Afríku þar sem borgin Túnis er nú. Karþagó menn voru miklir sjófarendur og eru til sagnir um það að þeir hafi flutt sig um set til Andalúsíu á Spáni byggt borgina Cádiz. Síðar hafi þeir siglt enn lengra í vestur og sest að á norð-vestanverðum Bretlandseyjum s.s. á Írlandi, Orkneyjum og Suðureyjum Skotlands.
Samkvæmt þessari kenningu á sjóferðum Karþagómanna ekki að hafa lokið á Bretlandseyjum heldur hafi þeir haldið áfram vestur um haf og þar sé komin skíringin á Keltnesku rústunum á meginlandi Norður Ameríku sem megi aldursgreina frá því fyrir Krist.
Þessi kenning um Karþagóskan uppruna Kelta setja sögu rómarveldis á Bretlandseyjum í allt annað ljós, því eitthvað öflugra en Hannibal var þar sem stöðvaði framrás heimsveldisins í norðanverðu Englandi árið 122 e.k. er rómverjar reistu hinn mikli múr Hadrian wall og kölluðu það sem fyrir norðan var heimsenda. Eins setja þessar kenningar landafundi víkinga í vesturálfu í nýtt samhengi.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.2.2019 | 13:27
Hvað varð um íslensku Grænlendingana?
Það virðast vera mjög fátæklegar heimildir til varðandi það hvað gerðist síðustu búsetu ár norrænna manna á Grænlandi og ekkert sem getur skýrt skyndilegt hvarf fólksins. Fræðimenn hafa viljað meina að kólnandi loftslag, hungur og sjúkdómar hafi með það að gera hvað af fólkinu varð. En það breytir ekki því, að eins og í sumum óleystum morðgátum, þá vantar líkin.
Kenningar hafa verið uppi um að það sama hafi gerst og með Tyrkjaránunum á Íslandi, fólkinu hafi verið rænt og selt á þrælamarkað, eða farið til Azoreyja, Madeira, eða Grænhöfðaeyja, þegar Portúgalar námu þessar eyjar, jafnvel Kanaríeyja. Flest er þetta talið líklegra af fræðimönnum heldur en að fólkið hafi farið stystu leið til Ameríku, enda að halda slíku fram nánast samsæriskenning um opinberu útgáfu mankynssögunnar.
Til eru skráðar heimildir fyrir því að Hákon biskup í Noregi hafi sent Ívar Bárðarson prest til Grænlands árið 1341, en þá hafði ekkert frétts í meira en ár frá Grænlensku byggðunum. Frumheimildirnar eru glataðar en til eru dönsk afrit frá því um 1500 um það hvað blasti við séra Ívari Bárðarsyni og samferðamönnum þegar þeir koma til vesturbyggðar.
Þegar Ívar og fylgdarlið kom í byggðina finnur hann ekkert fólk aðeins búsmala í haga, nautgripi og sauðfé. Þeir slátruðu eins miklu af búsmalanum og skipin gátu borið,fluttu það svo með til austurbyggðar Grænlands en þar virtist allt með eðlilegum hætti. Hvað varð af fólkinu í vesturbyggð eru engar heimildir til um, en þess má geta að sjóleiðin milli austur og vesturbyggðar er um 375 mílur eða um ¾ leiðarinnar á milli Grænlands og Nýfundnalands.
Þegar séra Ívar Bárðarson var aftur kominn til Bergen árið 1344, úr Grænlandsleiðangri sínum, fer hann af einhverjum ástæðum fram á það við Clemens VI páfa, í gegnum biskupstofu í Bergen að biskupsembættið á Grænlandi verði flutt til Noregs en Grænland hafði eigin biskup til ársins 1349. Líklegt verður að teljast að í leiðinni hafi Ívar upplýst um stöðu mála á Grænlandi á æðstu stöðum.
Árið 1355 sendir Magnús IV (Smek) Svía konungur, en hann var jafnframt konungur yfir Noregi, Íslandi og Grænlandi um tíma, leiðangur til Grænlands til að kanna stöðu mála. Af þeim heimildum sem til eru um ástæður þessa leiðangurs má ráða að ógn hafi steðjað að kristna samfélaginu á Grænlandi. Þess er skemmst að geta að leiðangur Magnúsar IV Smek snéri ekki aftur og eru á huldu hvað um hann varð, þó eru til óstaðfestar sagnir um að 3 eða 4 menn hafi komið fram í Noregi árið 1364.
Frá þessum árum eru til heimildir af köldum árum þar sem ís fyllti hafnir á norðanverðu Íslandi. Eins er til frásögn af því úr glataðri bók frá þessum tíma að einhvertíma á árunum fyrir 1350 hafi ...næstum 4000 manns haldið út á frosið haf og aldrei snúið aftur. Leiddar eru að því líkur að þetta frosna haf hafi verið vestan við Grænland og eru annálaskrif Íslenskra biskupa nefnd þeim til stuðnings, þar á meðal þeir annálar sem Gísli Oddson á að hafa haft aðgang að og lagt út frá árið 1638 þegar hann skrifar bókina Íslensk annálsbrot og undur Íslands.
Hvort þetta kuldakast hafi verið skýringin á hvarfi Grænlendinga úr vesturbyggð, og ástæða leiðangurs Magnúsar IV Svíakonungs er ekki gott að segja, en einhverjar heimildir nefna þó að séra Ívar Bárðarson hafi komið við sögu í aðdraganda leiðangursins. Enda þarf það ekki að koma á óvart að forvitni hafi leikið á því á æðstu stöðum að vita hvað varða um allt samfélagið eins og það lagði sig í vesturbyggð Grænlands, sem hvarf án þess að svo mikið sem að nokkuð væri um það vitað í austurbyggð.
Við þennan leiðangur hafa síðan grúskarar og utangarðs fræðimenn jafnframt viljað tengja Kensington rúnasteininum sem fannst í Minnesota árið 1898. En á hann er ristar rúnir um ferðir 8 Gota (Svía) og 22 Norðmanna um Minnesota árið 1362. Þá hefur verið bent á að þessi leiðangur hafi verið talin það mikilvægur, að sá sem fyrir honum fór fékk að velja í hann einvala lið úr lífverði konungs, þá menn sem handgengnastir voru Magnúsi IV og höfðu svarið honum eið.
Það sama gerðist svo í austurbyggð 100-150 árum seinna, fólkið hvarf sporlaust. Síðustu skráðu heimildir úr austurbyggð eru frá árinu 1408 af brúðkaupi íslendinganna Sigríðar Björnsdóttur og Þorsteins Ólafssonar í Hvaleyjar kirkju. Eins mun einhverstaðar vera til lýsing Þorsteins á því þegar maður að nafni Kolgrímur var brenndur á báli fyrir galdur þann tíma sem þau dvelja á Grænlandi.
Íslensk annálaskrif frá síðustu árhundruðum búsetu norrænna manna á Grænlandi bera það með sér að ef fréttnæmt þótti að íslendingar heimsóttu þessa fyrrum landa sína í vestri, hafi það verið vegna hafvillu eða sjóhrakninga. Sumarið 1406 fer skip með íslendinga til Grænlands sem sagt er að hafi hrakist þangað á leiðinni milli Noregs og Íslands. Um borð er nokkur fjöldi fólks bæði konur og karlar. Þetta fólk dvaldi á Grænlandi í fimm ár og eru skráðar heimildir þessu viðvíkjandi þær síðustu um byggð norrænna manna á Grænlandi.
Sumt af þessu fólki kom ekki aftur til Íslands fyrr en árið 1413, því frá Grænlandi sigldi það ekki til Íslands heldur Noregs. Enda var strangt viðskiptabann í gildi, að tilskipan Noregskonungs á milli Íslands og Grænlands. Þar sem þetta fólk hafði verið svo lengi í burtu þá var það talið af á Íslandi og komu því upp ýmis mál þegar það birtist aftur s.s. varðandi hjúskaparstöðu ofl. sem greiða þurfti úr lagalega.
Það virðist vera að Grænlandsferðir Íslendinga hafi einungis ratað í heimildir þegar þær vörðuðu við lög. Þó er ferðasaga þeirra Björns Jórsalafara og Sólveigar konu hans undantekning. Hún var rituð löngu eftir Grænlandsferð þeirra og er glötuð. En engu að síður virðist vera til talsvert um það ferðalag, sem helgast m.a. af gríðarlegum hagnaði þeirra hjóna af "hrakningunum", sem einna helst á sér samsvörun í ferð annarra íslenskra hjóna vestur um haf rúmum 200 árum fyrr.
Grænlandsför þeirra Björn Einarssonar Jórsalafara og Sólveigar Þorsteinsdóttur er um margt sláandi lík Grænlandsför þeirra Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Bæði þessi hjón hagnast gríðarlega á ferðinni, sá er þó munur á að Björn Jórsalafari og Sólveig er sögð hafa hrakist til Grænlands. En Grænlendingasaga segir af ásetningi Karlsefnis og Guðríðar að komast alla leið til Vínlands og af því hvað þau efnuðust á þeirri ferð.
Þess verður að geta að verslun við Grænlendinga var ólögleg án leyfis konungs á tímum Björns og Sólveigar. Árið 1385 sigldu þau frá Noregi samskipa fleirum en hröktust til Grænlands og voru teppt þar í tvö ár en komu þá til Íslands. Þau efnast gríðarlega í ferðinni því þegar heim kemur kaupir Björn Vatnsfjörð fyrir 150 kýrverð, sem var fimmfalt nafnverð.
Það sem undarlegra er að hann arfleiðir seljanda Vatnsfjarðar að jörðinni komi hann og Sólveig ekki heim úr Noregsferð og suðurgöngu til Rómar. Þau sigla síðan til Noregs 1388 til að standa fyrir máli sínu varðandi "ólöglegu Grænlandsdvölina" og höfðu meðferðis vitnisburði um tildrög þeirra hrakninga og viðskipti sín við heimamenn.
Björn var dæmdur sýkn saka í Björgvin 20. maí 1389. Síðan fór hann í suðurgöngu til Rómar rétt eins og Guðríður Þorbjarnardóttir rúmum 200 árum fyrr. Björn og Sólveig komu til Íslands aftur 1391 og eru á sinni tíð einhver valdamestu og víðförulustu hjón landsins. Jórsalanafnbótina fékk Björn síðar vegna heimsóknar sinnar til Jerúsalem.
Hvað varð af byggð norænna manna á Grænlandi er ekki vitað. Byggðin er talin hafa verið við gott gengi um 1410 samkvæmt rituðum heimildum um brúðkaup íslendinganna Sigríðar og Þorsteins, sem þar fór fram 1408. Vitað er að þau og samferðafólkið yfirgefa Grænland 1410, ekkert hefur spurst til fólksins á Grænlandi síðan.
Á huga.is var farið yfir hugsanleg örlög norrænar byggðar á Grænlandi í samnefndri ritgerð. Þar eru helstu getgátum fræðimanna í gegnum tíðina um örlög Grænlendinga af norrænum uppruna gerð skil. Það sem merkilegast er við þær getgátur er að nánast engin þeirra gerir ráð fyrir að fólkið, sem þaðan hvarf sporlaust, hafi farið til Vínlands þrátt fyrir að landkostir fyrirheitna landsins hafi verið eitt helst umræðuefnið á Grænlandi samkvæmt Grænlendingasögu.
Vilhjálmur Stefánsson mannfræðingur og landkönnuður kemst næst því að geta sér þess til að fólkið hafi farið til Vínlands, en hans kenning er á þann veg að Grænlenska fólkið hafi blandast eskimóum í langt norður í Kanada. Þær kenningar eru nú taldar hafa verið afsannaðar með genarannsóknum nútímans. Lokaniðurstaða ritgerðar höfundarins á huga.is gerir ráð fyrir að norræna samfélagið á Grænlandi hafi flutts suður um höf jafnvel fyrst til eyjarinnar Madeira út af Portúgal en hafi að lokum dagað uppi á Kanaríeyjum.
Menntun og skóli | Breytt 16.2.2019 kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.2.2019 | 13:22
Var Snorri Sturluson frímúrari, sem vísaði vestur?
Um það bil 20 árum eftir að Evrópskir krossfarar höfðu frelsað hina helgu borg Jerúsalem undan yfirráðum múslima árið 1118, er stofnuð regla musterisriddara sem sögð er hafa haft aðsetur þar sem musteri Salómons stóð. Regla þessi auðgaðist gríðarlega af áheitum og landareignum víða á vesturlöndum. Í Frakklandi einu er hún talin hafi átt um 10.000 herragarða. Leynd hvíldi yfir reglunni og þeim fornu fræðum sem hún á að hafa haft aðgang að úr musteri Salómons, sem sum hver voru talin komin úr Egipsku píramídunum. Öfund gerði vart við sig í garð reglunnar vegna ríkidæmis hennar og þegar múslímar náðu Jerúsalem aftur á sitt vald árið 1291 fór að halla verulega undan fæti fyrir musterisriddurum.
Páfinn í Róm og Filippus Frakkakonungur blésu til ofsókna gegn Musterisriddurunum. Voru reglubræður þá um 20.000 talsins, ákærðir fyrir hvers konar sakir, upplognar sem aðrar. Árið 1307 voru reglubræður í Frakklandi handteknir í stórum hópum. Eftir sýndarréttarhöld og pyntingar voru þeir brenndir á báli í þúsunda tali um alla Evrópu fyrir galdur og önnur forn fræði. Árið 1312 bannaði páfinn reglu musterisriddara og leið hún undir lok að talið var, því er þó haldið fram að að hópur musterisriddara hafi sloppið undan ofsóknunum á meginlandi Evrópu yfir til Skotlands. Hin skoska regla musterisriddara varð síðan forveri seinni tíma frímúrarareglna og var sett á laggirnar í Skotlandi undir verndarvæng Robert Bruce konungs Skotlands árið 1314. Árið 1319 veitir nýr páfi, Jóhannes XXII, reglunni aftur tilverurétt þá undir nafninu Riddarar Jesú Krists.
Ítalski verkfræðingurinn og dulmálssérfræðingurinn Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur musterisriddara hafi komið til Íslands árið 1217 með leyndar helgar frá Jerúsalem. Telur Gianazza sig hafa lesið þetta út úr dulmálskóda sem megi finna í hinum Guðdómlega gleðileik eftir Dante. Þórarinn Þórarinsson arkitekt hefur unnið með Giancarlo Gianazza við að fylla uppí myndina með vísbendingum sem felast í Sturlungu. Þórarinn telur komna fram raunverulega skýringu á pólitískum átökum í kringum Snorra Sturluson á þrettándu öld. Hverjir voru hinir áttatíu austmenn, alskjaldaðir" sem voru í fylgd með Snorra á Þingvöllum? Þórarinn og Giancarlo telja að þetta kunni að hafa verið musterisriddarar sem töldu tryggast að koma dýrgripum frá landinu helga í örugga geymslu vegna trúarlegra og pólitískra átaka í Evrópu.
Í grein um fræði Gianazza sem birtist í Leyndarmálum sögunnar (Historic Mysteries) 10. febrúar 2011 er greint frá að Gianazza hafi rannsakað þetta undarlega mál frá því 2004. Þar segir m.a.;
It seems incredible that Iceland would be a part of what some call the greatest literary work of all time. Gianazza avers that it is not so far-fetched. Apparently a group of the Knights Templar, a monastic military order of the Middle Ages long associated with discovering holy relics, visited Iceland. In the official historic records of Iceland it is stated that in 1217, during the meeting of the Althing the Parliament established in 930 the leader and poet Snorri Sturlusson appears next to what the text defines as 80 knights from the south, all dressed and armed in the same fashion and is elected as commander for that year. Gianazza is convinced that the Knights travelled to Iceland and backed the election of Sturlusson in exchange for his support in the building of a secret chamber to be filled over the years with sacred books and objects from the Temple of Jerusalem. After the eradication of the Knights Templar in 1307, Gianazza believes a secret elite of the Knights remained and that Dante belonged to this elite. Dante, therefore, would have been privy to the knowledge of the Knights and the whereabouts of the secret chamber. Consequently, he would have coded this knowledge into the Comedy.
Þó það kunni að vera langsótt að halda því fram að Snorri Sturluson hafi verið forveri frímúrara, þó svo þessar tilgátur Ítalans Gianazza væru sannar, þá er eftir sem áður hér um athygliverða tilgátu að ræða. Þetta verður sérlega áhugavert þegar ævi Snorra er skoðuð í þessu ljósi og höfð til hliðsjónar kenning Jochums M Eggertssonar í Brisingameni Freyju frá 1948 þar sem hann leggur m.a. út frá orðum Gísla Oddsonar biskups í Skálholti (1634-1638) í bókinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands, um; -að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin. skrifar biskup.
Snorra Sturlusonar er einkum minnst fyrir íslendingasögurnar og hið mikla ritverk Heimskringlu, sem hefur að geyma sögu Noregskonunga auk þeirra heimilda um norræna goðafræði sem í verkum hans felast. Vegna þessarar arfleiðar mætti ætla að Snorri hafi verið mikill fræðimaður og grúskari. En sannleikurinn er sá að hann var umfarm allt annað íslenskur höfðingi á umbrotatímum sem hæpið er að ímynda sér að hafi haft tíma til að sinna grúski og ritstörfum. Á ævi Snorra logar Ísland í borgarastyrjöld sem endar með því að landið kemst undir Noregskonung. Helstu persónur og leikendur í þeirri styrjöld voru Noregs konungur ásamt biskupnum í Niðarósi, sem íslenska kirkjan heyrði undir, auk íslenskar höfðingjaætta á við Sturlunga ætt Snorra. Enda gengur tímabilið undir heitinu Sturlungaöld í Íslandssögunni.
Auðsöfnun og valdagræðgi var áberandi á meðal íslenskra höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Tilgáta Giancarlo Gianazza er sérstaklega áhugaveð í þessu ljósi. Eins kenning Jocums M Eggertssonar um að Snorri hafi ekki skrifað þær bókmenntir sem við hann eru kenndar heldur hafi þær verið skrifaðar mun fyrr, en Snorri hafi komist yfir þau handrit og látið endurrita þau þannig að þau varðveitast. Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Noregskonungur fer þess á leit við Snorra Sturluson að hann komi Íslandi undir norsku krúnuna og hann gerist lénsmaður konungs. Þarna hefur konungur því talið sig vera að gera samning við einn valdamesta mann landsins, en Snorri gerði lítið til þess að koma landinu undir Noreg og var drepinn árið 1241 af Gissuri Þorvaldsyni að undirlagi konungs.
Það er ævintýralega langsótt að setja frama Snorra Sturlusonar í stjórnmálum Íslands í samhengi við Musterisriddara en því verður samt ekki á móti mælt að eftir heimsókn 80 austmanna sem mæta með alvæpni á Þingvelli með Snorra 1217 hefst frami Snorra, sem var sonur Hvamm Sturlu Sighvatssonar sem talin er hafa verið nýlega tilkominn höfðingi af bænda ætt en ekki goða. Eins verður ævi Snorra sem rithöfundar allt önnur í þessu ljósi því auðséð er á þeim bókmenntaverkum, sem við hann eru kennd, að þar var um víðtækar heimildir að ræða sem ná árhundruð ef ekki árþúsund aftur í tímann frá hans æviárum.
Það mætti jafnvel gera að því skóna að Snorra hafi verið færð tímabundið til varðveislu sú saga heimsins sem var valdastofnunum þess tíma ekki þóknanleg. Hann hafi svo afritað úr því efni það sem samræmdist Íslendingasögunum s.s. um vöggu Ásatrúarinnar við Svartahaf en ekki getað stillt sig um að stelast í Völsungasögu í leiðinni. Ef haldið er áfram með þessar vangaveltur um musterisriddaratengsl Snorra er ekki ólíklegt að þessi saga heimsins hafi verið flutt vestur um haf vegna þess að íslendingar bjuggu yfir vitneskju um þá miklu heimsálfu á þessum tíma.
Margar dularfullar getgátur um frímúrara tengjast Newport tower á Rhode Island. Turninn hefur glettilega líkt byggingarlag og t.d. Garðakirkju á Grænlandi og hin dularfulla Magnúsarkirkja í Kirkjubæ á Færeyjum. Margir vilja meina að einhverskonar gral sem musterisriddarar eiga að hafa flutt vestur um haf tengist Newport turninum. Það að þetta gral gæti verið fræði úr musteri Salomons sem náðu allt til Egipsku píramídana rímar ágætlega við frímúrara. Til eru sagnir í fræðum þeirra sem segja frá komu Portúgala á Rhode Island skömmu eftir Columbus þar eiga þeir að hafa hitt fyrir innfæddan mann af norrænum uppruna sem bar nafnið Magnús og gerðist þeirra leiðsögumaður.
Það er því spurning hvort Musterisriddarar hafi valið Snorra til að geima tímabundið þær launhelgar sem fluttar voru úr musteri Salomons vegna þeirra miklu bókmenntaverka sem hann varðveitti þá þegar og við hann eru kennd. En samkvæmt kenningu Jochums sem finna má í Brisingarmeni Freyju komu verk Snorra úr Krýsuvík, mörghundruð árum fyrir fæðingu Snorra. Fræðasetrið í Krýsuvík á svo að hafa átt rætur sínar að rekja til eyjarinnar Iona á Suðureyjum Skotlands, nánar tiltekið klausturs St. Columbe, og verið flutt til Íslands löngu fyrir landnám eða um árið 700.
Allavega virðist Snorri hafa haft tengingar til Skotlands ef marka má Sturlungu. Þann 29. september 2013 má finna í Akureyrarblaðinu áhugaverða grein um kenningar Giancarlo Gianazza, þar segir m.a.;
Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði. (Sturlunga saga, 1988:253-254). Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
1.2.2019 | 13:25
Frá Vínlandi til fundar við Vadíkanið
Guðríður Þorbjarnardóttir er án efa víðförulasta kona íslendingasagnanna. Hún yfirgaf Ísland ung að árum ásamt Þóri austmann manni sínum og siglir til Grænlands. Grænlendingasaga segir að Leifur heppni hafi bjargað hópi manna af skeri þegar hann kom úr Vínlandsferð. Þar á meðal Guðríði og Þóri, og tekið þau með heim í Bröttuhlíð austurbyggðar Grænlands, þar sem Þórir veiktist og deyr. Vegna þessarar björgunar fær Leifur Eiríksson viðurnefnið heppni. Guðríður giftist svo Þorsteini Eiríkssyni, bróður Leifs. Þorsteinn deyr úr sótt í Lýsufirði í vesturbyggð á Grænlandi, eftir sumarlanga villu þeirra hjóna í hafi og misheppnaðan leiðangur til Vínlands.
Þriðji maður Guðríðar var svo Þorfinnur karlsefni Þórðarson úr Skagafirði. Þau Guðríður sigldu til Vínlands með vel á annað hundrað manns að talið er, í þeim tilgangi að hefja þar búskap. Þau könnuðu landið og og eru talin hafa farið mun sunnar en víkingar höfðu gert áður, eða allt suður til Long Island og eyjuna Manhattan í Hudson fljóti er talið að þau hafi nefnt Hóp. Guðríður og Þorfinnur voru nokkur ár í Ameríku. Áttu blómleg viðskipti við innfædda og eignuðust þar soninn Snorra. Þau fóru þaðan aftur til Grænlands og síðan fljótlega til Noregs. Þar voru þau í einn vetur en héldu þá til Íslands og setjast að í Glaumbæ í Skagafirði.
Sonurinn Snorri bjó í Glaumbæ eftir föður sinn. Þegar Guðríður er orðin ekkja fór hún í það sem sagan kallar suðurganga til Rómar þar sem hún hefur að öllu líkindum heimsótt Vatíkanið. Þegar hún kemur aftur til Íslands hafði Snorri sonur hennar byggt fyrstu kirkjuna sem reist var í Glaumbæ. Grænlendinga saga segir að Guðríður hafi verið síðustu æviárin einsetukona og nunna í Glaumbæ. Afkomendur Guðríðar og Þorfinns karlsefnis hlutu mikinn frama innan kirkjunnar og út af þeim eru komnir margir biskupar íslandssögunnar.
Hvað Guðríði og valdamönnum Vatíkansins fór á milli er vandi um að spá því ekkert er um það getið í Grænlendingasögu sem sennilegast er afrit eldri heimilda og engin leið að segja hvað úr henni hefur glatast. Árið 1999 kom út bókin "Ingen grenser" (No Boundaries) eftir þá Thor Heyerdahl og Per Lilleström. Við útkomu þeirrar bókar greindi Thor Heyerdahl frá því að hann hefði undir höndum gögn sem sanni að víkingar hafi komið til Ameríku. Annars vegar gögn frá 1070, sem hann fann í skjalasafni Vatíkansins, þar sem getið er um landafundi Íslendinga í Ameríku, hálfri annarri öld áður en Grænlendingasaga og Eiríks saga rauða eiga að hafa verið skrifaðar. Hins vegar afrit af portúgölskum gögnum sem sýna fram á að Kólumbus hefði haft upplýsingar um Ameríku frá norrænum mönnum.
Í samtali við Aftenposten í tilefni útkomu bókarinnar í Noregi 1999, greinir Thor Heyerdahl einnig frá þeirri skoðun sinni, að siðaskiptunum megi að mörgu leyti kenna um hve saga norrænna manna sé snautleg. Með upptöku Lútersks siðar hafi Norðurlönd fallið í ónáð hjá páfastól og um leið verið dregið úr vægi þeirra í mannkynssögunni. Ýmsar heimildir séu þó varðveittar í skjalasafni Vatíkansins og einnig séu til mikið af arabískum heimildum um norrænar miðaldir. "Þar hef ég skoðað mikið af heimildum sem flestum er ókunnugt um" sagði hann.
Í New York Times 19. desember árið 2000 birtist grein eftir Walter Gibbs um bók þeirra Heyerdahls og Lilleström. Auk þess að gera vitneskju kaþólsku kirkjunnar skil, um tilveru Ameríku 500 árum áður en mankynssagan segir að Kólumbus hafi fyrstur Evrópumanna uppgötvað hana, þá er farið vítt yfir sviðið varðandi ferðir norrænna manna hundruðum ára fyrir Kolumbus. Meðal annars er minnst á Vínlandskortið, eins kemur greinarhöfundur inn á Kensington rúnasteininn sem fannst í Minnesota árið 1898 en á þeim steini er greint frá ferðum norrænna manna árið 1362 langt inn á meginlandi Norður Ameríku.
Niðurlag greinar Walter Gibbs er þó athyglisverðasti hluti hennar, en þar kemur hann inn á annáls brot þau sem vekja undrun Gísla Oddsonar biskups í Skálholti á árunum 1632-1638, þau sömu og Jochum Eggertsson leggur út frá í 5. kafla ritgerðasafns síns Brisingamen Freyju,sem getið er um hér á síðunni af öðrum ásæðum. En í grein New York Times stendur þetta;
The clearest suggestion that something transformative had taken place in North America came from the hand of a 17th century Icelandic bishop. Citing 14th century annals that have been lost, the bishop, Gisli Oddsson, wrote: The inhabitants of Greenland, of their own free will, abandoned the true faith and the Christian religion, having already forsaken all good ways and true virtues, and joined themselves with the folk of America.
Orð Gísla Oddsonar er sérdeilis áhuga verð en þau má skilja eitthvað á þessa leið; Íbúarnir á Grænlandi, af frjálsum vilja, yfirgáfu sanna kristna trú, þar með allar sannar og góða dyggðir, og sameinuðust fólkinu í Ameríku. Nú liggur bók Gísla Oddsonar frá 1638 Íslensk annálsbrot og undur Íslands ekki á lausu og kostar um 70-80.0000 hjá söfnurum, þess vegna erfitt að sannreyna hve nákvæmlega þetta er eftir haft í New York times. En þarna virðist Gísli tala um Ameríku en ekki Vínland enda næstum 150 ár frá því Kólumbus fann hana þegar Gísli skrifar þetta. Reyndar eru til meira en getgátur í fleiri íslenskum handritum en Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða, þess efnis að fólk frá Íslandi hafi sett sig niður í Ameríku löngu fyrir annálagrúsk Gísla Oddsonar biskups.
Hermann Pálsson prófessor í norrænum fræðum við Edinborgarháskóla bennti á að; "Samkvæmt Eyrbyggju var Guðleifur Þorfinnsson farmaður úr Straumfirði á siglingu frá Dyflinni til Íslands, þegar hann hrakti vestur um haf; þá bar hann að landi sem minnir mjög á Vínland; þar töluðu menn írsku og helsti leiðtogi þeirra var aldraður Íslendingur, grár fyrir hærum, sem neitaði tvívegis að segja til nafns síns, en með því að hann kvaðst vera betri vinur húsfreyjunnar á Fróðá en goðans á Helgafelli, þykjast allir vita að maðurinn hljóti að hafa verið Björn Breiðvíkingakappi. Frá hinu ókunna landi í vestri siglir Guðleifur austur um haf til Írlands, á þar vetrardvöl og heldur síðan heim til Íslands sumarið eftir; hið vestræna land er tengt Írlandi á ýmsa lund. Hrakningar Guðleifs eiga að hafa gerst skömmu fyrir 1030.
Í Landnámu segir frá Ara Mássyni á Reykhólum, sem var farmaður rétt eins og Guðleifur úr Straumfirði, Leifur heppni og Þorfinnur karlsefni en ílentist í ókunnu landi eins og Björn Breiðvíkingakappi. Frásögnin af Ara er í sneggsta lagi: "Hann varð sæhafi til Hvítramannalands; það kalla sumir Írland hið mikla; það liggur vestur í haf nær Vínlandi hinu góða; það er kallað sex dægra sigling vestur frá Írlandi. Þaðan náði Ari eigi á brutt að fara og var þar skírður. Þessa sögu sagði fyrst Hrafn Hlymreksfari, er lengi hafði verið í Hlymreki á Írlandi. Svo kvað Þorkell Gellisson segja íslenska menn, þá er heyrt höfðu frá segja Þorfinn jarl í Orkneyjum, að Ari hefði kenndur verið á Hvítramannalandi og náði eigi brutt að fara, en var þar vel virður. Ari átti Þorgerði dóttur Álfs úr Dölum; þeirra son var Þorgils og Guðleifur og Illugi; það er Reyknesingaætt.""
Hvaða fólk í Ameríku Gísli á við er auðvitað ráðgáta. Á hann við frumbyggja eða voru það norrænir landnemar Ameríku sem Grænlendingar sameinuðust? Gæti verið að það undanhald sem frelsiselskandi menn voru á þegar Ísland byggðist, hafi haldið áfram vestur yfir haf og byggð Evrópumanna hafi verið til staðar í Ameríku? Alla vega virðast orð Gísla biskups bera merki þess að hann sé hneykslaður ákvörðun kristins samfélags á Grænlandi, þegar hann rekst á þessi gömlu annálsbrot. Þarna gæti því verið skýring á hve snögglega byggð norrænna manna á Grænland hvarf og ekki er ólíklegt ef djúpt væri kafað í skjalsöfn Vatíkansins að þar mætti finna frekari vitneskju um það hvað varð um afkomendur Íslendinga á Grænlandi. Á Grænlandi hafði kaþólska kirkjan gríðarleg ítök, og hefur kostað miklu til af rústum dómkirkjunnar í Görðum að dæma.
Menntun og skóli | Breytt 2.2.2019 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2019 | 13:23
Duldar rúnir vestursins og sá heppni
Mankynssagan gerir að því skóna að ekki hafi komist skikk á óöld miðalda fyrr en blessun kirkjunnar nær yfirhöndinni með banni almennra manndrápa á sunnudögum og með upptöku galdrabrenna í Evrópu til að eyða forneskju heiðninnar. En athygliverðara er þó það sem hin opinbera saga greinir ekki frá um þetta tímabil, s.s. vitneskjunni um stóra heimsálfu í vestri 500 árum áður en hennar er getið í heimssögunni. Eins og margir erlendir fræðimenn vita nú orðið þá var það þekkt á Íslandi og til væru skráðar heimildir um Ameríku þó ekki þyki rétt að geta þess í opinberum sögubókum að þangað hefðu siglt norrænt fólk í kjölfar annarra Evrópubúa nema þá sem hugsanlegs möguleika nú á allra síðustu árum.
Samkvæmt íslendingasögunum er Leifur heppni Eiríksson (980 1020) sagður hafa komið til Ameríku. Talið er að Leifur hafi fæðst um árið 980 á Íslandi, sonur Eiríks rauða Þorvaldssonar og Þjóðhildar konu hans. Hann flutti ungur með foreldrum sínum til Grænlands, ásamt bræðrum sínum, Þorvaldi og Þorsteini. Í Grænlendinga sögu segir frá því að Leifur kaupir skip Bjarna Herjúfssonar sem hafði áður villst til Norður-Ameríku, en steig ekki á land.
Grænlendingasaga hefst á þessum orðum; "Herjúlfur var Bárðarson Herjúlfssonar. Hann var frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjúlfi gaf Ingólfur land á milli Vogs og Reykjaness. Herjúlfur bjó fyrst á Drepstokki. Þorgerður hét kona hans en Bjarni son þeirra og var hinn efnilegasti maður. Hann fýstist utan þegar á unga aldri. Varð honum gott bæði til fjár og mannvirðingar og var sinn vetur hvort, utan lands eða með föður sínum. Brátt átti Bjarni skip í förum. Og hinn síðasta vetur er hann var í Noregi þá brá Herjúlfur til Grænlandsferðar með Eiríki og brá búi sínu. Með Herjúlfi var á skipi suðureyskur maður, kristinn, sá er orti Hafgerðingadrápu. Þar er þetta stef í:
Mínar bið eg að munka reyni
meinalausan farar beina,
heiðis haldi hárrar foldar
hallar drottinn yfir mér stalli."
Eins og svo oft tengjast hér fornsögurnar frá Íslandi Suðureyjum Skotlands og auðvelt er að ímynda sér að hinn kristni suðureyski maður hafi verið munkur með rætur frá því fyrir landnám. Jafnvel átt rætur að rekja til eyjarinnar Iona á Suðureyjum þar sem klaustur Kólumkilla (St Columbe) var staðsett öldum fyrr með öllum sínum vísdómi og þá vitneskjunni um ferðir St Bernaden vestur um haf. En St Bernadan er sagður hafa farið allt norður til Svalbarða, Grænlands og vestur til Ameríku á 5.öld.
Auk þessara Suðureyja tengsla segir Eiríkssaga rauða frá því þegar Leifur Eiríksson fer frá Grænlandi til Suðureyja Skotlands á leið sinni til Noregs og dvelst þar sumarlangt. Þar kynnist hann stórættaðri konu sem hét Þórgunnur, þegar Leifur yfirgefur Suðureyjar vill Þórgunnur fara með Leifi því hún bar hans barn undir belti. Leifur tekur það ekki í mál, en sagt er að síðar hafi þessi sonur Leifs komið til Grænlands þar sem Leifur gekkst við faðerninu.
Í Noregi fær Leifur svo skoskan mann og konu að gjöf frá Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi, en Ólafur hafði dvalist á vestanverðum Bretlandseyjum áður en hann hlaut konungstign í Noregi. Konungur á að hafa beðið Leif um að kristna Grænland. Engum sögum fer af kristniboði Leifs á Grænlandi, en þetta skoska fólk fengu þeir Leifur og Eiríkur rauði síðar til að fylgja Þorfinni Karlsefni er hann fór til Vínlands og virðist það þar hafa verið kunnugt samkvæmt sögunni. Við lestur Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða virðast þau torskilin þessi keltnesku tengsl, og að sumt af þessu fólk skuli yfir höfuð vera nefnt til sögunar. Nema þá að eitthvað sem upphaflega var skrifað hafi úr sögunum glatast.
Um árið 1000 sigldi Leifur heppni, sonur Eiríks rauða í Brattahlíð, frá Grænlandi til Ameríku og kom fyrst að Hellulandi (Baffinsland). Hann sigldi því næst suður og kemur þá að hinu skógi vaxna Marklandi (Labrador). Að lokum er talið að hann hafi komið til Nýfundnalands og hafi nefnt það Vínland eftir að fundið þar vínber, þó líklegra sé að hann hafi verið sunnar ef finna átti vínber. Grænlendinga saga greinir svo frá; Þar var svo góður landskostur, að því er þeim sýndist, að þar mundi engi fénaður fóður þurfa á vetrum. Þar komu engi frost á vetrum og lítt rénuðu þar grös. Meira var þar jafndægri en á Grænlandi eða Íslandi. Sól hafði þar eyktarstað og dagmálastað um skammdegi. Þar var gras því grænt árið um kring. Á Vínlandi byggðu Leifur og fylgismenn hans nokkur hús til vetursetu við á sem var full af laxi.
Hermann Pálsson prófessor í norrænum fræðum við Edinborgarháskóla taldi nafn Vínlands eldra en Íslands byggð og sagði að hvergi í sögunum væri minnst á það að Vínlandsfarar hefðu gert sér vín af vínberjum Vínlands. En ef Vínland drægi heiti sitt af víni fremur en vínberjum eða vínviði, yrði að leita þeirrar vitneskju utan íslenskra fornrita. Þótt af Grænlendinga sögu telji menn hiklaust að Vínland sé kennt við vínber og vínvið taldi hann þá skýringu ærið grunsamlega. Hann sagði íslendinga hafa búið yfir vitneskju um Vínland óháðar Grænlendinga- og Eiríkssögu. Þær tengdust Írlandi hinu mikla sem hefði verið skammt frá Vínlandi hinu góða.
Grænlendingasaga ber þess glögg merki að landnám norrænna manna hélt áfram vestur um höf eftir að Ísland var byggt. Þar eru þekktust nöfn Eiríks rauða sem gaf Grænlandi nafn og Leifs heppna sonar hans sem sigldi til Ameríku. Grænlendingasaga greinir nokkuð nákvæmlega frá áhuga norrænna manna á Ameríku og ferðum þeirra þangað. Góðir landkostir á Vínalandi hefur verið eitt helsta umræðuefnið á Grænlandi samkvæmt sögunni. Gerðir eru nokkrir leiðangrar til Vínlands með fjölmennu föruneyti og konur þar með í för því til stendur að nýta landkosti nýja landsins með framtíðar búsetu, t.d. fara tvö systkini Leifs til Ameríku fyrst Þorvaldur sem lætur þar lífið og síðar Freydís en hennar Vínlandsferð var blóði drifin.
Grænlendingasaga segir einnig frá Guðríði Þorbjarnardóttur sem var þrígift, fyrst Þóri austmann, hennar annar eiginmaður var svo Þorsteinn Eiríksson bróðir Leifs heppna. Þorsteinn og Guðríður hyggjast fara til Vínlands en villast sumarlangt í hafi og koma loks að landi í Lýsufirði í vestaribyggð á Grænlandi og hafa þar vetursetu hjá nafna Þorsteins og konu hans. Þann vetur andast Þorsteinn og einnig húsfreyja nafna hans, sá Þorsteinn heitir Guðríði því að koma henni til vesturbyggðar í Eiríksfjörð til Leifs mágs síns.
Það er eftirtektarvert hvernig Grænlendingasaga getur þess að siðaskipti séu að komast á í Grænlandi, þegar Þorsteinn og Guðríður koma að landi í Lýsufjirði, en sagan segir svo frá kynnum þeirra nafna; "Þorsteinn heiti eg og er eg kallaður Þorsteinn svartur. En það er erindi mitt hingað að eg vil bjóða ykkur báðum hjónum til vistar til mín. "Þorsteinn kveðst vilja hafa umræði konu sinnar en hún bað hann ráða og nú játar hann þessu."Þá mun eg koma eftir ykkur á morgun með eyki því að mig skortir ekki til að veita ykkur vist en fásinni er mikið með mér að vera því að tvö erum við þar hjón því að eg er einþykkur mjög. Annan sið hefi eg og en þér hafið og ætla eg þann þó betra er þér hafið." Ekki er það síður athyglisvert hvernig Þorsteinn Eiríksson er sagður nánast rísa upp eftir andlát sitt og segja Guðríði fyrir um framtíð sína.
Þegar Guðríður er komin aftur í vesturbyggð undir verndarvæng Leifs mágs síns giftist hún í þriðja sinn og þá Þorfinni karlsefni. Þau halda svo til Vínlands ásamt miklu föruneyti og hefja þar kaupskap. Þar fæðist þeim sonurinn Snorri. Síðar fara þau aftur til Grænlands eftir að efnast á blómlegum viðskiptum við innfædda og þaðan til Noregs til að selja þar varning frá Vínlandi. Samkvæmd Grænlendinga sögu hafði ekki áður farið svo vel búið skip frá Grænlandi, enda hagnast Þorfinnur vel á farminum í Noregi. Þau halda svo frá Noregi til Íslands og kaupa Glaumbæ í Skagafirði.
Saga Guðríðar er stórmerkileg en hún lifir alla eiginmenn sína, er eftir það talin hafa farið fótgangandi til fundar við páfann í Róm og komið þaðan aftur til Íslands. Þá hafði Snorri sonur hennar reyst kirkju í Glaumbæ. Hún gerist þar einsetukona og nunna. Grænlendingasögu líkur svo; Snorri átti son þann er Þorgeir hét. Hann var faðir Yngveldar móður Brands biskups. Dóttir Snorra Karlsefnissonar hét Hallfríður. Hún var kona Runólfs föður Þorláks biskups. Björn hét sonur Karlsefnis og Guðríðar. Hann var faðir Þórunnar móður Bjarnar biskups. Fjöldi manna er frá Karlsefni komið og er hann kynsæll maður orðinn. Og hefir Karlsefni gerst sagt allra manna atburði um farar þessar allar er nú er nokkuð orði á komið.
Menntun og skóli | Breytt 2.2.2019 kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.1.2019 | 12:31
Draugar í silfri Egils
Vegna þrálátra getgáta um keltneskan uppruna íslendinga og í ljósi þess að margar íslendingasögurnar eru meir í ætt við heimildaöflun úr klaustri Kólimkilla en skandinavíska sakamálasögu er ekki úr vegi að haf í huga orð Hermanns Pálssonar Ísland byggðist að nokkru leyti af Írlandi og Suðureyjum og því þykir skylt að kanna menningu vora í ljósi þeirra hugmynda sem auðkenndu Íra og Suðureyinga fyrr á öldum. En Hermann var lengst af prófessor í norrænum fræðum við Edenborgarháskóla og hafði því jafnan aðgang heimildum sem ættaðar voru bæði frá draugum Kólumkilla og skandinavísku sakamálasögunni.
Þessu samhliða er ekki úr vegi að beina einnig athyglinni að atburðum í Evrópu sem gerast í kringum fall Rómarveldis og varða sögu þeirra landa sem styðst vegalengd er til frá Íslandi, m.a. Bretlandseyja. Yfir þeim hafði Rómarveldi drottnað að hluta um langan tíma. Í Völsungasögu, sem varðveitist á Íslandi, er Atla Húnakonungs (406-453) getið en hann réðist hvað eftir annað á Rómverska heimsveldið úr austri en veldi hans er talið hafa náð allt frá Þýskalandi til Kína. Atli gerði innrás í Vestur-Rómverska keisaradæmið með innrás í hluta þess sem tilheyra nú Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Sögusvið Völsungasögu er talið vera frá þeim atburðum. Veldi Atla var í aðdraganda að falli Rómverska keisaraveldisins sem talið er hafa verið orðið endanlegt árið 476.
Rómarveldi náði lengst í norð-vestur til Englands að Skotlandi. Þar byggðu Rómverjar múr þvert yfir England frá Newcastle í austri yfir á vesturströndina við Carlisle, stendur þessi múr víða enn og er á heimsminjaskrá. Múrinn nefnist Hadrian wall eftir samnefndum keisara. Talið er að bygging hans hafi byrjað árið 122, hann var um 120 km langur, 3. m breiður og 5 m hár. Þar fyrir norðan var fyrirstaðan of mikil fyrir heimsveldið. Múrinn var því byggður til að verjast Caledónum en Caledonia var nafnið sem Rómverjar höfðu á landsvæðinu sem nú kallast Skotland. Rómverjar gerðu svo aðra tilraun til að sölsa undir sig Skotland 20 árum síðar og komust norður að Edinborg. En urðu þar að láta staðar numið og byggja annan vegg. Sá veggur nefndist Antonien wall, var úr timbri og náði frá austurströndinni í grennd við Edinborg stystu leið yfir á vesturströndin u.m.b. við Glasgow. Þeirri landvinninga stöðu héldu rómverjar þar til árið 208 að þeir urðu að hörfa aftur fyrir Hadrian wall og kölluðu þar eftir það, sem fyrir norðan var, heimsenda.
Erfitt er að geta sér til hvaða kraftar voru þarna að verki nógu öflugir til að stöðva heilt heimsveldi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þess. En athyglisvert er að eftir fall Rómarveldis kallar mankynssagan tímabilið þar til kaþólska kirkjan í Róm nær afgerandi yfirráðum í Evrópu hinar dimmu miðaldir eða dark ages á ensku. Sagan segir að á þessu tímabili hafi heiðingjar farið um með yfirgangi, morðum og ránum. Heiðnir íbúar norðurlanda eru kallaðir víkingar, útlistaðir nánast sem hryðjuverkamenn. Í þessu róti byggist Ísland norsku fólki en áður en það gerist tekur það fólk að flýja Noreg til Bretlandseyja s.s. Suðureyja við Skotland og til Írlands undan ofríki konungsvalds sem fljótlega varð hallt var undir kirkjuna.
Saga Skotlands greinir frá því að á tímum Rómverja og á miðöldum hafi þar búið heiðin þjóð sem kallaðist Picts og yfirráðasvæðið Pictsland. Á vesturströndinni og á Suðureyjum bjuggu Gails sem hneigðust til kristni og höfðu tengsl við Írland. Gails var þjóð sem kölluð var á þessum tíma, Skotar. Á eyjunni, Iona þétt við vesturströnd Skotlands, var frægt klaustur stofnað af írska munknum St Columbe (521-597), Kólumkilla. Sú þekking sem þetta klaustur er talið hafa haft innan sinna veggja náði allt frá Írlandi í vestri, jafnvel enn lengra því til eru heimildir um Írland hið mikla og mun þar hafa verið átt við Ameríku. Þessi landafræði er sagt að hafi verið kunn í klaustri Kolumkilla á Iona, auk Ísland, Grænlands og Svalbarða ofl.. Til austurs er vitað að fræðin sem voru varðveitt í á Iona náðu allt til Afganistan.
Tilgátan um hvað varð um þá heiðnu þjóð sem kallaðist Picts er sú að hún hafi að tekið upp kristin sið Gails og sameinast þeim þannig að úr varð skosk þjóð um svipað leiti og norrænt landnám er á Íslandi. Sagan greinir frá því að Gereg foringi Gails hafi drepið Ire höfðingja Picts 878, eftir að Gereg hafði hörfað inn í Pictsland undan víkingum. Synir Ire, þeir Donald og Constantine eru á Norður Írlandi á yfirráðasvæði Gails þjóðarinnar, í læri í klaustri vegna fjölskyldutengsla við Írska konungsætt. Þegar þeir fullorðnast verða þeir lögmætir erfingjar Pictslands, þannig hafi tvær flugur verið slegnar í einu höggi, siðaskiptum Picts og sameiningu Picts og Gails.
Skotland verður svo endanlega til þegar víkingar í Dublin á Írlandi og York á Englandi ásamt Skotum undir stjórn Constantine sameinast á móti Englendingum í orrustunni miklu (The grate battle) við Brunanburh 937 og þar staðfestist í raun skipan nútímans á Bretlandi þó svo að ríki Víkinga hafi verið við lýði á Bretlandi eftir það í York en það er talið hafa staðið með stuttu hléi frá 875 til 954. Ástæðan fyrir því að kristnir og víkingar sameinast í orrustunni miklu við Bruaburh er talin vera m.a. sú að Aðalsteinn Englandskonungur hafði náð yfirráðum yfir York af víkingum.
Í orrustunni við Bruaburh er talið að bræðurnir Egill og Þórólfur Skallagrímssynir hafi tekið þátt, þó svo að Egilssaga tali þar um Vínheiði. Þeir voru þar ásamt 300 manna liði sínu á mála hjá Aðalsteini Englandskonungi. Í orrustunni féll Þórólfur og fékk Egill tvær kistur silfurs frá Aðalsteini konungi sem hann átti að færa Skallagrími í sonargjöld auk þess að fá gull í sinn hlut fyrir hetjulega framgöngu liðs þeirra bræðra. Aðalsteinn Englandskonungur var kirkjunnar konungur en þeir Egill og Þórólfur Skallagrímssynir rammheiðnir. Fram kemur í Egilssögu að þeir bræður hafi prím signst en sá siður mun hafa verið um heiðna menn er þeir gerðust málaliðar kirkjunnar konunga, en með prím signingu gerðust þeir ekki kristnir heldur héldu sínum sið.
Sagan hefur greint frá miðöldum sem átökum á milli heiðinna og kristinna manna þar sem heiðnir íbúar norðurlanda voru útlistaðir nánast sem hryðjuverkamenn þessa tíma í gegnum víkingana. Þegar saga þessa tímabils er skoðuð í öðru ljósi er þetta ekki eins klippt og skorið. Miklu frekar má ætla að hinar dimmu miðaldir hafi verið tímabil þar sem hvorki keisaraveldið né kirkjan í Róm höfðu þau völd sem sótts var eftir í Evrópu. Það er ekki fyrr en Róm fer að sækja í sig veðrið eftir fall keisaraveldisins í gegnum páfastól að þau róstur, sem hinar myrku miðaldir eru kenndar við ná hæðum með borgarastyrjöldum og tilheyrandi þjóðflutningum. Upp úr því róti verður landnám norsk ættaðra manna á Íslandi.
Samkvæmt sögu Evrópu er víkingatímabilið talið hefjast með árás norrænna manna á klaustrið í Lindisfarne á Englandi 793, sem átti rætur að rekja til eyjarinnar Iona. Þó svo heimildirnar fyrir þeirri villimannlegu árás séu fyrst skráðar af kirkjunnar manni í Frakkland sem aldrei er vitað til að hafi komið til Lindisfarne og endurskráðar í fréttabréf til klaustra allt til ársins 1200. Víkinga tímabilinu er svo talið endanlega lokið með orrustunni við Hasting 1066 og falli Haraldar Englandskonungs sem var af norskum ættum, en þar bar Vilhjálmur bastarður afkomandi göngu Hrólfs sem fór til Normandí sigur. Síðan hafa afkomendur hans tilheyrt konungsættinni á Englandi.
Hvað það var sem fékk þá norsku menn til að halda í vestur á haf út í leit að nýjum heimkynnum er ekki vandi um að spá. Það kemur misskýrt fram í Íslendingasögunum. Ofríki konunga sem voru hliðhollir hinu miðstýrða valdi og svo vitneskja Kólumkilla um löndin í vestri. Fall rómarveldis varð því varla, eftir að keisarar hættu að ríkja, nema tímabilið þar til kirkjan tók við með sinn páfastól í Vadikaninu, sem réri svo undir borgarastyrjöldum í samfélögum manna sem ekki lutu valdinu. Með því að styrkja einstaka framagjarna höfðingja, þá sem ásældust mest völd.
Menntun og skóli | Breytt 2.2.2019 kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.1.2019 | 13:21
Kölski og hin launhelga Landnáma
Hvað ef öll mankynssagan væri meira og minna lygi skrifuð að undirlagi þeirra sem valdamestir voru á hverjum tíma, og skáldsagna ritarar á við Dan Brown færu nær sannleikanum? Það er reyndar oftast svo að ríkjandi öfl sjá um að skrásetja opinbera útgáfu sögunnar. Þegar Íslendingasögurnar eru skoðaðar þá má samt greina að þær hafa ekki verið skráðar undir handleiðslu Noregskonunga þó svo þær geymi heimildir sem til eru um upphaf konungsríkis í Noregi. Það virðist ekki hafi verið nein hefð fyrir sagnaritun í Skandinavíu þegar norðmenn námu Ísland né fyrir þann tíma, það má næstum segja að miðalda saga Noregs væri ekki til nema fyrir Ísland.
Hvernig stóð þá á því að saga þessa tímabils varðveitist á Íslandi? Ágiskun hefur m.a. verið uppi um að það sé vegna þess að á Íslandi séu langir og dimmir vetur og því hafi landsmenn drepið tímann með því að segja hvorir öðrum sögur af uppruna sínum og landnámi (874-930) mann fram að manni þar til einhverjir sáu ástæðu til að skrásetja þær, jafnvel mörghundruð árum seinna s.s. Snorri Sturluson upp úr 1200 og Landnáma einhvertíma upp úr 1100. Langir vetur með skammdegismyrkri eru ekki síður í Noregi svo varla hefur sagnahefðin og skrásetningarþörfin komið þaðan með landnámsfólki.
Við lestur Völsungasögu vakna einnig margar áleitnar spurningar s.s. hvernig stóð á því að sú saga varðveitist á Íslandi sem er talin hafa verið skráð 1270 en sögusviðið er Evrópa 800 árum fyrr, á tímum Atla Húnakonungs (406-453) auk þess sem Völsunga saga hefur að geyma heimildir um hugsunarhátt heiðinna manna og sögu norrænnar goðafræði sem ríkjandi var í norður Evrópu þess tíma. Egils saga sem er talin hafa verið rituð um 1200 segir frá atburðum í Noregi, Englandi og víðar í Evrópu á tímabilinu 850-1000.
Egilssaga segir svo háðuglega frá Noregskonungum að sennilegast er að sögunni hefði verið eitt af konungum í Noregi hefðu þeir vitað af tilvist hennar. En hvað sem öðru líður þá segir sagan á hárnákvæman hátt frá Noregi þessa tíma auk þess að gefa magnaða innsýn í hugarheim heiðninnar í gegnu Egil. Það hefur komið betur í ljós eftir því sem fornleifarannsóknum hefur fleytt fram hvað Egilssaga er nákvæm heimild. Svo má spyrja hvernig standi á því að heimildir um uppruna og Svartahafs tengsl norrænu goðafræðinnar varðveitast á Íslandi, hvort þar geti verið að þar sé afritað eftir mun víðtækara safni gagna en hafi tilheyrt norrænum bókmenntum einum.
Margir hafa bent á að í Íslendingasögurnar og sér í lagi Landnáma sé vilhöll norskættuðum landnemum og þar hljóti að hafa ráðið hagsmunir þeirra er skrifuðu sögurnar. Grettis- og Laxdælasaga geta landnámsfólks sem kom frá Skotlandi. Önundur einfætti forfaðir Grettis fór til Suðureyja Skotlands til að þola ekki ofríki Haraldar hárfagra Noregskonungs. Laxdæla greinir frá landnámi Auðar djúpúðgu sem kom frá Skotlandi og hafði tengsl við konung á Írlandi auk þess sem sagan getur ambáttarinnar Melkorku dóttur Mýrkjartans konungs á Írlandi. Báðar þessar sögur gera ættartengslum sögupersóna við Noreg góð skil en geta þess lauslega hvar þetta fólk hafði alið manninn á Bretlandseyjum.
Eina kenningu sem lítið hefur farið fyrir, um landnám Íslands og tilurð íslendingasagna, má finna í ritgerðasafni Jochums M Eggertssonar frá 1948. Þetta ritgerðasafn heitir einu nafni Brísingamen Freyju og kemur inn á norræna goðafræði, rúnaletur ofl. Í 5. kafla er svo kenning um hvernig Ísland byggðist sem einna helst má líkja við skáldsöguna Da Vinci Code, enda var Jochum ekki hátt skrifaður hjá fræðimannasamfélaginu. Þrátt fyrir merkilegar kenningar sínar varð hann aldrei annað en utangarðs fræðimaður.
Jochum lét eftir sig mikið af handskrifuðum bókum um rannsóknir sínar. Einna þekktust þeirra er bókin Galdraskræða sem var endurútgefin árið 2013 af Lestofunni. Í 5. kafla ritgerða safns síns Brísingamen Freyju leggur Jochum út frá orðum Gísla Oddsonar biskups í Skálholti á árunum 1632-1638, sem Gísli lætur falla í bók sinni Íslensk annálsbrot og Undur Íslands. En þar segir biskup: "Þann 18. Apríl, 1638 byrja ég á lýsingu þeirra undraverðu hluta, sem fyrir koma í föðurlandi mínu, og vildi ég óska, að árangurinn yrði að sama skapi farsæll, sem viljinn er einlægur, hugurinn hreinskilinn og áhuginn fyrir sannleikanum.
Síðan bendir Jochum á merkilegan hluta í frásögn Gísla biskups í kaflanum Jarðskjálftar og ýmiskonar hræðileg eldgos; -Til þess að ég þreyti ekki lesarann eða virðast ætla að segja neitt ógeðfellt, mundi ég engu bæta við þetta, ef gagnstæður kraftur skapferlis míns kallaði ekki fram í huga mér á þessum stað, að ég hef fræðst um það af gömlum annálum fornmanna, að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin. En þetta eru ekki þau myrkur, sem taka alveg fyrir sól og dagsljós og koma af sandskýjum á vissum stöðum og í fjöllum, á meðan þau eru að spýa eldi, heldur einhverjir aðrir furðulegir skuggar".
Þessa frásögn Gísla Oddsonar telur Jochum vera stórmerkilegan útúrdúr frá efni bókarinnar og að Gísli hafi haft aðgang að fornum annálum í Skálholti sem greindu frá falinni fortíð. Eins sagðist Jochum sjálfur hafa yfir hinu glataða fornriti Gullbringu að ráða þar sem kæmi fram ítarlegri útgáfa af landnámi Íslands en um væri getið í Landnámu sem getur þess þó lítillega að fyrir í landinu hafi verið fólk af keltneskum uppruna.
Sú útgáfa landnáms sem kemur fram í Gullbringu er í stuttu máli á þá leið að þegar þeir landnemar komu til Íslands frá Noregi sem vildu forðast ofríki Haralds konungs hárfagra var fyrir á Ísland byggð. Nánar tiltekið hafi sú byggð átt uppruna sinn að sækja til eyjarinnar Iona sem er ein af Suðureyjum Skotlands. Á Iona hafi verið varðveitt viska sem rekja megi til Egipsku píramídana. Þessi vitneskja sem síðar var kennd við galdur hafi upphaflega verið til staðar í fornum menningarheimum en flust frá Egiptalandi til Iona eyja sem eru í eyjahafi Grikklands, þaðan hafi fræði þessarar visku flust til Hebredes eyja í Suðureyjum Skotlands og þaðan til smá eyjar í Suðureyjum sem hafi fengið nafnið Iona eftir hinum Grísku eyjum. Eins kemur fram hjá Jochum að þjóðin Skotar hafi byggt Írland á þeim tíma og eyjar Skotlands talist til Írlands.
Þegar ekki var lengur öruggt að varðveita þessa launhelgu visku á eyjunni Iona við Skotland var hún flutt til Íslands u.þ.b. árið 700, nánar tiltekið til Krýsuvíkur. Þetta fólk kemur löngu fyrir skjalfest landnám Íslands og tekur vel á móti flóttafólki þegar landnám norrænna manna hefst. Eins segist Jochum þess fullviss af heimildum úr fornritinu Gullbringu að Íslendingasögurnar séu m.a. ritaðar að undirlagi Kolskeggs vitra Ýberíasonar sem hafði aðsetur í Krýsuvík, m.a. kemur fram að mestur hluti Heimskringlu Snorra sé upphaflega rituð af Grími Hrafnsyni af Mýramannakyni auk þess sem hann hafi ritað Egils-sögu Skallagrímssonar frænda síns. Grímur þessi hafði aðsetur á Vífilsstöðum ásamt Jóni hinum gamla Kjarvalssyni, þar sem fræðisetur á að hafa verið samhliða því í Krýsuvík. Þeir Jón Kjarvalsson og Kolskeggur vitri Ýberíason eiga að hafa samið Völuspá og Hávamál.
Því sem næst 200 árum seinna á Snorri Sturluson, sem var að upplagi íslenskur höfðingi en ekki fræðimaður, að hafa komist yfir rit þeirra Krýsvíkinga og gert sér grein fyrir um hverskonar verðmæti var að ræða, ráðið til sín skrifara til að endurskrifa og varðveita heimildirnar. Þegar þessi fornu rit voru endurrituð á skinn undir handleiðslu Snorra hafi pólitískt ástand á Íslandi og staða Snorra (sem var lénsmaður Noregskonungs) verið með þeim hætti að það hafi frekar verið varðveitt úr þeim sem var hliðhollara Noregskonungum.
Örlög Kolskeggs, sem á að hafa verið drepinn 1054 við Straum í Kapelluhrauni, urðu þau að með tímanum fékk hann nafnið Kölski í djöfullegri merkingu á íslenskri tungu. Þar sem þau fræði sem upprunnin voru úr fornum menningarheimi og varðveitt voru í Krýsuvík þóknuðust ekki ríkjandi öflum. Megi rekja upphaf þessa til laga sem sett voru á alþingi 1032 og um er getið í Grettissögu en þar segir "að allir forneskjumenn skyldu útlægir af landinu".
"Sannleikurinn finnst hvergi nema rekja til hans í gegnum völundarhús lyginnar, en það kostar mikið mannvit og þekkingu það að gera, og svo, að lokum, reynist það oft miður heppileg vara, er sumir höfðu lengi haft fyrir góðan og gildan sannleika." (Jochum M Eggertsson-Brísingamen Freyju V/52)
Menntun og skóli | Breytt 2.2.2019 kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)