Færsluflokkur: Dægurmál

Bæn vígamanns í jólabúningi

2009-ofridarvaktEinn af fegurstu sálmum sem ortur hefur verið á íslenska tungu er án efa Heyr himna smiður eftir Kolbein Tumason í Víðimýri. Kolbeins er getið í  Sturlungasögu og var hann höfðingi í Skagafirði, foringi Ásbirninga.

Kolbeinn var vígamaður að hætti sinnar tíðar þegar húsbrennur og grjótkast tilheyrðu tíðarandanum. Hann fór að Önundi Þorkelssyni á Lönguhlíð í Hörgárdal, ásamt Guðmundi dýra Þorvaldssyni, og brenndu þeir hann inni ásamt Þorfinni syni hans og fjórum öðrum, annað heimilisfólki fékk grið. Þeir Önundur og Guðmundur dýri höfðu lengi átt í deilum. Brennan var talin til níðingsverka.

Kolbeinn átti mikinn þátt í því að Guðmundur góði Arason, frændi Gyðríðar konu hans og prestur á Víðimýri, var kjörinn biskup að Hólum, og hefur sjálfsagt talið að hann yrði sér auðsveipur en svo varð ekki. Guðmundur góði vildi ekki lúta veraldlegu valdi höfðingja og varð fljótt úr fullur fjandskapur milli þeirra Kolbeins. Guðmundur biskup bannfærði Kolbein.

Í september árið 1208 fóru Kolbeinn, Arnór bróðir hans og Sigurður Ormsson Svínfellingur, til Hóla með sveit manna, og úr varð Víðinesbardagi. Steinar voru meðal vopna á Sturlungaöld. Kolbeinn fékk stein í höfuðið í Víðinesi sem varð hans bani. Hann á að hafa ort sálminn 8. september, daginn fyrir andlát sitt, og verður helst af honum ráðið að þar sé Drottinn beðinn að sjá í gegnum fingur sér við þræl sinn.

Auk þess að vera þjóðargersemi, er Heyr himna smiður elsti varðveitti sálmur Norðurlanda og nú oftast fluttur við lag Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds. Sálmurinn er eitt vinsælasta íslenska efnið sem finna má á youtube og er þar farið um hann mjög svo lofsamlegum orðum.

Hér fyrir neðan flytur hin Færeyska Eivör Pálsdóttir bænina í jólabúningi frá dýpstu hjartans rótum. Ég óska lesendum gleðilegra jóla, árs og friðar.

 


Sýndarveruleikinn í hátæknifjósinu

Það voru sagðar fréttir af því fyrir skemmstu að austur í Rússlandi væru bændur farnir að setja sýndarveruleikagleraugu á beljur. Við vinnufélagarnir gáfum okkur tíma til að taka þessi fjósverk til umræðu í kaffitíma á morgunnandaktinni. Benti ég þeim á það sérkennilega sjónarhorn að það virtust vera orðnir fleiri ungir Rússar sem væru orðnir skólaðir í að kóða saman tölvuforrit fyrir beljur í gluggalausum bakherbergjum heldur en að hleypa þeim út úr fjósinu og njóta þess að rölta á eftir þeim út í mýri þegar þyrfti að sækja kýrnar til mjalta.

Við félagarnir á morgunnandaktinni erum um margt sérkennilegt samsafn sérvitringa, sjaldséðra iðnaðarmanna og hverfandi bænda. En eigum þó flestir þann bakgrunn að hafa sem ungir drengir valhoppað á eftir beljum milli þúfna í mýrum Héraðsins. Því erum við í raun tilvalin stýrihópur sérfræðinga um kúasmölun og teljum okkur vita upp á hár hvar í mýrinni beljum finnst best að halda sig innan um flórgoðann. En það var einmitt friðsæll hagi að sumarlagi sem var hafður í sýndarveruleikagleraugunum sem voru múlbundin á beljurnar sem vöfruðu um innilokaðar og kvíðnar á svellhálli steinsteypunni í forugum hátæknifjósunum austur á gresjum Rússíá.

Sá af okkur sem er tæknilegast sinnaður og alltaf fljótastur að sjá víðtæk not fyrir rússneskar tækniframfarir hélt að svona gleraugu gætu komið að góðum notum fyrir fjármálastjórann okkar því hún væri öfugt við okkur múlbundin fyrir framan svartan tölvuskjá allan liðlangan daginn við kvíðavænleg verkefni. Umræðurnar fóru út um þúfur nokkra stund vegna misskilnings sem stafaði af því að ég sá ekki samhengið, og hélt áfram að tala um beljur á meðan hinir veltu fyrir sér hvernig mætti þróa sýndarveruleikagleraugun áfram á þann veg að hægt væri að vinna með tölur auk þess að éta.

Eftir að umræðan komst aftur á beinu brautina þá benti einn af okkur á að ekki væri lengur í boði að hleypa beljunum út á beit því við þann gjörning féllu í þeim nytin, sem er afleitt á tímum hins heilaga hagvaxtar. Þess vegna væru sýndarveruleikagleraugu framtíðin fyrir kýr og menn. Ég móaðist við aftur í fornöld, eins og venjulega við litlar undirtektir. Þannig að ég benti vinnufélögum mínum í nauðvörn á að þeir væru flestir fábjánar sem vöfruðu um í sýndarveruleika og ættu sennilega eftir að fara sér að voða í drullufeni með sýndarveruleikagleraugu á nefinu.

Það er nefnilega ekki nóg með að þeir horfi á sjónvarp og fái sína visku þaðan heldur eiga þeir það til oftar en ekki að stara á símann í gaupnum sér og í mesta lagi reka hann í andlitið á næsta manni og segja "sjáðu", nema þá helst Pólverjarnir en úr þeirra símum glymja pólskar sápuóperur. Sem betur fer hefur ekki gefist tóm á andaktinni til að fara yfir Namibíu skjölin. Það sama á við þann sýndarveruleika unga dómsmálaráðherrans, sem er dúkkulísu líkust, að taka Samherjann á starfslok Ríkislögreglustjórans.


Myrkurtíð

IMG 6016

Passið ykkur á myrkrinu var hinn þjóðkunni útvarpsmaður, Jónas Jónasson, vanur að segja við gesti sína í lok þátta á gufunni í denn. Árni Tryggvason leikari átti gott með að fá fólk til að hlæja, en talaði líka um svarta hundinn sem ætti það til að glefsa í skammdeginu. Þó rétt sé að passa sig á svörtum hundum myrkursins, þá felst sú þversögnin í ógnum skammdegis myrkursins að það getur þurft að draga sig úr erli dagsins og stíga út fyrir raflýsingu borga og bæja til að sjá ljós dagsins, svo skær er sjónhverfing rafljósanna.

Það virðist vera fjarlægt íslensku þjóðarsálinni að njóta kyrrðar hinnar myrku árstíðar og hægja á erli dagsins í takt við sólarganginn, líkt og náttúran gerir um þetta leiti. Fyrir norðan heimsskautsbaug kemst sólin ekki einu sinni upp yfir hafflötinn um nokkurt skeið á ári hverju. Margar byggðir Noregs eru langt fyrir norðan heimskautsbaug og því eiga norðmenn sér angurværa söngva um fallega bláa ljósið sem fylgir dimmri árstíðinni. Nú mætti halda að þar sem skammdegið er svo mikið að sólin nái ekki einu sinni að kíkja upp fyrir hafflötinn ríki algert myrkur jafnt á lofti og láði, sem í sál og sinni, en svo er ekki bjartur dagurinn er á himninum og kastar blárri birtu yfir freðna jörð.

Þó svo skammdegið eigi það til að vera erfitt með öllum sínum andans truntum þá er það sá tími sem mér finnst maður komast einna næst kjarna tilverunnar. Þetta er sá tími sem ég hugsa venju fremur til þeirra sem horfnir eru og voru mér kærir. Því er það kannski bara eðlilegt að það dragi úr athafnaþránni í myrkrinu og tíminn fari í að leita inn á við. Það er kannski líka heldur ekki undarlegt að vísindin hafi lagt talsvert á sig með gleðipillum og skærum ljósum við að forða fólki frá skammdegis hugans mórum og skottum, sem þjóðsagan hefur gert skil í gegnum tíðina. Það væri nefnilega stórvarasamt fyrir hagvöxtinn ef við kæmumst ævinlega að þeirri niðurstöðu að það sem er dýrmætast fáist ekki fyrir peninga.

Þegar ég var í þriggja ára Noregs útlegð, og saknaði fjölskyldunnar hvað mest heima á landinu bláa, þá bjó ég án sjónvarps og útvarps, en með skaftpott og örbylgjuofn. Þar gafst tími til að uppgötva aftur skammdegi bernskunnar, með því að stíga út fyrir raflýsinguna og paufast á svellum um nes niður við sjó og horfa út yfir Vogsfjörðinn. Það var eitthvað þarna í skímunni, sem gerði að það sást út yfir allan tíma, ég var aftur orðinn þriggja ára drengur í heimsókn með mömmu og pabba hjá afa og ömmu í Vallanesinu. Þarna í fjörunni sá ég alla leið yfir hafið og heim, þar sem augnablikið er alltaf það sama þó svo það komi aldrei til baka.

Á 69°N, þar sem sólin kemur ekki upp úr sjónum vikum saman, er þessi bláa angurværa og  órafmagnaða birta kölluð mørketid sem mundi útleggjast á íslensku myrkurtíð.

Ps. þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir 2 árum.


Ættir Íslendinga og Mafíugenið

Samherjamálið hefur farið fram hjá fáum, virðist í því fjaðrafoki hafi fundist Mafíugenið. Vanti nú aðeins staðfestingu Íslenskrar erfðagreiningar á meininu. Þegar Decode Kára kom fram á sjónarsviðið hafa vafalaust fáir gert sér ljósar allar afleiðingarnar.

Áður hafa fundist, með því að kafa í ættir Íslendinga, sjúkdómar á heimsmælikvarða s.s. BRCA genið. Er talið réttlætismál að gera hverju mannsbarni grein fyrir því, sem það hefur í erfðamengi sínu. Íslensk erfðagreining opnaði í því sambandi vefinn arfgerd.is, þar sem Íslendingar geta nálgast upplýsingar um hvort þeir hafa stökkbreytingu í BRCA2 erfðavísinum.

Á grundvelli þeirrar vitneskju getur fólk svo ákveðið hversu langt það vill ganga gegn meininu og er nú svo komið að ungar konur hafa farið í brjóstanám í forvarnaskini. Ef til þess kemur að minnisafglapa genið finnst er rétt að vona að forvarnirnar verði ekki á pari við BRCA2. Hvað þá þegar frá Mafíugeninu verður greint opinberlega á heimsvísu.

Það má segja að Sturlunga genið hafi alltaf verið þekkt í íslenskum ættum þó svo að menn hafi kosið að líta framhjá því, sem sérstöku Mafíu geni í gegnum aldirnar, sökum afdalamennsku og fólksfæðar. En það er einmitt þær aðstæður sem valda frændrækni og vinagreiðum.

Íslensk erfðagreining er m.a. byggð á ættartölum Íslendinga. Og islendingabok.is var fyrsta stórgjöfina hans Kára til þessarar fámennu þjóðar, - sjálfur DeCode gagnagrunnurinn. Þessi ættargrunnur nær jafnvel lengra aftur í aldir heldur en blóðlínan sem Dan Brown byggði á sína frægustu skáldsögu, - Da Vinci Code.

Ef ég set t.d. sjálfan mig inn í islendingabok.is og bæti við ættartölu Ynglinga, sem má finna í skýringariti Sturlungu, kemst ég rúm 2000 ár aftur í tíman. Með nöfn á forfeðrum í hverjum einasta ættlið, á annað hundrað ár fram fyrir Krist. Ég á ekki von á öðru en það sama eigi við um aðra Íslendinga.

Með islendingabok.is og Ynglingatali má komast aftur til Yngva Tyrkjakonungs forföður Ynglinga. Goðsagnakenndrar ættar sænskra konunga, sem elstu sögulegu norsku konungarnir komu af. Það á að vera Njörður í Nóatúnum sem var sonur Yngva og Freyr sonur Njarðar, þeir voru stundum kallaðir Vanir eða af Vanaætt.

Einn af fyrstu Ynglingunum sem um getur í islendingabok.is er Ólafur feilan Þorsteinsson, stórbóndi í Hvammi í Dölum. Ólafur feilan var sonur Þorsteins rauða Ólafsson, sem var víkingakonungur í Skotlandi á 9. öld. Þorsteinn rauði var sonur Auðar djúpúðgu Ketilsdóttur og Ólafs hvíta Ingjaldssonar, herkonungs í Dyflinni. Ólafur feilan kom til Íslands með Auði ömmu sinni eftir að þeir Þorsteinn pabbi hans og Ólafur afi hans höfðu verið látnir súpa ótæpilega á Mafíu seyðinu.

Svo skemmtilega vill til að frá Ólafi feilan til Yngva Tyrkjakonungs eru 31 ættliður samkvæmt Ynglingatali, eða nákvæmlega sami ættliðafjöldi og er frá mér til Ólafs feilan samkvæmt islendingabok.is. Segi svo hver sem vill að ættfræði grunnur Ynglingatals sé ónákvæmari en sá ættfræði grunnur sem Íslensk erfðagreining byggir á sínar vísindarannsóknir.

Ef Mafíu greining íslenskra erfða verður ofan á í Samherjamálinu er hætt við að lækningin við henni verði jafn sársaukafull og á Sturlungaöld, fólksfæðin verði með því marki brennd að Íslendingum sé ekki treystandi fyrir sjálfum sér og þeim með því talin trú um að koma sínum málum aflands.

Freysteinn heitinn Sigurðsson var mikill grúskari um uppruna Íslendinga og greindi frá því í fyrirlestri að hluti þess fólks Yngva Tyrkjakonungs, sem tók sig upp við Svartahaf til að daga uppi norður við Dumbshaf, hefði farið til Sikileyjar og þess vegna væru svona margt líkt með skyldum.

Ps. Fyrirlestur Freysteins má finna hér, í 8 hlutum á youtube og er hann engu síður athygliverður en bæði Íslendingabók og Ynglingatal.


Þegar fábjánar fá frábærar hugmyndir

Það eru örfáir áratugir síðan að latínuliðið fór að ásælast verklegt nám. Þá ekki til þess að skíta út hendurnar sjálft, heldur sjá um að kenna þeim sem hafa viljann til verklegrar vinnu og votta  kunnáttu þeirra.

Síðan þessi ásælni latínusamfélagsins í að gera sig gildandi í því, sem það hefur ekki hundsvit á, þá hefur verknámi í landinu hrakað stórlega, jafnvel svo að vandfundið er ungt fólk sem sér nokkurn tilgang í því að fara í verknám.

Ágætu meistarakerfi, þar sem ungur nemur það sem gamall temur, og viðgekkst í byggingariðnaði öldum saman hefur verið rústað, þannig að nú koma gjaldgengir iðnaðarmenn út á vinnumarkaðinn reynslulausir úr fáviskufabrikkunum  latínuliðsins. 

Helst að þeir séu fullnuma í að fylla út gæðavottun um sjálfa sig á exel skjali.

Nú hefur menntun sem þjónar engum tilgangi ná þeim hæðum að handhöfum hennar dettur helst í hug að ekki sé hægt að grafa skurð nema á háskólastigi.


mbl.is Nám í jarðvinnu verði að veruleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haugsnesbardagi var mannskæðasta orusta sem háð hefur verið á Íslandi

Varist þér og varist þér,

vindur er í lofti.

Blóði mun rigna á berar þjóðir.

Þá mun oddur og egg arfi skipta.

Það er öllum holt að lesa Sturlungu. Örlygsstaðabardagi var fjölmennusta orrustu sem háð hefur verið á Íslandi. Hann fór fram í Blönduhlíð í Skagafirði þann 21. ágúst 1238. Frá Örlygsstaðabardaga segir Sturla Þórðarson í Sturlungu, en hann tók sjálfur þátt í bardaganum og barðist í liði frænda sinna, Sturlunga. Þar áttust við Sturlungar annars vegar, undir forystu feðganna Sighvatar á Grund og Sturlu sonar hans, en hins vegar þeir Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi.

Sturlungar höfðu ætlað að gera aðför að systursyni Sighvats, Kolbeini unga Arnórssyni á Flugumýri, þar sem hann bjó, en gripu í tómt. Þeir héldu kyrru fyrir á bæjum í Blönduhlíð í nokkra daga en á meðan safnaði Kolbeinn liði um Skagafjörð og Húnaþing en Gissur Þorvaldsson kom með mikið lið af Suðurlandi. Liðsmunurinn var mikill, því þeir Gissur og Kolbeinn höfðu um 1700 manns, en þeir Sturlungar nálægt 1300.

Þeir Kolbeinn og Gissur komu austur yfir Héraðsvötn og tókst að koma Sturlungum að óvörum, sem hörfuðu undan og bjuggust til varnar á Örlygsstöðum í slæmu vígi sem var fjárrétt, enda mun orrustan ekki hafa staðið lengi því fljótt brast flótti í lið Sturlunga og þeim þar slátrað miskunnarlaust. Alls féllu 49 úr þeirra liði en sjö af mönnum Kolbeins og Gissurar.

Í bardaganum féllu þeir feðgar Sighvatur, Sturla og Markús Sighvatssynir. Kolbeinn og Þórður krókur synir Sighvats komust í kirkju en voru sviknir um grið og drepnir þegar þeir yfirgáfu kirkjuna. Tumi Sighvatsson komst einn bræðranna undan ásamt hópi manna yfir fjöllin til Eyjafjarðar. Sturla Þórðarson, sem sögu bardagans ritaði, komst einnig í kirkju og fékk grið eins og aðrir sem þar voru, að Sighvatssonum og fjórum öðrum undanskildum.

Einn sonur Sighvats hafði verið í Noregi við hirð konungs þegar uppgjörið á Örlygsstöðum fór fram. Sá var Þórður kallaður kakali, hann kom síðan til Íslands í hefndarhug með leyfi konungs því herða þurfti á upplausninni milli nátengdra íslenskra höfðingja þó svo að veldi Sturlunga væri að engu orðið. Þórður kakali var djarfur stríðsmaður sem fór ávalt í fylkingabrjósti síns liðs og bar vanalega hærri hlut í stríðinu þó hann ætti til að tapa orrustunni. Það bar brátt til tíðinda eftir að Þórður steig á land.

Haugsnesbardagi, 19. apríl árið 1246, var mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Þar börðust leifar veldis Sturlunga (aðallega Eyfirðingar) undir forystu Þórðar kakala Sighvatssonar og Ásbirningar (Skagfirðingar), sem Brandur Kolbeinsson stýrði en hann hafði tekið við veldi Ásbirninga af Kolbeini unga gengnum. Hann hafði 720 menn í sínu liði en Þórður kakali 600 og voru það því 1320 manns sem þarna börðust og féllu yfir 100 manns, 40 úr liði Þórðar og um 70 úr liði Brands.

Bardaginn var háður á Dalsáreyrum í Blönduhlíð, í landi sem nú tilheyrir jörðunum Djúpadal og Syðstu-Grund. Skagfirðingar höfðu gist á Víðimýri nóttina fyrir bardagann en komu austur yfir Héraðsvötn og tóku sér stöðu utan við Haugsnes, sem er nes sem skagar til norðurs út í Dalsáreyrar.

Lið Eyfirðinga hafði verið um nóttina á bæjum frammi í Blönduhlíð og bjuggust Skagfirðingar við að þeir kæmu ríðandi út með brekkunum en Eyfirðingar komu fyrir ofan Haugsnesið og komu Skagfirðingum þannig að óvörum. Þórður kakali hafði komið flugumanni í lið Skagfirðinga, sem flýði manna fyrstur og fékk marga til að leggja á flótta. Margir þeirra sem féllu voru drepnir á flótta, þar á meðal Brandur Kolbeinsson, foringi Ásbirninga.

Brandur var tekinn af lífi á grundinni fyrir ofan Syðstu-Grund og var þar síðan reistur róðukross og nefndist jörðin Syðsta-Grund eftir það Róðugrund í margar aldir. Sumarið 2009 var kross endurreistur á Róðugrund til minningar um bardagann og var hann vígður 15. ágúst 2009.

Gissur Þorvaldsson, höfðingi Haukdæla og valdamesti maður á Suðurlandi, var nú orðin einn helsti óvinur Sturlunga en ekki kom þó til átaka á milli þeirra Þórðar kakala, heldur varð það úr að þeir fóru báðir til Noregs og skutu máli sínu undir Hákon konung. Hann úrskurðaði Þórði í vil og sendi hann til Íslands til að reyna að ná landinu undir veldi Noregs, en kyrrsetti Gissur.

Sturlunga er sögð samtímasaga þ.e. skrifuð um leið og atburðir gerast svona nokkurskonar frétta fjölmiðill dagsins. Afkomendum Sturlunga er því holt að lesa söguna. Hún segir frá því hvernig landið komst undir erlent vald vegna græðgi íslenskra höfðingja. Þar réðu ættartengsl og fégræðgi mestu um að hið einstaka íslenska stjórnskipulag, þjóðveldið, féll og landið komst undir Evrópskt vald. Sagan á sér þá samsvörun í nútímanum að stjórnmálmenn hafa framselt löggjöf Íslenska lýðveldisins í síauknum mæli til erlendra valdastofnanna.


mbl.is Mesta blóðbað frá Örlygsstaðabardaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galdur, fár og geimvísindi

Það er sagt að galdur sé andstæðan við vísindi, svona nokkurskonar bábiljur á meðan vísindin byggi á því rökrétta. Því séu þeir sem trúi á galdur draumórafólk í mótsögn við sannleik vísindanna.

Svo hafa þeir alltaf verið til sem vita að galdur byggir á hávísindalegum lögmálum sem hafa mun víðtækari tengingar en rökhyggjan, s.s. krafta náttúrunnar, traustið á æðri mætti og síðast en ekki síst vissunni fyrir eigin getu við að færa sér lögmálin í nyt.

Ef sönn vísindi væru einungis rökhyggja sem byggði á því sem þegar hefur verið reynt, væru þau þar að leiðandi eins og sigling þar sem stýrt er með því að rýna í straumröst kjölfarsins. Þannig vísindi notfæra fortíðar staðreyndir sem ná ekki að uppfylla þrána eftir því óþekkta. Þar með munu vísindin aðeins færa rök gærdagsins á meðan þau steyta á skerjum og missa af draumalöndum sem framundan eru vegna trúarinnar á að best verði stýrt með því að rýna í kjölfarið.

Um miðjan áttunda ártug síðustu aldar tók það um ár fyrir geimförin Víking 1 og 2 að komast til Mars, lögðu þau af stað frá jörðu 1975 og lentu á Mars 1976. Mun lengri tíma tekur að fá úr því skorið hvort líf gæti verið á rauðu plánetunni og það eru ekki nema örfá ár síðan að almenningi voru birtar myndir frá ökuferð þaðan. NASA sendi svo Voyager nánast út í bláinn 1977 til að kanna fjarlægustu plánetur í okkar sólkerfi. Og fyrir nokkrum árum komst hann þangað, sem að var stefnt fyrir áratugum síðan, vegna þess að markmiðið var fyrirfram skilgreint úti í blánum.

Nýlega hafa verið kynntar niðurstöður geimvísindamanna sem hafa fundið sólkerfi sem hafi plánetur svipaðar jörðinni, þar sem talið er að finna megi líf. Plánetur sem eru þó í tuga ljósára meiri fjarlægð en en þær fjarlægustu í okkar sólkerfi þangað sem Voyager komst nýlega. Með tilliti til vísindalegra mælieininga s.s. ljóshraða og fjarlægðar er ekki nema von að spurningar vakni um hvernig geimvísindamenn komust að þessari niðurstöðu úr fjarlægð sem fyrir örfáum árum síðan var sögð taka mannsaldra að yfirvinna, jafnvel á ljóshraða.

Það þarf að láta sig dreyma eða detta í hug töfrandi skáldskap, nokkurskonar galdur, til að skýra hvernig fjarlægðir og tími er yfirunninn geimvísindalega. Þá er líka skýringin einföld; tíminn er mælieining sem vanalega er sett framan við fjarlægðina að takmarkinu, með því einu að setja þessa mælieiningu aftan við fjarlægðina þá er hægt að komast án þess að tíminn þvælist fyrir, hvað þá ef bæði fjarlægðin og tíminn eru sett fyrir aftan takmarkið.

Þannig draumkennda galdra virðast geimvísindamenn nota við að uppgötva heilu sólkerfin og svartholin í órafjarlægð. En þarna er hvorki um að ræða skáldskap né rökfræði, samt sem áður fullkomlega eðlilegt þegar haft er í huga að tíminn er ekki til nema sem mælieining. Það sama á við um fjarlægðina sem gerir fjöllin blá með sjónhverfingu.

Sjónhverfingar mælieininganna má best sjá í peningum sem eru mælieining á hagsæld. Síðast kreppa íslandssögunnar stóð yfir í góðæri til lands og sjávar, ekkert skorti nema peninga sem eru nú orðið aðallega til í formi digital bókhaldstalna.

Allar mælieiningar búa við þau rök að verða virkar vegna þess samhengis sem við ákveðum þeim. Það dettur t.d. engum í hug að ekki sé hægt að byggja hús vegna skorts á sentímetrum, en flestir vita jafnframt að sentímetrar eru mikið notuð mælieining við húsbyggingar. En varla er hægt að byggja hús nú til dags ef peninga skortir þó nóg sé til af byggingarefni, vinnuafli og sentímetrum.

Svo lengi sem við samþykkjum hvernig með mælieiningarnar skuli farið þá verður okkar veruleiki byggður á þeim, rétt eins og víst er að tveir plús tveir eru fjórir, eða jafnvel verðtryggðir 10, svo lengi sem samkomulagið heldur.

Þeir sem á öldum áður fóru frjálslega með viðurkenndar mælieiningar voru oftar en ekki, rétt eins og nú, litnir hornauga, jafnvel ásakaðir um fjölkynngi eða fordæðuskap. Hvoru tveggja eru gömul íslensk orð notuð yfir galdur. Fjölkynngi má segja að hafi verið hvítur galdur þar sem sá sem með hann fór gerði það sjálfum sér til hagsbóta án þess að skaða aðra. Fordæðuskapur var á við svartan galdur sem var ástundaður öðrum til tjóns. Síðan voru lögin notuð til að dæma, og viðurlögin voru hörð.

Nú á tímum er auðvelt að sjá að mælikvarðar laganna sem notaðir voru til að brenna fólk á báli vegna galdurs voru hinn raunverulegi fordæðuskapur. En það var ekki svo auðvelt að sjá galdrabrennurnar í því ljósi á þeim tíma sem mælikvarðar galdrafársins voru í gildi. Rétt eins og nú á tímum eru tölur með vöxtum og verðbótum viðurkenndar sem mælikvarði á hagsæld, burt séð frá dugnaði fólks og hagfelldu árferði, þegar reglum mælistikunnar er fylgt. 

Ofsóknir með tilheyrandi galdrabrennum hófust hér á landi árið 1625, og er 17. öldin stundum kölluð brennuöldin, en talið er að 23 manneskjur hafi þá verið brenndir á báli. Þetta gerðist næstum hundrað árum eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu náðu hámarki. Þar með hófst skelfilegt tímabil fyrir fjölfrótt fólk þegar þekking þess var lögð að jöfnu við galdra. Tímabil þetta er talið hafa náð hámarki með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi.

Því hefur verið haldið fram í seinni tíð að geðþótti og fégræðgi valadamanna hafi verið orsök galdrabrenna á Íslandi, en ekki almanna heill. Þorleifur Kortsons sýslumaður í Strandasýslu átti þar stóran hlut að máli umfram aðra valdsmenn, þó er þessi neikvæðu mynd af honum ekki að finna í ritum samtímamanna hans. Hvort þeir hafa haft réttara fyrir sér en þeir sem stunda seinni tíma fréttaskíringar sem gera hann að meinfisum  fjárplógsmanni fer eftir því við hvað er miðað. Þorleifur átti til að vísa málum aftur heim í hérað og krefjast frekari rannsóknar ef honum fannst rök ákærunnar léleg. Röksemdir Þorleifs breytir samt ekki þeim mælikvarða að hann er sá íslenski valdsmaður sem vitað er að dæmdi flesta á bálið.

Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson, var hann brenndur fyrir kunnáttu sína með rúnir. Stórhættulegt var að leggja sig eftir fornum fræðum, hvað þá að eiga rúnablöð eða bækur í fórum sínum, sem og að hafa þekkingu á grösum til lækninga, en slíkt bauð heim galdragrun.

Hin fornu fræði, sem í dag eru talin til bábilja, sem var svo viðsjálfvert að þekkja á 17. öldinni voru á öldum þar áður talin til þekkingar. Í fornsögunum má víða lesa um hvernig fólk færði sér þessa þekkingu í nyt. Eru margar frásagnir af þeim fræðum hreinasta bull með mælikvörðum nútímans. Nema þá kannski geimvísindanna.

Egilssaga segir frá þekkingu Egils Skallagrímssonar á rúnum og hvernig hann notaði þær í lækningarskyni þar sem meinrúnir höfðu áður verið ristar til að valda veikindum. Eins notaði hann þessa þekkingu sína til að sjást fyrir sér til bjargar í viðsjálu.

Grettissaga segir frá því hvernig Grettir var að lokum drepinn út í Drangey með galdri sem flokkaðist undir fordæðuskap og sagan segir líka hvernig sá sem átti frumkvæðið af þeim galdri varð ógæfunni að bráð með missis höfuðs síns út í Istanbul.

Færeyingasaga segir frá því hvernig Þrándur í Götu beitti galdri til að komast að því hvað varð um Sigmund Brestisson og lýsir hvernig hann leiddi fram í málaferlum þrjá framliðna menn til vitnisburðar sem höfðu verið myrtir.

Í Eiríkssögu rauða segir frá Þorbjörgu lítilvölvu, sem sagan notar orðið "vísindakona" yfir, þar sem hún breytir vetrarkulda í sumarblíðu. Þetta gerði Þorbjörg vísindakona á samkomu sem líst er í sögunni, sem tilkomu mikilli skrautsýningu með hænsnafiðri og kattarskinni svo áhrifin yrði sem mest. Þar voru kyrjaðar varðlokur sem þá var kveðskapur á fárra færi, svona nokkurskonar Eurovision.

Allar sagnir af galdri bera það með sér að betra er að fara varlega þegar hann er við hafður, því fordæðuskapur þar sem vinna á öðrum mein kemur undantekningalaust til með að hitta þann illa fyrir sem þeim galdri beitir. Hins vegar má sega að fjölkynngi hafi oft komið vel og til eru heimildir um fólk sem slapp við eldinn á brennuöld vegna kunnáttu sinnar. Má þar nefna heimildir tengdar Jóni lærða Guðmundssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur Galdra Imbu.

Nú á tímum er gengið út frá því að snilli mannsandans sé hugsunin, sú sem fer fram í höfðinu. Á meðan svo er þá er rökfræðin oftast talin til hins rétta og ekki rúm fyrir bábiljur. Jafnvel þó svo að rökfræðin takamarki okkur í að svara sumum stærstu spurningum lífsins, líkt og um ástina, sem seint verður svarað með rökum.

Áskoranir lífsins eru náttúrulega mismunandi eins og þær eru margar, sumar eru rökfræðilegar, á meðan öðrum verður ekki svarað nema með hjartanu. Svo fjölgar þeim stöðugt nú á 21. öldinni, sem þarfnast hvoru tveggja.

Það er sagt að heilinn ráði við 24 myndramma á sekúndu sem er ekkert smáræði ef við búum til úr þeim 24 spurningar sem þarfnast svara. Svo er sagt að við hvert svar verði til að minnsta kosti tvær nýjar spurningar. Upplýsingatækni nútímans ræður við, umfram mannsheilann, milljónir svara sem býr til síaukinn fjölda spurninga á hveri sekúndu. Þannig ætti hver viti borinn maður að sjá að rökhugsun mannsins ein og sér er ofurliði borin.

Því er tími innsæisins runnin upp sem aldrei fyrr. Þess sem býr í hjartanu, því hjartað veit alltaf hvað er rétt. Nútíma töframenn vita að galdur felur í sér visku hjartans við að koma á breytingum í hugarheiminum, sígilda visku Gandhi þegar hann sagði "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum".

Fólk á brennuöld gat verið sakað um galdur fyrir það eitt að fylgja innsæinu opinberlega. Langt fram eftir síðustu öld fann hinsegin fólk sig knúið til að vera í felum vegna fordóma ef það opinberaði hjarta sitt.

Galdur sem fjölkynngi er byggður á margþættri vísindalegri greind, á tónum mannsandans þegar hann hefur slitið sig úr viðjum tíðarandans til að njóta töfra tímaleysisins og verður því sjaldnast sýnilegur með mælikvörðum samtímans, því ef svo væri gengi fjölkunnáttan oftar en ekki í berhögg við lög fordæðunnar.

Ps. Þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir tæpum tveimur árum síðan og er nú endur birt lítillega breytt í tilefni daga myrkurs.


Hundrað apar og vegan huldufólk

Þegar við vísindamaðurinn vinur minn hittumst eigum við það til að ræða um hundrað apa og huldufólk, auk þess að segja hvor öðrum álfasögur. Það þarf ekki að vera að við skiljum bofs í hvor öðrum og engin von er til að aðrir skilji baun eða hafi nennu til að setja sig inn í umræðuefnin. 

Svo kannski þegar við hittumst næst þá spyr hann "hvað var það nú aftur sem þú sagðir um apana". Þegar að ég er búin að fara yfir þróunarkenninguna um apana, þar sem Darwin er hafður víðsfjarri, þá bið ég hann um að fara aftur yfir það hvað varð um álfana sem hurfu um leið og raflýsingin leit dagsins ljós. Það er nefnilega oft með það sem maður hvorki sér né skilur, að ef kviknar ljós þá blasir við annar heimur.

Til að skýra hundrað apa kenninguna í örstuttu máli þá er um að ræða fyrirbæri þar sem ný hegðun eða hugmynd dreifist hratt út með óútskýrðum hætti frá einum hópi til skyldra hópa. Þegar viss fjöldi viðurkennir nýju hugmyndina sem góða þá verða samfélagslegar breytingar. Á eyjunni Koshima við Japanstrendur gáfu vísindamenn sveltandi öpum uppáhalds fæðuna sína, sætar kartöflur í sandinn á ströndinni. Aparnir tóku sætu kartöflunum fagnandi en fannst sandurinn óþægilegur. Átján mánaða gamall kvenapi leysti vandamálið með því að skola kartöflurnar í nærliggjandi læk. Hún kenndi móður sinni þetta trix. Leikfélagar hennar lærðu þetta líka og þeir kenndu mæðrum sínum.

Þessi nýsköpun var smám saman upptekin af ýmsum öpum fyrir augum vísindamannanna. Allir lærðu ungu aparnir að þvo sandinn af sætu kartöflunum. En aðeins fullorðnu aparnir sem líktu eftir ungviðinu lærðu þessa aðferð. Aðrir fullorðnir borðuðu sætu kartöflurnar með sandi. Svo gerðist það óvænta þegar ákveðinn fjöldi af öpum á Koshima eyju þvoði sætu kartöflurnar, nákvæm tala er ekki þekkt, segjum að einn morguninn hafi verið 99 apar á eyjunni sem höfðu lært að þvo sætu kartöflurnar. Gerum svo ráð fyrir að seinna um morguninn hafi hundraðasti apinn bæst í hópinn.

Það var þá sem undrið gerðist. Um kvöldið þvoðu svo til allar apafjölskyldurnar sætu kartöflurnar áður en þeir borðuðu þær. Viðbætt ákvörðun hundraðasta apans skapaði einhvern veginn hugmyndafræðilega byltingu. En það sem kom mest á óvart í þessari rannsókn vísindamannanna var að aðferðin við að þvo sætar kartöflur hoppaði síðan yfir hafið ... apar á öðrum eyjum og meginlandinu byrjuðu að þvo sætar kartöflur þó svo að á þeim væri eingin sandur.

Þannig að svo virðist að þegar viss fjöldi viðurkennir hvað sé rétt breiðist það út frá huga til huga án sýnilegrar tengingar. Þrátt fyrir að nákvæmur fjöldi geti verið breytilegur svo að af umskiptum verði þá merkir hundrað apa kenningin að þegar ákveðin fjöldi tekur upp nýja háttu, þá verður það því sem næst algilt. En það er í ferlinu stig þar sem aðeins þarf einn til svo verði til ný vitund.

Vísindamaðurinn vinur minn sagði mér frá því að sögur um álfa og huldufólk hefði verið kennsla móður til barna sinna í genum aldirnar um það hvernig hægt væri að búa til bjartari og betri heim á erfiðum og myrkum tímum. Það var ekki fyrr en ég las bókina Skyggna konan að ég skyldi álfasögur vísindamannsins til fulls.

Skyggna konan var Margrét frá Öxnafelli, sem segir frá því hvernig gáfan gerði vart við sig í bernsku. Hún sagði að móðir hennar hefði reynst henni mikil hjálparhella með því að trúa sýnum hennar þó svo að engir aðrir sæju þær, þá ræddi móðir hennar um þær við hana strax í bernsku. Hún segir í bókinni frá huldufólki og ljósum þess;",,,sá ég snemma ljós í fjallinu ofan við bæinn. Þegar dimmt var orðið á kvöldin, fór ég oft upp í glugga, sem sneri upp að fjallinu. Mér þótti svo gaman að sjá ljósin til og frá um fjallið. Þau báru bláleitari birtu en olíu ljósin heima. Þá þekkti ég ekki rafljós. En eitt sinn sá ég ljós kveikt með því að snúa snerli. Nú tel ég, að þetta hafi verið rafljós í húsum huldufólksins"

Um miðja 20. öldina flutti Margrét ásamt manni sínum úr Reykjavík til Akureyrar og bjuggu þau  þar í 10 ár. Þar varð hún vör við huldufólk við Glerána; "Ofan við gömlu rafstöðina  okkar, þar sem kletturinn er hæstur norðan við ána, er rafstöð huldufólksins. Var hún byggð á undan okkar rafstöð. Ég álít, að huldufólkið hafi notað rafmagn til ljósa á undan okkur." Með þessar skýringar að leiðarljósi tel ég fullvíst að huldufólk megi finna á hverju byggðu bóli og ég sjálfur sé í raun og veru raflýstur álfur.

Hundrað apar og huldufólk eru enn þann dag í dag að breyta heiminum. Það má nú um stundir best sjá á því hve margir velja sér vegan lífstíl. Sá dagur mun sennilega vera nær en nokkurn grunar að fólk lítur tilveru dýra allt öðrum augum en nú til dags í heimi verksmiðjubúskaparins. Um vitundarvakningu ungs vegan fólks má lesa þetta;

Vitundavakning fólks um dýravernd, umhverfisvernd og heilsuvernd hefur orðið til þess að fleiri velja að vera vegan. Markmið veganisma er að útiloka eða minnka eftir bestu getu dýraafurðir í fæðunni, fatnaði og neyslu almennt. Fyrir flesta er veganismi stór lífstílsbreyting og fæstir útiloka dýraafurðir alveg til að byrja með. Það er því mikilvægt að lengra komnir veganismar mæti nýbyrjendum þar sem þeir eru. Aukin meðvitund um kosti vegan lífstíls og minnkandi notkun dýraafurða almennt er jákvæð breyting. Veganismi er sögð vera stærsta réttlætisbaráttuhreyfingin í heiminum í dag.

Það er reyndar svo komið hjá síðuhöfundi að um stórhátíðar með nánustu fjölskyldumeðlimum þá þarf hann að hafa kjöt á kantinum líkt og hýena út í horni. En rétt eins og hjá gömlu öpunum þá tekur því varla fyrir upplýstan álf að byrja á því þvo sandaðar kartöflur þegar þetta langt er liðið á ævina. En hugmyndir unga fólksins ganga í allt aðra átt og þar styttist óðfluga í hundraðasta apann.

Svo er hér í lokin ein draugasaga í björtu.


Sviðinn akur sameiningar

Það mætti ætla sem svo að flestir fögnuðu því að komast aftur heim með því að vera áfram heima, líkast því að komast í himnaríki án þess að að geispa golunni. En nú stendur til að sameina minn fyrrum heimabæ Djúpavog við minn núverandi heimabæ, Egilsstaði. Reyndar á að kjósa um sameiningu fjögurra sveitarfélaga þann 26. október næstkomandi, Borgafjörð-eystri, Seyðisgjörð, Fljótsdalshérað og Djúpavog. Sveitarfélagið verður það langstærsta á landinu að flatarmáli verði sameining samþykkt. Reyndar hefur Fljótsdalshérað verið það víðfeðmasta til skamms tíma og hin eru víðfeðm líka nema þá helst Seyðisfjörður.

Ég hef ekki hugsað mér að kjósa um þessa sameiningu af þeirri einföldu ástæðu að mér er hlýtt til minna nágranna. Sjálfur bý ég á Fljótsdalshéraði sem er lang fjölmennast, og þykist þar að auki vita að þar munu völdin verða. Mér hefur reyndar aðeins dottið í huga að flytja á Djúpavog til að geta greitt atkvæði gegn sameiningu, svo hlýtt er mér til Djúpavogsbúa. Það hefur einfaldlega allstaðar sýnt sig að minni sveitarfélögin hafa lítið upp úr sameiningu og hingað til hefur þeim mörgum hverjum nánast blætt út og það á ekki síður við um þau sem hafa sameinast í Fljótsdalshérað.

Nú er það svo að markmið allra sveitarfélaga sem hafa sameinast undanfarin 30 ár er að efla búsetu og helst auka íbúafjölda á svæði sveitarfélagsins og efla samfélag svæðisins í heild. Fá markmið hafa misfarist eins hrapalega og í sameiningum á Austurlandi undanfarna áratugi. Það má segja að þessi sameininga bylgja hefjist upp úr 1990. Árið 1992 sameinast syðstu hreppar S-Múlasýslu, Geithellahreppur, Búlandshreppur og Beruneshreppur. Upp úr þeirri sameiningu varð til Djúpavogshreppur. Í fyrstu tveimur sveitarstjórnum Djúpavogshrepps átti ég sæti.

Þess er skemmst að minnast að sveitahrepparnir tveir Geithellna- og Beruneshreppur fóru fljótlega mjög svo halloka við þessa sameiningu. Skólar voru lagðir niður og samkomuhús seld. Fólksfjöldi í sameinuðu sveitarfélagi var þá um 600 manns, síðan þá hefur orðið um 20% fækkun og þá mest í sveitahreppunum. Djúpavogshreppur fór reyndar allur halloka fyrsta áratuginn eftir sameiningu sem best má sjá á því að börnum á grunnskóla aldri fækkaði frá því að vera yfir 100 í tæp 50.

Árið 1992 skrifaði ég tvær greinar í Austra um fólksfjölda- og sameiningamál. Þar var m.a. þetta um íbúaþróun; "Ef litið er til síðustu 20 ára hefur fólki fjölgað um 12% á Austurlandi á meðan fólksfjölgun á Íslandi hefur verið um 20% á sama tímabili. Þegar sama tímabil er skoðað má sjá að á Austurlandi eru nokkrir bæir sem hafa hlutfallslega vaxið hvað örast á landsbyggðinni og jafnvel þó litið sé til landsins alls. Höfn með fólksfjölgun upp á um 55%, Djúpivogur 35%, Egilsstaðir 78% og Fellabær 98%."

Séu þetta 20 ára tímabil borðið saman við þau 27 ár sem á eftir hafa komið er útkoman skelfileg. Fólki á Austurlandi hefur fækkað u.þ.b. 20% á meðan fjölgað hefur um u.þ.b. 30% á Íslandi. Þetta hefur gerst þrátt fyrir "stærstu framkvæmd Íslandssögunnar". Austurland er í raun ekki lengur til sem heild eins og það var fyrir 30 árum.

Hornfirðingar hafa forðað sér suður og Vopnfirðingar eru leiðinni norður. Austurlandskjördæmi hefur verið sameinað Suðurkjördæmi og Norðurlandskjördæmi-eystra. Fjórðungurinn er nánast rjúkandi rúst þrátt fyrir endalausar sameiningar. Og núna tala menn fjálglega um heimastjórnir í stóru sameinuðu sveitarfélagi fyrir minni sveitarfélögin, á svipaðan hátt og lofað var að halda úti skólum og annarri grunnþjónustu í þeim minni í upphafi sameiningaæðisins.

Svo skýtur annað slagið upp hugmyndum um að sameina bara allt Austurland í eitt sveitarfélag. Sú hugmynd er í raun ekki ný, þetta er það sem valið stóð um áður en sameininga ósköpin riðu yfir. Byggðahreyfingin Útvörður benti á þessa leið og urðu nokkrar umræður um hana níunda ártugnum, við lítinn fögnuð sveitarstjórnarmanna. Ég benti á þessa leið í Austragrein 1992 þegar mér var mikið niðri fyrir vegna sameiningarinnar á Djúpavogi. 

"Til er önnur leið sem sveitarstjórnarmenn og stjórnvöld virðast hafa komið sér saman um að þegja í hel. Það er þrískipting valdsins og héraðastjórnir. Þessa leið hefur byggðahreyfingin Útvörður útfært mjög nákvæmlega. Ef hún yrði farin myndi hún færa vald og fjárráð út í landshlutana án þess að stórkostleg sameining sveitarfélaga þyrfti að koma til. Einnig myndi ef þessi leið yrði farin, hægt að verða við óskum stærsta hluta þjóðarinnar um sjálfsögð mannréttindi, það er jöfnun atkvæðisréttar."

Nú er svo komið að Egilsstaðir sem tilheyra Fljótsdalshéraði hefur verð til skamms tíma eitt skuldugasta sveitarfélag landsins, af er sem áður var þegar Héraðs-hreppar voru með þeim betur reknu á landinu. Djúpivogur er með tiltölulega litlar skuldir á hvern íbúa í stóra samhenginu og meira en helmingi minni en eru á Fljótsdalshéraði. Skuldir á hvern Djúpavogsbúa munu meira en tvöfaldast við sameiningu. Þá er því haldið fram sem rökum fyrir sameiningu að Djúpivogur skuldi innviðum sínum viðhald sem hafi farið fram í öðrum sveitarfélögum með skuldsetningu. 

Sennileg er þar átt við fimleikahöll og körfuboltavöll sem hafist var handa við á Egilsstöðum þegar ljóst var að sameining stæði fyrir dyrum. Þessum framkvæmdum hefði því sem næst verið hægt að sleppa ef íþróttamannvirkin á Egilsstöðum væru notuð eins og til stóð þegar þau voru byggð fyrir börn í upphafi. En ekki til að halda úti körfuboltaliði rígfullorðinna manna sem er þar að auki oft mannað fjórum útlendingum af þeim fimm sem eru á samtímis inn á vellinum. Þessi mannvirki blasa öll við fyrir utan stofugluggann minn og kárungarnir segja að annað varamannaskýlið við nýja körfuboltavöllinn sé fyrir Seyðfirðinga hitt er væntanleg fyrir Borgfirðinga og Djúpavogsbúa.

Samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra hefur lagt út sín tromp varðandi sameininguna. Þau eru að mestu leiti veggjöld í anda Vaðlaheiðarvitleysunnar. Hann virðist halda að  fjallvegurinn yfir Öxi styttist við það eitt að malbika hann og leggja á veggjöld. Verður fólk tilbúið til að greiða 3000 krónur aukalega í hvert skipti sem farið er yfir Öxi í miðbæinn í skiptum fyrir það að losna við að þvo bílinn í rigningatíð? 

Þó hver mógúllinn á fætur öðrum mæri sameiningu sveitarfélaga hefur áratuga reynsla einungis skilið eftir sviðinn akur. Þó svo að hvert grásprengda sveitarstjórnarséníið á fætur öðru komi nú fram með gamla frasa á við að sameining gefi "at­vinnu­líf­i og íbúaþró­un­ gríðarleg tækifæri og  með því gæt­um við orðið raun­veru­leg­ur val­kost­ur við höfuðborg­ar­svæðið". Þetta eru í raun frasar sem þessir gömlu menn lærðu um svipað leiti og þeir gengu til fermingafræðslu fyrir 50 árum síðan. Stingandi nú sem fyrr höfðinu í sandinn þegar við blasir sviðinn akur.

Ég skora á mína fyrr um heimabyggð að treysta á sjálfa sig sem hingað til og sameinast ekki minni heimabyggð því þá gæti orðið um bónbjargarleið að fara með veggjöldum í varamannaskýlið.


Í upphafi skildi endirinn skoða

Það verður að segjast hreint út að manni er farið að gruna að til sveitarstjórna veljist eintómir fávitar. Nú er dásömuð sameining sveitarfélaga sem byggir á bættum samgöngum með sérstökum veggjöldum ofan á allt annað. Það er eins og þeir hafi ekki kynnt sér að í Noregi er orðin mikil andstaða við þá leið sem íslenskir ráðamenn ætla nú að þröngva upp á þjóðina og sveitastjórnarmenn hafa tekið að sér að dásama. 

Þegar ég bjó í Harstad í Troms N-Noregi var kosið um það í bæjarstjórnarkosningum árið 2011 hvort íbúarnir vildu flýta samgöngubótum með gjaldtöku, það var samþykkt naumlega, eins og í svo mörgum byggðum N-Noregs. Nokkrum árum seinna fóru að renna á fólk tvær grímur og heyrast fréttir af árangri gjaldtökunnar, m.a. frá Alta stærstu borgar Finnmerkur. Þó svo að ætla mætti að um brandara væri að ræða þá var svo ekki. Það kostaði nefnilega 1,30 kr að innheimta hverja krónu.

Nú keppast bæjarfulltrúar og sveitarstjórnarmenn á Íslandi við það að mæra gjaldtökuleiðina án þess að hafa hugmynd um hvað hún muni kosta. En ættu kannski heldur að spyrja að því með íbúum hvað ráðamenn gerðu við gjöldin sem voru eyrnamerkt vegaframkvæmdum en hafa af einhverjum orsökum rýrnað um allt að helming í meðförum stjórnmálamanna.

Halda þeir virkilega að veggjöldin hverfi ekki líka ofan í valda vasa?


mbl.is „Erum að horfa á nýja framtíð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband