Færsluflokkur: Landsins-saga
23.1.2019 | 13:06
Sænautasel og heimsmaðurinn á heiðinni
Nóbelskáldið taldi sig vera nokkuð vissan um að til væri aðeins einn íslenskur heimsborgari, maður sem talist gæti alþjóðavæddur. Það hefði margsannast að hann væri eini íslendingurinn sem allt fólk, hvar sem það væri í heiminum, myndi skilja. Þessi maður var Bjartur í Sumarhúsum, hetja sjálfs sín. Það er fátt sem hefur glatt hverúlanta samtímans meira en geta atyrt Bjart í Sumarhúsum með orðsnilli sinni við að upplýsa að í honum búi allt það verstau sem finna megi í fólki. Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna sem lýsir lífsbaráttu þessa sjálfstæða kotbónda í afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar hafi verið að finna Sænautaseli.
Undanfarin sumur höfum við hjónin þvælst margann góðviðrisdaginn um Jökuldalsheiðina til að kynna okkur undur hennar. Oftast var komið við í Sænautaseli, enda rekur fyrr um vinnufélagi minn þar ferðaþjónustu ásamt konu sinni og þar er hægt að fá bestu lummur á landinu. Eftir að maður var komin á bragðið fór ferðunum fjölgand með ættingjum og vinum til að sýna þeim undur Sænautasels og gæða sér á gómsætum lummum og kakói. Sænautasel var endurbyggt 1992 og hafa þau Lilja og Hallur verið þar gestgjafar síðan þá, en auk þess er bærinn til sýnis, og er eftirsótt af erlendum ferðamönnum sem lesið hafa Sjálfstætt fólk, að setja sig inn í sögusviðið með dvöl í bænum.
Tímarnir breytast og mennirnir með. Þar sem draugar áður riðu röftum í ærhúsinu er nú gestum og gangandi gefnar lummur á garðann og brynnt með kakói og kaffi innan um lopapeysur
Ástæða þessara mörgu ferða okkar var auk þess saga allra heiðarbýlanna og gætu ferðirnar þess vegna átt eftir að verða enn fleiri á næstu árum. Enda voru þessi heiðabýli 16 þegar best lét og við í mesta lagi búin að heimsækja helminginn. Til að fá sögu heiðarinnar beint í æð las ég samantekt Halldórs Stefánssonar í bókinni Austurland um heiðabyggðina, sem var í á milli 5-600 m hæð. Halldór Stefánsson segir m.a.; "Byggð þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri." Eins las ég Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness og Heiðarharm Gunnars Gunnarssonar auk fjölda annarra frásagna af lífinu í heiðinni. Hér á eftir fer hluti þess sem ég tel mig hafa orðið áskynja um Sjálfstætt fólk.
Horft heim að rústum Fögrukinnar sem var eitt af heiðarbýlunum. Gunnar Gunnarsson rithöfundur skrifaði bækur um búsetuna á heiðinni. Ein af þeim er Heiðarharmur sem fjallar um heimsfólkið í heiðinni með annarri nálgun en Halldór í Sjálfstæðu fólki. Gunnar segir frá því hvernig búsetan á heiðinni eyddist bæ fyrir bæ m.a. vegna uppblásturs. Sagt hefur verið að Gunnar hafi komið til álita sem Nóbelshafi á sama tíma og Halldór. Það sem á að hafa staðið Gunnari aðallega fyrir þrifum var aðdáun nasismans á verkum hans. Hann er t.d. eini Íslendingurinn sem vitað er til að hafi hitt Hitler. Þó Halldór hafi opinberaði skoðanir sínar á "gúlags" kommúnisma Sovétsins, sem var þá meðal sigurvegara stríðsins, varð það ekki talið honum til hnjóðs. Eftir að ryk moldviðranna er sest gægist það upp úr rykföllnu hugskotinu, að Nasistar hafi ekki verið þeir sem töpuðu stríðinu, Það hafi fyrst og fremst verið þjóðverjar og svo sjálfstætt fólk.
Það fer framhjá fáum sem setja sig inn í staðhætti að hin þekkta íslenska skáldasaga, sem þýdd hefur verið á fjórða tug tungumála, gerist á Jökuldalsheiðinni. Fleira en ferðlag Bjarts í Sumarhúsum á hreindýrstarfi yfir Jökulsá á heiði staðfestir tengsl sögunnar jafnt við staðhætti sem og þjóðsöguna. Í sögubyrjun má með góðum vilja sjá glitta í Hjaltastaðafjandann og þegar á líður verður ekki betur séð að Eyjaselsmóri ríði röftum á ærhúsinu í Sumarhúsum, þannig að Halldór hefur verið búin að kynna sér mögnuðustu þjóðsagnir á Héraði og flytja þær upp á Jökuldalsheiði. Þó eru sennilega fáir bókmenntafræðingar tilbúnir til að kvitta undir það að Sjálfstætt fólk sé í reynd sannsöguleg skáldsaga sem gerist á heiði austur á landi. Þeir hafa flestir hverjir kappkostað að slíta söguna upp með rótum til að lyfta henni á æðra plani, meir að segja talið sögusvið hennar hafa allt eins orðið til í Kaliforníu. En í þessu sem og öðru, er sannleikurinn oft lyginni líkastur um það hvar heimsborgarana er að finna.
Halldór Laxness ferðaðist um Austurland haustið 1926 og fór þá meðal annars um Jökuldalsheiðina og gisti í Sænautaseli. Halldór skrifar af þessu tilefni greinina Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni, sem birtist fyrst í Alþýðublaðinu í mars 1927. Þar segir m.a.; "Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerlíng, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum. -Fólkið í heiðinni dró fram allt það besta handa ferðalöngunum: Við fengum soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt morguninn eftir, kaffi og grjótharðar kleinur". Einnig þótti Halldóri það kindugt að húsbóndinn hafði helst áhuga á að vita hvort góðar afréttir fyrir sauðfé væru á Ítalíu, þegar til tals kom að víðförull heimshornaflakkari var á ferð í Sænautaseli. Ég var því miður ekki nógu menntaður til að svara þessari spurningu eins og vert hefði verið, eru lokaorð skáldsins í greininni.
Sænautasel við Sænautavatn; bærinn var byggður 1843 í honum var búið til 1943, ef frá eru talin 5 ár vegna Dyngjufjallagoss
Það eru reyndar til munnmælasögur þess efnis að Halldór hafi dvalið lengur í Sænautaseli en þessa einu skammdegisnótt og þegar saga heiðarbýlanna er skoðuð má finna marga atburði í sjálfstæðu fólki sem gerðust á öðrum heiðarkotum. Sumarið 1929 skrifaði Halldór uppkast að sögu um íslenskan bónda sem býr á afskekktri heiði. Þetta er fyrsta gerð skáldsögunnar Sjálfstætt fólk. Halldór las úr þessari frumgerð sinni fyrir vin sinn, Jóhann Jónsson, í Leipzig vorið 1931 og þóttist ætla að fleygja henni. Jóhann harðbannaði honum það og sagði að þetta væri það besta sem hann hefði skrifað. Svo merkilega vill til að bóndinn og aðalpersónan í þessari frumgerð Sjálfstæðs fólks hét einmitt Guðmundur Guðmundsson, eins og gestgjafinn í Sænautaseli sem bauð Halldóri upp á beljukjöt Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni.
Hvernig Nóbelskáldið lætur Sjálfstætt fólk líta út samkvæmt sinni heimsmynd hefur sjálfsagt mörgum sviðið sem upp ólust í Sumarhúsum Jökuldalsheiðarinnar. Skúli Guðmundsson sonur Guðmundar Guðmundssonar í Sænautaseli, af seinna hjónabandi og því ekki fæddur þegar Halldór var á ferð, hefur gert heiðinni ítarleg skil í ræðu og riti. Um mismunandi áhuga föður síns og heimshornaflakkara á búskaparháttum úti í hinum stóra heimi hefur Skúli þetta að segja.
"Það mun láta að líkum að bændur þeir sem bjuggu á Jökuldalsheiðinni, eins og bændur annars staðar á landinu, muni jafnan hafa skeggrætt um tíðarfarið og fénaðarhöldin er þeir hittust. Einnig eru til heimildir um að þeir muni jafnvel hafa leitað tíðinda varðandi þetta áhugamál sitt, ef svo bar við að til þeirra komu menn lengra að, og jafnvel frá fjarlægari löndum. Hins vegar er það öldungis óljóst hvort svoleiðis ferðagarpar hafi haft svör á reiðum höndum varðandi afkomu bænda í öðrum heimshlutum. Trúlega mun þeim hafa verið ýmislegt annað hugstæðara heldur en hvort einhverjir bændur skrimtu á kotum sínum þar eða hér. Undantekning mun þó e.t.v. hafa verið á þessu, og hugsanlega munu ýmsir hafa haft áhuga á basli þessara manna a.m.k. ef þeir eygðu möguleika á að notfæra sér nægjusemi þeirra sjálfra sér til frægðar og framdráttar." (Múlaþing 20 árg bls. 185-186)
Afréttalönd heiðarinnar eru hvoru tveggja, hrjóstrug og grasgefin, snjóþung og köld á vetrum, en hitinn getur auðveldlega farið í 20-25°C margann sumardaginn eins og svo víða á heiðum austanlands
Hverúlantar samtímans láta oftar en ekki ljós sitt skína við að atyrða persónu Bjarts í Sumarhúsum, með speki sinni upplýsa þeir að í honum sé allt það versta að finna. Honum er lýst sem einyrkja sem þverskallast við að halda sjálfstæði, sem megi myndgera í heimsku heillar smáþjóðar, kvennaböðli sem hélt konu og börnum í ánauð. Jafnvel hefur verið svo langt gengið að ætla honum barnaníð að hætti nútímans. En þó verður ekki annað skilið af skrifum þeirra sem ólust upp á meðal sjálfstæðs fólks í Jökuldalsheiðinni, en að þar hafi æskan átt sér góðar minningar. Margir seinni tíma menntamenn hafa lagt þetta út á allt annan hátt. Meir að segja verið haldin málþing um barnaníðinginn Bjart í Sumarhúsum og finna má hjartnæmar greinar frá guðfræðingum um ofbeldisfaðirinn Bjart.
Þann 19. nóvember 2014 var fjölmenni í Stúdentakjallaranum þar sem fram fór málþing um Sjálfstætt fólk sem var jólasýning Þjóðleikhússins það árið. Þar var Bjartur í Sumarhúsum gerður að barnaníðing, sem hafði haldið konum sínum í stofufangelsi, af hverjum sérfræðingnum á fætur öðrum. En til þess að finna barnaníð Bjarts stað þurfti að vísu að draga söguna inn í hugarheim hámenntaðra greininga nútímans því hvergi er minnst á barnaníð Bjarts í sögunni sjálfri, nema þá hve samfélagið var harðneskjulegt í fátækt þess tíma sem sagan gerist. Að vísu upplýsti Illugi Jökulsson á málþinginu að hann hefði átt blaðaviðtal við Nóbelsskáldið á sínum tíma þar sem hann hefði næstum því upplýst þetta leyndarmál aðalsögupersónunnar, en hann hefði bara ekki þorað að hafa það eftir skáldinu í blaðinu á sínum tíma.
Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson skrifa sameiginlega jólapostillu í vefritinu Trúin og lífið þar sem þau ferðast 2000 ár aftur í tímann og bera Bjart í Sumarhúsum saman við Jósef fósturföður Jesú Krists, og finnst þar ólíku saman að jafna, þar sem þau segja að Jósef hafi flúið til Egiptalands með konu og barn undan ranglæti Heródesar en Bjartur þrjóskast við í heiðinni með fjölskyldu sína og var varla ærlegur við neinn nem tíkina sem var honum algjörlega undirgefin. Þau segja; Sjálfstætt fólk er saga um óhlýðni við lífslögmálið, saga af hörmung þess rangláta hugarfars þegar hundsaugun eru valin umfram augu barnsins. Ekkert fer fyrir vangaveltum, í postillu þeirra prestanna, um það hvar Jósef hélt sig á meðan fóstursonurinn hékk á krossinum. Hvað þá endalokum bókarinnar, Sjálfstætt fólk, þar sem Bjartur brýtur odd af oflæti sínu, eftir að hafa misst Sumarhús á nauðungaruppboði ásamt aleigunni, og bjargar Ástu Sóllilju, þar sem hún var komin að því að geispa golunni í heilsuspillandi greni í nábýli siðferðilegs hugarfars, til þess að byggja henni og börnum hennar líf í draumalandi þeirra á heiðinni.
Í sumarhúsum heiðarinnar eru ævintýri að finna fyrir börn á öllum aldri
Björn Jóhannsson fyrrum skólastjóri á Vopnafirði gerir búsetu sinni á Jökuldalsheiðinn skil í bókinni frá Valastöðum til Veturhúsa. En í Veturhús koma Nóbelsskáldið og gætu þau einmitt verið kveikjan að Sumarhúsa nafngift sögunnar, miðað við staðhætti. Björn bjó á Veturhúsum um tíma, næsta bæ við Sænautasel, samt eftir að Halldór var þar á ferð. Björn hefur þetta að segja; Á yfirborðinu yrði þó saga Heiðarbúana lík, en hún yrði jöfnum höndum saga andstreymis og erfiðleika, búsældar og bættra kjara. Margsinnis hafa verið lagðar fyrir mig eftirfarandi spurningar: -Var ekki voða leiðinlegt að vera í Heiðinni? Kom nokkurntíma maður til ykkar. Þessum spurningum og öðrum slíkum hef ég svarað sannleikanum samkvæmt. En sannleikurinn var sá, að þó okkur væri ljóst að staðurinn væri ekki til frambúðar, hvorki vegna barnanna né heldur vegna einangrunar, ef veikindi bæri að höndum, held ég þó að hvorugt okkar hafi fundið til leiðinda. Hitt er svo annað mál, og kemur ekki leiðindum við, að við fórum þaðan strax og önnur betri atvinna bauðst, enda hafði ég aldrei ætlað mér að leggja kennarastarfið algerlega á hilluna.
Rústir Heiðarsels við Ánavatn en þar var Hallveig Guðjónsdóttir fædd og uppalin. Hún bjó síðar Dratthalastöðum á Úthéraði. Hallveig segir þetta af sínum grönnum í Sænautaseli í viðtali við Gletting 1995. "Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var".
Það sem hefur komið okkur Matthildi minni mest á óvart er að í friðsæld heiðarinnar höfum við fundið miðpunkt alheimsins, okkur hefur meir að segja ekki komið til hugar að fara til sólarlanda eftir að við uppgötvuðum sumarhúsin rétt við bæjardyrnar, ekki einu sinni séð ástæðu til að fara í Þjóðleikhúsið í sjálfum höfuðstaðnum til að uppfæra okkur smávegis í borgaralegri heimsmenningu. Enda hefur ekki þurft að fara langt til að njóta sólar og hitta auk þess afkomendur heimsmannsins, hennar hefur mátt njóta og þá hitta ókrossfesta á götum heimabæjarins.
Það hefur löngum verið einkenni íslensku hópsálarinnar að atyrða þá sem sjálfum sér eru nógir. Upp á síðkastið hefur þess sést stað í því hverjir teljast nægilega menntaðir fyrir flóknar aðstæður, jafnvel er svo langt seilst að ungt minna menntað fólk hefur ekki mátt hafa uppi einföld skilaboð um hvað til gagns megi verða fyrir þeirra jafnaldra. En í því sambandi má segja að heimsmaðurinn í Sumarhúsum hafi verið á undan sinni samtíð, og af þeirri gerð sem benti á það aldeilis ókeypis, með þögninni í kyrrð heiðarinnar, að "þú ert nóg".
Að endingu selfí og pikknikk
Landsins-saga | Breytt 19.3.2019 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.11.2018 | 18:49
Fullvalda 20. aldar maðurinn
Ætlarðu ekki að skrifa minningargrein um hann afa þinn, spurði hún Matthildur mín mig fyrir 19 árum síðan. Nei ég get það ekki, var svarið. Þetta þótti minni konu aumt svar. En málið var að ég gat engan veginn skrifað minningargrein um hann afa, sem var bæði minn besti vinur og nafni. Þau skrif hefðu varla orðið um annað en hve missir minn var mikill og þar af leiðandi ekki verið um hann afa minn.
Þegar föðurafi minn hélt á vit forfeðranna, tæplega 91. árs, þá var í þessum heimi til engra forfeðra lengur að leita og var ég þó ekki fertugur. Fram að því var afi minn sá sem alltaf hafði verið til staðar, sá sem hafði grátið með okkur systkinunum og föður við eldhúsborðið morguninn eftir að móðir okkar dó. Afi var sá sem sagði 10 árum seinna, þegar ég fann að ýmsu eftir líkræðu prestsins við útför föður míns; blessaður vertu ekki að svekkja þig á þessu nafni minn ég hef lent í miklu verri jarðarförum hjá honum en þessari.
Níu árum eftir að afi minn dó sagði hún Matthildur mín, ætlaðu ekki að skrifa minningu um hann afa þinn í tilefni 100 ára árstíðar hans, það er oft gert, og það þekktu hann fáir betur en þú. Nei, ég gat það ekki, vegna þess að ég þekkti hann afa minn ekki nógu vel. Það voru nefnilega setningar sem hann sagði á níræðis afmælisdeginum sínum sem fékk mig til að efast um hvort ég þekkti hann afa minn, besta vin og nafna, nógu vel til að geta skrifað svoleiðis æviágrip.
Og hvernig átti ég að vera fær um að skrifa minningu um mann sem lifað hafði meira en tímana tvenna, eða líkt og Tryggvi Emilsson lýsir í bók sinni Fátækt fólk þegar hann minnist ársins 1918 í hálfhruninni torfbaðstofunni á kotbýlinu Gili í Öxnadal. Þá bar enn til stórtíðinda og langsóttra sem gerjuðust svo í hugum manna að margir þeir, sem aldrei sáust brosa út úr skegginu eða virtust kippa sér upp við nokkurn skapaðan hlut, urðu drýldnir á svip og ábúðarmiklir rétt eins og þeir væru allt í einu orðnir að sjálfseignarbændum, en nú var Ísland fullvalda ríki. Ég heyrði föður minn tala um þann ægistóra atburð eins og hann hefði sjálfur átt þátt í úrslitunum. Þessi tíðindi bárust fyrir jól og var þeim fagnað alls staðar þar sem hátíð var haldin. Menn höfðu fylgst með sambandsmálinu framar öllum örðum málum á undanförnum árum og heyrði ég Guðnýju segja að þessi sigur væri fyrirboði annarra og meiri. Sjálfur var ég í uppnámi vegna fregnarinnar, sá landið í nýju og skæru ljósi og taldi víst að nú mundi hækka hagur íslenskra öreiga. Þannig vógu ein stórtíðindi góð á móti þrem stórtíðindum vondum, frostunum miklu, spænsku veikinni og Kötlugosi. (Fátækt fólk bls.279)
Hann afi minn hafði aldrei barmað sér í mín eyru fyrr en á 90 ára afmælisdaginn sinn. Þá var það tvennt sem hann angraði. Annað var hve margar rjúpur hann hefði drepið um ævina. Ég sagði að hann þyrfti nú varla að hafa samviskubit út af þeim, þar sem lífsbarátta fólks á hans yngri árum hlyti oft að hafa verið hörð og hann hefði alltaf borið þá virðingu fyrir bráð sinni að hún hefði verið étin upp til agna. Nei það voru ekki þær rjúpur, heldur rjúpurnar sem hann hafði selt þegar hægt var að selja til Danmerkur; það hefði engu breytt þó ég hefði verið án þeirra peninga, sagði hann. Hitt var atvik frá bernsku sem setti fyrir mér ævi afa míns í allt annað samhengi en ég hafði ímyndað mér fram að því.
Það er ekki fyrr en nú á 110 ára ártíð afa míns að ég ætla að reyna að minnast hans, og nú óumbeðinn. Reyndar var það bók Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, sem varð til þess að ég sá lífshlaup afa frá sjónarhóli sem ég hafði ekki komist á meðan hans naut við, en við lestur bókarinnar komst ég á skjá sem gaf aðra sýn. Hann og Tryggvi voru samtímamenn sem lifðu 20. öldina og því hægt að kalla 20. aldar menn. Það er varla til fólk sem hefur lifað stærri breytingar á umhverfi sínu og háttum en íslenskur almúgi sem lifði alla 20. öldina.
Á bókarkápu og í formála endurútgáfu Fátæks fólks árið 2010 segir; bókin vakti mikla athygli og umtal þegar hún kom út árið 1976 fyrir fádæma orðsnilld, persónusköpun og stíl, en þó fyrst og fremst fyrir þá sögu sem þar var sögð. Söguna af fátæku fólki fyrir tíma almannatrygginga; þegar hægt var að taka björgina frá barnmörgu heimili vegna þess að kaupmaðurinn þurfti að fá sitt; þegar litlum börnum var þrælað út í vist hjá vandalausum; þegar sjálfsagt þótti að senda hungrað barn gangandi tvær dagleiðir í vondu veðri til að reyna að fá úttekt í verslun. - Bókin Fátækt fólk var tilnefnd til Bókmenntaverðalauna Norðurlandaráðs árið 1977, og er haft fyrir satt að munað hafi svo fáum atkvæðum, sem talin voru á færri fingrum en finnast á annarri hendi, að verðlaunin féllu Fátæku fólki.
Bækur Tryggva, Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan, ætti hver og einn að lesa sem hefur minnsta áhuga á að kynna sér úr hvað jarðvegi íslenskt þjóðfélag er sprottið. Þó svo að bækur Tryggva Emilssonar hafi verið umdeildar á sínum tíma og hann hafi þótt fara hörðum orðum um menn og málefni, þá var varla hægt að gera það á annan hátt, nema fara í kringum sannleikann eins og köttur í kringum heitan graut. Auk þess segja bækurnar frá tæringunni (berklunum) og því hvernig íslensk alþýða komst út úr hálfhrundum torfbæjunum, sem höfðu verið hennar skjól í þúsund ár, inn í nútímann á aðeins örfáum áratugum.
Ég hafði spurt afa, í einhverri af okkar mörgu samverustundum, hvort það hefði ekki verið notalegt að búa í torfbæ. Hans svar var stutt og skorinort; minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn. Þegar ég gekk eftir hvers vegna, þá talaði hann í örstuttu máli um slaga, haustrigningar og vetrarkulda. Eins kom að lokum upp úr kafinu í þeim samræðum að foreldrar hans hefðu barist við berkla, sem hann taldi húsakostinn ekki hafa bætt. Faðir hans hafði tvisvar verið "hogginn" eins og kallað var, en það er þegar rifbein eru fjarlægð.
Jón Sigvaldason, faðir Magnúsar afa míns var smiður sem átti við berkla að stríða stóran hluta sinnar ævi, hann hefur því átt erfitt með að framfleyta fjölskyldunni. Hann þurfti oftar en einu sinni að leita sér lækninga við tæringunni, en það að vera höggvinn þýddi nánast örkuml og var lokaúrræðið í baráttunni við berkla fyrir tíma sýklalyfjanna. Foreldrar afa þau Jón Sigvaldason og Jónbjörg Jónsdóttir hafa því ekki átt sjö dagana sæla við að koma sínum barnahóp á legg. Það var einmitt á 90 ára afmælisdaginn sem ég heyrði afa í fyrsta og eina skiptið gefa örlitla innsýn í þá hörku sem var í samfélagi þessa tíma. Núna ætla ég að reyna að gera örstutta grein fyrir ævi afa.
Magnús Jónsson var fæddur á Fljótsdalshéraði 27. nóvember 1908 á Skeggastöðum í Fellum. Hvers vegna hann er fæddur á Skeggjastöðum í Fellum veit ég ekki nákvæmlega. Foreldrar hans ólu mestan sinn aldur austan við Lagarfljót á Völlum, í Skriðdal og áttu auk þess sín fjölskyldutengsl í Hjaltastaðaþinghá, en Fell eru vestan við Fljót. Mig minnir þó afi hafi sagst halda að Skeggjastaðir hafi verið hans fæðingastaður vegna þess að þar hafi þau hjónin verið stödd vegna vinnu smiðsins.
Jónbjörg og Jón eignuðust 5 börn sem komust á legg auk þess að missa tvö á unga aldri. Afi var elstur þeirra systkina sem upp komust og aldrei heyrði ég hann tala um þau systkin sem foreldrar hans misstu. En í kirkjubókum og minningargrein um systur hans kemur fram að þau hafa heitið Sigrún, sem fædd var á Ketilsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 10. júní 1901. Látin á Hreimsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 1. júní 1902. Í minningargreinni kemur fram nafnið Björgvin, en ekkert fann ég um fæðingarstað né aldur.
Næst á eftir honum kom Guðrún Katrín fædd 21.11.1911 á Víðilæk, Skriðdal. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 07.01.1956. Svo kom Þuríður fædd 11.11.1913 í Sauðhaga á Völlum. Húsfreyja í Tunghaga dáin 17.05.2006. Þar á eftir kom Benedikt Sigurjón fæddur 14.04.1921 í Hvammi á Völlum. Var búsettur í Reykjavík dáinn 19.11.2005. Síðust kom Sigríður Herborg fædd 17.02.1925 í Tunghaga. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 26.09.1989.
Það var þegar ég rakst á sóknarmanntöl sem höfðu ratað á netið að ég gerði mér fyrst örlitla grein fyrir hverskonar aðstæður þessi systkinahópur hafði alist upp við og er þar sjálfsagt ekki ólíku saman að jafna við marga fjölskylduna sem ekki hafði jarðnæði á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Afi minn er flest árin skráður til heimilis á sama stað og foreldrar hans en önnur ekki, það er þó sammerkt með þeim árum að hann er ævinlega skráður til heimilis á sama stað og Sigurður Björnsson frá Vaði í Skriðdal og Magnea Herborg Jónsdóttir kona Sigurðar, en þau hjón voru kennd við Sauðhaga.
Það má sjá á fæðingarstöðum barna þeirra Jóns og Jónbjargar, eins í sóknarmanntölum að lengi höfðu þau ekki fastan samastað. Það er ekki fyrr en í Tunghaga 1922 að þau teljast ábúendur með jarðnæði. Dóttirin Katrín er fljótlega skráð í sóknarmanntölum á tveimur stöðum, þar sem Jónbjörg móður hennar var og hjá fósturforeldrum á Seyðisfirði. Þuríður er alltaf skráð á sömu stöðum og móðir hennar. Sigurjón fæðist í Hvammi og Herborg í Tunghaga og eru ávalt skráð til sama heimilis og foreldrar.
Svo virðist vera að Sigurður hafi hætt ábúð í Sauðhaga árið 1918 og flust ásamt Magneu Herborgu konu sinni i Vað í Skriðdal, þar sem Ingibjörg móðir hans bjó ásamt seinni manni sínum og systkinum Sigurðar. Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði varð ekkja 39 ára gömul, er ávalt talin kvenskörungur af Viðfjarðarætt, varð 17 barna móðir og stór ættmóðir á Héraði. Hún keypti jörðina Vað árið 1907 sem var Skriðuklausturs eign, en þar hafði hún búið ásamt fyrri manni sínum Birni Ívarssyni sem dó 1900 frá 12 börnum. Hún giftist Jóni Björgvin Jónssyni ráðsmanni sínum 1901 og áttu þau 5 börn saman.
Þegar Sigurður bregður búi í Sauðhaga og fer í Vað 1918, hverfur Jón Sigvaldason úr sóknarmanntölum sennilega vegna sjúkrahúslegu, en Jónbjörg er skráð vinnukona á Mýrum í Skriðdal ásamt Þuríði dóttir sinni. Árið 1923 eru Sigurður og Magnea Herborg aftur komin í Sauðhaga eftir að hafa verið skráð bæði á Vaði og í Tunghaga í millitíðinni. Þennan tíma er Magnús afi ýmist skráður sem tökubarn eða léttadrengur hjá Sigurði og Magneu Herborgu þ.e. 10-14 ára gamall. Þetta fólk hafði áður haldið saman um nokkurt skeiði og verið skráð til heimilis í Sauðhaga og þá Sigurður sem bóndi en foreldrar afa sem vinnufólk.
Í minni bernsku heyrði ég oft að Björg amma og Magnús afi væru bæði ná skyld fólkinu í Sauðhaga, enda var ég part úr tveimur sumrum í sveit hjá nafna mínum og frænda Magnúsi Sigurðssyni á Úlfsstöðum, en hann var frá Sauðhaga. Ég vissi fljótlega að Sigurður og Björg amma voru systkin, en fékk aldrei nákvæma skýringu á skyldleika afa við fólkið í Sauðhaga. Þegar ég spurði afa út í þetta þá sagði hann; nú skaltu spyrja einhvern annan en mig nafni minn, enda var ættfræði ekki hans helsta áhugamál. Í sóknarmanntölum sést að Magnea Herborg í Sauðhaga var uppeldissystir Jónbjargar móður afa. Þær voru systradætur, Jónbjörg er sögð tökubarn, fósturdóttir Pálínu Jónsdóttir móður Magneu Herborgar en móðir Jónbjargar hét Guðlaug Þorbjörg.
Pálína þessi var í sóknarmanntölum skráð sem vinnukona hjá Magnúsi Guðmundssyni og Herborgu Jónsdóttur búandi á Ormstöðum, sem voru í Hallormsstaðaskógi, og síðar Víðilæk í Skriðdal. Þegar ég spurði afa hvers vegna hann hefði verið skírður Magnús, og hvaðan Magnúsar nafnið okkar væri upprunnið, minnir mig að hann hafi sagt að það væri eftir einhverjum Magnúsi á Hallbjarnastöðum, en Víðilækur er út úr Hallbjarnarstöðum og þær systur Pálína, Herborg og Guðlaug voru frá Hallbjarnarstöðum. Magnús og Herborg áttu eina dóttir, Björgu sem dó að fyrsta barni og barnið líka. Nöfn þessa fólks lifa enn innan fjölskyldnanna sem eiga ættir að rekja til þeirra uppeldisystra Jónbjargar og Magneu Herborgar.
Því er þessi málalenging úr sóknarmanatölum þulin, að megi fá smá innsýn í hverskonar almannatryggingar var um að ræða í upphafi 20. aldarinnar. Almanntryggingin fólst í nánasta fjölskylduneti, eða þá á þann hátt sem ég fann í viðtalsþætti Hallfreðs Eiríkssonar þjóðháttafræðings á ismús, við Sigurbjörn Snjólfsson í Gilsárteigi. En Sigurbjörn var ungur maður að stíga sín fyrstu búskaparár á Völlunum þegar þeir voru æskustöðvar afa míns. Sigurbjörn segir frá því hvernig fátækt barnafólk var litið hornauga af sveitarstjórn og segir þar frá örlögum barna Péturs, sem Sigurbirni sjálfum hafði staðið til boða að taka við af, fullfrískum manninum. En honum hafi boðist annað og flutt með konu og börn í aðra sveit.
"Á Völlunum bjuggu bæði fátæklingar sem og efnaðir menn. Efnuðu mennirnir bjuggu á bestu jörðunum. Fátæklingarnir bjuggu á kotum sem varla var hægt að búa á. Upphaflega lentu Pétur og kona hans sem vinnuhjú hjá séra Magnúsi (Blöndal í Vallanesi) og þau máttu hafa tvö börn með sér. Þau eignuðust fleiri börn og urðu þau þá að finna þeim samastað. Eitt sinn var haldinn sveitarstjórnarfundur og var þar aðalfundarefnið að ráðstafa þurfalingum. Þessir fundir voru kallaðir vandræðafundir. Þessir fundir voru haldnir um sumarmál. Oft var niðursetningum komið fyrir hjá fátæku fólki því að það átti að vera hagur þeirra því að með niðursetningunum fékkst greitt frá sveitarfélaginu."
Það má svo rétt ímynda sér hvernig vandræðafundur Vallahrepps hefði tekið á málum ef fyrirvinna barnafjölskyldu var fársjúkur berklasjúklingur, nánast orðin örkumla, eftir því hvernig var tekið á málefnum þeirra barna Péturs og Sigurbjörns Snjólfssonar fullfrískra ungra manna. En Sigurbjörn telur að svo stutt hafi verið liðið frá afnámi vistarbandsins á Íslandi að sveitastjórnarmönnum á Völlum hafi verið vorkunn með úrlausnirnar. Sjálfur sagðist Sigurbjörn eiga efni sem hann hefði skráð hjá sér vegna þessara framfærslu mála sem hann hefði lagt svo fyrir um að ekki mætti birta fyrr en löngu eftir hans daga og þeirra er hlut áttu að málum, í virðingarskini við samferðamenn sína.
Í 1. tlbl. 5.árg. Glettings 1995 gerði Guðrún Kristinsdóttir, hjá safnastofnun Austurlands, húsakosti á Héraði skil á fyrri hluta 20. aldar í greininni "Baðstofurnar hans Jóns Sigvaldasonar". En eins og komið hefur fram hafði Jón faðir Magnúsar afa míns smíðar að ævistarfi. Í grein Guðrúnar kemur fram að Jón hafi oft verið fengin til að færa gömlu torfbæina til nútímalegra horfs með sínu sérstaka lagi. En þetta gerði hann með því að byggja tvílyft timburhús inn í tóft eldri baðstofa með háan, járnklæddan timburvegg fram á hlaðið sem hafði útidyr og glugga, með járni á þaki sem tyrft var yfir, bakveggir og stafnar héldu sér úr torfi og grjóti.
Það kemur fram í grein Guðrúnar að heimili Jóns, gamli torfbærinn í Tunghaga, hafi verið síðasta baðstofan sem hann endurbyggði árið 1934. Sannast kannski þar hið sígilda að iðnaðarmaðurinn lætur endurbætur við eigið hús ævinlega sitja á hakanum. Líklegra er þó að lífsbaráttan hafi verið með þeim hætti hjá örkumla smið í þá daga að allt varð til að vinna við að afla heimilinu lífsviðurværis. En fram kemur í samantekt Guðrúnar ;"Jón vann fram á síðasta dag við fjósbyggingu á Höfða á Völlum, en veiktist af lungnabólgu er hann kom heim og dró hún hann til dauða 5. júlí 1936".
Tveimur árum eftir að Jón Sigvaldason endurbyggir baðstofuna í gamla torfbænum í Tunghaga flytur Magnús elsti sonur hans sig á Jaðar í Vallanesinu til að gerast vinnumaður ungu ekkjunnar eftir sr Sigurð Þórðarson sem dó úr berklum. Til æskuvinkonu sinnar Bjargar ömmu, sem var sjö árum eldri en hann, systur Sigurðar fóstra hans í Sauðhaga. Húsið á Jaðri var stundum talin fyrsti herragarðurinn á Íslandi byggður af séra Magnúsi Blöndal sem var einn af umdeildari Vallanesprestum, og stóð m.a. að vandræðafundunum sem Sigurbjörn Snjólfsson greinir frá.
Nú skal farið hratt yfir sögu enda kom hver dagur 20. aldarinnar eftir þetta með betri tíð, eða eins og segir í dægurlagatextanum; birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr hver dagur sem ég lifði í návist þinn. Afa og ömmu búnaðist vel í Vallanesinu, fyrir átti amma tvær dætur þær Bjarghildi Ingibjörgu og Oddrúnu Valborgu Sigurðardætur. Þau eignuðust svo saman synina Sigurð Þórðarson og Ármann Örn auk þeirra ólust upp hjá þeim Gerður, Sigurður og Emil af eldri börnum þeirra systranna, svo vorum við nokkrir peyjar sem fengum að dvelja þar í sveit á sumrin sem nokkurskonar flórgoðar. Það ruglaði mig oft svolítið í rýminu þegar ég var barn að þau Gerður og Siggi skyldu alltaf kalla þau afa og ömmu, pabba og mömmu, en svo miklu ástfóstri tóku þau við þau gömlu.
Afi var bóndi öll sín bestu ár, hann var eldhugi, hamhleypa til verka og það stóðst fátt fyrir honum. Hann kunni að hnýta saman þvílíku úrvali blótsyrða þegar hann stóð frami fyrir erfiðleikum að meir að segja ég gat ekki annað en lært að nýta mér þær þulur. Ef sérlega illa stóð á var formálin eitthvað á þessa leið; fari það svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti. Þar með voru hamskiptin komin á og ráðist með áhlaupi til verka þannig að ekkert stóðst í veginum. Ég verð var við það enn þann dag í dag þegar erfiðlega gengur í steypuvinnunni að vinnufélagar mínir eiga til að glotta yfir því orðavali sem ég viðhef í gegnum steypuhauginn.
Amma var fyrrverandi prestfrú í Vallanesi, ekkja sr Sigurðar Þórðarsonar frá Skeiði í Arnarfirði, þess sem hóf prestskap sinn sem aðstoðarprestur hjá sr Magnúsi Blöndal og sameinaði söfnuðinn eftir deilur og daga sr Magnúsar í Vallanesi. Í minni bernsku var Björg amma kirkjuorganisti í Vallneskirkju og afi meðhjálpari. Amma var oft kölluð frú Björg af samsveitungum og vottaði ekki háði í þeirri nafnbót. Enda amma af almúgafólki komin sem ekki hafði verið mulið undir, frúar nafnbótin var tilkomin af verðskuldaðri virðingu fyrir almúgakonunni.
Á Jaðri var tvíbýli og gott á milli granna. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, húsið steinsteypt, svo kalt á vetrum að ekki voru tök á að kynda öll þau salarkynni í stofuhita. Sjálfur fékk ég að kynnast hrollköldum herragarðinum í Jaðri þegar ég var barn í sveitinni hjá ömmu og afa. Eins man ég eftir að hafa komið í eina af baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar, bjartan sumarmorgunn og fundist hún notaleg, en það var í Vallaneshjáleigu. Amma og afi bjuggu í Jaðri í Vallanesinu til 1970, amma þá búin að vera þar í 45 ár og afi í 34, þá fluttu þau í Selás 26 á Egilsstöðum.
Á Selásnum setti afi upp steinplötu við útidyrnar, sem í var grafið Björg Magnús, ég hafði orð á því við hann að það vantað og á milli nafnanna; við amma þín erum fyrir löngu orðin eitt, nafni minn, svaraði hann. Þarna áttu allir afkomendur afa og ömmu öruggt skjól líkt og í Vallanesi. Afi notaði árin á Egilsstöðum til að fínstilla logann innra með eldhuganum.
Amma sagði mér frá fyrstu kynnum sínum af þessum funa bráða dreng á æskuheimilinu Vaði, og augun hennar ljómuðu við frásögnina. Þá undraði mig ekkert hvernig þau hefðu þekkst frá því þau voru börn á sama heimili, spáði aldrei í það, enda trúir barnsálin því að amma og afi hafi alltaf verið saman. En eftir að ég rakst á sóknarmanntölin á netinu þykist ég vita að litli drengurinn hafi komið í Vað á æskuheimili ömmu með Sigurði eldri bróður hennar sem tökubarn þegar fyrra ábúð hans lauk í Sauðhaga.
Amma og afi bjuggu í 13 ár saman á Selásnum, en þá fór amma á sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Þar lá hún á milli tveggja heima í 5 ár, uns hún kvaddi þennan 20. október 1988. Ég átti oft skjól hjá afa árin sem amma var á sjúkrahúsinu, stundum svo mánuðum skipti. Afi fór á hverjum degi niður á sjúkrahús til að eiga stund með ömmu, ég fór einu sinni, fannst amma ekki vera þar og treysti mér ekki oftar. Stundum sagði afi þegar hann kom heim að lokinni heimsókn á sjúkrahúsið; ég er ekki frá því nafni minn að hún amma þín hafi vitað af mér hjá sér í dag, en aldrei fann hann að fælni minni við sjúkrahúsið.
Þegar systkini afa komu í heimsókn sást langt aftur í gamlan tíma, móttökur og kveðjur þeirra heimsókna voru innilega fallegar. Þegar Tunghagahjónin, Sigþór og Þura systir afa, komu í heimsókn skynjaði maður hvað elsti bróðirinn hafði verið mikils metin þegar foreldrarnir fengu ábúðina í Tunghaga, hrjáð af berklum og komin með 4 barna hóp. Þá hafði næstelsta systirin Katrín verið hjá fósturforeldrum, sem voru skyldfólk á Seyðisfirði, í nokkur ár. Sigþór og Þura giftu sig 1936 árið sem Jón Sigvaldason dó og keyptu síðar Tunghaga. Margir heimsóttu afa reglulega á Selásinn, gamli héraðslæknirinn, presturinn, verkamaðurinn, alþingismaðurinn ofl, ofl, og varð ég oft vitni af áhugaverðum samræðum. Afkomendurnir komu auðvitað oft í heimsókn og upp á milli þeirra gerði afi aldrei.
Það var ekki oft í seinni tíð sem afi var á faraldsfæti en hann kom samt nokkru sinnum í dagsferð á Djúpavog til að heimsækja nafna sinn og einu sinni stoppaði hann í nokkra daga. Skömmu eftir að þau amma og afi hættu að búa í Vallanesinu var farin fjölskylduferð norður í land til að heimsækja afkomendur og vini í Skagafirði. Við bræðurnir vorum í 1946 willysnum með afa, en amma var í bíl með foreldrum okkar og systrum. Það var allt svo stórkostlegt sem fyrir augu bar að við bræður máttum hafa okkur alla við að minna afa á hvar á veginum willysinn var, og miklar voru áhyggjur okkar bræðra þegar var farið um Ólafsfjarðarmúlann því willysinn átti það til að hrökkva úr gír og ekki var nú útsýnið amalegt í Múlanum þegar halla fór til Ólafsfjarðar. Einu sinni fór afi út fyrir landsteinana og urðu Færeyjar fyrir valinu.
Á Egilsstöðum vann afi fram yfir sjötugt, hann vann nokkur ár í skóverksmiðjunni Agila, síðan sem sendibílstjóri og lagermaður hjá Verslunarvélagi Austurlands, við byggingavinnu og að lokum hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Eftir að hann hætti í fastri vinnu tók hann að sér ýmis verkefni s.s. að sjá um sumarstarfsvöll fyrir unga Egilsstaðabúa þar sem byggð voru fallegustu hús bæjarins, slá og hirða lóðir fyrir stofnanir og hjálpa skólabörnum yfir götu á varasömustu gatnamótum bæjarins. Í dag má sjá lögreglubíl við þessi gatnamót á annatíma þegar vænta má flestra barna, ökumönnum til áminningar. Hann sagði mér eitt sinn að ef hann hefði haft val á sínum yngri árum hefði hann sennilegast ekki orðið bóndi, menntavegurinn hefði orðið fyrir valinu.
Í áranna rás hafði ég ekki áttað mig á hversu stórt hlutverk afi minn hafði í mínu lífi. Á árunum 1997 og 1998 var ég um tíma við störf í Ísrael við að leggja iðnaðargólfefni á verksmiðjur gyðinga í Galíleu. Við höfðum nokkrir íslendingar tekist á hendur að fara í nokkurskonar útrásarvíking í samstarfi við ísraelskan umboðsmann. Þessi ár vann ég í nokkurra vikna úthöldum ásamt gólflagnamönnum sem ég vann ekki með á Íslandi. Við gistum á samyrkjubúum en borðuðum í grennd við vinnustað og var það frekar fábreitt sjoppu fæði, Mc Donalds eða shawarma hjá götusala, svona eitthvað svipað og pilsa með öllu heima á Íslandi.
Á leið í næturstað að loknum vinnudegi var svo reynt að hafa upp á einhverju kræsilegra að éta. Eitt skiptið höfðum við óvænt lent inn á veitingastað hjá aröbum og borðuðum þar góðan mat, -að mér fannst. Ég stakk oft eftir það upp á því við félaga mína að fara aftur á araba staðinn. Það var að endingu látið eftir mér, þegar við sátum að snæðingi þá sagði annar félaginn; hva, þú færð þér svo bara það sama og síðast. Ég jánkaði því og sagði; lambakjötið hérna er næstum jafn gott og það íslenska og næstum eins og afi hafi steikt það. Vinnufélagar litu kímnir á hvern annan og annar þeirra sagði; það hlaut að vera að þessi staður hefði eitthvað að gera með hann afa þinn.
Síðsumars 1999 brugðum við Matthildur mín okkur upp í Hérað ásamt börnunum okkar tveim. Ferðin var farin til að sigla á Lagarfljótinu, en þá hafði ferjan Lagarfljótsormurinn nýlega hafið siglingar frá Egilsstöðum inn í Hallormsstað. Eins og vanalega komum við á Selásinn til afa og hafði ég gengið með þær grillur að afi myndi hafa gaman að því að koma með í siglinguna. Hann var þá, auk aldursins, orðinn helsjúkur. En á björtum sumardegi þá man maður afa sinn alltaf sem hetju bernskuáranna. Þrátt fyrir hve af honum var dregið gat ég ekki stillt mig um að biðja hann um að koma með í siglinguna. Hann brosti og svaraði; já ég held ég geri það bara nafni minn.
Ormurinn sigldi inn Fljótið í sólskini og 20 stiga hita á meðan Héraðið skartaði sínu fegursta til beggja handa. Við nafnarnir sátum saman í skuti meðan siglt var með vesturbakka Fljótsins, Fellamegin, og fylgdumst með því sem fyrir augu bar. Á móts við Skeggjastaði beygði Lagafljótsormurinn þvert yfir Fljótið og tók landi við Atlavík í Hallormstaðaskógi. Þegar áningunni þar var lokið var siglt út Fljótið að austanverði fram hjá Vallanesinu með sínum líparítgulu fljótsmalarfjörum þar sem afi hafði lifið sín manndómsár, siglingin endaði svo við sporð Lagarfljótsbrúarinnar á Egilsstaðanesinu. Þetta var síðasta ferðin okkar afa, við höfðum farið með bökkum Fljótsins þar sem hann fæddist og ól sinn aldur. Hann hélt svo til æðri heima á vit fólksins síns 13. nóvember 1999. En ég sigldi inn í 21. öldina þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast fullvalda 20. aldar manninum, sem aldrei fór fram á önnur laun í lok dags en að fólkinu hans liði vel.
Hann afi minn var af kynslóð fólks sem lifað hafði frá torfbæ til tölvualdar, fólks sem þakkaði sér hvorki uppbyggingu né framfarir 20. aldarinnar, heldur sagði að svona hefði þetta nú bara æxlast og það hefði tekið þátt í því. Hann var afkomandi kotfólksins, sem tók öllum höfðingjum fram. Hann tilheyrði ungu fólki sem fékk fullveldið í fermingargjöf og mundi tímana tvenna.
Tryggvi Emilsson lýsir hörðum kjörum kotfólksins svo í upphafi 20. aldar. Á vorin ætlaði aldrei að hlána þessar fáu rollur gengu magrar undan hörðum vetrum og snjóþungum. En þegar loksins náði til jarðar og grösin komu græn undan snjónum voru stráin svo kjarngóð að ærnar, sem voru stundum komnar með horlopa, hjörnuðu fljótt við. Lömbin komust á spena og mjólkin varð feitari með hverjum degi, og svo var fært frá. Þyngsta þrautin var að standast afleiðingar vetrarhörkunnar þegar seint voraði. Börnin voru mögur og lasburða en reyndu þó að skríða á eftir henni móður sinni þegar hún var að hreinsa túnið, með bláar hendur eftir frostbólguna um veturinn, faðirinn fór sér hægt, þrótturinn var ekki á marga fiska. (Fátækt fólk bls.299)
Afkomendur kotfólksins skildu þannig við 20. öldina að Rúnar heitin Júlíusson gat sungið seint á áttuna áratugnum þannig um lífskilyrði kynslóðarinnar okkar sem sigldum um miðjum aldur inn í þá 21., við texta Þorsteins Eggertssonar; betri bíla, yngri konur, eldra viskí, meiri pening, en það verður allt önnur saga. Hvað þá hvort kynslóðinni, sem vanist hefur snappi takist að tengja sig við fullveldið með appi.
Landsins-saga | Breytt 20.4.2019 kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.10.2018 | 20:52
Aumasti prestur á Íslandi
Þetta sagði biskup um séra Jón, og lét hann einnig hafa það eftir sér að ekki gæti hann ímyndað sér að til væri vesælli og fátækari prestur í veröldinni. Í bréfi biskups kemur fram að séra Jón hafi flosnað upp, flakkað um verganginn, en börn og kona gengið betlandi bæ af bæ. Séra Jón tapaði oftar en einu sinni aleigunni, meir að seigja sænginni sinni. En hann tapaði aldrei fjölskyldunni.
Einu sinni var það svo að ættfræði þóttu mikil alþýðuvísindi. Eftir að Íslendingabók varð öllum aðgengileg hefur farið minna fyrir þessum fræðum enda getur hver sem er flett sjálfum sér upp í einrúmi og komist að því til hvaða höfðingja rætur liggja. Þó svo gagnagrunnur Íslendingabókar sé ekki tæmandi og stundum tínist þráðurinn er hæpið að hægt sé að bæta við þá vitneskju með frekari eftirgrennslan.
Fyrir rúmum 30 árum síðan var ég heilan vetur hjá afa mínum og nafna. Þá sýndi hann mér ættartölu sína sem honum hafði nýlega verið færð og þótti okkur þetta athyglisvert plagg. Það sem mér fannst merkilegast þá í þessari ættartölu var hvað mikið af Jónum var í ætt afa míns, ekki nóg með að hann hafi verið Jónsson þá hét móðir hans Jónbjörg Jónsdóttir. Ættleggur Jónbjargar fór fljótlega út um víðan völl í eintómum Jónum því það var ekki nóg með þeir væru mann fram af manni heldur voru systkinahópar stundum með tveimur og að mig minnir þremur Jónum, ef einhver Jóninn hafði fallið frá í æsku. Það var samt svo með Jón föður Magnúsar afa að hann var Sigvaldason og síðan var hæfilega mikið af Jónum í þeim legg, þannig að halda má þræði langt aftur í aldir.
Þennan vetur sátum við nafnarnir við eldhúsborðið, sem Jón Sigvaldason hafði smíðað, kvöld eftir kvöld og ræddum horfna tíð og sagði hann mér þá oft hvað það hefði verið bagalegt hvað hann hefði haft lítinn áhuga á ættum sínum á yngri árum því þegar hann mundi fyrst eftir sér hefðu gömlu konurnar haft það alveg á hreinu hver var hvaða Jón.
Þjóðsögurnar hans Sigfúsar Sigfússonar voru svo eitt áhugamálið sem kom til umræðu við eldhúsborðið, svona nokkurn veginn um leið og ég las þær. Þar mátti finna mikla þjóðasagnapersónu sem var Jónsdóttir úr ættartölunni, sem ekki verður gerð skil að þessu sinni. En einn var sá Jón sem við afi minn stoppuðum sérstaklega við, hann var Brynjólfsson, sá sem Hannes biskup Finnsson kallaði aumasta prest á Íslandi. Nú á dögum er því sem næst hægt er að kalla fram hvaða Jón sem er úr fortíðinni á alheimsnetinu, svo ekki sé talað um séra Jón, þar sem má nánast fá ævisöguna alla.
Þegar forvitnast er um séra Jón Brynjólfsson kemur í ljós að hann var ekki eins aumur og orð biskups gefa til kinna, ef miðað er við þróunarkenninguna, því hann mun nú vera einn af helstu ættfeðrum austfirðinga. Þó svo 225 ár séu á milli mín og séra Jóns, þá er tiltölulega fljótlegt að fletta honum upp á netinu þannig að heillegt æviágrip fáist og ekki er verra að fræðimaðurinn Ármann Halldórsson hafði gefið út bókina Mávabrík fyrir daga netsins þar sem hann hefur tekið saman efni viðkomandi ævi Jóns Brynjólfssonar.
Það er yfirleitt meira vitað um presta en alþýðufólk fyrr á tíð, af þeirri einföldu ástæðu að þeir þurftu að fylla út kirkjubækur og skrifuðu talsvert um sjálfa sig í því málavafstri sem bréflega fór á milli þeirra og yfirvalda. Í þetta efni sökkti Ármann Halldórsson sér í ellinni og sagðist hafa gert það a.m.k. tveimur orsökum. Séra Jón Brynjólfsson og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir, eru einhverjir mestu ættarforeldrar á Austurlandi. Önnur er sú að ævi hans er söguleg, því að líklega er um að ræða átakanlegustu fátækrasögu nokkurs manns í prestastétt. Eins sver Ármann ekki fyrir, að áhugi hans á þessum örsnauðu presthjónum hafi með það að gera að hann á ætt til þeirra að rekja.
Íslendingabók hefur þetta æviágrip að geyma; Jón Brynjólfsson Fæddur um 1735, látinn á Ormsstöðum í Eiðasókn, S-Múl. 15. febrúar 1800. Djákn á Skriðuklaustri 1758-1760. Prestur á Hjaltastað í Útmannasveit 1760-68, Skeggjastöðum á Langanesströnd 1768-76, mun þó hafa flosnað upp þaðan 1775. Kom börnum sínum og konu sinni fyrir á Austurlandi en fór sjálfur suður á land þá strax. Þjónaði Landþingum veturinn 1776-77 og settur prestur í Holtaþingum í Landsveit mestallt árið 1779. Fékk Fjarðarsókn í Mjóafirði, S-Múl. 1780 og var þar í Firði 1780-83, kom þangað sunnan úr Holtum í Rang. Var á Hesteyri í Mjóafirði 1783-84 og Krossi í Mjóafirði 1784-85 er hann fór að Eiðum. Prestur á Eiðum í Eiðaþinghá frá 1785 til dánardags 1800.
Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir fædd í Eyvindarmúla í Fljótshlíð 1744, látin í Dölum í Hjaltastaðaþinghá 4. september 1834. Prestfrú á Eiðum. Vinnukona í Krossavík, Refsstaðarsókn, Múl. 1801. Barnfóstra á Hofi, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1816. Faðir Jóns var kallaður Brynjólfur allstaðar Markússon eða Tuttugubýla Brynki.
Eiðavinir hafa tekið þetta saman á vefinn sinn um Jón Brynjólfsson (1735-1800) varð prestur á Eiðum 1785. Kona hana var Ingibjörg, systurdóttir Hans Wium (Bóel). Jón var Sunnlendingur, og hafði gegnt prestþjónustu á ýmsum stöðum, m.a. á Austurlandi, en hafði lengst af búið við sára fátækt og ómegð, svo mjög að Hannes biskup kallar hann aumasta prest á Íslandi í bréfi 1792, enda hafði hann oftar en einu sinni komist á vonarvöl. Hans Wium aumkar sig yfir þennan, tengdamann sinn, og byggir honum Eiða 1785, og þar kallast hann bóndi næstu árin.
Nokkru áður en Hans lést (1788) hafði hann selt Þórði Árnasyni mági sínum Eiðastól. Flutti Þórður í Eiða 1789 og hrökklaðist séra Jón þá í Gilsárteig og síðan í Ormsstaði, sem þá voru í eyði, bjó þar til æviloka árið 1800, og virðist hafa búnast sæmilega. Þau hjón áttu fjölda barna; af þeim komust 10 á legg og 9 eignuðust afkomendur. Er mikill ættbogi af þeim kominn. Þar á meðal eru nokkrir helstu fræðimenn og rithöfundar Austurlands, svo sem Jón Sigurðsson í Njarðvík, Halldór Pétursson frá Geirastöðum, Sigurður Óskar Pálsson og Ármann Halldórsson, en hann ritaði þátt um forföður sinn og birti í bók sinni Mávabrík (1992).
Það má kannski segja að litlu væri við þetta að bæta ef ekki kæmi til Mávabrík Ármanns Halldórssonar. En þar kemur fram rétt eins og hjá Eiðavinum að Ingibjörg Sigurðardóttir kona Jóns var dóttir Bóelar, dóttur Jens Wium sýslumanns, sem var systir Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Jón var sunnlenskur að ætt og ekki gott að sjá hvort hann var fæddur í Rangárvalla eða Árnessýslu því eins og kemur fram í viðurnefnum föður hans, tuttugubýla Brynka eða Brynjólfur allstaðar, bjó hann víða.
Það er á Skriðuklaustri undir verndarvæng Hans Wium sýslumanns sem Jón Brynjólfsson hefur sinn starfsferil, sem djákni því þó svo að hann hafi þá verið búin læra til prests hafði hann ekki aldur til vígslu. Ingibjörg sem átti eftir að verða kona hans er fædd á Suðurlandi en hefur sennilega alist upp á Austurlandi og þau kynnst þar. Sigurður faðir hennar var sunnlenskur og hafði hann farið með klausturumboð á Suðurlandi, en drukknaði í Lagarfljóti og hefur þá sennilegast búið á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð því Bóel kona hans var yfirleitt kennd við Surtsstaði.
Jón hafði útskrifast frá Skálholtsskóla 1755 og var djákni á Skriðuklaustri 1758-1760, þegar hann vígist í Skálholti sem prestur á Hjaltastað. Eldklerkurinn Jón Steingrímsson var vígslubróðir hans og áttu mestu harðindi Íslandssögunnar eftir að marka líf þeirra beggja. Jón og Ingibjörg giftast 1765 en árið áður fæðist elsta barn þeirra. Ingibjörg hefur sennilega talist vera það sem kallað var ættgöfug manneskja því hún var af Wium ætt sem stærði sig af tengslum við dönsku konungsfjölskylduna. Afi hennar Jens Wium var danskur og hafði komið til Íslands sem undirkaupmaður við Reyðarfjörð og varð síðar sýslumaður í Múlaþingi með aðsetur á Skriðuklaustri.
Þau Ingibjörg og Jón eru á Hjaltastað til ársins 1769 og höfðu þau þá eignast þrjú börn, þau Sigurveigu, Elísabetu og Brynjólf. Þá taka þau sig upp og flytjast í Skeggjastaði á Langanesströnd, ekki er vitað hvað varð til þess. Þar er Jón prestur til 1775 en þá flosnar hann upp. Það að flosna upp þýðir á þessum tíma að verða matarlaus, heylaus og jafnvel eldiviðarlaus. Þá höfðu bæst við í barnahópinn Sigurður, Bóel, Níels og Kristín. Í bókinni Árferði á Íslandi í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen, segir að 1774 hafi stórharðindi verið í Múlasýslum og fólk dáið úr hungri, 60 manns í Norður-Múlasýslu og presturinn á Skeggjastöðum flosnað upp og yfirgefið brauðið.
Til eru heimildir um hvernig brotthvarfi séra Jóns var háttað, m.a. vegna þess að hann var sakaður um að hafa selt pott sem hann hafði veðsett. Biskup segir í bréfi vegna þess máls að ekki sé rétt að sakfella Jón vegna pottsölunnar þar sem hann hefði selt hann í neyð og kaupandanum hafi verið fullkunnugt um veðböndin sem á pottinum hvíldu. Eins kemur fram í ferðabók Olaviusar, sem kemur í Skeggjastaði nokkrum árum eftir brottför Jóns, að Skeggjastaðir séu eitt lélegasta brauð í öllu landinu.
Sagt er í Íslendingabók að Jón hafi komið fjölskyldunni fyrir á bæjum á Héraði eftir brottförina frá Skeggjastöðum og sjálfur farið suður á land og haldið þar til næstu árin. Ármann Halldórsson telur þó að fjölskyldan hafi verið með honum á Suðurlandi þann tíma, nema þá Sigurður sem hafi verið hjá Bóel ömmu sinni á Surtsstöðum. Það merkir hann m.a. á því að Ólafur sonur þeirra hjóna fæðist fyrir sunnan og þá sennilega Guðrún. Eins það að Bóel dóttir þeirra giftist og staðfestist síðar á Suðurlandi. Bendir það til þess að annaðhvort hafi hún átt þar tengingu frá æskuárum eða orðið þar eftir þegar fjölskyldan flutti aftur austur.
Árin 1776-1780 á Suðurlandi voru Jóni erfið en þar er hann sagður hafa þjónað í Land- og Holtaþingum tímabundið og í afleysingu, þess á milli er hann talin hafa hokrað eða jafnvel verið á vergangi við að framfleyta sér og sínum. Þó að biskup hafi verið honum innanhandar með íhlaupaverkefni þá hafi hest og klæðleysi stundum komið í veg fyrir að hann gæti nýtt sér það. Jón hafði haft von um að komast að sem prestur í Einholti á Mýrum í Hornafirði þegar hann fór frá Skeggjastöðum, en af því varð ekki.
Það var ekki fyrr en 1780 að Jón var aftur settur sem sóknarprestur og þá í Firði í Mjóafirð, en þar var bændakirkja þannig að jörðin var öll í bændaeign en kirkjan hafði hana hálfa fyrir prestinn. Þegar Jón kom með fjölskylduna í Mjóafjörð var fyrrverandi prestfrú í Firði, þannig að fjölskylda Jóns hafði ekki í önnur hús að venda en kirkjuna fyrst um sinn. Skömmu eftir að þau komu í Fjörð keypti Hermann Jónsson Fjörð af gömlu prestfrúnni,sem var tengdamóður hans, og flutti úr Sandvík í Mjóafjörð. Samdist þeim séra Jóni um að Hermann hefði Fjörð allan gegn því að hann greiddi ákveðna upphæð til Jóns fyrir að láta eftir afnot af kirkjuhluta jarðarinnar.
Jón flutti sig síðan út á Hesteyri þar sem kirkjan hafði ítök í henni hálfri og var þar með lítilsháttar búskap auk þess að drýgja preststekjur sínar með smíði. Hermann greiddi honum ekki alla þá umsömdu upphæð fyrir að víkja af Firði, taldi það eiga að ganga upp í viðgerð á kirkjunni, sem hefði látið á sjá í Jóns tíð í Firði. Fjölskyldan flytur síðan út í Kross sem er yst í Mjóafirði og hefur þá verið löng leið fyrir séra Jón að fara til að messa í Fjarðarkirkju inn í fjarðarbotni. Það virðist vera að Hermann hafi fengið Mjófirðinga á sveif með sér í að hrekja Jón og fjölskyldu úr Mjóafirði.
Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harð bannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir. (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)
Þau voru tvö stór áföllin sem dundu á séra Jóni og fjölskyldu í Mjóafirði. Annað var koma Hermanns í Fjörð og hin voru móðuharðindin sem gengu yfir landið 1783-1785. Sumarið 1784 reikuðu um sveitir landsins uppflosnað fólk máttvana af hor og hungri. Því auk eiturmóðunnar hafði veturinn á undan verið óhemju harður, firði hafði lagt út til ystu annesja og víða náði frostið hátt í metra ofaní jörðu. Hörmungarnar léku búsmalann jafnvel enn verr en mannfólkið, sem stráféll úr hor og hungri.
Þann 10. júní sumarið 1784 skrifaði, Jón Sveinsson sýslumaður S.Múla sýslu, sem hafði aðsetur á Eskifirði, bréf sem fór með vorskipinu frá Djúpavogi til Kaupmannhafnar þar sem m.a. mátti lesa þetta; ... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel nú í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti,,, verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara yðar þrautpíndu fátæku undirsáta .... Það var við þessar aðstæður sem Hermann í Firði átti samtalið við prestfrúna á Krossi.
Það fór svo að séra Jón hrökklaðist úr Mjóafirði, en fram á vor dvelur hann samt í Firði undir verndarvæng Hermanns, eftir að fjölskylda hans hafði verið leyst upp á og send burt úr firðinum. Hermann hafði af manngæsku tekið að sér framfærslu prestsins gegn 16 ríkisdala meðgjöf, sem ekki kemur fram hver átti að greiða. Þegar Jón yfirgefur Mjóafjörð hirðir Hermann af honum smíðaverkfærin og sængina upp í skuld. Innheimtuaðgerðir Hermanns á hendur Jóni stóðu lengi yfir. Rúmum sex árum seinna, árið 1791, kærir Hermann hann fyrir kirkjustjórnarráði, stiftamtmanni og biskupi, að því er virðist vegna vangoldins uppihalds og skuldar við kirkjuna í Firði. Þá eru Jón og fjölskylda búin að búa bæði á Eiðum, Gilsárteigi og komin Ormsstaði.
Eiðavinir segja hér að ofan, að svo virðist sem Jóni hafi búnast sæmilega síðustu árin á Ormsstöðum. Það þó svo að bærinn hafi verið í eyði árin á undan og jafnvel talin óíbúðarhæfur þegar fjölskyldan kom í Ormsstaði. Ályktanir um góðan búskap telur Ármann Halldórsson vera dregnar af gerðabók hreppstjóra Eiðahrepps um tíundarskýrslu. Þar koma fram gjöld frá Ormsstöðum og að eitt árið hafi einungis tveir bæir í hreppnum verið hærri gjaldendur. En þá ber til þess að líta að börn hjónanna voru uppkominn og þeir Brynjólfur og Níels vinnumenn heima á Ormsstöðum.
Séra Jón þjónaði á Eiðum í 15 ár eftir að hann kom upp í Hérað úr Mjóafirði, en hafði sótt um lausn snemma árs 1800, stiftamtmaður synjaði honum viðstöðulaust um lausnina fyrr en á fardögum 1801. Það bréf barst Jóni aldrei því þegar bréfið kom í Ormsstaði "þá hafði séra Jón fengið lausn fyrir fullt og allt eftir armæðusamt líf og átakanlega ævihagi". Ingibjörg átti langt líf fyrir höndum þar sem ekki er alltaf kunnugt um hvar hún dvaldi, en hún lést 91 árs að aldri í Dölum Hjaltastaðþinghá hjá Ólafi syni sínum.
Börn þeirra hjóna eru talin hafa orðið alls 13 og 10 þeirra komust til fullorðinsára, Sigurveig þeirra elst fædd á Hjaltastað og Magnús þeirra yngstur fæddur í Mjóafirði. Er ekki óvarlegt að ætla að einhver barnanna þriggja sem ekki komust til fullorðins ára, hafi látið lífið í móðuharðindunum. Um þau er lítið vitað annað en að ein stúlka mun hafa heitið Bolette. Í Íslenskum æviskrám segir: Mikill kynbálkur er af séra Jón Brynjólfssyni og Ingibjörgu Sigurðardóttir, margt myndarfólk. Í ættum Austfirðinga segir: Margt var efnalítið af afkvæmi hans, en margt vel greint og góðsemdarfólk og ráðvant.
Nú þegar ég hef rakið í Íslendingabók ættartölu til "aumasta prests á Íslandi" og rifjað upp það sem við afi minn ræddum við eldhúsborð Jóns Sigvaldasonar um árið, hef ég m.a. komist að því að Jón Sigvaldason faðir afa míns átti báðir ættir að rekja til séra Jóns og Ingibjargar. Móðir hans Guðrún Jónstóttir var komin af Níels sem var bóndi á Hrollaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Og faðir hans Sigvaldi Einarsson var komin af Sigurveigu elsta barns þeirra presthjónanna, hún var húsfreyja í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá. þau Guðrún og Sigvaldi voru þremenningar.
Það er ekki laust við að ég finni fyrir stolti yfir því að eiga ættir að rekja til svo þrautseigra og samheldinna hjóna, sem létu ekki erfiðleika sundra fjölskyldunni. Eins fyrrverða ég mig ekki fyrir það að eiga jafnlangt genin að sækja til annars austfirsks ættarhöfðingja, sem var Hermann Jónsson í Firði. En um Hermann er sagt í Íslendingabók; Hár vexti og sæmilega gildur. "Heldur þótti hann eigingjarn en ekki nískur, ráðríkur og ágengur nokkuð". Og í íslenskum æviskrám: "Var héraðshöfðingi í sveit sinni, auðgaðist mjög að jörðum og lausafé, búmaður góður og mikill atorkumaður til sjósóknar, rausnsamur og stórgjöfull við fátæklinga". Þetta fólk varð fyrir þeirri ógæfu að leiðir lágu saman í Mjóafirði, þegar yfir gengu mestu hörmunga ár Íslandssögunnar.
Ps. Ofanritað birti ég hér á síðunnu 14. apríl 2017. Við það væri litlu að bæta ef ekki kæmu til Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar. Þar segir í VIII bindi, í þætti um Hermanni Jónsson í Firði, af viðskiptum þeirra Hermanns og presthjónanna í Mjóafirði. Flest er það með blæ þjóðsögunnar. En að auki er haft eftir úr Árbók Espólín um séra Jón Brynjólfsson: "Hann hafði þolað hrakningar fyrri af Hermanni Jónssyni í Firði í Mjóafirði er þar var hreppstjóri og brokkur mikill." Málaferli mynduðust á milli prests og Hermanns af áðurgreindum sökum og fleirum.
Sigfús Sigfússon segir síðan af ferð sem Hermann fór gangandi upp á Hérað um vetrartíma.
Þar með iðraðist hann breytni sinnar við Jón prest og Ingibjörgu og vildi ná sættum af þeim. Víkur nú sögu upp að Eiðum. Það var einn dag að prestur kom út og sá mann koma álengdar. Hann gengur inn og segir við Ingibjörgu: -"Nú kemur Hermann hérna að framan, ég þekki hann af bláu hosunum hans. Mun hann nú vilja ná sættum ef mig grunar rétt. Heldurðu að þú getir fyrirgefið honum?" -"Nei", segir hún, "það er alveg ómögulegt að fyrirgefa honum, ef ég gæti skyldi ég gera það." -"Guð styrki þig, barn". Segir prestur; "ég fyrirgef honum af hjarta" segir hann og gengur í kirkju. Þóttist hún vita að hann baðst fyrir. En svo undarlega brá við að þegar Hermann kom var henni runnin öll reiði við hann og þakkaði hún bæn prests það síðan. Eftir það rippaði Hermann sakir þeirra og bað auðmjúklega þess að þau sættust við sig. Gekk það fyrir sér auðveldlega. Þá bar Hermann fram stórgjafir er hann skenkti þeim. Fór þá allt vel á með þeim og skildust þau vinir og héldu það vel.
Landsins-saga | Breytt 23.3.2019 kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2017 | 19:07
Knútsbylur
Það hefur verið vetrarveður núna síðustu dagana eftir einstaklega hlýjan og snjóléttan vetur. Meir að segja komst ég í þá aðstöðu að vera fastur í skafli á Vatnsskarði s.l. þriðjudag. Það hvessir hressilega á Vatnsskarði og hefur vindmælir vegagerðarinnar þar ósjaldan fokið, þannig að ekki er ólíklegt að þar hafi verið slegin vindmet.
Þó áður fyrr hafi ekki verið óvanalegt að leiðin til Borgarfjarðar-eystri væri lokuð vegna snjóa á þessum árstíma er nú svo komið að erlendir ferðamenn bruna í alla skafla á smábílunum og því er reynt að halda opnu flesta daga vikunnar. Enda leið ekki löng stund þar til að ég hafði félagskap ungs Japansks pars.
Alveg símasambandslaust var í skaflinum, sem betur fer kom eftir stutta stund vel bílandi innfæddur Borgfirðingur en ekki vildi betur til en að þegar hann ætlaði að snúa á veginum bakkaði hann ofaní ræsi, þannig að bílarnir voru þá orðnir þrír fastir tvist og bast í blindunni. Sá innfæddi vissi um blett um það bil 1 km neðar í fjallinu þar sem hægt var að ná símasambandi og fór þangað og hringdi í björgunarsveitina sem kom svo til að bjarga málum.
En ekki var nú meiningin að segja frá svona smá skafrenningi á fjallvegi heldur frá sjálfum Knútsbyl, um það mannskaðaveður las ég í blíðviðrinu í vetur, kannski ekki laust við að maður væri farin að sakna vetrarins sem nú virðist loksins kominn í venjulegan gír.
"Skaðaveðrið 7. janúar 1886 var kennt við almanaksnafn dagsins og kallað Knútsbylur. Veðrið gekk mest yfir Múlasýslur og Austur-Skaftafellssýslu. Það skall á snemma dags á milli miðmorguns og hádegis svo snöggt sem kólfi væri skotið. Víðast hvar var búið að reka fé til beitar, en stöku menn voru svo veðurglöggir eða höfðu þann veðurugg, að þeir ráku ekki fé frá húsi. Hvergi varð fé, sem út hafði verið látið náð í hús um daginn. Næsta dag var upprof en frosthelja. Náðist þá megin hluti fjárins hrakið og úr fönn dregið, en víðast fórst til dauðs fleira og færra. Sumstaðar hraktist fé í vötn og sjó. Þannig hrakti flesta sauðina í Hrafnsgerði í Lagarfljót og í Fjörðum sumstaðar rak fé undan veðrinu í sjó.
Mikill mannskaði og margskonar annar skaði varð í þessu veðri. Sex menn urðu úti, þrír á Fljótsdalshéraði, tveir í Reyðarfirði og einn í Breiðdal. Bátur fórst frá Nesi í Norðfirði með 4 mönnum og annar í Reyðarfirði með 5 mönnum norskum. Þrjár skútur rak á land í Seyðisfirði og brotnuðu tvær þeirra mikið. Þök rauf af húsum víða og mörg urðu fleiri smærri tjón. Mikið tjón á sauðfé varð í Knútsbyl í Austur-Skaftafellssýslu. Á þremur bæjum rak allt sauðfé í sjó og hross sumstaðar. Kirkjan fauk á Kálfafellstað og þök af húsum víða."
Þetta má lesa í Austurland III bind um bylinn sem kenndur er við Knút hertoga. Um þetta óveður hefur einnig verið skrifuð heil bók sem nefnist Knútsbylur og hefur Halldór Pálsson þar tekið saman frásagnir eftir fólki á Austurlandi sem mundi eða hafði heyrt talað um þetta veður. Þar segir að bylurinn hafi verið líkari fellibyl en aðrir byljir vegna mikils vindstriks. Lítillega hafði snjóað nóttina fyrir bylinn en logn var á undan honum, svo flestir settu út sauðfé til beitar, en þetta reyndist svikalogn því veðrið brast á í einni svipan með ægilegum vindstyrk snjókomu og frosti. Margar frásagnir greina frá því hve erfiðlega gekk að koma forystu fé úr húsum þennan morgunn og í sumum tilfellum mun veðurskyggni forustufjárins hafa komið í veg fyrir tjón. Eins er víða sagt frá veðurdyn sem heyrðist rétt á undan veðrinu þó svo lygnt væri og varð það einhverjum til bjargar.
Í Suðursveit var snjólaust þegar gekk í Knútsbyl en þar fauk m.a. kirkjan á Kálfafellstað, um eftirköstin segir: Eftir Knútsveðrið var jörð mjög illa farin. Allur jarðvegur var skafinn upp, og þar sem áður voru fallegir víðirunnar, blasti við svart flag. Víða var jarðvegurinn í fleiri ár að ná sér eftir þetta áfall.
Í Breiðdal segir Sigurður Jónson sem var unglingur að Ósi m.a. svo frá eftir að hann reyndi að komast úr fjárhúsi örstutta leið heim í bæ þegar veðrið brast á: ...uns ég kom að bæjarhorninu sem ég þurfti að beygja fyrir til þess að komast að bæjardyrunum. Þá hrakti stormurinn mig frá veggnum, því út með norðurhlið bæjarþorpsins stóð stormurinn, og ég rann undan vindinum niður hlaðbrekkuna. Líklega hefði ég reynt að skríða upp bæjarbrekkuna og heim í bæjardyrnar, sem voru á norðurvegg bæjarþorpsins, en hvort það hefði tekist, er óvíst, því að áður en til þess kæmi, að ég reyndi það, var tekið í mig og ég leiddur heim í bæjardyrnar. Þetta gerði Gunnar Jósepsson húsbóndinn á bænum.
Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hræfarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.
Það var farið að daga þegar lagt var af stað að heiman og út með sjónum til að leita föður míns og fjárins. Þeir mæta föður mínum, þar sem heitir Ósleiti, á réttri leið heim til bæjar, en stirður var hann þá til gangs,mest vegna þess að klakahella svo mikil var fyrir andliti hans, að hann sá varla nema upp í himininn. Hann var maður alskeggjaður, svo að í skegginu og andlitinu fraus hríðarkófið sökum líkamshitans. Fram eftir nóttu braut hann af andlitinu svellhúðina, svo hann sæi frá sér, en svo fór andlitið að sárna undan sífelldu nuddi með frosnum vettlingum, svo hann varð að hætta að hreinsa af andlitinu klakann, en öndun hans hélt þó opnum götum, að hann sá nokkuð upp fyrir sig. Er klakinn var þíddur af andlitinu, kom í ljós að hann var blóðrisa, einkum á enninu, nefinu og kinnbeinunum.
Við þetta má bæta að trúmennska Einars við Ósféð var svo mikils metin að Guðmundur húsbóndi á Ósi gaf honum bestu kindina sína eftir þetta veður enda lifði allt féð sem var úti við Kleifarrétt.
Í Mýnesi í Eiðaþinghá á Héraði bjó í Knútsbyl Ólafur Magnússon ásamt Guðmundi tengdasyni sínum. Hjá Ólafi var þá Einar sonur hans, rösklega tvítugur að aldri. Hann hirti fé á beitarhúsum austur frá Mýnesi, hafði látið féð út þennan morgun, var komin heim aftur og var að hjálpa föður sínum við að taka til nauthey í hlöðu, þegar hríðin skall eins og reiðarþruma á þekjuna. Þreif hann vettlinga og hljóp út í fárviðrið lítt búinn og hugðist bjarga fénu í hús, en kom eigi aftur. Þegar veður tók að lægja, svo komist var í húsin, voru húsin tóm. Fannst Einar daginn eftir, helfrosinn skammt frá túninu í Mýnesi. Það heita Vallnaklettar, þar sem hann fannst. Ólafur Sigurðsson vinnumaður Sigfúsar Oddsonar á Fljótsbakka, fannst frosinn í hel á holtunum út af Mýnesi , niður af Skagagili, hann var sagður 36 ára.
Þessi húsgangssaga er frá Ketilstöðum á Völlum: Sigurður hét vinnumaður Sigurðar bónda Hallgrímssonar. Hann var að reka sauðina í haga upp til fjalls, er í bylinn gekk. Hann kom sauðunum í Beinárgilið stutt frá Flatarhúsunum. Þetta voru 100 sauðir. Hann stóð hjá sauðunum þann dag og næstu nótt og lét þá ekki fenna. Ekki er vitað um klæðnað hans, en ókalin komst hann heim. Fjármaður Gunnars Pálssonar, er hirti féð á Grundinni, hafði meðferðis tvo poka úr togbandi. Er bylinn gerði, var hann á milli fjárhúsa og bæjar, fer hann þá í annan pokann, en setur hinn yfir höfuð sér, lagðist síðan niður og lét fenna yfir sig. Þannig bjargaðist hann ómeiddur frá þessum voða byl.
Úr dagbók Sölva Vigfússonar á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal: 7. Janúar 1886, norðan bráðófært veður, það allra hvassasta. Hann var bjartur fyrst um morgunninn, svo búið var að setja út féð í Hrafnsgerði, en veðrið kom á smalann, og hann missti féð úr höndum sér, og það hrakti í fljótið, en meðfram landi var krapi, sem það festist í, svo fraus að því um nóttina, og drapst 56 en 56 fannst hjarandi. 8. Janúar, norðan með kófi -14°C. Við vorum að bjarga því sem lifandi var af Hrafngerðis fénu, úr fljótinu og grafa það í fönn.
Frásögn Gísla Helgasonar í Skógargerði Fellum: Í Hrafnsgerði í Fellum voru sauðir heima á túni, og vildi smalinn reka þá allsnemma þennan morgun. Svartur forustusauður var í húsinu og fékkst ekki út. Hann hljóp kró úr kró. Þá vildi smalinn handsama sauðinn og draga út úr húsinu, en það tókst ekki, því að þá stökk Svartur upp í garðann og yfir hann; þó hann hefði aldrei verið garðakind. Varð úr þessu garðaleikur, sem sauðamaður tapaði. Þá tók hann það ráð að leita liðveislu hjá fjósamanni. Tókst þeim í félagi að handsama Svart og draga hann út. Síðan rak sauðamaður hópinn yfir Hrafngerðisána, og segja þó sumir, að þá væri veðrið að skella yfir, er hann hélt heimleiðis. Ekki þarf að orðlengja um það, að þessi hjörð týndist öll í Lagarfljótið, sem þá var að leggja, en engri skepnu fært.
Vissi ekki Svartur lengra fram en maðurinn?
Landsins-saga | Breytt 7.2.2023 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)