Hrævareldar

Hrævareldur

Eru hrævareldar sem loga um nætur villuljós, sem eiga sér enga samsvörun í upplýstum heimi nútímans og eiga þar með það sameiginlegt með álfum og huldufólki þjóðtrúarinnar að hafa horfið af sjónarsviðinu þegar raflýsingin hélt innreið sína?

Eða eru hrævareldar kannski til? og gæti þá líka verið að það mætti sjá álfa við rétt skilyrði?

Ég fór að velta þessu fyrir mér við lesturs bókar Halldórs Pálssonar um Knútsbyl, sem gekk yfir Austurland 7. janúar 1886, en þar er að finna þessa frásögn frá Ósi í Breiðdal; Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hrævarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.

Þarna er sagt þannig frá hrævareldum, líkt og þeir ættu að vera hverju mannsbarni þekktir ekki síður en norðurljósin, sem hafa heillað ljósmyndara nú á tímum. Þegar ég las frásögnina hugsaði ég með mér "já, það er mýri þarna fyrir innan fjárborgina" en í votlendi grunaði mig að gæti verið von hrævarelda, þó svo að ég hafi þá aldrei séð og viti varla hvernig þessari hugmynd skaut niður í kollinn. En eitthvað truflaði hugmyndina um mýrarljósið, því Knútsbylur var fárviðri og því ekki líklegt að logi lifði í þeim veðraham, hvað þá að Jón hafi séð frá sér á móti dimmviðrinu. Því fór ég að grennslast fyrir um eðli Hrævarelda sem þjótrú fyrri alda á margar frásagnir af, en fáir virðast hafa séð nú á tímum.

Kleifarrétt

Kleifarrétt, þar sem Jón gætti fjárins niður við sjó í Knútsbyl, skarð hefur verið gert fyrir þjóðveginn í gegnum klettinn

Strax í fornsögunum er hrævarelda getið. Í Grettissögu segir frá því þegar Grettir kom til Háramarsey á Suður Mæri í Noregi og sá elda á haug Kárs gamla og gekk í hauginn, rændi gulli Kárs og afhöfðaði draug hans með sverðinu Jökulnaut. Gullið færði Grettir syni Kárs, Þorfinni bónda á Háramarsey. Samkvæmt frásögninni má ætla að það hafi verið hrævareldar eða mýrarljós, sem loguðu á haug Kárs og vísaði Grettri á grafhauginn. Því í vísu um þennan gjörning talar hann um "Fáfnis mýri" eftir að hafa áður haft á orði að "margt er smátt það er til ber á síðkveldum".

Þjóðsaga segir að sjá hafi mátt bjarma frá landi við Djúpavog, sem loga átti "á haug" Melsander Raben úti í Papey. En engin vissi fyrir víst hvar Melsander hafði borið beinin né hvað af auðæfum hans varð, því hvoru tveggja hvarf vofaginlega þar úti í eynni. Samt grunar mönnum að gull Melsanders kunni að vera grafið undir kirkjugólfinu. Þessi hrævarelda bjarmi sem menn töldu sig áður fyrr verða vara við út í Papey gætu því verið af sama toga og greint er frá í öllum þeim þjóðsögum, sem til eru um gull á álagablettum en þegar reynt var að grafa það upp þá sýndist kirkjan loga.

Eftir að hrævareldar hafa komið við sögu í þjóðtrúnni í þúsund ár, viðurkenna vísindi nútímans að stundum sé nokkur sannleikskorn í alþýðutrúnni. Samkvæmt Vísindavef Háskólans er skýringin á fyrirbærinu; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum. Yfirleitt er þá metangas að brenna en það myndast við sundrun jurtaleifa í mýrum. Engin ástæða er til að ætla annað en að fyrirbærið hafi verið þekkt frá alda öðli. Það er nefnt í gömlum íslenskum textum og til að mynda eru ensku orðin um fyrirbærið gömul í ensku ritmáli".

Þó verður það að teljast undarlegt að um leið og vísindavefurinn viðurkennir hrævarelda sem eðlilegan bruna metangass, þá er þetta einnig tekið fram; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum en færast undan mönnum ef reynt er að nálgast þau". Það undarlega er að ef gengið er að metangasloga úr prímus, þá færist hann ekki undan. Það má því segja að vísindin komist að svipaðri niðurstöðu og þjóðtrúin gerði, þ.e. að hrævareldar séu mýrarljós eða villuljós. 

Í athyglisverðri grein Ólafs Hanssonar í Mánudagsblaðinu 5. október 1959 segir; "Oft eru hrævareldar settir í samband við haugaelda og þeir taldir loga yfir gröfum, þar sem gull er fólgið. Stundum loga þeir á leiðum, þó að ekkert gull eða fé sé þar. Þetta mun ekki vera eintóm hjátrú, það er talin staðreynd, að hrævareldar sjáist mjög oft í kirkjugörðum, og mun rotnun líkanna valda þeim með einhverjum hætti. Það er ekki að furða, þótt þetta fyrirbæri í reit hinna dauðu hafi komið margvíslegri hjátrú af stað. Sú skoðun er talsvert algeng, að eldarnir séu sálir framliðinna. Einna almennust er sú skoðun, að hér séu á ferðinni sálir sjálfsmorðingja, sem séu á sífelldu reiki og finni engan frið. Líka þekkist sú trú, að hér séu andar manna, sem hafi látizt af slysförum, og reiki æ síðan um í námunda við slysstaðinn. Sú trú, að slíkir andar séu á sveimi í námd við slysstaði er mjög algeng á Íslandi".

Fjárborg

Gamla fjárborgin á Ósi hægra megin við þjóðveg 1, mýrin vinstra megin

Samt sem áður getur þetta varla verið skýringin á þeim hrævareldum sem getið er um að Jón hafi séð við fjárborgina á Ósi í Knútsbyl, þó svo mýrin sé nálæg, því varla hafa verið veðurskilyrði fyrir slíkan loga í því aftaka veðri sem talið er hafa farið yfir með fellibylsstyrk.

Á heimasíðu Veðurstofunnar segir frá hrævareldum af öðrum toga, þeim sem fylgja veðrabrigðum s.s. eldingarveðri. Þar er lýsing þriggja manneskja sem telja sig hafa upplifað hrævarelda á Eiríksjökli 20 ágúst 2011, þó svo engin hafi verið þar eldurinn. Þar segir m.a.; "Stundum er hrævareldum ruglað saman við mýraljós (will-o´-the-wisp á ensku), en þau gefa dauf ljós við bruna mýragass (metans). Áður gerðu menn sér stundum ekki grein fyrir að um ólík náttúrufyrirbæri væri að ræða, en mýraljós eru bruna-fyrirbæri á meðan hrævareldar eru raf-fyrirbæri". Frásögnin á Eiríksjökli segir af hagléli og réttum viðbrögðum við eldingahættu, þegar umhverfið er orðið það rafmagnað að hárin rísa. Þessi réttu viðbrögð stemma við þau ráð sem gefin voru í þjóðtrúnni, sem sagði að ekki mætti benda á eða berja hrævarloga því þá gætu þeir ráðist á menn og brennt og ef reynt væri að slökkva hrævareld af vopni dytti maður dauður niður.

Í Sturlungu segir frá ferð Odds Þórarinssonar Svínvellings frá Valþjófsstað í Fljótsdal suður í Haukadal um veturinn 1254-55. Gissur Þorvaldsson jarl hafði sett hann yfir ríki sitt í Skagafirði þegar hann fór af landi brott eftir Flugumýrarbrennu. Oddur fór með þrjátíu vopnaða menn yfir Kjalveg og lentu þeir í mannskaða hríðarveðri 31. desember. Voru þeir þá skammt sunnan við Vinverjadal eða Hvinverjadal sem talið er hafa verið nafngift þeirra tíma á Hveravöllum. Voru þeir þar um nóttina og héldu svo áfram daginn eftir 1. janúar. Þá segir Sturlunga; "og er þeir voru skammt komnir frá Vinverjadal þá kom hræljós á spjót allra þeirra og var það lengi dags"Ferðalags Odds átti sér ekki farsælan endi en hann var drepin þann 14. janúar í Skagafirði af mönnum Eyjólfs ofsa. Oddur var talin fimastur bardagamanna á Íslandi - þótti öllum mönnum mestur skaði um hann er hann var kunnastur - segir Sturlunga.

Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar árið 1772 er lýsingu úr Kjósarsýslu þar sem segir: "Þrumur, eldingar og önnur óvenjuleg loftfyrirbæri eru sjaldgæf hér. Helst verður þeirra vart á vetrum. Þegar dimmviðri er með stormi og hríð á vetrum, verður vart leiftra í neðstu loftlögunum. Þau kalla menn snæljós. Eins konar Ignis fatuus, sem á íslenzku kallast hrævareldur og líkt og hangir utan á mönnum, er sjaldgæfur á þessum slóðum". Þess konar rafmögnun á það til að hlaðast um flugvélar og eru stundum kölluð St Elmo´s Fire.

St.-Elmos-Fire-BA9-780x405

Líklegast er því að hræfareldarnir sem Jón Einarsson frá Ósi sá við fjárborgina í Knútsbyl hafi stafað af völdum rafmagnaðra veðurskilyrða, svipaðra og greint er frá á síðu Veðurstofunnar að fólkið á Eiríksjökli hafi upplifað sumarið 2011. Sennileg á það sama við um hræljósin á spjótsoddunum við Hveravelli á ferð Odds í Sturlungu og hafi þetta einnig verið sú tegund hrævarelda sem getið er í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772, og sagt er þar að menn kalli snæljós. En greinilegt er að hrævareldar hafa verið fólki kunnuglegra fyrirbæri hér áður fyrr en þeir eru nú til dags. Nema þá sem hrekkjavöku fyrirbrygði og virðast vísindin ekki skýra til fulls þá tegund hrævarelda sem ýmist voru kallaðir mýrarljós, villuljós eða haugeldar.

Ps. færsla þessi hefur áður verið birt hér á síðunni 8. mars 2017 og er nú endurbirt lítið breytt. Það var sagan um hræljós á spjótsoddum í Sturlungu sem vöktu upp hrævareldinn að þessu sinni. Þegar ég fór að grúska í gúggúl þá kom upp þessi athyglisverði bloggpistill hér.


Sviðinn akur sameiningar

Það mætti ætla sem svo að flestir fögnuðu því að komast aftur heim með því að vera áfram heima, líkast því að komast í himnaríki án þess að að geispa golunni. En nú stendur til að sameina minn fyrrum heimabæ Djúpavog við minn núverandi heimabæ, Egilsstaði. Reyndar á að kjósa um sameiningu fjögurra sveitarfélaga þann 26. október næstkomandi, Borgafjörð-eystri, Seyðisgjörð, Fljótsdalshérað og Djúpavog. Sveitarfélagið verður það langstærsta á landinu að flatarmáli verði sameining samþykkt. Reyndar hefur Fljótsdalshérað verið það víðfeðmasta til skamms tíma og hin eru víðfeðm líka nema þá helst Seyðisfjörður.

Ég hef ekki hugsað mér að kjósa um þessa sameiningu af þeirri einföldu ástæðu að mér er hlýtt til minna nágranna. Sjálfur bý ég á Fljótsdalshéraði sem er lang fjölmennast, og þykist þar að auki vita að þar munu völdin verða. Mér hefur reyndar aðeins dottið í huga að flytja á Djúpavog til að geta greitt atkvæði gegn sameiningu, svo hlýtt er mér til Djúpavogsbúa. Það hefur einfaldlega allstaðar sýnt sig að minni sveitarfélögin hafa lítið upp úr sameiningu og hingað til hefur þeim mörgum hverjum nánast blætt út og það á ekki síður við um þau sem hafa sameinast í Fljótsdalshérað.

Nú er það svo að markmið allra sveitarfélaga sem hafa sameinast undanfarin 30 ár er að efla búsetu og helst auka íbúafjölda á svæði sveitarfélagsins og efla samfélag svæðisins í heild. Fá markmið hafa misfarist eins hrapalega og í sameiningum á Austurlandi undanfarna áratugi. Það má segja að þessi sameininga bylgja hefjist upp úr 1990. Árið 1992 sameinast syðstu hreppar S-Múlasýslu, Geithellahreppur, Búlandshreppur og Beruneshreppur. Upp úr þeirri sameiningu varð til Djúpavogshreppur. Í fyrstu tveimur sveitarstjórnum Djúpavogshrepps átti ég sæti.

Þess er skemmst að minnast að sveitahrepparnir tveir Geithellna- og Beruneshreppur fóru fljótlega mjög svo halloka við þessa sameiningu. Skólar voru lagðir niður og samkomuhús seld. Fólksfjöldi í sameinuðu sveitarfélagi var þá um 600 manns, síðan þá hefur orðið um 20% fækkun og þá mest í sveitahreppunum. Djúpavogshreppur fór reyndar allur halloka fyrsta áratuginn eftir sameiningu sem best má sjá á því að börnum á grunnskóla aldri fækkaði frá því að vera yfir 100 í tæp 50.

Árið 1992 skrifaði ég tvær greinar í Austra um fólksfjölda- og sameiningamál. Þar var m.a. þetta um íbúaþróun; "Ef litið er til síðustu 20 ára hefur fólki fjölgað um 12% á Austurlandi á meðan fólksfjölgun á Íslandi hefur verið um 20% á sama tímabili. Þegar sama tímabil er skoðað má sjá að á Austurlandi eru nokkrir bæir sem hafa hlutfallslega vaxið hvað örast á landsbyggðinni og jafnvel þó litið sé til landsins alls. Höfn með fólksfjölgun upp á um 55%, Djúpivogur 35%, Egilsstaðir 78% og Fellabær 98%."

Séu þetta 20 ára tímabil borðið saman við þau 27 ár sem á eftir hafa komið er útkoman skelfileg. Fólki á Austurlandi hefur fækkað u.þ.b. 20% á meðan fjölgað hefur um u.þ.b. 30% á Íslandi. Þetta hefur gerst þrátt fyrir "stærstu framkvæmd Íslandssögunnar". Austurland er í raun ekki lengur til sem heild eins og það var fyrir 30 árum.

Hornfirðingar hafa forðað sér suður og Vopnfirðingar eru leiðinni norður. Austurlandskjördæmi hefur verið sameinað Suðurkjördæmi og Norðurlandskjördæmi-eystra. Fjórðungurinn er nánast rjúkandi rúst þrátt fyrir endalausar sameiningar. Og núna tala menn fjálglega um heimastjórnir í stóru sameinuðu sveitarfélagi fyrir minni sveitarfélögin, á svipaðan hátt og lofað var að halda úti skólum og annarri grunnþjónustu í þeim minni í upphafi sameiningaæðisins.

Svo skýtur annað slagið upp hugmyndum um að sameina bara allt Austurland í eitt sveitarfélag. Sú hugmynd er í raun ekki ný, þetta er það sem valið stóð um áður en sameininga ósköpin riðu yfir. Byggðahreyfingin Útvörður benti á þessa leið og urðu nokkrar umræður um hana níunda ártugnum, við lítinn fögnuð sveitarstjórnarmanna. Ég benti á þessa leið í Austragrein 1992 þegar mér var mikið niðri fyrir vegna sameiningarinnar á Djúpavogi. 

"Til er önnur leið sem sveitarstjórnarmenn og stjórnvöld virðast hafa komið sér saman um að þegja í hel. Það er þrískipting valdsins og héraðastjórnir. Þessa leið hefur byggðahreyfingin Útvörður útfært mjög nákvæmlega. Ef hún yrði farin myndi hún færa vald og fjárráð út í landshlutana án þess að stórkostleg sameining sveitarfélaga þyrfti að koma til. Einnig myndi ef þessi leið yrði farin, hægt að verða við óskum stærsta hluta þjóðarinnar um sjálfsögð mannréttindi, það er jöfnun atkvæðisréttar."

Nú er svo komið að Egilsstaðir sem tilheyra Fljótsdalshéraði hefur verð til skamms tíma eitt skuldugasta sveitarfélag landsins, af er sem áður var þegar Héraðs-hreppar voru með þeim betur reknu á landinu. Djúpivogur er með tiltölulega litlar skuldir á hvern íbúa í stóra samhenginu og meira en helmingi minni en eru á Fljótsdalshéraði. Skuldir á hvern Djúpavogsbúa munu meira en tvöfaldast við sameiningu. Þá er því haldið fram sem rökum fyrir sameiningu að Djúpivogur skuldi innviðum sínum viðhald sem hafi farið fram í öðrum sveitarfélögum með skuldsetningu. 

Sennileg er þar átt við fimleikahöll og körfuboltavöll sem hafist var handa við á Egilsstöðum þegar ljóst var að sameining stæði fyrir dyrum. Þessum framkvæmdum hefði því sem næst verið hægt að sleppa ef íþróttamannvirkin á Egilsstöðum væru notuð eins og til stóð þegar þau voru byggð fyrir börn í upphafi. En ekki til að halda úti körfuboltaliði rígfullorðinna manna sem er þar að auki oft mannað fjórum útlendingum af þeim fimm sem eru á samtímis inn á vellinum. Þessi mannvirki blasa öll við fyrir utan stofugluggann minn og kárungarnir segja að annað varamannaskýlið við nýja körfuboltavöllinn sé fyrir Seyðfirðinga hitt er væntanleg fyrir Borgfirðinga og Djúpavogsbúa.

Samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra hefur lagt út sín tromp varðandi sameininguna. Þau eru að mestu leiti veggjöld í anda Vaðlaheiðarvitleysunnar. Hann virðist halda að  fjallvegurinn yfir Öxi styttist við það eitt að malbika hann og leggja á veggjöld. Verður fólk tilbúið til að greiða 3000 krónur aukalega í hvert skipti sem farið er yfir Öxi í miðbæinn í skiptum fyrir það að losna við að þvo bílinn í rigningatíð? 

Þó hver mógúllinn á fætur öðrum mæri sameiningu sveitarfélaga hefur áratuga reynsla einungis skilið eftir sviðinn akur. Þó svo að hvert grásprengda sveitarstjórnarséníið á fætur öðru komi nú fram með gamla frasa á við að sameining gefi "at­vinnu­líf­i og íbúaþró­un­ gríðarleg tækifæri og  með því gæt­um við orðið raun­veru­leg­ur val­kost­ur við höfuðborg­ar­svæðið". Þetta eru í raun frasar sem þessir gömlu menn lærðu um svipað leiti og þeir gengu til fermingafræðslu fyrir 50 árum síðan. Stingandi nú sem fyrr höfðinu í sandinn þegar við blasir sviðinn akur.

Ég skora á mína fyrr um heimabyggð að treysta á sjálfa sig sem hingað til og sameinast ekki minni heimabyggð því þá gæti orðið um bónbjargarleið að fara með veggjöldum í varamannaskýlið.


Í upphafi skildi endirinn skoða

Það verður að segjast hreint út að manni er farið að gruna að til sveitarstjórna veljist eintómir fávitar. Nú er dásömuð sameining sveitarfélaga sem byggir á bættum samgöngum með sérstökum veggjöldum ofan á allt annað. Það er eins og þeir hafi ekki kynnt sér að í Noregi er orðin mikil andstaða við þá leið sem íslenskir ráðamenn ætla nú að þröngva upp á þjóðina og sveitastjórnarmenn hafa tekið að sér að dásama. 

Þegar ég bjó í Harstad í Troms N-Noregi var kosið um það í bæjarstjórnarkosningum árið 2011 hvort íbúarnir vildu flýta samgöngubótum með gjaldtöku, það var samþykkt naumlega, eins og í svo mörgum byggðum N-Noregs. Nokkrum árum seinna fóru að renna á fólk tvær grímur og heyrast fréttir af árangri gjaldtökunnar, m.a. frá Alta stærstu borgar Finnmerkur. Þó svo að ætla mætti að um brandara væri að ræða þá var svo ekki. Það kostaði nefnilega 1,30 kr að innheimta hverja krónu.

Nú keppast bæjarfulltrúar og sveitarstjórnarmenn á Íslandi við það að mæra gjaldtökuleiðina án þess að hafa hugmynd um hvað hún muni kosta. En ættu kannski heldur að spyrja að því með íbúum hvað ráðamenn gerðu við gjöldin sem voru eyrnamerkt vegaframkvæmdum en hafa af einhverjum orsökum rýrnað um allt að helming í meðförum stjórnmálamanna.

Halda þeir virkilega að veggjöldin hverfi ekki líka ofan í valda vasa?


mbl.is „Erum að horfa á nýja framtíð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég legg metnað minn í það að míga úti

og í mannskaðanum varð ég undir vegg; sungu Stuðmenn um árið. Nú fer mörg mannvitsbrekkan hamförum vegna loftslagsins, fólki er ráðlagt að míga í sturtu og tefla við páfann annan hvern dag. En stutt er síðan forseti Brasilíu ráðlegði fólki að hafa hægðir aðeins annan hvern dag til að sporna við mengun og hlýnun jarðar. Það kemur reyndar ekki fram hjá hinum norska Fróða hvort það sé æskilegt að fara í sturtu hvert skipti sem pissað er eða hvort það eigi að halda í sér fram að næstu sturtuferð.

Það kannast flestir iðnaðarmenn við hvað aðstöðuleysi til að létta á sér getur verið bagalegt. Þó svo að sumir verið sér úti um færanlegan kamar þá er sjaldnast gert ráð fyrir slíkum kostanaði þegar unnið er fyrir Pétur og Pál út um borg og bý, hvað þá sturtu. Eitt sinn þegar ég vann utanhúss múrverk við íbúðarhús víðlesins spekings kom til umræðu lögmál sem leitaði á hugann árum saman þegar mér varð mál utandyra. Meira en 30 ár liðu þar til að ráðgátan upplýstist.

Eins og oft vill verða á vinnustað þar sem er ekkert klósett þá hafði ég farið bak við hús til að míga og vonaðist til að ekki sæist til mín. Þegar ég var rétt byrjaður þá kom húseigandinn fyrir hornið. Hann sagði ábúðarfullur „bölvaður sé sá sem mígur upp við vegg“. Um afleiðingar þessa gæti ég lesið mig til um í Biblíunni.

Ég var snöggur að svara honum að því lygi hann, ég væri búin að lesa Biblíuna spjaldanna á milli og þetta stæði hvergi í henni. Hann þagði í smástund en sagði svo íbygginn á svip að þetta stæði kannski ekki í allra nýjustu útgáfu hennar. Auðvita laug ég því að hafa lesið Biblíuna spjaldanna á milli. En þetta samtal varð til þess þegar ég lét verða af því hafði ég það í huga hvort það gæti virkilega verið að þetta stæði í hinni helgu bók.

Eftir lestur næst nýjustu útgáfu Biblíunnar gat ég hvergi greint að ígildi þessarar bölbænar væri þar finna. Svo var það þegar ég las bók Stefáns Jónssonar, Ljós í róunni, að málið var upplýst. Þar er áhugaverð úttekt á þessari biblíutilvitnun og það sem meira er Stefán hafði rannsakað, gjörsamlega út í hörgul, sannleiksgildi þess að hana mætti finna í hinni helgu bók. Því rétt eins og ég trúði hann því ekki að óséðu.

Rannsókn Stefáns leiddi það í ljós að þessi tilvísun í bölvunina fyrir að míga upp við vegg væri í erlendum útgáfum Biblíunnar, en hefði af einhverju undarlegum ástæðum ævinlega verið sleppt við þýðingu hinnar helgu bókar yfir á íslensku. Tilvitnunina mætti finna í annarri konungabók þar sem Guð talaði í gegnum Elísa spámann um Jeróbam konung.

Komst Stefán helst að því að ástæða þess að þetta vantaði í íslensku útgáfur Biblíunnar væri af svipuðum toga og það að austfirðingar eru öðruvísi en annað fólk. En austfirðingurinn lætur segja sér það þrisvar sem nægir að ljúga einu sinni í suma aðra. Og sumu trúir hann aldrei hvað oft sem hann heyrir því logið. Svo má spyrja hvort ekki sé réttara að tækla hamfarhlýnunina með Stuðmönnum.


mbl.is Biður Norðmenn að pissa í sturtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er allt af fyllast af fábjánum með síma?

Það kemur fyrir á mínum vinnustað, þegar við vinnufélagarnir sitjum á andaktinni rétt fyrir kl 8 á morgnanna, að það er hringt. Þó svo að við störfum hjá fyrirtæki í byggingariðnaði þá snúast þessar símhringingar af og til um óskyld mál, jafnvel verið að falast eftir meiraprófsbílstjórum. Enda þeir orðnir vandfundinn fénaður vegna vesælla launa, endurmenntunarkostnaðar og þrúgandi sekta. Sumir virðast gruna þá um að hafa falið sig við að naglhreinsa og skafa spýtur. Stöku sinnum er verið að falast eftir múrarameistara enda þannig meistarar sjaldgæfir fuglar sem fara með veggjum.

Þegar Mannvirkjastofnun ríkisins var sett á laggirnar um árið svipti hún í reynd alla byggingameistara réttindunum nema ef þeir vildu halda ánægjunni við að ábyrgjast húsbyggingar. Þeir máttu svo sem vera fegnir réttindamissinum, enda hefði þurft að kosta til hundruð þúsunda gæðavottunarkerfi til þess eins að fá að árita ábyrgðaryfirlýsingar fyrir byggingastjóra. Þá taldi ég mig vera jafn hólpinn og um árið þegar bankarnir hættu að senda vini á vandamenn með víxilinn.

Ég hékk þó af einhverjum undarlegum ástæðum á skrá hjá Mannvirkjastofnun sem fullgildur meistari en var svo strikaður út vegna skorts á gæðakerfi og varð hvíldinni feginn. Þá voru bara aðrir tilbúnir til að kosta gæðavottunina, þannig að ég er áfram eltur heim á eldhúsgólf ef ekki næst í mig á morgunnandaktinni. Aftur taldi ég mig heppinn þegar ekki var tekið mark á ábyrgðaryfirlýsingu nema ég vottaði hana rafrænt með skilríkum svo byggingafulltrúinn þyrfti ekki að líta af símanum, enda gæti hann allt eins verið staddur með snjallsímanum sínum í fjarvinnsluferð á Old Trafford.

Rafræn skilríki hef ég ekki orðið mér út um frekar en gæðavottun og snjallsíma, því alveg sársaukalaust af minni hálfu þó ekkert mark sé tekið á undirskriftinni. Ekkert hefur samt losað mig við ábyrgðaryfirlýsinga eltingaleikinn og í framhaldinu símhringingar frá ungum lögfræðing sem heldur að ábyrgðaryfirlýsing múrarameistara nái jafnvel yfir val á ljótum flísum og telur það hortugheit að neita að mæta fyrir rétt út af svoleiðis smekkleysi. Áður fyrr var álitið að ábyrgðayfirlýsingar byggingameistara næðu einungis út yfir gröf og dauða. Þeir sem rýna í nýju reglugerðirnar sjá þó að þær geta allt eins náð í hina áttina líka.

Fyrir skömmu var ég beðinn um að skrifa upp á ábyrgðaryfirlýsingu vegna fjárhúsa sem höfðu fyrir 30 árum tekið upp á því hýsa gamla bíla og stóð loks til að fá tengd við hitaveitu. Ég skrifaði upp á fyrir samborgara mína enda angistin hjá þeim yfir því hvernig heita vatnið var heft með reglugerðinni einni meiri en hjá mér við símhringingar lögfræðinga. Allir sem komu að því að byggja þessi ábyrgðalausu fjárhús á sínum tíma voru komnir yfir móðuna miklu og þau byggð nokkrum árum áður en ég fæddist, en pappírinn verður að vera til upp í hillu reglugerðarinnar vegna.

Í haust var mér sagt frá því að kvöldlagi að keyrt hafði verið á sauðfé á þjóðvegi eitt, rollu með tvö lömb. Rollan hafði splundrast á miðjan veginn svo ekki varð framhjá komist, auk þess sem partar úr bílnum lágu tvist og bast en bílstjórinn hafði ákveðið að forða sér á leifunum af bílnum. Hálfum sólahring seinna áttum við hjónin ferð um þjóðveginn og þá lágu lömbin  enn dauð í kantinum, annað hálft inn á veginum en hitt hangandi í víravegriðinu. Mér datt augnablik í hug að draga hræin út af veginum en sá þá að gulur borði lögreglunnar var vafin um horn lambanna.

Þegar var farið að grennslast fyrir hverju sætti þá kom í ljós að það er ekki í verkahring lögreglu að draga dautt sauðfé af þjóðveginum nema ekki sé hægt að komast með einhverju  móti fram hjá, það er bóndinn sem á að sjá um rollurnar. Lögregla á að fletta markaskránni upp í símanum sínum og hringja í bóndann auk þess að tryggja vettvanginn með gulum borða svo engin gramsi í annarra eign og finna sökudólginn.

Hvort lögregluþjónar ríkisins taki að sér að draga hortuga gemlinga á við byggingameistara fyrir dómstóla ríkisins frekar en rolluhræ af þjóðveginum eða láti bara gula borðann nægja hlýtur að fara eftir eðli málsins og eitthvað um það að standa standa í reglugerðinni, annars þyrfti að fá úr því skorið fyrir dómi.

Þó sumum finnist draslaralegt að sjá hrafnager á rolluhræi þegar farið er um þjóðveginn, eða hálfbyggða bragga innan um puntstrá, þá þarf alls ekki að vera svo að ekki sé búið að leggja mikla vinnu í málið, bæði fé og fyrirhöfn. Það virðist samt vera svo að fleiri séu orðnir betur til þess bærir að möndla keisið með eftirliti, reglugerðalestri og skýrslugerð. Það sé einmitt þesskonar snjallsímavinna sem þjóðfélag þrífst á, ásamt himinháum gjöldum á þá fáu sem finnast í verklega framkvæmd. Er það nema von að okkur vinnufélagana gruni að til séu fleiri fábjánar með lausar skrúfur eða síma en við á andaktinni.

Það hefur samt ekki gerst enn á morgunnandaktinni að hringt sé til að biðja um bæjarstjóra svipað og gerðist á síðustu öld, þegar nýsameinað sveitafélag auglýst eftir sveitarstjóra og réði bílstjóra. Þegar einn skaðmenntaði umsækjandinn óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningu þess er starfið hlaut t.d. prófgráðum úr æðri menntastofnunum, þá svaraði oddvitin galvaskur "hann er með meiraprófið góða mín".


Í þögn stendur verksmiðjan ein

IMG_4328

Það er fátt sem á eins vel við "þetta reddast" hugarfar þjóðarsálarinnar og verksmiðjurekstur. En dramatíkin hefur þó verið mest í kringum síldarbræðslur. Til eru dæmi þess að sjálfstæð hagkerfi með eigin gjaldmiðli hafi orðið til kjölfar bræðslu, s,s, Djúpavogspeningarnir sem notaðir voru á áhrifasvæði Kaupfélags Berufjarðar eftir að síldin hvarf árið 1968 og nýbyggð bræðsla stóð verkefnalaus í skuld. Bræðslan á Djúpavogi var síðan orðin úrelt þegar næsta uppsjávarævintýri gekk í garð með tilheyrandi bræðslubyggingum á 10 áratug síðustu aldar. En gamla bræðslan hafði dugað ágætlega sem gúanó fabrikka við að losa frystihúsið við fiskiúrgang í beinamjöl.

Aftur var hafist handa á Djúpavogi við að endur -bæta og byggja-  bræðsluna seint á 10. áratugnum sem endaði svo með enn meiri ósköpum en einungis þeim að taka upp sjálfstæðan gjaldmiðil. Upp úr því ævintýri tapaðist stærsti hluti aflaheimilda á staðnum, fiskiskipin hurfu á braut og mest allt forræði heimafyrir yfir sjávarútvegi fór forgörðum. Lokakaflinn í sorgarsögu bræðslunnar á Djúpavogi var svo þegar Guðrún Gísladóttir KE, þá eitt glæsilegasta skip íslenska flotans, sökk við Lofoten í Noregi.

Síðan hafa eggin hans Sigurðar listamanns í Himnaríki skreytt löndunarkæjan í Innri Gleðivík og Rúllandi snjóboltar verið helsti árlegi viðburðurinn í bræðslunni og hægt hefur verið að komast inn í einn hráefnistankinn til að öskra, auk þess sem húsakynnin hafa verið notuð til að flokka sorp. Það sorglega er að þessi örlög mátti sjá fyrir, því það að byggja upp bræðslu að áliðnu ævintýri hefur oftast endað með ósköpum. Í tilfelli Djúpavogs endaði kvótinn fyrir slikk hjá Vísi í Grindavík, eða eins einn kunningi minn orðaði það, þeir fengu 4 milljarða kvóta fyrir 1 milljarð og seldu um leið bræðsluna fyrir 1 milljarð og borguðu þar af leiðandi aldrei neitt. 

IMG_4333 

Það var ekki meiningin að nota þennan pistil í að básúna um bræðsluna á Djúpavogi og það hvernig mikilmennskubrjálæði og hjaðningavíg heimamanna ollu Djúpavogi stórtjóni undir aldamótin. Enda sú sorgarsaga of stór fyrir mitt hjarta og þennan pistil. Heldur ætlaði ég að segja frá afreki í Djúpuvík, sem mig hefur alltaf heillað sem steypukall, en ég gerði mér erindi til að skoða núna í sumar. Bræðslubyggingar byggingameistarans í Djúpuvík urðu reyndar þrjár risa bræðslur sem standa enn í Djúpuvík, á Hjalteyri og í Ingólfsfirði.

Það sem undraði mig mest þegar ég heyrði fyrst sagt frá byggingu þeirra var hvað byggingameistarinn var ungur að árum og hvernig hann fór að því að steypa upp þvílík mannvirki um há vetur. Því allir sem eitthvað hafa fengist við steypu vita hvað erfitt er að steypa í frosti. En kannski var einmitt ungur aldur byggingameistarans ástæðan fyrir því hversu vel tókst til að steypa í frosti, frjór ofurhugur hins unga manns með ögn af fífldirfsku.

Byggingameistarinn hét Helgi Eyjólfsson og var fæddur á Grímslæk í Ölfusi 1906. Helgi lærði húsasmíði og fékk meistararéttindi sem húsasmiður árið 1928. Næstu 20 árin stundaði hann sjálfstæðan rekstur og byggði mörg falleg hús í Reykjavík og víðar. Þar að auki byggði hann síldarverksmiðju Alliance í Djúpuvík í Reykjafirði á Ströndum árið 1935, verksmiðju Kveldúlfs á Hjalteyri 1937 og síldarverksmiðju í Ingólfsfirði 1942. Helgi hefur því verið innan við þrítugt þegar hann byggir verksmiðjuna í Djúpuvík.

Alliance reisti á sínum tíma fullkomnustu síldarbræðslu í Evrópu í Djúpuvík. Hlutafélagið Djúpavík hf var til þess stofnað 22. september 1934. Framkvæmdir stóðu yfir árin 1934­-35. Guðmundur Guðjónsson arkitekt teiknaði verksmiðjuna og sá um byggingu hennar með Helga. Fyrsta sumarið, sem verksmiðjan var tilbúin til að taka við síld til vinnslu, 1935 brást síldin algerlega. Næsta ár var svo mjög gott, en síðan gekk á ýmsu, þar til síldin hvarf alveg af Húnaflóa og var starfsemi hætt 1952.

IMG_4343

Það er fjallað um þessar bræðslubyggingar í bók Birgis Sigurðssonar rithöfundar "Svartur sjór af síld". Með ólíkindum er hvernig Helga tókst að reisa stærstu byggingar, sem reistar höfðu verið úr steinsteypu hér á landi við þær aðstæður sem ríktu á miðjum fjórða áratugnum og það í Djúpuvík. Í bók Birgis segir Helgi frá því þegar hann tók að sér að byggja bræðslu  á Hjalteyri við Eyjafjörð fyrir Kveldúlf hf eftir að afrek hans í Djúpuvík höfðu spurst.

-Að hausti til tveim árum eftir að ég byggði á Djúpuvík, komu Kveldúlfsmenn til mín, Richard Thors og bræður hans. - Viltu byggja fyrir okkur síldarstöð á Hjalteyri? Spurðu þeir. - Ég veit ekki, sagði ég. - Geturðu lokið henni á tveim árum? - Látið mig sjá plönin og teikningarnar, sagði ég - sannleikurinn er sá, segja þeir, að það veltur á að Kveldúlfur verður gerður upp. Bankinn féllst á að bíða ef við gætum komið stöðinni upp á tveim árum - Látið mig sjá plönin og teikningarnar svo skal ég svara ykkur - Ef þetta gengur ekki erum við búnir að vera segir Richard - Ég skal líta á þetta og segja ykkur hvort það er hægt, sagði ég. Svo skoðaði ég áætlanir þeirra og hugmyndir vandlega. Þetta átti að vera stór síldarbræðsla, minnst fyrir fjóra togara. Það gerði mér auðveldara fyrir að ég var búinn að byggja á Djúpuvík. Síðan boðaði ég þá á minn fund strax þarna um haustið og sagði við þá: - Hafiði ekki áhuga á að geta byrjað að bræða strax næsta sumar á venjulegum tíma? Þeir þögðu bara og störðu á mig og ég fann að þeir álitu sig vera að tala við snarbrjálaðan mann.- 

- Þú steypir nú ekki í frosti! - Það er mitt vandamál, en ekki ykkar, svaraði ég. Síðan fór hver til síns heima. Í mars byrjaði ég að steypa og notaði aðferð gegn frostunum sem aldrei hafði verið notuð í heiminum að vitað var. Ég fékk mér ketil og bjó til kerfi. Dældi svo sjó eftir kerfinu inn á ketilinn og hitaði hann upp í suðumark. Þaðan rann hann svo ó stóran tank og í steypuvélina. Svo steypti ég. Kallarnir í nágrenninu komu til að sjá vitlausa manninn sem steypti í frosti. En steypan varð glerhörð á þrem dögum. Svo kom Richard og sagði - Ja, hvur andskotinn! 

 IMG_4353

Bygging bræðslunnar á Hjalteyri var ævintýr, kraftaverk hraða og vinnuafkasta. Byrjað er að grafa fyrir verksmiðjunni í febrúar, reisa húsið í mars, farið að koma fyrir vélum í því í apríl og maí, og 20. júní er byrjað að bræða þar síld. Í íslenskri byggingarsögu er þetta óviðjafnanlegur byggingarhraði. Síldarverksmiðjan var samt ekki fullreist þegar hún tók til starfa, heldur höfðu þá verið reistir þeir hlutir hennar sem nauðsynlegastir voru svo hún gæti unnið verðmæti og starfað á meðan verið var að reisa aðra hluti hennar eftir því sem þeirra var þörf.

Bræðslubyggingar Helga Eyjólfssonar eru því afrek, þær voru byggðar á mettíma, við erfiðar aðstæður og  um miðjan vetur. Helgi notaði sína aðferð við að steypa í frosti, þó að flestir væru vantrúaðir á þá aðferð og eru jafnvel enn í dag. Allt gekk þó upp og Hjalteyrarverksmiðjan varð mikil lyftistöng fyrir þá Kveldúlfsmenn. Þessar stóru síldarverksmiðjur eru merkilegur kafli í atvinnusögu Íslendinga, þegar síldin kom við sögu og lýsa vel hvernig "þetta reddast" hugarfar landans á það til að hitta beint í mark. 

IMG_4360

 


Íslenska hryðjuverkið

Það var þennan dag fyrir 11 árum sem  breska ríkisstjórnin ákvað að frysta eigur Landsbankans sem og íslenska ríkisins í Bretlandi í krafti hryðjuverkalaga. Þetta var þriðji dagurinn í "guð blessi Ísland" eða "hinu svo kallaða hruni". Þessi atburðir höfðu gríðarleg áhrif á flesta Íslendinga, og enn þann dag í dag. Kannski finnst samt mörgum að rétt sé að gleyma þessum atburðum og afleiðingum þeirra eins og hverju öðru hundsbiti með því að þegja í hel.

Svo vill til að þessi dagur ber upp á afmælisdaginn minn. Fyrir hrun og facebook átti ég það til að gleyma honum en það hefur ekki gerst eftir íslenska hryðjuverkadaginn. Á árunum sem á eftir fóru voru framin mörg óhæfuverkin gagnvart íslenskum heimilum um leið og kerfið sem kallað hafði yfir sig hryðjuverkalögin var endurreist. Nú má sjá sama vanskilalýðinn og fóru með veggjum fyrir tíu árum síðan baða sig í sviðsljósinu, kúlulánaþegana þenja sig á þingi og hugmyndaflug gamma svífa yfir seðlabankanum.

Sjálfur lenti ég á vergang upp úr "hinu svokallaða hruni". Eftir að hafa gefist upp á að taka á móti stefnuvottum fór ég til Noregs vegna vinnu með launum sem rétt dugðu til að greiða uppaskrúfaðar skuldir vegna ljósritaðrar ábyrgðar á fyrirtæki í horfnum byggingaiðnaði. Matthildur mín ætlaði að koma í kjölfarið en þá kom í ljós að hún hafði misst heilsuna, þannig að hún átti áfram heima heima og tók á móti stefnuvottunum.

Það opinbera skráði okkur hjónin skilin þrátt fyrir að við hefðum heitið hvort öðru tryggð þar til dauðinn aðskilur. Skilnaðar skráning hryðjuverkasamtakanna var ekki til að auðvelda okkur eftirhrunsárin í sitthvoru landinu. Ekki stendur til nú að orðlengja þessi ár en þeim var gerð skil í bók daganna undir færsluflokknum "kreppan" sem má finna hér á síðunni til vinstri.

Sumarið 2012 kom Matthildur mín í eina heimsóknina til Noregs og dvaldi lungann úr því sumri með okkur vinnufélögunum, sem vorum flóttamenn frá, Afganistan, Súdan og Íslandi, í smáhýsi á tjaldstæði norður í Finnsnesi. Þar sem fyrirtækið sem við unnum hjá var með múraraverkefni í járnblendiverksmiðju. Þetta sumar gafst ég endanlega upp fyrir bankanum, enda kostaði bréf frá lögfræðideildinni þegar þá var komið sögu 300 þús með óskum um að ekki þyrfti að koma til frekari bréfaskrifta. 

Í Noregi dvaldi ég á slóðum sem flesta Norðmenn dreyma um að heimsækja og telja sig heppna að ná því einu sinni á ævinni. Fyrirtækið sem ég vann hjá er í Harstad á Hinnoya sem er nyrst í eyjaklasa Lofoten, og utan við eru eyjar Vesterålen. Sumarið 2012 héldum við upp á 50 ára afmæli Matthildar og 25 ára brúðkaupsafmæli okkar með því að fara eina helgi út á hvítar strendur Vesterålen og voru þá söngvarnir hans Bubba hafðir með í för. Já, og svo því sé haldið skilmerkilega til haga þá vorum við Matthildur mín ein af þeim heppnu.


Bundið mál í fjölritunarspritti

Það má seigja sem svo að margt af því sem kemst á blað ætti aldrei að koma fyrir almenningssjónir. Svo er margt sem geymist í bundnu máli sem hefur mikið upplýsingagildi þegar fram líða stundir. Þar má m.a. nefna leiftrandi veðurlýsingar 19. aldar sem birtast í ljóðum Kristjáns fjallaskálds, s.s. í Yfir kaldan eyðisand og Þorraþræll. Ekki eru síðra í þessu sambandi upplýsingagildi þeirra kvæða sem Snorri Sturluson er sagður hafa byggt á þegar hann lýsti heimsmynd þeirra heiðnu manna sem sagðir eru hafa fyrstir numið Ísland. Heimsmynd heiðninnar hefði varla varðveist nema vegna þessara kvæða.

Undanfarin ár hef ég annað slagið punktað hjá mér það sem vekur minningar um það sem var, og eru þau minnisblöð tvist og bast í tölvunni hjá mér og stundum rekst ég á þessi skrif óvænt. Þetta er s.s. ekkert sem hefur upplýsingagildi fyrir nokkurn mann og ætti varla að birtast á bloggi, er ekki merkilegra en hvert annað fyllerísraus. Það verður samt stundum spurning eins og með hvern annan kveðskap, hvoru megin við fylleríið var ort. Stundum virka svona minningabrot eins og gömul mislukkuð ljósmynd sem hefur aðeins gildi fyrir það eitt að inn á hana hefur villst gulur Braga kaffipakki.

Hér er fyrir neðan er einn punktur um svona gallaða mynd sem upplýsir reyndar minna en gulan Braga en lýsir þó veröld sem var og ljóðum sem hurfu í óminnishegrann.

28.01.2017 Fjölritunarspritt og þýftir þúfnakollar

Þann 20. Janúar s.l. var ég minntur á að 40 ár væru liðin frá því að við Alli vinur minn yfirgáfum Laugaskóla. Við vorum reyndar reknir með skít og skömm fyrir nokkurra daga fyllerí á fjölritunarspritti. Alli sendi mér eftirfarandi kveðju í skilboðum facebook í tilefni tímamótanna:

Sæll vertu minn gamli vin. Nú er að detta í 40 ára brottvísun okkar frá Laugaskóla. Í því tilefni datt mér í hug að við gáfum út all merka ljóðabók í afar fáum eintökum sem bar nafnið "Þýftir þúfnakollar" Átt þú til í eigu þinni eintak af henni? eina sem ég man úr þeirri bók er upphaf að ljóði eftir mig.

Ó vort líf Satan

Bjargað þú oss frá

heilagri kirkju

og brjálaðri atómmenningu

Því miður þá á ég ekkert eintak af þessu tímamótaverki og það sem verra er, ég man ekki stakt orð úr því. En ég sé á því sem Alli þó man að þetta hefur verið djúphugsuð ljóðlist. Það hefði verið gaman að muna ljóð eftir sig frá þessum tíma þó ekki væri nema brot úr ljóði eins og Alli. En mig minnir að nafngiftin á bókinni hafi verið mín.

Það var oft fyrsta áratuginn á eftir brottvísunina, sem Alli átti það til að hringja í mig að næturlagi og lesa upp út þessari bók. Síðast hringdi hann 1986 eða 1987 eftir að við Matthildur mín vorum farin að búa saman. Og svo ekki fyrr en 2003 þegar við bjuggum í Grafarvogi, en þá sagðist hann vera búinn að tína sínu eintaki.

Alli endaði þessa hugrenningu á facebook á þessum orðum „Ef ég man rétt þá þótti þetta frekar framúrstefnulegur kveðskapur, eitt síðasta verkefni fjölritunarstofu Lauga áður en sprittið fór að dofna“. Enda höfðum við í byrjun sprittdrykkjunnar passað upp á að blanda vatni í staðinn fyrir sprittið sem við tókum úr brúsunum.


Skammtaður skilningur

Það er stundum sagt að til að geta tekið rétta ákvörðun þurfi að búa yfir upplýsingum. Enda lifum við á öld upplýsinga, fjölmiðla og samfélagsmiðla. En hvað ef upplýsingarnar sem virðast réttar eru rangar? Hvort sem það er trúarleg þekking eða upplýsingar um hvernig eigi að bæta líf manna almennt, hefur þeim verið útdeilt af stofnunum í gegnum söguna. Allt frá goðsögulegum seiðmönnum til vísindamanna nútímans hafa upplýsingar á hverjum tíma verið sagðar réttar. Nú á tímum útdeila ríkisvaldið og fjármagnseigendur upplýsingunni til fjölmiðla.

Upplýsingar hafa alltaf haft tilgang, hafi þær á annað borð verið birtar. Þær eru gefnar í skömmtum s.s. „vísindamenn hafa nýlega uppgötvað,,“, „greiningadeildir bankana hafa reiknað,,“ osfv. Nútíminn er orðin yfirfullur af innrætingu sem skipulega er útdeilt á fjöldann. Upplýsingum er komið á framfæri af hagsmunadrifnum fjölmiðlum í formi frétta til gera skoðanamyndun einsleitari og auðvelda fólki ákvarðanir. Þetta er gert markvist með því að stilla upp góðu gagnvart vondu s.s.; þróað á móti vanþróað; löglegt eða ólöglegt osfv, með svart hvítum sannleika samanfléttuðum með djúpum vísindalegum sannindum þeirra sem eiga að vita betur.

Almenningur er hvað eftir annað losaður við óþægilegan raunveruleika með upplýsingum sem helga meðalið. Þar getur ímyndunin ein umhverft sannleikanum og allri tilfinningu fyrir því sem er rétt. Slíkan blekkingaleik má víða sjá í fjölmiðlum, t.d. þar sem barist er með drápum fyrir friði, stríði gegn hryðjuverkum, hamfarahlýnun með aukinni skattheimtu osfv sofv. Undir stöðugu áreiti upplýsinga hverfur smá saman gagnrýnin hugsun og meðvituð athugun. Og þegar ekki verður lengur skilið á milli sannleika og trúarbragða þá umverpist veruleikinn og ímyndunin ein tekur við sem hið rétta.

Við lifum í samfélagi þar sem langt er frá því að allt sé eins og sýnist. Veruleikinn er framleiddur af stjórnvöldum, stórfyrirtækjum, þrýstihópum, stjórnmálaflokkum og fjölmiðlum í þeirra eigu. Því ætti alltaf að spyrja „Hvað er rétt?“ Og takmarka fjölmiðlanotkun vegna þess veruleika sem þar er framleiddur á háþróaðan hátt. Annars sitjum við undir stöðugu áreiti gervi veruleika og falsfrétta. Upplýsingar og fréttir nútímans snúast meira um ímyndarstjórnun en það að upplýsa fólk, að hafa áhrif á huga er gróðavænlegra en að upplýsa.

Lokatakmark upplýsinga er stjórnun, óbrenglaðar hafa þær alltaf verið hættulegar valdinu, eins og trúarlegar og félagslegar stofnanir hafa lengi vitað. Ríkjandi upplýsingar leitast við að búa til leiðandi fyrirsagnir, ritskoðaðar fréttir, klipptar og hljóðsettar fréttamyndir. Sem neytendur fjölmiðla erum við að takmarka skilning okkar og samþykkja óraunveruleika.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband