Orkupakkinn með fyrirvara andskotans

"Það sem var kynnt hér fyr­ir helgi snýst í raun og veru um það að á meðan Ísland er ekki tengt inn á þetta orku­kerfi Evr­ópu, eigi ekki við ákvæði þriðja orkupakk­ans", sagði forsætisráðherra sem jafn­framt benti á að teng­ing við orku­kerfi Evr­ópu yrði ekki komið á nema með samþykki alþing­is. Með þessháttar útúrsnúningi sleppa stjórnmálamenn ævinlega við að svara spurningunni, til hvers á alþingi Íslendinga að samþykkja framsal á orkuauðlindum landsins, og þá sérstaklega ef samþykktin skiptir engu máli.

Það er þrástagast á því að ekkert breytist á meðan ekki er lagður strengur frá landinu til annarra landa, ákvörðunin um það verði áfram í höndum alþingis. Eins og orðum þeirra sem hafa "kjararáðssópað" ofan í eigin vasa með orðhengilshætti og útúrsnúningum sé treystandi. Fólki sem einna helst verði trúað til að ganga fyrir mútum þegar það andskotast við að koma orkuauðlindum landsins á markað.

Staðreyndin er að nú stendur til leiftursókn þjóðkjörinna fulltrúar á alþingi gegn almenningi, gengur nú undir nafninu 3.orkupakkinn með "fyrirvara". Þar stendur til að markaðsvæða raforku til þjóðar sem á hana. Eftir að ACER regluverk ESB hefur verið samþykkt þá þurfa þjóðkjörnir fulltrúar ekki einu sinni að svara fyrir það hvers vegna sérvaldir gæðingar fá að sópa til sín verðmætum úr sameiginlegri auðlind. 

Fyrir nokkrum árum bjó ég í Noregi, en þar er raforkukerfið tengt Evrópu. Þar kom fyrir 30% hækkun á rafmagni við það eitt að hitastigið úti fór niður fyrir frostmark í nokkra daga. Jafnvel þó svo að í Noregi sé framleidd meiri raforku en Norskur almenningur getur torgað.  Kvörtunum var svarað með; markaðurinn ræður og hann er ekki bara í Noregi.

Þegar auðlindir eru teknar frá þeim sem í þeim búa þá er það kallað markaðsvæðing og á að vera til þess að finna út svokallað markaðsverð. Ef 3.orkupakkinn verður samþykktur þá er ekki einu sinni víst að það þurfi alvöru "kapal" til að finna út "markaðsverð" það verði nóg að vitna til ACER. 

Þeirra tilskipanir gilda. Innlendir viðskiptajöfrar, svipaðir þeim sem fóru fyrir Geysir Green Energy korter fyrir "hið svokallaða hrun", útbúa svo markaðsverðið samkvæmt "Sterling uppskriftinni". Og geta með því að vísa í ACER regluverkið komið sæstreng í gegnum dómstóla þegar þeim sýnist, svona rétt eins og hverjir aðrir kvótakóngar.

Ef einhver áttar sig ekki á því hvernig "kapallinn" verður lagður svo hann gangi upp, þá er ekkert nýtt undir sólinni. Svona markaðsvæðing með "fyrirvara ríkis" hefur verið framkvæmd áður og var á sínum tíma kölluð ENRON svindlið. Þar var raforka almennings snarhækkuð með sýndarviðskiptum og "fyrirvara samþykki" annaðhvort fábjána eða gjörspilltra andskota, nema hvoru tveggja hafi verið.

Í bréfi sem orkumálastofnunin (FERC) sendi segja rannsóknarmenn stofnunarinnar að skjölin lýsi hvernig undir svokallaðri Helstirnisáætlun hafi fjárfestar Enron „skapað, og síðan „létt af“, ímyndaðri vöntun“ á orkuneti ríkisins. Samkvæmt New York Times lýsa skjölin einnig í smáatriðum því sem rannsóknarmenn lýstu sem „megavattaþvætti“ þar sem Enron keypti rafmagn í Kaliforníu – á lægra verði – seldi rafmagnið út úr ríkinu og keypti það síðan aftur til að selja það til baka til Kaliforníu á uppsprengdu verði. Með því að selja Kaliforníuríki rafmagn frá öðru ríki gat Enron farið í kringum verð,,,,,

Á bloggsíðu Jónasar Gunnlaugssonar má lesa nánari lýsingu á því hvernig raforka Kaliforníubúa var markaðsvædd með svindli, sjá hér


Þeir litu blóðs í pollinn

IMG_2639

Um Hvítasunnuleitið árið 1784 var ógeðfellt morð framið í grennd við syðsta bæ í Breiðdalshreppi, Streiti á Berufjarðarströnd, eftir að þrír ungir menn lögðust út og hugðust lifa í félagi sem útilegumenn, inn í atburðarásina blandaðist síðar fjórði austfirski  unglingurinn. Örlögin höguðu því þannig að allir þessir ungu menn tíndu lífinu í framhaldi þessa Hvítasunnumorðs. Síðasta opinbera aftakan á Austurlandi var lokakaflinn í þeirri atburðarás, þegar einn þessara ungu manna var aflífaður á hroðalegan hátt á Eskifirði rúmum tveimur árum seinna. Sagan hefur ekki farið fögrum orðum um ævi og örlög þessara drengja, en spyrja má hverjir voru valkostirnir.

Árferðið 1784 var eitt það versta sem á Íslandi hefur dunið, móðuharðindin voru þá í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á lífskjörum fólksins í landinu. En árið 1783 hófust eldsumbrot á Síðumannaafrétti í Lakagígum sem sagan kallar Móðuharðindin. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um mitt sumar, hraunflóð vall fram milli Síðu og Skaftártungu með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og flókið úr flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja átthaga sína, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fénaður kom magur af fjalli ef ekki horaður og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þegar fallinn.

Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins þrjár kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Melarakkasléttu, reikaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyflin í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu. Mannfólkið var svipað leikið um vorkomuna 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði auk blóðkreppusóttar og annarra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli sveita og bæja. Þetta sumar gengu menn víða um land fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.

Ofan á þessar hörmungar bætast svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, þegar fjöllin hristu af sér jarðveginn svo gróðurtorfurnar lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bóndabæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu. Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Þó greina annálar frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið hvað skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.

Djúpivogur

Djúpivogur

Þann 10. júní 1784 var Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga staddur á Djúpavogi, en hann var búsettur á Eskifirði. Þar sem hann var í kaupmannshúsinu hjá Grönvolt ritaði hann bréf til dönsku stjórnarinnar sem átti að fara með verslunarskipinu sem lá við ból úti á voginum, ferðbúið til Kaupmannhafnar. Gripið er hér niður í bréf sýslumanns; , .. tel ég það mína embættisskyldu að skýra hinu háa stjórnarráði stuttlega frá óheyrilegu eymdarástandi þessarar sýslu, sem orsakast ekki aðeins af feiknarlegum harðindum tveggja undangenginna ára, heldur hefur dæmalaus ofsi síðastliðins vetrar þreifanlega á því hert; því eftir að napur kuldi ásamt viðvarandi öskufalli og móðu af völdum eldgosa höfðu kippt vexti úr gróðri, þá þegar örmagnað búpeninginn sem fitna átti á sumarbeitinni, skall hér á strax um Mikjálsmessu (þ.e. 29. sept) svo harður vetur, að hann gerist sjaldan bitrari í marsmánuði. Hlóð þegar miklum snjó í fjöll og dali, svo að fé fennti víða á svipstundu.

Menn urðu að hætta heyskap í miðjum klíðum. Heyið lá undir snjó og spilltist. Lestir á leið að höndlunarstöðum komust ekki leiðar sinnar, en urðu að láta þar nótt sem nam. Þeir sem voru á heiðum uppi misstu ekki aðeins hesta sína úr hungri, heldur skammkól þá sjálfa í frostinu. Veðurfar þetta hélst fram í miðjan nóvember, er heldur brá til hins betra. Með nýári hófst miskunnarlaus vetrarharka með langvinnum stormum og fannfergi og svo óstjórnlegu frosti, að um 20. febrúar hafði alla firði lagt innan úr botni til ystu nesja, en slíks minnast menn ekki næstliðið 38 ár. Hér við bætist hafísinn, sem hinn 7. mars þakti svo langt sem augað eygði af hæstu fjallstindum, og hélst þessi ótíð fram á ofanverðan apríl, að heldur hlýnaði í lofti, þó ekki nóg til þess að fjarðarísinn þiðnaði eða hafísinn hyrfi frá landi fyrr en í maímánaðarlok.

Sauðfé og hross, sem hjarað höfðu af harðærin tvö næst á undan og fram á þennan ódæma harða vetur féll nú víðast hvar í sýslunni... Búendur á hinu kunna Fljótsdalshéraði, sem áður voru fjáðir og gátu sent 5-8 eða 10 hesta lestir í kaupstað, verða nú að fara fótgangandi um fjöll og heiðar og bera á sjálfum sér eina skeppu korns í hverri ferð... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti, flakk og þjófnaður ágerist svo, að ég hef síðan manntalsþing hófst haft auk annarra, sem refsað hefur verið, tvo sakamenn í haldi, sem dæma verður til Brimarhólmsþrælkunar, af því hesta er hvergi að fá til að flytja þá í fangahús landsins...

Landsbóndinn hefur misst búfjáreign sína, og missir hrossanna gerir honum með öllu ókleift að stunda atvinnu sína eða afla sér brauðs, þótt í boði væri. Sjóarbóndinn svonefndi, sem um mörg undanfarin ár hefur eins og hinn að mestu lifað af landsins gæðum, er engu betur settur...; verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema Yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara Yðar þrautpíndu fátæku undirsáta á eftirfarandi hátt.

1. Að kaupmenn konungsverslunarinnar hér í sýslu fengju með fyrsta skipi skýlaus fyrirmæli um að lána öllum bændum sýslunnar undantekningalaust nauðsynjavörur, þó í hlutfalli við þarfir og fjölda heimilisfólks.

2. Að Yður náðarsamlegast þóknaðist að gefa fátæklingunum í hreppunum, þeim sem annars féllu, tiltekinn skammt matvæla, þar sem lán sýnist ekki mundu verða til annars en sökkva þeim í skuldir, sem aldrei yrði hægt að borga

3. Eða, að Yður allramildilegast þóknaðist að flytja héðan það fólk, sem komið er á vergang og vinnufært teldist, annað hvort til Danmerkur eða annarra staða hérlendis, þar sem betur kynni að horfa, til að létta þá byrði sem það er á örsnauðum fjölskyldum, sem þreyja á býlum sínum, og bjarga þannig dýrmætu lífi margrar óhamingjusamrar manneskju, er ella hlyti að hníga í valinn ríkinu til tjóns...“

Það er í þessu árferði, á uppstigningardag, sem þrír ungu menn hittast á Hvalnesi við sunnan verðan Stöðvarfjörð og eru sagðir hafa gert með sér félag um að leggjast út. Sá elsti þeirra hét Eiríkur Þorláksson fæddur á Þorgrímsstöðum í Breiðdal árið 1763 og vistaður hjá séra Gísla Sigurðssyni á Eydölum. Umsögn séra Gísla um Eirík var á þann veg; að hann væri latur, áhugalaus um kristin fræði, hneigður til stráksskapar, þjófnaðar og brotthlaups úr vistum. Eiríkur hafði, þegar hér kemur sögu, hrökklast úr vist við norðanverðan Reyðarfjörð á útmánuðum. Hann hafði verið hjá Marteini Jónssyni útvegsbónda í Litlu-Breiðuvík í Helgustaðahreppi, sem var sagður „valinkunnur maður“, og sjósóknari í betra lagi, ekki er ólíklegt að Eiríkur hafi róið með Marteini og hafi því hrakist til neyddur úr góðri vist.

IMG_2706

Sá yngsti þeirra þriggja var Gunnsteinn Árnason, fæddur 1766, frá Geldingi (sem heitir Hlíðarendi eftir 1897) í Breiðdal. Hann hafði dvalist með foreldrum sínum framan af æfi en þau annaðhvort flosnað upp eða fyrirvinnan látist, var honum fyrirkomið sem niðursetningi á Þverhamri í Breiðdal um 12 ára aldurinn. En síðast settur niður á Einarstöðum við norðanverðan Stöðvarfjörð (þar sem þorpið á Stöðvarfirði stendur nú) og hafði þaðan hrakist í apríl byrjun. Eftir það hafði hann dregið fram lífið á flakki á milli bæja allt frá Breiðdal í Fáskrúðsfjörð. Umsögn séra Gísla á Eydölum um Gunnstein er á þann veg að hann teljist læs en latur og kærulaus um kristin fræði.

Þriðji ungi maðurinn sem kom þennan uppstigningadag í Hvalnes var Jón Sveinsson frá Snæhvammi í Breiðdal sennilega fæddur 1764. Sagður á sveitarframfæri eftir að hafa misst föður sinn sem fór niður um ís á Breiðdalsá 1772. Hann er þó skráður sá eini af fjölskyldu sinni hjá föðurbræðrum sínum í Snæhvammi 1771, svo ef til vill hefur fjölskyldunni verið tvístrað áður en faðir hans fórst. Bræður hans eru síðar skráðir niðursetningar víða um Breiðdal, en hann niðursettur að Ánastöðum 10 ára gamall og síðar í Flögu og Eyjum, en eftir það hjá Birni föðurbróðir sínum í Snæhvammi. Þennan uppstigningardag á Hvalnesi leikur grunur á að Jón hafi verið orðinn sjúkur og máttlítill. Haft var eftir Jóni Árnasyni í Fagradal sem hafði hitt nafna sinn skömmu áður, að hann hafi verið magur, en þó gangfær, og ekki kvartað um veikindi.

Eins og greina má af opinberum lýsingunum höfðu þeir félagar ekki átt sjö dagana sæla. Enda hafa þeir sem minna mega sín, allt frá fyrstu hallærum Íslandssögunar, átt verulega undir högg að sækja. Sagnir herma að fyrsta hungursneiðin eftir að land byggðist hafi verið kölluð „óöld“ (975) „Þá átu menn hrafna og melrakka og mörg óátan ill var þá étin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir drepnir.“ Í Flateyjarbók segir að árið 990 hafi verið svo mikið hallæri á Íslandi, að fjöldi manna hafi dáið úr sulti. Þá var samþykkt á héraðsfundi í Skagafirði, að reka út á gaddinn öll gamalmenni og vanheila, og banna að veita þeim hjálp. (En Arnór kerlinganef, sem kannski var kallaður svo vegna afstöðu sinnar, kom í veg fyrir að þetta væri gert). Því þarf kannski ekki að koma á óvart, miðað við árferðið þetta vor, að þessir þrír ungu menn hafi látið sig dreyma um betra líf sem útilegumenn.

UntitledÞeir félagar Eiríkur, Gunnsteinn og Jón lögðu upp frá Hvalnesi við Stöðvarfjörð að kvöldi uppstigningardags þann 20 maí 1784, sennilega án þess að nokkur sakanaði þeirra, enda vafalaust lítið til skiptana handa gestum og gangandi í því árferði sem ríkti, hvað þá handa ómögum. Fóru þeir fyrir Hvalnesskriður(nú er algengara að kalla bróðurpart lands Hvalness við Stöðvarfjörð, Kambanes, og hluti fyrrum Hvalnesskriða er kallaður Kambaskriður). Þar hefur hafísinn lónað úti fyrir ef marka má bréf Jóns sýslumanns. Þeir fóru yfir í Snæhvamm í Breiðdal og eru sagðir hafa gist þar hjá frændum Jóns. Síðan fara þeir yfir í Þverhamar og sagði Gunnsteinn þá hafa gist í fjósinu, hafa kannski ekki gert vart við sig hjá Höskuldi hreppstjóra Breiðdælinga þar sem Gunnsteinn hafði verið niðursettur nokkru fyrr. Á þriðja degi fluttu þeir sig suður í Krossdal gegnt Breiðdalseyjum þar sem þeir hafast við í kofa eina nótt og þaðan fara þeir upp í miðja kletta í fjallinu Naphorni á Berufjarðarströnd, við Streiti syðsta bæ í Breiðdalshreppi. Þar gerðu þeir sér sér byrgi og bjuggu um sig upp í klettarák. Þegar þarna var komið var Jóni Sveinssyni ekki farið að lítast á blikuna og vildi draga sig úr félagskapnum. Enda orðin það sjúkur að hann taldi sig betur kominn í byggð. Eiríkur aftók það með öllu.

IMG_2674

Neðst á myndinni má greina bæinn Streiti þar sem hann kúrir undir Naphorninu

Í fyrstu reyndu þeir að seðja hungrið með því að grafa upp hvannarætu ofan við klettana við Streiti, þar sem Stigi heitir, en fóru fljótlega heim að Streiti, rufu þar þak á útihúsi og stálu fiski og kjöti. Jón stóð álengdar en tók ekki þátt vegna sjúkleika og máttleysis. Vildi hann fara heim að bæ og leita þar hjálpar. En félagar hans vantreystu honum og tóku hann aftur með sér upp í klettana í Naphorninu, þar sem þeir lágu fyrir næstu daga. Jón fór þar úr öllum fötunum og fór að leit á sér lúsa. Það, og vegna þess hvað hann var orðin veikur og vælgjarn, virðist hafa orðið til þess að Eiríkur stekkur að honum, kannski í bræðikasti, hefur hann undir, sker úr honum tunguna og stingur hann síðan með hnífnum í brjóstið. Gunnsteinn segist hafa látið sem hann svæfi og ekki hafa séð svo gjörla hvað fram hafi farið á milli þeirra Eiríks og Jóns. En þarna var samt enn óljóst hvort Jón var lífs eða liðin, þegar þeir félagar yfirgáfu hann eftir að hafa hent fötum hans yfir hann.

Héldu þeir Eiríkur og Gunnsteinn síðan af stað inn Berufjörð og fengu sig ferjaða yfir fjörðinn við þiljuvelli. Segir lítið af ferðum þeirra fyrr en suður í Álftafirði, þar sem þeir voru fljótlega handteknir vegna suðaþjófnaðar á Melrakkanesi. Á Geithellum, þann 12. Júní, dæmir Jón Sveinson sýslumaður þá Eirík og Gunnstein til húðstrýkingar fyrir suðaþjófnað, en um þetta leiti hefur hann verið á ferð við Djúpavog eins og bréf hans til Stjórnarinnar í Kaupmannahöfn þann 10. júní ber með sér hér að ofan. Kannski hafa þeir tveir verið sakamennirnir sem hann telur í bréfinu að verði að dæma til Brimarhólmsvistar en endirinn á verið húðstrýking þar sem engir hestar hafi verið tiltækir til flutninga á föngum.

Þegar það svo fréttist í Breiðdal að þeir félagar hafi verið handteknir í Álftafirði vekur það undrun að Jón skuli ekki hafa verið með þeim. Gunnsteinn sagði frá því í Álftafirði að Jón hafi verið með þeim í upphafi útilegunnar en þeir hafi skilið við hann á milli Streitis og Núps þar sem hann hafði viljað leita sér hjápar vegna lasleika. Þegar Gunnsteinn kom svo aftur í Breiðdal að áliðnu sumri játaði hann fyrir séra Gísla í Eydölum og Höskuldi hreppstjóra á Þverhamri, hvar lík Jóns myndi vera að finna. Voru tveir menn á Streiti fengnir með þeim Gísla, Höskuldi og Gunnsteini til að sækja líkið eftir leiðsögn Gunnsteins. Aðkoman var ekki geðsleg, líkið var kvikt af maðki og lyktin óbærileg. Samt báru þeir það niður úr illfærum klettunum og létu það í stokk sem þeir höfðu haft meðferðis. En ekki fóru þeir með líkið strax heim að Streiti vegna myrkurs, og dróst það í tvær vikur að vitja um stokkinn. Þegar það var svo loksins gert var ekki lengur hægt að sjá neina áverka á líkinu, því maðkurinn hafði ekkert annað skilið eftir en beinin og sinarnar sem tengdu þau saman.

Eskifjörður

Eskifjörður

Samt sem áður gekkst Eiríkur við verknaðnum eftir að Gunnsteinn hafði greint frá viðskiptum þeirra Jóns. Þeir félagar voru þá fluttir til Eskifjarðar þar sem Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga fékk málið til frekari meðferðar. Að rannsókn lokinni dæmdi sýslumaður Eirík til dauða sem morðingja, en Gunnsteinn í ævilanga þrælkun sem vitorðsmann. Þar til dómur yrði staðfestur átti að geyma þá í dýflissu sýslumanns á Eskifirði. Með þeim þar í haldi var Sigurður Jónsson 18 ára unglingur úr Mjóafirði, sagður ólæs og skrifandi, sem hafði náðst á flakki og verið dæmdur vegna þjófnaðar í Helgustaðahreppi.

Þessi ungi Mjófirðingur er ekki talin hafa verið neinn venjulegur þjófur eða hreppsómagi, því þjóðsagan telur hann hafa legið úti í nokkur ár, og skýrir það kannski hvers vegna hann var fangelsaður með þeim Eiríki og Gunnsteini en ekki hýddur og sendur heim í sína sveit. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar má lesa þetta um Sigurð; „gjörðist hann útileguþjófur og hafðist við í ýmsum stöðum í Suðurfjarðafjöllum, helst þó í kringum Reyðarfjörð; var oft reynt að höndla hann, en varð ekki, því þó að vart yrði við bústað hans í einhverjum stað og þar ætti að grípa hann, þá var hann allur í burt er þangað kom, en víða fundust hans menjar; til að mynda í skútum þar í fjalli einu sem kölluð eru Glámsaugu fundust átján kindagærur, enda var haldið að hann hefði þar dvalið einna lengst. En er hann hafði haldið þessu tvö eða þrjú ár kom harður vetur og varð hann þá bjargþrota og orðinn mjög klæðlaus, leitaði því ofan til byggða og fór að stela sjófangi út hjöllum þeirra Reyðfirðinga; og þá gátu þeir tekið hann og færðu hann fanginn til sýslumanns,,,“ Þeir þremenningar struku úr dýflissunni eina nóvember nótt, og stálu sér til matar frá sýslumanni. Félagarnir lögðu svo af stað í glórulausum hríðarbyl, daginn eftir voru þeir handteknir úti í Helgustaðahreppi eftir að bóndinn í Sigmundarhúsum hafði orðið þeirra var í útihúsum og boðið þeim heim með sér í mat um morguninn, en lét senda skilaboð til Jóns sýslumanns í laumi.

Eftir þetta voru þeir fluttir á nýjan stað, til vetursetu í byrgi sem sýslumaður lét gera við bæinn Borgir sem var sunnan Eskifjarðarár gegnt Eskifjarðarbænum. Fangageymslan var lítið annað en hola þar sem var hægt að láta mati niður um gat í þakinu. Þar tókst ekki betur til en svo að þeir Gunnsteinn og Sigurður dóu báðir úr hungri, en Eiríkur var þeirra hraustastur og át þann mat sem kom í byrgið. Talið er að hann hafi setið við gatið, þegar von var matar og félagar hans aðeins fengið naumar leifar þess sem hann ekki át. Sagt var að sýslumannsfrúin hafi séð um matarskammtinn og var haft eftir Eiríki að svo naumt hafi frúin skammtað, að maturinn hefði rétt dugað handa sér einum.

Fremur hljótt var um þennan atburð og sýslumaður var í slæmum málum vegna þessa, er jafnvel talið að hann hafi látið dysja hina horföllnu fanga með leynd undir steini skammt frá byrginu um leið og uppgötvaðist hve slysalega hafði tekist til við fangavörsluna. Þjóðsagan segir vandræði sýslumanns hafa verið mikil vegna þessa hungurmorðs: „En eftir það brá svo við að Sigurður fór að ásækja sýslumann á nóttunni svo hann gat ekki sofið. Var þá tekið það ráð sem algengt var við þá er menn hugðu mundu aftur ganga, að lík Sigurðar var tekið og pjakkað af höfuðið með páli og gengu svo sýslumaður og kona hans milli bols og höfuðs á honum og höfuðið að því búnu sett við þjóin – og bar ekki á Sigurði eftir það.“ Sagt er að skriða úr Hólmatindinum hafi rótað ofan af beinagrindum þeirra Sigurðar og Gunnsteins á 19. öld og hafi mátt sjá þar tvær hauskúpur og mannabein á stangli, liggja fyrir hunda og manna fótum allt fram undir 1940.

Um sumarið (18. júlí 1785) var kallaður saman héraðsdómur til að staðfesta dóm sýslumanns yfir Eiríki, var þar staðfest að Eiríkur skildi klipinn fimm sinnum með glóandi töngum á leið á aftökustað, þá handarhöggvinn og síðan hálshöggvinn. Hönd og höfuð skildu sett á stjaka, öðrum vandræða mönnum til eftirminnilegrar aðvörunar. Að réttum landslögum hefði Eiríkur átt að koma fyrir Öxarárþing til að staðfesta dóminn. En þar sem kostnaður sýslumanns af föngunum var nánast allar tekjur hans af sýslunni fékk hann því breytt og dómurinn var staðfestur heima í héraði, enda tvísýnt að nothæfir hestar hefðu fengist til að flytja fanga þvert yfir landið. En þetta var þó gert með þeirri viðbót að aftakan mætti ekki fara fram fyrr en fyrir lægi konungleg tilskipun. Þann 20. janúar 1786 staðfesti konungurinn í Kristjánsborg dóminn endanlega með þeirri mildun að Eiríkur yrði ekki klipinn með glóandi töngum en dómurinn skildi standa að öðru leiti. Svo virðist sem sýslumaður hafi ekki fengið tilkynningu um úrskurð konungs fyrr en undir haust og virðist því sem sýslumaður hafi setið uppi með Eirík ári lengur en hann hugðist gera með því að óska eftir að dómurinn yrði staðfestur í héraði.

Þann 30. september 1786 var Eiríkur Þorláksson tekin af lífi á Mjóeyri við Eskifjörð þá 23 ára gamall. Erfiðlega hafði gengið að fá mann í böðulsverkið, en seint og um síðir hafði verið fenginn maður að nafni Björn frá Tandrastöðum í Norðfirði og fékk hann 4 ríkisdali og 48 skildinga að launum. Hann var kallaður eftir þetta Björn Tandri eða Karkur, sagður hrikalegur á velli og hranalegur í orði. Eftir munnmælum var hann búinn að drekka talsvert áður en embættisverkið hófst. Eins segja sumar sagnir að það hafi verið eldhús saxið í Eskifjarðarbænum sem notað var til aftökunnar. Björn Tandri lagðist í flakk síðari hluta ævi sinnar og eiga börn að hafa verið hrædd við hann því að sú saga fylgdi honum að hann hefði drepið mann, enda síðasti böðullinn á Austurlandi.

Fátt er til í opinberum plöggum um aftökuna sjálfa, eða hversu fjölmennt þar var. Til siðs var að viðstaddir væru aftökur á Íslandi annað hvort biskup eða prestur, séra Jón Högnason á Hólmum við Reyðarfjörð uppfyllti þetta ákvæði og var þar allavega viðstaddur ásamt Jóni Sveinssyni sýslumanni. Varla þarf að efast um að hönd Eiríks og höfuð hafa verið fest á stangir til sýnis að aftökunni lokinni almenningi til viðvörunar. Sýslumaður hafði sett mann sem umsjónarmann verksins sem hét Oddur, og var sagður hreppstjóri frá Krossanesi við Reyðarfjörð.

Til er handrit eftir Einþór Stefánsson frá Mýrum í Skriðdal sem hann skráði niður eftir munnmælasögum um atburði þessa. Þó svo margt í þeim sögum sé ekki samkvæmt því sem fram kemur í opinberum heimildum hvað sum nöfn og atburði varðar, er þó greinilegt við hvað er átt. En í handriti Einþórs stendur þetta um það sem gerðist Eskifirði þennan haustdag.

IMG_4730

Mjóeyri

Hófst nú Oddur handa um undirbúning aftökunnar. Skyldi hún fara fram á Mjóeyri við Eskifjörð. Böðull sýslumanns var til kvaddur, en hann færðist undan að vinna á Eiríki og kvað sig skorta hug til þess. Böðull þessi nefndist Bergþór og bjó á Bleiksá, býli við Eskifjörð. Þorsteinn hét maður úr Norðfirði, er hafði flakkað víða og var nokkuð við aldur, er þetta gerðist. Bauð hann sýslumanni að vinna böðulsverkið, og var það boð þegið. Öxi var fengin að láni hjá kaupmanni á Eskifirði.

Þegar lokið var öllum undirbúningi aftökunnar, fór Oddur hreppstjóri með tilkvadda menn að Borgum til að sækja fangann. Voru þeir allir mjög við vín. Er þangað kom, sat Eiríkur í fangelsinu og uggði ekki að sér, enda hafði honum ekki verið birtur dómurinn. Lét Oddur binda hendur hans, kvað hann eiga að skipta um verustað og lét gefa honum vín. Hresstist þá Eiríkur og varð brátt kátur mjög; þótti honum sem sinn hagur mundi nú fara batnandi. Var svo haldið af stað áleiðis til Mjóeyrar, en það er æðispöl að fara.

Gekk ferðin greitt, uns komið var í svonefnda Mjóeyrarvík. Þá mun Eirík hafa farið að gruna margt, enda hefur hann líklega séð viðbúnaðinn á Mjóeyri og menn þá, er þar biðu. Sleit hann sig þá lausan og tók á rás, en Oddur og menn hans náðu honum þegar í stað. Beittu þeir hann harðneskju og hrintu honum áleiðis til aftökustaðarins. Eggjaði Oddur menn sína með þessum orðum: „Látum þann djöful hlýða oss og landslögum.”

Var Eiríkur síðan hrakinn út á eyrina, þar sem biðu hans höggstokkurinn og öxin. Allmargt manna var þar saman komið, meðal þeirra skipstjóri og einhverjir skipverja af dönsku kaupfari, sem lá á firðinum. Er Eiríkur var leiddur að höggstokknum, trylltist hann og bað sér lífs með miklum fjálgleik. En Oddur og menn hans létu hann kenna aflsmunar og lögðu hann á stokkinn. Eiríkur hafði hár mikið á höfði; tók Oddur þar í báðum höndum og hélt höfðinu niðri. Skipaði hann síðan Þorsteini úr Norðfirði að vinna sitt verk. Þorsteinn brá við hart, en svo illa tókst til, að fyrsta höggið kom á herðar Eiríki og sakaði hann lítt. Þá reið af annað höggið og hið þriðja, og enn var fanginn með lífsmarki.

Oddur hreppstjóri skipaði nú böðlinum að láta hér staðar numið, „eða hvað skal nú gera,” mælti hann, „samkvæmt lögum má ekki höggva oftar en þrisvar.” Þá gekk fram skipstjórinn danski, leit á fangann, sem var að dauða kominn, og skipaði að binda skyldi endi á kvalir hans án frekari tafar. Hjó þá Þorsteinn ótt og títt, og fór af höfuðið í sjöunda höggi. Skipstjórinn leit þá til Odds og mælti: „Drottinn einn veit, hvor ykkar hefur fremur átt þessa meðferð skilið, þú eða fanginn. Ef ég hefði ráðið, skyldir þú hafa fylgt honum eftir.” Lík Eiríks var síðan grafið á Mjóeyri.

Um þennan atburð varð til vísan;

Aftaka

Öxin sem Eiríkur var höggvin með er sögð hafa verið til í verslun á Eskifirði fram til 1925 og á að hafa verið notuð þar sem kjötöxi. Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland þann 30. desember 2015 urðu miklar skemmdir vegna sjávargangs á Eskifirði. Sjór braut þá á leiði Eiríks Þorlákssonar sem hefur verið á Mjóeyri allt frá því að þessir atburðir gerðust. Vitað var með vissu alla tíð hvar hann hvílir, þó svo að menn hafi talið sig þurft að staðfesta það með því að grafa í leiðið. Var það gert í upphafi 20. aldar að viðstöddum þáverandi héraðslækni á Eskifirði. Þá var komið niður á kassa úr óhefluðum borðum sem innhélt beinagrind af manni sem hefur verið meira en í meðallagi. Hauskúpa lá við hlið beinagrindarinnar og var hún með rautt alskegg.

Frásagnir af atburðum þessum bera það með sér að Eiríkur Þorláksson hefur verið hraustmenni sem komst lengur af en félagar hans, við ömurlegar aðstæður. Lokaorð Einars Braga rithöfundar, sem gerir þessum atburðum mun gleggri skil í I. bindi Eskju, eiga hér vel við sem lokaorð. „Hinn dauði hefur sinn dóm með sér. Við nútímamenn áfellumst ekki þessa ógæfusömu drengi. Kannski hefðu þeir við hliðhollar aðstæður allir orðið nýtir menn. En þeir urðu fórnarlömb grimmilegrar aldar, sem ekkert okkar mundi vilja lifa. Meinleg forlög sendu þá í þessa byggð til þess eins að þjást og deyja.“

IMG_4726

 Leiði Eiríks Þorlákssonar á Mjóeyri við Eskifjörð

 

 

Efnið í þessa frásögn er fengið úr; Öldin átjánda, Eskja I. bindi, Þjóðsögum Jóns Árnasonar, Landnámið fyrir landnám - eftir Árna Óla, handriti Einþórs Stefánssonar sem hefur birst víða og þætti Þórhalls Þorvaldssonar af síðustu aftökunni á Austurlandi.


Óupplýst morð við Hafnarnes

Þetta mátti lesa í Þjóðólfi 11. júlí 1878; Morðfréttir eystra. Um fardagaleytið fóru fjórir menn á, báti úr Fáskrúðsfirði til Djúpavogs að sækja veislukost ofl.; þeir tóku út vöruna og sneru 3 heimleiðis með bátnum en 1 varð eftir. Skömmu síðar kom inn á Djúpavog frönsk jakt og hafði með sér nefndan bát og nakin lík hinna þriggja manna, og höfðu þeir sýnst myrtir (kyrktir), og sést meiðsl á, þeim öllum. Allt annað sem í bátnum átti að vera, var horfið, er Frakkar skiluðu honum, höfðu þeir sagt, að einhver dugga hefði verið að leggja frá bátnum, er þeir sáu fyrst til hans, en ekki höfðu þeir getað séð nafn á því skipinu fyrir fokku sem hékk fyrir, og ekki kannast við, að það hefði verið franskt. Kaupmaður Weywadt á Berufirði hafði þegar sent orð hinu franska herskipi, er lá þar eystra, og hafði Þá þegar lagt af stað til að leita morðingjanna.

Viku seinna var þetta í Ísafold; Morðsagan af Austfjörðum, er hér hefur gengið staflaus um hríð og komist í Þjóðólf, er eintómur tilbúningur, eftir því sem frést hefur með öðru herskipinu frakkneska (Beaumanoir), sem nú er nýkomið að austan, enda var saga þessi í sjálfu sér næsta ósennileg (morðingjarnir t. d. Látnir skilja líkin nakin ertir í bátnum í stað þess að kasta þeim í sjóinn o.s.f.v.). Sannleikurinn er sá, að bátur með þrem mönnum úr Fáskrúðsfirði hefur farist í kaupstaðarferð til Eskifjarðar (ekki Berufjarðar), og fundu Frakkar á herskipinu bátinn með mönnunum dauðum rekinn við eyna Skrúðinn, og færðu þeir líkin, sem voru alklædd og ómeidd að öllu leyti að vottorði læknisins á skipinu, til hreppstjórans á Fáskrúðsfirði.

Hafnarnes

Hafnarnes um 1952, Andey og Skrúður fyrir fjarðarmynni (mynd;Þjóðminjasafnið - Guðni Þórðarson)

Við minni Fáskrúðsfjarðar að sunnanverðu er Hafnarnes, þar var þorp langt fram eftir 20. öldinni. Mestur mun fólksfjöldin hafa verið árið 1907 eða 105 manns. Hafnarnes byggðist um 1850 og er í landi Gvendarness sem var bær á milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Þetta þorp byggði afkomu sína á sjósókn og sjálfsþurftarbúskap. Stutt var að róa til fiskjar á fengsæl mið í álunum á milli Andeyjar og Skrúðs. Í Hafnarnes komu sjómenn víða að af landinu, jafnvel frá Færeyjum til að róa þaðan yfir sumartímann, aflinn var saltaður. Innan við tangann neðst á nesinu var höfnin og hefur þar verið steinsteyptur hafnarkantur sem nú er lítið eftir af annað en einstaka brot.

Fyrstu íbúarnir á Hafnarnesi vor Guðmundur Einarsson og Þuríður Einarsdóttir. Þau komu frá Gvendarnesi og Vík. Guðmundur var annálaður sjósóknari á austfjörðum og hraustmenni. Afkomendur Guðmundar og Þuríðar settust margir að á Hafnarnesi og byggðin óx hratt. Árið 1918 voru þar 12 íbúðarhús, og 1939 var Franski spítalinn, sem byggður var inn á Fáskrúðsfirði fyrir franska sjómenn árið 1900, rifin og fluttur út í Hafnarnes.

Þar breyttist hlutverk Franska spítalans í það að verða eitt fyrsta fjölbýlishúsið á Austurlandi, auk þess sem hann var notaður sem skóli. Þegar leið á 20. öldina tók byggðinni að hnigna og var svo komið árið 1973 að engin bjó lengur í Hafnarnesi. Stærsta kennileiti byggðarinnar, Franski spítalinn, var svo fluttur þaðan aftur inn á Fáskrúðsfjörð 2010. Þar þjónar hann nú sem Fosshótel og safn um sögu franskra sjómanna við Íslandsstrendur.

Á fyrstu áratugum byggðarinnar var mikið um að franskar fiskiskútur væru viðloðandi Fáskrúðsfjörð og höfðu þær bækistöðvar inn við þorpið Búðir í botni Fáskrúðsfjarðar þar sem nú kallast í daglegu tali Fáskrúðsfjörður. Þó svo að Fransmenn hafi yfirleitt komið vel fram við heimamenn gat kastast í kekki, og ekki er víst að Fransmenn hafi alltaf komið eins vel fram við Hafnarnesmenn eins og fólkið inn á Búðum þar sem þeir voru háðari því að fá þjónustu.

Minjavernd Franski spítalinn fra.pdf - Adobe Reader

Franskir sjómenn á Fáskrúðsfirði (mynd; Minjavernd)

Eitt sinn hafði Dugga legið við ból á Árnagerðisbótinni og ekki gengið að innheimta hafnartoll. Fór Þorsteinn hreppstjóri í Höfðahúsum ásamt Guðmundi í Hafnarnesi og hásetum hans um borð. Þeir voru snarráðir, ráku frönsku hásetana og lokuðu ofaní lest. Fóru svo með skipstjórann og stýrimanninn ofaní káetu og kröfðu þá um hafnargjöldin. Það stóð ekki á því að þau væru greidd þegar svo var komið. Það sama skipti fundu þeir í lest skútunnar mann, sem horfið hafði úr landi nokkru áður, bundinn og þjakaðan, en ómeiddan.

Annað sinn var Guðmundur ásamt áhöfn sinni að vitja um línu út í álunum, þar sem Fransmenn voru komnir að með færi sín flækt í lóðin. Guðmundur bað þá að gefa eftir og láta laus lóðin, en því sinntu þeir engu. Hann lét þá áhöfn sína róa meðfram duggunni og greip færin með annarri hendinni en skar á þau með hinni. Hafði til þess franska sleddu. Frönsku sjómennirnir urðu æfir og eltu bát þeirra Hafnarnesmanna en Guðmundur stýrði á grynningar og skildi þar með þeim. Þetta sýnir vel hversu óragur og skjótur til ákvarðana Guðmundur var.

Það voru Hafnarnes menn sem voru fréttaefni stórblaðanna í höfuðstaðnum þessa júlídaga 1878 þar sem metingur var um það hvað væri satt og rétt varðandi morðin sem frétts hafði af frá Austfjörðum. Það sannasta má sennilega finna í sagnaþáttum Vigfúsar Kristjánssonar en hann hefur gert rúmlega hundrað ára sögu Hafnarnesbyggðar hvað gleggst skil á prenti. Kristinn faðir Vigfúsar var sonur Guðmundar hins hrausta frumbyggja í Hafnarnesi og var 16 ára þegar atburðir þessir gerðust er rötuðu svona misvísandi í fréttir sunnanblaðanna.

Samkvæmt sagnaþáttum Vigfúsar er hið rétta að í maí 1878 fóru tveir bátar með mönnum úr Hafnarnesi í verslunarferð til Eskifjarðar. Guðmundur var formaður í öðrum sem á voru fjórir. Maður sem hét Friðrik Finnbogason formaður á hinum bátnum, sem á voru þrír menn. Fljótlega eftir að bátarnir  yfirgáfu Hafnarnes sigldu þeir fram hjá skútu, sem Friðrik vildi fara um borð í, en Guðmundur ekki í það skipti, og var talað um að heimsækja skútuna frekar í bakaleiðinni.

Þeir sinntu kaupstaðarerindum sínum á Eskifirði og fengu sér brennivín að þeim loknum. Vildi Friðrik að þeir færu heim strax um kvöldið. Guðmundur vildi láta heimferðin bíða morguns. Þegar bátur Guðmundar kom í Hafnarnesið daginn eftir voru Friðrik og félagar ókomnir. Farið var að leita og fannst báturinn á reki milli Andeyjar og Skrúðs og mennirnir í honum látnir. Öllu hafði verið stolið úr bátnum ekki skilin eftir ein laus spýta. Mennirnir voru bundnir við þófturnar, illa útleiknir, naktir, stungnir og kyrktir. Giskað var á að þeir hefðu ætlað um borð í skútuna á heimleiðinni, en hún var horfin af þeim miðum sem hún hafði verið daginn áður.

Í kirkjubókum Kolfreyjustaðar er sagt frá því að þessir menn hafi verið jarðsungnir þann 25. maí 1878; „Friðrik Finnbogason, 33 ára, frá Garðsá í Hafnarnesi, Þórður Einarsson, 22 ára, frá Gvendarnesi, Oddur Jónsson, 27 ára, sama staðar. Þeir fundust öreindir í báti milli Andeyjar og Skrúðs.“ Þar sem Vigfús Kristinsson getur þessa atburðar í saganaþáttum sínum um Hafnarnes telur hann fullvíst að mennirnir hafi verið myrtir og færir rök fyrir því sem ekki verða uppi höfð hér.

 

Ps. Hafnarnes hefur lengi heillað ferðamenn og má sjá þá þar með myndavélar á lofti árið um kring. Það er að verða fátt sem minnir á fyrri frægð eftir að helsta kennileitið Franski spítalinn var fluttur inn á Fáskrúðsfjörð. Á þessari síðu hefur áður birst mynda blogg um Hafnarnes, sjá hér. Einnig læt ég fljóta með nokkrar myndir hér fyrir neðan.

 

Sólarupprás

Nýi og gamli vitinn í Hafnarnesi við sólarupprás

 

Skrúður

 Skrúður

 

Kolfreyjustaður

 Kirkjan á Kolfreyjustað, Hafnarnes handan fjarðar

 

Nýbær

 Frá Hafnarnesi 2009

 

Franski spítalinn austur

 Franski spítalinn á Hafnarnesi 2009

 

FossEast-33

 Franski spítalinn orðinn að Fosshóteli á Fáskrúðsfirði


Viðsjálvert háskakvendi, eða fróm dandikvinna?

Augun

Augun eru eins og stampar,

í þeim sorgarvatnið skvampar,

ofan með nefi kippast kampar,

kjafturinn er eins og á dreka,

mér kemur til hugar kindin mín,

að koma þér niður hjá Leka.

Þannig segir sagan að guðsmaðurinn hafi kveðið vögguvísuna fyrir barnunga dóttur sína. Meir að segja greinir þjóðsagan svo frá að dótturinni hafi verið komið í læri hjá Leka þegar hún hafði aldur til, og hafi numið þar fjölkynngi. Hún varð síðar fræg þjóðsagnapersóna, gekk undir nafninu Galdra-Imba. Sigfús Sigfússon, hinn austfirski þjóðsagnaritari, segir Imbu hafa verið stórgerða og blandna (viðrjálverða, undirförula) en þó höfðingja í lund. Í þjóðsögum Sigfúsar eru margar frásagnir af göldrum hennar, enda um austfirska þjósagnapersónu að ræða og gott betur en það, eina af ættmæðrum austfirðinga.

Þjóðasagan segir að Imba hafi elt mann sinn austur á land, séra Árna Jónsson, eftir að hann hafði flúið hana. Þar hafi presturinn á Skorrastað gengist fram í því að bjarga kolleika sínum undan Imbu með því að sækja hann á báti til Loðmundafjarðar, flutt hann þaðan sjóleiðina á Norðfjörð. Þegar þeir voru staddir ásamt föruneyti á móts við Dalatanga gerði Imba þeim galdur, sendi þeim svo mikinn mótvind að þeim miðaði ekkert, auk þess sem það sóttu að þeim nokkrir hrafnar með járnklær. Þessu áttu guðsmennirnir mótleik við, með bæn á almættið, þannig að til varð lognrönd sem þeir gátu róið frá Dalatanga í Norðfjörð. Eftir að þeir komu á Skorrastað á Imba að hafa sent þeim fimm drauga en þeir prestarnir, ásamt Galdra-Rafni á Hreimsstöðum, eiga að hafa komið þeim fyrir þar sem síðan heitir Draugadý eða Djöfladý. Að endingu eiga þeir félagar að hafa forðað séra Árna á enska duggu sem flutti hann til Englands.

Margar þjóðsagnirnar af Imbu eru um samlindi þeirra mæðgnanna í Loðmundarfirði, Imbu og Þuríðar dóttur þeirra Árna. Samband þeirra á að hafa verið eldfimt og á Imba að hafa drepið tvo eiginmenn fyrir Þuríði með göldrum á meðan þær mæðgur bjuggu á Nesi í Loðmundarfirði. Þuríður tók við sem húsfreyja á Nesi, en Imba flutt sig um tíma inn á Seljamýri, næstu jörð innan við Nes. Síðar þegar Imba kemur aftur í Nes, eiga Þuríður og maður hennar, Guðmundur Oddson, að hafa komið Imbu fyrir í kofa við túnjaðarinn sem kallaður var Imbukvíar, vegna ósamlyndis Imbu og Guðmundar, sem endaði með því að Imba fyrirfór honum. Síðustu árin flutti Imba að Dallandi í Húsavík fyrir tilstilli dóttur sinnar, en þá jörð höfðu þau átt Þuríður og Guðmundur. Þar dvaldi Imba síðustu árin, eða þar til Þuríður kom henni fyrir kattarnef með eitruðu slátri, samkvæmt þjóðsögunni.

Nokkrar sögur eru til af Imbu þegar hún á að hafa búið að Hurðarbaki við Hreimsstaði í Hjaltastaðaþinghá en ekki er vitað hvort þær eiga að gerast á fyrstu árum hennar á Austurlandi eða síðar. Þó verður líklegt að teljast að þar hafi hún búið einhvern tíma á milli þess sem hún var í Loðmundarfirði og Húsavík, ef eitthvað er hægt að ráða í söguna af því þegar hún seldi smáfættu sauðina á Eskifirði og Þuríður dóttir hennar mætti henni með sauðareksturinn í Eyvindarárdölum og hafði á orði "smáfættir eru sauðir þínir móðir" en þeir reyndust vera mýs þegar Imba hafði fengið þá greidda.

En hver var Galdra-Imba? Á því hef ég haft áhuga frá því ég sá ættartölu afa míns og nafna fyrir rúmum 30 árum síðan. Því þjóðsagna persónan Ingibjörg Jónsdóttir (Galdra-Imba) var formóðir okkar nafnanna, eins og svo margra austfirðinga. Nú á dögum netsins er auðvelt að fletta Galdra-Imbu upp og fá um hana fleiri upplýsingar en finna má í þjóðsagnasöfnunum.

Ingibjörg Jónsdóttir mun hafa verið fædd árið 1630, dóttir ábúendanna á Þverá í Skagafirði, þeirra Helgu Erlendsdóttir, sem var prestdóttir, og séra Jóns Gunnarssonar prests í Hofstaðaþingum í Skagafirði og síðar á Tjörn í Svarfaðardal. Það rann því ómengað prestablóð um æðar Imbu. Litlar heimildir eru af uppvaxtarárum Ingibjargar aðrar en þær að hún á að hafa verið í læri hjá Leodegaríusi, sem mun hafa búið í Eyjafjarðarsýslu og var annað hvort enskur eða þýskur, almennt kallaður Leki. Allavega er ekki vitað til að íslendingur hafi borið þetta nafn. Eiginmaður Ingibjargar varð séra Árni Jónsson, fæddur sama ár og hún, prestsonur úr Svarfaðardal. Árni hafði gengið í Hólaskóla og verið í nokkur ár í læri hjá Gísla Magnússyni sýslumanni (Vísa-Gísla). Ingibjörg er sögð seinni kona Árna (samkv. einstaka heimildum) en fyrri kona hans hét Þórlaug og áttu þau 4 börn. Af því hjónabandi eru engar sagnir.

Árni var prestur í Viðvík árið 1658. Þuríður dóttir Árna og Ingibjargar er fædd 1660, en árið 1661 flytja þau í Fagranes, undir Tindastóli utan við Sauðárkrók, og eru þar presthjón í tólf ár. Árni verður svo prestur að Hofi á Skagaströnd árið 1673. Þau Ingibjörg eru sögð hafa eignast saman 5 börn, Þuríði, Jón, Margréti, Gísla og Gunnar. Athygli vekur að þrjú af elstu börnum þeirra eru sögð fædd 1660 þegar þau hjón standa á þrítugu. Gísli og Gunnar eru svo fæddir 1661 og 1664. Þegar þau eru að Hofi á Skagaströnd er Árni sakaður um galdur og málferlin gegn honum dómtekin árið 1679. Þeir sem sóttu að Árna voru ekki nein smámenni, því þar fóru fyrirmenni og lögréttumenn, sem höfðu undirbúið aðförina vel og vandlega eftir lögformlegum leiðum þess tíma. Strax vorið 1678 hafði prófasturinn í Húnavatnssýslu, séra Þorlákur Halldórsson, tilkynnt Gísla biskupi Þorlákssyni um galdraiðkun Árna. 

Séra Árni var að lokum kallaður fyrir prestastefnu að Spákonufell 5. maí 1679. Jón Egilsson lögréttumaður í Húnavatnssýslu bar það á Árna að hann hefði ónýtt fyrir sér kú og hafði 12 vitni sem svörðu fyrir að hann færi með rétt mál. Þegar Árni var spurður hvað hann hefði sér til varnar kvaðst hann engar varnir hafa aðrar en vitnisburð nokkurra góðra manna um kynni þeirra af sér, sem prestastefnan komst að niðurtöðu um að væru gagnslausar þar sem þær kæmu málinu ekki við.

Næstur sakaði Halldór Jónsson, einnig lögréttumaður Húnvetninga, Árna um "að djöfuls ásókn og ónáðun hafi á sitt heimili komið, með ógn og ofboði á sér og sínu heimilisfólki, að Gunnsteinsstöðum í Laugadal,,," og lagði fram vitnisburð 3 manna, sem höfðu staðfest þá á manntalsþingi í Bólstaðahlíð um vorið, og auk þessa lagði hann fram yfirlýsingu 21 manns um það, að Halldór "segi satt í sínum áburði upp á prestinn síra Árna". Árni kvaðst aðspurður engin gögn hafa gegn þessum áburði Halldórs en lýsti sig sem fyrr saklausan.

Þriðja ákærandinn, sem fram kom í réttinum, var bóndinn Ívar Ormsson. Hann kvað séra Árna vera valdan „að kvinnu sinnar, Ólafar Jónsdóttur, ósjálfræði, veikleika og vitfirringu," og vísaði hann um þetta til þingvitna, sem hefðu verið tekin og eiðfest þessu til sönnunar. Árni neitaði á sömu forsemdum og áður.

Fjórði og síðasti ákærandinn var Sigurður Jónsson ríkur bóndi í Skagafirði og lögréttumaður í Hegranesþingi. Lagði hann fram svohljóðandi ákæru á séra Árna: „Ég, Sigurður Jónsson eftir minni fremstu hyggju, lýsi því, að þú, Árni prestur Jónsson, sért valdur að þeirri neyð, kvöl og pínu, sem sonur minn, Jón, nú 10 vetra að aldri, hefur af þjáður verið, síðan fyrir næstumliðin jól, og nú til þessa tíma. Sömuleiðis lýsi ég þig valdan af vera þeirri veiki, kvöl og pínu, er dóttir mín, Þuríður, hefur af þjáðst, síðan fimmtudaginn í 3. viku góu. Held ég og hygg þú hafir þá neyð, kvöl og pínu mínum báðum áður nefndum börnum gjört eður gjöra látið með fullkominni galdrabrúkun eður öðrum óleyfilegum Djöfulsins meðulum. Segi ég og ber þig, Árni prestur Jónsson, að ofanskrifaðri hér nefndra minna barna kvöl valdan."

Lagði Sigurður svo fram vottaðan vitnisburð fjögurra hemilsmanna að hann hefði þrisvar sinnum synjað Árna bónar sem hann bað áður en veikindi barna hans hófust. Þessi veikindi þeirra hafi síðan "aukist, með kvölum og ofboði í ýmislegan máta", einkum ef guðsorð var lesið eða haft um hönd. Loks var þriðja ásökun Sigurðar á hendur Árna einkennileg. Hann hafði verið í fiskiróðri, lenti í hrakningum, og fékk erfiða lendingu "framar öðrum" sem róið höfðu þennan dag, svo að bátur hans hafði laskast. Þetta hafði skeð sama daginn og kona hans hafði synjað séra Árna bónar. Sannsögli sínu til staðfestu lagði lögréttumaðurinn fram vottorð frá Benedikt Halldórssyni sýslumanni í Hegranesþingi og fimmta lögréttumanns, auk fleiri frómra manna.

Þegar hér var komið snéri biskup sér að Árna og skoraði á hann að leggja fram málsbætur sér til varnar gegn áburði Sigurðar, en prestur kvaðst eins og áður, vera saklaus af öllum galdra áburði og engar vottfestar varnir hafa fram að færa, og myndi hlíta dómi stéttarbræðra sinna, hvort sem hann yrði harður eða vægur. Sumir hafa talið séra Árna hafa verið veikan á geði, jafnvel vitfirrtan, hvað þessa málsvörn varðar. En sennilegra er að hann hafi treyst á réttsýni kolleika sinna. Það þarf ekki að orðlengja það frekar, réttarhöld prestastefnunnar að Spákonufelli komust að þeirri niðurstöðu að séra Árni Jónsson skildi brenndur á báli. Árni átti þó einn möguleika á undankomu með svokölluðum tylftareiði, en það er eiður 12 málsmetandi manna um sakleysi hans á því sem á hann var borði. 

Árni virðist hafa ákveðið þegar í stað eftir dóminn að flýja austur á land, enda vandséð hverjir hefðu verið tilbúnir að sverja honum eið gegn þeim höfðingjum sem eftir lífi hans sóttust. Þjóðsagan segir að Árni hafi flúið einn, en aðrar sagnir segja að hann hafi farið með fjölskylduna alla og þau Ingibjörg hafi sett sig niður á Nesi við Loðmundarfjörð. Austurland hafði áður verið griðastaður þeirra sem sættu galdraofsóknum á Íslandi og er saga Jóns "lærða" Guðmundssonar um það eitt gleggsta dæmið. 

Sumarið 1680 var lýst eftir Árna sem óbótamanni á Alþingi. Lýsingin hljóðaði svo; „Lágur maður, herðamikill, dökkhærður, brúnasíður, dapureygður, svo sem teprandi augun, með ódjarfIegt yfirbragð, hraustlega útlimi, mundi vera um fimmtugsaldur". Þetta ár fer Árni til Englands, sennilega vegna þess að þar hafði bróðir hans, Þorsteinn, sest að og hefur hann sjálfsagt ætlað að leita ásjár hjá honum, en óvíst er hvort fundum bræðranna hefur borið saman. Hann á að hafa skrifað heim, því í Mælifellsannál er ömurlegum árum Árna í Englandi lýst með þessum orðum: "Árið eftir skrifaði séra Árni til Íslands og segist eiga örðugt að fá sér kost og klæði í Englandi, því það tíðkanlega erfiði sé sér ótamt, og andaðist hann þar ári síðar (þ.e.1861)."

Þegar þessar hörmungar dynja á presthjónunum á Hofi standa þau á fimmtugu og börnin eru fimm, öll innan við tvítugt. Það má ljóst vera að hjónin hafa verið dugmikil og hafa átt talsvert undir sér efnalega, því það hefur ekki verið heglum hent að taka sig upp, flytjast þvert yfir landið með stóra fjölskyldu, og koma upp nýju heimili. Hafi einhverjum dottið í hug að Árni hafi verið veikur á geði eða sýnt af sér heigulshátt þegar hann flúði til Englands, þá má benda á hvernig fór fyrir Stefáni Grímssyni, sem fór á bálið 1678, ári áður en Árni hlaut sinn dóm, gefið að sök að hafa borið glímustaf í skó sínum ásamt því að eyðileggja nit í kú. Var sérstaklega til þess tekið við þau réttarhöld að Stefán og Árni þekktust, enda málatilbúnaðurinn gegn Stefáni m.a, komin frá Jóni Egilssyni, sama lögréttumanni og fór fyrir máltilbúnaði á hendur Árna. Hver rótin var að aðförinni að séra Árna er ekki gott að geta til um, en ekki er ólíklegt að hún hafi verið fjárhagslegs eðlis.

Ingibjörg virðist hafa haft bolmagn til að koma sér og börnum sínum vel fyrir á Austurlandi og má því ætla að þau hjón hafi verið vel stæð þegar þau flýðu Norðurland. Þuríður dóttir hennar bjó á Nesi í Loðmundarfirði. "Haldin ekki síður göldrótt en móðir hennar", segir Espólín. "Þótti væn kona og kvenskörungur", segir Einar prófastur. Synir hennar voru Jón og Oddur, sá sem Galdra Imbu ætt er við kennd. Um þau Jón og Margréti er fátt vitað, bæði sögð fædd 1660 eins og Þuríður. Gísli varð bóndi í Geitavíkurhjáleigu, Borgarfirði. "Þótti undarlegur, fáskiptin og dulfróður", segir Einar prófastur. Þjóðsögur Sigfúsar greina frá Jóni "Geiti" Jónssyni sem var galdramaður í Geitavík og á að hafa verið sonarsonur Ingibjargar og Árna gæti þess vegna verið að þeir bræður Gísli og Jón hafi báðir alið manninn í Geitavík, því ekki er vitað til að Gísli hafi átt afkomendur. Gunnar varð prestur á Stafafelli í Lóni, síðar á Austari-Lyngum í V-Skaftfellssýslu. Gunnar var borinn galdri líkt og faðir hans, en bar það af sér með eiði 3. júní árið 1700. Hafði hann þá misst hempuna um tíma bæði vegna þessa og barneignar. Þegar hann hafði hreinsað sig af galdraáburðinum, var honum veitt uppreisn og voru honum veitt Meðallandsþing árið 1700.

Galdra orðið fylgdi Ingibjörgu og afkomendum út yfir gröf og dauða, og lifir enn í þjóðsögunni. Samt er ekki vitað til að Ingibjörg Jónsdóttir hafi nokkru sinni verið ákærð fyrir galdur og fáar þjóðsögur sem greinir frá göldrum hennar á Norðurlandi. Hún leitaðist samt við að hreinsa sig af galdraáburði líkt og sjá má í Alþingisbókum árið 1687. Þar er pistill; "Um frelsiseið Ingibjargar Jónsdóttur úr Múlaþingi. Var upp lesin erleg kynning þeirrar frómu og guðhræddu dandikvinnu Ingibjargar Jónsdóttur, sem henni hefur verið af mörgum góðum manni, bæði norðan og austan lands, út gefin um hennar erlegt framferði. Og eftir því að trúanlega er undirréttað af valdsmanninum Bessa Guðmundssyni, að hér nefnd kvinna beri þunga angursemi, sökum þess henni hafi ei leyft verið að ná frelsiseiði mót því galdraryktis hneykslunar aðkasti, er hún þykist merkt hafa viðvíkjandi fjölkýnngisrykti, þar fyrir, svo sem ráða má af hennar vitnisburða inntaki, að stór nauðsyn til dragi, samþykkja lögþingismenn, að velnefndur sýslumaðurinn Bessi Guðmundsson henni frelsiseiðsins unni, svo sem hann með góðra manna ráði og nauðsynlegu fortaki fyrirsetjandi verður." (Alþingisbækur Íslands, 1912-90: VIII, 154-55).

Dylgjurnar um galdrakukl Ingibjargar virðast ekki eiga sér aðra stoð í opinberum gögnum en í þeim frelsiseið sem hún fær tekin fyrir á Alþingi. Þá er Ingibjörg 57 ára gömul, ekki hef ég rekist á hversu gömul hún varð, og virðist frelsiseiður hennar vera síðustu opinberu heimildir um hana.

Þjóðsagan segir að þegar Galdra-Imba lá banaleguna, bað hún að taka kistil undan höfðalagi sínu og kasta honum í sjóinn, en lagði blátt bann við því að hann væri opnaður. Maður var sendur með hann og var lykillinn í skránni. Hann langaði mikið til þess að forvitnast um hvað væri í kistlinum, og gat ekki á sér setið, og lauk honum upp. En þá kom í ljós, að í honum var selshaus, sem geispaði ámátlega framan í manninn, sem þá varð hræddur og fleygði kistlinum í sjóinn eins fljótt og hann gat. Nokkru síðar dó maddaman.

Samkvæmt þjóðsögunum er því nokkuð ljóst að það hefur gustað af Ingibjörgu og afkomendum hennar á Austurlandi. Sigfús Sigfússon getur þess, að eftir að Imba var öll þá hafi Þuríður látið flytja hana frá Dallandi í Húsavík yfir á kirkjustaðinn Klippstað í Loðmundarfirði. Hann segir að gamlir menn hafi lengju vitað af leiði Galdra-Imbu með hellu ofan á, sem hún sagði fyrir um að þar skildi látin þegar hún andaðist. Sigfús endar galdraþátt sinn um Imbu á orðunum "Margt og myndarlegt fólk er komið af þeim mæðgum á Austurlandi".

 

Selshaus 2

 

Heimildir;

Þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússonar

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar

Íslendingabók

Prestasögur 4 / Oscar Clausen

Galdra-Imba / Indriði Helgason

Galdra-Imba / Wikipedia

Þjóðfræði 

Ps. þessi samantekt birtist hér á síðunni fyrir rúmu ári síðan.


Hvítramannaland - og hin mikla arfleið

Íslendingar hafa löngum verið stoltir af uppruna sínum, enda komnir af víkingum sem settust að í mörgum Evrópulöndum og hafa litað menningu þeirra allt til dagsins í dag. Eins eiga þessir fyrrum sægarpar, sem stimplaðir voru hryðjuverkamenn síns tíma, að hafa fundið Ameríku. En þegar spurt er hvort norrænir menn hafi numið þar land er fræðilega svarið nei, ef frá er talið Grænland. En þaðan hurfu norrænir menn með öllu á óútskírðan hátt skömmu eftir 1400. Hér á þessari síðu hefur í nokkur skipti verið velt vöngum yfir því hvað um Grænlendingana varð og þá hvort geti verið að þeir hafi haldið áfram stystu leið yfir hafið til að byggja Vínland eftir að lífskilyrði versnuðu á Grænlandi.

Til eru sagnir af Mandan indíánum sem voru sumir hverjir ljósir á hörund og jafnvel sagðir hafa verið bláeygðir. Svo vel vill til að skráðar heimildir eru til um þessa indíána N-Ameríku og nokkuð vitað um lifnaðarhætti þeirra, sem voru um margt sérstakir þegar frumbyggjar Ameríku eru annars vegar. Könnuðirnir Lewis og Clark dvöldu á meðal þeirra veturinn 1804-1805 í leiðangri sínum vestur yfir Klettafjöll á vegum Thomas Jeffersons.

Þar áður eru til heimildir um að Fransk-Kanadíski kaupmaðurinn Pierre Gautier de Varennes hafi átt samskipti við Mandan indíána, og þó það sé ekki skráð af honum sjálfum þá á hann að hafa rætt það við sænsk ættaða fræðimanninn, Pehr Kalm, að á slóðum Mandan við Missouri ána hafi hann fundið norrænan rúnastein. En þjóðflokkur þessi hafði fasta búsetu í bæjum sem byggðir voru úr torfi og grjóti á bökkum Missouri árinnar í miðvestur ríkjunum, aðallega í suður og norður Dakota.

Lögfræðingurinn, landkönnuðurinn og listmálarinn George Caitlin dvaldi hjá Mandan um tíma árið 1832 og málaði þá margar myndir af þessu fólki og hýbýlum þess. Caitlin lýsti Mandan sem ólíkum dæmigerðum frumbyggjum N-Ameríku, bæði í lífsháttum og vegna þess að 1/6 þeirra væri ljós á hörund með ljósblá augu.

Mandan indíánar voru síðan sameinaðir öðrum ættbálkum inn á verndarsvæðum, sem sífellt minnkuðu vegna ásóknar í land þeirra. Á 19. öld voru Mandan orðnir nokkur hundruð og lifðu innikróaðir ásamt Hidatsa og Arikara ættbálkunum en þar gengu þeir í gegnum "mislukkaða" bólusetningar áætlun stjórnvalda gegn bólusótt, sem því sem næst gjöreyddi þeim. Í dag er ekki talið að neinn Mandan sé uppi standandi sá síðasti hafi horfið af yfirborði jarðar árið 1971.

Þó svo sumir vilji meina að Mandan kunni að hafa haft norrænt víkingablóð í æðum eru aðrir sem vilja meina að um forna kelta hafi verið að ræða. Til eru sagnir um Walesbúann Morgan Jones sem féll í hendur indíána vestur af Virginíu 1660, sem ráðgerðu að drepa hann en þegar hann bað fyrir sér á gamalli gelísku sýndu þeir honum virðingu og var honum sleppt.

Miðað við hvernig mankynssagan greinir frá fundi Kólumbusar á Ameríku og því hvernig hún var numin í framhaldinu, eru það varla aðrir en illa skólaðir sveimhugar sem halda því fram að Ameríka hafi verið þekkt af Evrópumönnum og siglingarleiðin legið í nágreni við Íslandsstrendur árhundruðum fyrir Kólumbus.

Rithöfundurinn Árni Óla ritaði greinina Hvítramannaland fyrir mörgum áratugum síðan og voru skrif hans í besta falli metin sem hugarburður. En sjálfur dró Árni enga dul á að hann léti hugann reika á milli línanna í þeim heimildum sem íslendingasögurnar hafa að geyma um Vínland hið góða. Í grein sinni dregur hann fram menn á við Hrafn Hlymreksfara sem sigldi vestur um haf frá Írlandi og sagði sögur af íslenskum manni sem þar bjó sem talin er hafa verið Björn Breiðvíkingakappi. Eins segir hann frá Guðleifi úr Straumfirði sem til vesturheims kom og Ara Mássyni sem þar ílendist.

Þessir íslendingar tengdust allir Írlandi og Skosku eyjunum enda var Hvítramannaland einnig kallað Írland hið mikla. Hermann Pálsson, sem var prófessor í norrænum fræðum við Edinborgarháskóla, er á svipuðum slóðum og Árni Óla í grein Lesbókar Morgunnblaðsins 18. september 1999. En þar veltir hann fyrir sér Vínlands nafngiftinni og hvort hún hafi orðið til á undan Íslandi.

Árið 1492 greinir mankynsagan svo frá að Kristófer Columbus hafi uppgötvað Ameríku og upp úr því hefjist landnám fyrstu Evrópu mannanna fyrir vestan haf. Í kjölfarið hefjast einhverjir mestu þjóðflutningar sem um getur á sögulegum tíma. Það er ekki einungis að fólk frá löndum Evrópu flytjist yfir hafið, heldur hefst fljótlega flutningur á nauðugum Afríku búum sem notaðir voru sem þrælar á ekrum evrópsku hástéttarinnar í nýnuminni heimsálfu.

Af umfang þessara fólksflutninga mætti ætla að Ameríka hafi verið því sem næst óbyggð áður en Kólumbus uppgötvaði hana, í það minnsta strjálbýl. Á þessum tíma hafði kirkjan og hennar konungar sölsað undir sig mest allt landnæði í Evrópu. Græðgi þessara afla einskorðaðist ekki við Evrópu heldur hafði hún áður ásælst auðlindir Afríku og Asíu. Um 1490 var staðan sú að lokast hafði á ábatasöm viðskipti við Asíu og þar bjuggu menn yfir mætti til að hrinda af sér græðgi Evrópsks valds.

Síðari tíma athuganir benda til að Ameríka hafi alls ekki verið eins strjálbýl og sagan vill af láta, tugum milljónum innfæddra hafi verið rutt úr vegi. Giskað hefur verið á að í N-Ameríku einni hafi verið á milli 80-120 milljónir innfæddra um 1500. En talið er að sú tala hafi farið niður í 800 þúsund áður en yfir lauk og þeim sem eftir lifðu komið fyrir á einangruðum verndarsvæðum. Eins bendir margt til þess að búseta Evrópu manna hafi hafist mörgum öldum fyrr í N-Ameríku og hafa margir fornleifafundir rennt stoðum undir þá tilgátu. Virðist sem fyrri tíma landnemar frá Evrópu hafi búið í meiri sátt við aðra íbúa álfunnar en síðar varð.

Það má því næstum telja öruggt að það var ekki eins og mankynssagan greinir frá hvernig Ameríka var uppgötvuð og numin. Líklegra er að með opinberu sögunni sé reynt að fela spor þeirrar helfarar sem farin var til að eyða öðrum menningarheimi. Óopinber saga í Ameríku sé því meira ætt við galdrabrennur Evrópu, sem viðhafðar voru á hinum myrku miðöldum, þar sem Rómarvaldið fór fremst í flokki við að útrýma þeim menningarheimi sem ekki vildi undirgangast valdið, í nafni manngæsku. Það þarf því engum að koma á óvart að sagan segi að sá sem var fyrstur til að uppgötva Ameríku hafi borið nafnið Kristófer Columbus, nafn sem felur í sér merkinguna „kristniboði friðardúfunnar“.

Það er ekkert nýtt að friður sé út breiddur með manndrápum. Vestrænt vald hefur um langt skeið boðað frið í nafni frelsarans og hefur þótt sjálfsagt að framfylgja markmiðinu með vopnum þó það hafi kostað milljónir saklausra mannslífa. Því er áhugavert að skoða þær vísbendingar sem til eru um veru Evrópumanna í Ameríku fyrir innreið vestrænnar menningar. Þar eru þekktastar sagnir af ferðum víkinga upp úr árinu 1000. Eins eru skrásettar sagnir til af ferðum írska munksins St Brendan á árunum 5-600. Ekki er ólíklegt miðað við Íslendingasögurnar af ferðum víkinga, að norrænir menn hafi fengið vitneskjuna um löndin í vestri á Bretlandseyjum.

Þegar Ameríka er numin eftir Columbus voru Írar fluttir í stórum stíl til enskra landnema í valdatíð James konungs VI og Karls I, þessi "þrælaútflutningur" frá Írlandi heldur áfram undir veldi Cromwells. James VI er talin hafa 1625, á því eina ári, látið flytja út 30.000 Íra til Ameríku skilgreinda sem fanga. Síðan fóru konur og börn, sem seld voru í ánauð eftir að fjölskyldur höfðu flosnað upp vegna fátæktar þegar fyrirvinnuna vantaði.

Þegar Afríku fólk var flutt sem þrælar til Ameríku voru afrísku þrælarnir taldir fimmfalt verðmætari en þeir írsku og á þá að hafa verið um áratugaskeið blöndun á írskum konum og Afríkönskum karlmönnum, því afkomendur þræla yrðu ávalt þrælar. Þær aðferðir sem Spánverjar og Portúgalar notuðu til að tryggja sér vinnuafl þegar Ameríka var brotin undir vestrænt vald voru síst geðslegri.

Þessi pistlaruna hófst á "Uppruni Íslendinga - úlfar og arfleið" pistils sem má rekja til ábendingar frá vísindamanninum vini mínum, Jónasi Gunnlaugssyni bloggara. Þar var velt vöngum yfir bókinni "Hin mikla arfleið Íslands". Adam Rutherford telur í þeirri bók að Íslendingar muni „verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar". Ég gat mér þess til að það hefði gerst fyrir þúsund árum þegar víkingar vísuðu veginn vestur.

Fljótlega fóru þessir pistlar að snúast um hvort musterisriddarar hefðu einhverntíma komið  við á Íslandi með "gral" úr musteri Salómons. Án þess að það liggi í augum uppi þá eru fornbókmenntirnar "gral", sem alltaf hefur legið fyrir augunum á okkur, á það benti Valdimar Samúelsson bloggari á í einni af sínum áhugaverðu athugasemdum. Íslendingasögurnar eru ekki einungis okkar "gral" sem þjóðar, heldur má finna í sögunum vísbendingar af óopinberri útgáfu mankynssögunnar um tilurð heimsmyndar dagsins í dag, með heimsveldinu mikla í vestri.

Meðan á þessu sögugrúski mínu hefur staðið, hefur mér oft fundist ég heyra hvissandi ölduna klofna með skelli við kinnung knarrarinnar á leiðinni vestur. Jafnvel talið mig greina marrið í stagfestum siglutrésins og heyra kliðinn frá fólkinu í morgunnskímunni. Á meðan skipið skreið með segli þöndu hjá óþekktri strönd þar sjá mátti til nýs lands.

Vegferðina sem þessi pistlarunu greinir frá má rekja allt til níðingsverksins í Gíbeu og þeirra vangaveltna Adams Rutherfords um það hvort Íslendingar séu hreinasta afbrygði  ættkvíslar Benjamíns samkvæmt spádómsgeislanum úr píramídanum mikla í Gísa, og vegna einangrunar sinnar út í ballarhafi í gegnum aldirnar. Jafnframt þessu hef ég sett persónur pistlanna inn í Íslendingabók, og kannað hvort til þeirra liggja blóðbönd.

Þar hefur m.a. þetta komið fram; Hrollaugur Rögnvaldsson er forfaðir minn í 30. lið, sá sonur Rögnvaldar Mærajarls er nam Hornafjörð. Hans bróðir var Göngu-Hrólfur og er hann  forfaðir í 31. lið. Hrólfur gerði strandhögg í Normandí og var forfaðir Vilhjálms Bastarðar sem lagði undir sig England árið 1066, og er talin forfaðir ensku konungsættarinnar. Hin mikla arfleið Íslands, bók Rutherfords, hefst á því að gera grein fyrir þessum bræðrum.

Og af því Ómar ákvæðabloggari Geirsson hefur oftar en einu sinni komið inn á Svarta víkinginn í athugasemdum við þessa pistla, þá er sá svarti, Geirmundur heljarskinn Hjörsson forfaðir í 30. lið, sonur Hjörs Hálfssonar hersis á Hörðalandi og sonur Ljúfvinu konungsdóttur úr Bjarmalandi, sem á að hafa haft mongólskt blóð í æðum. En Bjarmaland lá suðaustur af Múrmansk í Rússlandi. Þó svo að ég hafa ekki gert grein fyrir þessum "ættgöfugasta" landnámsmanni Íslands, þá hefði hann verið eins pistils verður. Veldi hans, taldi höfundur Svarta víkingsins, hafa byggst á innfluttum írskum þrælum og viðskiptum við Dyflinni.

Egill Skalla-Grímsson er forfaðir í 29. lið, hann þarf varla að kynna fyrir nokkrum Íslending. Melkorka Mýrkjartansdóttir er formóðir í 29. lið sögð konungsdóttir frá Írlandi sem flutt var ánauðug til Íslands og um er getið í Laxdælu, hún var tilgreind til að staðfesta ættartengsla Íslendinga við keltneska drauga. Vínlandsfararnir Guðríður Þorbjarnardóttir og Þorfinnur karlsefni Þórðarson er forforeldrar í 26. lið. Björn Jórsalafari Einarsson og Sólveig Þorsteinsdóttir eru forforeldrar í 17. lið. Og sjálfur sagnamaðurinn mikli Snorri Sturluson forfaðir í 23. lið.

Nú mun einhver segja; “nei hættu nú alveg“, jafnvel koma til hugar þjóðremba, í það minnsta grillufang eins Fornleifur myndi orða það, sem stundum hefur laumað hér inn athugasemd. Ég á samt ekki von á öðru en að sá hinn sami myndi geta komist að svipaðri niðurstöðu með það að vera afkomandi Íslendingasagnanna, við það eitt að setja sjálfan sig inn í Íslendingabók. En kannski mun einhverjum koma til hugar að nú á tímum alþjóðavæddrar manngæsku sé það úreltur óþarfi, og í bókunum sé um að ræða rasisma og rökkursögur fyrir börn.

En þá er því til að dreifa að veruleikurinn er oftast lygilegri en sagan sem af honum er sögð. Einn skærasti sólargeislinn í mínu lífi er dóttur dóttir mín, hún Ævi, sem nú er eins árs og því að mestu óskrifað blað. Hún vaknar með bros á vör fyrir allar aldir hvern morgunn og á það oft til í morgunnsárið að dansa salsa og sumba. Mér finnst ég stundum greina í andliti sólargeislans svipmót indíána Mið-Ameríku, þeirra sem Trump vill reisa vegginn og gera „America Great Again“.

Jafnvel er ég ekki frá því að smá andblæs frá Afríku og glamurs frá „conquistadores“ Cortés-ar gæti líka í geislandi dansinum. En fjölskyldufaðirinn er hingað kominn frá Hondúras. Hvort Adam Rutherford hefði talið Ævi til hreinusta afbrygðis ættkvíslar Benjamíns, eins og hann taldi Íslendinga vera á fyrri hluta síðustu aldar, veit ég hreinlega ekki, og ætla að láta öðrum eftir að geta sér til um þá sögu.

Ég þakka þeim sem entust til að lesa þetta langt, og fyrir athugasemdirnar sem gáfu þessum pistlaskrifum líf.

 

Ps. pistlana má finna alla á stikunni Vesturfararnir hér til vinstri á síðunni. Þar koma þeir upp í öfugri tímaröð, en hér fyrir neðan í réttri.

1. Uppruni Íslendinga - úlfar og arfleið

2. Kölski og hin launhelga Landnáma

3. Draugar í silfri Egils

4. Duldar rúnir vestursins og sá heppni

5. Frá Vínlandi til fundar við Vatíkanið

6. Var Snorri Sturluson frímúrari, sem vísaði vestur?

7. Hvað varð um íslensku Grænlendingana?

8. Fyrirheitna landið

9. Hvítramannaland, og hin mikla arfleið


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband